Hodgson fyrir/eftir kaup NESV

Þegar ég horfði á leikinn í gær gegn Aston Villa fannst mér ég taka eftir ákveðnum áherslubreytingum hjá Roy Hodgson undanfarnar vikur. Lagðist í kjölfarið í smá rannsóknarvinnu og þetta er útkoman. Það er að mínu mati nokkuð áhugavert að skoða þátttöku ungra leikmanna í deildarleikjum Liverpool fyrir og eftir yfirtöku NESV á félaginu í byrjun október. Liðið lék sjö deildarleiki fyrir yfirtöku og hefur leikið níu deildarleiki síðan þá. Svona kemur þátttaka yngri leikmanna út í þeim leikjum:

**Arsenal (h):** Ngog byrjar, enginn inná.
**Man City (ú):** Ngog byrjar, Pacheco inná.
**W.B.A. (h):** Enginn byrjar, enginn inná.
**Birm’ham (ú):** Enginn byrjar, enginn inná.
**Man Utd (ú):** Enginn byrjar, Ngog inná.
**Sunderland (h):** Enginn byrjar, Ngog inná.
**Blackpool (h):** Enginn byrjar, Ngog inná.

Þegar hér er komið sögu eignast NESV klúbbinn yfir tveggja vikna landsleikjahlé.

**Everton (ú):** Enginn byrjar, Ngog inná.
**Blackburn (h):** Enginn byrjar, Ngog og Shelvey inná.
**Bolton (ú):** Enginn byrjar, Ngog inná.
**Chelsea (h):** Kelly byrjar, Shelvey, Ngog og Spearing inná.
**Wigan (ú):** Kelly byrjar, Shelvey og Eccleston inná.
**Stoke (ú):** Enginn byrjar, Ngog inná.
**West Ham (h):** Ngog byrjar, Shelvey inná.
**Tottenham (ú):** Ngog byrjar, enginn inná.
**Aston Villa (h):** Ngog byrjar, Kelly inná.

Sem sagt, í sjö deildarleikjum fyrir kaup NESV á klúbbnum var það aðeins Ngog, sem var orðinn reglulegur meðlimur aðalliðsins fyrir þjálfaraskiptin í sumar, sem Hodgson notaði og eina undantekningin sú að hann leyfði Pacheco að fá nokkrar mínútur í stöðunni 0-3 gegn Man City í töpuðum leik. Eftir kaupin höfum við hins vegar séð Kelly og Shelvey koma meira við sögu – Kelly fékk m.a.s. að byrja tvo leiki í röð, þ.á.m. gegn Chelsea – auk þess sem Ngog hefur verið oftar í byrjunarliðinu. Þá hafa Eccleston og Spearing einnig fengið að spreyta sig í deildinni.

Þessir ungu leikmenn hafa líka fengið að spila reglulega í Evrópudeildinni og einum Deildarbikarleik en fram að eigendaskiptum treysti Hodgson einfaldlega ekki á þá í deildinni og virtist nánast stilla upp í byrjunarliðið eftir aldri.

Annað sem er athyglisvert að nefna er þátttaka Christian Poulsen á tímabilinu. Í sjö deildarleikjum fyrir kaup NESV byrjaði hann inná fimm sinnum og það var aðeins í fyrstu tveimur deildarleikjunum, gegn Arsenal og Man City þar sem hann var nýkominn og ekki orðinn leikfær að mati Hodgson, að hann tók ekki þátt. Að öðru leyti notaði Hodgson hann alltaf fram yfir tapleikinn gegn Everton, fyrsta leikinn eftir kaup NESV. Síðan þá hefur Poulsen aðeins byrjað einn deildarleik og komið inná í tveimur öðrum af átta leikjum, þrátt fyrir að vera alltaf á bekknum. Þannig að Hodgson virðist hafa áttað sig mjög fljótlega á því að það væri ekki hægt að treysta á Poulsen í þessu liði.

Á fyrri hluta haustsins, þegar Poulsen var fastur liður í byrjunarliðinu var það nær alltaf á kostnað Lucas Leiva sem virtist hafa misst sæti sitt í liðinu en eftir tapleikinn gegn Everton hefur þetta snúist nær algjörlega við. Lucas hefur nú byrjað í átta af síðustu níu leikjum, missti aðeins af leiknum gegn West Ham þar sem hann var í leikbanni og þá byrjaði Poulsen í staðinn. Missti sæti sitt svo strax aftur til Lucas þegar hann kom úr banni þrátt fyrir að liðið hafi unnið West Ham 3-0 með Poulsen í liðinu.

Það er svo sem enginn stóri sannleikur í þessu en ég tók eftir því í gær að svo virðist sem Hodgson sé að aðlaga sig að yfirlýstri stefnu NESV og Comolli – þ.e. að leggja meiri áherslu á að hleypa yngri leikmönnum að og treysta þeim sem yngri eru en hafa reynslu af aðalliðinu (Lucas og Ngog, aðallega, en líka Kelly og Babel í síðustu leikjum).

Ég stend við þá skoðun mína að ef NESV hefðu keypt félagið snemma í sumar hefði Hodgson aldrei fengið að kaupa menn eins og Joe Cole, Poulsen og Paul Konchesky á háu verði og á kostnað yngri manna sem voru fyrir hjá liðinu (Aquilani og Insúa, aðallega). En batnandi mönnum er best að lifa og það er jákvætt ef Hodgson er farinn að vinna núna reglulega leiki á heimavelli (fimm heimasigrar í röð í öllum keppnum), stilla upp sókndjarfara liði (tvo framherja jafnvel þótt Torres sé fjarverandi) og treysta ungu leikmönnunum aðeins meira.

Ef hann getur snúið útivallarforminu við á svipaðan hátt yfir jólavertíðina gæti hið ómögulega gerst – Hodgson gæti unnið stuðningsmenn Liverpool á sitt band. Slíkt virtist óhugsandi fyrir sjö vikum þegar tap gegn Everton skildi okkur eftir í fallsæti og Hodgson hrósaði liðinu fyrir ömurlega frammistöðu. En hlutirnir geta breyst hratt og Hodgson virðist vera, hægt og bítandi, að snúa hlutunum sér í hag.

Í dag er liðið í 8. sæti með 22 stig eftir 16 umferðir og loks með markatölu í plús eftir ömurlega fyrstu 8 leiki sem skildu liðið eftir í fallsæti. Benítez var með 24 stig eftir jafnmarga leiki í fyrra sem er ekki mikið betra. Liðið er fjórum stigum frá Evrópusæti, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti, og þegar búið með erfiða leiki (bæði Manchester-liðin og Everton á útivelli).

Þetta tímabil er einfaldlega galopið. Hodgson getur ennþá klúðrað þessu hrapalega og verið orðinn atvinnulaus löngu áður en sumarið gengur í garð, en hann getur líka ennþá afrekað hið ómögulega og skilað þessu liði upp í Evrópusætin, jafnvel Meistaradeildina. Miðað við fyrri helming mótsins væri honum ráðlegast að halda áfram að sækja til sigurs í hverjum leik, treysta á ungu leikmennina og tröllalíma Christian Poulsen við varamannabekkinn í næstu 22 deildarleikjum. Það virðist vera að virka.

78 Comments

  1. Flottur pistill.

    Mikið hefur Pacheco samt valdið mér miklum vonbrigðum. Hann hefur eiginlega ekkert sýnt í þessi skipti sem hann hefur fengið tækifæri. Var reyndar að spila út úr stöðu á móti Steua en hann er samt búinn að vera spila á hægri með varaliðinu að undanförnu þannig að hann var ekkert að spila þarna í fyrsta skiptið.

    Eins hefur Eccelston ekki alveg náð að hrífa mig á þessum örfáu mínútum sem hann hefur fengið en hann þarf að sjálfsögðu að fá meiri tíma áður en maður ákveður sig með hann.

    Kelly er að koma vel út finnst mér. Sést reyndar vel að honum vantar reynslu en eðli málsins samkvæmt þá kemur hún með tímanum 🙂

    Shelvey er ágætur, mikið efni en á það til að hverfa í leikjum, reikna þó með að hann eigi eftir að verða úrvalsdeildar leikmaður í framtíðinni, hvort það verður hjá Liverpool er erfitt að svara.

    Annars er allt önnur holning á liðinu að mestu þessa dagana, gaman að sjá. En eins og við sáum á móti Stoke þá þarf ekki mikið til þess að Roy fari aftur í gamla farið.

  2. Eitt sem má líka koma inná að eftir fyrstu leiki tímabilsins að þá leist Hodgson ekkert á Pacheco og slúðurmiðlar voru staðfastir á því að Pacheco myndi fara í janúar.
    En núna nýlega (þá eftir yfirtöku NESV) fékk Pacheco nýjan samning.

  3. Ég held að lykiltímasetning í þessu sé útileikurinn á móti Napóli 21. október. Þá voru lykilmenn skyldir eftir heima og orðið á götunni var að menn væru að funda án RH. Næsti leikur var á móti Blackburn á heimavelli og liðið spilaði með allt öðrum hætti en í fyrri leikjum tímabilsins.

    Annað sem gerðist er að í landsleikjahlénu lék Lucas Leiva lykilhlutverk í leikjum Brasilíu og það var dálítið erfitt fyrir RH að réttlæta val á Poulsen fram yfir hann. Var það ekki í því sama landsleikjahlé sem Poulsen brilleraði svo stórkostlega að danskir fjölmiðlar báðu hann vinsamlegast að finna sér nýja íþrótt.

  4. Ef að Hodgson nær að vinna næsta útileik þá mun ég treysta honum fram að áramótum, honum hefur tekist að láta liðið spila fínan bolta á heimavelli en á útivöllum er einhver hræðsla sem gerir það að verkum að liðið spilar illa og ef að Hodgson lagar það þá er ég sáttur.
    Og með þessa ungu leikmenn þá finnst mér þeir eiga fullt erindi í þetta lið.
    Kelly er framtíðarvarnarmaður hjá okkur og ég vill ekki fá neinn nýjan í þessa stöðu í jan til þess að leysa Johnson af, ég treysti Kelly vel í það sem og miðvörðinn enda er hann meiri miðvörður en bakvörður.
    Shelvey getur orðið frábær miðjumaður en í guðana bænum ekki reyna að breyta honum í kantmann.
    Sama með Pacheco, hann á að spila fyrir aftan sóknarmanninn en ekki á kantinum.
    Svo á bara að fá Insua til baka í janúar og láta hann berjast við Aurelio og selja Koncheskey.

  5. http://www.liverpoolfc.tv/news/media-watch/liverpool-lining-up-move-for-ac-milan-star-ronaldinho

    Núna eru nokkrir miðlar að bendla okkur við Ronaldinho, hvað finnst mönnum um það?

    Ef hann myndi lækka launakröfurnar þá væri ég til í að fá hann.Myndi koma með reynslu og gefa liðinu smá boost restina af seasoninu. Auk þess þó hann sé orðinn 30 ára gamall þá hefur hann ennþá tæknina og þessi trikk sem gerðu hann svo frægan um árið.

  6. eftir tapið í derby leiknum er recordið í deildinni líka fínt 5-1-2, það er stígandi í þessu og vonandi heldur liðið áfram á sömu braut…. gætum nálgast stóru liðin eitthvað ef liðið kemst á skrið í desember, þau eru að fara að spila mikið innbyrðis í næstu þremur umferðum

  7. Það má kannski bæta við pistilinn að Joavanovic hefur ekkert spilað síðan NESV tók við, ekki einu sinni í Evrópudeildinni. Hann virðist vera á förum frá félaginu, hvort sem það verður í janúar eða í sumar.

  8. Ég er búinn að sjá nokkra varaliðsleiki með Liverpool og ég verð að segja að mér finnst Suso standa mest upp úr. Skrítið að hann fái ekki einu sinni að vera með í evrópudeildinni. Ég væri til í að sjá þennann strák sem er nýorðin 17 ára fá nokkur tækifæri á þessari leiktíð.

  9. Fróðlegar pælingar. Það sem vantar inní þær er hins vegar hvernig staða fastaleikmanna var þegar ungum leikmennirnir spiluðu s.s. með tilliti til meiðsla, leikbanna osfrv. Í hvaða tilvikum menn voru að fá séns hjá Hodgson og í hvenar var honum nauðsynlegt að stilla hinum unga leikmanni upp með tilliti til leikmannahópsins sem var spilhæfur. T.d. fengi Kelly sjaldan pláss ef Johnson væri heill (nema hugsanlega í evrópudeildinni og þá eingöngu vegna þess að Johnson væri hvíldur). Ngog fengi þess heldur aldrei stöðu framherja ef spilað var með einn framherja og torres hafi verið heill.

    Ánægður hins vegar að tölfræðin sýni að Hodgson sé búinn að átta sig á getu Poulsen. Verst að þó tók Hogdson talsvert lengri tíma en stuðningsmenn liverpool að átta sig á getu hans. En batnandi mönnum er best að lifa.

  10. Eisi nr.1

    Ég er einmitt ósammála um Ecclestone, mér hefur fundist hann jákvæður og undantekninglaust látið okkur líta örlítið hættulegri út. Væri virkilega gaman að sjá fleiri unga leikmenn spjara sig en við þurfum líka að styrkja okkur með alvöru kanónumm sem eiga meira en 1-2 ár eftir.

  11. Já, það er gaman að sjá þessa breytingu á kallinum, allir virðast vera jákvæðari og að róa í sömu átt. Ég á mér þó smá draum að næsta verði að færa Johnson upp á kantinn og hafa Kelly bara alltaf í bakverðinum. Algjör klassaspilari sem við einfaldlega höfum ekki efni á að láta rotna á bekknum, sérstaklega þegar verið er að tala um að það hafi ekki neinn mætt úr akademíunni síðan Stevie mætti. Að mínu mati er Kelly ekkert minna potential í klassa leikmann.

    Þó að fótboltaunnandinn í mér væri ekkert á móti því að fá Ronaldinho held ég einmitt að það gangi gegn flestu því sem NESV hafa verið að boða og er m.a. umræðuefnið í þessum pósti. Það á að byggja frá grunni og skapa ímynd og framtíðarsýn fyrir klúbbinn, svipað og Barca, Utd. og Arsenal hafa.

    Að allt öðru, hvaða tilgangi þjónar þetta þumlakerfi eiginlega ? Ekkert að thumbs up, en hvernig í ósköpunum stendur t.d. á því að nr. 8 fær 13 þumla niður ? Kemur ekki fram þar bara bláköld staðreynd sem höfundur ummæla hefur ekkert að gera með nema að bera skilboðin…

  12. Vandamálið er að blákalda staðreyndin er kolröng… Annars er ég sammála þér með þumlakerfið, óþarfi að bjóða upp á þumal niður.

  13. Kannski er pælingin á bakvið það að kaupa þennan hægri bakvörð (Rod Fanni) að Johnson færi sig upp á hægri kantinn og Kelly og þessi Fanni (hræðilegt nafn, séns að splæsa í nafnbreytingu?) verði bakverðirnir. Annars veit maður svo sem ekkert.

  14. En talandi um gengi í leikjum með ákveðna menn inná. Það var sýnt fram á það hérna um daginn að liðið stendur sig betur með Poulsen á vellinum !! Leiðinlega staðreynd en staðreynd engu að síður.

    Þá er um að gera að þumla þetta niður og helst bara út úr kerfinu því óþægilegar staðreyndir eru óþægilegar.

  15. Annars verð ég að segja að ég held að Lucas sé orðinn okkar Darren Fletcher ! Ég verð að segja að mér finnst Lucas búinn að vera okkar jafnbesti leikmaður í síðustu leikjum og orðinn ansi mikilvægur í þessu liði ! Ég var einn af þeim sem vildu þennan mann í burtu en eins og staðan er núna er hann einn mikilvægasti maðurinn í þessu liði ! Og eins og með Darren Fletcher er enginn man. utd. maður sem myndi vilja hann í burtu í dag !

  16. Er að koma annað hljóð í menn?

    Er Roy að hætta að vera “heimskur” eins og ákv. formaður hélt fram um daginn

  17. Stb (#18) – það er ekkert að koma annað hljóð, þannig séð. Ég og við sem skrifum á þessa síðu reynum bara að tjá okkur um hlutina eins og við sjáum þá. Fyrir mánuði virtist Hodgson vera á leið á atvinnuleysisbætur áður en jólabókaflóðið hæfist, nú er flóðið í fullum gangi og hann virðist hægt og bítandi vera að snúa þessu við. Eins og ég sagði í pistlinum hér að ofan, hann getur bæði klúðrað þessu eða reddað þessu ennþá en það eru jákvæðari teikn á lofti en fyrr í haust.

    Og það er óþarfi að koma með einhverjar svona hnýtingar út í SStein, „ákv. formann“ eins og þú ávarpar hann. Þegar hann viðraði skoðun sína á Hodgson, í kjölfar Stoke-tapsins, sagði hann einungis það sem við vorum flest að hugsa á þeim tíma. Og hann kallaði Hodgson hvergi heimskan, þú verður þá að finna þau ummæli hans og sýna mér þau ef þú ætlar að saka hann um slíkt.

    Annars var pælingin hjá mér með þessum pistli ekki að sýna endilega fram á eitthvað breytt viðhorf til Roy Hodgson heldur að benda á það sem ég tók eftir að hann hefur notað ungu leikmennina og sókndjarfari leikkerfi síðan NESV mættu á svæðið, greinilega undir áhrifum frá þeirra fyrirskipunum og/eða meðvitaður um hvað þarf til að halda starfinu. Ef eitthvað er getum við frekar hrósað NESV og Comolli en Hodgson fyrir þessar jákvæðu breytingar. Hodgson fær svo kredit fyrir að slúffa Poulsen fljótt út úr liðinu. Oft hafa þjálfarar verið sakaðir um að þrjóskast við og reyna áfram að nota leikmenn sem þeir keyptu þó þeir séu ekki að virka. Hodgson á hrós skilið fyrir að hafa séð eftir aðeins átta deildarleiki að Poulsen væri ekki að gera sig og taka hann bara út fyrir Lucas, sem hefur heldur betur borgað sig.

  18. En talandi um gengi í leikjum með ákveðna menn inná. Það var sýnt fram á það hérna um daginn að liðið stendur sig betur með Poulsen á vellinum !! Leiðinlega staðreynd en staðreynd engu að síður.

    Sú “staðreynd” telur meðal annars seinni leikinn gegn Napóli þar sem Poulsen var tekinn útaf þegar staðan var 0-1 fyrir Napólí.

    Tölfræði er marklaus ef samhengið fylgir ekki.

  19. Miðað við allt sem maður hefur lesið um NESV og Comolli þá er ekki séns á því að Ronaldinho sé að koma á Anfield.

  20. 15#
    En hvað með nöfn eins og Skrtel, Kuyt, Ngog, Kyrgiakos? Ég held að Fanni sé bara þokkalega hlutlaust miðað við þessi.
    Hvað Roy H varðar að þá hef ég ekki myndað mér skoðun á honum (var búinn að afskrifa hann) þar sem gengið hefur batnað þó svo það sé ekki gott. En vont þykir mér að ef að breytingarnar á liðinu sem eru til góðs séu ekki af hans frumkvæði ef rétt er. Þá má vel setja hann á bætur og fá hvern sem er til þess að sjá um hans hlutverk á lægri launum

  21. Ég skelf við hugsunina að beislunum verði sleppt af Roy Hodgson á leikmannamarkaðnum einum og sér, vonandi að Commolli og NESV hafi eitthvað að segja um leikmannakaup

  22. @bjammi #23. Ég held að málið sé það að í Bretlandi þýðir fanny píka.

  23. það er nú samt eitt sem eg vill benda á í sambandi með þessa ungu leikmenn sem eru að koma upp…… það er náttúrulega MJÖG jákvætt að við séum að við séum með marga framtíðar leikmenn sem eru að koma í gegnum unglingastarfið og keyptir mjög ungir.

    svipað kerfi og arsenal er með þar sem einblínt er á kaup á unglingum, sem ég hef ekkert útá að setja en það er kannski eitt sem er horft framhjá….. og það eru meiðsli þessara ungu leikmanna t.d hjá arsenal sem hafa verið mjög áberandi í gegnum tíðina s.s jack wilshere, theo walcott, eduardo(sem var reyndar orðinn 22 að mig minnir) og fleiri sem ég er kannski að gleyma en það virðist stundum vera þannig að óþolinmæði verði stundum mönnum að falli.

    Liverpool hefur framúskarandi unglingastarf og ég held að það verði ekki löng bið þangað til við fáum að sjá heimsklassaleikmenn koma upp í aðalliðið t.d. amoo,ince,bruna,suso og fleiri og kannski er það ekkert verra að gefa þeim tækifæri á að brjótast í aðalliðið einsog þessi skemmtilegi pistill bendir á en kannski er það ekkert verra að gefa þeim tíma til að fá allavega líkamlega burði til að geta ýtt frá sér í epl….. en auðvitað eru til svona extreme dæmi einsog shrek hjá utd.

    en bottom line er það að ég horfi allavega á það þannig að það er alltaf gott að leyfa ungu strákunum að þroskast og koma inn með krafti þegar þeir eru nógu öflugir að þola hörkuna sem oft getur myndast í ensku deildinni

  24. Til hvers að fá þennan Rod Fanni?
    Hann er 29 ára gamall og mér finnst vera kominn tími á að minnka kaup á leikmönnum sem eru í kringum þrítugt. Síðan erum við með Martin Kelly sem virðist vera að bæta sig stöðugt. Ég treysti honum a.m.k. fullkomnlega til að vera hægri bakvörður nr. 2.

  25. @28. Liður nr. 9 lúkkar eins og krass eftir krakka 🙂 Sýnir ágætlega hvernig Lucas og Meireles átu miðjuna og skildu lítið eftir sig fyrir aðra þar.

  26. Ég held ad Rod Fanni hljóti ad vera med betri rádgjafa en svo ad hann samthykki ad spila á Englandi. Fornafn hans er enskt slangur yfir kynfaeri karla og eftirnafn hans er enskt slangur yfir kynfaeri kvenna. Thetta nafn kallar svo hátt á einelti ad thad er naestum thví eins og einhver hafi bara búid thad til sem brandara. Studningsmenn annarra lida myndu vaentanlega ekki láta hann í fridi í eina mínútu. Andlegu örin myndu fylgja honum um lífstíd. Thad eina sem kemst nálaegt thessu er thegar Celtic var med Scheidt í vörninni hjá sér (“Even his mum says he’s Scheidt” var med theim vaegari thar).

  27. Mér finnst þetta afar áhugaverðar pælingar hjá Kristjáni og eitthvað sem ég var einmitt að spá eitthvað í um daginn. Fattaði yfir einum leiknum að ég var næstum orðinn þreyttur á að sjá menn eins og Kelly, Shelvey og Ngog á skjánum! Nei, reyndar var það ekki svo…

    Ég held að Hodgson gæti bara hafa þurft smá tíma til að fóta sig hjá nýju félagi, alveg gjörólíku því sem hann hefur áður starfað við, og þurft að klóra sig áfram við að finna réttu samsetningar leikmanna og sömuleiðis hafa leikmenn þurft tíma til að aðlagast áherslubreytingum hans o.s.frv. Í upphafi virtist hann ætla að spila þetta save; til var lítill peningur, liðið var í andlegu móki og nokkrir reyndir leikmenn voru á förum eða voru jafnvel byrjaðir að pakka í töskur svona til öryggis. Hann gerði í því að kaupa reynda leikmenn, sem í sumar (á pappírum í það minnsta) virkuðu bara alls ekki slæm; fengum þó nokkra góða og reynda leikmenn, en því miður hefur bara einn þeirra náð að sanna sig sem góð kaup í þeim flokki. Þetta munum við held ég ekki sjá mikið af á næstunni en hver veit, leikmenn verða alls ekki lélegir þó þeir séu orðnir 28+ en það er kannski ekki mikið öryggi á söluverði á þeim ef þeir floppa.

    Liverpool er með fullt af flottum ungum strákum, bæði hjá liðinu í dag og á láni annars staðar, og er mjög gott að sjá að Roy virðist ætla að gefa þeim tækifæri til að þroskast og þróast í betri leikmenn hjá Liverpool. Ef að hann hyggst ætla að vera stjóri Liverpool á næsta tímabili þá er þetta mjög mikilvægt og þegar Comolli hefur gefið í skyn að það eigi að bæta enn í uppbyggingu Akademíunnar og þar sem Liverpool hefur opnað slíkar Akademíur víða um heim þá fer ekki á milli mála að það er ein aðalsýn þessa stundina; byggja upp stjörnuleikmenn hjá Liverpool og byggja liðið þannig upp. Það getur að vísu tekið 5-10 ár og kannski fremur ólíklegt að Roy verði við stjórn þá en þetta er eitthvað sem að verður að byrja á núna, sýna þessum strákum að ef þeir leggja nógu hart á sig þá geta þeir fetað í fótspor Spearing, Kelly, Shelvey og fleiri stráka sem hafa náð að vinna sér inn regluleg sæti í aðalliðshóp liðsins.

    Ég held að við eigum eftir að sjá mikið meira af þessum strákum á leiktíðinni og held ég að það geri ekkert til þó að Liverpool versli í janúar. Liverpool er bara með 21 “senior” leikmenn í leikmannahópi sínum, sem þýðir að þeir eigi fjóra inni í viðbót og geti svo notað menn eins og Shelvey, Wilson, Eccleston, Pacheco, Kelly o.fl. þar sem þeir eru undir 21 árs. Ég vona að Liverpool noti tækifærið og nái allavega að bæta þremur leikmönnum við sig í janúar og breikki hópinn sinn; þá kannski sést það betur hverjir af þessum strákum hafa það sem þarf til að spjara sig á Anfield, ef þú ætlar að skapa þér nafn hjá stóru félagi sem þessu þá skaltu ekki búast við einhverju “easy ride”, ungu strákarnir hjá Arsenal, Chelsea, Tottenham, City og Man Utd hafa flestir þurft að berjast við leikmenn sem kostuðu fleiri, fleiri milljónir um sæti í liðinu og held ég að svona samkeppni sé bara þroskandi fyrir leikmenn.

    Varðandi Rod Fanni, þá gæti ég alveg trúað að hann myndi koma til Liverpool í janúar. Hann á að kosta rúmlega þrjár milljónir evra, er hægri bakvörður en hefur á tímabilinu spilað mikið sem miðvörður og gert það mjög vel. Fjölhæfur leikmaður sem kostar ekki mikið en er samt góður, yrði mjög fínn back-up kostur hjá Liverpool. Nema þetta gæti verið fyrsta svona “moneball” move-ið hjá NESV; þ.e.a.s. hægt er að kaupa góðan leikmann á 3 milljónir evra (Fanni) og selja mann á eitthvað í kringum 15 milljónir evra í staðinn (Johnson), nú hef ég ekki alveg séð nógu mikið til Fanni til að bera hann saman við Johnson og hvort að svona skipti ættu eftir að vekja eða styrkja Liverpool. Allavega þá er alls ekkert slæmt að fá reyndan back-up í hægri bakvörðinn; Kelly hefur gert það mjög gott þar en ég held að hann gæti þroskast til muna við að hafa aukna samkeppni og þurfa að berjast smá.

    Varðandi Ronaldinho þá get ég alveg séð hann fitta inn í þessa hugsjón NESV fyrir Liverpool. Þó hann sé þrítugur þá er þetta enn frábær leikmaður og ef hann er tilbúinn að slá af launum sínum (og það er eitthvað til í því að hann kæmi frítt) þá gæti þetta orðið frábær kaup fyrir Liverpool að allavega tvennu leyti: Í fyrsta lagi kæmi þetta til með að styrkja sóknarlínuna, auka breiddina og fá leikmann til Liverpool sem lætur áhorfendur rísa úr sætum þegar hann fær boltann. Í öðru lagi þá er þarna á ferðinni leikmaður sem hefur verið heimsmeistari, Evrópumeistari, spænskur meistari og ég veit ekki hvað og hvað, hann var svo kjörinn besti leikmaður heims fyrir nokkru síðan og hefur verið eitt stærsta nafn fótboltans í mörg ár. Þannig að auknar tekjur í treyjusölu, auglýsingum og fleira myndu eflaust rjúka upp. Markaðstekjurnar yrðu væntanlega gífurlegar og held ég að NESV gæti alveg séð það fyrir og því eru þetta held ég ekkert svo óraunhæf og heimskuleg kaup eins og margir kunna að halda.

    Ég hlakka svo ógurlega til að sjá hvað muni gerast í janúar, ég hef góða tilfinningu fyrir þessu öllu saman og vonandi fer þetta allt á rétta leið.

  28. Þetta er náttúrulega eins og alltaf hjá Liverpool, það er ekki hægt að dæma leikmenn nema þegar þeir eru að spila sína stöðu. Og á meðan þeirri reglu er fylgt þá veður framlag Shelvey að teljast slakara en framlag Pacheco á þessari vertíð.
    Við fengum loks að sjá hæfileika Babel fyrir alvöru í síðustu tveim leikjum eftir 3ja ára bið sem vara kantmaður og við ættum ekki að eyða jafn miklum tíma í að sjá alvöru hæfileika manna eins og Pacheco og Eccleston.

  29. Það er alveg magnað hreint að sjá hvað hann Stb blessaður virðist vera með mig gjörsamlega á heilanum. Þetta hlýtur hreinlega að vera erfitt líf. Hef ekki sett inn eitt komment hérna inn í tvær vikur, svo kemur lítið komment frá honum og út á hvað gengur það? Magnað alveg hreint, algjörlega magnað. En það kemur svo sem akkúrat ekkert á óvart að hann hafi ekki skilið upphaflega kommentið mitt sem hann telur sig vera að vísa í.

    Vonandi gengur þér bara vel kallinn minn við að reyna að losa þig við þessa þráhyggju.

  30. Er verið að tala um það að einhverju viti að Johnson fari í janúar ? Það væri nú meiri helv steypan. Enskur og sennilega einn af betri sóknarbakvörðum á bretlandseyjum. Vantar bara að eitthvað stórliðið kaupir hann og setur hann á kanntinn þar sem hann á eftri að blómstra.

    Ef það er eitthvað sem okkur vantar þá eru það bakverðir og miðverðir sem geta spilað boltanum úr teignum en dúndra honum ekki eitthvað útí buskann blessaðann.

  31. Þetta segir á Echo: “Meanwhile, contrary to reports Liverpool insist no bid has been made for Rennes right-back Rod Fanni. The defender has been watched by Anfield scouts this season.”

    Finnst okkur bara alls ekki vanta annan hægri bakvörð. RH hefur aldrei notað Johnson á kantinum og þó að einhverjir hafi kallað eftir því á það bara eftir að gerast. Á meðan er höfum við nákvæmlega ekkert að gera með annan hægri bakvörð.

  32. Hjalti Þór þurfum við ekki að hafa tvo hægri bakverði rétt eins og önnur lið í deildini?. Martin kelly er miðvörður rétt eins og carra sem hefur verið að leysa þessa stöðu. Johnson var mikið meidddur í fyrra og líka verið meiddur á þessu tímabili og að mínu mati þurfum við nauðsynlega back up fyrir hann.

  33. það er bara rugl. Meðan Kelly hefur verið að blómstra og það sem bakvörður nr.2 ásamt því að carragher sé líka til varavara skil ég ekki neitt í að halda því fram að þetta sé staða sem þurfi að styrkja… dettur margt annað sniðugra í hug til að eyða peningunum í.
    Svo væri gaman að sjá Ronaldonho, þó hann sé arfalatur er bara svo gaman að horfa á þennan snilling.

  34. Auðvitað getum við alltaf bætt allar stöður liðsins með meiri breidd, það sem ég er að segja að þetta er næst síðasta staðan sem ég myndi auka breiddina í, á eftir markmannsstöðunni.

  35. Finnst ykkur í alvöruni jamie carragher boðlegur varakostur í hægri bakvörðinn bæði Hodgson og Rafa hafa notað carra sem kost númer 2 í bakvörðin og það lamar allan sóknarleik liverpool þegar Carra er í bakverðinum

  36. Manurine mönnum myndi nú sennilegast ekki þykja leiðinlegt að hafa skaufa pussuson eða Rod fanny í liðinu okkar.
    Annars er ég á því að Glen J eigi að fara á miðjuna,hann er bara ekki nógu góður varnarlega
    kannski gæti það heppnast jafnvel og Bale.
    En þá vill ég að Kelly verði notaður meira og fanni sem backup.

    Líst annars frábærlega á að loksins sé verið að spila ungu mönnunum inní liðið hverjum svosem það er að þakka.Kominn tími til að setja alvöru pressu á kanónurnar.

    Sco verð ég að minnast á hve glaður ég er að Itjande sé loksins released by club eftir hláturinn í minningarathöfninni á þessi maður að vera bannaður í Liverpool.

    Og þó svo ég sé á klakanum er það frábært ramtak hjá henry að bjóða yngri en 17 frítt inn á utrhect leikinn í erfiðum desember fyrir blanka breta.
    YNWA

  37. Talandi um Scheidt, hvernig ætli Kaka líði á sálinni (“caca” er kúkur á bæði spænsku og ítölsku)?

  38. Sæll KAR

    http://www.kop.is/2010/10/26/17.52.35/ (komment 14)

    "Ég held að þrátt fyrir allt þá sé RH ekki heimskur
    

    Ja, miðað við það sem maður hefur séð af honum í viðtölum undanfarnar vikur og mánuði, þá verður maður nú reyndar að draga aðra ályktun á því en þú hér að ofan. Hegðun hans hefur gert honum algjörlega ógerlegt að halda áfram sem knattspyrnustjóri Liverpool FC.”

    Þarna bókstaflega segir SSteinn að draga VERÐI aðra ályktun en að RH sé ekki heimskur.

    Þá er ég búinn að sýna þér þessi ummæli.

  39. Smá off topic. Er að horfa á LFC TV núna og þar var frétt um að NESV ætli að gefa ótilgreindan fjölda miða á síðasta leik í riðlakeppni Evrópudeildar fyrir áhangendur 17 ára og yngri. NESV segja að þetta sé þeirra framlag til samfélagsins í Loverpool borg og þar með að gefa ungu fólki kost á að koma á völlinn. Með þessu á leggur NESV m.a. sitt af mörkum í endurnýjun áhangendahóps LFC.

    Feitur þumall upp fyrir þetta NESV. Aðgerðir tala meir en orðagjálfur. Bein aðgerð í samfélagið í Liverpool borg.

  40. @44 Minningarathöfn um Hillsborough þar sem hann hagaði sér eins og algjört fífl.
    Virðingarleysið algjört,good riddance

  41. 1….2…og…Benzema! Hvernig væri að kjækja í hann ef hann er falur??? Þrenna í kvöld og hann hefur verið að sýna takta í síðustu leikjum!

  42. Væri alveg til í Benzema,hann og Ngog myndu allavega geta talað saman í framlínunni:)

  43. Flottur pistill Kristján, er samt skíthræddur við útileikina og hef litla trú á að hann komi til með að breyta um taktík þar.(Hann hefur reyndar látið hafa eftir sér að hann sjái enga þörf á því.)

    Sakna ennþá að sjá liðið spila af fullum krafti í 90,mín. finnst vanta töluvert upp á það, það eru samt batamerki á leik liðsins á stundum en ekki nóg til þess að ég vilji ekki Hodgeson í burt sem fyrst. Hann er einfaldlega ekki nógu góður fyrir þennann klúbb!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  44. (47) Ekki græt ég hann Maceherano. Menn sem telja sig stærri en klúbbinn geta rotnað á bekknum hjá Barca. Þessi gaur var bara vandræðapési og núverandi miðjumenn munu og eru að fylla hans skarð!!!

  45. Martin Kelly búinn að framlengja til 2014, mjög jákvætt að mínu mati.

  46. Eitt off-topic sem hefur verið að pirra mig undanfarið.

    Kop.is er frábær síða um besta klúbb í heimi haldin uppi af besta aðdáendahóp heims. Ég kem oft inná þessa síðu, oft á dag, les yfirleitt öll komment og skoða greinar sem menn pósta og velti fyrir mér hinu og þessu. Umfjöllun um leiki, fyrir og eftir, evrópu-upphitanir meistara Babú, öll umfjöllun um söluna og þá aðila sem komu að henni. Upplýsingar um leikmenn sem Liverpool er að spá í og svo mætti lengi telja. Þetta finnst mér algjörlega ómissandi og er mjög þakklátur fyrir penna og síðuhaldara kop.is

    …en undanfarið, eða kannski fór í ég bara að taka eftir þessu þá, hefur mér fundist allar umræður snúast afar hratt upp í mjög svo óþroskuð rifrildi þar sem menn keppast um að hrauna yfir hvorn annan og setjast á háann stall. Stundum finnst mér þetta orðið svo óþolandi að ég nenni ekki að lesa kommentin. Skimma bara yfir og les það sem er þumlað upp úr öllu valdi.

    Ég veit að núna er ég bara að sitja og væla, og ég veit að þetta er blogg síða með öllum sínum kostum og göllum, en ef fólk vill dramtík ætti það frekar að fara inná barnaland, eða bara skiptast á msn contacti og klára þetta þannig að við hin þurfum ekki að horfa uppá barnaskapinn.

    Ég hvet menn ennfremur til að sýna félögum sínum (við erum jú allir kófsveittir púlarar) vinskap og virðingu, þó þeir hafi aðra skoðun. Ganga æðri veginn og grafa þær axir strax sem koma upp á yfirborðið. Sá vægir sem vitið hefur meira og gott fólk er betra en hitt fólkið! Eða eins og Sigkarl segir:

    “Það er nú þannig” YNWA

  47. Javier Maceherano skítableyja, djöfull er nefið á honum orðið rautt og langt núna, fer að koma grílukerti á það, minnir mig á svipað move sem Jerzy nokkur Dudek gerði “aðeins hlýrra að sitja á bekknum í Madrid en Liverpool” 😀

    En talandi um Benzema, hann er klárlega varaskeifa hjá Real og fær nú ekki mörg tækifæri,??? Why not?

    Svo efast ég um að Ronaldinho eigi eftir að fíla djammið í Liverpool borg…= Getum gleymt þessu

  48. Drési, Ronaldinho myndi þá kannski hætta að djamma ef hann kæmi til Liverpool, hehe.

  49. Ronaldinho fer ekki til Liverpool því djammið í Liverpool er glatað engir sambabarir og ekkert. Og Benzema er ekki að fara fet hann er að detta í gang

  50. Þetta er algjörlega off-topic, en ég skrifaði greinina þannig að blah. Þegar Boston Red Sox komust ekki í úrslitakeppni MLB í haust lofaði John Henry fyrir hönd NESV að þeir eigendurnir myndu gera allt sem þeir gætu til að leiðrétta ástandið.

    Í dag staðfesta þeir kaup á Carl Crawford frá Tampa Bay fyrir morðfé. Í síðustu viku keyptu þeir Adrian Gonzalez. Ég veit ekkert um Baseball en þetta eru víst tvær stórstjörnur sem munu bylta Red Sox-liðinu.

    Það er erfitt að lesa þessar fréttir og verða ekki spenntur fyrir janúarglugganum. Þessir gæjar standa við stóru orðin.

  51. Nú er verið að linka okkur við A. Young, hann er frábær leikmaður, vonandi að vinur okkar hann Houllier selji hann bara til okkar 🙂
    Fyrrverandi besti leikmaður Brasiliu og heims og svo A. Young, ég er sáttur við þetta, vonandi er eitthvað til í þessu ….

    • Svo efast ég um að Ronaldinho eigi eftir að fíla djammið í Liverpool borg…= Getum gleymt þessu

    ehhh þeir kunna svo sannarlega alveg að fá sér!!

  52. Ein pæling í sambandi við bandaríska hafnarboltann, hvað er morðfé í þeim bransa? hélt að menn færu nú mest á milli á skiptidílum eins og í NBA en grunaði að eitthvað væri keypt þar líka og langar að vita hvaða upphæðir menn eru að tala um. Er svona að pæla í því að ef tildæmis þessi gaur sem Red Sox var að staðfesta hefði verið keyptur á 50 milljónir dollara tildæmis þá væru kannski 40-50 milljónir punda í einn klassaleikmann til Liverpool ekkert sem væri að stöðva Henry ef það væri gríðarleg styrking á liðinu. Maður veit ekkert hvernig þessir menn hugsa, kannski finnst þeim rugl að borga 20-30 eða 40 milljónir fyrir einn leikmann eða þá að þeim finnst það bara æðislegt og eru til í að gera nokkur svoleiðis kaup til okkar í jan og næsta sumar ef það er að fara gera liðið samkeppnishæft við Chelsea og Man Utd….

  53. Þetta er ég að sjá á Fésinu hjá mér núna:

    LFC Transfer Speculations Announcement from lfc and nesv incoming

    Spennó ? Eða eitthvað ekki svo merkilegt ?

  54. Sennielga einn vaknaður 🙂

    Þetta er á Twitter:

    PaulRogersLFC Another positive move by John W Henry and Tom Werner to be announced shortly on twitter. Stay tuned. @LFCTV

  55. Það var verið að tilkynna að Henry, Werner og Ayre verði í beinni útsendingu á LFCTV og munu svara símtölum, Twitter spurningum og tölvupóstum.

  56. Þetta ævintýri hjá Newcastle er fullkomið rugl og það mætti halda að Mike Ashley hafi orðið öfundsjúkur þegar Gillett og Hicks stálu frá honum “þrumunni” fyrr á þessu ári.

    En hann er aftur orðin óumdeildur sirkússtjóri eigenda EPL liða. Tökum þó ekkert af G&H enda var Ashley ekkert að skipta Benitez út fyrir Hodgson og án gríns borga helling fyrir það.

    Verð þó að viðurkenna að ég hef aldrei litið á Hougton sem endanlega lausn hjá Newcastle, en tímasetningin á brottrekstri hans er ævintýralega vitlaus og að ráða Alan Pardew í staðin óskiljanlegt, hvað þá á rúmlega fimm ára samning.

  57. Ef Alan Pardew er enn stjóri Newcastle eftir fimm og hálft ár skal ég hætta að halda með Liverpool og byrja að halda með Newcastle. Það er loforð.

    Þvílíkur sirkusklúbbur.

  58. KAR ekki sá eini sem hefur ekki trú á þessu

    Henry Winter
    Thanks to all #nufc fans who’ve agreed to swim in the Tyne with me if Pards completes 5+1/2-year deal – even those who say they can’t swim

  59. The Red Sox have invested $296 million in a span of four days on 2 players. Both are in career primes and will set the Sox up for years

    Það væri nú ekki leiðinlegt að sjá eitthvað svona gerast hjá okkar félagi.

  60. Haha Alan Pardew, ef hann verður enn stjóri Newcastle eftir 5 og hálft ár, þá syndum við ALLIR yfir atlandshafið.

  61. Ef Liverpool væri nærbrók þá væri það óhrein nærbrók þar sem núverandi þjálfari væri bremsufarið í henni. Það er óásættanleg niðurstaða því óhrein nærbrók lyktar illa. Það verður að setja hana í þvott og það á 90° suðu, skvetta smá klór í hana svo hún verði nú pottþétt hrein og fín.

  62. West Ham voru nú bara fjandi skemmtilegir þegar Alan Pardew var með þá,þannig að ég held að fólk hérna ætti nú ekki að hafa nein stór orð um hann ,og hann er kanske ekkert verri en sá sem við erum með þessa dagana. Hann er alla vega stjóri sem vill láta sitt lið spila sóknarbolta og það er nú einmitt það sem þeir vilja hjá Newcastle.

  63. Haha, Hodgson að tala um hvort Torres sé ekki heill heilsu, Hodgson er allavega spot on þarna:

    “I’m sure he’s had a difficult couple of weeks and I’m sure his wife has had an even more difficult couple of weeks because I talk about football players, but it’s the wives who actually give birth and they’re the ones who’ve got the hardest task.”

  64. haha.. Sacking Chris Hughton and appointing Alan Pardew is like divorcing Cheryl Cole and marrying Susan Boyle…Fact!

    1. Stb

    Þegar menn geta ekki snúið aulalega útúr virðast menn bara þegja. Þögn er víst sama og samþykki.

    Babú, Ronaldinho langar alveg örugglega ekki að fara á fyllerí með e-n illa talandi dólgum sem “kunna svo sannarlega að drekka”. Hann gæti farið á hvern einasta skítapöbb í englandi og fundið menn sem “kunna svo sannarlega að drekka”. Það er alveg á hreinu að íbúar Liverpoolborgar eru engu meiri drykkjumenn en íbúar annarra borga. Það er reyndar vel skiljanlegt að þeir væru drykkfelldir, miðað við ofurtrú allra á liði og leikmönnum sem eru í hæsta falli rétt yfir meðallagi í efastu deild hlýtur það liggjast beinast við að drekka sig í ómynni.

  65. Varðandi hafnaboltaspurninguna og NESV.

    Carl Crawford, sem að Red Sox voru að fá, var samningslaus. Red Sox buðu honum einfaldlega gríðarlega há laun og langan samning. í hafnaboltanum hafa menn frjálsar hendur með það að fara til hvaða liðs þegar að samningurinn er búinn.

    Það gerist jú einu sinni á 100 ára fresti að menn fari til liða, sem að menn halda með eða af einhverjum slíkum ástæðum. En í 99,99% tilvika fara menn til þeirra liða, sem að bjóða hæstu launin. Menn fara oft til krappí liða bara vegna þess að þeir fái hærri laun þar. Sjá til dæmis stærstu kaupin í NL deildinni – en þá fór Jayson Werth frá Philadelphiu til Washington vegna þess að hann fékk ótrúleg laun í Washington. Þetta væri sambærilegt við það að hann færi frá Manchester United til Blackpool vegna þess að Blackpool gætu boðið honum hærri laun. Washington átti einfaldlega nógu mikla peninga eftir undir launaþakinu og hann fór þangað þrátt fyrir að Washington sé ömurlegt lið.

    Boston hefur hins vegar tilbúið að fara yfir launaþakið og borga lúxusskatt. Boston hefur geta boðið stærstu leikmönnunum undanfarin ár bæði gríðarlega peninga og auðvitað það tækifæri að spila með fyrsta flokks liði. Þannig er það með Carl Crawford. Hvað Gonzalez varðar þá skipti Boston við San Diego á leikmönnum í staðinn fyrir Gonzalez. Oftast í svoleiðis skiptum þá er nokkrum mjög ungum leikmönnum skipt fyrir eina stórstjörnu. (Leikmenn byrja vanalega mjög seint að spila í aðal-baseball deildinni – þangað til eru þeir að spila í varaliðsdeildum með sama félagi).

    Það er nefnilega málið með NESV að þeir hafa rekið þetta Red Sox lið ótrúlega vel. Þeir hafa náð inn miklum auka tekjum og nýtt þær í að bæta liðið. Ólíkt því liði, sem ég held með (Chicago Cubs), sem fær inn brjálaðar tekjur af miðasölu, en liðið er svo illa rekið að það hefur aldrei náð sama styrkleika og Red Sox.

    Þess vegna er ég bjartsýnn fyrir framtíðina undir stjórn NESV.

Númer á kommentum

Vinnubrögð á réttri leið