Swansea á morgun

Þá er komið að því, síðasti leikurinn á þessu tímabili. Það eru alltaf blendnar tilfinningar í gangi hjá manni þegar kemur að þessari stundu. Þær eru þó óvenju lítið blendnar núna þar sem þetta tímabil hefur engan veginn staðið undir væntingum manns. Það er í rauninni talsvert síðan maður var farinn að hlakka til sumarsins, þ.e. hverjir verða keyptir og hverjir verða látnir yfirgefa skipið. Það er voðalega lítið hægt að spá í þeim málum á meðan tímabilið er í gangi og óvissan talsverð. Nú taka aðrir tímar við hjá manni, enginn Liverpool leikur í 2 mánuði. Það verður þó algjörlega á tæru að hungrið verður komið upp í manni áður en júní er á enda.

Leikurinn á morgun er á útvelli gegn Swansea, sem komu heldur betur á óvart í vetur með því að halda sér uppi og það með því að spila bara hörku flottan fótbolta. Fókusinn hjá þeim jókst reyndar til muna í janúar hérna á Íslandi eftir að þeir fengu Gylfa Sigurðsson að láni, en fram að því voru þeir búnir að vekja almenna eftirtekt fyrir spilamennsku sína. Ég vona svo sannarlega að við fáum flottan leik hjá okkar mönnum á morgun, það er alltaf skemmtilegra að enda tímabilin á jákvæðum nótum. Sjálfur var ég staddur á Anfield á þriðjudagskvöldið og verður að segjast alveg eins og er, að stemmningin og skapið hjá mönnum var miklu betra en maður þorði að vona. Það var alveg hörku stemmning á vellinum og þeir sem í Kop voru, studdu algjörlega 100% við bakið á sínum mönnum alla leið, það þrátt fyrir að hafa tapað bikarúrslitaleik nokkrum dögum fyrr og þrátt fyrir ferleg vonbrigði almennt með árangurinn í deildinni. Ekki voru menn að blóta einstaka leikmönnum, þarna var bara hreinn og beinn stuðningur við liðið. Menn vita sem svo að það verður gert eitthvað í okkar málum í sumar og að nýjir eigendur munu aldrei sætta sig við annað svona tímabil í deildinni.

Lið Swansea hafa reyndar dalað talsvert núna í lokin eftir að þeir tryggðu sér áframhaldandi sæti í deildinni. Þeir hafa aðeins unnið einn af síðustu 8 leikjum sínum, tapað 5 af þeim. Þeir unnu lið Blackburn, og gerðu jafntefli við Wolves og Bolton. Þannig að þeir verða ekkert með sjálfstraustið í hæstu hæðum á morgun. Leikurinn reyndar einkennist líklegast af því að hvorugt liðið hefur að neinu að keppa nema bara að sýna smá stolt og dug. Það er enginn leikmaður að fara að sanna eitt eða neitt upp á framtíð sína að gera, það gerist ekki með einhverri einni frammistöðu. Reyndar er smá peningur í boði þegar kemur að því sæti sem liðin enda í, minnir að hvert sæti sem þú kemst ofar í töflunni skili liðunum 500 þúsund pundum. Okkar menn geta neðst endað í níunda sæti, en efst komumst við í það sjöunda. Swansea aftur á móti gætu rokkað aðeins meira eftir þessum úrslitum. Best eiga þeir möguleika á tíunda sæti, en þeir gætu líka farið niður í það fjórtánda. Þarna getur munað heilum 2 milljónum punda fyrir þá.

Ekki hefur maður frétt neitt nýtt af meiðslamálum hjá liðunum, Swansea verða án Kemy Agustien og Ferrie Bodde (hef reyndar alveg verið laus við það að heyra um þá áður) og Liverpool að vanda án Lucas og Adam. Þar fyrir utan er talið að bæði Steven Gerrard og Jose Enrique séu tæpir fyrir leikinn. Mikið hefur verið rætt og ritað um orðróma tengdum Gylfa Sigurðssyni. Þó svo að persónulega haldi ég að það sé ekki jafn mikill áhugi fyrir honum og pressan (sérstaklega á Íslandi) lætur í veðri vaka. En hann er öflugur leikmaður, engin spurning um það. Nokkrir leikmenn Swansea hafa vakið verðskuldaða athygli í vetur, sprækir strákar eins og Vorm, Sinclair, Allen, Dyer og Graham. Þetta er léttleikandi lið og okkar menn þurfa að vera á tánum til að klára sigur.

Það er alveg ljóst að Kenny þarf ekki að hvíla einn eða neinn fyrir næsta leik, þannig að ég myndi halda að hann vilji enda þetta á góðum nótum, nota sitt sterkasta lið og klára þetta með sigri. Reina verður því í markinu, Johnson í hægri bakverðinum, Carra og Skrtel í miðvörðunum og Agger í vinstri bakverðinum. Auðvitað gæti verið að Enrique kæmi inn aftur, en ég held að hann láti Carra leika þennan síðasta leik tímabilsins. Það er líka væntanlega freystandi að leyfa mönnum eins og Coates að reyna sig, en ég held mig við það að Kenny vill enda þetta á því liði sem hann telur sterkast. Carroll og Suárez frammi, Downing og Bellamy á köntunum og svo er þetta bara spurning um hvort Stevie sé klár í slaginn og hver þeirra Shelvey, Henderson eða Spearing fái að reyna sig. Well, það hefur sjaldan verið jafn lítil spenna í manni við að reyna að giska á byrjunarliðið og ég er eiginlega kominn í heilan hring hérna. Skjótum á eitthvað, here we go:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Agger

Downing – Henderson – Gerrard – Bellamy

Suárez – Carroll

Svo gæti þetta þess vegna verið algjörlega út í hött. Þó svo að þessi leikur skipti engu máli og maður sé ekkert að drepast úr spenningi yfir því hvaða 11 leikmenn byrji hann, þá er það ekki þar með sagt að maður fái sama Liverpool fiðringinn í magann yfir því að það sé leikur á morgun. Ég veit það allavega fyrir víst að ég verð sestur spenntur fyrir framan skjáinn á morgun og vonast eftir góðum leik okkar manna. Þetta er jú síðasti leikurinn á tímabilinu og það segir manni það einfaldlega að það sé nýtt og ferskt tímabil framundan. Nýjar vonir og væntingar og vonandi að okkar menn nái að standa betur undir þeim þá. Ég ætla að spá því að við höldum áfram þar sem frá var horfið á þriðjudaginn og endum þetta með sæmd. Eigum við að segja 1-3 og nú setja framherjar okkar sitthvort markið. Bellamy kemur svo með það þriðja.

Síðasti leikurinn, það þýðir líka að þetta er síðasta upphitunin á tímabilinu. Ég þakka lesendum Kop.is fyrir samveruna í vetur, en að sjálfsögðu fer síðan ekkert í frí, það verða bara engar upphitanir á næstunni. Nú tekur við silly season þar sem umræðurnar snúast um kaup og sölur og ég veit um marga sem elska það tímabil.

Bring the last one on

30 Comments

 1. Sælir félagar

  Ég hefi engu að bæta við þessa fínu upphitun. Allt sem þar er sagt er sem talað út úr mínu hjarta. Vil bara að lokum þakka fyrir mig í vetur, þakka stjórnendum og pennum síðunnar og félögum fjær og nær, fyrir gott spjall í vetur. Ekkert kemur í stað kop. is og bestu stuðningmenn, besta liðs sem leikið hefur á grænum grundum valla veraldarinnar. Takk fyrir mig.

  Það er nú þannig

  YNWA

 2. Ég get séð fyrir mér að Kenny muni einmitt láta þá Kuyt, Aurelio, Maxi og fleiri fá þennan leik sem smá kveðjuleik þar sem að allar líkur eru á því að þeir muni yfirgefa félagið eftir tímabilið.
  Þessi leikur er þó mikilvægur að einu leyti að það væri verra að lenda fyrir neðan everton í deildinni og vonandi mæta menn til leiks og ná að klifra yfir litla liðið í Liverpool borg.

  Svo mætti alveg kaupa Gylfa eftir leikinn.

 3. Ég held að Henderson og Shelvey eru allan daginn að fara byrja á miðjunni fyrir okkur. Væri gaman að sjá Sterling og Coates fá að byrja líka

 4. SSteinn þessi uppstilling þín er 100% eins og ég vil hafa hana, þegar Bellamy er á vinstri þá er hann ci 80% hættulegri en hægra megin, þarna er hann að nýtast okkur best, það væri sterkt að klára ömurlegt tímabil í deild með sigri, það skiptir máli í hvaða sæti við lendum.
  Kop.is er hreint út sagt frábær síða, þig eigið heiður skilið fyrir.
  Tómleikinn mun koma fljótlega eftir helgi og bið eftir nýju tímabili hefst með von í brjósti og öllu sem því fylgir.
  YNWA

 5. 2# Ég myndi ekki vera svo viss, þrátt fyrir að það hafi verið augljóst að Maxi væri að fara þá kemur þetta.

  Samkvæmt Dalglish:

  “We are not looking to move anyone out. The only one who will be leaving is Fabio (Aurelio) because his contract is up.”

 6. Gunnar 6# Stór efast um þessa frétt, sérstaklega vegna þess að vitnað er í Goal.com sem er þvílíkur sorpmiðill!

 7. Gunnar #6 – Ef allt væri satt sem slúðurmiðlarnir segðu væri Liverpool heimurinn töluvert öðruvísi, í liðinu væri enginn núverandi leikmaður og það fullt af bæði stórstjörnum og þriðja flokks leikmönnum. Líklega væru í kringum 300 leikmenn viðloðandi liðið og eigendurnir annað hvort Rússar eða arabar. Að öllum líkindum væri það líka farið að leika með S** auglýsingu og deildi leikvelli með everton.

  Ég trúi aldrei neinu tengdu Liverpool sem ekki er fast í hendi, fyrr en það er annað hvort staðfest af klúbbnum eða Kop.is.

 8. Við vinnum leikinn 0-2, Carroll og Suarez með sitthvort markið.

  Varðandi þetta slúður um Skrtel þá grunar mig að hann sé hvergi eins hátt skrifaður eins og hjá einmitt Liverpool, samvinna hans og Aggers er einfaldlega stórfín og hann er hvergi að fara að labba beint inn í einhvað CL lið.
  Svo veit hann vel að hann þarf bara að bíða í 1 ár eftir að vera spila í hjarta varnarinnar hjá liði í CL, Liverpool 🙂

 9. Myndi varla hágráta þótt samhjóðinn færi en hann hefur samt átt sína spretti á tímabilinu. Tek undir með þeim sem vilja fá Gylfa. Maður sem getur tekið allar aukaspyrnur, horn og víti í hæsta gæðaflokki sem núverandi mannskapur klúðrar allt of oft. Með góðann leikskilning og getur þrumað honum í sammarann ef hann er í færi.. Ef ég man rétt þá er eiga slíkir menn að vera í L’pool en einn er orðinn að meislaspésa og kominn á aldur (SG) og hinn, Adam, getur ekki blautann s***.

  Gylfi er nægilega ungur til að bæta sig og þannig ekki versta fjárfesting sem klúbburinn gæti gert.

 10. Það er ótrúlegt til þess að hugsa, miðað við endann á síðasta tímabili og byrjun þessa, að við séum í bakvarðavandræðum í lok leiktíðar. Fyrir ári síðan vorum við að spila Kelly, Flanagan og Robinson í þessum stöðum ásamt Johnson og þeir léku allir stórvel er liðið spilaði margfalt betur en nú. Núna eru þeir allir ári eldri en virðast enganveginn ráða við hlutverkið og miðvörðurinn Agger er tekinn framyfir þá.

  Það er samt ágætt að Enrique sé tekinn út því hann getur mun betur en hann hefur sýnt undanfarið og ég held að leikjaálagið sé stór hluti af þessu hjá honum (hann hafði aldrei spilað nema 2-3 bikarleiki á tímabili fyrir sín fyrri lið) og þá er tempóið hærra. Svo hjálpar auðvitað ekki að vera með Downing fyrir framan sig en samband vængmanns og bakvarðar er mjög mikilvægt í nútíma fótbolta.

  Varðandi leikinn þá hef ég litlar tilfinningar gagnvart honum, enda frekar ómikilvægur fyrir bæði lið. Satt að segja er ég mun spenntari fyrir City – QPR (mögulegur úrslitaleikur í bæði titil-og fallbaráttu) og síðan keppninni um fjórða sætið. Ætli maður horfi ekki á þetta í bænum svo maður geti fylgst með hinum leikjunum um leið. Ég spái 1-1 jafntefli á Liberty Stadium.

 11. Smá útúrdúr: Var að horfa á Dortmund yfirspila Bayern München 5-2 í þýska bikarnum. Jürgen Klopp er mjög athyglisverður þjálfari.

 12. Finnst ekki skipta neinu einasta máli að Gylfi er mikill stuðningsmaður Man u, ef að leikmaður er nógu góður til að styrkja byrjunarliðið hjá Liverpool þá mætti hann vera sonur Alex Ferguson mín vegna.

 13. Viljum við sjá uppalda Everton menn spila fyrir okkar lið…? Haldið þið að við kæmumst langt á leikmannamarkaðinum ef við myndum setja svona bull fyrir okkur?

  Held að allt snúist um að finna réttu mennina í réttu stöðurnar fyrir næsta tímabil… t.d. ekki að kaupa annan miðjumann og nota hann úti hægra megin. Annað skiptir held ég bara engu einasta máli!

 14. Ef Gattuso hefði verið í boði í janúar þá hefði hann verið kjörinn kostur. En ég efast um að hann vilji koma núna til þess að vera backup fyrir Lucas á næsta tímabili.

 15. Kuyt, Aurelio, Maxi , Adam, Spearing fara svo á sölu eftir leik, Hljótum að fá einhverjar krónur fyrir þá til að kaupa betri menn. Kantara, eitt miðjubuff og striker. koma svo…….

 16. Það er alveg morgun ljóst að ef KK verður áfram þá selur hann ekki Adam, eins er með Spearing hann er ekkert að fara heldur, ef KK selur Adam þá er hann að segja að hann hafi ekkert vitað hvað hann var að gera ( sem er rétt ) í síðust kaupum.

  Það væri framþróun ef bæði Maxi og Kuyt færu, þá er meiri vonu um að gæðin far upp á við, Liverpool á ekki að hafa menn með svona miðlings fótbolta hæfileika í hópnum eins og er með Maxi , Kuyt Adam og Spearing , Liverpool á að vera með menn sem kunna einkvað í fótbolta, leikmenn sem kunna það sem leikmenn bestu liða kúnna td taka .á móti bolta , menn sem geta dreift spili vel og menn sem geta tekið menn á, eins þurfa þannig leikmenn að geta búið til einkvað upp á eigin spýtur og skorað mörk.
  Þessir leikmenn okkar sem ég er að tala um geta ekkert af þessu eða frekar lítið, td geta Maxi, Kuyt og Adam ekki tekið menn á ,,,,, það er bara hlæilegt að miðju og sóknarmenn okkar hafi ekki þannig hæfileika, lið með þannig hæfileika mun þá verða um aldur og æfi í sama strögli og við erum búnir að vera upp á síðkastið.

  Ef Liverpool ætlar að verða aftur topp lið þá þurfum við nýjan þjálfara, það er alveg á hreinu fyrir mitt leiti ef KK verður áfram næsta vetur þá er bara verið að draga á langinn möguleika okkar á að blanda okkur í topp 4 á Englandi.

 17. Hvet alla til að lesa grein Tomkins frá 7. maí. Þar segir hann m.a.:

  Blockquote

  And the worry is that the only midfielder who is definitely good enough right now – and under 31 – is Lucas Leiva. And we can only cross our fingers and hope that he recovers fully from his serious cruciate injury, and does so in time for August. All teams have injuries, but some hit you harder than others.

  For me, the strange lack of excitement I sometimes feel about this team stems solely from the midfield, and in particular the players purchased last summer. The defence can defend and attack, and the attack can attack and defend. But I’m not convinced about Liverpool across the middle.

  Blockquote

 18. Algerlega sammála #24, mikið rosalega er þetta góð grein hjá Tomkins. Sérstaklega er áhugavert að lesa um áhyggjur hans af miðjunni okkar.

 19. Jonjo og Henderson eru fínir saman á miðjunni. Nota þá áfram takk!

 20. @22

  Ef að framkvæmdastjóri kaupir leikmann og kaupin ganga svo ekki upp, þe. leikmaðurinn stendur ekki undir væntingum þá veit framkvæmdastjórinn ekkert hvað hann er að gera? Þetta er fáránleg fullyrðing…Hver og einn einasti framkvæmdastjóri fótboltaliðs hefur keypt leikmenn sem hafa ekki staðið undir væntingum. Sem þýðir að enginn þeirra veit hvað hann er að gera skv því sem þú ert að segja…

  Ég held td að Adam gæti verið ágætis backup leikmaður fyrir liðið og er nokkuð ódýr sem slíkur. Tel hann ekki nógu góðan til þess að eiga fast sæti í byrjunarliðinu amk ekki út frá því sem hann hefur sýnt hingað til. Hann var reyndar mun betri þegar hann hafði Lucas með sér.

 21. Er leikurinn sýndur á Úrillu Górillunni? Leiðinlegt að hann sé ekki sýndur á Stöð 2 Sport

Nýi búningurinn afhjúpaður!

Síðasta byrjunarlið tímabilsins: