Wolves á morgun

Með réttu fólki í kringum sig, áframhaldandi skilyrðislausum stuðningi stuðningsmanna, góðum stuðningi eigenda og góðri samvinnu við yfirmann knattspyrnumála er alveg ljóst að Kenny Dalglish getur léttilega sannfært alla þá sem ekki hafa á honum trú nú þegar að hann geti orðið stjóri Liverpool lengur heldur en bara út  þetta tímabil, miklu lengur.

Um þetta verð ég meira og meira sannfærður með hverjum deginum og það leynir sér ekkert á þessum fyrstu vikum hans í starfi að hann er alveg með þetta ennþá. Það er á hreinu hvernig fótbolta hann stendur fyrir, virðingin sem hann nýtur í fótboltaheiminum og þá sérstaklega í Liverrpool borg er líklega meiri en margir hér á landi gera sér grein fyrir og tilsvör hans á blaðamannafundum gefa allt svo sannarlega vísbendingu um að kóngurinn sé ennþá “með þetta”.

Allir þessir þættir skipta miklu máli og t.a.m. átti fæst af þessu við síðasta stjóra Liverpool. Starfsliðið í kringum félagið er mjög öflugt og ráðning Steve Clarke er eitthvað sem gæti haft litlu minni áhrif á liðið sjálft heldur en ráðning Dalglish. Í honum hefur hann mjög reyndan og afar virtan aðstoðarmann sem hefur verið  á hæsta leveli í boltanum allann þann tíma sem Dalglish var í pásu. Sama á auðvitað við um Sammy Lee en báðir held ég að hafi gleymt meiru gáfulegu um fótbolta heldur en t.d. Mike Kelly stórvinur Roy Hodgson sem fékk að fjúka fljótlega á eftir Hodgson veit um þessa göfugu íþrótt.

Engum, Kenny Dalglish þ.m.t. langar meira að sjá Kónginn rétta félagið af heldur stuðningsmönnum félagsins og enn hafa engar vísbendingar gefið annað í skyn en að eigendur félagsins standi þétt á bakvið hann. Hvað Comolli varðar þá er Dalglish ráðinn eftir komu hans og því fullkomlega meðvitaður um hlutverkaskipti þeirra. Hans verk er að fá spennandi leikmenn á góðum aldri til félagsins og það er eitthvað sem Kenny Dalglish ætti ekki að eiga í vandræðum með að “sætta sig við”. Raunar held ég að hann fagni því svo lengi sem FSG og Comolli standa sig í stykkinu á leikmannamarkaðnum.

Þessu held ég fram þrátt fyrir að hafa fyrir stuttu verið nokkuð skeptískur á það að fá Dalglsih aftur í stjórastólinn. Áhrifin sem hann hefur haft eru bara meiri og jákvæðari en maður þorði að vona og ég fullyrði að enginn annar þjálfari í heiminum hefði fengið mig til að vera svona bjartsýnn fyrir útileik gegn Wolves eins og ég er núna. Hljómar fáránlega að segja þetta enda Wolves í næstneðasta sæti, en miðað við formið hjá okkar mönnum undanfarið og bara þetta hörmulega tímabil í heild er það orðið óraunhæft að spá liðinu sigri og hvað þá á útivelli. Til að toppa það þá höfum við ekki unnið leik á Molineaux síðan Kenny Dalglish var leikmaður Liverpool og það á hans fyrsta tímabili 1978.

En að vissu leiti má segja að stjóratíð Dalglish byrji fyrir alvöru í leiknum gegn Wolves og að sama skapi má færa rök fyrir því að þar með hefjist tímabilið hjá okkur stuðningsmönnum einnig. Fyrir United leikinn var ekkert sem nýr stjóri gat gert nema skipa leikmönnum að hætta strax hinum ömurlega kick & hope bolta sem boðið var uppá fram að þeim leik.

Það tókst reyndar ágætlega og ef ekki hefði verið fyrir óvenju mikið mótlæti í þeim leik er aldrei að vita hvað hefði gerst. Í kjölfarið tóku við 3 dagar sem fóru í það að kynnast liðinu betur og ráða nýjan aðstoðarmann áður en haldið var með dauðþreytt og óskipulagt lið á útivöll gegn fersku liði Blackpool. Ég viðurkenni að sá leikur kýldi mann hressilega niður í smá tíma og maður hefði viljað sjá meira frá liðinu en það breytir því ekki að þetta var annar leikur Dalglish með liðið á 4 dögum og í miðri leikjahrinu sem hafði boðið upp á leik á 3-4 daga fresti.

Fyrir Everton leikinn var enn á ný kominn trú á liðið og núna fengum við að sjá fótbolta í ætt við það sem við viljum sjá frá okkar mönnum, þann fótbolta sem Dalglish stendur fyrir. Þetta var auðvitað bara sýnishorn gegn Everton en ágæt vísbending um að með meiri tíma nái Dalglish að byggja upp lið sem stendur fyrir skemmtilegan og góðan fótbolta. Hann hefur gert það áður og síðast þegar hann var stjóri félagsins átti hann tímabil þar sem liðið bauð upp á knattspyrnu sem Barcelona lið nútímans er þekkt fyrir í dag. Það er auðvitað ekkert líkt með því Liverpool liði sem hann er að stýra í dag og því sem hann tók við og byggði upp aftur fyrir rúmlega tveimur áratugum síðan.

En þá tók hann við sem fullkomlega reynslulaus þjálfari og fór að stýra félögum sínum sem spilandi þjálfari, eitthvað sem hafði ekki gefist vel hjá öðrum liðum og margir höfðu efasemdir um.

Árangurinn hans sem stjóri var svona:

1985/6 – Tvöfaldir meistarar

1986/7 – 2.sæti á eftir Everton

1987/8 – Meistarar og tap í úrslitum gegn Wimbeldun, liði sem við hefðum unnið í 99 af hverjum 100 leikjum en hittum á þennan eina leik.

1988/9 – Bikarmeistarar stuttu eftir Hillsborough og einni mínútu og einu marki (bókstaflega) frá því að vinna deildina líka.

1989/90 – Meistarar (árið eftir Hillsborough)

1990/1 – 2.sæti

Semsagt, hreint fáránlega nálægt því að vinna tvennuna þrisvar á fjórum árum og stuttu  seinna tók hann við Blackburn liðinu, fékk stuðning eigenda til að vera samkeppnishæfur við þá bestu og skilaði eina titli Blackburn í sögunni. Þannig að það er nú ekki alveg að ástæðulausu að honum hefur verið svona vel tekið af stuðningsmönnum Liverpool enda var maðurinn ennþá sigursælli sem leikmaður og það er engu minni tilvilljun að hnignun Liverpool og Blackburn hófst er hann hvarf á braut. Ef þið flettið upp orðinu sigurvegari í orðabók þá kemur mynd af Kenny Dalglish.

Það er þó ekki margt sem bendir til þess að Liverpool eigi neitt í vændum sem líkist þeim tíma er Dalglish var síðast við stýrið hjá félaginu en endurkoma hans hefur svo sannarlega gefið okkur smá von aftur og aukið trúna til mikilla muna. Ef ferill Dalglish er skoðaður í þessu samhengi ætti öllum að vera ljóst að það er alls ekkert víst að þessi ráðning klikki. Að líkja honum við t.d. Kevin Keegan og endurkomu hans til Newcastle er móðgun við Dalglish enda þarna um að ræða mann sem var bæði betri sem leikmaður og svo sannarlega betri sem framkvæmdastjóri.

En já við erum að tala um leikinn gegn Wolves. Núna hef ég listað upp í mjög stuttu máli ástæðuna fyrir því að ég horfi hæfilega bjartsýnn til þessa leiks, þ.e.a.s. ég hef endurheimt trú mína á framkvæmdastjóra Liverpool og trúi því að liðið eigi eftir að rífa sig upp af rassgatinu. Núna er búið að skipta um eigendur, búið að losa okkur við Hodgson, það er verið að reyna kaupa leikmenn og liðið er farið að spila fótbolta aftur. Núna er bara næsta skref að fara skila þremur stigum í hús og fyrsti sigur King Kenny Dalglish í tæplega tuttugu ár sem stjóri Liverpool verður innsiglaður rétt fyrir þrjú á morgun.

Það er of vægt að segja að þetta sé skyldusigur, það er með öllu óásættanlegt að vinna ekki þennan leik og núna er svo sannarlega komið að leikmönnum Liverpool að drullast til að sýna sitt rétt andlit og sanna fyrir stuðningsmönnum að þeim langi að eiga framtíð á Anfield Road. Leikmenn liðsins hafa getað skýlt sig á bakvið vanhæfni Roy Hodgson og stundum átti sú afsökun alveg rétt á sér en núna er runninn upp sá tími þar sem leikmenn Liverpool þurfa að hætta að leita að afsökunum, hætta að tala um að allt sé svo jákvætt og hætta að valda fokkings vonbrigðum. Núna er kominn tími til að sýna það í verki.

Á Tomkins Times má sjá ógnvænlega töflu sem sýnir í hvernig formi liðin hafa verið undanfarið, hún er svona og ég mæli með að menn lesi þetta með lokuð augun:

Þetta er með öllu fáránlegt að sjá svona svart á hvítu og hreinlega bara erfitt að trúa þessu. Ef þeir leikmenn sem fá það verkefni að spila gegn Wolves á laugardaginn geta ekki fundið hjá sér hvatningu til að snúa þessu gengi við nákvæmlega þá á stundinni  mega þeir líklega fara koma umboðsmönnum sínum í skilning um að þeir séu ekki þess verðugir að spila fyrir Liverpool FC.

Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir Wolverhampton Wanderers, þeir hafa ágætt lið sem gefur gjörsamlega allt í sína leiki og hafa verið á sæmilegu skriði undanfarið. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu á Anfield Road fyrir u.þ.b. þremur vikum í leik þar sem þeir voru betri aðilinn, síðan þá hafa þeir m.a. unnið Chelsea á heimavelli og um síðustu helgi töpuðu þeir naumlega 4-3 gegn Man City í hörkuleik. Þeir eru í næstneðsta sæti deildarinnar en hafa engu að síður sannað það í vetur að ekkert lið getur bókað þrjú stig gegn þeim og allra síst Liverpool.

Raunar hefur Liverpool alls ekki gengið vel með Úlfana undanfarna áratugi hafa liðin t.a.m. skilið jöfn í báðum leikjunum á Molineaux sem þau hafa spilað eftir að Wolves komst upp í úrvalsdeild. Félögin hafa þó mæst mæst í 91 skipti í sögunni og hafa leikar endað með sigri okkar manna í næstum helming leikjanna, n.t.t. 44 leikjum.

Það er stutt síðan Wolves fór að láta til sín taka í ensku úrvalsdeildinni en liðið má engu að síður svo sannarlega muna sinn fífil fegurri. Félagið er eitt af þeim liðum sem tók þátt í að stofna deildarkeppni á Englandi og var stofnað 1877. Þeir urðu meistarar þrisvar um miðja síðusu öld og áttu stórskemmtilegt lið á áttunda áratugnum sem náði langt í bikarnum og var þekkt fyrir skemmtilegan fótbolta.

Ferðalagið til Wolverhamton er annars ekki langt fyrir okkar menn enda borgin staðsett í Vestur-Miðlöndum rétt norðan af Birmingham. Þetta er 240.þúsund manna iðnaðarborg sem telst vera 13.fjölmennasti þéttbýliskjarni Englands ef svæðið í kringum borgina er talið með. Þ.e.a.s. þetta eru um 500.þúsund manns ef “höfuðborgarsvæðið” er talið með.

Fyrstu staðfestu heimildir um borgina eru frá 995 er Lady Wulfrun var úthlutað þessum landskika af frændfólki sínu úr konungsfjölskyldunni og af henni er nafnið augljóslega dregið. Borgin er annars bara tíspísk ensk iðnaðarborg og líklega bara lang þekktust fyrir knattspyrnulið borgarinnar.

Eins og áður segir þá á liðið langa og merkilega sögu en engu að síður er erfitt að neita því að Wolverhamton er svo óspennandi eitthvað að sú staðreynd að þeir voru fyrsta liðið til að hafa einn besta leikmann United á launaskrá hjá sér verður merkileg. Þá er ég auðvitað að tala um hin knáa leikmann Own Goal sem skoraði fyrir Wolves í leik nágrönnum sínum í Aston Villa seint á þarsíðustu öld, fyrstur allra.

Eins og flestir  vita þá spilar Wolves heimaleiki sína á Molineaux sem er völlur sem var byggður árið 1889. Í sögulegu samhengi er völlurinn líklega mest þekktur fyrir að vera einn af fyrstu völlunum til að setja upp flóðljós (1953) sem þótti mikil bylting þá og gerði þeim kleyft að fá nokkur af stærstu liðum Evrópu í miðri viku á Molineaux til að spila æfingaleiki á uppljómuðum vellinum (þetta var fyrir tíma evrópukeppninnar). Eins áttu okkar menn lengi metið ásamt heimamönnum yfir flesta áhorfendur á þessum velli er þeir náðu árið 1938 að troða rúmlega 61.þúsund manns inn á völlinn. Eftir að öllum liðum var gert skylt að koma fyrir sætum á heimavöllum sínum var Molineaux tekinn algjörlega í gegn og í dag komast tæplega 30.þúsund manns fyrir á vellinum og uppi eru áform um að fjölga sætum um 6.þúsund á næstu árum.

Þjálfari liðsins er hinn gamalreyndi íri Mick McCarthy. Hann var harður í horn að taka sem leikmaður og gaf gjörsamlega 100% í hvern leik og var hin fullkomna týpa til að vera fyrirliði í skemmtilegu landsliði Írlands sem Jack Charlton leiddi til magnaðra afreka þrátt fyrir afar takmarkaðan hóp. Það kom því ekki mikið á óvart að McCarthy tæki við af Jack Charlton er sá gamli hætti árið 1996 og hélt áfram með liðið á sömu braut. Írar rétt misstu af HM 98 og EM 00 en tókst að komast á HM í Japan 2002.

Þar lenti McCarthy í mesta fjölmiðlasirkhús sem hann hefur lent í er geðsjúklingurinn Roy Keane fékk ekki nógu fagmennlega þjónustu hjá írska knattspyrnusambandinu og gjörsamlega fuðraði upp og rauk á endanum heim í fýlu korteri fyrir mót. Keane var ósáttur við þetta létta og hálf kæruleysislega andrúmsloft sem McCarthy bauð uppá og gleymdi þar alveg að taka inn í reikninginn að helsta vopn íra hefur alltaf verið frábær liðsandi sem hefur hjálpað til að vinna á móti getuleysi liðsins. Roy Keane var auðvitað of merkilegur fyrir þetta og því fór sem fór.  (Keane til varnar þá var hann langbesti leikmaður liðsins, vanur mikið betri aðstæðum……og já, klikkaður).

En nákvæmlega þetta hefur einkennt feril McCarthy síðan, það er aldrei hægt að saka lið sem hann sendir út um að hafa ekki gefið allt sitt í verkefnið og hann nær oft merkilega miklu út úr litlu í liðum sem byggja upp á góðum liðsanda. En hann er engu að síður frekar takmarkaður stjóri og hefur ekki náð að festa sig í sessi í úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa tvisvar náð að koma liði upp um deild og alltaf verið í toppbaráttu í næstefstu deild.

Árið 2005 rústaði Sunderland lið hans Championship deildinni en styrkti sig ekkert af viti fyrir næsta tímabil og féll aftur. McCarthy var rekinn og til að strá salti í sárin réð Sunderland Roy Keane sem arftaka hans. Árið 2006 tók hann við liði Wolves sem hafði þurft að selja megin þorra leikmanna sinna eftir misheppnaða veru í efstu deild undir stjórn Glenn Hoddle. Hann byggði upp nýtt lið á ungum leikmönnum og leikmönnum sem hann fékk ódýrt frá neðrideildarliðum og lofaði að koma Wolves í efstu deild innan þriggja ára. Þetta loforð var hann grátlega nálægt því að efna á sínu fyrsta ári en Wolves tapaði fyrir WBA í umspili. Árið eftir var Wolves í 7.sæti og óhagstæðri markatölu frá umspilssæti. Í þriðju tilraun vann Wolves síðan deildina og alveg eins og McCarthy lofaði var úrvarlsdeildarbolti aftur á dagskrá á Molineaux. Honum tókst síðan að halda liðinu uppi í fyrra sem verður að teljast magnað afrek útaf fyrir sig.

Núna er Wolves í bulllandi botnbaráttu en með leikmenn innan sinna raða sem geta alveg hjálpað McCarthy að halda sér áfram í deild þeirra bestu. Leikmenn eins og markvörðinn Marchus Hahnemann, skotana Steven Fletcher í sókninni og Berra í vörninni, Ebanks-Blake sem var markahæsti leikmaður næstefstu deildar er liðið fór upp, svo ekki sé talað um kantmennina öflugu þá Matt Jarvis sem hefur verið besti leikmaður Wolves í ár og síðan hinn þræl skemmtilega Adam Hammil sem gekk til liðs við Wolves nú í vikunni. En eins og menn vita er það leikmaður sem uppalinn er hjá Liverpool F.C. og sjá sumir á eftir honum.

Það er að segja Wolves er með fínt lið enda væru þeir ekkert í úrvalsdeildinni annars. Þeir hafa unnið Liverpool á Anfield Road og gerðu það bara fyrir nokkrum vikum. Það breytir því ekki að okkar menn eiga eins og áður segir að skila þremur stigum í þessum leik.

Standið á okkar mönnum er alltaf að batna og það er ljóst að þetta nýja læknateymi sem við fengum er eitthvað að gera rétt. Annaðhvort það eða þá að hópurinn er bara orðinn svona fjandi lítill. Allavega eru bara þrír leikmenn fjarverandi fyrir þennan leik þó reyndar séu tveir af þeim talsmenn klúbbsins. Steven Gerrard á einn leik eftir í banni og Jamie Carragher er ennþá meiddur. Auk þeirra er Jovanovic frá vegna veikinda þó reyndar enginn hefði tekið eftir því hefði það ekki verið gert opinbert. Auk þessara er ekki alveg víst hvort Ryan Babú verði ennþá leikmaður liðsins um helgina.

Joe Cole er hinsvegar aftur klár í slaginn og svei mér þá er Fabio Aurelio sé ekki bara heill líka og það á sama tíma. Danny Wilson virðist vera afar nálægt því að fá séns í liðinu og spilaði ásamt Cole í varaliðsleik í vikunni þar sem hann stóð sig vel. Auk hans er hávær orðrómur um að Dalglish hafi mjög mikið álit á Dani Pacheco enda leikmaður sem ætti að henta spilastíl skotans vel. Það fer því að verða nokkuð flókið að spá fyrir um líklegt byrjunarlið hjá Dalglish enda margir sem koma til greina og hann alls óhærddur að gera tilraunir með liðið og gefa ungum leikmönnum séns.

Án þess að hafa svo mikið sem grænan grun um það þá tippa ég á þetta byrjunarlið á morgun:

Reina

Kelly – Skrtel – Agger – Johnson

Meireles – Lucas
Kuyt – Cole – Maxi
Torres

Svipað lið og vanalega, Kelly er ekkert að fara úr bakverðinum og frekar held ég að Skrtel víki fyrir Kelly heldur en að Kelly detti út fyrir Johnson fari svo að hann komi aftur í hægri bakvörðinn. Eins tippa ég á að Cole komi inn í byrjunarliðið og róteri mikið stöðu með Kuyt og Maxi.

Spá:

Þetta lið vinnur Wolves 0-1 í nokkuð erfiðum leik og það verður Dirk Kuyt sem skorar og gott ef það verður ekki eftir víti. Eftir síðasta leik sendi ég föður mínum sem haldið hefur með Úlfunum síðan ég man eftir mér eftirfarnandi SMS skeyti: “Wolves vann Liverpool á Anfield, ég heyri bara í þér í næstu viku frekar en á morgun” og mig langar ekki að senda svipað SMS aftur eftir þennan leik.

Nei þakka ykkur fyrir.

Babú

87 Comments

 1. Fín upphitun! Eigum við samt ekki að leyfa sögunni að dæma endurkomu Kenny´s, hann hefur svo sem ekkert unnið ennþá og það getur brugðið til beggja vona. Ráðning hans mun skekkja alla umræðu hér og hvernig menn líta almennt á klúbbinn, þó að ráðningin sjálf sé vonandi góð. Ég hnýt um það í grein þinni að það sé margt jákvætt í spili liðsins nú, en þrír leikir og eitt stig það getur aldrei talist gott. Leikir gegn MU og Everton eru alltaf leikir sem spilast á sjálfstýringu, ekki þarf að mótívera þessa gæja í það verkefni.Og tap gegn Blackpool!!!Ég skal vera jákvæður þegar ég sé bragarbót og stig í hús, í fleirtölu.

 2. Nr.2 Hérinn

  Enda er ég þarna að lista upp ástæður þess að mér lýst vel á endurkomu Dalglish og benda á að þetta þarf ekki að vera svo ólíkleg ráðning til lengri tíma litið, er samt alveg að mestu á jörðinni ennþá. Upphaflega átti punkturinn þó að ganga út á að núna væri komið að leiknum sem leikmenn liðsins verði að sýna hvað þeir geta og að þeir bara verði að landa fyrsta sigrinum fyrir Dalglish.

  Það er samt ekkert breytt hjá mér varðandi það að ég vill sjá hann ná árangri (koma liðinu á smá sigurbraut) og bæta fótboltann varanlega áður en ég samþykki hann endanlega sem besta kost okkar til framtíðar. En mér lýst gríðarlega vel hann so far.

  Munurinn á fótbolta KD og RH er strax greinilegur og á bara eftir að verða skýrari þannig að ég sé enga ástæðu til að vera annað en bjartsýnn þó þetta hafi farið aðeins meira út í Dalglish pistil heldur en ég ætlaði mér að gera….það er bara takmarkað hægt að segja um Wolves sjáðu til 🙂

 3. Stórkostleg upphitun hjá þér babu eins og alltaf.

  Er alveg sammála þér með King Kenny. Þetta er svart og hvítt, hvernig hann talar við fjölmiðla eða lætur liðið spila. Hann er þjálfari sem þorir að spila sóknarbolta, hreyfing á leikmönnum án bolta er miklu betri en hún var og hann þorir að taka menn útaf þegar þeir geta ekkert. Fyrir mér er þetta eini þjálfari sem ég man eftir sem er stærri en leikmennirnir síðan ég byrjaði að horfa á hvern einasta liverpool leik. Leikmennirnir dá og dýrka Kenny maður sér það í augunum á þeim. Fyrir mér er ekki langt í sigur og sigurgöngu.

  Vissulega er maður kannski of bjartsýnn en eitt sem ég hef mikið hugsað út í. Ef að Dalglish heldur ekki áfram með liðið, hvernig á næsti þjálfari að fá vinnufrið ef ílla gengur? þar að segja til dæmis ég vill sjá hann áfram næstu árin, en ef hann verður látin fara í sumar og ekkert gengur hjá nýja þjálfaranum heimta ég allavega Kenny aftur. Er Dalglish ekki eini þjálfarinn sem myndi fá virkilegan vinnufrið með þetta lið og hvernig er hægt að taka við eftir The King?

  En aftur að leiknum, klárlega vinnum við Woles, það er allt annað að sjá liðið og bara tímaspursmál hvenær þetta ferð að ganga upp.

 4. Takk fyrir frábæra upphitun. Þetta er eins og lesa góðan reyfara… skemmtilegur og fljótandi stíll. Ótrúlegustu fróðleiksmolar… Frábært.. 🙂

  Það er komið að þætti El Nino þessa leiktíð. Spái því að hann verði mataður í þessum leik eins og á að mata hann og Úlfarnir fá þá tilfinningu að hafa orðið fyrir járnbrautarlest.

  1-4 … case closed.

  YNWA

 5. Ég ætla að missa mig í bjartsýninni og spá því að Torres verði með sína fyrstu þrennu í langan tíma. Hann hefur litið miklu betur út síðan Kenny tók við og þetta verður leikurinn þar sem hann nær sér aftur á strik hundrað prósent. Þetta verðu 2-4 leikur. Ég hef því miður enga trú á því að vörnin okkar standi sig og því spái ég Wolves 2 mörkum.

 6. svakaleg upphitun, var gjörsamlega slefandi af spenningi að lesa þetta !!! Talandi um Kenny, ef hann er ekki stjórinn til að fá til okkar leikmenn sem við teljum vera Liverpools hæfa, nógu góða til að spila fyrir Liverpool, þá fær enginn stjóri leikmenn til liðsins á þessum dögum. Ég er frekar bjartsýnn fyrir þennan leik og býst við blússandi sóknarbolta og há pressu fra fyrstu mínútu.

  YNWA

 7. en ef hann verður látin fara í sumar og ekkert gengur hjá nýja þjálfaranum heimta ég allavega Kenny aftur.

  Þessu er ég reyndar mjög ósammála, fyrir mér er þetta algjörlega síðasti séns hjá Dalglish og við verðum að átta okkur á því að það má ekki byrja að hrópa hans nafn um leið og það byrjar að ganga illa hjá nýjum stjóra. Hodgson var one off dæmi og vonandi heldur sú hefð áfram hjá stuðningsmönnum Liverpool að styðja stjórann sinn og liðið, líka þegar á móti blæs. En til þess að arftaki Dalglish eigi séns á vinnufrið þarf kóngurinn að fá alvöru tækifæri með þetta lið áður.

 8. Truflaðislega góð upphitun að vanda : ) LFC 2-0 Wolves Torres 18min og Meireles 62min

 9. 100% sammála # 8.

  Vil forðast það í lengstu lög að verða eins og N´castle og/eða real madrid – þar sem meðalstarfsaldur knattspyrnustjóra nær ekki leiksskólaaldri.

 10. Þegar ég les þessa frábæru upphitun frá Babu þá minnist ég orða nafna hans, Babu Bhatt úr Seinfeld: “They told me the wheels were in motion, but there was no motion!”
  Ég vona að leikurinn gegn Wolves snúi öllu við. Að hjólin fari að snúast.

 11. Kenny er klárlega legend, en ef ég á að segja satt þá hafði ég ekki mikla trú á honum. Búinn að vera of lengi frá, en miðað við síðustu leiki þá er hann gjörsamlega búinn að troða upp í mig. Þetta er allt annað lið sem er inná vellinum. En án gríns, held ég að það sé björt framtíð hjá okkur, loksins sé ég eitthvað bjart framundan. Eigundurnir lofa mjög góðu, Kenny er búinn að sína það að hann vill klárlega vera áfram sem stjóri.

  Einn bjartsínn sem hefur ekki verið það lengi !!!

 12. Svakaleg upphitun alveg 🙂

  Við vinnum þennan leik, ég er algerlega viss um það.

 13. Þú hefur ekkert verið að drífa þig að gera þessa upphitun! Ætla að lesa þetta þegar ég er búinn í skólanum.. bíð spenntur 😀

 14. Flott upphitun a vanda hja Babu! Líst vel á það sem Commoli segir að honum lítist ansi vel á Suares og Young. Hvort þeir verið keyptir nú í jan er annað mál. Þeir sjá það sem við sjáum að það vantar hraða í liðið og við munum örugglega sjá hraða og tekníska leikmenn koma til liðsins á næstunni. Annars væri ég mjög hrifinn að setja Glen J. Á hægri vænginn fyrir framan Kelly og Cole í holuna fyrir aftan Torres. Meireles með Lucas á miðjunni og Maxi hægra megin og Aurelio eða Konchelsky því miður í hægri bak. Flott grein frá Dalglish um eyðsluna. Við fáum sigur á morgun 0-2 Torres og Cole. YNWA

 15. Þetta er glæsileg upphitun. Hugsa að pennar á helstu dagblöðum Liverpool og bara víðar myndu glaðir hreykja sig af svona skrifum !

  En af leiknum sjálfum. Ég er á því að hveitibrauðsdagar Dalglish séu á enda og liðið verði að fara að skila stigum í hús. Ekki það að ég sé með óraunhæfar kröfur á Dalglish eða leikmenn heldur bara þá einföldu staðreynd að með hverjum leik styttist í endalok tímabilsins. Ef að Dalglish hefur hug á að halda áfram með starfið og að það sé sterkur vilji leikmanna til að hann haldi áfram þá verða menn bara að girða í brók og færa nýjum eigendum stig í hús og þar með sannfæringu um að Dalglish sé rétti maðurinn í starfið ! Þetta er einföld formúla. En annars er ég bjartsýnn á sigur í leiknum á morgun. Eftir að hafa horft á leik Liverpool – Everton frá frábæru sjónarhorni Paddock stúkunnar seinustu helgi þar sem menn fóru vel með pass and move kerfið er ekki ástæða til annars. Ég vil að hann haldi sama byrjunarliði og í þeim leik því þeir stóðu sig vel og engin ástæða til að breyta um lið. Eina sem ég myndi kannski vilja breyta er að Wilson kæmi inn fyrir Skertl.

  Svo bara áfram Liverpool og áfram Ísland !
  YNWA

 16. Jæja er eitthvað að gerast hjá klúbbnum?
  paul_tomkins2 mins
  RT @TheKopMagazine: Official #lfc announcement at 12.30pm on @LFCTV will be a positive development for all of us.

 17. Þeir segja að þessi fundur sé ekki tengdur kaupum á leikmönnum: “PaulRogersLFC Official LFC announcement on http://www.lfc.tv at 12.30pm. It’s not related to transfers, players, manager, stadium or Chief Exec search. @LFCTV

 18. . It’s not related to transfers, players, manager, stadium or Chief Exec search. @LFCTV

  hmm hvað kemur þá til greina? Nýir styrktarsamningar?

 19. Mér dettur í hug vallarmálin. Kannski eru þeir að fara kynna sínar útfærslur á því hvernig á að stækka Anfield ??

  Annars frábær upphitun. Ég hef aldrei þessu vant mjög góða tilfinningu fyrir leiknum á morgun, held að Torres skori tvö.

 20. Það kom smá spennukippur í mann við að það væri fréttamannafundur en ekki neinar fréttir af leikmannamálum eða vallamálum. Er farinn að hallast að því að ekkert verði keypt í janúar af leikmönnum og aðeins Babel verði seldur !

 21. Hvað segið þið …. hvenær kemur Suarez ?

  Engar fréttir af Twitter með stórum staf ? Ekki fleiri fake-accountar að pósta neinu ? 🙁

 22. Djöfull væri gott ef eitthvað færi að gerast í leikmannamálum, biðin er bara of erfið. Það hlýtur eitthvað að gerast. Ég verð á vellinum á leiknum gegn Stoke á Anfield 2 febrúar, sé ég ekki bara þá Suarez spila sinn fyrsta leik? væri gaman en þó meira til í að sjá hann mæta fyr því biðin er of erfið..

  En að leiknum á morgun þá vinnum við hann 1-2 í mjög erfiðum baráttuleik. Meireles skorar aftur, þeir jafna og Torres klárar leikinn….

 23. Glaesileg upphitun!!
  Vona ad vid sinum sama anda og fyrstu 45 min a moti Neverton,tá vinnum vid tetta.
  vona King Kenny faer sinn fyrsta sigur a morgun.

  Eg held vid faum stadfest kaup i dag!

 24. Hvernig væri það að einhver þeirra sem sjá um þessa stórglæsilegu síðu myndu sækja um að komast að í þessari nefnd sem er minnst á í #25. Þeir yrðu án efa stórkostlegir fulltrúar aðdáenda klúbbsins. Annars er þessi nefnd stórgóð hugmynd og passar vel við fullyrðingar þeirra um að hlustað yrði á stuðningsmenn.

  Upphitunin er vel gerð eins og ávallt Babu. Ég spái sigri, Torres með tvennu!

 25. Þetta er gamalt viðtal. Var tekið í desember. Miðað við að þetta viðtal sé síðan í desember þá eru ummæli Comolli skiljanleg.

 26. Hvernig væri það að einhver þeirra sem sjá um þessa stórglæsilegu síðu myndu sækja um að komast að í þessari nefnd sem er minnst á í #25.

  Þetta er eitthvað sem ég held að SSteinn ætti að vera sjálfkjörin í. Ekki segja honum samt að ég hafi sagt það.

  En til að röfla smá þá held ég að þeir hefðu átt að bíða með svona tilkynningar þar til þessum leikmannaglugga lokar. Það héldu allir að þeir ætluðu að kynna nýjan leikmann þegar þeir boðuðu þennan blaðamannafund og því voru þetta smá “vonbrigði” 🙂

 27. VÁVÁ hvað þetta var rosaleg upphitun!
  Splæsi á þig einum ísköldum fyrir þetta.

  Er ég að rugla þegar ég held að Kóngurinn Kenny, var hann ekki síðast stjóri Celtic og drullaði uppá bak(eða 20 stigum á eftir Rangers) Annars er ég kannski að bulla

  Við vinnum þennan leik ekki á morgun samt, held hann fari 2-2 eða 3-2 fyrir Wolves (Jinx) 🙂

  Góða helgi strákar!

  YNWA!!

 28. Sælir félagar

  Þessi upphitun er ljósið sem varpar birtu á það af hverju kop.is er besti umræðugrundvöllur um fótbolta norðan Alpafjalla og þó víðar væri leitað í universinu.

  Það er nú þannig

  YNWA

 29. Kæru vinir,

  Ég hef hér með tekið allar Liverpoolmyndir úr bakgrunnum á tölvum, iPad og iPhone. Ég hef einnig losað mig við alla Liverpoolbúninga sem ég átti og voru merktir með nafni. Ég biðst afsökunar á því að hafa þrjóskast við að gera þetta í eins langan tíma og raun ber vitni. Ólukka liðsins er að öllum líkindum bölvun minni að kenna og því ættum við að geta andað léttar næstu daga þegar gengi liðsins snýst við.

  Um hvað er ég að tala?

  Jú, ég (og allir sem til málsins þekkja) er sannfærður um að ólukka Liverpool FC sé bölvun minni að kenna. Sem nýleg dæmi má nefna að daginn sem ég keypti mér Kewell treyju meiddist hann í fyrsta (en alls ekki síðasta skipti) hjá Liverpool. Eftir að ljóst varð að Kewell yrði aldrei sá leikmaður sem ég vonaðist til (a.m.k. ekki í Liverpool treyju) ákvað ég að kaupa mér Fernando Morientes treyju – daginn sem hann spilaði sinn fyrsta leik á Anfield! Það þarf náttúrulega ekki að fjölyrða um hversu lélegur Nando var hjá Liverpool….

  Ég var farinn að vera stressaður yfir því að með því að kaupa mér treyju með nafni Liverpoolmanns aftaná, yrði viðkomandi annað hvort lélegur eða meiddur!

  En tvö dæmi nægja ekki til þess að sanna þessa reglu.

  1. júní 2006 var ég að spila fótbolta í London. Við skiptum í lið eftir lit á treyjum og ég fékk lánaða bláa treyju frá einum kunningja mínum. Ég fór í treyjunni heim og skilaði henni ekki fyrr en viku seinna. Nokkrum dögum eftir að ég spilaði í bláu treyjunni, þann 7. júní, í æfingaleik fyrir HM, fótbrotnaði Djibrel Cissé aftur. Hann var reyndar ekki Liverpoolmaður lengur á þessum tíma (að mig minnir), en engu að síður var athyglisvert í meira lagi að helvítis treyjan sem ég fékk að láni var frönsk landsliðstreyja með Cissé aftaná…………..!!

  Ég hef því ekki þorað að kaupa mér Liverpooltreyju með nafni aftaná síðan þá. Það kom þó ekki í veg fyrir það að jólin 2009 fékk ég treyju með Gerrard aftaná í gjöf frá tengdó. Ég vil reyndar meina að Gerrard hafi verið lélegur allt tímabilið 2009/2010, en aðrir gætu litið á það sem svo að Gerrard hafi verið sérstaklega lélegur seinni hluta tímabilsins.

  En örvæntið eigi! Ég er búinn að koma treyjunum öllum í vörslu og svo til þess að ganga úr skugga um að bölvuninni verði aflétt, hef ég tekið út alla Liverpoolbakgrunna á öllum þeim tækjum sem mér tengjast. Það ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu að gengi Liverpool fari batnandi næstu daga.

  Ég biðst innilegrar afsökunar á framferði mínu, kæru vinir. Fyrirgefið mér.

  PS: Spurning samt um að ég kaupi mér Poulsen treyju og sjái hvort hann verði ennþá lélegri eða hvort að “bölvunin” virki öfugt á afburðalélega leikmenn?

 30. Spurning hvort að við fáum ekki spjallara á Kop.is til þess að splæsa á þig svona eins og nokkrar manchester united treyjur.

 31. Kæri Babu.

  Hér með útnefni ég þig (veit ekki hvort það hefur nokkurt gildi en ég geri þetta samt) sem aðal upphitarann sem ég hef séð / lesið bæði norðan og sunnan Alpafjalla.

  Núna hefur okkar maður fengið góða viku með okkar mönnum og ég býst við fáránlega agressivum fótboltaleik okkar manna. Tökum þetta 3-1. Treystum á vörnina okkar til að gefa eitt mark en pressan skilar 3.

 32. Liverpool er víst að bíða eftir hvað Ajax svarar, eftir að LFC betrumbættu boðið sitt. Það er líka eitthvað annað boð búið að koma inn en samkvæmt manninum sem sagði þetta inná rawk spjallinu þá vill Suarez fara til Liverpool.(Hann er einhver insider sem kemur með flestar fréttirnar)

  Don’t shoot the messenger, er bara að miðla þessu áfram þannig það þarf ekki að fara inná rawk spjallið.

 33. Legg til að babú og aðrir bloggarar á bloggi þessu fái fálkaorðu fyrir frábæra síðu.
  Upplegg pisla bæði hjá babú og magga, (sem mér finnst vera einn allra besti penni sem til er á landinu.) stíll,mikil innsýn inní í lið liverpool og fleira i þeim dúr
  er bara frábær.
  Sorgleg að síða þessi c ekki meðal mest lesnu netsíða landsins samkvæmt rafrænni mælingu.
  Þetta verður erfiður útileikur, sem endar með jafntefli 1-1.
  ‘Utivöllur hefur ekki verið beint vinur okkar þetta tímabilið.
  Ef liverpool á að vinna þennan leik, verður torres að skora meira innan vallar en hann gerir utan vallar.
  Aðrir leikmenn verða líka stíga upp og gera betur en þeir hafa verið að sýna hingað til.
  Það er lykillinn að velgengi liverpool.

 34. Flott upphitun Babu, held að við vinnum 0-2 torres og glen með mörkin (held að glen fari að finna sig hjá K.K)

 35. Get staðfest frásögn ÓHJ og sök hans alla í þessu máli. Þetta er löngu tímabær ákvörðun hjá honum að taka og nú er ég fullviss um að bjartir tímar séu framundan.

 36. 44 púlari er þetta einhvað traustar heimildir ?? fréttirnar sem þessi síða er að pósta er allt af cauchtoffside og daily mail og svoleiðis drasl síðum. gætir alveg eins tekið mig jafn alvarlega ef ég myndi segja að Messi væri á leiðinni í lækniskoðun núna klukkan 5

 37. Fullkomlega off topic en var að sjá þetta á Fésinu áðan frá LFC Transfer Speculations. Minnir mig á innlegg Magga fyrir nokkru þegar hann orðaði það einhvernvegin svo að við hér á klakanum gerum okkur stundum ekki grein fyrir hve Rafa var og er vel metinn í höfuðborginni okkar Liverpool. Myndin á að vera ný http://url.is/4k4

 38. Las á síðu að Comolli hafi sagt að við ættum nóg af pening og værum ekki í skuldum og þeir ætluðu að fjárfesta í leikmönnum. Skil ekki af hverju þetta tekur svona djöfuli langan tíma!
  Voðalega verður það mikill léttir ef ég myndi fara á netið á morgun og þar myndi standa “Suarez til Liverpool (Staðfest) og mynd af honum með K.K. Myndi létta virkilega á mönnum!

 39. Vonum að Roy Hodgson frétti ekki af þessu með ÓHJ, hann gæti farið í skaðabótamál við hann vegna vinnutaps

 40. Þessi upphitun á skilið nóbels verðlaun!

  Ég ætla að vera extra bjartsýnn í dag og spá 1-3 eða 1-4! Meireles með 1 og Torres 2 (eða 3)!

 41. Glæsileg upphitun en spurning hvort það hefði mátt skipta henni í tvennt, það er pistil um Kónginn og svo upphitun um leikinn. En ljómandi skemmtilegt aflestrar.

  Hvað liðið varðar þá ætla ég að spá því að það verði eftirfarandi
  Reina – Kelly, Skrtel, Agger, Aurelio – Johnson, Mereiles, Lucas, Kyut – Cole – Torres.

  Áfram Liverpool

 42. Þakka hlý orð varðandi upphitun.

  spurning hvort það hefði mátt skipta henni í tvennt, það er pistil um Kónginn og svo upphitun um leikinn.

  Eins og ég sagði í nr. 3 þá var þetta eiginlega alveg óvart enda veit ég vanalega ekkert um hvað upphitun á að vera þegar ég byrja. Já og Wolves eitt og sér er mjög takmarkað áhugavert 🙂

 43. Gaman ad sja hvad allir er bjarsynir fyrir morgundeginum.. Vildi ad eg vaeri eins bjarsynn en an Gerrards er eg ekki ad sja Torres setja 3 mig hefur fundist soknarleikurinn svo hugmyndasnaudur a G ad ef vid slefum leikinn ta erum vid ad tala um 1-2

 44. við vinnum á morgun….. það er búið að vera ekkrt nema jákvæðar fréttir að koma úr herbúðum liverpool núna þessa viku…..

  en ég er farinn að efast um að það verði keyptur nokkur leikmaður í janúar…… rosa mikið að frétta en gerist ekki neitt…… getur verið að ég sé svartsýnn………..

 45. Þetta er svo FÁRÁNLEGA góð upphitun að ég held að við setjum 4 mörk á morgun !! 4-0 Kuyt, Meireles, Torres 2X !!

  YNWA

 46. Þetta hlýtur að fara að smella hjá KK! Hann er búinn að veta að taka til í hausnum á mönnum eftir Benítez og Hodgson. Kuyt endurfæddur og allt að gerast. Fullt af litlum kjúklinum sem hlaupa út um allt!!!! Getur ekki klikkað. Áfram LFC 🙂

 47. Ef það myndi vera gerð skoðunarkönnun á síðunni um besta pennann, þá held ég að Babú myndi vinna hana (ekki taka þessu sem móðgun strákar, þið eruð frábærir). 3-0 á morgun, Torres með þrennu.

 48. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að enginn skuli hafa commentað hér í meira en klukkutíma?
  Eru allir á djamminu?

  Koma nú strákar og stelpur, einhverjar twitter slúðurfréttir um leikmannakaup?

 49. Ekki sjéns við töpum eftir þessa frábæru upphitun!

  Hvað vill ég sjá betra en í síðasta leik, Skrtel út, þarf ekki að ræða það frekar. Til á alla aðra en hann í miðvörðinn, Kelly þessvegna eða þá Wilson. VIl fá eitthvað vit í varnarleik í föstum leikatriðum. Að þessu sögðu og að endingu þá er ekki spurning að við vinnum og Torres setur amk tvö kvikindi.

 50. 61*

  Er einmitt búinn að vera refresha síður útum allt að bíða eftir nýjum fréttum hjá Liverpool sambandi við leikmannakaup. Eina sem er búið að gerast er Liverpool bauð 4,5m í Charlie Adams enn því var hafnað og eru þeir að íhuga hvort þeir ættu að bjóða betur eða leita annað. Svo sýnist mér ekkert annað nýtt vera komið um Suarez efast um að það komi fyrr enn eftir leikinn þar sem leikmennirnir eru farnir uppá hótel og líklegast verið að einbeita sér bara að leiknum sem er gott.

  Vonandi að þetta Suarez mál fari að klárast þannig maður getur farið að gera annað en að skoða fréttasíður!

 51. 64

  Já þetta er í raun merkilegur andskoti, stuðningsmenn Liverpool virðast hugsanlega eiga sér líf sem snýst um eitthvað annað en okkar ástkæra lið!!!!

  Mér finnst þetta nánast landráð, enda hef ég hafnað öllum boðum og skildum þar til a.m.k. janúar glugginn er liðinn.

  F5 er tekin við af konunni…..hamra á “henni F5” daginn inn og daginn út….

  Svo er maður hissa þegar allir eru farnir og íbúðin tóm nema liverpool plakötin og Champions of Europe 2005 kaffikannan þega maður vaknar!

 52. Frábær upphitun, og virkilega upplýsandi. En ein setning fer mjög fyrir brjóstið á mér.

  “1987/8 – Meistarar og tap í úrslitum gegn Wimbeldun, liði sem við hefðum unnið í 99 af hverjum 100 leikjum en hittum á þennan eina leik.”

  Þið verðið að fyrirgefa en ef þessi setning er ekki yfirfull af hroka, veit ég ekki nógu vel hvað hroki er.

 53. Upphitunin mjög flott. Nú er að sjá hvort KD og hans teymi skili ekki eins frammistöðu á morgun. Ég tek undir með Babú að þetta er algjör skyldusigur. Allt annað er algjörlega óásættanlegt. Við erum í þannig stöðu í deildinni að ekkert minna en 3 stig duga okkur á morgun. Eitthvað segir með að Joe Cole gleðji okkur á morgun. Sel að það ekki dýrara en ég keypti það. 0-2, Torres og Cole klára og Kóngurinn er kominn á skrið.

 54. Síðan hvenær var James ”Smithy” Corden leikari orðinn aðstoðamaður Harry Redknapps?

 55. Þetta var að koma á síðunni sem 44. Púlari postaði. Einhver Liverpool FAN PAGE á Facebook og það er fylgst með fréttum og koma þangað inn virkilega hratt!

  ” Liverpool has put in £18.5m for Luis Suarez and it looks set to be accepted. Ajax originally asked for £20m.”

  Stendur ekki hvaðan þetta er komið en þetta er nýjasti statusinn. Krossa fingur um að þetta sé rétt!!

 56. þetta er alveg rosaleg upphitun bara geðveik og maður hefur alveg rosalega góða tilfinningu fyrir leikin vs wolves á mrg / í dag og spái að leikurinn fari 5-1 fyrir liverpool og torres með 3 og síðan maxi , kelly og agger og að þetta verði alveg rosalegur leikur.

  varðandi kaup á leikmönnum er maður alveg að farast og vill fá að vita allt sem kemur og maður er bara búinn að liggja á öllum síðum í allan dag og ekkert rosalega merkilegt að gerast nema að við reyndum að fá charlei Adams en því miður var því offeri recjectað en ég ætla að gíska á að við fáum 3 leikmenn og ver bjartsýnn á næstu 10 daga og vonast að við fáum : súares, warnock og Adams 😀
  Go liverpool ynwa

 57. Vá hvað ég vona heitt og innilega að Warnock verði EKKI keyptur til liðsins. Meira en til í Suarez og þess vegna Adams. Held líka að það samræmist ekki stefnu eigenda að kaupa 29 ára vinstri bakvörð sem er í besta falli average og verður aldrei neitt meira en það.

 58. Nóg af slúðri svo að það er varla á það bætandi….

  En tveir sponsorar/admin á ynwa.tv segja að Suarez deal verði komið í gegn á mánud. Og hugsanlega tvenn önnur kaup áður en sú vika er á enda.

  Vona að það sé eitthvað til í þessu 🙂

 59. @ÓHJ – veistu hverslags þjáningum þú ert búinn að valda mér og fólkinu í kringum mig síðustu ár?

  @Addi – við tökum ekki þátt í samræmdri vefmælingu. Ég var akkúrat að spá í þessu núna í vikunni. Aukningin á milli ára síðustu 2-3 mánuði hefur verið yfir 30%. Ef við tökum bara síðustu viku, þá litu heimsóknartölurnar svona út:

  37.164 heimsóknir
  8.676 notendur
  90.483 flettingar
  5.23 mín – meðaltími á síðu.

  Á samræmdi vefmælingu Modernus þá myndum við lenda í 40. sæti ef mælt er í einstökum notendum og 33. sæti ef tekið væri mið af síðuflettingum. Eflaust enn ofar ef mældur væri tími á síðu.

  Það finnst mér nokkuð magnað því við fjöllum jú bara um eitt fótboltalið.

 60. Þetta eru vægast sagt ótrúlegar tölur. En kannski ekki skrítið því þetta er besta fótboltasíða á íslandi og þó víða væri leitað.

  Vil bara þakka síðuhöldurum fyrir eina ferðina enn að halda út þessari snilld !

  PS: tökum þetta 4-0 í dag !

 61. vá 90 þúsund flettingar!!!

  það fær mann til að halda að þetta snýst ekki bara um fótboltafélag heldur eru þetta trúarbrögð…… einsog maður hefur fengið að heyra oftar en einusinni……. og oftar en tvisvar:)

 62. þetta er bara besta síða landsins, spá okkar mönnum sigri í dag 3-1

 63. Ég vona að Kenny sjái eitthvað yfirnáttúrlegt í gangi hjá Poulsen sem ég sé ekki.

 64. Poulsen átti sinn skásta leik á móti Blackpool um daginn. Við verðum að gefa honum séns, hann spilar í Liverpool treyju í dag og stendur sig vonandi betur en áður.

 65. The Liverpool team in full is: Reina, Kelly, Johnson, Agger, Skrtel, Maxi, Lucas, Poulsen, Kuyt, Meireles, Torres. Subs: Gulacsi, Cole, Konchesky, Aurelio, Spearing, Kyrgiakos, Shelvey

  hmmm…. poulsen….

 66. Einhvernveginn finnst manni augljóst að setja Meireles á miðjuna með Lucas og Cole í frjálsu hlutverki fyrir framan þá. En Kenny hefur meira vit á þessu og þetta inni í seinnihálfleik.

 67. Allt annað að sjá Liverpool liðið, virkar mjög skipulagt og agað. Poulsen og Lucas mjög sterkir á miðjunni í fyrr hálfleik, Meireles líflegur, fín holning á liðinu. Vonandi halda þeir þessu áfram.

  Go Kenny!

Vandamál tiltektar!

Poulsen byrjar gegn Wolves