Sunderland á morgun

Það eina góða við vonbrigðin í kjölfar tapleikja er að það er yfirleitt ekki langt í næsta leik. Eftir ákveðið spennufall þessa vikuna fá okkar menn nú tækifæri til að bæta úr og koma deildarkeppninni aftur á rétta braut. Um er að ræða útileik gegn Sunderland, leikur sem er langt því frá að vera auðveldur og að mínu mati viðureign sem gæti gefið fróðlega innsýn í stöðu liðsins eftir að Arsenal settu okkur klárlega þeim neðar í goggunarröðinni. Spurningin er – erum við enn fyrir ofan lið eins og Sunderland í þessari goggunarröð?

Byrjum á heimamönnum. Þeir komu í heimsókn á Anfield á fyrsta leikdegi tímabilsins og náðu þar í 1-1 jafntefli sem þóttu klárlega betri úrslit fyrir þá en okkur á þeim tíma. Síðan þá gekk hvorki né rak hjá þeim rauðhvítu (sem eru þó kallaðir „Black cats“ í Englandi, þótt undarlegt megi virðast) og léleg spilamennska liðsins kostaði á endanum Steve Bruce starfið í upphafi desember. Þá var liðið í bullandi fallbaráttu og því ekki seinna vænna fyrir Martin O’Neill að mæta á svæðið og bjarga því sem bjargað varð.

Það hefur hann líka gert. Frá 3. desember, deginum sem hann tók við, hefur liðið leikið 14 deildarleiki og er með 6. besta árangurinn í Úrvalsdeildinni frá þeim degi. Á sama tímabili eru okkar menn með 14. besta árangurinn þannig að ef menn vilja ljúga að sjálfum sér að Liverpool sé betra liðið í deildarkeppni en Sunderland í vetur er vert að hafa í huga að það hefur ekki verið satt í þrjá mánuði.

Eftir mikinn uppgang hafa þeir hins vegar aðeins dalað í síðustu leikjum. Þeir slógu Arsenal út úr FA bikarnum á Stadium of Light fyrir þremur vikum en hafa tapað tveimur og gert eitt jafntefli í síðustu þremur deildarleikjum, sem er sama tölfræði og okkar menn skarta í sínum síðustu þremur. Bæði lið eru því að leitast eftir því að rétta úr kútnum á morgun.

Af leikmönnum þeirra er helst að frétta að okkar menn sleppa ómeiddir frá leiknum á morgun þar sem Lee Cattermole er kominn í fjögurra leikja bann fyrir heimskasta brottrekstur allra tíma um síðustu helgi. Þá fékk hann fyrra gula spjaldið eftir um 40 sekúndna leik gegn Newcastle en beið þar til á leið út af vellinum í leikslok, tæpum tveimur klukkustundum síðar, með að rífa kjaft við dómarann og fá síðara spjaldið. Þetta er örugglega heimsmet í að láta sem lengstan tíma líða á milli spjalda í einum leik, og aðeins Lee Cattermole gæti afrekað slíkt þrekvirki. Hann er Lionel Messi gulu spjaldanna.

Nú, auk fyrirliðans er arkitektinn Stephane Sessegnon einnig í leikbanni á morgun en hann fékk líka reisupassann gegn Newcastle. Að öðru leyti má búast við sterku Sunderland-liði á morgun í leik sem mun eflaust einkennast af einvígi ensku landsliðsframherjanna … Fraizer Campbell og Andy Carroll. Megi minna svekkjandi leikmaðurinn vinna.

Af okkar mönnum er það helst að frétta að King Kenny staðfesti í gær að Steven Gerrard og Glen Johnson væru byrjaðir að æfa á ný eftir meiðsli sem kostuðu þá þátttöku í Arsenal-leiknum um síðustu helgi. Takk, enska landslið. Ég á þó ekki von á að þeir byrji leikinn á morgun fyrst þeir byrjuðu bara að æfa á fullu fyrst í gær. Annars eru Lucas Leiva og Daniel Agger enn frá vegna meiðsla en að öðrum kosti erum við með fullt lið.

Ég ætla að spá tveimur breytingum frá því gegn Arsenal: Dirk Kuyt víkur fyrir Andy Carroll og Jamie Carragher víkur fyrir Sebastian Coates. Frammistöður Kuyt og Carra voru bara ekki af þeim standard að þeir eigi skilið að vera áfram í liðinu í næsta leik, sérstaklega með Carroll og Coates bankandi á dyrnar, og svo er bara kominn tími á að þetta lið sem hefur verið keypt síðasta árið fái að keyra sig í gang almennilega og sjá hvað í það er spunnið.

Þetta lið vil ég sjá á morgun:

Reina

Kelly – Skrtel – Coates – Enrique

Henderson – Spearing – Adam – Downing

Suarez – Carroll

Svo er hægt að eiga Bellamy, Gerrard og Johnson inn af bekknum ef þörf er á. Við erum í þeirri stöðu núna að geta sett pressu á þessa rándýru leikmenn sem hafa verið keyptir – Carroll, Suarez, Downing, Adam, Henderson, Coates, Enrique. Við viljum vinna þennan leik á morgun, við verðum helst að vinna hann … annað hvort ráða þeir við þá pressu eða ekki. Ef ekki, þá er betra að við komumst að því fyrr en síðar.

MÍN SPÁ: 2-1 fyrir Sunderland. Ég sagðist vilja sjá hvort þeir stæðu undir þessari pressu. Ég sagði aldrei að ég hefði trú á því að þeir stæðu undir þessari pressu. Liverpool getur ekki skorað mörk, sjálfstraustið er brothætt eftir að Van Persie gerði grín að liðinu og Martin O’Neill er bara með þetta.

Vona að ég hafi rangt fyrir mér. En svona leggst þetta allavega í mig.

Áfram Liverpool!

47 Comments

 1. Ef frammistaða Kuyt og Carra í síðasta leik á að valda því að þeir byrji á bekknum afhverju er Charlie Adam þá í liðinu? Það var enginn verri en hann gegn Arsenal.

  Spurning um að lána hann til Blackpool í einn mánuð og láta hann rifja upp hvað hann gerði þar sem gerði hann að þeim leikmanni sem Liverpool hélt að hann væri.

  Spái leiknum annars 1-1. Colback fyrir Sunderland en Henderson skorar gegn fyrrverandi.

 2. Flott upphitun. Ég er alveg sammála þessari spá. Sunderland vinnur þægilegan sigur. Suarez og Carroll skora ekki.

 3. Framkvæmdastjórn Sunderland er líklega í svipuðum sporum og Mike Ashley… Þ.e. “ennþá að drepast úr hlátri yfir því að hafa selt okkur Henderson/Carroll á uppsprengdu verði”….

  Annars held ég að við vinnum ef kóngurinn sleppir Adam, Henderson og Carroll í byrjunarliðinu…

  Reina
  Johnson Coates Skrtel Enrique
  Spearing Shelvey
  Bellamy Gerrard Downing
  Suarez

  Bekkurinn: Doni, Robinson, Flanagan, Carragher, Maxi, Sterling, Coady.

  Þeir sem nenna þessu ekki fyrir klúbbinn geta verið heima hjá sér og horft á leikinn í sjónvarpinu.

 4. Sæl öll.

  Þar sem Liverpool er mitt lið þá spái ég þeim sigri og held mig við það alveg fram að lokaflauti ef niðurstaðan verður ekki sigur þá viðurkenni ég það ekki fyrr en flautan gellur.. Við verðum að hafa trú á okkar mönnum , ég vona að þeir fari ekki í leikinn með það í huga að tapa því þá geta þeir alveg eins setið heima ,þeir og við eiga að hugsa um alla leiki sem sigurleiki.

  YNWA

 5. Ég spái Liverpool sigri og hef alltaf trú á mínum mönnum, en eitt er víst að þetta verður mjög erfiður leikur, og nú er tími til komin að okkar menn sýni hvað þeir geta. Sterkasta vopn Sunderland er klárlega stjórinn þeirra hreint ótrúlegt hvað hann nær mikklu út úr mönnum, en við vinnum þennan leik…

  Áfram LIVERPOOL… YNWA…

 6. Þetta verður erfiður leikur á´morgum, Sunderland eru með ótrúlegan þjálfara mann sem eg vildi fá til okkar þegar hann fór frá Aston Villa,,,, ég trúi því samt að við vinnum leikinn enda mikilvægt að vinna hann, í leikjum sem þessum ( líklega) þá eru við oft að standa okkur vel,, vonandi verður Kuyt á bekknum svo við getum sett pressu hægramegin og ég vona að ég sjái Bellamy frá byrjun,,, við vinnum 1-0 …YNWA.

 7. Allar flóðgáttir opnast á morgun. 5-0 fyrir L´pool og þar af 2 úr vítum.
  Liðið sem afrekar það:
  Reina
  Flanagan Coates Skrtel Enrique
  Spearing Henderson
  Bellamy Suarez Sterling
  Ngoo

 8. Reina
  Kelly-Coates – Skrtel -Enrique
  Johnson-Spearing-Henderson-Downing
  Suarez-Carroll

  Ég vill fara sjá Johnson á hægri kantinum, það er augljóst að Dalglish þurfi að fara breyta til og gera eitthvað frumlegt og nýtt! Adam er enganveginn að meikaða og Henderson á ekki að hanga þarna á hægri vængnum bara útaf hann gefur einstökum sinnum góða fyrirgjafir. Hann er miklu betri í að gefa stungubolta. Ótrulegt hvað fótboltaáhuginn hjá manni hefur dalað á þessu tímabili, leiðinlegt spil, leiðinlegir leikir og vonbrigði. Ég er Rafa maður og vill Rafa aftur heim.

 9. Tapið verður ekki jafn súrt ef menn halda sig á jörðinni og eru raunsæir 🙂 leikurinn fer 2-1 en vafamál hvoru meginn sigurinn liggur 🙂

  YNWA!

 10. Sammála flestu sem kemur fram í þessari upphitun,væri gaman að sjá Coates á morgun væri líka til í að sjá einhvern úr next gen liðinu okkar vera alla vega á bekknum t.d Sterling leiðréttið mig ef ég fer ekki með nafnið rétt.Samt sem áður er ekki hægt að vera sammála því að sunderland vinni á morgun,maður lifir í voninni Y.N.W.A

 11. Ég vill ekki sjá Henderson á kantinum, hann er fyrst og fremst miðjumaður og á að spila þar. Hann getur ekki tekið menn á og verður því alltaf snúa til baka, hægir á spilinu en hann skilar góðri varnarvinnu sem kantmaður og það er sennielga fyrst og fremst ástæðan fyrir því að hann er notaður þarna. Skil svo ekki þessa tilhneigingu að spila mönnum alltaf út úr stöðu. Held að það væri mikið betra að nota kantmennina sem við þó eigum jafnvel þó að þeir séu ungir. Ég sé t.d. ekki að það geti komið minna út úr Sterling á kantinum en Henderson nema hugsanlega varnarlega en menn verða þá bara að leysa það á annan hátt t.d. með tveimur tiltölulega passívum miðjumönnum. Við værum þá alltaf að sækja á lágmark 4-5 leikmönnum og verjast á lágmark 5. Ég myndi vilja sjá þetta svona (geri ráð fyrir því að Gerrard og Johnson séu meiddir):

  – Reina
  Kelly – Coates – Skrtel – Enrique
  Henderson – Spearing
  Sterling – Suarez – Bellamy
  Carroll

 12. Getum ekki verið með Henderson á kantinum, það er fullreint. Hann er miðjumaður. Þetta er vandræðastaða. Fannst við pressa Arsenal vel með Spearing í síðasta leik, eitthvað sem gerist ekki þegar við erum með Adam og Gerrard. Væri gaman að sjá strák eins og Sterling í hópnum en sé ekki að það sé að fara gerast. Það væri samt mun meiri ógn af honum á hægri kantinum en Henderson

 13. Einhverstaðar las ég að Suarez hefði skorað flest sín mörk með Ajax á hægri kantinum af hverju ekki að prófa það???hægri kantur hjá okkur er alveg hræðilegur…

 14. Fáranlegt að setja Henderson útá kant. Það er ekki nema von að hann geti ekkert þar, hann er pjúra miðjumaður. Hann sýndi það á móti Arsenal að hann er góður á miðju. Ég vill því sjá liðið svona:

  Reina
  Kelly – Skrtel – Coates – Enrique

  Rodriguez- Adam/Spearing-Henderson-Bellamy

  Suárez-Carroll

 15. “Frammistöður Kuyt og Carra voru bara ekki af þeim standard að þeir eigi skilið að vera áfram í liðinu í næsta leik” á hvaða leik varstu að horfa??? fyrir utan vítaskytuna var Kuyt klárlega einn af okkur bestu mönnum í síðasta leik. Rétt með Carra þó…

 16. Hvar get ég séð leikinn á Egilsstöðum?

  Annars hjartanlega Sammála Stefán. Þríhyrningurinn við Suarez þegar við fengum vítið í síðasta leik er dæmi um hvað Kuyt er skapandi og les leikinn vel – a.m.k. betur en flestir í hópnum. Þegar Kuyt er með góða menn með sér þá virkar hann vel sbr. Holland og þegar G&T voru upp á sitt besta 2008. Þegar hann er með Carroll og Henderson þá getur hann litið illa út. Hann er einhvern veginn svona leikmaður sem gerir stjörnurnar betri án þess að vera aðal maðurinn sjálfur.

 17. Sælir félagar.

  Ég er sammála uppstillingunni í ágætri upphitun KAR. Hinu er ég algerlega ósammála að Sunderland vinni þennan leik. Það er misskilningur og af hverju? Jú það mun vanta mótorana í liðið þá sem standa að baki árangri liðsins. Það eru Lee Cattermole og Stephane Sessegnon fyrir utan O’Neill auðvitað. Þar sem hann verður utan vallar mun hann ekki skora fyrir liðið en verða hoppandi á hliðarlínunni eins og venjulega. Helvíti góður kallinn.

  En þetta mun gera það að verkum að Sunderland mun ekki skora mark í þessum leik. Þeir munu reina en Reina og vörnin munu taka allt sem kemur nálægt teignum. Mörk okkar skora, og haldið ykkur fast, Downing 0 – 1 og Suarez 0 – 2. Já ég endurtek DOWNING og Suarez.

  Þetta mun koma öllum sem á vellinum eru þvílíkt á ávart að menn detta úr sambandi í stórum hópum innan vallar sem utan. Sá eini sem ekki sér neitt skrítið við markaskorun Downing verður Suarez enda skilur hann mjög lítið í ensku Hann fær því að leika óáreittur í þrjár mínútur inni í teig andstæðinganna og sólar sjálfan sig upp úr skónum. Hann nær þó skoti á autt markið af þriggja metra færi sem fer í stöngina og þaðan í hnakkan á dómaranum sem er algerlega sunnan við sig eftir markið hjá Downing. Boltinn fer sem sagt af hnakka dómarans og í markið. Suarez fær markið skrifað á sig því dómarar mega ekki skora mark í leikjum í ensku deildinni.

  Undantekning frá þessarri reglu er þó ef Howard Webb skorar í mark andstæðinga Scum ef svo vill til að hann er að dæma leik sem Muararnir eru að tapa. Þá hefur Webb leyfi til að dæma víti á lokamínútu hvar sem boltinn er staddur á vellinum og taka það sjálfur. Hann mun svo dæma mark hvert sem boltinn fer. En þetta kemur auðvitað leiknum á morgun ekkert við. En hann fer sem sagt 0 – 2 og O’Neill verðru verulega fúll en það gerir ekkert til.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 18. Voðalega er þessi neikvæðni í pistlahöfundi leiðinleg. Og það sem verra er, hún smitar út frá sér. Það getur vel verið að honum finnist hann vera raunsær en þegar þú stýrir jafn vinsælli síðu og þessari þá er það óumflýjanlegt að margir munu taka mark á orðum þínum og því er það mikil ábyrgð sem fylgir. Þess vegna hvet ég Kristján Atla til að taka fram sömu jákvæðnisgleraugun og hann hafði þegar Rafael Benitez var við stjórnvölin. Þó allir hafi ekki verið sammála honum þá reyndi hann þó að tala leikmenn og þjálfara upp og gerði það í raun yfirleitt mjög vel. Því bið ég um meiri bjartsýni og jákvæðni af hálfu þeirra sem hérna skrifa.

  Virðingarfyllst,
  Gunnlaugur

 19. Það eina sem var lélegt við síðasta leik voru úrslitin. Þetta var svo mikil klisja að ég er ekki frá því að ég hafi ælt yfir mig .Vill meina að það hafi enginn leikmaður liðsins verið lélegur. Ef við spilum eins á morgun og við gerðum gegn Arsenal þá allavega eigum við eftir að vaða í færum þori nú samt ekki að lofa mörgum mörkum þar sem aðal vandamálið virðist vera að koma boltanum yfir helvítis línuna:)

 20. Eins og liðið hefur verið að spila og ekki getað skorað mörk nema með aðstoð andtæðinganna vinnur Sunderland 3-1.

  EN ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 21. úff… æðri öfl forði okkur frá öðrum leik með Adam á miðju og Henderson á kantinum. Ef ég væri Kenny…

  Kelly – Skrtel – Coates – Enrique
  Spearing – Adam
  Suarez – Henderson – Downing
  Carroll

  Vinnum ef við spilum svona !

 22. Eitthvað segir mér að á morgun komi loks að því að við kjöldrögum lið sem er slakara en við á pappírunum. Við tökum þetta 0-5 og ekki orð um það meir.

 23. Döpur og þung upphitun. Frekar deprimerandi að draga fram bjagaðan stuðning fyrir því máli að Sunderland sér betra lið en Pool á þessum tímapunkti. Einu rökin gefin eru árangur í töflunni og allir vita að úrslit leikja þurfa sannarlega ekki að endurspegla gæði liðs.

  Ekki veit ég hvaða lægð skýrslugerðarmaður er í en ég tel það ráð að hann fái uppáskrifað nokkrar töflur af Prozac eða Zoloft og bíti á jaxlinn!!!!

  Við erum jú púllarar en ekki grenjandi svartsýnisseggir!

  Auðvitað viljum við, trúum og spáum því að Liverpool vinni fjárans Sunderland (hvort sem að O’Neill sé með eitthvað eða ekki!

  Girða sig í brók Kristján Atli =P

  Áfram Liverpool!!!!!

  Bitte

 24. Tek undir það sem margir hér að ofan tala um að hægri vængur okkar hefur verið laskaður og jafnvel brotinn á köflum í vetur og því er það ein af stöðunum á vellinum sem ég vil sjá róttækar breytingar á.

  Suarez spilaði þessa stöðu víst mikið með Ajax og hann spilar líka oft á vængnum með landsliðinu, væri vel til í að sjá þá útfærslu.

  Sterling má svo alveg fara að fá mínutur með aðalliðinu, er hreinræktaður vængmaður en hann er held ég ekki tilbúin í byrjunarliðið er einungis 17 ára gamall (krakki) og ekki viss um að svona ungur leikmaður ráði við pressuna að spila í EPL.

  Það sem ég vil hinsvegar helst sjá er Glen Johnson á vængnum, hann er að mínu mati miklu meiri vængmaður en bakvörður, hann hefur í raun alla kosti sem vængmaður þarf að bera, hraða, leikskilning, fyrirgjafir og er líka mjög fínn skotmaður á báðar fætur ef út í það er farið. Bale var færður ofar á völlinn af Redknapp og hann sér örugglega ekki eftir því, því Bale er miklu meiri vængmaður en bakvörður og þetta er tilfellið með Johnson.

 25. Er ég í lægð? Þarf ég á þunglyndislyfjum að halda af því að ég voga mér að meta stöðuna svo að heimaliðið geti verið sigurstranglegra en aðkomulið Liverpool í einhverjum einum fótboltaleik?

  Ja hérna.

  Spáði ég Liverpool alltaf sigri undir stjórn Rafa? Skv. flokkakerfinu hér til hægri á síðunni hafa verið skrifaðar 522 upphitanir frá stofnun síðunnar og ég hef örugglega skrifað meirihluta þeirra þegar allt kemur til alls. Einföld leit ætti að leiða í ljós að ég spáði ýmis konar úrslitum þegar Rafa stýrði liðinu, rétt eins og þegar Hodgson stýrði og það hefur ekkert hætt eftir að Dalglish tók við.

  Dæmi: ég spáði okkur 2-0 tapi á heimavelli gegn Blackpool haustið 2010 og fékk ótrúlega bágt fyrir. Sá leikur lagðist bara nákvæmlega þannig í mig. Hvernig fór sá leikur aftur?

  Mér ber engin skylda að skrifa alltaf einhverja hallelúja-pistla hér inn. Mér ber bara sú skylda að vera samkvæmur sjálfum mér og segja satt og rétt frá hlutunum eins og ég sé þá. Og ég sé ekkert að því að Liverpool þyki ólíklegri aðilinn gegn Sunderland á útivelli á morgun. Kannski er sú skoðun röng, kannski reynist hún rétt, en það er ekkert að því að hafa þá skoðun.

  Ég elska Liverpool. Upplifði mikla ánægju og skemmtun þegar liðið vann bikar um aðra helgi, upplifði að sama skapi gríðarleg vonbrigði við tapið gegn Arsenal fyrir viku. Í þetta sinn er ég frekar afslappaður fyrir þennan leik, aðallega af því að tapið hér skiptir að mínu mati ekki eins miklu máli eftir að Arsenal-leikurinn klúðraðist. Þannig að það er óþarfi að saka mig um geðsveiflur eða þaðan af verra þótt ég hafi vogað mér að spá Liverpool einu sinni tapi.

  Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Ef ég hef rétt fyrir mér mun ég ekki njóta þess á neinn hátt. Þannig er það alltaf þegar maður heldur að liðið sitt muni tapa og það verður raunin. Það er ekkert minna svekkjandi þótt maður hafi átt von á því.

  Endilega verið ósammála mér. Ég er bara einn bjánútíbæ sem veit ekkert minna eða meira um hlutina en þið hin sem lesið síðuna daglega og lifið og hrærist í þessu jafnt og ég. En sýnið mér allavega þá virðingu að ætla mér ekki geðræn vandamál eða hneykslanlega framkomu í ykkar garð þótt ég vogi mér af og til að spá einhverju öðru en sigri.

  Koma svo, áfram Liverpool! Gerið Kristján Atla að fífli á morgun, ég vona að ykkur takist það! 🙂

 26. Dreg fram bolinn, dreym’um Park
  Drekk úr kaffifantinum.
  Enrique mun eiga mark
  eftir skot frá kantinum.

 27. Ekki vill svo til að einhver geti bent mér á góðan pub í London til þess að horfa á leikinn?

 28. Tippaði á leikinn á lengjunni og setti auðvitað 2 á Liverpool, bara til að pirra Kristján Atla sem augljóslega heldur með Sunderland í þessum leik sbr. ummæli Nr. 28.

  Þetta fer 0-2 með mörkum frá Suarez og Adam.

  Ef þetta gengur ekki kenni ég KAR alfarið um.

 29. Ég hef merkilega góða tilfinningu fyrir þessum leik. Okkar menn eiga eftir að yfirspila Sunderland líkt og þeir yfirspiluðu Arsenal og Cardiff. Munurinn er að á morgun verða skoruð mörk.

 30. #30, ég held að þrjú leikirnir á laugardögum séu ekki sýndir á Englandi.

 31. Carra verður POTTÞÉTT í liðinu. Hann er e.t.v. kominn yfir sitt besta, en leiðtogahæfileika, hugarfar sigurvegara og reynslu hefur hann, kostir sem marga leikmenn okkar vantar. Fer bara fram á sigur og hef fulla trú á mínum mönnum.

 32. #18 Nafni

  Á Egilsstöðum er hægt að horfa á leikinn á flatskjám í matsölustöðunum Shellskálanum og í Söluskálanum N1. Einnig á stórum breiðtjöldum á barnum Gamla símstöðin og í menningarmiðstöðinni Sláturhúsið. Í Shell og Sláturhúsinu safnast saman flestir Liverpoolmenn og besta stemningin er alltaf þar.

 33. Vona að sem flestir komi á Úrilliu Górilluna og drekki í sig stemmingu þar er grjótmagnað að horfa á leikina í bestu gæðum sem völ er á. Þar geta menn einnig knúsað og kysst formann Liverpool-klúbbsins. Drengurinn er fertugur þessa helgi.

 34. Babu það eru ekki sýndir leikir á laugardögum klukkan 3 í Englandi. En ég bý hérna í London og fer oftast á Local pub sem heitir The Redan, hann er á Queensway í Bayswater og annar sem heitir The Walmer Castle er mjög fínn, hann er víða.

 35. Nr. 37
  Takk fyrir þetta Jón, þú tekur reyndar fail á mér og Bjarna en það skiptir ekki öllu. Ég er á Selfossi sem er ekki eins mikil sveit og London og sé alla leiki hér… og færi aldrei til Englands án þess að það myndi hitta á leik hjá Liverpool 🙂

 36. Hvað eru menn að væla yfir raunsærri spá um úrslit leiksins. Sunderland menn hafa gengið í endurnýjun lífdaga eftir að O Neil tók við þeim og við erum að sækja þá heim, þannig að það er kjánalegur hroki að halda að menn séu eitthvað að fara í léttan leik þó svo að liðið sé neðar á töflunni.

  Þó vinnur með okkur að Sessegnon er í leikbanni, en hann hefur klárlega verið þeirra besti maður á seinni hluta tímabilisins. Auðvitað vonast allir eftir sigri, en ég er sammála KAR að þetta gæti orðið erfitt og ég geri mér í besta falli von um jafntelfli í þessum leik. Skal svo glaður éta þetta ofan í mig eftir leik ef þörf gerist á því 🙂

 37. Hjálp!!!
  Veit einhver um stað í Boston þar sem hægt er að horfa á leikinn?

 38. Vonandi fáum við 4-3-3. Bellamy, Carroll, Suarez frammi. Gerrard, Henderson og Spearing á miðju. Kelly, Skrtel, Carra og Enrique í vörninni.
  Ég fíla þessar hreinskilnu upphitun síðuhaldara, best að horfa á hlutina af raunsæi þó það sé ekki alltaf auðvelt.

 39. Liðið í dag..

  Lineup today: Reina, Kelly, Coates, Skrtel, Enrique, Spearing, Adam, Henderson, Kuyt, Suarez, Bellamy

 40. Ég væri til að sjá Kuyt og Carroll upp á topp. Suarez og Downing á köntunum. Adam og Spearing á miðjunni. Kelly-Skrtel-Coates-Enrique í vörn (að því gefnu að Johnson sé ekki leikfær). Svo væri ég til að sjá Sterling + kannski Suso á bekknum.

 41. Já það eru ekki nema 55milljónir punda á bekknum, frábær kaup s.s. Skil ekki þessi kaup.

 42. Þurfti að eyða út firefoxinum, er að rifja upp hvaða email adressu ég notaði fyrir Gravatar….sorry :S

Opinn þráður – Nýr búningur?

Liðið gegn Sunderland