Heimaliðið og NESV

Menn höfðu lengi rætt daginn í dag, föstudaginn 15. október, sem vendipunkt í eigendasögu Liverpool FC. Sú dagsetning reyndist vendipunktur en ekki á þann hátt sem menn óttuðust, því í stað þess að Royal Bank of Scotland settu félagið í greiðsluþrot vegna vangoldinna skulda og kölluðu yfir knattspyrnuliðið níu stiga víti í Úrvalsdeildinni lánaðist okkur það að sjá endanlega á bak Tom Hicks og George Gillett Jnr. sem eigendur félagsins. Í þeirra stað kom fjárfestingahópurinn New England Sports Ventures, eigendur Boston Red Sox í Bandaríkjunum og fleiri íþróttaliða.

Lygarar.

Um fráfarandi eigendur félagsins er best að segja sem minnst. Við þurfum ekkert að rekja þriggja og hálfs árs eignartíma þeirra hjá LFC né heldur atburðarás síðustu daga. Þessi ár eru stuðningsmönnum Liverpool í fersku minni. SSteinn ritaði við yfirtöku þeirra fínan pistil sem lýsir ágætlega hugarfari manna í garð nýju eigendanna. Traustið til David Moores, fráfarandi stjórnarformanns, var mikið og menn vildu trúa því að hann hefði valið rétta aðila, auk þess sem þeir Hicks og Gillett lofuðu öllu fögru. Rúmum þremur árum síðar, við brottrekstur Rafael Benítez í sumar sem knattspyrnustjóra, ritaði ég pistil um lygar og brotin loforð eigendanna sem ég stend ennþá fyllilega við.

Ef þið lesið pistil SSteins og svo minn í kjölfarið held ég að það gefi ágætis mynd um það hversu fáránlega miklir sekkjarkettir þessir pésar reyndust vera og ef það var einhver sem var ekki alveg kominn á þá skoðun í byrjun október held ég að framganga þeirra, og þá sérstaklega Tom Hicks, síðustu níu daga, hafi gulltryggt hver arfleifð þeirra verður í sögu Liverpool FC. Þeir komu, þeir lofuðu, þeir lugu, þeir reyndu allt til að hagnast, þeir breyttu klúbbnum í gangandi sápuóperu og reyndu á endanum að kalla enn meiri ógæfu yfir fyrirtækið með bellibrögðum í réttarsölum vestan hafs þessa vikuna. Allt í nafni eigin gróða, á kostnað liðsins sem þeir þóttust bera svo mikla virðingu fyrir þegar þeir eignuðust félagið.

Farið hefur fé betra.


Heimalið Broughton, Ayre og Purslow ásamt John Henry.

Í þeirra stað kemur hópur sautján bandarískra fjárfesta sem kalla sig því ágæta nafni New England Sports Ventures. Um þá er óþarfi að fjölyrða núna en ég bendi forvitnum á að horfa á feykigott 6-mínútna kynningarmyndband um fyrirtækið á heimasíðu bandarísku MLB hafnaboltadeildarinnar. Eins og frægt er eiga þeir eitt stærsta hafnaboltaliðið þar í landi, Boston Red Sox, sem er eina liðið sem vann titilinn þar í landi tvisvar á síðasta áratug, eftir að hafa ekki unnið titilinn í 86 ár þar áður. Það voru Henry og félagar í NESV sem eignuðust félagið 2001 og brutu bölvun Babe Ruth á bak aftur þremur árum síðar. Við verðum að vona að þeir geti unnið svipuð kraftaverk hjá Liverpool FC en þetta sigursælasta félag Englands hefur nú ekki unnið titilinn í heil tuttugu ár.

Það er hins vegar alveg ljóst að þótt þetta fyrirtæki líti talsvert betur út á pappír en fráfarandi eigendur að þá munu stuðningsmenn Liverpool engu treysta. Í dag fögnuðum við því að vera laus við Hicks og Gillett en tókum jafnframt á móti NESV með varkárni og vantrausti. Þeir þurfa að öðlast traust okkar og ólíkt fyrri eigendum, sem héldu að það væri nóg að lofa upp í ermina á sér, þá virðast þessir menn átta sig á að það eru verkin sem tala hæstri röddu, allavega ef eitthvað er að marka viðtöl við Henry í dag þar sem hann ítrekaði hvað eftir annað að hann vildi engu lofa heldur bað fólk bara að dæma þá félaga í NESV af verkum sínum á komandi mánuðum og árum.

En til hvers ætlumst við eiginlega af þeim? Að mínu mati getum við súmmerað kröfur okkar til nýju eigendanna upp í nokkur einföld atriði…

Fyrst, að skuldsetja klúbbinn ekki eins og fráfarandi eigendur gerðu. Afborganir af lánum til Royal Bank of Scotland voru orðnar svo háar að þótt klúbburinn sjálfur væri í góðum rekstri og skilaði hagnaði hvarf sá hagnaður, og undir það síðasta leikmannasölur líka, inn í skuldasúpuna í stað þess að fara í að styrkja liðið. Með yfirtökunni í dag borguðu NESV upp lánið til RBS og er Liverpool FC því í dag skuldlaus klúbbur, fyrir utan eðlilega rekstrarrisnu. Eina loforðið sem Henry gaf fréttamönnum í dag var að hann myndi ekki skuldsetja félagið vegna yfirtökunnar og honum er hollara að standa við þau orð.

Í öðru lagi er mikilvægasta mál félagsins til framtíðar þróun heimavallarins. Það er óljóst hvað þeir ætlast fyrir, hvort þeir vilja byggja nýjan völl eða þróa Anfield og ég efast um að þeir séu búnir að ákveða það sjálfir svo snemma í ferlinu. Það var óvinsæl ákvörðun hjá þeim á sínum tíma að þróa Fenway Park, heimavöll Red Sox, í stað þess að byggja nýjan völl en útkoman var glæsileg og félaginu til sóma. Þá jók það enn á vinsældir þeirra að halda í sögu Fenway Park sem er tilfinningalega tengdur aðdáendum félagsins, á svipaðan hátt og við tengjumst Anfield öll tilfinningaböndum. Ef þeir geta þróað Anfield með einhverjum hætti svo úr verði fornfrægur völlur sem bæði hýsir frægustu stúku í heimi, ótrúlega sögu og um leið mikið af VIP-boxum og allavega 60 þúsund áhorfendur held ég að fáir muni kvarta. Það verður spennandi að fylgjast með hvaða leið þeir velja að fara í þessum málum.

Í þriðja lagi er, eins og hefur bersýnilega komið í ljós á fyrstu mánuðum tímabilsins, algjörlega nauðsynlegt að styrkja leikmannahópinn strax í janúar og áfram í næstu leikmannagluggum þar á eftir. Þegar Hicks og Gillett tóku við liðinu var það ekki skammt frá toppi ensku deildarinnar og á leið í úrslit Meistaradeildarinnar í annað sinn á þremur árum en þökk sé skuldsetningu þeirra hrapaði liðið frá því að vera með tindinn í augsýn og liggur nú ökklabrotið og súrefnislaust við grunnbúðirnar. Hér bíður mikið verk nýju eigendanna og einn stærsti þáttur þessa verks verður eflaust að skoða gengi liðsins á næstu vikum og ákveða hvort þeir treysta Roy Hodgson eða einhverjum öðrum fyrir því verki að koma Liverpool FC aftur á toppinn.

Margir stuðningsmenn liðsins hafa þegar gert upp hug sinn varðandi Hodgson á mettíma en það er ljóst að hann fær tíma til að sanna sig í jákvæðu umhverfi á næstu vikum og því kalla ég eftir því að stuðningsmenn Liverpool sýni honum þolinmæði … allavega næstu vikurnar. Ef ástandið batnar ekki fljótlega vitum við öll að það verður einhver annar sem sér um innkaupin í janúar en best fyrir Liverpool væri að sjálfsögðu að hann rétti úr kútnum með þetta lið strax á sunnudaginn gegn Everton og liti aldrei um öxl aftur.


Þetta eru helstu verkefnin, í mjög einfölduðu máli, sem bíða nýrra eigenda en þó er vert að minnast á eina kröfu sem ég geri til þeirra og vona að sem flestir séu því sammála. Í fleiri áratugi var það háttur Liverpool FC að sinna sínum málum á virðingarverðan hátt. Mál voru leyst innandyra en ekki viðruð í fjölmiðlum og klúbburinn var þekktur sem virtasta stofnun enskrar knattspyrnu. Frá og með haustinu 2007 fór þessi virðing út um gluggann og síðan þá höfum við mátt búa við endalaus rifrildi og pólitískar árásir fyrir opnum dyrum á milli eigenda, stjórnarmanna og knattspyrnustjóra. Ég vona innilega að nýir eigendur og nýr knattspyrnustjóri – hvort sem hann heitir Roy Hodgson eða eitthvað annað – geti unnið saman að því að gera Liverpool FC aftur að ekki bara sigursælu knattspyrnuliði heldur virtri knattspyrnustofnun.

Að lokum langar mig til að senda kveðju til stuðningsmanna Leeds United, Southampton FC, Portsmouth FC og fleiri liða svo sem Dundee sem í dag urðu nýjasta félagið til að lenda í gjaldþroti vegna lélegs reksturs fyrirtækisins í kringum knattspyrnuliðið. Vafasamir viðskiptahættir eru að verða krabbamein á knattspyrnumenningunni um allan heim og þetta er einna verst á Bretlandseyjunum. Eins pirrandi og síðustu þrjú ár hafa verið okkur Liverpool-stuðningsmönnum skulum við minna okkur á það í dag að við sluppum að lokum með skrekkinn og getum haldið upp Úrvalsdeildartöfluna strax, án of mikils skaða eða fjöldaflótta lykilleikmanna.

Liðin sem ég taldi upp hér að ofan voru ekki svo heppin og eru enn að jafna sig eftir hrun sem tengdist knattspyrnumálum ekki neitt. Það er einfaldlega rangt að viðskiptamenn og eigendur geti keyrt knattspyrnufélög í jörðina, jafnvel þegar lið eru að ná árangri eins og gerðist hjá Leeds og Portsmouth, og ég vona að við sjáum reglubreytingar sem gera mönnum ómögulegt að reka knattspyrnufélög með þessum hætti.

Og já, það á við um vini okkar, aðdáendur Man Utd líka. Ég hef rætt við mýmarga slíka undanfarna daga og þeir virðast flestir gera sér grein fyrir að sápuóperan sem hefur umkringt Liverpool síðustu daga gæti reynst vera lítið annað en minniháttar upphitun fyrir Broadway-söngleikinn sem þeirra klúbbur gæti staðið fyrir á næstu árum ef Glazer-fjölskyldan réttir skuldastöðu fyrirtækisins ekki við. Okkur þykir gaman þegar Man Utd tapa stigum á knattspyrnuvellinum en áður en einhverjum dettur í hug á næstu árum að fara að gleðjast yfir óförum þeirra vegna reksturs fyrirtækisins, þegar United ætti umfram alla aðra klúbba að vera öruggur með sitt vegna þess hve frábærlega fyrirtækið hefur verið rekið síðustu áratugina, þá er gott að minna sig á hvernig okkur leið undir ofríki þeirra Hicks og Gillett áður en við förum að nudda salti í sár þeirra.

Vonandi kemur aldrei til þess. Vonandi verða Man Utd áfram sterkt afl í enskri knattspyrnu þar sem þeir geta haldið áfram að berjast við erkifjendur sína, Liverpool FC. Ég vona jafnframt að undir stjórn nýrra eigenda muni Liverpool tryggja að vel rekið félag Man Utd muni vera nákvæmlega þar sem þeir eiga að vera – skrefi á eftir okkur.

Velkomnir til Liverpool NESV. Ekki voga ykkur að bregðast okkur.

67 Comments

 1. Vel mælt og ágæt stöðuúttekt, mæli samt með að myndinni með greininni af þeim g&h verði eytt

 2. Frábær pistill, fáu við hann að bæta ef eitthvað er og ekkert hægt að setja út á summeringuna. Kemur allt fram sem ég tel að séu kröfur stuðningsmanna til nýrra eigenda. Vonandi horfum við fram á framúrskarandi árangur á öllum sviðum á komandi árum. Ég bugta mig og begi fyrir svona skrifum. Er ekki frá því að nú sé maður orðinn spenntur fyrir leiknum á sunnudaginn.

  High Five á alla línuna. Það er föstudagur og maður fær ekki betra veganesti inn í helgina en að vita til þess að ruslakallarnir eru farnir út.

 3. Góð viðtöl við Purslow, Broughton og auðvitað John Henry á http://www.liverpoolfc.tv/video/

  Ég er hæstánægður með brottför G&H en einnig ánægður með það sem ég hef séð og heyrt frá John Henry. Virðist vera róleg týpa og einlægur sem ég kann vel að meta eftir innantómt bravado fyrri eiganda. Ég býð auðvitað eftir sönnunum í verki, en….

  Ég er bjartsýnn á framtíðina!

 4. Frábær pistill Kristján,ef ég hef einhvertímann verið í vafa um þessa spjallsíðu,þá er ég það ekki lengur,takk fyrir frábæra upplýsingjagjöf og þið pistlahöfundar eruð búnir að vera hreint út sagt stórkostlegir síðustu daga,,,,TAKK FYRIR 🙂

 5. Frábær póstur hjá þér enda var ekki við öðru að búast á þessari síðu, þessi síða er búinn að halda manni gangandi seinustu daga.
  En að Hodgson, hann var ráðinn sem skammtímalausn held ég enda maðurinn kominn á seinni hluta sín ferils og núna taka við liðinu menn sem geta komið Liverpool aftur í að verða eitt stærsta og merkilegasta félag evrópu og ég myndi vilja sjá ungan metnaðarfullann þjálfara taka við á næstu vikum sem getur byggt þetta félag upp í að verða það sem að við allir viljum sjá.
  Slíkt tekur tíma og ég held einfaldlega að Hodgson sé ekki rétti maðurinn í það verkefni og því ætti hann kannski ekki að vera sá maður sem myndi sjá um innkaupin í janúar.
  Frank Rijkaard er ungur og skemmtilegur þjálfari sem myndi láta liðið spila betri fótbolta en við höfum séð undanfarið.
  Hann er búinn að þjálfa Holland, Barcelona og Galatasaray og ég held að hann gæti orðið fantagóður hjá okkur.

  Manuel Pellegrini er ekki nema 6 árum yngri en Hodgson en þetta er mjög góður þjálfari sem hafði áhuga í sumar en LFC vilduEnskan mann í starfið.

  Didier Deschamps er 42 ára og sennilega sá sem ég er mest spenntur fyrir en hann neitaði Liverpool í sumar en það var svo sem skiljanlegt miðað við stöðuna sem félagið var í og ég held að núverandi eigendur myndu alveg getað sannfært hann um að koma til okkar.

  Svo eru einhverjir sem myndu vilja sjá King Kenny taka við en ég er ekki viss um að það sé góða lausn á okkar málum.

  Svo er það þessi hérna Michael Laudrup sem ég er hvað mest spenntastur fyrir enda er þetta frábær stjóri sem spilar mikinn og skemmtilegan sóknarleik og hefur náð góðum árangri.
  Hann er ekki nema 46 ára og er kominn með fína reynslu og hann myndi án efa ná að gera Liverpool að stórveldi aftur.

  Ég segi gefum Hodgson Everton leikinn og svo vill ég sjá nýjann mann í brúnna.

 6. Var að horfa á viðtal við Hicks á Skysports, held ég hafi orðið algjörlega freðinn af sigurvímu við að horfa á það. Stórkostlegt viðtal.

  Internet terrorist campaigns 1 – 0 Tom Hicks

 7. takk fyrir frábærann pistil og ég tek undir kveðjurnar sem sendar voru til annarra klúbba sem voru ekki jafn heppnir og við erum í dag, það er aldrei skemmtilegt að sjá klúbba líða undir lok fyrir eitthvað annað en það sem gerist á vellinum sjálfum og við skulum vona að það breytist í nánustu framtíð…. hodgson á skilið smá svigrúm að mínu mati….allavega sjá hvernig hann vinnur undir aðeins rýmra andrúmslofti sem atburðirnir í dag höfðu í för með sér….. og ef ekkert gerist held ég nú að kallgarmurinn segi nú af sér sjálfviljugur ef hann finnur að hann sé að tala fyrir tómu húsi inní klefa…… maðurinn….eða teymið sem ég mundi lifa fyrir að sjá væri ian rush og king kenny…….. er einhver ástæða fyrir því að rush hefur aldrei boðist til þess eða leitað til hans þar sem hann er nú SPRENGLÆRÐUR þjálfari og eldrauður??? spyr sá sem ekki veit…..
  takk fyrir kop menn……..YNWA

 8. Þetta viðtal við Tom Hicks á Sky Sports er snarruglað. Hann kennir eftirtöldum um að hafa misst klúbbinn: NESV (sem hann kallar “New England Sports Vultures), Broughton, Purslow, Ayre, Nash, Rafa, aðdáendum LFC (sem hann kallar “internet terrorists”), Lehman Brothers bankanum, Gandhi, Obama, Davíð Oddssyni, Babú og Steina, Serrano-salatinu og indverskri kryddjurtagerð.

  Kaldhæðnin í þessu viðtali var svo stórkostleg að það nær ekki nokkurri átt – hann sakaði Rafa um að hafa aldrei getað tekið ábyrgð á eigin mistökum og viljað kenna öllum öðrum um ófarir sínar, á sama tíma og hann sjálfur er að forðast að taka ábyrgð á eigin mistökum og kenna öllum öðrum um ófarir sínar. Og hann virtist ekki átta sig á því hversu mikil hræsni fólst í þessum orðum.

  Tom Hicks FTW. Þvílíkur maður, þvílíkur auli. Mikið er ég feginn að hann er vandamál annarra núna.

 9. Maður er búinn að vera svo glaður í dag að ég varð eiginlega bara fyrir sjokki þegar ég fór á síðu 344 á txt og áttaði mig á því að við erum í 18. sæti, var nánast búinn að gleyma því. Eins mikinn þátt í því sem eigendurnir eiga, þá munu nýir eigendur engu breyta fram að janúar og nú þurfum við að fara að einbeita okkur að því sem skiptir máli, fótbolti (loksins).

  en fyrst…
  DJÖFULL ER GOTT Á YKKUR AÐ HAFA EKKI HAGNAST NEITT OG MEGI ALLT SEM ÞIÐ EIGIÐ FARA Í ÞROT ÁSAMT YKKUR SJÁLFUM PERSÓNULEGA! DJÖFULL GETIÐI VERIÐ LEIÐINLEGIR!

  Það voru ekki G&H sem bera ábyrgð á því sem Hodgon gerði (gerir) illa (Agger, 4-1-4-1, pressa, Poulsen, …) Þetta mun ekkert breytast nema Hodgson ákveði að breyta því sjálfur en miðað við viðtöl, þá virðist hann virtur eftir að hafa gert það sama í áratugi og sér enga þörf á breytingum þar. Næsta skref er því að losna við Hodgon, rétt eins og þorri lesenda þessarar síðu vill skv. skoðunarkönnun.

  En við skulum nú ekki fara framúr okkur. Þetta eru næg gleðitíðindi þessa vikuna og leyfum nýjum eigendum að meta Hodgon. Hef enga trú á öðru en honum verður hent ef þetta er það sem við þurfum að horfa upp á áfram.

  Ég segi bara skál! Vona að menn eigi eitthvað ágætt til að opna fyrir þessa stund. YNWA.

 10. Í dag létti mér mikið og er bara frekar bjartsýnn á framtíðinna. Mér lýst nokkuð vel á NESV, þó svo að ég vilji bíða með að fagna of mikið þá losuðu þeir okkur við hirðfíflin 2 og því ber að fagna vel og lengi, alla vega fram að leiknum við þá bláu.

  Í kvöld fæ ég mér BJÓR.

 11. Takk Kop.is fyrir frábæran flutning á fréttum og umræðurnar hér gera lífið skemmtilegra.
  Lýst vel á Henry,sá líka The Town í vikunni og Fenway þvílíkur völlur,það er vonandi að það verði svipaður uppgangur hjá The Reds og Boston Red,við eigum það einfaldlega skilið.
  Mjög svo sammála þessu um að Liverpool verði virt knattspyrnustofnun aftur ekki veitir af eftir síðustu ár.. Nú er gaman á ný YNWA

 12. Fyrsta sigurvíman tengd Liverpool í alllangan tíma og hún er góð. Nú þegar við erum lausir við hyskið, H&G, þá er hægt að fara að snúa sér að því sem skiptir mestu máli og það er liðið sjálft. Nú eru stjórnarmenn búnir að sýna af sér gott fordæmi og berjast til síðasta blóðdropa og standa uppi sem sigurvegarar. Núna þarf liðið að sýna sama karakter og leggja allt í sölurnar til að endurreisa stórveldið og koma liðinu á þann stall sem það á heima í knattspyrnuheiminum. Ég horfi fram á bjarta tíma sama hver stýrir skútunni. Hlutverk nýju eigandanna er að búa til heimsklassa knattspyrnulið sem allir andstæðingar óttast.

 13. Af mörgum frábærum pistlum hér á besta bloggi landsins, og þó víðar væri leitað, er þetta sá allra besti sem ég hef lesið. Punktur.

 14. vill taka undir með mörgum hér inni og þakka fyrir þessa snilldarsíðu! og varðandi liðið og eigendur,mæli ég með að við sýnum smá þolinmæði og ró.

 15. Frábær pistill KAR og þá meina ég ekki frábær í sömu meiningu og pistill SSteins var “frábær” fyrir 3 árum 🙂

  Ég er mjög stoltur yfir því að vera meðal þeirra sem Hicks taldi sem ábyrga og eftir að hafa lesið þetta viðtal held ég að það sé bara hreinlega leitun að heimskari manni í heiminum! Það held ég að t.d. Rafa Benitez skemmti sér vel í kvöld, gott ef hann opnar ekki eina Torres rauðvín í tilefni dagsins. Broughton, Purslow og Ayre eru svo að öllum líkindum komnir á rassgatið í down town London núna 🙂

  Að lokum vil ég samt hrósa Hicks… hrósa honum já fyrir að koma inn á frábæran þátt stuðningsmanna LFC í þessari sápuóperu, hann ætlaði kannski ekki að hrósa okkur, en að kalla okkur Internet terrorist er eitthvað mesta hrós sem Rauði Herinn hefur fengið…og hafa þó líklega engir stuðningsmenn í heiminum fengið eins mikið hrós í gegnum tíðina og einmitt sami her.

  Terrorist er reyndar alls ekki rétta orðið enda um að ræða her sem er stærri en flestir herir í heiminum og enn á ný sýna stuðningsmenn LFC að þeir eiga sér enga líka

  Fer samt ekki ofan af því að ég held að svalasti maðurinn í öllu þessu ferli hafi verið sá sem sótti málið fyrir stjórn klúbbsins, Lord Grabiner. Hann ku hafa gjörsamlega rústað lögmanni H&G og gert það með stæl og fær mörg prik frá mér fyrir að dissa dómskerfið í Texas. Ég verð fyrir vonbrigðum ef það verður enginn á Goodison á sunnudaginn með Lord Grabiner eða Lord Justice Floyd á bakinu.

 16. Sammála nr. 2 !

  Please eyða efstu myndinni út ! Ekki veit hvernig þér datt í hug að hafa mynd af þessum aulum efst á greininni. Hefði fengið 10 þessi samantekt, en fær einungis 9 vegna augnmengunar…..

  Áfram LFC !!!

 17. og setja “Farið hefur fé betra” fyrir ofan nýju eigendurna ? Common !

 18. Afsakið, sá ekki strikið fyrr en nú….. En myndin af djöflunum er samt efst 😉

 19. Nennir einhver að senda vælubílinn til USA, beint heim til Tom Hicks takk fyrir! Hann þarf svo innilega á honum að halda miðað við þetta blessaða viðtal.

 20. Skipti út liverpool.is fyrir kop.is í flýtivalinu hjá mér í dag. Miklu skemmtilegra að lesa það sem er hér skrifað! Íslenski LFC klúbburinn er fínn en síðan þeirra stendur ykkar að baki í fréttaflutningi. Meira svona takk 🙂

 21. Það er best að spara allar yfirlýsingar um nýja eigendur og leyfa þeim að láta verkin tala, ætla mynda mér skoðun á þeim eftir það. Umfram allt er ég feginn að losna við G&H. Einhvern veginn hafði maður alltaf trú á því að Liverpool myndi aldrei fara sömu leið og Leeds, Portsmouth og önnur lið sem urðu gjaldþrota, einfaldlega vegna þess að þetta LFC með ótrúlega sögu og arfleifð.

  Hvort að United verði gjaldþrota hef ég enga trú á, einfaldlega vegna sögu félagsins. Held að það verði alltaf kaupendur til staðar fyrir það félag líkt og ég hafði trú um með Liverpool. E.t.v. munaði það minna en maður gerir sér grein fyrir að klúbburinn hafi endað í þroti, en það hefði þá einfaldlega verið vegna G&H sem höfðu græðgina eina að leiðarljósi. En myndi ég gráta það að Utd yrði gjaldþrota….um nei held ekki þegar uppi væri staðið. Hef allavega ekki fundið fyrir mikilli samúð frá Utd aðdáendum í garð Liverpool. Ég get hins vegar tekið undir það að sú þróun sem hefur orðið á enska boltanum á undanförnum árum hvað varðar eignarhald félaga er ekki til góðs og við höfum heldur betur fengið að súpa seyðið af því.

  Nú er bull frá í bili amk og tími til kominn að horfa fram á veginn og einbeita sér að þeim verkefnum sem mestu skipta máli. Vonandi að leikmenn hafa nýtt sér þá athygli sem eignarhaldið hefur fengið í fjölmiðlum í stað ömurlegs gengis inná vellinum. Ef liðið nær 3 stigum á sunnudaginn gæti það verið turning point en tapi liðið, leyfi ég mér að fullyrða að nýjir eigendur fari að leita fyrir sér á þjálfaramarkaðnum. Þá leyfir maður sér að spyrja, hvað þekkja þessir menn knattspyrnu? erum við að fara sjá Bruce Arena eða Klingsman við stjórnvölin?

  Allavega það er kominn tími til að fara hugsa um fótbolta á nýjan leik 🙂

 22. Ég bara verð að tjá mig um þennan frábæra pistil.

  Áður en ég byrja verð ég einnig að óska Liverpool mönnum til hamingju með þessa frábæru síðu. Ég les þessa síðu með öfundaraugum þar sem ég vildi að til væri sambærileg síða fyrir okkur United menn. Pistlarnir hjá ykkur eru yfirleitt vel ígrundaðir og rökstuddir og þó ég sé nú ekki alltaf sammála því sem hér fer fram get ég ekki annað en öfundað ykkur. Ég oft ætlað að tjá mig hér en hætt við vegna þess að þetta er jú eftir allt saman Liverpool síða fyrir Liverpool menn. Ég reyni hinsvegar eftir fremsta megni að horfa á fótboltann á eins óhlutdrægum nótum og ég get og ég tel að hér séu menn á sömu nótum. Það er fátt meira óþolandi en t.d. Liverpool menn eða United menn sem sjá ekki lengra en að sínum eigin klúbb. Að sama skapi finnst mér fátt skemmtilegra en almennilega rökræður um fótbolta á almennilegum nótum.

  Að þessu sögðu vil ég óska Liverpool mönnum hjartanlega til hamingju með að vera lausir við þessa fávita sem voru við stjórn klúbbsins. Það er ljóst að þessi farsi sem hefur verið í gangi undarnfarna daga hefur verið mjög vandræðalegur fyrir alla aðila. En nú virðist vera ljóst að Liverpool er komið í hendurnar á skynsömum aðilum og því ber að fagna. Ég óttast það gríðarlega að United eigi eftir að enda í sömu vandræðum. Ég minnist þar síðustu leiktíðar þar sem United og Liverpool öttu kappi um titillinn og ég man hvað ég var fáranlega stressaður um að Liverpool myndi vinna titilinn. Það aftur á móti gerði titilbaráttuna töluvert skemmtilegri að vera að berjast við erkifjendurna í staðinn fyrir svona tilbúinn lið eins og Chelsea. Ég vil hafa Liverpool í toppbaráttunni (þó ég vilji ekki að þeir vinni titilinn) og miðað við sögu NESV þá er líklegt að nú fari hlutirnar að breytast. Það er líka miklu miklu skemmtilegra. Því vil ég óska Liverpool mönnum hjartanlega til hamingju með það að vera lausir við þessar mannvitsbrekkur og vona ég innilega að sama gerist fyrir United.

  Fótboltakveðja.

 23. Djöfull finnst mér menn hérna inni vera einfaldir í hugsun. Þarf að koma á óvart að fyrrum eigendur hafi gert það sem þeir gátu til að tapa ekki milljörðum á milljarða ofan? Framkvæmdastjóri liðsins mistókst gjörsamlega að bua til lið sem gat unnið úrvalsdeildina, skildi eftir sig sviðna jörð meðalmanna og ónytjunga. Sorry en Rafael Benitez skilur EKKERT eftir sig á Anfield. Ekki einn þessara ungu leikmanna hans mun verða neitt, N’Gog og hans líkar enda allir sem einn í meðalliðum hér og þar í Evrópu og það vita allir. Svo eru það gloríur eins og Keane, Aquilani, Dossena og fleiri. Jæja mínusið mig nú til andskotans.
  http://mbl.is/mm/enski/frettir/2010/10/15/hicks_allt_benitez_ad_kenna/

 24. 32# Loksins kom einhver sem er margfaldur í hugsun með allt á hreinu og segir alla réttu hlutina. Bravó 🙂

 25. Frábær síða og ennþá betri pistill. Þessi síða er að blómstra á meðan liðið er í frjálsu falli. Ég vildi bara að leikmenn og stjóri Liverpool myndu taka ykkur til fyrirmyndar og sinna starfi sínu með jafn miklum metnaði og drifkrafti sem þið Kop menn gerið.

  EN vonandi bjartir tímar framundan með tilkomu NESV. Takk fyrir að halda þessarri síðu uppi og keep up the good work.

  mæli einnig að menn lesi þessa grein http://tomkinstimes.com/2010/10/nice-man-wrong-job/
  Margt hægt að taka úr þessarri grein, Paul Tomkins er mjög skemmtilegur penni.

 26. Ég gef NESV tækifæri til að sjarmera okkur. Þeir eru kanar, það er óumdeilt. Hinsvegar þora þeir að standa með því, þar sem það er NESV Boston Massachusetts sem kaupir LFC. Ekki Félag í Dallas, sem á félag á Cayman sem á félag í UK sem á félag í Liverpool sem kaupir Liverpoolfc

 27. Æji kommon
  “Ef þeir geta þróað Anfield með einhverjum hætti svo úr verði fornfrægur völlur sem bæði hýsir frægustu stúku í heimi, ótrúlega sögu og um leið mikið af VIP-boxum og allavega 60 þúsund áhorfendur held ég að fáir muni kvarta. Það verður spennandi að fylgjast með hvaða leið þeir velja að fara í þessum málum”
  Í almáttugs bænum þetta á ekki eftir að gerast. “held ég að fáir muni kvarta” Hver í ósköpunum ætti eftir að kvarta ef þeir ná að láta Anfield verða að nýjum velli?
  Sorrý, vil ekki vera neikvæður en það eru nákvæmlega svona draumórar sem ég óttast. NESV eru ekki komnir til þess að búa til einhverja draumaveröld fyrir liðið. Fyrst og fremst munu þeir vilja tryggja að liðið haldist í evri hluta deildarinnar og komist (helst) í CL til þess að fá tekjur.
  Ég er ekki að segja þetta til að vera leiðinlegur heldur bara að minna á að það fæst ekkert gefinst.

 28. Ég verð samt að spyrja ykkur Liverpool fans hvað er svona að því að byggja nyjan völl með Everton okkar Rivals.

 29. En ef Man Utd selur ekki stórt eftir þetta tímabil þá eru þeir í skítnum, ef maður hefur lesið rétt.

 30. Tek undir það, frábær síða og frábær fréttaflutningur í vikunni.

  Er svo með snilldarhugmynd fyrir NESV, bjóðumst til að borga scums 10 mGBP fyrir það að taka við Roy, Konsch og pulusunni, þarf ekki nýjan mann fyrir Ferguson ?

  Og pistillinn sem GH í #35 vísar í er frábær, ég er mjög sammála honum; þessir punktar eru bestir þar sem hann talar um hvað roy hefur gert rangt (við erum ótrúlega sammála þarna):

  • Calling the players who lost in the Carling Cup the ‘B team’, and blaming it all on them.
  • Not defending Torres, saying Alex Ferguson has a right to his opinion; that opinion being that Torres is a cheat.
  • Criticising the fan protests. (He’s backtracked on these last two points, but the damage was done.)
  • Picking a (virtually) full-strength team away in the Europa League, and expecting Torres’ muscles to be 100% three days later. I thought he was going to use the ‘B’ team in the early stages, as he did at Fulham?
  • Not buying a striker; I know Rafa struggled to find one at the right price, but it was the clear priority of the summer. Aquilani was bought to replace Alonso, and was now fit; and so, instead of going for Meireles and then not using him properly, why not keep Aquilani and buy a striker?
  • Leaving it to the 80-minute mark in several games to make the first change, when a result was needed. (One of the TTT subscribers sits behind the manager’s dugout, and said he’d never seen a Liverpool manager so passive during a match.)
  • And do we really want to see Kyrgiakos as a centre-forward late in games against Northampton and Blackpool? Admittedly it nearly worked, but if we have to resort to desperate long-balls rather than try and play through lesser teams at Anfield, it’s a sign of grave concern.
  • Alienating Agger. Potentially a world-class centre-back. But doesn’t fit Roy’s style, which involves not taking chances with footballers in defence. One of the best players at the club, but not utilised.
  • Loaning out Insua and Aquilani, without sufficient replacements. (Might not all be Roy’s fault, this one, with Insua apparently offered to clubs by the Reds’ hierarchy.)
  • Paying £5m for mediocre players who are near the end of their careers (Konchesky, and the frankly risible Poulsen). Paying £11m for Meireles – a very good player – and using him as a wide midfielder (albeit one forced to play horribly narrow). Saying Rafael Van Der Vaart doesn’t fit the profile of the kind of player he was interested in.

  já, ég er sammála þeim sem vilja ferskt blóð og nýjan þjálfara, strax. Það þarf ekkert að gefa roy meiri tíma. Sammála t.d. Ásmundi í #7, Deschamps væri góður kostur og margir fleiri.

  Vonum að þessi breyting á eigendum eigi eftir að reynast klúbbnum okkar vel og já ég hef fulla trú á því.

  Gerrard

 31. Sælir felagar

  Takk fyrir frabæran pistil og frabærta frammistødu teirra sem halda uti tessum umræduvef. Framlag ykkar felaga og upplysingastreymi sem madur hefur adgang ad umm alla verøldina (skrifad i Køben) er ometanlegt. Lengi lifi Liverpool.

  Tad er nu tannig

  YNWA

 32. Þetta eru bara gleði fréttir og ekkert annað…. nú verðum við bara að vera þolinmóðir og við eigum eftir að sjá hlutina gerast trúi ég…. NESV segja að þeir séu komnir til Liverpool til að vinna titla og víst hafa þeir reynsluna…. Ég er glaður og ánægður púlari í dag… óska ykkur öllum til hamingju með þennan áfanga…. Ég legg til að við minnumst ekki einu orði á fyrri eigendur enda þeir ekki bleksins virði… lifð heilil…

 33. Það er ömurlegt að vinna fyrir leiðinlega eigendur/yfirmenn…! Liv vinna pottþétt á morgun og nú fer okkur að ganga allt í haginn. Hópurinn er fínn og nú er búið að raka miklu veseni af borðinu.

  Frábær síða og allt að gerast.

 34. Í öfga-kapítalískum heimi skiptir á endanum ekki máli hvaða liðum menn halda með, tek undir hvert einasta orð í greininni, til hamingju með nýja eigendur og stöndum saman gegn gróðafíklum sem eignast eða reyna að eignast ensk knattspyrnufélög!

 35. Tók saman net spending hjá Hicks og Gillett af lfchistory.net til gamans og heildar nettó eyðsla í leikmenn frá 2007 var 19,5 milljónir punda (keyptir: 172, seldir: 152,5). Það var í raun bara í fyrstu þremur gluggunum sem þeir eyddu (nettó eyðsla á bilinu 17-19 milljónir punda í hverjum glugga þá), síðan komu þeir út í + eða á núllinu. Þetta voru 7 leikmannagluggar sem gerir 2,8 milljónir punda í hverjum glugga, jafnframt voru þetta 3 ár og 8 mánuðir sem þýðir um 5,3 milljónir punda nettó á ári að jafnaði í leikmannakaup.

  Ef þeir hefðu haft bolmagn til að eyða eins og í fyrstu þremur gluggunum áfram þá hefði ekki verið hægt að kvarta yfir þeirra framlagi til leikmannakaupa. Engin City eyðsla þar, liðið bara styrkt jafnt og þétt. En frá því í janúar glugganum árið 2008 hefur félagið komið út í plús eða á núlli.

 36. úbbs þetta átti að vera janúar-glugganum 2009 þarna í lokin á kommenti 53 🙂

 37. Þetta verður sungið á Goodison á morgun.

  Where’s your money?
  Where’s your money?
  Where’s your money Tom and George?
  Where’s your money Tom and George?

  Og mitt uppáhald:

  One epic swindle.
  There’s only one epic swindle.
  One epic swindle.
  There’s only one epic swindle.

 38. Það er kannski allt í lagi að nefna það fyrir áhugasama að ég verð í viðtali í þættinum Fótbolti.net á X-inu 97.7 núna kl. 13 í dag eða eftir tuttugu mínútur eða svo. Elvar ætlar örugglega að grilla mig aðeins í sambandi við þessa eigendasögu alla. Vonandi segi ég ekkert heimskulegt. 🙂

 39. Frábær uppsetning hjá Well Red Nr, 52 og afar góður punktur Nr.53, sérstaklega þegar maður tekur mið af því að áður en H&G komu vorum við með lið og stjóra sem var að skila sér í úrslit í flestum þeim keppnum sem það tók þátt í eða í það minnsta langleiðina, það er ekkert sjálfgefið að komast tvisvar í úrslit CL og engin tilviljun þegar það tekst. Samt var þá talið að liðið þyrfti meira fjármagn og góða styrkingu. Svo þegar það hættir að skila sér og liðið fer actually að koma út í plús leikmannaglugga eftir leikmannaglugga er stórsnjallt að kenna þjálfaranum um allt heila klabbið, stjóranum sem hann (Hicks) hafði alveg fullt vald til að reka ef hann var svona slæmur. Eftirnafnið þarf helst að vera Redknapp til að hlæja ekki að þessu viðtali við Hicks…og taka undir það. Skil hann reyndar aðeins með þessa árás á Benitez, enda var það hann sem opnað augu okkar endalega fyrir því hvað við vorum með ömurlega eigendur.

 40. Vildi bara benda á rangfærslu í annars góðri grein. Red Sox voru ekki eina liðið sem vann tvisvar á síðasta áratug, því Yankees vann 2000 og 2009.

  kv/

 41. Vildi bara benda á rangfærslu í annars góðri grein. Red Sox voru ekki eina liðið sem vann tvisvar á síðasta áratug, því Yankees vann 2000 og 2009

  Nú hefst formleg umræða um það hvenær áratugur hefst og hefst ekki, svipað og með aldamóta rökræðurnar 🙂

 42. Frábær pistill og ég verð að vera sammála hverju orði… þó að ég hati manu á knattspyrnuvellinum væri það mikil synd að sjá það lið fara sömu leið og LFC var næstum því farið

 43. Ef áratugurinn er frá 2001-2010 þá hlýtur síðasti áratugur að vera 1991-2000 ! 😉 En þá unnu Red Sox einmitt aldrei en Yankees þrisvar.

 44. ArnarÓ, þú ert sem sagt Yankees-aðdáandi? Flott hjá þér (bara ekki segja Einari Erni frá því, hann hefur illan bifur á Yankees).

  Ég fór nú bara eftir því sem kemur fram í myndbandinu um NESV sem ég linkaði á hér að ofan. Þar var sagt að Red Sox var eina liðið sem vann titilinn 2x á síðasta áratug, undir handleiðslu Henry og NESV-manna. Þar áður höfðu Yankees augljóslega haft 86 ár til að monta sig. Ég nefndi þetta bara til að sýna að þessir gæjar virðast kunna að binda enda á titlaþurrð, því öll vonum við jú að þeir geti endurtekið leikinn með Liverpool.

Dómsmál – Föstudagur

Everton á morgun