Liverpool og Warrior Sports í eina sæng.

Þrátt fyrir að við höfum vitað af því um töluverðan tíma var það fyrst í gær sem að tilkynnt var formlega um að Warrior Sports myndi taka við búningamálum félagsins af Adidas frá og með næsta tímabili.

Samningurinn er til 6 ára og skilar Liverpool 25 milljón pundum á ári þann tíma.

Þetta er næst stærsti búningasamningur í heimi, einungis Barcelona fær meira frá íþróttavöruframleiðendum, Nike borgar 26.5 milljónir fyrir að klæða þá í föt.

Warrior Sports virðast ætla sér stóra hluti miðað við þessa yfirlýsingu. Þeir eru orðnir ráðandi í gríðarlega stórum markaði í lacrosse og hafnabolta í Ameríku og ætla sér að nýta þennan samning til að verða leiðandi afl á knattspyrnusviðinu. Vonandi að það takist!

Ég ber heilmiklar væntingar fyrir þessum samningi, verð að viðurkenna að ég hef ekki verið rífandi glaður með það sem Adidas hefur komið með fram á síðustu árum og það hefur verið augljóst að í stórum íþróttabúðum hafa Real Madrid, AC Milan og Chelsea verið að fá stærra og meira pláss en okkar búningar. Þó ekki á Íslandi. Það er líka klókt hjá aðilunum að koma strax fram með fréttir af þessum risasamningi í kjölfar skrýtinnar yfirlýsingar Adidas um samstarfslokin. Öllu bulli um lítið markaðsvirði því komið til föðurhúsanna!

43 Comments

  1. Góðar fréttir. Það er líka magnað að sjá baksíðu Daily Mirror í dag:

    Þeir sem halda að Mirror sé ekki í áróðursherferð gegn Liverpool eftir að hafa verið bannaðir frá Melwood geta núna viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Liverpool gerir næststærsta samning í heimi um búninga en Adidas-menn segja að þeir hafi ekki séð ástæðu til að borga svona hátt verð. Auðvitað er fyrirsögnin hjá Mirror því “WHAT A WASTE OF MONEY”.

    Frábærar fréttir fyrir Liverpool. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að Warrior-treyjurnar verði floooottar…

  2. Adidas, með því að hafa ekki verið tilbúnir að greiða Liverpool hærri upphæð, eru í raun að gera mjög stóra og slæma ákvörðun að mínu mati. Þrátt fyrir skort á Meistaradeildarleikjum og óhagstæðum úrslitum í deildinni þá er Liverpool samt ein stærsta söluvara Adidas á þessu sviði svo afsökun um að slakt gengi hafi áhrif á þetta samstarf er mjög heimskulegur og ótrúr hlutur að segja að hálfu Adidas.

    Íþróttarisinn Adidas, sem ég trúi ekki í hálfa mínútu, að hefði ekki efni á að borga Liverpool þær upphæðir sem þeir vildu fá úr samstarfinu voru ekki tilbúnir að taka “sénsinn” á Liverpool. Warrior, algjörlega nýtt nafn í þessum bransa, nýtir tækifærið, borgar góðan samning og kemur óvænt inn á markaðinn með eitt stærsta og dýrasta vörumerki heims í höndunum. Það er framagjarnt, metnaðarfult og sýnir að fyrirtækið er tilbúið að taka stórar áhættur til að ná langt – og er það ekki bara nákvæmlega það sem maður vill sjá frá Liverpool líka?

    Ég tek þessum samning fagnandi og sýnir þetta svart á hvítu hve frábært starf Ian Ayre og starfsliðs hans hefur verið síðastliðin ár í að fá stærri fjárfesta í liðið og auka flæðið á fjármagni í félagið til muna. Það er búið að “Guðmávitahvaðmikið-falda” samninga sem bara tengjast búningunum og upphæðirnar sem Standard Chartered og Warrior munu greiða Liverpool fyrir það gera upphæðir Adidas og Carlsberg að klinki. Frábært það!

    Hlakka til að sjá hvernig hönnun Warrior á Liverpool-treyjunum mun vera og þó ég sé oft hrifinn af Adidas fötum þá fannst mér orðið frekar þreytandi og leiðinlegt að Liverpool, Chelsea, Real Madrid ofl félög voru oft í svo gott sem sömu búningunum bara í mismunandi litum. Það er því að mínu mati flott að sjá Liverpool skera sig úr og vera eina liðið sem skartar búningum frá Warrior!

  3. Vá, ég held ég hafi nú aldrei séð jafn skondna baksíðu!Til að byrja með kemur stór og sláandi fyrirsögn um Liverpool. Þetta er svo hallærislegt hjá Adidas að þeir minna helst á mjög sára fyrrverandi kærustu sem ákveður að það hafi verið hennar ákvörðun að slíta sambandinu þegar það virðiast klárlega vera öfugt (og nei, er ekki að taka dæmisögu úr mínu lífi!)

    Svo kemur mynd af tveimur nöktum körlum með hatt á hattastandinum. Enough said.

    Þá er það rúsínan í pylsuendanum. *drumroll* “Owen dreaming of England”, ef þessi fyrirsögn er ekki meira sjokkerandi en þessi um Liverpool þá bara veit ég ekki hvað!

    Ritstjóri Mirror ætti að skammast sín fyrir þessa útgáfu, þetta er ekki einu sinni hæft fyrir skoptímarit

  4. Hlakka til að fá Warrior búning.Vona að þeir verði með v hálsmáli : )Já takk.

  5. Flottur linkur Kristján!!!

    Alveg morgunljóst að fólk verður að átta sig á hvaðan fréttir koma og þetta er auðvitað mjög skýrt dæmi um það hvernig fréttir menn vilja flytja og því miður eru til miðlar sem éta svona fréttaflutning upp og dreifa bullinu vítt og breitt.

    Það er auðvitað þannig að eigendur fjölmiðla ráða töluverðu um fréttaflutninginn, það er bara svoleiðis og ekkert væl í gangi þegar talað er um “suðurpressuna” af fólki utan London svæðisins.  En það er líka þannig í norðrinu, Liverpoolblöðin flytja öðruvísi fréttir af okkar liði, jákvæðari og úr meiri nálægð, og þess vegna hef ég það fyrir reglu að trúa ekki frétt 100% fyrr en linkur er komin um hana úr staðartengli.

    Daily Mirror eru auðvitað ekki einir, t.d. eru Daily Mail að keppa við skítasnepilinn S** um lesendur og velta upp neikvæðum fyrirsagnarfréttum, með eignarhald og höfuðstöðvar í London.  Guardian er blað frá Manchester, mér finnst maður greina það í fréttaflutningnum, þeir fá margar góðar fréttir um Liverpool en fréttaflutningur þeirra af Suarez málinu var einna harðastur gagnvart okkar félagi af öllum blöðum Bretlands, ég sá að margir hér t.d. vitnuðu í þá. 

    Ef við setjum okkar í þeirra stöðu.  Dyggustu leseendur blaðsins koma hvaðan?  Af Manchestersvæðinu.  Hvernig selurðu blöðin þar?  Með hlutlausum fréttaflutningi af því þegar fyrirliði stærsta íþróttaliðsins á því svæði er í baráttu við lykilleikmann helstu óvina félagsins úr borg sem hefur verið mesti óvinur Manchester í rúmlega 800 ár?Þess vegna er þessi linkur hjá Kristjáni frábær og sýnir okkur öllum að við verðum að lesa allt með gagnrýnum hug og passa okkur á því að ansi oft eru margar hliðar á málum og fjölmiðlar/blaðamenn velja sér oft þann málstað sem líklegast er að muni þjóna eigendum og dyggustu lesendum!

  6. Jó, strákar.Ef þið þekkið einhverja þarna úti í UK þá væri það vel þegið að þeir skrifuðu undir þetta:http://epetitions.direct.gov.uk/petitions/19149Það er verið að reyna að koma Hillsborough slysinu á dagskrá hjá breska þinginu, en til að það sé hægt þá þurfa 100.000 UK residents að skrifa undir þetta. Endilega látið ganga.kv. Þórir Hrafn

  7. Ef þessi búningur sem Kristján sýnir er eitthvað í líkingu við endanlega útgáfu þá er ég mjög sáttur.V hálsmál, nettur kragi og Liverbird í staðinn fyrir klossaða gamla merkið.Já takk 🙂

  8. Ef búningurinn verður svona er eins gott að við vinnum eitthvað á þessari leiktíð svo við eigum inni fyrir þessum gull-lit!

  9. Er ég sá eini sem þurfti að googla orðið lacrosse til að skylja hvað það væri?

  10. Gleðiefni að þetta sé orðið formlegt. Maður hefur verið spenntur fyrir því hvernig fyrsti LFC-búningurinn frá Warriors verði og ef hann er eitthvað í líkingu við þá mynd sem Kristján Atli skellti þarna inn þá er ég vel sáttur. Útlitið minnir mikið á búningana milli áranna 1983-85 þegar Liverbird og sportlógóið var gult en þó án hvítu randanna. Þá var einnig mjög fínn Evrópubúningur frá 2001-03 sem er næstum alveg eins og þessi.

    http://www.historicalkits.co.uk/Liverpool/Liverpool.htm 

    En mikið innilega er þessi umfjöllun hjá Mirror fáránleg. Í staðinn fyrir að upphefja LFC fyrir að hafa gert skruggugóðan risasamning þá er verið að velta sér upp úr biturðinni hjá nískupúkunum í Adidas til þess eins að níða af okkur takkaskóinn. Held að það þurfi ekkert meira að tala um samsæriskenningar um fréttaflutning Lundúna eða Manchester pressunni gegn LFC: það er staðreynd! Ætti að fara á FACT-blaðið hjá Rafa 🙂

  11. Gott mál, Gaman að fá breytingar, bæði í treyjum og svo áður styrktaraðilum.Tek undir með Óla Hauki að það er greinilegt að Adidas tók sénsinn á því að bjóða lágt og treysti því að enginn myndi toppa þá og þ.a.l. græða feitt. Eftirá að hyggja þá naga þeir sig í handabökin og sjá ekki aðra leið út úr klúðrinu en að láta þetta líta út sem þeir hafi hætt samstarfinu en ekki öfugt. Sem betur fer hefur þessu verið vísað til föðurhúsanna með sannfærandi hætti, og lítur Adidas enn verr út fyrir vikið.

  12. Þá er bara að negla naming right á nýja leikvanginn líka; Warrior Stadium!

  13. Góðum fréttum frá hinni fögru borg tökum við auðvitað fagnandi, eins og vera ber. Þetta er nýtt, þetta er öðruvísi, þetta er … eitthvað annað. Sem er gott, því eins og ég talaði um hér um daginn þá er ég alltaf hrifinn af því að menn taki sénsa. Og það hefur bæði Liverpool og Warrior Sport sannarlega gert hér, og vonandi verður þetta báðum til hagsbóta (mér gæti samt ekki verið meira á sama hvort Warrior Sport hagnist eitthvað á þessu, bara að Liverpool fái sitt!)

    Við skulum samt fara rólega í samsæriskenningar um Adidas og hversu illa ígrunduð þessi ákvörðun þeirra var, að halda ekki áfram með Liverpool. Ég efast ekki eina sekúndu um að þessi ákvörðun þeirra var einfaldlega sett upp í Excel, og menn komust að því að þetta væri of mikil áhætta. Það er alveg ástæða fyrir því að Adidas er eitt stærsta nafnið á íþróttavörumarkaðnum og skaffar mörgum stórliðum búninga. Það er ekki eins og þeir séu að gera þetta í fyrsta skipti, og að öllum líkindum ekki það síðasta heldur.

    Jújú, þeir segja að árangurinn hafi ekki verið nógu góður. Hér bölva menn því, í mismiklum mæli þó. En ef við tökum aðeins niður Liverpool-gleraugun, hafa þeir þá ekki eitthvað til síns máls, þó ekki nema væri bara rétt aðeins smá sannleikskorn?

    Bara af því menn eru hér farnir að tala um hversu leiðinlegt það að er sjá Liverpool í eins búningum og Chelsea, Real Madrid og fleiri stórlið, þá er nú ekki eins og Liverpool hafi verið að standa sig jafn vel og þau lið á undanförnum árum. Engin meistaradeild, engir titlar í alltof mörg ár, engin titilbarátta, endalaust vesen á liðinu utan vallar, yfirvofandi gjaldþrot … you get the picture 🙂 Þannig það er ekkert óeðlilegt að Adidas, út frá þessu sjónarmiði, hugsi með sér að það sé of mikil áhætta að gera næst-stærsta samning sinnar tegundar við lið sem er ekkert á þessum stalli og þessi stórlið.

    Homer
    tek samt fram að ég er stuðningsmaður Liverpool í á þriðja áratug 🙂

  14. Eitthvað við Fenway Sports Group Arena sem hljómar svo fáránlega vel 🙂

  15. @ Homer (nr.16) Sammála því að það þurfi ekkert að blammera Adidas fyrir þeirra ákvörðun enda hafa þeir búið til margan góðan búninginn fyrir okkur í næstum tvo áratugi samanlagt. Frá þeirra sjónarhóli þá vilja þeir ekki taka sénsinn á að LFC sé að fara að blómstra á næstu árum með því að verðlauna okkur með risasamning. Ég er þó viss um að Adidas voru til í að jafna tilboð Warrior ef það væri með klásúlum um velgengni, þ.e.a.s. skerðing upphæðarinnar sé háð velgengni (titlar og CL-sæti). Þannig ku þetta hafa verið gagnvart fyrri treyju-fyrirtækjum og styrktaraðilum og er jafnvel enn að einhverju leyti. 

    En frá sjónarhóli Warrior þá þurfa þeir líklega að kaupa sig inn og þar af leiðandi borga megnið af upphæðinni óháð velgengni. Taka í raun sénsinn á okkur og svo sem ákveðin traustsyfirlýsing sem er fólgin í því. Þeir sjá einnig fyrir sér að ef fyrsta treyjan er vel heppnuð þá muni hún rokseljast, mun meira en bara vel heppnuð Adidas-treyja. Nýjabrumið muni skila sér í kassann. Þá vonast þeir til að stækka LFC-kökuna í USA og nýta sér sterka stöðu LFC í Asíu til að koma Warrior-merkinu á framfæri. Til þess nota þeir tengslanet síns móðurfyrirtækis, New Balance, en þeir eru ansi stórir. Eitt er víst, við verðum í 1,2 og 3.sæti hjá þeim og það er mjög jákvætt. 

    Frá sjónarhóli LFC þá þýðir þetta tvöfalt hærri upphæð og líklega megnið af því óháð frammistöðu sem er gott öryggisnet. Þá sköpum við okkur sérstöðu en ekki bara eitt lið af mörgum hjá Adidas sem voru hættir að lyfta okkur upp á stall. Þetta gerir okkur sérlega samkeppnishæfa gagnvart FFP-reglunum og hver veit nema að Warrior hugsi sér stærri hluti eins og nafngift á nýja Anfield. Þess utan þá er tilbreytingin skemmtileg… ef treyjurnar verða flottar 🙂

  16. Liverpool var að enda við að staðfesta einn stærsta búningasamning sem enskt fótboltafélag hefur nokkurntíma gert, gefið að tölur um samning United séu réttar og að tölur frá City séu ekki nákvæmlega niðurnjörvaðar í þessum stjarnfræðilega samningi sem þeir lönduðu til að komast framhjá FFP reglunum.

    A.m.k. er þetta langstærsti samningur sem Liverpool hefur gert á þessu sviði og auðvitað með stærstu samningum sem enskt knattspyrnulið hefur gert. Hvað gerir Mirror sem nýlega fékk rauða spjaldið frá Anfield og Melwood í kjölfar meiðandi og rangrar umfjöllunar um Liverpool? Þeir einblína eingöngu á aðilann sem var að missa Liverpool úr viðskiptum og treysta á að lesendur blaðsins séu nógu heimskir að þeir kaupi rök Adidas um að vörumerkið hafi ekki gefið nóg af sér eða verið nægjanlega verðmætt.

    Samningurinn sem Warrior gerði við Liverpool lætur forráðamenn Adidas líta fjandi illa eins og ég les í þetta enda grunar mig að forráðamenn LFC hafi farið ansi nálægt því að landa þeim samningi sem þeir voru að reyna að landa.

    Annars útiloka ég ekkert að helmingurinn af sögunni sé uppspuni frá bresku pressunni og orð forráðamanna Adidas toguð og teygð hressilega. Annars er mér nokk sama hvernig búningum Liverpool spilar, það eru ekki geimvísindi að sauma þennan rauða einkenningsbúning félagsins. En það gæti verið spennandi að fá nýjan aðila sem er hungraður í að komast inn á markaðinn til að selja búninga felagsins, frekar heldur en gamlan þreyttan risa sem greinilega hefur ekki lengur það sem þarf í þetta samstarf.

  17. Homer.Jafnvel þó að Liverpool hafi ekki verið að hampa bikurum seinustu ár að neinu viti þá kæmi mér á óvart ef treyjusala væri e-ð gífurlega minni. Við sjáum það alveg með ferðum Liverpool á sumrin að fanbase-ið þeirra er gífurlega stórt! Gefur okkur að stærsti hluti þeirra eigi treyju, af hverju ætti þá Adidas ekki að vilja borga vel fyrir það þrátt fyrir að það vanti bikara í safnið?Nú hef ég vissulega engar fasta tölur til að rökstyðja þessa ályktun en þetta er menntuð ágiskun. Finnst þessi yfirlýsing hljóma sem mikill biturleiki yfir að hafa misst Liverpool til Warrior Sport sem er frekar óþekkt vörumerki hliðin á Adidas.  

  18. #21

    Alveg valid punktur – Liverpool er, hvort sem stuðningsmönnum annarra liða líkar það betur eða verr, stór félag á heimsmælikvarða. Ég myndi þó ekki treysta mér til þess að raða “stærstu” klúbbum heims niður eftir röð, en ég gæti alveg trúað því að það væri á topp 10.

    Gildir einu, en samt. Það er líka alveg annar snúningur í þessu hjá Adidas. Meiri velgengni = Vinsælla félag = Stærri stuðningsmannahópur = Meiri treyjusala. Það er ekki flókin hagfræði 🙂

    Á móti kemur að ef liðið er ekki að skila inn neinum sérstökum árangri þá er það heldur ekki að “sigra” nýja stuðningsmenn í neinum mæli, þannig lagað. Allavega ekki á sama hátt og ef liðið væri t.d. besta félagslið Evrópu og hefði titla til að sanna það.

    Ég held að þetta sé bara spurning um tölur á blaði/tölvu. 25 milljónir punda á ári er alveg ógeðslega mikill peningur. Og þessu fylgir ákveðin áhætta fyrir fyrirtæki. Gleymum því ekki að Adidas eða Warrior Sport er ekki að “gefa” Liverpool þennan pening, heldur tekur Adidas sinn skerf af öllum seldum treyjum, og vill eðlilega hagnast umtalsvert á því. Þannig út frá þeim punkti skil ég vel að Adidas vilji frekar sleppa þessari áhættu og einbeita sér að liðum sem eru stærri en Liverpool í dag (þ.e. að ná betri árangri).

    Annar merkilegur punktur sem ekki hefur verið minnst á hérna er að Adidas (og Nike og jafnvel Puma) eru stór merki á alþjóðalega vísu. Þannig að tækifæri þeirra til að stækka við sig er að ákveðnu leyti takmarkað. Hinsvegar er Warrior Sport aðeins þekkt í USA – ég efast um að nokkur hér hafi heyrt það nefnt áður! Tækifæri þess til að stækka við sig er gríðarlegt, og þess vegna þurfa menn að hafa kúlur til þess að taka þessa áhættu.

    Ég tek undir með Beardsley í #18 og held að Warrior Sport sé að hugsa um að fá bita af kökunni í USA (og að sjálfsögðu í Asíu). Enda hefur bandaríski markaðurinn þótt hálfgert eyland hvað knattspyrnu varðar, og fá lið virkilega náð fótfestu þar. Ég ímynda mér að þangað séu eigendur Liverpool að stefna fyrst og fremst, og Warrior ætli að taka þann slag með Liverpool.

    Sanniði til, Liverpool er svo mikið að fara í æfingaferð til USA næsta sumar! Ég er svo viss um það að ég myndi þora að veðja um það! 🙂

    Homer

  19. Nú er Warrior töluvert minna vörumerki en Adidas, er þá ekki rétt að áætla að treyjur frá þeim verði eitthvað ódýrari en frá Adidas?Ég held að Warrior gæti grætt mikið á því að hafa treyjurnar ódýrari en Adidas treyjurnar. Þeir hörðustu kaupa örugglega bara meira af treyjum ef þær eru ódýrari og þeir sem hafa fundist þær vera full dýrar fara að versla sér treyjur.Held að stuðningsmenn, klúbburinn og Warrior eigi allir eftir að  græða á þessum samningi. Ég er allavega spenntur að sjá útkomuna á fyrstu búningunum.

  20. Þetta er mjög flottur samningur. Tvöföldun á þessum tekjulið er gríðarlega jákvætt fyrir rekstur klúbbsins. 

    Einu langar mig þó að skjóta á suma. (Kannski þráðrán) Menn hérna hafa hamast við að halda því fram að það eigi ekki að skipta okkur stuðningsmenn nokkru máli hvað leikmenn kosta. Ég vil bara benda á það hér að ef plúsarnir skipta okkur máli, þá gera mínusarnir það líka. Fjárhagur félagsins skiptir okkur stuðningsmenn gríðarlegu máli því ekki viljum við að þetta verði rekið í þrot. Þess vegna er hæglega hægt að tala um það að Downing og Carroll hafi verið vonbrigði. Ef Chelsea var alltaf tilbúið til að borga 50 milljónir fyrir Torres, þá hefði sá peningur augljóslega verið betur geymdur í banka heldur en að eyða honum í meiddan Carroll. Það er bara staðreynd. 

  21. Æðislegar fréttir :)En smá off topic. Vitiði hvar er hægt að fjárfesta í Liverpool fánum hér á landi? Á netinu eða í verslunum, ódýra og stóra með Liverpool Logo-inu á auðvitað :)kv.Sindri

  22. Rosalega sáttur með þetta og hlakka til að sjá útkomuna á treyjunum, miða við þessar hugmyndir sem eru að leka út, þá á maður von á góðu.

    Ég ætla allavega að vera duglegur að styrkja þá og klúbbinn í leiðini, og kaupa allar þrjár treyjurnar sem þeir gefa út á næsta tímabili! Bara svona til að þakka þeim fyrir að taka sénsinn á okkur með þennan risasamning og til að nudda því í andlitið á Adidas 😉

  23. Beardsley #24

    Djöfull! Ég var ekki búinn að sjá þetta, en mikið andskoti hefði ég átt að veðja um þetta í gær, eða í fyrradag 🙂

    En hey, svona er maður alltaf rosalega klár … eftir á! 😉

    Homer

  24. Rakst á þessa grein hérna um “safe standing” á leikvöllum í bretlandi á nýjan leik. Er þetta ekki eitthvað sem væri ath vert þar sem hægt væri að bjóða uppá ódýrari miða á leikvellina. Í kringum 1990 var það bannað að standa á leikvöllumí UK en þetta var ákveðið eftir Hillsborrough. Þá kostaði 4 pund að standa í Kop stúkunni. Í dag eru ódýrustu miðarnir á 45 pund !  Venjulegur almúgamaður hefur ekki efni á að mæta á völlinn og styðja sitt félag í dag sem er auðvitað algjör synd. http://www.guardian.co.uk/football/2012/jan/19/villa-park-terraces

  25. Warrior og Liverpool FC koma til Íslands næsta sumar og vöruúrvalið verður það stærsta sem sést hefur á Liverpool vörum hér heima… Nokkrir harðir poolarar hafa stofnað fyrirtækið Merkjavörur ehf. og hafa tryggt sér einkaleyfi á Liverpool FC vörum fyrir Íslandsmarkað á komandi árum.Kíkið á okkur á facebook… http://www.facebook.com/pages/Merkjav%C3%B6rur-ehf/205095789566093?sk=wall (Merkjavörur ehf.)Og Liverpool FC linkurinn á heimasíðunni okkar er… http://www.merkjavorur.is/liverpool-fc-2/ Gaman að sjá umræðuna og hvaða hugmyndir menn hafa um búninginn… værum til í að leggja meira inn í umræðuna en xxx :-)Kv. Liverpool félagarnir í Merkjavörum.

  26. Djöfull sáttur með þennan díl og greinilegt að Þessir Kanar ætli sér að gera klúbbinn fáránlega fjársterkann til framtíðar.    Vonandi verða einhverjir flottir bitar til sölu í sumar til að geta eitt eitthvað af þessum peningum.

    http://www.skysports.com/radio Fínt viðtal við Carlie Adam

    Mæli svo með því að menn lesi þessa grein http://www.empireofthekop.com/anfield/2012/01/19/through-the-fog-what-makes-liverpool-fc-unique/og þjappi sér saman og standi við bakið á liðinu.  Hættum að pexa og drulla yfir leikmenn sem eru örugglega að gera sitt besta.

  27. Hérna er fín grein á Guardian um afhverju nýji díllinn er margfalt betri en Adidas díllinn: http://www.guardian.co.uk/football/2012/jan/19/liverpool-kit-deal-warrior-sports1
    Ekki nóg með að árlegar beinar greiðslur tvöfaldist, heldur hefur klúbburinn fulla stjórn á sölu á öðrum varningi en búningum sem er önnur eins upphæð. Þetta eru s.s. um 50 milljónir punda á ári sem klúbburinn er að fara að hafa úr sölu á varningi. Þetta er svakalegur peningur.

    Það lítur eiginlega bara kjánalega út fyrir Adidas að reyna að láta eins og klúbburinn sé að missa af einhverjum samningi frá þeim. 

  28. Hvað eru menn að drulla yfir Adidas? Fyrir þá er þetta bara einfalt reikningsdæmi sem gekk ekki upp. Ein ástæða þess að Warrior er tilbúið að borga svona mikið er að það er miklu meira “upside” fyrir þá en Arsenal. Einfalt dæmi: Ekki einn maður á kop.is hafði heyrt um Warrior, núna gleymum við því aldrei. Þessi díll býður þannig upp á ansi mikla möguleika og útbreiðslu þeirra vörumerkis. 

  29. #12 já það held ég 😉 þetta er nú frekar stórt sport í ameríkuni.

  30. http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2089177/Liverpools-new-kit-deal-money-compete-Europes-clubs.html?Mikið ljómandi er ég hrikalega ánægður með auglýsinga og markaðsdeild Liverpool og Ian Ayre. :)Fyrir 5árum var Rick Parry að sjá aleinn um þetta með puttann í rassgatinu, tefjandi allt, klúðrandi dílum vinstri hægri og við peningalega ljósárum á eftir ýmsum toppliðum í innkomu þrátt fyrir langtum stærri fanbase. Nú eru hlutirnir gerðir The Liverpool Way og við með stjórn á öllu söluferlinu, eigin örlögum og getum jafnvel farið að placera Liverpool búðum í öllum heimsálfum. Við erum stignir úr í moldarkofunum og inní framtíðina. Stórt merki um að núverandi eigendur viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera og klúbburinn greinilega á réttri leið, farnir að vera öfundsvert afl í Evrópu á ný. Til hamingju Púlarar!

  31. 26# Ég keypti mér Liverpool fána í Jóa útherja á einhverjar 2-3 þús krónur minnir mig, allavegana eini staðurinn sem ég veit um eins og er. 

  32. Frábærar fréttir, það var kominn tími á Adidas og Warrior er bara cool.Ef þið viljið kvitta undir e-petition for Kevin Williams þá notiði bara þetta address: 28 tancred road, anfield, liverpool. Postcode l4 0rt. (búum við ekki öll á Anfield í huganum!?)Muna bara að staðfesta mailið svo undirskriftin telji.YNWA

  33. Þessi samningur gefur ágætis hugmynd um hvernig viðskiptalíkan fótboltafélags virkar í dag. Fótboltinn er vinsælasta íþróttagrein heimsins. Þekkt og vinsælt fótboltafélag á heimsvísu togar til sín ótrúlega mikil afleidd viðskipti. Mig minnir að LFC velti 2010 um 4-500m punda. Reikna má með að afleidd viðskipti séu margföld þessi upphæð sem er ástæða þess að FSG vill tryggja sér eins stóran hluta af sölu- og aðfangakeðjunni og mögulegt er.

    Án þess að vilja eyðileggja daginn fyrir neinum er samt áhugavert að skoða Suarez málið í þessu ljósi. Það er ósköp einfaldlega til framdráttar öðrum félögum, sem eru að keppa á sama markaði, að gernýta tækifærið og freista þess að rýra verðmæti vörumerkisins LFC. Strákur sem trúir rasistastimplinum sem Ferguson var að reyna að klína á LFC mun hugsanlega frekar velja aðra treyju til að óska sér í afmælisgjöf o.s.frv.

    Ég hef heimikla trú á þessum eigendum. Þeir virðast útsjónarsamir og vinna eftir góðri viðskiptaáætlun. Og nota bene; góðar viðskiptaáætlanir innihalda sjaldnast skyndiárangur heldur sígandi lukku. Bítlarnir voru t.d. búnir að æfa sig og spila á búllum í Hamborg í 10.000 klst áður en þeir slógu í gegn, Bill Gates hafði setið við og forritað í 10.000 klst áður en Microsoft varð til o.s.frv.

    Þetta er allt á réttri leið Púllarar góðir þótt stundum blási á móti.

  34. Þvílíkur munur á allri umfjöllun um liðið núna og þeirri fyrir ári síðan þegar að liðið var ein brunarúst og eigendur liðsins fyrir dómstólum og hvort liðið væri á leiðinni í gjaldþrot.
    Við erum komnir með eigendur sem virðast kunna að markaðssetja félagið og skila miklum peningum í kassan sem gerir það að verkum að við verðum samkeppnishæfari í leikmannakaupum.
    Nýr leikvangur væntanlegur og nýjr styrktaraðilar sem skila gríðarlegum fjárhæðum til félagsins.
    Góðir tímar framundan en við þurfum samt að vera þolinmóðir enda tekur slíkt tíma í uppbyggingu.

  35. Ég vona bara mjög innilega að þetta verði ekki einhver polo type búningur með kraga. V hálsmál væri vel þegið.Annars frábært að sjá að það eru komnir menn til liverpool sem virkilega sjá hvað þetta er gott merki og vita hvers virði það er og selja það þannig. Klúbburinn bara á uppleið og úrslitin munu fylgja.

  36. Já plís koma aftur með gamla góða fuglinn, 90’s logoið okkar orðið þreytt. Nýjir búningar eru líka eitthvað sem ég er að fíla, þoldi ekki hvað okkar búningar voru bara eins og chelsea búningarnir, bara annar litur eins og sást í öllum þessum Torres fór til chelsea myndböndum. En ætla að splæsa í nýja jafnvel þótt hann sé fáránlega ljótur, rándýrt að eiga fyrsta Liverpool warrior búninginn árið 2057

  37. #26 Fánasmiðjan á Ísafirði selur stóra og flotta Liverpool fána

    -Bjarni

  38. #41 – Drekinn .. Hver ert þú og af hverju ertu að þykjast vera bróðir minn sem er harður United stuðningsmaður? Þ.e.a.s. notar nafn sem hann notar oft á netinu og með mynd af honum í avatar?

Liverpool kaupa portúgalskan táning

Bolton á morgun