Liverpool 1 – W.B.A. 0

Jæja, þá eru fyrsti sigurinn í deildinni undir stjórn Roy Hodgson kominn í hús. En fallegur var sigurinn ekki.

Liðið var svona:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Agger

Poulsen – Lucas
Kuyt – Gerrard- Jovanovic
Torres

Full varnarsinnað að mínu mati. Og þetta var alls ekki skemmtilegur leikur. Okkar menn gáfu WBA alltof mikið pláss og þeir unnu baráttuna á miðjunni gegn slökum Poulsen og Lucas. Í raun náðu okkar menn sér aldrei almennilega á strik og WBA hefðu klárlega geta verið búnir að skora mark gegn okkur þegar að á 65.mínútu náðum við að skora sigurmarkið. Torres og Dirk Kuyt áttu það mark – þeir spiluðu saman á milli sín í hröðu upphlaupi, sem lauk með því að Kuyt gaf háan bolta fyrir á **Torres**, sem að kláraði með frábæru skoti. Frábært mark og munurinn á liðunum var á endanum sá að við erum þó enn með menn einsog Torres, sem getur klárað leiki á eigin spýtur.

Eftir markið kom skásti kafli okkar manna þegar að þeir voru talsvert sterkari, en þeir misstu þó stjórnina aftur og WBA pressuðu mikið í lokin.

En ég nenni hreinlega ekki að pirra mig á þessu lengur. Núna hefur Hodgson tvær vikur til að hugsa hlutina. Þessi byrjun á tímabilinu með 4 stigum af 9 er ekki nógu góð, en það er klárt að þeir menn, sem voru keyptir í dag, Mereiles og Konchesky munu fara beint inní liðið gegn Birmingham. Konchesky býður klárlega uppá meira en Agger í bakverðinum og ég mun persónulega fagna því þegar að Agger fer í miðvörðinn í staðinn fyrir Skrtel. Sá slóvakski var mjög óöruggur og hann getur ekki ætlast til að komast upp með þessi glímubrögð í hverju horni einsog var í þessum leik. Hann hefði klárlega geta fengið á sig víti í þessum leik.

En allavegana, fyrsti sigurinn í vetur er í höfn. Þetta var alls alls alls ekki nógu gott, en þrjú stigin gilda hversu illa sem að liðið spilar. Það þarf enginn að segja mér að Hodgson sé innst inni sáttur við þessa byrjun, en ég held að þetta landsleikjahlé komi á ágætum tíma til þess að velta fyrir sér hver næstu skref eru. Næst eru það tveir erfiðir útileikir gegn Birmingham og svo Man U. Man City og Tottenham töpuðu bæði sínum leikjum í dag gegn lakari liðum og Arsenal voru heppnir að ná sigri í gær. Þannig að þessi deild er opin þrátt fyrir að það sé erfitt að sjá hverjir eigi að stöðva Chelsea.

**Maður leiksins** Það var enginn, sem að stóð uppúr í dag, en **Fernando Torres** fær nafnbótina fyrir að klára leikinn og skora loksins eftir 10 leiki án marks.

39 Comments

 1. Sigur er alltaf sigur…en djö var þetta slappt! Við vorum minna með boltann og áttum færri skot en WBA, nota bene, við vorum að spila á Anfield!!! Það sem var að í þessum leik voru nokkur atriði:
  -Miðjumenn okkar eru hægir og hugmyndasnauðir (Lucas og Poulsen). Skil í rauninni ekki hvað RH var að hugsa með því að eyða pening í þann danska, finnst hann slakur leikmaður og engan veginn LFC kaliber.
  -Enginn ógn af köntunum, Kuyt og Jovanovic vantar hraða og eru ekki að fara að brjóta upp varnir.
  -Vörnin:Agger á ekki að vera í vinstri bak og Skrtel er í ruglinu.

  Torres var munurinn í dag með því að klára mjög erfitt færi, snilldarvel gert hjá honum!!! Ef við spilum áfram eins og við gerðum í dag, guð hjálpi okkur.

 2. Bið W.B.A. – aðdáendur afsökunar á ráninu.

  Ætla ekki að segja meira í bili, en ég hef VERULEGAR efasemdir eftir þennan leik. Ætla að anda og bíða leikskýrslu Einars Arnar áður. Ég ætla minna að ergja mig á einstökum leikmönnum en ömurlegu uppleggi og úrræðaleysi stjórnenda liðsins.

  Ef ég er varamaður í liði sem spilar svona ömurlegan fótboltaleik og kemst ekki inná. Hvenær kemst ég þá eiginlega inná!?!?!?!?!?!?

  Nóg í bili.

 3. Sælir félagar.

  Það eina sem gleddi í þessum leik var markið frá Torres. Leikur liðsins var með þeim hætti að stórum áhyggjum veldur. Það er auðvitað áhyggjuefni að liðið skuli merja eitt núll sigur á heimavelli gegn WBA og það með harmkvælum.

  Einu mennirnir sem náðu máli í þessum leik voru Carra og Reina. Leikur Glen Johnson veldur verulegum áhyggjum og Skertl var heppinn að fjúka ekki útaf og gefa um leið víti. Agger er ekki bakvörður frekar en hornfáninn og miðjan var afar slök.

  Ef þetta er það sem koma skal þá er ástæða til að kvíða vetrinum. RH verður að fara að sýna að hann nái máli sem stjóri og þessi mannskapur fari að spila samkvæmt getu undir hans stjórn.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 4. Sindri: ég fíla svona kaldhæðni, meira af henni 🙂
  Það er augljóst að við þurfum að losna við Sammy Lee, það getur ekki verið hugmynd Hodgson að hafa Poulsen og Lucas saman á miðjunni. Það getur ekki heldur verið hugmynd Hodgson að nota Aurelio á miðjunni líkt og um daginn og það hlýtur að vera hugmynd Sammy að fara í 4-4-1-1 á móti fokking WBA.
  Ég var svo að vona að við værum að fara stilla upp sóknþungu liði, með Pacheco á miðjunni og Babel frammi með Torres en svo fattaði ég að sóknarliðið Liverpool lést daginn sem Lucas kom á miðjuna.
  Það var erfitt að sjá hvor var geldari sóknarlega en ég held samt að Lucas hafi verið öllu skárri en Poulsen.
  En ef við ætlum að stilla upp varnarsinnuðu liði á móti WBA og þeirra líkum þá erum við á leiðinni inn í þolrauna tímabil.

 5. Eina jákvætt við þennan leik, Torres skoraði, og 3 stig. Gott að það er að koma landsleikjahlé. Gefur þeim leikmönnum sem ekki fara, tækifæri á að læra betur inná hvern annan.

 6. Leikmenn eru greinilega stressaðir og skortir sjálfstraust. Allt í lagi að vera bara bjartsýnn. Þeir taka þrjú stig þrátt fyrir að eiga dapran dag og eru alveg líklegir til að koma öflugri til baka eftir landsleikjahléð. Nú tel ég Roy sé bara nokkuð sáttur við að fá smá tíma til að anda. Nú lokar glugginn og næsti leikur verður athyglisverður og mikilvægur….
  Ég óska eftir meira af Babel

 7. Mér fannst Reina eiga mjög stórann þátt í markini eins og svo oft áður. Og Hodgson hlýtur að vera ánægður með spilamennsku liðsins….allavega sá hann ekki ástæðu til að breyta með skiptingum utan þessarar einu sem var aðeins maður fyrir mann í raun.

 8. Liverpool var heppið í dag. Mér líður eins og leikurinn hafi tapast.

  Ekki margt jákvætt við þennan leik. En jú sigur, Torres skoraði og við héldum hreinu.

  Ég var síður en svo hrifinn af þessari uppstillingu. Vona að Hodgson hafi séð það að þetta er ekki leiðin.

 9. Ég held að Sammy Lee sé að skipta sér of mikið af málum þarna á Merseyside. Það getur nefnilega ekki verði hugmynd Hogdsons að stilla upp svona varnarsinnuðu liði á móti WBA, á heimaveilli í þokkabót. Þessi Lúcasar ást þarf að ljúka og það strax. Liverpool hefur bara ekki spilað sóknarbolta síðan þessi maður varð fastagestur í liðinu og það hlýtur Hodgson að sjá. Poulsen er augljóslega af nákvæmlega sama kaliberi og Lucas og og lítð meira um það að segja. Við þurftum Pacheco, Aquilani og Babel í dag. en þessi í miðjunni er víst ekki í boði. Og ef að þeir vinir okkar þarna Liverpool megin ætla að fara kaupa Carlton Cole og bítta á Babel þá er alveg eins gott að fara að slökkva á sjónvarpinu.

 10. þetta hlítur að breytast með tilkomu nýrra leikmanna. veit ekkert rosalega mikið um Konchesky en veit að hann er með góðan vinstri fót og getur komið með fínar fyrirgjafir! og ef hann er í vinstri bak þá ætti Agger að fara í miðvörð sem mer finnst örruggara og ætti að bæta liðið þar. þessi Reimeres ætti að bæta miðjuna mikið ef hann dettur strax inni okkar bollta og hvort sem hann verður með Gerrard á miðjunni og joe Cole fyrir framan eða með Poulsen djúpan Gerrard fyrir framan og Cole á vinstri ættu að vera komin MIKLU meiri fótbolta gæði í þetta lið! svo er aldrei að vita nema að það Roy gamli bæti einum sóknarmanni í viðbót fyrir lokun gluggans og ætti þá að vera með með fínan tíma í hlénu til að hugsa þetta einhvað. vonum bara að það koma allir heilir til baka frá þessum fúkking landsleikjum !

  slappur leikur í dag en falleg 3 stig og vonandi fara menn að drullast í gang.

 11. Ég ánægður um þennan þarsem Liverpool vann skyldu sigur þarsem Liverpool hefur tapað síðustu leiktíðum á jafntefli og töpum í svona leikjum. Svo er skrítið um sé að Biðja Liverpool spila fallegan fótbolta þarsem þeir hafa engan alvöru playmaker en vona Raul Meireles verði þessi deep midfield playmaker sem Xabi var hjá Liverpool í stað þess vera eftir maður Masch. Og Svo besta er við þennan Sigur er að öll hin lið sem er keppa um 4.sæti töpuðu leikjum sínum og nú bara vinna Brimingham og taka hafa þeim 5.sæti og gaman að sjá Torres skora.

 12. Þetta var slakur leikur, en verð að viðurkenna þó að mér fannst West Brom bara alls ekki lélegir, held að þeir gætu alveg sloppið við fall. En auðvitað eigum við að vinna svona lið auðveldlega á heimavelli. Betri menn Liverpool voru Carra, Kuyt og Torres. Hlakka mikið til að sjá Raul Meireles spila. Það er að mæða of mikið á Lucas.

 13. Þetta var arfaslakur fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum. WBA stjórnuðu ferðinni og voru miklu betri. Ótrúlegt að sjá þetta á Anfield gegn WBA. Lucas og Poulsen voru alltof aftarlega og bara gáfu WBA miðjusvæðið. Gerrard var bara ekki að gera neitt í fyrri hálfleik og Torres var einangraður og reyndi að gera allt uppá eigin spýtur. Kuyt og Jova buðu ekki upp á nokkurn skapað hlut á köntunum. Johnson var ekki að spila vel og hans frammistaða undanfarið er farinn að valda mér áhyggjum. Við vorum að sækja á um þremur mönnum í fyrri hálfeik, engu líkara en við værum að spila á útivelli gegn Manutd, Chelsea eða Arsenal.

  Og Skrtel, ja hérna. Hann var alveg desperate að eignast WBA treyju í þessum leik. Rífandi menn niður hvað eftir annað í teignum. Stálheppinn að fá ekkí á sig vítaspyrnu. Hann gaf klaufalegt víti á móti Mancity og ég skil ekki hvernig hann slapp við að fá dæmt á sig víti í dag. Það verður frábært að fá Konchesky í bakvörðinn svo að Agger getur farið í miðvarðastöðuna fyrir Skrtel. Reyndar skil ég ekki af hverju Aurelio spilaði ekki í bakverðinum, eða bara Kyrgi í staðinn fyrir Skrtel.

  Mér fannst þetta lagast mikið í seinni hálfleik þegar Lucas virtist hafa fengið skipun um að færa sig framar á völlinn og hjálpa til í sóknarleiknum á meðan Poulsen var aftar. Eftir það byrjuðum við að halda boltanum miklu betur og byrjuðum að skapa eitthvað. Gerrard var mun betri, en í þrjú skipti var hann þó kominn í kjörstöðu með menn í hlaupum fyrir framan sig, en sendi arfaslaka bolta beint á WBA menn. Harkalega pirrandi og Gerrard á að gera MIKLU betur en þetta. Gerrard átti samt góða spretti í seinni hálfleik og átti t.d. frábæra sendingu á Torres sem hefði átt að skora annað markið en Carson varði vel.

  Kuyt og Jova á köntunum, æji ég veit það ekki. Voðalega finnst mér þetta bjóða uppá lítið. Jújú það er einhver djöflagangur og barátta í þeim og Kuyt gerði vel þegar hann lagði upp markið fyrir Torres, en mikið svakalega væri ég til í að eiga einn öflugan klassískan kantmann með góða tækni og fyrirgjafir, einhver sem vill einangra sig maður á móti manni á kantinum til að geta leikið á hann og sent fyrir. Ekki ósvipað og Adam Johnson var að gera trekk í trekk gegn okkur í síðasta leik.

  Torres maður leiksins að mínu mati. Var góður í seinni hálfleik og kláraði þetta fyrir okkur.

 14. Slappur leikur, góður sigur !

  Martin Skertl er arfaslakur og nýr samningur hans er mér áhyggjuefni. Hann hefði getað kostað okkur öll stiigin í dag þar sem að WBA var mun betri á flestum sviðum fótboltans í dag ! Nú er eins gott að girða í brók og fara að sýna mátt sinn og meginn !

  YNWA

 15. Ég sá ekki leikinn en miðað við skrif manna hér þá hef ég ekki misst af miklu og talandi um Skertl þá var ég einmitt hugsa það sama og síðasti ræðumaður þegar ég sá fréttir að hann hefði framlengd saminginn og svo er það er orðið ansi pirrandi að horfa á Chelsea slátra hverju smáliðinu á fætur öðru á meðan við megum þakka fyrir 1-0 sigur gegn þessum sömu liðum !

 16. Ég er alls ekki sammála að Kuyt og Torres hafi átt markið. Það má ekki gleyma að kastið hjá reina var frábært og hlaupið hjá Gerrard gaf Torres plássið til að ná skotinu.

 17. Það er ekki alltaf hægt að panta flugelda, þegar þarf að bíða fram í 3. leik eftir fyrsta sigri tímabils. WBA líka með óvitlaust lið. Og markinu haldið hreinu og Torres búinn að skora….

 18. Klárlega gott mál að vinna leiki sem við spilum illa, og illa spiluðum við! Ég hefði viljað sjá Roy taka Lucas eða Poulsen út af í hálfleik, færa Gerrard aftar og setja inná Babel eða Pacheco. En 3 stig í hús, sem er mjög jákvætt. Staðreyndin er auðvitað sú að Roy er ekki búinn að hafa nógan tíma til að móta liðið og þess vegna veldur þessi slaka spilamennska mér engu hugarangri eins og er. Ef við erum hinsvegar enn að spila svona illa um jólin, þá verð ég áhyggjufullur.

  Skrtel var alveg hrikalegur í þessum leik og var heppinn að fá ekki dæmt á sig víti að tvisvar! Ég hlakka mikið til að fá Agger aftur í miðvörðinn!

 19. Það er liðin tíð að “litlu liðin” komi til að verja þetta eina stig sem er í hönd þegar flautað er til leiks á Anfield, W.B.A. börðust vel í dag og áttu alveg skilið 1 stig. En sem betur fyrir okkur þá voru Reina, Kuyt og Torres ekki á því.

  En þetta var vandræðalegur leikur hjá Liverpool og því ennþá sætara að fá 3 stig fyrir þessa frammistöðu. Sem betur fer þá töpuðu liðin sem maður reiknar með að verði að keppa við okkur um stöðu á töflunni 3 stigum og það ásamt þeirri staðreynd að fyrsti sigur okkar á tímabilinu er kominn er nóg til að senda mann brosandi í þetta landsleikjahlé.

 20. “En ég nenni hreinlega ekki að pirra mig á þessu lengur. Núna hefur Hodgson tvær vikur til að hugsa hlutina. Þessi byrjun á tímabilinu með 4 stigum af 9 er ekki nógu góð,”
  (EÖE Leikskýrsla)

  Er þetta ekki óþarflega hálftómt? jafntefli manni færri í 45 mín á móti Arsenal, tap á útivelli gegn City og sigur gegn WBA. Ef einhver hefði boðið mér þetta fyrir þessa leiki hefði ég sennilega tekið því.

 21. Var ég einn um að finnast dómarinn dæma verulega undarlega í dag? Eða þ.e. dæma lítið….margoft sem hann lét leikinn halda áfram þrátt fyrir augljós brot, þar á meðal voru tvö augljós víti, allavega seinna skiptið þegar varnarmaður W.B.A varði frábærlega….með höndunum!!!

 22. Jú, Sigurjón – þetta er ekki alslæmt – svona á blaði, en ég var líka að horfa á frammistöðuna. En spilamennskan okkar fyrstu 45 mínúturnar gegn Arsenal og WBA og í 90 mínútur á móti City veldur áhyggjum. En engin af þessum úrslitum eru alslæm – það er vissulega rétt.

 23. Menn eru ekki beinlínis að að leka úr bjartsýni og skilning fyrir leik liðsins finnst mér. Þetta var alls ekki svona slæmt og menn eru að tala um.
  Ég held að flestir hafi vanmetið þetta lið WBA allhressilega í dag, kröfðust jafnvel stórsigurs. WBA vörðust vel og voru skipulagðir í þeirra aðgerðum í dag. Við verðum líka að sýna því skilning að liðið er að fara í gegnum miklar breytingar undir lok félagaskiptagluggans og er því ekkert skrýtið að menn séu ekki tipplandi á rauðum rósum spilandi dansandi sambabolta.
  Að gagnrýna þessa liðsuppstillingu í dag fatta ég ekki alveg, upp á hvað hafði leikmannahópurinn annað að bjóða í dag en að nota Lucas og Poulsen á miðjunni með Gerrard fyrir framan? Réttilega eru menn að benda á að við stilltum upp með tvo varnarsinnaða miðjumenn en það gera Chelsea líka núna fyrstu þrjár umferðirnar, sem og liðin sem spiluðu til úrslita á HM í sumar. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið draumamiðjan mín í dag en þetta var sú miðja sem var borðliggjandi miðað við þann mannskap sem stóð til boða.

  Held að menn ættu að sýna félaginu smá skilning í upphafi leiktíðarinnar og sleppa öllum dómdagsspám um harðann og erfiðann vetur framundan…Í það minnsta í bili.

 24. Sigur er sigur.

  Við erum með nýjan stjóra. Það eru að koma nýir leikmenn sem og að stjórinn gat ekki notað alla á undirbúningstímabilinum enda í fríi eftir HM.
  Ég hef sagt þetta áður og endurtek það hér. Mörg lið byrja af krafti með nýjan stjóra og eru eins og Twin Cam vél sem þýtur af stað en missir svo dampinn og inniheldur lítið tork.
  Ég vona og trúi því að liðið sé frekar eins og gömul Cummings vél sem fer hægt af stað en þjappar svo vel og torkið verður gríðarlegt.

  Nenni ekki einhverri svartsýni þegar einungis 3 leikir í deild eru búnir. Byrjuðum gegn 2 erfiðum andstæðingum og vorum ekki sannfærandi í dag. Hins vegar náðum við í 3 stig sem og við komumst áfram í Uefa Cup þannig að það er ekki öll von úti enn og sigur er sigur.

  Ég var gagnrýndur fyrir að gagnrýna Rafa en svo eru sömu menn ( í sumum tilfellum) að hengja Hodgson yfir öllu og oft ekki vitandi alla málavexti en samt er við Hodgson að sakast sbr. Aquilani dæmið.
  Þetta tekur tíma en þetta hefst, sýnum þolinmæði og ef við erum ekki að velta okkur uppúr neikvæðum hlutum líður okkur betur. Það krefst þolinmæði og það þekki ég vel.

  Ég allavegana ætla mér að styðja Hodgson og leikmenn 110% og hef fulla trú á því að hjólin fari að snúast betur á eimreiðinni eftir 2-3 leiki.

  In Roy WE trust!

 25. Ég sá ekki þennan leik var að vinna en fékk að vita byrjunarliðið og svo beið ég og beið eftir að fá sms um að eitthvað hefði gerst meðan ég beið þá fór ég að hugsa hver ætti svo sem að tæta vörnina hjá WBA í sig þvi þeir sem áttu að sækja voru Jova,Kuyt,Lucas,Poulsen,Gerrard og Torres sem sagt tveir mjög góðir og hinir ekki nógu góðir sóknarlega en fínir vinnu hundar bara of hægir og varnarsinnaðir.Ekki misskilja allflestir góðir en kannski ekki allir inná í sama leik. Ég hélt að Hodgson hafi ruglast á leikjum og þetta liðiðið sem átti að byrja á móti Man C.Og öfugt. Hélt að maðurinn myndi nota svolítið sókndjarfara lið en þetta,kannski var hann smeikur eftir síðasta leik en þetta var allavegana mjög skritið að vera með 2 djúpa í svona leik.Það sama fór mikið í taugarna á mér þegar Benítez stillti nánast alltaf upp eins liði sama hver annstæðingurinn var.Þannig að þetta skrifast á stjórann.Vona svo sannarlega að hann breyti könntonum eitthvað fyrir næsta leik og verði farinn að nota vinsti bakvörð en ekki miðvörð í þá stöðu,ætli Aurelio sé meiddur?Svo þetta með Skrtel hélt við hefðum nóg af öðrum mönnum í þessa stöðu af hverju hefur maður ekkert séð Wilson spila,er hann nokkuð búinn að fá að spila væri til í að sjá hann eitthvað fljótlega.En allavegana kom sms á endanum og Torres skoraði og þetta skrítna val á liði kostaði ekki stig bara ánægju þeirra sem horfðu á leikinn.Vonandi að þetta skáni eitthvað með nýjum miðjumanni og smá sjálftrausti.Bless í bili.

 26. ef Raul Mereiles (stafs.) er svona Alonso, Scholes og Xavi týpa þá verður hann flottur á miðjunni, vantaði akkurat þannig leikmann í dag. Einhvern sem getur komið með góðar sendingar sem verða að einhverju, Lucas og Poulsen eru ekki nógu góðir í því. Samt fannst mér Poulsen bara helvíti fínn í dag í hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns.

 27. gaman að skoða líka hvernig þeim Lucas og Poulsen gekk til með sendingar í dag þá var Lucas með samtals 47 sendingar og þar af 37 sem rata rétt… = 78,7%
  Poulsen var hinsvega með 61 sendingu og þar af 56 sem rata rétt… = 91,8% sem er mjög sætanlegt!! ég er nokkuð sáttur við þennan Dana en það vantar semt meira til…

 28. 3 stig, gott. RH verður að fara að klára púslið en það eru nokkur púsl sem eiga ekki að vera í þessu púsli. TORRES TORRES TORRES alltaf inná.

 29. Finnst Poulsen klassa betri en Lucas sigur er alltaf jákvæður sama hversu illa er spila það eru ekkert aukastig fyrir mörk og falleg tilþrif það kemur seinna. 1-0 er nóg. Upp með hausinn

 30. Dómari leiksins var bara eins og 85% enskra dómara.

  Hrein hörmung, held svei mér þá að enskir dómarar séu þeir slökustu í Evrópu.

Liðið gegn WBA

Roy um slúðrið