W.B.A. á sunnudag

Á sunnudaginn fá okkar menn tækifæri til að vinna sinn þriðja leik í röð þegar West Bromwich Albion koma í heimsókn. The Baggies eru sem stendur í 13. sæti deildarinnar með 42 stig eftir 34 leiki, heilum þrettán stigum frá fallsæti. Okkar menn eru í 8. sætinu með 46 stig en eiga leik inni á West Brom og vonandi eykst bilið á milli liðanna í sjö stig á sunnudaginn kemur.

Af hverju er ég að tala um West Bromwich eins og Liverpool sé í einhverri keppni við þá? Svarið er einfalt: maður neyðist til að láta sig gengi þeirra í deildinni varða út af því hver er knattspyrnustjóri West Brom og út af þeirri umræðu sem hefur ríkt um hann og Dalglish í vetur.

Þannig að áður en ég spái í spilin verð ég að tjá mig aðeins um uppáhald bresku pressunnar, Roy Hodgson, og manninn sem þeir elska að sjá tapa, Kenny Dalglish.


Það fór mjög illa í blaðamenn Englands þegar Roy Hodgson fór flatt sem stjóri Liverpool. Hann var (og er) mjög vinsæll meðal þeirra, þeir höfðu hampað honum mikið eftir velgengni með Fulham, bæði í stöðu landsliðsþjálfara Englands og sem stjóri Liverpool þegar sú staða varð laus sumarið 2010. Hann var ráðinn það sumarið (takk, Christian Purslow) og var ánægður með sig, sagðist eiga þessa stöðu skilið eftir góð störf, eins og það að vera knattspyrnustjóri Liverpool væri verðlaun en ekki verkefni.

Hann fór engu að síður sögulega flatt á því sem stjóri Liverpool og þrátt fyrir frábær ummæli ensu pressunnar, Purslow, Martin Broughton og bara allra sem nýju eigendurnir hlustuðu á fyrstu mánuðina hékk hann ekki lengur í starfi en fram í janúar. Hefði eflaust verið rekinn fyrr ef eigendurnir hefðu ekki þurft 2-3 mánuði hreinlega til að kynna sér málin nógu vel til að þora að komast að niðurstöðu.

Í staðinn fengum við King Kenny Dalglish, okkar mann frá A til Ö og maður sem veit að hlutverk stjóra Liverpool er ekki að vera handbendi ensku pressunnar, ekki að beygja sig undir alla gagnrýni frá stjóra Man Utd, ekki að tala eins og Liverpool sé klúbbur sem eigi að búast við tapi á útivelli gegn Birmingham og Blackburn. Dalglish skilur Liverpool, talar eins og Púllari og gerir sömu kröfur – af sjálfum sér og öðrum – og aðrir Púllarar gera. Hann ver klúbbinn og hlustar ekki á neitt rugl. Það var því borðleggjandi að hann yrði óvinsæll og enska pressan myndi bíða í ofvæni eftir að geta rekið rýtinginn í hann og svo snúið hressilega í sárinu.

Að því leyti til hefur veturinn í vetur verið nokkuð góður fyrir ensku pressuna. Dalglish er ömurlegur, segja þeir. Hann er búinn að missa það, hann veldur þessu ekki, og svo uppáhaldsskoðun margra þeirra: Dalglish er ekkert betri en Hodgson eftir allt saman. Hodgson er að gera svoleiðis blússandi góða hluti með W.B.A., Dalglish er að drulla á sig með Liverpool. Hodgson tapaði aldrei þremur leikjum í röð með Liverpool, og svo framvegis.

Svona virkar breska pressan og fyrir vikið – þótt deildin í vetur hafi verið stór vonbrigði hjá Dalglish – finnst mér bara nauðsynlegt að rifja aðeins upp hvernig okkur leið öllum þegar Roy Hodgson var stjóri Liverpool.

Til að rifja aðeins upp hvernig það var að vera Liverpool-aðdáandi meðan liðið var undir stjórn Roy Hodgson getið þið lesið pistla eftir okkur alla á tímabilinu september 2010 – janúar 2011. Hér eru nokkrir: Kristján Atli 1, 2 – Einar Örn 1, 2 – SSteinn 1. Sumir þessara pistla eru stuttir af því að það þurfti ekkert að fjölyrða um Hodgson eða rökstyðja þessar skoðanir, maðurinn var bara vonlaus sem stjóri Liverpool og það varð ljóst meira og minna strax í ágúst. Lesiði yfir færslurnar í október-desember 2010 og skoðið líka ummælin ykkar við færslurnar okkar. Þetta var átakanlegt tímabil. Og ef þið eruð í miklu sjálfspyntingarstuði mæli ég með The Anfield Wrap: The Hodge Files sem tekur saman mörg af skrautlegustu ummælum ‘The Hodge’ á þeim tíma sem hann stýrði Liverpool.

Nú er ég ekki að segja að allt sé stórkostlegt hjá Kenny Dalglish eða að Liverpool hafi verið í draumalandi síðan Hodgson fór. Tímabilið í vetur hefur verið vonbrigði og það hefur – hingað til – kostað Damien Comolli starfið og maður veit ekkert hvað gerist með Dalglish. En um eitt verður ekki rifist – Dalglish er réttur maður fyrir Liverpool á alla þá vegu sem Hodgson var rangur maður fyrir Liverpool. Öll viðtöl, ummæli, hegðun, allt sem tengist starfi knattspyrnustjóra utan vallar er 100% Dalglish í hag. Jú, Dalglish hefur valdið vonbrigðum í deildinni í vetur en hann er búinn að vinna titil og er kominn í úrslit hinnar bikarkeppninnar, á meðan Hodgson skeit á sig á heimavelli gegn Northampton í fyrsta leik Deildarbikarsins.

Ef ég væri aðdáandi liðs eins og W.B.A. eða Fulham – það er, félags af minni stærð en Liverpool FC sem býst ekki við eins miklu og stóru klúbbarnir gera – væri ég hæstánægður með Hodgson sem stjóra. Hann er mjög stöðugur stjóri, týpan sem vinnur einn, tapar einum og gerir eitt jafntefli í hverjum þremur leikjum og heldur liðum frá fallbaráttu. Af og til á hann betra tímabil og nær jafnvel að lyfta sér í Evrópusæti, og af og til á hann slæmt tímabil og lendir í fallbaráttu. Flott fyrir klúbba eins og W.B.A. og Fulham. En það var aldrei nóg fyrir Liverpool FC og hann virtist ekki skilja það, talaði jafnan eins og hann væri enn að stýra Fulham og ætti að fá að vinna eftir sömu kröfum hjá Liverpool og hann gerði þar. Það er stóra ástæðan fyrir því að hann var aldrei réttur maður fyrir Liverpool. Dalglish talar um titla og titilbaráttu, stefnir á sigur í öllum keppnum og tekur svo ábyrgð á því þegar liðinu gengur illa, í stað þess að reyna að kenna stökum leikmönnum um (lesið ‘The Hodge Files’ – menn eins og Agger, Johnson og Torres voru gerðir persónulega ábyrgir af því að ekkert var nokkurn tímann Uncle Roy að kenna).

Allavega, mér fannst ég verða að segja eitthvað um Hodgson. Það eru 15 mánuðir síðan hann var rekinn sem stjóri Liverpool og liðið hefur bæði unnið titla og valdið vonbrigðum síðan. Það er frábært að hafa Dalglish í brúnni sé hugsað til forvera hans og jafnvel þótt það verði raunin í sumar að hann hætti með liðið þá breytir það því ekki að hann er milljón sinnum hæfari í þessa stöðu en Roy Hodgson.


Þá að leiknum á sunnudaginn. West Brom hafa unnið tvo og tapað tveimur í síðustu 4 deildarleikjum (bara á pari við það sem má vænta af ‘The Hodge’) en þar sem þeir sigla lygnan sjó í deildinni núna veit ég ekki hversu grimmir þeir mæta endilega til leiks á sunnudag. Það segir mér helst sá hugur – af því að ég hef reynslu af því að spá í lið Roy Hodgson – að hann stilli upp 4-5-1 og freisti þess að ná jafntefli í þessum leik.

Að vissu leyti má viðra sömu efasemdir um okkar menn. Það er, hvaða hvata hafa menn til að vinna þennan leik? Baráttan um að vera fyrir ofan Everton í deildinni? Tækifæri til að gjörsigra lið Roy Hodgson? Baráttan um sæti í byrjunarliði bikarúrslitaleiksins? Ég veit ekkert hvað af þessu skiptir leikmenn Liverpool máli en mig grunar að Dalglish sé ekki á þeim buxunum að slaka á neinu nú þegar liðið er loksins byrjað að vinna leiki aftur. Það eru líka rúmlega átta dagar á milli bikarleiksins um síðustu helgi og þessa leiks þannig að ég sé ekki af hverju hann ætti að stilla upp einhverju öðru en sínu sterkasta liði.

Ég ætla að spá því að Dalglish stilli upp eftirfarandi liði á morgun:

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Downing – Gerrard – Henderson – Bellamy

Suarez – Carroll

Pepe kemur aftur í markið eftir leikbann, Brad Jones sest á bekkinn. Skrtel og Agger fá vonandi að stilla sig saman í miðri vörn aftur og það verður áhugavert að sjá hvort Enrique réttir úr kútnum eftir að hafa verið settur á bekkinn á Wembley. Á miðjunni sé ég ekki þörf á að hafa varnarhund eins og Spearing þegar við getum notað sókndjarfari menn eins og Gerrard, Henderson og Shelvey frekar. Ég myndi vilja hafa hraða á köntunum og því vel ég Downing og Bellamy frekar en Kuyt og Maxi, þó gæti ég alveg séð annan eða báða af þeim tveimur síðarnefndu byrja. Frammi hljóta svo Suarez og Carroll að byrja alla leiki saman það sem eftir er tímabils, ég bara trúi ekki öðru.

Mín spá: Síðustu tveir sigurleikir gerðu ansi margt gott fyrir þetta lið og ég held að þetta lið nái sér aftur upp úr þessari deildarlægð núna og fram á vorið. Við tökum þennan leik 3-0, skorum snemma og þá er ekkert plan B til hjá Hodgson og þetta verður auðvelt. Ég hef verið duglegur að spá Liverpool jafnteflum eða tapleikjum á þessari síðu enda hefur mér litist illa á hrunið í deildinni en ég hef núna fulla trú á að það sé komið að sigri á Anfield í deildinni.

54 Comments

 1. Já, er sammála þér hér Kristján að þetta verður sigur og ekkert annað. Það er komið sumar, sól á lofti og algjör bjór á Austurvelli blíða!

  Liðið verður þó að skora í fyrri hálfleik annars gæti þetta orðið erfitt. Liðin hans Woy sitja yfirleitt aftarlega og beita skyndisóknum og þeir hafa ágæta hraða menn frammi. Það þarf því að skora á þá snemma og neyða þá til að koma framar.

  Liverpool getur ekki tapað þegar það er svona mikil blíða hérna. Sumarið er tíminn! SKÁL

 2. Var ekki kominn langt í að lesa The Hodge files þegar ég nærri búin að henda tölvunni út um gluggann. Þessi maður er svo vitlaus að ég hélt að hann hefði ekki vit á að vera svona heimskur.

  Bara verðum að vinna þennan leik því ég afber það ekki að tapa fyrir þessu fyrirbæri.

  3-0 og ekkert kjaftæði!!!

 3. Hvernig nennirðu að vera svona bitur KAR?

  Hodgson er farinn, til hvers að vera pirra sig á honum ennþá? Skil það bara ekki.

 4. Skemmtileg lesning og ég er sammála hverju orði. Hlakka til að sjá lærisveina The Hodge jafnaða við jörðu.

  En svo að öllu sé til haga haldið, þá voru nú ekki allir sammála um frammistöðu Hodge Podge:

  http://www.kop.is/2011/07/16/20.02.53/

  “Sjáið árangur hans með Sviss. Sjáið árangur hans með Finnland. Svo ekki sé minnst á Inter!”

 5. Ég fæ stundum þessa spurningu frá vinum mínum sem ekki halda með Liverpool, afhverju Kenny fær svona meira umburðarlyndi heldur en Hodgson, persónuleg skoðun á þessu er aðalega munurinn á spilastíl Liverpool, þó svo að árangurinn í deildinni sé svipaður þá er bara mun mun skárra að horfa á Liverpool núna heldur en nokkurn tímann undir stjórn Hodgson sérstaklega fyrir áramót.

  Þegar Hodgson stjórnaði einkenndist liðið af ótrulega leiðilegum spilastíl, fara á útivelli með hugafar að ná jafntefli, pakka í vörn þegar við komumst yfir og öll þessi ummæli voru nátturulega fáranleg, með Kenny er þetta allt öðruvísi, það virðist þó vera að við viljum vinna alla leiki, við sækjum (gengur stundum illa ég veit), reynum að skora og færi myndast fyrir bæði lið.

  Með Kenny gat maður þó logið aðeins að sjálfum sér með jafnteflisleiki, æji, við skutum svo mikið í stöng. vorum óheppnir, dómgæsla ekki alveg að falla með okkur. En hjá Hodgson var þetta öðruvísi, yfirleitt voru seinustu 5 min af leiknum notaðar í nauðvörn, þá labbaði maður út eftir leikinn þunglyndur hugsandi að við vorum heppnir að krafsa í eitthvað stig á heimavelli á móti liði sem er spáð falli,

  Þarna liggur munirinn, þessvegna hef ég mun meiri þolinmæði fyrir Kenny heldur en nokkurntímann fyrir Hodgson, svo stefnir maðurinn líka í að skila tveimur titlum í hús á tímabilinu, hversu “litlir” sem fólki finnast titlarnir vera, hvað er langt síðan að Liverpool hefur tekið tvo titla á einu tímabili?

 6. Sáttur við þig Kristján. Svo algerlega réttar forsendur hjá þér, þegar hann t.d. hrósaði sér af 0-0 jafntefli við Birmingham og svo tala um hversu vel menn spiluðu eftir tapleik í derby-inu var svo augljóst að karlanginn hafði lítið í pressuna að gera.

  Vona að þú hafir rétt fyrir þér með liðsval, held líka að það sé rétt því karlinn mun vilja leyfa Anfield að hylla Carroll og fleiri sem hafa leikið vel að undanförnu. Úti er þó pískur með að Enrique hafi lent í einhverri uppákomu á æfingavellinum, en það hefur þó hvergi heyrst nema á einhverjum spjallsíðum. Ef hann ekki byrjar þennan leik myndi það þó skoðast sem möguleiki. Ef svo er mynd ég tippa á að Aurelio fengi mínútur.

  Það er engin ástæða til að hvíla eða breyta nokkru, það má um næstu helgi vissulega en núna vill ég bara fullt rör áfram. Góður vinur minn hér að vestan, Siggi Gísla, er að fara í fyrsta sinn á Anfield og hann á skilið sigurleik!

  Skrifa upp á sigur, hvernig sem hann er, tippa á 3-1.

 7. Off topic: Það fer að koma sá tími þegar lið fara að sýna treyjur fyrir næsta tímabil og Liverpool eru aldeilis að fara að breyta til. Er komin einhver dagsetning á það hvenær við fáum að sjá hönnun Warrior Sports fyrir næsta tímabil?

  On topic: Drulluerfiður leikur. Við virðumst vera að rísa upp úr þessari djöfulsins lægð, svo ég spái 2-0. Suarez og Maxi setja hann.

 8. Veðrið í Grafarvoginum þessa stundina er eins og Andy Carroll , brakandi sól , gleði , fagurt og svoldið svalt, eftir ansi hreint daprann , þungann og sennilega bara þann versta vetur í manna mynnum . En bara bjart framundan og draumar mínir og skýjafar segja mér að þessi leikur endi 1-3, Carroll bláedrú setur 2 og Shelvey 1.

 9. Kiddi (#3) spyr:

  Hvernig nennirðu að vera svona bitur KAR?

  Hodgson er farinn, til hvers að vera pirra sig á honum ennþá? Skil það bara ekki.

  Flettu orðinu bitur upp í orðabók. Pistillinn minn hér að ofan er andstæðan við biturleika. Ég er ekki viss um að þú skiljir hvað orðið þýðir.

  Kannski ætti ég bara að sleppa því að skrifa 1,500 orða upphitun og fjalla um það sem er athyglisverðast við leikinn sem fram undan er. Væri það betra?

 10. Hodgson og vera hans hjá LFC minnir um sumt á þegar aðJohn Scully var fengin til að taka við Apple. Scully var farsæll forstjóri venjulegra framleiðslufyrirtækja, m.a. hjá Pepsi, en réði ekki við jafn krefjandi verkefni og Apple. Líkt og með Hodgson var hann flæmdur í burtu og heimamaðurinn Steve Jobs tók við með þekktum árangri.

  Fínn pistill hjá KAR. Ég vil samt gera smá athugasemd við að í textanum gætir smá noju vegna fjölmiðlaumfjöllunar í garð LFC. Ekki að hægt sé að þræta fyrir að enska pressan er oft býsna harðdræg, jafnvel ósanngjörn, í garð okkar ástkæra félags. Það er samt nákvæmlega þannig sem að ég vill hafa það. Það er miklu betra að hafa pressuna á móti sér heldur en að vera hreinlega ekki til umfjöllunar eins og er um flest félög. Hodgson er svona iðnaðarmaður eins og Scully. Loose some win some; the average is good, en ekki hugsjónarmaður og eldhugi sem okkar Kenny er svo sannarlega.

  Liverpool vekur upp blendnar tilfinningar á Englandi eins og gengur um merkileg félög og engin ástæða til að kvarta yfir því. Sjálfur hef ég dvalið mikið á N-Spáni í Katalóníu og Baskalandi. Ef einhver heldur að fótbolti sé einfalt mál á Spáni og allir hressir með landsliðið og Barca er það misskilningur. Þar er nánast íþrótt að tæta niður Barca í fjölmiðlum utan Katalóníu að ekki sé minnst á djöflana í Athletic Bilbao sem er alvont félag í hugum Andalúsíumanna. Þá er flestum á N-Spáni fullkomlega sama um landsliðið nema að velgengi þess er gott tækifæri til að slá upp veislu! Gangi illa þá er það bara það sem Katalónarnir og Baskarnir telja bjuggust við með þess aumingja:-)

  Sorrí, ekki illa meint, eða gagnrýni á pistil KAR sem er mikill snillingur. Bara ekki væla yfir óréttlátri fjölmiðlaumfjöllun. Þannig á hún að að vera þegar að LFC er annars vegar að mínum dómi. Fuck them all – við erum handhafar réttlætisins og sannleikans ekki hinir. Enga punglausa meðalskussa með rassgatið upp í loft fyrir fjölmiðlana fyrir Liverpool!

 11. Fín upphitun. Eitt varðandi Spearing punktinn: hann er ekki bara varnarlega betri (skárri?) en aðrir heilir miðjumenn liðsins heldur er hann líka yfirleitt með töluvert hærri sendingahlutfall, sem er mikilvægasta hlutverk miðjumanna í dag. Henderson, Adam og Gerrard þurfa allir nauðsynlega að hafa svoleiðis leikmann við hliðina á sér. Sjitt hvað við söknum Lucasar samt.

 12. 11 :

  Er þetta eitthvað grín?

  Ertu að halda því fram að ég viti ekki hvað biturleiki þýði? Ég tel mig nú kunna mitt tungumál ágætlega.

  Það sem þú skrifar um Hodgson er ekkert annað en biturleiki. Ef þú vilt túlka það á einhvern annan hátt, þá er það þitt vandamál.

  Það sem ég var að benda á er að Hodgson er fortíðin. Til hvers að eyða orku í hana? Hún kemur ekki aftur. Horfum frekar fram á veginn, hvað getum við annað gert?

 13. Sælir félagar,

  Ég er staddur í Liverpool og var svo heppinn að hitta Lucas Leiva á matsölustað í kvöld. Hann er bjartsýnn fyrir þennan leik og það dugar mér…

  Adios frá Mekka…

 14. Kiddi #15.

  Hvernig færðu það út að þetta sé biturleiki ? Þú kanski setur niður í nokkrum orðum hvað þú heldur að biturleiki sé – til að taka af allann vafa, annaðhvort ertu eitthvað að misskilja þessi orð hans um RH eða veist einfaldlega ekki hvað fellst í því annars ágæta orði.

  Án þess að vera leiðinlegur þá er það ekki “hans túlkun” á að þetta sé annað en biturleiki – held að það sé túlkun flestra sem þekkja merkingu þess orðs, þessi skrif eru ekki á nokkurn hátt lituð af biturleika, skil ekki hvernig þú færð það út. Verður að passa þig á því að þó svo að UTD menn skrifi ekki setningu án þess að troða þessu orði inn þá á það ekki alltaf við :o)

  En að leiknum – það er óþolandi að vita ekki hvar maður hefur þetta blessaða Liverpool lið. Erum við að fara að sjá leik í takti við síðustu tvo leiki liðsins eða erum við að fara að sjá annan Wigan /S´land leik ?

  Hvað ég myndi gefa fyrir að sjá svipað lið og gegn Everton nema þá með Sterling á hægri kannti í stað Henderson, Agger með Skrtel í hjarta varnarinnar og Pepe á línuna. Hægri kanntur er einfaldlega ekki hans staða, honum líður ekki vel þar og ég hálfvorkenni stráknum að þurfa að leysa það hlutverk. Það mætti jafnvel stilla honum upp við hlið SG á miðjunni í stað Spearing.

  Spái okkur 3-1 sigri þar sem að Carroll setur tvö.

 15. Biturleiki – spiturleiki – spigurleiki – sigurleiki – sigurleikur 3-0 (Carrol 2, Suarez)

 16. Bara Algjört Must win! Og þó ekki sé nema fyrir þá einu augljósu staðreynd hver stjóri WBA er! Ef það gerir mig bitran so be it!! 🙂 Gæti ekki staðið meira slétt á sama…. ég vil bara sigur í þessum leik og ekkert annað PUNKTUR.

  YNWA

 17. Komið þið sæl öll.
  Nú skulum við bara slaka á og draga andan djúpt. Voðalega dettur umræðan alltaf fljótt niður á sandkassa stigið, ekki þó alvarlega í þetta skiptið en þó að einhverju leiti. Við skulum átta okkur á því að hugtök á borð við: Biturð, kaldhæðni, hæðni, hroki, gaman, alvara, o.s.frv. eru fyrir mörgum mjög huglæg, þ.e.a.s. erfitt oft á tíðum að átta sig á þeim þegar maður les skrifaðan texta. #Kiddi las greinilega biturð úr skrifum #KAR meðan að #KAR var ekki með biturð frá sínum sjónarhóli. Málið er dautt. Persónulega fannst mér óþarfi að #KAR að segja að #Kiddi skildi ekki íslensku, að sama skapi óþarfi af #Kiddi að alhæfa að orð #KAR séu beinlínis BITUR og hann bara viti ekki af því. EN svo datt þetta svolítið niður í sandkassann þegar fleiri fóru að skipta sér af því hvort eitthvað væri biturleiki eða ekki. Vafalaust vel meint, en svona byrja oft rifrildi. uppúr engu. Þetta er stormur í vatnsglasi.
  (#KAR, #Kiddi, #Elías, þetta er ekki meint í íllu og ég vona svo sannarlega að þið takið því ekki þannig)
  Persónulega fannst mér þetta góður pistill og las ég ekki neina biturð út úr honum, frekar sameiginlega andúð á RH og hans aðferðum/mistökum við að reyna að sjórna okkar ástkæra klúbbi. En það þarf ekki að vera að andúð hafi nokkuð með þetta að gera nema frá mínum sjónarhóli 🙂

  Sigur á morgun algjört aðalatriði, og ég spái 2-1 sigri okkar manna með mörkum frá framherjaparinu okkar.

  Eigið góðan dag, kv Kalli

 18. Ein pæling.
  Í viðtali strax eftir Everton leikinn fannst mér vera nýtt hljóð í Kenny. Eins og þið vitið þá var nýlega búið að reka Comolli og fleiri og mig grunar að Kenny hafi fengið að vita meira um sína framtíð en margir halda. Það sem hann fór að tala um allt í einu var að hann væri bara að reyna að hjálpa til og vær bara auðmjúkur þjónn og ef að hægt væri að nota hans framlag þá væri það bara fínt.

  Ok, svona er sem sagt samsæriskenningin mín:
  Kenny hefur fengið að vita að hann væri ekki inni í langtímaplönum félagsins eftir tímabilið, hann fengi að klára tímabilið sem Manager en svo biði hans annað starf, ef hann vildi sem Ambassador, vinna með unglingana eða eitthvað í þeim dúr. Eftir tímabilið yrði fenginn inn nýr stjóri sem myndi halda áfram með uppbygginguna.
  Þetta er kannski fullmikið að lesa út úr einhverju sem ekki einu sinni var sagt berum orðum, en mér fannst kallnn vera daufur og í fyrsta sinn farinn að endurtaka það sem hann sagði þegar hann var ráðinn. Hingað til hefur hann, finnst mér(bara mín skoðun, ekki taka mig af lífi fyrir hana 🙂 ) svarað af sífellt meiri…ja hroka, eða í það minnsta verið snöggur upp á lagið og oft skotið fast á fréttamenn sem eru að spyrja.
  En í þessu viðtali birtist bljúgur og auðmjúkur þjónn félagsins sem var bara glaður ef hann gæti komið að notum….

  Ég deili þeirri skoðun margra að það er frábært að hafa Kenny sem stjóra og blautur draumur hjá mér að sjá hann verða sigursælan með Liverpool, einhvern veginn miklu betra ef þetta tækist með Kenny við stjórnvölinn.

  En ef það er ekki að ganga upp og eigendur hafa tekið ákvörðun þá fannst mér eins og Kenny vissi af því á þessum tímapunkti…sem er kannski ekki svo vitlaust að þeir hafi verið hreinskilnir við hann og ef svo er þá á hann það fyllilega skilið að það sé komið fram strax af heilindum við hann.

  YNWA
  Islogi

 19. ánægður með þetta byrjunarlið. Lucas fyrir Henderson og þá væri þetta sterkasta uppstilling Liverpool. Er bara nokkuð bjartsýnn fyrir þennann leik og spá 2-0, Gerrard bæði.

 20. Góð upphitun og skemmtileg lesning, eins og ávallt.
  Kristján Atli segir í upphitun:
  “Að vissu leyti má viðra sömu efasemdir um okkar menn. Það er, hvaða hvata hafa menn til að vinna þennan leik? Baráttan um að vera fyrir ofan Everton í deildinni? Tækifæri til að gjörsigra lið Roy Hodgson? Baráttan um sæti í byrjunarliði bikarúrslitaleiksins?”

  Eini hvatinn sem að leikmenn eiga að hafa er að gjörsamlega þola ekki að tapa fótboltaleikjum og fyrir vikið að leggja sig 110% fram í alla leiki, sama hver anstæðingurinn er hvort sem það er Everton eða Hereford United og allt þar á milli, hugarfar sigurveigara.

  Vil fá mikla baráttu um allan völl um hvern einasta bolta frá Liverpool liðinu og þá þarf ekki að spyrja um úrslitin í þessum leik, við ættum að gjörsigra þetta lið og þennan stjóra, sem við stuðningsmennirnir höfum fínustu reynslu af. Þarf ekkert að fjölyrða hvað Hodge er hræðilegur stjóri, við vitum það allir!

 21. Sorry útursnúninginn en ég var að horfa á Arsenal Chelsea. Mikið svakalega er hann Torres slappur orðinn. 50 millur og hann er kominn með 4 mörk í vetur og kemst ekki í byrjunarliðið. Ótrúlega slöpp kaup og ég held að þessar 15 millur sem við fengum á milli hans og Carroll hafi bara verið kjarakaup.

 22. Frábær upphitun Kristján og frábært að rifja upp þessa pistla frá því 2010. Það var með ólíkindum hvað þetta tímabil var leiðinlegt og það er ágætt að lesa þessa pistla (m.a. eftir sjálfan mig) og rifja upp hversu hryllilegt þetta var.

  Og svo fékk kommentið hjá ÓHJ #4 mig til að hlæja. Hodgson var svo slæmur að einhvern daginn munum við geta hlegið að öllu á þessu hræðilega tímabili undir stjórn RH.

 23. Sælir félagar

  Frábær upphitun KAR og fullkomlega laus við biturleika en eins og einhver sagði hér að ofan má ef til vill finna smá noju í pistlinum. Ég er sammála því að við vinnum þennan leik. Sigurviljinn, löngunin til að sigra og ganga hnarreistur af velli á Anfield er nægileg hvatning til að sigrast á Hodge fyrirbrigðinu. Hins vegar finnst mér spáin 3 – 0 í hógværara lagi og vil segja 4 – 0 eða 5 – 1. Enda er fjögurra eða 6 marka leikur miklu skemmtilegri en þriggja maraka leikur. Það sjá allir menn af öllum kynjum.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 24. Bíð spenntur eftir þessum leik, líst vel á byrjunarlið KAR nema ég vildi sjá Selvey fyrir Henderson, jú nokkrum sinnum í vetur hefur KK verið með ömurlegar útskýringar á lélegri frammistöðu okkar,jú jú við erum líklega allir sammála um að KK var rétti maðurinn til að taka við klúbbnum eftir ömurlegt gengi en það eru skiptar skoðanir um framhaldi hjá KK, ég persónulega vildð að KK klári FA bikarinn og hætti með reisn þannig að bæði hann og klúbburinn gangi hnarrreistir til framtíðar,ég vil fá þjálara með mikla greddu og hungur til að koma Liverpool á þann stall sem það á heima ( á Toppinn) , ég trúi því ef að KK verði áfram með klúbbinn þá verðum við bara að berjast um 4 sætið næstu ár og vona að við vinnum eina og eina bikarkeppni,,,,, auðvita á Liverpool að vera klúbbur sem er að berjast um 1 sætið bæði í deildinni og eins í Meistaradeildinni,, við erum Liverpool ,,,að vera Púlari er að vera sigurvegari í einu og öllu allstaðar allstaðar allstaðar .YNWA.

 25. Þessi leikur skiptir engu máli. Það er FA-bikarinn sem ég bíð eftir.
  En áfram Liverpool!!!!!!!!!!!!!!!!!

 26. Tottenham með einn sigur í síðustu 9 leikjum, lítið talað um það í fjölmiðlum.
  Eru reyndar í betri stöðu en við í deildinni, samt ömurlegt gengi undanfarið…

 27. Ég man alveg hvernig mér leið þegar Roy var með liðið, og viðtölin maður… þetta var ekki að virka og best fyrir alla að leiðir skyldu. Velti mér sjaldan upp úr samsæriskenningum um hlutdrægni enskra íþróttablaðamanna í garð einstakra knattspyrnuþjálfara – en ég hef það nú samt á tilfinningunni að menn beri almennt meiri virðingu fyrir Dalglish en hinum. Annars er mér slétt sama hver er þjálfari á meðan liðið vinnur titla.

  Ég ólst upp með Dalglish sem stjóra og ef knattspyrna er trúarbrögð og Liverpool er kristni, þá er hann Jesú. Og ég trúi á Dalglish. Rauða og gráa úlpan hans er það sem ég tengi helst við Liverpool frá því ég var krakki, og er búinn að vera ljúfur sem lamb síðann hann var ráðinn. Tjái mig nánast aldrei hérna inni og er bara nokkuð sáttur við spilamennskuna á tímabilinu – ekkert alltaf, en menn virðast vera að gera sitt besta. Það væri alveg glatað ef Dalglish hættir með liðið í sumar, hann á bara að hætta þegar hann vill því ég veit að hann gerir það af sjálfsdáðum ef hann sér að hann stendur í vegi framförum. Hann lítur ekki á framkvæmdastjórastöðuna hjá Liverpool sem eitthvað snobbdjobb.

  Það eru fáir “farþegar” í liðinu, þeir voru flestir losaðir út þegar Dalglish kom inn, þótt sumir séu ekki að standa undir væntingum – algjörlega óháð verðmiðanum á þeim. Svo er hann alltaf að vinna stóru liðin – er það ekki vísbending um eitthvað.

  Ég sagði bara já takk þegar ég sá tillöguna að liðstuppstillingunni. Ég er persónulega hrifnari af Shelvey en Henderson. En ef hann verður ekki eins passívur og þegar hann er á hægri, þá ok. Vonandi verður Enrique búinn að ydda á sér sendingafótinn. Gott að hafa Maxi á bekknum, hann á skilið að koma inn á, og gerir það ef hann byrjar ekki fyrir Bellamy.

  Suarez er dásamlegur gaur og skorar, og Carroll hjálpar Downing með stoðsendingaþurrðina. WBA skorar amk. eitt, en Liverpool vinnur þennan leik.

 28. Íslogi 22

  Ég er alveg sammála þér með Kenny þarna. Ég kom fram með svona “samsæriskenningu” hérna á spjallinu þegar Comolli var rekinn.

  Ég er næstum sannfærður að Kenny hætti eftir síðasta leik í vor. Með því að reka Comolli sem hefur keypt þá menn sem Kenny bað um meikar ekki mikið sense fyrir mér. Ég efast um að Comolli einn hafi haft opið tékkhefti og keypt menn á hvaða verði sem var. Því eru kaup síðasta sumars vonbrigði, gengi liðsins vonbrigði og nýir eigendur eru þekktir fyrir allt annað en að láta svona hluti viðgangast.

  Það “meikar líka sense” að byrja á Comolli þar sem það þarf að byrja skipuleggja kaup sumarsins og þar held ég að næsta stjóri sé kominn á fullt. Kenny fær svo að klára sína vinnu með reisn, helst vinna sinn annann bikar og þá er hans þjálfunarferli lokið með glæsilegtum árangri, bikarlega séð.

 29. Ætla bara að vona að Dalglish verði með þetta þangað til 77 ára.

 30. SB og fleiri sem lásu commentið mitt hér að ofan. Hér er Dalglish sjálfur, finnst mér, nánast að undirbúa alla fyrir það óumflýjanlega í vor:
  http://www1.skysports.com/football/news/11661/7691991/

  Hann getur samt verið sáttur við sitt, kominn með einn bikar og á leið í úrslit í öðrum. En eftir stendur að ef eigendur er ekki sáttir við það og vilja nýjan mann í brúnna þá get ég ekki annað en verið sáttur við þá stefnu…þ.e. að vilja bara toppsætið í öllu. Lofar góðu fyrir framhaldið og sumarið verður forvitnilegt. Ef Kenny er ekki að skila nægilega góðu búi eftir ja, segjum bara 2 bikara, þá er a.m.k. metnaðurinn svakalegur hjá eigendum og það er það sem við öll viljum sjá.
  Kenny þarf sko ekki að skammast sýn fyrir neitt, bikar plús kannski annar til er ekki versta comback í sögunni :-).
  Svo er ég viss um að hann setur þá góða pressu á næsta stjóra og verður tilbúinn að stökkva inn ef illa fer…, sannur Liverpool maður alla leið.

  YNWA
  Islogi

 31. Vil ekki vera fúll á móti né neikvæður en enginn þjálfari hjá Liverpool á að vera með áskrift af sæti burtséð frá árangri sínum með liðið okkar.

  Þessar tölur eru fáránlega lélegar og þó svo að tottenham sé að skíta á sig núna þá eigum við ekki breik í að ná þeim!

  8. Liverpool 33 12 10 11 40:36 46

  Fínasta upphitun eins og venjulega hjá ykkur snillingunum hérna.

  Núna er lag að koma liðinu í toppástand fyrir stærsta leik ársins og ekkert annað en sigur kemur til greina að mínu mati, það á alltaf að vera krafa um sigur á Anfield!

  En ég er kominn á þá skoðun að það myndi gleðja mig meira að fá ungan og graðan þjálfara inn en að láta Daglish halda áfram með liðið okkar á næstu árum. Ég ólst upp við það að sjá hann sigra hverja keppnina á fætur annarri og ég hef alltaf dýrkað hann bæði sem leikmann og þjálfara en þessi árangur er ömurlegur í deildinni. Rafa hefði átt að fá meiri gagnrýni fyrir að kunna ekki á ensku deildina, ef það er einhver sem ætti að kunna á ensku deildina þá eru það þessir gömlu hundar eins og Dalglish.

  Ef hann heldur áfram með liðið að þá

 32. Það eru röng skilaboð til leikmanna ef Maxi fær ekki að byrja leikinn. Leikmenn eiga upplifa að góð frammistaða í leikjum fylgi fleiri tækilfæri í byrjunarliðinu. Henderson er klassa fyrir neðan Maxi á flestum sviðum fótboltans, sérstaklega sem kantmaður. Þó svo að Maxi sé hvorki fljótur, né varnarsinnaður, þá hefur hann margt fram yfir aðra miðjumenn Liverpool, eins og gott auga fyrir spili og fábærar staðsetningar, sem gefa mörk.
  Eitt varðandi Downing. Þetta er leikmaður sem býr yfir mikilli getu, bæði tæknilega og svo hefur hann fínan hraða. Það sem hann skortir er rétta hugarfarið, ákveðni og þor, sérstaklega þegar hann nálgast síðasta fjórðung vallarins. Hann virðist of oft þurfa augnablilk til að ´hugsa´ og kíkja nokkrum sinnum upp áður en hann gefur boltann eða lætur hann vaða á markið. Þetta augnablik leiðir oftar en ekki til þess að andstæðingarnir fá nægan tíma til að staðsetja sig vel í vörninni. Ef Downing spilaði með sama hugarfari og Bellamy væru stoðsendingarnar miklu fleiri, að því gefnu að aðrir leikmenn mættu inn í teig til að taka við boltanum.
  Ég vona að Dalglish gefi Maxi tækifæri til að byrja leikinn og Downing spyrji Bellamy: “Hvað er það sem þú hugsar áður en þú dúndrar tuðrunni fyrir á eða fyrir markið?” og Bellamy svarar væntanlega “ekkert – nákvæmlega ekkert”!

 33. Þetta viðtal sem Islogi vitnar í sýnir auðvitað að maðurinn í brúnni er algerlega 100% með það viðhorf sem framkvæmdastjóri Liverpool þarf að hafa og það þarf að finna stórkostlegan framkvæmdastjóra til að stíga inn í þann skugga sem Dalglish mun einhvern tíma skilja eftir sig.

  “The Liverpool way” sem stendur fyrir samheldni í félagi alla leið í gegnum klúbbinn, menn vinna sín verk utan sviðsljós og eru fastir í því að mikilvægasti hluti klúbbsins eru eigendurnir og aðdáendurnir. Það er því bara alls ekki nóg að horfa til einhverra ákveðinna þátta í framkvæmdastjóra, heldur þarf hann að falla inn í þessa mynd.

  Liverpool FC á að hafa þessa ásjónu sem við höfum séð Dalglish dreifa í viðtölum vetrarins og umgjörð, það á að vera að fara í úrslitaleiki eins og hefur verið í vetur og það á að krefjast metnaðar fyrir allra hönd.

  Þeir sem hafa lesið eitthvað af umræðum og viðtölum við Dalglish í vetur eru að mínu mati alls ekki að lesa rétt ef þeir telja að einhvers staðar í heiminum finnist maður með meiri metnað en fyrir klúbbinn okkar en Dalglish. Mér finnst það súrrealískt þegar menn hafa nefnt einstaklinga eins og Klopp eða Vilas Boas t.d. í því efni. Það er eitt að telja til hæfni eða aldur, en að ræða um metnað sem eitt af því sem Kóngurinn hefur ekki er alveg útúr minni kú!

  Það er einmitt frábært að sjá Hodgson-ummælin hér og pistlana sem Kristján skrifaði. Lesið svo viðtöl við Vilas Boas í vetur, blaðamannafundirnir hans voru bara skelfing ansi oft. Deschamps tapaði 7 leikjum í röð í vetur og átti mörg skrautleg ummæli.

  Ég hef áður rætt að með því að Dalglish verði varla uppfylltur nema með Mourinho, og þá í þa átt að gera hann stærri en félagið. Árangur hans á Spáni er að mínu mati mesti árangur sem hefur náðst í framkvæmdastjórn síðan hann gerði Porto að Evrópumeisturum. Að fara á Nou Camp og vinna titilinn þar er magnaður áfangi í alla staði. En ég verð seint sáttur að sjá hann í Liverpool-úlpunni, það verð ég að segja.

  Ég aftur á móti hlakka til að sjá framgang stjóra sem hefur frekar hljóðlega farið með lítið lið í efstu deild, spilar skemmtilegan fótbolta og það í raun án þess að koma með nokkrar upphrópanir. Er flottur í viðtölum og virðist mjög lunkinn taktískt. Ég er ekki að tala um Brendan Rogers krakkar mínir heldur Glasgow-Skotann Paul Lambert sem hefur náð mögnuðum árangri með að reisa Norwich City við.og koma því upp í efstu deild og halda þar sjó ansi vel.

  En þetta viðtal þarf ekkert að vera annað en viðbrögð Kóngsins við neikvæðum skrifum að undanförnu, enn einu sinni sýnir þessi snillingur hjarta sitt um það að hann er töluvert minni en aðalatriðið, Liverpool FC. Hreinn demantur og mesti Liverpoolmaður sögunnar, vonandi tekst okkur öllum að bera virðingu fyrir því.

  En þetta er þráðrán, hlakka mikið til dagsins í dag og leiksins. Ætla út að flagga fánanum!

 34. Flott upphitun þó ég nenni alls ekki að rifja Hodgson tímann upp aftur, ég man alveg nógu vel eftir veru hans hjá klúbbnum, blessunarlega er hann og flestir lykilmennirnir sem tóku þessa metnaðarlausu og bara eina verstu fótboltaákvörðun sögunnar að ráða hann til Liverpool farnir frá félaginu.

  Ég smellti samt á linkinn sem bölvaður bjáninn (#4) linkaði og ég er ekki frá því að hann sé bara betri í dag heldur en þegar ég las hann fyrst. Algjörlega frábært steggjunaratriði.

  Þetta fer 1-0 í dag með marki frá Andy Carroll

 35. Ef hann(Dalglish) heldur áfram með liðið að þá vonandi verður árangurinn í deildinni ekkert í líkingu við þetta enda stórefast ég um að hann sjálfur sé mikið til í að upplifa þennan slæma árangur aftur og aftur.

  En það er eftirvænting eftir þessum leik og ég sem grjótharður púllari heimta flottan endasprett í deildinni!

  Kv. Station

 36. Sterling spilaði ekki síðasta leik með Varaliðinu, Spái honum á Bekkinn Í kvöld.

 37. afsakið að ég fer hér í allt annað. Er nú ekkert sérstaklega vel við að hrósa aðalóvini okkar, en er að fylgjast öðru hvoru með leik ManUtd og Everton (4 – 4 og 5 mín eftir). Það er alveg ótrúlegt að sjá hvað ManUtd sækir á mörgum mönnum. Oftast komnir a.m.k. 4 inn í boxið þegar sendingin kemur frá öðrum hvorum kantinum. Er þetta ekki dáldið lýsandi hver munurinn er á okkar liði og þeirra. Hvað ætli t.d. margar sendingar frá Downing hafi gefið mörk ef við gætum druslast til að koma fleiri mönnum inn í boxið.

 38. Það er góður punktur, #41. Auðvitað hefur Downing OFT átt að gera betur, en hann hefur átt marga krossa og kannski einn í mesta lagi tveir í boxinu. Ég kenni stjóranum um það, hvernig hann leggur leikinn upp. Margt sem hangir saman í þessu.

 39. Og Everton gefur City smá séns á að stela Deildameistaratitlinum af United. Magnaður leikur, 4:4. Væri ekki slæmt ef þeir skyldu nú enda titlalausir þetta árið :-). Ekki oft sem maður heldur með Everton…en þarna stóð ég sjálfan mig að því að hvetja þá áfram og fagna mörkunum þeirra….skrítinn þessi heimur!

 40. Yes Yes frábært hjá Everton að ná jafntefli á móti Man.Utd, ég vil freka að Everton endi ofar okkur enn að Man.Utd verði meistarar,

  Liverpool 18 + 5
  Man.Utd 19 + 3

  Liverpool still the best team in England

 41. Ekki oft sem maður hugsar hlýtt til Toffee-manna en þetta var vel gert. Ef City vinnur í dag og síðan leikinn gegn United eru þeir komnir á toppinn á markamun…

 42. Ég er ekki sáttur við manutd – everton, best væri ef hvorugt liðið hefði fengið stig.

 43. Slúður um byrjunarliðið í dag : Reina Johnson Skrtel Agger Enrique Spearing Henderson Maxi Kuyt Suarez Carrol

 44. Ókei tékkið á þessu: “Goals scored in last 10 league starts: Maxi (11), Falcao (8), Llorente (8), Cavani (7), Agüero (7), RVP (5), Soldado (4).” Tekið af Twitter.

  Nei nei höfum bara Downing (sem átti síðast þátt í deildarmarki GEGN Liverpool) frekar inná.

 45. Everton aðdáendur sýndu LFC mikla virðingu á Wembley þegar þeir lutu í lægra haldi um síðustu helgi í skugga Hillsborough harmleiksins. Mig langar einnig til að sýna þeim virðingu með því að segja örfá orð um David Moyes og hans menn.

  Það verður ekki sagt að það hafi verið mulið undir Moyes. Engir peningar til og karlinn neyddur til að selja sína bestu menn trekk í trekk. En frammistaða Everton gegn í dag ManU var stórbrotin og það sama má segja heilt yfir um frammistöðuna í vetur. Moyes er ótrúlega seigur stjóri og ber að viðurkenna það.

  Þá er kvótinn í ár um jákvæðni í garð Everton tæmdur og takk fyrir mig.

Skórnir hans LeBron

Liðið gegn WBA