Helgin mín

Þvílíkur rússibani þetta fótboltalíf er. Var í sögulegum hæðum síðustu helgina í febrúar en fyrsta helgin í mars þá sekkur maður í þvílíka fýlu.

En út af hverju leggst maður yfir það að lesa sig og skrifa út úr fýlunni? Jú, því maður elskar þennan klúbb sinn fáránlega mikið og vill ekki sitja í súpunni lengi. Enda er það enn mitt staðfasta mat að framtíðin sé björt, mjög björt.

Ég var sammála mörgu í skýrslu Kristjáns Atla frá helginni, mér fannst ekki ástæða til að mæra svo glatt góðan leik okkar úti á vellinum því enn einn ganginn voru það ónóg gæði á síðasta þriðjungi sem að urðu til þess að við náðum ekki sigri. Það höfðum við áður séð í vetur, mest gegn Norwich, Sunderland, City, Blackburn og United, en líka gegn Swansea, Stoke, Tottenham. Þar hefði lágmarks sanngirni miðað við spilamennsku úti á vellinum átt að skila okkur 18 stigum í stað þeirra 8 sem við fengum.

En um helgina gekk þetta einu skrefi lengra, Arsenal framdi rán um hábjartan dag þegar VP skoraði í uppbótartíma. Við fengum ekkert út úr leik þar sem við niðurlægðum Arsenal í 75 mínútur. Það hefur verið ömurlegt að vera í klefanum eftir leik og þögnin innan Liverpool er í raun frekar mikil, klúbbnum skellt niður á jörðina hratt.

Það hefur hins vegar verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni frá öðrum hornum, en þar hefur hrósi verið hlaðið á okkar lið, talað um bestu frammistöðu þeirra í vetur og að einungis sé tímaspursmál hvenær við losnum úr viðjum markaþurrðarinnar og þá sé liðið á betri stað en oftast áður. Gömlu LFC hetjurnar keppast við að hrósa liðinu og smám saman eru úrslitin að gleymast en frammistaðan að standa eftir.

Ég er þó ennþá pirraður, en bara út af einu sem er svo óvíst að hafi skipt máli. Mér fannst púðrið vera að leka frá okkur á 70.mínútu og í nokkrum leikjum vetrarins hefur þjálfarateymið þá brugðist við með flottum innáskiptingum. Emirates er besta dæmið en bikarleikir gegn United og City koma strax upp í hugann.

Í ellefu manna liðinu okkar á laugardag var mikið af góðum fótboltamönnum. Við leystum pressu Arsenal vel í varnarlínunni, við réðum miðjunni algerlega og boltinn flaut vel milli kanta, fórum á bakverðina og sköpuðum hættu. En skoruðum ekki. Þar er að mínu mati ljóst að við áttum þrjú færi þar sem skylda er að skora. Stangarskot Suarez var vond afgreiðsla, víti Kuyt og follow up mjög slakt og afgreiðsla Kelly blaðamál. Þar þurfti Sczezhny lítið að koma nálægt í raun, okkar menn klúðruðu. Eins og hefur sést áður í vetur. En á bekknum var okkar markahæsti maður, Bellamy (sem reyndar var að spila alltof lengi fyrir Wales í miðri viku), Carroll sem hefur verið að leika betur að undanförnu og hefði skapað Arsenal vanda að mínu viti, Shelvey sem skoraði haug fyrir Blackpool og Maxi sem er lunkinn að hlaupa í eyður.

Ég hefði viljað sjá þjálfarateymið hrista upp fyrr, helst upp úr mínútu 70. En af einhverjum ástæðum finnst mér þjálfarateymið íhaldssamara í deildarleikjum en bikarleikjum. Það góða við að hafa tapað um helgina þýðir það að teymið er pottþétt að fara enn betur yfir sín mistök en í jafnteflisleikjunum og ég er viss um að við sjáum fljótlega skiptingu breyta leik aftur. Því það eiga þær að gera, ekki bara þegar þú ert að tapa.

En á sama hátt er ég þess fullviss um að við erum á mjög réttri leið. Svona frammistöðu eins og um helgina sáum við síðast vorið 2009 þegar Rafa var með sitt besta lið. Flæðið úti á vellinum, áræðnin og grimmdin er í toppgír og liðið er að skapa fullt af færum. Fullt. Einhver tölfræðingurinn er búinn að búa til töflu um “clear cut chances” sem er búin til eftirá til að breyta umræðu, það þarf blindan mann til að telja Liverpool ekki hafa vaðið í færum í vetur. En það þarf að klára þau og ég held að lausnin sé að líta til nýrra manna. Ég reyndar sé ekki endilega milljón sentera í heiminum gera það en horfi þá kannski frekar til sóknartengla og vængmanna. Ég t.d. tel kominn tíma á að hætta að nota Henderson úti á kanti og vill gefa Kuyt bekkinn. Væri kannski kominn tími til að sjá Raheem Sterling bara hjá þeim stóru? Held að við ættum að leyfa honum að prófa. Við erum ekki að fara að taka CL sætið sýnist mér og því alveg verjandi að láta hann prófa.

Og ég er klár á því að við erum með öflugt teymi í klúbbnum sem er að snúa hjólum í gang. Mikið er reynt að tala um “gamaldags” þjálfara en það er auðvitað bull. Steve Clarke og Kevin Keen eru taldir meðal efnilegustu þjálfara Englands, lesið t.d. bara eitthvað um það sem Mourinho skrifar um Clarke. Auk þess skulum við ekki gleyma að Dalglish hefur ekki gengið illa gegn þeim sem stjórna stórliðunum, Mancini, Rauðnefur, Chelsea-stjórar og Wenger geta nú ekki sagst hafa stútað hans liðum er það?

En karlinn er af gamla skólanum og íhaldsamur. Eins og Rauðnefur, Ancelotti, Capello og Mourinho. Færir lítið til í sínum liðum, er ekki mjög hrifinn af róteringum og vill búa til lið sem berst saman fyrir verkefninu. Ekkert of mikil fínheit í spilamennskunni, heldur fyrst og fremst að halda boltanum í drep til að byggja upp sóknir, og síðan leggja mikið á sig til að vinna boltann aftur. Þau merki eru að sjást á klúbbnum, en sá fullkomnunarsinni sem karlinn er og einstök ást hans á Liverpool og leiknum er að skína í gegn og mun gera áfram.

Þetta er allt á réttri leið, vandinn þegar hann tók við var í milljón liðum held ég. Innan sem utan vallar. En núna er hann einn. Klára sóknir. Sem oftast!!!

19 Comments

  1. Fékk send skemmtileg komment frá Henning Berg sem lék undir stjórn Kenny hjá Blackburn.

    A) Kenny vill spila þeim mönnum sem hann fékk til liðs þar sem hann trúir á ákvarðanir sínar (íhaldsemi). Spurður út í hvort það hafi skipt máli á Wembley:

    – Det var det første jeg tenkte da jeg så Luis Suarez, Andy Carroll, Stewart Downing og Jordan Henderson. Da tenkte jeg at det var en fin anledning for ham til å vise at de vinner med disse spillerne.

    B) Um karlinn sjálfan, hann telur sig hafa mest lært í fótbolta hjá honum, hann hafi ekki farið fram með hávaða, en gert miklar kröfur á alla þá sem fyrir hann unnu og hann hafi verið með bestu hálfleiksræðurnar og hugsað allt fram í tímann.

    – Dalglish var superfin. Fantastisk. Jeg lærte mye fotball av han. Ray Harford også, egentlig. Begge to. Kenny er den manageren jeg har vært mest enig med i pausene. Han var alltid “spot on”. Han husket hver eneste situasjon. Han var heller ikke aggressiv og stygg. Han var mer “hvorfor gjorde du det der når vi ble enige om at du skulle gjøre sånn?”. Han var bra. (Sir Alex) Ferguson var mer aggresjon og følelser.

    Veit ekki hvort þið eruð öll jafn áhugasöm um að frétta úr búningsklefanum eða æfingasvæðinu og ég, en mér fannst þetta spennandi!

  2. Væri ekki einhver lausn á vandamáli Liverpool einfaldlega sú að kaupa Gylfa Sig creative miðjumaður með frábærar aukaspyrnur, öruggur af vítapunktinum og með afburða sendingargetu. Skilar ávallt mörkum annaðhvort með úrvals stoðsendingu og skorar sjálfur alltaf eitthvað af mörkum, eitthvað sem enginn miðjumaður Liverpool getur státað af í dag sérstaklega eftir að Gerrard ákvað að taka af sér skotfótinn og geyma hann uppí hillu.

  3. Góður pistill, sammála mörgu þarna en sumu ekki – eins og vera ber 🙂

    Ég var sjálfur með ógeðisbragð í kjaftinum eftir leikinn á laugardaginn, en var fljótur að jafna mig. Þetta er bara saga tímabilsins í hnotskurn. Liverpool annað hvort stýrir leikjum sínum frá A til Ö og nær ekki að skora, eða það kúkar upp á bak og spilar eins og fermingarstelpur í kringum poppara (vs. Bolton t.d.). Þetta hefur gerst í allt of mörgum leikjum á tímabilinu. Fyrir leikinn var ég býsna bjartsýnn, eftir sigurinn gegn Cardiff um daginn, en bjóst samt alveg eins við því að þetta yrði raunin.

    Margir, bæði hér og erlendis, keppast við að hrósa liðinu fyrir að spila vel. Ég er algjörlega á öndverði skoðun, mér finnst liðið heilt yfir hafa spilað illa á tímabilinu. Ástæðan er einföld. Leikurinn snýst um það að skora mörk. Þetta er ekki flókin fræði.

    Liverpool: 26 leikir – 30 mörk skoruð.
    Van Persie: 27 leikir – 25 mörk skoruð.

    Robin fokking van Persie er aðeins búinn að skora 5 mörkum minna en Liverpool á þessu tímabili!

    Ég er algjörlega ósammála því að það hafi verið “mikið af góðum fótboltamönnum” í liðinu á laugardaginn. Bentu á þann sem þér þykir bestur.

    Suarez. Reina.

    Og þá er upptalningunni lokið. Fleiri gæðaleikmenn voru ekki í liðinu.

    Ég veit að flestir vilja gefa mönnum séns á að vinna sig inn í liðið, þetta margumtalaða aðlögunartímabil sem menn “eiga” að fá. Ég er þá bara svona óþolinmóður, en ég hef þegar fellt minn dóm um liðið. Með hverjum leiknum sem líður, kemur það betur og betur í ljós að liðið og leikmennirnir er ekki betra en sem gæti hugsanlega skilað okkur í 6. sæti. 5. sæti ef Arsenal/Chelsea ákveða að sleppa því að spila nokkra leiki.

    Yfirleitt á þessum tímapunkti á hverju tímabili er ég farinn að láta mig hlakka til sumarsins, því tímabilið fyrir liðið mitt er svo gott sem búið. Mig hlakkar til þess að sjá hvaða leikmenn liðið er orðað við og hverja það kaupir. En ekki núna. Fyrir utan þessa tvo leikmenn sem ég nefndi áður, þá hafa önnur kaup misheppnast.

    Það liggur þungt á mér þessa dagana vegna þessa gengis okkar manna. Ég skal alveg viðurkenna það. Mér finnst ömurlegt – í orðsins fyllstu merkingu – að liðið sé bara meðal-lið og fátt sem bendir til annars en að svo verði raunin um óákveðna framtíð.

    En kannski er ég bara svona svartsýnn – við breytum því bara með einum litlum broskalli!

    🙂

    Homer

  4. *tveir leikmenn sem ég nefndi áður

    strikaði nöfnin út, en það voru Enrique og Suarez.

    Homer

  5. Sælir félagar

    Frábær umræða sem Maggi er að starta þarna. Þó ég, eins og fleiri hafi verið gjörsamlega miður mín eftir síðasta leik, (Það sást á líka greinilega því sem ég skrifaði strax á eftir og hefði sumt þar mátt vera ósagt eins og gengur) þá var eftir á að hyggja margt jákvætt í leiknum og helst það hvernig Liverpool liðið algjörlega dómineraði leikinn nánnast hverja einustu mínútu.

    Áhyggjuefnið er auðvitað markaþurrðin og hvernig sóknin bilar á síðast þriðjungi eða fjórðungi vallarins. Þar má ef til vill skoða þann magnaða leikmann Luis Suarez. Það verður að segjast að hann er ekki mikið að spila sína menn uppi í teignum. Þessi stórhættulegi leikmaður sem dregur til sín obbann af vörn andstæðinganna þegar hann fær boltann mætti líta oftar upp og senda á félaga sína sem eru ef til vill í kjörstöðu fyrir framan markið.

    Eins þurfum við að fá meira frá köntunum af alvöru spyrnum. Flötum föstum boltum á nærsvæðið eða inn í boxið. Á nærsvæðinu í hornum er Skrölti magnaður og Carroll á að vinna alla bolta inni í boxinu. Þá þurfa sóknartengiliðir að æfa markskot og miða þær æfingar við að hitta flöt sem er nálægt 30 fermetrum að flatarmáli. Þegar þeir eru orðnir öruggir á þessum fleti geta þeir farið að æfa að hitta í einstaka hluta hans. Þessa æfingu þurfa reyndar allir sóknarmenn að taka til enda.

    Nei svona í alvöru þá þarf að gera eitthvað til að fá meira út úr hornum og öðrum föstum leikatriðum. Og auðvitað þarf að bæta við fullþroskuðum alvöru leikmönnum og þá helst á kantana og í sóknina. Einnig förum við að þurfa á því að halda að fá alvöru sóknartengilið því SG er að komast á aldur og svo alvöru bakkupp fyrir Leiva þó Litla-Spíran sé helvíti seig.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  6. Fyrir ári síðan var þessi lýsing hjá þér ATA akkúrat lýsingin á Charlie Adam þegar hann var að spæna upp varnir andstæðinganna með Blackpool. Ég vil persónulega ekki fá fleiri miðjumenn til Liverpool, það er til nóg og þeir kunna allir fótbolta. Það sem vantar eru alvöru kantmenn og frábært væri ef til eru slíkir menn í vara- eða unglingaliðinu.

    Nú vona ég að tilvonandi framtíðarleikmenn Liverpool fari að spila meira það sem eftir er á tímabilinu svo þeir geti gert almennilegt tilkall til sætis í leikmannahóp Liverpool á næsta tímabili með nokkra aðalliðsleiki á bakinu.

    Ég hef svo mikla trú á þessum hópi og er viss um að mikilla breytinga á leikmannahópnum er ekki þörf. Gaman væri þó ef splæst yrði í einn góðan framherja og einn hægri kantmann, meira bið ég ekki um. Þá gæti Dalglish valið milli þriggja frambærilegra framherja(Kuyt ekki talinn með, enda ekki frambærilegur framherji) og gæti stillt um tveim kantmönnum í einu á sitt hvorum kantinum, í staðinn fyrir að henda sóknarmanni eða miðjumanni þangað. Þá væri aragrúi af miðjumönnum eftir til að velja úr til að spila á miðjunni!

    Annars var þetta mjög áhugaverður pistill Maggi. Alltaf gaman að lesa vel skrifaða pistla á mánudegi!

  7. Fá Rafa inn í þjálfarateymið og kaupa alvöru markaskorara = Meistarar!

  8. Flottir punktar sem hér eru, sé að við Homer erum sammála um sumt og annað ekki, skemmtilegt að rökræða og ég ætla aðeins að kommenta á það.

    Ég held að það sé nú ansi erfitt að ætla að rífa marga leikmenn niður fyrir frammistöðuna á laugardaginn.

    Reina vissulega hefði getað gert betur í marki tvö og varnarleikurinn var ekki nægilega góður hjá hafsentunum í mörkunum, en það var þó Van Persie og snilld hans sem skapaði það allt. Kelly átti vissulega ekki góðan dag en ég sé ekki að við þurfum að bæta við mörgum varnarmönnum í þennan hóp okkar. Það er mín bjargfasta trú að varnarlínan okkar þegar hún er heil, ásamt markmanni, sé sú besta í Englandi, kannski ásamt City. Reina, Johnson, Skrtel, Agger og Enrique væru byrjunarliðsmenn í öllum bestu liðunum.

    Við söknum Lucasar. Mikið. Jay Spearing lék samt að stórum hluta vel á laugardaginn, sér í lagi í fyrri hálfleik. Lucas væri í byrjunarliði Arsenal, Chelsea, Tottenham og United, bara Yaya Toure sem er sterkari en hann af DM-C leikmönnum í Englandi að mínu mati. Svo að vörn plús djúpur miðjumaður er í fínu lagi, reyndar myndi ég vilja sjá betra backup í vinstri bak, en þar virðist klúbburinn ætla að treysta á Flanagan og Robinson sem er vonandi skref í rétta átt hjá ungu mönnunum. Ég hef því ekki trú á því að menn séu að svitna við að finna varnarmenn, sem er jú það fyrsta sem vanalega er skoðað þegar lið er endurbyggt!

    Þú talar um að önnur kaup sóknarlega en Suarez hafi klikkað. Í fyrri hálfleik voru Downing, Henderson og Adam að mínu mati að leika vel. Sendingar þeirra rötuðu vel og sköpuðu hættu. Sóknin sem gaf okkur markið er búin til af snilldarsendingu Downing í fyrsta á Henderson og hann fékk stoðsendingu skráða á sig. Adam er með hátt sendingahlutfall á fyrstu 45 og þar er m.a. að finna sendinguna sem Kuyt á að klára og setur í stöng. Vissulega rann af þeim móðurinn í seinni hálfleik sóknarlega og þú sérð að þar vildi ég sjá skiptingu. En ég er svo ósammála þeim sem ergja sig á Charlie Adam, sá strákur kostaði okkur ekki stórar upphæðir og það er alveg á hreinu að meiðsli okkar, fyrst Gerrard og síðan Lucas hafa krafist af honum meira en upphaflega var ætlað. Samvinna hans og Lucasar fannst mér afar góð en veturinn líður án þess að við sjáum miðjuna Lucas, Gerrard plús einn enn virka. Ég er sannfærður um að Gerrard á mikið eftir og þar með finnst mér við þurfa að skoða síðustu miðjustöðuna ef við spilum með þriggja manna miðju. Vissulega væri gaman að fá eitthvert stórnafn en ég er líka alveg sannfærður um það að Jordan Henderson og Jonjo Shelvey verða alvöru fótboltamenn þó þeir séu kannski númeri of litlir í að verða stórir leikmenn í dag. Það væri þá að mínu viti fínt move að fá öflugan miðjumann um þrítugt til að bæta inn í jöfnuna.

    Það er hins vegar kantspilið og senterstaðan sem hefur valdið erfiðleikum og þar vantar gæði. Ég vill ekki lengur samþykkja það að Kuyt sé byrjunarliðsmaður í leik gegn Arsenal og við eigum bara einn vængmann sem tekur bakverði á, það er Stewart Downing. Sá er vissulega ekki enn búinn að sanna sig en það eru augljós batamerki á honum að undanförnu, mér fannst hann leika vel í 60 mínútur um helgina en svo vantaði, aftur segi ég það, uppbrot í leikmennina. Carroll er ennþá ungur og hrár, skil fullkomlega ekki hvers vegna menn vilja afskrifa hann, sérstaklega þar sem nú að undanförnu hafa sést gríðarleg batamerki í tækni og leikskilningi. Suarez er enn ekki kominn til leiks eftir bannið en ég hef fulla trú á honum og vona innilega að hann nái fyrri gæðum.

    Þess vegna held ég að við séum á ágætum stað að mörgu leyti. Mjög góðum varnarlega og í hefðbundinni vinnu inni á miðjunni. Það er hins vegar sköpunin fram á við sem verður að skoðast og ég vona að þar sjáum við umtalsverða bætingu milli ára. Er alveg sannfærður um að þjálfarateymið er jafn svekkt, eða svekktara á markaleysi Suarez, Kuyt og Carroll, og ekki síður stoðsendingavanda Downing.

    Menn eru líka fljótir að gleyma t.d. reglunum um heimamenn í enska boltanum, nú getum við ekki mikið lengur talið Carra sem einn af lykilmönnunum og kaupin á #9, #14 og #19 voru auðvitað í og með leið til að laga það. Svo megum við heldur ekki gleyma að við fengum “já” við tilboðum í Phil Jones og Ashley Young, bara til þess að þeir veldu United framar.

    Í dag er mikið talað um Cavani, ég þekki hann lítið þar sem ég hef ekki horft á ítalska boltann um stund. Ég hins vegar er afskaplega hrifinn af Iker Muniain hjá Athletic Bilbao sem er öskufljótur kantmaður sem getur líka spilað striker, 19 ára peyji sem mun ná langt. Og Roberto Soldado sem nú hefur hirt treyju númer níu hjá spænska landsliðinu myndi að mínu mati raða mörkum í þessu liði okkar. Svo veit ég að á mig verður argað en ég sá það að Arjen Robben er til í að flytja sig aftur til Englands og þó ég hati hann með einu auga, þá held ég að hann sé leikmaður sem okkur vantar. Þessir þrír myndu gjörbreyta ástandinu held ég og mér finnst fókusinn eiga að liggja frammi eins og þessi pistill sýnir. Við erum á fínu róli varnarlega og náum að flytja boltann vel upp á síðasta þriðjung.

    En þar er vandinn!!!

  9. Gaman að lesa svona pistil og svona umræðu eftir dapra helgi okkar manna og vangaveltur sem eru nauðsynlegar fyrir okkur stuðningsmennina, tel ég.

    Ég verð nú að viðurkenna það að ég hlóg pínu upphátt þegar að ég sá þessa tölfræði Liverpool-liðsins og RVP, að hann sé næstum því búinn að skora jafn mikið og okkar lið í heildina er náttúrulega eitthvað grín!

    En það er lítið sem maður getur bætt við það sem Maggi segir hér að ofan nema að maður sér svo mikið sammála honum.
    Kuyt á ekki að vera byrjunarliðsmaður í leik á móti Arsenal (vill taka það fram að ég hef alltaf lofað Kuyt) en hann er samt sem áður maður sem á sæti á okkar bekk og getur komið inn og breytt gangi leiks, alveg klárlega.
    Carra, grey Carra, er kominn yfir sitt besta og væri gaman í næsta leik að sjá jafnvel Coates eða Kelly í miðverði með Skrtel og Johnson í bakverði og halda Carra á bekknum. Ég hef dýrkað og dáð Carra í mörg ár en þetta er biti sem maður verður bara að kyngja, því miður.

    Þeir sem segja að við eigum að kaupa einhverja miðjumenn – annað en DM-C – eru ekki alveg að fylgja. Þeir miðjumenn sem koma til greina hjá liðinu eru þessir (taldir upp eftir mikilvægi) : Lucas, Gerrard, Adam, Henderson, Spearing og Shelvey.
    Vinnum úr þessum hóp til að byrja með.

    Það er hinsvegar ekki hægt að neita því að við stöndum frami fyrir markaþurð, okkur vantar alvarlega manninn í boxið sem getur potað þessum boltum inn! Eftir leiki helgarinnar þá finnst mér einn maður koma til greina, þ.e.a.s sem er raunhæfur kostur, og það er Jeremin Defoe. Hann hefur hraðann, hann getur klárað færin og hann getur látið vaða af færi….er þetta ekki maðurinn sem okkur sárlega vantar, pure finisher?

    Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili.

    YNWA – King Kenny we trust!

  10. Til að byrja með þá skal það vera alveg á hreinu að Maggi fær góðan þumal upp (gæti hljómað eitthvað rangt!) fyrir þetta svar sitt 🙂

    En svo við höldum áfram rökræðunum … Í fyrsta lagi – Soldado. Nú horfi ég töluvert á spænska boltann (er svona eiginlega hrifnari af þeim spænska en enska, en það er önnur saga) og tek heilshugar undir það að hann er frábær framherji – þó það sé ekki beint saga til næsta bæjar að vera búinn að taka #9 af ónefnda 50 milljón punda drengnum! 🙂 En að hann muni raða inn mörkum hjá Liverpool? Tja … ég stórefast um það, svona miðað við að Suarez raðaði inn mörkum hjá Ajax og Carroll hjá Newcastle. Og Kuyt hjá Feyenoord. En hjá Liverpool … ekki svo mikið.

    Downing, Henderson og Adam – þú segir að þeir hafi verið að spila vel. Gott og vel, en ég er eiginlega alveg 100% viss um að við leggjum mismunandi skilning í það “að spila vel”. Að mínu mati eru þetta leikmenn sem eiga að búa til sóknir og færi. Já, og skora. Þar, og ég er að tala um tímabilið í heild sinni, hafa þeir staðið sig einstaklega illa. Adam byrjaði ágætlega, en allir þeir kostir sem prýddu hann hjá Blackpool í fyrra virðast algjörlega horfnir. Hornspyrnur hans eru ekki góðar, í það minnsta kemur lítið úr þeim. Hann er bæði hægur og afar mistækur, og virðist hreinlega tveimur númerum of lítill fyrir þetta lið.

    Downing er alveg sérkapítuli fyrir sig, en í sama mót steyptur og Adam – Toppleikmaður hjá miðlungs/lélegu liði. Þar gátu báðir verið aðalmennirnir, enda engin pressa á að standa sig 100% í hverjum einasta leik. Bara einu til tveimur númerum of litlir fyrir lið sem ætlar sér í toppbaráttu. Það er hálf ósanngjarnt af okkar hálfu að leggja þá undir sömu pressu og t.d. leikmenn Manchester United og City – sem mega ekki við mörgum mistökum.

    Talandi um City – “homegrown” reglan er líka alveg í gildi hjá þeim. Algjörir lykilmenn hjá þeim, sem eru einnig Bretar, eru Richards, Barry og Hart. Jafnvel Lescott einnig. Við erum með Gerrard – og svo meðaljóna sem kæmust ekki nálægt byrjunarliðinu hjá ManCity. Eða utd. Lausnin á þessari “homegrown” reglu er ekki að kaupa bara endalaust af Bretum sem falla undir regluna. Lausnin er að kaupa þá leikmenn sem eru nægilega góðir.

    Sem dæmi: Ef okkur stæði til boða að kaupa Carroll eða Soldado, þá tæki ég þann síðarnefnda. Þó þar fari eitt “homegrown” pláss út um gluggann, má fylla í það með leikmönnum úr vara- eða unglingaliðinu.

    Shelvey er efni, líkt og Henderson. En ég skil ekki hvað menn eru að pæla með Shelvey. Lucas meiðist og þá er hann umsvifalaust kallaður til baka. Spilar einn eða tvo leiki, og svo lánaður bara aftur. Skilaboðin sem ég les úr þessu er að Kenny og Co. telji Spearing, Adam, Kuyt og Downing (þeir leikmenn sem Shelvey getur leyst af) séu að spila nægilega vel. Óskiljanlegt, ef einhver spyr mig, og ég held einhvern veginn að Shelvey muni ekkert fá sénsinn hjá Liverpool.

    Mér finnst bara svo augljóst að svo margir í þessu liði eru ekki góðir fótboltamenn, í það minnsta ekki það góðir að maður sjái þá lyfta liðinu upp á næsta stig og gera alvöru atlögu að 4. sætinu. Og enn síður í titilbaráttu. Persónulega myndi ég ekki sakna margra úr liðinu, ef svo bæri undir. Að mínu mati eru Reina, Skrtel, Agger, Johnson, Gerrard og Suarez (og Lucas, þegar hann er heill) þeir einu sem ég tel lykilmenn. Þetta eru 7 leikmenn, jafnvel 8 ef við hendum Enrique með í pottinn. Ekki skilja það samt sem svo, að ég vilji losna við alla hina umsvifalaust, heldur meira þannig að það séu til aðrir töluvert betri leikmenn en hinir farþegarnir.

    Homer

  11. Á teamtalk segir Skrtel að bikartvenna sé mikilvæg til að bæta upp fyrir vonbrigðin af missa af 4ja sætinu. Er liðið semsagt búið að gefa það upp á bátinn? Bara búið að leggjast niður og gefast upp? Auðvitað er minni líkur en meiri á að ná 4ja sætinu en þetta er fljótt að breytast. Liðið getur unnið alla deildarleiki sem eftir eru og náð sætinu. Eru þetta eintómir pappakassar í þessu liði sem telja það ekki hægt og eru búnir að sætta sig við 7.-6. sæti?

    Hvað með það þótt Adam hafi ekki kostað mikið og meira sé ætlast til af honum en fyrirhugað var vegna meiðsla annarra leikmanna. Er það afsökun sem við poolarar eigum að sætta okkur við? Adam hefur valdið gríðalegum vonbrigðum, auk Downing, Henderson og Carroll sem kostuðu nú aldeilis skildingin. Þegar klúbburinn losar sig við 2 heimsklassa miðjumenn og fyllir plássinn með efnilegum leikmanni og meðalskussa er ekki að sökum að spyrja. Svo er augljóst hver vandamálin eru þegar hálft tímabilið er búið en ekkert gert í því. Mér finnst þetta metnaðarleysi og ekkert gert til að auka möguleikann á 4ja sætinu.

    Eins og Homer segir. Það er pínlegt að viðurkenna það en staðreyndin er sú að þetta lið í dag er algjört meðallið. WBA og Stoke hafa unnið jafnmarga leiki í deildinni og LFC. Fulham, Everton, Norwich og Sunderland einum leik minna. Nuff said.

    p.s. Þegar ég les yfir þetta aftur sé ég þversögnina. Þrátt fyrir að telja liðið algjört meðallið hef ég fulla trú að það geti unnið alla leikina í deildinni og tryggt sér 4ja sætið. Maður er ekki í lagi þegar viðkemur okkar ástkæra klúbbi.

  12. Sælir félagar

    Það veldur mér hugarkvölum að þurfa að viðurkenna að Carra, minn maður, sé að öllum líkindum kominn aftast í röð miðvarða hjá Liverpool. þó vil ég benda á tvennt í því sambandi. Í fyrsta lagi á hann ekki einn sök á mörkunum sem RvP skoraði. En hann á sinn þátt í þeim. Hitt er svo það að hann er náttúrulega ekki í neinni leikæfingu. Það er hrikalega erfitt að koma inn í leik eins og þennan verandi ó lítilli leikæfingu og þurfa að sjá um mann eins og RvP. En reynslan og skapstyrkur Carra er alþekkt svo þessvegna hefur hann verið tekinn fram yfir Coates. það held ég amk.

    Mér finnst þessi umræða sem hér fer fram mjög góð. Þó menn séu ekki sammála eru menn málefnalegir og halda sig á þeim slóðum. Betra að þannig væri það oftar þegar umræða lendir á villigötum persónlegra athugasemda og leiðinda.

    Það getur verið rétt að ekki þurfi að styrkja miðjuna neitt en þá verður að fara spila þeim mönnum sem þar eiga að taka við og bakka upp miðjumenn eins og Lucas og Gerrard.

    Um kantana þarf ekki að ræða þó Downing virðist vera að bæta sig. Þar þarf tvímælalaust að fá menn og helst á báða kanta tel ég. Svo vantar toppsenter hvað sem hann kostar. Það er ekki spurning að mínu viti þó ég hafi ekki neitt nafn á takteinum. Það er hinsvegar áhyggjuefni hve oft þessir menn frá meginlandinu klikka hjá okkur eins og bent er á hér að ofan Homer#10.

    Ég er sammála Homer um flesta sem hann nefnir sem leikmenn í Liverpool-klassa. Þó hefi ég orðið efasemdir um Reina. Mér finnst hann vera að gefa eftir og Enrique hefi ég rætt um áður og er ekki eins hrifinn af honum og margir aðrir.

    Reina, Skrtel, Agger, Johnson, Gerrard og Suarez og Lucas eru þeir sem Homer nefnir en ég hefi efasemdir um suma þarna en þetta er samt helsti og sterkasti kjarni liðsins. Ef til vill verða Hendo og Carroll í þessum hópi þegar fram í sækir og Enrique hangir þarna utaná. Þetta er þá 7 til 9-10 manna hópur og ef hann er styrktur með þremur heimsklassa mönnum í sumar erum við með svakalegt lið. Vonandi verður prjónað við þennan hóp með alvöru leikmönnum í heimsklassa í sumar.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  13. Sælir piltar, margar góðar greinar hjá ykkur í þessum pisli,ég hef aftur og aftur pirrast yfir þessum hægri kanti okkar þar tel ég að áhersla nú 1, 2 og 3 ætti að vara að styrkja með klassaleikmanni, ég hef alltaf sagt að það er algerlega ómögulegt að hafa Kuyt á kantinum hann EINFALDLEGA ræður ekki við þá stöðu, hann hefur ekki þá gæði sem kantmaður þarf að hafa ,við eru aðeins betur settir vinstra megin með Bellamy og Downig sem er aðeins að hressast þá að hann verði aldrei neinn klassa leikmaður þá má vona að hann verði þolanlega góður,með hann Adam þá er sá maður alls ekki í Liverpool klassa fyrir minn smekk, eitt það versta við hann er hversu óskaplega slappur hann er að verjast,Carrol er að koma til ég hreyfst mjög af honum hjá Newcastle, hann á eftir að skila sínu,Henderson er of ungur til að útiloka hann, vonandi mun hann verða góður miðjumaður,hvernig líst ykkur á að kaupa Junior Hoilett á kantinn okkar,virðist vera góður og efnilegur leikmaður, samningur hans rennur út í sumar og ég held að mörg lið vilji fá hann í sumar,ég tek undir hjá mörgum hér sem segja að við höfum og marga leikmenn sem eru ekki í Liverpool klassa, vonandi verður sumarið okkur árangursríkt.

  14. Málið er einfalt, fáum Benítez einhversstaðar inn í teymið okkar og kaupum Torres aftur á sirka 20M þá er frammlínan kominn og fulllt a mörkum líka, vegna þess þegar Benítez skiptir sér af Torres þá er hann sjúkur og ég held að súares og Carroll geti verið betri með hann heldur en Kenny. Ég er ekkert að segja að kenny sé lélegur sko en hann leggur allto mikkið púður í þesssa blessuðu vörn en voða lítið í þessa blessuðu frammlínu, þetta er bara mín skoðun.

    Ég vil alls ekki að Benitez fari til Chelsea vegna þess að Torres á þá eftir að hrökkva í gang því þeir tveir kunna að vinna saman.

  15. Þetta er mjög góður pistill og góðar umræður í kjölfarið. Ég er á sama máli og margir hérna, þótt við séum fyrir neðan Arsenal og Chelsea þá eru vandamál liðsins að mörgu leyti minni og auðleystari heldur en vandamál þeirra. Chelsea er að díla við að síðan Mourinho fór þá hafa varla nokkur leikmannakaup heppnast, sem leiðir til þess að hópurinn þarf að fara í gríðarlega yfirhalningu í sumar. Ef ég væri Chelsea-maður þá myndi ég vilja amk. 5-6 stór kaup í sumar. Arsenal hefur svoleiðis mýgrút af veikleikum, eins og sást hvað best á Anfield á laugardaginn, að það hálfa væri helmingi meira en nóg. Þeir þurfa nýtt haffsentapar, nýjan vinstri bakvörð, tvo nýja miðjumenn og tvo nýja sóknarmenn í það minnsta, þeas. ef þeir ætla að stefna að titilbaráttu.

    En aftur að okkar mönnum.
    Auðvitað má kaupa betri miðjumann en Charlie Adam. Auðvitað má kaupa betri kantmenn en Kuyt og Downing. Auðvitað má kaupa betri bakverði og haffsenta. En aðalatriðið er að kaupa öflugan senter sem slær í gegn og nýtir eitthvað af þeim færum sem skapast. Það er aldrei hægt að kaupa senter sem mun 100% slá í gegn en þessir sem eru nefndir, sérstaklega Soldado og Cavani eru leikmenn sem myndu passa ansi vel inn í Liverpool-liðið og nokkuð miklar líkur væru á því að þeir myndu slá í gegn. Þessi kaup verða algjört forgangsatriði í sumar, síðan yrði fínt að fá einn miðjumann og hægri kant. En það má alveg splæsa einhverjum 30 milljónum í senter ef hann á síðan eftir að skila 20 mörkum á sísoni. Öll topplið þurfa svoleiðis leikmann og við verðum ekki topplið fyrr en slíkur leikmaður kemur. Eða verður til hjá félaginu í líki Carroll eða Suarez. Sem er enn möguleiki.

  16. Það verður að segjast að það er bara ýmislegt til í þessu. http://www.talksport.co.uk/magazine/features/2012-03-06/six-reasons-liverpool-have-not-been-unlucky-season?

    Við getum ekki endalaust talað um óheppni, stangarskot og frábæra spilamennsku útá vellinum. Staðan á töflunni lýgur ekki. Við erum með 39 stig af 78 mögumegum. 50% árangur. Það er það sama og að vinna 13 leiki og tapa 13 leikjum. Erum líka búnir að vinna 4 leiki af 13 á Anfield og skora 30 mörk í 26 leikjum. Þetta er bara ekki ásættanleg tölfræði fyrir Liverpool FC.
    Ég minni menn á hvernig við töluðum fyrir tímabilið, það var talin blessun að vera ekki í neinni evrópukeppni og sú hvíld myndi virkilega hjálpa okkur í deildinni að vera úthvíldir. Það hefur gjörsamlega engu skipt.

    Ég annars skil ekki hvað menn gera mikið úr þessum Arsenal leik og hversu við höfum yfirspilað þá. I hate to brake it to you……..en það er ekkert merkilegt og frábært lengur að yfirspila Arsenal. Þeir hafa ekki unnið neitt í 6 ár, eru þurrausnir sjálfstrausti og eru bara alls ekkert spes lið lengur. Vörnin hjá þeim er svo hörmuleg að það á að vera skýlaus krafa að vinna þá á Anfield. Sérstaklega eftir að komast 1-0 yfir.

    Ég skil heldur ekki þetta tal um að spilamennskan útá vellinum sé svo stórkostleg að það eina sem okkur vanti sé meiri heppni og alvöru markaskorara, þá verði allt betra. Hvað segir að núverandi Liverpool lið myndi halda áfram að stjórna leikjum og yfirspila lið ef við kæmumst oftar 1 eða 2-0 yfir? Þó við hefðum Van Persie myndum við ekki bara leggjast aftur og verja forskot með skyndisóknarbolta sem við fengjum svo í bakið?
    Jafnvel í bikarúrslitunum gegn Cardiff þegar við komumst í 2-1 þá duttum við aftur í vítateiginn. Það gegn 1.deildarliði sem gat ekki hreyft sig lengur vegna krampa hvað þá pressað, þá réð núverandi lið ekki við að halda boltanum innan liðsins né sækja áfram. Engar skipanir frá Dalglish eða fyrirliðanum Gerrard að halda hærri línu og koma í veg fyrir sendingar inní teig. Ég allavega beið bara eftir ljótu jöfnunarmarki úr föstu leikatriði. Sem svo gerðist auðvitað. Liverpool þarf alltaf að vera svo aumingjagóðir og fara lengstu og erfiðustu leið að hlutunum. Það er orðið innprentað í sálir leikmanna eftir rúm 20ár án aðal titilsins.
    Dettur engum í hug að þetta frábæra spil Liverpool útá velli í ár sé vegna þess að lið leyfi okkur sækja á sig vitandi að við höfum engan hraða eða tækni á köntunum til að komast á bakvið og framhjá bakvörðum eða hraða inní teig til ýta miðvörðum úr stöðum og opna varnir?
    Það er allavega skuggalegt hvað liðið okkar er fyrirsjáanlegt á Anfield, svo fyrirsjáanlegt og hægt að jafnvel botnliðin herma eftir hvort öðru og ná mörg auðvelduð jafnteflum þar.

    Stærsta vandamál Liverpool er sjálfstraustið og hugarfarið að mínu mati. Mikill skortur á hraða, tækni, skotgetu og því að þora taka áhættur. Við þurfum að fá nýja leikmenn sem koma með öðruvísi hugsun og karakter inní liðið. Rífa þessa gröfukalla sem við höfum upp úr skotgröfunum. Við þurfum leikmenn með leikskilning sem geta bæði sótt og varist og haldið betur boltanum innan liðsins þegar við erum pressaðir.
    Ég vil hrokafulla og hraða Frakka, líkamlega sterka evrópska leikmenn sem hafa aga úr deildum eins og þeirri þýsku, Portúgala uppá tæknina og leikskilning og squad-leikmenn frá liðum eins og Barcelona og R.Madrid. Það er held ég engin furða að Man City og Tottenham smullu fyrst saman þegar Yaya Toure og Van Der Vaart fóru til þeirra. Við ættum svo að forðast leikmenn sem spila á Ítalíu nema þeir hafi sannað sig í CL.

    Hvaða leikmenn vantar og í hvaða stöður? Okkur vantar alvöru holdanaut frammi sem skorar en er líka lipur að hlaupa í svæði og linka upp spil. Oliver Giraud (Montpellier), Asamoah Gyan, Progrebnyak, Lewandowski, Mario Gomez eru týpurnar allavega.
    Okkur sárvantar hægri/vinstri kantframherja til að spila 4-3-3. Cavani er algert must að reyna kaupa og svo eru það menn eins og Loic Remy (Marseille), Pedro (Barcelona), Robben, Sturridge, Lavezzi.
    Okkur vantar sóknarþenkjandi miðjumann með reynslu, tækni og leikskilning. Seydou Keyta hjá Barcelona væri snilld sem ódýr skammtímakaup og til að leiðbeina Shelvey. Callejon, bjóða allavega í Sneijder, Hamsik eða finna einhvern lipran hjá Porto eða Benfica.
    Okkur sárvantar alvöru varnarmiðjumann í samkeppni við Lucas.
    Það vantar enn Alvöru miðvörð. Einhverja nautheimska týpu eins og Rio Ferdinand sem eignar sér teiginn og getur heilalaust skallað bolta frá allan daginn.
    Okkur vantar fjölhæfan solid varnarmann sem getur tekið báðar bakvarðarstöðurnar. Mættum finna einhver fjölhæfan eins og Vargas sem getur spilað stöðurnar upp allan annanhvorn kantinn.

    Hverja má missa? Kemur kannski einhverjum á óvart en mér líst mjög vel á ef Real vill kaupa Glen Johnson. Finnst hann hræðilegur í föstum leikatriðum og koma óreglu á vörnina og miðjuspil með lélegum staðsetningum og einbeitingarskorti. Spearing er gröfukallatýpan sem er 1 númeri of lítill. Carroll og Kuyt líklega seldir í sumar til að rýma fyrir matchwinnerum, C.Adam. Downing fær smá auka tíma, mögulegt að ungæðisháttur og greddan í Raheem Sterling kveiki aftur á honum. Þurfum ekki algera yfirhalningu heldur finna 3-4 “rétta” leikmenn sem lyfta hinum og gera þetta að ofursterkri liðsheild. Það er líka möst að gefa ungum leikmönnum sénsa til loka leiktíðar til að fá leikgleði og áhættusækni aftur í spilamennsku og hugsunarhátt Liverpool.

    Það verður að hafa það að deildin í ár klúðraðist bigtime. Vonandi að þetta sér bara 2-3 ára masterplan hjá King Kenny. Byrja aftast og gera vörnina granítharða. Svo miðjan og sóknin og þá verðum við ósigrandi. Afsakið langhundinn en áfram Liverpool! Mikið djöfull elska ég þetta knattspyrnufélag.

  17. Líka möst að linka á þetta virkilega góða greinarkorn um Suarez og sóknarleik. http://www.guardian.co.uk/football/blog/2012/mar/05/liverpool-luis-suarez?

    Við höfum okkar framtíðar Van Persie, bara vandamálið að hann treystir ekki sumum samherjum, spilar núna 2 hlutverk í einu og reynir alltof erfiða og óþarflega flókna hluti því að Dalglish hefur ofdekrað hann og veit ekki enn hvernig á að ná því besta úr honum. Hann er og verður unique toppleikmaður sem við bara verðum að halda og fá hraðari og betri menn í kringum.
    Þeir miklu sófaspekingar hérna á kop.is sem kalla Suarez “krabbamein Liverpool” ættu að fara fylgjast með Boccia frekar…

  18. Ég er á því að gefa Raheem Sterling tækifæri , það má ekki bíða of lengi með að henda þessum ungu í djúpulaugina . Við verðum að fá stráka upp úr unglingastarfinu , það er ekki gott ef við þurfum alltaf að kaupa menn yfir sumartímann. Ég treysti því að þjálfarateymið noti það sem eftir er af tímabilinu til að byggja upp fyrir það næsta.
    Og ég er EKKI búinn að gefa 4 sætið frá okkur því ég mun ALLTAF hafa trú á mínu liði þar til trúin er ekki nóg .

  19. Enn er skemmtileg umræða hér á ferð og ég vill endilega halda henni áfram.

    Homer og AEG koma báðir með flotta punkta og rök, auðvitað er beinlínis kjánalegt að ætla að láta eins og að Downing, Adam, Henderson og Carroll séu búnir að sanna sig upp í topp. Ég ætla ekki að reyna það. Hins vegar langar mig að rifja upp með ykkur tvær frammistöður LFC stuttu áður en Dalglish tók við. Sú fyrri var tap gegn Wolves á heimavelli, 0-1 en þá áttum við 5 skot að marki og eitt á rammann, 50 – 50 í posession. Svo töpum við 1-3 fyrir Blackburn í janúar þar sem að þeir voru með u.þ.b. 55% posession og rústuðu okkur þegar taldar voru skottilraunir. Við unnum svo Bolton heima ósanngjarnt á milli með rangstöðumarki í uppbótartíma.

    Ég var þá daga beinlínis vansvefta yfir þeim ömurleika sem okkur var boðið uppá og var í alvörunni hræddur um fallströggl. Ég er ekki að ýkja það! Það var hrein skelfing að horfa uppá þau þrastarhjörtu sem bærðust í brjóstum leikmanna víðs vegar um völlinn, þá er ekki bara verið að tala um þá vonlausu leikmenn sem voru keyptir eins og Konchesky, Cole eða Poulsen, heldur líka menn sem hafa leikið mun betur síðan. Menn eins og Johnson, Skrtel og Agger.

    Ég allavega ber ekki saman þá tilveru við það sem ég sá um helgina. Ef menn nenna að leita að tölfræði þá t.d. var tölfræði fyrri hálfleiksins okkar beinlínis svakalega góð. Vinur minn úr þjálfarastétt hringdi í hálfleik (ekki LFC maður) til að benda mér á ótrúlega tölfræði leikmanna okkar. Manna eins og Adam, Downing og Skrtel. Sagði þær t.d. miklu betri en hjá United í 8-2 leiknum. Ég þakkaði honum símtalið en benti honum á að við þyrftum að skora úr færum til að ég gleddist. Sem kom svo í ljós.

    Ég held að við séum svo þroskuð hér í þessari umræðu að við séum bara sammála um að vera ósammála.

    Mitt mat í dag er það að með því að bæta við 2 – 3 hágæðaleikmönnum í sóknarleik Liverpool, eiginlega sama hvar ef við erum að tala um alvöru menn, þá sé liðið okkar á góðum stað til framtíðar. Í dag eru 12 leikmenn skráðir “útlendir” og við því í góðri stöðu til að versla slíka kosti, eigum inni fyrir fimm slíkum.

    Síðasta vor voru 16 leikmenn á launaskrá “útlendir” og fæsta þeirra losnuðum við við fyrr en í lok ágúst. Fólk hér gleymir því ansi oft að Kyrgiakos, Poulsen, Jovanovic og snillingurinn Degen voru allir á launaskrá þar til í blálok síðasta glugga og því var ljóst að með því að kaupa “útlenda” leikmenn í júní var verið að stóla á að við losnuðum við dýra pósta síðar.

    Við verðum að hafa átta leikmenn heimalinga í okkar hópi. Í dag eru það Brad Jones, Kelly, Downing, Bellamy, Henderson, Spearing, Johnson, Gerrard, Carragher og Carroll. Alls tíu leikmenn. Í fyrrahaust voru á þessum lista t.d. Stephen Darby, Emiliano Insua og Paul Konchesky. Ég reikna með að Brad Jones fari í sumar en þá eigum við samt pláss fyrir slíka leikmenn þar sem við erum líka með Shelvey og Flanagan utan þessara níu sem ég nefndi.

    Ég er sannfærður að þetta skiptir mjög miklu máli, núna hefur verið tekið vel til á sviðum sem Rafa og síðar Hodgson náðu ekki að vinna í (af ólíkum ástæðum) og það mun leiða til þess að við fáum öfluga leikmenn utan Bretlands til okkar í sumar. Þá leikmenn sem við þurfum til að taka næsta skref.

    Ef ég hefði verið þjálfarinn í hálfleik þá hefði verið erfitt að skamma leikmenn. Hvað viltu fá meira frá þínum mönnum? Ég hefði skammað Enrique fyrir að mæta ekki Sagna og Carragher fyrir að horfa of mikið á boltann í jöfnunarmarkinu, en ég hefði hrósað mörgum. Eftir leik hefði ég ekki sofið yfir færunum sem klikkuðu og púðrinu sem rann úr liðinu í lokin, handviss um að það verði ég að laga til að ná næsta skrefi klúbbsins.

    Svo, bjart til framtíðar en pirringur í nútíð. Síðasta tímabil fram í byrjun mars var í mínum hug og hjarta nærri því þunglyndi og þess vegna líður mér betur í dag sökum þess að mér finnst liðið í framför og leikmannahópurinn mörgum sinnum betri en á sama tíma í fyrra. Hann þarf að bæta, en í raun var á ferðinni stærri ruslahaugur að moka sig í gegnum en maður bjóst við.

    Það þarf ekki að standa í miklum sölum í sumar finnst mér, heldur bæta við þann hóp sem við eigum nú!

Opinn þráður: Chelsea reka Villas-Boas

Kop.is Podcast #16