Chelsea á Anfield – síðasti heimaleikur

Það styttist í endalok ensku Úrvalsdeildarinnar leiktímabilið 2011 – 2012 og þriðja árið í röð getur maður sagt með fullkomnu sanni að maður sé þeim degi glaðastur að flautað verður af í þeirri keppni svo maður geti farið að vonast eftir betri tíð. Nokkuð sem er orðið hundleiðinlegur ávani hjá okkar liði!

Alltaf var ljóst að þessi leikur yrði “þynnkuleikur” eftir viðureign helgarinnar og það kemur í okkar hlut að vera fúla liðið með fýluaðdáendurna – sem er algerlega ömurlegt hlutskipti!

Ég hef sagt lengi að tímabilið okkar miðaðist við útkomu helgarinnar að stórum hluta og þegar flautað var af datt maður inn í svakalega tilvistarkreppu sem stendur enn. Með sigri um helgina hefði maður getað brosað framan í ákveðinn hóp aðdáenda og getað farið að djóka með næstu heimsókn á Anfield South en með þessu tapi þá er ekki hægt að líta framhjá slakri útkomu í heild á vetrinum. Það að vera í öðru sæti er það síðasta í úrslitaleik – svoleiðis bara er það – staðreynd sem ekki verður litið framhjá á þessu ári eða þeim næstu.

Það hefur verið í raun eitt stórt vandamál á vetrinum sem mun aldrei gleymast og er lykilatriðið í ömurlegri deildarútkomu. Það er fullkomlega hryllilegur árangur á Anfield. Eftir ágæta byrjun með 2 sigrum í fyrstu 3 heimaleikjunum (gegn Wolves og Bolton) höfum við sýnist mér náð að vinna 3 leiki í næstu 15 tilraunum sem er svo ömurlegt að það tekur ekki tali. Eini vottur gleðinnar hjá mér er að ég tók stelpuna mína með mér í hennar fyrstu heimsókn á Anfield og við gátum glaðst yfir sigri gegn QPR. En það skiptir litlu í alheiminum.

Á morgun er síðasti heimaleikur, ég tippa á að Anfield verði í frekar súru formi, áhorfendurnir þ.e, og viðbúið að ef að ekki verði tekinn sprettur út úr startblokkunum þá verði stutt í mikinn pirring. Ég held satt að segja að svona staða hafi aldrei verið fyrir síðasta heimaleik, sú staða að mögulega muni bara völlurinn vera hálftómur í lok síðasta leiks þegar leikmennirnir labba hringinn að honum loknum, hvað þá ef að baulið sem við heyrðum gegn WBA verður endurtekið. Sorglegt en vissulega möguleiki!

Allir þeir sem lásu ummæli mín eftir bikarúrslitaleikinn sjá það að ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum með uppstillingu Liverpool og liðsval kóngsins Kenny á Wembley. Hann hefur alveg örugglega átt erfitt frá leiknum og ég treysti því að hann muni breyta til. Mér finnst reyndar karlinn orðinn markeraður af genginu undanfarið, held að undir niðri kraumi mikil reiði og pirringur sem gæti mögulega hafa þýtt “hárþurrku” á Melwood í dag og muni skila sér á morgun. Það er allavega ljóst ef að ekki á að senda okkur inn í sumarið algerlega brjáluð þurfum við að öðlast einhverja gleði út úr næstu tveim leikjum.

Ég held að Dalglish muni nú stilla upp með báða senterana okkar frá byrjun, vissulega hafa margir spáð í því að við gætum mögulega séð Suarez í holu eða á köntum í 4-2-3-1 en ég held að við sjáum 4-4-2 (vona það reyndar líka) og farið verði með áhlaupi frá fyrstu mínútu. Chelsea munu liggja til baka og það er því ekki til neins að sitja til baka líka. Ég ætla ekki að velta of mikið fyrir mér öðru í liðsvalinu en því sem ég vill og stilli því liðinu svona upp:

Reina

Kelly – Skrtel – Agger – Johnson

Downing – Henderson – Gerrard – Maxi

Suarez – Carroll

Bekkur: Doni, Carragher, Enrique, Shelvey, Kuyt, Spearing, Bellamy.

Enrique og Spearing hljóta að detta út úr liðinu eftir laugardaginn og ég vill frekar sjá Maxi fá að spila á Anfield en Kuyt. Einhvern tíma hefði ég viljað sjá Sterling á bekknum og myndi alveg þiggja það, en það skiptir máli að við vinnum þennan leik á morgun til að endurvinna eitthvað af því stolti sem hugsanlega finnst.

Þessi leikur á morgun gæti farið allavega. Möguleikar Chelsea á 4.sætinu eru afar litlir og því er alveg mögulegt að þeir hvíli lykilmenn, svei mér þá ef Torres fær ekki að byrja leik, til að spara sig fyrir CL-úrslitin. En þeir gætu líka viljað strá salti í okkar sár og komið á fullri ferð. Við erum með gríðarlega veikt sjálfstraust og því gætum við alveg orðið vitni að slakri heimaframmistöðu liðs sem á erfitt með að horfa í spegilinn.

En vonin er sú að leikmennirnir séu búnir að mótivera sig upp í það að klára vondan vetur á Anfield með sigri og komi vel girtir í brók og kvitti fyrir helgina.

Af minni einskæru bjartsýnisvon ætla ég að telja það líklegra og tippa á 2-1 sigur okkar drengja. En það er nú ekki spá innblásin af sannfæringu!

38 Comments

 1. Mér hefur sjaldan verið eins mikið sama um einn deildarleik og þennan, þrátt fyrir að droppa og félagar séu að koma í heimsókn.

  Get ekki setið á mér og nefnt það hvað ég öfunda Arsenal að hafa náð að klófesta Podolski. Mikið rosalega hefði verið fáránlega hrikalega geggjað að fá þann leikmann yfir til okkar.

  En við vinnum þetta 3-1 og spilar kampavínsþamb chelskí-manna á laugardagskvöldið þar stóra rullu.

 2. Mér gæti ekki verið meira sama. En cudos fyrir að nenna að koma með umfjöllun fyrir þennan leik.

 3. Ótrúlegt enn satt ég hlakka til að sjá leikinn á morgum, svona sjúkur er ég, ég vona að Shelvey verði með og eins vildi ég sjá Bellamy vinstra megin, það hefur verið MIKILL munur á Bellamy vinstra megin td eru hornspyrnur hann stórhættulegar vinstra megin en ekki hægra megin,ég held að alltaf þegar Bellamy hafi blómstrað í vetur hafi hann verið hægra megin, það er bara blindur KK sem áttar sig ekki á þessu , ég vil aldrei sjá Maxi oftar í Liverpool treyju hann tími er búinn sem betur fer, spurning hvort Carreger verði miðvörður og Agger vinstra megin, ég held að andinn á Anfield verði skrítinn á morgum
  YNWA

 4. Ég tek undir með #2
  Arsenal voru held ég að gera flott kaup í Podolski hann mun auka breiddina hjá þeim, þetta er enn eitt dæmið sem sýnir hvað við höfum verið að kaupa með KK og svo hvað önnur alvöru lið gera í leikmanna kaupum, vonandi verður nú breyting á ( ef KK fer) , eitt er alveg ljóst ef KK verður áfram þá mun ( verður) stóla áfram á þá mis góðu leikmenn sem hann keypti, ef nýr þjálfari kemur þá þarf hann alls ekki að nota þá leikmenn nema síður sé.
  Ég endur tek að minn draumur er að KK fari og ný endurreisn hefjist með nýjum draumun og sigrum.
  YNWA

 5. Bíð eftir því að þessum ósköpum ljúki,mætum ferskir í ágúst með nýja von í brjósti,og vonandi taka eigendur réttar ákvarðanir í sumar.
  YNWA

 6. Vil Doni í markið Reina slakur á Wembley, Fyrra markið átti hann og hefði hæglega getað komið í veg fyrir það síðara

 7. hvað sjáið þið við Shelvey ? horfið á Fulham leikinn aftur
  henderson, adam, shelvey spearing? burt með þá alla, hver átti að taka við þegar Gerrard hættir….þessir miðjumenn 4 sem ég nefni, er samnefnari yfir 8-12. sætið í deildinni ár eftir ár
  downing má líka fara og seljum kelly, á meðan við getum platað einhvern

 8. Vá hvað ég er sammála Siguróla hér númer 11 !!!!Henderson finnst mér alveg ferlega slakur og já reyndar þeir allir þarna sem hann nefndi….

 9. til #11 og 12
  Þið getið ekki alveg ætlast til að strákar sem eru 19og21árs gamlir kominn inní þetta lið og byrja að spila eins og heimsklassa leikmenn sem eru búnir að vera að spila á hæsta leveli fótboltans í svona 3ár eða meira, gef þeim smá tíma!!! ég man mjög margir voru alltaf að taka um að selja lucas því hann væri svo ömurlegur og gæti ekki neitt en hann sýndi það á þessu timabili sem hann spilaði áður en hann meiddist hversu mikilvægur hann er fyrir liðið og eg reikna með á næsta eða þar næsta tímibili verða bæði henderson og jojo jafn mikilvægir og okkur finnst lucas vera!!!!!
  YNWA!!

 10. Sammála þér bjarki#13 varðandi ungu leikmannanna þó ég set spurningamerki um Spearing. Hann er bara ekki nógu góður fyrir Liverpool. Annars langar mér sá Kenny breyta leikskipulaginu. Ég vill fara í 3-5-2 eða 3-5-1-1. Þurfum ná tökum á miðjunni. Ég heyrði að Peter Chech verði kannski hvildur. Vona Liverpool vinni og Carroll eigi frábæran leik svo hann verði valinn í enska landsliðið 🙂

 11. Verð aðeins að leiðrétta commentið mitt hér að ofan en þessir drengir eru víst 20 og 22ára.
  BjarniJói#14 er sammála þér með spearnig, veit að hann verður örugglega aldrei fyrstur niður á blað þegar liðið er valið fyrir leik en örugglega fínt að hafa hann á bekknum, því hann má eiga það að hann leggur sig alltaf 100%fram þegar hann fær tækifæri en hann var því miður númeri of lítil í leiknum um helgina.

 12. Mér var sagt að KD hefði ekki fengið þessa gaura,Adam, Henderson og Downing til Liv heldur náunginn sem fór frá Liv, fyrir stuttu (man ekki hvað hann heitir og nenni ekki að pæla í því) hann var aðal maðurinn í að fá þessa DÚDDA. Um að gera að taka Che$$$$$$$ og það stórt, spila með hjartanu og fyrir ánægðuna, eða þannig.

 13. Það er skrítið að í efstu deild í dag þá eru allir tilbúnir að bíða eftir að menn verði góðir, ég veit ekki hvað er búið að segja þetta um marga leikmenn Liverpool á undanförnum árum en þeir eru fleiri en 10. Og á þessu tímabili eru þeir allavega 7. Alltaf heyrist það sama, bíðum eftir þeim, hann á eftir að vera góður, hann er svo ungur og bla bla bla. Það er enginn í top 4 liðunum sem beðið er eftir að verði góður. Þeir sem settir eru inn á eru annaðhvort tilbúnir í verkefnið eða ekki. Undantekningin er kannski Ferguson, hann hefur prófað sig áfram einn og einn leik með menn sem passa ekki inn, en þeim er hinsvegar refsað fyrir slæman árangur. En Liverpool gefur mönnum eins og Henderson fleiri hundruð mínútur án þess að nokkur skapaður hlutur kemur út úr því. Eins er það þannig að ef gefa á ungu leikmönnunum séns þá þýðir ekki að setja þá inn á þegar liðið er fullt af kjúklingum. Ungu leikmennirnir þurfa að mótast inn í liðið í blöndu við þá gömlu. Þess vegna er fáránlegt þegar sett er upp miðja með Shelvey, Henderson, Spearing og mitt í svoleiðis súpu óreyndra manna þá er Sterling hent inn á. Manni eins og Sterling þarf að spila í liðið á meðan bestu leikmennirnir eru inn á. Lucas fékk t.d. 2 tímabil til að verða góður og allan tíman bitnaði það á liðinu þó svo að það hafi orðið honum sjálfum til góðs. Eins hefur tilvist Henderson bitnað á liðinu allt tímabilið en að sjálfsögðu verður það honum til góðs in the long run. En það er bara ekki tími eða peningur til þess að eyða 2-3 tímabilum í að móta menn inn í liðið. Annaðhvort eru þeir klárir í þetta eftir tvítugt eða ekki.
  Eins er það með aðra leikmenn, sú afsökun að nýjir menn sem spila undir pari eigi eftir að venjast enska boltanum er gömul og úr sér gengin. Annaðhvort ertu leikmaður fyrir efstu deild á Englandi eða ekki. Miðað við þetta tímabil þá er augljóst að Adam, Spearing, Henderson, Flanagan, Downing, Kuyt, Coates, Enrique og Shelvey eru ekki með það sem til þarf til að spila fyrir Liverpool FC í efstu deild. En ef við erum sáttir við þá afþví að þeir eru rauðir þá verðum við sem aðdáendur einnig að sætta okkur við að Liverpool liðið er í raun þetta reikningsdæmi: Sunderland + Suarez = Liverpool

 14. Hendi þessari langloku minni hérna megin líka til að missa ekki af lestinni í umræðunni 🙂

  @ Hjalti (#140)

  Við erum ekkert sérlega ósammála í grunninn. En blæbrigðin skipta máli þegar á hólminn er komið. Það er hægt að spila margs konar 4-4-2, með pass & move eða hoof & hope. Sóknarsinnað eða varnarsinnað. KKD hefur stílað inn á hið jákvæðara við 4-4-2 en Hodgson hið neikvæða.

  En 4-4-2 er afar fyrirsjáanlegt kerfi enda verið lengi í notkun. Lið sem sætta sig við jafntefli mæta því einfaldlega með 4-5-1 eða jafnvel 4-6-0 eins og Stoke. Þétta miðjuna og þrengja kantana. Það hefur reynst okkur erfitt að brjóta slíkt niður því að það reynir á einstaklingininn að vinna sinn bardaga við mótherjann og hjálparvörn. Hvort sem það snýst um gæði kerfisins eða leikmanna þá er niðurstaðan jafn slæm fyrir því.

  4-2-3-1 reynir a.m.k. að koma til móts við þetta með því að hafa 4 víglínur af leikmönnum í stað 3 í 4-4-2. Reyna að finna flinka og skapandi menn sem finna pláss bakvið varnarsinnaða miðjumenn andstæðinganna og ná sóknarstöðum framar á vellinum. Svo breytist það í 4-5-1 þegar þarf að verjast án bolta. Það er einnig sveigjanlegra ef gera þarf breytingar í miðjum leik. Auðvitað þarf rétta leikmenn í þetta kerfi en það gildir um öll kerfi.

  Við erum eins og einfættir sjóræningjar í 4-4-2 verandi ekki með öfluga vængmenn beggja megin. Ógnin verður að vera upp báða kanta til að þetta virki. Flestir okkar manna henta betur í vængframherjastöðu líkt og Maxi, Kuyt og Bellamy. Downing er eini sanni vængmaðurinn og hann hefur átt afar slakt tímabil. Að böðlast með Henderson á kantinum í 4-4-2 er ótrúlega takmörkuð taktík. Niðurstöðurnar tala sínu máli.

  Það eru fá topplið sem beita 4-4-2 í dag og helst er það Tottenham sem notast við það og stundum ManYoo. En bæði þessi lið hafa úrvals vængmenn í Bale, Lennon, Young, Valencia og Nani ásamt frábærum leikstjórnendum á miðjunni í Modric og Scholes. Það hjálpar til við að láta kerfið ganga upp.

  Sama má segja um fyrri topplið sem beittu 4-4-2 líkt og ósigrandi lið Arsenal 2004 og ManYoo frá 1999. Lið með Pires & Ljungberg (og Overmars þar áður) og svo Giggs og Beckham. Heimsklassa vængmenn með ógn upp báða kanta. Þessi lið höfðu líka gríðarlega sterk miðjupör í Viera & Petit og Keane & Scholes og framherjapar sem starfaði sem einn heild í Henry & Bergkamp og Cole & Yorke. Þetta er hægt en það þarf sérlega góða menn í þessar stöður.

  En ef menn vilja endilega notast við strækera-par þá hefði verið áhugavert að sjá uppstillingu af þremur miðvörðum og vængbakvörðum í 3-5-2 líkt og Conte er að brillera með hjá hinum ósigrandi Juventus í vetur. Þar hefur hann leitast við að sníða sitt leikkerfi að helstu styrkleikum þess hóps sem hann er með í höndunum. Sjá þessi fínu skrif um það.

  Það er í raun margt sameiginlegt með þessum lausnum Conte og því sem gæti hentað LFC. Eigum alveg 3 öfluga miðverði, ágæta sóknarbakverði sem eru takmarkaðir varnarlega, þriggja manna miðju (Gerrard fremstur) og svo öflugt sóknarpar. Napoli hafa einnig verið að gera skemmtilega hluti með útfærslu af 3-4-3 það gæti alveg gengið líka með Carroll = Cavani, Surarez = Lavezzi og Gerrard = Hamsik.

  Mér finnst í það minnsta flest betra en að böðlast í 4-4-2 verandi ekki með vængmenn í það í von um að endurtaka velgengni fyrri ára. Öll vel úthugsuð kerfi sem sýna lausnir miðaðar að því að ná því besta út úr okkar leikmönnum eru í fínu lagi mín vegna. Þá þarf “bara” stjórinn að ná upp góðum móral og sigurvilja og leikmenn að sanna sig. Easy… eða þannig.

 15. Sammála Peter Beardsley hé varðandi grundvallaratriði í 4-4-2 leikkerfinu, en veit samt ekki alveg hvort ég er sammála því að rangt sé að spila það út frá þeim leikmannahópi sem nú er á Anfield. Kemur þar tvennt til:

  Annars vegar er það að liðið okkar er ekki til þess fallið núna að leika þriggja manna vörn. Bæði er enginn alvöru sweeper í leikmannahópnum og að auki er Enrique vonlaus Wing-back og Kelly í rauninni líka. Bara Johnson gæti leyst þessa stöðu. En vandinn liggur líka í því að 3-5-2 kerfi hefur átt erfitt með að verjast leikkerfinu 4-5-1 sem ansi mörg “litlu” liðin leika í Englandi þar sem þá er sótt á ansi fáum mönnum. Svo 3-5-2 þyrfti líka styrkingu í leikmannahóp. Kerfið 4-2-3-1 sem við höfum reynt að spila í vetur virkar ekki eftir að DM leikmaðurinn sem getur líka borið upp bolta meiddist og/eða kantstrikerarnir okkar hitta ekki hlöðudyr og eiga erfitt með að krossa. Þannig að í öllum þessum kerfum er leikmannahópurinn okkar ekki nógu breiður. Út frá því tel ég að við eigum að reyna að aðlaga kerfi að ellefu bestu leikmönnunum okkar og þar sem Carroll og Suarez eru í þeim hópi og eru að ná ansi vel saman finnst mér 4-4-2 vera best í stöðunni.

  Kenny Dalglish er íhaldssamur þjálfari og vill spila 4-4-2 í mörgum leikjum. Helsta gagnrýni okkar allra sem þó elskuðum Rafa var að hann væri of varfærinn í leikkerfi sínu gegn “litlu” liðunum og því held ég að við eigum þá ekki að ergja okkur á því að verið sé að reyna að vinna á því, þó ekki alltaf hafi gengið vel. Hins vegar ef að meining stjórans og þjálfarateymisins er að þetta leikkerfi sé eitthvað sem verður til framdráttar þá má líka líta á það að með því að spila það í vetur verði fleiri leikmenn í hópnum tilbúnir þegar við fáum inn nauðsynlega leikmenn. Fjögurra manna vörnin ætti auðvitað að vera í fínu lagi með þann hóp sem við eigum (þó LB sé enn einu sinni að klikka). Við eigum senterana tvo sem nýtast í kerfinu og miðjan okkar hefur virkað skást (CM-stöðurnar) í þessu kerfi þar sem boltinn fer mikið út á kanta eða yfir miðjuna.

  En hins vegar vantar nú heldur betur kantmennina til að fullnýta þetta kerfi og ef að það á að virka tel ég að við þurfum minnst tvo slíka af háum gæðum, þá virkar 4-4-2 gegn minni liðunum og við eigum þá líka vonandi séns í 4-2-3-1 þegar þess þarf.

 16. Leikmenn sem koma til Liverpool eiga að vera í heimsklassa. Ég gæti frekar hugsað mér að Henderson væri á bekknum og myndi stimpla sig inn eftir 2-3 ár. Dæmi er Lucas, það voru ekki allir sáttir með hann fyrst. Í dag er maðurinn í heimsklassa þegar hann spilar. Það taka bara svo fáir eftir því.

 17. Núna skil ég af hverju Everton aðdáendur eru svona hræðilega bitrir! Að vera að berjast um 7-9 sæti er einhvað það ömurlegasta sem að ég veit um……….

 18. @ Maggi (#19)

  Hugmyndin með 3-5-2 var að hjálpa vörninni með því að fjölga miðvörðum með Skrtel-Agger-Carra eða Coates, en einnig að taka burtu okkar veikleika sem hefur verið varnarleikurinn hjá Johnson og Enrique sem sókndjarfir bakverðir. Höfum bara haldið 2 sinnum hreinu í síðustu 17 leikjum í öllum keppnum sem er afar slæmt.

  Með þrjá á miðjunni þar fyrir framan þá væri þetta nokkuð þétt en allir geta samt sótt fram ef tækifæri gefst vitandi að þar er ágætis fjöldi fyrir aftan (Agger getur tekið sín Hansen-hlaup, Gerrard sótt úr djúpinu, bakverðir farið samviskulaust fram án áhyggja). Mætti jafnvel athuga að spila Downing sem wing-back enda samviskusamur varnarlega og sérstaklega þar sem Enrique er að spila svona illa. Til að toppa þetta þá væri sóknartvíeyki sem framherjapar sem mörgum þykir eftirSÓKNARvert 🙂

  Dalglish prufaði tvisvar á síðasta tímabili að vera með 3 miðverði fyrra skiptið var 0-1 sigur á Stamford Bridge en hitt var 3-1 tap gegn West Ham á Upton Park. Margir vildu reyndar eigna Steve Clarke þessa taktísku breytingu en hver veit svo sem um það eignarhald.

  En til viðbótar þá hefur oft verið mælt með 4-4-2 sem kerfi sem hentar mörgum því allir þekki það svo vel. Það er rétt að þetta er auðvelt kerfi sem allir þekkja en í raun eru það bara nokkrir leikmenn sem hafa verið að spila á því kerfi í gegnum tíðina að einhverju ráði: Downing og kannski Henderson. Kannski líka Johnson hjá Portsmouth undir Redknapp og Gerrard & Carra frá Houllier árunum. Sem sagt aðallega Tjallarnir og þá ekkert svo svakalega mikið. Aðrir hafa oftast spilað í öðrum kerfum með einn uppi á topp, mann í holunni eða vængframherja. Allir sem Rafa stýrðu voru öðru vanir en 4-4-2, Carroll var oftast einn uppi á topp með Newcastle, Suarez var í Ajax-kerfinu 4-3-3 og ýmsum með Uruguay, Adam í þriggja manna miðju hjá Blackpool o.s.frv.

  4-4-2 spilar því ekki beint inn á comfort level hjá meirihluta hópsins okkar því ef eitthvað er þá eru þeir flest allir vanari annar taktík en þeirri al-enskustu. Og fyrst við höfum ekki öfluga vængmenn né stórgott tvíeyki tæklara/leikstjórnanda á miðri miðjunni þá sé ég þetta kerfi ekki sem góða lausn þrátt fyrir menn vildu hafa litla-stóra tvíeyki uppi á toppinum. Það gæti gengið í stökum leikjum eins og dæmin sanna en heilt yfir er ekki heppileg framþróun að mínu mati að notast við 4-4-2.

  Að því sögðu þá munum við næsta pottþétt vinna með þannig uppstillingu í kvöld múahahaha Vonum það a.m.k. því ég hef ekkert á móti því að hafa rangt fyrir mér ef að það er Liverpool í hag 🙂

  YNWA

 19. Er ekki dálítil mótsögn í því að óska sér að ungir leikmenn séu á bekknum í tvö til þrjú ár og gera síðan kröfu um að þeir stimpli sig inní liðið eftir þann tíma. Þurfa ungir leikmenn einmitt ekki spilatíma og einnig þolinmæði aðdáenda til þess að þroskast og verða betri leikmenn?. Lucas er einmitt dæmi um slíkan leikmenn sem fékk talsvert að tækifærum undir stjórn Benitez þrátt fyrir gagnrýni aðdáenda liðsins. Í dag er hann klárlega einn mikilvægasti leikmaður liðsins.

  Til að bæta aðeins við þessa umræðu um taktík, þá tel ég vandamál Liverpool ekki liggja í hvaða taktík liðið spilar enda skiptir eru flestir knattspyrnustjórar í dag ekki að velta sér uppúr hefðbundnum leikkerfum sbr. 4-4-2 eða 4-3-3 o.s.frv. Það sem stjórar leggja áherslur á eru leikstílar þ.e. hvar ætlar lið að draga varnarlínu, hve djúpt á að falla, hvernig á færist liðið þegar bolti er í ójafnvægi vs. jafnvægi. Ætlar liðið að spila fyrst djúpt áður en það sækir á breiddina, á að halda e-m ákveðnum svæðum opnum þegar sótt er upp á ákveðnum svæðum, sækja hratt, hvernig skal liðið bregðast við þegar bolti er unninn á ákveðnu hluta leikvallar, hvernig ætlar að liðið að yfirmanna ákveðin varnarsvæði?

  Stór hluti af tíma þjálfara fer í að innprenta þessi atriði í leikmenn með ýmsum afbrigðum af æfingum. Skiptir engu hvort að liðið spili 4-3-3 eða 4-4-2. Ef menn eru með þessi atriði á hreinu, þá eru þeir klárir á hlutverki sínu og þá skiptir í raun ekki höfuðmáli hvert taktíkin er. Þarna held ég að helsta vandamál Liverpool blasi við. Það er engin markviss leikstíll í gangi. Þar af leiðandi eru leikmenn liðsins óvissir á hlutverkum sínum, gera fleiri mistök, sem síðan leiðir til minnkandi sjálfstrausts.

  Það sem síðan þarf að gera er að kaupa leikmenn til liðsins sem hentar þeim leikstíl sem liðið ætlar að tileinka sér. Þannig er líklegra að nýjir leikmenn komi til með að aðlagast betur þar sem þeir eru keyptir þar sem þeir henta leikstílnum en ekki einhverju ákveðnu leikkerfi.

 20. Varðandi alla ungu leikmennina hjá klúbbnum þá gerast góðir hlutir hægt.
  Carroll (23) Henderson (21) Coates (21) Spearing (23) Flanagan (19) Kelly (22) Shelvey (20). Flest allir þessir leikmenn eiga bjarta framtíð fyrir sér á knattspyrnuvellinum.
  Þessir strákar hafa allir fengið að spila eitthvað á tímabilinu, mis mikið og það er ekki hægt að ætlast til að þeir eigi stjörnuleik viku eftir viku.

  Eins og búið er að benda á þá voru afskaplega fáir sem að höfðu trú á að Lucas ætti eftir að verða sá lykilleikmaður og hann er fyrir klúbbinn í dag. Ég er þar engin undantekning og blótaði honum í sand og ösku á sínu fyrstu árum, það sama á við um ungu strákana í dag.
  Menn verða að vera tilbúnir í að gefa þessu strákum tíma til að þroskast og gera sín mistök.

  Liðið hefur sýnt á tímabilinu að það getur spilað mjög góðan bolta og fyrir mér er þetta tímabil svona stöngin út tímabil í orðsins fyllstu merkingu.
  Þrátt fyrir gríðarlega svekkjandi úrslit og mikil vonbrygði þá efast ég ekki um að liðið er á réttri leið og sú leið liggur eingöngu uppávið.

  Mestu vonbrygðin á þessu tímabil eru ekki ungu leikmennirnir heldur Adam, Enrique og Downing, þetta eru vel þroskaðir leikmenn og ekki lengur hægt að tala um þá sem unga og efnilega. Þetta eru leikmennirnir sem eiga skilið mestu gagnrýnina. 3 byrjunarliðsmenn sem að brugðust liðinu gjörsamlega og gerðu nánast ekkert rétt allt tímabilið.

  En framtíðin er björt með góðu eignarhaldi og ungum og virkilega efnilegum strákum, eins og ég sagði góðir hlutir gerast hægt.

  Leikurinn fer 3-1.

 21. Spearing verður pottþétt inná.
  Ég hugsa að hann setji Kuyt í stað Drowning.

  Annars jú við viljum reyna að vera fyrir ofan þá Bláu í borginni!

  YNWA!

 22. Vá get ekki beðið eftir því að sjá Andy Carroll slátra Chelsea vörninni í kvöld.

 23. @ einare (#23)

  Góðir punktar og vel framsettir. En ég tel að þetta hangi allt á sömu spýtunni: leikkerfi, leikstíll, styrkleiki leikmanna og leiðbeiningar til þeirra. Hin heildræna taktík er samblanda af þessu öllu en til að einfalda hlutina er þetta oft stytt í stykkorðin 4-4-2 eða 4-2-3-1 því við gefum okkur að flestir viti um hvað er rætt þar að baki.

  X-faktorinn sem toppar alla taktík er svo stemmning, sjálfstraust og mórall leikmanna og áhangenda. Getur stillt upp í öll heimsins kerfi eða pælt í leikstíl en leikmenn verða að hafa trú á því sem þeir eru að gera og að það sé hin rétta leið til árangurs. Ég held einmitt að sú trú hafi verið blússandi mikil þegar Dalglish tók við en hafi hægt og sígandi fjarað út. Það er erfitt að endurheimta trúnna ef hún á annað borð er farin og þar finnst mér liggja stórt spurningamerki yfir KKD.

  Ég er líka sammála þér með það að liðið skorti leikstíl eða sitt “identity”. Mér finnst einmitt vanta þessa heildarmynd á liðið og hver hin raunverulega stefna/stíll er. 4-4-2 og bresk bylting eða 4-2-3-1 og moneyball? Auðvitað er hægt að spila á fleiri en einni taktík milli leikja, en maður sé ekki þennan heildarbrag sem liðið hafði hjá Rafa og önnur lið hafa eins og undir Wenger, Sir Alex, Wenger, Mourinho o.fl. Sterk karaktereinkenni stjórans yfirfærist á hans lið. Mér finnst þetta vanta hjá Dalglish eða í það minnsta er það ekki að virka sem skyldi. Manni finnst sem liðið hafi tekið skref afturábak frá því að KKD tók við að og það eykur á óvissu um framtíðina.

  Eins og þú nefnir líka með ungu pjakkana þá hafa þeir mun minna verið að fá sénsa frá fyrra tímabilinu. Ekki þar með sagt að þeir þurfi að byrja inná en kannski að koma af bekknum til að fá smjörþefinn og reynsluna af þessu. En þá þurfa þeir líka að fá pláss á bekknum!

  Ég skil t.d. ekki af hverju í síðustu ca. 10 leikjum að við erum alltaf með 3-4 varnarmenn á bekknum. Gegn Norwich, QPR og WBA þá voru 3 varnarmenn á tréverkinu og heilir 4 í leikjunum gegn Fulham og Blackburn. Við vorum að stilla upp varaliði gegn Fulham og við höfðum 3 bakverði á bekknum! Og samt fékk Robinson ekki að koma inn fyrir Aurelio heldur var það Enrique.

  Sama gegn Blackburn sem var hvíldarleikur útaf Wembley vs. Everton. Þá voru þrír örfættir varnarmenn ásamt Carra á bekknum og ég skil ekki alveg þörfinni á þess háttar “dýpt” í varnarstöðurnar. Nær að gefa Sterling, Coady, Morgan, Suso eða öðrum kjúklingum séns bekknum og kannski að fá nokkrar mínútur ef tækifæri gefst. Sérstaklega í svona leikjum. Ef þessir pjakkar bugast of auðveldlega þá eru þeir einfaldlega ekki nógu sterkir fyrir toppklassann. En við vitum það ekki nema láta á það reyna.

 24. Smá innskot: Mauricio Pellegrino sem lék nokkra leiki með Liverpool á sínum tíma og var einnig þjálfari undir Benítez um skeið er tekinn við Valencia. Gaman af því.

 25. Ég er með góðar upplýsingar beint frá klúbbnum og skilst að Unai Emery verði ráðinn að tímabilinu loknu.
  Hinsvegar er maður lítið spenntur fyrir leiknum enda nánast tilgangslaus!

 26. Staðfest lið : Reina, Carragher, Agger, Skrtel, Johnson, Henderson, Maxi, Downing, Shelvey, Suarez, Carroll

Breytingar á ummælum

Liðið gegn Chelsea