Liverpool: The Complete Record

Eins og við minntumst á í tvígang snemma í sumar voru þeir Arngrímur Baldursson og Guðmundur Magnússon – snillingarnir að baki LFC History vefsins – að gefa út bókina Liverpool: The Complete Record núna 1. ágúst síðastliðinn. Þeir félagar voru svo góðir að senda okkur hjá Kop.is eintak til yfirferðar og tók ég að mér að fara í saumana á þessari bók.

Bara svo það sé á hreinu þá þekki ég þá félaga lítillega í gegnum stuðningsmannaklúbbinn hér heima enda hef ég unnið aðeins með þeim að skrifum fyrir klúbbinn og Liverpool.is hér í den, og í seinni tíð hafa þeir báðir tekið þátt í umræðum hér á Kop.is. Mér finnst rétt að þetta komi fram svo enginn verði að ósekju sakaður um klíkuskap, því þótt ég þekki þá Arngrím og Mumma er ég þeim ekki það tengdur að mér finnist erfitt að gagnrýna störf þeirra. Enda stóð fyllilega til hjá mér að veita þeim málefnalega gagnrýni og benda á allt það sem mér þótti miður fara í þessari bók.

Ég leitaði líka vel og lengi að göllum í þessari bók og verð því miður að segja að ég finn bara enga. Eflaust eru einhvers staðar stafsetningarvillur eða eitthvað sem höfundar hefðu viljað geta gert betri skil fyrir skiladag og útgáfu bókarinnar – slíkt er óumflýjanlegt þegar stærri rit eru gefin út – en ég drakk bókina í mig síðustu tvo daga og hafði bara stórgaman af. Ég get bara ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu ómissandi þessi bók er fyrir alla Liverpool-stuðningsmenn!

Bókin er skemmtilega sett upp. Eftir stuttan inngang höfunda hefst saga Liverpool FC. Sögunni er skipt niður í kafla eftir áratugum og er saga hvers áratugar rakin á mjög skýran og skemmtilegan hátt. Fyrst ætlaði ég bara að glugga í bókinni og lesa um stofnun félagsins en áður en ég vissi var ég kominn fram að stríðsárum. Meðfylgjandi þessum köflum eru töflur yfir lokastöðu deilda á hverju tímabili sem og tölfræði yfir spilaða leiki, skoruð mörk og viðureignir hvers tímabils. Þessi frásögn í réttri tímaröð af sögu klúbbsins tekur mest allan blaðsíðufjöldann en að honum loknum er í lokin heljarinnar uppflettitafla fyrir hvern einasta leikmann í sögu klúbbsins, í stafsetningarröð, og svo loks frekari tölfræði eins og titlar sem félagið hefur unnið og slíkt. Síðast er svo hinn svokallaði heiðurslisti þeirra sem pöntuðu bókina í forpöntun en sá listi er langur og ljóst að mikill áhugi var og er fyrir bókinni.

Það er heldur ekki að ósekju sem áhuginn er mikill. Það starf sem þeir Arngrímur og Mummi hafa ásamt öðrum unnið fyrir LFC History-vefinn er magnað og í raun erfitt að færa í orð hversu mjög sú vefsíða hefur aðstoðað mann við ýmislegt LFC-tengt síðustu árin. Með því að færa sögu Liverpool FC síðan núna yfir í bundið form hafa þeir skapað eiginlegan tvíbura LFC History-vefsins. Ég er nokkuð viss um að ég á eftir að fletta svipað oft í bókinni og ég heimsæki vefsíðu þeirra félaga því hún er stúttfull af skemmtilegum frásögnum og fróðleiksmolum sem finnast ekki hvar sem er og geta komið jafnvel fróðustu Liverpool-mönnum á óvart.

Hver vill til dæmis ekki lesa frábærar dæmisögur af Bill Shankly? Eða hvernig pólitískar deilur ollu því að John Houlding sagði skilið við Everton FC og stofnaði sinn eigin klúbb til að keppa við þrætunauta sína? (TAKK, JOHN HOULDING!) Eða hvernig Liverpool var næstum búið að kaupa Michael Laudrup og Eric Cantona en klúðraði þeim báðum? Eða hvernig Napoli var næstum búið að kaupa Ian Rush en gátu það ekki því forsprakkar Liverpool voru uppteknir við að horfa á Wimbledon-mótið í tennis í London svo að Napoli keyptu Diego Maradona bara í staðinn?

Bókin spannar alla sögu klúbbsins og hér ætti að finnast eitthvað fyrir alla. Ég skemmti mér til dæmis mjög vel við að lesa frásögnina af stjórnartíð Kenny Dalglish á níunda áratugnum og fannst sú frásögn mjög góð og enduróma sérstaklega núna þegar hann leggur upp í nýtt ferðalag með nýtt Liverpool-lið, tveimur áratugum síðar.

Treystið mér. Fáið ykkur eintak. Þessi bók er ómissandi fyrir Púllara og líka besta gjöf sem hægt er að gefa öðrum grjóthörðum Púllurum. Bókin er vegleg – þykk og þung, með fallegri kápu og fer vel í allar heldri bókahillur. Fimm stjörnur frá mér, frábær bók!

Hægt er að kaupa Liverpool: The Complete Record hérna.

24 Comments

  1. Rétt Kristján Atli, þetta ætti að detta inn í þessari viku, við Arngrímur erum báðir ennþá að bíða eftir okkar eintökum!

  2. Gratulerer med superbok! Jeg har noen måneders lesestoff foran meg nå – bra jeg fortsatt har feriedger til gode.

    Kjell

  3. Get ekki beðið eftir því að komast í bæinn og handleika gripinn, og ekki verra að vera á heiðurslistanum

  4. Mann hlakkar bara meir og meir til að fá gripinn í hendurnar 🙂
    Skemmir ekki stemminguna að lesa svona comment um bókina, þó svo ég hafi aldrei efast um ágæti hennar 🙂 

  5. Sigueina, þeir hjá Jóa Útherja ætla að taka bókina inn hjá sér.
     
    Alex, það á hreinlega bara eftir að koma í ljós. Er ekki viss um að það hreinlega borgi sig.

  6. Búinn að gefa frúnni hint að afmælisgjöf. Vonandi fæ ég bókina.

  7. Mig er farið að kitla í puttana. Get ekki beðið. Nokkrir dagar síðan bókin fékk statusinn “shipped”.

    Það er samt leitt að kápan á bókinni hafi ekki verið svört með gylltum texta fyrir miðju sem á stendur “Biblían”. 

  8. verður bókin á sama verði á netinu og hjá þeim í jóa útherja?

  9. Þessi fer á jólagjafalistan í ár þar sem ég var ekki nógu vakandi til að panta mér eintak í forsölu.
     
    En smá offtopic en ég var að lesa viðtal við formann United klúbbsins í fréttablaðinu þar sem hann er að tala um að United klúbburinn þurfi tvo heimavelli þar sem þetta sé nú stæðisti stuðningsmannaklúbbur landsins með 2600 meðlimi. Er ekki alveg öruggt að Liverpool klúbburinn er stærri finnst endilega eins og SSteini hafi talað um að það væru yfir 3000 meðlimir í Liverpool klúbbnum. Er það kannski bara misskilningur.

  10. Auðunn G, þessir tveir klúbbar eru svipað stórir.
    Það hafa aldrei verið yfir 3000 meðlimir virkir en við erum með milli 5000-6000 manns á skrá.

  11. Hljómar mjög spennandi, á eftir að sóma sér vel í bókahillunni og eflaust mörg síðkvöldin sem munu fara í að glugga í  bókina.
    20 pund eru líka gjöf en ekki gjald.
     
    Til hamingju með þetta drengir!

  12. 4 dagar í fyrsta leik og það er bara verið að selja einhverja helv bók  ;  )

  13. Kominn með bókina! Líst vel á gripinn en varð fyrir nokkrum vonbrigðum því ég pantaði tvær bækur í forsölu og lét tvö nöfn fylgja með á List of Honors. Vandamálið er að það var bara annað nafnið á listanum. Ætlaði að gefa bókina í stórafmælisgjöf!  

Opinn þráður – landsleikir, plank og fantasy

Þrjár góðar vefsíður