Peningarnir tala…

Var vant við látinn í gær og horfði ekki á fótbolta fyrr en kl. 15:00 – eftir jarðarförina á Old Trafford.

Margir Poolarar hafa glaðst mikið í dag yfir því sem þar fór fram en ég ætla að leyfa mér að gera það ekki. Í spá okkar félaganna og síðan í podcasti um tímabilið í ágúst sagði ég þá skoðun mína að Manchester City yrði meistari með yfirburðum í vetur enda færi þar best skipaði leikmannahópurinn í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar. Það þrátt fyrir að mér finnist Roberto Mancini ekki alveg vera öflugasti karakterinn í bransanum, þá er þetta knattspyrnulið svo ótrúlega vel skipað af leikmönnum að það er nærri því ómögulegt að klúðra deildartitlinum.

Mig langar í dag aðeins að rýna í ljósbláa ofurliðið frá borginni austan við borg borganna!

Í dag eru í leikmannahópi Manchester City-liðsins 23 landsliðsmenn, og svo reyndar 3 aðrir úti á láni.

Svona aðeins til að skoða hvernig hægt væri að stilla upp í 2 x 11 manna leik á æfingasvæðinu hjá City þessa dagana… Það er eiginlega erfitt að segja A-lið og B-lið, en kannski er hægt að segja bara lið 1 og lið 2

Lið 1

Hart

Richards – Kolo Toure – Kompany – Kolarov

De Jong – Yaya Toure

Silva – Aguero – Nasri

Balotelli

Allt landsliðsmenn hér á ferð. Sameiginlegt innkaupsverð er u.þ.b. 195 milljónir punda, sem gerir að meðaltali 17,7 milljónir á mann, athugum að í liðinu þarna eru 2 uppalningar…

Lið 2

Pantimilion

Zabaleta – Savic – Lescott – Clichy

Hargreaves – Barry

Milner – Tevez – Johnson

Dzeko

Aftur eingöngu landsliðsmenn þó vissulega hér fari menn sem margir hafa misst sitt landsliðssæti í dag. Samanlagt innkaupsverð þessa liðs er 169 milljónir punda, eða að meðaltali 15,4 milljónir á mann.

Til að fylla leikmannahópinn eru svo Nedum Onuoha, Wayne Bridge og Stuart Taylor. Kostnaðurinn við þá er 10 milljónir svo að 25 manna leikmannahópur Manchester City kostar því 374 milljónir punda í innkaupum, eða u.þ.b. 15 milljónir punda að meðaltali.

Þegar við svo bætum launum þessara manna við, sem í miklum meirihluta eru 70 þúsund pund plús og talið að rúmlega helmingur leikmannahópsins fari yfir 100 þúsund punda vikulaunamúrinn þá á okkur öllum að vera ljóst að þarna er verið að setja í peninginn.

En þegar við lítum yfir leikmannahópinn hjá City í dag er þar að finna ansi mörg nöfn sem okkar klúbbur hefur horft til. Milner, Johnson, Barry og Clichy eru klárlega menn sem við höfum horft til og boðið í einhverja, auk þess sem klárt mál er að Rafa langaði í Silva á sínum tíma og umræður í sumar voru um að í draumum klúbbsins hefði verið að fá Aguero og/eða Savic til sín.

Ég las nýlega tilvitnun í Assou-Ekkotto hjá Tottenham þar sem hann sagðist pirraður á þeim leikmönnum sem sögðust spila með hjartanu, allir í bransanum væru í þessu fyrir peninginn sem kæmi í launaumslagið og þeir sem segðu annað væru einfaldlega að skrökva. Auðvitað er það skiljanlegt að leikmenn reyni að kreista sem mest út úr ferlinum sínum, en í mínum huga er bara alveg ferlegt að upp sé komin sú staða að það séu alltaf 11 gæðaleikmenn utan vallar þær helgar sem City spilar. Hvað þá að þeir séu bara eigendur stærstu stjarna annarra toppliða (Adebayor hjá Spurs)!

Það eina sem vantaði hjá City var sigur- og bikarhefðin, því henni fylgir meiri vilji til árangurs. Þess vegna vonaði ég svo heitt að Stoke City tækist hið ómögulega í vor sem aldrei var séns. En það silfuráhald sem þeir ljósbláu tóku með sér til norðurs vakti titlahungrið sem þarf að vera til hjá stórliðum og veturinn í vetur er bara rökrétt framhald þess.

Ef City heldur áfram á sömu ferð og hingað til mun árangur þeirra eftir 38 leiki verða svona. 105 stig og markatalan 139 – 30. Auðvitað reiknum við ekki með því en það er ljóst að það run sem City er á núna er af því kaliberi sem sjaldan hefur sést!

Í gær átti ég samtal við góðan United vin minn, eftir svolítinn tíma af samtalinu fór ég að hugsa…”Ég er að tala við hann eins og hann talaði við mig eftir að Chelsea stútaði okkur 1-4 á Anfield”. Þeir sem tala um “one-off” úrslit eru einfaldlega ekki að horfa blákalt í staðreyndirnar. Í gær voru Toure, Nasri, Dzeko, Kolarof og De Jong á bekknum hjá City. Johnson og Tevez ekki með, ég er t.d. ekki búinn að afskrifa það að Tevez fái uppreisn æru, ef ekki þá verður bara nýtt heimsklassanafn keypt í janúar. Gæðamunurinn á þessu City liði og liði meistaranna skein algerlega í gegn allan leikinn, og var hrikalegur eftir að United fékk á sig fyrsta markið. Þaðan frá var þetta leikur kattar að mús.

Og jafn gaman og það er að sjá United verða að mús sat ég eftir með spurningarnar sem kannski allt spjallið mitt snýst um…

Er enska knattspyrnan á næstu árum að verða eins og sú franska þegar Lyon átti allan peninginn og vann meistaratitilinn einhver grilljón ár í röð?

Það myndi þýða auðvitað að öll hin liðin væru að keppa um sæti 2 – 4 og að fóðra þetta risalið sem borgar margföld laun og er til í að eyða formúgum í leikmenn, raunveruleiki sem ég held að við verðum að horfa á.

Og í því sambandi, getum við stólað á þá leikmenn sem nú leika í alrauðu treyjunni? Erum við að sjá einhvern “taka Torres á þetta” og heimta það að fá að fara ef að við verðum ekki í Meistaradeildarsæti í lok janúar. Ef já, hver þá?

Ég veit að ég er svolítið að spilla gleði okkar yfir óförum United, og guð veit það að ég uni City-vinum mínum þeirri gleði sem þeir búa yfir þessa stundina, en ef að mínar vangaveltur verða veruleikinn, þá er pínulítið sorglegt að horfa fram á þann veruleika.

Ekki síst þar sem ég treysti knattspyrnuelítunni í UEFA og FIFA alls ekki til að ná fram “Financial Fair-play” regluverkinu sem varð jú m.a. til þess að okkur var forðað frá gjaldþroti.

30 Comments

 1. Ágætis greining á þessu City liði. Þessi breidd er náttúrulega svakaleg. Það eru heimsklassaleikmenn að keppa um hverja einustu stöðu nema hugsanlega kannski bakvarðastöðurnar tvær. Ég set samt spurningarmerki við að þú takir þennan leik og berir hann saman við 1-4 leik Liverpool og Chelsea, sérstaklega þar sem þú segir að þú hafir ekki horft á leikinn. Fyrstu 20 mínúturnar komu leikmenn City ekki við boltann (James Milner snerti boltann fyrst á 14. mínútu). Þeir skoruðu gegn gangi leiksins en efldust við það og voru betri aðilinn það sem eftir var fyrri hálfleiks. í hálfleik er staðan bara 1-0 og allt opið ennþá þannig séð. Á 2. mínútu seinni hálfleiks tapar Jonny Evans leiknum fyrir United með afar klaufalegu broti og er réttilega sendur í sturtu. Eftir það ráða City-menn ferðinni enda einum fleiri inná vellinum og United-menn héldu áfram að reyna að jafna sem gerði það að verkum að aftasta línan var frekar berskjölduð. City skora svo 2 góð mörk og miðað við gang leiksins hefði 3-0 verið sanngjörn úrslit. Svo byrjar þetta bull í restina þegar mínir menn í United bara hættu að að vera með. En við skulum hafa það á hreinu að þessi leikur hefði aldrei endað 1-6 með 11 rauðklædda leikmenn inná vellinum. 

  Alveg eins og menn voru of snöggir að lýsa því yfir að titilbaráttan í ár væri keppni milli Manchester-liðanna mega menn ekki vera of snöggir að lýsa því yfir að deildin sé búin. Það er nóg eftir og ýmislegt sem getur gerst á löngu tímabili. 

  Eitt enn líka til fróðleiks: Á þeim tíma sem Glazer-feðgar hafa átt United hafa þeir tekið 400 milljónir punda úr klúbbnum á meðan eigendur City hafa á skemmri tíma lagt 600 milljónir inn í City. Hvað er einn 1 milljarður punda á milli vina?

 2. Margir góðir punktar í þessu hjá ykkur en það sem heillaði mig mest við leik MCity var hvað þeir voru pollrólegir og yfirvegaðir allann leikinn. Til að útskýra þetta bendi ég á þessar fyrstu 20 30 mín sem MU var að dóla með boltan án þess að skapa neitt var engin asi á þeim ljósbláu og vörnin fyrna sterk. Smá saman þrýstu þeir MU upp völlinn og tóku svo yfir. Glæsilegt hjá þeim og til eftirbreytni fyrir aðra

 3. Kannski alveg rétt Tryggvi Páll, hef þessi orð um leikinn eftir heljar-Unitedmanni sem ég tel hafa mikið vit á fótbolta, í yfirvegun.  Hann vildi meina að leikskipulag City hafi alltaf stjórnað leiknum og um leið og þeir skoruðu hvarf sjálfstraust United og eftir það bara spurning hvernig færi.
  En ég held nú samt að það að sjá United hreinlega sundurtætt í lokin, af varamönnum sem voru lykilmenn liða í Meistaradeildinni nú nýlega, sé kjarninn og sá sem ég bendi á sem líkindi við 1-4 leikinn gegn Chelsea, því þá fundum við hversu langt við vorum komnir afturfyrir….

 4. Mótið er ekki búið og alltof snemmt að afhenda MC dolluna.

  Chelsea og MU eru ekki með slaka hópa. Lítum á Chelski

  Chech
  Ivanovic
  Terry
  Luis
  Cole
  Meireles
  Essien
  Lampard
  Mata
  Torres
  Sturridge

  Lið 2
  Hilario
  Bosingwa
  Alex
  Bertrand
  Ferreira
  Mikel
  Ramieres
  Kalou
  Anelka
  Drogba
  Malouda

  Þá eru fyrir utan
  Lukaku
  McEachran

  MU
  DE Gea
  Smalling
  Vidic
  Ferdinand
  Evra
  Nani
  Fletcer
  Anderson
  Young
  Rooney
  Hernandez

  Lið 2
  Lindegaard
  Da Silva
  Jones
  Evans
  Da Silva
  Valencia
  Carrick
  Giggs
  Park
  Berbatov
  Welbeck

  Fyrir utan
  Owen
  Cleverley
  Macheda
  Gibson

  Þetta eru rosalegir hópar.

  En stóri munurinn á boltanum núna og fyrir áratug (um) eru peningar.
  Það er mjög langt á milli okkar og þessara liða fjárhagslega.

  En því miður er ekki útlilokað að MU klári þetta

  YNWA

 5. Hver er annar uppalningurinn í þessu City liði. Sé bara Micah Richards og svo Nedum Onouha fyrir utan hóp (efast stórlega að þú sért að tala um hann).

  Joe Hart er allavega ekki uppalinn hjá City. Hann kemur frá Shrewsbury Town. 

 6. Ég hef afskaplega blendnar tilfinningar í garð Manchester City. Í fyrsta lagi finnst mér algerlega óþolandi þessi live Football Manager (með svindli) sem eigandinn virðist vera að leika sér í. Alveg sama og Abaramovic gerði með Chelsea fyrir fimm-sex árum nema bara í enn þá stærri mæli. Það er ekkert að því að eigendur komi með heilbrigða fjárfestingu inn í sín fótboltafélög en þegar þetta er komið í þessa vitleysu þá verður að gera eitthvað í málunum til að jafna leikinn. Ég vona svo innilega að þessar Financial Fair Play reglur komi inn í spilið og að það verði farið eftir þeim.

  En þrátt fyrir alla þessa neikvæðni verður að viðurkennast að það er hein unun að fylgjast með þessu City liði spila hina fögru íþrótt. Leikmenn eins og David Silva og Sergio Aguero eru náttúrulega þvílíkir listamenn að annað eins hefur maður ekki séð í enska boltanum og varla í heiminum fyrir utan Barcelona liðið. Mörk tvö og þrjú í gær voru svo flott að það var bara fáranlegt Í þessu liði virðast líka vera ósköp geðþekkir leikmenn sem er erfitt að vera illa við, eins og Silva, Aguero, Micah Richards, Vincent Kompany, Edin Dzeko og Joe Hart, þetta eru leikmenn sem spila bara boltann og eru ekki með leikaraskap, fantaskap eða tuðandi í dómaranum eins og Luis Suarez (það er svolítið farið að fara í pirrurnar á manni). Og svo stórkostlegir karakterar eins og Balotelli. Þó að vissulega séu þarna skíthælar eins og Tevez og peningagráðugir bjánar eins Toure bræður og svo menn sem virðast mæta inn á völlin gagngert til að meiða andstæðingana eins og Nigel de Jong þá finnst mér City hópurinn bara vera miklu heilsteyptari einstaklingar heldur en hefur verið hjá Manchester United, þar sem menn eins og Keane og Scholes fara í tæklingar til að meiða andstæðingana, Rooney og Giggs halda fram hjá konunum sínum, Nani og Ronaldo henda sér í grasið af minnsta tilefni eða eru bara viðbj… eins og Neville systur… æ ég vitna bara í ræðuna hans Kristjáns Atla úr síðasta podcasti.

  Þannig að ef maður horfir á heildarmyndina þá vil ég frekar að City taki þetta heldur en United en samt ber ég meiri virðingu fyrir því hvernig United hefur byggt sitt lið upp, en United er bara svo ógeðslegt. Í raun er ég töluvert svartsýnni á það núna heldur en í upphafi tímabils að við séum eitthvað að nálgast enska titilinn á næstu árum því þetta City lið er svo fáránlega sterkt og í ofan álag virðast þetta vera leikmenn á góðum aldri og ef Tevez er undanskilinn virðast þeir ekki vera í neinni fýlu þó að þeir sitji á bekknum í stærsta leik ársins, menn eins og Dzeko koma bara inn á og setja 2 sem hefðu getað verið 6 og leggja upp 1 á 20 mínútum. Svoleiðis kann ég að meta.

 7. Liverpool og City voru með svipað mikla yfirburði í sínum leikjum um helgina (ótrúlegt en satt miðað við andstæðinga og að City var á útivelli). City skoraði sex, Liverpool eitt. Peningarnir tala.

 8. Flottur pistill og góð greining á þessu Manchester City liði.

  Ég verð samt að viðurkenna það, að ég gleðst nákvæmlega ekkert yfir þessum úrslitum gærdagsins. Ég veit, Manchester United eru mínir erkióvinir því ég er stuðningsmaður Liverpool og allt það, en samt sem áður get ég virt það við mína erkióvini að þeir eru með liðsheild. City hefur ekkert slíkt. Þeir hafa keypt gommu af heimsklassaleikmönnum, henda þeim inn á völlinn og auðvitað eiga þeir að vinna sína leiki. Þeir eru bara með það góða leikmenn.

  Það sem Manchester United hefur er liðsheild. Enginn heldur því fram að Evans, Smalling, Fletcher, Park, Anderson, Carrick eða Welbeck séu stórstjörnur knattspyrnuheimsins, já eða bara heimsklassaleikmenn. Ástæðan fyrir því að þeir eru sigursælasta liðið síðustu ár (áratugi) er liðsheildin. Þeir hafa ekki spanderað tugum milljónum punda í leikmenn, að því virðist aðeins til þess að önnur lið geti ekki fengið þá. Það hefur City gert, og fyrir það get ég virt Manchester United (þó ég fyrirlít félagið sem slíkt og allt sem því tengist).

  Höfum líka í huga að dagurinn í gær var sennilega stærsti dagur í sögu Manchester City. Einn sigur. Glæsilegur sigur, en samt fengust bara eitt stig og ekkert meira. Engin meiri peningur í kassann fyrir stórkostleg úrslit fyrir þá, ekkert meira “respect” (ef ég tala bara út frá mér og mínum kunningjahóp, sem þó er býsna stór og út um allan heim). Bara einn sigur, 3 stig og efsta sætið (tímabundið) í deildinni.

  Ef við ætlum að bera ManCity við eitthvað annað lið þá yrði það án efa Real Madrid á Galatico-tímabilinu. Liðið varð faktískt gjaldþrota á því, en er svona svipað og íslenska bankakerfið var – of stórt til þess að mega falla. Það gekk vel hjá Real á sínum tíma, færði liðinu góða sigra, bæði í deild og meistaradeild, en í dag eru þeir alltaf tveimur eða þremur skrefum á eftir besta liði heims, Barcelona.

  Ég skal alveg typpa á að ManCity verði meistari í vor. Fyrst Real Madrid gat það með sínar stjörnur, af hverju ekki ManCity? En sannið til, líkt og Real (og Chelsea!) þá verður þessi velgengni ekki langlíf. Ég er svo viss um það að ég gæti lagt nafnið mitt að veði.

  Hitt er svo annað mál að þetta flækir málin allsvakalega fyrir Liverpool. Eflaust eigum við eftir að upplifa það að sykurpabbarnir muni veifa óútfylltum tjékka fyrir framan nefið á okkar skærustu stjörnum, og líklega munu einhverjir láta glepjast að því. Og við munum bölva þeim í sand og ösku, því við trúum því að það sé miklu skemmtilegra að vinna titil með liði sem fórnar blóði, svita og tárum fyrir það heldur en með (hér var ég búinn að skrifa heilmikla bölræðu um sálarlausu liðin ManCity, Real, Chelsea og fleiri, en ákvað að láta það ekki flakka!).

  Homer 

 9. Mig minnir að á síðasta tímabili hafi Chelsea líka “verið búið að vinna deildina” um þetta leiti… það fór nú ekki alveg svo

 10. Vil nú koma einu að sem United-maður (aldrei hélt ég að ég myndi upplifa daginn sem Homer ber blak af mínum mönnum) 🙂
   
  Það er rétt að United hefur í gegnum árin verið með menn inni á vellinum sem eru langt frá því að vera stjörnur en þekkja algjörlega sitt hlutverk og skila því með sóma. Það sem hefur hinsvegar verið lykillinn að velgengninni er sú staðreynd að United hefur alltaf verið með HEIMSKLASSA leikmenn í bland við skussana.
   
  Cantona, Keane, Giggs, Nistelrooy, Ronaldo, Tevez, Beckham, Ferdinand o.fl eiga það sameiginlegt að hafa verið meðal bestu leikmanna heims í sínum stöðum þegar þeir voru upp á sitt besta. Hvað býður United upp á núna?  Í fljótu bragði sé ég bara 2 leikmenn sem gætu hugsanlega flokkast sem heimsklassa-leikmenn (Rooney og Vidic).
   
  Svo hefur United vissulega eytt helling af peningum en munurinn á þeim og Liverpool (sem hefur síst eytt minna undanfarin ár) er að United borgar frekar stóra upphæð fyrir einn leikmann (Rooney, Rio, Berbatov, Nistelrooy o.s.frv) en Liverpool hefur reynt að kaupa einhverjar kippur af lala leikmönnum.
   
  City eru flottir núna en ég bíð spenntur eftir því að sjá þá svona ferska á frostbitnum janúardegi gegn Stoke, Bolton, Sunderland og svoleiðis hestum.

 11. ManUtd vann Arsenal 8-2 fyrir skömmu.  Það er of snemmt að krýna City deildarmeistara.  

  Chelsea á hellings pening, og nýjan þjálfara. 

  Bendi á að 9 lið hafa orðið Franskir meistarar, þrátt fyrir að Lyon hafi unnið 7 titla í röð, á sama tíma og 4 PL meistarar hafa verið krýndir.  

  Enska deildin hefur ekki verið spennandi síðan 1997.  

   
   

 12. Ég verð nú bara að segja að mér finnst bara ekkert sorglegt eða að því að sjá Manchester United tapa 1-6 . Alveg sama hvort það sé lið sem á fullt af peningum.. Þegar Manure tapar , þá er það bara sweeeeeeeeeeeet….. 
  Í raun er það ekkert nýtt að deildinn er á leið til helvítis.. það hófst þegar ólíukóngurinn frá Rússlandi byrjaði að kaupa allt sem hreyfðist. Og þetta kemur til með að halda áfram þrátt fyrir þessa nýju reglugerð hjá UEFA. Menn finna bara leiðir í kringum hana. 
  Svo má líka alltaf spyrja sig að einu….. Ef við Liverpool menn værum í sömu stöðu og M.C. … værum við þá að ræða þessa hluti ? 

 13. Breiddin á City liðinu er hreint út sagt ógurleg, Nasri (flestar stoðsendingar to date) og Dzeko (næst markahæstur) koma inn af tréverkinu og eiga svo Tevez einhvers staðar í fýlu á kantinum, besti leikmaður deildarinnar í fyrra. Reyndar er ég sammála Nýliðanum hér að ofan að það verður fróðlegt að sjá Suður Evrópu og Ameríku búana í janúar í rúllukragapeysu með lopavettlinga reyna að spila samba bolta í Stoke-on-Trent á gaddfreðnu grasteppinu í roki og hagléli. Leikurinn í gær voru þó þau tímamót sem komu City á heimsklassastallinn, verður því miður að viðurkennast. Ég vonaðist alltaf til að þetta myndi hrynja í sundur þar sem liðsheildin væri engin, en gæðin í Silva, Aguero og félögum eru hreint út sagt mögnuð og eru að skila sér í massa liði. Ef við ættum bara megaplaymaker eins og Silva, jafnvel í staðinn fyrir vinstri fótar Skotann okkar, þá værum við í toppmálum…

 14. Sorglegt að horfa uppá þetta. Griðarlega dýrmætt að ná 4. sætinu og þess vegna vona ég að eigendurnir gefi rausnarlega sumu til að kaupa gæðaleikmenn í janúar. Og þá er ég ekki að tala um Englendinga sem eru yfirborgaðir. (Carroll, Downing, Henderson)

  Ef þetta heldur áfram sem horfir eru City að fara að skapa sér rosalega sögu. Líkt og við gerðum á 7 og 8 áratugnum.

 15. Það sem að margir horfa ekki í er að City era ð búa til einhverja rosalegustu akademíu sem að sögur fara af og í góðum tengslum við borgarbúa í manchester. Held að það stefni allt í að þeir verði Barcelona Englands ef að það er hægt að tala um þannig ;=)

  Svo leka þessir peningar alltaf til annara liða og þá hafa þau kannski efni á betri erlendum leikmönnum og betri aðstöðu til að ala upp leikmenn .

 16. Og talandi um City og þar af leiðandi Balotelli 

  http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=116518

  klárlega einn fyndnasti karakter í enska boltanum og ef að hann heldur áfram hjá city og heldur áfram að verða betri verður hann klárlega goðsögn í enska boltanum.

  http://www.youtube.com/watch?v=5FZ6X_hnuNE 

  Oh Balotelli he’s a striker…He’s good at darts(1)/He’s allergic to grass (2) but when he plays/ He’s fucking class.Drives round Moss Side/ with a wallet full of cash(3)/Can’t put on his vest (4)/ But when he does he is the bestGoes into schools (5)/ Tells teachers all the rulesSets fire to his gaff (6)/ With rockets from his bathDoesn’t give a fuck/ Cos he did it for a laughRuns back to his house (7)/ For a suitcase full of cashOh Balotelli …

   
   

 17. @Kop.is getið þið vinsamlegast eytt út ummælum frá manu aðdáendum hér að ofan, brýtur reglur um þráðrán og óvönduð innlegg + talað um manu leikmenn í hástöfum!

  @tryggvi páll: réttlætingar og afsakanir hjá þér, manu voru mjög kokhraustir fyrir leik en kvarta eftir á. ég sá leikinn og manc rúllaði þessu upp. mun betri skipulag í fyrri hálfleik og kláraði dæmið með stæl í þeim seinni. manu er bara með slaka vörn, slaka miðju, gamlan þjálfara og slakan markmann punktur

  @Maggi vinsamlegast ekki grenja töð manu… sápaðu á þér munninn eins og skot! það mun taka city amk 20 ár að komast með tærnar að hælum LFC en manu er nú þegar jafnfætis LFC. og city eru ekki erkifjendur LFC. city eru með fín nöfn á pappír en það þýðir ekki að LFC geti ekki unnið á næsta ári!

 18. Svo að það sé á hreinu þá vorkenni ég ekki United.
   
  Ég er bara á því að eigendur City muni leika sér svona áfram, því ég held að yfirvöld UEFA ráði ekki við að stoppa þá af.  Það sem ég auðvitað hef mestar áhyggjur af er að því að þróunin sem hefur orðið til þess að Chelsea og City geta bara sópað til sín mönnum með háum launasamningum muni einfaldlega höggva skörð í okkar hóp áfram eins og hingað til.  Í tilvikum Torres, Meireles og Benayoun voru þessir leikmenn allir að hækka laun sín verulega og það var auðvitað aðalástæðan fyrir því að þeir fóru. 
  Alveg eins og John Terry ætlaði að fara til City þangað til Chelsea gaf eftir og fór að borga honum sömu laun og City hafði boðið.
   
  Ég ætla ekki að mála skratta á vegg, en hef vissulega áhyggjur af því að þau fjögur lið í heiminum sem virðast ekki þurfa að velta fyrir sér hvað leikmenn kosta eða hvaða laun þurfi að borga þeim fari í okkar besta leikmann t.d. í janúar ef að við verðum utan við topp fjögur þá og erum ekki tilbúin að eyða grilljónir í laun.
  FSG hafa tjáð sig mjög ákveðið að þeir ætli ekki að borga “silly money” í kaupupphæðir eða laun.  United gafst að lokum upp fyrir Chelsea á sínum tíma og áttaði sig á því að til að berja þá af stallinum urðu þeir að gera Ronaldo glaðan, kaupa svo Tevez og borga stóru nöfnunum sínum laun á við á Brúnni.
   
  Ekki einu sinni United getur keppt við City í launum og það munum við ekki geta ef að nýju fjármagnsreglurnar verða ekki látnar gilda.
   
  Það er innihald pistilsins – fótboltalið sem eru leikföng manna sem þurfa ekkert að hafa áhyggjur af peningaútlátum munu alltaf ná árangri í skamman tíma og þá er ég á því að þau skaði mest þau lið sem að eru að reyna að búa til afrekslið á aðeins lægra budgeti.  Þá er einfaldast að horfa á brotthvörf leikmanna Liverpool og Arsenal til þessara “ensku” leikfangaliða undanfarin 2 ár…
   
  Þó svo ég sé kannski alveg jafn hræddur um brotthvarf okkar besta manns til annars spænska risann, sem þó eru báðir tæknilega gjaldþrota, spáið í það!

 19. Það er semsagt ljóst að ef menn ætla að halda með Liverpool þá verða menn að gera það á sömu forsendum og stuðningsmenn Soke og QPR og Þróttar. Og það þýðir svo að eftir svona tvo áratugi þá verða bara miðaldramenn og eldri sem styðja munu við bakið á Liverpool.

 20. Það er alveg inntak í pistlinum og ég átta mig alveg á því að það er sárt að þurfa að horfa á eftir uppáhaldsdrengjunum sínum í önnur lið. Þetta er samt engin breyting frá því sem áður hefur verið. Munurinn núna er einfaldlega sá að það eru færri lið að eyða meiri og meiri pening í færri og færri leikmenn og frá stærri og stærri liðum. Við erum ekki vanir því sem hefur sést á síðustu árum að menn hafi viljað fara frá liðinu til “stærri” liða. Alonso, Arbeloa, Torres, Meireles og Mascherano eru leikmenn sem væru enn lykilmenn hjá Liverpool ef þeir væru þar ennþá.

  Ég sé ekkert sérstakan mun á því að Chelsea kaupi Meireles frá Liverpool eða Man City kaupi Nasri frá Arsenal eða hvort Liverpool kaupi Henderson frá Sunderland eða Adam frá Blackpool. Við verðum bara að feisa það að City verður í þessu næstu árin. Og það verður puð að halda í bestu leikmenn okkar. En svo munu þessir eigendur missa áhugann og vilja reka þetta balanserað eins og við höfum séð hjá Abramovic hjá Chelsea. Þá má heldur ekki gleyma því að peningarnir hverfa ekkert þegar Man City kaupa leikmenn. Þeir ganga til þeirra liða sem þeir kaupa frá og þau lið ættu með klókindum að geta nýtt peningana betur en Man City gerir. T.d. Ef Arsene Wenger hefði áhuga á að bæta liðið sitt með innkaupum gæti hann hæglega notað milljónatugina sem hann fékk fyrir Nasri, Fabregas og Clichy til að styrkja lið sitt til muna, gæti keypt 5 háklassa leikmenn fyrir þá aura.

  Ég kynntist eitt sinn Everton manni á ferðalagi og það sem fór mest í taugarnar á honum við aðdáendur Liverpool var það viðhorf þeirra að þeir ættu “god-given-right-to trophys”. Ég sagði honum að jú, mér fyndist við eiga það. En ég hef síðustu ár skilið betur og betur hvernig er að halda með liði sem vinnur sjaldan, vinnur kannski bikarkeppni öðru hvoru og það lyftir móralnum verulega. Þetta er kannski bara því miður nýr veruleiki fyrir okkur aðdáendur Liverpool og kannski er það bara hollt fyrir okkur. Síðan værum við ekki að fjalla um þetta á þennan hátt ef einhver svona olíubarón hefði keypt Liverpool. Þá værum við í gleðilandi og myndum líklega gefa lítið fyrir svona umræðu. 

 21. Financial Fair reglan mun held ég skila litlu en það sem ég held að mundi gjörbreyta deildinni er launaþak.

 22. Ég naut þess að horfa City valta yfir United á Trafford um helgina, þetta er kannski eitthvað sem maður mun aldrei upplifa aftur… og ég vona að þeir vinni deildina.

  Mér er hinsvegar mjög ílla við það vald sem peningarnir hafa í boltanum og hvernig eigendur City spila leikinn… Launaþak er t.d. klárlega eitthvað sem væri vert  að skoða í þessari deild og fleiri deildum.

  …Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég vil að þeir vinni deildina;.. Á meðan ég sé Liverpool ekki eiga mikinn séns á að vinna deildina þá vil ég mikið frekar sjá City eða Chelsea vinna en Utd… Auk þess held ég að það verði lítið gert til að stöðva Peningastefnu city-manna fyrr en þeir eru farnir að valda miklum usla (lesist: vinna titla).

 23. Hafið ekki áhyggjur.  

  Abramovich er fyrir rétt í London í spillingarmáli sem gæti tekið áratugi að þvælast um dómskerfið og mun hugsanlega enda með eignarupptöku, frystingu eigna, sektum og ef ekki, þá munu mörg ár í réttarsal hafa áhrif á ímynd hans og fjárhag.  Svo Chelsea mun aldrei fá neina óeðlilega innspýtingu fjár.

  Hvað varðar Bin Zayed eiganda Man.City.  “Arabíska vorið.” mun banka uppá fyrr en síðar í þessu spillta örríki þar sem hann er prins.  Þegar það gerist hefur hann um mikilvægari hluti að hugsa en að spila fótbolta á tölvuna.  Þá gæti svo farið að stjörnur liðsins yrðu seldar með afslætti og þyrftu jafnvel að taka á sig miklar launalækanir.

  Kannski LFC nái eftir allt saman í Aguero? 

 24. Sælir allir Liverpool og einhverja hluta vegna United menn !
  Gaman að sjá hversu mikla athygli mínir menn fá hjá ykkur.
  Peningar Peningar, jú City væru ekki þar sem þeir eru í dag án peninga.
  Ekkert stórlið nein staðar væri þar sem það væri í dag án peninga.
  Ég skil ekki og mun aldrei skilja afhverju mönnum finnst þetta vera eitthvað nýtt.  Legg til að menn fái sér kaffi í hönd og lesi sögubækurnar.
  Afhverju hefur City eytt svona miklum pening á svona skömmum tíma ? Svarið er einfalt , meistaradeildin og sú sérstaða sem topplið hvers lands hefur skapað sér eftir að meistaradeildinni með öllum sínum peningum var sett á stað.
  Ef á að byggja upp topplið í dag þá þarf að komast í meistaradeildina , þar eru peningarnir þar vilja bestu leikmennirnir spila og þar eru bestu liðin. Og eina leiðin til að komast þangað og halda sér þar er fárfesting í topp leikmönnum og þeir kosta peninga.
  City var ekki stofnandi að meistaradeildinni en eftir að hún kom varð bilið á milli topp og hinna meiri.
  En nóg um það menn geta alveg haft sína skoðun á því hvað er að eyðileggja fótboltann og hvað ekki.
  Það lið sem Mancini hefur sett saman er að mínu viti money well spend.
   
  24 mills fyrir Silva  
  35 mills fyrir Aquero 
  7 mills fyrir Clichy
  6 mills fyrir Kompany
  23 mills fyrir Balotelli
  Auðvita eru aðrir sem voru alltof dýrir hjá okkur , þið ættuð nú að þekkja það , 35 mills varamaður ??????
  Það sem ég horfi á þegar ég horfi á liðið mitt sem ég hef haldið með í gegnum súrt og sært , er stórkostlegur fótbolti og oft einn sá besti sem ég hef séð í enska boltanum og að núna sé komið lið sem getur hugsanlega veitt United almennilega keppni næstu árin hlýtur að vera gott fyrir fótboltann eða er ekki komið nóg af 20 ára einokun United í enska boltanum ?
  Fyndið að menn haldi virkilega ennþá að það sé enginn liðsheild í liði City.  Þannig að liðið er búið að skora 33 mörk og aðeins fá á sig 7 í 9 leikjum með lið fullt af peninga gráðugum ego flippurum sem hugsa ekki um neitt nema sjálfan sig ?
  Smá ábending til Tryggva hér að ofan , snertu City ekki boltann fyrstu 20 mín ? ertu alveg viss ? (nema Milner á 14 🙂 )legg til að þú horfir aftur á leikinn vinur ég veit að það er sárt en þú breytir ekki staðreyndum. City var aldrei ekki frá fyrstu mínutu í hættu á að tapa þessum leik og innst inni þá veistu það, við vitum hvorugir hvernig leikurinn hefði þróast ef Evans hefði ekki farið útaf en með fullri virðingu þá lá það alveg í loftinu að City var það lið sem var að fara vinna þennan leik hvort sem United voru 10 eða 11.

  Ég veit ekki hverjir vinna deildina og dettur ekki í hug að staðfesta hér og nú að City muni valta yfir þessa deild, það eru alltof margir erfiðir leikir eftir. En þangað til mun ég njóta þess að horfa á sálarlausu, peningargráðugu einstaklingana sem eru bara í skítaliðinu City sem hefur enga sögu (http://en.wikipedia.org/wiki/Manchester_City_F.C.) út af peningunum.
  Þvi þrátt fyrir allt þá elska ég góðan fótbolta og það lið sem í dag er að spila lang skemmtilegasta boltann í deildinni er Manchester City.
  p.s
  Því miður þá mun fair play reglan ekki jafna möguleika liða til að ná árangri heldur auka bilið milli þeirra stóru og hinna.  Ef þið sjáið það ekki þá legg ég til að þið kynnið ykkur út á hvað þessar reglur eiga að ganga.
   
   
   

 25. Flottur linkur Þröstur og segir auðvitað það að mínir menn hafa eytt peningum þennan tíma og það er bara ekki nokkur vafi á því.  Langar þó að benda þér á að þessar tölur eru frá í ágúst 2010 og bilið á milli liðanna okkar í nettóeyðslu því aukist töluvert.
  Í janúar eyddu 2011 City 27 milljón meira en þeir seldu en við komum út á sléttu.

  Í sumar eyddu City 52 milljón meira en þeir seldu en við fyrir 27 milljónir.  Það er fyrsti glugginn sem við eyðum meira en við seljum síðan sumarið 2008.

  En auðvitað hefur Liverpool eytt á þessu 20 ára tímabili og ég unni þér því alveg að liðið þitt er að spila skemmtilegan fótbolta, guð á himnunum með það.  Efast ekki um það að þér finnist gaman og þið eigið alveg skilið að gleðjast eftir langa tíð í skugganum.

  En ég ætla samt að hafa áhyggjur af því þegar knattspyrnufélög, alveg eins og önnur fyrirtæki, eru rekin með bullandi tapi (hvað þá ef verið er að feika samninga til að fegra mynd) – því þá er að mínu mati komin upp staða sem verður erfitt að sjá enda vel! 

 26. Ekki gleyma því að City er háð olíuverði, og það getur farið upp og niður. Myndi giska á að ef Brent fer niður fyrir 70/80 $/tunnu þá fara eigendur City að svitna og þrengist að buddunni.

  Þannig að ekki missa svefn yfir þessu og hafið trú á ykkar klúbbi, verið bjartsýnir. 

  Verð að endurtaka ummælin að ofan að mér finnst þið mættuð eyða út lofsyrðum um manu frá þessari síðu og like frá manu aðdáendum á slíkar greinar (tryggvi páll og nýliðinn), eða má umræðan hér vera fyrir alla stuðningsmenn í enska boltanum almennt? Þetta kom líka upp um daginn að tottarar voru með lofsyrði um sitt lið í miðjum leik gegn LFC.
   

 27. Nr. 27 arinbjörn
  Auðvitað er í góðu lagi að stuðningsmenn annara liða segi sína skoðun og sérstaklega í umræðuþræði sem fjallar að mestu um City og United. Þröstur og Tryggvi hafa síðan báðir ef ég man rétt ávallt verið til fyrirmyndar hér inni fyrir utan auðvitað að lofsyngja eða svara fyrir röng lið 🙂

  Tek samt undir pistilinn hjá Magga og mér lýst ekkert á þessa þróun hjá City (ekki frekar en CFC áður). Þeir eru með tvö góð lið á gríðarlegum launum og finna ekki fyrir því þó svo einn og einn Tevez sé ekki með í lengri tíma. Hárrétt samt hjá Þresti að til þess að koma miðlungliði í hóp þeirra allra bestu á skömmum tíma þarf að dæla peningum í liðið. Það breytir því ekki að þetta virkar á mann eins og svindl í Football Manager og frekar óverðskuldað.

  Fyndið að menn haldi virkilega ennþá að það sé enginn liðsheild í liði City. Þannig að liðið er búið að skora 33 mörk og aðeins fá á sig 7 í 9 leikjum með lið fullt af peninga gráðugum ego flippurum sem hugsa ekki um neitt nema sjálfan sig ?

  Þó það nú væri að þessir menn geti spilað góðan fótbolta og finnst það mjög gaman meðan vel gengur. Það er gríðarleg samkeppni um stöður og menn ansi vel launaðir þarna svo ég held í alvöru að þú þurfir smá hæfileika til að ná ekki árangri með þennan hóp. Ekki gleyma því að þessi hópur er á örskömmum tíma orðinn svo sterkur að hann getur tapað Carlos Tevez, besta leikmanni síðasta árs, fyrirliða ef ég man rétt og auðvitað peningagráðugum egó flippara án þess að finna fyrir því.  

 28. ok babu.

  ps thetta tidkast ekki a enskum lfc sidum, td rawk thar sem segir skyrt ad sidan se bara fyrir lfc addaendur

 29. Guð minn góður hvað það hlýtur að vera leiðinlegt að hlusta bara á sömu þvæluna aftur og aftur? Til þess að menn geti stundum fengið rétta mynd á hlutina og/eða séð “hina hliðina” á þeim þá verður að koma inn fólk sem heldur ekki með Liverpool. Ef öll lið mundu bara einangra sig með sínum stuðningsmönnum mundu allir enda eins heilaþvegnir og tvítugu drengirnir sem byrjuðu að fylgjast með man united 1999 og hafa bara unnið síðan.

Hverjum eigum við að kenna um næsta tap?

Smá breyting á ummælakerfi