Wolves á morgun

Verður loksins leikur á morgun hjá okkar mönnum? Svei mér þá, síðasti leikur okkar í deildinni fór fram þann 11. desember og maður er búinn að vera með óbragð í munni síðan þá. Jahh, ekki ættu menn að geta kvartað yfir þreytu. En það er vonandi komið að þessu, Wolves mæta á Anfield á morgun, og svei mér þá, við ættum meira að segja að geta vonast eftir sigri. Við erum jú á heimavelli, og í þokkabót þá er það slakasta lið deildarinnar sem er í heimsókn. Þeir sitja núna einir á botni deildarinnar og ég verð að viðurkenna það að ég myndi nú ekki verða neitt voðalega svekktur yfir því að halda herra Mick McCarthy þar áfram. Álit mitt á þeim stjóra er ekki upp á marga fiska, fer ekki nánar út í það.

Úlfarnir hafa unnið heila 4 leiki á tímabilinu, alla á sínum heimavelli. Þeir hafa náð í heilt eitt stig á útivelli, og það var gegn Everton. Annars hafa þeir verið afar góðir í því að tapa sínum leikjum. Þeir eru hreinlega ekki með gott fótboltalið, en þeirra bestu kappar eru Jarvis, Hunt, Fletcher og Doyle. Þeir eru búnir að spila einum leik meira en okkar menn, en það verður því miður að segjast eins og er, að þeir eru ekkert voðalega fjarri okkur þegar kemur að tölfræði. Þeir hafa skorað 2 mörkum færra en lið Liverpool, en munurinn felst helst í því að þeir hafa fengið 10 mörkum meira á sig. Það eru ekki nema 7 stig sem skilja þessi 2 lið að í dag, sigur hjá Wolves á morgun myndi skila þeim heilum 4 stigum á eftir okkur. Ég held þetta segi meira um tímabilið okkar heldur en þeirra.

Kristján Atli benti mér á umræður á RAWK í morgun þar sem var verið að skoða hvað þyrfti til þess að ná hinu fjarlæga Meistaradeildarsæti. Menn þurfa heldur betur að reima á sig skóna og fara að gera eitthvað ef það á að verða eitthvað annað en afar fjarlægur draumur. Meira að segja Evrópudeildarsæti er fjarri eins og staðan er í dag. Síðustu 5 árin hefur meðal stigafjöldi til að ná þessu 4 sæti verið 71 stig. Í dag erum við með heil 22 kvikindi og því heldur betur á brattan að sækja. Við þurfum sem sagt að ná í heil 49 stig af þeim 63 sem í boði eru til að ná þeim stigafjölda. Inni í þessum leikjum sem eftir eru, þá eru heilir 10 útileikir, ekki beint leikir sem liðin hans Roy Hodgson eru þekkt fyrir að vinna.

En að sjálfsögðu leggja menn ekki árar í bát, það þarf að róa áfram, og taka bara meira á því. Skiptir engu máli þótt mjólkursýran sé byrjuð að gera vart við sig í handleggjunum, áfram skal róið. Ég viðurkenni það fúslega að ég er orðinn svaðalega hungraður í að sjá leik aftur. Ég bara vona svo sannarlega að leikmenn Liverpool FC séu jafn hungraðir og ég. Nú þarf bara að fara að vinna sig upp töfluna, byrjum bara á morgun. Við viljum 3 stig, og ekki bara 3 stig, nú þarf liðið að fara að sýna okkur það að það geti spilað fótbolta og keyrt yfir slaka mótherja sína á Anfield.

Ég hef ekki heyrt af neinum meiðslum í herbúðum okkar manna, en það getur vel verið að mér hafi yfirsést eitthvað. Meira að segja er Agger víst að verða klár. Ég efast samt um að hann sé að fara að detta beint inn í liðið, þó svo ég væri heldur betur til í að sjá hann inn fyrir Skrtel. Það er sem sagt bara Carra sem ég veit að sé frá vegna meiðsla. Ég ætla að spá því að varnarlínan verði eins og hún hefur verið “undanfarið” (langt síðan þetta undanfarið var) og að Stevie komi inn í liðið á ný. Ég vona bara svo sannarlega að Roy setji hann ekki inn á miðjuna á kostnað Meireles og fari að þvælast með hann eitthvað annað á vellinum. Raul og Lucas eiga bara að vera saman á miðjunni. Væri alveg til í að sjá Stevie úti á kanti hægra megin og Kuyt detta á bekkinn. En ég efast um að svo verði, hugsa að það verði Ngog sem detti á bekkinn. Ég ætla að spá því að Roy stilli þessu svona upp:

Reina

Johnson – Skrtel – Soto – Konchesky

Meireles – Gerrard – Lucas – Maxi

Torres – Kuyt

Bekkurinn: Jones, Agger/Kelly, Aurelio, Poulsen, Cole, Babel og Ngog

Ef ég ætti að stilla liðinu á morgun upp, þá yrði það svona:

Reina

Johnson – Kyrgiakos – Agger – Aurelio

Lucas – Meireles
Cole – Gerrard – Maxi
Torres

En því miður yfir ykkur, þá er ég ekki stjórinn. Nei annars, það er alltaf auðvelt að skrifa á Internetinu eða blaðra út í eitt, það er annað að taka ákvarðanir og standa og falla með þeim. Ég væri allavega til í að sjá svolítið sókndjarfa uppstillingu, kannski ætti Ngog að koma þarna inn í stað Cole, en ég er bara á því að svona leikur (heimaleikur gegn botnliðinu) gæti verið réttur vettvangur til að koma Cole kallinum af stað, við mættum alveg við því að fara að sjá eitthvað frá þeim kappa. Hæfileikarnir allir til staðar, hann verður bara að fara að hleypa þeim út.

Ég ætla að vera bjartur fyrir morgundaginn, segi að við sjáum öruggan sigur, 3-0. Torres, Gerrard og Meireles með mörkin.

Gleðilega hátíð öll.

74 Comments

 1. Glæsileg upphitun að vanda. Ætla rétt að vona að Hodgson haldi Meireles á miðjunni þrátt fyrir að Gerrard sé orðinn heill. Hann er enginn kantmaður.

 2. Flott upphitun hjá þér, og kominn tími til að sjá leik með liðinu og ekki er það verra að það sé heimaleikur svona upp á ánægjuna að gera.

  Ég hef trú á því að liðið muni slátra þessu Wolves liði og ég spái Torres með þrennu á morgun og Gerrard með eina langþráða sleggju af 35 metrunum.

 3. Spái því að karlinn setji Gerrard í holuna og vonandi að Cole fái að spreyta sig í þessum leik. Kátur má hvíla sig aðeins.

  Spái þessu 4- 0 Torres með 2, Kyrgi með eitt og Cole eitt.

  Já flott upphitun auðvitað.

 4. Flott upphitun, en ég trúi ekki að þú viljir frekar sjá Joe Cole í byrjunarliðinu en Dirk Kuyt. Hvað hefur Kuyt gert þér til að verðskulda slíkt hatur að þú veljir mann sem gæti þess vegna enn verið að spila í Chelsea-búningi (hef allavega ekki séð hann enn í rauðri treyju í vetur, maðurinn er bara ekki með) fram yfir hann.

  Ég yrði sáttur ef við sæjum fyrra byrjunarliðið sem þú nefnir, nema með Kuyt á kantinum, Meireles á miðjunni með Lucas og Gerrard frammi (eða í holunni) með Torres. Kuyt og Maxi eiga að pressa hátt uppi á vængjunum, Kuyt vinnur langbest allra í liðinu með Johnson og losar nær alltaf um Glendu með hápressunni og Gerrard/Torres er miklu betra kombó heldur en Kuyt/Torres í fremstu víglínu.

  Fyrra byrjunarliðið fyrir mér, bara svona útlítandi:

  Reina

  Johnson – Kyrgiakos – Skrtel – Konchesky

  Lucas – Meireles
  Kuyt – Gerrard – Maxi
  Torres

  Roy, stilltu þessu svona upp, keyrðu yfir þetta Wolves-lið og leyfðu okkur að njóta rótburstsins eins og einu sinni í vetur. Plís.

 5. er ekki búið að fresta leiknum,það væri best,þeir tapa þá ekki á meðan.

 6. Sælir félagar og vonandi hafið þitt átt gleðileg Jól.

  Ég er sammála SSteini með byrjunarliðið nema hvað ég myndi vilja sjá Kuyt í staðinn fyrir Cole og Babel í staðinn fyrir Maxy. Líst vel á að gefa Agger og Aurelio sénsinn á morgunn auk þess sem mér finnst Babel hafa staðið sig vel upp á síðkastið. Hef svosem ekkert út á Maxi að setja en ef við gætum komið Babel í gang finnst mér meiri framtíð í honum.

  Ég hef reynt að fylgjast að undanförnu með þeim sem hafa verið linkaðir við Liverpool í janúarglugganum. Vona svo sannarlega að við kaupum alvöru leikmann sem gengur inn í liðið og er afar spenntur fyrir Edin Dzeko. Væri reyndar alveg til Andy Carrol og er slétt sama um hvað hann gerir utan vallar. Algerlega frábær leikmaður að mínu mati og myndi henta Liverpool gríðarlega vel.

  Er annars ekki kominn tími á að nýju eigendurnir sýni hvað í þeim býr? Verða að mínu mati að sína okkur áhangendunum að þeir hafi bolmagn í að styrkja liðið ekki seinna en núna í janúarglugganum. Þá þurfa þeir líka að segja okkur hvort þeir ætla sér að byggja nýjan leikvang eða að stækka Anfield. Annað hvort verður að fara að liggja fyrir.

  Spái svo að við vinnum 5-0 á morgun. Getum stillt upp okkar sterkasta liði auk þess sem menn ættu að vera búnir að fá næga hvíld.

  Áfram svo Liverpool!

 7. Ég hef bara eitt að segja. Ef við töpum þessum leik á morgun og Roy Hodgson segir ekki af sér þá er maðurinn veruleikafirrtur með öllu ! Eða þá stjórn Liverpool ef þeir reka hann ekki !!

  Annars held ég að Liverpool vinni þennan leik létt enda ætti ég sjálfur eða hinn ágæti pistlahöfundur hér að geta stjórnað þessu liði til sigurs á morgun. Svo einfalt er það !!

 8. Roy sagði í viðtali um daginn að Cole þyrfti að fara að sanna sig og hann kom inná það að hann gæti ekki valið sér stöðu eins og að fá að spila í holunni og bætti því við að þegar Gerrard kæmi úr meiðslum væri hann fyrsti maður inn fyrir aftan Torres. þannig að ég held að Gerrard fari alltaf í holuna á morgun en ekkki að hann setji hann á miðjuna og Meireles á kantinn !

 9. Miðað við að leikmenn LFC hafa fengið rúmlega tveggja vikna hvíld frá úrvalsdeildinni þá ætti þeir að mæta brjálaðir,hungraðir í að fá loksins leik, og það á Anfield, sá fyrsti yfir jólahátíðina.

  Stuðningsmenn LFC eiga skilið að fá almennilega frammistöðu í jólagjöf, og minnst 7 mörk frá leikmönnum Liverpool í þessum leik. Það væri líka tilefni til þess að votta Avi Cohen virðingu LFC. Minnast hans með stórsigri.

  Ég spái þessum leik 8-1 fyrir LFC.

  YNWA

 10. Skemmtileg tölfræði í fréttunum áðan, Fulham var að vinna sinn fyrsta útileik í 27 leikjum.
  Og þeir fara sennilega fjölgandi núna eftir að Hodgson fór frá þeim.

 11. Við erum bara 7 stigum yfir wolves sem er í neðsta sæti og við erum bara 4 stigum fyrir ofan FALLSÆTI !!!! Égg trúi þessu ekki !!!! Það er einn leikur eftir á þessu ári og við erum 4 stigum frá fallsæti ! Veit við eigum 1-2 leiki inni á einhver lið en t.d. er Birmingham líka bara búið að spila 17 leiki og eru með 18 stig í 3 neðsta sæti ! Þetta er fáranlegt, hvernig getur Hodgson ennþá starfað þarna sem þjálfari ? Ég var mjög barsýnn með þessa NESV gaura og reyni að vera það áfram en þeir hafa nú þegar svikið fyrsta loforðið sem var að hlusta á stuðningsmenn ! Er ekki viss um að þeir seu tilbúnir að eiga fótbolta lið ! En hey var ég búinn að nefna það að Liverpool eru bara 4 stigum frá fallsæti! OMG

 12. Láttu ekki svona Lóki, við erum 3 stigum frá fallsæti eins og staðan er í dag !!! Wigan er með 19 stig í fallsæti. Ótrúlegt.

  Kallinn má ekkert misstíga sig núna því þá verða þeir hreinlega að láta hann fara, hvort sem þeir vilja það eður ei.

 13. Þessi Roy Hodgson hatursherferð þín er orðin nokkuð leiðigjörn Babú. Þú hatar manninn, við erum búin að ná því!

  Leiðinleg svona endalaus niðurbrotsskrif…

 14. Johnson – Agger – Soto – Aurelio

  Jova – Gerrard – Mereiles – Cole

       Babel - Torres
  

  Þetta er liðið sem á að byrja á morgun.

 15. Nr. 20 Halldór Bragi

  Trúðu mér hún (“herferðin”) er ekkert á enda frekar en ástarævintýri þitt við fyrrum stjóra félagsins og þó þú viljir snúa þessu upp á mig sérstaklega þá vill afar greinilegur meirihluti stuðningsmanna losna við Hodgson frá félaginu og flestir vildu hann aldrei til að byrja með.

  Sé annars ekki alveg hvað er að því að benda á þetta og þú mættir alveg endilega reyna útskýra það fyrir mér? Þetta er fín samantekt á This Is Anfield sem ég efa ekki að margir renni yfir og þú ættir t.d. að gera það ÁÐUR en þú kemur með svona skot.

  En þar sem þú (Halldór) sýnir svona mikinn áhuga þá fjallar greinin á TTT (eftir JoeP) um Twitter, blogsíður og samskonar samskiptaform sem hafa gjörbylt allri umræðu og upplýsingaflæði mjög hratt og t.d. farið yfir það hvernig þetta fór hugsanlega illa með lygara eins og Tom Hicks.

  Eins og ummæli Hodgson undanfarna mánuði sýna þá virðist hann ekki alveg hafa áttað sig á því að það sem hann lætur út úr sér við fjölmiðla hverfur ekki og gleymist ekki eins auðveldlega og t.d. fyrir áratug og þessi upptalning sýnir nokkur góð dæmi þar sem Hodgson reynir að afvegaleiða fjölmiðla.

  JoeP þessi á TTT (mæli hiklaust með þessari síðu btw, nýlega valin af Soccerlens sem besta stuðningsmannasíðan á Bretlandi og á það sannarlega skilið.) endar sitt mál svona

  In fairness, it is absolutely not the Liverpool way to call for the manager’s head. But that particular manager’s head does not seem to recognise the Liverpool way even as he is beaten over the… well… the head with it. Respect is a two way street. By the time December had arrived, Roy Hodgson was claiming that only Manchester United and Arsenal were ahead of Liverpool in the form table. Ten years ago, a tiny minority of fans might have been left bemused had they checked their Sunday paper to see Liverpool actually down in 11th place in the form table. But in 2010, if one person knows the claim is not true, everyone does. That entrenches a feeling of disenfranchisement amongst fans in an era when clubs are owned by billionaires living overseas. As Tom Hicks found out the hard way, the days of controlling the media narrative are over. Roy Hodgson would be wise to pay heed to the events of the year.

 16. mér finnst þessi hatursherferð Halldórs Braga gegn Babú miklu leiðinlegri ! kannski því ég hata Hodgson líka !

 17. Man Utd og Liverpool búin að vinna jafnmarga útileik í deildinni á þessari leiktíð. Ótrúleg tölfræði. Bara verst að Liverpool tapar yfirleitt sínum en United gerir jafntefli.

 18. Babú, þó þú reynir að halda öðru fram þá er auðvelt fyrir þig og aðra að flétta hérna upp á kop.is til að sjá að ég vil Hodgson jafn mikið út og aðrir og vildi hann aldrei í upphafi. Þetta veist þú vel þó þú reynir að láta það líta út á annan hátt.

  Það sem ég er að meina, og þú veist líka full vel, er að niðurrifsskrif þín eru orðin leiðinleg. Það eru flestir(allir?) sammála um að Hodgson eigi að fara, að hann hafi ekki staðið sig með liðið né gagnvart fjölmiðlum, en það er drepleiðinlegt að sjá þegar menn neita hálfpartinn að skrifa um eitthvað annað en þetta. Nánast allt sem þú kemur með hérna er drull á Hodgson. Við náum þessu Babú og það sem meira er, við erum sammála þér í flestum tilfellum, maður kannski bara vill ekki lesa svona niðurrif endalaust, smá uppbyggileg umræða eða umræða um eitthvað allt annað væri hressandi allavega inn á milli.

  Fyndið hvað það mátti alls ekki ræða getuleysi síðasta stjóra án þess að þú færir uppá háa c-ið en það er í góðu að ræða getuleysi þessa.

  Það er svo sem ekki í mínum verkahring að stýra umræðunni hérna inni en ég segji fyrir mitt leyti að þegar einn pistlahöfundur einblínir eingöngu á að drulla yfir stjóran okkar þá minkar áhugi á greinum þess pistlahöfundar. Þó vel flestir vilji Hodgson í burtu þá væri nær af mínu viti að reyna styðja kallinn, í það minnsta útá við, þar til hann verður látinn fara. Er ekki nóg að aðdáendur annarra liða séu að bauna á okkur, þurfum við að gera það sjálfir líka? En ég er kannski svo skrítinn að vilja ekki sjá endalaus niðurrifsskrif um liðið mitt, hvort sem ég er sammála innihaldi skrifana eða ekki.

 19. Lóki#23
  Ég er ekki í neinni séstakri hatursferð gegn Babú, enda hann örugglega fínn gaur. Mér finnst bara niðurrifsskrif hans leiðinleg…

 20. Ég get vel skilið að menn tjái sig um þjálfarann, sem virðist ekki geta sloppið áfallalaust frá einu einasta viðtali. Og hann er líka alltaf að tjá sig, svo menn fá stöðugt nýtt efni frá karlinum – hann ofbýður a.m.k. mér reglulega sem stuðningsmanni og aðdáanda. Hvert er markmiðið hjá félaginu á þessu ári í deildinni, úr því sem komið er? Getur einhver sagt mér það? Það er ekkert skrýtið að menn viðri efasemdir um þjálfarann sem ætti að vera leiðtogi hjá þessu félagi, Púllari nr. 1, en Roy virðist horfa á þessa stöðu sem e-ð hnoss sem hann hreppti….

 21. Mér finnst bara mjög eðlilegt að skrifa þessa neikvæðu pósta um hodgson!
  Þegar stjóri liðsins sem ég elska virðist fyrst og fremst vera i vinnu við að gera lítið úr liðinu og nýtir hvert tækifæri til að dreifa eigin skít úr brókum sínum yfr liðið, á hann EKKERT betra skilið.

  Ég lít svo á að það er skylda stuðningsmanna að vera vocal um stjórann þegar hann stendur sig jafn illa og gamlinginn er að gera!

  Þetta er mörgum mikið hjartans mál og ekkert óeðlilegt að vilja tjá sig um þetta.
  Því meiri pressa sem kemur frá aðdáendum liverpool, þeim mun ljósara verður það fyrir NESV hvað það er sem þeir þurfa að gera.

 22. Hvernig væri að fá pistil um Avi Cohen og votta honum virðingu,ég er nógu gamall til að muna eftir Cohen í búningi Liverpool mér þótti hann ágætis leikmaður sem var hluti af meistaraliði Liverpool.

 23. Halldór Bragi (#29) segir:

  „Fyndið hvað það mátti alls ekki ræða getuleysi síðasta stjóra án þess að þú færir uppá háa c-ið en það er í góðu að ræða getuleysi þessa.“

  Það er af því að Rafa stóð sig vel hjá Liverpool, fram á síðasta árið, og jafnvel þá var hægt að rökræða hvort ástandið væri honum að kenna eða ekki. Það er engin slík umræða í gangi með Roy, hann er bara vanhæfur í starfið, punktur, basta.

  Guðbjörn (#33) segir:

  „Hvernig væri að fá pistil um Avi Cohen og votta honum virðingu,ég er nógu gamall til að muna eftir Cohen í búningi Liverpool mér þótti hann ágætis leikmaður sem var hluti af meistaraliði Liverpool.“

  Við þurfum ekki að skrifa pistla um allt sem gerist, við erum ekki fréttasíða þannig séð. Upphitun Steina var nýkomin inn í gær og menn voru þegar byrjaðir að ræða sviplegt andlát Cohen hér og í síðustu færslu og þótt við séum yfirleitt ekki hrifnir af þráðráni gerum við augljósar undantekningar í svona aðstæðum. Cohen var Liverpool-leikmaður, hvíli hann í friði og menn geta minnst hans hér.

  Annars grunar mig að Cohen verði betur minnst um áramótin, þar sem það hittir svo á að Bolton – lið Tamir Cohen – heimsækir Anfield á nýársdag. Kæmi mér ekkert á óvart þótt Anfield bjóði upp á mósaík og mínútuþögn við það tækifæri og þá gerum við því að sjálfsögðu góð skil.

 24. Ég verð nú bara að segja að fyrir mitt leyti þá myndi Cisse styrkja liðið alveg helling, hann er Liverpool maður í gegn og á seinustu leiktíð skoraði hann 29 mörk með liði sínu sem vann bæði deild og bikar.
  Á sínu seinasta tímabili með Liverpool skoraði hann 19 á KANTINUM.
  Ef hann fengist á láni eða á sanngjörnu verði þá myndi ég vilja fá hann til Liverpool.

 25. Það er hlægilegt að sjá Halldór Braga einn neikvæðasta penna sem komið hefur á þessa síðu segja sér til syndana en ég hvet hann eindregið til að hætta bara að lesa allt sem frá mér kemur ef það er svona leiðinlegt og niðurdrepandi. Hvað þessa ábendingu (Nr.19) varðar þá sé ég ekki ennþá hvað er að þessu fyrir utan að þetta tengist ekki Wolves leiknum beint?

  Halldór Bragi þetta skítkast þitt út í mig er sérstaklega furðulegt þar sem þú virðist bara poppa hér upp þegar umræðan er einmitt um núverandi eða fyrrverandi stjóra liðsins og sl. mánuði hefur þú að mér sýnist ekki sagt eitt aukatekið orð um nokkuð annað og svo ég vitni í þig sjálfan…og það veistu.
  !

  Þó vel flestir vilji Hodgson í burtu þá væri nær af mínu viti að reyna styðja kallinn, í það minnsta útá við.

  Það er þín skoðun þó ég efi reyndar að þú sért sjálfur alveg fullkomlega sammála henni. Eins og komið er inná og ítrekað í t.d. þessum póstum sem ég benti á upphaflega í þessum þræði þá er þetta eitthvað sem fæstir hafa áhuga á að gera og ég efa að við hér á kop.is förum að skera okkur úr sem eina LFC tengda stuðningsmannasíðan líklega í heiminum sem fer að standa í því að verja kallinn “útávið” þvert á öll rök og sjálfstæðar skoðanir. Þar fyrir utan finnst mér persónulega kop.is ekki beint vera “útávið”. Þetta er aðallega vettvangur fyrir stuðningsmenn Liverpool að skiptast á skoðunum þar sem mest öll umræða fjallar um Liverpool (þó stuðningsmenn annara liða eru auðvitað velkomnir líka).

 26. Það er gaman að sjá hvernig menn setja upp hlutina varðandi stjórana, sérstaklega þegar maður hugsar tilbaka og sér hvernig stjórnendur síðunnar setja upp George Bush viðmótið varðandi málið.
  Mönnum var kastað út af Kop.is fyrir að röfla sí og æ um getuleysi Benitez vegna þess að það hentaði ekki sjónarmiði stjórnenda en nú þegar stjórnendur eru á móti Hodgson þá má hver og einn segja allt það ljótasta um stjórann aftur og aftur og aftur. Halldór Bragi er á sama máli og allir aðrir varðandi það að Hodgson er ekki að ná þeim árangri með Liverpool sem við viljum. En skekkjan í málinu er sú að síendurtekin umræða er eingöngu leyfð hér ef skoðunin samræmist sýn stjórnenda. Kannski er það eðlilegt miðað við að Ísland er kommúnista eyja.
  Eins er mjög skemmtilegt að sjá staðhæfingu Kristjáns Atla á því að Rafa hafi staðið sig vel fram á síðasta árið. Líklega er það óhagganleg staðreynd þar sem þetta er ritað af honum. En um vanhæfni stjórans efast fáir og er það nýjasta komment hans sem segir mér enn og aftur að það sem hann segir er í engu samræmi við það sem hann hugsar, því um daginn þá kom hann fram í fjölmiðlum og talaði um að þetta Liverpool lið væri ekki liðið hans (þ.e.a.s. ekki liðið sem hann bjó til) svo kemur hann fram í fjölmiðlum í gær og segir að enginn verði seldur í janúar. Það segir okkur að hann vill halda þessu liði sem hann kvartaði yfir að hafa ekki mótað sjálfur.
  Lifi tjáningarfrelsið
  Guð blessi Liverpool

 27. „Hvernig væri að fá pistil um Avi Cohen og votta honum virðingu,ég er nógu gamall til að muna eftir Cohen í búningi Liverpool mér þótti hann ágætis leikmaður sem var hluti af meistaraliði Liverpool.“

  Ágætis hugmynd þó ég sé alveg sammála KAR með að það geti líka beðið betri tíma. Það kom mér samt aðeins á óvart þegar ég fór að lesa um hann hvað hann spilaði í raun fáa leiki með Liverpool (24) og hvað það er langt síðan. Segi þetta þar sem hann er ennþá mjög vel þekkt nafn hjá félaginu.

 28. Nr. 37 Kennedy

  Það er stór munur á því að mönnum hafi verið hent út af síðunni og á því að þeim hafi verið svarað. Halldór Bragi vinur minn er t.a.m. ágætt dæmi um þetta 🙂

  Þeir sem hafa komið með gagnrýni á Benitez, Lucas, Babel, Kuyt eða hvert sem málefnið hefur verið í gegnum tíðina hefur ekki verið hent út bara fyrir sína skoðun. Stundum var óskað eftir því sérstaklega að menn héldu umræðunni um málefnið þar sem umræðan fór að fara í hringi, sama hvert málefnið var og það getur alveg gerst bráðum með Hodgson.

  Enn sem komið er hef ég þó bara séð Halldór Braga tala um þetta og mig grunar að það sé meira til að gagnrýna stjórnendur síðunnar heldur en vegna þess að hann þolir ekki að sjá nýja vinkla á vanhæfni núverandi stjóra.

 29. Kallinn (RH) klárar sisonið og svo verður eitthvað gert. Annars getum við ekki kennt RH um allt, sumir leikmenn verða að klára dauðafærin sín og þá væri staðan betri. En að leiknum, þessi leikur verður að vinnast með mörgum mörkum td, 5-0, 7-1 ef ekki þá eru leikmenn hjá Liv Kellingar. Góð upphitun hjá þér SSteinn (S St1). 😉

 30. 29

  “það er drepleiðinlegt að sjá þegar menn neita hálfpartinn að skrifa um eitthvað annað”

  Hefur þú lagt fram einhverja tillögu að skrifum?

  “smá uppbyggileg umræða eða umræða um eitthvað allt annað væri hressandi”

  Go for it.

  “Fyndið hvað það mátti alls ekki ræða getuleysi síðasta stjóra án þess að þú færir uppá háa c-ið en það er í góðu að ræða getuleysi þessa.”

  Svo sannarlega fyndið. Gagnrýnir neikvæða gagnrýni gagnvart Roy, en ert sjálfur með eintóma neikvæða gagnrýni á Rafa. I get it, ég les póstana þína í G-Major.
  Þið Roy eigið það kannski sameiginlegt að sumum á það til að blöskra það sem þið segið, verra kannski með Roy er að hann hefur einnig beinlýnis logið að stuðningsmönnum og talað í hringi trekk í trekk. Finnst ekki skrítið að það sé ofarlega í huga hjá mörgum.

  Staðreyndin er held ég bara sú að það er ekki margt svona short term til að vera jákvæður yfir. Long term þá ertu bara kominn út í svo miklar getgátur að það er ekki hægt að ræða það mikið. Hve mikið getum við rætt um að eigendurnir eigi eftir að skila sínu?
  Við getum reyndar rætt það að Reina er topp gaur, fact.

 31. 39

  “Mönnum var kastað út af Kop.is fyrir að röfla sí og æ um getuleysi Benitez”
  “Eins er mjög skemmtilegt að sjá staðhæfingu Kristjáns Atla á því að Rafa hafi staðið sig vel fram á síðasta árið.”

  Mjög skemmtilegt.
  Má vera að þeim hafi verið hennt út fyrir að vera svona gífurlega málefnalegir?

 32. En þetta snýst um Liverpool og það sem okkar leikmenn gera. Ég hef fulla trú á mínum mönnum og ef við spilum af eðlilegri getu eigum við að geta gert Wolves lífið leitt,” sagði Hodgson.

  RH hefur metnað !

 33. Sælir félagar

  Fín upphitun og ekki miklu við hana að bæta. Stórsigur er eðlileg krafa til liðsins sem hefur haft hálfan mánuð til að undirbúa sig fyrir átök kvöldsins.

  Mér finnst dásamlegt þegar menn eins og Halldór Bragi koma hér inn til að hæla mönnum (og ef til vill konum líka). Sami dásamlegi húmorinn einkennir skrif Kennedy og það væri mikill sjónarsviptir af þessum yndislegu húmoristum.

  Sjálfur hafði ég oft “húmorin” í lagi sérstaklega á síðasta tímabili Rafa. Alltaf fékk ég að tjá mig og var aldrei hent út þrátt fyrir geggjaðan húmor og allt.

  Að lokum legg ég til að RH verði rekinn.

  Það er nú þannig

  YNWA

 34. Ég ætla að vera svo góður með mig og spá liverpool 7-0 wolves og eftir þennan leik hrökkva leikmenn liverpool alfarið í gang í deildini og ná þessu fuck… meistaradeildarsæti. ég held bara að við eigum að fá það frá þeim í jólagjöf 😀

 35. Torres
  Maxi Gerrard Kuyt
  Meirales Lucas
  Konc Agger Skrtel Johnson
  Reina

 36. Smá pæling með striker power-ið:

  Ég er að sjálfsögðu ekki viss hvað stendur nákvæmlega í boði en persónulega hef ég ekki áhuga á striker sem ég hef aldrei heyrt um. Skv. mínum lesningum þá finnst mér eftirfarandi koma til greina: (ATH þetta er value for the money listi)

  1. Santa Cruz (er þessi maður ekki til sölu???)
  2. Djibril Cisse (slakið á og sjáið komment að neðan 😉 )
  3. Emmanuel Adebayor (fer neðar vegna kaupverðs)

  Ég hefði haldið að Santa Cruz væri ódýr. Hann er stór, sterkur og fullkominn target striker. Hann átti gott run áður en asíumennirnir komu.

  Djibril Cisse. Hann væri mjög ódýr, hann er hraður, þekkir liverpool og sættir sig við bekkinn. Ég var alltaf spenntur fyrir honum þegar hann kom fyrst en síða fótbrotnaði hann og allt fór á niðurleið (kannski svona come back :)). Allavega, ekki mikil áhætta á ferð.

  Adebayor er klárlega maðurinn sem ég vildi helst en ég er sannfærður að shíty myndi vilja væna flúgu fyrir kappann. Það þarf ekkert að ræða hæfileika hans.

 37. Ástæðan fyrir því að Choen lék bara 24 leiki fyrir LFC. er sú að hann spilaði hægri bakk og þá þessum tíma átti Phil Neal þessa stöðu og það tíðkaðist ekki að rotera. Paisley spilaði alltaf sínu sterkasta liði og breytti ekki sigurliði,nema ef að Daglish og Souness meiddust þá fóru þeir beint inn í liðið aftur. Um leikinn í kvöld þá held ég að hann vinnist nokkuð auðveldlega og ég er ánægður með að Agger eigi að byrja inn á og þó að margt meigi um Hodgson slæmt segja þá stillir hann nánast alltaf sínu sterkasta liði upp og þá meina ég því liði sem við stuðningsmennirnir viljum sjá .

 38. Ástæðan fyrir því að Choen lék bara 24 leiki fyrir LFC. er sú að hann spilaði hægri bakk og þá þessum tíma átti Phil Neal þessa stöðu og það tíðkaðist ekki að rotera

  Jamm það er rétt fyrir utan að hann var vinstri bakvörður og að keppa við Alan Kennedy um stöðu.

 39. Við getum þó litið á björtu hliðarnar, við er þó enn taplausir í jólatörninni !

 40. Enn ein frábær ummæli hjá Woy “Við eigum að geta gert Wolves lífið leitt” Ég vill stjóra sem segir “Liverpool er lið sem á ALLTAF að vinna lið eins og Wolves”
  Koma svo í kvöld YNWA

 41. Mikið væri nú gaman ef menn mundu nenna að ræða þennan leik en ekki vera að hnýta í hvern annan. Vælubíllinn bíður fyrir utan hjá ykkur 🙂 Ef ekki þá er númerið 113….

  Með leikinn. Vonandi eru menn ekki sofandi eftir jólafríið sitt. Liðið sem búið er að leka út er ansi sterkt og á að klára þennan leik, halda hreinu og laga markahlutfallið okkar.

  Annars lifum við ekki í fullkomnum heimi, ég veit það. Vona þó allavega að þetta síðastnefnda gæti staðist.

 42. Gaman að sjá hvað sumir eru jákvæðir, nefni engin nöfn 🙂

  Ég hef það á tilfininguni að okkar menn séu bara þreyttir eftir jólin og búnir að fá alltof langt leikjahlé, en vona svo sannarlega að þeir séu búnir að æfa 100% meira þá í staðinn.

  Langar mjög að sjá Glen johnson á hægri kanntinum…

  Spái 4-0 þar sem Torres setur 2, Lucas 1 og Gerrard 1

  Tökum þessa Úlfa og slátrum þeim!

  YNWA!

 43. Nr.51 Já nákvæmlega, ekki alveg það léttasta líklega að komast í liðið þarna.

  Annars varðandi liðið sem Ásmundur bendir á (nr.46) þá er ljómandi gott að sjá Agger aftur á blaði enda alveg svakalegt hvað hann hefur vantað í vörnina. Þetta er lið sem á alveg að rúlla yfir Wolves þó ég búist við að þetta verði strögl. Segi 1-0 og Kuyt skorar.

 44. Annar fyrrum leikmaður Liverpool að yfirgefa heiminn.
  Bill Jones lést í nótt 89 ára.

  RIP

 45. Ég er ekki sammála að RH segi “við slátrum þessa úlfa í kvöld” eða eitthvað í þá átt, stjórar eiga að vera hógværir og bera virðingu fyrir öllum liðum, það hafa margir verið góðir í kjaftinum en skitið svo á sig þegar á hólminn er komið.

 46. tja ef við vinnum ekki leikinn í kvöld þá erum við annaðhvort með vitlausan stjóra eða í vitlausri deild.

 47. Loksins komið að leik. Nú hlýtur að koma að stórsigri.

  Það að Roy fokking Hodgeson strengjabrúða sjáist enn á Anfield bendir til þess að Ameríkanarnir hafi tekið kúlulán fyrir Liverpool. Það er aðeins 4 dagar í janúargluggann.

 48. Í herferð gegn stjórnendum síðunnar? Í alvöru Babú? Guð minn almáttugur, ég á ekki til eitt einasta orð. Hefurðu séð mig setja mikið útá skrif Einars Arnar, Magga, SSteins eða annarra stjórnenda hér? Ekki? Getur verið að það sé afþví að þeir eru ekki endalaust með niðurrifsskrif um liðið mitt? Þessi bölsýniskór sem þú ert í forsvari fyrir er bara leiðinlegur og þú verður bara fyrirgefa að mér finnist leiðinlegt að sjá neikvæð skrif endalaust um liðið mitt af “stuðningsmönnum” þess!

  …kannski að maður eigi bara að vera hipp og kúl eins og þú og grenja eins og smákrakki yfir stjóranum ENDALAUST…er það málið?

  Annars er Kennedy#37 alveg með þetta….vel skrifað.

 49. Gleðilega hátíð félagar. Maður er nú bara orðinn ansi spenntur yfir leik dagsins, spurning hvort maður opni jafnvel einn eða tvo kalda. Þessi þýðing á orðum Roy er mjög léleg, reikna með því að hann hafi sagt “we will cause them problems” eða eitthvað slíkt. Það er bara eðlilegt tungutak og ekkert athugavert við það. Þá skiptir sáralitlu máli hvað hann segir í fjölmiðlum almennt, það sem skiptir máli er að liðið hali inn stig. Ef það á að reka Hodgson, sem verður ekki gert, þá verður það út af skorti á stigum en ekki út af ummælum í blöðunum.

  Núna er sjötta sætið raunhæft markmið, ekki meira og ekki minna. Ef liðið nær útivallarönni, sem er mjög ólíklegt, gæti 4 sætið orðið að markmiði. En meðan við erum í tólfta sæti þá er ekki hægt að gera ráð fyrir einhverjum súper árangri. Vonum bara að jólasteikin hafi farið vel í Torres og hann komi ferskur inn í næstu leiki og leikjatörnina í janúar.

  Leikurinn í kvöld á að vinnast, ég vonast eftir 3-0 sigri. Allt meira er plús.

 50. Það sem ég bara skil ekki er af hverju ætti Hodgson að fá að klára tímabilið??? Eina markmiðið sem liðið getur sett sér núna er að dragast ekki niður í fallbaráttu og í besta falli ná 5-8 sæti er það ásættanlegt! Af hverju ekki að ráða nýjan stjóra strax! Og byrja að hugsa aðeins um næstu leiktíð. Væri ekki betri undirbúningur fyrir næsta ár ef að nýr stjóri fengi þennan felagskiptaglugga til að styrkja liðið aðeins, og fá restina af tímabilinu til að koma sínum hugsunum inn spila sinn bolta og skoða þá leikmenn sem fyrir eru og svo fá næsta sumar til að kaupa leikmenn og fara í æfingaferð !! Það hefði ég allavega haldið ! Eru þessir eigendur ekki bara að fara að gefa Roy séns á að fá glugga undir þeirra stjórn og ef hann nær að rífa liðið aðeins upp (t.d. enda í 6 sæti) fær hann þá að halda áfram?? Ég bara skil þetta ekki !! Á að koma nýr stjóri í sumar og þá fara september og oktober mánuðir næstu í að slípa liðið saman !

 51. Lóki, getur verið að það sé búið að tala við stjóra, t.d. Deschamps, og að hann vilji fá að klára sitt tímabil með núverandi liði en vilji koma eftir það. Ef það er málið, er þá ekki bara eðlilegt að Hodgson fái að klára tímabilið og víki svo þegar sá maður sem NESV vilja fá til framtíðar er laus?

  Mér finnst þetta scenario, eða allavega sambærilegt, ekkert ólíklegt.

 52. Styttist í leik og vonandi náum við að vinna góðan sigur mín spá er 4-0 Torres með 3 kvikindi og gerrard eitt stykki,er yfir mig bjartsýnn,svo var ég að lesa að liverpool væri búnir að endurnýja áhugann á c.cole persónulega vill ég ekki sjá hann,en ég væri til að sjá cisse aftur í búningi liverpool,hann mundi klárlega styrkja liðið svo má ekki gleyma því að hann stóð sig vel hjá liverpool áður en hann brotnaði á móti blackburn,svo sá ég í einhverju slúðri að Benitez er orðaður við Chelsea það væri alveg eftir því að hann tæki við chelsea sem þýddi að ancelotti væri á ”lausu” væri hann þá ekki tilvalinn canditat sem næsti stjóri Liverpool,eða einn af mörgum sem koma til greina.

 53. sé fyrir mér leik eins og gegn West Ham og Aston villa þar sem liðið vinnur 3-0 af því það slakar á en hefði getað unnið 7-8 núll ef þeir hefðu nennt því. En þar se Wolves eru enn slakar en hin 2 liðin þá geru við 4-0 sem ég verð ekki ánægður með samt sem áður. Torres gerir 3 og Meireles 1…

  Ég vil 7 – 0 sigur ef ég á að verða mjög sáttur og Torres helst með 5-6 kvikindi til að koma honum í einhvern alvöru ham i næstu leikjum

 54. Einn á footballfancast að telja upp þá þrjá sem hann vildi helst sjá keypta í liðið sem fyrst….ég er bara nokkuð sammála honum 🙂

  “First up, I believe Gary Cahill should be high up on the list of potential transfer targets for Liverpool. The defender is showing his real worth at Bolton and with him being young he certainly is one for the future. With Jamie Carragher’s best years behind him and uncertainty surrounding Daniel Agger and Martin Skrtel, Could Cahill and Danny Wilson strike up a lasting partnership. If I were a Liverpool fan, I would definitely welcome such a defence pairing.

  We are constantly hearing the likes of David Bentley and Shaun Wright Phillips being linked with a move to Merseyside, but I do not believe either of these two players would be the answer to the problems that surround Liverpool’s wide areas. For me, Arda Turan could be the answer, he has publicly stated his love for the club and he has more than the ability to cope with the Premier League. At just 23 he has played 43 times for his country and has widely been tipped to one of Europe’s elite teams in recent times. The tricky winger also has an eye for goal which would be beneficial as Liverpool have struggled to consistently rack up the goals during this campaign.

  Finally my third signing this January would be Thomas Muller from Bayern Munich, Müller plays as a midfielder or forward, and has been deployed in a variety of attacking roles – as an attacking midfielder, second striker, or on either wing. He has been praised for his pace, technique and composure, and has shown consistency in both scoring and creating goals. The young forward had a very decent World Cup and I believe with his attributes he would be a great strike partner for Torres. With Liverpool’s new owners keen to bring in young players with potential, he certainly fits the bill.”

 55. Það væri ljúft að sjá Hodgson lyfta enska meistaratitlinum fyrir Liverpool. Sé hann fyrir mér ávarpa stuðningsmenn og flytja framúrskarandi ræðu þar sem hann fleytir af sér heimskulegum kommentum í líkingu við þau sem hann hefur nú þegar komið með í stjórnartíð sinni.

 56. Liverpool: Reina, Johnson, Konchesky, Skrtel, Kyrgiakos, Lucas, Meireles, Gerrard, Kuyt, Torres, Ngog. Subs: Jones, Agger, Aurelio, Cole, Maxi, Poulsen, Babel.

 57. Líst bara vel á þetta byrjunarlið, vona að Gerrard sé hægra megin og geti droppað í holuna þegar honum hentar…

 58. Ánægður með að hann haldi sig við miðjuparið Lucas Meireles.

  Veit samt ekki alveg um Gerrard á kanntinn en kannski er þetta eitthvað sem koma skal hjá Hodgson. Já og það hefði verið gaman að fá Agger inn líka.

  Sigur eða Hodgson…….

 59. Hvað er kall uglan að gera núna…
  Auðvitað á að spila með alvöru kantmenn gegn svona liði og hann á að hafa Meireles og Gerrard á miðjunni, ég skil ekki þetta uglu….
  En 4- 4- 2 er samt fínt mál….

  Sennilega verður hann með Meireles eða Gerrard útá kanti til þess að byrja með, skil það ekki

  • Þessi bölsýniskór sem þú ert í forsvari fyrir er bara leiðinlegur og þú verður bara fyrirgefa að mér finnist leiðinlegt að sjá neikvæð skrif endalaust um liðið mitt af “stuðningsmönnum” þess!
   …kannski að maður eigi bara að vera hipp og kúl eins og þú og grenja eins og smákrakki yfir stjóranum ENDALAUST…er það málið?

  Því lengur sem líður á þennan leik verður þessi sleggja HB merkilegri fyrir mér.

  En þessi bölsýniskór virðist núna innihalda alla stuðningsmenn Liverpool og það er heiður að vera í forsvari…sem ég vissi ekki að ég væri. En það er rétt að ekki er gaman að þessu, en ef ekki væri talað um þetta miðað við ástandið á liðinu núna þá fyrst færi ég að hafa áhyggjur.

Blackpool á morgun! – Leiknum frestað

Liðið komið