Liverpool tekur á móti Braga (Brynjars?)

Það er mér sannur heiður í tilefni af næsta leik okkar manna að segja fyrstur frá sögu eins af mínum uppáhalds vinum, hans Braga og forfeðra hans.
Hann er nefnilega ekki bara þessi saklausi Kópavogsbúi sem tilbiður Breiðablik næstum jafn heitt og Liverpool og gleymir alltaf bílnum sínum á Players um helgar. Nei hann á ættir að rekja til Gallíu Gallisíu, nánar tiltekið til borgar sem nú telst til norðurhluta Portúgals og var skírð í höfuðið á okkar manni. Borgin sem er í dag þriðja stærsta borg Portúgals er jafnframt sú elsta í landinu og er í raun ein elsta borgin í heimi í þeim hluta heimsins sem aðhyllst hefur kristna trú og hefur sögu sem nær lengra aftur en tímatal okkar ræður við.

Fyrir Krist var svæðið undir stjórn keltnesks ættbálks forfeðra Braga sem kallaður var Bracari. Rómverjar undir stjórn Ágústus náðu völdum á þessum slóðum rétt áður en Jesús Kr. Jósepsson fæddist. Þeir voru afar herskáir og náðu yfirráðum yfir svæði sem þeir kölluðu Gallíu Gallisíu (sjá umræður) og náðu völdum í öllum borgum og bæjum á gervöllu svæðinu … nema auðvitað í litlu þorpi við sjávarsíðuna sem þeir náðu aldrei, hjá frændum Braga, fyrirmyndum og fóstbræðrum í Gaulverjabæ. En glöggir menn sjá það auðveldlega að margt er líkt með þeim Ástríki og Braga Brynjars, bæði í útliti og að því leyti að þeir færast allir í aukana fái þeir töfraseyðið (fæst á Players í tilfelli Braga og hann fær það með sanngjörnum afslætti).

En í Gallíu Gallisíu var borgin Bracara Augusta (sambland af nöfnum Bracari fólksins og Ágústus) gerð að höfuðborg á þriðju öld og var það þar til Rómverjar misstu völdin og heimsveldi þeirra féll. Germanskir þjóðflokkar náðu um tíma völdum á Íberíuskaganum áður en Hispanía (í dag Portúgal og Spánn) var mynduð og latneskir þjóðflokkar náðu völdum.  Á 6. öld fluttu þeir erkibiskupsstól til borgarinnar og var borgin miðstöð kristnitöku á svæðinu og í gegnum söguna hafa fjölmargir frægir biskupar setið þar. Mikið er um merkilegar kirkjur og slíkt í Braga en það er ekki hægt að ljúga því að saga borgarinnar sé eitthvað voðalega krafsandi þrátt fyrir að hún sé afar löng, þá er ég t.d. að meina að það er ekkert eins og þeir hafi fundið upp pizzuna neitt.

Biskuparnir voru þó ávallt með völdin í borginni og á 16.öld fór frændi Braga, erkibiskupinn Diogo de Sousa fremstur í flokki við mikla nútímavæðingu á borginni, breikkaði götur, lét reisa kirkjur og fleira í þeim dúr. Framkvæmdir sem ennþá má sjá ummerki um enn þann dag í dag.

Síðustu aldir hafa verið misgóðar fyrir Braga, á 18. öld var hún byggð mikið upp að nýju, á 19. öld mætti her Napoleons Bónaparte sem náði yfirráðum um tíma á svæðinu og á 20. öld fóru brasilískir innflytjendur að hafa áhrif á menningu og arkitektúr borgarinnar.

Þessi hrærigrautur hefur skilað af sér borg sem í dag er stundum talað um sem hina portúgölsku Róm vegna trúarlegs arkitektúrs ef svo má segja og er ein fallegasta borg Portúgal í dag og miðstöð viðskipta og menningar í norðurhluta landsins. Það er allt morandi í kirkjum og byggingum sem tengjast trúmálum á einhvern hátt í Braga og borgaryfirvöldum er mjög umhugað að viðhalda arkitektúr borgarinnar og hafa t.a.m. bannað byggingu háhýsa.

Arco da Porta Nova var eitt sinn hliðið inn í borgina

En eins og lesa má milli línanna þá er saga Braga drepleiðinleg með alla sína biskupa og kaffilepjandi arkitekta og því þurftu þeir að gera eitthvað skemmtilegt. Forfeður Braga voru þó ekkert að stressa sig á hlutunum og stofnuðu ekki fótboltalið fyrr en árið 1921. Reyndar ekki alveg við Braga greyið einan að sakast því eiginleg deildarkeppni í Portúgal hófst ekki af viti fyrr en 1938.

Búningar félagsins voru auðvitað grænir til að byrja með enda Blikinn Bragi með þetta allt á hreinu og hugsunin í kringum félagið var svo falleg að í merki félagsins má sjá bæði Maríu Mey og Jesúbarnið. Nafn félagsins er Sporting Clube De Braga en það fengu þeir frá öllu þekktari keppinautum sínum í Sporting frá höfuðborginni Lissabon sem þeir eru nefndir eftir.

Saga félagsins er þó ekki alveg óflekkuð því ótrúlegt en satt þá heilluðust forráðamenn félagsins mikið af Arsenal og þá sérstaklega búningum þeirra. Rétt eins og var upp á teningnum hjá Sparta Prag sem við fórum yfir fyrir stuttu. Þeir voru þó öllu seinna á ferðinni í London og búningunum var ekki breytt í rauða fyrr en 1946 og hafa verið þannig síðan. Þá erum við að tala um rauða og hvíta eins og Arsenal hefur verið þekkt fyrir að spila í en ekki þessa vínrauðu sem Sparta Prag ílengdist í.

Líklega hafa Bragi og hans fólk eitthvað misst tökin á fótboltaliðinu um tíma því enn þann dag í dag er liðið þekkt undir viðurnefnum eins og Arsenal do Minho (Borgin Braga er í Minho) eða Os Arsenalistas þar sem þeir spila í samskonar búningum og Arsenal. Að auki hafa þeir verið þekkir undir viðurnefninu Os Arcebispos sem er líklega meira viðeigandi enda merkir það auðvitað erkibiskuparnir sem er beintengt við biskupsstólinn sem hefur verið í borginni í margar aldir. Þriðja viðurnefni félagsins og einn eitt sem tengt er sögu borgarinnar er Bracarenses sem er dregið Bracari þjóðflokknum sem myndaði borgina Bracara Augusta sem eins við vitum nú að varð seinna Braga.

Saga félagsins verður seint talin sú merkilegasta í Portúgal þó liðinu hafi stöðugt verið að fara fram og er liðið í dag þekkt sem besta liðið í Portúgal fyrir utan þessi stóru þrjú, Sporting, Porto og Benfica (sem við höfum líka farið yfir).

Braga komst fyrst upp í efstu deild árið 1947, þá nýkomnir í Arsenal búningana, og hafa verið þar að mestu síðan. Þeirra glæstasta stund kom árið 1966 er þeir urðu bikarmeistarar heima fyrir og það sem næst hefur komist þeim áfanga var líklega árið 2008 er þeir unnu síðustu InterToto keppnina sem var haldin. Tímabilið 09/10 enduðu þeir síðan í öðru sæti í deildinni sem er þeirra besti árangur í deild.

Braga á engu að síður afar trygga stuðningsmenn sem styðja liðið í gegnum súrt og sætt. Hápunktur tímabilsins hjá þeim er þegar nágrannar Braga í Vitória de Guimaraes koma í heimsókn í Minho nágrannaslaginn. Vera má að við höfum ekki heyrt mikið um þennan slag hér heima á fróni en þetta er engu að síður slagur sem á sér lengri sögu en hægt er að ímynda sér og rígurinn milli liða nær langt út fyrir fótboltann og er óhætt að segja að þeir eru alveg djöfulli langræknir þarna í norður Portúgal. Málið er nefninlega að milli þessara svæða hefur verið rígur síðan Braga var höfuðborg Gallíu og Guimaraes varð fyrsta höfuðborg Konungsríkisins Portúgal. Þeir taka þetta ennþá svo alvarlega að börnum undir 13 ára er meinaður aðgangur að þessum leikjum nema í fylgd fullorðinna.

Hér má sjá nokkra eldheita stuðningsmenn Braga sem flestir þyrftu að vera í fylgd fullorðinna.

Undanfarin ár hefur Braga verið að komast í auknum mæli í Evrópukeppni félagsliða með misjöfum árangri og á síðasta tímabili náðu þeir sínum besta árangri er þeir komust í Meistaradeild Evrópu. Þeir rúlluðu yfir Celtic 3-0 í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni og unnu þá samanlagt 4-2. Í næstu umferð unnu þeir Sevilla heima og heiman og komust þannig í riðlakeppnina. Þar lentu þeir m.a. í riðli með Arsenal sem rúllaði yfir þá 6-0 í fyrri umferðinni en unnu þá 2-0 í Portúgal og áttu séns að komast áfram á þeirra kostnað allt fram í síðustu umferð. Það gerðist þó ekki og hvorugt þessara liða var hvort eð er að fara framhjá Barcelona í þessari keppni, eins og Arsenal komst að í kvöld.

Braga hefur engu að síður verið á fínu róli í Evrópukeppninni undanfarið og hefur unnið síðustu þrjá heimaleiki sína og það alla með markatölunni 2-0, fyrst gegn Arsenal, svo FK Partizan og svo gegn Lech Poznan í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Braga vann Arsenal 2-0 á heimavelli en eins og sjá má er við fyrstu sýn erfitt að greina hvort er Arsenal og hvort er Braga.

Næsta mark sem Braga skorar í Evrópu verður þeirra hundraðasta mark frá upphafi en það mun hvorki koma í 73. né í 74. leiknum sem þeir koma til með að spila í Evrópukeppni. Glöggir lesendur sjá það út með þessu að Jamie Carragher með sína 137 Evrópuleiki er næstum helmingi leikreyndari í Evrópukeppnum en Braga-liðið frá upphafi.

Liðið í dag inniheldur ekki mjög þekkt andlit hér í norðurhluta Evrópu en það sem hvað mest stingur í stúf er að það virðast vera fleiri Brasilíumenn í liðinu heldur en Portúgalar, n.t.t. sautján Brassar og auk þeirra eru ennþá fleiri Suður Ameríkumenn á skrá hjá þeim.

Í þeirra bókum má þó sjá Hugo nokkurn Viana sem er líklega það nafn sem við könnumst hvað mest við en hann hefur m.a. spilað einu sinni gegn Liverpool, með Newcastle árið 2002 í leik sem fór 2-2 fyrir Newcastle. Auk hans eru þrír Brassar í sókninni sem hafa þarf gætur á.

Raul Meireles þekkir auðvitað vel til Braga-liðsins eftir að hafa mætt þeim ellefu sinnum sem leikmaður Porto. Hann spilaði líka með þeim Helder Barbosa (frændi skipstjórans í Pirates of the Caribbean) og Brasilíumanninum Alan hjá Porto á árunum 2005 – 2008. Að auki spilaði Meireles með þeim Miguel Garcia, Custódio og Viana í unglingalandsliðum Portúgal.

Þessi knái fyrrum leikmaður Newcastle sló í gegn hjá leikmönnum Inter Milan er hann spilaði með Valencia (þetta var flókinn texti).

Liðið hefur verið í þó nokkurri sókn undanfarin áratug og líklega á sú breyting sem varð á aðstöðu félagsins einhvern þátt í því . Árið 2004 var haldið Evrópumót landsliða í Portúgal sem varð til þess að byggðir voru knattspyrnuvellir út um allt land. Einn þeirra, Estádio Municipal de Braga Brynjars var tekinn í notkun árið 2003 og fengu heimenn auðvitað að leigja herlegheitin undir fótboltaleiki sinna manna.

Arkitekitinn var alveg með sögu Braga á hreinu og skilaði að sjálfsögðu einum glæsilegasta velli í heiminum.

Völlurinn er byggður í sári gamallar námu og er oft kallaður Náman meðal heimamanna en eins gengur hann um þessar mundir undir nafninu AXA völlurinn í höfuðið á franska tryggingafélaginu AXA sem er styrktaraðili Braga (ásamt Players í Kópavogi).

Fyrir aftan annað markið er steinveggur gömlu Monte Castro námunnar og fyrir aftan hitt markið er útsýni yfir borgina. Stúkurnar eru síðan tengdar saman ofanjarðar með stálvírum sem eiga að minna á gamlar býr Inka í Suður Ameríku. Neðanjarðar eru stúkurnar síðan tengdar saman með 5000 fm torgi sem er undir vellinum.

Völlurinn tekur rúmlega 30 þúsund manns í sæti og það er ljóst að það verður uppselt á þennan leik, gott ef Bragi Brynjars láti ekki sjá sig þarna.

Knattspyrnustjóri Braga heitir Domingos José Paciencia Oliveira. Hann er fyrrum leikmaður Porto og var mikil markamaskína sem leikmaður og spilaði 35 landsleiki fyrir Portúgal, Hann tók við Braga-liðinu árið 2009 og hefur eins og áður hefur komið fram náð mjög góðum árangri; skilaði þeim sínu besta tímabili í deildinni í fyrra er Braga leiddi lengi vel og endaði að lokum í öðru sæti og á þessu tímabili hafa þeir náð sínum besta árangri í Evrópukeppninni enda liðið aldrei komist í Meistaradeildina áður.

Braga liðið er í dag í 6. sæti í portúgölsku deildinni með 31 stig eftir 22 leiki, einu stigi á eftir nágrönnum sínum í Guimaraes. Á toppnum trónir Porto með 62 stig eftir 22 leiki (20 sigrar, 2 jafntefli) sem er gjörsamlega fáránlegt og segir allt sem segja þarf um það hvað þessi deild er „skemmtileg“. Meistararnir í Benfica eru í öðru sæti í deildinni en Braga vann þá 2-1 í síðasta leik. Það eru reyndar langbestu úrslit Braga í smá tíma en gengi þeirra undanfarið má sjá hérna.


En snúum okkur þá að okkar mönnum sem eru að fara mæta portúgölsku liði í 17. skipti á fimmtudaginn. Átta þessara leikja hafa unnist og fjórir tapast en á útivelli höfum við bara tvisvar unnið og þrisvar tapað í Portúgal. Raunar hefur Liverpool ekki unnið leik í Portúgal í síðustu sex tilraunum eða síðan við unnum Benfica 4-1 árið 1984.

Bragi heldur sko með báðum liðum.

Liverpool er reyndar líka á sæmilegu róli í þessari keppni enda samkeppnin oft á tíðum á mörkum þess að vera boðleg. Liðið hefur ekki tapað leik í Evrópu í síðustu 13 leikjum og við höfum haldið hreinu í síðustu þremur leikjum. Á móti hafa 4 leikir af síðustu 7 endað 0-0 og verið á mörkum þess að vera boðlegir fyrir nokkurn mann sökum leiðinda.

Ef við klárum svo að ArnarBjörnssona yfir okkur þá þarf ekki að taka það fram að Liverpool hefur ekki bara unnið Meistaradeild Evrpóu oftast allra enskra liða heldur líka þessa ágætu keppni. Þeir sigrar komu 1973, 1976 og síðast 2001 í Dortmund. Liverpool er því auðvitað sigursælasta liðið sem ennþá er í þessari keppni í ár þó að PSV Eindhoven (1978), Bayer 04 Leverkusen (1988), AFC Ajax (1992), FC Porto (2003), CSKA Moskva (2005) og FC Zenit St Petersburg (2008) hafi öll unnið þetta líka. (UEFA.com)

Sagan er engu að síður ekkert að fara hjálpa okkur í þessum leik og alveg morgunljóst að við þurfum að vera nær því að spila eins og liðið sem mætti Man Utd um helgina til að klára spræka Braga menn og liðið má alls ekki vera líkt þeim viðvaningum sem fengu það verkefni að spila við Sparta Prag (tvisvar), Wigan og West Ham.

Auðvitað verðum við án okkar besta leikmanns í síðasta leik (sorry Kuyt), Luis Suarez sem má ekki spila með okkur í þessari deild í ár. Gerrard og Meireles eru síðan líklega tæpir líka fyrir þennan leik enda báðir sprautaðir fyrir United-leikinn (held ég). Við erum þunnskipaðir í bakvarðarstöðunum þar sem Kelly er ennþá meiddur og Aurelio er að sjálfsögðu kominn á meiðslalistann enn á ný. Yfirlæknir Liverpool, hinn virti Ástrali Peter Bruckner fór aðeins yfir þessi meiðsli hans á opinberu síðu Liverpool og sagði m.a.:

“He’s got a significant hamstring injury. Unfortunately his body lets him down. He always play well when he’s fit. We’ve been managing him carefully because he’s not been playing twice in a week, but this just came out of the blue.”

Eina fréttin þarna er auðvitað að meiðsli hjá Aurelio hafi komið lækni Liverpool á óvart. Hann fór einnig aðeins yfir stöðuna á Agger og svo gott sem tilkynnti að hann yrði ekki með í þessum leik:

“Daniel had a nasty kick on a joint to the side of his knee. It’s an unusual spot to get an injury. They take time and he’s a bit of a slow healer. He’s still not 100 per cent so we’ll have to see if he’s fit for the game this week. But it’s more likely to be the following week.”

Að lokum sagði hann frá því að Kelly hefði hlotið svipuð meiðsli og Aurelio en væri farinn að skokka að nýju og eins var hann ánægður með endurhæfingu Shelvey sem þó verður ekki meira með í ár.

Kunnuleg sjón.

Þannig að ekki láta ykkur bregða ef einhver af þessum kjúklingum sem fór með til Prag fái aftur að ferðast með liðinu og jafnvel komast í hóp. Þetta Braga-lið má samt alls ekki vanmeta og mikið vona ég nú að Dalglish fari ekki með það markmið til Portúgals að ná DREPLEIÐINLEGU 0-0 jafntefli og treysta á að klára dæmið á Anfield.

Tippa á að Carroll komi inn í byrjunarliðið í þessum leik (og spili í svona 60-70 mín.) við hliðina á Kuyt. Eins set ég Meireles og Gerrard í þetta lið þó ég sé ekki alveg 100% með þá. Við eigum ekki leik aftur fyrr en viku seinna er við fá Braga í heimsókn og því notar Dalglish bara allt sem í boði er og reynir að koma okkur í eins góða stöðu og hægt er.

Set þetta upp svona:

Reina

Johnson – Carra – Skrtel – Wilson

Lucas
Kuyt – Gerrard – Meireles – Cole
Carroll

Ef Joe Cole er heill heilsu þá er þetta tilvalinn leikur fyrir hann og eins set ég Wilson í vinstri bakvörðinn, aðallega vegna þess að ég þoli ekki marga fleiri leiki með Carragher í hægri bakverðinum. Leikkerfið er síðan ekkert aðalatriði því líklega yrði þetta alveg nær því að vera 4-4-2.

Upphitun kemur frekar snemma inn og því ekki víst hverjir fljúga út og ég hef ekkert heyrt um það hvernig Dalglish er líklegur til að stilla þessu upp og því er þetta frekar mikið skot út í loftið.

En það er alveg sama hverjir fá að hefja leik fyrir Liverpool FC, við heimtum ásættanleg úrslit í þessum leik og allt annað en sigur gegn Braga er óásættanlegt, þetta vita allir sem hafa séð Braga (Brynjars) spila fótbolta.

Spá: Við vinnum þennan leik 0-1 í enn einum mökk leiðinlegum Evrópudeildarleiknum.

Að lokum má geta þess að hugsanlega hafi sannleikanum verið hliðrað til á örfáum stöðum í þessari upphitun. 🙂

79 Comments

 1. Hvaða sullumbull er það að leyfa mér, Braga Brynjars, ekki að fá mynd af mér líka!!!

 2. Hehe hún býður þar til kemur að næsta Kuyt momenti 😉

  Því miður fyrir þig er síðan bara einn Bragi Brynjars (og bara Bragi ef út í það er farið) og það væri hugrekki að fara mótmæla því 🙂

 3. Já, það er líka þaulreynt að setja í reikning hjá hinum Braga á players…

 4. Skemmtileg upphitun hjá þér.

  Ég verð að vera ósammála með að láta Carroll byrja þennan leik. Ég vill ekki taka óþarfa áhættur með strákinn og ætti frekar að láta hann byrja á bekknum og koma inná.

  Viljum nú ekki láta hann lenda í þrálátum meiðslum eins og gamla nían okkar.

  Held að Kenny láti N’gog byrja leikinn og hendir Carroll síðan inn síðustu 20-30.

  Annars spái ég 1-1 jafntefli þar sem Braga komast yfir snemma og Gerrard jafnar í síðari hálfleik með frábæru marki.

  4-0 á Anfield.

  YNWA

 5. Svo má bæta við þeirri skemmtilegu en jafnframt gagnslausu staðreynd að “braga” þýðir nærbrók á spænsku.

 6. Takk fyrir frábæra upphitun.
  Hvernig er það Babu – Hefur þú ekki gefið út skáldsögu?
  Ef ekki þá færir þú létt með að koma með eina góða 😉

  YNWA
  Manni

 7. Stórglæsileg upphitun, þessar upphitanir þínar komast nálægt því að vera það eina skemmtilega við þessa blessuðu keppni. Allavega þar til við lyftum dollunni!

  Annars efast ég um að Carroll byrji þennan leik, líklegra að hann byrji inná í seinni leiknum. Held að Kuyt verði lone striker og Maxi detti inn á kantinn í stað Carroll.

  Við jörðum svo Braga menn í námunni með 0-2 sigri, öruggt.

 8. Þessi upphitun hefði verið fullkomin ef þú hefðir grafið upp nafnið á vallarstjóranum í Námunni…

 9. frábær upphitun! er frekar stressaður fyrir þennan leik,býst svoltið mikilli þynnku ef svo má segja eftir frábæran leik um helgina. svo er 7 okkar ekki með og margir tæpir,annars eigum við að negla carrol í byrjunarliðið og skipta honum frekar út jafnvel í hálfleik, koma dýrinu í gang hvað sem það kostar!

 10. Mögulega er þetta flottasti knattspyrnuvöllur í heimi.. frábær upphitun að vanda

 11. Svo má bæta við þeirri leiðinlegu og gagnslausu leiðréttingu að Rómverjar kölluðu landið Gallisíu en ekki Gallíu.

 12. Nr. 14 marat

  Eflaust höfðu þeir nú eitthvað heiti yfir þetta á sínu tungumáli en hvort var það í Ástríksbókunum? Það er það sem blívar! Þar á eftir hin trausta heimild wikipedia auðvitað 😉

  (sjá Ummæli 22)

 13. Bubu þú ert nett ruglaður. Þá meina ég í bestu merkingu…frábær upphitun!

  Verður þetta ekki eftir bókinni með liðið. Byrja með reynslu og sjá svo til? Spái jafntefli því okkar menn verða alltaf að sparka boltanum útaf til að geta skoðað þetta stórkoslega mannvirki 🙂 Spái liðinu svona http://this11.com/boards/1299632538452627.jpg Svo kemur Carroll eitthvað við sögu að sjálsögðu.

  Áfram LFC

 14. Flott upphitun Babu !

  En það sem marat í 14. er að reyna að koma á framfæri er að Braga var ekki hluti af Gallíu, heldur Gallisíiu sem var annað landsvæði. Eins og stendur greinilega á wikipedia sem þú vitnar í sjálfur þá var Gallía Norður-Ítalía, Frakkland, Belgía, vesturhluti Sviss og sá partur Hollands og Þýskalands sem eru vestan við ána Rín. En Braga er á svæði í norðvesturhluta Hispaniu (spáni og portúgal) sem kallað var Gallisia eða Gallaecia (http://en.wikipedia.org/wiki/Gallaecia)

 15. Góð upphitun að vanda frá Babu!

  Eina ástæða þess að ég er spenntur fyrir þessum leik er að sjá Carroll. Maður lærir auðvitað ekki af reynslunni, ég var við dauðans dyr eftir 180 mínútur af pyntingum – þegar ég horfði á Prag – Liverpool og Liverpool – Prag. Samt geri ég sterklega ráð fyrir að vera mættur fyrir framan imbann þegar leikurinn hefst, í rauðu treyjunni. Ég hugsa þetta bara þannig að það getur ekki versnað síðan í síðasta evrópuleik, amk ekki hvað skemmtanagildi varðar.

 16. Gallía er Frakkland (einsog fram kemur í Asterix bókunum). Þetta sér maður allt saman ef maður gúgglar t.d. Roman empire maps.

 17. Ahh nú skil ég ykkur, fjandinn.

  Auðvitað fáránlegt að ruglast svona á Gallíu og Gallisíiu! Þetta er eins og að rugla saman Braga Brynjars og Braga Brynjars (Ghukha) 🙂 Biðst afsökunar á þessu og fer beint á bókasafnið til að rifja upp Ástríksbækurnar.

 18. hahaha þessi upphitun er náttla bara legen ……. wait for it ……. dary !

  Ég hef nú gerst svo frægur að heimsækja þessa merkilegu borg Braga Brynjars. Það er allt morandi í frændum hans og frænkum þarna!

  Anywho. Ég er hræddur við drepleiðinlegan leik en hugsa svo aftur á móti að lið Braga spilar mun meiri sóknarbolta en Sparta sem dæmi og þar að leiðandi getur þessi leikur verið mjög opinn. Bíð spenntur.

  YNWA

 19. Liðið sem fer út:

  Jones, Johnson, Meireles, SUAREZ, Carroll, Cole, Pacheco, Kyrgiakos, Maxi, Kuyt, Lucas, Wilson, Carragher, Ngog, Reina, Spearing, Poulsen, Shelvey, Kelly, Skrtel, Hansen, Gulacsi, Flanagan, Mendy.

  Athyglisvert að sjá Suarez þarna en held að hann sé þarna bara til að æfa með liðinu, er hann annars ekki ólöglegur í þessari keppni?

 20. Þetta hlýtur að vera villa, trúi ekki að hann sé að fara með fyrst hann má ekki spila.

 21. Kannski er það móralískt bara…Shelvey er að ferðast með þeim líka, hann er fótbrotinn náttúrulega. En já…ég hef trú á þessu, þessi leikur endar 2-0 fyrir okkar mönnum og Meireles og Carroll setj’ann!

  YNWA – King Kenny Dalglish!

 22. #26
  undarlegur hópur sem fer þarna út svo ekki sé meira sagt
  shelvey sem er meiddur
  Kelly meiddur
  suarez má ekki spila.
  Stevie G er meiddur og fer ekki með

 23. Það er ekkert óeðlilegt við það að Suarez fari með liðinu út. Er hvort eð er í fríi, af hverju ekki að leyfa honum að vera áfram í keppnisumhverfinu með liðinu o.sv.frv.? Dalglish tók Carroll með til Prag í febrúar þótt hann væri ekki orðinn leikfær, til að leyfa honum að vera hluti af hópnum og fá þef af keppnisstemningunni.

  Annars bara brilljant upphitun hjá Babú að vanda. Þessir Evrópuannálar verða bara lengri og betri með hverjum leiknum. Þín vegna Babú vona ég að við þurfum aldrei að spila við Roma í Evrópu, sá upphitunarpistill yrði sennilega gefinn út í sjö binda ritröð!

  Og já, mikið er AXA-völlurinn flottur. Mig dreplangar að sjá leik þarna. Leikurinn annað kvöld leggst vel í mig, ég horfði á Braga vinna Benfica um helgina og þeir eru sókndjarfari (og betri) en liðin sem við höfum verið að mæta í þessari keppni (að Napoli frátöldum) þannig að þetta gæti orðið opnari leikur á morgun en síðustu útileikir okkar hafa verið.

  Mín spá: 0-1 sigur. Carroll kemur inn af bekknum undir lokin og klárar þetta!

 24. Sennilega einn flottasti völlur í heimi þarna. Minnir mann bara á hinn “stórfenglega” Laugardalsvöll sem er ámóta vel hannaður……. eða ekki alveg.

 25. Ég myndi skella Braga í byrjunarliðið. Hann er hörkustriker sem hefur engu gleymt. Það myndi líka rugla mótherjann að hafa Braga inná fyrir Liverpool. Áhorfendur myndu líkja syngja fyrir hann allan leikinn.

 26. Held að sumir fari með bara til að geta keypt eina sterka, eina létta og rettur í tollinum.

 27. #15 Simmi refur.

  Ég veit hversu vinsælar málnotkunarrökræður eru á þessari síðu en engu að síður verð ég að svara.

  ‘Helmingi meira’ hefur frá örófi alda þýtt 100% meira (eins og Babu notar það réttilega). Síðustu áratugi hefur nokkuð borið á mönnum sem þóttust vita eitthvað vegna þess að þeir voru nýbúnir að læra prósentureikning; þeir bentu á að helmingi meira hlyti að þýða 50% meira (sem það á ekki að gera vegna þess að það hefur aldrei gert). Þú hefur hangið of mikið með þeim.

  Málfarsbankinn er hófsamur sem endranær í þessum efnum:

  http://vefir.hi.is/malfarsbankinn/?p=273

  Á íslenzku er rétt og gott mál talið það sem á sér lengri sögu.

  Að lokum vil ég nefna það að ég skil ekki af hverju prósentureikningamennirnir leggja þann skilning í ‘tvöfalt meira’ að það sé 100% meira en ekki 200% meira.

  Hvað segið þið, fóbó? Áfram Liverpool, bú á Braga!

 28. Svona fyrst að málfarsráðunautarnir eru mættir. Hvað finnst ykkur um nýyrðið “upphitunarsígilt”? Þetta er lýsingarorð sem þýðir að einhver texti jafnast á við frábærar upphitanir á kop.is. Þetta væri svona fræðiorð sem bara innvígðir skildu.

 29. Hvernig er það, þarf boltastrákurinn að hlaupa niður hæðina í að ná í boltann ef hann fer yfir markið á þessum velli eða er einhver ósýnileg girðing þarna.

  En annars frábær upphitun Babu.

 30. Gargandi snild þessi upphitun eins og alltaf fyrir þessa leiki í evrópu.. Sýnir hvessu góðir pislarnir eru herna inni þegar þeir eru orðnir helmingi slemtilegri en leikirnir sjálfir .. Takk fyrir mig!

 31. ‘Eg er harður púlari og ég hef vanið alltaf komu mína á kop. Bæði til að fylgjast með hvað menn eru að seiga á spjallinu og upphitun fyrir leiki. En eitt verð að seigja að þessi stuðnings vefur er mörgum ljósárum á undan hinum stuðningsmanna vefjum á ‘Islandi! Með vinnu og metnaði stjórnenda er allveg vægast sagt stórglæsileg framtak. En frábær pistil Babu! ‘eg fór í svo gott skap eftir pistilinn að ég spá 0-1 og poulsen setjan hehehe.
  YNWA strákar og til stórenda hinni íslensku stuðningsmanna vefjana YNWA BITCH!!

 32. Já mér sýnist helsta vandamálið vera að boltinn gæti skoppað lengst niðrí bæ ef Lucas ætlar að skjóta mikið á markið. Þetta er svona eins og hérna í Borgarnesi og hjá nágrönnum okkar á Akranesi, það þarf alltaf að vera með háf í fjörunni til að veiða boltana sem fara út fyrir.

  Annars yndisleg upphitun að vanda, ég kíkti fyrst í morgun út af spenningi en hafði ekki tíma fyrr en núna að klára hana. Geri þó ekki ráð fyrir öðru en að þessi upphitun verði hápunktur leiksins. Carroll byrjar og kemur sér í leikform í þessum tveimur leikjum. Á ekkert eftir að geta núna en verður betri í næsta og svo klár í deildina eftir 10 daga.

  Af hverju heitir annars Braga-kaffi Braga kaffi?

 33. Fann svarið strax:http://www.kbr.is/page/kaffid_okkar_braga

  Hver var Bragi? Jú, það eru til tvær kenningar um hvers vegna kaffið fyrir norðan fékk þetta nafn. Önnur er sú að þar hafi menn haft í huga skáldskapargoðið Braga, son Óðins. Öllu líklegri kenning er þó sú að kaffið sé kennt við brasilísku borgina Braganca eins og Ríókaffið er kennt við Rio de Janeiro. Hvernig svo sem það var, hefur Bragi fylgt íslenskri þjóð í gegnum súrt og sætt og enn er í fullu fjöri. Sumir geta bara ekki horft framan í nýjan dag án þess að fá sér hressandi sopa af Braga!

 34. @ 48
  Var að skoða þessar myndir og mér lýst ekkert á Joe Cole. Það er einsog maðurinn hafi dottið ofan í brennivínsflöskuna. Svo miklir eru baugarnir á manninum!

 35. Ég held að það sé tímabært að liðið sýni áhorfanlega frammistöðu í Evrópukeppninni, væri ágætt að klára þennan leik örugglega og þá væri hægt að gefa kannski einhverjum ungstirnum sjénsinn á Anfield.

 36. Eru meiðslin eitthvað að aukast í hópnum? Vorum tiltölulega lausir við þau meðan við gátum ekki rassgat.

 37. Vá hvað Joe Cole lúkkar eins og 85 ára gamall spíttfíkill á þessum myndum, hefur hann ekkert sofið í marga daga? MÁ Suarez spila í Eurocup? :/ gaman ef hann mætti það!

 38. Sælir drengir…
  Vonandi er í lagi að í misnoti aðeins þessa stórkostlegu síðu…

  Þannig er staðan hjá mér og mínu liði sem er að fara að taka þátt í 3 deildinni, deildarbikar og vísabikar og okkur vantar alvöru leikmenn…

  Ef að þið vitið um leikmenn handa mér þá megið þið endilega hafa samband við mig sem fyrst..
  http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=105345

  YNWA

 39. Stórbrotin upphitun Babu, enn og aftur langt yfir getu. Voða fínar myndir líka sem þú grófst upp þarna. Mun sjálfur sigra Braga á Players í kvöld, hann verður alveg sigraður þar.

  Hallur, ég hélt það þyrfti ekki að ræða þetta neitt frekar. Bjóst hreinlega strax við símtali frá þér eftir viðureignir okkar í firmamótinu um daginn, er talinn efnilegasti 39 ára penninn á kop.is og klár ef réttur samningur liggur á borðinu 🙂

 40. Þarf Gerrard að fara í aðgerð? Vísir enski boltinn: Engin furða þótt mörgum finnist Gerrard eitthvað slappur undanfarna leiki.

 41. 59. Vísir sagði líka að Carroll myndi ekkert spila fyrr en á næstu leiktíð.

 42. 49.

  Var akkurat að pæla í því sama og þegar ég sá myndir af manninum. Virkilega þreytulegur, eins og hann hafi verið að neyta einhverja ógeðisefna!

 43. Steinn mér var klárlega hugsað til þín vinur enda ertu stórbrotinn leikmaður 🙂

  Samstarf við HK, Ýmir er lið sem tilheyrir þeim og samstarfið við Val gengur mjög vel…
  Það voru svakalega margir sem sýndu þessu áhuga en sá hópur sem ég valdi var greinilega ekki nógu stór því að margir meiddust og sumir gáfust upp í frostinu í vetur…

 44. er ekki henry birgir sá sem er ábyrgur fyrir íþróttadeild vísis ? manure maður með meiru og er æstur í að skrifa neikvæðar og niðurdrepandi fréttir um liverpool , og allt slúður sem er okkur í óhag. held að menn ættu að taka öllu sem hann skrifar með fyrirvara og leita eftir heimildum betur varðandi þær fréttir

 45. Hélt að þetta væri tattooið mitt. En gott að Bragi ákvað að fá sér eins 😀

 46. Nú gæti verið að það hafi farið framhjá mér varðandi lán á síðarnefndum dreng, en þarna vinstri bakvörðurinn ungi, Robinsson, átti hann ekki að vera eitthvað þvílíkt efni? Afhverju ekki að gefa honum eldskírn sína í þessum leik.. Þ.e.a.s. ef hann er ekki í láni.

  Annars er þetta sennilega einn mest sjarmerandi völlur sem ég hef séð, og alveg frábær upphitun Babu!

 47. ja ég veit ekki með robinson, hann er efnilegur mjög en virðist samt eiga soldið í land meðað við það sem ég hef séð allavega… og mér finnst ekkert að við eigum að stilla upp einhverju varaliði í þessum leik. Braga er ágætis lið og það eru 10-12 dagar í næsta leik í deildinni, þannig ég segi að við bara stillum upp sterku liði og sækjum til sigurs og vinnum þennan titil á endanum

 48. Eftir að hafa séð myndir af vellinum þá vona ég að leikmenn Liverpool hlaupi ekki á vegg.

 49. Hallur (56), mér dettur helst í hug Poulsen – þið gætuð örugglega fengið hann fyrir lítið

 50. Ég ætla að tippa á að liðið verði eftirfarandi, Reina, Johnson, Skrtle, Kirgiakos, Carra, Lucas, Meireles, Maxi, Cole, Kuyt og Carroll. Ég ætla að vona að Dalglish keyri á Braga í kvöld og reyni að ná góðum úrslitum, helst að vinna með tveimur mörkum. Betra væri að geta “tekið því rólega” á Anfield í seinni leiknum því það er erfiður útileikur gegn Sunderland 20.mars. Gaman væri ef Carroll skoraði og Cole kæmi með eitt til að fá sjálfstraustið aftur. Byrja gott “winning run” í kvöld allt til enda tímabilsins.

 51. #69 ÞHS – – – – – við birjuðum bara “winning runnið” á móti man utd… birjum ekkert á því í dag heldur við erum birjaðir á því 😀

 52. #69 ÞHS – – – – – við birjuðum bara “winning runnið” á móti Manchester United… birjum ekkert á því í dag heldur við erum birjaðir á því 😀

  Athyglisverður texti svo ekki sé meira sagt!!

 53. ég er að lesa inni á liverpoolfc.tv að suarez megi spila í kvöld … vinsamlegast leiðréttið mig ef ég skil eitthvað vitlaust ..

  “We all thought suarez is cup tied and cannot feature in Europa league this year.

  BUT SURPRISE SURPRISE HE IS NOT.He played for ajax in UCL and not europa league.UEFA has reduced terms of cuptie rule so that a player can play for different clubs in Champions league and also in Europa league.We can trash barga.”

 54. Liðið komið frá official síðunni:

  Andy Carroll is on the bench for tonight’s Europa League last 16 opener in Braga. Listen live from 5.55pm GMT.

  Meanwhile, Joe Cole and Jay Spearing are among the starters.

  The Liverpool team in full is: Reina, Carragher, Johnson, Skrtel, Kyrgiakos, Lucas, Poulsen, Spearing, Cole, Meireles, Kuyt. Subs: Gulacsi, Pacheco, Carroll, Wilson, Ngog, Maxi, Flanagan.

 55. Vá, hvað þetta er passíft lið. Þrír hafsentar, bakvörður, þrír varnarsinnaðir miðjumenn, einn venjulegur miðjumaður og tveir vængmenn. Ég ætla að leyfa mér að búast við leiðinlegum leik, en hef trú á því að Dalglish geti gert eitthvað hressandi úr þessari blöndu. Það er allavega ljóst að við munum halda hreinu.

 56. eg held og vona að liðið væri svona

  Reina
  cara , jonson , kirki , jonson , wilson
  lucas
  kuyt , speing , meireles , j.col
  carroll
  og a beknum
  gualis,polsen,maxi,og svo einkverjir aðrir

 57. #64 Raggerano
  Er búinn að vera með þetta Tatto síðan í Ágúst 2009
  Þannig að spurningin er hvor var á undan 🙂

Opinn þráður

Liðið gegn Braga