Newcastle og Moneyball

Það eru að verða liðin þrjú ár síðan ég heimsótti Anfield síðast. Þann 3. maí 2009 stóð ég á The Kop ásamt hörðustu stuðningsmönnum Liverpool og ég hló. Fagnaði og hló. Ég fagnaði af því að ég horfði á Liverpool vinna Newcastle United 3-0, en ég hló meira en ég fagnaði. Það hlógu allir.

Við hlógum að Newcastle, þessum stóra klúbbi sem var á leiðinni niður úr Úrvalsdeildinni. Við hlógum að Alan Shearer, hetju Newcastle sem hafði af einhverjum tilfinningaástæðum fengið þann starfa að bjarga deildarstöðu þeirra, án árangurs. Við hlógum að Michael Owen og hinum stórstjörnunum sem höfðu safnast saman hjá Newcastle, öfugu megin við hámarksgetu sína, og gátu ekki rassgat.

Hér er liðið sem Newcastle stillti upp þann daginn:

Harper

Beye – Bassong – Coloccini – Duff

Smith – Barton – Butt – Lovenkrands

Martins – Viduka

Inná sem varamenn komu: Owen sjálfur, Jonas Gutierrez, Kevin Nolan.

Þremur árum síðar eru aðeins 4 af þessum 14 leikmönnum enn hjá félaginu: Harper (varamarkvörður í dag), Lovenkrands (fer nær pottþétt í sumar), Gutierrez og Coloccini (enn lykilmenn hjá félaginu).

Menn hafa lengi hlegið að Newcastle en þegar ég skoða þennan klúbb nánar þykir mér ljóst að það hefur ansi margt breyst frá því að þeir voru aðhlátursefni ensku Úrvalsdeildarinnar. Ég myndi ganga svo langt að segja að endurreisn þessa stóra klúbbs hafi verið þaulskipulögð frá því áður en þeir féllu. Förum aðeins yfir þetta saman.

Fasi 1 – Viðbrögð við fallinu

Shay Given, þeirra besti markvörður, fór fram á sölu í janúar 2009. Liðið var í bullandi fallbaráttu og það var ljóst að hann myndi ekki fylgja þeim niður. Ákvörðunin var tekin að selja hann enda hægt að fá 7m punda frá Man City fyrir leikmann öfugu megin við þrítugt. Hins vegar var ekki farið í panikk-kaup í staðinn og þeir Steve Harper og hinn ungi Tim Krul fengu sénsinn eftir að Given fór.

Þetta var sennilega fyrsta vísbendingin um breytta starfshætti á Tyneside.

Sumarið 2009, eftir að fallið varð staðreynd, var hafist handa við að taka til. Hetjur eins og Owen, Viduka og Butt voru látnir fara með útrunna samninga á meðan Bassong (Tottenham), Beye (Aston Villa), Duff (Fulham) og Martins (Wolfsburg) voru seldir. Tekin var ákvörðun um hvaða leikmenn ættu að vera áfram og hjálpa liðinu í Championship-deildinni og allir aðrir fengu að fara.

Sú ákvörðun byggðist að miklu leyti á vali Mike Ashley og Derek Llambias, eiganda og framkvæmdarstjóra félagsins, á næsta knattspyrnustjóra. Fyrir valinu varð þjálfarinn Chris Hughton. Það vakti athygli á sínum tíma að þeir leituðu ekki að stærra nafni en eftir á að hyggja var valið augljóst. Þeir keyptu lítið sem ekkert þetta sumar, einbeittu sér að því að losa sig við rotnu eplin í hrúgunni og því var stærsta verkefni nýs stjóra það að ná að skapa samkennd innan hópsins sem sat eftir og fá þá til að spila saman eins og lið. Hughton var mjög vinsæll þjálfari meðal leikmanna og því fullkominn í starfið.

Í stað hetjanna sem var nánast sparkað út sumarið 2009 var ákveðið að gefa ungum strákum eins og Steven Taylor, Danny Guthrie, Danny Simpson, Wayne Routledge og Andy nokkrum Carroll meiri ábyrgð. Þá var hæfileikaríki vandræðagemsinn Charles N’Zogbia seldur fyrir 6m punda og hæfileikaríkan liðsmann, Ryan Taylor, sem gegnir enn stóru hlutverki hjá þeim. Þeir, ásamt lykilmönnum eins og Barton, Smith, Shola Ameobi, Coloccini, Jose Enrique og fleirum, áttu að skila liðinu beint aftur upp í Úrvalsdeildina og gerðu það með glæsibrag.

Fasi 2 – Nýliðar í Úrvalsdeild

Sumarið 2010 voru Newcastle-menn komnir aftur upp í Úrvalsdeild og Mike Ashley hættur við að reyna að selja liðið. Sá sennilega að það væri engin leið að fá það verð sem hann vildi fyrir klúbbinn á þeim tímapunkti og því alveg eins sniðugt að reyna að lyfta liðinu enn hærra áður en hann reynir aftur. Hann gaf sig allan í það verkefni.

Sumarið 2010 héldu Newcastle-menn nær öllum leikmannahópnum, enginn að neinu mikilvægi fyrir aðalliðið fékk að fara. Þeir bættu hins vegar aðeins við sig með leikmannakaupum sumarið 2010 sem geta talist fyrstu Moneyball-kaup félagsins:

  • Cheick Tiote frá Twente fyrir 3,5m punda
  • Hatem Ben Arfa frá Marseille, borguðu 2m punda fyrir árslán á honum
  • James Perch frá Nottingham Forest fyrir 1,5m punda
  • Dan Gosling frá Everton, frítt
  • Sol Campbell og Shefki Kuqi á frjálsri sölu

Þetta voru pjúra Moneyball-kaup. Fjórir ungir leikmenn á ódýru verði, allir góðir en gátu vaxið gríðarlega, og svo tveir aldraðir reynsluboltar á frjálsri sölu sem gátu leiðbeint þeim yngri yfir vetrarmánuðina.

Fasi 3 – Moneyball fer á fullt með tilkomu Pardew

Í desember 2010, með liðið á góðu róli í efri hluta Úrvalsdeildarinnar, komu Ashley og Llambias öllum á óvart og ráku Chris Hughton. Þeir báru við þeirri ástæðu að þeir vildu þjálfara sem gæti komið liðinu enn hærra … og réðu svo vin sinn og ráðgjafa, Alan Pardew. Það var hlegið að þessari ákvörðun á þeim tíma en hún hefur heldur betur borgað sig, og það er mín skoðun ef stefnan í leikmannakaupum frá sumrinu 2010 til nútímans eru skoðuð að Pardew var sennilega farinn að hafa ansi mikið um viðskipti Newcastle-liðsins að segja allt að hálfu ári áður en hann tók við sem stjóri.

Janúar 2011 hélt byltingin áfram. Það hafði greinilega verið ákveðið að fyrirliðinn Kevin Nolan mætti fara um leið og félagið hefði efni á að missa hann því þeir seldu hann frekar átakalaust til West Ham. Joey Barton var tilkynnt að hann fengi ekki nýjan samning um sumarið og mætti fara ef hann vildi. Í kjölfarið kvartaði Jose nokkur Enrique á Twitter að liðið væri á niðurleið enda bara að selja stjörnunöfn frá falli tæpu tveimur árum áður (Owen, Viduka, Martins, Smith, Butt, Given, Duff, Bassong, Beye, Nolan, Barton). Newcastle-menn sögðu þá að hann skorti yfirsýn yfir verkefnið og minntu hann á þau orð fyrir tveimur vikum er hann heimsótti Newcastle með nýja liðinu sínu. Eftir á að hyggja var það sennilega rétt ályktað hjá þeim.

Janúar-mánuðinum lauk svo með því að þeir seldu Andy Carroll á 35m punda. Carroll hafði verið frábær og var að verða lykilmaður fyrir þá en Moneyball-reglurnar segja að ef þú færð 35m punda tilboð í mann með hálft tímabil að baki í Úrvalsdeildinni, þá selurðu, hvað sem leikmaðurinn heitir. Það gerðu þeir og hefur það enn og aftur reynst vera rétt ákvörðun hjá þeim.

Í kjölfar sölunnar á Carroll missti liðið ekki úr takt og lauk sinni fyrstu leiktíð í Úrvalsdeildinni á nýjan leik um miðja deild og í nokkuð þægilegri stöðu.

Sumarið 2011 hélt Moneyball-byltingin áfram á Tyneside:

  • Joey Barton seldur frítt til QPR (lækkaði launakostnaðinn svakalega)
  • Jose Enrique seldur til Liverpool á 7m punda
  • Wayne Routledge seldur til Swansea á 2m punda
  • Davide Santon keyptur frá Internazionale á 5,3m punda
  • Yohan Cabaye keyptur frá Lille á 4,3m punda
  • Ben Arfa-lánið gert að kaupum á 5m punda í viðbót (7m punda í heild)
  • Sylvain Marveaux fenginn á frjálsri sölu
  • Gabriel Obertan keyptur frá Man Utd á 3,25m punda
  • Og rúsínan í pylsuendanum … Demba Ba fenginn FRÍTT!

Allt þetta samræmist Moneyball-stefnunni. Barton skipt út fyrir yngri og betri leikmann (Cabaye) á lægri launum. Enrique (sem hafði kvartað) skipt út fyrir Santon og 1,7m punda gróða. Vængmennirnir Ben Arfa, Obertan og Marveaux allir á réttum aldri, geta vaxið enn og kosta samtals 10,25m eða litlu meira en þeir fengu fyrir Obafemi Martins frá Wolfsburg.

Og Carroll hafði verið skipt út fyrir framherja sem átti eftir að leika enn betur en Carroll fyrir Newcastle, og það á 35m punda gróða.

Í janúar 2012 hélt Moneyball-stefnan áfram. Á meðan stjórar og yfirmenn sumra annarra liða kvörtuðu yfir því að það væri enga framherja að finna á markaðnum í þessum glugga bar scout-kerfi Newcastle árangur og þeir borguðu 9m punda fyrir Papiss Cisse frá Freiburg í þýsku Bundesligunni. Cisse hefur skorað 9 mörk í fyrstu 8 leikjum sínum fyrir félagið þannig að 9m punda þykir þegar ódýrt fyrir þennan kappa. Það væri hægt að kaupa 4,3 Cisse-a á þessu verði fyrir það sem Andy Carroll var seldur fyrir. Gróði græddur og liðið betra. Moneyball.

Ég veit ekki einu sinni hvað yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcastle heitir, eða hvort þeir hafa yfirhöfuð slíkan starfsmann, en það er allavega ekki þessi frægi sem borgaði 26m punda fyrir Charlie Adam og Jordan Henderson á meðan Newcastle borguðu 7,8m punda fyrir Cheick Tiote og Yohan Cabaye, ekki sá sami og borgaði 20m punda fyrir Stewart Downing á meðan Newcastle borguðu 7m punda fyrir Hatem Ben Arfa, ekki sá sami og borgaði 58m punda fyrir Carroll og Suarez á meðan Newcastle borguðu 9m punda fyrir Demba Ba og Cisse. Finnst ykkur þessi samanburður ósanngjarn?


Við skulum gera þetta aðeins upp. Á þremur árum síðan ég stóð á The Kop og hló upphátt að Newcastle United hafa þeir …

… komist beint aftur upp í Úrvalsdeildina, tekið þar fram úr okkar mönnum og eru að berjast í dag um Meistaradeildarsæti.

… breytt algjörlega um innkaupastefnu, hætt að eltast við stórstjörnur á hátindi frægðar sinnar og þess í stað farið að kaupa leikmenn áður en þeir toppa.

… lært að það er ekki endilega gáfulegt að treysta á gamlar hetjur eins og Shearer og Keegan og þess í stað gefið tveimur ungum, gröðum stjórum (Hughton og Pardew) sénsinn með stórgóðum árangri.

… niðurlægt Liverpool – fyrst á leikmannamarkaðnum og svo í deildinni í vetur.

… bókstaflega hlegið að Liverpool FC og leikmönnum, þjálfara og eigendum liðsins þegar þeir rauðu heimsóttu St James’ Park (sem heitir nú Sports Direct Arena. Moneyball.) fyrir viku síðan.

Newcastle United er klúbbur með stóran og flottan leikvang, dyggan stuðningshóp, ungan og flottan leikmannahóp, ungan og metnaðarfullan þjálfara, háleit markmið og markvisst skipulag í átt að þeim markmiðum, eiganda og framkvæmdarstjóra sem hafa þurft að læra af eigin mistökum en virðast reynslunni ríkari … og Meistaradeildarbaráttu.

Að hverju hlógum við eiginlega á The Kop fyrir þremur árum? Og af hverju erum við hissa á því að Newcastle séu einfaldlega með betra lið en Liverpool í dag?

Ég held að það hefðu fleiri getað litið í eigin barm en Newcastle-menn fyrir þremur árum. Ég sá það ekki þá, það sá það enginn annar, en ég held að við sjáum það flest núna.

Hafið mig afsakaðan, ég ætla að fara út og hoppa fyrir strætó.

60 Comments

  1. OK Vá þetta er svo satt.Ég er ekki Liverpool stuðnings maður og get sagt að þetta er hárétt hjá þér að newcastle eru betri NÚNA en það sem Liverpool geturu lært af þessu er að kaupa skynsamlegra eins og:

    ekki kaupa þessa BPL-proven leikmenn eins og Downing,Adam,Henderson og Caroll heldur kaupa óþekkta menn eins og Cabaye( sem kemur reyndar frá fakklandsmeisturum Lille enn hann var engin Gervinhino eða hazard),Tiote,Ben afra sem var eitt mesta efni heims á sínum tíma þið sjáið hvað ég er að fara útí.

    Kaupa menn frá stórum liðunum út í evrópu sem eru ekki notaðir eins og Granero,Afellay,Pedro leon og Bojan o.s.frv.

    Svo er líka hægt að kaupa eitthverja snillinga í litlu deildunum ekki á englandi heldur í evrópu.

    Þetta sem ég er búin að vera segja geturu allt verið í mínum heimska haus eða þetta virkar bara í Football manager enn þar sem planið hjá KD er ekki að virka afhverju lærið þið ekki af newcastle.

  2. Í fyrsta lagi þá er þetta frábær grein hjá þér Kristján og þetta er að mínu mati eitt það allra áhugaverðasta í boltanum í dag að mínu mati – þessi ‘moneyball’- eða ‘soccernomics’-rekstur.

    Liverpool og Newcastle eru bæði lið sem eru klárlega að vinna út frá þessum hugsunum. Þetta snýst um að fá jafn mikils virði eða meira út frá þeim fjárhæðum sem þú eyðir í lið þitt. Í raun má segja að síðastliðið ár þá er annað liðið kennslubókardæmi um það hvernig þessi aðferð lítur út þegar hún skilar árangri og hitt liðið er kennslubókardæmi um það þegar þetta gerir það ekki … og við þurfum ekki að hugsa lengi um hvort liðið fellur í hvorn flokk.

    Það sem Newcastle hefur gert er alveg frábært og framar öllum vonum. Maður verður að taka hattinn ofan fyrir þeim. Að safna þessum pening inn í gegnum leikmannasölur, losa sig við oflaunaða ‘gamla’ leikmenn, fá inn unga og ódýra leikmenn. Þetta er frábært fordæmi fyrir þessa aðferð. Þeir hafa unnið sig ekkert smá vel upp á síðustu þremur árum eftir að hafa fengið rækilegt ‘slap in the face’ og í hreinskilni sagt þá held ég að svona lélegt gengi hjá Liverpool í vetur gæti verið þetta wake-up call sem félagið þarf.

    Mér finnst samt smá munur á því hvernig málunum er háttað hjá Liverpool og Newcastle þegar kemur að þessu, þá sérstaklega hvað varðar leikmannakaup og -sölur. Til að byrja með þá var staða Newcastle alveg gjörólík þeirri hjá Liverpool þegar þeirra uppbygging byrjaði. Þetta var félag sem var nýfallið úr Úrvalseildinni þegar þetta hófst allt saman og þeir voru nýliðar í deildinni þegar byrjaði að rúlla af fullum krafti. Það var því töluvert meira svigrúm og meiri skilningur á svona ‘bargain’ kaupum þar sem lagt var út í frekar lágar fjárhæðir í (nokkrum tilfellum) fremur ‘óþekkta’ og jafnvel meðal leikmenn. Tiote til að mynda var ekki búinn að vera mikill fastamaður eða heillað mikið hjá Twente, Ryan Taylor var bara svona ‘lala’ leikmaður og það var kannski ekki mikil spenna í mörgum af þessum kaupum sem þeir gerðu svona til að byrja með. Sama má segja um árið sem þeir voru komnir aftur upp í Úrvalsdeildina, þetta var ekkert svo spennandi hjá þeim neitt og stefnan virtist aðallega bara að tryggja örugglega sætið í deildinni.

    Markmið þeirra til að byrja með var alveg örugglega að byggja þetta upp hægt og rólega, skref fyrir skref en eins og þetta hefur spilast þá eru þeir mjög óvænt komnir í Meistaradeildarbaráttu. Það er alveg pottþétt að mínu mati smá “heppni” í því hjá þeim. Stefna þeirra þetta tímabilið var að ég held alveg pottþétt að ná einhverju af 8-9 efstu sætunum í deildinni og byggja á því þaðan en hikst á öðrum liðum og “heppni” þeirra á að hve mörg kaup hjá þeim hafa skilað sínu hefur gert þeim kleift að ná ótrúlegum árangri.

    Liverpool hefur séð um að fjármagna þessa uppbyggingu Newcastle í ár alveg út í eitt. 42 milljónir sem við höfum gefið þeim fyrir tvö leikmenn frá þeim (sem hafa í raun ekki skilað því sem maður hefði viljað) og síðan við gáfum þeim 35 milljónirnar fyrir Carroll þá held ég að ég fari rétt með mál að þeir eru ekki einu sinni búnir að eyða öllum þeim pening þrátt fyrir að hafa keypt Cabaye, Ba, Cisse, Obertan, Ben Arfa og Santon! Sem sagt má líta á það þannig að Liverpool hreinlega gaf þeim bara stóran hluta úr liði þeirra í dag. Úff…

    Ég held að statusinn á Liverpool í þessari uppbyggingu sé allt annar en hjá Newcastle og pressan er töluvert meiri á Liverpool að ná hlutunum rétt en hjá Newcastle sem hafa verið mjög lausir við pressu á þessum mikilvægu tímum í uppbyggingu þeirra. Menn gagnrýna mikið Liverpool fyrir að hafa keypt ‘meðalmennina’ Downing, Carroll, Henderson, Adam osfrv. Pressan á þessum leikmönnum er svo allt önnur en hjá leikmönnum Newcastle. Liverpool gerði mjög illa á markaðnum í fyrra, þeir keyptu kannski ekki lélega leikmenn en þeir keyptu að því virðist mjög óskipulega og á alltof háu verði – á meðan að Newcastle virðast hafa keypt frekar skynsamlega og skipulega.

    Ég tel, þó einhverjir kunni að vera mér ósammála, að Liverpool sé með töluvert betri leikmannahóp en Newcastle og fleiri betri leikmenn en það sem Newcastle virðist hafa sem gerir þeim kleift að ná þetta langt er að þeir virðast hafa fundið sína “formúlu” eða stefnu. Skoðum bara t.d. leikmennina sem þeir hafa verið að kaupa; sprækur og klókur leikstjórnandi (Cabaye), sterkur varnartengiliður (Tiote), hraðir og teknískir kantmenn (Ben Arfa, Marveaux, Obertan) og svo auðvitað hraðir, klókir og markheppnir framherjar (Ba og Cisse). Ef maður skoðar svo restina af leikmannahóp þeirra þá sé ég mjög skýra línu á því hvernig lið þeirra á að vera uppbyggt. Sterkir miðverðir (Coloccini, Taylor og Williamson), sókndjarfir bakverðir (Santon, Simpson, Taylor og jafnvel Gutierrez), tæklari á miðjunni (Tiote), box-to-box miðjumenn eða leikstjórnenur (Guthrie, Cabaye), hraðir kantmenn og að mörgu leyti voða svipaður hópur framherja (þó tveir séu klárlega yfirburða bestir þar).

    Mér finnst hálf partinn ómögulegt að ætla að sjá svona skýra línu með leikmannahóp Liverpool og það má að miklu leyti klína því á leikmannakaupin síðasta árið. Til dæmis það að Suarez átti að koma inn til að spila með Torres en hann fór og Liverpool fór í gjörólíka átt og kaupir Carroll, virðist í kjölfarið breyta leikstíl sínum og leikáherslum og erfitt að átta sig á því hvert planið í raun og veru sé hjá þeim.

    Margir hafa verið að hrósa njósnarateymi Newcastle fyrir að finna þessa ‘demanta’ þeirra en persónulega þá held ég að það sé ekki beint lykillinn að velgengni þeirra enda er það bara í tilfelli Tiote sem mér finnst þeir hafa fundið ‘óslípaðan demant’. Cabaye, Santon, Ben Arfa, Cisse og Ba voru allt þekktir leikmenn úr fótboltaheiminum og spiluðu í stórum liðum á Evrópu svo það er ekki að ég held njósnateymið sem gerir þarna gæfumuninn – ég held að þetta snúist meira um það að þeir fóru á eftir leikmönnum sem hentuðu sínum hugsunum og voru í þannig stöðu að þeir vildu fara til annars félags og því gátu þeir fengið þá á ódýrara verði en ella. Það er að mínu mati óskiljanlegt að fleiri lið voru ekki að reyna að fá þessa leikmenn til sín þegar þeir voru í boði af því það var vitað fyrirfram að þetta voru allt fínustu leikmenn.

    Eitt að lokum svo maður geti farið að sofa þá finnst mér sú ákvörðun Newcastle að láta Houghton, sem hafði náð flottum árangri með þetta lið, fara mjög góð. Mér fannst hún frekar ósanngjörn í fyrstu en þeir töldu sig hafa fundið betri mann í starfið, mann sem var líklegri til að taka þá þessi næstu skref. Djarft move en þeir virðast hafa fundið fullkomna formúlu fyrir sig hvað varðar leikmannahóp, rekstur og stjóra.

  3. Þetta er búið að vera glæsilegur uppgangur hjá Newcastle, eiginlega langt fram úr öllum vonum myndi ég halda. En mikið væri nú gaman að lesa þessa síðu í sumar ef við myndum byrja í sumar að losa okkur við stærri nöfnin í hópnum og byrja að kaupa nokkra1-8 milljóna menn. Veit nú ekki betur en það hafi allt verið arfa vitlaust hérna úti Benitez og hans endalausu kaup af meðalmönnum sem ekkert varð úr !

    Það sem kannski mér finnst frekar vanta hjá okkur er alveg kristal tær stefna, eitthvað sem allir skylja, og allir vinna eftir. Kenny hefur einhvernveginn verið með þetta svoldið í lausu lofti og þar held ég að vandamál okkar liggi, miklu frekar en í hópnum sjálfum.

  4. smá innskot kristján atli, en þessi enrique account á twitter sem átti að hafa verið að kvarta var víst fake eftir því sem ég best veit

  5. Newcastle er að gera fina hluti akkùrat nùna en èg fullyrði að frà og með deginum i dag og til àrsins 2020 munu þeir vinna 0 titla. Þannig lið er Newcastle. À sama tima mun Liverpool vinna svona 5-7 titla. Þannig lið er Liverpool. Gengi liðsins i dag er ekki ehvað sem er komið til að vera næstu àrin.

  6. Algerlega frábær pistill hjá þér Kristján.
    Ég er búin að gefast upp á LFC í ár, en ekki kop.is.

  7. Frábær samantekt Kristján.

    Það er alltaf hægt að vera vitur eftir ár. Liverpool var að kaupa í takt við þær reglubreytingar sem krefjast fleiri Englendinga. Það er alveg vitað að verð á þeim er hærra og fer bara hækkandi því ekki eru þeir margir sem geta eitthvað í knattspyrnu.

    Það voru allir spenntir fyrir Downing, Henderson og Adam. Þeir höfðu átt frábært tímabil og valdnir bestir hjá sínum félögum, auðvitað kostuðu þeir peninga en á meðan ég þarf ekki að borga fyrir þá er mér nokk sama.

    Hver hefði giskað á að þeir myndu ekki ná sér á strik? Hver hefði giskað á að Tiote og Cisse og Demba myndu slá í gegn á þessu tímabili? Hver hefði viljað kaupa þá leikmenn frekar en okkar bresku leikmenn?

    Nú er talað um að við hefðum átt að kaupa erlenda leikmenn. Muna menn ekki eftir Cheyrou? Pongolle og Tallec? Hvar eru þeir núna? Hvernig gekk með Morientes?

    Stundum bara gengur þetta ekki upp. Ég held að aðalvandamálið sé andlegt hjá Liverpool og að Dalgliesh hreinlega geti ekki náð þeim uppúr þessu þunglyndi. Er hann kannski of nice og hvetjandi þegar hann þarf að sparka takkaskóm í hausinn á þeim eins og Sörinn? Fótbolti er nú ekki svona flókið sport, menn gátu spilað eins og herforingjar áður en núna er sálartetrið í rúst og það væri gaman að fá innsýn inn í móral leikmanna sem bara hlýtur að vera skelfilegur.

    Hjá Liverpool hefur alltaf skort þolinmæði. Við viljum vinna alla leiki og það er ekkert óeðlileg krafa í sjálfum sér en ef horft er til þess hvernig ástandið er akkúrat núna, þá er augljóst að á pappírum ætti liðið að ná í efstu fjögur en andlega geðheilsan heldur þeim eitthvað niður.

    Ég er sannfærður að maður eins og Mourinho myndi hrista upp í hópnum og ná fram þeim gæðum sem býr í þessum hóp. Svo væri það annar handleggur að styðja liðið með hann sem stjóra!

    Kannski væri spurning hver væri til í að selja breska flotann hjá okkur og gambla með 3-4 miljón punda leikmenn vítt og breitt úr evrópu?

  8. Flottur pistill og líka svarið hjá þér Óli Hauku. :Þetta Newcastle ævintýri er náttúrulega bara frábært en langt því frá að vera tilviljun. Newcastle áttuðu sig líka á því að Enskir leikmenn passa sárasjaldan inni í “soccernomics” modelið enda alltof dýrir. Nú er næsta skref að halda þessu áfram og nota peningaflæðið til að hækka lítið eitt launastefnu félagsins til að geta haldið demöntunumn lengur til að geta farið að ná alvöru árangri s.s. bikurum. En það er einmitt erfiði hlutinn við þetta spurjiði bara næsta Arsenal mann. En þetta er allavega fín byrjun hjá þeim. Eina spurninga merkið sem ég set við Newcastle í dag er að ég er en ekki sannfærður um ágæti eigandans.

  9. Það eru nú samt ekki nema 10 ár á milli Pardew og Dalglish, finnst vera soldið mikið bullað um að Dalglish sé of gamall og blabla um þetta, það kemur þessu bara rassgat ekki við hversu gamall eða ungur hann eða hver annar er, til að vera “graður”. Þvæla og ekkert annað

  10. Kjánalegt að spyrja í lokin “afhverju hlógum við að NU 2009?” !!! Þeir féllu! Það er ástæða til hláturs…

    Ekki einu sinni Nostradamus hefði mögulega getað spáð fyrir um gengi NU í kjölfar fallsins enda er það með megnum ólíkindum.

    Held að það sé réttast að bíða með yfirlýsingar um langtímaárangur þessarar taktíkar hjá Pardew og félögum. Þetta getur hæglega sprungið í höndunum á þeim… Rétt eins og það gerði hjá okkar ástsæla liði eftir leiktíðina sem við enduðum í 2. sæti!

    Svo myndi ég líka láta stætóferðina vera Kristján! Þú hljómar þungur…

  11. Það er ekkert leyndarmál að Liverpool séu búnir að vera að leggja háar upphæðir í leikmenn og fá lítið til baka.
    Ég held að menn þurfi samt aðeins að bíða og leyfa þeim að klára planið sitt. Það er búin að vera mikil tiltekt í gangi, búið að vera mikil leikmannavelta og það er um að gera að gefa Liverpool allavegana næsta tímabil.
    Það er kannski hægt að taka miðlungs lið og “Moneyballa” það í gott lið á stuttum tíma. En ég held að það taki aðeins lengri tíma og stærra plan að “Moneyballa” miðlungs lið í titilbaráttu.

  12. Kannski ekki alveg Moneyball hjá Everton en ~7m pund fyrir 26 ára Jelavic (45þ pund á viku), sem fæstir Liverpool stuðningsmenn vildu heyra minnst á, hefur nú skorað 5 mörk í 10 leikjum (PL+FAC, inná sem varamaður í 3 leikjum) fyrir þá.

  13. Það þarf restart hjá Liverpool. Nýjan þjálfara, nýtt þjálfarateymi. Ný stefnu og áherslur, nýja og ferska leikmenn. Nýja uppbyggingu. Ef við höldum áfram með Dalglish þá verðum við með liðið um miðja deild á næsta tímabili ef ekki í botnbaráttu miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Hann á ekki að fá annan leikmannaglugga til þess að versla. Eyðir alltof miklu í ofmetna leikmenn.

  14. Ágætur pistill, og fínir hlutir í gangi hjá Newcastle. gott hjá þeim.

    En þegar LFC á skítaseason þá er ljóst að aðrir nota tækifærið og asnast til að lenda fyrir ofan LFC…mér finnst menn orðnir ansi dramaðir hérna, að fara að missa sig yfir þeim liðum. Hvað hafa annars svona lið, sem ná kannski/tæplega topp 4 eitt season, náð að gera svo næsta haust?

    hlutirnir eru fljótir að breytast í knattspyrnu og einhvern veginn eru það alltaf gömlu risarnir sem ná sér aftur á flot…sjáið t.d. Juventus.

    Það sem LFC gerir næstu ár er að Shelvey, Kelly Robinson/flanagan taka aðeins við þessu og Kuyt, Maxi, og fleiri gamlir kveðja LFC. Og svei mér ef Reina fær ekki sömu ferð og Shay Given fékk frá LFC….og þarf ekkert fall í Championship á þessum bænum.

  15. Þetta er áhugaverð samantekt og gaman að sjá hvernig liðið hefur sprungið út í vetur. En ég vil bíða með að hæpa þetta Newcastle lið upp til skýjana amk í eitt ár í viðbót. Á hverju ári hafa einhver lið farið framúr markmiðum sínum og önnur ekki náð að uppfylla þær væntingar sem til þeirra eru gerðar. Aston Villa, Everton, Bolton og fleiri lið hafa inn á milli náð tímabilum þar þau hafa verið í 4-6. sæti án þess að fylgja þeim árangri eftir á næstu leiktíð. Ég held að næsta leiktíð verði stóra testið hjá Newcastle um hvort að þeir séu komnir með lið til að berjast í fremstu röð eða ekki. Ég varð vitni af þessum leik á Anfield fyrir þremur árum og ég varð líka vitni að leik liðana á Anfield í desember síðastliðnum þegar Liverpool vann þetta lið 3-1. Munurinn á þessum liðum er ekki eins mikill og menn vilja láta í ljós hérna. Held að hann liggi fyrst og fremst í að í svart hvíta búningnum leika 11 leikmenn með fullt sjálfstraust en í rauða búningnum leika 11 leikmenn án alls sjálfstausts.

  16. Góðir pislar hér,mig langar aðeins að koma með nokkra púnta, #9 talar um að aldur skiptir ekki máli, ó jú aldur skiptir miklu máli bæði hvað varðar leikmenn og þjálfara, þó að aldursmörk þjálfara séu miklu hærri þá missa allir menn púnginn á ákveðnu lífsskeiði lífs sins, ég hef sagt að það er svo mikil munur að halda einkverru sem þú hefur byggt upp heldur en að byggja einkvað nýtt, ég tek að það þurfi kraftaverk að KK geti byggt upp nýtt topp lið í dag, þar skiptir miklu máli aldur hans og ferill. #7 talar um að hjá Liverpool hafi skort þolonmæði, ég er algjörlega ósammála vandamálið hjá klúbbnum er of mikil þolinmæði með árangur og þjálfara síðustu ár, það er stór hluti þessa hversu gríðalega lángt sé síðan við unnum Endlandsmeistaratitillinn síðast ( Bresk þröngsýni) ég er búinn að horfa á um 4-5 uppbyggingar á síðustu árum sem hafa ekki skilað dollunni í hús, það er rétt að við þurfum að hafa vissan fjölda Breska leikmanna í hópnum og þess vegna voru þessi kaup kannski gerð, jú þeir áttu allir góða leiktíð síðast og ekki þurftu þeir að aðlagast Enskum leikstíl enn samt hafa þeir verið með allt niður um sig og ef það er ekki þjálarans þá veit ég ekki hvað,þjálari með púng sér svona strax og grípur inn í,hann byggir menn upp nær því besta úr þeim mannskap sem hann hefur, gerir öllum ljóst hvert hlutverk þeirra sé og allir sem sjá skynja hvert er verið að fara og hvert hlutverk þeirra sé, allir sjá hvaða leikskipulag sé í gangi,,,,,ekkert af þessu sést hjá KK því miður,ég er nokkuð viss um að KK verður hjá okkur út næstu leiktíð og er það vegna þess sem ég minntist á áðan klúbburinn hefur OF mikla þolinmæði og bregst of seint við , best væri fyrir klúbbinn ef við munum vinna FA bikarinn og síðan segði KK af sér, þá héldu allir reisn bæði Liverpool og KK og þá væri hægt að taka næsta skref, við eigum alltaf að vera í toppbaráttu alltaf alltaf alltaf við erum Liverpool YNWA.

  17. Já, mjög góður pistill. Finnst samt hrikalega sorglegt að við séum komnir á þetta stig, þ.e. máta okkur saman við fucking Newcastle….en þetta er því miður staðan í dag. Ég er hins vegar alveg sammála því sem hér að framan greinir að Newcastle hefur enn ekkert unnið neitt og það kæmi mér verulega á óvart ef þeir næðu 4. sætinu. Við erum með mun sterkari leikmannahóp en þeir en við erum hins vegar með 0 sjálfstraust, en þeir fullt af því. Það er einmitt vandamálið okkar í hnotskurn, ekkert sjálfstraust og lélegt leiksipulag.

  18. Goggurinn, hann spyr af hverju hann og aðrir hlógu einfaldlega til merkis um það að sú staðreynd að falla og geta hafið ákveðna endurnýjun getur haft betri afleiðingar í för með sér til lengri tíma, og staða Newcastle sem er töluvert betri en staða Liverpool í dag sannar það. Þess vegna spyr hann sig þessarar spurningar.

    Sem Newcastle maður þá þykir mér þetta góð samantekt og í heildina litið hárréttir punktar.

    En engu að síður þá er okkur stuðningsmönnum NUFC alveg ljóst að Mike Ashley er ennþá mjög loose cannon. Þó að Pardew ráðninginn hafi gengið upp, þá var Hughton brottreksturinn alveg fáránlegur. Hann náði mjög góðum árangri með liði og svo gott sem bjó til feril handa meðalmennsku nöfnum í liðinu eins og Carroll og Danny Simpson. Þó að Ashley hafi unnið þetta veðmál þá hefði það geta farið á báða bóga, því það er ekki eins og Alan Pardew sé með skothelda ferilskrá. Eitt er samt víst að hann er alveg fær knattspyrnustjóri. Uppstillingar, taktík og innáskiptingar hafi í 85% tilvika verið spot on í vetur.

    Það helsta ssem má gagnrýna Pardew fyrir er að hann var hræddur við að nota Ben Arfa og bekkjaði hann ítrekað því hann vildi frekar Obertan því hann sinnti varnarvinnunni betur (?!). Þegar þú ert með mann eins Ben Arfa í liðinu þínu, með magic talent, þá notaru hann einfaldlega. Og hann hefur lært það núna enda leikur Ben Arfa sér að flestum varnarmönnum deildarinnar.

    En í grunninn er þetta frábær grein, en vil bara ítreka að þó grasið sé í rauninni grænna hinum megin í augnablikinu, þ.e. Newcastle megin í þessu samhengi, þá er Mike Ashley samt búinn að gera Newcastle mönnum lífið leitt í gegnum árin. Hann hefur t.d. breytt nafni leikvangsins tvisvar. Hvernig liði ykkur ef að nafni Anfield væri breytt í New England Sports Venture stadium og auglýsingum fyrirtækisins komið fyrir á mjög áberandi stöðum? St. James’ Park nafnið er íbúum Newcastle borgar álíka mikilvægt og nafn Anfield og the Kop er fyrir ykkur.

    Ashley hefur tekið réttar ákvarðanir uppá síðkastið, þær bæta að einhverju leyti upp fyrir lélegan rekstur klúbbsins (hann átti félagið líka þegar það féll) hérna áður, en engu að síður þá gleymast ekki þær ömurlegu ákvarðanir sem hann tók áður. Kevin Keegan var kannski ekki réttur stjóri fyrir NUFC eins og Dalglish er mögulega á endastöð með ykkur, en hver væri skoðun ykkar á John Henry ef hann hefði rekið Dalglish síðasta ágúst eftir flott season eftir að Kenny tók við, einfaldlega því að Kenny vildi ráða eigin leikmannakaupum?

    Grasið er grænna Newcastle megin þessi misserin það er ljóst, en þeir sem rækta það tókst að eyðileggja grasið rækilega áður en það hafðist að rækta það iðagrænt aftur, og það var vafalaust ekki viljandi.

  19. Ég held að menn séu að hæpa þetta “moneyball” dæmi upp aðeins of mikið. Það er enginn stóri sannleikur eða hin eina rétta leið til að reka íþróttafélag. Og hvorki FSG né Newcastle fundu upp þetta hugtak.

    Moneyball er einfaldlega Viðskipti101. Þú kaupir fyrirtæki sem á sér vaxtarmöguleika, rekur það eins vel og þú getur, og selur svo þegar tíminn er réttur og rétt tilboð berst. Þannig hámarkar þú hagnað þinn. Þetta er ekki flóknara en svo.

    Þetta er ekkert nýtt í knattspyrnunni heldur. Fjöldinn allur af félögum hefur stundað þetta, þó kannski sem yfirlýst markmið en stundað þetta samt að ákveðnu marki. Þessir klúbbar eru stundum kallaðir dótturklúbbar eða fóðrunarklúbbar (feeder clubs). Þeir taka unga og efnilega leikmenn, hvort sem þeir eru keyptir ódýrt eða aldir upp, fóstra hæfileika þeirra og um leið verða þeir betri leikmenn. Síðan kemur stór klúbbur og kaupir leikmanninn fyrir fúlgur fjár. Litli klúbburinn hagnast, stóri klúbburinn fær gæðaleikmann, og allir græða.

    Nema … það er einn stór galli á þessari hugmynd. Ef þú kaupir unga og efnilega leikmenn, og yfirlýst markmið þitt er að selja þá þegar verðmæti þeirra er mest, þá færð þú ekki að njóta þess að hafa leikmanninn þegar hann spilar sinn besta fótbolta á ferlinum.

    Skv. þeirri lógík þá var það kórrétt ákvörðun að selja Alonso á sínum tíma – burtséð frá því hverjar ástæðurnar voru fyrir því. Á sama hátt hefði þurft að selja Gerrard á árunum 2005 eða 2006. Og meira að segja fimmtíumilljónpunda leikmaðurinn átti allan daginn að fara á þeim tímapunkti sem hann fór, því hann hámarkaði hagnað félagsins á honum.

    Ég var og er ósáttur við sölurnar á öllum þessum leikmönnum, því liðið vinnur aldrei neitt ef það selur alltaf bestu leikmennina.

    Á sama hátt þá mun Liverpool selja Suarez, sem ég tel hafa hæfileikana til þess að verða einn besti leikmaður heims, um leið og hann nær toppnum. Þ.e.a.s. ef Liverpool ætlar að leggja þetta Moneyball til grundvallar sínum rekstri. Það yrði algjör synd að sjá Suarez eftir 3-5 ár spila fyrir einhver af stærstu félögum heims, þegar hann gæti verið að spila fyrir Liverpool.

    Ég er ekki sannfærður um þetta hugtak, þó ég skilji ósköp vel að þetta sé einfaldlega rekstur á félaginu. Ég hef bara meiri metnað fyrir Liverpool FC en svo, að ég vilji sjá klúbbinn verða að “feeding club” fyrir ManCity, AC, Real, Barca og svo framvegis. Hann hefur verið í þessari stöðu síðustu ár, ekki vegna þess að það var stefna félagsins heldur vegna þess að félagið neyddist til þess. Og það er ömurlegt. Og er ömurlegt að horfa á Alonso í lykilhlutverki hjá Real og Masch hjá Barca. Jafnvel smjörpungurinn hjá Chelsea er að spila með áður óþekktri ánægju, og tímaspursmál þangað til að hlutirnir smella hjá honum þar.

    Auðvitað er frábært hjá Newcastle að hafa náð þeim árangri sem þeir hafa náð á þessu tímabili. Sama gildir um Swansea, en bæði lið eru að spila flottan bolta og það sem meira er – það dettur allt fyrir þau. Menn skapa sína eigin heppni, og þessi tvö félög eru vissulega að gera flotta hluti. Stóra prófið fyrir þau koma hins vegar á næsta tímabili – og ég er alveg til í að leggja töluverða upphæð á að Swansea falli á næsta tímabili. Sennilega ekki Newcastle þó, en ég efast samt um að þeir eigi aðra eins leiktíð fyrir sér á næsta ári.

    Flottur pistill samt hjá KAR. Menn mega eiga það hér á kop.is, pistlarnir hér undanfarið hafa verið í óeðlilega miklum gæðum, og svörin hér hafa sömuleiðis verið mörg hver afar fróðleg og vel rökstudd 🙂

    Homer

  20. Mér finnst hluti að velgegni Newcastle vera góð þjálfun og rétt hvatning frá stjórunum. Leikmenn eins og t.d Gutierez, sem var arfaslappur og rennandi sleipur á síðasta HM (held alltaf með Argentínu á stórmótum) hafa spilað mikið betur og batnað – og svo líka eins og þú segir KAR, rétt kaup.

    Þessir spilarar voru nú samt nokkuð spjallaðir – Santon (að mínu mati besti leikmaður NUFC teknískt séð), var orðinn drullugóður (miðað við aldur) með Internazionale og kom til liðsins frá þeim, ríkjandi Evrópumeisturum. Cabaye kom frá Lille sem tóku á endanum titilinn í Frakklandi og Ben Arfa frá Marseille sem voru á góðri siglingu. Auk þess hafði Ben Arfa verið orðaður við mörg stór lið í Evrópu.

    Ég hef samt ekki verið mikill aðdáendi Moneyball kaupa, allavega sem Liverpool aðdáaendi. Ef menn taka upp á þessu gambli (sem jú getur virkað) í sumar og það klikkar aftur þá get ég einfaldlega ekki horft upp á það.Eins og ég hef sagt áður þá vil ég frá ,,slípaða” leikmenn til LFC (á réttum aldri, 24-28) og ég fatta ekki lengur hvað efnilegur þýðir. Sérstaklega ef Comolli stendur á bak við efnilegheitin, þá vil ég síður sjá þau í treyjunni rauðu.

  21. Kristján Atli

    Þú ert að misskilja Moneyball alvarlega
    Hún snérist ekki um að selja dýrt og kaupa ódýrt.
    Hún snérist um kaupa gríðarlega sérhæfða leikmenn sem gátu lítið annað (sem gerði þá ódýra) t.d. leikmann með frábært hlutfall í hitni en sem væri svo hægur að hlaupa að hann væri gagnlaus nema þegar allar hafnir væru fullar. Jafngildi þess væri að kaupa leikmann sem væri bara gagnlegur að taka hornspyrnur.

  22. Held það sé hæpið að segja að Newcastle hafi eitthvað sérstaklega verið með Moneyball í huga þegar þeir byrjuðu að byggja upp eftir að hafa fallið úr Úrvalsdeildinni. Vissulega er eitthvað plan í gangi en þeir hafa auðvitað verið heppnir með kaup á leikmönnum auk þess hefur Pardew skipulagt liðið vel. Hann er ekki slæmur stjóri, muna menn ekki hvað hann gerði með West Ham árið 2006, þeir komust í úrslit FA Cup gegn okkar mönnum og lentu í 9. sæti í deildinni. Árið eftir var félagið keypt af Eggert og félögum og þeir ráku Pardew snemma á tímabilinu eftir lélegt gengi í nokkrum leikjum.

    En aftur að leikmannakaupum Newcastle þá hafa þeir klárlega verið með gott scout net í gangi sem hefur tryggt þeim frábæra leikmenn. Vissulega er Ben Arfa áhætta, hausinn á honum er ekki 100% rétt skrúfaður á en þegar hann er í lagi þá er þetta frábær leikmaður.

    En okkar menn eru hinsvegar sagðir vera að fylgja þessari stefnu og þar held ég að Dalglish hafi klárlega mikil áhrif á hvað er keypt og hann hefur frekar viljað kaupa breska leikmenn síðasta sumar. Það hefur reynst dýrkeypt en ef maður horfir til fyrstu ára Comolli hjá Tottenham þá verð ég örlítið vongóður, þar á bæ voru menn farnir að vilja hann burt fljótlega eftir að hann kom eins og margir Liverpool menn vilja núna.

    Ég efast virkilega um Dalglish sem stjóra eftir ömurlegt gengi þetta tímabil en held að hann ætti að fá annan séns á því næsta, óheppnin og lélegir dómar sem hafa heldur betur hundelt okkur ALLT þetta tímabil getur bara ekki gengið endalaust. Það er varla sá leikur til á tímabilinu þar sem við getum sagt að liðið hafi verið heppið með sigur, hinsvegar eru nær óteljandi þeir leikir þar sem við getum bölvað ömurlegri færanýtingu leikmanna og svo skelfilegrar dómgæslu til viðbótar og þar af leiðandi gargar maður af pirringi þegar mótherjarnir ganga af velli með 1 eða 3 stig.

  23. Bara get ekki tekið undir með mönnum að þetta sé góð grein og að Newcastle sé komið með betra lið/betri leikmenn en Liverpool.

    Ég er reyndar einn af þeim örfáu hér á kop.is sem spáðu Newcastle mjög góðu tímabili í ár en þeir eru samt ekki orðnir neitt fyrirmyndarlið fyrir okkur. Ég hef satt að segja frekar lítinn áhuga á þessu “moneyball” fyrirbæri. Það er ekkert hægt að heimfæra einhverja tölfræðisúpu úr hægustu og fyrirsjáanlegustu íþrótt í heimi (hafnabolta) yfirá testósteron hraða og kontaktsport eins og enskan fótbolta. Þau lið sem gera það verða hæg og fyrirsjánleg. Hvernig erum við að spila í dag?

    Aðalfeill Liverpool í leikmannakaupum í ár kemur aldri, tölfræði og verðmiða ekkert við. Aðalmistökin liggja í því að kaupa og treysta á meðalgóða breska leikmenn. Núverandi góðæriskynslóð enskra leikmanna er einfaldlega hörmulega léleg. Ofdekrað moldríkt lið sem hugsar meira um sportbíla, póker og kellingar en að kunna undirstöðuatriðin í knattspyrnuíþróttinni. Aðferðafræði Dalglish við að líkja eftir Blackburn árunum hefði vel getað gengið upp á öðrum tímum en ekki í dag. Er að sannfærast æ betur um að Dalglish sé hárréttur maður á röngum tíma fyrir Liverpool.
    Hann hefur karakterinn og sjálfstraustið til að binda enda á sigurtímabil Man Utd en beið bara of lengi. Sá sterki enski grunnur sem hann þarf er bara alls ekki til staðar á leikmannamarkaðnum í dag. Þetta er algjör synd því Ferguson er skíthræddur við Kenny og Man Utd sjaldan verið með jafn hörmulega slakt lið og í ár.

    Ég hef alltaf haft lúmst dálæti á Newcastle og þeir eru mikið vinalið Liverpool en þeir eru ekkert að fara halda sér í baráttu um meistaradeildarsæti næstu ár. Ekkert frekar en meðalmennskuklúbburinn Tottenham sé að fara berjast af alvöru um Englandsmeistaratitilinn næstu 50ár. Um leið og Modric og Bale fara frá þeim þá hrynur líka allt. Við ættum frekar að læra af uppgangi Newcastle á 10.áratugnum þegar þeir keyptu Asprilla og Ginola og voru meðal allra bestu liða Englands útá sóknarbolta Kevin Keegan. Ég gleymi aldrei þeim dásamlega degi þegar þeir niðurlægðu Man Utd fullkomlega 5-0, í leik sem endaði á að miðvörður þeirra vippaði yfir beikonfésið á Schmeichel. Ég á enn þennan Newcastle búning.
    http://www.youtube.com/watch?v=dK4wFKYtipo

    Við þurfum að finna okkar Ginola á vinstri kantinn og grjótharða all-round Shearer týpu frammi, byggja liðið í kringum þá og Suarez og spila alvöru sóknarleik því enska deildin gengur útá að slátra litlu liðunum ekki að vera gott bikarlið eins og Liverpool er fast í. Sérstaklega er góður vinstri kantmaður mikilvægur, það verður ekkert lið enskur meistari nema hafa afburða mann þar. Skoðið öll meistaralið síðustu 2-3 áratuga. Downing er ekki sá gaur. Keegan keypti franska leikmenn í mikilvægar stöður. Ég hef lengi talað fyrir því hérna á kop.is. Hvenær keypti Liverpool síðast alvöru franskan leikmann? Houllier keypti Þjóðverja til að bæta agann og vinnusemi í Liverpool með góðum árangri. Afhverju erum við hættir að kaupa leikmenn frá 2 stærstu þjóðum Evrópu? Menn sem koma fullkomlega tilbúnir í enska boltann?

  24. Ágæt grein og ágætis spjall um hana. En það er svo frábært er þegar menn halda því fram að Sir Alex, sigursælasti þjálfari frá upphafi knattspyrnunnar, skuli vera eitthvað hræddur við Kenny Dalglish og að hann skuli vera kominn aftur:S Maður sem hefur svo sem ekki gert mikið á sínum þjálfaraferli.

    Til að koma mönnum niður á jörðina, þá held ég að það séu nokkuð margir á undan hinum annars ágæta Kenny í röðinni ef Sir Alex er hræddur við eitthvað á annað borð.

  25. Mjög áhugaverð og fræðandi grein. Ég tel að Liverpool þurfi að vinna betur í sínum málum varðandi stefnu ss. moneyball, að kaupa Carroll á 35M er frekar skrýtið þegar þú berð það saman við Newcastle sem keypti Cissé á 9M og Ba frítt. Vissulega fengum við drjúgan aur fyrir Torres en það voru bara svo miklu betri framherjar til, fyrir miklu minni pening. Ég tel að við þurfum að styrkja framlínuna í sumar Súarez er eitthvað svo einangraður frammi og þarf helst einhvern markaskorar fyrir framan sig ég læt mig dreyma um Huntelaar en það er frekar fjarlægður draumur. Allavega þá þurfum við helst að selja Carroll (því miður, batt miklar vonir við hann) og kaupa betri mann í staðinn. Mér dettur enginn nöfn í hug en ég er viss um að Comolli er fullhæfur í það.

    Gleðilega páska strákar og einhverja stelpur sem lesa þessa síður.

  26. Vandamálið við moneyball, socceronomics og sabermetrics er það að þessi hugtök og praktík passa ekki neitt rosalega vel í fótbolta. Þetta hefur gefist rosalega vel í hafnarbolta því að það er svo allt, allt önnur íþrótt. Þar er hægt að pikka út leikmenn sem eru góðir í einhverjum einum ákveðnum hlut, það eru engin tímamörk og liðið þarf svo gott sem ekkert að spila saman. Öll tölfræðin sem liggur þarna að baki er bara ekki hægt að færa yfir í fótbolta. Ef við tökum dæmi, leikmaður sem tekur virkilega gott hlaup fram á við og á bakvið vörnina, er í góðri skotstöðu, en fær ekki sendingu. Það er ekki hægt að færa það yfir í tölfræði. Eins er ekki hægt að setja tölu á það hversu vel leikmaður spilar með öðrum leikmönnum og hversu mikið þeir contribute-a miðað við vinnslu/hlaup.

    Getur það verið að Liverpool vanti betri scout-a? Það eru margir (ég þar á meðal) sem að vilja meina að Graham Carr sé einn af lykilmönnunum á bakvið uppgang Newcastle. Er búinn að vera “Head-scout” þar í nokkur ár.

    Ég hef ekkert á móti því að Comolli verði áfram, en það þarf klárlega einhvern eins og Carr í raðir Liverpool. Það sem ég held samt að sé eitt af vandamálum félagsins sé að við erum okkur sjálfum verstir eins og einhver hefur komið inná hérna fyrr í þræðinum. Það er enginn að fara að segja mér að menn hefðu verið rosalega kátir með að fá Cissé í janúar. Það er rosalega hæpið að Livepool sé að fara að fá einhverjar stórstjörnur í sumar, það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að telja leikmönnum trú á að saga félagsins sé nóg. Liverpool ætti að taka Newcastle á þetta og við stuðningmennirnir ættum að taka leikmönnum opnum örmum.

    Sumir hafa hent fram nöfnum eins og Cavani, Lavezzi, Hazard, Soldado og fleiri. Ég sé ekki hvernig að það er að fara að gerast. Þurfum við ekki að taka áhættu og taka leikmenn sem eru að spila fyrir minni lið og standa sig vel. Nýjasta slúðrir er Vargas hjá Fiorentina. Persónulega er það mjög gott dæmi um leikmann sem ég held að myndi standa sig vel, stekur og fljótur með afbragðs vinstri fót. Fiorentina er 5 stigum frá falli í Seria A og Vargas er búinn að vera þeirra stjörnuleikmaður á þessu tímabili og sá eini sem hefur eitthvað getað. Margir gætu sagt að það sé sama sagan með Charlie Adam, sem er að mörgu leiki rétt. Menn verða samt að átta sig á því að það eru aldrei öll kaup að fara að virka. Paul Tomkins sagði að það væri eðlilegt að 50-60% af kaupum ættu að virka, sem ég er sammála. Liverpool eru búnir að vera óheppnir í ár og vonandi snýst gæfan við á nýju tímabili, það er bara þannig.

    Við vonumst eftir betri tímum frammundan, það er víst það eina sem við eigum eftir.
    YNWA

  27. Sæl öll

    Gleðilega páska og takk fyrir fróðlegan pistil. Okkar menn unnu afrek í gær og ég er mjög stolt af þeim. Hvað afrekuðu þeir..jú þeir töpuðu ekki, þeir unnu ekki heldur en að mínu áliti er jafntefli betra en tap…ég vona að ég sé ekki sú eina sem hef þá skoðun. Róm var ekki byggð á einum degi og sárlasin sjúklingur stekkur ekki albata upp úr rúminu einn daginn. Þetta tekur allt tíma sjálfstraust okkar manna var í rúst og þeir vissu bara ekki hvað var til ráða, kannski vita þeir það ekki enn en þeir reyndu samt sitt besta í gær og vonandi sjáum við áfram hægan bata á liðinu okkar.Ég hef sagt það áður og segi það enn ég mun aldrei aldrei gefast upp á Liverpool sama hversu illa gengur.Ég veit ekki hvaða stefna er varðandi kaup á mönnum, þeir sem komu í fyrra eru ekki alveg að finna sig og skotskóna en það kemur það kemur, það hefur aldrei rignt svo mikið og lengi að aldrei stytti upp og svo verður eins í Liverpool.
    Kæru Poolara höfum trú á okkar liði njótum þess að lesa alla þessa frábæru fróðleikspistla sem þeir á Kop.is bjóða okkur upp á verðum fróðust um allt sem viðkemur fótbolta EN ekki segja hér á stuðningssíðu okkar ástkæra liðs ” ég hef gefist upp á LFC” við höfum öll mismunandi skoðanir og það er bara fínt því þá fáum við fleiri og fleiri sjónarhorn á málunum og getu velt þessu fyrir okkur frá öllum sjónarhornum.
    Við verðum að standa með liðinu okkar í gegn um súrt og sætt því að :
    “At the end of a storm there is a golden sky”
    Munum bara eftir því að við göngum aldrei ein…

    YNWA

  28. Ef ad yrdi gefin út orðabók í dag ensk/ísl : Moneyball-Að borga allt, allt of háar fjárhæðir fyrir ofmetna Breta amk samkvæmt þessu rusli sem við fengum inn sumar 2011

  29. góðan og blessaðan…
    ég sem newcastle áðdáandi þá verð ég að taka ofan fyrir þessari grein mér fannst hún skemmtileg og fræðandi og gaman að sjá þetta á svart og hvítu og aðvitað er maður í skýjunum yfir þessu gengi hjá newcastle en maður bíst alltaf við að þessu gengi liðsins endi, en alltaf gaman þegar gengur vel.

    Ég á helling a liverpool áðdáendum sem vini og horft á marga leiki með ykkar liði í vetur og ég hef alltaf sagt við viðkomandi að liverpool kaupir of ólíka leikmenn suarez og carroll eiga ekki heima í sama liði, carroll gékk upp með barton með sér til að hitta á hausinn á honum (veit að gerrard getur alveg sent boltann) og suarez þarf að fá framherja með sér sem er með álíka sendigagetu sem hann er með og hraða (carroll hefur hann ekki), newcastle hefur keypt helling af leikmönnum sem tala flest allir frönsku þeir ná vel saman og maður bjóst aldrei við að þeir myndu ná svona vel saman sem mér finnst það æðislegt.

    Og með þessu áframhaldi getur newcastle gert það sem þeir vilja ég er sannfærður um að við getum alveg risið upp aftur og orðið þetta venjulega top 4-5 lið aftur og vona að sjálfsögðu að við förum að skila inn einhverjum dollum

    áfram toon 🙂

  30. Alvöru stuðningsmenn gefast ekki upp á að halda með LIVERPOOL þó liðið sé í lægð og illa gangi.

    YNWA

  31. Sælir félagar,

    Ef það er einhvað sem ég þoli ekki, þá er það að þurfa alltaf að tala um fortíðina þegar ég hrósa Liverpool FC
    Horfi reglulega á þetta myndband til að rifja upp hvað Liverpool FC var fyrir svo stuttu síðan.
    http://www.youtube.com/watch?v=tPEmC3vN-bQ&feature=related

    Kannski einhvað smá til að láta þunglynda menn fá gæsahúð og halda í vonina…

    Ennþá styttra síðan þetta var :
    http://www.youtube.com/watch?v=n8_pjycvQt8&feature=related

    http://www.youtube.com/watch?v=skoafqqLlJk&feature=related
    Djöfull sakna í líka LUCAS LEIVA!
    YNWA!

  32. var liverpool ekki restartað í fyrra?

    það þarf mikið afl til að hnoða hjarta í risa í gang.
    kemur á næsta sísoni
    þá dettur heppnin og dómararnir með okkur.

  33. Skil ekki afhverju allir eru að skíta yfir Downing , mér finnst hann frábær leikmaður !

  34. Segi það enn og aftur, þetta er besta íslenska stuðningsmannasíðan. Ég er farinn að leggja vana minn að koma hérna við á netrúntinum, fyrir greinar eins og þessar. Og jú kannski líka að hlakka yfir undanförnum óförum ykkar, en maður verður nú að fá að njóta sín stundum. Þetta verður ekki alltaf svona hjá ykkur.

  35. Ég fór á Andfield í vetur og var svo heppinn að fá miða í The Kop,það var geðveikt, það kom mér smá á óvart hvað margir bretar þarna voru ekki sáttir með suma leikmenn sína td voru þarna 3-4 bretar sem öskruðu í hvert sinn sem boltin berst til Adams þeir formæltu honum og virtust hreinlega hata hann, í seinni hálfleik fóru margir að kalla Bellamy inn á ( var á bekknum) , þegar hann kom síðan inná þá var ekkert smá fagnað,ég sá þarna svart á hvítu hvað menn bæði töluðu neikvætt og jákvætt um leikinn og leikmenn okkar , eins hef ég gert það hér og sagt ykkur mína skoðun á KK og sumum leikmönnum okkar enn ef þig vissuð hvílíkt ég elska þetta félag og allt sem því viðkemur, ég veit að flestir ykkar hér sem segja skoðun sína er eins fyrir komið, jú að sjálfsögðu elskum við klúbbinn okkar þó að við séum kannski ekki allir sammála sumir vilja KK burt (td ég) og aðrir gefa honum 1-2 ár í viðbót eins er með leikmenn okkar við höfum mismunandi skoðum á þeim,,, eitt er ekki gaman að sjá hér og það er þegar menn segjast ekki ætlað að horfa eða styðja klúbbinn núna í þessu mótlæti okkar, en samt trúi ég því að menn séu ekki að meina það, hvernig getur sannur Púlari hætt að styðja klúbbinn sinn ?, nei það er ekki hægt , einmitt þegar á móti blæs þá fynnur maður hvernig svíður og Liverpool hjartað slær sem aldrei fyrr,td núna get ég ekki beðið eftir næsta leik með von í brjósti og betri tíð,og um næstu helgi þá væri æðisleg að vinna Everton og komast í annan úrslitaleik á þessu tímabili,FA bikarinn mundi bjarga þessari leiktíð og lifta hjörtum okkar upp til skýjana.YNWA.

  36. Eins og venjulega flottir pistlar frá þér KAR.

    Ég brá mér hinsvegar til USA núna um páskana og er nokkrum tímum á eftir ykkur í Evrópunni. Nennti ekki að rífa mig upp fyrir allar aldir í fríinu til að horfa á Newcastle leikinn en sá seinni hálfleikinn af Aston Villa leiknum. Held að Doni hafi komið einu sinni við boltann í seinni hálfleik … Anyhow.

    Menn sem hafa vit á enska boltanum segja að tekjur 1stu deildar liða séu um 50% af tekjum úrvalsdeildarliða og allir “alvöru” leikmenn (Lesist: Þeir sem telja sig æðislega og eiga skilið meira en 50K pund í vikulaun) eru með fall klásúlur í samningum sínum. Þess vegna fóru þeir allir frá Newcastle og þeir byggðu upp leið upp með hraðasta móti á ódýran og ungan hátt. – Veit ekki hvort það er eitthvað moneyball dæmi eða ekki en dæmi um hagfræði 101. Ekki eyða meira en þú aflar.
    Líkurnar á því að liðið gangi vel, með ungan kjarna og reynslu eins og þeir settu saman á fyrsta tímabili í EPL gekk svo upp og svo hafa þeir verið að bæta við utan á þann hóp og gengið vel. Skipt um þjálfara …. (Halló!) … þegar enginn átti von á því.
    Að mínu viti eru þeir eins og þegar við vorum á tímabilinu 2008-9, þ.e.a.s. að overarcheiva (árangur umfram væntingar) og það er bara fínt.

    Af okkar ferðalagi og samanburði við árangur Newcastle manna, held ég að við sjáum nýjan stjóra fljótlega. Sama hversu dáður King Kenny er þá er hann ekki með þetta lengur. Sama hvort hann landar FA cup eða hafi unnið Carling Cup í vító við 2arar deildar lið, þá er hann ekki með þetta lengur. Þess vegna þarf að skipta honum út, með góðu eða illu. Vonandi góðu og hann fær eitthvert “embætti” og einhver annar kemur inn, yngri og meira í takt við þann anda sem er í ungu fólki í dag, sem fær leikmennina með sér, breytir um takt í miðjum leik og rífur menn upp á rassgatinu. Kenny skiptir t.a.m. nánast aldrei um leikmenn út fyrir sína stöðu, eða breytir kerfinu í leik, hann heldur sig fast við 4-4-2 sama hverju á gengur. Stundum ekki með djúpan miðjumann heldur þá 2 sóknarþenkjandi á miðjunni sjálfri sem yfirleitt endar með marki (eins og í Aston Villa leiknum, Sunderland leiknum o.s.frv.) þegar miðjan kemur ekki og hjálpar vörninni í yfirdekkuninni.

    Commoli hefur svosem náð ágætum árangri við að losa okkur við okkar rotnu epli en því miður keypt nokkur hálf rotinn á leiðinni, og það sum frekar dýru verði. Við erum því aðeins hálfnaðir að því marki okkar að eignast hóp sem getur talist alvöru hópur. Að mínu viti hefur það sannast að þeir sem eru bestir í Blackpool, Aston Villa og Sunderland eru ekki menn sem eru framtíðarmenn okkar, þó Henderson eigi kannski mestan sjensinn þar, sökum aldurs. Downing og Adam eru menn sem meiga vel missa sín og Carrol líka. Hann er alveg út úr korti stundum þegar hann er inn á.

    Ég er þvi farinn að sjá fram á annað uppbygginartímabil næsta vetur, þetta verði svona haltu mér / slepptu mér tímabil með súrsætum töpum og sigrum svona eins og þessi vetur hefur verið og það verður þá bara að hafa það.
    Kuyt, Carrager, Enrique, Adam, Downing, Gerrard jafnvel, Carrol og Bellamy verða leikmenn sem leika minna og minna hlutverk, eða jafnvel fara frá liðinu. . Jafnvel mun Johnson verða seldur ef rétt er boðið og yngri mönnum hleypt að. Stór nöfn munu ekki koma nema að menn sjái breytingar í stjórnunarstíl og teymi verði að veruleika held ég.

    Þess vegna væri hreinlega gott að taka Newcastle á þetta, koma ákveðnum aðilum frá, sætta sig við tap af sölu leikmanna og losa um laun og treyjur, koma með nýtt blóð og sætta sig við orðin hlut.
    Ég tek því sem svo Kristján að strætó var ekki á áætlun og enginn keyrði yfir þig. Þú elskar víst þennan kúbb jafn mikið ein og ég og horfir samt á næsta leik … eins og nýhættur nikótínisti í reykingarherbergingu í vinnunni…. eða hvað?

  37. Holy shitt hvað þetta er rétt ! vá, þegar maður hugsar svona djúpt út í þetta þá sér maður hvað þetta er fáranlega vel gert hjá þeim þarna í Newcastle.
    ég trúi því ekki ennþá að Kenny hafi ekki fengið Demba Ba frítt.. en keypt síðan Andy Carroll á 35m.
    Kenny getur örugglega lært mikið af því að kíkja hingað á kop.is og lesa þennan pistil !

    Mér finnst núna að Liverpool gæti fjárfest í nokkrum leikmönnum sem eru vanmetnir eins og t.d Victor Moses hjá Wigan (búinn að vera langbesti leikmaðurinn þeirra).
    Hann gæti alveg kíkt í heimsókn til Barcelona og skoðað unglingaliðið þar og síðan komið við hjá Real Madrid og fengið Xabi Alonso aftur eða einhvern með mjög líkan leikstíl og hann, því að eftir að hann fór hefur Liverpool bara verið á niðurleið….. Okkur vantar líka annan Torres og helst líka nýjann og endurbættan Gerrard….
    ég gæti talið upp svo mikið af leikmönnum, ég bara nenni því ekki..er að fara að sofa……

  38. mér finnst margir hér fullákafir í að vilja losa sig við nánast hryggjarsúluna í liðinu. Minna talað um lítið sjálfstraust leikmanna, miður gott, hugmyndasnautt og fyrirsjáanalegt leikskipulag, litla hreyfingu leikmanna á bolta og hversu oftast er sótt á fáum mönnum. Berið t.d. saman hraðan og gredduna hjá Scum Utd og okkur. Við erum með fullt af góðum leikmönnum. Ég skil t.d. ALLS EKKI hvernig mönnum hér dettur í hug að vilja selja Downing. Einn af örfáu leikmönnum sem geta (þegar sjálfstraustið er til staðar hjá honum) tekið menn á og komið með góðar sendingar fyrir. Auk þess er hann góður skotmaður. Sama með Henderson og Carrol. Algerlega fáránlegt að fara að losa sig við þessa ungu og efnilegu leikmenn þó vissulega hafi þeir verið fáránlega dýrir. Auðvitað verða einhverjar hreinsanir í sumar, Kuyt, Aurelio, Maxi og sennilega gamli góðir Carragher. Hef enn efasamdir um Enrique og Adam en er ekki sannfærður um hvort rétt sé að losa okkur við þá strax. Er líka alveg að missa trúnna á KD og er enn nokkuð sannfærður um að hann verði látinn pakka saman með góðu eða illu í lok leiktíðar ef hann klúðar málum þann 14. apríl nk. Í guðanna bænum hættum svo að bera okkur saman við Newcastel. Við hljótum að hafa meiri metnað en það!

  39. Helv leðindi alltaf hreint. Hörku páskaumferð í deildinni í ár og hvað er að gerast hjá okkur, ekki neitt. Spennan liggur í hvort við náum 7 sætinu eða dettum niður í það 10. Mér er alveg sama hvað menn segja, ef við horfum blákalt á staðreyndir málsins þá er Kenny Dalglish bara ekki með þetta. Því miður. Guðjón Þórðar hefði getað náð þessum árangri með þennann hóp.

    Vil sjá stjóra koma inn frá meginlandinu í sumar, einhvern töffara sem úsar af sjálfstrausti og veit hvað hann er að gera.

  40. Mjög áhugaverð og flott grein. Einhvern veginn hélt ég að blaðran væri sprungin hjá Newcastle í byrjun árs en svo sannarlega hefur annað komið á daginn. Ég vona að þeir haldi dampi og endi í fjórða sæti. Vil þá að sjálfsögðu sjá Tottenham í þriðja sæti og Arsenal/Chelsea í 5-6. Ekki það að skytturnar voru rosalega flottar í gær.
    Við erum ekki að fara að leysa úr vandanum hjá Liverpool með einhverjum ofurkaupum í sumar. Fyrir það fyrsta, þá sé ég engan eðal leikmann velja sér það að fara til liðs sem er um miðja ensku deildina. Og í öðru lagi, er mannskapur (geta) til staðar sem þarf að ná betur saman. Ég er svo sammála Commenti #41 að það eru sálrænir þættir sem eru aðal fyrirstaðan. Á því þarf að finna lausn og síðan er hægt að skoða hvaða menn passar að kaupa inn í liðið. Kannski rífum við okkur upp á rassgatinu í FA Cup og náum að byggja á því sjálfstrausti sem myndast til framtíðar?
    Vil að lokum hrósa Sigríði #29 fyrir sitt innlegg. Sannur púlari þar.

  41. Ég vil nýta tækifærið og óska Robbie Fowler til hamingju með afmælið. Væri ekki verra að hafa hann í Liverpool borg til að kenna þessum klaufum okkar hvernig á að afgreiða boltann í netið.

    YNWA

  42. Mjög flott umfjöllun. Ég myndi samt fara varlega í að hrósa öllum leikmönnum Newcastle, sérstaklega varnarmönnum en þeir hafa fengið á sig 8 mörkum fleiri en Liverpool. Það sem munar mestu er sóknarleikurinn. Hann byggir að miklu leiti á einstaklingsframtaki Senegalanna og allur leikur liðsins miðast við að nýta hæfileika þeirra til fulls. Þessvegna eru þeir að standa sig vel, ekki vegna þess að þeir séu betri leikmenn en sóknarmenn Liverpool.

    Þar liggur hundurinn grafinn: taktíkin sem Liverpool byrjaði að spila í vetur (4-4-2 með áherslu á fyrirgjafir) hentar bara ekki leikmannahópnum. Hún setur of mikla pressu á nýja og óreynda leikmenn (Carroll, Downing, Henderson) og takmarkar hæfileika betri leikmanna (Suárez, Kuyt, Gerrard). Þetta er ekki taktíkin sem er spiluð í unglingastarfinu og bara óskiljanlegt að sá gamli skuli ennþá hanga í þessu.

    Þetta er það sem helst þarf að breyta. Aðal sumar-targetið ætti að mínu mati að vera sóknarmiðjumaður, tía, sem gæti helst líka spilað á vængnum. Einhver sem gæti linkað almennilega upp við Gerrard og Suárez Tenging milli miðju og sóknar hefur klárlega verið okkar helsi vandi í vetur og núverandi leikkerfi leysir það alls ekki.

  43. Ég reyni aftur…. Verður podcastið á mánudaginn eða eftir Blackburn leikinn á þriðjudag? 🙂

  44. Everton á þvílíku runni, voru að taka Sunderland í nefið. Held samt sem áður að við séum með eitthvað sálrænt tak á þeim, en þetta verður svakalegur leikur á laugardaginn þar sem við erum klárlega the underdog í fyrsta skipti í mörg mörg ár.

    En nú hljóta fjölmiðlar að fara að drulla yfir Tottenham og hin heilaga Redknapp eftir sanngjarnt tap á heimavelli í dag á móti Norwich, eða er það kannski alveg bannað ? Þeir eru með 10 stig af síðustu 30 mögulegum. Með þessu áframhaldi ná þeir ekki í Chamoipnsleague sem hlýtur að flokkast undir hrun hjá manninum sem talaði um að þeir ættu góða möguleika á titlinum í janúar.

    En það er víst ekki sama Jón og Séra Jón í þessum bransa….

  45. Nokkuð ljóst að uppskeran lætur bíða eftir sé á Anfield.
    Það skiptir i raun ekki máli hvort við endum í 5.eða 15. sæti úr því sem komið er. Þó Everton verði fyrir ofan okkur þá er það bara vegna þess að þeir enda timabiliði vel en við ekki.
    Það sem máli skiptir er hvað gert verður í sumarfríinu. Hverjir verða látnir fara og hverjir fengnir. Tel nú ljóst að Kenny og Steve Clarke fái að halda áfram næsta season.
    Gangi ekki vel hjá þeim fyrri hluta næsta tímabils myndi ég halda að þetta væri fullreynt. Þeir hljóta að vera með nokkuð á hreinu hvað þeir þurfa að gera í sumar og ganga í það mál. LFC mun alltaf stefna hátt og það mun ekki breytast núna.

  46. AndyCarroll9 – Podcastið verður ekki tekið upp fyrr en á fimmtudag. Apríl er mjög erfiður hjá nánast öllum okkar og því gefst ekki tími fyrr en á fimmtudag til að taka upp, því miður.

    Annars þakka ég bara hrósið og málefnaleg svör hér. Ég varð að koma þessum Newcastle-pælingum frá mér, var að spá í að geyma þennan samanburð þangað til í næsta podcast-þætti en þegar ég prófaði að ‘tala’ þetta inn á iPhone-inn minn tók það 12 mínútur. Það er allt of langur tími til að biðja hina strákana að halda kjafti og hlusta bara á mig röfla þannig að ég breytti þessu í grein í staðinn. Sennilega var það betra svoleiðis.

    Newcastle voru að vinna aftur í dag. Eru nú jafnir Tottenham í 4-5. sætinu, s e x t á n stigum á undan Liverpool. SEXTÁN! Og Ben Arfa skoraði eitt af mörkum tímabilsins, og Papiss Cisse skoraði enn og aftur. Þessi velgengni hjá þeim er ekki tilviljun, rétt eins og ömurlegt gengi okkar manna getur ekki bara skrifast á óheppni.

  47. Ég hef haldið með einu liði alla mína ævi og það er LIVERPOOL .
    Ekki er það vegna þess að bræður mínir eða faðir heitinn hafi haldið með þeim nei það var á mínum forsendum og algjörlega mitt val . Ég er búinn að pirra mig mikið í vetur yfir gengi minna manna en er kominn yfir það núna . Ég var búinn að átta mig á því að þessi breyting á liðinu tæki tíma og að eftir 2 til 3 ár værum við komnir á þann stað sem LIVERPOOL á að vera á , sem er 1-4 sæti á hverju ári .
    Ég var nefnilega að fatta það núna að ég var alltof gíraður upp í haust og var farinn að fara fram á að vinna alla leiki en það er nú bara keppnisskapið í mér .
    En það er nú samt þannig að margi leikmenn hafa EKKI verið að spila með hjartanu og EKKI sýnt að þeir eigi skilið minn stuðning eins og klúbburinn .
    Við erum komnir með 1 bikar og vonandi annar á leiðinni en nú er lag að sleppa nokkrun ungum gröðum strákum á völlinn og sjá hvað við höfum í höndunum fyrir sumar geðveikina .
    Ég er stolltur POOLARI og ég nýt mín þegar ég segi öðrum frá starfi klúbbsins , LIVERPOOL hátíð krakkana sem allir aðrir öfunda okkur út af , golfmótið góða og tala nú ekki um árshátíðina HALLÓ Sammy Lee takk fyrir .
    Það er

  48. Frábær pistill og mjög gaman að lesa hann. Andy Carroll er gott dæmi um leikmann sem brotnar undan þyngd verðmiðans, líkt og Fernando “Judas” Torres. 35 milljónir punda fyrir 5 mörk og frekar slakan móral að ég best veit. Má ekki klikka sending án þess að hann sé orðinn brjálæður. Við megum samt ekki gleyma því að Carroll kaupin voru “panic kaup”.

    Torres fór fram á sölu þegar mjög stutt var í lokun gluggans og enginn hafði búist við því, sérstaklega þar sem að hann hafði sagt nokkrum dögum áður “I am not leaving Liverpool, I am happy where I am”. Við megum heldur ekki gleyma því að við fengum 50 milljónir punda fyrir Torres og hann er annað gott dæmi um mann sem brotnar undan þyngd verðmiðans.

    Luis Suarez var keyptur til að spila frammi með Fernando Torres. Við fengum Carroll og Suarez fyrir u.þ.b 10 milljónir punda. Carroll er alls ekki búinn að fitta inn í liðið eins og planið var og það hefur skilað okkur mikilli umfjöllun í blöðunum og talað er um að Liverpool ætli sér að selja Carroll. Mér persónulega myndi finnast við heppnir að fá 10 milljónir fyrir hann.

    Nú spyr ég. Við höfum ENGU að tapa í deildinni akkúrat núna. Við getum ekki fallið, við erum með öruggt Evrópudeildarsæti og eigum ekki séns í Meistaradeildarsæti svo AFHVERJU gefum við strákum eins og Sterling, Wisdom, Amoo, Morgan og Suso ekki séns í deildinni?

    Ég vil einnig setja spurningarmerki við King Kenny. Mér finnst hann stilla liðinu stundum heimskulega upp og ef að þetta er ekki að ganga inná vellinum þá er hann svo þrjóskur að hann bíður þangað til á 70-80 mínútu með skiptingu. Hann tekur líka oft besta mann vallarins hjá okkur útaf. Kuyt er nú ekki okkar besti leikmaður og ég held að við getum öll verið sammála með það. Hann spilar nánast aldrei vel svo afhverju er hann aldrei tekinn útaf? Menn eins og Gerrard, Kuyt, Carragher og fleiri hafa ekki áskrift að byrjunarliðssæti.

    Við eigum annaðhvort að gefa King Kenny nokkur ár til að byggja upp liðið og gera það að gamla Liverpool liðinu, EÐA fá inn annan þjálfara sem að getur gert þetta sama. Í dag er Liverpool ekkert annað en sagan. Við megum samt ekki gleyma því að við erum búnir að vinna einn titil og erum í bullandi baráttu um annan titil. Manchester City er búið að kaupa fyrir 218 milljónir á síðustu tvem árum og þeir vinna ekki einn titil.

    Ég vil sjá Liverpool kaupa 5-7 leikmenn í sumar og við getum gleymt leikmönnum eins og Cavani.

    ÚT:
    Kuyt – 5 milljónir
    Carroll – 15 milljónir
    Johnson – 8 milljónir
    Adam – 5 milljónir
    Aquilani – 9 milljónir
    Cole – 4 milljónir
    Pacheco – 4 milljónir
    Maxi – 3 milljónir
    Doni – 1 milljón

    INN:
    Munain – 25 milljónir
    Soldado – 25 milljónir
    Isla – 10 milljónir
    Luuk De Jong – 8 milljónir
    Moussa Sissoko – 7 milljónir
    Tveir ungir í viðbót – 8 milljónir

    NET SPEND: 29 milljónir

    Þangað til vil ég sjá ungu leikmennina okkar fá séns.

    John

  49. náttúru lega aldrei að fara að fá: Isla – 10 milljónir
    Luuk De Jong – 8 milljónir
    Moussa Sissoko – 7 milljónir
    á svona litlu verði og svo er ekkert víst að þeir vilji koma..
    mjög óraunhæft hjá þér finns mér John #54

  50. erfið lesning….en sönn…

    ég lifi hins vegar í voninni að í sumar komi einn, tveir, þrír leikmenn sem breyti öllu….

    don´t stop…. believing

  51. Sælir. Skil ekki þó ég sé aðdáandi LIVERPOOL Kristján Atli útafhverju þarf að hlæja að óförum annarra liða. Eftir að hafa lesið hugarfar margra pistlaskrifara á þesarri síðu er ég að velta mér fyrir. Er það þess virði að halda með LIVERPOOL fram yfir rauðan dauðan. Svarið er já af minni hálfu. Vandið skrifin og (drulluna) yfir önnur lið! YNWL

  52. John #54

    Í hvaða undraheimi lifir þú?

    Sissoko á 7 milljónir? De Jong á 8 milljónir? Toulouse meta Sissoko á 20+ og De Jong er að raða inn í hollensku = 15+.

    Muniain og Soldado eru líka óraunhæfir kostir. Muniain mun kosta meira en 25 milljónir og staðreyndin að það eru miklu stærri og betri lið á eftir honum þá efast ég um að hann komi til Liverpool. Sama má segja með Soldado.

    Eina sem við getum vonast eftir í sumar eru fleiri miðlungsmenn úr ensku deildinni, nokkrir kúkalabbar úr Evrópu og ef við erum í alvöru með heppnina með okkur, þá einn skemmtilegan leikmann sem síðan verður talinn flopp í enda september mánaðar.

    Alltof háar væntingar eru gerðar til þessa liðs og það er að verða því að falli. Að búast við því að miðlungslið sé að fara að vinna alla leiki er ekki hægt. Já, við erum miðlungslið. Við erum ekki mikið betri en Everton, Newcastle og Sunderland í dag, það er ömurleg staðreynd, en staðreynd er það.

    Suarez myndi vera talinn einn besti leikmaður heims í liði sem spilar give and go sóknarbolta fyrir framan teiginn. En Kenny Dalglish vill endilega nota hann sem Target Man inní teig og henda inn 400 crossum í leik á greyið stubbinn.

    Carroll passar ekki í þetta lið. Hann og Suarez passa hreinlega ekki saman. Annar þeirra verður að fara til að við getum tekið næsta skref, en spurningin er, í hvaða átt vill Liverpool fara?

    Viljum við léttleikandi lið með Suarez? Eða viljum við hálofta/fyrirgjafabolta með Carroll frammi?

  53. #58 Almar. Þetta er kannski rétt hjá þér, er ekki búinn að kynna mér þetta nógu vel. En afhverju í andskotanum kaupir Liverpool ekki toppklassa leikmenn þegar þeir geta fengið þá? Hefðum getað fengið Keisuke Honda í janúar 2011 á 5 milljónir punda, C. Ronaldo á 10 áður en að ManU fékk hann, Eto’o á 10 og margir fleiri. Gallinn við Liverpool er að þeir taka enga sénsa í leikmannakaupum heldur eyða 20 milljónum í Breska gæja sem geta ekki blautann.

Liverpool 1 – Aston Villa 1

Blackburn á morgun