Blackburn á morgun

Á morgun, annan dag jóla, taka okkar menn á móti Blackburn Rovers á Anfield í 18. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Þar hittir Kenny Dalglish fyrir lið sem þekkir hann af mjög góðu, en eins og menn muna gerði hann Blackburn að meisturum vorið 1995 og er það enn í dag besta tímabil í sögu Blackburn.

Það er eitthvað aðeins annað uppi á teningnum núna hjá þeim bláhvítu. Á tíma Dalglish var félagið í eigu Jack Walker, auðkýfings sem styrkti liðið vel með fjármunum til leikmannakaupa sem skilaði sér í velgengni. Eftir að Dalglish vann titilinn var gerð röð mistaka – Dalglish hætti og gerðist eins konar Damien Comolli þeirra, Ray Harford fékk að stýra liðinu með slæmum árangri, Roy Hodgson tók við með enn verri árangri og Brian Kidd kláraði að skila þeim niður úr Úrvalsdeildinni – sem olli því að þessir fyrrverandi meistarar duttu langt út fyrir myndaramma toppliða á Englandi. Á endanum skilaði Graeme Souness þeim aftur upp í Úrvalsdeild árið 2000 og þar hafa þeir verið síðan, án þess þó að ná nokkurn tímann hærra en í 6. sæti 2003.

Eftir stöðugleika í Úrvalsdeildinni í áratug gerðist það svo í nóvember í fyrra að Venkys-grúppan frá Indlandi eignaðist Blackburn úr hendi ýmissa fjárfesta fyrir 23 milljónir punda. Réttum mánuði síðar létu þeir það verða sitt fyrsta verk að reka þjálfarann sem hafði séð um að viðhalda stöðugleika þeirra sl. tvö ár þar áður – Sam nokkurn Allardyce – og ráða aðstoðarþjálfara hans, Steve Kean, í staðinn.

Ég hef átt það til að fara ófögrum orðum um Big Sam á þessari síðu enda er hann frægur fyrir að láta lið sín leika einhverja leiðinlegustu knattspyrnu sem sést á enskum völlum. En hann nær árangri og virðist vera fullkominn stjóri fyrir minni lið sem þurfa á stöðugleika í Úrvalsdeildinni að halda. Vesenið á Bolton Wanderers síðan hann yfirgaf þá ber þess merki og þessa dagana er hann önnum kafinn við að skila West Ham aftur upp í Úrvalsdeildina. En í fyrra þótti Indverjum hann ekki nógu góður fyrir Blackburn og þeir ráku hann.

Það kippti sér svo sem enginn upp við það að Allardyce væri látinn hætta. Þann 13. desember, þegar hann fékk reisupassann, sat liðið í 13. sæti Úrvalsdeildarinnar með 21 stig úr 17 umferðum, eða 1,24 stig að meðaltali í leik, og það hafði hann áorkað með því að leika áðurnefnda leiðindaknattspyrnu þá sem hefur verið hans aðalsmerki.

Það sem þótti skrýtnara var að arftakinn gerði allt annað en að bæta ástandið. Hinn óreyndi Steve Kean fékk þar sitt fyrsta framkvæmdarstjórastarf og stóð sig u.þ.b. helmingi verr en Allardyce á seinni hluta síðustu leiktíðar. Liðið sótti 22 stig úr síðustu 21 umferðum deildarinnar á síðustu leiktíð, eða 1,05 stig að meðaltali í leik, og þóttust menn þá nokkuð vissir um að Steve Kean myndi víkja fyrir alvöru þjálfara strax í sumar.

Það gerðist þó aldrei, og þótt ótrúlegt megi virðast hefur Kean lifað af að standa sig enn verr með liðið á þessari leiktíð en þeirri síðustu, og meira að segja fengið launahækkun í nóvember, með liðið í fallsæti. Ekki einu sinni dómur vegna ölvunaraksturs virðist nægja til að bola þessum manni úr starfi og því er eðlilegt að menn spyrji sig hvaða ótrúlegu leyndarmál um Venkys-gengið Kean geymir í skúffunni hjá sér.

Í dag eru Blackburn í neðsta sæti deildarinnar með heil 10 stig eftir 17 leiki, eða 0,59 stig að meðaltali í leik. Þrátt fyrir misgáfaðar tilraunir eigendanna hefur þeim ekki tekist að sannfæra Ronaldinho, David Beckham eða Raul Gonzalez til að koma til liðsins og þeir eru því með það lið sem hefur fengið á sig næstflest mörk allra liða í deildinni (38) og aðeins annað af tveimur liðum (ásamt Swansea) sem hafa ekki enn unnið leik á útivelli. Reglulega eru haldin mótmæli stuðningsmanna gegn Kean og Venkys-grúppunni og mórallinn í kringum klúbbinn virðist nokkurn veginn vera sá lélegasti sem maður hefur séð hjá nokkru Úrvalsdeildarliði í fleiri ár.

Á pappír, sem sagt, auðveld bráð.


Nema hvað, að til að sigra leiki þurfa menn að skora mörk, og komum við þá að hinu liðinu í þessum leik – okkar mönnum í Liverpool.

Eftir 17 leiki hafa Blackburn skorað 24 mörk. Liverpool hefur skorað 20. Þrátt fyrir að vera með u.þ.b. þrefalt betri vörn en þeir og bestu vörnina í deildinni hafa þeir skorað fleiri mörk á útivelli (12) heldur en okkar menn á Anfield (10).

Fyrir mér er hægt að setja þennan leik upp á mjög skýran hátt: ef Liverpool getur ekki skorað mörk gegn Blackburn Rovers á heimavelli er Dalglish óhætt að byrja að leggja inn tilboð í aðra framherja nú þegar, fyrir áramót.

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Steven Gerrard er að æfa á fullu en ekki er víst hvort hann verði með. Jay Spearing snýr aftur úr leikbanni á meðan Lucas Leiva, Fabio Aurelio og Jack Robinson eru frá vegna meiðsla.

Ég ætla að gera ráð fyrir að Gerrard, verði hann klár, muni ekki byrja þennan leik. Ég sé ekki að það sé þörf á að setja Spearing inn í þennan leik og vænti þess að Dalglish muni stilla upp sókndjörfu liði og reyna að kafsigla lélega vörn gestanna frá byrjun.

Ég tippa á fáar breytingar og þetta byrjunarlið hér:

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Henderson – Adam – Maxi

Downing – Suarez – Bellamy

Þetta er sama lið og hóf leikinn gegn Aston Villa um síðustu helgi, nema að Maxi er inni fyrir Jonjo Shelvey. Þetta er nokkurn veginn sókndjarfasta lið sem við eigum völ á í dag og þá væri hægt að henda Gerrard eða Shelvey inn fyrir Maxi ef illa gengur þegar líður á leik.

Að auki, eins og ég sagði fyrr, getum við litið á þetta sem lokapróf fyrir þessa liðsuppstillingu. Ef við getum ekki skorað mörk í fleirtölu í þessum leik, með þessari liðsuppstillingu, og með menn eins og Gerrard, Kuyt, Carroll og Shelvey á bekknum, þá lýsi ég mig fyllilega sannfærðan um það að við þurfum að kaupa a.m.k. einn sóknarmann í janúar. Hvort sem það er ákjósanlegt eða ekki getum við ekki horft upp á góða spilamennsku og sterka vörn verða að engu af því að sóknarlínan okkar eins og hún leggur sig skýtur púðurskotum þessi misserin.


Mín spá: Hjartað segir mér að Anfield deili út jólagjöfum í þetta sinn og að þessi sóknarlína okkar bara hljóti að vera jafn mikið sterkari en Blackburn á velli og hún virkar á pappír. Hjartað segir mér að við vinnum þennan leik 5-0 og opnum flóðgáttirnar fyrir næstu leiki þar á eftir.

Höfuðið segir mér hins vegar að nái Blackburn að halda hreinu fram yfir fyrstu 10-15 mínútur leiksins muni gamla, góða stressið leggjast lágt yfir Anfield og okkar menn fara á taugum. Höfuðið segir mér að þetta verði 1-0 sigur eða jafnvel 0-0 jafntefli.

Hvort á ég að láta hjartað eða höfuðið ráða för? Segið þið mér.

Áfram Liverpool!

49 Comments

  1. “Hvort á ég að láta hjartað eða höfuðið ráða för?”

    Þriðji kosturinn er svo tölfræðin, hvað segir hún? 

  2. Ég er alvarlega að spá í að leggja mikla peninga undir það að Liverpool tapi eða geri jafntefli. Ef það verður niðurstaðan græði ég. Ef Liverpool vinnur, þá … tja… þá vinnur Liverpool!

  3. Ég geri lágmarkskröfu um að við rústum þessu liðið á Anfield, allt undir 3 mörkum þýðir að það er mjög mikið að en allt yfir 4 mörkum róar mann aðeins, allavega fram að næsta leik.
    Eigum að geta sótt á 6 til 8 mönnum í hverri einustu sókn og skilið markmann og miðverði eftir á okkar helming.

  4. Þessi leikur verður bara að vinnast og það stórt. Mig vantar líka tilefni til að vígja Liverpool skotglösin sem konan gaf mér í jólagjöf. 
    Látum hjartað ráða för og segjum 5-0!!!

    YNWA 

  5. Ég væri til í að carroll byrji þennan leik en efast um það þar sem hann hefur verið alveg glataður á móti turnum og samba er nú einn svoleiðis, en maðurinn verður bara að fara fá spilatíma og fyrir mér má skipta út öllum fremstu mönnum eftir síðasta leik þar sem þeir voru hrikalega lélegir.

    Lýst svosem ágætlega á þetta lið sem KAR stillir upp en ég væri til í Carroll inn fyrir Downing sem átti held ég bara sinn slakasta leik fyrir liðið í síðustu umferð og setja Suarez neðar á völlinn..

    Ég hugsa samt að ég verði nálægt því að slökkva á sjónvarpinu ef maxi og kuyt byrja báðir!!

    Er kominn í jólaskap og spái okkar mönnum solid 2-1 sigri þar sem við skorum 2 snemma og höldum að leikurinn sé búínn þangað til samba skorar á 85 eftir horn og við liggjum í nauðvörn restina af leiknum……. og já náum svo allavegana 1-2 stangarskotum hehhe 

  6. Ég seldi Suarez úr fantasy liðinu mínu fyrir þessa umferð ! Hann á þess vegna eftir að setja þrennu á morgun……

    Tók þessa fórnun með hagsmuni LFC framar mínum…. 

    • maður er nú búinn að sjá ansi mörg svona comment en samt byrjar hann aldrey að skora eitthvað af viti 

  7. 3-1 eða 4-2, ég held að blackburn skori í þessum leik enda hefur það ekki verið aðal vandamál þeirra í vetur, heldur að verjast. 

    Setjum bara 4-2, Suarez, Skrtel, Downing, Henderson með mörkin  

  8. 3 stig er það sem skiptir máli.
    Ef við vinnum 1-0 með sjálfsmarki frá Blackburn þá er ég sáttur. 

  9. Flóðgáttir takk….  we just need it baaad!  Svo það er bara ekki annað á matseðlinum en eitt stykki burst með vænum desert af auðmýkingu.

    YNWA 

  10. Svo maður skemmi ekki jólagleðina er best að sleppa því að horfa á þennan leik. En ég sem Púllari get ekki sleppt því og vonast eftir góðri jólagjög frá mínum mönnum.
     
    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!

  11. Vona að þessi leikur standi undir væntingum. Kominn tími á að sigra þessi “slakari lið”. Ef að Blackburn liðið í heild sinni  eða markmaður þess ágæta liðs á stórleik tel ég það merki um að LFC séu ekki nógu góðir, a.m.k. hvað markaskorun varðar. Er orðin þreyttur á að fela mig á bak við afsakanir eins og að markmaður hins liðsins hafi átti “stórleik”.

    Sem sannur púlari neita ég þó að gefast upp og ætla að hafa trú á mínum mönnum á morgun. 3-0 takk fyrir. 

  12. ég lenti í því í fyrrinótt að mig DREYMDI að liverpool myndi vinna þennan leik og suarez skorar mark mjög nálægt vinsti stönginni með skrýtnu skoti…….. ætli maður geti ekki flokkað þetta undir anda jólanna 😉 vona það allavega!!
    eigum við ekki að segja 3-0

  13. Held að menn ættu að hætta þessum spám um mikla markaskorun okkar manna.  Maður er alltaf að bíða eftir því að þetta gerist en það er klárlega einhver stífla þarna sem bara hreinlega virðist ekki ætla að bresta.
    Þetta verður helvítis ströggl leikur, það er hefð fyrir þessu á Anfield að spila illa þegar minni spámenn mæta.  Svartsýnisraus í mér en svona er þetta stundum 🙂

  14. Ég vil sjá miðjuna skipaða Adam, Henderson og Shelvey. Sóknina Maxi, Suarez og Kuyt. Sjá hvort Downing (og liðið) hafi ekki gott af smá hvíld.

  15. Hafa þessir skítaleikir gegn litlum liðum ekki flestir komið gegn liðum sem kunna amk. að spila einhvern fótbolta (Swansea, Stoke, Norwich, Fulham) og liðin sem eru alveg í ruglinu hafa flest verið sigruð (Bolton,Wolves, QPR). Undantekning væri reyndar hræðilegi Wigan leikurinn um daginn, en við sjáum hvað setur. Ég hef amk. ágætistilfinningu fyrir þessum leik.

  16. Ágætis byrjunarlið, væri til í að sjá kuyt inn fyrir maxi samt. Suarez í holuna og kuyt fremstan, hef allavegana trú á því að það sé hægt að spila kuyt í gang sem topp markaskorara. Búinn að fá að ryðga þarna á kanntinum alltof lengi.

  17. Höldum hreinu, vinnum skiptir ekki máli hve stórt það sem skiptir máli er að ná í þrjú stig, ef mörkin verða fleirri en tvö er það bara bónus…

    Áfram LIVERPOOL… YNWA…

  18. Höldum hreinu, vinnum skiptir ekki máli hve stórt það sem skiptir máli er að ná í þrjú stig, ef mörkin verða fleirri en tvö er það bara bónus fyrir okkur…

    Áfram LIVERPOOL… YNWA….

  19. Mín spá á morgun við eigum eftir að hitta tréverkið nokkru sinnum á mrg 🙂 

    ég spái 4-0 fyrir okkur 😉 Suárez heitin okkar með 2, Carroll með eitt og síðan kemur kóngurinn inná og setur eitt! (Gerrard!) ef að Gerrard kemur ekki inná þá setur hann Maxi eitt!1

    Y.N.W.A <3

  20. Held að Carrol sé að fara að byrja á morgun.  Held það verði bara að fara að láta manninn spila, það er endalaust hægt að rífast um að hann sé flopp eða ekki.  Þessir menn sem hafa verið að spila þarna frammi (fyrir utan Suarez) hafa nú svo sem ekkert verið að gera það sem við byðjum um.
    Carrol með þrennu á morgun.

    Þegar stíflan brestur þá brestur hún.

    7-0
    málið dautt. 

  21. Gleðileg jól allir saman, vonandi hafið þið haft það gott yfir hátíðirnar.

    Eftir skítajafntefli gegn Wigan þá hefur maður beðið óþreyjufullur eftir þessum leik, ef það er einhver leikur sem ætti að vera góður til að láta gremjuna eftir þann lik bitna á þá er það þessi. Let’s face it þetta Blackburn lið getur ekki mikið, með fullri virðingu fyrir þeim. Ef Liverpool getur ekki unnið leiki sem þessa á Anfield þá er nú erfitt að ætlast til þess að liðið geti stefnt að einhverjum alvöru hlutum.

    1-0 sigur er vel þeginn, miðað við þessar jafnteflishrynur á heimavelli þá tekur maður 1-0 sigrum fagnandi. Eins ljótt og það er að segja það. Það hlýtur að koma að því að Liverpool vinni stórt og þar sem það eru nú einu sinni jól þá er þetta tilvalinn tími til að fá góðan stórsigur á Anfield!

    Seinni hluti tímabilsins hefur yfirleitt verið sterkasti tími Liverpool á hverri leiktíð síðustu ár, treystum því bara á að sá tími hefjist þegar liðin ganga út á völlinn seinna í dag.

  22. Ég spái að Liverpool tapi 0-1 eftir að hafa haft yfirburði allan leikinn en Blackburn fá skyndisókn og setja hann seinni part leiks bara því miður. Liverpool virðist ekki geta unnið þessa skildu sigra.

  23. Djö….er ég sammála ” 11″ hef svo sterkt á tilfinninguni að Blackburn spili leik aldarinnar í dag. Flott upphitun, ég held að höfuðið hafi samt rétt fyrir sér og við vinnum í dag.

    YNWA!

  24. Mitt mat er að Dalglish eigi að láta Carrol byrja þennan leik.  Láta strákinn fá leik í byrjunarliðinu og með Anfield til að styðja við bakið á kauða.  Hann skorar eitt í þessum leik og sjálfstraustið hans eflist til muna.  Þessi strákur verður að fara finna markanefið sitt aftur og dagurinn í dag er jafn góður og hver annar.
    Mín spá er 3-0 eða 3-1 fyrir Liverpool.
     
    Gleðileg Jól öll sömul

  25. Eru menn farnir að missa trúna á okkar elsku Liverpool liði að spá þeim jafnvel tapi?????? Þetta er að bresta á með mörkin og þetta er að koma. Við erum nánast með nýtt lið frá því í fyrra og þeir eru að spila sig saman og ekkert tapkjaftæði hér, staðan gæti verið verri og koma svo LIVERPOOL.

  26. spái því að Liverpool verður miklu betra lið í dag en Blackburn verða með varavaramarkvörðinn sinn sem slær í gegn, bara svona eins og venjulega

  27. Ef að Carroll skorar tvö mörk eða fleiri spái ég því að fyrirsagnirnar í bresku blöðunum á morgun verði eitthvað á þessa leið: “A CHRISTMAS CARROLL!”

  28. verðum að vinna þennan leik ég spái því að liverpool vinni stór sigur eins og 4-0 eða 5-0 suarez með 3 og carroll kemur inn á og skorar 2 mörk

  29. Starting XI : Reina, Johnson, Agger, Skrtel, Enrique, Maxi, Henderson, Adam, Downing, Carroll, Suarez
    Subs: Gerrard, Kuyt, Carra, Doni, Shelvey, Kelly, Bellamy

  30. Viti menn… ekki tókst okkur að skora nema eitt helv. mark á móti blackburn á Anfield

Gleðileg jól

Byrjunarliðið gegn Blackburn