Fyrsta Pub-quiz Kop.is lokið

Á föstudaginn fór fram fyrsta Pub-quiz Kop.is í samvinnu við bjórkvöld Liverpool-klúbbsins á Íslandi. Herlegheitin voru haldin á Players og var þátttaka í þessari fyrstu spurningakeppni okkar ágæt og stemningin enn betri.

Það fór svo að þeir Arngrímur Baldursson og Árni Þór Freysteinsson báru sigur úr býtum. Þeir náðu að svara rétt 21 spurningu af 36 eða einni spurningu meira en liðið í öðru sæti. Þeir voru því réttilega krýndir fyrstu Pub-quiz meistarar Kop.is.

Í verðlaun hlutu þeir félagar glæsimáltíð fyrir tvo á Serrano (gerist ekki betra) og drottningarviðtal á Kop.is. Það viðtal fylgir hér fyrir neðan og eins og þið sjáið reyndi ég að grilla þá og gera þeim eins erfitt fyrir og ég gat:

Þeir Árni Þór og Arngrímur fagna hér sigrinum í anddyri Players í Kópavogi.

Arngrímur, hvernig tilfinning er að vera svona fáránlega fróður um Liverpool?
Það væri byrði að vita svo mikið um Liverpool FC en ég er svo lánsamur að hafa eins vel sóttan vef og LFChistory.net til að létta af mér öllum þeim fróðleik sem hefur safnast saman við rannsóknir mínar á glæstri sögu Liverpool. Framþróun og vinsældir þess vefs hefur farið fram úr mínum björtustu vonum og mjög gaman að finna hversu mikill áhugi hefur skapast á sögu félagsins vonandi að einhverju leyti fyrir tilstilli LFChistory.

Ég viðurkenni þó að mér finnst ég vita fullmikið um leikmenn sem léku fyrir félagið á fyrsta blómatímabili þess frá 1892 -1923. Hver man ekki eftir George Allan, John Miller og Jock McNab? Örugglega enginn nema ég. Það er líka ánægjulegt að geta þess að bókaútgáfa í London ætlar að gefa út afrakstur vinnu okkar Mumma á LFChistory á prenti og því spennandi tímar í vændum. Við látum aldrei staðar numið.

Árni, rúmar heilinn í þér allar þessar upplýsingar áreynslulaust eða þarftu að stunda æfingar til að halda þér í formi?
Ég held að besta æfingin sem maður getur stundað í þessu er að hafa haldið með Liverpool í tæp 40 ár! Þetta er náttúrulega bara vírus sem maður fékk í sig sem barn og losnar klárlega aldrei við hann. Það hefur náttúrulega líka hjálpað mikið að lesa Kop.is á hverjum degi og hafa verið í stjórn Liverpool-klúbbsins síðastliðin ár en auðvitað líka að hafa verið með sveitunga mínum og KA manni í liði, það er frábært að sjá hvað þeir Mummi hafa verið að gera síðustu ár með þessum vef sínum.

Annars er maður búinn að lesa svo ótrúlega mikið um þetta lið síðustu ár og áratugi að það væri óeðlilegt ef það síaðist ekki eitthvað inn! Annars er besta æfingin að vera innan um félaga sína og vini í Liverpool klúbbnum á hverjum einasta leik á Players og fylgjast með Liverpool spila, þar fljúga gullkornin alveg hægri vinstri eins og þegar einn vitringurinn sagði um daginn að „þetta hafi verið gott stig á annars erfiðum heimavelli!“

Arngrímur, er það satt sem sagt er að þú sért fallegasti maður sem nokkurn tímann hefur verið formaður Liverpool-klúbbsins á Íslandi?
Sigursteinn vill meina að hann sé fallegasti formaður í sögu Liverpoolklúbbsins og lýsti því stíft yfir fyrir Pub-quiz keppnina meira svona til að sannfæra sjálfan sig um það og tók ég sérstaklega eftir því að enginn annar tók undir þessa fullyrðingu. Það er ekki að ástæðulausu að á öllum myndum sem fyrirfinnast af Sigursteini á Netinu er andlitið á honum blörrað.

Hvað varðar hina tvo sem hafa verið formenn, Jón Óla og Jón Geir, eru þeir varla að skora hátt á Hot-or-Not kvarðanum. Ég er án efa langfallegasti maður sem hefur verið formaður Liverpool-klúbbsins á Íslandi. Enginn hinna hefur notið eins mikillar kvenhylli sem formaður og grúppíu-hópurinn var orðinn ansi stór undir restina en síðan Sigursteinn tók við hefur náttúrulega sá hópur horfið með öllu og einungis nokkrar vel veðurbarðar sem sýna honum áhuga.

Árni, nú varðst þú Íslandsmeistari í knattspyrnu með KA árið 1989. Íslandsmeistari og Pub-Quiz meistari, er eitthvað meira sem þú átt eftir að afreka í lífinu? Er forsetaframboð næst á dagskrá?
Nei ég held að toppnum sé náð. Pub-quiz meistari Kop.is er nú einhver mesti heiður sem mér hefur hlotnast og ætli maður láti það ekki bara nægja! Ég meina hvað viltu meira?


Við strákarnir á Kop.is erum hæstánægðir með hvernig til tókst. Við sáum að spurningarnar voru í erfiðara lagi og einhverjir kvörtuðu yfir því og er það allt í lagi, batnandi mönnum er best að lifa og við byggjum á þessari reynslu þegar við hrærum saman í næstu Pub-quiz sem verður örugglega haldin á fyrsta fjórðungi ársins 2011. En þangað til geta þeir Arngrímur og Árni Þór borið höfuðið hátt, þetta eru snillingar og þeir vita einfaldlega meira um Liverpool en við hin. Þannig er það nú bara.

Takk fyrir okkur.

7 Comments

 1. Og eins og lofað var er hérna spurningalistinn með svörum:


  NR 1 – LEIKMENN EFTIR LIVERPOOL

  1 – Paul Stewart var án vafa ein misheppnuðustu kaup í slakri innkaupasögu Graeme Souness. Liverpool keypti hann sumarið 1992 fyrir upphæð sem var þá ein sú hæsta sem félagið hafði greitt fyrir leikmann en hann náði aldrei neinni fótfestu í liðinu, skoraði aðeins 1 mark í 32 leikjum og síðustu tvö árin hans hjá Liverpool komst hann ekki í liðið og fór að lokum á frjálsri sölu. Þau ár var hann ítrekað lánaður út og hjálpaði m.a. tveimur liðum til að vinna sér sæti í Úrvalsdeildinni. Nefnið annað þeirra liða. Svar: Crystal Palace / Sunderland.

  2 – Phil Neal var einn stærsti hlekkurinn í gullaldarliði Liverpool á árunum 1974–1985, skoraði m.a. mark í tveimur úrslitaleikjum Evrópukeppni meistaraliða. Eftir feril sem spannaði 455 leiki og 41 mark fyrir félagið fékk hann frjálsa sölu sem spilandi framkvæmdarstjóri til liðs í næst-neðstu deild Englands í desember 1985. Hvaða lið var það? Svar: Bolton Wanderers.

  3 – Kenny Dalglish fjárfesti í mörgum ungum leikmönnum undir lok stjóraferils síns en fæstir þeirra náðu þó að spila undir hans stjórn. Einn af þeim var Don Hutchison sem hann keypti frá Hartlepool og lék 45 leiki í Úrvalsdeild fyrir Liverpool og skoraði í þeim 7 mörk. Eftir skrautlegan endi á ferlinum á Anfield flakkaði hann víða og spilaði m.a. með erkifjendunum í Everton. Eitt var það lið sem keypti hann tvisvar til sín og í bæði skiptin fyrir hæsta fé sem það lið hafði greitt fyrir leikmann á þeim tíma, sem er einsdæmi í enska boltanum! Hvaða lið var það? Svar: West Ham United.

  4 – Gary McAllister lék í tvö frábær ár á Anfield áður en hann hélt út í framkvæmdastjóraferil sinn sem hingað til hefur verið frekar brösugur. Eftir að hafa hætt störfum hjá Coventry og verið leystur frá störfum hjá Leeds sem stjóri hefur ferill hans breyst í að verða aðstoðarframkvæmdastjóri hjá tveimur liðum. Hvaða liði vinnur McAllister núna sem aðstoðarframkvæmdarstjóri og frá hvaða liði kom hann þangað? Svar: Nú – Aston Villa og kom frá Middlesborough.

  5 – Nú er spurt um leikmann sem lék 42 Úrvalsdeildarleiki fyrir Liverpool og skoraði í þeim 11 mörk. Eftir að hafa farið frá Liverpool lék hann knattspyrnu í þremur löndum áður en hann hætti knattspyrnuiðkun og sneri sér að þjálfun. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá Bradford City og síðan var hann í þjálfaraliði Blackburn og Newcastle. Árið 2008 fékk hann sitt fyrsta framkvæmdastjórastarf sem hann enn starfar við, hjá Wrexham sem situr nú í 7. sæti Blue Square Premier League. Hver er maðurinn? Svar: Dean Saunders.

  6 – Dietmar Hamann var lykilmaður í liði Liverpool frá árunum 1999 til 2006 og varð ódauðlegur með frammistöðu sinni í Istanbúl. Eftir að hann kvaddi Liverpool fór hann til Bolton og síðan Manchester City, sem ákváðu að endurnýja ekki samning sinn við hann vorið 2009. Hann var án félags alla síðustu leiktíð en í haust var hann ráðinn sem spilandi þjálfari hjá liði í Fyrstu deild Englands. Hvaða lið er það? Svar: Milton Keynes Dons.

  NR 2 – RAFA BENÍTEZ

  1 – Hver var stærsti ósigur Liverpool undir stjórn Rafa (í alvöru leik)? Svar: 6-3 gegn Arsenal á Anfield í Deildarbikar, 9/1/2007.

  2 – Rafa þjálfaði fimm félög á Spáni sem aðalþjálfari áður en hann tók við Liverpool. Nefnið þrjú þeirra. Svar: Real Valladolid, Osasuna, Extremadura, Tenerife, Valencia.

  3 – Hvaða framherji skoraði fæst mörk undir stjórn Rafa hjá Liverpool? Svar: Neil Mellor, 5 mörk. (Listinn er: Torres 72, Kuyt 51, Crouch 42, Cissé 24, Baros 13, Fowler og Morientes 12, Ngog 11, Bellamy 9, Keane, Voronin og Pongolle 7, Mellor 5.)

  4 – Árið 1994 varð Rafa aðstoðarþjálfari aðalliðs Real Madrid í fyrsta skipti eftir að hafa þjálfað Real Madrid B árið áður. Ári síðar sneri hann svo aftur til B-liðsins sem aðalþjálfari. Hver var aðalþjálfari aðalliðs Real Madrid árið sem Rafa var aðstoðarþjálfari? Svar: Vicente Del Bosque.

  5 – Hver var þjálfari Valencia áður en Rafa tók við liðinu og hver tók við því af Rafa? Svar: Rafa tók við af Hector Cuper og Claudio Ranieri tók við þegar Rafa fór.

  6 – Á fyrsta tímabili sínu með Liverpool fékk Rafa til sín sex leikmenn frá Spáni. Nefnið fimm þeirra. Svar: Xabi Alonso, Luis García, Josemi, Antonio Nunez, Fernando Morientes, Mauricio Pellegrino.

  NR 3 – KOP.IS

  1 – Sumarið 2007 skapaðist eldheit umræða á Liverpool blogginu sem m.a. varð til þess að annar ritstjóra síðunnar, Einar Örn Einarsson, var fenginn í umræður um málið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Hvert var umræðuefnið? Svar: Verðið fyrir áskrift af enska boltanum hjá 365 miðlum!

  2 – Einn af okkur pennunum á Kop.is hefur spilað knattspyrnu fyrir lið sem tryggði sér sæti í efstu deild á Íslandi. Hver okkar var það og með hvaða liði lék hann? Svar: Maggi – lék með ÍR sumarið 1997 er þeir komust upp í Úrvalsdeild.

  3 – Strax ári eftir að síðan opnaði bættist við nýr penni í hópinn og í janúar 2006 urðu þeir 4 pennarnir á Kop.is. Við spyrjum hvað heita þessir ágætu herramenn sem teljast sem fyrstu 4 penna kop? Svar: Einar Örn, Kristján Atli, Magnús Agnar og Hjalti.

  4 – Í byrjun júní var framkvæmd könnun á Kop.is þar sem spurt var hvern menn vildu helst sjá sem nýjan stjóra Liverpool þar sem ljóst var að verið var að leita að slíkum. Á annað þúsund manns kusu. Hver vann yfirburðasigur í þessari kosningu? Vísbending: það var ekki Roy Hodgson. Svar: Guus Hiddink.

  5 – Pennar síðunnar eiga það allir sameiginlegt að hafa óhóflega mikinn áhuga á liðinu og hafa farið út á allt of marga leiki, samanlagt. Einn leikur stendur þó upp úr og hann fór fram í maí 2005. Spurningin er einföld: hverjir af núverandi pennum Liverpool bloggsins fóru til Istanbúl árið 2005 á einn skemmtilegasta leik sögunnar? Svar: Einar Örn og SSteinn.

  6 – Einn af pennum síðunnar er formaður Liverpool klúbbsins og hefur verið það ansi lengi og því spyrjum við, hvaða ár tók Sigursteinn fyrst við formennsku í Liverpool klúbbnum á Íslandi og hver gegndi þeirri stöðu á undan honum? Svar: Formaður síðan 2002 (varaformaður 1998) og tók við af Arngrími Baldurssyni.

  NR 4 – LIVERPOOL 1980-1990

  1 – Spurt er um leikmann og er félagaferill hans eftirfarandi í réttri röð: West Ham, Fulham, Oxford, Liverpool, Aston Villa, Crystal Palace, Reading, Stevenage Borough. Hver er maðurinn? Svar: Ray Houghton.

  2 – Árið 1987 festi þáverandi stjóri liðsins, King Kenny Dalglish kaup á sex leikmönnum. Margir telja þetta eitt magnaðasta ár fyrr og síðar þegar kemur að leikmannakaupum. Nefnið 5 af þessum leikmönnum. Svar: John Aldridge, Nigel Spackman, John Barnes, Peter Beardsley, Mike Marsh og Ray Houghton.

  3 – Frá hvaða félagi var miðjujaxlinn Steve McMahon keyptur til Liverpool? Svar: Aston Villa.

  4 – Hvaða framkvæmdastjóri Liverpool keypti hinn grannvaxna Jan Mölby til liðsins og frá hvaða félagi kom kappinn? Svar: Joe Fagan og hann kom frá Ajax.

  5 – Margir eru á því að lið Liverpool tímabilið 1987-88 sé eitt það allra besta sem fram hefur komið á Englandi. Því miður fékk það ekki að reyna sig í Evrópukeppnum vegna banns, en heima fyrir var liðið nánast óstöðvandi og lék stórkostlega knattspyrnu. Þrír leikmenn liðsins náðu að skora 15 mörk eða meira í deildarkeppninni. Hvaða leikmenn voru það? Svar: John Aldridge (26), Peter Beardsley (15) og John Barnes (15).

  6 – Liverpool vann tvennuna svokölluðu (deild og bikar) árið 1986. Í þá daga var ekki jafn algengt að leikmenn væru að spila utan heimalands síns og nú þekkist. Tveir leikjahæstu leikmennirnir þetta tímabil áttu það þó sameiginlegt að vera báðir fæddir í Suður-Afríku, þó hvorugur þeirra hafi þó spilað landsleik fyrir hönd þeirrar þjóðar. Hvaða tvo leikmenn er verið að tala um? Svar: Bruce Grobbelaar og Craig Johnstone.

  NR 5 – NÚVERANDI LEIKMENN OG STARFSLIÐ LIVERPOOL

  1 – Hjá Liverpool eru í dag margir ungir leikmenn sem vonast til að láta að sér kveða í framtíðinni. Á hverju ári lánar félagið nokkra af þessum leikmönnum til annarra liða og því spyrjum við, með hvaða liðum spila þeir Daniel Ayala, Emiliano Insúa og Guðlaugur Victor Pálsson þessa dagana? Svar: Ayala er hjá Hull City, Insúa er hjá Galatasaray og Gulli er hjá Dagenham & Redbridge.

  2 – Nefnið tvö af þremur félagsliðum sem Maxi Rodriguez spilaði með áður en hann kom til Liverpool. Svar: Newell´s Old Boys, Espanyol og Atletico Madríd.

  3 – Sagan segir að til að Liverpool geti unnið deildina þurfi liðið að hafa a.m.k. einn skoskan leikmann í liðinu. Þetta hefur ekki verið raunin hjá okkur lengi en núna horfir til betri vegar og er staðan þannig nú að í hópnum eru tveir fyrrum leikmenn Glasgow Rangers á mála hjá klúbbnum. Annar þeirra heitir Danny Wilson, hvað heitir hinn? Svar: Sotirios Kyrgiakos.

  4 – Hver tók við stjórn varaliðsins árið 2009 og varð þar með a.m.k. annar meðlimur sinnar fjölskyldu til að starfa fyrir Liverpool FC? Svar: John McMahon.

  5 – Greenwich núllbaugur er sá lengdarbaugur sem allir lengdarbaugar eru miðaðir við. Það var ákveðið á alþjóðlegri núllbaugsráðstefnu árið 1884. Greenwich er annars bara hverfi í suð-austur hluta London sem hefur gefið af sér ekki ómerkari manneskjur en Henry 8. Englands-konung, Elísabetu 1. Englandsdrottingu og raunar fleiri af Tudor ættinni sem áður sá um stjórnvölin í Englandi. En þetta hverfi hefur gefið fleiri þekktar persónur af sér og ein þeirra er að spila með Liverpool í dag. Við spyrjum, hver er það? Svar: Glen Johnson.

  6 – Þegar Roy Hodgson flutti sig frá Fulham til Liverpool fóru strax sögur af stað um að aðstoðarmaður hans hjá Fulham myndi fylgja honum yfir. Kappinn sá er best þekktur sem markmannsþjálfari og hefur verið vinur Hodgson í yfir 40 ár og fylgt honum víða þó hann hafi reyndar unnið með mun fleiri þjálfurum en bara Roy Hodgson og t.a.m. vann hann með Greame Souness hjá Rangers og svo Liverpool í um níu mánuði tímabilið 92/93. En hvað heitir þessi maður sem í dag er titlaður sem þjálfari aðalliðsins hjá Liverpool? Svar: Mike Kelly.

  NR 6 – BLAND Í POKA

  1 – Liverpool var stofnað 15.mars 1892 eftir að maðurinn sem átti Anfield lenti í útistöðum við stjórnarmenn Everton sem neituðu að borga uppsett verð fyrir leigu á vellinum og fluttu sig yfir Stanley Park til að spila sinn fótbolta á grafreit sem í dag er þekktur sem Goodison Park. En hvað hét þessi heiðursmaður sem stofnaði Liverpool FC? Svar: Mr. John Houlding.

  2 – Þegar Kenny Dalglish hætti sem framkvæmdastjóri hjá klúbbnum tók við hræðilegt tímabil þar sem harðjaxlinn og fyrrum fyrirliðinn Greame Souness stýrði liðinu. Hans hefur síðan verið minnst sem óvinsælasta stjóra í sögu félagsins í seinni tíð. Hvert var neðsta sætið sem liðið endaði í þau tímabil sem Souness kláraði sem stjóri Liverpool? Svar: 6.sæti, bæði tímabilin sem hann kláraði.

  3 – Hvað heitir lögmaðurinn sem fór á kostum fyrir hönd Liverpool þegar stjórn félagsins fór fram á að dómstólar í London fjarlægðu krabbameinið Hicks & Gillett í október síðastliðnum? Svar: Grabiner lávarður.

  4 – Tom Hicks, ein versta mannvera sem stigið hefur fæti í Liverpool-borg, hafði komið við sögu í knattspyrnuheiminum áður en hann „keypti“ Liverpool. Hann átti annað lið með nokkuð mikla sögu sem endaði jafnvel enn verr statt en Liverpool FC eftir að fellibylurinn Hicks hafði lokið sér af. Hvaða knattspyrnulið átti hann áður en hann eignaðist Liverpool og frá hvaða landi er það lið? Svar: Corinthians í Brasilíu.

  5 – Spurt er um þrjá afar fræga staði í Liverpool borg: Hvað heitir flugvöllur borgarinnar? Hvað heitir aðal pöbbinn fyrir utan Anfield þar sem jafnan má finna Íslandsvininn Pete Sampara fremstan meðal jafningja? Við hvaða útvarpsstöð er turninn í miðborg Liverpool kenndur? (þ.e. hvað stendur á toppi turnsins)? Svar: 1 – John Lennon Airport. 2 – The Park. 3 – Radio City.

  6 – Tveir leikmenn hafa afrekað að skora í Merseyside-derby leikjunum fyrir bæði Liverpool og Everton. Annar þeirra heitir David Johnson sem skoraði fyrst fyrir Everton en svo fyrir Liverpool. En hvað heitir hinn leikmaðurinn sem afrekaði þetta? Svar: Peter Beardsley.

 2. Þetta var nett, mætum aftur og reynum að salla yfir 10stigin næst. 🙂

 3. Þetta eru alvöru spurningar, ég efast um að ég hefði náð meira en 32 rétt.

 4. Takk fyrir samveruna þeir sem mættu og til hamingju með sigurinn Á og A!

  Voru auðvitað alvöru spurningar svona í fyrsta sinn á meðan við lærum inn á þetta allt. Hlakka til næsta!

 5. Rósi, þetta eru reyndar svört peysa og úlpa en það eru lituð ljós í anddyrinu á Players sem gáfu okkur þennan skemmtilega lit. Sérð líka hvað þeir eru skemmtilega bleikir í framan. 🙂

  Ari, ég ábyrgist að þitt lið gerir betur næst. Annars áttu inni eitt glas af „mjólk“ hjá mér á barnum. 😉

 6. Tveir öndvegis Akureyringar. Gerist ekki betra. Til hamingju félagar.

  Áfram Liverpool!

Stoke 2 Liverpool 0

That’s it for me