Wolves – Liverpool 0-3

Krafan fyrir þennan leik var einföld, leikmönnum Liverpool bar hreinlega skylda til fara til Wolverhamton og ná í öll þrjú stigin sem í boði voru. Það var nákvæmlega það sem þeir gerðu og 0-3 sigur á útivelli er eitthvað sem við getum ekki annað en verið mjög ánægð með.

Stjóri Liverpool King Kenny Dalglish hefur verið duglegur undanfarið í að peppa leikmenn liðsins upp, jafnt þá sem hafa verið að spila mikið á þessu tímabil sem og þá sem hafa ekki komið mikið við sögu og því mátti allt eins búast við einhverjum óvæntum breytingum á liðinu fyrir þennan leik, en því var þó ekki að heilsa. Eina breytingin frá leiknum gegn Everton var sú að heimamaðurinn Jay Spearing missti sæti sitt til Stjána Poulsen sem fór á miðjuna með Lucas Leiva.

Liðið var því eftirfarandi:

Reina

Kelly – Skrtel – Agger – Johnson

Poulsen – Lucas
Kuyt – Meireles – Maxi
Torres

Bekkur: Gulacsi, Cole, Pacheco, Aurelio, Spearing, Kyrgiakos, Shelvey.

Það var ljóst í upphafi leiks að heimamenn ætluðu að fella okkar menn á sama bragði og þeir gerðu á Anfield fyrir nokkrum vikum, þ.e.a.s. með því að pressa af krafti og já spila mikið betri fótbolta heldur en við. Blessunarlega var mótspyrnan töluvert betri núna og hreint ótrúlegt að hugsa út í þá staðreynd að í dag horfðum við á mjög svipað lið og var tekið í bakaríið á Anfield. Tek þó fram að ég skil ekki ennþá hvað er slæmt við það að vera tekinn í bakaríið, það er frábært, en máltækið er svona.

Einn besti leikmaður fyrri hálfleiks (honest) Christian Poulsen var eldfljótur að næla sér í gult spjald í leiknum er hann tæklaði leiðinlega fljótan kantmann Wolves er þeir voru við það að komast upp kantinn í efnilega sókn. Stuttu síðar var daninn rétt búinn að koma Liverpool yfir er hann náði ágætu skoti að marki eftir flottan samleik þeirra Johnson og Lucas upp vinstri vænginn. Mark frá Poulsen þarna hefði líklega verið saga til þarnæsta bæjar, svei mér þá.

Eitthvað gekk þó illa að opna vörn heimamanna sem gerðu þó ekki mikið sjálfir í leiknum nema fiska aukaspyrnur á okkar vallarhelmingi sem þeir sólunduðu glæsilega. Á 22.mínútu komst Fernando Torres þó einn gegn Wayne Hennessey sem varði skot hans vel.

Tæplega korteri seinna átti Hennessey þó engan séns í okkar mann sem kláraði glæsilega sókn af miklu öryggi. Undanfari marksins var þannig að minn maður Christian Poulsen sá frábært hlaup Meireles í eyðu á vörn heimamanna og renndi boltanum á rétt rúmlega réttstæðan Meireles sem var fullkomlega á auðum sjó, þökk sé Zubar hægri bakverði Wolves sem var álíka vel vakandi í vörninni og undirritaður í vinnunni á þriðjudegi eftir Þjóðhátíð. Portúgalinn gat valið milli þess að senda á Torres eða Maxi sem báðir voru í úrvalsfæri fyrir opnu marki og á endanum var það Torres sem kláraði færið.

Fátt markvert gerðist eftir markið utan þess að Reina átti eina frábæra markvörslu á 45.mínútu er Milijas var allt í einu kominn einn á móti honum 1,5 metra frá marki. Milijas fékk boltann óvænt eftir eina af 143 aukaspyrnum Wolves á okkar vallarhelmingi í fyrri hálfleik og verðum við að teljast smá heppinn að hafa sloppið þarna.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum hjá okkar mönnum og var Dirk Kuyt rétt búinn að koma Liverpool í 0-2 er hann komst einn í gegn eftir stungusendingu en Hennessey náði að loka á hann í tíma. Það breytti þó litlu því að mínútu seinna fékk Raul Meireles boltann fyrir utan vítateig Wolves og gerði nákvæmlega það sem hann hefur verið að hóta í allann vetur án árangurs, þ.e.a.s. þetta:

Mikið í góðu lagi með þetta mark og rétt rúmlega vel það. Frábært líka að sjá okkar menn loksins svo gott sem klára leik löngu áður en hann er búinn, allavega óttaðist maður aldrei í þetta skiptið að við myndum glopra þessari forystu niður. Það er tilfinning sem er ný á þessu tímabili.

Úlfarnir reyndu þó hvað þeir gátu áfram til að koma sér aftur inn í leikinn, héldu áfram að fá aukaspyrnur á okkar vallarhelmingi en náðu ekki að skapa sér mikið úr því og þrátt fyrir að varnarleikur okkar manna hafi ekkert endilega verðskuldað það að halda hreinu í dag þá þarf líka að koma boltanum framhjá Pepe Reina og hann á alltaf skilið að halda hreinu.

Á 73.múnútu var nokkuð ljóst að mikið var farið að draga af miðjumönnum okkar og því kom það ekki mikið á óvart er Poulsen fékk að víkja fyrir Jonjo Shelvey. Frábært að sjá hversu mikið traust Dalglish hefur á þessum unga leikmannai og nokkuð ljóst að þarna er verið að byggja upp hörku leikmann.

Hann var enda ekki nema hársbreidd á Bubba Morthens frá því að bæta þriðja marki Liverpool við innan við mínútu eftir að hann kom inná. Hann og Meireles komust tveir á móti einum en sending portúgalans á Jonjo var nokkuð erfið og skot hans eins og áður segir rétt yfir markið.

Þriðja markið kom þó áður en yfir lauk og það var ekkert síðra heldur en annað markið. Uppbyggingin var þannig að mest allt lið Liverpool spilaði boltanum 30 sinnum stutt og hratt á milli sín áður en Dirk Kuyt fékk boltann innfyrir vörn Úlfana og tók á rás upp að endamörkum. Þar kom hann sér í smá vandræði en náði að finna Fernando Torres sem gat ekki annað en skorað. 0-3, pass ´n´move fótbolti og alveg á hreinu að Kenny Dalglish er að ná á miklum hraða að afmá merki Roy Hodgson á þessu Liverpool liði.

Niðurstaðan því þriggja marka skyldusigur í leik sem við hefðum vanalega ekkert kippt okkur sérstaklega upp við. En þetta eru ekkert vanalegir tímar hjá Liverpool FC og því fögnum við þessu vel í dag, opnum jafnvel eins og einn kaldan og eflaust tvo falli þjóðverjar í valinn á eftir í handboltanum.

Maður leiksins er að sjálfsögðu Raul Meireles sem var mjög góður í þessum leik og allt í öllu í sóknarleik okkar manna. Get ekki beðið eftir að sjá hann með betri leikmenn í kringum sig og þá aftar á miðjunni heldur en hann spilaði í dag. Þetta er alvöru leikmaður, það er allavega ljóst. Örlítið á eftir Meireles er síðan Fernando Torres sem skorar fái hann allmennilega þjónustu, svo einfalt er það. Það er þvílíkt kjaftæði að röfla um að hann hafi verið í lægð á þessu tímabili, hann var bara pirraður enda með ömurlegan stjóra og enga þjónustu, en það stendur svo sannarlega til bóta.

Að lokum get ég ekki annað en slúttað þessari umfjölllun minnu um þennan leik, sem hófst með upphitun í gær á öðrum orðum en þessum:

*clap-clap* *clap-clap-clap* *clap-clap-clap-clap* DALGLISH

125 Comments

 1. Flottur leikur. Mjög ánægður með spilið hjá liðinu. Flott hja Torres! Skrtel og Agger byrjuðu smá shaky fyrsta korterið en vörðust vel eftir það. Poulsen stóð sig mjög vel, stöðvaði margar sóknir og Meireles klárlega maður leiksins.

 2. SNILLD.

  Er svo sveittur að ég ætla í sund og nýjan bol áður en ég skrifa meir…

 3. frábær 3 stig og þokkalega mikilvæg…. smá fát á þeim í seinni en það reddaðist… KLASSI

 4. LOKSINS LOKSINS segji ég bara, það þarf ekkert að hafa frekari orð um það.

 5. Mark nr. 3 var tær snilld. Hvað ætli þetta hafi verið margar sendingar innan liðsins áður en markið kom?

 6. LOKSINS! Og ekkert smááá mark frá manni leiksins MEIRELES!! Frábært líka að Torres skorar 2!

 7. Meireles klárlega maður leiksins, – vörnin var mjög heppinn í þessum leik, hún var ekki góð og á móti góðu liði hefði okkur verið refsað duglega. Poulsen átti ágætisleik en gerði sig sekan um nokkrar klaufasendingar sem hefðu getað endað með marki, þ.e.a.s. ef liðið sem við spiluðum á móti væri eitthvað annað en wolves. – En annars ágætisleikur okkar manna. Kongrats.

 8. glæsilegt mark hja Meireles var einn besti maðurinn hja okkur i dag, á erfitt með að viðurkenna það en Poulsen stóð sig ágætlega líka um leið og hann fór útaf þá misstum við miðjuna og úlfarnir byrjuðu að sækja á fullu loksins útisigur búinn að bíða lengi eftir honum

 9. Váá….svakalega líður mér skringilega,,,,gott ef þetta er ekki sigurtilfinning..

 10. Mér fannst liðið spila á hálfum hraða nánast allan leikinn, en vinnum samt 0-3.
  Meireles maður leiksins, frábær leikmaður hér á ferð sem mig grunar að eigi eftir að verða liðinu afar dýrmætur. Eigum Gerrard inni sem er alls ekki slæmt.

  Fínn og gríðarlega dýrmætur útisigur og alveg ljóst að Kóngurinn er farinn að hafa mikilvæg áhrif á mannskapinn. Sem betur fer.

  The only way is up !

 11. Glæsilegur sigur! Ég mydi vilja sjá sóknarlínu með Suarez – Meireles – Gerrard fyrir aftan Torres. Lucas og einhvern nýjan á miðjuna.

  Byggjum vonandi á þessu, en jéminn, himinn og haf á milli spilamennskunnar undir RH og KD!

 12. Loksins sannfærandi sigur, loksins glæsilegt mark, loksins er þetta lið með sjálfstraust. Góður leikur og vonandi heldur liðið áfram að bæta sig, það má ekki gleyma að fyrirliðinn kemur inn í næsta leik. Djöfull er miklu skemmtilegra að horfa á þetta lið þegar það pressar og sækir.

 13. Sammála nr12. Við misstum miðjuna þegar Poulsen fór útaf, hann átti fínan fyrri hálfleik, en missti boltann þrisvar á miðjunni með lélegum 2-3 metra sendingum sem fóru beint á mótherja og betra lið en úlfarnir hefði getað refsað okkur fyrir það.

  Eitt getum við þakkað hodgson fyrir en það er að hann fékk Meireles til okkar þannig að honum var ekki alls varnað kallinum, eins illa sem mér er við að viðurkenna það.

 14. Kenny er búinn að vinna jafn marga útileiki og Hodgson gerði á 6 mánuðum. Segir meira en þúsund orð.

 15. Kóngurinn er mættur, hann þekkir leiðina til baka. Leiðina á toppinn.
  Útisigur, “clean sheet” og enginn Gerrard / Carrager. Sweet 🙂

  Gríðarlega margar jákvæðar breytingar í dag. Ætla ekki að biðja um meira í bili. Ef við náum einhverju rönni núna veit ég að það voru afglöp að ráða Hodgson ef Dalgish var raunverulega á lausu. Meir um það síðar.

 16. Fínasti leikur í dag, vörnin slapp til þó svo að hún gæti verið öruggari. Það mun koma með fleiri leikju. Meireles lang besti maður liðsins í dag og verður enn og betri þegar Gerrard verður kominn aftur. Gerrard í holunni og Meireles á miðjunni verður flott. Reyndar væri líka gaman að sjá Gerrard úti hægra megin líkt og hann spilaði svo oft hér áður.

  Torres virkaði þó lengi pirraður en kláraði sitt vel, hefði getað náð þrennu en maður kvartar ekki þegar menn setja hann tvisvar. Kelly var ekki alveg að gera sig í bakverðinum í dag, hleypti alltof mörgum krossum inn í teig. En heilt yfir fínn leikur, hefði þó verið gaman að sjá Pacheco koma aðeins inn.

  Áfram Liverpool

 17. Dalglish þurfti 2 leiki til að jafna útivallarárangur Hodgson í deildinni, glæsilegt bara. Meireles frábær í dag og magnað að sjá Torres skora 2.

  Hvað er Torres komin með mörg í deildinni.

  Wba 1 mark
  Blackburn 1 er það ekki?
  Chelsea 2
  Wigan 1
  Blackpool 1
  Wolves 2

  Er hann ekki með fleiri en þetta???

  Annars frábær sigur og vonandi er leiðin greið uppá við núna, Gerrard inni í næsta leik og vonandi kemur Suarez líka.

  En dagurinn er bara hálfnaður nú verða Íslendingar að gera hann enn betri með því að leggja Þjóðverja á eftir.

 18. Ég spáði 0-3, það gekk eftir. 🙂 , yes, yes, yes. Breytt hugarfar og sjálfstraust geislar af liðinu. En við verðum að styrkja liðiðið og vonandi kemur Suarez ásamt góðum miðverði til okkar áður en janúarglugginn lokast.

 19. Last goal 31 passes…
  Hodgson hefði tryllst, afhverju að reyna að halda boltanum þegar það er hægt að þruma honum beint fram!! 🙂

 20. Góður leikur hjá okkar mönnum. Ég óska öllum hjartanlega til hamingju með sigurinn, og þá sérstaklega Kenny Dalglish ef hann er að lesa. Það er hægt að hrósa mörgum leikmönnum Liverpool enda skoraði liðið þrjú mörk og fékk ekkert á sig. Það ætla ég þó ekki að gera. Heldur ætla ég að

  1 hrósa Úlfunum fyrir að halda alltaf áfram að sækja. Það jók skemmtanagildi leiksins (þó að þeim hafa lítið orðið ágengt).
  2 lýsa yfir ánægju minni með línuvörðinn. Hann stóð sig vel og var kona. Mér fannst þessi línuvörður mun meira aðlaðandi en aðrir aðstoðardómarar. Þeir líta alla jafna út eins og Mike Riley. Riley er greinilega aðstoðardómari sem er spilaður úr stöðu.
  3 hrósa Reina þó að ég hafi lofað að gera það ekki. Hann var mjög góður í dag. Hann hélt boltanum fyrir utan markið og stóð sig vel sem upphafsmaður sókna.

 21. We´re back !
  Og skilaboð til annara sliða í deildinni, Woy er f*g farinn og ekki halda að þið eigið von á einhverju gefins frá okkur lengur, not gonna happen !!!

  Liðið heldur áfram að bæta sig og sendingar og spil hefur verið mun jákvæðara í leikjum undir KD. Meiri yfirvegun og menn að finna samherja í stað þess að kýla fram og vona það besta. Vorum heppnir í fyrsta markinu, sá ekki betur en það væri gargandi rangstaða. 0-3 gaf samt ekkert ranga mynd af leiknum og vonandi byggir liðið á þessum sigri.

  Þrátt fyrir að Poulsen sæist ekki mikið í leiknum, þá hrundi miðjan um leið og hann fór útaf, þannig að hann hlýtur að hafa verið að gera eitthvað ? En frábær útisigur og ekkert smá kærkomin.

 22. Kristinn EJ það var aldrei rangstað í fyrsta markinu, sást vel í Sky útsendingunni. flottur sigur

 23. Frábær sigur. Get samt ekki tekið undir það að Poulsen hafi átt góðan leik. Alltof hægur og greinilega í afleitu formi. Sást vel þegar hann krækti sér í gult spjald strax á fyrstu mínútunum. Hann var ca. hálftíma of seinn í þá tæklingu.

 24. Poulsen var fínn í fyrri hálfleik, virkaði frekar þungur í þeim seinni. Verum jákvæðir og gefum honum séns.

 25. Núna má maður aðeins missa sig í gleðinni og vera bjartsýnn án þess að einhverjar rottur fari að segja að maður sé fáviti. right? RIGHT?

 26. Er ég sá eini sem vill Aurelio í vinstri bak og glen johnson á hægri kant á kostnað Kuyt?

 27. Hættið öllu sem þið eruð að gera og horfið á viðtal King Kenny við SKY eftir leikinn. Gerið það núna:

  http://www.skysports.com/video/inline/0,26691,16426_6693060,00.html

  SKY: “That looked more like the Torres of old, didn’t it?”
  KENNY: “What, you mean last week? ‘Cos he wasn’t too bad then, was he?”

  SKY: “The fans want to know if there are any news on transfers.”
  KENNY: “It’s sad that you put this onto the fans. We know the fans better than you and how they want to be treated. … When we have a story to tell we will tell it. … I know what’s going on, doesn’t mean I have to tell you.”

  Maðurinn. Er. Goðsögn.

 28. “He played well last week against Everton as well, and he scored in that game too so he’s going for the Golden Boot now I think!” King kenny um Meireles! Maðurinn er snillingur!

 29. Loksins loksins. Greinilegt að Daglish er að leggja áherslu á pass and move. Liðið verður svo enþá sterkarara þegar Gerrard, Carracher og Suarz bætast við 🙂

 30. Sælir félagar

  Ánægjulegur sigur og Meireles frábær. Gott að fá einhver mörk frá öðrum en Gerrard á miðjunni Mark nr. 2 var ótrúlega glæsilegt. Ég hefi áhyggjur af hvað Torres virðist pirraður og nöldrið í honum er nánast uppihaldslaust. Það er eins og hann sé að missa hausinn og þá er ekki von á góðu. Hann ætti samt að vera sáttur með tvö mörk. Sem sagt frábær útisigur sem þó var nánast skylduverk.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 31. Ef við spilum svona í næstu leikjum ættum við að vinna allavega 6 af næstu 8 leikjum og blanda okkur í baráttuna um 5 sætið.

  Everything is possible.

 32. Daglish er bara FRÁBÆR í viðtalinu á Sky. É segi það aftur “FRÁBÆR”
  Glæsilegur sigur, allir stóðu sig vel.

 33. Nú er Torres kominn með 5 gul á þessu tímabili, fer hann ekki að detta í bann?

  Hverjar eru reglurnar varðandi þetta?

 34. Ég er svo að fýla þetta svar hjá Dalglish

  “I know what’s going on, doesn’t mean I have to tell you.”

  Hann var aldrei neinn sérstakur vinur pressunnar þannig séð og ætlar ekkert að fara taka upp á því núna 🙂

 35. Ef þetta heldur svona áfram hvernig verður hægt að líta fram hjá Dalglish í vor. Það verður einfaldlega ekki hægt. Virðingin sem þessi maður hefur fyrir klúbbnum og aðdáendum hans er ekki hægt að mæla enda hefur hann upplifað bestu og verstu augnablikin í sögu hans. Virðing okkar aðdáenda á Dalglish er sömuleiðis í hæstu hæðum enda minna tilsvör hans á tilsvör góðra manna í fortíðinni sem skildu Liverpool FC og náðu árangri sem seint verður toppaður. Ég vil sjá meira af þessum gullaldarfíling sem mér finnst Kenny vera að koma með til baka.

 36. Djöfull er maður ánægður í dag. Manni líður eins og smástelpu og maður heldur varla vatni yfir framgöngu Dalglish. Tilsvör hans eru æði og þetta er klárlega að smita útfrá sér í liðið sem er akkúrat málið. Bjart framundan en mikil vinna er samt eftir. Komið með næst mótherja takk fyrir!

 37. 42. Ég held að við ættum að róa okkur aðeins, 1 sigur og farið að tala um að við ættum að vinna næstu leiki! Hef heyrt þetta áður í vetur!! 1 leikur í einu takk fyrir! Poulsen kom mér á óvart í dag, greinilegt að hann getur ýmislegt.

 38. Stefndi í að ég missti af stórum hluta af leiknum en fengum þá heimsókn (Takk Dóri) og ég náði öllum fyrri hálfleiknum og mestu af seinni, missti af mín 77 – 84. Skýrslan hér er frábær og segir allt, viðtalið við Kónginn staðfestir það að það eru bjartir tímar framundan hjá okkur. Maðurinn er svo dásamlegur að það vantar lýsingarorð, á nokkrum dögum hefur hann breytt ráðþrota niðurbrotnu liði í bardagaglaða hunda sem virkilega eru komnir í þann gírinn að leggja sig fram í búningnum.

  Mér fannst ALLIR leikmennirnir í dag spila vel, ekki ein einasta undantekning og það var frábært að sjá í fyrsta skipti í vetur menn halda dampi í 90 mínútur. Vissulega náðu Úlfarnir að stríða okkur, enda líkamlega sterkt lið sem pakkaði okkur saman á Anfield fyrir 32 dögum eða svo! En dampurinn var allan tímann flottur og menn voru innstilltir á verkefnið. Sá Christian Poulsen sem við sáum fyrstu 60 mínúturnar sem var lykilmaður í frábæru Sevillalliði og mikið væri nú gott að sú persóna yrði áfram í búningnum. Torres er að vinna þvílíkt fyrir þetta lið, þó að hann verði nú pirraður aðeins gæinn við þá meðferð sem hann fær, hann hefur “edge” sem hann græðir á…

  Verst að Shelvey náði ekki að skora, hefði verið enn einn jákvæði punkturinn.

  Búið í dag og næst er að skamma Fulham duglega fyrir að selja okkur Roy Hodgson. Hann má þó eiga það að hann keypti Raul Meireles sem er það besta frá Portúgal á eftir piri-piri kjúkling. Frábær leikmaður.

  Ætla sko ekki að vangavelta um leikmenn eftir það sem King Kenny sagði, en nú kemur Gerrard inn fyrir næsta leik og að mínu mati væri frábær tímasetning að kaupa nú alvöru leikmann fyrir næstu 2 deildarleiki, grípa mómentið sem er í kringum liðið núna og reyna að raða saman nokkrum sigrum.

  En þetta viðtal á auðvitað að vera vistað á desktopnum manns! Kóngurinn er í hásætinu og maður er farinn að hlakka til leikjanna á ný!

 39. http://www.facebook.com/pages/Liverpool-FCfan-page-News-and-Speculations/127233837342472
  “Liverpool FC|fan page| – News and Speculations. Liverpool FC Insiders Confirm Bid made for Young and that Suarez has been signed!! Medical Tommorow. Ajax Press Conference in 30 minutes!”

  vonandi fer eitthvað að gerast i eim málum því ég þarf eitthvað boost er að kálast á því að horfa á Ísland tapa vs þýskalandi og bara sérstaklega að horfa á þessa dómara í þessum leik

  en ja flottur sigur hjá liverpool 😀

 40. Liverpool FC|fan page| – News and Speculations. BREAKING NEWS: Suarez arrives at John Lennon Airport with his Agent. Several insiders claim he has been signed. Medical is tommorow morning!
  Fyrir 3 mínútum · Líkar þetta · Skrifa athugasemd

 41. Ég hef ekki séð neina Suarez orðróma á Twitter í næstum allan dag og heldur ekkert núna þannig það er lítið að marka þetta í kommentum 51 og 52 held ég

 42. tek hæfilega í allar yfirlýsingar sem koma frá FACEBOOK…….. er ekki í lagi með ykkur!!!!

  kop.is kemur með yfirlýsingarnar sem ég bíð eftir…………

  props á babu, ssteinar, einar örn, kar og magga……. bíð eftir yfirlýsingu frá ykkur…….. djöfull er ég er stoltur að geta sagt að ég styðji sama lið og þið!!!!!!!!!!!…… og lesi bestu síðu í heimi

 43. Afhverju er hann að fara í læknisskoðun á morgun ef það er búið að kaupa hann :s ?

 44. ÓHJ says:
  21.01.2011 at 14:40

  “PS: Spurning samt um að ég kaupi mér Poulsen treyju og sjái hvort hann verði ennþá lélegri eða hvort að “bölvunin” virki öfugt á afburðalélega leikmenn?”

  Langar að vita hvort hann hafi keypt sér treyju merktri Poulsen, miðan við spilamennsku hans í dag er ég nokkuð viss. 🙂

 45. Ef menn ætla sér að kaupa Poulsen treyju þá mæli ég allavega með að það sé ekki Liverpool treyja.

  Mikið djöfull er ég annars ánægður með Meireles.

 46. Frábær leikur og mikið er rosalega gaman að sjá liðið virka svona á útivelli. Kóngurinn er á réttri leið með liðið og við eigum eftir að klifra hratt upp töfluna.
  Ég verð svo að hrósa Kelly sem hefur verið hreint ótrúlega góður í hægri bakverðinum og það er alveg á hreinu að ef að Johnson sættir sig ekki við að vera á vinstri vængnum þá kemst hann ekki í liðið og spurning hvernar Kelly slær honum út í landsliðinu.

 47. Af zonalmarking.net: “Lucas had a good game in midfield, keeping his passes simple and maintaining possession. Lucas is one of those players who frequently gets criticised for playing sideways passes, but compare his passing to Poulsen’s, and it becomes clear that simple sideways balls are preferable to forward passes which concede possession cheaply. Lucas’ pass completion rate was 79%, Poulsen’s was 54%.”

 48. Virkilega flott frammistaða. Þvílíkur munur að vera með stjóra sem lifir sig inní þetta af lífi og sál. Maður getur ekki annað en hrifist með. Maðurinn er þvílíkur snillingur. Það er ekki hægt að þakka Hodgson margt en þó má þakka honum fyrir að hafa keypt Meireles. Hörkuleikmaður þar á ferð. Hann bætir okkar lið töluvert. Væri frábært að fá 1-2 toppleikmenn núna í glugganum. Þá væri maður helsáttur.

 49. @Villi Stjána

  Nei ég lét nú ekki verða að því að kaupa mér Poulsen treyju. Hef ennþá stórkostlegar efasemdir um gæði þess leikmanns og mér fannst hann alls ekki jafngóður í dag og menn tala um hérna á síðunni. En tek þó undir það að hann var ljósárum betri en hann hefur verið hingað til. Það að hann sé ljósárum betri en pulsutaktarnir sem hann hefur sýnt hingað til er þó ekki nógu gott að mínu mati. Hann er einfaldlega ekki nógu góður leikmaður fyrir klúbbinn okkar.

 50. sammála 61.. þó að Poulsen hafi verið fínn í dag og hann gerði vissulega vel í fyrsta markinu en hann var líka heppinn að fara ekki útaf í að mig minnir stöðunni 1-0 þá tapaði hann boltanum á miðjunni og reif þá í treyjuna hjá einum úlfinum en hann héllt áfram og dómarinn gaf merki um hagnaðarreglu og Wolves fékk hornspyrnu uppúr sókninni og Poulsen slapp! hefði Wolvesarinn látið sig detta þá er ég hræddur um að hann hefði fengið sitt annað gula! Ég viðurkenni að hann átti annars fínan leik í dag en hann er ekki nógu góður fyrir þetta lið og er alltaf að brjóta heimskulega af sér !

 51. Góður sigur í dag og verður vonandi til þess að auka sjálfstraust hjá mönnum. Það er þó eitt sem stendur upp úr þrátt fyrir góðan leik í dag. Vörnin er bara alls ekki nægilega góð þrátt fyrir að hafa sloppið í gegnum leikin án þess að fá á sig mark. Agger á heima í vörninni haldist hann heill með nýjum sterkum manni sem getur stjórnað allri vörninni. Carragher er bara að verða of gamall og þarf því að fara finna nýjan mann til að stjórna varnarleiknum.

  Poulsen er eins og sást í dag bara engan vegin nægilega góður fyrir Liverpool. Hann var kannski ekki eins lélegur í dag eins og svo oft áður en var samt lélegur og sérstaklega eftir að hann fór að þreytast í síðari hálfleik. Hann klúðraði allt of mörgum sendingum sem leiddu til hættulegra sókna Úlfanna.

  Einnig fannst mér okkar menn brjóta allt of oft á sér og gefa Úlfunum aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Ef við hefðum verið að spila á móti alvöru liði hefðum við aldrei haldið hreinu.

  Meireles stóð sig hinsvegar mjög vel sem og Torres sem reyndar vældi leiðinlega mikið eins og venulega.

  Vonandi halda menn þó áfram með svona spilamennsku og komist á sigurgöngu.

 52. Þetta er byrjunin á upphífingunni, mér er drullusama um alla neikvæðni og allt annað, eina vitið er að vera jákvæður og bjartsýnn því það skilar árangri.

 53. Humm, 0-3 sigur á útivelli og 9 tímum síðar eru kommentin innan við 70. Það segir manni bara að púllarar séu sáttir eftir daginn 🙂

 54. Hvernig geta menn sagt hérna að Poulsen hafi átt fínan leik? Í minni sveit telst það ekki boðlegt hjá miðjumanni að vera með 54% í heppnuðum sendingum!

 55. Þessu Poulsen einelti þarf nú að fara að ljúka. Hvernig væri að fara að einbeita sér að einhverju uppbyggilegra? Getur Poulsen ekki bara verið ágætis varaskeifa sem sættir sig við að sitja á bekknum en spilar einn og einn leik eins og í dag sem hann gerði jú bara ágætlega.

 56. Lið væri ekki lið nema að það væri einn Poulsen í því. Öll fótboltalið hafa sinn Poulsen. Fyrst að Jesú gat breytt vatni í vín þá getur Dalglish breytt Poulsen í Igor Biscan!

 57. Poulsen á að mínu mati skilið alla þá gagnrýni sem hann fær. Eins og hefur verið bent á þá segir 54% sendinga á réttan mann allt sem segja þarf.

 58. Eina neikvæða sem ég get fundið um þennan leik eru sendingarnar hans Reina. Einungis 40% sendinga hans enduðu á samherja eða 14 sendingar af samtals 35 !

  Sá líka á Twitter Mike Kelly markmannsþjálfari Reina væri farinn frá LFC, er það rétt ?

  • Sá líka á Twitter Mike Kelly markmannsþjálfari Reina væri farinn frá LFC, er það rétt ?

  Já hann er farinn og fór fljótlega á eftir Hodgson. Tony Barrett staðfesti þetta t.a.m. í dag.

  Reina átti síðan eina af sendingum dagsins í dag eftir útspark sem fór beint á Kuyt á hægri vængnum.

 59. 71 Stóð Reina sig þá verr en Poulsen í leiknum ef við dæmum útfrá % sendinga á samherja. Ætli Skertle hafi þá ekki staðið sig best þar sem hann var með yfir 90% sendingar á samherja? Hvað var Torres með í %? Ætla menn að tapa sér í %? Vissi ekki að fótbolta væri orðinn leikur að tölfræði? Ég held að þörfin fyrir að hata Poulsen sé sé að leiða menn í bullið.

 60. “The Portuguese(Meireles) international fits into the pass-and-move philosophy that Kenny Dalglish wants to reintroduce into Liverpool’s game.”

  Held það sé margt til í þessu! Meireles var ótrúlega góður í dag og maður sá að hann hataði nú ekki beint stutta spilið. Eftir einn sigurleik er ég orðinn ótrúlega bjartsýnn á framhaldið svona eins og alltaf og sé ekkert lið stoppa okkur, þessi bjartsýni er því miður oftast skotin strax niður í næsta leik en við vonum það besta! Hlakka til að sjá Gerrard koma inn aftur á miðvikudaginn og djöfull væri nú ljúft að fá staðfestar fréttir um Suarez á allra næstu dögum.

 61. Held að menn séu ekki að átta sig á því að líklegast eina ástæðan fyrir því að Poulsen var í liðinu í dag er vegna þess að Gerrard var í banni, grunar að Mereiles verði settur neðar og Gerrard taki holuna strax og hann er búinn með þetta óþarfa þriggja leikja frí sem að Howard “Manshitter” Webb gaf honum.

 62. Það ber auðvitað að hafa í huga að Macherano og Lucas náðu engan veginn saman á miðjunni og þar sem Poulsen og Macherano leika sömu stöðu, þá kom það kannski ekki á óvart að sama yrði uppá teningjum hjá Poulsen og Lucasi. En fyrst og síðast fannst mér Poulsen sérlega áhugalaus í upphafi (eins og fleiri leikmenn LFC), rétt eins og hann hafði verið með danska landsliðinu og Juventus. Fyrir 3 árum var hann með betri varnartengiliðum í evrópu, svo það þarf enginn að efast um að þetta sé góður leikmaður. Ef Dalglish getur ekki blásið í hann lífi, þá getur það enginn.

 63. Menn verða samt að átta sig á því, að það er nákvæmlega ekkert samasem merki á milli þess að spila með tvo djúpa miðjumenn og hvernig flæðið er í sóknarleik liðsins.

  Okkar helsta vandamál síðustu ára er að við höfum bara klárað 50% af “pass and move” – sem er þá sendingarhluturinn. Það sem hefur oftar en ekki vantað hjá LFC er að menn hreyfi sig almennilega án bolta, að þeir stoppi ekki í svona eins og 5-10 sec, horfi á manninn með boltann og spái hvað hann ætli að gera. Menn eiga að vera lagðir af stað í hlaupið um leið og boltinn fer frá þeim.

  Ef við værum með fleiri slíka leikmenn frammá við þá værum við ekki eins háðir því að okkar afturliggjandi miðjumenn væru að sprengja upp varnir andstæðinganna. ManUtd hefur lengi vel spilað með tvo baráttuglaða miðjumenn á miðri miðjunni, sérstaklega í fjarveru Carrick & Scholes. Munurinn þar er auðvitað fyrst og fremst Nani, Valencia & Giggs – ásamt því auðvitað að hafa fleiri en einn frambærilegan sóknarmann.

  Það að þurfa að treysta á okkar ball-winning-midfielder(s) til að skapa marktækifæri er auðvitað stór stór mistök í því hvernig menn leggja leikinn upp og hvernig liðið er skipað. Eitthvað sem (vonandi) fór út um gluggann um leið og RH og hans kick-and-hope bolti var lagður af með komu Daglish.

  Þrátt fyrir að úrslitin hafi látið bíða eftir sér og að maður taki þessum sigri í gær með mikilli ró og átti sig á því að enn er langt í lang – þá getur enginn þrætt fyrir það að það hafa verið batamerki á leik liðsins síðan KD tók við. Við erum actually líklegir að skora í leikjum núna og það er orðið skemmtilegt að horfa á fótbolta aftur.

  YNWA

 64. 73 Ég var ekki að segja að Reina hafi átt hræðilegan leik útaf þessari tölfræði, heldur benti á að ef ég ætti að finna eitthvað að þessum leik þá væri það hversu fáar sendingar hjá Reina rötuðu á samherja því í öllum síðustu leikjum hans hefur þetta ekki verið neitt vandamál 😉

 65. Veit einhver hvar maður getur séð myndband af aðdragandanum af 3 markinu? missti af leiknum og langar að sjá það með eigin augum að liverpool náði 30 sendingum áður en þeir skoruðu eitthvað sem maður sá ekki aldrei hjá hodgson.

 66. Eru fleirri en ég sem að eru á því að það sé alveg rosalegur stígandi í liðinu ?

 67. Liverpool verður farið að narta í 6.sætið áður en langt um líður. Frábær leikur, munurinn á liðinu frá Dalglish tók við er ótrúlegur.

 68. Sælir félagar

  Það er enginn vafi að það er stígandi í leik liðsisns. Það er allt önnur holning á liðinu og sendingar og hreyfing boltalausra manna allt önnur en var hjá RH. Það er hinsvegar ljóst að til að fullkomna þá þróun sem er augljóslega í gangi þarf tíma og tekur tíma. Ef það koma nýir (nýr) leikmenn til liðsins í janúar glugganum þá er best að fá þá sem fyrst til að þeir aðlagist sem fyrst og taki þátt í því þróunarferli sem KK hefur sett í gang og er þegar byrjað að skila árangri.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 69. Í þessu viðtali segir Kuyt meðal annars frá þeim breytingum á æfingum liðsins sem hafa orðið með tilkomu Steve Clarke, spurning hvort þær séu strax farnar að skila sér í spili eins og í aðdraganda 3. marksins.

 70. Nú veit ég ekki með áreiðanleika þessara frétta en mér skilst að það sé ekki hægt að bóka skuðunarferðir á Anfield á morgun og það verða blaðamannafundur eftir hádegi.
  Svo kemur þessi með þetta á twitter.
  Dylaan_95 Dylan O N
  Looks like Luis Suarez set to sign for Liverpool. The Uruguyan arrived at Melwood today for medical and Liverpool have called presser 2mro

  Lee Howard

  suarez is @ mellwood for medical also press conference at 12 noon 2morrow at anfeild #lfc

  so looks like a big day tomorrow spoke to journos and guess what they are not denying there is press conference but there not admitting it eiter usually they shoot it down straight away

 71. “Neil Jones (Journo) says NO truth in Suarez Medical at melwood Round we go Again”

  Tekið af sömu síðu og hér fyrir ofan..

 72. Sá smá hluta af QPR – Coventry áðan og er þetta í annað sinn í vetur sem ég sé Adel Taraabt spila og hann er vægast sagt flottur spilari. Drengurinn er aðeins 21 árs og er fyrirliði QPR sem leiðir Championship deildina. Væri meira en til í að kaupa þennan kappa, hann ætti ekki að vera dýr en hann kostaði QPR aðeins 600k pund í ágúst 2010 en þá skrifaði hann undir 3 ára samning. Það var einmitt Damien Comolli sem keypti hann til Tottenham á sínum tíma. Ef hægt væri að kaupa hann fyrir lítinn pening held ég að hann yrði vel þess virði að taka séns á honum. Hann er einn af þessum sem alltént lookar á Youtube 🙂 Hafið þið eitthvað séð hann spila upp á síðkastið?

 73. ohh hvað ég vona að þetta sé rétt í commenti 94. Er líka búinn að lesa á nokkrum síðum að við ætlum að reyna að fá A. Young og C. Adam fyrir samtals 21milljón. Þetta eru allt frábærir fótbolta menn og myndu klárlega styrkja okkur mikið… Úff hvað mig hlakkar til 1 feb, þá getur maður slakað aðeins á net rúntinum og þessar slúður fréttir er flest allar úr sögunni.

  En breyting á einu liði, hlaup í eyður (sem var bannað hjá Roy), pass and move. Fyndið sumir sögðu að Torres væri bara orðin slakur en hann skorar 95% marka sinna inní vítateig og hann fékk boltan alltaf við miðlínu hjá Roy.hér er sönnun. http://www.youtube.com/watch?v=1u81oGVVs5U Guð blessi king Kenny og nú segji ég að framhaldið sé bjart.

 74. 96 – ég sá þennan leik áðan og var búin að taka eftir þessum dreng fyrir stuttu og ég er hjartanlega sammála þér, vert að athuga kappan. Hann er kominn með 14 mörk núna í deildinni, hann er taktískur og engar smá neglur sem hann getur tekið.

 75. 2.febrúar eigum við leik gegn Stoke ætli maður vonist ekki til að Suarez,Contrao og Young/Honda/Elia verði komnir 😀 YNWA

 76. getur einhver útskýrt fyrir mér hvað málið er með Andy Gray þarna í linknum hjá Babu#100.. Skil enskuna ekki nægilega vel til að átta mig á því hvað er í gangi þarna

 77. Suárez á afmæli á morgun, 24 ára. Verður það ekki bara dagurinn?

  De Boer hljómar allavega eins og hann vilji bara klára málið:

  “We won’t let Luis go on 31st January at 23.55. It is logical and a deal which I made with [general director] Rik van den Boog.”

  “To replace Suarez will be difficult, but we are ready. We have a Plan B, we know what we want if he leaves.”

 78. Dagur 103 lýst vel á það enda verð ég á anfield á leik Liverpool – Stoke, hef samt enga trú á svona miklu þótt frábært væri…

  2 klassaleikmenn fyrir mánaðarmót og ég er sáttur fram á sumar.

 79. Jæja strákar er ekkert að frétta ?? Ein vika rúm eftir af leikmannaskipta glugga og enn ekki neinn leikmaður verið keyptur. Maður fer að óttast að full mikið púður sé að fara í einn mann, einn góðan mann reyndar ! Það er greinilegt að menn eru að vanda sig mjög vel !

  Annars var þessi leikur tær snilld bara. Nenni ekki að analysera einstaka menn, við unnum 0 – 3 og það er það sem skiptir máli ! Svo er viðtalið við King Kenny alger gullmoli ! hahaha. Elska þennan mann og á mér þá ósk heitast að hann verði stjór Liverpool um langa hríð !

  YNWA

 80. Það allavega bendir til þess að það verði ekki farið út í einhver örvæntingarkaup eins og að kaupa Warnock aftur! Vill frekar fá einn Suarez heldur en einn Warnock plús einhver annar meðaljón.

 81. ég sakna pínu Josemi, held að hann sé besti bakvörður í sögu LFC 🙂

 82. Hallur er augljóslega í ruglinu. Búinn að gleyma Phil Babb, Stig Inge Bjornebye og Jan Kromkamp.

 83. ef þessi kaup á sóknarmanni klárast ekki strax á næstu 2 dögum þá eru þau ekki að fara að eiga ser stað. Lið selja ekki seint í gluggum sérstaklega ekki janúarglugganum. Við munum eftir í lok ágúst þegar Roy var að reyna að kaupa C.cole á síðasta degi West ham vildi ekki selja því það var ekki tími fyrir þá til að kaupa annan (sem betur fer kannski). Og svo í janúar síðast þegar Benitez var að reyna að kaupa Kenwyen Jones í lok gluggans en Bruce vildi ekki láta hann fara því hann hafði ekki tíma til að eyða peningnum. Síðan fór hann á minni pening til Stoke um suarið en Liverpool hafði boðið ! Þetta Suarez case verður að klára sem fyrst !!

 84. Ronaldo, Messi, Iniesta, Xavi og Maicon áður en gluggin lokar og þá er ég sáttur

 85. Lóki (114) – er það ekki venjulega þannig að lítið gerist þar til síðustu klukkutímana fyrir lok gluggans? Yfirleitt er “leikmannagluggavakt” hér á Kop.is síðasta daginn því þá gerast hlutirnir. Ég reikna með að 90% af öllum kaupum og sölum verði þá.

 86. Maicon ? Þú hefur s.s. ekki séð Tottenham – Inter. Óvirðing að nefna hann í sömu setningu og hinir herramennirnir 😉

 87. Jæja ætli það sé eitthvað til í þessu? :Graeme Bailey: Liverpool wise, Charlie Adam is digging in over his demand to get a move to Anfield according to the Daily Mirror – whilst it is believed Damien Comolli is leading a Reds delegation to Amsterdam today in order to secure Luis Suarez.

  Vonandi, þó að ég sé ekki sannfærður um Charlie Adam.

 88. það er sagt á nokkrum slúður miðlum að kaupin á Suarez eigi að ráðast á næstu 2 sólarhringum. Comolli er víst floginn út til hollands.

 89. Það verður allavega að fara að klára einhver kaup, ég er þó ekki ýkja spenntur fyrir Adam nema fyrir undir 5 mp.

 90. Þeir eru að tala um að blackpool vilji fá 10 millz fyrir Adam, Það er náttúrulega bara rugl!! Þá vil ég frekar fá N´zogbia.

 91. þessi kaup klárast vonandi fljótlega, ef trú að þetta Suarez klárist á fimmtudaginn. Ef ekki mikla trú að A. Young komi fyrr en fyrstalagi í sumar, hann er góður leikmaður og Villa vilja örugglega halda honum fram að sumri.

 92. N Zogbia er leikmaður sem mér lýst mjög vel á fyrir 9-10 milljónir….

  Kaupa Zogbia og Zuarez í jan og maður er þokkalega sáttur þar til í sumar

Poulsen byrjar gegn Wolves

Opinn þráður – pass ‘n’ move