Man City 3 Liverpool 0

Það byrjar heldur betur brösulega tímabilið hjá okkar mönnum. Eftir 1-1 jafntefli gegn Arsenal á Anfield í fyrstu umferð fékk Liverpool það lítt öfundsverða hlutverk að heimsækja Manchester City á City of Manchester Stadium. Þetta var allan tímann erfitt verkefni og það varð raunin að okkar menn réðu engan veginn við það. Lokatölur urðu 3-0 fyrir heimamenn.

Roy Hodgson stillti upp eftirfarandi liði í dag:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Agger

Kuyt – Gerrard – Lucas – Jovanovic

Torres – Ngog

BEKKUR: Jones, Kyrgiakos, Aurelio, Poulsen, Maxi, Pacheco (inn f. Jovanovic), Babel (inn f. Torres).

Það þarf ekkert að fegra gang leiksins. Þetta var nokkuð augljóst dæmi: City-liðið var sterkara á öllum sviðum knattspyrnunnar í kvöld, þ.m.t. markvörslunni. Strax í upphafi tóku þeir völdin á vellinum, héldu boltanum sín á milli og færðu sig nær og nær marki Liverpool. Það var ekki liðið kortér þegar fyrsta markið kom; Agger og Jovanovic tvímönnuðu á Adam Johnson úti við hliðarlínu hægra megin. James Milner laumaði sér á bak við þá og einhver ruglingur varð í talningunni svo að Steven Gerrard, sem var næstur og í besta sénsinum til að loka á Milner, lét landsliðsfélaga sinn vera með þeim afleiðingum að Johnson laumaði boltanum inná hann, Milner hljóp óvaldaður inn á teiginn og lagði boltann svo út á vítapunktinn þar sem **Gareth Barry** kom aðvífandi og lagði hann í fjærhornið. 1-0 fyrir City.

Eftir þetta héldu City-menn áfram öllum völdum á vellinum og gáfu þau ekki eftir það sem eftir lifði, ef frá er skilinn svona tíu mínútna kafli undir lok fyrri hálfleiks þar sem þeir slökuðu aðeins á. Staðan í hálfleik var þó enn 1-0 enda okkar menn lítið að ógna fram á við og strax í upphafi síðari hálfleiks kom náðarhöggið; Milner tók hornspyrnu frá hægri inn á miðjan teiginn þar sem **Micah Richards** át einhvern Liverpool-manninn og skallaði boltann beint niður fyrir Reina. Carlos Tévez var staddur við hlið Reina og reyndi að sparka til knattarins en hitti ekki. Hugsanlega truflaði það Reina eitthvað en það breytir því ekki að viðbrögð hans voru of sein, hann missti af boltanum milli fóta sér og í markið. Richards fékk markið skráð á sig þótt erfitt hafi verið að sjá hvort Tévez hafi náð snertingu eða ekki.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom svo þriðja og síðasta markið. Johnson, sem var besti maður vallarins í kvöld ásamt kollega sínum Milner, sólaði Agger upp úr skónum og keyrði inn á teiginn þar sem Martin Skrtel fleygði sér á hann og braut á honum. Klárt víti og **Tévez** steig upp og skoraði örugglega úr vítinu. Lokatölur í þessum leik 3-0.

Það er erfitt að vita hvar á að byrja þegar maður horfir yfir það neikvæða sem bar fyrir augu í þessum leik. Þegar ég sá að Hodgson brást við fjarveru Joe Cole með því að stilla upp 4-4-2 sótti að mér uggur. Ég vonaði að hann hefði einhverja ása uppi í erminni fyrst hann var reiðubúinn að fórna miðjumanni í baráttunni gegn Barry, De Jong og Yaya Touré en svo reyndist ekki vera. Þess í stað kafsigldu þessir þrír leikmenn þá Gerrard og Lucas Leiva á miðju Liverpool. Ég man varla eftir leik þar sem bæði Lucas og Gerrard voru svona lítið í boltanum en þeir bara máttu ekki við margnum.

Taktík er skrýtið fyrirbæri, stundum. Það er auðvelt að segja að það sé ekki mikill munur á 4-4-2, með Torres aðeins fyrir aftan Ngog, og 4-3-2-1 eins og City-menn notuðu í kvöld. Kuyt og Jovanovic á köntunum hjá okkur nutu hins vegar ekki sömu þjónustu og Johnson og Milner á köntum City; oftar en ekki sá maður Jovanovic og/eða Kuyt reyna að leggja upp með boltann nær miðlínu en vítateig andstæðinganna, á meðan Milner og Johnson fengu oft boltann í maður-á-mann stöðu uppi við hornsvæði Liverpool, þar sem þeir voru einangraðir gegn Johnson og Agger í bakvörðunum. Þessu skilar þriggja manna miðjan, þar sem þeir geta skilið De Jong eftir djúpan á meðan Barry og Touré pressa uppi við vítateig andstæðinganna og vinna boltann ofarlega á vellinum. Til samanburðar var Gerrard oft einn að reyna að hirða upp lausa bolta eftir að framherjarnir höfðu misst hann, með Lucas sitjandi fyrir aftan sig, og þótt Gerrard sé góður getur hann ekki verið alls staðar.

Nú er ég ekki að segja að við hefðum unnið eða náð jafntefli í kvöld ef Hodgson hefði bara spilað með Gerrard í holunni og Poulsen við hlið Lucas á miðjunni, til að jafna út fjölda City-manna á miðjunni, en það er allavega ljóst í mínum huga að City-liðið hefði ekki getað haldið boltanum jafn auðveldlega innan sinna raða, ekki getað haldið stöðu löngum stundum mjög ofarlega á vellinum og ekki átt jafn náðugan dag í vörninni og raun bar vitni. En því miður þá gerði Hodgson að mínu mati mistök í kvöld með því að breyta frá því sem hann hefur verið að æfa og nota með mannskapnum í byrjun leiktíðar og það kostaði okkur klárlega. City-menn héldu boltanum 65% sín á milli í þessum leik, sem er allt of há tala.

Það er engu að síður erfitt að dæma Hodgson of hart út frá einum eða tveimur leikjum. Ég veit að margir stuðningsmenn Liverpool fylltust bjartsýni í sumar við þjálfaraskiptin og tilkomu Joe Cole en ég hef reynt að halda fótunum á jörðinni og horfa raunsæjum augum á stöðuna. Raunsætt mat segir mér einfaldlega að Hodgson fyrir Benítez og Cole fyrir Benayoun er ekki sú stökkbreyting sem sumir vilja meina. Því miður. Engu að síður þá hafa þessi skipti átt sér stað og við verðum að gefa Hodgson tíma til að koma sínum hugmyndum til skila. Hann þarf tíma til að leyfa sinni taktík að blómstra, og hann þarf alveg örugglega aðeins auðveldari leiki til að samstilla liðið. Við vissum alltaf að þetta væri djöfulleg byrjun hjá nýjum stjóra, að ætla honum að mæta Arsenal heima og Manchester City úti í fyrstu tveimur leikjunum. Það hefur nú orðið raunin.

Að því sögðu, þá er Hodgson og leikmönnunum hollara að spýta í lófana því það er ekki langt í að við heimsækjum erkifjendurna á Old Trafford. Ef City-liðið fer svona illa með okkur, hvað gera United-menn þá?

MAÐUR LEIKSINS: Enginn, því miður. Ég reyndi að finna jákvæðan punkt í frammistöðu liðsins en fann engan í kvöld. Reina átti að gera betur í öðru markinu, Agger var loksins refsað fyrir að vera enginn bakvörður (takk fyrir ekkert, Johnson og Milner), Glen Johnson var jafn dapur hinum megin og Carra og Skrtel máttu sín lítils gegn sóknarlotum heimamanna. Lucas, Kuyt og Ngog áttu sennilega sína lélegustu leiki í rauðri treyju í kvöld, Jovanovic reyndi en komst aldrei inn í leikinn, Gerrard reyndi líka en fyrir utan eins og tvö skot fékk hann ekkert frelsi enda tók De Jong hann úr umferð í allt kvöld. Torres var svo greinilega ekki í leikæfingu og, það sem verra er, frekar fljótur að hengja haus. Ég meika ekki þá tilhugsun að hann og Gerrard ætli að vorkenna sér annan veturinn í röð. Plís.

Næsti leikur er á fimmtudag gegn Trabzonspor á útivelli. Ég sá fyrsta hálftímann af 3-2 sigurleik þeirra gegn Fenerbahce í kvöld í tyrknesku Súperdeildinni og þar er á ferðinni hörkulið með brjálaðan heimavöll. Leikurinn á fimmtudagskvöld verður ekki við hæfi viðkvæmra sálna.

YNWA

147 Comments

 1. haha ÓHJ alveg með fyndu hliðina á þessu 😀

  En varðandi leikinn, alveg skelfilegt. Líka stillingin að hafa Lucas þarna inná er bara skandall áttum allan daginn að hafa Poulsen til að djöflast á mönnum eins og Tevez,Barry og Johnson. Og að Liverpool hafi ekki sótt af krafti upp hægri vænginn skil ég ekki. Lescott ofmetnasti leikmaður allra tíma(miðað við kaupverð) alltof hægur. bahh skandall hreint út sagt.

 2. Sælir félagar

  Í raun er ekkert við niðurstöðu þessa leiks að athuga. MC var einfaldlega töluvert betra á öllum sviðum fótboltans. Leikmenn MC einfaldlega betri án undantekninga, frá aftasta manni til hins fremsta. Er þar enginn undanskilinn.

  Þegar svo er þarf ekki að fjölyrða um þennan leik en sjálfsagt munu menn ræða frammistöðu einstakra leikmanna sem var afar slök hjá þeim mörgum, svo slök að þeir eiga ekki skilið að spila fyrir okkar ástkæra lið. Í þá greiningu nenni ég ekki.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Þetta var ekki gott hjá okkur í kvöld!!! Ég veit ekki hvað á að segja…..það dettur ekki hjá okkur. Annað markið stór-slys!!!! Gerði út um leikinn fannst mér. Það fylgir okkur enginn heppni!! Torres ennþá hálf-lélegur…….Þetta er bara alltof lélegt!!!

 4. Hvað er málið eiginlega? voru að spila eins og einhverjir kr-ingar allann seinnihálfleik (sá ekki þann fyrri). Vona að þetta sé samt ekki eitthvað sem er komið til að vera, annars erum við að fara sjá helstu mennina fara í næsta glugga og lái þeim hver sem vill.
  En er reyndar ekki svona svartsínn að eðlisfari hehe

  Áfram LIVERPOOL 🙂

 5. Hvað á maður að segja eftir svona leik.Það er ekki hægt að segja að okkar menn komi vel undan sumri,menn voðalega þungir og alltaf 2-3 skrefum á eftir.Vantar mann eins og Masch fyrir framan vörnina(orðrómurinn úti segir að hann hafi neitað að spila þennan leik)vængirnir alveg geldir og Torres er bara hreinlega ekki í formi

 6. Munurinn var að City var með tvo sóknarsinnaða kantmenn og komu sér þar af leiðandi í fín færi. Við vorum hins vegar með tvo varnarsinnaða kantmenn. Þeir voru samt “ossa dúlegir”, hversu gott það er og hvort það hafi skilað einhverju læt ég kyrrt liggja.

 7. Get ekki sagt að ég hafi orðið hissa á þessu eftir að hafa séð City-Tottenham um daginn. City með fljóta tekníska leikmenn og í dag fengu þeir að ráða ferðinni. Í leik sem þessu skiptir öllu að stjórna miðjunni og því miður varð það ekki okkar að gera það. Veturinn á eftir að verða langur og erfiður fyrir Liverpool aðdáendur nema nýir ríkir eigendur komi til. Svona er bara veruleikinn í dag því miður!
  Hefði fremur kosið varkáran Rafa í dag en hvað um það:-)

 8. Þarf nokkuð leikskyrslu eftir leik sem þennan. Liðið arfaslakt hvar sem a er litið, vantar hæð, kraft og getu viðast hvar a vellinum.

 9. glanninn: Ertu að tala um KR liðið sem skoraði 4 mörk á 10 min í seinni hálfleik?

 10. hehe jah verð að biðja kr afsökunar, þar sem ég hafði ekki séð úrslitin hjá þeim í dag…

 11. Réttast væri að fara út að labba áður en maður tjáir sig hér en það er bara ekki að fara að gerast.

  Það eru í mesta lagi þrír leikmenn Liverpool sem kæmust í hóp MC…. Gerrard, Torres og Reina. En samt ekki eins og þeir voru að spila í dag. Allt liðið var að spila mjög illa.
  Þegar lið er með verri mannskap en andstæðingurinn þá þarf þjálfarinn að sýna kænsku. Að stilla upp í 442 með þennan mannskap var bara út í hött, til að mynda hefur Kuyt aldrei getað spilað sem kanntur í 442, Hann getur skilað því hlutverki þegar það er 1 striker……. úff ég er farinn út.

  Liverpool er í frjálsu falli. Það mun ekkert lagast fyrr en eigendurinir fara út

 12. Algerlega sammála Sigkarli, við vorum einfaldlega útklassaðir í kvöld. Fyrir utan nokkrar rispur áttum við ekkert í þessum leik.

  Tel samt að það sé ekki nokkur ástæða til að fríka út yfir þessum úrslitum, það munu ekki mörg lið taka stig á heimavelli Man City á þessu tímabili. Næsti leikur okkar í deildinni verður okkar fyrsti sigurleikur á tímabilinu, það er klárt.

  Gerrard er maður leiksins hjá okkur að mínu mati, barðist eins og ljón en það dugði bara því miður ekki.

 13. Ég veit eiginlega ekki við hverju maður á að búast þegar þrír af fjórum miðjumönnum liðsins eru svo langt frá því að vera frambærilegir í lið sem á að berjast um að komast í eitt af fjórum efstu sætunum í deildinni í ár! Er farinn að þrá einhverja unga snögga kantmenn koma inní þetta lið sem geta sprengt upp varnir andstæðinganna.

 14. Ég held að það ætti að senda þennan Micah Richards í lyfjapróf. En að öllu gríni slepptu þá voru MC betri á öllum sviðum, Kuyt og Lucas eru engan vegin starfi sínu vaxnir. Gerrard átti erfitt uppdráttar einn á móti 3 MC mönnum og Torres greinilega ekki kominn í 100% leikform. Skrtl var skrautlegur og Agger leit út fyrir að vera ennþá ringlaður. En næsta verkefni er að rúlla upp þessu trabant-liði þarna í Tyrklandi og rífa sig upp úr hjólförunum.. Áfram LFC!!!

 15. Jæja krakkar, þetta var nú nokkuð gott hjá mínum mönnum miða við að liðið er náttúrulega bara að spila fyrir peningana, en ekki liðið eins og Liverpool.

 16. Við hefðum kannski betur selt Glen frekar en Degen?? Og svo er verið að selja unga upprennandi leikmenn ( t.d. Németh ofl.) og kaupa einhverja aflóla gamla, úrsér brædda kalla. Sennilega verið að búa til nýtt Fullham lið, svei og skömm.

 17. Sigur í þessu fyrstu leikjum hefði ekki þýtt að Roy Hodgson og þetta Liverpool lið væru best í heimi. Alveg einsog að að fá bara 1 stig úr þessum fyrstu tveimur leikjum þýðir ekki að þetta lið sé ömurlegt og að það hefði sennilega verið betra að halda Benitez.

  Þetta var einfaldlega fáránlega erfið byrjun á ferli Hodgson í deildinni – það hefði varla verið hægt að hugsa sér erfiða byrjun. Núna hefur hann allavegana tvo leiki í deildinni áður en hann fer svo á Old Trafford.

  Þessi leikur var ömurlegur – en það eru ekki nema 3-4 leikir á þessu tímabili, sem eru jafn erfiðir á pappírnum.

 18. Ég held að við verðum að líta raunhæft á stöðuna. Að mínu mati vorum við að spila á móti liði sem kemur til með að keppast um titilinn, þeir eru alveg svakalega sterkir. Þetta eru ekki bara klassaleikmenn í nánast öllum stöðum heldur virðast þeir vera í fáránlega góðu formi, ég hugsa að við höfum tapað upp undir 80-90% af “öxl í öxl” mómentum í leiknum – það skilur mikið að þar. Mér fanst City líka byrja þetta vel, þeir pressuðu okkur vel, voru hrikalega snöggir og Milner var góður í fyrri hálfleik og svo átti Agger ekki roð í hraðann á Johnson. Þeirra mesti veikleiki er andinn í hópnum, það verður erfitt að halda öllum þessum mannskap ferskum – mórallinn getur orðið þeim af falli..

  En segjandi þetta, þá fannst mér við í sjálfu sér ekki vera spila neitt verulega illa í fyrri hálfleik – við vorum klárlega undir á vellinum en miðað við hvernig við vorum að spila á síðasta season-i þá fannst mér við virka mikið betur. Gaman að sjá 2 centera þó að vissulega megi færa rök fyrir því að við hefðum mátt við að hafa annan mann inni á miðjunni. Mér fannst Jovanovic koma sterkur inn, en Torres á greinilega aðeins í land og eins fannst mér Gerrard á köflum týndur. En ég held samt að við séum á réttri leið, við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að stiga út úr ömurlega season-i frá því síðast, þar sem margar vonir brustu. Við höfum ekki bætt þeim mannskap við okkur að við komum til með að vera berjast um titilinn en ég ætla fullyrða það að við munum ná í CL sæti samt sem áður.

  Þolinæði þrautir vinnur.. og þið kunnið rest.. (vonandi)

 19. Það þarf ekkert að tala um Liverpool, byrjunarliðið okkar er bara klassa neðar en hjá City. Lucas, Jovanovic, Kuyt og (bakvörðurinn) Agger myndu ekki einus sinni komast í 30 manna hópinn hjá City.

  Um city verður aftur á móti að segjast…………………zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz! Allt sem er leiðinlegt og vont við ítalska boltann kristallast þarna í einu liði. Nógu ömurlegt hvernig menn eyða peningum þarna eins og þeir séu á akkori við það en þegar menn geta ekki einu sinni drullast til að spila skemmtilegan bolta þá tekur steininn úr. 18 varnardurtar í miðjunni, boltanum alltaf sparkað í burtu þegar við fengum aukaspyrnu, byrja að tefja í fyrri hálfleik eftir að þeir komast yfir og verið að biðja um að reka menn útaf, djöfull langaði mig að sparka í rassgatið á a.johnson þá (og reyndar á Skrtl líka).

  City er ekki að fara að vinna Arsenal, Chelsea og Man utd en þessi lið eru öll mun betri en við akkúrat núna. (Tottenham var í þessum hóp þangað til þeir sömdu við Gallas sem mun éta liðið innan frá). Annað hvort verðum við að styrkja hópinn verulega eða eiga spila rugl-vel alltaf (eins og 08/09) og allt detta með okkur, öðruvísi náum við ekki topp 4, sorrí!

  Recap: Leiðinlegt gott lið vann leiðinlegt meðallið með markatölu sem gaf þó ekki rétta mynd af leiknum.

 20. staðreyndin er sú að Liverpool er með svona 6. besta leikmannahópinn í þessari deild og það er bara eðlilegt að enda í sæti miðað við það! eina sem gefur okkur bónus er Anfield völlurinn fallegi ! þó liðið se með nokkra góða eins og torres, reina, gerrard, og cole. þá vantar bara fleiri betri með ! ég er ekki að sjá þetta lið fara að taka meira en eitt stig á útivöllum eins og hjá united, chelski, arsenal, tottenham, og já city. þetta er bara staðreynd.. það vantar þetta stóra Liverpool hjarta í þetta lið sem mer finnst afar fáir vera með! eiginlega bara Gerrard og carra, kannski reina og torres!

 21. Í vor hömuðust menn á nokkrum hlutum.

  • Fáránlega varnarsinnað að vera með einn mann uppi á topp!

  • Þvílíka bullið þessi svæðisvörn í hornum!

  • Hafa bara Agger í bakverðinum.

  • Skella Gerrard inn á miðjuna, þá lagast allt!

  Í kvöld var ÖMURLEGT að horfa á liðið okkar. Óskiljanleg taktík að vera með færri menn á miðju og ef hann ætlaði sér að prófa var ljóst að það var ekki að takast eftir 20 mínútur. Fullkomlega út í hött að stilla senterum upp á köntunum og enga kantmenn í liðinu.

  Vandræðaleg dekkun í öllum set-piece atriðum á okkur og aumingja vesalings Agger settur í vonlausa stöðu gegn fljótum og flinkum kantmanni.

  Steven Gerrard er að mínu mati alltof aftarlega á vellinum, verst illa og fær of lítið að komast í að skapa.

  Hodgson hefur margt, en núna kemur hann og hans kostir í ljós. Allt “honeymoon” kláraðist í kvöld, Mascherano burt strax og átta sig á því takk að það vantar MINNST þrjá heimsklassaleikmenn til að ná árangri með þetta lið. Ég skil ekki leikmannakaupin hingað til og er orðlaus eftir kvöldið yfir framlengingu á samning Martin Skrtel!

  Þessi sögulega einföldun frá í vor um að “tapa klefanum” og vera “þungur og leiðinlegur” er fullkomið aukaatriði. Þjálfarar spila ekki leiki, heldur leikmenn.

  Nýja, ALVÖRU leikmenn strax takk!

  Ef það tekst ekki fyrir 31.ágúst verðum við í meiri skít en síðast!

  BRJÁLAÐUR!

 22. En þar sem ég er bjartsýnismaður að eðilsfari trúi ég því náttúrulega að við losnum við argentíska eitrið og fáum 2-3 hressa gæja sem taki rugl gott tímabil á þetta bara! 🙂

 23. Áttum ekki ,,break” í gott City lið í kvöld. Ef þeir spila svona gegn sterkustu liðunum eiga þeir séns í titilinn. Hins vegar fullt af brotalömum okkar megin og í raun fáir jákvæðir punktar. Er sammála Einari Erni og Hafliða með það að þetta sé einn erfiðasti útivöllurinn í deildinni og því ætla ég ekki að fríka út yfir þessu. En ljóst er að margt þarf að laga á okkar bæ.

 24. Jæja þá er það United álitið á þessum leik : Sanngjarn sigur hjá City , eitthvað sem líklega allir eru sammála um. City spilaði vel en ansi eru þeir leiðinlegir á að horfa , einhver súpa af varnarsinnuðum miðjumönnum og einn framherji. Í stöðunni 3-0 er skammarlegt að fjölga ekki í sókn og rena að bæta við mörkum og þetta á við um öll lið. Liverpoolmenn komu inn á völlinn greinilega ekki með hausinn í lagi , hvort það er vegna J.M eða einhvers annars veit ég ei. Liverpool menn virtust tapa öllum návígum sem er ekki algengt á þeim bæ.
  Það er ljóst að City menn verða erfiðir við að eiga þetta árið. Liverpool er vissulega að fá ofsalega erfiða leiki í upphafi og ekki rétt að dæma þá eftir 2 leiki. Ég skil hinsvegar þá Liverpool félaga mína sem eru áhyggjufullir þessa dagana.

 25. Meira nöldrið! Þetta var bara efnilegt fram að fyrsta markinu og á köflum í seinni hálfleik. Gleymum því ekki að ef rétt er að Mach hafi snappað og neitað að spila, þá hefur verið erfitt fyrir liðið að fókusa 100%. Gefum kallinum 10 leiki!

 26. Enn og aftur sannast það að Lucas á einfaldlega í mesta lagi heima sem byrjunarliðsmaður í liði eins og Blackburn. Hann getur einfaldlega ekki búið til neitt, sendir boltann nær undantekingalaust til baka og gerir það yfirleitt illa. Ég kemst einfaldlega ekki yfir það hversu slakur hann er, var búinn að gleyma því. Leikurinn tapaðist fyrst og síðast á miðjunni þar sem City menn voru einfaldlega mun betri (og fleiri). Barry var hrikalega öflugur í þessum leik og maður spyr sig afhverju í fjandanum hann sé ekki í LFC í stað skíta City.

  Agger leit út eins og farlama 80 ára gömul kona á móti ungum, sprækum og fljótum Adam Johnson. Carra er hægur og það mun ekki lagast. Ngog þarf endilega að fara skella prótein sjeik í sig og fara lyfta.

  Annars er þetta nú enginn heimsendir, enda eiga City eftir að vera í toppbaráttunni.

 27. að mínu mati töpuðum við þessu á miðjunni. Leyfðum þeim að eiga hana allan leikinn, enda voru þeir með boltan 65% af leiknum. Algjört rugl að spila 4-4-2 á þessum velli á móti svo sterkum miðjumönnum.

  Mér fannst Jovanovich og Kuyt slökustu leikmenn vallarins, common það kom ekkert út úr þeim og í raun og veru er Jovanovich mjög líkur Kuyt. Alltof hægir, óteknískir, og með lélegar sendingar. Ódýrasti leikmaður City tók svo Agger í bossann á kantinum og Jovanovich hofði á.

  En ég er bjartsýnn á sigur í næsta deildarleik. Hann mun setja Maxi á hægri, Poulsen á miðjuna og jafnvel Pacheco eða Babel á vinstri. En það virkar ekki að hafa kuyt og Jovanovich á sitthvorum kantinum í 4-4-2 það er nokkuð ljóst.

 28. Ömurleg úrslit og enn einu sinni dettur ekkert með okkur. En mér fannst 3-0 ekki gefa rétta mynd af leiknum og get ekki tekið undir með mönnum að City hafi verið betri en við á öllum sviðum. Við vorum á stórum köflum betri í seinni hálfleik og þeir áttu þrjú skot sem hittu markið. Reina varði sem sagt engan bolta í kvöld! Og ef þetta hefði ekki verið svona einn af þessum dögum hefðum við skorað í stöðunni 2-0, þegar Hart varði tvisvar eftir að Gerrard setti hann í stöngina.

  Mér fannst við tapa leiknum af því að Agger réð ekki við hlutverkið í vinstri bakverði, Skrtl er ekki nógu góður, Milan er alls ekki nógu góður (og ég skil ekki af hverju Maxi færi ekki að spila þar sem mér finnst hann mjög góður) og að lokum hefði hentað betur að spila með einn striker og þrjá á miðsvæðinu. Svo skiptir auðvitað miklu að Torres er í byrjunarliði í fyrsta sinn síðan í apríl!

 29. hann fær bara aldrei allan peningin fyrir mascherano það þarf að borga 2,5 milljónir punda í vexti á viku og kanarnir þurfa að fá sitt. við höfum nánast ekkert keypt. fyrir undir 10 mills í mesta lagi svo samt átti að vera til 12 milljónir + sala á leikmönnum ! fokking bull maður

 30. Get ekki sagt að ég hafi mikla trú á að Hodgson sé að fara að gera góða hluti með þetta lið.

 31. Því miður þá verðið þið að heyra LUCAS vælið enn einu sinni frá mér , ég einfaldlega get ekki skilið það afhverju þessi maður er enn hjá liverpool hann er ekki GÓÐUR fótboltamaður og er ekki efnilegur heldur hvað er þá eftir ???

  Enn að leiknum þá fannst mér vera rosalegur klassamunur á þessum liðum punktur ………

 32. petur8… getur ekki hafa sagt þetta betur. Hvenær ætla menn að átta sig á því að hann er enginn fótbolta maður, verður aldrei neitt meira en “meðalmaður”. Þessir blindu liverpool menn minna mann á íslensku ríkistjórnina sem neitaði að trúa því að efnahagskerfið var að falla, á meðan Man utd menn skelli hlæja af heimsku okkkar manna.

 33. Að hafa hægfara Hollendinginn á hægri kantinum var algjörlega út í hött, þar þurftum við sprengikraft. Ég héld það væri skynsamlegt að selja kallinn og fá einhverja peninga fyrir hann meðan það er hægt.
  Ég skil svo ekki af hverju Lucas Leiva er byrjunarliðsmaður hjá LFC, hefði svo sannarlega viljað sjá Poulsen djúpan, Gerrard og Aquilani fyrir framan. Ég bara er ekki að ná þessu hvers vegna var verið að lána Aqua. Vissi Hogdson ekki að Masch væri að fara? Algjört rugl að reyna að halda leikmönnum sem vilja ekki spila fyrir klúbbinn.

 34. Þetta er alveg mögnuð umræða. Stjórinn og ellefu leikmenn skíta á sig gegn stórgóðu City-liði en neinei, allt hefði verið betra ef við bara hefðum skilið greyið Lucas Leiva eftir heima.

  Ótrúlegt. Er þetta öll innsýnin sem menn hafa í knattspyrnuna? Lucas var lélegur í kvöld … sem og tíu samherjar hans. Hvernig væri að horfa á leikinn og reyna að greina hann aðeins í stað þess að halda uppi þessari sömu, þreyttu klisju um leikmann sem virðist vera nógu góður fyrir brasilíska landsliðið, ef ekki ykkur sérfræðingana í íslenskum hornsófum.

 35. Ég er alveg sammála Kristjáni Atla – fáránlegt að vera að hamast á Lucas. Hann og Gerrard voru tveir gegn þremur city mönnum á miðsvæðinu og töpuðu þeirri baráttu. Mér fannst Lucas langt frá því að vera lélegasti leikmaður okkar og hann á eftir að vera mjög mikilvægur í vetur þegar Masch verður farinn.

 36. Fyrirgefið, ég get ekki orðað þetta öðruvísi. Þeir sem halda að Lucas hafi verið vandamálið í kvöld hafa ekki hundsvit á knattspyrnu.

 37. Það er bara óþolandi staðreynd að Lucas skuli ennþá vera byrjunarliðsmaður hjá Liverpool FC. Hann spilaði flesta leiki liðsins í fyrra (ef ég man rétt) þrátt fyrir að það sé löngu orðið öllum sem hafa sæmilegt fótboltavit himinhrópandi augljóst að hann er ekki í þeim gæðaflokki sem er Liverpoolliðinu eða stuðningsmönnum þess samboðinn.

 38. Ég ætla hér með kjósa þessi rök “Lucas er nógu góður fyrir Brasilíska landsliði og þá er hann nógu góður fyrir Liverpool” ömurlegustu rök í langri sögu fáránlegra rökfærslna. Ég fæ aulahroll yfir svona vitleysu. Andrea Dossean komst í heimsmeistaralið Ítala, Bernard Diomede komst í heimsmeistaralið Frakka, Bruno Cheyrou komst í Franska landsliðið. Allt voru þetta samt eintómar pulsur sem voru engan veginn nógu góðir til að spila með Liverpool þó svo að kexruglaðir landsliðsþjálfarar hafi valið þá í lið sín. Menn eru metnir útfrá frammistöðu sinni með Liverpool og engu öðru.

 39. Þangað til að eigendamálin leysast þá er því miður staðreyndin sú að við erum ekkert að fara að blanda okkur í topp 4.

  Munurinn á okkur og shitty er skuggalegur, þeir leikmenn sem ekki byrjuðu leikinn hjá Shitty:
  Kolarov 19m p
  Silva 26m p
  Boateng 11m p
  Jo 18m p
  Robinho 32m p
  Balotelli 26m p
  Santa Cruz 18m p
  Adebayor 26m p
  Bridge 11m p
  Bellamy 13m p
  SWP 11m p

  SAMTALS 201 M PUNDA SEM EKKI VORU Í LIÐINU Í DAG !!!!!

 40. Sást alveg hvað Lucas var sterkur í Suður-Afríku í sumar og raunar í heildina með Brasilíska landsliðinu. Hann er einn mikilvægasti hlekkurinn þeirra, sem og okkar… einmitt

 41. Enn eru Liv leikmenn að klikka á sendingum og já nánast öllu, 2 leikir í röð eins og hjá 2 deildar liði. Skiptingar of seinar eins og hjá Rafa og liðið bara ekki sannfærandi. Menn tala um Lucas sem er alveg sanngjarnt, hann batnar ekki og verðu bara svona. Ég segi nýta færinn og vanda sendingar en ekki þessi máttleysis legu skot. Koma svo LIVERPOOL.

 42. Sælir félagar.
  Það er e.t.v alveg rétt að tapið í kvöld hafi ekki verið Lucas að kenna. Ef við horfum raunsætt á hlutina þá sést langar leiðir að þetta Liverpool lið sem Hodgson erfði eftir Benitez er hreinlega ekki nógu gott. Að LFC þurfi að nota miðvörð í vinstri bakverði, hæga sóknarmenn á köntunum, Lucas Leiva á miðjunni og David Ngog frammi segir allt sem segja þarf.
  Það eru eflaust margir ósammála mér og finnst þetta allt fínir leikmenn en ég skipti ekki um skoðun. Kuyt, Lucas o.fl mega finna sér nýtt lið mín vegna, þeir verða amk aldrei í þeim klassa sem ég vil sjá hjá klúbbnum mínum.

 43. Við vorum slakir, en í stöðunni 2-0 áttum svo svakalega sókn sem hefði átt að enda með marki. Þá hefði staðan orðið 2-1 og allt annar leikur í gangi. Man City er bara einfaldlega með vel mannað lið og Chelsea, Arseanl og/eða Man Utd eiga eftir að tapa leikjum á þessum velli.

  Fyrir mótið vildi ég fá 3 stig úr þessum 2 leikjum, við fáum 1 stig sem er ekki nógu gott, en alls engin heimsendir. Hinsvegar verðum við að fá 6 stig út úr næstu 2 deildarleikjum – allt annað eru vonbrigði.

  Nú sem aldrei fyrr – YNWA

 44. Þetta er ekkert flókið. Roy Hodgson er ekkert merkilegri stjóri en þetta. Liverpool er ekki að fara að ná mörgum stigum á útivelli í vetur. 4-4-2 með Torres í byrjunarliði var barnaleg uppstilling á móti City. Torres er ekki kominn í leikform, hann hefði átt að byrja á bekknum og koma inn á eftir 60 mín.

  Gerrard er ósköp einfaldlega ekkert sérstaklega öflugur miðjumaður. Hann getur vissulega farið í svakalegar tæklingar og gefið magnaðar sendingar, en hann getur líka horfið af miðjusvæðinu og gefið fáránlegar aukaspyrnur. Miðjuspil gengur að stórum hluta út á að loka svæðum og að láta boltann ganga milli manna.

  Ég vil hvetja þá sem halda að Lucas sé vandamálið til að segja okkur hvað það var sem hann gerði vitlaust í þessum leik.

 45. Þetta er einfalt… ef við vinnum alla leikina sem eftir eru í deildinni, þá verðum við meistarar!!! 🙂

  Nei, án gríns. Miðað við allt sirkus-dæmið varðandi eigendurna og skuldir félagsins, þá er ekki hægt að segja að Hodgson sé arfaslakasti þjálfari í heimi eftir þessa fyrstu tvo leiki. Það var ótrúleg óheppni sem tók af okkur tvö stig í fyrsta leiknum, og svo er það firnasterkt olíulið sem er mögulega að gera tilkall í dolluna í ár – vinna sanngjarnt 3:0. Það má læra af þessum leik og ég er ekkert að gefast upp. Það munar ekki nema fimm stigum á okkur og efstu liðum 🙂

  Mér finnst verst að hafa Pepe Reina í markinu hjá mér í fantasy-premierleague leiknum og hann er fyrirliði hjá mér… ég á eftir að tapa á því. En ég hef trú á því að ég hali inn stigin síðar meir…

  Áfram Liverpool ávallt!

 46. Lucas er góður leikmaður en hann vantar það sem enska deildin krefst, hraða! Hans fótboltauppeldi eru stuttir boltar á næsta mann sem er nákvæmlega það sem brasilískir leikmenn læra í upphafi. Hann mun alltaf verða í vanda í enska boltanum meðan hann er ekki notaður með öðrum varnarsinnuðum miðjumanni og því er ég kvíðinn fyrir hans hönd í vetur ef Hodgson notar 4-4-2 kerfið áfram. Í mínum huga var leikkerfið ekki rétt en um það má að sjálfsögðu – og vonandi – deila:-)

 47. Það versta við þessi úrslit er að mér fannst þetta City lið alls ekki svo gott. Vissulega voru þeir líkamlega sterkari en okkar menn út um allan völl enda með 5 miðverði í liðinu (öll varnarlínan og svo Yaya á miðjunni hafa spilað sem miðverðir, kannski De Jong líka?). Ef þeir hefðu ekki Adam Johnson þá hefðu þeir ekki skapað neina hættu í þessum leik og þar að auki má skrifa öll mörkin á aulaskap í varnarleik okkar manna. Af hverju yfirgaf Agger Milner í fyrsta markinu til að tvöfalda á Johnson og hvað var Gerrard að hugsa að valda ekki Milner þegar Agger var farinn? Reina hefði getað gert betur í öðru markinu, og síðan var algjör óþarfi að gefa þeim þetta víti. En ég held að þetta City lið eigi eftir að eiga í erfiðleikum með að skora ef Johnson meiðist enda er hann langbesti sóknarmaðurinn í þessu liði.

 48. þetta Liverpool lið sem Hodgson erfði eftir Benitez er hreinlega ekki nógu gott.

  Sérðu fyrir þér að lið undir stjórn Benitez hefði tapað 3-0 í kvöld? Ekki ég.

  Að LFC þurfi að nota miðvörð í vinstri bakverði, hæga sóknarmenn á köntunum, Lucas Leiva á miðjunni og David Ngog frammi segir allt sem segja þarf.

  Já, það segir ýmislegt. LFC þurfti ekki að nota miðvörð í vinstri bak, Aurelio var á bekknum og Insua er enn í herbúðum liðsins.

  Jovanovic er ekkert sérlega hægur.

  Davið Ngog er búinn að standa sig afar vel það sem af er tímabili og skoraði meðal annars frábært mark í síðasta leik.

  Hvað í ósköpunum segir þetta okkur annað en það að liðið á ekki krónu til að kaupa dýra leikmenn og stjórinn hlustar á ákveðna leikmenn og blaðamenn áður en hann velur liðið.

  ps. Hvaða varnaraðferð var aftur notuð í horninu sem City skoraði úr í kvöld? Ég get svo svarið að mér sýndist Liverpool vera að dekka “maður á mann” en samt skoraði City! Ég hélt að lið skoruðu bara úr hornum þegar varist væri með svæðisvörn.

 49. fótboltauppeldi eru stuttir boltar á næsta mann sem er nákvæmlega það sem brasilískir leikmenn læra í upphafi

  Sem er einmitt aðferðin sem gullaldarlið Liverpool notaði og ég myndi vilja sjá Liverpool taka upp aftur, en það krefst þess að menn spili boltanum í fætur og hreyfi sig. Því miður virðist þetta eiga að ganga út á kraft og kraftaverkasendingar.

 50. Man. City getur boðið í alla leikmenn í heiminum og fengið þá alla. Liverpool getur líka boðið í flesta leikmenn í heiminum en þurfa að færa fórnir til að geta það, en Hodgson þorði ekki að selja Torres á 50m fyrr í sumar til að taka af skarið. Það tel ég að verði Liverpool að falli á þessu tímabili þar sem þessar 50m hefðu nægt til að fá Ashley Young og James Milner til Liverpool, akkúrat það sem vantar í liðið. Með svona leikmenn í liðinu yrði auðvelt að gera sóknarmann að 20-25 marka leikmanni sem og opna varnir andstæðinganna.

  Í staðinn höfum við sóknarleikmann í hæsta gæðaflokki sem spilar með hangandi haus og langt undir getu, eins og allt liðið fyrir aftan hann. Þetta er mjög fljótt að smitast út sérstaklega þegar um lykilmann er að ræða. Á sínum tíma eyddi Sir Alex Ferguson háum upphæðum í Rio Ferdinand og Wayne Rooney sem hefur margborgað sig í gegnum árin. Hjá Liverpool er alltaf farin sú leið að finna upp hjólið og eyða engu minni pening í slaka leikmenn….sagan endalausa sem hrjáð hefur Liverpool í 12 ár.

  Frammistaða liðsins í kvöld endurspeglar algjörlega sjónarmið mitt að ofan, en Steven Gerrard sem virtist fjörugastur í kvöld gat vart gert mikið þegar enginn annar fylgdi honum í verki. Það er ljóst að ungir leikmenn eins og Pacheco og Kelly eru farnir að eiga góðan séns á að komast í aðalliðið miðað við þessa frammistöðu, en ekki er það gæðastimpill á hópinn með fullri virðingu fyrir þeim sem efnivið.

  Þetta “rant” mitt er engan veginn fyrsti nagli minn í kistu Hodgsons, miklu frekar viðvörunarbjöllur sem sýna stærð verkefnisins sem framundan er. Hodgson verður að koma niður á jörðina og vera snöggur að setja sinn stimpil á liðið, og sýna að Liverpool sé á eftir góðum framtíðarmönnum, en ekki áframhaldandi viðvaningum eins og undanfarin ár.

 51. Kaldur veruleikinn blasti við mörgum í kvöld, þ.e. að Liverpool FC er langt frá því að vera með nógu gott lið til að vinna deildina og það sem verra er líka til að enda í topp 4. Eins og staðan er í dag þá eru Chelsea, manu, City, Arsenal og Tottenham með betri lið en Liverpool.

  Aðal ástæða þess er fjársvelti eigenda liðsins, lið sem fer í gegnum þrjú tímabil án þess að eyða meira en selt er í leikmenn tekur skref aftur á bak í gæðum. Á meðan á þessu fjársvelti hefur staðið eru liðin sem áður voru talinn lakari búinn að styrkja sig mikið. Þannig að við óbreytt ástand erum við að fara að horfa upp á harða keppni hjá okkar mönnum um Evrópusæti.

  Liðið í dag er lakara en liðið sem endaði í 2. sæti fyrir tveimur tímabilum síðan það er staðreynd. Það tímabil byrjaði liðið með Riera í fanta formi, Keane til að auka breiddina í sókninni og miðju sem öll lið í heiminum öfunduðu liðið af. Auk þess var vinstri bakvörður í stöðu vinstri bakvarðar ekki miðvörður. Liverpool teflir fram lakari leikmönnum nú en þá að mínu mati, Riera er/var betri leikmaður en Jovanovic og Keane er mun betri leikmaður en Ngog. Lucas og Poulsen með Gerrard í holunni eru ljósárum í gæðum frá Alonso og Mascherano með Gerrard í holunni. (hér að ofan gef ég mér það að Mascherano hafi spilað sinn síðasta leik fyrir LFC).

  Fyrir tímabilið sögðu lykilmenn að ef Liverpool ætlaði að blanda sér af fullri alvöru í toppbaráttuna þá YRÐU þeir að kaupa 4 til 5 heimsklassa leikmenn. Og hvað hefur gerst jú Cole kom en í staðinn fer annar þ.e. Mascherano. Þannig að fyrir stærðfræðingana þá erum við á núlli, það vantar ennþá þessa 4 til 5 leikmenn. Til að vera á pari við bestu lið deildarinnar vantar í liðið vinstri bakvörð, vinstri kantmann, miðjumann og sóknarmann. Ég sé ekki Liverpool bæta úr þessu síðustu vikuna fyrir lokun glugga.

  Varðandi leikinn þá var þetta taktískur ósigur, 442 á útivelli gegn milljarðaliði City gekk engan veginn upp, liðið var gjörsamlega yfirspilað á miðjunni. Þetta er orðinn einn af erfiðustu útileikjum í deildinni því hefði ég talið eðlilegra að fara inn í leikinn með tvo varnartengiliði og Gerrard í holunni fyrir framan þá og Torres fremstan. Enda kemur öll hætta sóknarlega í gegnum Gerrard og Torres.

  Krizzi

 52. Svo er ég sammála Matta með það sem hann segir um uppstillingu Hodgson í kvöld. 4-4-2 með Torres í engu formi er í best falli heimskuleg. Man. City voru alltaf með manni fleira á miðjunni en Liverpool og einu skiptin sem Liverpool gat sent 3-4 sendingar á milli sín var þegar City var farið að bakka í 2-0 og 3-0, sem er eðlileg þróun enda unnin leikur. Það eru mörg lið í dag að spila 4-3-2-1, 4-5-1 (eða hvernig sem þú vilt stilla útgáfunni) og 4-4-2 er ekki að virka á slík kerfi nema þú hafir annan sóknarmanninn afturliggjandi (Joe Cole eða Gerrard), og sóknarmann í 100% leikformi.

  Líka sammála því að Gerrard er ofmetinn og ef Gerrard stendur sig ekki eins og sannur fyrirliði í einhverjum leiknum að þá er það allt Lucas Leiva að kenna. Hvað þarf Lucas greyið að gera til að sanna það að hann er EKKI vandamálið hjá Liverpool! Vandamál Liverpool undanfarin ár er heimskuleg forgangsröðun og fáránleg sóun á miklum peningum.

 53. Matti fer hér hamförum. Er meira og minna sammála hverju einasta orði frá honum í kvöld.

  Ef menn vilja gagnrýna Benítez fyrir að skilja lélegt lið eftir fyrir Hodgson er ekki séns að gera það án þess að tala um hversu illa Benítez var svikinn af eigendunum á leikmannamarkaðnum. Ef Benítez hefði notið stuðnings og þeir staðið við loforð hefðu Barry og Tévez verið að spila gegn City í kvöld, ekki með þeim.

  Ef menn vilja líka meina að Benítez hafi skilið eftir sig bakvarðalaust lið er það einnig fásinna. Hodgson hefði hæglega getað notað Insúa eða Aurelio í kvöld. Eins kaupi ég ekki það sem einhverjir segja núna að hann hafi neyðst til að nota 4-4-2 í fjarveru Mascherano. Ef Poulsen gat byrjað gegn Trabzonspor sl. fimmtudag gat hann byrjað í kvöld. Að öðrum kosti hefði hæglega verið hægt að nota Maxi Rodriguez á miðjunni með Lucas og Gerrard. Það er Hodgson sem ber ábyrgð á leikaðferð kvöldsins og enginn annar.

 54. Sæll Matti.
  Ég hef lítinn áhuga á að fara í hártoganir um hvernig leikurinn hefði farið ef Benitez hefði verið á hliðarlínunni. Mönnum er sem betur fer frjálst að hafa sínar skoðanir í fótbolta almennt og spilamennsku liðsins sem þeir halda með.
  Hverju sem um er að kenna, eigendum, þjálfurum eða hverju sem er þá sést langar leiðir að hópurinn er ekki nægilega sterkur. Í kvöld voru… að mínu mati, minnst fimm menn í byrjunarliðinu sem eiga ekki að vera á launaskrá hjá Liverpool. Þar með er ég ekki að segja að þeir séu endilega lélegir leikmenn, einvörðungu ekki í þeim klassa sem ég geri kröfu til hjá félaginu mínu.
  Hvort þær kröfur eru svo raunhæfar miðað við fíaskóið í kringum félagið er svo önnur saga.

 55. Ekki misskilja mig. Ég ætla mér ekkert að hengja Hodgson strax eða úthrópa hann eftir einn eða tvo slaka leiki. Ég er kominn yfir pirringinn sem fylgdi brottför Benítez en það þýðir ekki að ég sé reiðubúinn að ljúga að sjálfum mér og halda að allt sé í stakasta lagi, eins og maður gerði í fyrra. Það er ekki allt í stakasta lagi, það vantar ennþá talsverða breidd í hópinn, og nýji stjórinn okkar hefur ekki beint sannað sig með stórlið áður og hefur síðustu þrjú árin náð vægast sagt slökum árangri á útivelli. Hann þarf að afsanna allar hrakspár áður en maður fer að halda því fram að hann sé einhver snillingur. Ég vona að honum takist það, og hann hefur minn stuðning allan á meðan hann stýrir Liverpool, en ég mun samt ekki reyna að neita því augljósa. Gerði það aldrei með Benítez og mun ekki gera það heldur með Hodgson.

  Hið augljósa: tapið í kvöld var honum að kenna og Rafa hefði, með sama mannskap, aldrei tapað 3-0 í kvöld. Rafa hefði kannski tapað líka, en aldrei 3-0 og aldrei vegna þess að hann kaus erfiðan útivöll til að byrja allt í einu að fikta í 4-4-2 uppstillingu. Hodgson á að vera framför frá Benítez og hann verður að gera talsvert betur til að standa undir því.

 56. Varðandi Lucas Leiva þá spilar hann boltanum yfirleitt til hliðar eða tilbaka.
  Hreyfing án bolta er alls ekki góð og hraðinn er ekki mikill.
  Hann er einfaldlega ekki nógu góður varnarlega og það kemur afskaplega lítið úr honum sóknarlega.
  Hann er að sjálfsögðu ekki aðalorsök þessa taps, hann tók ekki ákvörðunina um að þeir yrðu tveir á móti þremur inná miðjunni. Við erum bara ekki að fara að gera neina hluti með hann inná miðjunni og mér kvíður fyrir því ef Gerrard meiðist, Masc farinn og Aquilani í láni.

 57. Svo ég taki það líka fram þá studdi ég Benitez til síðasta dags. Fannst hann illa svikinn af eigendunum og þótt ég hafi orðað það sem svo að liðið sem Hodgson hafi fengið í arf frá honum sé ekki nógu gott þá fólst ekki í því gagnrýni á hvorki RH né RB. Staðreyndin er einfaldlega sú að RH tók við liði sem endaði í sjöunda sæti í deildinni í fyrra. Slíkt lið getur varla talist mjög gott lið á Liverpool mælikvarða. Eða finnst mönnum það kannski?

 58. Spurning um að gefa bara leikina gegn Arsenal, Man utdd og Chelsea. Þá töpum við bara 3 – 0.
  Núna vitum við af hverju Gerrard var aldrei á miðjunni hjá Benitez, hann getur ekki varist.

  Ég verð samt að viðurkenna að ég var ánægður með að Hodgson spilaði 442. Það sýnir að hann hefur þor og ætlar að reyna að bæta útivalla árangur Liverpool.

  3 -0 eru vond úrslit en ég vil frekar að Liverpool tapi vegna þess að það reynir að sækja en tapi þrátt fyrir að liggja í vörn.

  Menn töluðu um að Man City ætti eftir að stilla saman strengi sína en það þarf Liverpool líka. Liverpool mun spila betur en þetta undir Roy Hodgson. Hafði ekki áhyggjur.

  Ég hef áhyggjur af því að Hodgson kunni ekki að nota Torres en maður vonar það besta.

  Liverpool vinnur ekki titill í vetur en ég held að við komum til með að spila skemmtilegan fótbolta.

  Spennandi tímar framundan.

 59. Varðandi Lucas Leiva þá spilar hann boltanum yfirleitt til hliðar eða tilbaka.

  Nei, það gerir hann ekki. Þetta getur þú sannreynt með því að skoða einfaldlega samantekir á leik hans. Auðvitað gerir hann það líka, þetta kallast að halda bolta innan liðsins og að færa liðið til. Virkar þannig að þú gefur boltann, hleypur í svæði og færð hann aftur. Gríðarlega sniðugt í fótbolta.

  Hreyfing án bolta er alls ekki góð og hraðinn er ekki mikill

  Það hreyfa sig fáir betur án bolta en Lucas Leiva, hann er duglegur að hlaupa í svæði og á alltaf nokkur góð hlaup fram í hverjum leik. Það er aftur á móti allur gangur á því hvort samherjar hans gefa á hann þegar hann á þessi hlaup í svæði.

  Hann er einfaldlega ekki nógu góður varnarlega

  Þetta er ótrúlega mikið bull, hann er þvert á móti ansi sterkur varnarlega. Mæli með því að fólk prófi að horfa á hann spila fótbolta.

  Það er oft ótrúlega að fara á pöbbinn og fylgjast með “stuðningsmönnum” Liverpool. Ef Lucas missir boltann heyrir maður undantekningarlaust ókvæðisorð en þegar Gerrard klúðrar hlutum heyrist þögn. Þegar Lucas vinur boltann snyrtilega (sem hann gerir reglulega) heyrist ekki múkk en þegar Gerrard tekur hasarskriðtæklingu ærast menn af fögnuði.

 60. Kristjlán atli ….. þú hefur greinilega aðra sýn á þetta en ég , en þar sem ég hef töluverða reynslu að iðkun knattspyrnu þá get ég sagt þér strax að ef miðjan virkar ekki þá virkar ekkert í liðinu það er eins einföld fílósfía og hægt er að hugsa sér . á meðan lucas er í liðinu þá geta menn í öðrum stöðum ekki einbeitt sér að sinni stöðu þar sem að lucas líður klárlega illa með boltann og vill losa hann sem fyrst og oft gerir hann það þannig að samherji er í verri stöðu en hann sjálfur var í , alltaf skal ég muna þegar einn af mínum fyrstu þjálfurum sagði mér að svoleiðis sendingar væru verri en engin sending .
  þannig að fyrir mér er þetta rosalega einfalt hann er byrði á þessu liði og mun vera það á meðan hann er enn á launaskrá , burt séð frá allri tölfræði með sendingar sem rata á samherja eða annað þá er hann ekki og mun aldrei verða nógu góður leikmaður til að réttlæta sem miðjumann í byrjunaliði liverpool . Nema náttúrulega menn séu farnir að sætta sig við að bæði liðin í manchester séu ofar okkur ásamt 3 liðum frá lundúnum ?? ég vill ekki meina það en en kannski er meðalmennskan farinn að fara nokkuð vel í suma aðdáendur liverpool en þar er ég ekki meðtalinn !!!

 61. Staðreyndin er einfaldlega sú að RH tók við liði sem endaði í sjöunda sæti í deildinni í fyrra. Slíkt lið getur varla talist mjög gott lið á Liverpool mælikvarða. Eða finnst mönnum það kannski?

  Nánast sama lið endaði í öðru sæti deildarinnar árið á undan.

 62. Það var eins og að allt MC liðið væri á sterum, við vorum bara eins og hríslur í kringum þá..
  Þeir sundur spiluðu okkur og við áttum bara ekki séns, gátum aldrei haldið boltanum í fleirri en 1-2 sendingar og bara útí hött.

  Held að ég hafi bara aldrei kommentað svona dapurt eftir leik, eeen því miður þá var þetta bara svona. En Liverpool till I die svo að vona bara að þeir rífi sig upp og slátri leiknum á fimmtudaginn!

  YNWA

 63. á meðan lucas er í liðinu þá geta menn í öðrum stöðum ekki einbeitt sér að sinni stöðu þar sem að lucas líður klárlega illa með boltann og vill losa hann sem fyrst og oft gerir hann það þannig að samherji er í verri stöðu en hann sjálfur var í

  Þú segist hafa spilað fótbolta. Það finnst mér ótrúlegt.

  Lucas spilar sendingar í fætur og býður sig aftur. Út á þetta gengur alvöru fótbolti. Menn þurfa að hafa tækni til að taka á móti bolta og leikskilning til að hlaupa í svæði.

  Horfðu á Barcelona spila og lýstu því hvað þar fer fram. 90% sendina eru einfaldar og í fætur. Þannig er fótbolti spilaður, þannig spilaði Liverpool liðið þegar það var besta lið Englands.

 64. Pacheco og fleiri ungir strákar eiga klárlega að fá fleiri sjénsa og að hafa lucas inn á allan leikinn var skandall hann bara getur ekki neitt!……

 65. Matti … auðvitað heyrast ókvæðisorð þegar lucas missir boltann vegna þess að hann gerir mikið af því og mjög illa , en að bera saman gerrard og lucas er heimskulegt og á ekki að sjást á þessari síðu. Hann má eiga alveg hlaupa um völlinn og kalla það “góð” hlaup fyrir mér en það fyndna við það er að ekkert kemur útúr því þannig að hvernig geta það þá verið góð hlaup ??

 66. Matti …. já oki þú meinar þá að lucas er ekki í nógu góðu liði er það málið ??

 67. Held ég nenni ekki að velta mér upp úr þessu í kvöld, KAR og Matti eru að segja flest allt sem ég vildi sagt hafa!!

  En burtséð frá leiknum, mikið djöfull er maður svakalega ósáttur við helvítis Javier fokking Mascherano, réttast væri að afskrifa þennan pening sem við erum að meta hann á og frysta kvikindið Winston Bogarde style í 2 ár.

  Svo var maður að hrósa þessu fífli eftir Arsenal leikinn. (með fyrirvara um að hann hafi í alvöru neitað að spila þennan leik).

 68. Lucas er ekki lelegur leikmaður en hann er alls ekki nógu góður fyrir Liverpool ! miðjan er ein mikilvægasta staðan á vellinum, ef þú átt miðjuna og stjórnar miðjunni í leik ertu ekki að fara að tapa þeim leik. góður miðjumaður þarf að vera áberandi inná vellinum, hann þarf að berjast mikið og hlaupa mikið hann þarf að eiga góðar sendingar framm á við og vera með auga fyrir stungusendingum og þarf að geta skorað úr skotum fyrir utan teig ! þetta getur Gerrard allt og hann gerir það oft !! en þetta gerir Lucas nánast aldrei og þess vegna er hann ekki nálægt því að vera annað en varamaður í mesta lagi !!! og eg er ekki að tala um þennan leik heldur svona 95% af leikjum hans með Liverpool ! hættiði að lifa í blekkingu. Lucas er ekki nógu góður til að byrja yfir 30 leiki í ensku deildinni ef þið ætlið að gera ykkur vonir um 1-4 sæti !

  kæmist Lucas inni liðið hjá chelsea fyrir Lampart eða Essien ?? kæmist hann í liðið hja M united fyrir Fletcer eða Scoles ?? kæmist hann í lið Arsenal fyrir Fabregas eða Diaby eða Nasri ?? kæmist hann í lið man city fyrir Barry, jong, yaya, eða viera ??? getiði svarað mer því þið sem alltaf viljið verja Lucas ??

  eg er ekki að seigja að hann hafi verið lelegastur í þessum leik og eg er á þeirri skoðun að við erum með fleiri slakari menn en hin 4-5 stóru og ekki eins sterkan hóp ! en við erum samt með nokkra svakalega sterka sem halda okkur á floti !

 69. Hvernig getur umræða eftir þennan leik nánast eingöngu snúist um Lucas? Þó Jesús kristur sjálfur hefði spilað við hlið Gerrard í þessum leik á móti þessari miðju City hefði niðurstaðan orðið sú sama. Kannski hefði Liverpool náð að ýta possession uppí 36% en ég efast samt um það. Það er engin tilvilun að nánast öll lið sem eitthvað geta spila 4-3-3 eða eitthvað afbrigði af því.

 70. @Lóki
  Hversu mikið af þessu gerir Mascherano?

  “góður miðjumaður þarf að vera áberandi inná vellinum, hann þarf að berjast mikið og hlaupa mikið hann þarf að eiga góðar sendingar framm á við og vera með auga fyrir stungusendingum og þarf að geta skorað úr skotum fyrir utan teig ! þetta getur Gerrard allt og hann gerir það oft !! en þetta gerir Lucas nánast aldrei og þess vegna er hann ekki nálægt því að vera annað en varamaður í mesta lagi !!! “

 71. Strákar þið megið ekki vera svona fljótir að kenna Hodgson um þetta og segja að hefði verið betra að halda Benitez, málið er bara að LFC klúbburinn í heild sinni var komið í krísu og þurfti að leysa úr henni með því að reka Benna og næsta skref er vonandi að koma með nýja eigendur inní klúbbinn. Það mun taka 2-3 ár að byggja þetta lið upp aftur og verðum við sem stuðningsmenn að bíða þolinmóðir og veita stjóra og leikmönnum liðsins traust og reyna að taka af þeim pressuna.

  Peace, Love and Unity <3

 72. petur8 – Hvernig geturðu sagst hafa spilað fótbolta og svo kennt Lucas um að miðjan hafi ekki virkað, þegar það var augljóst að City unnu miðjuna af því að þeir voru einum fleiri á því svæði? Hefurðu aldrei spilað manni færri? Ég spilaði fram í meistaraflokk með alvöru liði en þarf ekkert að flagga því til að þykjast vita betur en aðrir. Læt orð mín dæma sig sjálf. Þú þarft ekkert að monta þig af knattspyrnuiðkun, eflaust hafa flestir sem lesa þessa síðu spilað fótbolta að einhverju marki, sumir jafnvel þjálfað líka.

  Varðandi Lucas og goðsögnina um sendingar þá fór ég inn á Guardian töflusíðuna og sótti sendingar Lucas í þessum leik í kvöld. Hann reyndi 52 sendingar; 48 af þeim heppnuðust, 4 ekki. Það er 92,3% sendingargeta sem er á pari við bestu menn. Af þessum 52 sendingum tel ég eina beint til hliðar á Glen Johnson, tvær beint til hliðar á Daniel Agger, þrjár aftur á Skrtel og þrjár aftur á Carra. Það eru þá níu sendingar annað hvort til hliðar eða aftur á bak á eigin vallarhelming. Hinar 39 heppnuðu sendingarnar eru annað hvort fram á við eða til hliðar framar á vellinum, eða það sem gætu kallast sóknartilburðir. Sendingarnar fjórar sem misheppnast eru allar tilraunir til lengri sendinga fram á við, þar af ein fyrirgjöf og ein stungusending.

  Þannig að þið sem haldið að Lucas sendi bara aftur á bak, reyni engar sóknarsendingar eða spili ekki framarlega á vellinum getið kynnt ykkur málin betur áður en þið tjáið ykkur aftur. Og nota bene, þetta er tölfræði fyrir lélegan leik hjá Lucas. Við skulum kíkja á tölfræðina hans aftur þegar hann á næst góðan leik.

  Til samanburðar má skoða Gerrard í kvöld: 60 sendingar (plús 3 hornspyrnur) og 49 af þeim heppnuðust. 81.7% sendingargeta. Slakari en hjá Lucas en svipaðar sendingar (fimm aftur á bak, tvær til hliðanna á bakverði, nokkrar lengri sendingar og svo aðallega styttri boltar á miðsvæðinu).

  En neinei, Gerrard var okkar skásti maður í kvöld og Lucas vandamálið…

 73. Ég sá ekki leikinn en þetta telst samt varla gott. Gleymum ekki að RH er með lið í höndunum sem endaði í 7. sæti í fyrra. Það þarf mikla vinnu til að rétta þessa skútu við, vonum að sú vinna fari að hefjast.

 74. Matti … auðvitað heyrast ókvæðisorð þegar lucas missir boltann vegna þess að hann gerir mikið af því og mjög illa

  Nei, það gerir hann ekki. Þú getur ósköp einfaldlega skoðað tölfræðina. Þetta er sannarlega rangt. Orðum þetta öðruvísi, Steven Gerrard tapar boltanum miklu oftar en Lucas Leiva.

  Matti. Alonso vs Lucas. Þarf ég að segja meir?

  Nei, það þarf ekki. Alonso er betri leikmaður með stórkostlega sendingagetu. Vandinn er að það er bara til einn Xabi Alonso og hann spilar með Real Madrid vegna þess að hann vildi spila þar. Lið geta ekki stólað á að fá menn eins og hann sem dreifa boltanum með 30-50 metra sendingum allan leikinn því það er bara til eitt eintak af honum.

  En Lucas var ekki vandamál Liverpool á síðasta tímabili, þvert á móti var hann einn besti maður liðsins. Aðrir drulluðu upp á bak.

 75. Jamie Redknapp:

  “The formation of World Cup winners and teams who rule the Champions League won the night. Liverpool played 4-4-2, but the more elusive and flexible 4-3-3 system proved too much for them. Roberto Mancini’s team won the midfield and, as a result, they won the game.”

  Segir maðurinn sem lék sem fyrirliði á miðju Liverpool og Tottenham, og með enska landsliðinu. Hann ætti að vita hvað hann er að segja þegar hann talar um miðjubaráttu.

 76. það geta allir sent helvítis boltan á næsta mann !
  hann LUCAS er núll skapandi þarna á miðjunni og er eifaldlega ekki góður !
  alls ekki í liverpool klassa

 77. Halda menn í fullri alvöru að það sé einum manni að kenna að lið tapi þar sem 11 leikmenn spila saman í liði. Í kvöld var lélegasti leikmaður vallarins Agger, hann tapaði skalleinvíginu við Richardson í marki 2 og var gjösamlega sólaður upp úr skónum í vítinu. Á eftir honum yfir lélegustu leikmenn kvöldsins koma Jovanovic og Ngog. Jovanovic gat ekkert sóknarlega og varnarlega gerði hann lítið til að aðstoða Agger, var klobbaður í tvöfaldri dekkningu í fyrsta markinu. Ngog gerði lítið annað en að haupa milli varnarmanna og ekki hélt hann boltanum vel þarna frammi eða vann mörg skallanávígi. Kuyt og Johnson gerðu engar rósir í hægri kantinum, ekkert kom sóknarlega út úr Kuyt þó dugnaðinn varnarlega hafi ekki vantað. Johnson gerði lítið af viti sóknarlega og átti auk þess í stökustu vandræðum með Milner. Skrtel gaf klaufalegt víti.

  Skoðum aðeins frammistöðu leikmanna í heild áður en við dæmum einn til dauða, í kvöld var Lucas ekki stærsta vandamál Liverpool þó slakur hafi verið. Hefði miðjan verið eitthvað minna yfirspiluð með Poulsen á miðjunni með Gerrard? Ég held ekki.

  Krizzi

 78. @jóhann

  áberandi inná vellinum, hann þarf að berjast mikið og hlaupa mikið.. svo er mascherano MIKLU betri varnalega hann er ryksuga þarna djúpur og gefur gerrard MIKLU MIKLU MIKLU meira frelsi til að sækja fram á við !!! ég er samt ekki að seigja að lucas hafi verið lelegri en flestir aðrir í þessum leik. ef hann og mascherano hefðu verið tveir djúpur og gerrard fyrir framan gæti ég trúað að þessi leikur hefði farið aðeins betur ! en ég er að tala um getu lucas yfir höfuð ! ef hann á season núna eða næst þar sem hann leggur upp 15 mörk og skorar svona 8 í 30 leikjum í úrvalsdeildinni þá skal ég viðurkenn að hann se nógu góður !

  en strákar common þið getið ekki haldið því framm að hann se nógu góður í þetta lið ! hann hvað leggur upp 3 mörk á seasoni og skorar svona 1 finnst ykkur það nógu gott til að vera í topp baráttu?? í alvöru

  hann er ekki góður varnalega ! hann er ekki sterkur skallamaður ! hann er ekki nógu sterkur! hann er ekki góður tæklari ! hann er ekki fljótur að hlaupa! hann er ekki góður í löngum bolltum og reynir það ekki einu sinni ! hann kemur ekki oft með creative stungusendingar ! og hann er ekki góður skotmaður ! en hann skilar bolltanum vel frá ser á næsta mann meiri seigja 92,3 % !! ég get bara sagt HAHAHAHAHAHAHAHA

 79. Kristján Atli hér er önnur tölfræði. Ég tel einhver 5 ummæli af fyrstu 40 þar sem menn eru að gagrýna Lucas. Mér finnst það nú ekki svo mikið eftir að hann átti slakan dag, ásamt öðrum að sjálfsögðu. Eftir það kemur þú svo trylltur inn á ritvöllinn með Matta þér við hlið og rífur þessa umræðu upp. Það eruð því aðallega þið tveir sem standið fyrir þessari Lucas umræðu hér, en kvartið þó mest yfir því að hún fari fram!

  Lucas hefur sýna kosti og galla. Mér finnst hann oft virka ágætlega með öflugan mann eins og Gerrard sér við hlið. Hann er fínn í að gera þessa einföldu hluti eins og að dreifa spilinu með stuttum einföldum sendingum. Hann virðist vita hver hans takmörk eru og reynir því ekki að gera of flókna hluti. Lucas er samt ekki í heimsklassa ennþá að mínu mati. Gæti t.d. aldrei verið í þessu Gerrard hlutverki, að þurfi að stjórna spilinu, búa til færi og sprengja upp varnir. Ég er þó sammála því að Gerrard hefur ekki verið upp á sitt besta í þessu hlutverki undanfarið, og hann var slakur allt síðasta tímabil á hans mælikvarða. En þegar Gerrard er í formi þá er hann besti miðjumaður heimi heiminum. Hann hefur oft sýnt það og við þurfum ekkert að ræða það. Ég get alveg séð það fyrir mér þegar Gerrard nær sér á strik þá geti hann og Lucas myndað gott miðjupar.

 80. Sammála því, Krizzi. Þetta tap verður að skrifast á liðsheildina og mistök í liðsuppstillingu. Ellefu leikmenn og einn þjálfara sem deilda byrðinni. Hvort sem Agger eða aðrir áttu sök í mörkunum.

  Það verður athyglisvert að sjá hvernig Hodgson bregst við þessu tapi. Við erum enn að læra á hann sem stjóra og vitum ekkert hvort hann heldur áfram að prófa 4-4-2 í Tyrklandi, eða í næsta deildarleik, eða hvort hann afskrifar það eftir kvöldið. Eins veit maður ekkert hverja af þessum leikmönnum hann var mest óánægður með og mun kannski setja á bekkinn. Hjá Rafa hefði maður t.a.m. verið nokkuð viss um að Kuyt yrði inni í næsta leik þrátt fyrir að hafa verið slakur í kvöld, en með Hodgson hefur maður ekki hugmynd.

  Þetta var svekkjandi í kvöld en við vissum alltaf að byrjunin yrði erfið. Held að það sé hollast að skilja þennan leik eftir sín megin við miðnættið og horfa fram á veginn. Tyrkland, og svo W.B.A. á Anfield. Vonandi fer liðið aðeins að detta í rythma í þeim leikjum.

 81. KAR það virðist reyndar alls alls ekki alltaf vera raunin!!

  Sko að hann sé alveg með það á hreinu hvað hann er að segja 😉

  En það var afar fljótlega augljóst að taktíkin var ekki að ganga upp og satt að segja leyst mér ekkert á þetta fyrir leik. Gerrard og Lucas saman gegn þremur afar sterkum djúpum miðjumönnum. Miðvörður og sóknarmaður/útherji á vinstri kanti og svo Kuyt á hægri kantinum.

  Ef við ætlum að spila 4-4-2 með gáfulegum hætti þarf fyrir það fyrsta að hafa menn sem komast eitthvað í átt að endalínu til að koma boltanum fyrir og skapa hættu fyrir þessa tvo sóknarmenn. Síðan er líka mjög gott ef spila á 4-4-2 að hafa einn svona target mann sem getur tekið við boltanum. Það var eins og Hodgson hafi ekki áttað sig á því að hann er ekki lengur með Zamora í liðinu.

  Þetta hefði kannski gengið betur upp ef við hefðum leikmann eins og Adam Johnson á kantinum hjá okkur og einn af þessum hávöxnu sóknarmönnum sem City eiga á lager.

 82. Halli sagði:

  „Eftir það kemur þú svo trylltur inn á ritvöllinn með Matta þér við hlið og rífur þessa umræðu upp.“

  Sorrý, en þetta fannst mér fyndið. Sá sjálfan mig fyrir mér með exi og spjót að öskra, „er einhver hér sem vogar sér að hallmæla Lucasi vorum?“

  Burtséð frá aulahúmor, þá skil ég ekki alveg hvað þú ert að fara. Má ég ekki mótmæla þeim sem kenna Lucasi um allt fyrr en þeir eru orðnir átta talsins? Tíu? Sex? Hver er töfratalan, fyrst ég má ekki svara fimm manns?

  Endilega láttu mig vita. Stílaðu svarið á eigandi@kop.is.

 83. Babu, ég vissi þegar ég vitnaði í Redknapp að það væri bara mínútuspursmál hvenær þú kæmir inn til að hnýta í hann. 😉

 84. sammála Babu með liðið áttum ekki séns einum færri á miðjunni og þetta var ekki sniðug uppstilling! en ég vil samt sjá oftar tvo framherja í leikjum á anfield. serstaklega á móti liðum eins og WBA. og ég væri alveg til í að fá stóran og sterkan senter held að zamora myndi bara nýtast mjög vel frammi með torres

 85. Liverpool liðið tapaði í kvöld , ekki einhverjir einstaklingar. Það þarf 4-5 heimsklassa spilara ekki einhverjar free transfer gæja frá Standar L.

 86. Ég held þú skiljir nú alveg hvað ég átti við Kristján Atli. Í þessum fyrstu ummælum var síður en svo verið að taka Lucas eitthvað fyrir. Skrtel, Kuyt, Gerrard, Lucas og Torres eru allir gagnrýndir. Svo kemur þú með þetta komment sem er engan veginn í takt við umræðuna.

  “Þetta er alveg mögnuð umræða. Stjórinn og ellefu leikmenn skíta á sig gegn stórgóðu City-liði en neinei, allt hefði verið betra ef við bara hefðum skilið greyið Lucas Leiva eftir heima.

  Ótrúlegt. Er þetta öll innsýnin sem menn hafa í knattspyrnuna? Lucas var lélegur í kvöld … sem og tíu samherjar hans. Hvernig væri að horfa á leikinn og reyna að greina hann aðeins í stað þess að halda uppi þessari sömu, þreyttu klisju um leikmann sem virðist vera nógu góður fyrir brasilíska landsliðið, ef ekki ykkur sérfræðingana í íslenskum hornsófum.”

  Bara frekar skrýtin ummæli að mínu mati sem gerir fátt annað en að æsa menn upp í “Lucas stríð” við þig. En þér er að sjálfsögðu frjálst að gera það ef þú vilt. Mér finnst þú vera að gefa það í skyn hér að þú sért þreyttur á þessari Lucas umræðu?

 87. Taktíkin var vandamálið. Tveir miðjumenn á móti þremur olli því að kantmennirnir þurftu sífellt að koma inn á miðjuna til að aðstoða. Það olli því að kantmenn City fengu mikið pláss, sérstaklega Johnsson sem er hörkuleikmaður. Agger réð ekkert við hann enda ekki vinstri bakvörður að upplagi. Það er lykilatriði að bakka Agger upp í vörninni á móti Johnson í leiknum en það gerðist ekki.

  Á móti svona liði spilar þú 4-5-1 (4-2-3-1 í sókn) þar sem kantmenn aðstoða bakverði í vörninni.

  Torres var alveg ótrúlega slakur í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ngog náði þó stundum boltanum og gat gefið á samherja, Torres tapaði boltanum í nær öllum tilvikum – oft þegar hann hefði getað gefið á samherja í betri stöðu.

 88. Skora á alla að skoða linkinn sem Hjörtur setti hér inn.

  Fullkomlega sönn, hlutlaus lýsing á kvöldinu. City algerlega stútaði okkur með því að setja upp þessa þriggja manna miðju gegn okkar tveggja manna miðju. Við fundum ALDREI lausn á uppspili heimamanna, vorum 35% með boltann, sem er auðvitað ekki neitt nema skandall.

  Eins og Redknapp segir var þarna leikur sem sýndi mönnum hvers vegna ÖLL helstu knattspyrnulið heims, félags- og landslið leika þetta kerfi. Mér leiðist það að stórum hluta en málið er einfaldlega þannig að til að geta spilað 442 gegn 451 og unnið þarftu að vera með GRÍÐARLEGA öfluga fjögurra manna miðlínu OG öfluga pressumenn í framlínu. Í kvöld bara einfaldlega áttum við ekki séns og mér finnst ÓSKILJANLEGT að Hodgson stillti liðinu svona upp í þessum leik.

  Svo er fjallað um hlutverk Gerrard svo aftarlega á miðjunni. Sem ég SKIL EKKI og hef aldrei gert. Þessi maður teiknar upp 75% af mörkum okkar og á kvöldi eins og í kvöld er hætta af langskotunum hans og búið. Einum færri á miðjunni þýddi að hann datt alltof aftarlega og var ekki í neinum tengslum við kantmenn eða framlínu, nema með því að negla 45 metra sendingum sem 90% lentu í andliti varnarmanna City, enginn markverð sending í 90 mínútur. Það er einfaldlega verið að taka bitið úr sóknarmiðjumanninum okkar. Sjáum við þetta gerast með t.d. Lampard hjá Chelsea eða Scholes? Nei. En við erum svo “desperate” í að finna einhverjar töfralausnir að besti sóknarmiðjumaður heims er gerður að almennum miðjumanni. Kannski er hægt að verja það þegar Cole er með, en óverjandi að mínu mati þegar svo er ekki.

  Svo líka svíður mér það töluvert að við sáum þetta öll í fyrri hálfleik. Miðjan okkar átti ekki vonarglætu í City. Ekkert breyttist. Ekki skipting á leikmanni og engin breyting á taktík. Ömurleikinn hreinn og maður sá andlit okkar manna niður í bringu í seinni hálfleik, þ.e. frá mínútu 50.

  Svo les maður Redknapp. Sá er nú ekki minn uppáhalds og satt að segja hlæ ég að því að hann sé núna farinn að tala gegn 4-4-2, vildi að England spilaði svoleiðis á HM fyrir mót, en sá auðvitað steingelda uppfærslu þeirrar leikaðferðar sem var einn af stóra sannleiknum sem mér fannst koma út úr S.Afríku. Þá sá hann þetta í kvöld. Sigurvegar í ensku deildinni, CL, HM og EM síðustu 10 árin hafa spilað 433 / 451.

  Hins vegar las ég svo Hodgson áðan.

  http://www.skysports.com/story/0,19528,11661_6332478,00.html

  Ok, ekki sáttur við skipulagið, en fellur í þá gryfju að segja okkur hafa átt meira skilið. Er ekki sammála því. Hins vegar er ég HRÓPLEGA ósammála honum í tvennu. Ég vill ekki sjá Mascherano aftur í Liverpoolbúning. Eftir bullið á Javier í fyrra á hann ekki skilið annan séns. Burt með manninn, mér finnst það skýrt veikleikamerki ef hann verður enn á Anfield í september.

  Svo hitt að hann telur sig þurfa að skoða ungu mennina áður en hann kaupir nýja menn. Bíddu nú? Á að setja Pacheco, N’Gog og Kelly fyrir framan fallbyssurnar í þessari stöðu?

  Ætli súrrealísk umræðan hér um Lucas gæti ekki sýnt mönnum hversu heimskulegt það væri að setja þá leikmenn í lykilstöðu hjá félaginu núna?!?!?!?!?

  Ég veit ekki með ykkur hin, en það svíður stöðugt meir að hafa horft upp á liðið tekið úr buxum og rassskellt og flengt af Moneybags City og Gareth Barry, Milner og Tevez í lykilhlutverkum. Ég er svo ógeðslega fúll að vera kominn með “flashback” frá í fyrra og svo argur að sjá Hodgson algerlega steinliggja fyrir Mancini og hans taktík. Þar kom ekkert á óvart. Uppstilling okkar og útfærsla á liðinu var hundléleg og það á mjög langt í land.

  Í kvöld fannst mér ég vera á svipuðum stað og Fulhamstuðningsmenn í fyrra, þjálfarinn að prófa eitthvað sem ekki gekk og fer svo í viðtal og lýsir óraunveruleikanum. Nú aftur á móti er verið að stjórna Liverpool og svona bara gerir maður ekki hr. Hodgson. Við töpum ekki svona barnalega aftur takk!!!

 89. Ég vil svo bæta við þetta að þegar ég skrifaði fyrstu athugasemd mína hér fyrir ofan, þar sem ég tala um þá sem kenna Lucas um tapið, hafði ég ekki séð athugasemd Kristjáns Atla þar á undan. Ég var því ekki (meðvitað) að bakka hann upp.

  Vil svara einu sem ég gleymdi áðan. petur8 skrifaði:

  Matti …. já oki þú meinar þá að lucas er ekki í nógu góðu liði er það málið ??

  Svarið er . Ég tel að Lucas myndi blómstra í liði sem spilaði betri fótbolta þar sem menn spiluðu stuttar sendingar og það væri hreyfing innan liðsins. Ég er t.d. nokkuð viss um að hann myndi pass vel í lið eins og Arsenal eða Barcelona (ekki að ég telji að hann sé betri en þeir leikmenn sem þar eru nú).

  Ég myndi semsagt vilja sjá Liverpool liðið þróast í þá átt að spila þann bolta sem Lucas Leiva þekkir og spilar, þar sem liðið heldur boltanum vel og lætur hann ganga milli manna, jafnvel til hliðar eða aftur þegar þörf er á.

 90. Þá er þetta krufið til mergjar.

  Niðurstaðan er sú að tapið er allt Lucas að kenna. Liðið spilaði frábærlega og þjálfarinn var með þetta allt á hreinu en hafði gleymt því hvað Lucas var lélegur og setti hann óvart í liðið.

  Augljóst að við verðum að kaupa nokkra miðlungsmenn, í neðri hluta þeirrar skilgreiningar, til þess að þetta fari að rúlla í gang aftur. Þegar erum við búnir að kaupa efnilegasta leikmann Danmerkur árið 2001 og hann ætti að draga fleiri svipaðar stjörnur til liðsins.

  Gefum svo Hodgson sinn séns enda bara tveir leikir búnir af seasoninu. Þessi leikir í Evrópudeildinni telja ekki þar sem LFC spilaði svo lélegan og leiðinlegan bolta og gefa því ekki okkur rétta mynd af því hvað Hodgson er frábær þjálfari. En Það sem einkennir einmitt góðan þjálfara er það að hann hefur aldrei verið orðaður við klúbb sem hefur lent ofar en 10 sæti í sínu heimalandi seinustu 20 árin.

  Getum við ekki hætt þessu rugli og einbeitt okkur að aðal krabbameini klúbbsins sem eru eigendurnir. Leikir eins og þessi í kvöld verða margir í viðbót ef eignarhaldið breytist ekki fljótlega.

 91. Hvað eiga nýjir eigendur Liverpool að gera annað en að gefa hundruðir milljóna punda af sínum eigin peningum til að geta keppt við eigendur Man City og Chelsea?

 92. Rétt hjá þér Zore, höldum könunum og styrkjum eignarhaldsfélögin þeirra með kaupum á LFC varningi. Seljum svo Torres og Gerrard svo þeir eigi efni á nýrri þyrlu. Við höfum ekkert að gera með nýja eigendur sem gætu jafvel haft hagsmuni klúbbsins sem sitt hagsmunamál.

 93. Menn segja R H er með lið sem endaði í 7 sæti síðast og aðrir segja að það endaði í 2 sæti þar áður. Hvers vegna gat R B ekki látið liðið sem endaði í 2 sæti, gert það aftur nú síðast með sama mannskap? Þetta er orðið bull. Ngog, Kuyt,Lucas,og jafnvel Maxi mega fara en Maxi á kannski eftir að gera betur, hefur spilað lítið og Serbinn er ekki að heilla mig en gefum honum séns. Þetta á bara eftir að batna held ég ef menn fara að spila sem ein heild og afmælis barnið á ekki að einleika eins og hann gerði í kvöld og missa svo boltann, þreytandi að horfa á það. Koma svo LIVERPOOL

 94. Ég hef aldrei kommentað hér en fylgst með.
  En nú verð ég barasta að láta vaða.
  Þeir sem telja Lucas Leiva vera að gera góða hluti með Liverpool geta bara ekki haft hundsvit á fótbolta. Hann getur EKKERT fram á við og er ekki góður varnarlega heldur. Miðið hann bara við tja Dídí Hamann, Essien, Mascherano eða hvern sem er. Og það að hann sé valinn í landsliðið er vandamál þeirra sem velja liðið. City var með 3 góða miðjumenn í kvöld sem geta sótt og varist án teljandi vandræða. Þeir eru ALLIR betri en Lucas. Miklu betri. Annars taktískt séð ekki gott að bregðast ekki við þessum yfirburðum City á miðjunni. Og Agger á móti þessu kvikindi á kantinum ekkert sérlega sniðugt. Ekki að segja að Lucas hafi verið ástæðan fyrir tapinu en kommon. Vilja menn í alvörunni hafa þennann mann í liðinu?? Ef Gerrard meiðist svo, hver er þá spilandi miðjumaðurinn?? Ngog fínn en er hann í þeim klassa að vera þarna ef Torres meiðist? Tottenham bara til að taka sem dæmi er með 4 menn sem eru jafngóðir eða betri en Ngog.

 95. @ Babu:

  Það er rétt! Við spilum miðverði í vinstri bakvarðastöðunni þegar við höfum bakvörð á bekknum. Sitt hvor sóknarmaðurinn á kantinum sem náttúrulega er rugl! Svo það síðasta sem menn eru ekki mikið að minnast á, en við erum að spila með tvo stóra lurka í framlínunni í Ngog og Torres. Tvo menn sem eru mjög svipaðir leikmenn, þeas teknískir og snöggir fyrir utan að vera báðir target menn. Okkur vantar einhvern minni sem er að sniffa upp færin og/eða leggja upp líka. Þið munið Heskey/Owen tvíeykið forðum en það er þetta litli/stóri format sem enskir spilia oft. Það er svolítið furðulegt að hinn enski Hodgson spili stóri/stóri þegar það í raun skilar engum árangri. Hvað hefur Kuyt gert (annað að vera vinnuhestur) til að fá ekki að spreyta sig í framlínunni eins og hann gerir best? Ég vona eiginlega að Rafa fari að hirða til sín Kuyt aftur svo við getum farið að setja leikmenn sem við á í hverja stöðu!

 96. Afhverju eru menn að tala um að replacea Mascherano þegar það hefur enn ekki verið replaceað Alonso, sem er klárlega mesti missir Liverpool síðustu ára.

 97. Hvað vilja menn eins og Maggi sem vilja nota Gerrard framar á vellinum gera við Cole þegar hann kemur úr leikbanninu? Honum var víst lofað að hann fengi aqð spila nánast alla leiki ,því hann er búinn að fá vont í hálsinn af allri bekkjarsetunni hjá Chelsea. Annars getum við rifist endalaust um hvernig einstakir leikmenn stóðu sig í gær,en staðreindin er bara sú að það hefur ekki verið notað eitt einasta pund í leikmenn í þrjú ár og það er farið að sjást á liðinu út um allann völl.

 98. Ég ætlaði líka að bæta því við , er það bara mér sem finnst eins og Torres sé að verða svolítið feitur,eða eru kanske nýja treyjan hans aðeins of lítil?

 99. Mistökin sem Hodgson gerði voru að hafa ekki þrjá menn á miðjunni. Það er af einhverju leyti skiljanlegt:

  1. Torres var orðinn heill og Ngog hefur verið okkar besti maður á tímabilinu.
  2. Mascherano var með eitthvað kjaftæði og því í raun bara Gerrard og Lucas með reynslu, sem gátu spilað á miðjunni.

  Hins vegar skil ég ekki alveg hvað menn vildu sjá í staðinn fyrir Lucas í gær. Poulsen hefur ekki spilað leik og hann hefði vel getað týnst gegn þremur sterkum miðjumönnum City.

  Mér leist vel á uppstillinguna í gær, en eftirá voru það augljóslega mistök að hafa ekki Poulsen þarna inná í staðinn fyrir Ngog og bakvörð í vinstri bakverðinum.

  Það er líka skiljanlegt að Hodgson vilji ekki eyða trylltum upphæðum í nýja leikmenn strax. Hann hefur bara séð þá leikmenn, sem eru fyrir hjá liverpool, í nokkrar vikur – og hann veit að hann hefur ekki tækifæri til að gera mörg mistök á leikmannamarkaðinum (ólíkt Mancini og t.d. þegar að Mourinho tók við Chelsea).

  Og ef að einhver umræða getur mögulega orðið leiðinlegri en “Burt með Benitez” umræðan frá því á síðasta tímabili, þá er það “lífið hefði nú verið betra með Benitez” umræða, sem virðist vera byrjuð strax eftir fyrsta tapleik. Það má vel vera að Benitez hefði ekki tapað 3-0 í gær, en hann skilaði liðinu líka í 7. sæti í deildinni í fyrra og datt úr leik í CL í riðlakeppninni.

  Ég skil vel að sumir aðdáendur Benitez vilji fá einhverja uppreisn æru fyrir að hafa varið hann og zonal marking og allt það (ég var nú meðal þeirra sem vörðu hann hvað mest) – en sú umræða verður alveg örugglega skelfilega leiðinleg.

 100. Auðvitað er kjánalegt að vera að bera saman stjórana eftir fyrstu leiki Hodgson, hann þarf að fá tíma til að setja mark sitt á liðið. Svo hefur hann einfaldlega engann pening til að eyða, ég held þetta snúist ekki einu sinni um að hann þurfi að kynnast leikmönnum betur – hann fær bara ekki aur. Það breytir því ekki að taktík hans í þessum leik var út í hött, jafnvel barnaleg.

  Þess má geta Hodgson þurfti tvo deildarleiki með Liverpool til að jafna stærsta tap Benitez!

 101. Jæja ekki fór það vel ! Liverpool átti nákvæmlega ekkert skilið úr þessum leik ! Þessi sigur var síst of stór og hefði miðað við yfirspilun City átt að vera stærri. Vonandi fá menn smá reality check og sjá að það er langur langur langur vegur frá því að Liverpool nái fyrri hæðum. Menn eru alltaf að tala um að það vanti 4 – 5 gæða leikmenn í liðið. Staðreyndin er nú samt sú að við erum ekkert að fara að fá slíka leikmenn nema Bill Gates komi á morgun og kaupi liðið og 4-5 leikmenn á einu bretti fyrir 150 milljónir punda !!! Ég ætla bara að njóta þess að horfa á fótbolta í vetur og vona að Liverpool nái einhverjum hagstæðum úrslitum !!

 102. Gefum nýja stjóranum tíma, hann virðist hafa reynslu af þeirri stöðu sem liðið er í í dag. Leikurin í gær þarf ekki endilega að vera svo slæm niðurstaða, í mínum huga var þetta einfaldlega birtingarmynd af þeim vandamálum sem hafa verið í kringum liðið undanfarið, spurning hvort botninum sé náð en allavega við eigum eitthvað eftir þangað til að við leitum uppávið aftur. Hvort að Hodgson leysi það eða nýjir eigendur verður tíminn að leiða í ljós. Á meðan fylgist maður með og styður sitt lið. YNWA!

 103. Mikið agalega er ég samála þér Einar Örn.
  Benitez stillti líka upp varnarsinnuðu liði á móti neðstu liðunum þegar spilað var á útivöllum og útkoman! já 0-0, frábært afrek.
  Sammála með eiðsluna í leikmenn, menn vilja væntanlega vera með lappirnar á jörðinni og sjá hvað verða vill í eigendamálum. Nú það eru væntalnlega heldur ekki til neinir peningar til að eyða hjá nánast gjaldþrota liði, NÝJA EIGENDUR STRAX………

  Ég hef hinsvegar aldrei skilið þegar að ég les hvert commentið af öðru hér inni, af hverju íslenskur fótbolti sé svona HRIKALEGA lélegur??
  Það vantar akkúrat menn eins og ykkur, snillana hér til að lyfta honum á hærra plan.

  Í gær mættum við bara ofjörlum okkar og það mun þjálfarinn væntanlega fara yfir og lagfæra.
  Guðana bænum hættið þið svo þessum hártogunum um hver á sökina, og ef að hann væri enn þá og þá….. Gefum drengjunum séns, verum raunsæ og viðurkennum að það tekur okkur bara tíma að komast upp úr þessum öldudal. Á meðan eigum við að standa saman og styðja við bakið á okkar mönnum og munið,
  Saman stödum vér,
  Sundraðir föllum vér…….
  YNWA
  Með vinsemd og virðingu/3XG

 104. Samála þér Einar, það er ekki til mikið leiðinlegri umræða en ” lífið hefði nú verið betra með Benitez ”
  Nema þá kannski Lucas umræðan.

  Í gær gat enginn neitt, hvorki leikmenn né þjálfari punktur. Mér persónulega finnst þetta Liverpool lið okkar vera orðið svo hundleiðinlegt lið að ég myndi helst vilja stokka vel upp í því, þar er nánast enginn leikmaður undanskilin nema þá helst Reina.

 105. Mér finnst það í góðu lagi að menn commenti um það hvort leikmenn voru slappir eður ei og hver sé ekki nogu góður til að vera í LFC. M,C voru ekki góðir á móti Tott, en girtu sína brók og voru þræl góðir í gær. Hvers vegna ætti LFC ekki að geta það sama og verið góðir í næsta leik? Vona að Hodgson sé búinn að tala yfir hausamótunum á flestum sem vorau (ekki) að spila í gær og menn séu að fara yfir leikinn og að þeir læri eitthvað á því. Fall er farar heill.

 106. Mögulega neyddist RH til þess að breyta leikkerfinu ef satt er að helvítið hann Macherano hafi neitað að spila. Líklega gerði hann taktísk mistök sem reyndust dýrkeypt, en svo er annað mál að þetta Man City lið átti stórleik og erfitt að þetta væri sama lið og spila gegn Spurs um sl. helgi. Lið eins og Man Utd og Chelsea mega þakka fyrir jafntefli ef City spila í líkingu við þetta á heimavelli í vetur.

  En varðandi Lucas, þá er auðvitað rugl að tala um að hann geti ekki neitt, en nú er hann orðinn 23 ára og búinn að spila 80 leiki fyrir liðið og þessvegna gerir maður meiri kröfur til hans en nokkurn tíman áður. Mér finnst Lucas mikilvægur fyrir hópinn, og hentar ágætlega að leika gegn smærri liðum og hefur oft átt ágætis innkomur sem varamaður. En gegn mönnum eins og Yaya Toure og De Jong kemur greinilega í ljós að honum vantar meiri styrk og hraða og mikið hefðum við haft þörf fyrir Macherano í þessum leik.

  En það var þó ekki Lucas sem mér fannst líta verst út, heldur voru það Kuyt og Jovanovic í samanburði við Milner og Johnson. Kannski lá munurinn í því að Milner og Johnson eru natural kantmenn en hinir ekki. SWP á Anfield takk ef hann mun ekki kosta meira en 7 mp. 15 millur fyrir Kuyt?

 107. Full mikil dramatík hérna á köflum. Við áttum bara daprann leik á móti mjög sterku liði. Það hefði verið flott að hafa Masch á miðjunni í þessum leik osfr en svona var þetta. Hef enga trú á að þetta gefi fyrirheit um framhaldið. Það þýðir ekkert að vera með dómdags spár eftir tvo mjög erfiða leiki í deildinni.

  Ætli við sjáum ekki brag á liðinu eftir svona 10 leiki og þá er kannski hægt að fara að ræða hvert Hodgson er að fara með þetta lið.

 108. Aumingja Hodgson þarf að vinna með draslið sem Benitez safnaði til sín og því er ekki hægt að fara fram á mikið, því miður. Það þurfti allsherjar uppstokkun, nýjan þjálfara, sem er kominn þó svo að þessi hafi ekki verið efst á óskalistanum, nýja eigendur, sem koma, og nýjan leikmannahóp, sem tekur tíma. Gleymum því ekki að Benitez tók við góðu búi frá Houllier og það var ekki fyrr en Rafa var búinn að losa sig við þá leikmenn og kaupa þá sem hann vildi sem fór að halla verulega undan fæti. Nú þarf Hodgson sömu þolinmæði og Rafa fékk, þetta gerist ekki á einni nóttu og alls ekki á einu tímabili, til þess þarf að róta of mikið til og fyrsta skrefið er að setja frímerki á Javier og koma honum burt strax.

 109. Ég ætla svo sem ekkert að fara út í leikinn í gær, Ég sá hann og það er alveg nóg.

  En aðeins varðandi þennan nýja Striker okkar, J.Macherano !! – Hér eru ansi margir sem vilja fá hann í burtu hið snarasta… ég er ekki sammála því. Þessi leikmaður á auðvitað aldrei að fá að spila með liðinu okkar aftur, en að hann skuli halda að hann geti kúgað Liverpool til að selja sig á slikk, er svo fáránlega heimskulegt, að það hálfa væri svona um það bil helmingi meira en nóg !!

  Við eigum ekki að hlusta á neitt tilboð í kappann undir 23 milljónum punda í þennan mann. Ef það berst ekki.. þá getur hann bara verð með u-16 ára liðinu í línuhlaupum næstu tvö árin takk fyrir !!! Það verður þá bara að hafa það þó svo að við fáum ekki krónu fyrir hann eftir 2 ár. Ég vil frekar að hann fari frítt eftir 2 ár, en að fá skitnar 10 millur fyrir hann núna !!

  Það á ekki að láta leikmanninn komast upp með að neita að spila leiki, til að geta fengið að fara fyrir lítinn pening. Hann er greinilega búinn að gleyma því þegar honum var bjargað úr hramminum á Kia Jorobchian (eða hvað hann nú heitir),og það að spúsan hans geti ekki lært ensku, sýnir bara hvað hann fann sér takmarkaða konu !!!

  Ég hef enga samúð með þessum manni, og vil ekki sjá hann nálægt aðalliðinu aftur, en að hann eigi að fara sem fyrst, fyrir skít og ekkert.. KEMUR EKKI TIL MÁLA !!!!

  Insjallah…
  Carl Berg

 110. Sælir félagar

  Þó ekki sé rétt að dæma RH eftir einn eða tvo leiki er hann samt áhyggjuefni. Af hverju brást hann ekki við þegar ljóst var að liðið var búið að tapa miðjunni og hélt þar af leiðandi illa boltanum og átti íerfiðleikum bæði varnarlega og sóknarlega. Þetta viðbragðaleysi stjórans (skortur á plani B sem oft var gagnrýnt hjá Benitez) er mér eiginlega meira áhyggjuefni en frammistaða einstakra leikmanna.

  Lucas var lélegur í gær en ekkert verri en oftast. Meira áhyggjuefni var Johnson sem var svo arfaslakur að Agger sem átti ömurlegan leik var eins og snillingur miðað við það. Hvað er að gerast með þann dreng, áhyggjuefni. Ngog var á pari við sjálfan sig enda ekki sterkur leikmaður en vonandi vaxandi. Reina virkaði óstyrkur og átti enda annað markið nærri skuldlaust. Carra var á pari og einn af bestu mönnum liðsins ef svo er hægt að segja.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 111. Ef þessi saga um Mascherano er sönn þá ber ég minni virðingu fyrir honum en Geirharði Neville, svo mikið er víst. Það eru aumingjar og bleyður sem hafa ekki mannleikan í að standa við gerða samninga. Tek undir það að láta hann frekar rotna í píb test í undir 15 ára liðinu í staðinn fyrir að láta hann kúga okkar ástkæra félag. Og ég sem var svo vitlaus að halda smá með Argentínu á HM einmitt útaf þessum ræfli, úff.

 112. Svo það sé á hreinu ætla ég ekki að skrifa orð um Lucas eða Benitez í vetur. Nógir þar um hituna.

  Ég bara ætlast til þess að sjá Hodgson bregðast við. Að mínu mati er umræðan búin að vera á miklum villigötum frá nóvember í fyrra með alls konar bulli um eitthvað allt annað en aðalatriðið.

  Eftir besta deildarárangur í 20 ár vorið 2009 var næsta skrefið hjá félaginu að styrkja leikmannahópinn til að verða meistarar. Það var ekki gert. Eltingaleikur við allt annað var umræða sem sett var af stað til að breiða yfir þá einföldu staðreynd að þegar liðið stóð frammi fyrir stórum möguleika, þá gerði liðið í buxurnar. Xabi Alonso vissulega fór, alveg eins og Mascherano er að fara núna. Þær peningaupphæðir sem lagðar voru í liðið í fyrra dugðu fyrir N´Gog, Kyrgiakos og Aquilani. Vissulega má spyrja sig núna um Aquilani en það er fullkomlega ljóst að þær 14 milljónir sem settar voru í hann í fyrra hefðu ekki dugað fyrir nýjum vinstri bakverði, aukinni breidd í miðju, sókn og hafsentum.

  Það er einföld staðreynd að leikmannahópur okkar er bara ekki tilbúinn að keppa við United, Chelsea og miðað við leikinn í gær Manchester City á jafnréttisgrundvelli. Vandinn liggur þar og þó ég hafi verið alveg brjálaður yfir taktík gærdagsins er staðreyndin einfaldlega sú að ef við ætlumst til að keppa við þessi þrjú lið þarf að kaupa.

  A) Kaupa reynslumikinn vinstri bakvörð sem getur varist og sótt.

  B) Fá kantmenn í þetta lið. Við eigum hugsanlega einn í Ryan Babel. Á báða kanta.

  C) Fá öflugan senter til að vera með Torres og N’Gog.

  D) Leysa miðjuvesenið ÞEGAR Mascherano fer. Ég er alveg til í að skoða bara Maxi þar ef við fáum almennilega kantmenn.

  Meðan ekkert þessara vandamála verður leyst erum við að tala um 7.sæti svei mér þá, svo förum við ofar því fleiri vandamál sem eru leyst.

  Á þriðjudagsmorgni skil ég enn ekki upplegg þjálfarans, en ég treysti því að þegar við förum á OT eftir nokkra daga sjái ég ekki jafn ótrúlegan mun á liðum og ég sá í gær. Ég skal alveg afsaka tilraun gærdagsins ef menn læra af mistökunum….

 113. Þetta Liverpool lið er bara enganvegin samkeppnishæft þetta tímabilið og megum við heita heppnir ef við náum í fjórða sætið í vor. Eignarhald félagsins breytist ekki fyrir lokun félagaskiptagluggans og því verður hópurinn ekkert breiðari en hann er nú, jafnvel enn þynnri þar sem allt lýtur út fyrir sölu þó nokkurra leikmanna fyrir tímabilið. Ef við lendum í því að missa svo mikið sem einn lykilmann í meiðsl þá á það eftir að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir liðið. Liverpool er bara að heltast úr lest efstu liða í þessari deild og það breitist ekki á meðan Chelsea maðurinn í brúnni seinkar sölu liðsins eins og hann getur.

 114. Mér er alveg sama hvað Hodgson segir… hauslaus masherano er ennþá miklu betri en Lucas Leiva

 115. Sælir félagar.

  Held að við séum sammála um að okkar menn áttu ekki góðan dag í vinnunni í gær og fyrir því eru væntanlega ýmsar ástæður. Nú vitum við ekki nema að Maschareno hefði byrjað leikinn í gær, sem mér finnst reyndar mjög líklegt, en hann kaus að haga sér eins frekur smákrakki. Það er ekki spurning að Mash í formi hefði skipt máli.

  En hann var ekki með og ekki ósennilegt að Roy hafi þurft að endurhugsa uppstillinguna. Mér finnst líka mjög sennilegt að það hafi truflað undirbúning fyrir leikinn og jafnframt haft slæm áhrif á stemninguna í hópnum.

  En ekki þar fyrir, liðið okkar var slakt, virkaði ekki tilbúið í bardaga. MC menn virkuðu í betra formi, sterkari og fljótari. Voru yfirleitt á undan í flesta 50/50 bolta. Ég er þess líka fullviss að það verða ekki mörg lið sem munu mæta á heimavöll MC og fara þaðan með stig og hvað þá 3 stig. Kannski er einhver skýring í því að Liverpool átti marga menn sem voru að spila langt á HM og er hreinlega ekki komnir í form ?

  En þegar rætt er um MC verður ekki komist hjá því að horfa á leikmannakaupinn þ.e. bera saman hópinn þeirra og okkar.

  Skv. Wickipedia (kannski ekki besta heimildin) þá kostaði byrjunarlið þeirra eftirfarandi:

  Joe Hart: 600.000 til 1.500.000 punda.
  Micah Richards: ekkert.
  Vincent Company: 6.000.000 punda.
  Kolu Touré: 14.000.000 punda.
  Joleon Lescott: 22.000.000 til 24.000.000 punda.
  Nigel de Jong: 17.000.000 punda.
  Gareth Barry: 12.000.000 punda.
  Yaya Toré: 24.000.000 punda.
  Adam Johnson: ekki vitað (undisclosed fee).
  James Milner: 26.000.000 punda.
  Carlos Tevez: 47.000.000 punda.

  Samtals: 168,6 til 171,5 milljónir punda. Sjö af ellefu í byrjunarliði MC kosta meira en 10 milljónir. Tveir hjá Liverpool.

  Reikna með að við getum verið sammála um að þetta eru ekkk allt „góð kaup“ , en allt eru þetta góðir fótboltamenn sem flestir ættu sjens í byrjunliðið hjá bestu liðunum á Englandi. En meginreglan er samt allveg klár, gæði í fótbolta kosta peninga og þá mikla.

  Bekkurinn hjá MC kostaði svo aðrar 88,85 milljónir punda.

  Uppi stúku voru svo m.a. Boateng 10,4, Balotelli 24, Kolarov 16, Santa Cruz 17,5, Robino 32,5 (kannski farinn til Tyrklands að láni?), Bridge 10, og Caicedo’s 5,2, samtals 115 milljónir punda.

  Byrjunarlið Liverpool skv. sömu heimild (og lfchistory.net ) kostar samtals 71 milljón punda. Bekkurinn er svo 20,3 milljónir. Varamenn MC kostuðu þannig nánast það sama byrjunarlið Liverpool með varamannabekknum. Þurfum við að ræða þetta eitthvað frekar?

  Bið menn að missa sig ekki þótt einhverjar tölur séu vitlausar, heimildum ber ekki alltaf saman og kaupverð fótboltamanns er oft flókið, hversu mikið er greitt út, verð getur tengst spiluðum leikjum, árangur í keppnum osfrv. En þessi samantekt gefur þó raunsanna mynd af því hyldýpi sem er á milli MC og Liverpool þegar leikmannakaup eru skoðuð.

  Þannig að það er allveg ljóst að okkar ágæta lið er í bónusflokki miðað við MC, (Blackpool getur svo sagt það sama gagnvart Liverpool !).

  En það sem mig kannski langar til að reyna segja er að þótt okkar menn hafi leikið illa í gær þá er MC óhemju dýrt og vel mannað lið og ef Manchini nær að bræða hópinn saman og hafa allar stjörnunar ánægðar, þá á MC að mínu viti alla möguleika á vinna deildina. En ekki þar með sagt að leikstílinn heilli mig mjög, en það veit Fowler að ég væri til í að Liverpool spilaði leiðinlegri fórbolta, en norska landsliðið þegar stígvélaði kötturinn var að þjálfa það á níunda áratugnum, ef það myndi skila þeim nítjánda í skápinn.

  Það er því alls ekki endir alheimsins að leikurinn í gær tapaðist, þótt ég hefði viljað sá okkar menn berjast betur. Vera kann að ruglið í Mash hafi farið illa í menn og truflað undirbúning. Gleymum ekki að Liverpool var að spila leik á fimmtudagskvöld þannig að undirbúningur fyrir þennan leik hefur í fyrsta lagi hafist á föstudag og kannski miðaðist hann við aðra uppstillingu þ.e. með Mash inná og svo kemur í ljós á mánudegi að hann telur sig þess umkominn að neita að spila leikinn !

  Mér fannst góð setning sem einhver var með hér á blogginu að RH getur ekki leyft sér sömu mistökin við leikmannakaup og t.d. Chelski og MC.

  Roy hefur bara ekki sömu peninga milli handanna, eða réttara sagt, hann hefur enga, verður greinilega að selja til að geta keypt. Vandamál Liverpool byrjuðu ekki með RH og enda ekki heldur, en hann er greinilega að reyna að gera það besta í mjög þröngri stöðu, sem var ekki gerð auðveldari með dónaskapnum í Mash. Brýnasta málið er eigandamálið, létta á skuldastöðu, byggja völl og þá á þetta félag alla möguleika að ná upp fyrri styrk og stöðu og mun gera það.

 116. Ef Lucas er svona lélegur, af hverju hann er þá ekki bara hafður í marki?

 117. Hvað eru menn að kvarta yfir Hodgson ? Hann þarf að byggja allt upp frá grunni, með nánast ekkert budget og hefur fengið í arf skítakaup frá Benitez. Það var Benitez sem losaði klúbbinn við til dæmis menn eins og Hyypia og fær svo Aquilani í stað Alonso. Liverpool aðdáendur verða að horfa til lengri tíma, það mun ekki nást árangur strax.

 118. Ég lagaði aðeins til kommentið hjá Hamlet, sem er gríðarlega gott og segir ansi mikið um muninn á aðstæðum þessara liða.

 119. Ég ætla nú að benda mönnum á söguna núna með Mascherano. Ég held að það sé 99% pottþétt að nákvæmlega sama var upp á teningnum hjá Xabi Alonso sem hefur MARGSAGT að hann hafi talið vera kominn tíma á að fara frá Englandi og lýsti því sjálfur yfir að hann væri til í að fá Rafa aftur sem þjálfara.

  Vandinn er sá, ekki bara hjá okkur, að þessir ágætu leikmenn hlíta engum samningum, eru ofdekraðar prímadonnur og það er spurning hvernig þú vilt díla við þá.

  Mascherano karlinn er nýbúinn að lýsa því að hann elski klúbbinn og aðdáendurna, en bara geti ekki búið áfram í Englandi. Já vinur. Einmitt. Sýndir ástina heldur betur í gær.

  Annars er Hamlet með frábært innlegg og bara í anda þess sem hefur verið í gangi. Veit ekki um neinn stjóra í heiminum sem gæti gert lið samkeppnishæft í Englandi með því að kaupa bara fyrir það sem hann selur……..í þrjú ár!!!

 120. Halelújea Hamlet! Sammála hverju orði frá þér.

  Anfeild var að brenna þegar Roy H tók við, og karl greyinu var rétt lítið duftslökkvitæki.

  Maðurinn verður að fá smá vinnufrið.

  Þangað til rálegg ég ykkur að taka töflunar ykkar, því þetta verður ekki sársaukalaust tímabil.

  YNWA

 121. 6,864,433,516

  eru jarðarbúar samkvæmt hagstofu Bandaríkjanna.http://www.census.gov/ipc/www/popclockworld.html

  Í linki á frétt frá Daily Mail hér ofar er sagt að aðdáendur Liverpool séu 150 milljónir. Það sem ég skil ekki er hvað eru hinir 6,714,433,516 jarðarbúarnir að spá með því halda ekki með Liverpool?

 122. Zero…ummm..er það ekki þannig að þegar allir í kringum mann eru fávitar þá er maður sjálfur eini fávitinn…??? 🙂 Bara hugmynd…lol

 123. Mjög flott innlegg hjá Hamlet. Hann hittir naglann algjörlega á höfuðið. Og eins og maður er brjálaður útí vitleysinginn hann Mascherano þá er ég ánægður með svör RH varðandi málið. Auðvitað þýðir ekkert að láta svona trommuheila komast upp með þetta. Ef ekki kemur viðunandi tilboð má hann dúsa í varaliðinu. Síðan ætti klúbburinn auðvitað að sekta hann.

 124. mér er eiginlega farið að vera drullu sama hvaða senter kemur bara ef það kemur einhver ! það er vika eftir af þessum glugga og maður er farinn að vera örvæntingarfullur! vill líka fá góðan miðjumann ef mascherano fer !

 125. Lescott og Milner kostuðu Man City 50 milljón pund. Setjum á okkur trúðaskó og klæðum okkur í g-streng og pælum í því hvað það er fáranlegt.
  Fyrir sama pening og þær borguðu fyrir Milner og Lescott (já þennan sem var í Everton með skrítna hausinn) hefðu þær getað fengið Torres, Hamann, Reina, Hyypia, Kuyt, Agger og nokkur stykki af Eric Meijer. Ef þessir rússaeigendur þeirra skeina sér með einhverju öðru en 18 karata gulli þá eru þeir bölvaðir nískupúkar.
  Ætli enska úrvalsdeildin verði ekki búinn að breytast í typpakeppni eigendanna eftir 10-15 ár. Ég er afskaplega hræddur um það. Spurning hvort að Jón Ásgeir fái nóg afskrifað frá okkur til að taka þátt í þeirri keppni. Væri voðalega víkingalegt.

 126. Ég skil ekki alveg þessa varnarræðu fyrir RH hérna inni. Td það að hann þurfi að vinna með skítinn sem RB skildi eftir sig. Harry Redknapp var með alveg sama lið og Juande Ramos hafði safnað að sér og hann var ekki lengi að skila sínu. Það var vitað mál hvernig MC myndi spila þennan leik og að nota bara 2 miðjumenn var eins heimskulegt og hugsast gat. Greinilegtað RH er á góðri leið með að gera þetta að miðlungsliði um ókomnatíð….. vona innilega ef klúbburinn verður seldur að nýjr eigendur splæsi í almennilegan stjóra sem kann að stýra sigurliði

 127. Rúnar sagði:

  „Greinilegtað RH er á góðri leið með að gera þetta að miðlungsliði um ókomnatíð…“

  Sko, ég er á því að Hodgson hafi gert taktísk mistök í leiknum gegn City og gagnrýni hann í nokkrum ummælum hér að ofan (sem og leikskýrslunni sjálfri). En við megum ekki missa okkur í neikvæðninni, heldur. Þetta var bara einn leikur og kannski lærði Hodgson ýmislegt af þessari tilraun.

  Ég mun áfram gagnrýna Hodgson ef mér þykir ástæða til, og hrósa ef því ber að skipta, eins og ég gerði gagnvart Benítez. En fyrir mér er erfitt að fella einhvern Stóra-dóm um Hodgson fyrr en í fyrsta lagi eftir hálft tímabil. Við getum ekkert séð hvert hann stefnir með þetta lið fyrr en um áramótin, í fyrsta lagi. Ef liðið er í ruglinu á þeim tímapunkti gæti hann lent í verulegri pressu, en þangað til ætla ég að reyna að vera þolinmóður og forðast að mála skrattann á vegginn.

 128. Kristján? Af hverju hálft tímabil? Róm var ekki byggð á einum degi.

Liðið gegn City og fleira

Kop-gjörið, leikvika 2