Kenny Dalglish – Hvað varð um þessi 20 ár?

Árið 1991 var álit stuðningsmanna Liverpool FC á Kenny Dalglish þannig að stuðningsmenn eins og Paul Tomkins gengu með svart sorgarband um höndina daginn eftir að hann sagði af sér. Enginn gagnrýndi hann fyrir að hætta, hann var búinn að vera í rúman áratug leikmaður á hæsta leveli og strax í kjölfarið þjálfari besta liðs í heimi. Því hefur án vafa fylgt mikil streita og því vel skiljanlegt að afleiðingar og eftirköst Hillsborough slysins hafi gert það að verkum að Dalglish þurfti hvíld frá fótbolta og Liverpool FC. Þetta hefur allt saman verið vel skjalfest og rætt fram og til baka.

En það var líklega ekki hægt að vita það þá að líkt og þegar Bill Shankly hætti þá hefði góð hvíld alveg dugað. Maðurinn sem tók við af Shankly var reyndar einn besti þjálfari sem frétt hefur af fótbolta og nánasti samstarfsmaður Shankly sem var farinn að nálgast sextugt og því enginn að velta þessu fyrir sér fyrr en áratugum seinna. En Kenny Dalglish sem var rétt um fertugt árið 1991 var langt frá því að vera búinn á því sem knattspyrnustjóri. Nánast öll hans ár sem leikmaður eða þjálfari hafði hann unnið eitthvað eða verið mjög nálægt því og því alveg ljóst að ef hann yrði ekki fenginn aftur til Liverpool þá færi hann annað.

Guð minn góður hvað við fengum að gjalda fyrir þessi mistök. Sagan segir að Dalglish hafi verið tilbúinn að taka aftur við liðinu sumarið 1991 en þá var búið að lofa gamla herbergisfélaga Dalglish, Graeme Souness, stöðunni og þar við sat.

Souness sem hafði náð góðum árangri sem leikmaður Liverpool og stjóri Rangers náði að rústa góðu Liverpool liði á undraverðum tíma og meðan ég skrifa þetta er hann nákvæmlega á LFCTV að tala um og afsaka sitt mesta klúður sem stjóri Liverpool, er hann kom fram í einkaviðtali hjá The Sun, þann 15. apríl 1992, á þriggja ára afmæli Hillsborough-slyssins. Souness var næstum því verri sending heldur en Roy Hodgson.

Dalglish var hins vegar búinn að hlaða rafhlöðurnar um haustið og tók við 1.-deildarliði Blackburn átta mánuðum eftir að hann hætti sem stjóri Liverpool. Ferill hans hjá Liverpool er lygilegur og ég fór yfir hann í upphitun fyrir Wolves-leikinn þar sem ég benti á að það væri ekki einungis rómantík og óskhyggja á bak við ósk stuðningsmanna Liverpool að fá kónginn aftur ef það var eitthvað vesen að finna mann í staðinn fyrir Hodgson.

En margir hafa þó skautað framhjá þeim tíma sem hann var ekki tengdur Liverpool. Skýringin er einföld, hann vann titil sem stjóri Blackburn sem var „keyptur“, líkt og þetta hafi verið svo gott sem sjálfgefið. Síðan floppaði hann hjá Newcastle án þess að mikið sé skoðað hvað bjó þar að baki og mest lítið er talað um tíma hans hjá Celtic.  Sjálfur hafði ég ekki mikið spáð í þessu nema á þessum nótum en hef aðeins verið að lesa mig til um árin sem Dalglish „sólundaði“ í eitthvað annað en Liverpool FC. Tek þó fram að ég hef ekki enn lesið ævisögu kappans sem ætti auðvitað að vera besta heimildin.

Blackburn Rovers ’91-’95

Að mínu mati hefur verið gert glæpsamlega lítið úr árangri Dalglish sem stjóra Blackburn. Jack Walker, sem varð ríkur á stáliðnaði, keypti félagið 1991 og liðið endaði í 19. sæti 1. deildar það ár. Í október árið eftir tók Dalglish við og kom liðinu upp um deild eftir sigur á Leicester City í úrslitum umspilsins á Wembley. Þetta var í fyrsta skipti síðan árið 1986 sem Blackburn komst í efstu deild. Sumarið 1992 kom hann öllum á óvart og keypti Alan Shearer frá Southampton á 3,5mp. sem var metfé þá. Hann var einnig búinn að semja munnlega við Roy Keane sem kom engum á óvart og sveik Dlalgish og fór rakleitt til helvítis við litla kátínu frá Dalglish eins og lesa má um í einum af mörgum áhugaverðum köflum í ævisögu þess írska. Það fór mjög í taugarnar á Dalglish hvað það var erfitt að fá stór nöfn til Blackburn en hann náði þó að skila liðinu í 4. sæti fyrsta árið í Úrvalsdeild.

Árið eftir vann liðið upp 16 stiga forystu Man Utd í apríl og var rétt búið að hirða af þeim titilinn en urðu þó að sætta sig við annað sætið það ár. Þarna var búið að bæta við góðum leikmönnum og versla fyrir svipaðar upphæðir og t.d. United (sem hitti reyndar á sögulega góðan árgang uppaldra leikmanna) og leikmenn eins og David Batty og markmaðurinn Tim Flowers voru í landsliðsklassa. Það hljómar kannski furðulega í dag og eitthvað sem flestir myndu ekki kalla snilldar viðskipti en þá um sumarið bætti Dalglish við síðasta púslinu sem uppá vantaði til að sigra deildina og sló aftur metið yfir dýrustu leikmenn í sögu deildarinnar. Þetta loka púsl var Chris Sutton af öllum mönnum á 5mp. Það eitt og sér, að láta Sutton spila eins og hann gerði hjá Blackburn ætti að duga til að sanna ágæti Dalglish sem knattspyrnustjóra.

Blackburn spilaði 4-4-2 með góða kantmenn sem dældu boltanum inn í teiginn á þá Sutton og Shearer, sem hættu ekki að skora á meðan kempur eins og Flowers, David Batty, Tim Sherwood og Colin Hendry sáu um að hindra andstæðinga í því að skora. Þetta gekk svo vel að í síðasta leik ársins 1996 þurfti Blackburn að sigra sinn leik til að sigra deildina. United var að spila á Upton Park og varð að vinna ef þeir ætluðu sér að verja titilinn og treysta á að Blackburn tapaði sínum leik. Eini gallinn var að Blackburn var á Anfield þennan dag og okkar menn voru líklega ekki búnir að frétta af því að með sigri gætu þeir veitt United titilinn á silfurfati og þeir unnu því leikinn 2-1.

Allir fögnuðu þó á Anfield þar sem United vann ekki West Ham og stuðningsmenn Liverpool áttu ekkert erfitt með að samgleðjast Blackburn þennan dag enda stjórinn ennþá kóngurinn á Anfield.

Eftir þetta tímabil hætti Dalglish sem stjóri félagsins og tók við starfi „yfirmanns knattspyrnumála“ hjá Blackburn og Ray Harford tók við. Verulega fór að halla undan fæti það tímabil og óvissa skapaðist með starf Dalglish hjá félaginu þetta tímabil. Hann hætti að tímabilinu loknu og á sama tíma fór Shearer til Newcastle á metfé, eftir ráðleggingar frá Dalglish.

Í kjölfarið tók við hröð hnignun með Roy Hodgson í fararbroddi en Dalglish skyldi þó eftir sig mjög gott njósnaranet og unglingastarf sem félagið naut góðs af löngu eftir hans tíma. Þeir einbeittu sér mikið að Írlandi og skilaði það t.a.m. Damien Duff nokkrum árum seinna.

Kenny Dalglish er líklega einhver besti stjóri í sögu Blackburn og þetta fyrsta starf hans utan Liverpool lofaði svo sannarlega góðu. Það er erfitt að ímynda sér hvað þetta lið hefði gert ef Jack Walker eigandi liðsins hefði ekki sagt, „Hver þarf Zidane þegar hann hefur Tim Sherwood“ og keypt Frakkann! En það er önnur saga.

Newcastle ’97-’98

Áður en byrjað er að fjalla um þetta ágæta félag og tíma kóngsins þar þá má taka fram að það ætti að vera bannað að meta hæfileika knattspyrnustjóra út frá veru þeirra hjá Newcastle. Þessi klúbbur hefur náðargáfu fyrir því að ráða nákvæmlega rangan mann á röngum tíma og hafa verið alltof sveiflukenndir síðan Kevin Keegan yfirgaf þá.

En í janúar 1997 sendi Newcastle frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Newcastle United Football Club today announce the resignation of manager Kevin Keegan. Kevin informed the board of his wish to resign at the end of the season, having decided he no longer wishes to continue in football management at this stage in his life. Following lengthy discussions of which the board attempted to persuade Kevin to change his mind, both parties eventually agreed that the best route forward was for the club to, reluctantly, accept his resignation with immediate effect.

Keegan hafði talað Newcastle-liðið sitt upp sem það besta í sögu félagsins og var (og er) álíka vinsæll hjá Newcastle og Dalglish er hjá Liverpool. Liðið spilaði stórskemmtilegan “all in” fótbolta undir stjórn Keegan þar sem mottóið var að skora meira en andstæðingurinn enda var varnarleikurinn það sem felldi þetta skemmtilega lið. Keegan taldi sig hafa náð því út úr liðinu sem hann gat og bara hætti. Hann hefur ávallt verið nokkuð furðulegur gaur og fer algjörlega sínar eigin leiðir. En óumdeilanlega frábær sem leikmaður og stórskemmtilegur sem stjóri. Tímabilið áður hafði hann tekið hið fræga kast á Alex Ferguson þar sem hann virtist hafa farið á taugum í titilbaráttunni og þá um sumarið seldi félagið markamaskínuna Andy Cole til United sem veikti liðið töluvert og pressan í kringum það er talin hafa farið illa í Keegan.

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að það var allt að því vonlaust verk að koma á eftir Keegan og hvað þá ef miðað er við þær aðstæður sem Keegan skyldi félagið eftir í. Allt í einu kom nýr maður sem að sjálfsögðu hafði sýnar áherslur og þó Dalglish verði seint talin sem mjög varnarsinnaður stjóri þá var hann algjör andstaða við Keegan og vildi leggja leikinn upp á allt annan hátt.

Dalglish var þó ekkert að gera neitt róttækt af sér og síður en svo að gera það fyrir Newcastle sem Souness gerði „fyrir“ Liverpool. Það gleymist nefnilega að hann tók við liðinu í 4. sæti í janúar ’97 og endaði í 2. sæti og kom þeim þar með í Meistaradeild Evrópu. Hann reyndar fékk gott lið sem hafði verið á fínu róli og flestir spekingar voru á því að þeir væru 2-3 góðum varnarsinnuðum leikmönnum frá því að fara alla leið. Kenny gerði ekki mikið á leikmannamarkaðnum þetta fyrsta tímabil heldur var meira að meta það sem hann hafði og hvað þyrfti að gera.

Um sumarið seldi hann síðan hinn vinsæla David Ginola sem hafði aldrei kunnað eins vel við sig undir stjórn Dalglish og hann gerði hjá Keegan. Ginola fór til Tottenham og seinna um haustið fór Les Ferdinand sömu leið. Daginn eftir held ég meiddist Shearer þannig að þeir náðu að missa sóknarlínuna á einu bretti ásamt manninum sem sá þeim fyrir færum.

Shearer var mikið meiddur allt tímabilið og Tino Asprilla, sem keytur var tímabilið á undan, meiddist í öðrum leik ársins og var í meiðslaveseni mest allt tímabilið. Hann fékk gamla kunningja eins og Barnes, Rush og Stuart Pearce til félagsins en þeir voru allir komnir af sínu léttasta skeiði og fundu sig ekki á St. James’ Park og þessi leikmannaskipti höfðu síður en svo skapað Dalglish vinsældum hjá stuðningsmönnum félagsins og hann náði þeim aldrei á sitt band. Fátt gekk upp hjá liðinu þetta tímabil og 13. sæti varð niðurstaðan í deildinni.

Það gleymist þó jafnan að minnast á að þetta tímabil var Newcastle í Meistaradeildinni líka og sigraði m.a. Barcelona 3-2 á SJP eftir að Asprilla hafði komið þeim í 3-0 með því að skora þrennu í einum besta leik í sögu Newcastle. Einnig fór liðið alla leið í úrslit FA bikarsins þar sem þeir töpuðu 2-0 gegn tvöföldum meisturum Arsenal í hörkuleik þar sem þeir skutu m.a. í stöng og slá í stöðunni 1-0. Einhverjir stuðningsmenn Newcastle segja að hann hafi tapað mörgum stuðningsmönnum þann dag þar sem liðið var afar litlaust í leiknum en minna er talað um að liðið var í tómu meiðslaveseni allt tímabilið og þátttaka í bæði Meistaradeildinni og bikarnum tók klárlega sinn toll.

Dalglish var líka byrjaður að bæta varalið Newcastle og byggja upp unglingastarfið nánast frá grunni enda var það eitthvað sem Keegan nennti ekki að spá neitt mikið í og sýnir aðeins muninn á þessum mönnum sem stjórum.

En eftir tvo leiki tímabilið ’98-’99 tók Freddy Shepherd stjórnarformaður Newcastle þá stórgóðu ákvörðun reka Dalglish eftir tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum ársins, annars vegar gegn Charlton og hinsvegar úti gegn Chelsea. Eftir 20 mánuði sem er gott í Newcastle var búið að gefast upp á Dalglish og í staðin var fenginn enginn annar en Ruud Gulllit!

Stuðningsmenn Newcastle náðu aldrei að elska Dalglish og voru ekki sáttir við þennan eftirmann Keegan og vildu aftur fá sóknarboltann sinn. Kannski hægt að skilja það að einhverju leyti og þetta var aldrei að fara ganga upp á svona stuttum tíma.

Þeir fengu líka sína ósk uppfyllta, Gulllit kom og hóf að snúa aftur leikskipulaginu fullkomlega til að innleiða sinn „kynæsandi fótbolta“. Newcastle á stundum skilið það sem þeir hafa fengið.

Vel gert

Dalglish sagði einu eftirsjá sína frá tímanum í Tyneside vera sá þegar hann yfirgaf þá og skildi m.a. eftir menn eins og Gary Speed, Shay Given og Norberto Solano sem voru lykilmenn hjá félaginu næsta áratuginn.

Þegar maður skoðar þetta núna þá er skammsýni stjórnar Newcastle aðdáunarverð og hreint  með ólíkindum að þeir leyfðu honum ekki að njóta vafans svona fyrst þeir voru búnir að fá Dalglish til að undirbúa liðið fyrir tímabilið og byrja það. Hann var búinn að vinna sér það inn á sínum ferli að njóta vafans og eins og þetta ætti að sýna þá var tími hans hjá Newcastle ekki eins svartur blettur í ferilskrá hans eins og af er látið. Líklega var það sem helst vantaði að hann fengi stuðning líkt og hann fær nú frá Rauða Hernum eða sem Keegan fékk frá Toon-hernum. Það er auðvelt að kenna stjórn félagsins alfarið um þetta en þeir voru klárlega undir pressu frá stuðningsmönnum félagsins sem hafa ekki alltaf haft vit fyrir félaginu til langs tíma litið (mitt mat).

Kenny Dalglish hefði með smá meira trausti og stuðningi náð árangri í Newcastle og raunar ætti hann að henta þeim frábærlega. Það má segja að hann hafi verið réttur maður á röngum tíma og fékk einfaldlega ekki nægan tíma til að klára verk sitt á norðurlandi Englands.

Celtic ’99-’00

Í júní 1999 var Dalglish ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá uppeldisfélagi sínu, Celtic í Skotlandi. Sama starf og hann vann hjá Blackburn og núna fékk hann John Barnes til að stýra liðinu en það var fyrsta starf Barnes sem knattspyrnustjóri. Líkt og aðdáendur Celtic óttuðust þá var Barnes ekki að gera sig sem stjóri og átti afar dapurt tímabil þar sem titilvonir hurfu fljótlega eftir vetrarfrí og endanlega þegar markamaskínan Henrik Larson braut löppina á sér í tvennt. Barnes var rekinn í febrúar í kjölfar afar vandræðalegt taps gegn 1. deildarliði í bikarnum sem hafði ekki verið mörg ár í deildarkeppni í Skotlandi.

Dalglish kláraði tímabilið og vann Deildarbikarinn í Skotlandi en árið var ömurlegt hjá Celtic sem sagði upp samningnum við Dalglish er tímabilið var á enda. Hann var ekki sáttur við þá niðurstöðu og neitaði að fara. Það var þó útkljáð með sátt fyrir dómstólum þar sem Dalglish fékk 600. þús. pund í bætur. Dalglish náði ekki að bæta leik Celtic og þeir enduðu 21 stigi á eftir Rangers í deildinni … og enduðu í 2. sæti í þessari drepleiðinlegu deild. Hann hélt þó virðingu sinni meðal stuðningsmanna Celtic sem hafa ekki mikið minna álit á honum heldur en stuðningsmenn Liverpool og hann gerði þeim mikinn greiða er hann réð Tommy Burns, einn vinsælasta og besta son Celtic, sem aðstoðarmann sinn. Sá var áfram aðstoðarstjóri hjá Martin O’Neill sem tók við og byggði upp ósigrandi lið … í Skotlandi sem í raun þýðir að þeir voru semsagt betri en Rangers. Þessi tími hjá Celtic segir þó afar lítið um hæfileika Dalglish enda var Barnes að stýra liðinu og Kenny náði t.a.m. ekki að kaupa neinn leikmann í sinni stjóratíð þar á bæ.

Frí frá fótbolta ’00-’08

Eftir dvölina hjá Celtic hætti Dalglish afskiptum af fótbolta á hæsta leveli og hélt sig að mestu utan sviðsljóssins. Það hefur verið talað um það allan þennan áratug að hann hafi verið vant við látinn á golfvellinum en það er þó auðvitað ekki alveg satt og rétt, þó vissulega spili hann þessa þjóðaríþrótt landa sinna.

Hann dró sig engu að síður alveg úr sviðsljósinu og talaði lítið við fjölmiðla enda aldrei verið mikið hrifinn af þeim eins og hann sannar í hverri viku þessa dagana. Hann gaf þó viðtal við Four Four Two í maí 2006 þar sem lesendur gátu sent inn spurningar og þar svaraði hann beint hvað hefði orðið um hann eftir Celtic:

Where the hell have you been for the last six years? How much golf can one man play?

Mosh, Clapham

I bet I don’t play as much golf as he imagines. It’s amazing how much they believe what they read in the papers. I don’t play that often – although I’m actually playing tomorrow. I’ve been doing work with McDonald’s with grass roots soccer, I’ve got two or three business interests and my wife runs a breast cancer charity, The Marina Dalglish Appeal, to raise funds to open an oncology ward in one of the hospitals in Liverpool. I’ve also enjoyed watching my kids progress in their lives. I’ve been pretty busy.

Hann hefur eflaust tekið sér gott frí eftir dvölina hjá Celtic, eins og hann segir þarna þá var hann með 2-3 fyrirtæki og tók þátt í að þjálfa og leiðbeina í þjálfun leikmanna framtíðarinnar. Árið 2003 greindist Marina, eiginkona Dalglish, með brjóstakrabbamein sem hefur haft mikil áhrif á fjölskylduna sem er núna þekkt í Liverpool fyrir The Marina Dalglish Appeal sem þau settu á laggirnar árið 2004. Í gegnum það hafa þau safnað miklum fjármunum og kostað krabbameinsrannsóknarmiðstöð í Liverpool-borg. Börnin sem hann minnist á eru síðan fjögur og tvö þeirra semi-fræg í Englandi. Paul Dalglish var í fótboltanum og spilaði fyrir nokkur lið með takmörkuðum árangri á meðan Kellly Cates dóttir hans hefur unnið í sjónvarpi.

Liverpool ’09-’10

Þannig að þrátt fyrir að hann hafi haft hitt og þetta að bardúsa þá var hann líklega ekkert rosalega lengi að taka boði Rafa Benitez um að snúa aftur til Liverpool, þó hann hafi líklega ekki séð fyrir sér að taka við liðinu 2 árum seinna. Hann sneri aftur í apríl 2009 og var á sama tíma skipaður sendiherra félagsins, eitthvað sem átti að vera búið að skipa hann í mörgum árum áður. Benitez var ekki sáttur við uppbygginguna ungra leikamma hjá félaginu og gjörbylti öllu starfinu á þessum tíma því ásamt Dalglish fékk hann þá Segura og Borelli frá Barcelona, menn sem höfðu unnið hjá liðinu sem núna nýtur góðs af besta yngriflokkastarfi sem sést hefur síðan Man Utd fékk sinn öfluga árgang um miðjan þarsíðasta áratug.

Dalglish er nafn sem hefur verið sungið á hverjum leik síðan hann yfirgaf félagið og hann hefur verið lifandi goðsögn allan þennan tíma og hélt þeim status alveg er hann stýrði liðum gegn Liverpool. Þannig að koma hans til félagsins var mjög jákvæð og ungir leikmenn virðast virða hann gríðarlega þrátt fyrir að hafa ekki þekkt mikið til hans hvorki sem leikmanns eða þjálfara. Hann hefur svona áru sem krefst virðingar og hjá Liverpool er hann einfaldlega ósnertanlegur.

Hann hefur þó ekki verið í boltanum í áratug og þegar Benitez var rekinn sumarið 2010 var ég ekki einn af þeim sem vildi fá Dalglish til að taka við af honum og eftir á að hyggja held ég að það sér gott mál að hann tók ekki við í sumar. Ég hefði auðvitað viljað fá hann frekar en Hodgson og sagði það alveg í sumar en Purslow fékk að ráða og gerði einhver mestu mistök sem nokkur tengdur Liverpool hefur gert.

En óvinsældir Hodgson hafa skapað fullkominn grundvöll fyrir endurkomu kóngsins og hann kemur inn í win-win aðstöðu. Hefði hann tekið við í sumar þá er ekki víst að hann hefði orðið eins óumdeildur. Benitez átti svipað marga ef ekki fleiri fylgismenn og andstæðinga innan raða stuðningsmanna félagsins þó það hafi ekki alltaf litið þannig út í fjölmiðlum og eftirmaður hans hefði alltaf þurft að byrja með látum til að fá algjörlega 100% stuðning Rauða Hersins sem hafði ekki verið mjög samstíga í um áratug (með undantekningum þó).

Eins hefði endurkoma Dalglish líklega ekki orðið eins glæsileg hefði hann tekið við er Gillett og Hicks réðu hér ríkjum enda ljóst að Dalglish þarf stuðning stjórnarinnar líkt og allir aðrir stjórar sem stefna á að vera í toppbaráttu á öllum vígstöðum. Dalglish er ekki kraftaverkamaður en Hodgson náði þó að skapa aðstæður hjá félaginu sem hafa gert Dalglish það kleift að líta út eins og nákvæmlega það, kraftaverkamaður.

Það er langt síðan stuðningsmenn Liverpool fóru að ræða þá hugmynd að fá hann aftur, hljóðlega til að byrja með þó fjölmargir hafi orðið spenntir er hann gaf kost á sér í sumar er hann var að hjálpa Purslow við að leita að hentugum eftirmanni. Þeir vildu ekki mann sem hafði verið svona lengi frá boltanum og réðu því mann sem hefur ekki þróast sem þjálfari síðan 1983.

Fljótlega áttaði mest allur Rauði Herinn sig á því að Dalglish yrði aldrei verri kostur en Hodgson, svo mikið væri víst, og ef það væri eitthvað vesen að finna nýjan mann til að taka við liðinu þá væri alltaf hægt að láta Dalglish klára tímabilið. Með hverjum leik varð þessi krafa háværari þar til hörðustu stuðningsmenn félagsins gáfust upp á endanum og fóru að syngja nafn hans hástöfum á leikjum og leggja til á sama tíma að Hodgson tæki við Enska landsliðinu, enda „ást“ harðasta kjarna stuðningsmanna Liverpool á enska landsliðinu aldrei verið neitt leyndarmál. Það er stórfrétt að stuðningsmenn Liverpool gagnrýni knattspyrnustjóra sinn á meðan leik stendur og því ekkert venjulegar aðstæður í gangi hjá félaginu.

Ég veit ekki hvernig FSG höfðu þolinmæði í að vera þrjá mánuði að taka mark á þessari háværu kröfu stuðningsmanna félagsins. Flestir aðrir en stuðningsmenn félagsins hlógu að þessari hugmynd, breska pressan hélt áfram að elska Hodgson og sögðu nú að ábyrgðin lægi hjá liðinu en ekki stjóranum sem hafði þó verið raunin hálfu ári áður hjá sömu mönnum.

Á sama tíma hamraði pressan á því að það væri bull að ráða Dalglish, enda Skotinn löngu “past it” og meira að segja Newcastle-aðdáendur hristu hausinn og fundu ásamt öðrum samanburð í þessu og misheppnaðri endurkomu Kevin Keegan til þeirra alveg án þess að bera saman Mike Ashley og FSG, sem er ekki síður mikilvægt í þessum samanburði.

Return Of The King 2011

Núna hefur King Kenny Dalglish verið í rétt rúmlega mánuð sem framkvæmdarstjóri hjá Liverpool, og það er ekki einn stuðningsmaður félagsins sem heldur því fram að Dalglish sé “past it” og ef þið náið að grafa þann mann upp þarf að tala hann til. Rauði Herinn er allur sem einn á bak við stjórann og stuðningurinn við manninn er rétt rúmlega á mörkum þess að vera eðlilegur í mörgum tilvikum. Andrúmslofið í kringum klúbbinn hefur fullkomlega umturnast og það ótrúlegt að hugsa til þess að liðið er í ömurlegri stöðu í sjötta sæti núna og nýbúið að selja Fernando Torres og samt er ekkert nema bjartsýni, spenningur og stemning í stuðningsmönnum Liverpool.

Ef þú hefðir sagt mér að staðan yrði svona í sumar þá hefði ég slegið þig í rot (gefið að þú sért minni en ég). En FSG hafa gert allt rétt hingað til og lofa hrikalega góðu eftir þrjú gríðarlega þung og þreytandi ár.

Ráðning þeirra á Kenny Dalglish var áhætta, það er alveg ljóst, en aldrei eins mikil og af er látið og þeir eru svo sannarlega ekkert að gráta þennan gjörning núna. Svona lagað flokkast hreinlega sem heppni enda ótrúlegt að eiga þjálfara á þessu kaliberi ónotaðan á „lager“.

Hann hefur náð árangri hvert sem hann hefur komið og eins og ég benti á í þessum pistli þá hefur var hann að spila til verðlauna hjá öllum liðum sem hann hefur komið nálægt, þó sá leikur hafi reyndar tapast með Newcastle.

Hvað sem gerist í framtíðinni þá er ljóst að Dalglish er langt frá því að vera bensínlaus sem knattspyrnustjóri og gæti í dag verið að fá fullkomið tækifæri til að vera hárréttur maður á hárréttum stað á hárréttum tíma.

Ég er allavega farinn að trúa aftur og verð spenntari  fyrir King Kenny Dalglish með hverjum deginum. Rauði Herinn fékk allavega sinn mann í starfið núna eftir að breska pressan fékk sinn mann í sumar.

Það hefur oft verið sagt að stuðningsmenn Liverpool viti manna mest um fótbolta meðal stuðningsmanna. Slíkt er ómögulegt að dæma og enginn hér nægjanlega hlutlaus til að halda slíku fram.

En eitt er víst, Rauði Herinn veit meira um fótbolta heldur en stuðningmsenn Newcastle og báðir hópar vita svo sannarlega meira heldur en þeir sem stjórna bresku pressunni, hvort sem við erum að tala um prent eða fjölmiðla.

Þegar Dalglish hætti fyrir 21 ári síðan tók Souness við og gaf það út að Liverpool væri orðið gamaldags og hóf að brjóta upp hinar ýmsu hefðir félagsins. Þetta hefur smátt og smátt verið að ágerast eftir það þó auðvitað hafi mjög margt verið mjög gott sem gert hefur verið. Houllier gjörbyllti félaginu til hins betra er hann kom og Benitez gerði mjög margt gott. En gömlu hefðirnar, The Liverpool Way, sem hafði verið eitt mesta stolt klúbbsins naut enganvegin við sl. 3 ár. Félagið var orðið óþekkjanlegt árið 2007 og lak öllu sem áður taldist sem innanbúðarmál í fjölmiðla. Fáir ljósir punktar hafa litið dagsins ljós utan vallar síðan þá og jafnt og þétt hefur þeim einnig fækkað innan vallar.

Það tók FSG þrjá mánuði að undirbúa viðsnúning á þessari hefð og King Kenny Dalglish einn til tvo blaðamannafundi til að klára dæmið.

Við höfum endurheimt Liverpool FC og þessa dagana er unnið “The Liverpool Way”. Fjölmiðlar komast ekki upp með neitt múður og er bent á að tala alls ekki fyrir hönd stuðningsmanna. Ágreiningsmál sem og önnur mál eru kláruð innanhúss og mismunandi valdaklíkur sem vinna engan veginn í takt heyra sögunni til og það sem er mikilvægast, Liverpool er farið að keppast um stærstu bitana á leikmannamarkaðnum og stefnir á sigur í hverjum einasta leik án þess þó að líta mikið lengra til framtíðar (opinberlega) heldur en einn leik í einu.

Takk Dalglish. You´ll svo sannarlega Never Walk Alone.

118 Comments

 1. Hreint út sagt MAGNAÐUR póstur hjá þér Babu og það er svo sannarlega hægt að segja að herra King Kenny Daglish hefur gjörsamlega ENGU gleymt!

 2. Liverpool klúðraði því 91′, Blackburn 97′, Newcastle sem betur fer eftir 20 mán, Celtic með því að ráða Barnes með honum og nú hefur kóngurinn loksins komið aftur, Dalglish snýr heim! Hlakka alltof mikið til að sjá svo þjálfarana og mennina sem hann fær til að stjórna dýrinu með sér.

 3. Frábær pistill Babu og undirstrikar enn einu sinni hversu frábær síða þetta er.

 4. Þúsund trilljón þakkir Babu….. I hail you… 🙂 Frábær pistill. Þú ert barasta þræl skemmtilegur penni…. :-).

  Dalglish er goðið mitt… frá því ég var gutti… og hann er enn goðið mitt.. og núna er ég að kenna guttanum mínum hver King Kenny Dalglish er! The Liverpool way! 🙂

  YNWA

 5. Skildu lesning fyrir alla poolarra þvlíkur pistill og þvílík síða!

 6. Glæsilegur pistill og skemmtileg lesning sem sýnir bara hvernig þessi síða er dag eftir dag! Ef Kóngurinn fær ekki samninginn sinn í hendurnar þá veit ég ekki hvað skal segja.

 7. Alveg hreint frábær pistill ! Ég fékk bara gæsahúð þegar ég las þetta yfir. Daglish var MAÐURINN þegar að ég byrjaði að fylgjast með og styðja liðið. Ég er orðinn 6 ára aftur 🙂 (í huganum auðvitað).

  The Liverpool Way !

  Takk.

 8. Þennan pistil á að þýða og senda á alla fjölmiðla í Bretlandi til birtingar, þvílíkur gæðapistill sem þetta er.

 9. Í fyrra sumar sagði ég að KD ætti ekki að fá stjóra starfið þar sem maðurinn hafði ekki komið nálægt knattspyrnustjórastöðu síðan konur gengu með herðapúða.

  Ég dreg orð mín til baka og biðs hreinlega afsökunar. Þessi breyting sem hefur verið á öllu sem tengist LFC á einungis einum mánuði minnir margt á íslenska veðrið – skjótt skiptast veður í lofti. Fyrir einum og hálfum mánuði síðan komu leikir of fljótt og maður horfði á þá sem einhversskonar skyldu en hlakkaði nákvæmlega ekkert til – í dag væri ég til í að hafa tvo leiki á dag, maður getur ekki beðið eftir þeim næsta.

 10. Frábær pistill hjá þér og virkilega skemmtilegt og fræðandi að lesa þetta.
  Það sem hefur gerst síðan Dalglish tók við er gjörbylting á öllu sem snýr að þessu frábæra félagi, bæði innan vallar sem utan.
  Dalglish á að fá samning sem allra fyrst og Steve Clark að sjálfsögðu líka enda held ég að hann eigi sinn þátt í velgengni undanfarina leikja sem skipulagi á vörninni.

 11. Ef gamli rauðnefur hjá erkifjendunum ætlar sér að hætta á toppnum þá ætti hann að fara að drífa sig í burtu, því kóngurinn er mættur.

 12. snilldar pistinn að venju hjá babu, ef ég var ekki að teikna liverpool merkið í barnaskóla þá var maður að teikna king kenny og ef ég skrifaði einhvað í námsbækurnar þá stóð þar líka KENNY DALGISH.

 13. Hef aldrei lesið jafn langann pistil á netinu, en þessi var 100% þess virði að lesa hvert einasta orð! Helst 2 x! Frábær grein, alveg mögnuð.

  Lengi lifi Kóngurinn!

 14. Frábær pistill hjá þér Babu, nauðsynleg lesning fyrir þá sem þekkja ekki sögu Kóngsins og frábær upprifjun fyrir okkur sem voru kannski farnir að gleyma einhverju.

  En mig langar samt að taka eitt út hérna, þrátt fyrir að skilja hvað þú ert að meina:

  “og eftir á að hyggja held ég að það sér gott mál að hann tók ekki við í sumar”

  Ég veit ekki, værum við ekki bara á ennþá betri stað í deildinni ef KD hefði stýrt liðinu frá því í Ágúst?

 15. Þetta er stórglæsilegur pistill Babu ! Ef þú mátt vera að þá væri pistill þar sem stiklað er á stóru í ferli hans frá 1970 – 1991 alveg þarfur. Ungviðið sem að les kop.is verður að þekkja þennan mann eins og við sem eldri erum gerum. Ég byrjaði sjálfur að fylgjast með 1985 og hef síðan þá alla tíð sungið og talað um Dalglish. Hans árángur á knattspyrnuvellinum er stórkostlegur og það hafa fáir leikmenn unnið 3 meistaradeildartitla eins og hann. Ætli það sé ekki bara Di Stefano sem standi honum jafnfætis þar. Það er alveg ljóst að hann hefur engu gleymt þegar kemur að knattspyrnu. Hann er komin í basic stjórnunarhætti. Hann stundar man management sem ég hef alltaf sagt að verði að vera fyrir hendi ! Eini stjórinn sem hefur stundað slíkt frá því að Dalglish hvarf á brott á sínum tíma er lílegast Roy Evans. Aðrir hafa meira setið inn á skrifstofu sinni á Melwood en niðri áæfingarsvæðinu með leikmönnum sínum.

  En núna er hann komin aftur og ég er ólýsanlega glaður yfir því. Um leið er ég ekkert að láta aðdáun mína á Dalglish blinda mig. Það er svo mikið sem að þarf að gerast hjá Liverpool áður en við getum kallað okkur meistara á ný. En ég hef fulla trú á að Dalglish sé rétti maðurinn til að færa okkur þá tign á ný ! Nei ég er sannfærður um það !

 16. Nr. 18 Hafliði

  Ég veit ekki, værum við ekki bara á ennþá betri stað í deildinni ef KD hefði stýrt liðinu frá því í Ágúst?

  Án vafa! Það sem ég var að meina með þessu var að í sumar voru aðstæðurnar hjá okkur ekki þannig að ráðning Dalglish hefði verið eins óumdeilanleg og hún var í janúar. Það var stór hluti stuðningsmanna ennþá fúll yfir brotthvarfi Benitez, eigendunum, stafsetningu, Purslow og bara nefndu það. Þetta var alls ekki sama félag í sumar og það er núna.

  Þannig að já liðinu hefði pottþétt vegnað betur, en það var líklega betra fyrir Dalglish að taka við af Hodgson enda hafði hann afar litlu að tapa eftir þá hörmung sem tími hans hjá félaginu var og kóngurinn fullkomlega óumdeildur eftir nokkura mánaða “uppklapp” frá stuðningsmönnum félagsins.

  Nr. 14 Gummi

  Ég hreinlega nennti ekki að hafa það með í færslunni að þetta er skrifað með fyrirvara um stafsetningar-og málfarsvillur. Þakka þó góða ábendingu en það eru ákaflega litlar líkur á að ég fari að skrifa svona færslur með málfarsbankann við höndina. Þetta tekur alveg nægan tíma fyrir.

  Þannig að vinsamlega reynið að horfa framhjá smáatriðum eins og málfari og stafsetningu í svona færslum og reynið að virða það við okkur (mig) að eftir bankahrunið var sagt upp öllu því góða fólki sem sá um próarkalestur á síðunni. 🙂

  Ekki skilja þetta samt sem svo að það megi ekki góðlátlega benda á augljóst klúður eins og Gummi er að gera hér. Það er fínt mál og síðunni til bóta, en ef umræður um svona pistil snúast upp í endalausa smámunasemi um málfar og stafsetningu þá hættir maður að nenna þessu og efni færslunnar farið fyrir lítið.

 17. Frábær pistlill takk fyrir, þetta hefur sko tekið tíma að vinna. Í öllum bænum ekkert röfl um hugsanlegar innsláttarvillur eða slíkt þetta er mjög vel gert.
  Aftur takk kærlega fyrir.

 18. Gríðarlega fínn pistill Babú, greinilega langt yfir getu.

  En varðandi þessar Reina “fréttir” þá eru blöðin að sjálfsögðu að “tvíka” þetta og “tvista” hægri vinstri:

  “VDS hanging up gloves, Arsenal looking for keeper, but I have just renewed contract at LFC, so nothing I can do..”

  “I would like to challenge for trophies, of course. Champions League is important, but nothing is fundamental.”

  Það að fyrirsagnirnar setji þetta upp sem að hann útiloki ekki ManYoo, er kannski ekki kolrangt, en engan veginn það sem þetta spjall gekk út á. Þetta er úr útvarpsviðtali á Spáni þar sem hann og Torres voru í spjalli. Ekki hef ég minnstu áhyggjur af þessu.

 19. Svona í gríni sagt, þá er orðið svo lítið að gera hjá Reina í markinu hjá okkur að hann þarf að fara að leita eitthvert annað.

 20. Ég segi eins og SSteinn að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Alex Ferguson vildi ekki selja Liverpool Gabriel Heinze á sínum tíma og afhverju skildi hann ætla það að Liverpool launi honum það ekki í sömu mynt ?? Kenny Dalglish og eigendur Liverpool eru vonandi betur settir en svo að setja manninn frekar í varaliðið eða selja hann til Barcelona frekar en að selja hann til United ! Held það sé alveg deginum ljósara að Pepe Reina mun ALDREI spila fyrir sóðana í Manchester United !

 21. Ef ég hefði nú hatt, þá væri hann ekki lengur á hausnum mínum. Flottur pistill eins og þér einum er lagið.

  Held með Dalglish að ef hann hefði tekið við í sumar með þessa vonlausu kjána sem áttu klúbbinn okkar þá væri kannski það eina sem væri hætta á sé að hann væri tæpur á geði, eins og við hin urðum vegna þessara sauða og umtalsverð orka farin frá honum í mest lítið. Held samt að any day þá væri Dalglish skrilljón sinnum betri kostur heldur en kall anginn hann Hodgeson.

  En það sem mest er um vert núna er eins og þú bendir á að við Poolarar erum á einhverju trippi því ánægjan og bjartsýnin er farin að krefjast þess að við mætum í vinnuna með sólgleraugu. Hver man ekki eftir honum þessum http://sigmund.is/wteikningar/19950401.jpg ?

  Og já. Meðan ég man. Það er bannað að vekja okkur…eða taka af okkur sólgleraugun.

 22. Þúsund þakkir fyrir mig! Frábær pistill fyrir mann eins og mig semer ekki með söguna á hreinu.. Takk fyrir géggjaða síðu!!! 🙂

 23. Frábær pistill 🙂

  Ég er á þeim aldri að hafa fengið áhuga á fótbolta með Dalglish. Hann á líklega mestu “sökina” á því hversu mikill Liverpool stuðningsmaður ég er. Ég man það eins og í gær þegar hann sagði upp starfi sínu, þvílíkt reiðarslag sem það var.

  Ég hef kallað hans nafn öll þau skipti sem stjóramálin hafa verið í upplausn hjá okkur síðustu árin og loksins loksins kom það 🙂
  Ég hef alltaf stutt þá stjóra sem ráðnir hafa verið til klúbbsins og haft mikið langlundargeð. Ég vildi aldrei Hodgson en var tilbúinn að gefa honum séns, gafst þó ansi fljótt upp á honum.
  Dalglish er ekki galdramaður og þetta á örugglega eftir að vera upp og niður hjá honum. En stóra málið er að leikmenn hafa trú á sér og ALLIR sem einn eru á bakvið Liverpool FC, stærsta klúbb í heimi.

 24. Held að þessi frétt með Reina er að pressan er að lesa of mikið milli línanna og þaðan kom þessi bull headline um að Reina væri opinn fyrir að fara til Manchester United. Hann segir aldrei að hann vilji fara þangað og myndi ég ekki vera að missa vatnið yfir þessu.

 25. Ef ég væri staddur á selfossi, þá myndi ég bjóða babú í hádegisverð og krifja stöðu lfc í frumeindir.
  Þvílíkur meistari sem þessi drengur er, ólýsanlegt.
  Þakka guði fyrir það að babú c að skrifa á bloggi þessu.
  FRÁBÆR PENNI Í ALLA STAÐI.
  Þannig er nú það félagar góðir. 🙂

 26. Það voru gríðarleg mistök að ráða Hodgson í sumar. Ef Kenny hefði verið ráðinn strax þá værum við að mínu mati í topp 4. Ég held líka að Torres hefði ekki ákveðið að fara ef kóngurinn hefði strax komið til starfa í sumar. Klúbburinn var þegar farin úr höndum G&H í sumar þegar Purslow var látinn í stjórn þannig að ég held að Kenny hefði fengið sæmilegan vinnufrið. Hodgson fékk að kaupa leikmenn, þó með takmörkuðu fé og tel ég 100% líkur á að Kenny Dalglish hefði gert betri kaup. (fyrir kannski utan Meireles) .

  Í sambandi við þessa Reina umræðu þá verð ég að viðurkenna að ég skil stundum ekkert í honum. Eina stundina talar hann að hann sé traustur leikmaður Liverpool og hina talar hann um að hann gæti farið. Reina verður bara að gera upp hug sinn hvort hann ætlar að vera með í endurreisn stórklúbbs í evrópu eða fara eitthvað annað. Síðan hef ég enga trú á því að Manchester United kaupi Reina. Þeir eiga ekki krónu með gati og geta ekki keypt mjög dýra leikmenn! Barcelona gætu aftur á móti klófest hann enda er Reina 550 sinnum betri en Valdez. Than again á Barcelona ekki heldur krónu!

 27. Ef þú færð ekki Nóbelinn fyrir þessa grein Babu þá verð ég illa svekktur. Og þeir sem eru að gagnrýna þig fyrir stafsetningu ættu að prófa að lesa bók eftir Halldór Laxness og gagnrýna svo. Nóbelskáldið var gjörsamlega óskrifandi á Íslenska tungu.

  Er sammála þér með tímasetninguna á komu King Kenny til klúbbsins. Það hefði ekki verið svona mikil sátt með ráðningu hans í sumar en núna gerir hann kraftaverk með klúbbinn sem verður til þess að hann nýtur 150% stuðnings aðdáenda. Þetta er eins og saga í fallegu ævintýri þar sem allt endar vel, tökum meistaradeildarsætið af Chelsea og berjumst um titilinn á næsta ári.

  Hans stærstu afrek eiga en eftir að skila sér í hús 😉

 28. Í framhaldi af lestri greinar Babu um KD verð ég í fyrsta skipti að koma nokkrum orðum að hér á Kop.is. Greinin er alger snilld og er tímasetningin á henni ekki síður snilld, hef í nokkurn tíma verið að velta fyrir mér fyrri árangri KD sem knattspyrnustjóra. Og þar sem ég starfa erlendis og er að reyna að læra tungumálið þar sem ég bý les ég einungis þarlendar netsíður, en Kop.is er EINA íslenska vefsíðan sem ég les…

 29. Ef menn vilja fara þá bara fara þeir. Mér er alveg sama hver á í hlut. Það koma bara nýjir menn í staðinn. Reina er á besta aldri, með langan samning hjá Liverpool og einn besti markmaður í heimi, svo Liverpool myndi fá svakalega upphæð fyrir hann.

  Reina er síðasti spænski leikmaðurinn hjá Liverpool. Allir spænsku vinir hans eru eru farnir annað svo það kæmi mér ekki á óvart ef hann væri að hugsa stöðuna hjá sér. Hinsvegar má ekki undir nokkrum kringumstæðum selja okkar sterkustu leikmenn til Manutd. Þá skiptir engu máli hvort leikmaðurinn vilji fara þangað, leggji inn sölubeiðni og Manutd bjóði miklar fjárhæðir. Við seljum ekki sterka leikmenn til höfuðandstæðinga okkar. Manutd gera það ekki heldur. Þeir voru til í að selja Heinze sumarið 2007, en það kom ekki til greina að selja hann til okkar þó svo Heinze vildi koma.

 30. Pistlar sem þessir og málefnalegar umræður um Liverpoll eru ástæður fyrir þvi að maður fer inn á þessa síðu oft á dag. Hvort það slæðis inn einhverjar málfarsvillur eða ásláttarvillur þá er það fyrirgefið.

  Kóngurinn er mættur á svæðið og fljótlega munum við fara að blanda okkur í baráttuna þarna i efrihlutanum, ekki nokkur spurning.

 31. Takk fyrir frabæran pistil.

  Eg vona svo sannarlega ad stemmingin haldi afram ad vera god a næstu manudum og Liverpool haldi afram ad spila skemmtilegan og ahrifarikan bolta (thad tharf ekkert ad fa a sig fullt af mørkum tho madur spili soknarmidadan fotbolta!) En eg held tho aftur af mer ad koma med yfirlysingar um ad KD skuli radinn til langs tima thar til eftir timabilid, eda allavega adeins lengra inni timabilid.
  Ef ad kongnum tekst ad koma upp godu lidi med gott sjalfstraust og nokkra goda sigurleiki i vasanum, tala nu ekku um eina Evropudollu eda meistaradeildarsæti tha er eg klar i ad gefa honum allan minn studning afram (hann er thokkalega med hann nuna) En ef ad vid t.d. endum i 6.sætinu, med lid eins og Spurs og Shitty fyrir ofan okkur ma alveg skoda adra kosti finnst mer, serstaklega ef godir bitar finnast tharna uti. (lesist: ef Morinho vill fara fra Real) ;o)

  go Kenny, YNWA

 32. Það hafa allavega tvisvar komið fram orðrómar um það að Reina vilji fara frá félaginu en hann hefur komið fram í bæði skiptin og sagt að englendingar séu að þýða spænsk viðtöl hans vitlaust og ekkert sé rétt í þeim orðrómum. Hann eigi langan samning við félagið og sé ekki að íhuga að fara…

 33. Frábær grein Babú, mjög skemmtileg aflestrar og fræðandi í leiðinni, ég held að það geti ekki nokkur efast um að Kenny sé kóngurinn, það er bara deginum ljósara!

  En mig langar að fá að stunda smá þráðrán hérna.. Nú er ég á leiðinni til Englands, og verð þar næstu 3 mánuðina, mig langaði svo að taka með mér 2-3 vini mína á leik, en ég get bara keypt einn miða í gegnum Membership-ið mitt. Ég veit að það er ekki alltaf uppselt á C-leikina, en það virðist samt vera ómögulegt að kaupa miða án þess að vera með membership-kort. Þau eru ekki nógu miklir fótbolta unnendur til að vera tilbúin að splæsa í það fyrir einn leik, þannig að mig langaði að spyrja, ykkur, þar sem að þið virðist vera fróðir menn hérna, hvort að það væri möguleiki að fá miða á leiki á annan hátt? Hvernig farið þið að?

  Ég er bara að tala um C- leiki, Newcastle/Birmingham og svo framvegis, og öll hjálp yrði vel þegin!

  Takk fyrir frábæra síðu!

 34. Það þarf einhver að banna Babu að skrifa pistla – í hvert skipti sem hann skrifar pistil þá hótar einhver Liverpool leikmaður að fara! Fyrst Torres og nú Reina!

  En frábær pistill samt sem áður 🙂

 35. Takk fyrir góðan pistil.Sá sem getur skrifað svona er greinilega með gott og gilt Liverpool hjarta.Auðvitað á Kóngurinn að halda áfram sem þjálfari,algjör hneisa hvað hann er búinn að vera lengji í burtu.Það sést best hvað hann er mikill karakter hvernig hann höndlar fjölmiðla.Einnig hvað hann er heill persónuleiki til að mynda þá þakkar hann Benítes fyrir gott starf varðandi ungflokkastarfið.Ef það verður byggt enn frekar og stefna eigenda framfylgt.kaupa unga leikmenn sem eru greinilega efni í stórstjörnur(Suarez 24 Carrol 22) þá held ég að við eigum eftir að verða Deildarmeistarar á næsta ári.Það er einhvern veginn í loftinu.

 36. Ég er orðinn KOP.IS-fíkill, held að ég þurfi að fara í meðferð. Er hægt að fara í meðferð? Hefði sérstaklega mikið þurft á því að halda undir Roy (nánast allan tímann) og helgina þegar Torres var að fara!!!!!!!!

  Nú eru þið félagar búninr að dæla inn sérstaklega mörgum HÁ-gæða pistlum undanfarnar vikur og eruð í raun búnir að dekra svo mikið við okkur að ég er farinn að kvíða sumrinu!!!!!

  BABU, ég dáist að vinnusemi þinni við að skrifa þessa pistla! Það sést vel að mikil vinna og ástríða er lögð í þessi skrif þín. Upphitanirnar gegn óáhugaverðum liðum eru vitni um það!!!! Ég hef aldrei nennt að fræðast um smálið í Evrópu en núna getur maður varla beðið eftir að lesa um borgirnar og sögu félagann sem við erum að fara að mæta, þetta er hrein og tær snilld!

  Ég tek undir með öðrum að mig er farið að hlakka til að lesa um leikmannaferil kóngsins….. er jafnvel farinn að sjá fyrir mér skemmtilega lesningu um æskuár kóngsins þar sem farið er yfir hvað í æsku hans hafði mest áhrif á hann sem fótboltamann og síðar stjóra. Ef einhver getur gert æsku kóngsins spennandi lesningu þá er það BABU 🙂

  Ég fór að spá í hvort BABU þyrfti ekki að fá sér listamannanafn eins og Babu Steinarr, Kiljan eða eitthvað í þá áttina en þá áttaði ég mig á því að hann er nú þegar með listamannanafnið BABU!!!!!

  BABU the passionate LFC penn!

 37. Snilldarpistill meistari!

  Dalglish er að fara fram úr mínum björtustu vonum, en sennilega vegna þess að maður var ekki eins “pældur” þegar maður horfði á Liverpool í gamla daga. Var að rifja það upp að í leikjum t.d. gegn Wimbledon var mjög algengt að bætt væri inn þriðja hafsentinum, og gegn góðu Watfordliði sem Graham Taylor stjórnaði.

  Hann hefur alltaf haft það að finna leikmenn sem henta fyrir liðið sem hann stjórnar, þegar hann fékk “gamlingjana” til Newcastle var það gert til að finna reynsluboltana sem áttu að smita sigurhefðinni. Hins vegar koxaði NUFC á því að byggja upp og hófu hrunið sitt með Gullit karlinum.

  Flott lesning, vonandi að Kenny verði fundið öflugt hlutverk á Anfield til frambúðar.

  Varðandi Reina, þá er Dalglish búinn að segja það sem þarf um öll leikmannamál. “The most important people at LFC are the people at the club”. Nuff said, hef ekki eirð í mér að elta fleiri kjaftasögur, en viðurkenni fúslega að vera að fara að byggja upp fordóma fyrir yfirlýsingum leikmanna um að klúbburinn sé ekki að gera nóg fyrir þá…

 38. Þvílíkt gargandi lesning…! færð 10 af 10 mögulegum 🙂

  en Það sem greip mig hvað mest, ég stoppaði lengi við þessa línu og hugsaði, hverskonar deild er þetta!! en það var þessi setning :
  “Dalglish náði ekki að bæta leik Celtic og þeir enduðu 21 stigi á eftir Rangers í deildinni … og enduðu í 2. sæti í þessari drepleiðinlegu deild.”
  Okey…. HA!!
  2 sætið 21 stigi eftir 1 sæti, wtf

  Annars var þessi pistill algjör snilld!
  YNWA!

 39. Ég er Man Utd aðdáandi en þetta var frábær lesning. Kenny Daglish er heiðursmaður og ég ber mikla virðingu fyrir manninum.

  Ég er ekki frá því að ég vilji sá Liverpool aftur í baráttunni. Svo sannarlega vona ég í ár að þeir verði fyrir ofan Chelsea.

 40. Algjörlega frábær pistill. Ýmislegt, sem ég vissi ekki, eða var búinn að gleyma.

  Ég man það hversu spennandi manni þótti að fá Souness til Liverpool. Þó það virðist í dag hafa verið fyrsta vísbending um geðveiki, þá leit hann út fyrir að vera pottþéttur maður fyrir Liverpool á þeim tíma. Við vitum öll hvernig það fór.

  Það er ómögulegt að segja hvað hefði gerst ef við hefðum ráðið Dalglish aftur þetta sumar. En ég er allavegana nokkuð viss um að við stæðum ekki í þeim sporum 19 árum seinna að Manchester United væru hugsanlega að taka fram úr okkur í fjölda enskra titla.

 41. Hrikalega er alltaf gaman að lesa þessa pistla á þessari síðu. En ég verð að segja það að þessi var einn allra besti sem ég hef lesið í langan tíma. Algjör skildu lesning fyrir alla, ekki bara Poolara!

  YNWA

 42. Pistillinn er það góður að hin stórskemmtilega fótboltasíða fotbolti.net ætti að setja frétt um þennan pistil þannig að stuðningsmenn liða eins og Manchester United og Chelsea geti lesið um þennan stórkostlega Skota King Kenny Dalglish framkvæmdastjóra Liverpool FC

 43. Aðeins að deila þessu með ykkur:
  “Also, wtf is up with Torres? He’s looked this disinterested for the better part of a year now and that includes playing for Spain at the World Cup. I mean if you’re a striker and don’t fancy the quality of your teammates providing service to you at your club, fine, but if you’re playing in front of Xavi and Iniesta then I gotta say you literally have no excuse for scoring at least a hattrick every other game.”

  Tekið héðan:
  http://www.studs-up.com/2011/02/take-a-breath/

  Mjög skemmtileg pæling.

 44. Frábær pistill, takk meistari Babu fyrir þetta.
  Mikið er ég þakklátur fyrir þessa síðu.

 45. Mjög skemmtileg lesning og góður pistill.

  Það sem Dalglish er einmitt búinn að gera vel síðan hann kom er að það er búið að mýla umboðsmenn (hrægammar og hið mesta lýti á íþróttinni), fjölmiðla og síðast en ekki síst leikmenn. Torres “Ég vil fara”, Dalglish ” ok, farðu það er enginn stærri en klúbburinn”. Á fréttamannafundi: Fréttamaður ” Dalglish er orðrómurinn réttur að Carroll er að koma til Liverpool “, Dalglish ” Ég er ekki að fara segja þér það. Þegar Liverpool kaupir leikmann tilkynnum við stuðningsmönnum fyrst um það “.

  Þessi maður er nákvæmlega það sem Liverpool FC þarf á að halda nú um þessar mundir. Endurvekja gamlar og góðar hefðir sem fyrir löngu eru búnar að sanna sig og þeim þarf ekki að breyta. Fótboltinn þróast og breytist en það sem ” The Liverpool way” stendur fyrir eru gildi sem þarf ekki að breyta. Ein mestu mistök sem Souness gerði var einmitt að gjaldfella þessi gildi.

  Að mínu viti á að bíða með að ræða um framlengingu á samningnum við Dalglish fram á vorið eða a.m.k. þegar nær dregur loka keppnistímabilsins. Ég tel enn að 5. sætið væri frábær árangur (og í raun hæsta raunhæfa markmiðið) miðað við hvernig veturinn hófst og því þarf að meta árangurinn út frá heildinni í vor t.d. vinnum við okkur þátttökurétt í evrópukeppni og hvernig verður “holningin” á liðinu ( sem er mjög góð nú um stundir ).

  Dalglish endurvekur “The Liverpool way” og í draumaheimi hefur hann okkur til vegs og virðingar á ný. Verður stjóri hjá okkur um ókomna tíð og við keflinu tekur svo innanbúðarmaður.

  Verst að Manchester United er að fara vinna 19. titill í vor og verða þar með komnir fram úr okkur og sörinn hættir þá líklegast í sumar. Það væri skemmtilegt að þessi tvö sigursælustu lið enskrar knattspyrnu myndu etja kappi saman með einhverja þá sigursælustu einstaklinga sögunnar á Englandi við stjórnvöldin.

 46. Sem Utd aðdáandi verð ég að lýsa yfir grænni öfund til ykkar púllara með þessa geggjuðu síðu. Les Kop relgulega, enda ekki annað hægt mv. ástríðuna í skrifum hérna. Og til hammó með Kónginn, þessir skotar eru með ‘etta…

 47. Takk fyrir pistilinn Einar, frábær lesning fyrir okkur yngra liðið sem missti af þessum árum með Dalglish !

  YNWA

 48. Sælir félagar

  Í einu orði sagt GLÆSILEGUR pistill og í reynd engu við hann að bæta. Ég var einn af þeim sem vildu að KKD tæki við af RB á sínum tíma. Ég sé það í dag að það var rangt. Það var engum manni bjóðandi að starfa fyrir Þá G&H sem voru verstu andskotar knattspyrnunnar sem komið hafa til Liverpool og þótt víðar væri horft.

  Innkoma Kóngsins var á hárréttum tíma og árangur hans með liðið hefur sýnt að hann kann þetta ennþá og mun kunna þetta áfram svo lengi sem hann og Rauði herinn vill. Hann hefur dregið fram þá getu, styrk, leikgleði og samkennd sem Liverpool liðið býr yfir. Það er snilld hans og lýsir styrk hans sem leiðtoga og stjórnanda.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 49. Hvað er að frétta með Reina? er hann að fara taka Torres á þetta?

 50. Hvað er að frétta af Andy Carroll hann var áætlaður til baka 26 febrúar en nú er kominn staðan
  “no return date” hvað er í gangi, verður hann lengra frá heldur en menn bjuggust við ?????

 51. Þessi maður er bara einfaldlega GOÐSÖGN, hvernig hann kemur fram við pressuna og hvernig hann er búinn að rífa lið sem var í molum og gera að skemmtilegu, baráttuglöðu liði sem spilar eins og lið ekki eitthvað “one man show”. Gæti ekki verið glaðari með þennan mann.

 52. þetta er klárlega eitt besta blogg sem ég hef lesið. Babu þetta er snild hjá þér, ég er meira að segja búinn að lesa þetta tvisvar til að muna þetta allt…

  En ein spurning, veit einhver hvar ég get sé öll kaup hjá Dalglish sem þjálfari? Ég til dæmis vissi ekki að hann hafi keypt Shearer né Sutton.

 53. Frábær pistill Babu.
  Mæli einnig með youtube myndinni um Kenny sem irh 66 linkar á. Mjög gaman að sjá kallinn í action.

  Var svo að horfa á viðtal við Clarke á LFC tv online. Mæli með því, virðist vera flottur náungi sem veit hvað hann er að gera. Finnst vel þess virði að borga þessar krónur fyrir áskrift þarna, fullt af skemmtilegum viðtölum osfr

  Semsagt það er bara allt voðalega skemmtilegt. Það er bara gaman að vera Liverpool maður í dag.

 54. Fyrst það eru allir búnir að hrósa Babú fyrir allt annað þá vil ég nota tækifærið og segja að drengurinn er bæði fallegur og kynþokkafullur.

  Já og pistillinn er frábær, líka. Þegar maður les þetta fær maður svona hálfgerða ónotatilfinningu: efast einhver um að við værum með fleiri en 18 deildartitla ef Kenny hefði fengið að koma aftur strax sumarið ’91 í stað Souness?

  Einhver? Nei, ég hélt ekki.

 55. Fyrir gaurinn sem skírði hundinn sinn Torres þá er nafnið Kenny Dogleash mjög vinsælt í dag.

 56. Afsakið enn vissi ekki hvar ég gæti sett þetta..

  http://www.youtube.com/watch?v=AmQfGZakEhM&feature=related
  Samvkæmt nokkrum heimildum er Liverpool að spá í að kaupa þennan Danska unga leikmann, hann verður 19 ára eftir viku. Hann er attacking midfielder og hefur spilað yfir 50 leiki með ajax og 10 leiki með landsliðinu.Ég hef ekkert séð af honum enn miðað við að hafa spilað 50 leiki og 10 með landsliðinu og ekki einu sinni orðinn 19 þykir það mér fín tölfræði.Veit reyndar ekki alveg hvað hann hefur skorað mörg mörk enn miðað við myndbandið er hann alveg með fínt touch og hraða.
  Svo neitar maður aldrei einhverjun ungum og spennandi leikmanni..

 57. KAR: hefur þú séð BABÚ? Margt gott má segja um drenginn, en kynþokki? Er nokkuð viss um að þið hafið hann bara á Skype þegar þið “hittist” og ræðið saman.
  Annars glæsilegur pistill fætter.

 58. Rámaði í eitt atriði og fletti því upp til gamans. Það er þetta hérna: After playing for his country in the 1998 World Cup, he joined Newcastle United, managed at the time by Kenny Dalglish, for £5.5 million. Hér er átt við Dietmar Haman! Man einhver eftir honum??? Semsagt King Kenny kom honum til Englands og við græddum á því:-)

 59. Babú er flottur, jafnvel þótt að hann sé frá Selfossi.. 😉

 60. KAR # 73

  Ég er svo hrópandi, gersamlega ósammála þér í veigamiklum atriðum, sem skipta talverðu máli. :

  • “Fyrst það eru allir búnir að hrósa Babú fyrir allt annað þá vil ég nota tækifærið og segja að drengurinn er bæði fallegur og kynþokkafullur. “

  Ég er enganveginn tilbúinn, fyrir mitt litla líf, að taka undir það að Babu sé bæði fallegur og kynþokkafullur !! Vissulega er hann annað af þessu.. en alls ekki bæði !!!

  Annars er þetta frábær pistill, og ljóst að það er rólegt að gera í vinnunni hjá vini mínum. Ég er búinn að lesa þennan pistil, og er að fara að vinda mér í að lesa þetta aftur. Þetta er ekki bara holl og góð lesning sem kemur í staðinn fyrir hvaða vítamín sem er, heldur einnig skemmtilegt í alla staði.

  Líklega er það rétt hjá Ssteini, aldrei þessu vant, en þetta er klárlega langt yfir getu.. .

  Thanks Babu…

  Carl Berg

 61. Kenny er hinn nýji Shankly!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
  ÁFRAM LIVERPOOL OG KENNY THE KING!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 62. Stórkostlegur pistill… magnað að fá tækifæri til að lesa um kónginn… takk fyrir þetta 🙂

 63. Mjög góður pistill og vil einnig mæla með myndbandinu um kónginn sem sett var hérna inn áðan. Einnig mjög gott!

 64. Dalglish er greinilega ekkert ryðgaður í faginu. Hef samt áhyggjur af litlum heilum þegar ekki gengur eins vel. Eins og sannaðist á Benitez þá dugar ekkert að selja upp í útgjöld þegar menn eru staðráðnir í því að horfa í svartnættið. Nú þegar er Dalglish búinn að eyða 55 milljón pundum í leikmenn á nokkrum vikum. Hvernig verður það bókhald eftir nokkur ár með sama áframhaldi?

 65. Dalglish verslaði Carroll á 35 og Suarez á 23 = Samtals gera það 58 milljónir. Torres fór á 50 og Babel 6. Þannig að Dalglish verslaði fyrir 2 í janúar. Þannig að bókhaldið verður fínt eftir nokkur ár enda hafa Henry og co mikið viðskipta og peningavit.

  Svar til nr 87.

 66. Liverpool is back eða King Kenny sigraði heiminn eg vill sjá kaup stór kaup í sumar, eg krest þess að sjá Englands meistaratitill næsta vor þetta er krafa sem felagið verður að gera fyrir stuðings mennina. höfum við bedið alltaf lengi, kaupa heimsklassa leikmenn, mer skít sama hva þeir kosta bara ef þeir koma er eg sáttur

  Liverpool 4ever

 67. Hvar hefur Svenni (#87) verið síðustu 10 daga ?

  Osama Bin Laden veit meira segja af þessu Torres ævintýri … Nettó eyðslan hjá KD er 2milljónir punda, með þessu áframhaldi verum við komnir í tveggja stafa tölu eftir fjóra leikmanna glugga í viðbót 😉

 68. Þakka hlý orð frá flestum ef ekki öllum nema frá Bjartmari og Birki, er ekki hægt að loka á þá? 🙂

  Skil reyndar ekki hvernig ég gat skautað yfir það að Dalglish keypti Hamann til Newcastle (mikill galli á færslunni) og það undirstrikar enn frekar hversu snjöll stjórn liðsins var að reka hann eftir tvo leiki og ráða Gullit!

  og Carlberg öfugt við þig þá fer nú frítíminn í svona pistil! Er aumingjans yfirmaður þinn ekki ennþá að vakta þig hérna inni?

 69. @ Hallur #44…. ég fékk nú bara tár í augun og þvílika gæsahúð….æðislegt 🙂

 70. Afsakið þráðrán en er Reina eitthvað að ýja að brottför (sjá fótbolti.net)?

 71. Hilmar. Hann segir aldrei að hann vilji fara. Eina sem hann segir er að hann langar að spila fyrir toppklúbb.. hann skrifaði undir 5 ára samning í fyrra og segist ætla virða þann samning. Ef hann fer er verðmiðinn mjög hár og hægt að fá markmann fyrir þann pening.

 72. 91 Babu

  😉 Það hefðu nú einhvern tímann þótt hlý orð að gefa í skyn að þú værir annaðhvort fallegur eða kynþokkafullur. Mér fannst það bara fullt mikið fyrir þitt eigið egó, að gefa þér bæði. Að hrista fram slíkt hól í einni svipan, gæti orðið til þess að þú myndir hætta að skrifa svona pistla. Það er hyggilegra að mjatla þessum gullhömrum inn í skömmtum, eftir því sem pistlarnir koma 😉
  Það þarf ekkert að éta alla kindina í sömu máltíðinni þótt hún sé góð á bragðið 😉

  En jú, blessaður vertu, yfirmaður minn vaktar kop.is allan daginn, og því þætti mér ákaflega vænt um að þú værir ekkert að kalla mig mínu rétta nafni, hann hefur nefnilega ekki hugmynd um, ennþá, að “undirheimanafn” mitt er Carl Berg, og ég lifi þessu tvöfalda lífi. 😉

  Enn og aftur, góður pistill og holl lesning…

  Insjallah… Carl Berg

 73. Get ekki spilað sem Liverpool í Fifa lengur, ætla þeir ekkert að update þetta drasl svo Torres fari úr liðinu!

 74. 98 Breytti þessu sjálfur bara.

  Tók það líka á mig að breyta Carroll aðeins, enda er hann sjúklega underrated í leiknum (74).
  Bústaði líka Kelly aðeins svo hann sé nothæfur 😉

 75. Segjum sem svo að ég vildi bjóða frúnni í rómantíska ferð á Anfield í vetur. Hvar eru menn að kaupa hagstæðustu ferðirnar?

 76. Jeg er gríðarlega ánægður með síma-útgáfuna á síðunni.
  (sent from my mobile)

 77. http://www.travel2football.is og http://www.vita.is er það sem ég hef skoðað í mínum ferðum.

  Ódýrast er alltaf að gera þetta allt saman sjálfur online ef maður nennir að standa í því.

  Ég fór með vita síðast og það var bara gott í alla staði.

  úrval útsýn er líka með ferðir en held að þeir séu dýrastir.

  En hvernig er það Óli minn, hvenær varstu að spá í að fara?

 78. 98.

  Það tekur svona 10 mínutur að gera helstu transferin í fifa! og Carroll og Suarez er bara betra en einn Torres …. djöfull hlakkar mig til að sjá þá alla !

 79. kristó 105.

  þarf maður að uppdeita fifa í gegnum netið… er það hægt eða gerir maður þetta handvirkt???

 80. Það er hægt að updata í gegnum netið en það er alveg eins hægt að gera helstu transferin handvirkt, tekur enga stund… ferð bara í Fifa 11 profile eða eitthvað svoleiðis og manage team eða eitthvað álíka man þetta ekki alveg…

 81. hérna er svar við nr: 75 leikmaðurinn heitir Christin Eriksen( held ég) er 19 ára. er núna að spila með danskalandsliðinu og var að leggja upp mark fyrir Dani. Danir seigja að þetta sé næsti Laudrup hjá þeim. Ég held að hann hafi spilað fyrsta landsleikinn 17-18 ára

 82. Ég var að horfa á þáttinn Footballs Greatest um Dalglish og ég á í stórkostlegum erfiðleikum með að skrifa þetta komment þannig að það skiljist ég skelf svo mikið. Verandi fæddur eftir hans tíma hjá Liverpool hafði ég ekki séð mikið af hans tilþrifum á vellinum en… fyrr má nú alldeilis fyrr sópa manni af löppunum!!! Ég vissi alveg að hann hefði verið hrikalega góður og séð eitthvað smá frá honum en það segir líka mikið hversu gríðarlega mikla virðingu meðspilarar hans hafa fyrir honum, ekki bara aðdáendurnir. Eitt sem kom mér líka verulega á óvart… fyrsta tímabilið hans vann liðið FA cup og í fagnaðarlátunum sá ég breska fánann sem var skrifað á KING KENNY. Einhvernvegin hafði ég myndað mér þá “skoðun” að hann hefði áunnið sér þetta nafn með tímanum sem leikmaður og svo þjálfari en það er greinilegt að hann var “maðurinn” allt frá upphafi!

  Annað sem mér fannst skemmtileg var þegar hann sagði í viðtali… “Bob used to say after we won the European titles “Boys, you don’t have to drink tonight, you can have a great time and still remember everything tomorrow”… but I never listened to his advice”

  Ég er ekki frá því að aðdáun manns á King Kenny Dalglish sé að færast yfir í lotningu!

 83. Kaupa þennan erickson!! lítur mjög vel út! og passar vel inní hugsunarhátt þessara nýju eigenda! og varðandi þennan pistil þá er þetta bara snilld eins og allt sem kemur á þessa síðu! af þessum snillingum sem sjá um hana og náttúrulega er þessi pistill um mesta snilling sem hefur komið nálægt liverpool!! já já þið getið nefnt einhverja nokkra aðra en ef þið voruð eins og ég að byrja fylgjast með enska um 1984 þá skilji það nákvæmlega hvað ég er að tala um!

 84. Þetta er frábær grein Babú og það er fullkomin óvirðing við bæði þennan frábæra pistil, sem og kónginn Kenny að ræða einhver FIFA transfer hérna. Mætti alveg henda því út mín vegna kæru stjórnendur.

  Afrek Kenny Dalglish á vellinum munu aldrei gleymast þeim sem á hann horfðu. Hann hafði einstakt auga fyrir spili og lagði örugglega helming marka Ian Rush upp. Hann kom til liðsins 1977 og ég man eftir honum frá svona ca. ´83. Ef ætti að líkja honum við einhvern af þeim spilurum sem eru í dag þá myndi ég helst halda að það væri Iniesta nokkur. Þess má líka geta að Dalglish skoraði sjálfur einhver 170 mörk fyrir félagið.

  Það var ömurlegt þegar hann fór frá félaginu og næstu ár á eftir eru bara í hálfgerðri móðu. Ég held maður hafi misst töluvert áhugann á þessu upp úr 1990, fyrst og fremst vegna þess hve árangur Liverpool versnaði í kjölfarið á því að Kóngurinn hætti. Hlutskipti félagsins hefur verið að mestu sorglegt síðan, t.d. var allur 10. áratugurinn titlalaus utan eins FA-bikars ef ég man rétt. Vonandi að Kóngurinn færi okkur deildartitilinn á ný þótt ég eigi ekki von á honum fyrr en vorið 2013 í fyrsta lagi.

  Hann á eftir að sýna okkur hvort hann geti látið liðið halda dampi allt tímabilið, setja menn í gegnum undirbúningstímabil því að árið 1985 hlupu menn kannski 70% af því sem þeir gera í dag ef ekki minna. Þannig að ég er alveg rólegur yfir því að láta hann hafa einhvern 10 ára samning, hann þarf auðvitað að sýna það og sanna að hann eigi hann skilinn. En látum hann taka næsta tímabil og sjáum svo til hvernig þetta lítur út þá.

 85. það var Eríksen sem átti fyrirgjöfina á Agger, mbl er ruslsíða annað en þessi snildarsíða.

Chelsea 0 – LIVERPOOL 1

Farsímaútgáfa af Kop.is