Hillsborough Justice Campaign

Walton Breck Road er ein af uppáhaldsgötunum mínum.

Þar er að finna mögnuðustu áhorfendastúku heims, mesta fótboltastemmingarpöbb sem ég hef komið inní og heitir The Park, rétt ofar er svo annar sem ég heimsæki oft eftir leiki á Anfield, sá heitir Albert og þar er alveg hryllilega skemmtilegt að spjalla við “lókalinn” í Liverpoolborg.

Þar var ég um helgina og heimsótti alla þessa þrjá staði. Í fyrsta sinn á The Kop, á fremstu röð og var mjög nálægt því að hlaupa inná völlinn þegar Suarez skoraði. Án gríns, mjög nálægt.

En á Walton Breck Road númer 178 er lítið hús sem er fullt af sál og þangað kíkti ég inn í fyrsta skiptið af einhverju viti. Þar er skrifstofa / búð hóps sem kallar sig Hillsborough Justice Campaign, eða á íslensku “Réttlætisbarátta Hillsborough”.

Ég treysti því að enginn hér þurfi nokkuð að láta rifja upp fyrir sér atburðina á Hillsborough 15.apríl 1989 en sá atburður hefur markað félagið okkar allra mest af öllu í 120 ára sögu þess. Án nokkurs vafa. Þangað inn fór ég til að hitta hann Kenny sem stjórnar baráttu fjölskyldna þeirra 96 sem dóu þennan örlagaríka dag. Baráttu um það að allar upplýsingar um slysið, s.s. dánarorsakir og staðfestir andlátstímar hvers og eins auk upplýsinga um kolröng og ámælisverð vinnubrögð lögreglunnar.

Sú barátta er nú háð í Westminster á þingpöllunum þar sem opna á skýrslur lögreglunnar um málið. Kenny er sannfærður um það að ekki verði allar skjalamöppurnar opnaðar í þetta skiptið, en hann berst fyrir því heldur betur. Annað baráttumálið er að reist verði minnismerki um atburðinn og söguna síðan þá á næstunni, búið er að hanna það og er til sýnis á WBR 178 en ennþá er verið að velja því stað.

Þessi barátta er í fullum gangi, birtist t.d. á sérstakan hátt þegar nær öll Kop-stúkan klappaði þegar Joey Barton nokkur kom og tók horn framan við hana, þá var verið að þakka honum ummæli hans um “justice for the 96”. En í vikunni sem leið lét mannvitsbrekkan sem stjórnaði viðbjóðsblaðinu The Sun, McKensie nokkur falla orð sem hægt var að túlka á þann hátt að hegðun aðdáenda Liverpool þennan dag hafi verið “í átt að því sem The Sun lýsti”.

Þess vegna var enn borið út í kringum Anfield “never buy the Sun” sem við eigum að tileinka okkur og vísa aldrei í neitt sem sá skeinipappír ber út.

Á laugardaginn labbaði ég þarna inn, spjallaði um Hillsborough og fótbolta, drakk gott kaffi og hitti aðdáanda sem var á Heysel-vellinum 1985 og slapp naumlega lifandi og með mikla áverka frá áhangendum Juventus, áður en veggurinn hrundi. Hann lýsti aðförum Ítalanna sem “skipulögðu stríði” sem bullurnar okkar megin vildu fá. Sá aðdáandi kom frá Þýskalandi og var t.d. líka að lýsa St. Etienne sigrinum 1977.

Svo ég skora á sem flesta að kíkja inn stutt á Walton Breck Road 178, beint á móti Albert-kránni, aðeins að anda að sér þægilegri spjallstemmingu áður en maður hendir sér út í, eða heldur áfram að njóta stemmingarinnar.

Þar finnum við fólk sem er ennþá, 22 árum síðar að berjast fyrir því að vita hvar, hvenær og hvernig ættingjar þeirra kvöddu þennan heim, og krefjast ábyrgðar þeirra aðila sem hana báru.

Er það ekki málstaður sem við öll skiljum.

JUSTICE FOR THE 96!

Þeir sem vilja ræða um leikinn eða taka þátt í opnu umræðunni um önnur mál eru beðnir um að gera það við þann þráð – kv., Maggi

10 Comments

 1. Flott grein og klárlega eitthvað sem maður þarf að kíkja á þegar maður fer næst á Anfield. Vil samt taka það fram að ég myndi aldrei bjóða mínum óæðri enda uppá það að þurfa að komast í snertingu við þennan sora miðil.

 2. Góður pistill Maggi. Ég mun klárlega líta við á WBR 178 þegar ég fer á Anfield í enda des, hef ekki komið við þar áður. Það er nánast skylda hvers poolara að vita um hvað “justice for the 96” campaign snýst um. Ótrúlega svívirðileg fréttmennska the sun um þetta hræðilega slys. Og að þessi aðili skuli ennþá styðjast við sína frétt er með ólíkindum.

  the sun hefur aldrei selst vel á Merseyside svæðinu eftir þeirra frétt um Hillsborough slysið og skal engann undra, ég mun allavega aldrei kaupa það skítablað.

 3. Frábær pistill Maggi, frábær pistill !
  Hef farið 2 á Anfield, en aldrei labbað eitthvað að skoða krár og búðir í kring, nú veit ég hvað skal gera !

 4. Kannski upplýsið þið sem vitið hvað það var sem stóð í sorpinu 96? afsakið fáviskuna:)

 5. Vel mælt, Maggi. Ég kíkti síðast þarna inn 2007 og hlustaði á frásagnir og skoðaði veggmyndir. Síðast þegar ég fór á Anfield (2009) var skrifstofan lokuð en það er aldrei að vita nema maður kíki næst. Þetta er mikilvægur hluti af sögu klúbbsins, hluti sem enn er í fullri baráttu.

 6. Hillsbourough er einn ömurlegasti atburðurinn í íþróttasögunni allri. Babú hefur verið mín upplýsingaveita um stöðu mála og það er vonandi að fólkið sem missti, bræður, syni, frændur eða vini þarna fái einhver sanngjörn málalok sem fyrst. 
   

 7. Gott kaffi Maggi ?????  Hvar var bjórinn ????? Varstu ekki í Bretlandi ?  😉

 8. Kobbi, þú getur séð umfjöllun um þetta hér: http://dontbuythesun.co.uk/site/
  En þeir sem sagt birtu undir fyrirsögninni “The Truth” algerar lygar um að aðdáendur á vellinum hefðu gert viðbjóðslega hluti á vellinum á meðan á björgunaraðgerðum stóð. Þessar lygar voru liður í því að klína allri sök á áhangendur Liverpool og eru ein af ástæðum þess að enn í dag heldur stór hópur fólks að Hillsborough-slysið hafi verið áhorfendunum að kenna.

Opinn þráður – Tölfræði

Opinn þráður – Torres til sölu í janúar?