Heysel: 26 árum síðar

Í dag eru liðin 26 ár frá Heysel-harmleiknum skelfilega. Þann dag létust 39 knattspyrnuunnendur – flestir stuðningsmenn Juventus – þegar veggur á Heysel-leikvanginum í Brussel í Belgíu hrundi í kjölfar óláta milli stuðningsmanna liðanna.

Í dag er öldin önnur. Eftir nokkurra ára bann frá Evrópukeppnum komu ensku liðin – og á endanum Liverpool líka – aftur í keppnirnar og þykja í dag til fyrirmyndar hvað varðar öryggi og háttvísi á meðal áhorfenda á Evrópuleikjum. En það er samt vert að staldra við og minna sig á að það var ekki alltaf svoleiðis og því miður þurftu allt of margir knattspyrnuunnendur að deyja til að eitthvað væri gert í að bæta öryggi áhorfenda.

Hvað klúbbana tvo varðar hafa stór skref verið stigin til að bæta vinasamband klúbbanna á síðustu árum. Leikir liðanna í Meistaradeildinni vorið 2005 skiptu miklu þar um og svo hafa liðin verið dugleg að skipta leikmönnum sín á milli, eins og Ian Rush, Alberto Aquilani, Momo Sissoko og Christian Poulsen geta borið vitni um.

Ef menn vilja lesa sér frekar til um þennan hörmungarviðburð mæli ég sterklega með tveimur greinum: Grein sem Einar Örn skrifaði hér inn vorið 2005 í tilefni af tuttugu ára afmæli harmleiksins og einnig frábæra grein Tony Evans hjá The Times frá því fyrir tveimur árum, en þar skrifaði hann um reynslu sína af því að hafa verið viðstaddur leikinn í Heysel.

Tuttugu og sex ár síðan Heysel, tuttugu og tvö ár síðan Hillsborough. Af góðu og slæmu mega þessir tveir dagar aldrei gleymast. Við sendum Juventus-stuðningsmönnum nær og fjær góðar kveðjur í dag.

7 Comments

  1. Eins og ávallt er það hrein hörmung að sjá fólk deyja langt umfram aldur fram en er það viðeigandi að nota orðið afmæli þegar minnst er á slíkan atburð.

    YNWA.

  2. Já. Afmæli þýðir að það er liðið ár frá því að viðburður átti sér stað. Hvorki jákvætt né neikvætt orð og getur því alveg verið notað í neikvæðri merkingu. Það eru liðin tuttugu og sex ár síðan, það er afmæli. Slæmt afmæli en afmæli engu að síður.

  3. kommon Trausti, jafnvel Hitler átti afmæli .. eins og KAR segir, hvorki jákvætt né neikvætt orð, þó hið seinna sé í þessu tilviki…

Opinn þráður: Barca – Man Utd

Opinn þráður: EKKERT að frétta