Wigan á morgun

Nú klikkaði kallinn illa, hreinlega steingleymdi að ég ætti upphitun. Kristján Atli tók upp á því að gefa út endanlega planið fyrir leiki mánaðarins á meðan ég var að hoppa á milli flugvalla og þar af leiðandi var ekki búinn að setja neina áminningu inn í calendar. Í dag er þetta ekki flókið, heilinn í manni er orðinn ferlega vanþróaður, ég man varla eitt einasta símanúmer lengur og í þokkabót gleymi ég nánast öllu nema ég setji það í calendar og bæði sími og tölva nánast grýti áminningunum upp í nasirnar á mér.

Hvað um það, ég er kominn fyrir framan tölvuna og skammast mín akkúrat ekkert fyrir að vera of seinn, var að koma af leik og við unnum Chelsea á sunnudaginn. Ég skammast mín ekki heldur fyrir að hafa viljað Poulsen útaf vellinum í leiknum á fimmtudaginn 🙂

En Napoli leikurinn er bara hluti af fortíðinni, sama með Chelsea. Við erum búnir að vinna 4 leiki í röð núna, en það telur akkúrat ekkert á morgun, EKKERT. Það eina sem þessir síðustu fjórir leikir ættu að gefa okkar mönnum er sjálfstraust, og Gvuðmundur góður, það skiptir máli. Sjálfstraust er algjörlega fáránlega mikilvægt þegar kemur að íþróttum. Þú getur haft c.a. helmingi minni hæfileika en gaurinn sem þú keppir við, en þú getur unnið hann léttilega ef þú ert fullur sjálfstrausts og hann án alls slíks. Ef menn fá ekki trú á sjálfa sig eftir leik eins og á sunnudaginn, hvenær þá?

Fyrir um 6 stigum síðan, þá taldi ég upp næstu 16 leiki liðsins, og ég verð að viðurkenna það fúslega að ég bjóst ekki við því að vera með 6 stig eftir fyrstu tvo leikina af þessum 16. Þessir tveir sem búnir eru voru líklega sá erfiðasti og svo einn af 4 þar á eftir. Rifjum upp hvaða 14 leikir eru núna eftir:

Wigan (Ú)
Stoke (Ú)
West Ham (H)
Tottenham (Ú)
Aston Villa (H)
Newcastle (Ú)
Fulham (H)
Blackpool (Ú)
Wolves (H)
Bolton (H)
Blackburn (Ú)
Everton (H)
Wolves (Ú)
Stoke (H)

Ef allt væri eðlilegt hjá okkar mönnum, skoðandi töfluna, 2 stig í 5. sætið, 5 stig í 3. sætið, 10 stig í 1. sætið, þá værum við að fara að blanda okkur í bullandi toppbaráttu eftir næstu 14 leikina. Auðvitað er kannski full gróft að reikna með fullu húsi stiga, en þetta eru þannig leikir að maður verður hundsvekktur með hvert tapað stig þarna. Roy Hodgson þarf að prenta út stöðuna í deildinni og sýna mönnum hana face to face fyrir leikinn. Í þessum töluðu orðum voru Spurs og Sunderland að gera jafntefli, og voru þau jöfn okkur að stigum og Bolton á erfiðan útileik á ruslahaugunum á morgun. Það er því algjörlega ljóst að með sigri annað kvöld, þá er Liverpool að fara að hækka sig um minnst 2 sæti. Þar fyrir utan þá keppa Manchester liðin sín á milli, þannig að sigur hjá okkur, dregur á annað hvort þeirra eða bæði. Með sigri á morgun (og 3 aðrir leikir falla fyrir okkur) þá gætum við verið í 5 sætinu, aðeins 2 stigum frá Meistaradeildarsæti, hversu fáránlegt er það? Eftir verstu byrjun liðsins í 304 ár, þá værum við komnir þetta hátt og 2/3 hlutar tímabilsins eftir? En lykilpunkturinn kom fyrst í þessari málsgrein, ef allt væri eðlilegt. Menn verða algjörlega að gera sér grein fyrir því að 3 stig á morgun, þau vinnast ekki nema að menn spili allan leikinn, 3 stig koma ekki ef við sleppum öðrum hvorum hálfleiknum (eða báðum) eins og við höfum alltof, alltof oft gert á tímabilinu.

Ég bið ekki um mikið, og geri það af fullri auðmýkt. Ég fer bara fram á að vinna Wigan annað kvöld, kæri Jóli, plís!!!

En að liðinu. Ég er löngu hættur að skilja þetta með Daniel blessaðan Agger. Fyrst er hann meiddur, spilar ekki með okkur, svo poppar hann upp í landsleik, meiðist þar lítillega, er alveg að komast tilbaka, svo líður og bíður og núna er bara algjörlega óráðið hvenær hann kemst tilbaka aftur, en það er laaaaaaaangt í það skilst manni. Well, það þýðir ekki að gráta Daniel bónda, heldur söfnum við bara liði, eða nei, Soto er líka fjarri góðu gamni (gæti reyndar vel verið að það sé voða gaman heima hjá honum) en Glen Johnson og Aurelio eru víst að verða kárir. Dirk er auðvitað mættur, 16 mánuðum fyrir tímann, en Babel er illt í ribbunum eftir högg um daginn, þannig að þá er komin afsökun til að þurfa ekki að afsaka það að hann komist ekki í hópinn. Uppstilling? Er þetta eitthvað flókið? Þarf að breyta liðinu eitthvað? Ef engin meiðsli eru þá vil ég bara keyra á sigurliði í deildinni. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég kjósa að setja Glen Johnson og Aurelio inn í bakvarðarstöðurnar, en Konchesky og Kelly stóðu sig virkilega vel gegn Chelsea og því sé ég ekki nokkra einustu ástæðu til að breyta liðinu. Eina spurningin í mínum huga er Dirk Kuyt, en það stafar af því að hann er ný staðinn upp úr meiðslum, en ég ætla nú bara samt að giska á óbreytt lið.

Reina

Kelly – Carragher – Skrtel – Konchesky

Meireles – Lucas – Gerrard – Maxi

Kuyt – Torres

Bekkurinn: Jones, Aurelio, Johnson, Wilson, Poulsen, Jovanovic og Ngog

Við keyrðum á Chelsea með hápressu frá fyrstu sekúndu, við keyrðum á Napoli frá fyrstu sekúndu í seinni hálfleik með hápressu, þetta er ekki flókið. Byrjið bara freaking leikinn um leið og flautað er til leiks, notum hápressuna sem virkar svo ferlega vel hjá okkur. Nýtum okkur Torres, sem by the way, þrífst best þegar spiluð er hápressa. Var ég eitthvað búinn að minnast á hápressu? Ef ekki, þá bara ykkur að segja, þá tel ég hana henta vel fyrir Liverpool.

0-3 á morgun og ekkert kjaftæði. Torres og Gerrard komnir í gang, svo bætir Meireles við marki. Koma svo…

72 Comments

 1. Sælir félagar

  Það er bara engu við að bæta hjá Ssteini í hans frábæru upphitun. Krafan er sigur og hápressusókn frá fyrstu mínutu fram yfir þriðja mark. Þá má láta lasarusana fá smá leikæfingu svo þeir komist í leikform. Þeir ættu að stuðla að einu til tveimur mörkum í viðbót þannig að ætli við segjum ekki 1 – 5 og Torres með þrennu.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 2. Algerlega sammála því að vera ekkert að breyta sigurliðinu. Ég efast ekki neitt um að Súperman Kyut sé orðinn klár, enda kann hann ekki að bíða og jafna sig í rólegheitunum. Maðurinn hreinlega fæddist fullskapaður 8 mánuðum fyrir tímann og hefur bara ekki stoppað síðan !!

  Ég vona svo sannarlega að menn byggi ofan á það sem gott hefur verið gert uppá síðkastið og Torres og Gerrard haldi áfram að gera góði hluti og þróa sitt samband enn frekar. Meireles var fínn í síðasta leik, og ég vil sjá það sama frá honum í þessum leik.

  Við vinnum þennan leik og höldum hreinu og við endum í þessu fokkíng fjórða sæti, og ekkert jaml, japp og fuður með það !!

  Insjallah..
  Carl Berg

 3. If it ain’t broke, don’t fix it. Sama lið og síðast, takk. Ekkert að þrýsta á Johnson og Aurelio að spila fyrr en þeir eru orðnir 100% klárir, eiga þá á bekknum ef með þarf.

  Þetta leggst vel í mig.

 4. sammála þér með þessa næstu 14 leiki ! ef liðið spilar næstum því jafn vel og það gerði á móti Chelsea þá ættu þeir að ná góðri sigurleikjahrynu.. kannski úti á móti Tottenham og jafnvel Stoke og Newcastle sem liðið gæti lent í mótspyrnu ef þau lið hitta á góðan dag! En ég veit að það er enginn leikur léttur í þessari deild ekki einu sinni á móti Blackpool heima.. en Liverpool er bara svo miklu sterkara en nánast öll þessi lið á þessum lista (miðað við spilamennskuna undanfarið) og ef að okkar “fallegustu” menn eru heilir þá á liðið að geta unnið allavega 12 af þessum 14 og tillt sér á toppinn á ensku deildinni !

  0-2 á morgun ! Gerrard með bæði !

 5. Það þarf ekkert við þetta að bæta.
  Sigur er klárlega krafa á okkar menn og ef ég heiti ekki Jens mun Torres setja eitt kvikindi og Kuyt/Gerrard eitt (allavega það)!

  YNWA!! – Come on REDS!!!!

 6. Sammála með byrjunarliðið held ég bara. Ef við höldum áfram þar sem frá var horfið þá ætla ég að segja 4 – 0. Torres 2, Meireles 1 og Gerrard 1. Ég er samt alveg jafn stressaður fyrir þennan leik og chel$ki og ætli það verði ekki bara að vera þannig út tímabilið :/

 7. Það er alveg fáránlegt að breyta liði sem pakkar BESTA liði Englans saman. Sækja til sigur alltaf og alltaf á besta mögulega liði. . . . . .

 8. Botnliðin hafa oft reynst okkur erfið, ekki síður þegar væntingar eru miklar – maður þorir ekki að vera bjartsýnn en vonar engu að síður alltaf það besta…

 9. Flott upphitun.

  Sama lið og sigraði Chelsea takk og við eigum 3 stig vís.

 10. Mér finnst þetta nú frekar döpur upphitun. Ekkert í henni sem ég get ekki sagt sjálfur: Vinnum næstu 14 leiki og við eru í toppbáráttu (vinnum rest og við verðum meistarar); fjórir sigurleikir í röð ættu að gefa liðinu sjálfstraust (Liverpool vann reyndar sex leiki í röð í byrjun síðasta tímabils, þar af þrjá í deild, og við vitum svo sem hvernig það tímabil fór); vonandi verður uppstillingin á liðinu sú sama og var á móti Chelsea; ekkert annað en sigur kemur til greina.

  Hvað með smá analýsu? En hvernig lið er Wigan? Hverjir eru leikmennirnir? Hver er líkleg liðsuppstilling? Hvaða leikmenn ber að varast? Hvaða leikkerfi spila þeir vanalega á heimavelli? Hvernig hefur þeim gengið á tímabilinu, hafa þeir verið óheppnir eða lélegir?

 11. Þú verður bara að segja upp áskriftinni Kristján. Þetta er ekki boðlegt.

 12. verð að vera sammála kristjáni í þetta sinn. hefur verið rosalega góða og finar upphitanir en nuna vantar meir um wigan og leikin sjálfan þetta er meir svona um tímabilið hvernig það getur þróast. við gerðum þetta í fyrra líka en hvað gerðum við þá lentum við ekki djúpum….. þegar við unnum 3 leiki í birjun tímbilsinns en vona að það verði stopp á töpunum en allt getur en gerst en á ekki trú á þvi.

 13. Ég held að Hodgson taki Skrtel aldrei úr liðinu, vegna þess að hann er hans týpa af varnarmanni. Ekki einusinni fyrir Kyrgiakos, sem þó hefur verið frábær upp á síðkastið. Skal þó glaður éta hatt minn er því er að skipta.

 14. Hvernig ætli að meðgangað hafi verið fyrir móður Dirk Kuyt? Ég sé það svo fyrir mér, frú þú átt von á barni 22. febrúar 1981, til hamingju. Einum mánuði síðar eða 22. júlí 1980. Til hamingju með frumburðinn frú, hann er algjörlega ofþroskaður, byrjaður að hlaupa um allt á fæðingarstofunno tekur 100 kg í bekk. Hann er líka að reyna við hjúkkurnar. Markaðstjóri Duracell rafhlaðna fá han til að leika kanínu í auglýsingum.
  Maðurinn er meistari!
  En ef það verður hápressa á morgun = 0-2 sigur
  Ef ekki 2-0 tap.

 15. Sammála flestu í upphituninni nema ALLS EKKI þessu:
  “Roy Hodgson þarf að prenta út stöðuna í deildinni og sýna mönnum hana face to face fyrir leikinn.”
  Það er algjört lykilatriði að einbeita sér að leiknum en EKKI töflunni, ef menn gera það þá eru menn á villigötum og farnir að einbeita sér að vitlausum hlutum. Það á að vera full einbeiting á leikinn og EKKERT annað, töfluna má skoða eftir leik, sér til gamans og vonandi til ánægju eftir leikinn gegn Wigan 🙂

 16. @11. Kristján.
  Ég vil meina að upphitunin sé fín, ef við spilum sama bolta á móti Chelsea þá þurfum við ekkert að ræða Wigan, hvorki veikleika né styrkleika, góða leikmenn né lélega og tactík heima og úti.
  En það er bara mitt álit =).

  Leikurinn leggst vel í mig, við pökkum þeim saman 4 – 0, Meireles með 2, Kelly 1 og Torres setur eitt.. Gerrard leggur upp öll fjögur.

  P.S. Gaman að því að ég fékk 3 sms á meðan Napoli leiknum stóð hvort þetta væri ekki Steini í stúkunni. Greinilegt að menn eru að fylgjast með.

 17. Heilir Félagar… Mikið er gott að geta farið að fara inn í leiki með sjálfstraust og stollt, eftir fína leiki upp á síðkastið, ég labba allavegana inn á pöbbin stoltur að horfa á strákana, vona bara að þeir haldi stoltinu fyrir sjálfum sér og berjist fyrir liðið. Ég mun stiðja þennan klúbb þar til ég dey og öruglega lengur, en bara ef þeir berjast fyrir stuðningsmennina, klúbbin, og sjálfa sig. Gerrard á móti napoli hefur ekki sýnt þessa baráttu og grimmd síðan í mái 2005. Sem er bara sign á gott.
  Mæta fokking graðir á morgun, ekki vera með neitt vanmat, bara mæta þeim eins og þeir séu að mæta chelsea aftur. 3 stig á móti chelsea eru kannski sætari og kærkomnari en 3 stig á móti wigan, en þetta er maraþon, og þegar öllu er á botni hvolft þá eru þetta bara sömu 3 stigin
  YNWA
  basic

 18. Sagði um leið og Howard Webb flautaði af á Sunnudag að þetta yrði 7 marka vika hjá Torres, 2 gegn Chelsea, 3 í kvöld og 2 gegn Stoke á laugardag….

  0-3 Torres ÞRENNA

 19. Skít sæmó upphitun. Vantar allt stöffið um Wigan.
  Hverjir eru hvað þar, hvar eru þeir í töflnni, hverjir eru meiddir o.s.frv. Vantar metnað í þig SSteinn?

 20. Það er leitt ef menn eru ósáttir við upphitunina, en ég tók það reyndar fram í byrjun að ég steingleymdi henni og lítill undirbúningur að baki henni.

  Ég viðurkenni það líka fúslega að ég hef ekki séð einn einasta leik með Wigan í vetur, svo mig minnir allavega. Að sama skapi er ég líka á því að ef menn halda áfram í sama horfinu, þá skiptir litlu máli hvernig leikkerfi og annað þeir nota, við eigum að vinna þennann leik ef menn bara halda áfram á sömu braut. Ég hafði hvorki tíma né nennu til að “analýsera” þeirra leiki og því setti ég einfaldlega fókusinn á stöðuna eins og hún er í dag. Yfirleitt fjallar maður aðeins um mótherjana, en fókusinn er jú alltaf fyrst og fremst á okkar menn. En tilgangurinn er heldur ekki að skrifa eitthvað “sem menn geta ekki sagt sjálfir”. Allt sem er skrifað hérna, geta menn sagt sjálfir, enda erum við bara bloggarar sem hér skrifum, engir tilskipaðir sérfræðingar, hvað þá um önnur lið í deildinni.

  Ég er líka ósammála því að það eigi ekki að sýna mönnum töfluna, stóri hvatinn hlýtur að vera að komast aftur í Meistaradeildina og í toppbaráttuna, og svo sannarlega er tækifæri til þess á næstunni.

  En ég bara hreinlega neita því að skammast mín eitthvað fyrir upphitunina, þetta er fyrst og fremst bloggsíða, auðvitað vill maður gera vel og að það sem maður skrifar sé eitthvað sem vit sé í, en in the end, þá skrifar maður fyrst og fremst til að svala þessari tjáningarþörf sinni.

 21. Ég væri til í að sjá eina breytingu á liðinu frá því í seinasta leik.
  Setja johnson á hægri kantinn og Kuyt á vinstri og Gerrard fram með Torres og hafa Lucas og Meirales á miðjunni.

 22. Konchesky var ágætur þegar það leið á Chelsea leikinn, en ég vil sjá Aurelio koma inn í liðið. Hann er mun betri sóknarlega og a.m.k. ekki verri varnarlega, þannig að ef hið ótrúlega gerist að hann nái sér form og smá rönn, þá held ég að hann eigi eftir að reynast okkur drýgri en Konchesky, til lengri tíma. Kelly var rúmlega solid í síðasta leik þannig að Johnson þarf að sýna meira en hann hefur gert á þessu tímabili ef hann ætlar að komast í liðið aftur, það er ekki nóg að heita bara Glen Johnson. Er ekki Kelly miðvörður að upplagi eða….?

  Eins og venjulega vona ég að kjúllarnir fái að vera á bekknum og koma inn á, og kannski Babel líka. Eccleston hefur t.d. verið frábær undanfarið og væri sennilega þegar orðinn fastamaður í mörgum Úrvalsdeildarliðum. Það væri óskandi að hann, Shelvey og Pacheco næðu að bora sér í liðið og við gætum verslað færri og dýrari (lesist betri) leikmenn.

  Vinnum öruggt ef við pressum, annars vinnum við með herkjum. Lucas færir sig upp á skaftið og skorar.

  Að öðru, er einhver með inside info á Agger? Sammála Ssteini um að þetta er hið undarlegasta mál og mér finnst alltaf vera e-r snúður á Hodgson þegar hann ræðir um Agger.

 23. SSteinn þú stendur þig vel! Líka fínt að fá fjölbreytni í upphitun. Ég tel líka að það fari svona aðeins eftir aðstæðum og andstæðingum hvað á að vera að taka fyrir í ,analísu.” T.d. eftir svona ,,slátrun” á Chelsea þá hefði ég ekki nennt að lesa fortíðar-analísu um Wigan, a la Arnar Björnsson 🙂 Fín upphitun og keep up the good work! Tökum Wigan í kvöld! Og vitið hvað…ég hlakka virkilega til að sjá Lucas Leiva spila í kvöld – hvursu absúrd er það!?

 24. “Mér finnst þetta nú frekar döpur upphitun”

  “hefur verið rosalega góða og finar upphitanir en nuna vantar meir um wigan og leikin sjálfan”

  “Skít sæmó upphitun”

  Sjaldan launar kálfur ofeldið segi ég nú bara.

 25. Þetta er nú bara fín upphitun verð ég að segja. Vil bara minna menn á að þeir sem skrifa inná þessa síðu eru ekki að vinna við það, heldur gera það í sínum frítíma þannig að þeim er ekki skylt að skrifa eitt né neitt.
  Fyrir þá sem eru að velta sér fyrir Wigan eru hættulegustu mennirnir þeirra án efa Charles N’Zogbia og Huga Rodallega en það á svosem ekki að skipta máli, ef við spilum almennilega eiga þeir allir að líta út eins og smápeð.
  @24 Irh: Og jú, ég held að Kelly sé upphaflega miðvörður.

 26. Mér finnst þetta vonlaus upphitun, ekkert um sögu borgarinnar (WIGAN) !! Ekkert um liðið, enginn brandari um tíma Titus Bramble hjá þeim og raun bara aum tilraun til að þröngva myndum af þér á okkur hina sem komum alveg grunlausir og í mesta sakleysi inn á þessa síðu!! Þetta er svona svipað sjokk og sýna opið beinbrot a la Henrik Larson! Ég ætla sko að segja upp áskriftinni!

  Nei oki, allt í góðu við að gagnrýna og t.d. Kristján bara að lýsa sinni skoðun. En eins og Steini bendir á þá er að ég held oftast mest lítið talað um hin liðin og hver upphitun er bara sú romsa sem kemur út úr manni hverju sinni, fékk allavega ekki póstinn frá KAR og EÖE um handritið af upphitun þó mig grunar að þar sé auðvitað blátt bann við myndum af Steina!

  En hvað þessa upphitun varðar þá er þetta annars mjög mikilvægur leikur, jafnt móralskt til að halda þeirri góðu stemmingu sem hefur verið að skapast í kringum liðið og eins auðvitað til að færast nær toppslagnum, eitthvað sem var ekki í pípunum þegar við vorum í næst neðasta sæti með fleiri mörk í mínus en ég hef áður séð hjá Liverpool. Svo ekki sé talað um að lappa upp á geðheilsu mína og koma mönnum í stuð fyrir bjórkvöld og pub quiz 🙂

 27. Fullkomlega sammála Diddanum, ef menn vilja einhverja breakdown á season Wigan so far þá er bara að joina áðdáendaklúbb Arnars Björnssonar (efast reyndar um að hann telji fleiri en hann sjálfan og kannski Hödda Magg) og fleiri slíka sem hata ekki að lesa uppúr einhverri tölfræðibók í hverjum leik. Þess má geta að knattspyrnustjóri Wigan er spænskur og skemmtileg staðreynd, Rafa Benítez fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool er akkúrat líka spænskur.

  Það er hundleiðinleg lesning og flott að skrifa bara um það sem vekur áhuga. Mér finnst t.d. alveg magnað hversu langt við getum í raun komist í töflunni eftir þetta léléga byrjun ef við drullumst til að vinna Wigan. Að því sögðu er ég ekki sammála því að það eigi að sýna leikmönnum töfluna til að mótivera þá þannig. Það er gamalgróin taktík að taka EINN LEIK Í EINU og ég held hún svínvirki.

  YNWA
  B.

 28. Með sigri eigum við séns á að komast í 5.sætið. Það er ótrúlegt miðað við byrjunina. Þessi leikur er fáránlega mikilvægur. Verðum að klára hann. Það er allt annar bragur á liðinu núna. Menn fara á fullu í alla bolta og gefa sig alla í þetta. Engin ástæða fyrir RH að breyta liðinu. Við tökum þetta, ég er sannfærður um það. Kæmi mér ekki á óvart að ofurmaðurinn Kuyt setti eitt kvikyndi.

 29. Mjög sáttur við upphitun, liðsuppstillingu og markatölu, ja mjög sáttur, ekki er hægt að gera öllum til hæfis á svo stórri síðu sem þessari.

 30. djöfull finnst mér vera komið rosa carragher touch á kelly í chelsea leiknum…. fanns hann rosa flottur

 31. Hlýtur að vera sama lið nema kannski Johnson inn fyri Kelly….

  Annars get ég ekki beðið eftir leiknum, langt síðan ég hef verið eins spenntur og er ég reyndar alltaf mjög spenntur fyrir Liverpool leikjum en það er einhver meðbyr núna yfir þessu og ekki skemmir að vita af þrennu Torres í kvöld, verður mjög skemmtilegt kvöld því á sama tíma og Torres setur þessa þrennu þá mun Tevez klára Man Utd…

 32. Þetta er hin prýðilegasta upphitun. Í þessum fjórtán leikjum er varlega hægt að áætla rúm 30 stig. Ef liðið kemst á gott run þá gætu stigin orðið nær 40 og þannig færi það auðvitað beint í toppbaráttu, allavega meistaradeildarbaráttu.

  En til að bæta þessa “skelfingar” upphitun og af því að það er lítið að gera í vinnunni núna þá koma hér smá upplýsingar um Wigan.

  Ein ástæða til að vilja sigur gegn Wigan er sú að bærinn, sem telur rúm 80.000 andlit, er á stór-Manchestersvæðinu. Nokkurs konar útborg Manchester. Þar er líka hverfi sem heitir Scholes sem dregið er af skandinavíska orðinu skáli. Sem þýðir að Paul nokkur Scholes gæti verið af skandinavískum uppruna. En nóg um það. Wigan á sér ekkert sérstaka sögu og það er ekkert sérstakt að sjá þarna en ein af fyrstu járnbrautalestum Bretlands lá þarna um og nutu Wiganbúar, rétt eins og Crewebúar, góðs af því. Bærinn kom við sögu í sögu Georgs Orwells “The road to Wigan Pier” sem fjallaði um fátæka fólkið í Bretlandi. (af Wikipedia)

  Lið Wigan er sem stendur í 18. sæti deildarinnar. Það leikur á velli sem heitir DW stadium, hét JJB stadium og hafa aðeins unnið einn af sex heimaleikjum haustsins, gegn Úlfunum. Töpuðu meðal annars 0-6 gegn Chelsea og 0-4 gegn Blackpool í upphafi tímabils og skarta lélegustu markatölunni í deildinni og líka lélegustu heimavallarmarkatölunni, 4-14. Yfirleitt er þessi ágæti völlur hálftómur á heimaleikjum og eitt sinn þegar ég fór á Anfield var möguleiki að fara á Wigan-Man. City en þeir vildu ekki selja miða til hlutlausra einhverra hluta vegna.

  Ali Al-Habsi hefur tekið markmannsstöðuna af fyrrum Liverpool manninum Chris Kirkland. Hann er ágætur í marki, en Morten Gamst Pedersen skoraði utan af kanti á hann í síðasta leik þannig að það er aldrei að vita nema Kirkland fái aftur sénsinn. Ef ekki þá er hann ekkert að farast úr sjálfstrausti.

  Vörnin var í síðasta leik skipuð Caldwell, Gohouri, (ekki Jaap) Stam og Figueroa sem ég veit ekkert um nema Figueroa. Hann er öflugur bakvörður en ég hef grun um að Fernando Torres og Dirk Kuyt geti leikið þessa haffsenta ansi grátt.

  Á miðjunni voru Alcaraz, N´Zogbia, Diame, Thomas og Gomez og N´Zogbia er kannski sá sem þarf að fylgjast með af þeim, hefur verið ansi heitur undanfarið. Rodallega er síðan senterinn og hann hefur skorað megnið af mörkunum þeirra, 3 stykki.

  Roberto Martinez er síðan einn af efnilegri þjálfurum deildarinnar og hann hefur breytt liðinu úr kraftfótboltaliði í fótboltalið og þótt þeir fái skelli reglulega þá reyna þeir yfirleitt að spila fótbolta. Ólíkt sumum öðrum félögum í deildinni.

  En Wigan er í ansi vondum málum í deildinni og eru eitt þeirra liða sem eru líkleg til að falla. Það er hárrétt sem kemur fram í upphituninni, ef okkar menn spila af fullum krafti þá þarf ekkert að spá í þetta lið, leikmennirnir eru ekki mikil ógnun, að undanskildum N´Zogbia og Rodallega, vörnin er ekki sterk og markvarslan hefur ekki verið góð. 2-0 sigur ætti að vera sanngjörn krafa!

 33. SSteinn, þú mátt ekki mógðast. Þið settuð þennan standard upp fyrir síðuna ekki ég. Og aðrir hreinlega öfundast út í okkur púllara að eiga svona góða síðu. Það þýðir að það eru gerðar meiri kröfur til ykkar fyrir vandaða pistla, leikgreiningar og upphitanir.
  Svo má þessi síða ekki breytast í einhvern helvítís jákór.

  Og hananú.

  YNWA.

 34. Móðgaðist bara akkúrat ekki neitt Árni Jón, skrifaði bara svar (að ég hélt mjög yfirvegað) og skýrði betur frá þessu, en móðgaðist ekki neitt. Hlýt að mega svara gagnrýni og held nú að ég hafi ekki tekið hana neitt óstinnt upp. Allavega var það alls ekki ætlunin.

 35. Fyrir mér er ekki mjög flókið að henda inn smá upplýsingum um andstæðinginn. Ég er ekki að biðja um sögu liðsins eða leiðinda tölfræði ala Arnar Björnsson. Til dæmis bara að Wigan situr 18 sæti deildarinnar og því í fallsæti (við munum vel hvernig var að sitja þar og megi allar vættir forða okkur frá því að það endurtaki sig). Þeir hafa skorað fæst mörk allra liða í deildinni og fengið næstflest á sig. Töpuðu fyrstu leikjunum mjög illa en hafa síðan þá sótt eilítið í sig veðrið. Fá nánast alltaf á sig mörk svo vörn og markvarsla virðast ekki burðug. Ef skoðuð er aðeins fjöldi skota sem þeir eiga á mark andstæðinga þá eru þeir nokkuð aggressífir á heimavelli. En á móti kemur að undanfarið hafa þeir verið að spila við lið í sínum styrkleika.

  Ef Liverpool spilar af sama eldmóð og s.l. sunnudag þá vinnst þessi leikur og vonandi nokkuð sannfærandi. Wigan virðist ekki vera með gott lið og ekkert annað en sigur kemur til greina, annað væri skandall. Pressa hátt upp á velli og færin skapast. Eins og Torres sagði eftir leikinn á móti Chelsea, það verður að sýna miðlungs og lélegum liðum Liverpool spilar ekki bara vel á móti toppliðunum.

 36. er ekkert búið að leka út í sambandi við byrjunarliðið? og ef ekki gætuði nokkuð látið url hingað þar sem það kemur stundum fram svo maður getur sjálfur fylgst með því? 🙂

 37. Menn virðast allavega hafa peppast e-ð upp við eigendaskiptin. Hvernig er rönnið síðan þá? er það ekki 1 tap og 4 sigrar?

 38. Reyndi að kíkja á staði hér á veraldarvefnum þar sem líklegt væri búið að leka út byrjunarliðinu, hins vegar uppskar ég ekkert úr því erfiði.

  Eina sem ég fann var það að Johnson væri orðinn heill og væri í hóp í kvöld og að Soto væri ennþá veikur. Þá sá ég að Babel væri líka orðinn 100% fit en ólíklegt að hann kæmi inn í hópinn (enginn eldflaugavísindi þar á bakvið).

 39. Eitt er pottþétt varðandi byrjunarliðið!

  Ryan Babel er í hóp, ef ekki bara í byrjunarliðinu, hann hefur nefnilega ekkert tjáð sig á Twitter í allan dag!!!

 40. Flott og hnitmiðuð umfjöllun sem segir allt sem að segja þarf. Hefði aldrei nennt að lesa einhverja langloku um Wigan og ef ég hefði áhuga á því (sem ég geri alls ekki), þá er ég það góður í engil-saxneskunni að ég hefði einfaldlega flett borginni eða liðinu upp á Wikipedia.
  Það kom ótrúlega flott umfjöllun hérna um daginn fyrir leikinn á móti Napoli, enda ekki á hverjum degi sem að við mætum svona sérstöku liði frá Ítalíu. Núna er hins vegar útileikur á miðvikudagskvöldi á móti Wigan…og málið er einfalt, við verðum að vinna! Og til þess, verð ég að vera sammála mörgum hérna, að halda óbreyttu vinningsliði. Yrði þó enginn skaði af því að láta Johnson og/eða Aurelio í liðinu, þ.e.a.s. ef að þeir eru orðnir 100%. Held að með innkomu þeirra yrðum við sterkari sóknarlega upp vænginga. Væri þó vitlaust að taka einhverja áhættu með þá, og sérstaklega með Aurelio, enda vel brothættur eins og við þekkjum.
  Að hafa Kuyt í byrjunarliðinu er mjög mikilvægt enda er hann maður sem gefur 120% í hvern einasta leik, skiptir ekki máli þótt það sé úrslitaleikurinn í meistaradeildinni eða útileikur á móti Wigan á köldu miðvikudagskvöldi. Torres var frábær á móti Chelsea en spurningin er hvort hann sé jafn spenntur fyrir leiknum í kvöld. Við höfðum verið þekktir fyrir að spila vel í stóru leikjunum þegar að Benítez var stjóri en tapa síðan gegn miklu minni spámönnum. Ég vona innilega að það sama muni ekki eiga við Hodgson, heldur að hann geti mótiverað leikmenn fyrir hvern einn og einasta leik, því að þá getum við farið að ná árangri.

 41. Þegar ég las upphitunina í gærkveldi ran hún hrikalega vel niður og fannst nálgunin á leikinn mjög góð og hnitmiðuð. Liverpool á að vera það gott lið að andstæðingurinn skiptir ekki máli í 95% tilfella og Wigan eitt af þeim liðum. Annars er það bara sigur og ekkert annað en sigur sem kemur til greina því ef niðurstaðan verður önnur verða menn fljótir að ráðast á framkvæmdastjórann og umfjöllunin um klúbbinn okkar verður aftur neikvæð.

  YWNA

 42. Eru einhverjir hér inni sem vita ekki hvaða lið Wigan er? Hvað þá heldur vita ekki hverjir Wig Wam eru?

  Það er ekki eins og að þett sé eitthvað lið sem við höfum ekki spilað við áður sbr. Napoli fram að þessu. Persónulega finnst mér mismunandi upphitanir skemmtilegar. Hver penninn með sinn stíl sem dregur misjafnlega vel úr vanlíðan okkar púlara.

  Skemmtileg samlíking við kálfa……..höfum bara gaman af þessu, enda liðið á ágætu róli, og horfum bara á þessa til að kippa í stuðstrengina hjá okkur http://www.youtube.com/watch?v=0XIyCKgA8z8

 43. Fínasta upphitun þrátt fyrir að flest af þessu væri eitthvað sem maður gat nú sagt sér sjálfur. Þetta er einfaldlega ekkert flókið, það þarf ekki að laga það sem er ekki bilað. Fótbolti og íþróttir almennt eru að mínu mati um 70% andlegar eins og sést hefur á okkar ástkæra Liverpool liði í byrjun leiktíðar, þessir menn urðu ekkert allt í einu lélegir í fótbolta og hvað sem tautar og raular um taktík Hodgson (sem VAR gagnrýnisverð) þá hef ég lengi haft þá skoðun að ef Reina hefði ekki misst þennan örlagaríka bolta inn á móti Arsenal þá hefði tímabilið hafist öðruvísi. Í stað þess að fá góðan heimasigur, einum færri gegn einu besta liði landsins, misstum við unninn leik niður í jafntefli með óþarfa klaufaskap. Það í bland við gamaldags rúst gegn City í næsta leik átti þátt í því að berja væntingarstig og þar með sjálfstraust, bæði leikmanna og stuðningsmanna, óþarflega langt niður. Því miður var 1-0 sigur gegn WBA ekki nóg til vinna sjálfstraustið til baka enda skyldusigur þannig séð og úrslitin sem á eftir komu því skólabókardæmi um lið með enga trú á sjálfu sér.

  En núna, loksins loksins, eftir að hafa barið í gegn 2 baráttusigra sem ekki voru fallegir, gegn Blackburn og Bolton og svo stórkostlegur sigur gegn besta liði deildarinnar, held ég að við getum með sanni sagt að sjálfstraustið sé komið aftur. Þar sem fyrri staðhæfing mín fullyrti að fótbolti væri 70% andlegur, get ég ekki annað en spáð því að Liverpool sigri Wigan í kvöld. 0-3. Torres, Meireles og Lucas nær loksins að skalla boltann úr hornspyrnu án þess að loka augunum.

  Annars var þetta fín upphitun hjá þér Steini, gaman að segja frá því að þegar ég var 15 ára gamall fór ég á minn fyrsta leik á Anfield, gegn Manchester apríl 2001. Ég sat fyrir ofan þig í stúkunni man ég og hoppaði ofan á þig þegar Gerrard nelgdi einum pilldriver upp í samskeytin framhjá Barthez, ógleymanlegt. Góðar minningar.

  YNWA

 44. Alltaf gaman að lesa góða pistla um andstæðinginn sem einhverjir góðir pennar hafa tekið saman. Ef ég þarf að fá einhverjar frekari upplýsingar þá bara leita ég þær sjálfur uppi. Þannig að fyrir mér þá var þessi upphitun í ágætu lagi.
  En að leiknum sjálfum þá vil ég óbreytt lið og sigur sem gerir þá 3 stig og Liðverpool komið í baráttusæti. Síðan væri það bara bónus að keyra á Wigan menn á fullu í fyrrihálfleik og skora nokkur mörk þannig að hægt væri að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri.
  En númer eitt tvö og þrjú er að ná í 3 stig.

 45. Enn hraunar Henry Birgir yfir leikmenn Liverpool og segir að Ngog sé ekki mikil markamaskína! er hann ekki markahæsti leikmaðurinn okkar?

 46. Aldrei átti ég nú von á því að taka upp hanskann fyrir Henrý Birgi, en það að Ngog sé markahæstur Liverpool leikmanna gerir hann sannarlega ekki að “markamaskínu”.

 47. Hörður: Gaman að heyra, ég var þar líka á mínum fyrsta leik, 28 ára gamall!! Hoppaði ekki á Sstein reyndar en átti góðar stundir með góðum púllurum…

 48. Skulum nú ekki vera að eyða orðum í Henrý Birgir. Hann er…..já… enough said

 49. Vonandi vinnum við Wigan og höldum áfram að spila eins og við gerðum á móti Chelsea. En mikið er ég orðin þreyttur á hvað eru margir meðalmenn í Liverpool sem verða aldrei neitt og allir ungu strákarnir á bekknum sem eiga að vera mjög efnilegir. Eins og flestir liverpool menn þá var ég mjög ánægður að Paulsen kom ekki inná á móti Chelsea, því að þessi hræðilegi Dani á alls ekki að spila fyrir Liverpool. Hodgson virðist ætla að kaupa með skammtímamarkmið í huga eins og Paulsen og Konchesky. Reyndar var Konchesky ekki svo slæmur á móti Chelsea en hann er samt glataður með boltan, ég held að hann sé lélegir að senda boltan heldur en Sissoko var. En við eigum að eiga helling af mjög góðum unglingum eins og Shelvey sem komst í liðið hjá Charlton 16 ára og var búin að spila um 70 leiki fyrir þá áður en við keyftum hann. Pacheco fékk gull skó á síðasta u19 móti og á að vera einn efnilegasti leikmaður í sínum aldursflokki. Wilson var kosin efnilegasti leikmaður Skosku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og spilaði með Rangers megnið af tímabilinu sem unnu deildina með 20 stigum eða eitthvað. Afhverju eru þessir menn ekki látnir spila meira? Og menn eins og Paulsen, Jovanovic, Konchesky og Skrtel seldir sem fyrst. Jovanovic hefur ekkert sýnt eftir að hann kom. Og Skrtel finnst mér ekkert geta. Hann er ekki góður að skalla bolta, eða tækla, eða dekka, hann er heldur ekki fljótur að hlaupa. Mig minnir að Gerrard hafi ekki átt stjörnuleiki þegar hann komst í liðið fyrst en mikið hefur nú ræst úr honum. Leikmenn verða ekki góðir á að stitja á beknum. En mér fannst gaman að sjá Kelly í liðinu í síðasta leik, stóð sig bara ágætlega. Það sem ég vill sjá, selja meðalleikmenn og nota peningana til að kaupa stjörnuleikmenn (auðvitað munum við ekki kaupa janfmarga stjörnuleikmenn) og svo látum við unga menn spila, því að þeir geta ekki verið mikið lélegri en þessir meðal menn en munurinn er að ungir menn gætu orðið góðir einhverntíman.

 50. Fínasta upphitun 🙂 Vona allavega að Meireles fái sitt Liverpool mark og að við vinnum leikinn 😀

 51. Jæja Ryan Babel er vaknaður og kominn á Twitter, og búinn að staðfesta að hann er enn meiddur. Þannig að byrjunarliðið er komið á byrjunarreit aftur! 😉

  • man ég og hoppaði ofan á þig þegar Gerrard nelgdi einum pilldriver upp í samskeytin framhjá Barthez

  Þetta hefur greinilega verið að virka og því mæli ég með að þeir sem horfa á leiki með Steina taki upp á þessu aftur þar til það er alveg öruggt að þetta skipti ekki máli upp á gengi liðsins!

 52. Meireles setur tvö mörk í kvöld og Torres eitt. Tökum þetta lauflétt 0-3.

 53. Þetta er bara fínasta upphitun og ég ætla ekki að setja neitt út á hana. Hef heldur yfirleitt ekkert sérstakan áhuga á að lesa um hin liðin heldur einbeita mér af mínu ástkæra Liverpool liði.

  Ég spái 0 – 4 fyrir Liverpool. Torres setur 2, Gerrard 1 og Mereiles bindur endahnút á málið með lokamarki á 80 mínútu.

  Annars smá kvart. Ég sendi fyrirspurn á Liverpool klúbbinn með spurningu varðandi miða á leiki eftir áramót og það hefur ekki svo mikið sem verið svarað mér með neikvæðum orðum. Mér finnst það mjög lélégt að ekki skuli vera svarað manni við fyrirspurnum. En það kemur þessari síðu vitanlega ekkert við !!

 54. Haukur (#59)

  Ég er aðeins tengdur Liverpool klúbbnum og þykir leitt að heyra að enginn hafi svarað þér. Geturðu sagt mér á hvaða netfang þú sendir á ? Þú getur líka sent mér póst á gretar@liverpool.is og ég kem fyrirspurninni áfram til réttra aðila.

 55. 59..

  mér skilst að það sé ekki enn ljóst á hvaða leiki klúbburinn fer eftir áramót.. Það er væntanlega útaf því sem þú ert ekki kominn með svar..

  Ég er sjálfur að spá mjög alvarlega að fara út eftir áramót og er að bíða eftir að ljóst verði á hvaða leiki klúbburinn fer.

 56. Liverpool team to face Wigan: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Konchesky, Lucas, Meireles, Gerrard, Kuyt, Maxi, Torres.
  Subs: Hansen, Shelvey, Eccleston, Spearing, N’gog, Poulsen, Jovanovic.

  Mér líst vel á þetta ef þetta er liðið, það er engin ástæða að breyta sigurliði en Johnson virðist vera meiddur ennþá.

 57. Sáttur með óbreytt byrjunarlið. Mér finnst samt skrítið að þegar okkur vantar fullt af mönnum að þá kemst Pacheco samt ekki á bekkinn?

 58. kíkti á Comolli greinna sjá komment nr. 55…. hvaða grín er að Bale sé verðlagður á 45 milljónir punda þar? Sem dæmi fór David Villa á um 40 milljónir evra, sem er ca. 35 milljónir punda, til Barca í sumar… m.v. þetta verðmat Tomkins og félaga þá gæti ég trúað að Torres sé metinn á ca. 200 milljónir punda 🙂

 59. 64

  Ég kíkti líka aðeins á þetta. Mér fannst þetta líka smá skrítið. Einnig að aðeins 6 af 26 leikmönnum sem Damien Comolli keypti voru seldir á meiri pening eða eru metnir á meiri pening í dag. Séstaklega ef tekið er mið af því að meðalaldur þeirra leikmanna sem hann keypti voru 23.5 ára. Það er þá ekki eins og þeir voru að lækka í verði vegna aldurs.

  Ekki að ég sé eitthvað að setja mikið út á hann, þarf að skoða hans mál aðeins betur fyrir það. En mér finnst þetta verskulda smá gagnrýni því mér finnst allir vera að hrósa honum blint.

 60. Þetta verð á Bale er ég búinn að lesa á fleiri stöðum, þannig að það er ekki eins og þessi skýrsla sé að búa til tölur.

  Annars er ég orðinn helvíti spenntur fyrir leiknum í kvöld, ég er orðinn nokkuð sannfærður um að þetta verði nokkuð stór sigur. Ég ætla að skjóta á 4-0 þar sem Torres skorar tvennu, og svo ætla ég að skjóta á að Meireles skori glæsilegt mark.

  Annars er ég sammála þeim sem hafa kommentað hér um fjarveru Pacheco. Þetta er hið undarlegasta mál. Vonandi á þetta sér þó eðlilegar skýringar og vonandi kemur hann til með að fá tækifæri til að skína í vetur. Mér fannst það góðs viti í sumar þegar hann fékk treyju númer 12, ég hélt að það þýddi að hann yrði talsvert mikið í hópnum, en annað hefur því miður komið á daginn.

 61. varðandi Liverpool liðið í heild að þá er nokkuð ljóst að það virkar best þegar menn eru að spila sínar stöður og byrjunin á því er sú að Kuyt fékk loksins eftir langa bið að spila sína stöðu og því blómstrar hann og leggur upp glæsilegt mark, eins var Carra að spila sína stöðu og snna henni vel, Lucas var einnig að spila þá stöðu sem hann er bestur í og var að fá fína hjálp frá öðrum miðjumönnum sem og varnarmönnum.
  Við Liverpool menn höfum hinsvegar verið ákaflega duglegir við að gagnrýna leikmenn sem er hent í stöður sem er alls ekki þeirra og má þar nefna Kuyt, Babel, Jovanovic, sem eru allir strikerar en eru látnir spila kant, Carra sem er miðvörður en er látinn spila bakvörð (eins og í gamla daga þó).
  Mereiles, sem er djúpur miðjumaður en ekki kantmaður. Svo eru ansi margir sem eru að dæma Poulsen sem er alveg ósanngjarnt, því hann er lyftuvörður en ekki knattspyrnumaður. Því er alveg ljóst að þegar þessir 13 landsliðsmenn fá að spila sínar stöður þá er liðið að virka. En rólegir, ég er ekki að segja að þetta hafi verið eina vandamálið undanfarin ár en vil samt gjarnan benda á þetta.
  Svo er það alveg ljóst að Ssteinn á að skammast sín og selja tölvuna sína fyrir algjörlega óboðlega upphitun, hann minntist t.d. ekkert á hvernig fæðubótarefnum leikmenn Wigan eru á né talaði hann um hvaða tónlist Chris okkar Kirkland líkar að hlusta á þegar hann vill slaka á við kertaljós.

 62. “Svo eru ansi margir sem eru að dæma Poulsen sem er alveg ósanngjarnt, því hann er lyftuvörður en ekki knattspyrnumaður”

  Þetta er eitt albesta komment sem ég hef lengi séð 🙂

 63. Bale finnst mér stórlega ofmetinn. Hann er mjög góður og efninlegur en 50 milljón punda virði? Það finnst mér ekki. Það er alltaf svona hype í kringum leikmenn þegar þeir skora mörk í stórum leikjum og svo deyr það út.

 64. Hvad eru menn ad kvarta ??? Er thetta ekki allt unnid i sjalbodavinnu her ?? Menn eiga ad vera thakklatir fyrir thessa frabæru sidu !!

Björkvöld á föstudaginn / Opin umræða

Liðið gegn Wigan