NESV og hugsjónirnar

Eins og margir aðrir sat ég og horfði á nýja eigendur í drottningarviðtölum á liverpoolfc.tv í gærkvöldi. Auðvitað var ekki að búast við því að þeir myndu koma með einhverjar tímamótayfirlýsingar í beinni á netinu og satt að segja kom mér fátt á óvart í málflutningi þeirra. Í framhaldi af þessum viðburði ákvað ég þó að setjast niður og reyna að koma með mína „greiningu“ á hinum nýju eigendum út frá fyrri sögu þeirra og í raun pæla í hugmyndafræði amerískra íþrótta. Það er jú sá grunnur sem þeir koma úr.

Pistillinn er langur og því set ég inn “lesa meira” héðan frá en vona að einhver kíki á þessar vangaveltur mínar og gefi komment um þessar pælingar mínar, ekki síst ef menn hafa lesið annað út úr eigendunum eða bara hafa aðra sín á aðstæðurnar. Ég vona að menn láti pirring á einstaka leikmönnum eða starfsmönnum ekki trufla sig við lesturinn og bendi þá á að hægt er að gera athugasemdir á þeim nótum við aðrar greinar hér að neðan.

En hefst þá ræðan…..

John W. Henry

John W. Henry er lykilmaðurinn í kaupunum á Liverpool. Hann kemur úr bændafjölskyldu og droppaði út úr háskólanámi í heimspeki fyrst og fremst vegna þess að hann var í rokkhljómsveitum að túra! Hann varð ríkur á því að selja korn og sojabaunir, en þó má segja að það hafi fyrst og fremst verið nýstárlegar söluaðferðir sem gerðu hann meðal þeirra fremstu – mikið dreifingarkerfi sem þýddi það að vörumerkin hans urðu fljótt fyrir margra augum. Allt frá upphafi viðskiptaferilsins hefur hann þótt á undan sínum samherjum og verið óhræddur að taka stórar ákvarðanir.

Hann var mikill áhugamaður um hafnabolta og fyrsta félagið hans var Minor league lið frá Tuscon. Hann seldi liðið fljótlega og um skeið var hann á leiðinni inn í NBA-boltann en tókst ekki að kaupa Orlando Magic, Miami Heat eða New Jersey Nets. Að lokum gafst hann upp á körfuboltanum og hóf Major Leagye ferlinn með því að kaupa minnihluta í New York Yankees. Það var svo árið 1999 að hann eignaðist sjálfur félag, þá keypti hann Florida Marlins. Það gekk afar illa og árið 2002 seldi hann Marlins og ákvað að stofna fjárfestingafélagaið New England Sport Ventures ásamt Tom Werner og Yawkey fjárfestingarsjóðnum.

Tom Werner

Tom Werner er formaður Liverpool og Boston Red Sox. Hann er af auðugu fólki kominn, lærði í virtum einkaskóla og útskrifaðist úr Harvard-háskóla. Árið 1973 hóf hann störf hjá ABC og þar skapaði hann sér nafn. Hann varð framkvæmdastjóri (producer) hjá mörgum af þekktustu þáttum stöðvarinnar, eins og „Cosby show“, „Roseanne“ og „That 70‘s show“ – allt þættir sem nutu alheimsvinsælda og stimpluðu Werner inn sem öflugan mannauðsstjórnanda.

Árið 1990 stjórnaði Werner svo fjárfestingarsjóði sem keypti Major league hafnaboltaliðið San Diego Padres. Ekki er nú hægt að segja að liðinu hafi vegnað vel undir stjórn hans og árið 1994 seldi hann nær allan sinn hlut í félaginu eftir að það hafði endað neðst í sinni deild.
Nú liðu nokkur ár þar sem hann lét íþróttasenuna vera, einbeitti sér að störfunum hjá ABC, en var líka náinn vinur og ráðgjafi Clinton hjónanna. Eins og áður hefur verið nefnt var það svo 2002 sem þeir félagarnir stofnuðu NESV og þá hófst íþróttaferill þeirra fyrir alvöru.

New England Sport Ventures

NESV var stofnað í kringum kaupin á Boston Red Sox. Það var Henry sem hóf viðræðurnar, byrjaði á að tala við Warner og saman fóru þeir af stað og söfnuðu fjárfestum með sér til að kaupa þetta fornfræga hafnaboltalið. Eftir góðan árangur í þeim kaupum keyptu þeir heimavöll liðsins, Fenway Park og það var svo árið 2004 sem NESV stofnaði dótturfélagið Fenway Sports Group, íþróttaumboðsskrifstofu sem svo á hlut í NASCAR liði og verður aðalstyrktaraðili Fulham frá hausti 2011!

NESV var búið að vera að leita sér að evrópsku knattspyrnuliði í einhvern tíma, gerðu m.a. tilboð í Marseille á árinu 2009 en eftir að einn lykilstarfsmanna þeirra benti þeim á svipaðan „sofandi risa“ og Red Sox, Liverpool FC á Englandi sneru þeir sér að því og við þekkjum söguna.

Samstarf félaganna Henry og Werner

Þeir félagar virðast að mörgu leyti vera frekar svipaðir karakterar. Báðir gæddir miklum persónutöfrum og fáguð framkoma þeirra hefur skellt „herramannsstimplinum“ (gentleman) á þá og þeirra viðskipti. Nokkuð sem við urðum vör við í réttarhaldinu öllu og málaferlunum.

Hugmyndirnar eru í flestum tilvikum sagðar kvikna í kolli Henry, sem svo leitar til Warner með „umbúðir og framsetningu“. Hlutverkaskiptin eru enda þau að Henry er eigandinn en Warner formaðurinn, það þýðir að Warner hefur meira vægi þegar kemur að daglegri ákvarðanatöku en Henry er í lykilhlutverki í „heildarmyndinni“. Allt frá upphafi samstarfs þeirra innan NESV hefur aldrei komið upp ágreiningur á milli þeirra félaga á opinberum vettvangi. Auðvitað segir það okkur ekkert um það hvort þeir séu alltaf sammála, en það allavega gefur okkur von um að við þurfum ekki að lesa stöðugt um innanhússátök hjá klúbbnum í pressunni!

Þeir hafa þótt algerir sérfræðingar í því að koma fram í pressunni. Warner auðvitað þaulreyndur fjölmiðlamaður, en Henry hefur líka sýnt mikla leikni. Frá upphafi samstarfs þeirra hefur mottóið verið „orð sanna minna en aðgerðir“. Þeir hafa ekki verið yfirlýsingaglaðir og mjög mörg verk þeirra hafa komið á óvart og án þess að miklar upphrópanir hafi verið á lofti fyrir aðgerð.

Ameríski íþróttaheimurinn

Ekki er úr vegi að skoða aðeins þann bakgrunn sem NESV vinnur í, þ.e. ameríski íþróttaheimurinn. Aðalíþróttirnar eru fimm, hafnaboltinn (MLB), karfan (NBA), fótboltinn (NFL), hokkíið (NHL) og nú nýlega er fótboltinn (MLS) að ryðja sér rúms inn á markaðinn.

Allt skipulag íþróttanna er eins. Ein aðaldeild er stofnuð, með mörgum riðlum. Bestu liðin fara í úrslitakeppni en enginn fellur. Riðlarnir eru kallaðar deildir og því geta lið unnið sína deild áður en þau fara í svæðisbundna úrslitakeppni sem skilur eftir einn sigurvegara úr A-hluta og annan úr B-hluta, oftast austur – vestur skipting. Sigurvegarinn í leik A-hluta meistara og B-hluta meistara vinna svo eina alvöru titilinn sem keppt er um og oft bara krýndir „heimsmeistarar“ í sinni grein.

Mikið regluverk fylgir öllu íþróttastarfi. Launaþak sem fylgt er sterkt eftir, hámarksfjöldi leikmanna á samningi og skýrar reglur varðandi inntöku nýliða og önnur leikmannakaup. Allt er þetta auðvitað regluverk sem margir hafa reynt að sveigja, en fylgja þó að flestu leyti. Leikmannakaup eru oftast í formi leikmannaskipta eða stórra „free-agent“ samninga.

Eigendur eru lykilmenn sinna félaga. Þeirra hlutverk er að vinna eftir kerfunum, oftast má sjá þá í forgrunni sinna félaga. Þeir hafa mikið að segja í leikmannakaupum, en þó eru framkvæmdastjórar félaganna (general manager) þó þeir sem eiga að framfylgja stefnu þeirra. Gangurinn er oft sá að lið í amerískum íþróttum eiga 6 – 8 „feit“ ár en fara svo í enduruppbyggingu í nokkur tímabil áður en þau stíga upp að nýju. Örfá dæmi eru um lið sem hafa eytt stöðugt stórum upphæðum til að halda stöðugum árangri til tuga ára, þó má nefna LA Lakers í körfunni og NY Yankees í hafnaboltanum, en það er eingöngu vegna þess að eigendur þeirra liða hafa borgað formúgur í „lúxusskatta“ (luxury taxes).

Amerískar íþróttir eru svo allar “tölfræðidrifnar”. Leikmannakaup og samningar í íþróttunum fylgja ansi sterkt frammistöðu leikmanna í tölfræðinni. Ekki er t.d. ólíklegt að leikmenn sem eru að renna út á samningum hugsi meira um eigin frammistöðu en liðsins síns, til að fá betri samning og jafnvel hjá öðrum liðum. Ekki ómerkari menn en Shaquille O’Neal beitti þessu óspart og hikaði ekki við að segja frá því sjálfur að hann væri að leika svo vel að hann þyrfti betri meðferð hjá eigendum LA Lakers, vísaði í “his numbers” sem er afar algengt að lesa um í amerískum íþróttum. Tölfræðin er lykilþáttur í amerískum íþróttum.

Í þessu umhverfi hafa þeir félagar unnið upp sitt módel í Boston.

Boston Red Sox – módelið

Allir helstu fótboltamiðlar heimsins hafa auðvitað rakið það hversu margt Red Sox eiga sameiginlegt með Liverpool. Þjóðsagnakennd sagan, gamall og sögufrægur völlur og stór alheimsaðdáendahópur en ekki síst mikil „árangursþurrð“.

Ekki er nokkur vafi að þessi líkindi gerðu Liverpool FC að áhugaverðum kosti í augum þeirra félaga. En því lengur sem líður held ég að „fair play“ reglur FIFA sem eiga að koma til framkvæmda haustið 2011 hafi skipt máli. Þær reglur segja að öll félög þurfi að reka sig fyrir innkomu sína eingöngu og megi ekki reka félög sín með halla. Þau félög sem ekki fylgja reglunum fá ekki keppnisleyfi!

Fornfrægur sofandi risinn og „eðlilegt“ rekstrarumhverfi varð til þess að Liverpool endaði hjá NESV og mín skoðun hingað til er að núna sé verið að skapa nýtt módel á grunni Red Sox og því ekki úr vegi að skoða það aðeins.
Boston Red Sox var keypt árið 2002. Hafði þá ekki unnið Heimsmeistaratitilinn (World series) frá því 1918. Einungis þrisvar á þeim tíma komist í lokaúrslitin, síðast 1986. Völlurinn þeirra, Fenway Park þótti úreltur og til voru frágengnar teikningar á nýjum velli.
Fyrsta verk NESV var að skipta um stjórnendur, tafarlaust. Viðskiptamódel Red Sox hafði lengi legið undir miklu ámæli, liðið tapaði peningum á öllum vígstöðvum og þessi ákvörðun kom ekki á óvart. Framkvæmdastjórinn (GM) Duquette sem var rekinn hafði þó áður gengið frá mörgum leikmannaskiptum svo að litlar breytingar urðu á gengi félagsins þetta árið og ráðning nýs stjóra var alltaf tímabundin þangað til framtíðarmaðurinn fyndist.

Það var svo árið 2003 að þeir félagar fundu manninn sem þeir leituðu að. Theo Epstein hét sá. Það voru þó ekki þeir sem völdu Epstein heldur félagi þeirra í stjórn Red Sox, Larry Luchino. Sá taldi sig vera búinn að finna mann sem hefði rétta eldmóðinn en væri líka vægðarlaus í viðskiptum og sammála stefnu eigenda félagsins í leikmannamálum. Sem var fyrst og síðast að byggja liðið upp á ungum og metnaðarfullum leikmönnum sem væru gráðugir í titla, á kostnað eldri leikmanna sem væru meira að hugsa um samningana sína og með glóð í augum í stað elds. Epstein var lykilmaðurinn í að ná í leikmenn fyrir félagið sem árið 2004 vann ævintýralegan heimsmeistaratitil. Vann þá erkifjendurnar í NY Yankees 4-3 í leikjum talið eftir að hafa lent 0-3 undir í A-hluta úrslitunum sínum. Aldrei áður hafði lið unnið viðkomandi úrslit eftir að hafa lent 0-3 undir og Heimsmeistaraúrslitin urðu upprúllun í kjölfarið. 4-0 sópun og fyrsti titllinn kominn til Boston frá því að Babe Ruth fór þaðan staðreynd.
Þetta tímabil sáust eigendurnir lítið í fjölmiðlum, létu liðið njóta sigursins en í kjölfar úrslitanna féll sviðsljósið á þá félagana á fullum krafti og ímynd þeirra sem einna bestu íþróttafélagseigenda í Ameríku varð til. Módelið sem þeir höfðu byggt upp á tveimur árum var að svínvirka, eftir fyrsta árið höfðu þeir mótað sér sterkar skoðanir sem þeir breyttu svo í ákvarðanir 2004 sem tryggði þeim ótrúlegan árangur. Þeir félagar hafa báðir síðan talið þann sigur hafa verið langt á undan áætlun og í raun orðið þeim pínulítill fjötur um fót, því næstu tvö tímabil náði liðið ekki að endurheimta titilinn og árið 2007 má segja að hafi verið kominn sá árangur sem þeir ætluðu sér.

Red Sox náði þá í stærsta bitann á leikmannamarkaðnum í kjölfar þess að hafa hreinsað vel til innan liðsins, Epstein var nú komin með aukin völd innan félagsins sem varaformaður og hikaði ekki við að taka stórar ákvarðanir. Það vor urðu Red Sox heimsmeistarar á ný og þrátt fyrir að titillinn hafi ekki unnist síðan er liðið nú klárlega orðið alvöru stórlið á ný, sem ætlar sér titilinn hvert ár. Nú síðast fyrir stuttu síðan voru þeir að ná í tvo stærstu bita hafnaboltamarkaðsins fyrir næsta tímabil og hafa gefið út að einungis heimsmeistaratitill muni gleðja þá.
Vallarmálið hjá Red Sox var leyst af þeim félögum. Mikið hafði gengið á í umræðum á meðal Boston-bua varðandi þá staðreynd að völlurinn var ekki að skila Red Sox nándar nærri nógum tekjum til að vera samkeppnishæfir. Lengi vel var stefnt á sameiginlegan völl með NFL-liði borgarinnar New England Patriots en það gekk ekki eftir, þar sem borgaryfirvöld stóðu gegn því þannig að Patriots gáfust upp og byggðu nýjan völl.
Það var svo árið 2005 að NESV tilkynnti formlega að Fenway Park yrði framtíðarvöllur félagsins og gerðar yrðu á honum breytingar til að færa hann til nútímans. Þær breytingar voru fyrst og fremst þær að fjölga hágæðasætum og „boxum“, auk þess að byggja yfir öll sæti vallarins. Í kjölfarið fylgdu töluverðar hækkanir á miðaverði á völlinn. Auk þess var auglýsingaskiltum og svæðum fjölgað töluvert. Allt þetta þýddi auðvitað meiri innkomu.

Þessar framkvæmdir kláruðust aðeins síðasta vor og nú, átta árum eftir kaup NESV, er Boston Red Sox orðið eitt öflugasta íþróttalið Ameríku, fullkomlega samkeppnisfært á leikmannamarkaðnum og með einna hæstu innkomu á leikdegi í hafnaboltanum. Red Sox – módelið er módel sem mörg íþróttafélög vestanhafs hafa litið til!

Liverpool-módelið?

Allt í ferli kaupanna á Liverpool hefur verið í anda Red Sox – módelsins. Eigendurnir birtust „allt í einu“ eftir alls konar slúðursögur um Kínverja og Araba endaði klúbburinn í höndum rólegra og lítt yfirlýsingaglaðra NESV-manna sem fóru strax að biðja um „.þolinmæði“, „traust“ og „samstarfsvilja“.

Sá málflutningur hefur verið á þeirra vörum frá upphafi, en eins og sást vel í gær, hlusta þeir ekki bara á fólkið á götunni. Þeir eru að búa til sitt félag og Warner beinlínis sagði að aðdáendur hugsuðu oft ekki til lengri tíma.

Fyrsta ráðningin var í þessum anda. Allt í einu birtist Damien Comolli á Anfield og var ráðinn til að sjá um leikmannakaup. Ný staða í enskum bolta að mörgu leyti en þó ekki. Coates var slíkur hjá Scum og Arnesen hjá Chelsea. Það var ljóst að þeir voru þarna að fá til sín mann sem deildi hugsjón þeirra varðandi kaup á yngri leikmönnum, með mikla þekkingu á leikmannamarkaðnum í Evrópu og þaulvanur samningavafstri í fótboltaheiminum. Það var alltaf líklegt að þeir fengju „sinn“ mann inni það umhverfi, þar sem það er morgunljóst að þeim finnst Liverpool hafa gert marga slaka samninga að undanförnu!

Svo kom næsta skref sem líka var rökrétt. Warner tók við formennskunni og sinnir sama hlutverki þar og hann hefur gert hjá Red Sox. Fer í viðtöl, hittir lykilmenn í kringum klúbbinn og næsta skref í því verður að fara að hitta borgarstjórnina útaf vellinum. Hann hefur að auki verið að fara yfir söluvarningsmálin með Ian Ayre og frekari skipulagningu alheimsvæðingarinnar.

Allt sem sést hefur að undanförnu sýnist mér benda í sömu átt. Þeir félagar hafa náð árangri með sitt módel og hafa traust á því að sama hugmyndafræði og útfærsla eigi við í öllum íþróttum. Þrátt fyrir ólíkan markað telja þeir Liverpool geta tekið margt út úr því hvernig Red Sox er rekið og þessi leiktíð mun örugglega fara í það sama og fyrsta tímabilið hjá Red Sox. Læra á allar aðstæður markaðarins og félagsins, ekki síst held ég að þeir muni stúdera fyrsta gluggann sinn í janúar afar vel. Skipulag félagsins er í mikilli skoðun og í dag er ég á því að við munum sjá fyrirkomulag sem þekkist í amerísku íþróttunum og líka hjá mörgum knattspyrnufélögum í Evrópu. Lagskipt stjórnun þar sem yfirmenn og stjórn sjá um leikmannakaup og samninga, þjálfarateymið um þjálfun og útfæslu leikskipulags.

Ég held að þeir séu ekki endilega að horfa til þátttöku í Meistaradeildinni næsta tímabil, heldur líti á það að frekar vilji þeir sjá hverjir það eru hjá félaginu sem eiga framtíð með þeim. Það er ljóst að peningalega telja þeir CL ekki skipta þá höfuðmáli og allir virðast á því að leikmennirnir séu með þeim í þessum hugsanagangi, síðast talaði King-Kenny um það.

Fyrirsagnafréttirnar um Liverpool verða ekki fleiri í vetur held ég. Við munum hins vegar vita meira næsta sumar. Hodgson mun stjórna fram á vor héðan af, nema að hann gefist upp sjálfur.

Hvað gerist?

Ég tek það fram að ég er hér að reyna að vera eins hlutlaus og hægt er í þessari umfjöllun. Ég er ekkert viss um að módelið þeirra félaga gangi upp. Ég er alveg búinn að fá nóg af Hodgson. Ég er ekki viss um að stóru nöfnin verði áfram. Ég er ekki viss um að Anfield muni duga félaginu um ókomna tíð.

Ég er bara að velta upp því sem ég hef legið yfir frá þvi NESV kom yfir hafið. Þarna fer árangursdrifið fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti, fullt sjálfstraust og vissu um hæfileika sína. Markmiðin eru ljós, innan fimm ára ætla þeir að keppa um stærstu titlana í Evrópu, eftir tvö ár vera samkeppnisfærir í Englandi. Hvað munum við sjá? Ég enda pistilinn hér á nokkrum hugmyndum mínum?

Ég held að Tom Warner muni verða áberandi fram á vor, en þegar líður á tímabilið muni verða ráðinn varaformaður til að taka við daglegu hlutverki formanns. Ég spái að sá maður verði Kenny Dalglish. Það er augljóst að þeir félagar ætla honum ekki þjálfarahlutverk heldur stærra hlutverk í heildarrekstri félagsins. Það sprettur úr amerísku umhverfi þeirra, þar sem þjálfararnir eru ekki stefnumótandi heldur að framfylgja stefnu. Ég hélt að Henry myndi tilkynna þetta í gær, en það gerði hann ekki. Ég spái þessu samt. Auðvitað gætu þeir félagar hugsað sér það að láta Dalglish klára veturinn ef hörmungargengið heldur áfram og þeir gefast upp á Hodgson eða að hann gefst upp sjálfur. En framtíð Dalglish hjá þeim er ekki að vera þjálfarinn held ég.

Þeir munu láta Damien Comolli verða GM félagsins. Hann er núna að læra á félagið en ég er sannfærður um að honum ætla þeir hlutverk Epstein. Fara um og finna unga og góða leikmenn sem hann leggur fyrir stjórn og þjálfarateymi. Þegar ákvörðun um leikmannakaup hefur verið tekin er það hans að klára málin.

ALLIR leikmenn munu verða metnir út frá tölfræði. Ekki seldum búningum eða hvernig honum líður. Nú þegar er Comolli búinn að láta þjálfarana hafa sínar hugmyndir og veturinn mun fara í að koma þeirri hugmyndafræði að. Stærð samninga leikmanna mun fylgja frammistöðu þeirra á tölfræðiblaðinu. Hlutfall heppnaðra sendinga og yfirferð í kílómetrum ræður miðjumönnunum. Leikbrot á sig og unnar tæklingar eða skallaeinvígi skiptir máli fyrir varnarmenn. Mínútur milli skoraðra mark og skothlutfall sem hittir markið ræður ferli sóknarmannanna. Þetta er Comolli að meta núna hjá þeim leikmönnum sem verið er að skoða.

Hann á líka að fara yfir núverandi leikmannahóp og hreinsa þar til. Tölfræðivinnan fer mest fram í leikjunum okkar og ég spái að í sumar sjáum við fleiri leikmenn fara frá félaginu en nokkru sinni áður. Eldri leikmenn á stórum samningum verða til sölu. Skrtel, Kyrgiakos, Aureiio og Poulsen eru augljósir kostir, en ég sé alveg menn eins og Agger, Konchesky, Kuyt, Cole, Maxi og jafnvel Carragher vera tæpa. Ég held ennþá að þeir muni yfirfæra sinn hugsanagang, þann að einungis ómissandi stórstjörnur eigi að vera hjá þeirra félagi eftir þrítugt. Warner beinlínis sagði það að eldri leikmenn þyrftu að sanna sig „extra vel“ til að fá samninga hjá félaginu. Nafnastærð og fyrri staða hjá klúbbnum skiptir engu. Þeir sem ekki eru lengur í stakk búnir til að spila með toppliði verða seldir!

Ég sé líka það í spilunum að leikstíllinn verði færður til meira skemmtanagildis og þá þarf að breyta ýmsu. Í stað þessara leikmanna munu þeir þrýsta á meiri notkun yngri manna (eins og KAR skrifaði um) og að auki kaupa marga leikmenn í þessara stað.
Ég spái því líka að Hodgson verði ekki áfram eftir tímabilið. Þrátt fyrir að þeir verji hann eru þeir beinlínis undrandi á leikmannakaupum hans í sumar og á mánudaginn lýstu þeir því allavega að árangurinn í vetur væri búinn að vera óásættanlegur. En þeir munu ekki reka hann í vetur á meðan þeir eru að læra inn á allt. En ALLT sem maður les bendir til þess að hann sé ekki þjálfari að þeirra skapi!

Ég er samt ekki viss um að við sjáum eitthvert risanafn sem stjóra. Áfram held ég að þeir horfi til þess að fá öflugan „on the training ground“ þjálfara til að framfylgja sinni stefnu, frekar en stórt nafn sem dregur úr valdi þeirra. Ég held að titillinn framkvæmdastjóri verði ekki réttnefni þess sem stjórnar liðinu í leikjum. Titillinn verður einfaldlega yfirþjálfari (head coach)

Anfield verður okkar heimavöllur áfram. Eins og Warner sagði í viðtalinu í gær finnst þeim völlurinn goðsagnakenndur vettvangur fótboltaleiks og það er morgunljóst að á næstu mánuðum fer púðrið þeirra í að reyna að fá borgaryfirvöld til liðs við sig varðandi enduruppbyggingu vallarins. Ef það ekki tekst á árinu 2011 verða framkvæmdir við nýjan völl farnar í gang 2012.

Samantekt

Þeir sem ennþá lesa pistilinn fá hér að lokum þá skoðun mína að við verðum að lifa þennan vetur af! Við munum ekki sjá drastískar breytingar fyrr en að tímabilinu loknu og næsta tímabil verður einungis skref í átt að markmiðinu. Við munum sjá fyrirsagnarfréttir sumarið 2011, en í ágúst 2012 verður allt annað Liverpoollið inni á vellinum í fyrsta leik móts en við sáum í haust.

Ég er enginn Nostradamus og ítreka bara enn að þetta eru mínar skoðanir byggðar á mínum lestri og mínum forsendum. En eitt vona ég meira en allt!

Vonandi kveikir Henry sér í stórum vindli á Anfield vorið 2013!

54 Comments

  1. Flottur pistill og góð lesning

    Ég vona samt að Torres verði ekki metinn út frá tölfræði undir stjórn Hodgson þar sem hann er einn Liverpoolmanna á vallarhelmingi andstæðinganna 90% leiksins. Allavega erfitt að eiga heppnaða sendingu…

  2. Hörkugóður pistill og merkileg lesning. Það var eitt sem ég setti spurningamerki við og það er þessi setning.

    „NESV stofnaði dótturfélagið Fenway Sports Group, íþróttaumboðsskrifstofu sem svo á hlut í NASCAR liði og verður aðalstyrktaraðili Fulham frá hausti 2011!“

    Geta þeir átt LFC og verið aðalstyrktaraðili Fulham á sama tíma? Eða er það vegna þess að um dótturfélag er að ræða?

    Annars frábær pistill Maggi.

  3. Virkilega áhugaverð lesning. Takk fyrir þetta og held ég er sammála nánast öllu.

  4. Frábær pistill og greinilega mikil vinna í hann lögð. Verð hinsvegar að segja að mér líkar ekki að heyra “Scum” , mér finnst það bera vott um öfund og minnimáttarkennd 🙂
    Hvort að ameríska módelið mun virka í evrópskum fótbolta mun tíminn einn leiða í ljós , persónulega hef ég mínar efasemdir um það. NESV hafa þó sýnt að þeir vita hvað þeir eru að gera og ég er viss um að þeir munu koma LFC í topp 4 baráttu innan tíðar en aðdáendur LFC verða að sýna þolimæði. Hinsvegar sé ég ekki að LFC verði dómínerandi lið í enska boltanum næstu 10 árin.
    Vandamál LFC í dag eru margra ára uppsafnaður vandi. Meðan Alonso og Masecrano voru á miðjunni með Gerrard í free role , Reina í markinu og Torres fullan af áhuga í framlínunni var ljóst að LFC var topplið. Meira þurfti ekki til. Nú eru miðjumennir farnir , Gerrard orðin eldri og Torres í andlegum vandamálum ( eða aldrei nema 80 % fit ) og hvað skeður , jú LFC orðið miðlungslið. Það hafa ekki komið menn til að fylla skorðin á miðjunni og þar sem LFC hefur ekki lengi spilað raunverulega wingera þá verður liðið að treysta á solid miðju.
    Það er með ólíkindum að LFC eigi bara einn striker og þó Ngog sé efnilegur þá verður hann aldrei heimsklassa framherji. Mér persónulega fannst það alveg stórundarleg ávörðun að lána Aqulani þar sem mér fannst hann allur vera að koma til og sendinga geta hans er eitthvað sem LFC sárlega vantar í dag. Lucas er efnilegur en alls ekki tilbúin í að bera uppi miðju spil LFC. Meireles er góður en hann þarf alveg klárlega amk. eitt tímabili í aðlögun rétt eins og Aqulani. Miðevrópuspilarar eru alltaf lengi að aðlagast hraðanum í enskaboltanum. Verón er gott dæmi um þetta , heimsklassaspilari sem aldrei náði að aðlagast. Spilaði einungis vel þegar United stjórnaði algjörlega leikum.

    Ég stend við það sem ég hef í mörg ár sagt við alla mína Liverpool vini : LFC hefur eytt alltof miklum peningum í að kaupa meðalgóða leikmenn.

    Kv.
    United aðdáandi ( Bara svo það sé á hreinu í 20 skipti )

  5. Mjög góð lesning, held að þolinmæði verði lykilatriðið næstu mánuðina. Þessir gaurar fatta að uppbygging er maraþon en ekki spretthlaup! Nú þurfum við að átta okkur á því líka 😉

  6. Spurning til stjórnenda síðunar : Hvað koma margir inn á þessa síðu að meðaltali á dag / viku / mánuði og hver hefur aukningin verið frá síðasta ári ???
    Takk fyrir frábær síðu og þá miklu vinnu sem menn leggja í þetta. Þegar kemur að umfjöllum um andstæðinga fyrir leiki þá er þessi síða númer 1. í heiminum

  7. Frábær lesning takk fyrir það.

    Mig langar aðeins að svar MW með “LFC hefur eytt alltof miklum peningum í að kaupa meðalgóða leikmenn.”
    Ég skal alveg vera sammála þér að í þessu en ég verð bara að benda á þá staðreynd að þessir leikmenn sem þú kallar meðalgóða leikmenn hafa ekki verið að virka í höndunum á hvorki Roy né Benitez. Aftur á móti hafa að því sem mér finnst meðalgóðir leikmenn t.d. í Man Utd. t.a.m. Fletcher, O´shea, Park, Evans o.fl. alltaf svarað kalli Fergusons og oft á tíðum spilað óaðfinnanlega. Ég er samt sannfærður um það að t.d. þessir leikmenn sem ég nefni ættu mjög erfitt uppdráttar hjá öðrum liðum og því segi ég að stjórinn er mikilvægasti leikmaðurinn í liðinum, því það er hann sem laðar fram það besta mögulega sem hægt er að ná út úr hverjum leikmanni fyrir sig hvort sem hann er súperstjarna, meðalgóður eða hreinlega lélegur.

  8. Frábær lesning! Maður kemur ekki að tómum kofanum hjá Magnúsi! Hvernig væri þá að snúa bökum saman og styðja okkar lið í gegnum súrt og sætt?? Við erum í súru tímabili núna, það þýðir einfaldlega ekkert að gefast upp!! Frasinn “Róm var ekki byggð upp á einum degi” á einkar vel við hjá LFC þessi misserin. Það leið t.d. langur tími þangað til Ferguson landaði titli, ætli við myndum ekki vilja vera í þeirra stöðu núna (þ.e. þolinmæði borgar sig alltaf).

    At the end of the storm is a golden sky!!!!!!

  9. Frábær pistill Maggi, takk fyrir þetta og ég vona að spádómar þínir rætist 🙂

    Svo verð ég að taka undir með MW, okkar áhugasama Utd aðdáanda með þessi niðurlægjandi “gælunöfn” eins og Scums, mér finnst við vera yfir svona lagað hafnir persónulega.

    En takk aftur fyrir ýtarlegan og góðan pistil 🙂

  10. Góður pistill og vona ég að sýn þín sé rétt og óskin rætist. Við vorum einu sinni nokkrir þjálfarar að ræða þetta með tölfræðina. Er knattspyrnuþjálfun vísindi eða list? Það að notast við tölfræði líkt og ameríkanarnir gera mikið af er nú ekki ný af nálinni hjá Liverpool. Rafa Benitez er þektur fyrir að notast mikið við tölfræði (ég veit að það er ekki vinsælt að nefna Benitez hér en hann er bara svo gott dæmi). Leikmaður sem kemur vel út í tölfræði er t.d. Lucas Leiva. Ef við búum til skala og á sínhvorum endanum eru vísindi og list. Hvar staðsetjum við t.d. Benitez og Ferguson? Að mínu viti er hægt að mæla allan fj…… og getur það hjálpað mikið við val á leikmönnum og þjálfun. En það hvernig Ferguson t.d. getur (að því virðist miðað við hvernig leikmenn spjara sig eftir að hafa farið frá honum) náð svo miklu út úr meðalleikmönnum eru bara galdrar.

  11. @10 Beggi

    Ég er sammála…En SAF er án efa einn allra besti framkv.stjóri sem enski fótboltinn hefur séð og hefur nú þegar skipað sér í röð með Shankley , Paisley og Busby svo einhverjir séu nefndir.
    En SAF hefur oft keypt meðalgóða spilara sem hafa verið algjört flopp og er sá listi of langur til að vera að telja hann upp hér. Hinsvegar held ég að United hafi í gegnum tíðina haft aðeins meiri fjárhagslega burði til að gera slík mistök samanborið við önnur lið. SAF hefur líka oft gert stórkostleg kaup og náð ótrúlegum hlutum út úr spilurum sem ekki voru endilega hátt skrifaðir auk þess sem unglingastarf United hefur skilað miklu til liðsins á síðustu 20 árum.
    Varðandi OShea , Flecther , Park , Brown ofl. að þá virðast þeir gera sér grein fyrir því að United sé betri kostur en t.d Blackburn þrátt fyrir að þeir sé alltaf kostur númer 2 og spili ekki nema 20 – 30 leiki á tímabili. Þessir menn eru margir uppaldir hjá félaginu og hafa án efa stórt United hjarta.

    Það er satt best að segja fáir meira hissa á því í dag að United sé á toppnum en ég !! Þegar Valencia fótbrotnaði í upphafi leiktíðar og ljóst var ar Rooney var í tómu bulli þá sá ég fram á að 4.sætið yrði tómt ströggl fyrir mína menn auk þess að Chelsea virtist óstöðvandi 🙂

    @ 13 Hafliði.

    Takk fyrir þetta , Staðreyndin er sú að þetta er eina íslenska síðan sem er þessi virði að skrifa á og að eyða tíma í að lesa þegar kemur að enska boltanum. Ég skrifa á 2 enskar síður endrum og eins og þar eru menn lausir við allt skítkast og óhræddir vð að hrósa öðrum liðum ( kannski eru slík skrif bara fjarlægð af ritsjórn áður en þau birtast ).

    Ég vil hafa LFC í toppbaráttu og í Meistaradeildinni , ég bara bið um að LFC séu sæti neðar en United og fari einni umferð styttra í CL 🙂 Ég geri ráðfyrir að flestir hér séu mér sammála með öfugum formerkjum 🙂

  12. Glæsilegur pistill Maggi, mjög gaman að lesa hann og líklega ansi margt sem mun ganga eftir a þessu sem þú talar um. Góð hugmynd með Dalgish sem gæti alveg orðið að veruleika.

    Mér hlakkar mest til Janúargluggans eins og staðan er í dag, verður gaman að sjá hversu miklum peningum þeir eru tilbunir að eyða, skemmtilegast væri ef það kæmi tildæmmis eitt stórt nafn í Janúar sem kostaði tildæmis 20-40 milljónir punda það myndi sýna mér hrikalegan metnað og kannski það sem meira skiptir það mundi sýna Reina, Gerrard og Torres að það væri bullandi metnaður í nýju eigendunum og að þeir ætli sér virkilega með liðið á toppinn eins fljótt og kostur er.

  13. Flottur pistill að vanda Maggi. Ég dáist alveg að ykkur fyrir hvað þið leggið mikið á ykkur fyrir að gera kop.is flottustu aðdáendasíðu á Íslandi, og e.t.v. þótt víðar væri leitað.

    Get verið sammála um greininguna og vill við hana bæta að með þessu módeli verður klúbburinn væntanlega “sustainable” eða sjálfum sér nógur ef ég set merkinguna rétt fram. Arsenal er dæmi um klúbb sem er í nákvæmlega þessari stöðu. Að vísu hafa þeir almennilegan framkvæmdastjóra sem við höfum ekki. Maður veltir þá fyrir sér að þeir hugsi um liðið eftir 4-5 ár og optimizeri kaup á leikmönnum með það í huga. M.v. frammistöðuna í gær eru ansi fáir þar sem eru ungir, sem fá að vera áfram. Helst Kelly og Wilson hreinlega.

    En ef þeir eru svona miklir tölfræðinördar eins og Maggi bendir á, er nóg að skoða árangurinn hjá kallinum. Hann segir alveg til um það hve slakur stjóri hann er. Markatalan er hvað -1 núna 16 desember í deildinni!!! Það þýðir þá líka að Hodgeson fer sem er gott mál. Held líka að það hefði verið óábyrgt á aðdáendakvöldinu á netinu að þeir hefðu “rekið” hann.

  14. Sælir félagar

    Frábær pistill hjá Magga og hjálpar manni að halda ró sinni. Ef þetta gangur eftir verðum við neðan við miðja deild í ár og eitthvað ef ekki verulega ofar á næsta ári. Og svo förum við að ógna efstu sætum á öllum vígstöðvum eftir það. Svo sem bærileg framtíðarsýn en óþolinmæði mín gagnvart uglunni RH verður til staðar þar til hann fer. Og vonandi gerist það sem fyrst.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  15. MW
    Algjörlega sammála þér og skemmtilegt að það séu til Man Utd menn sem hægt er að tala við á eðlilegum grundvelli (ég veit, margir Liverpool mættu líta í eigin barm).

  16. Flottur pistill og mjög áhugaverðar pælingar. Verð líka að hrósa MW fyrir að vera málefnalegur allt of oft sem menn geta ekki rætt málefnalega um önnur lið alveg sama hvort þeir halda með United eða Liverpool.

    Ef þeir horfa mikið á tölfræðina þá þarf Hodgson að fara að spíta í lófana. Hann hefði líka aldrei verið ráðinn til Liverpool ef men hefðu skoðað ferilinn hans út frá tölfræði. Ég tók það nú einhverntíma saman og komst að því að hann var með yfir 50% vinningshlutfall hjá 4 liðum sem hann hefur þjálfað af 16 (man þetta ekki 100% en þetta er nærra lagi) Það má líka minnast á það að Kuyt hefur verið sá leikmaður okkar sem hefur verið hæðstur á Actim stats undan farin tvö tímabili þannig að þá finnst mér nú ekki líklegt að hann verði látin fara ef menn eru að skoða tölfræðina.

    Það má líka til gamans benda á það að Man U vann ekki titilinn í 26 ár við erum búnir að bíða núna í 20 vonandi þurfum við ekki að bíða eins leiki og Man U aðdáendur þurftu að bíða.

  17. Frábær pistill, gott yfirlit yfir bakgrunn þessara manna sem munu hafa svo mikil áhrif á gengi LFC á næstu árum

    Ég hef ákveðnar spurningar/efasemdir. Sú helsta er hvort Henry/NESV geri sér grein fyrir því hve mikil áhrif 1-2 slæm tímabil hafa í enska boltanum. Í amerískum íþróttum er versta mögulega staða liðs að vera “average”, þ.e. meðallið. Ef lið eru nógu góð komast þau í úrslitakeppni og það er fjárhagslegur ávinningur og séns á titli. Ef liðin eru nógu léleg eiga þau betri möguleika á góðum nýliða, og geta þ.a.l. byggt upp fyrir næstu áhlaup á úrslitakeppnina. Maður sér reglulega sigursæl lið fara í gegnum öldudali til uppbyggingar í framtíðinni í amerískum íþróttum. Jafnvel hafa lið “tankað” (tapað viljandi) til að lenda neðar í töflunni. Spurningin er hvort Henry og co. geri sér grein fyrir því að í enska þurfa lið að vera samkeppnishæf á meðan þessum uppbyggingartímabilum stendur. Nokkur tímabil án CL t.d. hafa mjög slæm fjárhagsleg áhrif svo ekki sé nú talað um hve erfiðara það er að halda leikmönnum. “Cleaning house” eins og reglulega er gert í Ameríku er því hættuspil í enska.

    Þetta er aðeins hluti af efasemdum mínum gagnvart Red Sox módelinu, án launaþaks og nýliðavals eru leikreglurnar allt öðruvísi. Það verður áhugavert að sjá hvernig tekst til.

  18. Janúar glugginn er crusial mál fyrir Liverpool. Ef að ekkert gerist þar þá fara stórstjörnurnar að hugsa sitt mál og gætu vel beðið um sölu í sumar, samanber Torres og Reina.
    Þetta eru menn sem að við hreinlega verðum að halda til þess að geta lokkað menn í heimsklassa til klúbbsins.
    Ég er ekki að vonast til að þeir fari að spreða peningum eins og Man Citu menn en einhvað verður að gera, það er klárt mál. Sýna öllum að þeir séu komnir til klúbbsins til að vinna keppnir og ekkert annað!

    En það má líka alveg sjá aðeins hverjir vilja vera áfram hjá LFC og hverjr ekki. Við höfum nákvæmlega ekkert að gera með menn sem að vilja ekki vera hjá okkur, of oft á þessu tímabili hefur mér fundist Torres bara vera andlega fjarverandi í leikjum hjá okkur og hreinlega óttast það að hann muni biðja um sölu í sumar.
    En ef að hann vil fara þá má hann sko fara! Enginn er stærri en klúbburinn!

    En vonandi er það bara bull í mér og hann verður áfram hjá okkur í mörg ár í viðbót.
    YNWA

  19. Afskaplega glaður að sjá viðbrögð manna og verulega góðir punktar að koma hér í ummælunum.

    MW flottur og er alveg sammála honum í því að ég vill alveg hafa United í toppbaráttunni (Scum) en bara rétt neðan við mitt lið. Everton hins vegar má keppa við Hartlepool í League Two mín vegna!

    Ég er alveg sammála því að ég tel ljóst að NESV hefðu aldrei valið Hodgson sem sinn stjóra, einmitt út af slakri tölfræði hans, einmitt í útileikjum. Það er afskaplega erfitt fyrir hann að hrekja þá staðreynd blessaðan og var örugglega ástæða “þefa-prumpulyktar-hreyfingarinnar” hans RH í Newcastle.

    Svo tek ég undir efasemdirnar í atriði #22. Það eru sameiginlegar áhyggjur okkar ef að “cleaning-house” aðgerðir eins og tíðkast reglulega í Ameríku muni ekki virka í umhverfi án launaþaks og nýliðavals!

  20. og þetta var frábær lesning! Án nokkurs vafa flottasta stuðningsmanna síða í heiminum 🙂 aldrei hætta með þetta 😉

  21. Er #24 nokkuð Ragnar Reykhás
    segir fyrst þetta “Ef að ekkert gerist þar þá fara stórstjörnurnar að hugsa sitt mál og gætu vel beðið um sölu í sumar, samanber Torres og Reina. Þetta eru menn sem að við hreinlega verðum að halda til þess að geta lokkað menn í heimsklassa til klúbbsins.”

    Síðan í næstu málsgrein þá kemur þetta “of oft á þessu tímabili hefur mér fundist Torres bara vera andlega fjarverandi í leikjum hjá okkur og hreinlega óttast það að hann muni biðja um sölu í sumar. En ef að hann vil fara þá má hann sko fara! Enginn er stærri en klúbburinn!”

    Nei bara pæling:)

  22. einn leiðinlegur punktur, sko NESV er aðdáandi Fulham, RH var þar áður en hann kom til liverpool ég held að þeir hafi svo mikla trú á honum út af því að hann gerði góða hluti með Fulham, en eins og ég segji þá er fulham bara svona “meðallið”.

    Flottur pistill Maggi, eitt sem ér er reynda soldið ósammála um er það að þú segjir að þeir gætu selt skrtl sem gamlan mann (ætla samt ekki að staðfesta að þú setir hann á listan út af því) skrtl er 26 ára gott fólk 🙂 hann er ennþá að læra sem er mjög góður hlutur.

    En eins og ég sagði þetta er frábær pistill.

  23. Takk kærlega fyrir þennan pistil.
    Gaman fyrir þann sem ekki hefur mikið skoðað nýju eigendur liðsins að sjá aðdraganda að samstarfi þeirra og hvernig það virkar. Mér sýnist sem við erum í höndum á ágætlega þenkjandi mönnum sem þora að taka ákvarðanir og vonandi fá innanbúðarmál að vera þar en ekki í fjölmiðlum, ef þau verða til staðar.

  24. HAHAHA 24# eitt mesta rugl sem ég hef lesið hér á Kop.is, held það sé málið að lesa yfir það sem þú skrifar:) !!
    Halda torres lykilatriði og svo í næstu línu Torres má fara !!

  25. Það er ekkert launaþak í MLB. Þá er harkalegt að segja að ‘afar illa’ hafi gengið hjá þeim með Marlins. Skiluðu liðinu frá sér í góðu ástandi og þeir unnu svo titilinn 2003.

  26. Frábær pistill. Þetta fer að minna á síðuna hans Paul Tomkins, djúpar greiningar á málunum út frá allskonar sjónarhornum. Meira svona, þið eruð frábærir í þessu 🙂

  27. Ég hreinlega efast um að þetta séu réttu mennirnir þar sem fyrirkomulagið í USA er allt öðruvísi en á Englandi. En ég vona þó að ég hafi rangt fyrir mér.

  28. Frábær pistill – frábær vefsíða. Ég veit ekki hvernig þið farið að þessu með endalausum snilldarskrifum. Ef liðið væri innblásið af sama krafti og þið þá værum við í góðum málum i deildinni!

  29. sjitt hvað er gaman að fara á þessa síðu!!!!!! Þúsund þakkir fyrir mig og keep going!!!

  30. @nr. 32 Stebbi.

    Góður punktur með launaþakið, ég fylgist lítið með hafnabolta. Nýliðavalið er samt enn stærri munur á amerísku og evrópsku umhverfi, sérstaklega eftir að UEFA Fair Play reglurnar koma 2011. (Býst við að þeim sé ætluð að hafa jöfnunaráhrif ekki ósvipuð launaþaki.)

  31. Aðeins off topiv, en móðir Paul Konchesky var víst að tjá sig um skoðun liverpoolmanna á drengnum:

    http://i53.tinypic.com/91f14g.jpg

    Kallar liverpool menn “scum”, segir liðið vera “shit” og segir að hann hefði aldrei átt að fara frá Fulham. Ég held við getum flestir verið sammála þessu síðasta !

  32. Flottur pistill Maggi, og fróðlegur að lesa í alla staði….
    Mitt innlegg í þessar umræður er svo sem ekki til að bæta fræðin, eða auka á fagurfræðina… Ég hef fátt að segja, en þó þetta :

    nr#5

    • “Frábær pistill og greinilega mikil vinna í hann lögð. Verð hinsvegar að segja að mér líkar ekki að heyra “Scum” , mér finnst það bera vott um öfund og minnimáttarkennd :)”

    Ég er nú ekki hiss á því að United aðdáanda líki ekki að heyra orðið Scum, en það breytir ekki rassgat þeirri staðreynd, að Scums skal þetta lið heita, og mér er nokk sama hvaða vott þér finnst það bera. Þessi íþrótt eða stuðningurinn við hana , var ekkert búin til í gær, og gælunöfn þessara klúbba hafa fylgt þeim sumum í hundrað ár, og í það minnsta helminginn af þeim tíma, hafa allir Englendingar skemmt sér við að búa til sín eigin gælunöfn yfir mótherjana, og það er bara partur af stemmingunni. Liverpool (þótt það hljómi auðvitað stór undarlega) gengur undir ýmsum mis skemmtilegum nöfnum, hjá stuðningsmönnum annarra liða, og nágrannar okkar úr forgarði helvítis (Manchester), gera það líka. Þetta er bara partur af þessu, og ég sé bara ekkert að því, og skammast mín ekki neitt fyrir að taka þátt í þessum barnaskap !!

    Barnaskapur eða ekki, þá er þetta partur af stemmningunni, og þú færð mig seint til að tipla eitthvað á tánum í kringum þetta Scum viðurnefni, því skítur kemur úr rassi, og mér er nokk sama þó það sé dónalegt að segja það. !!

    Þetta er alls ekki persónulegt skítkast út í “MW”, þvert á móti, því hann átti hér málefnanlegt og gott innlegg í umræðuna, en ég er honum bara ekki sammála, og vil endilega klína þessum Scum stimpli sem fastast á hans uppáhaldslið, og lái mér það hver sem vill… þeir sem skilja söguna, tilfinningarnar og Liverpool, þeir vita nákvæmlega uppá hár, hvað ég er að meina !!

    En að öðru..

    Sami ræðumaður á komment nr #15, og í því mátti m.a annars lesa þetta :

    • “En SAF er án efa einn allra besti framkv.stjóri sem enski fótboltinn hefur séð og hefur nú þegar skipað sér í röð með Shankly , Paisley og Busby svo einhverjir séu nefndir”

    Hérna náttúrulega beinlínis móðgast ég yfir þessum ummælum. Jú, vissulega er Alex Ferguson, sem ég kýs að skammstafa AF héðan í frá, þakka þér fyrir, góður stjóri, og hefur sannað það margoft með titlum sínum. En að ætla að skipa honum sama sess og Shankly, er í besta falli slappur skilningur á því hvað Shankly gerði.
    Ferguson myndi sjálfur aldrei reyna að skipa sér á þann bekk held ég, og til að átta sig á því hvað ég er að meina, þá þarf aðeins að átta sig á sögunni, og hvaða vinnuaðferðir Shankly notaði, og hvað hann var með í höndunum.
    Þrátt fyrir allt, þá hefur nú rauðnefur ( sem ég skammast mín ekkert fyrir að kalla svo) haft talsvert fé milli handanna og getað borgað leikmönnum tugi og jafnvel hundruð þúsunda punda laun í hverri viku, og slíkt verður aldrei borið saman við það sem Shankly gerði.
    Jú jú.. milli þess sem kallinn japlar á sínu týggjói, og veðjar á írska veðhlaupahesta ef hann má vera að því að líta uppúr rauðvínsglasinu sínu, þá dettur hann niður á góð kaup, og vissulega hefur unglingastarfið hjá þeim skilað talsverðu síðustu árin. En það breytir engu um það, að heimsbyggðinni virðist vera fyrirmunað að muna eftir því, að hann á umtalsverðan slatta af fáránlegum floppum á leikmannamarkaðnum, rétt eins og aðrir. það er bull að segja að hann geti gert feila á markaðnum, en á einhvern undraverðan hátt nái hann bara að móta þessa menn og gera þá leikhæfa !! Málið er bara akkúrat það, að hann hefur marg oft keypt steindauðan kött í sekknum, en hann hefur bara yfir því fjármagni að ráða, að hann getur látið þann leikmann rotna fyrir utan hópinn, svo enginn muni eftir því. En af því að það gerist bara nokkuð oft, þá þarf hann stundum að nota “minni floppin sín” sem eru þá þeir leikmenn sem þú taldir upp hér að ofan. uuu…. Verón , anyone ?? Man einhver eftir því hvað hann gerði hjá United, eða hvað hann kostaði.. ?? Bara svona til að nefna einhvern .

    Æi, þegar öllu er á botninn hvolft, þá fanga ég því að stuðningsmenn annarra liða komi og ræði hlutina á málefnanlegan hátt, en því fer fjarri að ég ætli að fórna rétti mínum til að kalla United Scum, eða Ferguson Rauðnef… því það er bara partur af þessari stemmningu, og fyrir utan að vera alið upp í manni, þá er hvortveggja alger réttnefni !! 😉

    Lifið heilir… takk fyrir góðan pistil Maggi..

    YNWA… Insjallah…
    Carl Berg

  33. Frábær pistill og fróðleg og skemmtileg lesning! Er að öllu leyti sammála því sem þú heldur að gerist með LFC á næstu 2 árum. Hlakka mjög mikið til að sjá allar breytingarnar á liðinu og ég vona líka að vindillinn komi upp 2013 og jafnvel fyrr 😀 !

  34. Það er eðlilegt að menn vilji viðhalda rígnum Carl Berg, en þetta er vefsíða, með umræðukerfi, og þú ert að taka umræðuna niður á lægra plan með þessum barnaskap í þér.

    Enda auðveldara að láta sitt sanna ljós skína í glasi.

  35. Ég vil byrja á því að þakka MSG sérstaklega fyrir að benda mér á, að þetta væri vefsíða, og það með umræðukerfi… það hefði mér aldrei dottið í hug, á slíkrar ábendingar !

    En það að segja mér, og þá hinum lesendunum, að það sé auðveldara að láta sitt sanna ljós skína í glasi, er í besta falli hlægileg ummæli, og neglir ekki einn einasta nagla í röktréð sem þú ert að reyna að negla í…. Þó svo að þér komi það auðvitað ekkert við hvort ég sé í glasi, eða ekki, þá er nú vinnudagur hjá mér á morgunn, eins og flestum öðrum, og því var þetta afskaplega barnaleg tilraun hjá þér til að gera lítið úr mínum skoðunum … , og gerði fátt annað en að sýna efa þinn varðandi mín heilindi gagnvart Liverpool og þess sem ég sagði hér að ofan, sem ég tel reyndar að bæði síðuhaldarar, og fleir sem mig þekkja, telji fjarri sanni.

    En það er alveg óhætt að benda þér á það, að þegar ég er þokkalega vel kenndur, þá er ég helmingi staðfastari en ég var áðan í mínum skoðunum, og kalla þetta United lið miklu verri nöfnum en Scum…..

    En það skiptir svo sem ekki neinu, .. blá edrú, eða mökk ölvaður… þá verður þetta lið alltaf Scum,og það er eitthvað sem segir mér, að það séu nú ansi margir hér, sem bara taka hreint helvítis helling undir það sem ég sagði…

  36. Frábær lesning,

    Ég deili áhyggjum manna varðandi módelið sem þeir vinna eftir, reyndar eru margir hlutir módelsins snilld líkt og að byggja upp á ungum hungruðum mönnum sem eru ekki eingöngu að spá í hvar þeir fá mesta aurinn o.s.frv.

    Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að þjálfarinn fái ekki að ráða nægilega miklu. Ef við skoðum þau lið sem eru að gera góða hluti í boltanum á Englandi þá eru það undantekningarlaust liðin sem eru með þjálfara sem er “STÆRRI” en leikmennirnir þ.e. ef einhver stórstjarna í liðinu fer í fílu þá kastar stjórinum henni bara út í skammarkrók og jafnvel selur viðkomandi fyrir klink til að niðurlægja hann, sbr. Beckham, Staam, Kean o.fl. hjá Utd. Þetta á einnig við hjá Arsenal og yfirleitt hjá Chelski þ.e. þegar þeim gengur vel, Móra fór að ganga illa með liðið þegar hann lenti í vandræðum með vin eigandans Shevchenko. Ef Móri hefði fengið að ráða áfram, þ.e. vera “STÆRRI” en einstaka leikmenn þá hefði hann gert þá að óstöðvandi afli… eða það er mín kenning.

    Lítum svo á t.d. City, stjórarnir eru ávallt í stökustu vandræðum með stjörnunar í liðinu, nú síðast Tevez… eigum reyndar eftir að sjá hvernig það endar.

    Pointið er þetta, munum við getað byggt upp lið þegar þjálfarinn er ekki “STÆRRI” en stjörnunar? Þetta er mjög erfitt viðureignar, sjáum núna að leikmenn LFC eru ekki allir ánægðir með stjórann og eru óbeint að hrauna yfir hann sbr. Reina, Agger o.fl. Torres er t.d. mjög loyal leikmaður sbr. veru hans hjá A.Madrid og hingað til hjá LFC. Nú hins vegar virðist hann vera að fara og ég tel einu ástæðuna vera þá að hann bera ekki virðingu fyrir þjálfaranum!

    Ég tel að ef þjálfarinn fái ekki að hafa puttann á púlsinum og geti selt eða tekið crusial ákvarðanir varðandi leikmenn sem eru að rífa sig þá lendum við ávallt í vandræðum með reglulegu millibili.

  37. Shii…. Carl væri ekki best fyrir þig að taka smá Treo og skella þér í háttinn eða bara þegja. Höldum friðinn, og þá meina ég ekki skrifa 15 línu ræðu/ eða lengra, útaf einu ‘Scum’ comment. Það er mjög barnalegt…..

  38. Ég vil þakka fyrir frábæran pistil. Eftir leikinn á móti Newcastle þá ákvað ég að nú væri nóg komið að væli hjá mér. Við sem elskum þennan klúbb verðum að sætta okkur við það að næstu ár verður varin í uppbygging á þessu nýja módeli og við verðum að sýna þolinmæði. Ég sammála að Roy verður út árið.

  39. Afbragðs pistill. Mikil vinna lögð í hann og flest sem kemur þarna fram má taka sem staðreyndum.

    Það sem fer hvað mest í taugarnar á mér varðandi fótbolta almennt er hversu langan tíma tekur að gera breytingar. Þess vegna held ég að 2013 sé tiltölulega snemmt áætlað að liðið verði samkeppnishæft um titil, ég myndi setja það ártal með fyrirvara um að allt gangi upp.

    Þá set ég spurningarmerki við stjórnunarfyrirkomulag þeirra og viðhorf gagnvart leikmönnum. Tölfræði segir ekkert ein og sér og ef menn eru eingöngu dæmdir út frá tölfræði þá verða menn ekki lengi að reka sig á veggi. NESV-menn þurfa líka að átta sig á að stöðugleiki í leikmannahópnum er eitt það mikilvægasta sem næst í leit að titli. Eins miklar breytingar og lagðar eru til eru ekki af hinu góða þótt ég sé sammála flestum þeim nöfnum sem þurfa að fara. Það er líka rétt sem kemur fram hér að ofan að það er óljóst hvort Reina og Torres séu tilbúnir til að bíða þetta lengi eftir því að árangur náist.

    En við þurfum að bíða a.m.k. í nokkur ár enn, en vonandi sjáum við breytingar í sumar og 3-4 ný andlit í liðinu í ágúst á næsta ári.

  40. Carl Berg er svo klárlega með þetta. Að líkja AF við Shankly er bara svo mikið móðgun að það nær ekki nokkurri átt.
    Seðlarnir sem rauðnefur hefur yfir að ráða, shiiii, hann hefur efni á að kaupa einhvern heimilileysingja sem hann hefur ekki einu sinni séð spila fótbolta. Segir nú meira en mörg orð.

  41. smá off topic:
    Hefur einhver séð Turan spila og veit hvort maðurinn sé nógu góður fyrir liðið.. Er að sjá á nokkrum síðum að það séu nokkuð margir sem vilja fá hann til LFC.

  42. Aftur, Maggi frábær pistill og gaman af þessu. Ætla hreinlega að bíða og sjá hvernig gjörðir þeirra NESV manna verða á næstu árum áður en maður metur þá sem góða eða slæma. Þeir fengu frábært kickstart og algjörlega win win stöðu er þeir tóku við af fyrri eigendum enda litið á þá sem bjargvætti og bara hreinlega erfitt að vera verri og þeir hafa sannarlega heillað mann hingað til og líta vel út upp á framtíðina þó margt sé að hjá klúbbnum í dag sem þarf að laga. Ergo: ég hef gríðarlega trú á þeim, smá áhyggjur þó en framtíðin lítur mikið bjartari út fyrir klúbbinn núna heldur en fyrir nákvæmlega ári síðan, eigendalega séð.

    Tek annars undir með Carlberg, bæði hvað varðar “Scum” og Shankly. Ég meina come on, það er ekki að rífa umræðuna það mikið niður að kalla United liðið Scum á LIVERPOOL BLOGGINU!!! Viðkvæmni er þetta. (Fagna samt pennum eins og MW sem er málefnanlegur United maður, þarf bara að gera ráð fyrir svona á stuðningsmannasíðu erkifjendanna).

    Ferguson hefur svo að sjálfsögðu skipað sér veigamikið pláss í sögu enska boltans, bæði fyrir lengd í starfi og ótrúlegan árangur sl. ár. Hann byggði stórt lið upp og náði að toppa á fullkomnum tíma og verður án vafa minnst sem eins besta stjóra í sögu enska boltans, með þeir Shankly, Paisly, Busby o.fl. Það er samt rétt hjá CarlBerg að það er móðgun að líkja honum við Shankly, allavega hvað varðar persónuleika enda himinn og haf þar á milli. Reyndar svipað og það er mikill munur á United og Liverpool stuðningsmönnum. Í Liverpool en Bill Shankly vinsælli en Bítlarnir enn þann dag í dag meðal rauða helmings borgarinnar.

    og MSG, þú hefur greinilega ekki hitt CarlBerg í glasi. Efa að hann hafi verið búinn með meira en Sprite Zero þegar hann skrifaði þetta.

  43. Frábær Grein..

    Ég er búin að vera lengi með það hugskot, sem ég get rauninni ekki rökstutt með neinum vitrænum hætti, að Mattias Sammer verði næsti manager hjá Liverpool. Hann átti frábæran feril bæði sem leiðmaður og þjálfari og auk þess er hann maðurinn á bakvið uppbyggingu þýskalandsliðsins.

  44. Ætla að koma fyrst á framfæri að ég er Man Utd en ætla ekki að koma hérna til að kasta skít heldur reyna að spjalla á sem málefnalegastan máta. 🙂

    Frábær pistill og rosalega vel unninn. Meistari 😀

    @41
    Fyrsta lagi er ég alveg sammála þér að maður vill hafa alvöru ríg á milli þessara frábæru liða, en hann á samt að vera á málefnalegan og þroskaðan hátt. Veit ekki með gælunafnið ‘scum’ þar en maður hefur nú gerst sjálfur sekur um e-ð svipað áður svo ég ætla ekki að rífast yfir því. 🙂

    Með Busby, Shankly, Paisley og Ferguson og þá get ég nú ekki verið sammála því að það sé ekki hægt að setja þessa menn á sama stað. Sammála að það sem Busby og Shankly séu í hreinum sérklassa en Ferguson er nú ekki það langt undan.

    Þegar Ferguson tók við klúbbnum þá var Man Utd. í mjög slæmum málum. Klúbburinn var nær falli en toppbaráttu og allir helstu lykilmenn liðsins, Norman Whiteside, Paul McGrath og Bryan Robson, voru meira á barnum en á æfingum. Á sínu fyrstu 6 mánuðum lyfti hann klúbbnum frá 21. sæti yfir í það 11. Sumarið eftir krafðist hann Eric Harrison (þáverandi þjálfara akdemíunar) um að skila sér leikmönnum og seinna það árið kom 14 ára strákur að nafni Ryan Giggs til United.
    Næstu fjögur árin reyndi Ferguson að spila mikið úr meðalmönnum sem fyrir voru í blandi við nokkra aðkeypta(t.d. Viv Anderson, Steve Bruce og Brian McClair) og nokkra táninga (t.d. Mark Robins). Þegar úrvaldsdeildin var svo stofnuð þá notaði hann menn eins og Bryan Robson, sem átti að kallast fyrirliði liðsins, í einungis 15 leikjum, rétt til að fá medalíuna.

    Á fyrstu árum sínum hjá klúbbnum notaði Ferguson alls ekki svo mikið fé. Dýrustu leikmennirnir voru Bruce, McClair, Ince og Pallister. Leikmennirnir sem L’pool keyptu á þeim tíma voru svipað dýrir ef ekki aðeins meira og þessir dýru hjá United voru flestir mun lengur en leikmennirnir hjá L’pool ;). Taka skal reyndar fram að eitt af dýrustu kaupunum ykkar var að fá Ian rush til baka svo það kemur út í núlli.

    En það sem ég er að reyna segja með þessu að Ferguson hafði ekki alltaf svona mikinn pening heldur vann hann fyrir honum með því að vinna titla og selja leikmenn sem hann þjálfði. Þetta, auk tekna af söluvarningi skilaði langstærstum hlutum þess fjárs sem Ferguson hefur eytt.

Liverpool 0 Utrecht 0

Evrópudeild: dráttur (uppfært: Sparta Prag!)