Man Utd á morgun!

Eru menn reiðubúnir í næsta stórleik? Það er skammt stórra högga á milli þessa dagana, svokallað „gott“ vandamál sem fylgir því að ná velgengni á fleiri en einum vettvangi. Auk þess að berjast um Meistaradeildarsæti í Úrvalsdeildinni er liðið nú búið að öðlast réttinn til að leika á Wembley úrslitaleik Deildarbikarsins þetta árið, og á morgun ætlar liðið að reyna að komast enn lengra í hinni, Ensku Bikarkeppninni, og það á kostnað erkifjendanna í Manchester United.

Svo ber við í þetta skiptið að það má nánast segja að knattspyrnan sjálf hafi verið í aukahlutverki í aðdraganda þessa leiks. Í kjölfar Suarez/Evra-málsins hafa menn verið að hugsa um allt aðra hluti en að metast um knattspyrnugetu liðanna síðustu vikur og mánuði og mér finnst þessi vika ekki hafa verið nein undantekning. Það er nánast eins og leikurinn sjálfur skipti minna máli en það sem kemur fyrir utan níutíu mínútna fótboltann sem verður leikinn á laugardag.

– Mun Patrice Evra spila þennan leik á Anfield?
– Hvaða móttökur mun Evra fá meðal stuðningsmanna Liverpool?
– Munu leikmenn Liverpool taka í hönd Evra fyrir leik?
– Verður brotið harkalega á Evra í leiknum, mun þetta leysast upp í vitleysu og rifrildi í stað knattspyrnu?
– Verður einhver fyrir kynþáttaníði á Anfield, og ef svo er, verður Suarez kennt um það?
– Er þeldökkum börnum óhætt innan um Púllara? Vill ekki einhver hugsa um börnin?!?

Möguleikarnir á hneyksli eða suðupunktum eru mýmargir og það veit hver heilvita maður að enska pressan bíður með vel smurða putta á lyklaborðum eftir einhverju, bara EINHVERJU sem hægt er að nota í dálkauppfyllingar næstu vikurnar. Einhverju djúsí dæmi sem selur blöð, maður, eitthvað sem grípur athyglina. Þið getið bókað að hvað svo sem gerist á laugardag, innan vallar eða utan, þá verður dregin upp af því dekksta mögulega mynd og best væri að sjálfsögðu ef áhorfendur á Anfield gera snápunum nú greiða og baula svolítið hressilega á Evra, eða ef einhver kastar í hann krónu, eða einhver í Suarez-bol hróðar ókvæði að honum yfir innkasti.

Þá fyrst yrði nú gaman að vera blaðamaður hjá Mirror, Guardian, eða öllum hinum. Þá fengju þeir nú að hafa skoðun á þessu öllu saman og gætu sagt okkur í svona þúsundasta sinn hvað Liverpool er mikill skítaklúbbur.

Ég vona að menn hugsi áður en þeir framkvæma og geri snápunum enga greiða í hádeginu á laugardag. En nóg af þeim útúrdúr í bili.

Knattspyrnulega séð eru bæði lið í fínum gír. United eru sem fyrr í öðru sæti í Úrvalsdeildinni (og sinni eigin borg). Þeir hafa verið á sigurbraut undanfarið, þrátt fyrir mikil meiðsli en leikmenn eins og Rio Ferdinand, Anderson, Ashley Young og Darren Fletcher munu allir missa af þessum leik, og þá þykja þeir Nani og Phil Jones vera tæpir. Ég ætla hins vegar að tippa á að þeir tveir síðastnefndu verði báðir skyndilega leikfærir á laugardag og að þetta verði liðið sem við er að etja:

Lindegaard

Jones – Smalling – Evans – Evra

Valencia – Carrick – Giggs – Nani
Rooney
Welbeck

Þetta er þokkalega sterkt lið hjá þeim og svo eiga þeir Berbatov, Hernandez og Scholes á bekknum þannig að þótt þeir eigi í meiðslum þessa dagana er engan veginn hægt að líta framhjá þessum leik. Okkar menn verða að vera upp á sitt allra, allra besta til að klára þetta með sóma.

Af okkar mönnum er minna að frétta. Luis Suarez á eftir tvo leiki í banni sínu og Lucas er enn á hækjum, að öðru leyti er það bara Jay Spearing sem mun að öllum líkindum missa af þessum leik áður en hann verður leikfær á ný.

Ég ætla að spá því að Dalglish breyti sem minnstu eftir flottan leik gegn City á miðvikudag. Craig Bellamy hefur byrjað og spilað í 70+ mínútur gegn bæði Bolton og City síðustu daga þannig að ég spái því að Andy Carroll komi inn í liðið í hans stað og að Dalglish eigi hann ferskan á bekknum ef/þegar þörf krefur:

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Henderson – Gerrard – Adam

Kuyt – Carroll – Downing

Þetta er, eins og hjá United, feykisterkt lið og lið sem ætti að vera í góðum gír eftir að hafa tryggt sér farseðil á Wembley í vikunni. Ég hef mestar áhyggjur af Carroll og býst ekki við miklu frá honum í þessum leik, en einhver verður að rótera á móti Bellamy í fjarveru Suarez og það er enginn annar sem kemur til greina.

MÍN SPÁ: Ég hef enga sérstaka tilfinningu fyrir leiknum sjálfum, en ég er handviss um að eitthvað á eftir að gerast sem verður meira fréttaefni en leikurinn sjálfur. Spáin mín í dag verður því tvíþætt:

– Leikurinn endar 1-1 sem þýðir endurspil á Old Trafford eftir hálfan mánuð. Það þýðir að Luis Suarez þarf að heimsækja Evra & co. tvisvar á einni viku eftir að hann er kominn inn aftur, sem er nokkurn veginn það leiðinlegasta sem ég get ímyndað mér fyrir hann núna.
– Það verður baulað á Evra allan tímann og hvert einasta blað utan Merseyside-svæðisins mun skrifa pistla, leiðara, greinar og blogg þar sem því er lýst af mikilli kostgæfni hversu mikill skítaklúbbur Liverpool er og hvað það séu miklir rasistar sem halda með Liverpool.

Ég held að þetta sé mesta svartsýnisspá sem ég hef látið frá mér á mínum átta árum á þessari síðu. Vonandi hef ég ekkert vit á þessu.

Áfram Liverpool!

47 Comments

 1. Er ekki Evra í banni í þessum leik?  Var a.m.k. talað um spjaldið sem hann fékk gegn Arsenal sem hans fimmta?

 2. Hann fékk 5ta gula á leiktíðinni á mót Arsenal þannig hann ætti að vera í banni? Samt er búið að vera að tala um það alla vikuna að hann gæti spilað?? 

 3. Ég hef áhyggjur af varnarvinnunni á miðsvæðinu. Enginn þeirra þriggja sem koma sterklega til greina sem byrjunarmenn á miðsvæðinu er mjög varnarsinnaður, og Shelvey er heldur ekki líklegur í slíkt. VIð sáum þegar DeJong skoraði í seinasta leik hversu mikið við söknum Lucas og (þori ég að segja það?) Spearing. Einhver verður að tracka Rooney, og ef miðverðirnir elta hann opnast svæði í vörninni sem við megum ekki við, því enginn þeirra þriggja á miðjunni myndi þá vera líklegur til að detta aftur.Vona að KK plotti einhverja snilld til að minnka áhyggjur mínar af þessum leik!

 4. Hann fékk 5ta gula á leiktíðinni á mót Arsenal þannig hann ætti að vera í banni? Samt er búið að vera að tala um það alla vikuna að hann gæti
  spilað??

  Þetta var ef ég man rétt að um áramót breytist þetta með spjöldin og hann þurfi því fleiri gul til að komast í bann.

 5. Smá þráðrán:Sá að Liverpool er komið með vor- og sumarlínu: http://www.liverpoolfc.tv/news/latest-news/the-new-lfc-clothing-rangeÁkvað að kíkja á nokkra boli og peysur. Ef að eitthvað var varið í þá, var ALLT búið í Medium og Large. Og ég sem hélt að þessir Kanar ætluðu að rífa markaðsmálin upp :(Hugsið ykkur: Þetta er auglýst sem NÝ lína af vörum og nú þegar er fullt af þessu uppselt – og verður það væntanlega þangað til vetrarlínan kemur.Hvað er klúbburinn að missa af miklu í kassann með því að reka netverslunina svona skelfilega illa?

 6. Rétt hjá Babu hann verður ekki í banni, var breytt um áramótin og það þarf núna 10 gul til að fá bann..

  En úff leikurinn sjálfur, það er svo svakalega erfitt að átta sig á því hvernig hann þróast. En það er klárt að það verður enþá meira spenna og harka inn á vellinum útaf Suarez vs evra málinu, plús auðvitað að það er alltaf harka þegar þessi lið mætast.
  En ég ætla að spá 2-1 sigri eða 3-1 ef Bellamy byrjar inn á! (það verður einhver að vera bjartsýni gæjinn).

  En með það hvernig mótökur evra fær á Anfield, þá var ég að horfa á Redmen upphitunina og mér fannst þeirra hugmynd nokkuð góð. En í grófum dráttum þá bara að klappa og fagna þegar hann fær boltann.
  Hérna er linkur á þáttinn og þetta kemur á 3:30 sirka: http://www.youtube.com/watch?v=CNfq9H_Wj4w&feature=g-u-u&context=G21470f5FUAAAAAAAAAA

  YNWA

 7. Það væri gaman ef Liverpool aðdáendur á vellinum myndu þegja í hvert skipti sem Evra kæmi við boltann, í miðju stuðningsmannalagi til dæmis, og halda svo áfram um leið og hann er ekki með boltann lengur. Gæti sent áhugaverð skilaboð.

 8. Ætla að afsaka þráðarán fyrirfram!

  Nú er okkar heitt elskaða félag búið að vinna sér inn úrslitaleik á Wembley!!Af því tilefni langar manni rosalega að skella sér á völlinn.. hvar væri best að kaupa sér miða á leikinn? Ég er staddur í Bretlandi og þess vegna er ég ekki að spá í einhverri ferð með einhverri ferðaskrifstofu heldur einungis tvo miða á leikinn.

  Ef einhver veit hvar ég fæ miða á góðu verði má hann endilega segja mér frá því svo ég geti farið og stutt við bakið á Gerrard og félögum á Wembley í fyrsta skipti síðan 1996!

 9. Sælir félagar er ekkert lítið spentur fyrir þessum leik sem ég held að verði mjög jafn…en ég er en þá spentari fyrir Edison Cavani vonandi er þetta rétt að liverpool sé að skoða hann….

 10. Þar sem þessi leikur telst til stórleikja þá hafa sigurlíkur LFC aukist til muna, mig grunar að við vinnum leikinn, Gerrard úr víti á 56 mín.
  Í öllum viðureignum þessara liða í gegnum tíðina hafa nánast aldrei orðið einhverjir skandalar, held að leikmenn verði liðum sínum til sóma og eyði ekki sekúndubroti í að hugsa um Suarez/Evra fíaskóið.

  Hvað áhorfendur varðar er ég ekki eins viss.

 11. Það er eitthvað sem segir mér að Agger skori í þessum leik. Þannig ég spái 2-1 fyrir Liverpool. Agger og Kuyt (kominn tími á mark frá þeim kauða) og síðan skorar Rooney mark fyrir scum eftir sölu aldarinnar frá Johnson.

 12. eigum við ekki bara að segja að kuyt haldi áfram uppteknum hætti og setjann í fyrrihálfleik,,,,, og klárlega sigurleikur hjá okkar mönnum í uppsiglinguer ekki talað um að nani sé frá í 2 mánuði??? og rooney tæpur??

 13. Flottur póstur. Höfum það samt á hreinu að Jones verður í miðverðinum en  ekki hægri bakkverði(þar verður smalling)

 14. Ég veit ekki betur en að Jones hafi verið í bakverðinum í síðasta leik United-manna, þannig að varnarlínunni er allavega stillt upp eins og þá.

 15. Var drulluhræddur og neikvæður fyrir leikinn gegn Shitty. Það fór allt frekar vel…ekki satt? Ætla því að vera drulluhræddur og neikvæður áfram. Töpum þessu með skítapoti frá einhverjum haug eins og J. S. Park.

 16. Jones er meiddur og ég er nokkuð viss um að Nani og Rooney spili ekki heldur.

 17. Það skiptir engu máli hvort Evra verður í banni (sem hann verður ekki) eða hvort hann spilar, hann verður baulaður í kaf og á ekki eftir að ná sér á strik… Þetta er ósköp einfalt, við verðum að vinna þennan leik og ég held að við gerum það og sannið til Carroll verður með tvö kvikindi… hverjir skora önnur mörk er ekki gott að segja eng við vinnum þetta 4 – 1…. og ekkert me he með það …Áfram LIVERPOOL… YNWA…

 18. Mig langar að sjá þetta lið á morgun:KuytMaxi-Gerrard-Adam-DowningEnrique-Carragger-Skrtel-Agger-JohnsonReinaSpái tvö núll sigri Kuyt með bæði úr víti!

 19. Þetta verður legend. Scums verða sér til skammar inná vellinum og öruggur sigur okkar manna.

  Svona cirka eins og Barca / Real

 20. Vil taka hanskann upp fyrir okkar fólki(áhorfendum á Anfield).Er ekki allt í lagi að baula á evra?Er einhver búinn að sanna það að Suares hafi sagt annað en negretto við evra.Nóg um það,held að menn séu á hálum ís að setja menn í bann fyrir að segja eitthvað sem enginn annar heyrði.Auðvitað vona ég að þetta fari allt saman vel fram utan vallar sem innan.Eigum við ekki að segja 2-1 Gerrard með þrumufleyg úr aukaspyrnu og Agger með seinna markið með skalla úr hornspyrnu berbatov með eitt.Áfram LIVERPOOL!!

 21. Held að scum leggist í vörn og nái nánast að hanga á leiðinda jafntefli, en Gerrard/Bellamy redda okkur fyrir horn. Ég rétt vona að menn séu að brýna olnbogana núna, því það eiga allir að fá að finna fyrir því hvort sem þeir heita evra eða eitthvað annað. En við tökum upp á því að umgangast evra með silkihönskum í þessum leik þá spyr maður hvenær má byrja að taka á honum? Í næsta leik, þar næsta? Bara taka á honum strax eins og öðrum leikmönnum þessa leiðinda liðs.

 22. Mig grunar að Sir Alex ætli að spila upp á jafntefli og ætli svo að leggja okkur á sínum velli..
  Þetta mun ganga vel hjá honum þangað til….
  ….að Carroll #9 reddar okkur í gegn. Þar endaði sú markaþurrð
  ÁframLFC

 23. #22 – Þú spáir Gerrard í byrjunarliðinu og svo að Kuyt setji 2 úr vítum… er ekki ákveðin þversögn í þessu?

 24. Menn eru alltof bjartsýnir hérna… Liverpool tapar alltaf eða gerir jafntefli þegar menn segja að Carrol skori. Þannig að annaðhvort verður þetta steindautt jafntefli eða Gerrard skorar úr víti.Shit, þetta er of mikil bjartsýni!! Verðum að vera jafn svartsýnir og eftir Bolton leikinn, þá vinnum við. Hvað er samt málið með fokking það að þegar Liverpool tapar á móti skíta liði þá spila þeir leik lífs síns og vinna bestu lið í heimi.Held að eina ástæðan fyrir að Barcelona sé svona gott eins og þeir eru í dag að þeir eru aldrei að spila á móti Liverpool! Eina liðið sem er það gott á móti góðum liðum að þeir eru bestir á móti besta liði í heimi! Næst þegar Liverpool kemst í meistaradeildina eigum við eftir að þursa Barcelona út úr keppni sem gerist á þarnæsta tímabili! Gerrrard með 4 á móti Barcelona! Fokk manutd þeir eru bara með gamla kalla að spila og tapa bara á móti okkur! En ekki vera að segja að þeir vinni því þá tapa þeir ok?

 25. Gott að menn eru annað hvort fullir, eða að taka eiturlyf og búnir að gleyma Bolton stórliðinu sem burtaði okkur!Við erum aldrei að fara að vinna á morgun.  Skiptir ekki máli þótt að man. utd sé með 15 menn meidda, við vinnum bara ekki tvo leiki í röð.  Þótt að þetta væri Oldham, þá mundi ég frekar tippa á þá en okkur.  Liðið er ekki gott.  Það ru fáir sem geta brotið upp varnir og skorað, við eigum ekki neinn mann sem er match winner (suarez er það ekki, til þess skorar hann of lítið og leggur enn minna upp!) og ekki er downing að fara að vinna leiki fyrir okkur eða Kuyt!  Jafntefli.  Í bestafalli.

 26. Styttist í þennan magnaða leik. Ég sagði “welcome to hell” þegar liðin voru dregin saman og það verður eitthvað rafmagnað og eldfimt andrúmsloftið á Anfield á eftir. Tek undir með höfundi upphitunarinnar að það verður eitthvað annað en fótbolti sem menn munu hugsa um eftir þennan leik. Finnst reyndar óvanalegt að Ferguson hafi ekki verið að dæla út einhverju bulli í vikunni.1-0 eða 1-1 er líklegasta niðurstaðan, fljúgandi tæklingar og rauð spjöld.

  Ég myndi vilija að áhorfendur bauluðu stöðugt meðan allt United liðið er með boltann, ekki bara Evra, taka þá á taugum og djöflast stöðugt í þeim. Þeir tefla ekki fram sterku liði, varnarlínan og miðjan eru ekki sterk og með þriggja manna miðju ættum við að geta náð stjórn á leiknum en það þýðir samt ekki að við vinnum hann.

 27. Spái fyrsta tapinu okkar á Anfield á þessu tímabili, djöfull verður það súrt!

 28. Rauðnefur gerir allt sem hann getur til að spila Evrunni í dag. Hann hefur allt að græða og ekkert að tapa með að nota karlinn. Hann væri bara að gera okkur greiða með að hvíla hann. 

  Mér líst ekkert á þetta, það verða pottþétt einhverjir greindarskertir einstaklingar sem munu kalla að evrunni rasisk orð og/eða henda í hann banana eða eitthvað álíka fyndið en ógáfulegt.  

  VIð munum fá að kenna á því, verðurm stimplaðir rasistar og FA mun refsa okkur, aftur !Spái þessu annars 1–1  United skora í kringum 40 mín í fyrri, við jöfnum í seinni. 

 29. Það er ekki séns að united sé að fara taka þennan leik. Spái þessu 2-0 fyrir okkur og Downing með bæði!

 30. ég verð fúll ef Bellamy verður ekki í byrjunarliðinu, hann virkar alltaf best þannig, ekki ef hann kemur inn sem varamaður, að halda að hann sé eitthvað þreyttari en aðrir leikmenn er bara bull, hann er akkurat maðurinn sem á að byrja á móti þessum mu-mu mönnum

 31. Óskar, ég held að þetta snúist ekki um þreytu hjá Bellamy heldur álag á hnén á kallinum, þau eru víst eitthvað tæp enda hann á sérstöku æfingaprogrammi.En mikið væri nú samt gaman ef hann yrði í byrjunarliðinu í dag !

 32. Liðið komið:LFC: Reina, Kelly, Agger, Skrtel, Carra, Enrique, Maxi, Henderson, Gerrard, Downing, Carroll

 33. Frekar skrytid ad mæta med 5 manna vorn a heimavelli en In King Kenny We Trust. Vinnum thennan leik 2-1

 34. Með
  þessari uppstillingu,,mín spá, 1-1 og endurspil á Old Trafford og Suarez gerir
  út um þetta þar.

  Vonandi
  hef ég rangt fyrir mér og við klárum þetta í dag og getum fagnað alvega
  rosalega, áfram Liverpool.

Kop.is Podcast #13

Byrjunarliðið komið