Þetta er Anfield í dag…

Í dag birti opinbera síðan viðtal við Brendan Rodgers þar sem farið var yfir það sem á daga stjórans hefur drifið frá því hann var ráðinn. Viðtalið er eingöngu fyrir þá sem hafa keypt áskrift en í því kemur ýmislegt skemmtilegt fram.

* Rodgers er búinn að vera í sambandi við lykilleikmenn í klúbbnum. Hann virðist í daglegum samskiptum við Gerrard og hefur mikið rætt við Carragher, hann er ennþá að mála þessa tvo sterkum litum, talar um þau forréttindi að fá að vinna með “Liverpool legends” enda séu þar “gáfaðir leikmenn – clever players” sem vilji mikið spjalla um upplegg liðsins og næstu skref. Auk þessa hefur hann heyrt í flestum í hópnum, tiltók sérstaklega að þeir Suarez hafi verið að spjalla um málin nýlega og það hafi verið ákaflega ánægjulegt.

* Hann segist vera að fá góða mynd af leikmannahópnum, það sé gríðarlega mikill fjöldi gæðaleikmanna, hann talar um að geta stillt upp í sex góð fótboltalið miðað við þann leikmannahóp sem nú er undir merkjum klúbbsins bendir reyndar á að miðað við leikmennina sem fyrir eru og þá sem verið er að bendla við okkur þessa dagana væri hægt að stilla upp sex liðum. Takk Andri fyrir leiðréttinguna Hins vegar viti hann um leikmenn sem munu styrkja það leikskipulag sem hann vill strax og njósnaraliðið sé að vinna í málunum (eða leikmannasafnráðið – player recruitment) þessa dagana. Hann var sérstaklega spurður út í Joe Cole og hann tók Cole sem dæmi um leikmenn sem munu fá séns hjá honum að sýna sig á undirbúningstímabilinu í júlí, hann þekki vel til hans en undirbúningstímabilið muni ráða miklu hjá nokkrum leikmönnum.

* Gylfi Sig er nákvæmlega í þeim farvegi sem rætt hefur verið. Í viðtalinu kemur klárlega fram mikill áhugi hjá Rodgers á því að fá hann til liðs við klúbbinn, það er augljóst í mínum augum að Gylfi er einn af þeim mönnum sem Rodgers talar um í punktinum hér að ofan. Hins vegar vill hann stíga varlega til jarðar gagnvart Swansea, talar um það að Swansea eigi rétt á að ræða við hann fyrst allra liða, Gylfi sé leikmaður Hoffenheim sem Swansea var búið að kaupa og það þurfi að komast á hreint. Ef hins vegar Gylfi fer ekki til Wales þá mun Liverpool bjóða í hann. Það er ljóst og nú bara treysti ég því að Gylfi lesi þessa síðu, bendi honum á hversu flottur hann verður í rauðu, hann má vera í hvítu innanundir, en þá auðvitað FH-peysunni. Hann er flottur í hvítu, þarf ekkert að sanna það, nú er kominn tími á rautt!

* Langur tími fer í að gefa honum færi á að tala vel um klúbbinn, fyrri stjórnendur og síðan borgina. Það gerir hann töluverðan tíma í viðtalinu og það er augljóslega gert til að fá local aðdáendurna til að gleðjast enn meir yfir komu hans. Það er að takast held ég, hann kvíðir alls engu að fylgja í fótsport snillinga og telur borgina lifa fyrir fótbolta og í höndum sér sé tækifæri sem hann sé ákveðinn að grípa.

* Í heildina flott viðtal og Rodgers er virkilega að standa sig vel í þessum þætti leiksins, gaman verður að sjá hvaða leikmenn það eru sem hann telur bæta okkur strax!

Í öðrum fréttum er það helst að Rodgers er að krækja í tvo úr njósnateymi Manchester City til að vinna með sér. Barry Hunter sem hefur verið njósnari fyrir þá ljósbláu í Rússlandi, Sviss og Ítalíu er á leiðinni en stærri frétt er að Dave Fallows sé á leiðinni vestur. Sá hefur verið stjórnandi njósnarateymis þeirra bláu og er hugsaður inn í stjórnendateymið sem vinna á með Rodgers að yfirumsjón leikmannamáli í teymi því sem sett verður upp í stað stöðu “Director of Football” sem Rodgers sló út af borðinu í sínu viðtalsferli.

Margir hafa verið að velta upp hvort leikmenn unglinga- og varaliðsins munu koma sterkar inn í plön aðalliðsins á næstu leiktíð og þá hverjir. Ég ætlaði að vera búinn að skrifa sérstaka færslu um stöðu þeirra liða beggja sem bæði áttu ágætu láni að fagna, enduðu bæði ofarlega í sínum deildum og í sameiginlega verkefninu, NextGen seríunni enduðum við í þriðja sæti á Evrópuvísu, steinlágum fyrir Ajax í undanúrslitum en unnum Marseille í bronsleiknum og kannski ekki ástæða til að fara að hlaða í færslu um málið núna.

En þeir leikmenn sem flestir virðast telja munu fá möguleika eru þrír. Conor Coady er varnartengiliður sem er fínn með boltann í fótunum, vantar eilítið upp á hraðann en bætir það upp með góðum leikskilningi. Ég er alveg sammála því að þar fer efnilegur leikmaður en mér finnst þó líklegra að hann verði sendur í lán næsta vetur, staða DM í leikkerfi Rodgers býður eiginlega ekki upp á þau mistök sem ungir menn lenda í og ég myndi frekar telja Henderson verða backup í þeim leikjum sem Lucas missir af.

Raheem Sterling er augljós kostur í leikkerfinu, öskufljótur með mikla tækni í báðum fótum og fékk þef af aðalliðinu í vetur. Það eina sem maður óttast er með þennan strák er hversu rosalegar væntingar eru til hans og hvort hann hefur bein í að taka á þeirri pressu sem því fylgir. Er sannfærður um að hann fær mikinn tíma á undirbúningstímabilinu til að sanna sig.

Suso er spænskur sóknarmaður sem við stálum frá Cadiz fyrir augum Barca og Real. Hann átti erfitt í haust en vann gríðarlega á þegar á leiktímabilið leið, eiginlega frá því að maður afskrifaði hann yfir í að telja hann eiga að fá séns á bekkinn í þeim marklausu leikjum sem voru í deildinni undir lokin. Hann getur spilað úti á kanti, en þar vantar hann kannski upp á hraðann, en undir senter er gaman að sjá hann með sína miklu tækni og leikskilning. Ég held að hann muni fá sénsa á undirbúningstímabilinu og gæti vel átt möguleika á hlutverki næsta vetur.

Utan þessara þriggja hef ég trú á að við sjáum þrjá leikmenn senda á lán, leikmenn sem hafa átt góðan vetur en ekki alveg tilbúnir í að berjast með þeim stóru. Það eru hafsentinn Andre Wisdom, sóknarmiðjumaðurinn Kristian Adorjan og framherjinn Michael Ngoo. Strákar sem munu verða góðir en hvort þeir hafa getu í að verða heimsklassaleikmenn er eilítið óljósara og því held ég að þeir fái eldskírn annars staðar en á Anfield á næsta tímabili.

Þetta var semsagt Anfield í dag, föstudaginn 15.júní!

19 Comments

  1. Rodgers er búinn að vera í sambandi við lykilleikmenn í klúbbnum. Hann virðist í daglegum samskiptum við Gerrard og hefur mikið rætt við Carragher

    Þetta þykir mér ekkert sérstaklega jákvætt fyrir klúbbinn.

  2. Sælir félagar

    Þetta er gott yfirlit Maggi og takk fyrir það. Fyrir mér er það mjög skynsamlegt að ná góðu sambandi við áhrifamenn innan liðsins eins og Gerrard og Carra. Að fá þá í lið með sér í því breytingaferli sem fram undan er skiptir miklu og að fara til dæmis í stríð við þessa menn væri bæði heimskulegt og líklega fyrirfram tapað.

    BR virðist því vinna af skynsemi og framsýni þar sem hann byrjar í grunninum (goðsagnir og stuðningmenn/Liverpoolbúar) og fær alla í hóp með sér til að skapa það lið sem hann ætlar að byggja upp. Þar með fær hann næði og stuðning til að skapa stórlið sem mun gera atlögu að titli á næstu þremur árum.

    Verum því þolinmóð og styðjum hinn nýja stjóra til þeirra góðu verka sem hann er að vinna. Burt með neikvæðni, bölmóð og skítkast út í einstaka leikmenn hvort sem fólk er hrifið af þeim eða ekki.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. “Hann talar um að geta stillt upp í sex góð fótboltalið miðað við þann leikmannahóp sem nú er undir merkjum klúbbsins”

    Þetta er nú ekki alls kostar rétt Maggi, hér að neðan er tilvitnunin beint af official síðunni:

    “The problem with a club like Liverpool is they get linked with every player going. It looks like, with every player linked plus the players we’ve already got, we’re going to have five or six teams next year.”

    Semsé ef allir leikmenn sem eru linkaðir við klúbbinn væru keyptir, til viðbótar við þá sem fyrir eru, væri hægt að stilla upp fimm til sex liðum.

  4. Matti #1 Það væri mjög slæmt ef hann fengi þessa menn á móti sér. T.d. sést hvernig fór fyrir AVB

  5. Nú hafa Swansea ráðið þjálfara svo vonandi að eithvað fari að skýrast í málum Gylfa Sig 🙂

  6. Er lausnin á því vandamáli að hann stjórni í “samráði” við þá félaga?

    Ég ætla rétt að vona að það sé Brendan Rodgers sem stjórnar hjá Liverpool. Ef Gerrard og Carra eru ósáttir við eitthvað þurfa þeir að finna sér annan klúbb.

    Ekki misskilja mig, það er bara kurteisi að ræða við þessa náunga, en þarna lítur út fyrir að hann sé að hafa “samráð” við þá. Það gengur alls ekki.

  7. Jim Boardman
    Been told #LFC have opened talks with Hoffenheim for Sigurdsson. The fee likely to be more than the 9m euro #SCFC agreed.

    Gylfi á leiðinni!

  8. BR er allt í einu með 5-6 landsliðsmenn frá englandi, einn af stjörnum deildarinnar og örugglega í top 5 sem bestu leikmanna deildarinnar og einn besta varnarmann í deildinni. Þetta fær hann upp í hendurnar ásamt því að vera kominn með einn af 10 strærstu klúbbum í heiminum í dag.

    Ég get ekki nefnt einn mann í Swansea liðinu í fyrra !

    Hvað gerir svona maður. Þetta er eins og ég færi frá því að vinna á bílaverkstæði á Raufarhöfn og til þess að vinna hjá Ferrari á Ítalíu !

    En hann virðist hafa óendanlega trú á sjáfum sér, og það líka mér vel við ! Framtíðin er okkar, kannski ekki á morgun, en framtíðín er okkar og ég myndi ekki vilja vera stuðnginsmaður nokkurs annars liðs í dag !

  9. Ég vissi ekki að bílaverkstæði á Raufarhöfn hefði unnið Ferrari í formúlunni í einni keppni og svo verið með sama tíma í annari síðasta season…..

    en hvað veit ég? fylgist nú bara með bolta ekki einhverjum strákum í bílaleik.

  10. Það fer að koma að því að Mr. Rogers segi okkur lottotölurnar sínar sem hann er með í áskrift. Örugglega 8-9-17-23-7

  11. Sælir félagar. Mig langar að vita hvað þessir njósnarar sem komu frá sity hafa afrekað, veit einhver?

  12. Ég hef fylgst með varaliðinu í vetur og ég er ekkert sérlega hrifinn af Wisdom né Coady. Þetta umtal um Coady minnir mig mikið á allt talið um Spearing þegar hann var á hans aldri. En þessir drengir hafa samt aldurinn með sér og geta alltaf tekið miklum framförum.
    Það yrði einmitt gott fyrir þá Coady og Wisdom að fara í neðri deildirnar og fá reynslu. Ástæðan fyrir því afhverju yngriflokka starfið hjá t.d. Barcelona er svona gott er útaf því að kjúllarnir þar eru að spila í 1. deildinni með Barcelona B gegn mönnum sem eru eldri og reyndari. En hjá okkur eru kjúllarnir að spila á móti jafnöldrum sínum.

    Ég hef miklar mætur á Sterling, Suso og Ngoo.
    Ég vona að Sterling fari ekki á lán, því ég er viss um að Rodgers hafi not fyrir hann í Europa League, Carling Cup og FA.
    Suso hefur skánað gríðarlega mikið og orðið einn af lykilmönnum liðsins. Ég held að hann geti orðið flottur “forward” í framtíðinni. Hinsvegar hef ég ekki mikla trú á honum sem miðjumanni.
    Ngoo er 193m á hæð og með mjög góða bolta tækni. Það er gríðarlega skondið að sjá þennan risa taka 1-3 leikmenn á í einu.

    Það er langt síðan sem ég hef verið eins ánægður með yngriflokkastarfið og í dag. Borrell er mjög agaður og strangur, þetta er ekki gaur sem maður myndi eitthvað fokka í.

  13. @BenSmithBBC
    Gylfi Sigurdsson should be a #LFC player next week. Talks underway, all parties keen. Fee upwards of £8m.

    Fee Swansea agreed for Sigurdsson was £6.8m but that was part of loan agreement. #LFC deal will be higher.

    Swansea did have first option but once Rodgers left Sigurdsson, as previously reported, lost a big reason to stay there

  14. Hvernig er það á ekkert að fara að linka einhverja alvöru leikmenn við Liverpool? Flott að fá Gylfa en ég man ekki eftir annarri eins sultutíð hjá Liverpool.

    Bendi á að flest liðin fyrir ofan okkur eru að styrkja sig með alvöru leikmönnum.

Redknapp rekinn, slúður og sjónvarpsdíll – opinn þráður

Gylfi mun koma til Liverpool