Lognið á undan storminum

Aaahh, síðasta vika leiktímabilsins.

Venjulega staldrar maður við á þessum tímapunkti og hugsar með sér hversu fljótt tímabilið hefur liðið. Venjulega eiga klisjurnar allar við. Ekki í þetta sinn, samt. Þetta hefur ekki verið neitt eðlilegt tímabil fyrir Liverpool FC. Man einhver eftir fyrsta deildarleiknum, gegn Arsenal á Anfield í ágúst í fyrra? Eða heimaleiknum gegn Rabotnicki í forkeppni Evrópudeildarinnar, þar sem Joe Cole fór á kostum og David Ngog var sjóðheitur? Þessir leikir virðast í minningunni hafa verið fyrir nokkrum tímabilum síðan.

Sem er líka í rauninni alveg satt. Það má nánast segja að Liverpool hafi spilað þrjú leiktímabil í ár – þrjú löng, erfið og flókin leiktímabil. Fyrsta leiktímabilið spilaðist út yfir tveggja vikna brjálæðisglugga í upphafi október þegar klúbburinn skipti loksins um eigendur. Hvað svo sem var afrekað innan vallar, eða á hliðarlínunni, í vetur þá var þetta mikilvægasti sigur liðsins á þessu tímabili. Þetta var svo mikilvægt að við vorum til í að sjá liðið fá á sig níu stiga víti og eiga möguleika á að falla, ef við bara losnuðum við kúrekana. Sem betur fer kom ekki til þess.

Annað tímabilið var svo leikið innan vallar undir stjórn Roy Hodgson. Það voru langir sex mánuðir, ekki síst af því að það var ljóst eftir tvo þeirra að hann var kolrangur maður í starfið að nærri því öllu leyti. Síðustu fjórir mánuðirnir fóru í að þola leiki liðsins, reyna að líta ekki undan öllum hryllingnum sem átti sér stað innan vallar og bíða eftir að einhver linaði þjáningar okkar. Það gerðist loks í janúar, u.þ.b. tveimur mánuðum of seint til að bjarga tímabilinu en betra er seint en aldrei.

Þriðja tímabilið hófst svo laugardaginn 8. janúar þegar Hodgson var loks látinn fara og nýju eigendurnir hringdu í King Kenny, sem þá var staddur um borð í skemmtiferðaskipi undan ströndum Dubai. Þyrla henti honum í land þar sem einkaflugvél beið eftir honum og tæpum sólarhring seinna var hann mættur, svefnlaus og brosandi, á hliðarlínuna með liðinu. Hann datt út úr bikarnum þann fyrsta sólarhring og það tók hann þrjá deildarleiki að fá liðið til að vinna á nýjan leik en síðan þá hefur uppgangur liðsins verið með ólíkindum. Svo miklum ólíkindum að við eigum, fyrir lokaumferðina, möguleika á Evrópusæti á næstu leiktíð.

Þrjú löng og ströng tímabil. Fyrst réttardramað í október, svo pyntingarstormur Roy Hodgson og svo loks gylltur himinn King Kenny. Þvílíkur rússíbani.

Á sunnudaginn spilum við lokaleik við Aston Villa, á útivelli. Knattspyrnustjóri þeirra er fjarverandi vegna veikinda, eitthvað sem við þekkjum vel þegar Gérard Houllier er annars vegar. Í hans stað stýrir önnur Liverpool-goðsögn, Gary McAllister, liðinu af hliðarlínunni. Þá verða inná vellinum tveir leikmenn sem við höfum verið orðaðir sterklega við, þeir Ashley Young og Stewart Downing. Villa-liðið er að spila vel þessa dagana, unnu Arsenal á útivelli um síðustu helgi, og sigla lygnan sjó fyrir lokaumferðina, á meðan okkar menn munu reyna að vinna til að ná í Evrópusætið.

Þessi síðasta vika er yfirleitt frekar róleg. Fjölmiðlar einbeita sér að fallbaráttunni og/eða titilbaráttunni og svo eru úrslitaleikir Evrópukeppnanna í gangi. Menn horfa ekki mikið á Liverpool eða Tottenham í 5.-6. sætinu og er það vel. Dalglish fær vinnufrið þessa vikuna en hann endist ekki mikið lengur en fram á mánudag. Þegar er haugur af nöfnum leikmanna byrjaður að birtast á Twitter og sumum af verri slúðurmiðlunum og það er ljóst, miðað við sumarið sem er í vændum, að gula pressan á eftir að setja í yfirdrif og beina öllum augum að Liverpool strax eftir helgina.

Þrjú tímabil á einum vetri. Baráttan um Evrópu útkljáð á sunnudaginn. Eftir það tekur við sumarið sem við höfum öll beðið eftir. En fyrst skulum við njóta lognsins á undan storminum, njóta þess að þurfa bara að pæla í því hvaða leikmenn eru heilir fyrir næsta leik og hvort Andy Carroll nær að skora. Sirkusinn hefst svo á mánudaginn.

24 Comments

  1. er einhver annar en ég sem fær kaldan svitahroll niður bakið, bara við mynd af ömmu gömlu aka woy hodgson ?

  2. Held við verðum að senda okkar mann Viðar Skjóldal til Liverpool að fylgjast með leikmannamálum, sá var heitur hérna á kop.is í janúar.

  3. Best að fara að undirbúa sig andlega fyrir átökin haha…. Annars flottu pistill! Segir mikið til allt um hvernig manni hefur liðið á þessu tímabili!

  4. Mjög góður pistill !

    Vona nú svona innst inni að menn séu búnir að vera að vinna heimavinnuna sína undanfarið og við klárum okkar kaup mjög fljótlega. Hef ekki hjartað í að lesa í allt sumar um hina og þessa sem eru annaðhvort að fara, koma eða bara fara. 97% bull yfirleitt.

    En samt, hvað hefur maður svosem annað að gera….

  5. Flottur pistill og þrátt fyrir allann þennan rússíbana þá er óhætt að segja að maður er töluvert bjartsýnni nú heldur en á sama tíma í fyrra. Núna er engin spurning um það hver muni stýra liðinu og það sem mikilvægara er við höfum alvöru eigendur. Liðið endar tímabilið ágætlega sem gefur góð fyrirheit fyrir næsta ár og maður vonar að hópurinn verði styrktur núna, eitthvað sem maður sá ekkert frekar í pípunum fyrir 12 mánuðum.

    Það er þó ljóst að brúðkaupsferðinni hjá King Kenny og stuðningsmönnum Liverpool lýkur á sunnudaginn. Á mánudag tekur alvaran svo sannarlega við og í ágúst fær hann að reyna sig með eðlilegt Liverpool lið, lið sem er undir pressu og á að skila árangri. M.ö.o. mun meiri væntingar heldur en við vorum með i janúar.

    Ekki að ég hafi áhyggjur af því, kíkið á ferilinn hjá blessuðum manninum, við verðum ekkert í fallbaráttu í janúar neitt.

  6. Opnar sumar glugginn á mánudaginn og lokar síðasta dag fyrir næstu umferð eða ??
    Hvernig er þetta nákvæmnlega?
    google gefur mér alskonar svör

  7. Nei opnar hann ekki bara 1. júlí og stendur til 31. ágúst…minnir það

  8. Opinberlega er glugginn frá 1. júlí til 31. ágúst, en liðin geta samt byrjað að versla leikmenn strax þó það verði ekki gert formlega fyrr en 1. júlí

  9. Glugginn opnar alltaf á Englandi eftir síðasta leik tímabilsins og lokar 31. ágúst/1. sept. Undantekning er að mánaðarmótin eru yfir helgi og þá er hægt að extenda á næsta mánudag.

  10. Mér finnst eitthvað svo rangt við það að Real Madrid kaupi Altintop

  11. Mér finnst þetta vera góðar pælingar hjá Steve Clark. Hann ýjar að því að það verði leitað eftir 2-3 þremur nýjum mönnum en um leið verði engin örvænting í gangi. Ef að ekki fást almennilegir menn verði byggt á þeim grunni sem fyrir er. Þetta er sálfræðilega sterkt hjá honum því það er ljóst að það verður hart barist um bitana í sumar og því má ekki senda þau skilaboð að Liverpool verði getulausir ef ekki komi til nýir menn. Þess þá heldur, má ekki falla í þá gryfju að kaupa einhverja miðlungsleikmenn bara af því að það “verði” að fá inn breytingar.

  12. Friðgeir Ragnar.

    Heyrðu ég er klár bara hvenær sem er til þess að pakka í einn bakpoka og taka næsta flug til Liverpool borgar og skal glaður vera þar í marga mánuði ef þú og kannski fleiri opnið veskin og borgið undir kallinn, í staðinn skal ég láta vita af öllu því helsta sem er í gangi auðvitað. Það var allavega nóg um að vera þegar ég var þar í janúar….. Uss annars er held ég alveg nóg að lesa ruglið í blöðunum þessa dagana svo maður verði nú ekki í borginni líka, í Liverpool borg eru leigubílstjórarnir líklega nú þegar búnir að staðfesta nokkra alvöru leikmenn til klúbbsins.

  13. Sumarid er timinn , søng einhver snillingurinn 🙂  Og hefur thad ekki verid svo fyrir LFC menn sidustu tuttugu arin ?   Er thad ekki alltaf næsta timabil sem LFC ris til fyrri frægdar ?    Eg held reyndar personulega ad LFC endi ørugglega i topp fjorum næst…Thad eina sem tharf er einn øflugan midvørd og einn eda tvo wingera…En thad verdur gaman ad lesa bresku sludurblødin thetta sumarid thvi allir ætla ad styrkja sig….Nema minir menn 🙁

  14. A.yong tilboð á borðinu.
    20.m og jovanovic í skiptum fyrir e.Hazars.
    Listinn er margar blaðsíður af slúðri og ég held að meðan enginn af pennunum er í 8 tíma vinnu á kop.is er ekki möguleiki að setja saman lista yfir alla þessa leikmenn sem eru orðaðir við LFC.
    Man Liverpool.is var alltaf með svona “hverjir gætu komið” en þeir hafa ekki einu sinni lagt í það núna.
    Við lesendur gætum svosem sett inn linka til að hafa eitthvað að ræða um á þessum spennandi tímum, enda eru nu ekki margir leikir á næstunni til að eyða tímanum í.

  15. Di Stefano, ég get glatt þig með því að Óli Haukur er að vinna að einum “Hverjir gætu komið” pistli sem mun væntanlega birtast á liverpool.is.

  16. Þetta met hjá Skrtel er mjög áhugavert og frábær árangur. Tímabilið hjá Skrtel er búið að vera kaflaskipti. Undir stjórn Hodgson átti hann marga skelfilega leiki og átti sök á mörgum mörkum. E.t.v. mátti rekja það til skorts á sjálfstrausti og lélegs skipulags á varnarleik liðsins. Eftir að Dalglish tók við ásamt Clarke þá hefur Skrtel átt mjög góða leiki og verið sá leikmaður sem hefur vaxið hvað mest. Svo virðist að aðdáendur Liverpool séu búnir að taka hann í sátt þar sem maður hefur ekki heyrt nokkurn mann vera væla undan honum síðan í janúar. Ef hann heldur áfram á þessari braut er ekki ólíklegt að Dalglish og Clarke haldi tryggð við hann í miðvarðarstöðunni.

Captain Fantastic

Opinn þráður – Innkaupalistinn