BIKARÚRSLIT á morgun

Búmm, búmm, búmm, búmm…eru einhverjir fleiri sem eru með c.a. svona hjartslátt þegar þeir hugsa um morgundaginn. Það er ekkert tikk, tikk í gangi, spennan er bara að komast í hæstu hæðir. Mikið hrikalega er gaman að gíra sig upp fyrir ÚRSLITALEIKI og í mínum huga þá er maður ekki einu sinni að hugsa út í lélegt deildarform á þessum tímapunkti. Tilfinningin fyrir svona úrslitaleiki, ég tala nú ekki um þegar við vinnum þá, er bara algjörlega einstök og það jafnast akkúrat ekkert á við hana. Það er bara merkilegt hvað þessi íþrótt, þetta fótboltafélag, getur haft jafn mikil áhrif á mann og raun ber vitni. Nú þegar er maður búinn að spila úrslitaleikinn nokkrum sinnum í huganum, og vafalaust á maður ekki eftir að sofna alveg strax í kvöld þegar maður leggst á koddann, nei það verður farið í gegnum leikinn, uppstillingar og taktík. Ekki það að það hafi nokkuð að segja, því það er víst King Kenny sem sér um þá hlið á morgun, nei, en svona tekur maður engu að síður þátt í þessu öllu saman.

Nú hef ég farið á nokkra úrslitaleiki með Liverpool í gegnum tíðina, og mér finnst persónulega miklu erfiðara að vera hérna á klakanum þegar líður að leiknum og jafnvel á leiknum sjálfum. Ef maður er á staðnum, þá er maður bara á fullu í stemmningunni í öllu “build up” fyrir leikinn, og svo á leiknum sjálfum þá er maður partur af stórum kór sem leyfir sér mun minna að vera stressaður, því þar gildir bara ein regla, styðja liðið áfram. Hérna heima nagar maður neglur í marga daga fyrir leikinn, hnúturinn í maganum bara herðist og herðist og svo þegar flautað er til leiks þá er spennan orðin hreint yfirþyrmandi. Kannast einhver við þetta? Hélt það.

Leið Liverpool í úrslitaleikinn hefur ekkert verið neitt sérlega auðveld, þær eru það sjaldnast, en ánægjuleg var hún, Guðmundur góður. Það hefur verið sérlega sætt á þessari leið okkar að hafa slegið út 2 erkifjendur okkar, Man.Utd og svo Everton í undanúrslitum. Fyrst reyndar unnum við Oldham og inn á milli erkifjandanna kom leikur við Brighton og svo leikur gegn stórkallaliði Stoke, sem sjaldnast eru neitt léttir leikir. Nú er svo röðin komin að Chelsea, sem eru í raun í þriðja sæti hjá mér yfir þau lið sem ég hef minnst þol fyrir. Leið Chelsea hefur verið svona: Portsmouth, QPR, Birmingham (2 leikir), Leicester og Tottenham. Það er sem sagt smá munur á leið liðanna í úrslitaleikinn. En hvað um það, ekkert af þessu skiptir máli á morgun þegar í leikinn er komið, akkúrat ekki neitt. Þá er það dagsformið sem gildir.

Meiðslalistinn okkar er óvenju lítill, einungis þeir Lucas og Adam sem eru báðir frá út tímabilið. Mér skilst að allir séu heilir hjá Chelsea, reyndar er Gary Cahill sagður tæpur og að Luiz ætti að ná leiknum, annars verða mótherjar okkar með fullskipað lið. Enginn mér að vitandi er í leikbanni, þannig að það verður einfalt dæmið á morgun, ALL IN. Bæði lið hafa á að skipa fullt af frábærum leikmönnum og því mun þessi leikur fyrst og fremst snúast um hausinn á mönnum, hugarfarið. Menn geta sett fram hvaða taktík sem er í svona leikjum, ef hugarfarið er ekki rétt, þá virkar ekki neitt. Auðvitað skiptir taktík alltaf miklu máli, en hausinn á mönnum er það sem skiptir mestu máli þegar út í svona lagað er komið. Nú þarf að skrúfa toppstykkið rétt á, menn verða að sýna meiri grimmd og áhuga heldur en t.d. sást í leiknum gegn Fulham, annars fer þetta illa, mjög illa. Bæði liðin koma inn í leikinn með töp úr deildinni á bakinu, þannig að það núllast nokkurn veginn út, kannski ætti þetta reyndar að koma aðeins meira niður á Chelsea þar sem tap þeirra í síðasta leik gerði út um vonir þeirra um sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili, allavega í gegnum deildarárangurinn. Eins og sást í okkar leik gegn Fulham, þá virðist mönnum vera nokkuð sama hvort þeir lendi í sjöunda eða áttunda sætinu (eða hvaðan af verra), sem er auðvitað galinn hugsunarháttur. En hvað um það, ekkert af þessu skiptir máli á morgun.

Það verður erfitt að ráða í það hvernig stjórarnir koma til með að stilla upp liðum sínum. Ég hræðist mest Drogba að vanda og það er oft fáránlega erfitt að ráða við kauða. Martröðin væri ef Torres myndi setja mörk í andlitið á okkur og tryggja Chelsea sigurinn, en ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda. Þeir munu án vafa setja sitt sterkasta lið inn á völlinn, það er ennþá það langt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar að þeir eiga ekki eftir að hvíla menn fyrir þann leik. Ekki þurfa þeir heldur að hvíla menn fyrir deildina út af fyrrgreindum ástæðum. Þannig að við eigum eftir að sjá Chech, Terry, Cole, Lampard, Ramires, Drogba og co alla inná, bara spurning hverjum verður stillt upp með þeim. En stærsta spurningin í mínum huga er hvort þeir verði með bæði Torres og Drogba inni, mér finnst það líklegt ef ég á að segja alveg eins og er.

En að okkar mönnum. Sitt sýnist hverjum um hvernig stilla eigi upp liðinu. Reina kemur aftur inn í markið, Johnson verður hægra megin og ég held að Enrique verði vinstra megin. Auðvitað gæti verið að Agger yrði þar eins og um daginn, með þá Skrtel og Carra í miðvörðunum. Ég er þó að vonast eftir þeirri varnarlínu sem hefur staðið sig best í vetur og í henni eru þeir Skrtel og Agger miðverðir. Ég sé þó ekki Kenny hafa Carra utan liðsins, bara er ekki að sjá það gerast. Ég er líka nokkuð viss um að Spearing verði inni í byrjunarliðinu hjá Kenny, þó svo að hann sé ekki í mínu drauma byrjunarliði. Kuyt og Maxi voru nú ekki beint að þrýsta fast á sæti í liðinu í síðasta leik, þannig að ég yrði afar hissa á að sjá þá hefja leikinn. Ég ætla því að gera eins og oft áður, koma með liðið eins og ég vil sjá því stillt upp og svo hvernig ég held að Kenny geri það. Svona er mitt lið:

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Henderson – Gerrard
Downing – Suárez – Bellamy
Carroll

Já, þetta er mitt draumalið. Sumir fussa yfir því að Downing sé í því, en ég set hann inn fyrst og fremst út af því að hann er því miður einn af fáum sem býr yfir hraða, og við verðum að hafa hraða á vængjunum í þessum leik. Af sömu ástæðu set ég Bellamy í byrjunarliðið. Reyndar er spurning hvor yrði uppi á toppnum, Carroll eða Suárez, gæti trúað að það myndi virka bara ágætlega að láta Carroll droppa aðeins niður til að taka á móti boltanum og skapa pláss fyrir bæði vængmennina og eins Suárez. En svona held ég að Kenny hugsi þetta:

Reina

Johnson – Skrtel – Carragher – Agger

Henderson – Spearing – Gerrard – Downing

Carroll – Suárez

En ekki ætla ég að reyna í eina mínútu að halda því fram að ég hafi meira vit á þessum hlutum en sjálfur Kenny Dalglish, ekki séns. En það breytir ekki því að maður hefur skoðun á hlutunum. Ég vil ekki sjá Henderson oftar á hægri kantinum, og persónulega finnst mér Jay Spearing ekki vera nægilega góður fyrir byrjunarlið Liverpool FC, hvað þá í úrslitaleik gegn Chelsea. Mér finnst í rauninni Jordan Henderson hafa allt það sem Spearing hefur, og sendingagetu og staðsetningar fram yfir hann.

Mikið ferlega er maður orðinn spenntur fyrir þessum leik. Mér er algjörlega sama hvernig á hvaða hátt við gerum það, fallegan, ljótan, heppnis, dómaramistök, ég vil bara sjá Steven Gerrard lyfta FA bikarnum hátt á loft um kvöldmatarleytið annað kvöld. Mjög einfalt. Ég vonast þó til að við sigrum án þess að fara í vítakeppni, því ég hreinlega held að ég hafi ekki taugar í eina slíka í viðbót, nóg er maður nú yfirspenntur samt yfir sjálfum leiknum. Við höfum sigrað Chelsea tvisvar sinnum á þeirra heimavelli í vetur, allt er þegar þrennt er og bið ég til Fowlers að svo verði. En naglanag verður áfram hlutskipti mitt í meira en sólarhring og ætli maður verði ekki búinn að éta af sér heilu og hálfu hendurnar þegar úrslitin verða ljós. Þetta er ekki flókið, tímabilið er undir á morgun, við VERÐUM að sigra til að geta horft tilbaka með sæmilega sáttum augum. Tveir titlar á einu tímabili væri frábær árangur, einn League Cup er bara sæmilegur árangur. Svona er nú stutt á milli og ég held að Kenny viti það manna best, og ég held að allir leikmenn liðsins viti það.

Ég fer ekki fram á mikið, ég fer fram á að hver einasti leikmaður, þjálfari og stuðningsmaður Liverpool Football Club leggi sig 150% fram í þessari viðureign. Það á enginn að vera nálægt neinu öðru en því að vera uppgefinn af þreytu þegar leikurinn verður flautaður af. Síðustu kraftar Steven Gerrard eiga að fara í það að lyfta bikarnum á loft, og síðustu kraftar hinna leikmannanna fara í að labba upp þrepin á Anfield South. Síðustu kraftar okkar stuðningsmanna verður að syngja sönginn okkar í leikslok.

Ég veit ekki hvar þið ætlið að vera á morgun, ég veit þó algjörlega upp á hár hvar ég ætla að vera. Ég verð á miðri Górillunni að þenja raddböndin og ég ætla að vera mættur snemma þangað. Maður dælir í sig einu ostborgaratilboði með öli upp úr klukkan 12, og svo fer maður í gírinn. Ég hvet alla Poolara sem vettlingi geta valdið að mæta á svæðið og mynda ógleymanlega stemmningu, við kunnum það svo sannarlega við Poolarar á Íslandi. Sem sagt, tilboð verður á Górillunni á morgun á milli 12 og 14, ostborgari og öllari á 990, milli 14 og 15 verður svo 2 fyrir einn á Egils Gull og þá ætti maður að vera orðinn algjörlega klár í slaginn.

Úff, ég get ekki beðið, bring it OOOOOOOOOON.

Wem-ber-lee, Wem-ber-lee
We’re the greatest team in Europe and we’re going to Wembley
Wembley, Wembley
We’re the greatest team in Europe and we’re going to Wembley
Wembley, Wembley
We’re the greatest team in Europe and we’re going to Wembley

YNWA

65 Comments

 1. Oooooooooooooh. Þá er Leonídas SSteinn búinn að keyra mannskapinn upp fyrir stríð.

  “Eat your breakfast and eat it well, men, for tonight … we dine in hell!”

  Nú má morgundagurinn koma! Þetta helvítis Chelsea-lið er FYRIR og það verður einhver að taka að sér að leggja þá á Wembley. Alveg eins gott að rauði herinn geri það!

  #RuglSpenntur

 2. Spài þessu 3 1 fyrir Chelsea því miður. Held þeir séu bara sterkari en við. En guð minn almáttugur ef Torres setur hann á morgun. Held að þessi leikur gæti haft mikil áhrif a LFC og nánustu framtíð klúbbsins.

 3. Þetta verður rosalegur leikur!!!!!!!!!
  Em mig langaði að spurja að einu varðandi gorilluna er buið að taka fra öll borð inná staðnum?
  YNWA!!

 4. Nei, þeir lofuðu því að þetta yrði einfaldlega fyrstir koma, fyrstir fá (nema auðvitað dælubásarnir 3). En þeir áskilja sér rétt til þess að vísa af borðum ef ekkert er verslað, enda verður margt um manninn þarna.

 5. Af hverju spá sumir Liverpool menn sjálfum sér tapi!?
  Á aldrei eftir að veðja á tap GEGN mínu eigin liði, er greinilega ekki með þessa svakalegu spádómsgáfu sem sumir hafa og þótt ég hefði hana myndi samt ekki tippa á hitt liðið.

  Liverpool er að fara að vinna þetta pottþétt!

  (og ef þeir tapa þá myndi mér ekkert líða betur með það því að ég tippaði á það)

 6. 3-1 fyrir Liverpool. Terry skorar mark Chelsea og Gerrard, Johnson og Carroll mörk Liverpool. Fói has spoken!

  YNWA

 7. #4 Flott að fá þessar upplýsingar þá veit maður að er vona að geta mætt og nælt sér í borð 🙂
  YNWA!!

 8. Þetta fer í vítaspyrnukeppni. Liverpool vinnur hana og Jamie Carragher skorar sigurmarkið.

 9. Jæja það fer að styttast í þessu. Ákvað að tékka aðeins bikarúrslitaleiknum 2006 á youtube og mæli ég með að horfa á þessa snilld. En þar sem ég var að horfa á bikarúrslitaleikinn datt ég inn á þetta snilldar gæsahúða myndband http://www.youtube.com/watch?v=b1i_xovIohY&feature=related

  Já hvað getur maður sagt. Gjörsamlega ótrúlegt að við skulum hafa unnið þennann leik, en er hægt að vinna leik á skemmtilegri máta, 3 0 undir í hálfleik og hefðum auðveldlega getað lent 4 – 0 undir. En nei nei ekki Liverpool, allavegana ekki þá. Já og ég sakna Sami.

  Eigum við bara ekki að segja að við lendum undir 2-0 á morgun, jöfnum 2-2 og svo skorar Gerrard í framlengingunni. ( þoli ekki enn eina vítakeppnina ; )

  En svo fór ég líka að hugsa um Benitez kallinn. CL meistari 2005, FA cup 2006, úrstlitaleikur í CL 2007 og annað sætið í deildinni 2008 !! Ekki alslæmt.

 10. Frabær upphitun !
  eg er kominn i stridsgir !!!!!!!

  100% sammala ter med tina drauma uppstilingu !

  bring it on ! FOCK YOU CHEALSE FC, YOU AINT GOT NO HISTOIRY !!

 11. Ætli þetta fari ekki í vító! Terry setji einn í smettið á gæjanum með ísinn og við tökum titilinn til Liverpool borgar 😉

  Þetta verður vonandi spenndi! Eina sem ég bið um!

 12. Mega flott upphitun og ég skil hreinlega ekki hvað ég er að gera í einhverju sveitaþorpi í Noregi á svona stundum! Besta lausnin væri hreinlega að opna sportbar hérna, held ég barasta.

  Leikurinn verður fáránlega spennandi, fæ aukinn hjartslátt þegar ég hugsa um þetta dæmi. Ég er algjörlega hlandviss um það að leikmenn Liverpool munu nýta þetta tækifæri og færa okkur stuðningsmönnunum þennan bikar, sérstaklega í ljósi ömurlegs gengis. Þetta er tilvalin leið fyrir þá að segja ,,Afsakið að við erum búnir að gera upp á bak í deildinni”.

  Auðvitað fer leikurinn í framlengingu, þetta er úrslitlaleikur og Liverpool er að spila.
  Vinnum þetta með sigurmarki á 118mín, Suarez!

  YNWA!!!

 13. Djöfull er maður orðinn spenntur. Verður frábær dagur vonandi. En svona er það lið sem ég vona að hann stilli upp:

  Reina
  Agger – Carra – Skrtel
  Glen J Enrique
  Henderson Spearing Aurelio
  Gerrard
  Suarez

  Með þessu 3-5-1-1 liði þá næðum við völdum á miðjunni og myndum gefa johnson tækifæri á að sækja upp kanntinn. Ég mikið að vona að Aurelio komi óvænt inn í byrjunarliðið og verði legend hjá klúbbnum með stórleik í sínum síðasta leik fyrir klúbbinn.

  Þetta er reyndar mjög ólíkleg uppstilling en hver veit….

  Áfram Liverpool!

 14. F#$K OFF CHELSEA FC
  YOU AIN’T GOT NO HISTORY!
  5 EUROPEAN CUPS AND 18 LEAGUES
  THAT’S WHAT WE CALL HISTORY!

 15. Það þarf að stoppa mata og ramires þeir eru að skapa mestu vandræðin deili áhyggjum pistlahöfundar að Spearing verði settur í stöðu Lucas Leiva vona bara að honum gangi vel í því sem og öllum Liverpool mönnum.

 16. Ekki oft sem maður skellir sér beint upp á topp og byrjar aftur frá byrjun eftir að hafa lesið upphitun fyrir fótboltaleik… en önnur umferðin var vel þess virði líka!

  Veit ekki alveg hvort maður á að vonast til að Carroll spili með Suarez frammi. Manni finnst Suarez oft fá pláss þegar Carroll er með en hann þurfti þess nú ekki með á móti Norwich. Ég er með það mikinn hnút að ég get ekki einu sinni spáð í byrjunarlið, hvað þá úrslit… vona bara eins og fleiri að þetta fari ekki alveg í vítaspyrnukeppni. við verðum að vinna þetta fyrr takk fyrir!!!

 17. Góður Steini.

  Algerlega sammála öllu utan þess að ég held mig við það að hryllilegt form Enrique síðustu tvo mánuðina á að þýða bekkjarsetu á morgun. Hvort það er Agger eða óvænt útspil á Aurelio má Kenny svo ráða.

  Sigur er skrifaður í skýin…

  Því miður kemst ég ekki á Górilluna að þessu sinni, en ætla að syngja á Hótel Hellissandi.

  Hástöfum.

 18. ég vona að carroll verði ekki með í byrjunarliðinu á morgun, held að hann hefur ekki það sem þarf fyrir leikinn, veit að margir verða ósammála mér en þetta er mín skoðun.
  annars vona ég að byrjunarliðið verði svona:
  Reina
  Johnson, Skrtel, Agger, Enrique
  Shelvey, Spearing/Hendo
  Downing, Gerrard, Bellamy
  Suarez

 19. Ágætu félagar þá vil ég benda á að við Liverpoolmenn töpum aldrei leik. Við erum bara stundum sigraðir. YNWA

 20. Geggjað stuð. 🙂
  Árangur okkar í bikarkeppnum er legendary og á morgun er úrslitaleikur á móti Torres og félögum.
  Í tilefni dagsins verðum við með fánadag á Akureyri
  og undirskrift á samstarfssamningi Liverpool-klúbbsins og Sportvitans fyrir tímabilið 2012-2013
  Skrautlegasti stuðningsmaðurinn fær treyju í verðlaun (yngri og fullorðin). Markaleikurinn á sínum stað og síðan verður stútfullt af ýmiskonar happdrættisvinningum!

 21. Haldiði að Shelvey verði ekki með á morgun? Mér finnst miðjan með honum, Henderson og Gerrard virka vel í síðustu leikjum. Það myndi þýða 4-3-3 með Carroll á bekknum en það er bara fínt, sama lið og gegn Norwich. Klárlega sterkara en Hann + Suárez frammi.

 22. Vá hvað maður er orðin spenntur,, frábær upphitun hjá SSteinn.
  Mér lýst best á vörnina eins og SSteinn sagði að KK muni nota og best á sóknina eins og SStein vil hafa hana,

  Reina
  Johnson-Skertel-Carrager-Agger
  Downing-Selvey/Spearing-Gerrard-Bellamy
  Suarez-Carroll

  Vonandi Vonandi Vonandi Vonandi Vonandi Vonandi vinnum við
  Ég elska Liverpool

  YNWA

 23. Þessar upphitanir ykkar eru gulls ígildi og koma manni í rétta gírinn, takk fyrir það! Er algjörlega sammála því að leikurinn á morgun snýst um uppgjör Liverpool stuðningsmanna á tímabilinu, sigur þýðir að árangurinn er góður, sigur í tveimur keppnum af þremur sem liðið hóf þátttöku í síðastliðið haust. Tap þýðir að menn horfa á deildarstöðuna og vonbrigði verður niðurstaðan. Auðvitað er það ekki ásættanlegt að vera um miðja deild en ef tveir bikarar bætast í hið stóra og glæsilega bikarsafn á Anfield þá verður það aukaatriði í stóra samhenginu …
  YNWA

 24. Úff maður er ekki búinn að ná að einbeita sér í prófalærdóm alla vikuna útaf spenningi.. Þetta verður svaaaakalegt!
  Glæsileg upphitun eins og alltaf, ég spái þessu 3-3, chelsea kemst í 1-3 og þá stígur Captain Fantastic fram og skorar tvö frá 85-92min. Vinnum þetta svo í vító eftir að Reina ver frá torre$.

  Bring it on!!

  Svo langar mig að benda þeim sem eru frá Höfn í Hornafirði, eða eiga leið hjá, þá er Liverpool staðurinn Kaffi Hornið!
  Tilboð á bjór og The Kop Burger fyrir þá sem mæta í Liverpool treyju, You’ll Never Walk Alone verður spilað á gítar fyrir leik og svo auðvitað hægt að kaupa happdrættismiða eins og á Górillunni.
  http://www.facebook.com/groups/157076427684614/

 25. Mig dreymdi fyrir halfleikstölum í gærdag og það var dadara

  2-1 fyrir Liverpool

 26. Sælir félagar

  Leikurinn fer 1 – 2. Þetta er ekkert flókið bara dálítið erfitt.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 27. Sælir, er staddur í Orlando og er að leita af pöbb sem sýnir leikinn. Er einhver Liverpool snillingur sem veit um slíkan stað?

 28. Frábær upphitun! Get svo svarið að mig dreymdi í nótt að við tækjum Chelsea…ekki slæmur draumur það!

  Takk fyrir King Kenny og co fyrir að koma okkur í úrslitin og bjóða okkur uppá þessa mögnuðu tilfinningu sem fylgir því að komast í þennan úrslitaleik. Við vinnum 3-1.

  Ps. Held að sama liðið og byrjaði League cup leikinn byrji.

 29. Ég segi bara eitt, áfram Chelsea!!
  Vinni þeir á morgun er vonandi ljóst að Daglish tapar starfinu.
  Það verður góður dagur í sögu Liverpoo FC.
  Allt er þegar þrennt er, Hogdson var djók, Daglish var gott val til að taka við af brunarústum hans og vera til vors.
  En nei lifum í draumi og ráðum hann til margra ára.
  Nú þarf að vanda valið, ekki gamla gúrku eins og hogdson. Ekki gamalt LFC legend.
  Heldur ferskan þjálfara og winner. Deschamps er það fyrsta sem kemur upp í minn huga.

 30. Nr. 36 – þú vilt sem sagt að við töpum svo þjálfarinn verði rekinn ? Trúður

 31. Við höfum verið að vinna Che”!”#$ undanfarið en maður getur engu spáð en við tökum þetta er þagggggggggi.?

 32. gRJON tu hlytur ad setja heimsmet i heimsku.Shit hvad svona hugsanir eru vidbjodslegar og manni langar ad skalla tolvuna bara vid tad ad lesa tetta bull

 33. Menn sem halda ekki með Liverpool í hverjum EINASTA leik get nú bara lokað sig inni og sleppt því að tjá sig. Þvílíkt helvítis rugl, maður hristir bara hausinn.

  Koma svo Liverpool. YNWA

 34. Takk fyrir frábæra upphitun. Sammála hverju orði. Koma svo. YNWA

 35. va hvad eg er spenntur !! eg er ut a sjo i norge og leykurinn byrjar ekki fyrr en 18:15 hja mer 🙁
  erum herna 2 fotbolta ahugamenn hinn er chealse fan tannig ad ta verdur gaman ad atast i honum a eftir 😀

  Tetta verdur hørku leykur, ekki spurning ! munid tid eftir seinni leyknum i 8 lida urslitum CL a benitez timanum 4 – 4 svadalegur leykur ! auralio skoradi ur aukaspyrnu fra midju… tetta verdur svoleidis leykur nema ad nuna vinum vid 4-3 😀
  http://www.youtube.com/watch?v=OOrruqFA5Pc&feature=related

 36. Frábær upphitun!
  Klukkan er 9:30, maður á að vera að læra fyrir vígalegt próf en hvað gerir maður fer á kop.is og skoðar síðan allt sem tengist liverpool á netinu. Djöfull vona ég innilega að við vinnum þennan leik, BIKAR og sigurvíma og í leiðnni slá út þetta glæpahyski sem kallar sig bissnessman (roman) og þá erum við búin að slá út úr þessari keppni þau þrjú lið sem maður þolir hvað verst. Vona að Andy C. byrji með Suarez í dag, þvi hann mun skora í þessum leik ef hann byrjar, ég er alveg viss um það. Klára þennan leik, enda tímabilið á HIGH og halda svo áfram að byggja upp liðið fyrir næsta tímabili. Við erum á réttri leið og sigur í dag myndi gera mikið fyrir klúbbinn í heild sinni og komast nær því markmiði sem allir stefna að, að vera nr. 1. í öllum keppnum.

  Koma svooo!!! Áfram LFC!

 37. Arró. Leikurinn er sýndur á ESPN, svo hann ætti að vera sýndur á flestum pöbbum í USA. Veit reyndar ekki um neinn, en vona að þetta hjálpi eitthvað.

 38. David Ingi. Orlando er 4 tímum á eftir Íslandi þannig að leikurinn byrjar þar kl 12.15.

 39. Þvílík spenna………….. Ég hef beðið eftir þessum leik frá 1. ágúst 2011 frá því maður fór að pæla í hvernig þetta tímabil mundi ganga hjá Liverpool. Var sannfærður um að FA-bikar kæmi í hús. Nokkrar hindranir hafa verið vikið úr vegi. Ein eftir.

  Nú er komið að úrslitaleiknum, eftir 280 daga eða 403.830 mínútum þegar þetta er skrifað 10:30 þann 5. maí 2012.

  Nú eru einungis 345 mínútur í stórleikinn. Bring it OOOOOOOOOOOOOOONNN.

  2- 1 fyrir Liverpool.

  YNWA.

 40. Það er smá gæsahúð í gangi yfir þessum leik, er frekar nervus yfir þessu og held að þetta verði mjög erfitt fyrir okkur. Hef samt alveg trú á smá öskubuskusigri.
  Í svona leikjum gerur allt gerst, það er bara þannig.

  Ein spurning á hópinn, verður leikurinn í læstri dagskrá? Er þetta nokkuð leikur á sama kaliberi og CL úrslitaleikurinn og aðrir viðburðir sem verður að sýna frá í opinni? Veit það einhver hér? Var eitthvað að leita á netinu yfir það en fann ekki … vitanlega.

 41. Góðan daginn kæru félagar.

  Í dag er dagurinn, ég verð að viðurkenna að ég er með smá hnút í maganum eiginlega svona óþægindahnút. Mér finnst við vera minna liðið og eiga minni möguleika, en hjarta mitt segir annað það segir að Liverpool sé risastórt og geti unnið alveg eins og Chelsea. Ég ræddi við stuðningsmann Chelsea í gær ( að eigin sögn hélt hann að hann væri sá eini hér á landi) ég spurði hann hvort hann héldi að við ættum séns og hann svaraði mjög einlæglega ” Veistu að þegar liðin koma inn á völlinn eiga bæði 50% sigurmöguleika, þetta veltur allt á dagsforminu og heppni ég tel að mitt lið eigi ekkert meiri sigurmöguleika en þitt lið burtséð frá stöðu liðanna í deildinni eða gengi minna í meistaradeildinni. Þetta er bara einn leikur og þú veist það best sjálf að þínir menn hafa unnið Man.Utd og City þannig að fortíðin hefur ekkert með þennan leik að gera bara nútíðin.” Hann hefur haldið lengi með Chelsea og hefur jafn mikla ástríðu fyrir sínu liði og ég mínu við ræddum lengi um fótbolta og áttum góðar og skemmtilegar samræður byggðar á gagnkvæmri virðingu. Ég ákvað þá að gera það hið sama ég ber fulla virðingu fyrir mótherjum okkar í dag og ef svo fer að þeir fara með bikarinn heim þá unnu þeir fyrir honum á alveg sama hátt og við.
  Ég hins vegar sendi mínum mönnum og öllum stuðningsmönnum baráttukveðjur og mun syngja og öskra og vonandi gráta af gleði en ekki af sorg þegar leik lýkur. En ef hinir vinna þá getum við eignað okkur hlut af bikarnum því Torres og Meireles voru Poolara.
  Vonandi vinna mínir menn og ég get fagnað fram á næstu leiktíð, nú ef ekki þá verð ég bara að syrgja í dag og fara svo að hugsa um næstu leiktíð sem verður geysilega spennandi.

  Nú ætla ég að spila lagið okkar á hæstu stillingu og syngja með og senda styrk í herbúðir LIVERPOOL, þar sem hjarta mitt slær.

  Þangað til næst YNWA

 42. karlinn á afmæli í dag og er fertugur, þannig að ég segi 4-0 fyrir okkar mönnum,

 43. Flott upphitun ! Takk fyrir mig.

  Enn spáið aðeins í því hvað þessi leikur skiptir miklu máli fyrir bæði lið. Og hvað okkar tímabil er mikið betra enn Chel$kis ef við vinnum þessa dollu ! Endum (vonandi) í 7 sæti og Chel$ski í 6. Þeir tapa tveim úrslitaleikjum og við vinnum tvær dollur… Enn snýr maður dæminu við… æji við skulum ekkert vera spá í þeirri hlið á þessu 🙂

  Eigið góðan dag bræður og “njótið”. Maginn í mér er í rúst…

  YNWA

 44. @ 54, athugaði Útlagann (pöbbin þarna), Kaffi-Sel ( þar sem 18-holu golfvöllurinn er) eða jafnvel Hótelið.

 45. Sælir bræður. Ég var að velta því fyrir mér hvort þessi leikur væri í opinni dagskrá á Sport. Væri vel þegið ef einhver gæti sagt mér það.

  Með fyrirfram þökkum , Krummi. 🙂

 46. Krummi #60. Einhvern veginn stórefazt ég um það.

  En allavega er ég búinn að opna fyrsta öl, kominn í nýju hvítu treyjuna sem ég pantaði um síðustu helgi og byrjaður að gíra mig upp fyrir, að ég vona. Frábærann leik 🙂

Kop.is Podcast #19

Liðin komin – Carroll og Torres á bekk!