Brendan Rodgers og taktíkin

Mér finnst stundum eins og umræðan um vinnubrögð Brendan Rodgers, og þá sérstaklega hinn svokallaða Tiki-taka leikstíl, sé á villigötum. Sumir virðast halda, ef marka má skrif þeirra á netinu, að fyrst Rodgers gat komið Swansea í efri hluta Úrvalsdeildarinnar með leikstíl sínum hljóti Liverpool að geta orðið meistaraefni, svo mikið geti hann bætt liðið. Aðrir virðast halda að leikstíllinn skipti litlu sem engu máli á meðan ekki eru keyptar stórstjörnur í allar stöður. Að mínu mati eru báðar skoðanirnar – öfgar í báðar áttir – á villigötum og sannleikurinn leynist þarna á milli. Að mínu mati getum við búist við að leikstíll Rodgers muni bæta liðið á endanum, án þess þó að geta einn og sér gert liðið að meistaraefnum. Einnig er það mitt mat að hver sú framför sem Rodgers er fær um muni taka tíma og því verðum við að sýna honum þolinmæði.

Áður en ég skoða aðeins sýn mína á Liverpool-liðið í dag og það sem Rodgers er að reyna að gera finnst mér rétt að koma með létt söguyfirlit um Tiki-taka, því í umræðunni finnst mér oft gleymast mjög stór þáttur sem verður að taka með í reikninginn þegar Tiki-taka-leikstíllinn er ræddur: hann var ekki fundinn upp í Barcelona.

Rinus Michels lék allan sinn feril með Ajax Amsterdam og varð þjálfari liðsins að loknum leikferli sínum. Hann þjálfaði liðið tvisvar, í annað sinn á árunum 1965-1971 og á þeim tíma urðu þeir fjórfaldir Hollandsmeistarar og komust tvisvar í úrslit Evrópukeppninnar. Besti leikmaður liðsins á þeim tíma var Johan Cruyff og þeir fóru saman, sem þjálfari og skærasta stjarna Evrópu, til Barcelona árið 1971.

Rinus Michels hefur oft verið kallaður maðurinn sem fann upp nútímafótbolta. Á þjálfaraárunum sínum þróaði hann leikstíl sem hann kallaði Total football, en sá leikstíll innihélt hluti sem höfðu ekki þekkst áður í fótbolta eins og rangstöðugildruna, þríhyrningasamleik og flæði á milli línanna þar sem allir aðrir voru enn að spila með varnarmenn í vörn, miðjumenn á miðju og sóknarmenn frammi. Eftir mikla velgengni með Ajax fór hann til Spánar og innleiddi Total football-stílinn þar með Cruyff við hlið sér. Þeir unnu spænsku deildina árið 1974 áður en Michels yfirgaf liðið til að taka við Hollandi, þar sem hann átti eftir að slá í gegn á HM 1974 með Total football og árið 1988 þjálfaði hann hollenska landsliðið til eina stórtitils síns til þessa.

Það sem kemur okkur mest við í dag er samt viðvera hans hjá Barcelona. Michels kom með Cruyff og Total football til Börsunga og breytti þar með sögu þess klúbbs til frambúðar. Katalónarnir urðu ástfangnir af Total football og Cruyff en innfæddir leikmenn eins og Carles Rexach heilluðust einnig af sýn Michels. Cruyff og Rexach áttu eftir að hafa stór áhrif í að tryggja að sýn Michels tæki fastar rætur í Katalóníu sem þjálfarar og starfsmenn félagsins.

Í sumar las ég bókina Barca: The Making of The Greatest Team In The World eftir Graham Hunter en hún fylgir í raun því ferli sem hófst með Cruyff og Rexach og náði hámarki í stjóratíð Pep Guardiola. Það sem menn kalla í dag Tiki-taka er í raun þróun Börsunga á Total football-stíl Rinus Michels. Það sem hófst í Hollandi fluttist með besta leikmanni þeirra og besta þjálfara yfir til Spánar þar sem það blandaðist suðrænum leikstíl Spánverja og skaut enn fastari rótum. Rúmlega þrjátíu árum síðar blómstraði undirbúningsvinnan endanlega þótt hún hafi á köflum skilað glæstum titlum og glæsilegri sögu fram að tíð Guardiola. Ég legg áherslu á þrjátíu árin af því að það er mikilvægt að menn átti sig á að Tiki-taka varð ekki til úr lausu lofti með tilkomu Guardiola sem þjálfara eða Xavi Hernandez sem leikstjórnanda.

Á þessum þrjátíu árum unnu Börsungar titla og jafnan voru hollensk áhrif nærri – Cruyff var þjálfari og Ronald Koemann fyrirliði þegar þeir unnu fyrsta Evróputitilinn ’92, Van Gaal þjálfaði hóp Hollendinga eins og De Boer-bræðurna, Philip Cocu, Marc Overmars, Michael Reiziger og Patrick Kluivert við góða velgengni undir lok árþúsundsins og hollenski þjálfarinn Frank Rijkaard braut á bak sex ára titlaleysi Barca þegar hann gerði þá að Spánar- og Evrópumeisturum á árunum 2005-2006. Þegar Cruyff var ekki þjálfari liðsins var hann nær alltaf annað hvort yfirmaður knattspyrnumála eða einn valdamesti aðilinn á bak við tjöldin og það er í raun tæplega fjörutíu ára vinna hans fyrir Barcelona sem skilar grunninum að því sem við erum að horfa upp á í dag.

Afganginn af sögunni þekkja allir. Barcelona-liðið hefur heillað heimsbyggðina síðustu fjögur ár með ótrúlegri sigurgöngu, knúið áfram af ótrúlega hárri prósentu heimalninga í aðalliði sínu. Leikmenn á borð við Messi, Xavi, Iniesta, Fabregas, Puyol, Pique, Valdes, Busquets, Pedro og fleiri sem hafa alist upp í kerfi Barcelona frá unga aldri og kunna og skilja leikstíl liðsins upp á hár. Þess vegna skila svona margir heimalningar sér í liðið hjá þeim – af því að þeir hafa verið að læra leikstíl aðalliðsins frá því að þeir voru tíu ára, eða yngri.

Þá víkur sögunni að Liverpool. Að mínu mati getum við talað um að samband Liverpool við spænska leikstílinn hafi hafist með ráðningu Rafa Benítez árið 2004. Rafa kom með spænska leikmenn með sér og kom sér hægt og bítandi upp liði sem spilaði ákveðið afbrigði af spænskri knattspyrnu. Rafa er enginn Tiki-taka-stjóri en eins og aðrir Spánverjar hefur hann að sjálfsögðu tileinkað sér ákveðin atriði úr þeirri knattspyrnu í gegnum tíðina. T.a.m. vann Luis Aragonés EM 2008 með spænska landsliðinu árið 2008 spilandi sitt tilbrigði af Barcelona-boltanum, og þá var Guardiola ekki einu sinni tekinn við Barcelona. Nú, fjórum árum síðar eru áhrif Guardiola og velgengni heimalninganna í Barca-liðinu sýnilegri í spænska landsliðinu en það er langt því frá að Barcelona sé eina tilbrigðið við Total football sem kemur frá Spáni. Rafa hafði sinn stíl sem, eins og hjá Michels, miðaðist af miklum taktískum aga, algerri stjórn á leikjum og áherslu á spil milli línanna.

Árið 2009 gekk Rafa enn lengra í átt að Tiki-taka þegar hann réði Rodolfo Borrell og Pep Segura frá Barcelona til að stýra varaliði Liverpool og Akademíunni. Hugsun Rafa var alþekkt á Spáni en minna þekkt í Englandi, það er að leikstíll aðalliðsins ætti að vera kenndur upp í gegnum yngri flokkanna þannig að þegar ungir leikmenn kæmu upp í aðalliðshópinn þyrftu þeir ekki að byrja á að læra nýjan leikstíl áður en þeir gætu látið til sín taka. Því miður fyrir Rafa komst þetta verkefni hans ekki lengra og hann var látinn hætta með liðið ári seinna, en þeir Borrell og Segura fengu (sem betur fer) að vera áfram.

Síðustu tvö árin má, núna með góðri yfirsýn, í raun kalla ranga beygju í þróun félagsins. Fyrst var það galin ráðning Roy Hodgson, sem vildi spila upp á gamla mátann (varnarmenn í vörn, miðjumenn á miðju, sóknarmenn frammi og Agger tekinn út úr liðinu fyrir að vilja spila miðvörðinn á óhefðbundnari hátt). Sú ráðning gekk gegn sex ára þróun liðsins í átt til Spánar og nánast núllstillti ferlið. Það sem bjargaðist frá sumrinu 2010 var sú staðreynd að Borrell og Segura fengu að vera áfram og því hefur spænska sýnin fengið að halda áfram óáreitt í yngri flokkum liðsins í gegnum umrót aðalliðsins síðustu tvo ár. Það að Borrell og Segura hafi fengið að vinna áfram óáreittir erum við þegar að sjá bera ávöxt í dag þegar við horfum á haug ungra leikmanna banka á dyr aðalliðsins í æfingaleikjum sumarsins.

Á eftir Hodgson var Dalglish ráðinn. Við vitum inn í hvaða aðstæður hann gekk og hvers vegna hann fékk að vera áfram í fyrravor en eftir á að hyggja var það heldur ekki í takt við störf Rafa, Borrell og Segura, og spænsku áhrifin, að ætla svo að notast við leikstíl Dalglish í aðalliðinu. Spænska aðferðin er að spila á milli línanna en Dalglish lagði áherslu á líkamlega sterkt og kraftmikið lið, öflugt vængspil og fyrirgjafir. Því miður fyrir hann (og okkur) gekk það ekki upp og hann yfirgaf liðið í vor. Við munum aldrei vita hvort hann hefði getað betur með liðið næsta tímabil heldur en Rodgers mun geta, hefði Dalglish fengið tíma til að halda áfram að innleiða sína stefnu, en við vitum hins vegar að með ráðningu Rodgers var undirbúningsvinna Rafa, Borrell og Segura aftur sett á rétta braut. Lykillinn er sá að unnið sé að sama leikstíl og sömu knattspyrnusýn frá unga aldri leikmanns og alveg upp í aðalliðið og eftir tveggja ára rof á þeirri vinnu getum við allavega glaðst yfir því að sú ákvörðun var tekin í vor að samræma sýnina frá tíu ára aldri til þrítugs á ný.

Þá víkur sögunni aðeins að Rodgers sjálfum. Stundum les maður umfjöllun um Rodgers, Liverpool eða Tiki taka þar sem því er nánast hent fram eins og einfaldri staðreynd að hann ætli að spila Barcelona-bolta með Liverpool. Það er fáránleg einföldun á hlutunum, eins og Rodgers hafi heimsótt Guardiola einu sinni eða séð leik á Camp Nou, stolið leikkerfabók Guardiola og ætli bara að kópera hana í Liverpool-borg. Fáránlegt.

Það er vert að minna á sögu Rodgers sem þjálfara, þó stutt sé: hann varð þjálfari hjá Reading aðeins 22 ára gamall, var svo hluti af þjálfarateymi Jose Mourinho hjá Chelsea, áður en hann tók við og stýrði Reading, Watford og loks Swansea sem knattspyrnustjóri. Á sínum yngri árum ferðaðist hann um Evrópu og heimsótti æfingasvæði félaga, ekki bara Barcelona heldur annarra liða á Spáni, Ítalíu, Hollandi og víðar. Hann heillaðist alltaf af spænska leikstílnum og hefur unnið að því að útfæra hann í starfi sínu á Englandi, með góðum árangri nú síðast hjá Swansea. Hann hefur tileinkað sér hluti víðs vegar að, lært mikið af Mourinho og menntun sinni í Evrópuheimsóknum og býr að reynslu sinni sem stjóri enskra liða. Þetta hrærir hann allt saman í sinn leikstíl, sitt afbrigði af Tiki-taka, og því er ótrúleg einföldun að tala um að hann ætli bara að láta Liverpool apa eftir Barcelona.

Orðum þetta svona: ef Guardiola hefði tekið við Liverpool í sumar, halda menn þá að hann hefði getað komið með nákvæmlega sömu hugmyndir og aðferðir og gert sömu hluti með Liverpool og hann gerði með Barcelona? Auðvitað ekki. Hann hefði þurft að læra á England og muninn á tveimur knattspyrnukúltúrum, hvað virkar og hvað ekki, hvað er hægt að færa á milli landa og hvað ekki. Rafa þurfti að aðlaga sínar aðferðir, Mourinho líka og svo framvegis. Það sem gerir Rodgers að sterkum kandídat fyrir Liverpool í sumar er það að hann hefur kynnt sér spænska leikstílinn og heimfært hann á veg sem virkar fyrir ensk lið. Hann sýndi það hjá Swansea.

Um hvað snýst svo Tiki-taka leikstíll Rodgers? Ef það væri auðvelt að útskýra hann í fáum orðum gæti hver sem er náð sama árangri og Guardiola hjá Barca eða Rodgers hjá Swansea. En í grunndráttum getum við sagt að Rodgers sé væntanlega að vinna með þessar áherslur á æfingasvæðinu í dag:

Stjórnum gangi leiksins. Það vakti athygli mína um helgina, í fyrsta æfingaleiknum undir stjórn Rodgers, að liðið var með boltann 75% leiksins. Swansea var meira með boltann í nær öllum leikjum undir stjórn Rodgers og á fjórum árum var Barcelona aldrei með undir 50% ‘possession’ undir stjórn Guardiola. Það er Tiki-taka. Það eitt og sér er ekki nóg en þetta er grunnurinn sem allt annað byggir á. Þannig var það hjá Michels og Cruyff og þannig er það hjá Rodgers. Ég tók einnig eftir því að hann sat rólegur á varamannabekknum mest allan leikinn og punktaði hluti hjá sér, en í tvígang sá ég hann stökkva upp af bekknum og hrópa eitthvað inná völlinn. Í bæði skiptin var það af því að miðjumaður – fyrst Spearing og svo Shelvey – hafði reynt Hollywood-bolta einhverja 20 metra fram völlinn. Í bæði skiptin var Rodgers mættur á hliðarlínuna og hrópaði sömu skilaboðin í bæði skiptin, auðheyrilega: “Keep possession!”

Pressa án bolta. Allir sem hafa æft knattspyrnu þekkja gamla, góða reitarboltann. Hann er grunnurinn að Tiki-taka, þessi leikur er kallaður ‘rondo’ á spænsku. Það sem allir vita er að með reitarbolta geta menn æft sig í að spila stuttar sendingar undir pressu á litlu, þröngu rými. Menn verða góðir í að senda bolta hratt sín á milli, finna þríhyrningasendingar og hugsa hratt undir pressu. En það sem færri gefa gaum er varnarhliðin. Það er jafn mikilvægt að æfa sig á því að vera „inní“ reitnum eins og að vera fyrir utan. Klassískt upplag reitarbolta er að fjórir leikmenn myndi kassa og inní honum séu tveir sem reyna að ná boltanum. Þessir tveir geta með samvinnu, réttri staðsetningu og pressu náð að loka á sendingarmöguleika hinna fjögurra, þótt þeir séu helmingi fleiri, og ná þannig að vinna boltann. Þetta er grundvallaratriði í Tiki-taka og ef þið viljið sjá svart á hvítu hverju þetta skilar skuluð þið bera saman hreyfingar t.d. Messi og Fabregas þegar þeir reyna að pressa öftustu varnarlínu andstæðinga og svo hreyfingar t.d. Andy Carroll og Stewart Downing við sömu iðju. Það er ekki tilviljun að eitt aðalsmerkja Barcelona sé hápressan og geta liðsins til að vinna boltann aftur nánast um leið og hann tapast. Rodgers lýsir þessu vel sjálfur: „Fyrst vinnum við boltann aftur, svo hvílum við okkur.“

Spil á milli línanna. Á meðan Dalglish og Hodgson vildu spila upp á gamla mátann, 4-4-2 eða 4-5-1 þar sem áherslan var lögð á kantspil, fyrirgjafir og föst leikatriði höfum við séð meginlandsþjálfara eins og Wenger, Mourinho og Benitez leggja áherslu á að lið spili flæðandi leikkerfi. Þannig spilar Rodgers líka. Þið munið sennilega aldrei sjá hann spila 4-4-2 leikkerfi. Oft hefur verið sagt að það skipti litlu máli hvernig liðsuppstillingar eru teiknaðar upp (er t.d. 4-3-3 ekki sama kerfi og 4-5-1?) en það skiptir máli þegar talað er um 4-4-2. Fjórir í vörn, fjórir á miðju, tveir frammi. Þrjár skýrt dregnar línur í sandinn og ef t.d. varnarmaður sækir fram á völlinn þarf miðjumaður að detta niður og „kóvera“ hans stöðu. Þetta er gamli skólinn, leikkerfi sem er fyrir löngu orðið útdautt hugtak á meginlandi Evrópu. Þar spila menn kannski afbrigði af 4-4-2 en sjaldnast eða aldrei þannig að um svo stífar línur sé að ræða eins og sést í enskri knattspyrnu.

Rodgers mun spila sitt afbrigði af 4-3-3, þótt auðvitað muni hann gera breytingar eftir því hvaða leikmenn hann hefur yfir að ráða og hverjir andstæðingarnir eru. Það er eðlilegt. Guardiola gerði líka breytingar á taktík sinni milli leikja, en leikstíllinn var alltaf sá sami. Messi reyndi alltaf að „týnast“ með því að ráfa úr framherjastöðunni þangað sem erfitt væri að elta hann. Hver á að dekka framherja sem kemur niður á miðju til að fá boltann? Hver á að stöðva Agger þegar hann tekur á rás upp völlinn með boltann? Hver á að dekka Lampard þegar hann mætir inná teiginn eins og framherji? Um það snýst fótbolti, að koma andstæðingunum í opna skjöldu og riðla varnarleik þeirra þannig að möguleikar opnist fyrir marktækifæri. Þegar lið er með boltann 75% leiksins og er þaulþjálfað í hlaupum, hreyfingum og stuttu spili sem miðast að því að búa til þessar holur á milli línanna er útkoman jafnan sú að það lið skapar sér marktækifæri.

Þannig sé ég stefnu Rodgers allavega. Það sem ég hef lesið mér til um og þekki til Total football Michels og Tiki-taka Börsunga, auk þess sem ég hef séð til Swansea, segir mér að við getum átt von á að liðið stjórni leikjum betur og haldi oftar hreinu en í fyrra, að liðið vinni boltann ofar á vellinum og pressi betur en undir stjórn Hodgson og Dalglish. Vonin er auðvitað sú að liðið spili skemmtilegri fótbolta, skori fleiri mörk og nái betri árangri en í fyrra en slíkt getur tekið tíma og því verða menn að sýna Rodgers þolinmæði. Börsungar blómstruðu ekki svona einn, tveir og þrír og Hollendingar ekki heldur á sínum tíma. Tiki-taka tekur tíma og þótt við getum gert kröfu um einhvers konar framfarir hjá Rodgers strax í haust er að mínu mati brjálæði að ætla að tala um titilbaráttu og mjög langsótt að vonast eftir Meistaradeildarsæti, bara ef styrkleiki liðanna fyrir ofan okkur er skoðaður.

Rodgers þarf tíma til að sjá hverjir af núverandi leikmönnum liðsins geta aðlagað sig að leikstíl sínum. Hann þarf tíma til að kaupa leikmenn sem henta leikstílnum. Hann þarf tíma til að koma sínum hugmyndum á framfæri og tromma þær svo rækilega í hausinn á leikmönnum að þeir geti framfylgt því af eðlisávísun frekar en hugsun. Þetta eru ekki atriði sem breytast á einni nóttu, eða einu sumri, og því er brjálæði að ætlast til að sjá eitthvað meira frá liðinu en vaxtarverki strax í ágúst. Ég mæli því með að menn andi rólega, hugsi jákvætt um þær breytingar sem nú standa yfir og lofi sjálfum sér að tryllast ekki þótt illa gangi í upphafi móts. Það er verið að miða liðið við lið eins og Barcelona sem tók þrjátíu ára mótun áður en það náði núverandi styrk, eða Manchester United sem hefur framfylgt sýn sama stjórans í rúmlega tvo áratugi, eða Manchester City og Chelsea sem eru að setja ný met á hverju sumri í leikmannaeyðslu.

Þetta tekur tíma. Vonandi geta menn gefið Rodgers þann tíma sem hann þarf, og ég vona að það sé auðveldara að sýna þolinmæði þegar menn vita aðeins betur hvað það er sem hann er að reyna að innleiða.

75 Comments

  1. Frábær grein.

    Vel skrifuð og mjög upplýsandi.

    Kærar þakkir

    YNWA

  2. Mikið hrós fyrir þessa grein,
    virkilega gaman að lesa hana og það sem betra er að hún var fræðandi.

    Takk

  3. Flottur pistill meistari Kristján Atli.

    Er reyndar ekki sammála þér í öllu, fannst t.d. Rafa ekki vinna nægilega vel út úr hápressunni á löngum köflum, vissulega var hann með misgóða leikmenn með sér, en hápressan hans er allt öðruvísi en sú sem við munum sjá hjá Rodgers. Rafa lét fjóra “hæstu” leikmennina hápressa og aðra fylgja. Lið Rodgers mun allt pressa og ég hef mun meiri áhyggjur af því hvernig Luis Suarez mun pressa en þeir tveir sem þú nefnir…
    Á sama hátt vildi Rafa klára sóknir sínar hratt og best virkaði okkar lið þegar samvinna Torres og Gerrard var upp á sitt besta.

    Leikstílar þeirra eru því að mínu mati ólíkir, ég t.d. er ekki viss um að vera glaður með það ef að langar sendingar eru bara tikkaðar út úr leik liðsins, er ekki búinn að gleyma Xabi Alonso sem hafði öll sendingavopn í pakkanum, það væri algerlega fáránlegt að vilja ekki fá leikmenn með slíka hæfileika til að vera í sínu liði er það ekki? Þess vegna er ég viss um að Rodgers mun aðlaga sína hugsun að leikmönnunum sem hann hefur í sínu liði.

    Það sem mest mun mæða á Rodgers verður þrennt held ég.

    Í fyrsta lagi. Hann á eftir að taka þátt í stórleik með stórliði og það er mikilvægt skref fyrir hann. Með allri virðingu fyrir Swansea þá mun einbeiting United, Chelsea, City, Arsenal, Spurs og Newcastle vera allt önnur gegn okkur og hann þarf að fara vel yfir þá leiki. Ég hef fulla trú á honum þarna, hann virkar einhvern veginn þannig karakter á mig.

    Í öðru lagi. Hann átti erfitt með að leika gegn liðum í fyrra sem byggðu á háloftaspyrnum og kraftafótbolta. Tapaði báðum leikjum gegn Everton örugglega, tvö jafntefli við Úlfana, sigur og tap gegn Stoke. Barca lenti á vegg hjá Chelsea og í vetur munu langfest liðin reyna að beita þessari aðferð á Liverpool. Leggjast aftarlega á völlinn og dúndra á trukkana frammi, svoleiðis var honum erfitt í fyrra og þarf að laga. Tiki taka á erfitt með slík lið, hollenska landsliðið á sínum tíma líka, það var ekki fyrr en Michels breytti áherslum þess liðs í átt að vængmönnum og í raun tveim senterum í Gullit og Van Basten að það lið vann titil. Barca lenti ekki bara á þessum vegg í Meistaradeildinni heldur líka heimafyrir. Mourinho varð meistari eftir að mörg lið horfðu til þess hvernig Real tók á Barca og þetta verður sú leið sem mörg liðanna velja. Þarna hlakka ég til að sjá og held að í leikjum við þessi lið verði gott að hafa líkamlega sterka leikmenn sem sumir halda að rúmist ekki lengur. Þetta verður forvitnilegt.

    Í þriðja lagi. Þolinmæðin sem Kristján talar um þarf að verða fyrir hendi. Það kom mér ekki á óvart í fyrstu ummælum við Torontoleikinn voru strax nokkrir sem skyldu ekki hvað við værum að hanga á boltanum svona varnarlega…venjumst því elskurnar, þessi posession Swansea var sko alls ekki á sóknarþriðjungnum aðallega, heldur á varnarþriðjungnum þaðan sem þeir völdu sér þær leiðir sem þeir vildu. Í dag eru allir glaðir, enda lítur Rodgers út fyrir að passa í hlutverkið og leikmennirnir lofsyngja hann. Við munum taka dýfu í vetur. Pottþétt!!! Jafnvel í fyrstu fimm leikjunum, ég mun ekki tapa legvatni þó við verðum í neðri hlutanum, því við erum að lenda í hunderfiðu prógrammi gegn kanónum í liðum og þjálfarahópi.

    Þarna liggur lykilatriðið. Rodgers og hans leikstíll hefur orðið fyrir vali FSG og nú þurfum við að standa með í því í gegnum sætt…..og súrt!

  4. “Rodgers þarf tíma til að sjá hverjir af núverandi leikmönnum liðsins geta aðlagað sig að leikstíl sínum. Hann þarf tíma til að kaupa leikmenn sem henta leikstílnum. Hann þarf tíma til að koma sínum hugmyndum á framfæri og tromma þær svo rækilega í hausinn á leikmönnum að þeir geti framfylgt því af eðlisávísun frekar en hugsun. Þetta eru ekki atriði sem breytast á einni nóttu, eða einu sumri, og því er brjálæði að ætlast til að sjá eitthvað meira frá liðinu en vaxtarverki strax í ágúst. Ég mæli því með að menn andi rólega, hugsi jákvætt um þær breytingar sem nú standa yfir og lofi sjálfum sér að tryllast ekki þótt illa gangi í upphafi móts. Það er verið að miða liðið við lið eins og Barcelona sem tók þrjátíu ára mótun áður en það náði núverandi styrk, eða Manchester United sem hefur framfylgt sýn sama stjórans í rúmlega tvo áratugi, eða Manchester City og Chelsea sem eru að setja ný met á hverju sumri í leikmannaeyðslu.

    Ég legg til að menn á borð við Viðar Skjóldal og fleiri skoðanabræður og systur lesi þessi málsgrein vandlega. Tími tími tími. Það er algjört lykilatriði að Brendan Rodgers er nýtekinn við taumunum hjá Liverpool og því er fráleitt að oftúlka kaupleysi gluggans fram að þessum degi. Sumir hafa gagnrýnt FSG en á hvaða grundvelli? Hingað til eru leikmannakaupin í ca. 40m punda í nettó eyðslu. 30 milljónir punda +- í fyrra og það sem er af júlí mánuði hefur Kuyt verið seldur fyrir 1 milljón, aðrir farið á free transfer eða því sem næst en Borini komið inn í staðinn á 10 milljónir +-. Jafnframt er búið að losa út launaháa leikmenn og tryggja rekstur klúbbsins og bla bla bla búið að margtyggja þessa sálma.

    Í fyrsta leik BR var Liverpool með hátt í 700 sendingar þar af 92% þeirra sem rötuðu á næsta mann og með 75% possession! Tveir til þrír leikmenn sem gætu talist byrjunarliðsmenn, restin var kjúklingar eða leikmenn sem jafnvel gætu verið á leiðinni frá klúbbnum. Hugsið ykkur þegar okkar bestu leikmenn eru komnir og búnir að æfa þennan fótbolta sem BR leggur upp með? Gæti trúað því að við sjáum amk einn leikmann bætast við í ágúst eða í mesta lagi þrjá. Það mun skýrast þegar æfingaferðinni er lokið og Rodgers búinn að fá góða yfirsýn á hópinn.

    Ég veit ekki með ykkur svartsýnisseggina en ég er allavega mjög bjartsýnn á framhaldið. Brendan Rodgers virkar ótrúlega vel á mig, grjótharður Íri sem lætur örugglega engan komast upp með neitt múður. Gefið manninum tíma til að klára þessa æfingaferð og restina af glugganum til að fara yfir hópinn og sjá svo hvaða menn detta inn.

  5. Sorry ég gríp svo hratt aftur hér inní …

    Flott innsýn í Rodgers. Hann mun lítið nota þá leikmenn sem komu til æfinga bara rétt núna í leikjum í túrnum. Þeir þurfa einfaldlega að læra meira um hans stíl og í betra formi.

    Svo talar hann aftur um það að Carroll sé ungur leikmaður og það sé alls ekki sanngjarnt að tala um að hann falli ekki inn í sinn leikstíl, Rodgers er kominn til Liverpool til að vinna leiki á þann hátt sem best virkar þar.

    http://www.lfctour.com/news/rodgers-it-s-tough-for-new-arrivals

    Ég er farinn að hafa meiri trú á því að hann ætli sér að þróa leikstílinn á næsta level, sem væri auðvitað draumurinn, ekki kópíera heldur skapa!

  6. Alveg farinn að sjá fyrir mér gagnrýnina á Liverpool á næsta ári hjá fjölmiðlum og óþreyjufullum stuðningsmönnum.
    Þeir verða sakaðir um að spila ekki nógu skemmtilegan sóknarbolta (Sbr. Spánverja gagnrýnin í sumar) og ekki nógu árangursríkan. Var það ekki Wenger í vetur sem fannst Swansea halda boltanum vel en ekki vera nógu ógnandi?
    Held það muni vera mikið þannig í vetur að við munum kannski vera með 50-70% possession án þess að vera að hlaða inn mörkunum og það mun pirra stuðningsmenn og vera skotmark fjölmiðla.
    Það mun taka sinn tíma að Liverpool verði einhver ógn í enska boltanum og það með þessum leikstíl, málið er að gefa Brendan sinn tíma í að móta liðið og styrkja það með sínum hætti.

  7. “en Dalglish lagði áherslu á líkamlega sterkt og kraftmikið lið, öflugt vængspil og fyrirgjafir.” what ???

  8. Frábær pistill, með þeim betri sem maður hefur lesið og er maður að lesa allt sem maður kemst í um liverpool og hvert stefnan er tekinn. Hvet skoðunarbræður og systur að taka rauða þráðinn í þessum pistli og taka það til sín sem þurfa, þolinmæði, þolinmæði, þolinmæði. Spennandi tímar og hugmyndir að gerjast á Anfield að mínu mati.

  9. Var að sjá að Liverpool var að ná sér í styrktaraðila voru að semja við Chvervolet sem að er bara gott mál. Verða víst mjög sýnilegir í kringum leikvanginn og verður opinber birfreið okkar mannaþ Patrekur Súni verður ánægður með þetta enda löngum verið hrifinn af þessum bifreiðum

    http://www.lfcismyreligion.com/lfc-sign-chevrolet-deal/

  10. Ekki svikinn af þessum lestri. Glæsilegur pistill frá þér Kristján Atli. Margt af þessu vissi ég, en sumt ekki. Ég vill árétta það að ég svona 100 sinnum meiri þolinmæði fyrir BR heldur en ég hafði fyrir roy. Auðvitað vona ég það besta, enda búin að styðja þetta yndislega félag alla mína ævi og mun áfram. Ég er samt hræddur um að ef BR ætlar bara að spila svokallað tiki-taka þá verði lið með svör við því og við auðlesnir. Það verður að hafa “plan B”, og þá með þeim leimönnum sem hafa aðra “varíanta” t.d Carrol.
    Ég vona að þegar Liverpool hefur leiktíðina í EPL þá verði BR búin að bæta við tveimur gæðaleikmönnum, því mig grunar að það verði tveir til þrír seldir/lánaðir.

    Takk fyrir pistilinn enn og aftur Kristján Atli. 🙂

    YNWA

  11. Algjörlega framúrskarandi pistill og góð einföld útskýring á hvers við megum vænta á næsta tímabili, eða kannski frekar búa okkur undir. Útiloka alls ekkert að liðið smelli fyrr en við búumst við en himin og jörð verða mjög líklega ennþá á sínum stað ef Liverpool hikstar eitthvað í byrjun tímabils.

    Flott skýring líka á því afhverju sl. ár hafa að mínu mati verið skref í ranga átt (sérstaklega Hodgson slysið) og hversvegna ég er mun spenntari fyrir næsta tímabili og bara kafla hjá Liverpool núna heldur en t.d. fyrir ári og hvað þá 2 árum. Höldum okkur við spænsku hugmyndafræðina (nútíma) frekar en gamaldags breskan fótbolta.

    Búum okkur líka undir að steingervingar í bresku pressunni fari aftur að syngja sinn söng á næstunni og gagnrýna allt við leik liðsins sem þeir skilja ekki, sá söngur hefur líkið heyrst undanfarin 2 ár.

    Hlakka til.

  12. Ég hef trú á Rodgers, þó ég sé ekki sáttur með framvindu okkar manna á leikmannamarkaðnum hingað til. Það er eflaust ekki BR að kenna og ætla ég ekki að eyða orðum í það hérna.

    Ég er hrifinn af þessari hugmyndafræði. Ég er hrifinn af því að leika skemmtilegan bolta, sérstaklega þegar við náum að sigra leikina í leiðinni.

    Það sem ég hef áhyggjur af er það að á síðasta tímabili var BR að stýra Swansea í deildinni. Þeir voru nýliðar og liðin sem þeir kepptu við ætluðust til þess að fá þrjú stig úr leikjunum við þá og ætluðu sér að sækja að marki þeirra. Það er virðingarvert hjá BR og Swansea hvernig þeim gekk í fyrra.

    En pointið í þessu öllu hjá mér er það, að þegar lið keppa gegn Liverpool, þá bakka liðin meira. Auðvitað munu City, United, Chelsea, Tottenham og Arsenal vera sóknarsinnuð, en þau verða mun passívari en gegn Swansea. Við erum jú Liverpool þrátt fyrir það að hafa verið með króníska ræpu undanfarin tímabil.

    BR mun lenda í því í vetur að lið leggja rútunni fyrir markið, tjalda á sínum vallarhelmingi og spila upp á skyndisóknir. Í því lenti hann ekki oft á síðasta tímabili.

    Það verður athyglisvert og spennandi að fylgjast með næsta tímabili, og hvernig Brendan Rodgers tekst að tækla þær aðstæður. Vonandi er hann með svör við þessu öllu.

  13. Maggi – ég reyndi að forðast að hrósa eða gagnrýna mönnum í þessum pistli. Fyrir utan það að ég gagnrýndi “hliðarspor” Liverpool sl. tvö ár frá stefnu Rafa/Borrell/Segura hélt ég í raun hrósi og gagnrýni utan við þetta. Rafa spilaði ekki sömu hávörn og Guardiola hjá Barca eða Rodgers mun gera en áherslan á hávörnina var samt til staðar, annað en hjá Hodgson og Dalglish.

    Guðmundur (#2) – Ungverska landsliðið á þessum tíma var frábært. Ég fjallaði ekkert um það hér af því að ég vildi einblína á tengingu Michels, Cruyff og Barcelona við Liverpool í gegnum Rafa og spænskan bolta. Að skrifa um Ungverjaland hefði verið útúrdúr frá því og þessi grein er nógu fjári löng fyrir. 🙂

    HeyJoe 270 (#19) – Mér finnast leikmannakaup Liverpool hingað til nokkuð skynsamleg, án þess að ég sé að missa mig í jákvæðni eða svartsýni. Þegar Rafa tók við eftir vonbrigðatímabil fékk hann Djibril Cissé inn en sá fótbrotnaði og svo skipti hann út Michael Owen og Danny Murphy fyrir “sína menn”, Xabi Alonso og Luis García. Þeir báru stóran þunga liðsins uppi í Meistaradeildarsigrinum vorið á eftir.

    Rodgers hefur verið skynsamur í að leita til leikmanna sem hann þekkir og/eða hefur unnið með áður og veit að geta hjálpað honum að bera leikstíl liðsins uppi á meðan aðrir aðlagast og læra á aðferðir hans. Hann reyndi við Gylfa, keypti Borini og nú er verið að slúðra um að hann sé við það að ganga frá kaupum á Joe Allen. Allt leikmenn sem hann þekkir og þekkja hann, leikmenn sem ættu að hjálpa honum að innleiða leikstíl hans hjá Liverpool. Ég veit að okkur langar öll í stóru nöfnin en þeir peningar virðast ekki vera fyrir hendi og í fjarveru stórútláta gæti Rodgers gert margt verra en að byrja innkaupin á Borini og Allen, að mínu mati.

  14. Frábær pistill og fræðandi. Takk fyrir.

    Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili og hef fulla trú á að liðinu eigi eftir að vegna vel, er reyndar alltaf bjartsýnn. Er ekkert að missa mig þó ekki sé búið að fjárfesta í einhverri stórstjörnu fyrir háa upphæð, finnst skynsamlegar að stjórinn skoði hvernig leikmenn liðsins funkeri í hans hugmyndafræði og versli svo í þær stöður sem þarf að styrkja. Eina sem ég vona er að hann selji ekki Carrol því ég fulla trú á honum og að hann eigi eftir að verða frábær leikmaður, ef ekki sem framherji þá bara að skella honum í vörnina.
    Bíð spenntur eftir að tímabilið hefjist.

  15. Frábær pistill, virkilega fræðandi, áhugaverður og skemmtilegur.

    Ég hef gríðarlega trú á Rodgers og hans hugmyndafræði og vona bara að eigendurnir muni bakka hann upp í leikmannamálum. Þetta snýst svo ekkert um mína þolinmæði, ég er tilbuin til þess að gefa þessu tíma ef eigendurnir bakka kallinn upp á leikmannamarkaðnum og það verða framfarir a liðinu en ég óttast að ef allt gengur á afturfótunum fyrstu mánuði seasonsins þá muni þolinmæði aðdáenda Liverpool td úti í Englandi verða snögg að hverfa.

    Prógrammið er virkilega erfitt í upphafi leiktíðar og maður vonar bara að okkar menn komist nokkuð vel frá því og liðið nái einu sinni góðu starti. Ég vil meina að það sem varð liðinu að falli í fyrra voru þessi jafntefli á heimavelli og svo sjálfstraust leikmanna var ekkert alla leiktíðina, menn byrjuðu á að skjóta í stöng og slá og klikka vítum á fyrsta mánuði leiktíðarinnar og höfðu eftir það enga trú á að þeir gætu yfir höfuð skorað mörk. Ég mun ekki anda í vetur fyrr en eg sé eitt skot fara i slá eða stöng og inn og afléta þeirri helvítis bölvun. Ef sjálfstraust leikmanna verður í lagi í upphafi leiktíðar, hlutirnir falla smá með okkur, við fáum 2 fína leikmen inní hópinn fyrir 1 september og leikmenn skilja og ná því fljotlega hvað Rodgers er aðreyna að gera þá verður þessu liði allir vegir færir…

    ég allavega get ekki beðið eftir ágúst mánuði og er búin að bíða síðan í maí eftir að sumrinu ljúki því ég hlakka svo til aðfara horfa á enska boltann aftur…

  16. Hvað er þetta langur pistill?

    Þetta er svoooooooooooooooooona langur pistill…

  17. Frábær samantekt hjá þér Kristján Atli, takk fyrir þetta. Eftir vonbrigði seinustu tímabila þá sér maður hvað stuðningsmenn Liverpool eru að verða örvæntingafullir, menn jafnvel farnir að óska eftir forríkum sugar daddy. Ég ætla að vera rólegur á næstunni og ég hvet aðra stuðningsmenn Liverpool til þess sama. Leyfum Brendan Rodgers að setja mark sitt á liðið áður en við förum að gagnrýna hann, fjandinn hafi það tímabilið er ekki einu sinni byrjað. Eins og menn hafa verið að koma inn á þá verður liðið ekki eins og Barcelona liðið eftir tvo leiki þannig að við skulum gefa Brendan Rodgers tíma og vera fegnir að hann ætlar að spila boltanum ekki hoofa honum Roy Hodgson style. YNWA

  18. Eitt af því sem Kristján Gleymdi kannski að ræða eru tengsl Brendan Rodgers við Van Gaal gegnum Mourinho þar sem hann var lærisveinn Van Gaal þegar var í Barcelona og þar með hafi tekið sitt afbrigði af því sem hann lærið frá Van Gaal og Barcelona.

    Svo talandi um Andy Carroll þá held þetta svar útloki að hann fari þetta sumar:

    “There is no doubt he is a terrific talent. There has been a lot of unfair criticism aimed towards Andy.
    “He is a player who can play in a number of styles and it was a wee bit unfair on him (for people) to say he couldn’t fit into the way I would want to play.
    “For me, your game is based on your players, the players you have. I am here to win games.

    Ef marka má Warner að Rodgers hafi lokaorðið hvort Andy fari eða verður kyrr.
    http://www.lfctour.com/news/rodgers-it-s-tough-for-new-arrivals

    Eitt af því sem verður áhugavert við næsta leik gegn Roma er við séum fara keppa við Lið sem Fengu Knattspyrnustjóra frá Barcelona Luis Enrique sem reyndi innleiða fótbolta Barcelona í Roma sem virkað ekki og var svo látinn fara að vissum nú að gera það sama og vonandi mun Rodgers hafa tíma og lukku með sér að hans afbrigði muni virka hjá Liverpool.

  19. Frábær pistill. Ég hef þó ekki áhyggjur á að liðið hangi mikið aftur með boltann og verði ekki mikið ógnandi fram á við. Ástæðan er Suarez. Nú ætla ég ekki að segja að Suarez sé einhver Messi en ég held að Suarez verði lykilinn í því að brjóta upp varnir andstæðinganna. Hann er okkar Messi. Spurningin er samt sú hversu öflugur hann er í pressu án bolta. Hann sýndi þó s.l. vetur að hann var oft ansi öflugur að setja andstæðinga sína undir pressu sbr. í jöfnunarmarkinu á móti Everton í undarúrslitum og svo gegn Norwich. Virðist geta hlaupið endalaust og er skruggu fljótur.

  20. Swansea búið að samþykkja 13,5m punda tilboð Liverpool í Joe Allen. http://fotbolti.net/fullStory.php?id=130336

    Held að þetta verði virkilega fín kaup. Það sem skiptir langmestu máli núna er ekki að kaupa stórstjörnur heldur að koma alvöru liðsanda og baráttu í Liverpool og trú á því að geta stjórnað og sigrað leiki. Við þurfum ekki endilega að kaupa stórstjörnur þegar við höfum Suarez, Gerrard, Reina, Lucas, Carroll, Joe Cole og Glen Johnson. Í viðbót eru stórlið orðuð við Skrtel og Agger. Þetta er þrátt fyrir allt mjög góður hópur sem vel er hægt að smíða í kringum. Er viss um að menn eins og Johnson og Cole geti komið á óvart í leikkerfi sem henti þeim betur og átt frábært season.

    Ef Carroll verður seldur þá fáum við stórt nafn í staðinn, svo verða Aquilani og Adam/Spearing pottþétt seldir eða bíttað til að fjármagna önnur kaup tel ég. Svo eru mjög spennandi strákar í varaliðinu að banka á dyrnar. Þetta lítur bara nokkuð vel út. Ef Gerrard verður sæmilega meiðslalaus og Leiva í toppformi tel ég 4.sætið eiga að vera lágmark það sem við stefnum á.

    Mestu skiptir að við spilum á ný skipulega eins og alvöru liðsheild og séum í góðu líkamlegu formi. Við erum ekki að fara vinna titilinn í ár en getum vel blandað okkur í baráttuna um 2-3.sæti ef við byrjum vel. Hópurinn er það góður tel ég ef við losum okkur við vissa miðjumenn og bætum kantana og meiri hraða í liðið.

  21. Swansea búið að samþykkja 13,5m punda tilboð Liverpool í Joe Allen. http://fotbolti.net/fullStory.php?id=130336

    Heimild: GOAL.COM!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    Eins langt frá því að vera áreiðanlegt og hægt er. En það virðist samt vera dagaspursmál hvenær þessi kaup klárast. Hins vegar sagði maður það sama um Gylfa Sig fyrir tveimur mánuðum…

  22. Tek undir með KAR, erum við ekki orðin nægjanlega sjóuð í að taka fréttum frá Goal.com ekki alvarlega? Echo fjallaði um þetta mál í kvöld þar sem þeir segja að áhugi Liverpool á Allen sé raunverulegur og búist sé við því að liðin nái samkomulagi en það sé ekkert í höfn ennþá og þeir koma einnig inn á að Tottenham sé til í að kaupa Allen, rétt eins og alla aðra sem Liverpool ætlar að kaupa.

    Fáum miklu betri heimildir en þetta, hlæjum að .net fyrir að setja goal.com frétt inn án viðvörunnar og höldum áfram að tala um efni pistilsins.

  23. Afsaggið! Sá ekki heimildina.

    Það virðist bara ekki hægt að treysta fotbolti.net lengur. Held samt að þessi kaup á Joe Allen fari að detta fljótlega inn. Adam eða einhver uppí væri fínn díll. Bara vonandi að við förum ekki eins og venjulega að borga eitthvað yfirverð í ætt við 15-16m punda. C.a. 12-13 er hæfilegt.

  24. Þetta er sennilega besti pistill sem hefur birst á þessari síðu.Ástæðan er sú að orðið þolinmæði kom fyrir nógu oft fram í honum.Við vitum hvað Rodgers þarf að gera meta hvaða leikmenn geta tileinkað sér þann leikstíl sem hann biður um losa sig við þá sem geta það ekki og kaupa inn þá sem geta það.Nú virðist ljóst að Joe Allen er að koma frá svönunum,þannig að einhverjir miðjumenn verða sendir á “bísann” mín ágiskun er Charlie Adam og “the Aquaman” þurfti svo sem engan einstein til að sjá það þá er það spurningin með Carrol og því miður að mínu mati þá ætlar Rodgers að losa sig við hann.Það þýðir samt ekki að ég treysti ekki stjóranum fyrir þessu hann verður að fylgja sinni sannfæringu og vonandi verðum við skælbrosandi eftir nokkur ár með ákvarðanatökur hans.

  25. P.s. afsakið svo að ég breyti um umræðuefni þessa stórgóða pistils. Ég hef kallað eftir því lengi að Liverpool finni sér sína eigin taktík og spilastíl sem hentar liðinu. Höfum lengi verið voða karakterslausir á velli sem lið og alltaf verið í að bregðast við því sem aðrir gera í stað þess að þröngva okkar stíl yfir á önnur lið. Gerrard, Carragher hafa reynt að þröngva sínu egói og baráttukarakter yfir á allt Liverpool liðið. En slíkt hefur bara ekki gengið því annar þeirra er ekki nógu góður leiðtogi að mínu mati og hinn mjög slakur tæknilega og stöðugt ruglað takt liðsins og útspil úr vörn með hroðalegum háloftasendingum.

    Þessvegna líst mér vel á þennan possession leikstíl Rodgers og mikla hreyfanleika án bolta sem ætti að henta vel gegn litlu liðunum sem okkur hefur gengið endalaust illa með. Þurfum að læra að bully-ast með smáliðin og láta þau hlaupa um á eftir boltanum eins og hauslausar hænur. Dass af hroka einfaldlega virkar í þessum enska kúltúr.
    Ef Gerrard fæst til að minnka Hollywood sendingarnar þá ætti hann og Leiva að geta náð frábærlega saman á miðjunni þegar þeir verða heilir. Gerrard er týpa sem þarf stöðugt að vera á ferðinni og vonandi sjáum við alveg endurnýjaðan fyrirliða Liverpool.
    Okkur sárvantar mikið hraða á köntunum í bland við mikla possession til að brjóta lið niður og mikið rosalega vona ég að það takist að lokka Theo Walcott til Liverpool. Hann myndi smellpassa inní þetta leikkerfi.

    Eitt líka við þetta leikkerfi er að það hentar vel til að gera Anfield að algerri heimavallargryfju á ný sem lið verða skíthrædd við að koma á. Það verður bara pressað stanslaust á Anfield með brjálaða aðdáendur á bakinu og andstæðingar okkar í stanslausum þreytandi eltingarleik við boltann. Við náðum okkar árangri á 8-9.áratugnum m.a. með að vera nær ósigrandi á Anfield. Liverpool er bara þannig lið að við þurfum sárlega á extra sterkum heimavelli að halda, sérstaklega núna þegar hin toppliðin eru langtum sterkari fjárhagslega en við í augnablikinu. Það er fátt sem getur stoppað heimsklassa leikmenn jafnvel andlega og lið sem leyfa andstæðingum ekkert að byggja upp spil og anda stanslaust ofan í hálsmálið á þeim.

    Rodgers mun reyna allt til að finna rétta grunn og láta þetta tiki-taka (er ég einn um að vera orðinn hrikalega þreyttur á þessu hugtaki?!) virka á Englandi, ná því besta útúr leikmannahópnum sem hann hefur og láta t.d. Carroll falla að þessum hraða leikstíl. Carroll getur verið mjög virkur frammi stöðugt að pirra varnarmenn og ýta útúr stöðum þó hann sé ansi hægur frammávið og oftast latur að koma sér strax í teiginn ef hann kemur niður tilbaka. Hann ætti að geta passað í þennan pressustíl verði hann ekki seldur og þjálfaður rétt.
    Ég vona líka að með þessum leikstíl og endurkomu Lucas Leiva geti Glen Johnson tekið meira þátt í sókninni og fái boltann oftar ofarlega á vellinum. Hann er ótrúlega lunkinn að þræða sig í gegnum lið sem verjast þröngt aftarlega og eru á sí hægara joggi við að fá lítið boltann. Held og vona að hann geti átt virkilega fína leiktíð.
    Sama á við um Downing, hann hefur skotkraft og sendingargetu til að gera hárnákvæma hluti fái hann tíma, pláss og sjálfstraust við að vera mikið í boltanum en ekki stöðugum hlaupum upp og niður kantinn. Hann gæti tekið uppá að sýna loksins afhverju við borguðum svona mikið fyrir hann. Það er ástæða fyrir að Wenger var mikið að spá í Downing fyrir 2-3 árum. Hann getur hentað mjög vel í svona possession football tel ég.
    Mestar áhyggjur hef ég af Skrtel og að hann verði ekki nærri jafngóður og í fyrra í þessu leikkerfi. Bara einhver tilfinning sem ég hef á mér.

  26. AEG nær að troða gagnrýni á Gerrard og Carra inní Tiki-Taka pistil. Spurning um að fletta því upp hvort hann hafi getað skrifað comment án þess að minnast á þá félaga, sem eru víst ástæða þess að LFC hefur ekki orðið meistari 9 sinnum á síðustu 10 árum.

    Þreytt, virkilega þreytt. Hvar var hann í sumar þegar hver stórstjarnan á fætur annarri talaði um og hrósaði leiðtogahæfileikum Gerrard. Menn eins og Viera og De Rossi, sem eru fremstir meðal jafningja og miklir leiðtogar báðir tveir og mætt Gerrard oftar en einu sinni og tvisvar á vellinum. Þeir hafa greinilega ekki sama innsæi og AEG á þetta.

    Maður sér þetta nefnilega mun betur heiman frá, úr sófanum heldur en við hliiná honum á vellinum. Það vita allir sem hafa spilað leikinn. Geisp.

  27. Þennan pistil og hluta af kommentunum er gott að eiga inni þar til ég get lagst flatur með rautt í glasi.

    Hlakka til.
    YNWA

  28. 37: Rólegur, ég átti við fréttina sjálfa. Neymar er ennþá bara efnilegur og þessvegna er frekar ruglað að það sé kominn “nýr Neymar”. Efast um að nokkur hafi misst af kaldhæðninni.

  29. Nú er verið að tala um að Tottenham ætli að gera okkur lífið leitt enn og aftur og séu að reyna að stela J Allen af okkur. Þeir eru greinilega að selja Modric og sjá J Allen sem arftaka hans. Ég neyta að trúa því að´þetta sé að fara að gerast aftur. Patrekur Súni sagði að Tottenham væru búnir að segja upp öllu njósnaraliðinu sínu og myndu bara sjá hvað við værum að gera

    http://football-talk.co.uk/66002/spurs-trying-to-hijack-liverpools-allen-move/

  30. Frábær grein

    Varðandi kaup Liverpool á Joe Allen. Menn tala um að nánast öruggt sé að einhver verði að hverfa á braut við komu hans. Þegar Lucas meiddist síðasta tímabil varð allt vitlaust yfir því að Dalglish skyldi ekki hafa keypt nýjan miðjumann í janúarglugganum til þess að fylla hans skarð. Eru þessi kaup á Joe Allen ekki að einhverju leyti hugsuð fyrir þá stöðu líka? Enda er hann mikill vinnuhestur.

    Auðvitað erum við vel mannaðir á miðjunni, en höfum þó ekki marga menn sem geta sinnt því hlutverki sem Lucas hefur skilað stórvel. Þess vegna finnst mér ekki endilega rökrétt að það þurfi margir miðjumenn að hverfa á braut. Auk þess kæmi ekkert á óvart að sjá uppstillingar í vetur með allt að fimm miðjumönnum og engum kantmönnum, enda áhersla lögð á að halda boltanum, en ekki keyra upp kantana eins og áður hefur komið fram. Í það minnsta höfum við séð lið Spánverja stilla upp liði með Busquets, Alonso, Xavi, Iniesta og Fabregas eða Silva þar sem enginn eiginlegur og fljótur kantmaður er til staðar og meiri ábyrgð á bakverðina að skapa breidd í sóknarspili.

    Við vitum að sjálfsögðu ekki nákvæmlega hvar áherslur Rodgers muni liggja, en það er að minnsta kosti ekkert sjálfgefið að vilji láta marga miðjumenn fara þó við virðumst vera yfirmannaðir þar og endilega ekkert líklegt, þó það sé ósk margra, að hann sé að leita að þessum fljóta kantmanni sem öllum finnst vanta.

  31. Frábær pistill að vanda frá Kristjáni Atla.

    Þótt maður beri enn smávægilegar áhyggjur í brjósti yfir framvindu mála þá er alveg hægt að líta svo á að þetta sé allt á réttri leið. Ég man t.d. ekki eftir því að launamál hefðu verið svona ofarlega á dagskránni á umræðuvefjum og eigendurnir virðast hafa mjög skýra og eðlilega stefnu í þeim málum. Það er líka eðlilegt að fækka senior-players sem eru á mjög háum launum, þótt ég hefði persónulega viljað halda Maxi Rodriguez til að sjá hvernig hann myndi fúnkera hjá Brendan Rodgers.

    Við getum líklega þakkað Rafa Benítez margt sem ekki sást þegar hann var við stjórnvölinn. Liverpool hefur líklegast verið of íhaldssamur klúbbur allt þar til Gerard Houllier tók við og núna virðast vera komnir eigendur sem horfa til langtímamarkmiða, og þá erum við vonandi að tala um markmið í takt við þau sem var rætt hér í síðustu pistlum, að ná að vinna deildarmeistaratitil en ekki “bara” að ná 4. sætinu. Og stjórnunarhættirnir eru nútímalegir, bæði hjá FSG og Rodgers. Það er augljóst að þeir leikmenn sem eru núna um tvítugt eru allt öðruvísi heldur en þeir sem voru um tvítugt fyrir 10 árum síðan, hvort sem horft er hingað heim (á þá sem væla undan því að vera gagnrýndir í pepsimörkunum) eða til Evrópu.

    Til að koma mér að efninu, þá er tiki-taka (eitt sinn var gert lag sem hét attack-attack-attack) vonandi framtíðartónlist Liverpool. Og þá er ég ekki að tala um að hanga á boltanum á eigin vallarhelmingi og tapa stigum á heimavelli með því móti, heldur hápressa og sækja á þunnskipaðar varnir andstæðinga. Downhliðin er sú sem hefur verið fjallað um hér að ofan, að halda boltanum á eigin vallarhelmingi er ekkert endilega fyrir lið sem ætlar að vinna leiki. Rodgers hefur talað um að það að halda boltanum sé líka til að halda hreinu því meðan okkar menn hafa boltann þá fá þeir ekki á sig mark. Þetta gæti orðið ansi leiðigjarnt langt frameftir tímabilinu þangað til liðið verður fært um að komast í gegnum varnir andstæðinganna á “öruggan” hátt, þ.e. menn treysta sér smátt og smátt í erfiðari aðstæður, undir meiri pressu því Rodgers vill ekki að menn komi sér í aðstæður þar sem þeir geta ekki sent á samherja og haldið bolta innan liðsins. En takk fyrir frábæran pistil.

  32. Mér líst vel á kaupin á Joe Allen þetta er toppleikmaður með þau gæði sem henta Liverpool að mínu mati. Við erum kannski komnir með aðeins og marga miðjumenn og ef einhver verður seldur til þess að losa um þá vona ég að það verði Spering.
    Á hvað síðu er hægt að horfa á leikinn í kvöld?

  33. Lfctv.com. Askrift kostar svona 1200kr. Faranlega godur pris fyrir all-access.

  34. “Spænska aðferðin er að spila á milli línanna en Dalglish lagði áherslu á líkamlega sterkt og kraftmikið lið, öflugt vængspil og fyrirgjafir”.

    Þessi fullyrðing er einfaldlega röng að mínu mati. Dalglish lagði mikla áherslu á að liðið héldi boltanu enda var liðið mun betra í flestum leikjum síðasta tímabils … liðið skoraði hins vegar ekki mörk. Dalglist svaraði blaðamanni eitt sinn á þann veg að ef einhver gæti sannfært hann um að það væri vænlegra til árangurs að liðið spilaði illa þá myndi hann gera það.

    Ótrúlegt hvað menn eru fljótir að gleyma því að það var jú Dalglish sem lét menn spila endalausan reitabolt þegar hann tók við eftir boltaköst fyrrverandi þjálfara.

    Ég er einnig ósammála því að Rafa Benitez hafi spilað eftir sérstakri spænskri aðferð. Það fór algerlega eftir því á móti hverjum hann var að spila og oft lagðist liðið í vörn með liðið. Gleymum ekki úrslitaleiknum í Istanbul. Rafa var oft flottur og fínn þjálfari en algerlega búinn með það undir lokin.

    Ég vona svo sannarlega að Brendan Rodgers spili þann bolta sem hentar liðinu og er vænlegast til árangurs. Ef hann getur spilað eins og Dalglish og skorað mörk þá verð ég mjög ánægður … en því miður bendir styrkleiki liðsins ekki til þess … því miður.

    Áfram Liverpool.

  35. Ég ætla breyta fyrra kommenti mínu, það kostar 3 pund að gerast meðlimur að lfctv.com í einn mánuð – sem á núverandi gengi útleggst á nákvæmlega 579 kr. Ekki 1200 kr eins og ég hélt.

    Það koma svona 3-4 myndbönd úr ferðinni þangað inn á hverjum degi og allir leikirnir úr ferðinni sýndir með official LFC lýsurunum. Algjör óþarfi að vera að pæla í streami.

  36. Hörður, “57” , Ég var að versla mér aðgang á LFCTV og það er 4.99 á mánuði í 12mánuði, þeir sem eru innan UK geta verslað sér aðgang á 2.99

    Þetta eru 965kr.( fer eftir genginu samt ) á mánuði

  37. Hvað segir Ssteinn við þessu öllu saman? Geri ráð fyrir að hann sé afar ósáttur út í Brendan Rodgers að eyða þessum upphæðum í miðjumann.

    Miðjan ku vera hugsuð þannig að Lucas sé rétt fyrir aftan Gerrard og Allen. Suarez er svo vinstra megin í þriggja manna framlínu, Dempsey (kostur nr. 1) hægra megin og Borini fremstur.

    Á bekknum eru þá menn eins og Carroll, Downing, Henderson og Cole.

  38. Virkilega vel séður pistill. Total Football er frábært hugtak og mér finnst sem stuðningsmanni auðveldara að hugsa mér að það sé það sem Rodgers ætlar að innleiða á Anfield. Tiki-taka tengir maður ósjálfrátt við Barcelona og það er erfitt að sjá fyrir sér enskt lið spila á sama hátt og þeir. Þó get ég vel séð það heppnast með sömu prinsipp sem grundvöll ef Rodgers nær að tappa inn á hæfileika hvers og eins leikmanns og ná því útur þeim sem þeir hafa verið að halda í sér síðustu vetur. Tel að Gerrard, Reina, Agger, Johnson, Enrique, Henderson, Suarez, Carroll og jafnvel Lucas eigi meira inni. Bara að losa um þá stíflu ætti að þýða ansi mikið fyrir liðið. Athugið að ég nefni ekki Downing af því að ég held að hann eigi ekkert inni.

    Spennan eykst og eykst fyrir tímabilið og einnig fyrir leikinn í kvöld. Er mjög ánægður með leikina sem við erum að spila á undirbúningstímabilinu og vonandi gera þessir “alvöru” leikir það að verkum að fleiri af ungu strákunum verði notaðir í haust og vetur. Hlakka sérstaklega til að sjá meira af Suso í kvöld og vonandi áfram.

  39. Nýliði spyr:

    Hvaða önnur lið í ensku úrvaldeildinni spila svokallaða “Tiki-Taka” eða sýna útfærslu af þeim bolta?

  40. mig vantar link fyrir kvöldið… plís… hvar er best að ná í sopcast??? hjálp ..einn tölvuheftur anskoti..;) er ekki einhver samsíða með sopcast og tv??

  41. Ég vill bara þakka fyrir allveg magnaðan pistil virkilega vel heppnaður í alla staði alveg ótrúlegt hvernig þessi síða kemur manni alltaf jafn mikið á óvart TAKK FYRIR MIG 😀

  42. Liðið í kvöld, skv opinberu síðunni:

    Liverpool: Gulacsi, McLaughlin, Skrtel, Carragher, Enrique, Spearing, Shelvey, Aquilani, Cole, Eccleston, Sterling.

    Subs: Jones, Agger, Flanagan, Adam, Suso, Morgan, Pacheco, Sama, Wilson, Lucas, Adorjan, Ward, Smith, Wisdom, Ibe.

  43. Tökum smá stefnubreytingu og tölum um okkar menn í sambandi við hugsanleg kaup á Joe Allen.

    Ekki nóg með það að klúbburinn hefur farið í gegnum allt á undanförnum árum, spilamennska og árangur liðsins vart í meðallagi. Evrópubolti fer að verða ásættanlegt markmið. Erum við núna orðinn klúbburinn sem virðir ekki skrifleg samkomulög. Að virða ekki skriflegt samkomulag við Swansea að sækjast ekki eftir þeirra leikmönnum í 12 mánuði og nýta sér samningsákvæði í samningi Joe Allen um að hann sé falur fyrir 15 milljónir punda.

    Ef þetta er staðreyndin þá finnst mér þetta til skammar og hef áhyggjur í hvaða átt klúbburinn stefnir!!!

  44. Nr. 70

    Bíðum nú alveg róleg með þetta mál, við höfum ekki hugmynd um hvernig samningur LFC og Swansea hljómar í raun. Ef það er skriflegur samningur milli liðana þá megum við líklega ekki kaupa þeirra leikmenn er það nokkuð?

    Heyrum okkar hlið á málinu áður en við förum að fussa og sveia yfir þessu.

  45. Einhvers staðar heyrði ég að samkomulagið fælist í því að Liverpool mætti ekki falast eftir leikmönnum Swansea að því undanskildu að aðrir klúbbar geri tilboð í leikmann Swansea og þá sé Liverpool að gera tilboð einnig og þá í sama leikmann. Get því miður ekki komið með heimild.

  46. nr 70. mér skilst að í þessum samningi meigum við bjóða í leikmenn hjá Swansea ef að önnur lið falast eftir þeim. Og svo skilst mér líka að fleiri lið eru á eftir Joe Allen en við, þannig að þetta er í lagi.

  47. Brendan á eftir að sýna það í vetur að hann er færasti stjórinn. Hugsanlega að mancini geti veitt honum samkeppni
    Munið orð mín, við verðum í topp 3.

One Ping

  1. Pingback:

Tiki – taka

Liverpool – Roma 1-2