QPR á morgun

Nýr dagur, nýr leikur, horft fram á veginn og nú skal ekki dvalið við orðna hluti. Eða hvað? Ekki alveg. Eins og Kristján Atli kom inn á í Twitter-skilaboðum til mín, þá er þessi Fulham-leikur ennþá að bögglast í hausnum á manni, öllu heldur frammistaða eins manns í þeim leik. Ég hreinlega man varla eftir því í seinni tíð að eitthvað hafi setið jafn lengi í manni eins og frammistaða Kevin “Friend” í þessum “fræga” leik. Auðvitað eiga samsæriskenningar ekki við í flestum tilvikum í fótboltanum, og ég er alveg klár á því að þær eiga á engan hátt við um þetta tilvik heldur. Þarna horfðum við einfaldlega upp á mann eiga skelfilegan dag og gera þvílíka röð stórra mistaka að það hálfa væri hellingur.

Þetta er upphitun fyrir leikinn gegn QPR en ég verð bara að klára þetta frá. Það kom góð samantekt í kommenti hjá Kristjáni Atla um þetta allt saman og ætla ég að ræna henni hér og nú:

 • 1. Dempsey ekki rekinn útaf fyrir að skalla Bellamy. Bellamy fær gult í staðinn. Dempsey skorar svo sigurmarkið.
 • 2. Senderos ekki rekinn útaf fyrir að rífa Adam niður í augljósu marktækifæri.
 • 3. Brotið fært út fyrir vítateigslínuna og aðeins aukaspyrna gefin.
 • 4. Löglegt mark dæmt af Luis Suarez.
 • 5. Dæmt brot á Bellamy gegn Riise fyrir ekkert. Hann var þar á spjaldi og því orðinn tæpur svo að Dalglish þurfti að taka hann út af.
 • 6. Senderos sleppur við seinna gula þegar hann togar Carroll niður.
 • 7. Senderos sleppur við seinna gula þegar hann togar Suarez niður.
 • 8. Spearing fær beint rautt sem stendur. Ennþá óskiljanlegur dómur fyrir mann sem reyndi við boltann með manninn við hliðina á sér, og náði boltanum.
 • 9. Gerði engar athugasemdir í skýrslu við aðkastið sem Suarez fékk frá áhorfendum – ljótt orðbragð og hlutum kastað í hann við hliðarlínu. Þess í stað var Suarez kærður eftir leik fyrir löngutöngina.
 • 10. Kvartaði í skýrslu yfir því að leikmenn Liverpool hafi hópast að sér í kjölfar brottreksturs Spearing. Klúbburinn fær þá kæru ekki á sig nema dómarinn kvarti eftir leik.

Sem sagt, þrátt fyrir að hafa tekið þessar HROÐALEGU ákvarðanir, þá eru það okkar menn sem sitja í súpunni. Þrem stigum minna en þeir ættu að hafa, Spearing kominn í 3ja leikja bann, Suárez á leiðinni í 2-3 leikja bann og Liverpool FC með kæru á höndum sér.

Nú er enginn að halda því fram að það sem Suárez gerði (puttinn) eða viðbrögð leikmanna Liverpool við brottrekstrinum, hafi verið rétt eða afsakanleg. Nei, það er hentistefna FA sem fer fáránlega í taugarnar á manni. Af hverju í ósköpunum er þá ekki oftar kært þegar leikmenn hópast að dómurum leiksins? Af hverju hefur ekki verið ákært í fjölda annarra tilvika þegar menn hafa sýnt sama eða svipuð merki og Suárez gerði. Dempsey fór í bann í fyrra, en þetta virðist vera bara einhver hentistefna hjá FA hver er ákærður og hver ekki. Ekki ef þú heitir Ashley Cole eða Gary Neville, neeeeeei. En eitt er víst, Kevin “Friend” mætir um helgina með bros á vör eins og ekkert hafi í skorist, ekki hefur hann fengið svo mikið sem “slap on the wrist” fyrir skituna sína. Maður hefur verið svo sótsvartur af reiði út af þessu að maður hefur nánast stokkið brjálaður til þegar einhver ávarpar mann sem “vinur”.

En hvað um það, er nú búinn að koma þessu frá og þá er hægt að snúa sér að næsta leik. Heimaleikur gegn enn einum nýliðunum, QPR. Hvernig lið mætir núna á völlinn og hafa menn hugleitt það núna á æfingasvæðinu að það sé vænlegra til árangurs að hamra boltanum í sjálft netið, frekar en í stangir eða slá? Ætla menn að fara að drattast til að nýta eitthvað af þessum færum? Nú er ekkert sem heitir, eftir að hafa gert jafntefli við Swansea og Norwich á heimavelli, þá verða menn bara að fara að drattast til að leggja þessi minni lið á Anfield. Á morgun er dagurinn.

QPR bættu við sig slatta af reynsluboltum fyrir tímabilið, menn eins og Anton Ferdinand, Luke Young, Armand Traore, Danny Gabbidon, Kieron Dyer, Joey Barton, Shaun Wright-Phillips, DJ Campbell og Jay Bothroyd svo einhverjir séu nefndir. Þeir hafa komið mis mikið við sögu en bæta eins og áður sagði, hellings reynslu inn í þetta lið þeirra. Þetta er því algjörlega sýnd veiði en ekki gefin. Það er þó magnað að fylgjast með því að þeirra helsti markaskorari á tímabilinu hefur verið Heiðar nokkur Helguson. Síðast þegar ég sá hann í Liverpool, þá sat hann á The Park fyrir leik með hinum stuðningsmönnum Rauða Hersins. Vonandi heldur hann áfram að skora mörk fyrir þá, en vinsamlegast slepptu því á morgun Heiðar minn.

QPR hafa unnið 4 leiki, gert 4 jafntefli og tapað 6 á þessu tímabili. Heiðar er eins og áður sagði markahæstur leikmanna þeirra með 6 mörk, en næstu menn þar á eftir hafa sett 2 kvikindi. Þeir eru sem sagt með 16 stig og hafa skorað 15 mörk í þessum 14 leikjum sínum. Þetta eru ekki mörg mörk skoruð, en það verður því miður að segjast eins og er, við höfum nú heldur ekkert verið að tapa okkur í markaskorun, með okkar 17 mörk í 14 leikjum. Þau eru dýr þessi 12 skot sem hafa hafnað í stöngum eða slá. Munurinn á liðunum í töflunni hefur fyrst og fremst snúið að varnarleiknum. Á meðan QPR hafa fengið á sig heil 25 mörk, þá hafa okkar menn aðeins þurft að hirða boltann 13 sinnum úr netinu. Ekkert lið hefur fengið færri mörk á sig en 13, en því miður þá eru fjölmörg lið sem hafa skorað fleiri mörk en 17, eða 9 talsins. Þarna liggur hundurinn grafinn og á þessu þarf að ráða bót.

Liverpool er sem stendur í 7. sæti í deildinni, þrem stigum á eftir Newcastle og Arsenal og svo 5 stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu. Chelsea á leik gegn City á mánudaginn og því er það algjört lykilatriði að næla í 3 stig á morgun. Nú mega hreinlega ekki tapast fleiri stig gegn “litlu” liðunum. Ég vona svo innilega að leikurinn gegn Fulham verði til þess að menn fái spark í afturendann og komi sér á gott skrið.

Aðeins hefur nú minnkað breiddin hjá okkar mönnum, þá sér í lagi á miðjunni. Lucas auðvitað frá út tímabilið og Spearing verður ekki með okkur í næstu 3 leikjum. Þar fyrir utan eru dularfullu meiðsli fyrirliðans enn að halda honum frá keppni, þannig að það verður sífellt auðveldara að spá fyrir um byrjunarlið okkar manna, sér í lagi þegar kemur að vali á miðjumönnum. Það mun gríðarlega mikið mæða á Charlie Adam í næstu leikjum, og er ég að vonast til þess að nú fáum við að sjá hann og Henderson saman á miðri miðjunni. Mér hefur fundist Jordan vera sífellt að stíga upp undanfarið og ég hef algjöra tröllatrú á þessum gutta.

Ég trúi ekki öðru en að varnarlínan fái að halda sér óbreytt áfram. Skrtel og Agger hafa verið að ná virkilega vel saman í vörninni og þó svo að Carra sé orðinn heill, þá vil ég að hann haldi áfram á bekknum á meðan hinir eru að skila sínu jafn vel og raun ber vitni. Einhverjir hafa verið að kalla eftir breytingum í hægri bakverðinum, en ég er á því að Johnson haldi stöðu sinni þar, sér í lagi þegar við erum að spila gegn minni spámönnum á Anfield. Hans hlutverk í sóknarleiknum getur verið stórt, sérstaklega þegar lið leggjast aftarlega á völlinn og pressa okkur ekki mikið á okkar eigin vallarhelmingi. Það þarf ekki að ræða vinstri bakvarðarstöðuna, Enrique hefur að mínum dómi verið algjörlega frábær.

Þá að miðjunni. Ég er nokkuð pottþéttur á því að Henderson verði færður inn á miðja miðjuna og eins spurningamerkið í mínum huga er það hver af þeim Kuyt, Downing, Carroll, Bellamy og Maxi verði á bekknum. Helst myndi ég vilja sjá þá Bellamy og Downing á köntunum, bara upp á hraðann að gera. Ég myndi svo einnig vilja sjá Carroll frammi með Suárez í frjálsu hlutverki fyrir aftan hann. En ég er engu að síður nokkuð viss um að Kuyt verði í liðinu og ég held að það verði á kostnað Bellamy. Svona held ég að Kóngurinn stilli upp.

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Henderson – Adam
Kuyt – Suárez – Downing
Carroll

Bekkurinn: Doni, Kelly, Carragher, Coates, Shelvey, Maxi og Bellamy.

Spil okkar manna hefur verið mjög gott á stórum köflum í vetur og nú er bara að halda því áfram og koma tuðrunni aðeins oftar í netið. Það er eitthvað sem segir mér að loksins opnist flóðgáttirnar á Anfield. Mótlætið undanfarna viku um hleypa meiri grimmd í mannskapinn og það verða QPR sem verða fórnarlömb þess. Pass and move og klára, simple really. Ég ætla að vera bara nokkuð djarfur í spá minni og segja að þessi leikur fari 4-0 fyrir okkar menn. Jú, kannski brjálæði miðað við hvernig þetta hefur verið hjá okkur varðandi markaskorun, en einhvern tíman hlýtur þetta að smella hjá okkur. Ég reikna með að Suárez kallinn stimpli sig rækilega inn svona korter fyrir bann og setji 2 mörk. Carroll mun einnig loksins finna netmöskvana og það verður svo Henderson sem setur fjórða markið. Er þetta ekki bara díll?

54 Comments

 1. Lokaprófin hjá mér vega salt á því hvernig okkur gengur í þessum leik… KOMA SVO!!!

  Y.N.W.A. 

 2. Því miður er þetta gefið 0-0, 1-1 jafntefli eins og flestir leikir gegn
  nýliðum á Anfield.

  Pate Kenny mun eiga stórleik í marki QPR 

 3. Ótrúlegt hvað menn geta vælt yfir þessum ákvörðum dómarans í síðasta leik.  Eru menn búnir að gleyma þeim dómum sem hafa verið okkur hliðhollir á þessu tímabili?

  Liðið verður bara að drullast til að girða sig í brók, spila fótbolta og nýta færin.  Það kann aldrei góðri lukku að stýra að væla yfir atvikum sem falla ekki með liðinu.  Við vitum það allir að ef okkar menn hefðu nýtt færin sín í leiknum þá hefðum við að öllum líkindum unnið. 

  Ég ætla að vona að þessi skrif verði ekki túlkuð sem leiðindi í garð þeirra góðu manna sem halda þessari síðu uppi, mér finnst bara tími til að við hættum þessu væli. Það hæfir ekki Liverpool.

 4. Er því miður aðeins sammála #3 og #4.  Markvörður QPR mun án efa eiga leik  lífs síns og bjarga stigi fyrir þá röndóttu.
   
  Og eins og #4 segir, þá geta menn ekki endalaust kennt dómurum og óheppni um.  Menn verða bara að stíga upp og taka þau aukaskref sem þarf til að knýja fram úrslit í þessum leikjum.  En þetta er svosem þekkt tækni að kvarta yfir dómurum í von um að þeir dómarar sem á eftir koma verði okkur hliðhollari.  Fergie hefur náð góðri færni í þessu sem dæmi. 

 5. vill einhver please fara að útskýra þessa fjarveru Gerrard.  Þetta er orðið frekar fúlt.

 6. Er ekki Liverpool i 7. sæti, thad stendur 5. i upphituninni, oskhyggja eda innslattarvilla? ;o)

  3-1, Suarez med 3 og Skrtel med sjalfsmark .
   

 7. Hef ekki trú á Carroll verði í byrjunarliði… nema KK hafi tekist að sprauta honum með massívrí sjálfstraustsprautu dauðans

 8.              Reina
  Kelly Skrtel Agger Enrique
      Henderson Adam
       Kuyt  Maxi   Bellamy
             Suarez
  Vinnum ef liðið er svona. Annars ekki. Þetta er ekki flókið. Johnson er lélegur varnarmaður og því á hann ekki að vera í vörninni. Carroll er lélegur í dag, ekki spila honum, punktur. Tölfræði Downing gefur honum sæti á bekknum. Væri svo líka til að hafa Sterling á bekknum, gefa honum síðustu 15-20 min.

 9. Mér finnst ekkert ólíklegt að Shelvey fái sénsinn núna. Funheitur með varaliðinu og gekk frá varaliði Wigan nánast einn síns liðs. Þætti það ekki vitlaus ákvörðun. Ég vil líka sjá Maxi í liðinu, það er hreint óskiljanlegt að hann fái ekki fleiri tækifæri þegar liðið spilar miklu betur með hann inni á vellinum. Downing má sitja á bekknum áfram og Kuyt líka. Vil sjá Bellamy-Shelvey-Maxi með Henderson og Adam þarf fyrir aftan. Suarez upp á topp. 

  Eins og í öðrum leikjum á þessu tímabili þá bið ég einskis annars en þriggja stiga. 2-1 eða 1-0 dugar mér alveg þótt ég væri auðvitað alveg til í 4-0 sigur.

 10. Ég legg til að þeir minnki mörkin á Melwood, svona 5-10 cm á hæð og breidd. Þetta er pottþétt leið til þess að auka markaskorunina um amk 50% hjá Liverpool. Getur einhver komið þessu á framfæri við Dalglish eða Steve Clarke?

 11. Sammála þér Egill Sverrisson nema að það er spurning um að hreinlega láta þá æfa sig með handboltamörk því nýtingin er skelfileg. 

  Fín samantekt og ég trúi bara ekki öðru en að Liverpool sigri þennan leik. 3-0 Downing, Carroll og Skrtel með mörkin(óskhyggja) 

 12. Takk fyrir ábendinguna Hafsteinn #7, var hrein og klár innsláttarvilla.

  Það má vel vera að þetta flokkist sem væl, en engu að síður þá flokkast þessi gagnrýni á “vælið” þá líka sem væl.  Þetta er bloggsíða og ástæðan fyrir því að maður byrjaði að skrifa hér inn var einmitt sú að maður gat sagt það sem manni lá á brjósti, og þetta var raunin akkúrat núna.  Hvort einhver annar taki þessu öðruvísi, þá skiptir það bara engu máli og er bara gott mál.  Það falla dómar með manni og á móti, það sem ég dró fram úr þessum leik að það voru svo hrikalega margar RISA ákvarðanir sem voru hreint og klárt rangar.  Ekki síður finnst manni eftirmálar þessa leiks vera ótrúlegir.

  En hvað um það, leikur á morgun og ég tek það skýrt fram að þetta lið sem ég stilli upp hér að ofan er það sem ég held að King Kenny stilli upp.  Óskaliðið mitt er aðeins öðruvísi. 

  Menn gleyma reyndar einu þegar menn segja að við þurfum að nýta færin okkar til að vinna.  Við nýttum færi í síðasta leik, en það mark var dæmt af.  En að öðru leiti er það algjör staðreynd að við þurfum að fara að nýta færi okkar miklu betur. 

 13. Fyrir mér er Armand Traore ekki neinn gríðarlegur reynslubolti 😉 líklega bara önnur innsláttarvilla eða fljótfærnisvilla, en samt sem áður styrking að mínu mati hjá QPR 🙂 ekki reynslubolti.

 14. Kannski ofsögum sagt að tala um hann sem reynslubolta, en hann er allavega reynslubolti í Úrvalsdeildinni miðað við þá leikmenn QPR sem fyrir voru.  Hann hefur spilað með Arsenal í Úrvalsdeildinni, sem og Portsmouth og svo spilaði hann eina 10 leiki með Juventus.

 15. Þó það nú væri að við ræðum aðeins síðasta leik á bloggsíðu um Liverpool, þetta var alls ekki eðlilegur leikur og það er ekki eins og við höfum verið að kenna dómaranum um allt sem aflaga hefur farið í vetur.  Það er ódýrt að kenna alltaf dómaranum um en þegar við erum farnir að skora lögleg mörk þá er helvíti hart að tala um að nýta ekki færin.

  En ég ætla að taka upp aðra taktík fyrir þennan leik og spá 1-3 tapi, Barton, Heiðar og Trevor Sinclair skora fyrir QPR en Shelvey fyrir okkur. Suarez fær síðan rautt í leiknum og Henderson tekur skot í slá.

  Vörn vill ég sjá óbreytta og á miðjunni gæti ég trúað að við sjáum Henderson – Shelvey – Adam og Downing með Surez og Carroll frammi. Ekki endilega það sém ég er að óska eftir bara það sem ég gæti trúað að verði raunin.

 16. Ég set spurningamerki við Johnson?

  Hann er búinn að vera virkilega slakur sem varnarmaður en mun betri sem sóknarmaður. Hann leyfði Murphy að ná skoti þar sem hann átti alls ekki að fá færi á því og upp úr því kom markið og þrátt fyrir að hafa klárað gömlu bláu félaga sína um daginn þá var hann hörmulegur varnalega í þeim leik og náði ekki að stoppa neina einustu fyrirgjöf. 

 17. #4 verð einfaldlega að sp þig hvaða dóma í fleirtölu þú ert að tala um í vetur ? ég man eftir 1 það var spjaldið á móti everton á rodwell.. ef það eru fleiri (augljósir dómar) þá er minnið mitt orðið helvíti lélegt 

 18. #17 
  Hann er búinn að vera virkilega slakur sem varnarmaður en mun betri sem sóknarmaður. Hann leyfði Murphy að ná skoti þar sem hann átti alls ekki að fá færi á því og upp úr því kom markið og þrátt fyrir að hafa klárað gömlu bláu félaga sína um daginn þá var hann hörmulegur varnalega í þeim leik og náði ekki að stoppa neina einustu fyrirgjöf.    

  http://www.skysports.com/football/match_facts/0,,11065_3422907,00.html

  Fyrst að maður leiksins var svona hörmulegur varnarlega í þessum leik, hvernig spilaði þá restin af liðinu varnarlega og hvað gerði eiginlega liðið til að halda hreinu?     

    

 19. Ég tók alla liverpool menn úr fantasy liðinu. Núna hrekkur þetta í gang.

 20. Ef þessi leikur fer 1-1 þá er Liverpool komið í jólafrí hjá mér.  1-0 yrði hreinlega stórgott… 🙂

 21. Jæja…þá held ég að það sé komið að því að KK kveiki í einni Tívolíbombu í rassgatinu á Carroll og það verður það sem kemur honum af stað á morgun!

  Carroll mun setja 2 í þessum leik, Suarez setur eitt og svo tekur Shelvey aukaspyrnu sem hann skorar úr….það er DÍLL!!!!

  YNWA – King Kenny we trust! 

 22. Flottur pistill Steini,,, ég verð nú að viðurkenna að ég er óttalegur auli fyrir Andy Carrol, hann þarf, held ég, að fá fleiri tækifæri í byrjunarliðinu, hann var gersamlega óstöðvandi á síðasta tímabili og ef að hann dettur í gírinn með okkur erum við vonandi komnir með gott update af Ian gamla Rush. Þetta eru kannski draumórar,en ég trúi á drenginn 😉 En það virðist vanta gleði á Anfield, léttleika . Það er klárlega eitthvað undirliggjandi á okkar mönnum, mikill pirringur ( þá sérstaklega hjá Suarez )og sjálfstraustið er of lítið, a.m.k. hjá sumum.
  Vonandi völtum við yfir Barton & félaga á morgun.
  Upp með brosið og förum jákvæðir inn í morgundaginn.

  YNWA. 

 23. þetta er fyrsti leikurinn í jólatörninni eða svoleiðis, við vinnum 3-0, ekkert væl. Spurning hvort við eigum að setja Agger á miðjuna í staðin fyrir Lucas, en ég hef trú á að við vinnum örugglega.

 24. Ég held reyndar að þeir finnist varla ólíkari senterarnir, Ian Rush og Andy Carroll…

 25. Babu #16
  Trevor Sinclair? Er það ekki Scott.En Trevor var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma.
  Ég vona að Liverpool vinni 3-2 á morgun og Heiðar skori bæði.Snillingur þar á ferð!!
   

 26. #26 og 16: Scott Sinclair spilar víst með Swansea. Trevor mun vera hættur fyrir þó nokkrum árum, en miðað við lánleysi Liverpool á Anfield gegn minni spámönnum kæmi manni svosum ekki á óvart ef Trevor Sinclair spilar bara samt á morgun og skorar sigurmark leiksins fyrir QPR…

 27. Sá orðrómur er ávalt háværri að Gerrard sé hætturí boltanum !

  En við erum með mann sem heitir Henderson og ég er alveg 100% viss um að þessir drengur eigi eftir að halda uppi Liverpool liðinu næstu árin.

  ‘Eg held að við verðum bara að vera þolinmóðir, við erum með frábæra eigendur, snilldar stjóra og það er algjör friður um klúbbinn. Er til í að gefa Kenny svona 3-4 ár og ég er hand viss um að hann skili okkur tiltlinum langþráða !!!

 28. #28 Hvar í ósköpunum ganga þær fréttir að Gerrard sé hættur í boltanum. Það er líklega mesta bull sem ég hef heyrt. 

 29. Ef að Maxi fær ekki einhverjar mínútur í þessum leik á morgun þá er það skandall .. gaurinn er bara okkar hernandez, réttur maður á réttum stað og hefur skorað í seinustu leikjum sem hann hefur verið inná.

 30. Ótrulega skrítið, síðan við byrjuðum að skjóta alltaf í stöng þá er ég sjálfur byrjaður að skjóta ALLTAF í stangirnar í Fifa, tapandi 1-0 í leikjum sem ég er að rústa! og fá glötuð jafntefli! ég botna ekkert í þessu, en ég spái 4-0 fyrir okkur, Carroll með þrennu og Agger eitt.

 31. Gerrard er byrjaður að sprikla aftur og vonandi kemst hann í formið fyrr en seinna!

  Flott upphitun og núna er bara að halda ótrauðir áfram!
  2-1 sigur og allir sáttir. Heiðarinn má skora markið en það má líka vera alveg á síðustu sekúndu leiksins.
   

 32. við vinnum leikinn 3 – 1 henderson með 2 mörk. það er einhvað svakalegt sem ég sé í honum, hann verður orðin svakalegur og lykilmaður hja okkur bara strax á næsta ári, vitiði til.. hættum, svo þessu væli og vinnum a morgun.

 33. Ég var ekkert að ruglast, það er bara til einn Sinclair sem tjáir að nefna og það er ekki einhver uppgjafa Chelesa maður. Svo er ég einnig skíthræddur við Les Ferdinand. Ég er smá að ganga út frá því að QPR hafi lítið breyst frá þeim tíma sem við spiluðum við þá síðast 

 34. Babu erum við þá að tala um að Jurgen Sommer verði maður leiksins á morgun??? Já og við fáum jafnvel mark frá meistara Danny Dichio???? 🙂

 35. Vinnum þennan leik. Það getur bara ekki annað verið. 

  Þetta QPR lið er samt frekar skrýtið einhvern veginn. Hef séð þá spila ágætis leiki, sbr. leikinn við City þar sem þeir velgdu þeim heldur betur undið uggum þar sem City rétt marði sigur og einnig þegar þeir unnu Stoke á útivelli.

  Hins vegar sá ég þá vinna Chelsea 1-0 þegar Chelsea voru tveimur mönnum færri í klukkutíma og átakanlega miklu betri en QPR en tókst á óskiljanlegan hátt að tapa. Þar duttu einmitt allar stóru ákvarðanir dómarans QPR í hag. (hringir þetta bjöllum?)

  Þá hélt nú sófadýrið ég að QPR væru að fara beint niður en svo verður líklegast ekki raunin,

  En allavega, við hljótum að taka þennan leik. Ég bara trúi ekki öðru. Neita að trúa öðru! Erum við ekki örugglega að fara að vinna þennan leik? Plís Liverpool! Ég meika ekki að sjá greppitrýnið hann Warnock fara frá Anfield með eitthvað annað í pokahorninu heldur en 0 stig og vonandi missir hann líka af rútunni heim til London.
   

 36. Auðvita vinnum við eða þannig en hvað gera helv, dómararnir, sama og í síðasta leik? Maður getur ekki tippað lengur á mörk, þau eru tekin af Liv, (Suares) og víti líka, Þoli ekki ráðríka dómara (eins og litlir Hit,,,ar, hér ræð ég, sama hversu óréttlátt það er hjá þeim). Tökum þetta bara og það stórt, og Carroll nú eða aldrei og stattu í lappirnar drengur.

 37. Engum öðrum sem langar að sjá Suarez á bekknum í dag.. Belllamy upp á topp í staðinn og Maxi í byrjunarliðinu .. Þarf að rífa fíluna af andlitinu á drengnum hundleiðinlegt að horfa á mann sem gerir ekki annað enn að væla út í eitt.. einbeitir sér meira af því heldur enn að spila fótbolta.

  Enn vonandi verður annað upp á teningnum í dag hjá LFC 🙂 

 38. Hef enga trú á öðru en að við klárum QPR í dag!
  Stórt like á nýja bannerinn btw. Very nice. 

 39. ´AÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁFFFFFFFFFRRRRRRRRRAAAAAAAAMMMMMMMMM LIVERPOOOOOOOOOOOOOL….

  You’ll never walk alone……

  tökum þetta í dag. 

 40. Nú er komið að því, stangarskot á fimmtu mínútu en síðan hrekkur liðið í gang og skorar sex mörk. Suarez (2), Skrtel og Shelvey, og Carroll (2) eftir að hann kemur inn á á 72. mínútu. Já og svo til að leyfa HH að vera með, þá jafnar hann 1-1.
  Hættum svo öllum eltingarleik við slúður og um leið neikvæðnis tuði og snúum okkur að því að styðja liðið okkar.

 41. ég vona að við vinnum 3-0 en ég held einhvernveginn að þetta endi með 1-1 jafntefli og þeir skora bæði mörkin !! 

 42. Var að vakna og ég hef alveg opposlega mikkla trú á að við vinnum í dag, það verður markaveisla á Anfield: Súarez 2 Bellamy 1 og svo kemur Carroll af bekknum og setur hann , Heiðar með 2 fyrir QPR og lokastaða 4-2. þetta er alveg eins og mig dreymdi.             

  😀 😀 

 43. Góðan dag góðir hálsar

  Ég er með mjög góða tilfinningu fyrir þessum leik, held að við vinnum 2:0. Finnst það reyndar oft kjánalegt þegar menn koma með svona gisk á úrslit þar sem það er lang oftast akkúrat ekkert á bakvið það og svo geri ég nákvæmlega það sama 🙂

  Er aðeins búinn að skoða mögulega uppstillingu og mig minnir að Henderson hafi áður spilað á miðri miðjunni og farist það verk vel úr hendi. Ef hann spilar þar þá vona ég svo sannarlega að hann eigni sér þá stöðu eða a.m.k. réttinn á að byrja aftur þar í næsta leik.  Það sem okkur stuðningsmönnum vantar sárlega núna er að LFC klári þennan leik með markaveislu. Og greyið hann Carrol verður að fara að skora, annars býst maður við því að hann fari nánast að grenja inni á vellinum, svo mikil hafa vonbrigðin stundum virst hjá honum þegar hann klikkar. Talandi um Carrol, þá finnst mér einhvern veginn vera eitthvað ójafnvægi á liðinu þegar hann spilar. Kall greyið stendur varla í lappirnar, er að renna á rassinn og er eiginlega bara notaður sem batti til að skalla bolta niður til samherja eftir einhverjar dúndrur inn í teiginn. Menn verða að fara að hætta að líta á hann sem einhvern staur innn í teig til að hitta á og fara að spila með honum eins og venjulegum framherja. En vonandi dettur hann í gang í dag.

  Ég allavega meika varla annan eins leik eins og á móti Fulham, ég var brjálaður í marga klukkutíma á eftir og dagurinn bara alveg ónýtur.       

 44. The Reds team in full is: Reina, Johnson, Enrique, Skrtel, Agger, Adam, Henderson, Downing, Maxi, Kuyt, Suarez. Subs: Doni, Kelly, Carragher, Shelvey, Bellamy, Coates, Carroll.

 45. The Reds team in full is: Reina, Johnson, Enrique, Skrtel, Agger, Adam, Henderson, Downing, Maxi, Kuyt, Suarez. Subs: Doni, Kelly, Carragher, Shelvey, Bellamy, Coates, Carroll.

 46. Verð að seigja að mér er nokkuð létt að Helguson sé ekki með, strákurinn búin að vera frábær og þeirra besti maður að undanförnu.
   

 47. Er einhver Stórmeistari með link?

  Með fyrirfram þökkum,
  Einsi 

Kenny ver Suarez og Liverpool liðið

Liðið gegn QPR