FC Steaua á morgun í Búkarest.

Þá er komið að síðasta útileik okkar manna i riðlakeppninni í Evrópudeildinni í ár, hann er gegn FC Steaua frá Búkarest og skiptir tiltölulega litlu máli fyrir Liverpool eins og sjá má á hópnum sem Hodgson treystir í verkefnið. (Innsk 02.12.10: ATH: leikur hefst kl 18:00)

Eins og oft áður í þessari keppni er það í raun saga andstæðinganna og heimkynna þeirra sem heillar meira en blessaður leikurinn og til að sýna hvað við söknum meistaradeildarinnar mikið einbeitum við okkur meira af þessu heldur en kannski leiknum sjálfum.

FC Steaua er langvinsælasta lið Rúmeníu og eitt af fjórum liðum sem koma frá höfuðborg landsins, Búkarest. Árið 2007 var áætlað að um 42% knattspyrnuáhugamanna héldu með FC Steaua sem er töluvert meira en Dinamo (12%) eða Rapid (9%) sem reyndar koma líka frá Búkarest.

Höfuðborgin er lang stærsta og mikilvægasta borg landsins og hefur í raun eigið stjórnkerfi sem er jafnvel talið áhrifameira en stjórnkerfi landsins, svipað og margir höfuðborgarbúar hér á landi myndu vilja hafa það. Íbúar Búkarest eru um tvær millijónir en þó er erfitt að negla þessa tölu endanlega enda annað eins í úthverfum eða nágrannabæjum borgarinnar.

Síðast þegar Liverpool spilaði í Evrópudeildinni fórum við aðeins yfir sögu Napoli sem er eins og menn muna ekki stórmerkileg og fræðandi og inniheldur eins og menn muna þá staðreynd að þeir fundu upp Pizzuna. Búkarest búar voru ekkert að sulla saman hveiti og vatni með nokkrum aukefnum og í raun er fyrsta skráða heimildin um þessa ágætu borg það merilegasta við hana fyrir okkur aðdáendur Brakúla greifa, Nönnu og allra þeirra.

Fyrstu skráðu heimildir um borgina eru nefnilega frá 1459 þar sem talað var um Búkarest kastalann/virkið sem var á tímabili heimkynni frænda SStein, prinsins af Wallachia, Vlad The Impaler III. Impaler gæti þýtt að því er ég best veit, stjaksetjarinn eða eitthvað í þá átt og var Vlad þessi einmitt talinn vera sá sem seinna var notaður sem fyrirmynd sögupersónunnar “vingjarnlegu”, Dracula greifa.

Wallachia er annars í dag hluti af Rúmeníu en landið eins og við þekkjum það í dag var í raun ekki stofnað fyrr en 1861. Áður hafði það t.a.m. tilheyrt Moldavíu og á öðrum tíma Rússlandi. M.ö.o. Búkarest var til áður en landið varð til og saga þess margslungin og merkileg eftir því með átökum og náttúruhamförum  sem gerðu  það að verkum að borgin hefur oft verið endurgerð eða byggð upp.  Ekkert samt sem toppar Dracula og mannúðlegar pyntingaraðferðir hans.

En þegar Wallachia og Moldavía voru sameinuð undir Konungsdæminu Rúmenía var Búkarest gerð að höfuðborg og óx gríðarlega hratt í kjölfarið á því og var í lok 19.aldar talað um borgina sem París austursins eða Litlu París. Enda blómstraði menning þar á þeim tíma og mikið lagt í arkitektúr, listir og fleira í þeim dúr. Í fyrri heimsstyrjöldinni var borgin hernumin af þjóðverjum sem stöldruðu við í tvö ár. Þjóðverjum líkaði líklega ekki vel við Búkarest því í seinni heimsstyrjöldinni voru þeir afar duglegir að varpa sprengjum á borgina sem fór afar illa út úr því.

Árið 1965 náði kommúnistaleiðtoginn Nicolae Ceau?escu völdum í Rúmeníu og er hann nátengdur sögu FC Steaua og raunar einn merkilegasti stjórnmálaleiðtogi landsins í seinni tíð. Undir hans stjórn var eyðilegt mikið af sögufrægum og fallegum byggingum og skipt þeim út fyrir blokkir enda ekki að ástæðulausu að talað sé um Austurblokkina (hér má sjá meira um hans hugmyndafræði). En til að gera langa sögu lengri þá hélt Ceausescu þessi og fjölskylda hans með FC Steaua og er talið að á valdatíma hans hafi þessi tengsl oft verið notuð ansi frjálslega til að t.d. útvega Steaua bestu leikmenn landsins, múta dómurum og fleira í þeim dúr. Ég ætla svosem ekki að dæma um það en þessi “vinsæli” stjórnmálaleiðtogi sem var m.a. þekktur fyrir andúð sína á útlendingum og þá sérstaklega Vesturlöndum, Ísrael og Bandaríkjunum var myrtur ásamt eiginkonu sinni með pompi og prakt árið 1989 í byltingu sem gerð var þar í landi gegn stjórn hans. Hann hafði þá áður reynt að flýja í þyrlu en verið skipað að lenda af hernum sem handtók hann og myrti eftir snörp réttarhöld. Þar með féll bæði hann og komúnisminn í Rúmeníu og mjög fljótlega í kjölfarið voru aftökur lagðar af í landinu sem gerir það að verkum að þau hjónin eru þau síðustu sem tekin voru af lífi í Rúmeníu, óheppin þau.

Saga félagsins FC Steaua er einnig mikil og merkileg þó félagið hafi ekki verið stofnað fyrr en 7.júní 1947 af varnarmálaráðuneytinu og hefur alla tíð verið talað um Steaua sem lið hersins. Liðið hét reyndar ekkert Steaua til að byrja með heldur ASA Bucure?ti (Asocia?ia Sportiv? a Armatei Bucure?ti – íþróttadeild hersins) og var fótbolti bara stærsta íþróttagreinin af sjö sem félagsmenn  stunduðu. En eins og margir vita eru Rúmenar sæmilegir í öðrum íþróttagreinum sem skipta engu máli svosem eins og handbolta og fimleikum.

Nafni liðsins hefur reyndar verið breytt nokkrum sinnum í gegnum tíðina en tveimur árum eftir stofnun knattspyrnudeildarinnar unnu þeir bikarinn eftir sigur á CSU Cluj í úrslitum. Í kjölfarið á því fylgdu meistaratitlar árin ´51 – ´53. Þeir sem skipuðu liðið árin á eftir voru jafnan nefndir gullkynslóðin og var t.d. landslið Rúmeníu árið 1956 eingöngu skipað leikmönum liðsins.

Steaua nafnbótin bættist ekki við fyrr en árið 1961 og þýðir einfaldlega stjarna. Ástæaðan fyrir því er að flest öll íþróttafélög á vegum herdeilda í Austur Evrópu báru rauða stjörnu sem logo. Rauða Stjarnan frá Belgrad var t.a.m. stofnað í seinni heimsstyrjöldinni af hermönnum þó það lið sé reyndar ekkert tengt hernum í sínu heimalandi.

Eftir að þeir bættu Steaua nafninu við tók við dapurt tveggja áratuga skeið hjá félaginu þar sem liðið vann “bara“ þrjá deildarmeistaratitla og skammarlega einungis níu bikarmeistaratitla. En þetta „dökka“ tímabil í sögu félagsins lagaðist heldur betur er þeir félagar Emerich Jenej og Anghel Iordanescu tóku við liðinu í upphafi níunda áratugarins. Þeir gerðu liðið að meisturum 1985 og árið eftir varð liðið fyrsta lið frá Austur-Evrópu til að vinna Evrópukeppni Meistaraliða er þeir unnu þetta spænska lið sem allir eru að slefa yfir í dag. Leiknum lyktaði 2-0 fyrir Steaua en sú niðurstaða náðist ekki fyrr en eftir markalausar 120.mínútur og vító. Markmaður Steaua, Helmuth Ducadam gerði sér lítið fyrir og varði ALLAR fjórar spyrnur börsunga og verður það að teljast bara alveg helvíti keppnis að ná því akkurat þarna.

Helmut Ducadam ver síðustu spyrnuna

Án þess þó að ég vilji gera lítið úr þessu afreki Steaua verðum við þó að benda á þá staðreynd að þetta ár og næstu ár á eftir var besta félagslið í heimi á þessum árum skikkað til að sitja heima á meðan keppnin fór fram eftir harmleik frá árinu áður.

Steaua nýtti fjarveru Liverpool annars vel og vann meistara meistaranna árið eftir er þeir unnu Dinamo Kiev og 1988 komust þeir síðan í undanúrslit evrópukeppni meistaraliða en féllu út þar.  Árið eftir, 1989 fór liðið aftur í úrslit en tapaði þar 4-0 fyrir liði AC Milan sem var alveg ágætt á þessum árum.

Heimafyrir var liðið bara Liverpool Rúmeníu og vann allt þar, nema í þeirra tilviki þá unnu þeir bókstaflega allt!  Því frá júní 1986 til september 1989 setti liðið met sem hefur ekki ennþá verið leikið eftir í Evrópufótboltanum enn þann dag í dag. Þeir töpuðu ekki leik 104 leiki í röð í deildinni.

Árið 1989 var eins og áður segir gerð bylting í Rúmeníu og var Ceau?escu vinur okkar steypt af stóli það ár og var hann meira að segja eini leiðtogi Austur Evrópuríkis sem var myrtur eftir slíkar byltingar. Við fall komúnistmanns opnaðist landið eins og svo mörg önnur nágrannaríki sín á þessum árum og nutu bestu leikmenn landsins eðlilega mjög góðs af þeim frjálsa markaði sem var vestar í álfunni og fluttu margir sig yfir í stærri deildir, meiri pening og líklega flottari kellingar. Þetta kom eðlilega niður á Steaua sem var langbesta lið landsins á þessum tíma. Engu að síður náði liðið fljótlega fótfestu aftur og vann titilinn heimafyrir árið 1992 og vann næstu sex ár þar á eftir og komst í meistaradeildina þrjú ár í röð frá 1996-99.

Nr.10 hjá Steaua og lykilmaður í ósigrandi liðinu, Gheorghe Hagi fór til Real Madríd þegar austurblokkin féll

Árið 1998 var knattspyrnudeildin skorin út úr íþróttafélaginu sem eins og menn muna var á vegum hersins í Rúmeníu. Nýjar reglur UEFA bönnuðu slíkt eignarhald og þ.a.l. var nafni félagsins breytt í síðasta sinn, í FC Steaua Bucure?ti.  Í kjölfarið var stofnað samtök, AFC Steaua Bucure?ti, til að sjá um rekstur félgsins sem viðskiptamaðurinn Viorel P?unescu stjórnaði fyrstu árin og var snöggur að skuldsetja full mikið. Annar viðskiptajöfur, George Becali var boðið að gerast varaformaður stuttu seinna og vonuðust forráðamenn Steaua að hann myndi setja pening í félagið. Hann keypti seinna meirihluta í félaginu og setti það á markað og keypti síðan alveg í kjölfarið.

Becali sem er pólitíkus og fjárfestir er skrautlegur karakter svo vægt sé til orða tekið og hreint ákaflega óvinsæll meðal stuðningsmanna FC Steaua. Hann er reyndar ekki lengur tengdur félaginu á neinn hátt og hefur selt sína hluti. En það er þó almanarómr að hann stjórnar ennþá bakvið tjöldin enda mikið til frændur hans sem keyptu hans hluti ásamt öðru fólki sem heldur tryggð við hann. Ástæðan fyrir fjarveru hans er talin vera stór skattaskuld sem lenti á AFC Steaua, fjárfestingafélaginu sem tók yfr klúbbinn er hann sleit tengslum við herinn og setti það á hausinn. Becali er talinn hafa komist hjá þessari skuld er hann flutti eignir félagsins yfir á nýja félagið sem hann lét stofna í kringum liðið.

En fyrir utan skandal með vangoldinn skatt hjá FC Steaua þá eru afskiptum hans af liðinu stundum lýst sem einræðislegum. Hann hefur hótað að selja félagið til að borga skattaskuldir, hann hefur notað félagið til að koma stjórnmálaflokknum sínum á framfæri, hann bannar tónlist Queen á heimavelli FC Steaua vegna kynhneigðar söngvarans og svo hefur hann auðvitað rekið stjóra í tíma og ótíma og skoraði líklega sjálfsmark í þeim efnum er Gheorghe Hagi gafst upp á honum og yfirgaf félagið með látum. Það eitt og sér ætti að duga til að fá aðdáendur félagsins upp á móti Becali en ástæðurnar eru víst töluvert fleiri og svei mér ef þori ekki bara að veðja að hann þekki bæði Gillett og Hicks. Hress kall samt eins og myndin ber með sér.

En í stað þess að lesa viðburðarríka sögu félagsins utanvallar er líklega bara jafn gott að skoða sögu merki félagsins:

Heimavöllur FC Steaua heitir Stadionul Ghencea og er helst merkilegur fyrir það að vera fyrsti völlurinn í Rúmeníu sem var eingöngu ætlaður fótbolta, þ.e.a.s. ekki með hlaupabraut og slíka vitleysu í kringum sig. Upphaflega tók völlurinn 30.þúsund áhorfendur en sú tala hefur lækkað niður í 28.365 áhorfendur eftir að sæti voru sett á völlinn. Árið 2006 var síðan endurbætt völlinn og undirlagið lagað þannig að í kjölfarið er hann annar tveggja leikvanga í Rúmeníu sem eru leyfilegir skv. UEFA staðli. Undanfarið hafa verið áform um að stækka völlin í annaðhvort 45.þúsund eða 60.þúsund manna leikvang.

Völlurinn lítur nokkuð sakleysislega út svona tómur en áðdáendur FC Steaua eru engir kórdrengir og raunar eru ólæti áhorfenda eitt helsta vandamál félagsins. Í Búkarest er nokkuð stór hluti af sígaunum og þeir styðja erkifjendur FC Steaua, Rapid Búkarest. Þeir eru þ.a.l. afar langt komnir í kynþáttahatri og virðast eiga alveg ótrúlga erfitt með að skilja að slíkt er ekki leyfilegt lengur, hvorki í Rúmeníu né annarsstaðar í Evrópu. Þeir hafa oft þurft að leika fyrir luktum dyrum eða á hlutlausum velli sökum þessa, en líklega toppuðu þeir allt í fyrra er áhorfendur voru bannaðir á einum leik í evrópukeppninni og á heilum 11 deildarleikjum.

Það er því ljóst að líklega mega kjúklingarnir okkar fara búa sig undir alvöru læti á morgun, rétt eins og þegar við mættum geðsjúklingunum sem styðja Napoli.

Núverandi lið FC Steaua er ekki beint það frægasta í sögu sögunnar, framherjinn Bogdan Stancu hefur skorað 12 mörk í 17 leikjum sem er ágætt miðað við að liðinu hefur gengið frekar illa í ár og situr núna í 7.sæti í deildinni heima.

Liverpool hefur annars bara spilað einu sinni áður við FC Steaua og það var árið 2003 sem var síðasta tímabilið sem Houllier var með liðið. Leikurinn í Búkarest fór 1-1 eins og leikurinn á morgun og verður helst minnst fyrir að vera eini leikurinn sem Djimi Traore skoraði í rétt mark fyrir Liverpool. Reyndar hafa markaskorarar Liverpool gegn Steaua ekkert verið til að bæta sjálfstraust varnarmanna liðsins. Kewell skoraði eina mark okkar til að klára einvígið árið 2003 og í fyrri leiknum skoraði meira að segja Joe Cole fyrsta mark okkar í leiknum.

Talandi um okkar menn þá þurfum við bara eitt stig til að tryggja okkur upp úr riðlinum á meðan sigur myndi þýða að FC Steaua er komið áfram. Hodgson heldur áfram að nota ungu strákana í þessum leik því ásamt því að Gerrard, Carra og Agger eru meiddir þá verða þeir Fernando Torres, Dirk Kuyt, Raul Meireles, Glen Johnson og Paul Konchesky allir hafðir heima til að hvíla sig.

Hópurinn sem fór út er því svona: Pepe Reina, Brad Jones, Martin Hansen, Fabio Aurelio, Joe Cole, Milan Jovanovic, Sotirios Kyrgiakos, Ryan Babel, Lucas, Danny Wilson, Christian Poulsen, Jonjo Shelvey, Martin Skrtel, Daniel Pacheco, David Ngog, Martin Kelly, Nathan Eccleston, John Flanagan, Jack Robinson.

Gaman að sjá þarna menn eins og Wilson, Pacheco, Flanagan og Robinson sem þó verða líklega á bekknum á morgun. Eins er fínt að sjá Joe Cole aftur í hópum enda vonar maður að hann verði ekki næsti Harry Kewell.

Líklegt byrjunarlið segi ég að sé svona:

Reina

Kelly Kyrgiakos Wilson Aurelio

Babel Shelvey Poulsen Jovanovic
Cole
Ngog

Það er svakalega kalt í Rúmeníu núna, -8 stiga frost í dag og ljóst að það gæti haft áhrif á leikinn á morgun. Opinbera síðan birti myndir frá æfingu liðsins frá því í dag sem var afar létt og sést vel að þarna er skítkalt.

Joe Cole meiddist ekki einu sinni á æfingunni

Reina er aðeins kalt þarna

Vonandi náði þetta eitthvað að auka spennu fyrir leikinn á morgun, þetta er ákaflega óspennandi leikur svona fyrirfram, það verður að segjast.

Babú38 Comments

 1. Fyrst þú minntist á hinn tímaflakkandi og grænmetisétandi Brakúla greifi þá má ég til með að deila þessu.

  Snilldar intro-ið byrjar eftir 36 sek, þvílik nostalgía (þáþrá ef þið viljið íslenska það).

  Annars glæsileg upphitun og vonandi verður frammistaðan á morgun ekki síðri.

 2. Fróðleg lesning eins og oft fyrir útileiki Evrópudeildarinnar, sérstaklega fannst mér fræðandi að lesa Ceausescu hjónin tekin af lífi með “pomp og prakt”, ef mig misminnir ekki var mörgum hekturum íbúðahverfa rutt í burtu til að steypa konungshöllina og torgin í kringum hana.

  En að allt öðru, þráðrán – ég spái 1-1 jafntrefli (í kuldanum) þar sem gríska heljarmennið stangar boltann efst í markhornið af sextán metra færi.

 3. Ef ég gengi um með hatt þá myndi ég taka hann ofan fyrir þér Babú, þessar landafræðikennslur þínar eru hreint út sagt frábærar.

  Ég vona að við höldum hreinu á morgun, því ef við náum því ekki þá held ég að við munum tapa þessum leik… því miður. Ég tel Babú vera með líklegasta liðið og það kæmi mér ekki á óvart ef Ecclestone kæmi inn fyrir Cole á 70 mín á meðan restin klárar leikinn.

 4. Alveg einstakar upphitanir hjá þér Babu í Evrópudeildinni og í raun það eina spennandi við þátttöku okkar manna í þessari keppni.

  Ég vonast til að lambakjötið í hópnum noti tækifærið til fullnustu til að stimpla sig rækilega inní hjörtu stuðningsmanna liðsins.

 5. Takk fyrir snildar upphitun sem og fræðandi.

  Er nú ekki mjög spenntur fyrir þessum leik nema ef vera skildi að einhverjir af þessum strák pjökkum fengi að spila og þá helst Pacheco. Vona bara að þeir sem spila þennan leik leggi sig alla fram og berjist fyrir sæti sínu í liðinu því við eigum nokkra sem eru virkilega efnilegir og ættu alveg að vera komnir á þann aldur að fara láta að sér kveða.

 6. Alltaf magnaðar útivallaupphitanir í Evrópudeildinni. Það má kannski bæta við söguna af Ducadam að eftir þennan magnaða leik gegn Barcelona, hann varði ekki síður vel í leiknum heldur en vítaspyrnukeppninni, fékk hann Benz bifreið að gjöf frá æstum og ríkum Real Madríd aðdáanda. En vandinn við þann Benz var sá að Valentin nokkur Ceausescu, sonur hins illræmda Nicola einræðisherra, girntist bílinn. Helmuth vildi ekki láta hann af hendi og í kjölfarið brotnuðu báðar hendurnar á honum í “slysi”. Opinbera skýringin á því að hann lék ekki aftur fyrir Steaua var að hann fékk illræmdan blóðsjúkdóm. En Rúmenía er forvitnilegt og sérstakt land.

 7. Ég vona að Pacheco fái að byrja inn á, annaðhvort í holunni eða hægri kanti. Sömuleiðis þætti mér gaman ef Ecclestone fengi góðan spiltíma, ekki minna en sub á 65.mín.

  Reina – Kelly- Soto – Wilson – Aurelio – Pacheco – Jonjo – Poulsen – Jova – Cole – Ngog

  Ecclestone og Babel mættu svo fá sitthvorar 30-45 mín til að leika sér aðeins. Ég væri mjög sáttur við þetta lið en vissulega eru menn eins og Lucas og Skrtel sem eru alls ekki ólíklegir til að taka þátt í leiknum

 8. Hehe já Ívar það hefur sanarlega verið “slys”. Ég var ekkert að fara of djúpt ofan í tengsl þeirra við Steaua en það er í raun meira bendlað Valentin við Steaua liðið og spillingu í kringum það heldur en pabba hans. Stórmerkileg fjölsk. og greinilega ansi margt skrítið í Rúmeníu.

 9. Upphitanir þínar Babu eru eitt af því besta við tímabilið í ár og reyndar hafa þær alltaf verið ferlega skemmtilegar. Þú ert snillingur mikill!

  Ég spái hins vegar 0:0 jafntefli, þar sem Joe Cole skorar sjálfsmark sem er dæmt af.

 10. Ég er klár í krossapróf um sögu FC Steaua eftir þessa lesningu, bravó Babu.

  En að leiknum þá vona ég bara að menn leggji sig fram og sýni hvað þeir geta, þannig að Hodgson verði með smá höfuðverk þegar hann þarf að velja liðið fyrir næsta leik.

  Hodgson er samt örugglega tilbúinn með ræðuna um B-liðið sitt ef Liverpool tapar.

 11. Þú ert klár snillingur Babú!!!! stóskemtilegt að lesa þessa upphitanir !!

 12. Frábær upphitun, takk fyrir mig.
  Ég er nokkuð spenntur fyrir þessum leik því að ég vona og held að leikmenn eins og Pacheco, Aurelio,Wilson, Shelvey, Jovanovic og Babel eigi eftir að sýna Hodgson það á morgun að þeir eigi að fá miklu meiri spilatíma en hann hefur gefið þeim í vetur.
  Sérstaklega er ég þó spenntur fyrir að sjá Wilson spila og einnig vonast ég til þess að Pacheco fái allavega 45 mín.

  Ég ætla að spá þessu 0-2 fyrir okkur.

 13. Vonandi verður þessi leikur jafn skemmtilegur og sá síðasti sem ég horfði á (Barca – Real)
  hef samt ekki mikla trú á því 😉

  Frábær upphitun, alveg frábært! Ef Liðið gæti nú bara séð hvað menn eru duglegir að skrifa upphitanir hérna á klakanum, og spilað eftir því! 😀

  Tippa á 1-0 Ngog

 14. Þessar upphitanir eru svo epic að það er ekki fyndið, Babú. Þær eru næstum því nóg til að fá mann til að vilja halda Liverpool bara í Evrópudeildinni næstu árin til að fá fleiri svona fræðslupistla. Næstum því. Nánast. Alveg bara mjög nálægt því bara bara.

  Ég var svartsýnn fyrir þennan leik. Hefði spáð svona 2-0 fyrir Steua þar sem þetta skiptir okkar menn engu máli. Svo las ég þessa upphitun og Babú gerði mig bjartsýnan. Ég spái núna 5-0 fyrir okkar menn. David Villa skorar tv… nei ég meina Joe Cole skorar tvö. 🙂

 15. Vonandi fyrir N’gog kallinn að hann skori. Orðið töluvert síðan og hann á það alveg skuldlaust að hann hefur verið okkur einn af okkar bestu mönnum í EURO Cup til þessa.

  Tippum á 3-1 Sigur og N’Gog setji tvo mörk og Babel klárar þetta fyrir okkur.

 16. ” Becali er talinn hafa komist hjá þessari skuld er hann flutti eignir félagsins yfir á nýja félagið sem hann lét stofna í kringum liðið.” – hmmm hljómar kunnulega, ætli hann sé “Íslandsvinur” þessi gæi

 17. Nr 17, : já það er svart gras, og í rauninni er allt svart hvítt, þeir höfði ekki efni á litum…

  En nei þessar myndir eru teknar á sérstakan hátt held ég 😉 (kann ekki að lýsa því) þannig að eina sem er í lot er gult, og það gerir þessar myndir mjög flottar… 🙂

  (held samt að þú hafir verið að djóka) 😀

 18. Sammála mönnum hérna, alveg snilldar upphitanir hjá þér.

  Svo ég fari ekki að óska okkar mönnum áframhaldandi veru í Evrópudeildinni eins og Kristján Atli, geturu ekki bara tekið pisla af og til um hin og þessi Evrópulið á meðan við vinnum leiki í Meistaradeildinni á komandi árum? 🙂

 19. Er ekki svo bara málið að banna Einar að koma með leikskýrslur eftir leikina ?

 20. verð að segja að þessi leikskýrsla var afar fróðleg og skemmtileg, bravó fyrir þér babú

  held samt að þetta verði voðalega leiðilegur leikur enda RH að spila ungum strákum og er ekki eftir að treysta þeim yfir miðjuna

 21. Slúðrið á fotbolti.net segir að Hodgson fái 3 leiki til þess að bjarga starfinu, vona að það sé eitthvað til í þessu.

  Annars er vonandi að við fáum að sjá Pacheco í kvöld og væri óskandi að hann fengi að byrja þarna fremstur með Ngog eða fyrir aftan hann.

 22. Svo er það Helmuth Ducadam. Örlög hans urðu dapurleg. Sagt er að hann hafi fengið Benz fyrir að vera besti leikmaður úrslitaleiksins þegar hann varði vítin fjögur. Þá hafi birst sonur Ceau?escu, Niku að nafni og heimtað bensinn. Þegar Helmuth neitaði, lét Niku (sem var yfirmaður leyniþjónustunnar eða álíka) handtaka markvörðinn og brjóta á honum hendurnar.

 23. Frábær upphitun Babu. Að þið leggið svona vinnu á ykkur í sjálfboðastarfi er náttúrulega bara einstakt!

 24. Doddijr #30
  Maxi verður ekki í liðinu þar sem hann er ekki í hópnum sem fór út

  Pepe Reina, Brad Jones, Martin Hansen, Fabio Aurelio, Joe Cole, Milan Jovanovic, Sotirios Kyrgiakos, Ryan Babel, Lucas, Danny Wilson, Christian Poulsen, Jonjo Shelvey, Martin Skrtel, Daniel Pacheco, David Ngog, Martin Kelly, Nathan Eccleston, John Flanagan og Jack Robinson.

 25. Ég tippa á að liðið verði svona

  Reina(C), Kelly, Wilson, Soto, Aurelio, Jovanovic, Poulsen, Shelvey, Babel, Cole, Ngog

 26. Spurning hvort að Cole eigi ekki að vera þarna í mögulegu byrjunarliði í stað Maxi.
  Eflaust spyrja margir aðrir sig að því hvað sé málið með Pacheco,hann sló í gegn með U21 lið Spánar í sumar,en fær ekkert að spreyta sig,ekkert.

  miðað við myndirnar af æfingu okkar manna í Rúmenía nær orðatiltækið”að vera frystur á bekknum” nýjum hæðum fyrir Pacheco.

 27. Vá til hamingju Babu! =D

  Það er bara eitt vantar og það er þetta.

  Wikipedia, the free encyclopedia. (e.d.) FC Steaua Bucure?ti. Sótt 1. desember 2010 af http://en.wikipedia.org/wiki/FC_Steaua_Bucure%C5%9Fti#Crest_and_colours

  Ef þetta vantar hefur þú gerst sekur um rithvinnsku og það varðar við lög!!!

  Ég ætti sjálfur að fara að skrifa pistla og nota til þess þína aðferð (að afrita og líma). Fá gott hrós fyrir vinnu sem ég hef ekki framkvæmt sjálfur =D JEI

  Bestu kveðjur
  Nesi

 28. JÁJÁJÁJÁJÁJÁ Pacheco byrjar.
  Staðfest byrjunarlið:
  Liverpool: Reina, Kelly, Aurelio, Kyrgiakos, Wilson, Poulsen, Shelvey, Jovanovic, Pacheco, Cole, Babel. Subs: Jones, Lucas, Ngog, Skrtel, Eccleston, Flanagan, Robinson.

Opinn þráður – El Clasico

Liðið komið – Pacheco og Shelvey byrja