Almennt um leikmannakaup og sölur

Það er kominn opinn þráður hér að neðan, en ég ákvað samt að setja inn sér færslu um leikmannakaup og sölur Liverpool FC undir stjórn Roy Hodgson. Það er svolítið magnað hvað maður sveiflast frá bjartsýni og yfir í svartsýni þegar mál tengd leikmannamálum eru ekki komin á hreint. Það versta er þegar allt virðist vera að fara á fullt, korteri áður en leikmannaglugganum lokar. Ég verð bara að segja alveg eins og er, mér líst illa á þá leikmenn sem Roy hefur verið að eltast við í sumar, sér í lagi þegar skoðað er hverjir eru orðaðir í burtu frá okkur.

Diego Cavalieri er á útleið sem varamarkvörður liðsins og inn kom Brad Jones. Í mínum huga er Cavalieri mun betri markvörður, en ég skil þessi skipti vel þar sem það væri afar vitlaust að eyða dýrmætu “útlendings” sæti af 25 manna hópnum í varamarkvörð sem vitað er að spilar lítið. Þannig að gott og vel, þetta sleppur vel fyrir horn.

Mikið hefur verið reynt að selja Insúa í sumar, sem er engu að síður “homegrown” leikmaður og því væntanlega nokkuð mikilvægur sem slíkur. Gott og vel, ef góður peningur fæst fyrir hann, þá er hann langt því frá að vera ómissandi fyrir liðið. En hvaða leikmenn hefur Roy verið að reyna að fá í staðinn? Það var staðfest að hann vildi kaupa Luke Young, já LUKE YOUNG. Fyrir það fyrsta þá er hann hægri bakvörður og í öðru lagi þá er þetta leikmaður kominn yfir þrítugt sem Aston Villa getur lítið sem ekkert notað. Sem betur fer vildi hann sjálfur ekki koma, þrátt fyrir að félögin hafi verið búin að komast að samkomulagi um kaupverð og slíkt. Takk fyrir það Luke, ég er þér afar þakklátur. Síðan staðfesti Danny Murphy það nánast að við séum búnir að vera að eltast við Paul Konchesky frá Fulham. Hann verður þrítugur í maí og hefur aldrei nokkurn tíman verið neitt annað en miðlungs vinstri bakvörður og hversu mikil bæting er hann frá Insúa? Insúa á allavega klárlega eftir að bæta sig sem knattspyrnumaður, enda bara 21 árs gamall, hans fyrsta alvöru tímabil núna síðast (og liðið í heild dapurt) og hefur verið að banka á landsliðsdyrnar hjá Argentínu. Ef væri verið að skipta honum út fyrir first choice vinstri bakvörð, gæðaleikmann, þá myndi ég vel skilja þetta.

Við nánast erum búnir að skipta út mann fyrir mann vinstra megin á miðjunni, þ.e. Jovanovic fyrir Riera. Flott skipti og líst mér afar vel á nýja kappann. En það var að vísu búið að ganga frá því löngu áður en Roy kom. Benayoun fer og Cole kemur inn í staðinn. Frábær skipti það og það þarf ekkert að ræða það neitt meira. Svo kemur að Mascherano sögunni endalausu. Það er nokkuð ljóst að hann vill fara, gott og vel, það er beðið eftir rétta tilboðinu í hann. Ég yrði ekkert svekktur þó það kæmi ekki, en ég er engu að síður ennþá að klóra mér í hausnum yfir kaupunum á Christian Poulsen. Slarkfær leikmaður og allt það, ætla engan veginn að dæma hann útfrá leiknum í gær, en ég skil engu að síður ekki kaupin á honum. Ekki misskilja mig, ég mun standa þétt að baki honum á meðan hann klæðist Liverpool treyjunni, um það er engin spurning, en ég skil samt ekki þessi kaup. Ég skil þau ennþá síður eftir nýjasta útspilið hjá Roy. Aquilani á láni aftur til Ítalíu??? Hvað er það? Ef hann hefur litla trú á honum, eða eitthvað annað sem við vitum ekki um geri þetta að verkum, af hverju var þá ekki búið að gera eitthvað fyrir löngu síðan í þessu máli? Roy sagði sjálfur að hann hefði ákveðið að spila honum ekki í gær út af þessu væntanlega láni, þannig að fréttir þess efnis að hann hafi gert sér upp magaverk, eiga ekki við rök að styðjast. En af hverju í ósköpunum að fara út í þetta korteri fyrir lok leikmannagluggans? Við erum ekkert að kafna úr breidd hópsins, það er klárt. Alberto er einn af fáum svona unique sendingarmönnum í hópnum og ætti svo sannarlega vel heima á miðjunni með einhverjum af jöxlunum okkar. Hann var að spila virkilega vel undir lok síðasta tímabils, þannig að hvað töpum við í rauninni á því að gefa honum sénsinn. Mér finnst þetta hreinlega galið alveg hreint, en auðvitað geta verið aðrar ástæður sem við höfum ekki hugmynd um, en þetta meikar bara ekkert sense fyrir manni. Við vitum jú alveg meiðslasögu Joe Cole og Gerrard, þannig að hann ætti að geta fengið alveg nógan spilatíma.

Svo eru það nýjustu fréttirnar, Dirk Kuyt jafnvel til Inter. Þegar umboðsmaðurinn hans er að tala um að Dirk sé að hugsa sig um, þá er væntanlega eitthvað hæft í þeim fréttum sem berast frá Hollenskum dagblöðum um að félögin séu búin að komast að samkomulagi um kaupverð. Bíðum nú aldeilis pollróleg, erum við að reyna að tæta liðið í sundur nú að síðustu metrunum fyrir lok leikmannagluggans? Kuyt hefur farið brjálæðislega í taugarnar á mörgum, en hann hefur engu að síður verið lykilmaður hjá okkur undanfarin ár. Ég bara hreinlega neita að trúa því að Roy láti það hvarfla að sér að láta hann fara. Einn af þessum útlendingum sem hafa sýnt það trekk í trekk að hjarta hans slær með félaginu hans og hann myndi leggjast fyrir framan valtara ef hann yrði beðinn um það. Menn geta rætt fram og aftur um hvar hann skortir hæfileika, á hvaða sviðum, en commitment geta menn ekki efast um hjá honum. Og við þurfum svo sannarlega á öllum slíkum að halda fyrir þetta tímabil sem framundan er.

Það má lesa ýmislegt út úr orðum mínum hér að ofan, en að sjálfsögðu á Roy stuðning minn allann í stjórastöðunni. Ég er samt langt frá því að vera impressed með þau mál sem hafa verið að gerast á leikmannamarkaðinum hjá honum í sumar. Hann verður hreinlega að átta sig á því að hann er að stýra Liverpool FC og það er ekki það sama og að stýra FC Köpenhavn eða Fulham. Ef skipta á út góðum leikmönnum, þá ættum við að fá inn enn betri leikmenn í staðinn. Ef peningarnir eru ekki fyrir hendi til að gera slíkt, þá hljótum við að krefjast þess að þá verði bara betra að spila úr því sem til staðar er. Allavega, ekki fá inn veikari leikmenn en þeir sem hverfa á braut. Þá fyrst er hægt að segja að Liverpool FC sé að færast nær meðalmennskunni. Ég vona svo sannarlega að við höldum Javier, Alberto og Dirk hjá okkur áfram. Ef það gerist ekki, þá þurfum við meiri gæði í staðinn. Og hananú…

81 Comments

 1. Ég er sammála þessu, skil bara ekki af hverju Aqua á að fara á láni. Dettur helst í hug að launapakkinn sé orðinn of hár vegna þess að Masch fari ekkert og því verði félagið að láta einhverja fara.

 2. Ég er einn af þeim sem var virkilega ósattur með að skipta út Benítez og fá inn Hodgson í staðinn, mann sem hefur verið að stýra meðalliðum nánast allan sinn þjálfaraferil. En djöfull hefur þetta snúist við hjá mér, og núna er ég mun bjartsýnni fyrir þetta tímabil heldur en þann tíma sem HM var í gangi. Það sem ég er sammála í þessum pistli er Insúa og allt vinstri bakvarðardæmið, vill alls ekki fá Konchesky eða Luke Young þar inn. Svo er ég sammála með ruglið að selja Kuyt, en ég er ekki að sjá að Hodgson sé tilbúinn að láta hann fara, allavega miðað við hvað hann hefur verið harður á því að halda Mascherano nema ef verulega gott tilboð kemur í hann.

  Með Aquilani þá verð ég að segja (og ég hata að segja það) að ég sé hann ekki verða að einhverjum toppmanni í ensku deildinni. Alltof linur í þessa deild og svo hefur hann ekkert sýnt nema einhver 2 mörk í fyrra, þar af eitt á móti skítlélegu liði Burnley ef ég man rétt. Þannig að hann færi ef ég fengi að ráða einhverju, en að henda honum á lán er annað mál. Trúi samt ekki öðru en að þar liggi eitthvað að baki þeirri ákvörðun.

  Svo er eitt sem mér finnst þú gleyma að taka fram, þó það tengist ekki beint kaupum og sölum, að Hodgson virðist hafa sannfært Gerrard og Torres um að vera áfram hjá liðinu. Það er mikilvægara heldur en að missa t.d. Alberto Aquilani í burt á láni. Veit ekki alveg hvað mér finnst um Poulsen, þarf að gefa honum 3-4 leiki í viðbót, en ég man hvað ég var spenntur fyrir honum þegar hann var hjá Villareal.

  Verulega sáttur með að Cavalieri sé á leiðinni burt, ég er hræddari við hann í marki heldur en að vakna upp á sunnudagsmorgni með 200kg frænku lúllandi hliðiná mér.

 3. Ég er gáttaður á þessum með Aquilani. Er búinn að lýsa skoðun minni á þessu í öðrum þræði.

  Þetta með Kuyt, þá hefur hann sagt að hann sé ánægður hjá Liverpool og búinn að koma sér vel fyrir, fjölskyldan ánægð og börnin komin með scouse hreim. Þetta sagði svo Kuyt fyrir um einun og hálfum mánuði síðan undir lok HM. Tekið af opinberu síðunni.

  “”Of course I want to stay,” he said. “Liverpool is a great club with a great history.

  Unfortunately in my four years I haven’t won anything but hopefully in the future I will still have that chance.

  “We will have to see what happens but hopefully the manager wants me to stay.

  Í þessum fréttum um Kuyt segir umboðsmaðurinn að þetta sé undir Kuyt komið. Ef svo er þá er hann ekki að fara neitt. Ef hann fer frá Liverpool þá er það vegna þess að Hodgson vildi selja hann.

  Ef að Kuyt, Mascherano og Aquilani fara allir frá okkur þá erum við búnir að missa alltof stóran skammt af gæðum. Ef þetta gerist þá VERÐUR Hodgson að redda gæðaleikmönnum í staðinn ef þetta tímabil á ekki að enda í algjöru rugli. Þá þýðir ekki að vera að eltast við pulsur í þeim gæðaflokki sem hafa verið orðaðir við okkur undanfarið.

 4. Steini finnst að þú verðir að láta það koma fram í þessum pistli að þú varst bæði ósáttur við að Rafa var rekinn og einnig að Roy Hodgson yrði fengin í staðinn,mér sýnist þessi pistill þinn dálítið litaður af því.Þú verður nú líka að horfa í hvaða stöðu klúbburinn er fjárhagslega og finnst alveg fáránlegt að dæma Poulsen á einum leik, fannst hann nú eiga ágætis spretti í leiknum í gær.
  Varðandi þá leikmenn sem að RH hefur verið orður við þá er hann alla vega að að skoða enska squad players en ekki einhverja Josemi eða Nunes a.Held að menn hljóti að gera sér grein fyrir því að Liverpool muni ekki eyða stórfé í leikmenn fyrr en að þessir andsk kanar eru farnir.Nema þá að hann nái að selja leikmenn fyrst.Svo skil ég ekki alveg þessa umræðu um Aquilani ein mestu flopp kaup Benites ásamt farsanum í kringum Robbie Keane,að hann skildi hafa keypt þennan Ítala meiddan á um 20m punda er náttúrulega bara grín.Og varði svo ákvörðunina á sínum tíma að hann hefði kostað miklu meira ef hann hefði ekki verið meiddur ! Held að RH sé búinn að sjá nóg af honum á undirbúningstímabilinu og hefur eflaust ákveðið að skoða hann þessa fyrstu mánuði,en hann hefur því miður ekki neitt sýnt og verið alltaf eitthvað smávægilega meiddur.Varðandi Kuyt þá trúi ég ekki að RH vilji að hann fari hældum honum þvílíkt eftir fyrsta leik gegn Arsnl.

 5. Lastu ekki pistilinn Rósi?

  Er ekki um að gera að lesa hann fyrst áður en þú ferð að tjá þig um hann?

 6. Steini ég las hann vel og vandlega fínn pistill sem að þú hlýtur að reikna með að menn svari hver á sinn hátt.Þú hlýtur að getað svarað manni öðruvís en svo að halda að ég hafi ekki lesið pistilinn.

 7. OK, bara fyrir það fyrsta, þá er Liverpool tími Rafa liðinn í mínum huga og tími Roy er núna, hitt er bara fortíðin, þannig að það þarf ekkert að ræða það meira.

  Ef peningarnir eru ekki fyrir hendi til að gera slíkt, þá hljótum við að krefjast þess að þá verði bara betra að spila úr því sem til staðar er. Allavega, ekki fá inn veikari leikmenn en þeir sem hverfa á braut.

  Ég sagði þetta um RH og hef sagt það áður: “Það má lesa ýmislegt út úr orðum mínum hér að ofan, en að sjálfsögðu á Roy stuðning minn allann í stjórastöðunni.” Ég styð fullkomlega Roy sem stjóra, það hlýtur samt að vera hægt að setja út á hluti sem maður skilur ekki alveg. Ég hef í gegnum tíðina gagnrýnt ýmislegt hjá stjórum Liverpool, hvaða nöfnum sem þeir hafa heitið.

  Þú verður nú líka að horfa í hvaða stöðu klúbburinn er fjárhagslega

  Ég sagði líka í pistlinum þetta: “Ef peningarnir eru ekki fyrir hendi til að gera slíkt, þá hljótum við að krefjast þess að þá verði bara betra að spila úr því sem til staðar er. Allavega, ekki fá inn veikari leikmenn en þeir sem hverfa á braut.”

  og finnst alveg fáránlegt að dæma Poulsen á einum leik

  Ég sagði þetta um málið í pistlinum: “Slarkfær leikmaður og allt það, ætla engan veginn að dæma hann útfrá leiknum í gær, en ég skil engu að síður ekki kaupin á honum.”

  Varðandi þá leikmenn sem að RH hefur verið orður við þá er hann alla vega að að skoða enska squad players en ekki einhverja Josemi eða Nunes a

  Ég skýrði það út þarna að ofan að ég var að tala um skipti á Insúa og þessum sem orðaðir hafa verið við okkur. Hann er homegrown eins og ég talaði um og tel mig hafa fært ágætis rök fyrir máli mínu. Það er enginn að tala um að kaupa Josemi eða eitthvað álíka. Þú virðist ennþá pikk fastur í að ræða Rafa, sem mér finnst vera algjörlega hluti af fortíðinni.

  Varðandi Aquilani, þá geta menn haft sína skoðun á því hvort hann sé flopp eða ekki. Það er verið að tala um að lána hann í burtu, hence enginn peningur inn fyrir hann og það er eitthvað sem ég skil ekki. Við getum endalaust deilt um það hvort okkur finnist hann nógu góður eða ekki, í þessum pistli snýst þetta um annað.

  Varðandi Kuyt þá trúi ég ekki að RH vilji að hann fari hældum honum þvílíkt eftir fyrsta leik gegn Arsnl.

  Ég fór yfir þetta með Kuyt hér að ofan, vegna þess að svo virðist sem að búið sé að ræða við Inter um hann, hvort sem þú trúir því eða ekki. Umbinn hans búinn að ræða þetta og hollensk dagblöð fullyrða það.

  Útfrá þessu ofangreindu, finnst þér þá skrítið að ég hafi sett spurningamerki við það hvort þú hafir lesið pistilinn?

 8. Sammála SStein með nánast allt eins og ég kom inná í opna þræðinum – okkar bestu leikmenn eru orðaðir við önnur lið alveg vinstri hægri og við erum að losa okkur við töluvert fleiri en þeir sem koma inn, samt er okkar akkilesarhæll a) lack of debt , b) vantar fleiri (heims)klassaleikmenn.

  Þrátt fyrir þetta seljum við meira en við kaupum (ennþá) og erum einungis orðaðir við og bjóðum í miðlungsleikmenn.

 9. Það hefur mikið verið rætt um að einn helsti kostur Hodgson sé hversu skynsamur hann er. Ég fæ ekki betur séð en að hann ætli sér að nota SG á miðjunni með JC í hinn frægu holu. Aquilani hefur átt erfitt uppdráttar hingað til og ef SG heldur sér heilum mun Aquilani ekki eiga erindi í liðið á komandi tímabili. Að mínu mati er þetta því rökrétt ákvörðun hjá Hodgson, lána Aquilani til Juve þar sem hann fær vonandi að spila í hverri viku og koma sér í almennilegt stand. Með því fæst tvennt: a) Við getum nýtt okkur hann á næsta sísoni ef hann spilar vel. b) Við ættum að geta fengið ágætis pening fyrir hann ef hann spilar vel og við viljum losna við hann.

 10. Guð minn góður ekki minnast á Rafa Benitez meira. Held að það sé búið að kryfja hvert einasta innyfli í honum til mergjar þannig að það þarf ekkert að ræða það meira. Annað mál er hvað Hodgsons er að gera í dag, hverja hann er að kaupa og segja. Menn geta rætt það alveg eins og þeir vilja. Fyrir mér hefur hann farið vel af stað og mig grunar að tilfellið sé að hann sé að reyna að vinna úr því sem hann hefur og fær. Insua ást sem menn hafa skil ég bara ekki. Homegrown eða ekki skiptir engu máli, hann lætur kloppa sig í hverjum einasta leik nánast og einstakt alveg að fylgjast með liðum sem að endalaust fara upp hægri kantinn þegar Insua er inn á. Afhverju ? Jú hann er veikasti hlekkur varnarinnar ! Ég sé ekkert á eftir honum og tel að Paul Konchensky sé mun betri varnarmaður alhliða heldur en Insua. Skil því vel að Liverpool vilji fá hann sem staðgengil fyrir Insua. Auðvitað eru til margir betri en hann en fyrir þann pening sem milli handa RH eru að virðist allavega þá skil ég þetta vel. Christan Poulsen eru heldur furðulegri kaup að mínu mati en hver veit nema hann eigi eftir að slá í gegn á Anfield.

  Þetta er bara eins og Sigursteinn Gísla segir að leikurinn byrjar á vörninni og svo þegar þú ert með boltann þá sækiru ! Sjáið bara hvað hann hefur gert með miðlungs fyrstudeildar leikmenn hjá Leikni ;=) Held að þetta sé bara einmitt það sem að RH er að reyna að koma að hjá mönnum. Byrjum að verjast og sækjum svo !

 11. Gott og vel Steini.
  Gott að þú viljir gefa Poulsen nokkra leiki í viðbót þó þú skiljir ekki kaupin á honum.
  En getur þú nefnt einhverja leikmenn sem eru farnir sem eru betri en en þeir sem eru komnir?
  Er það ekki alveg ljóst að SG muni spila á miðjunni með Lucas,Poulsen að Masch svona sem fyrsti kostur ?Hefur þú séð eh við Aquilani sem bendir til þess að hann verðskuldi það að spila fyrir LFC?Er ekki berta að lána hann eitt season í von um að hann nái sér á strik í stað þess að selja hann á eitthvað klink?
  Held að við ættum nú líka að hrósa RH fyrir það sem hann hefur gert vel varðandi leikmannamál.
  Hefur algjörlega verið skýr varðandi Mascherano þó svo að það hafi verið búið að lofa honum að fara þetta sumar hversu fáránlega sem það hljómar.Hann hefur sannfært bæði SG og Torres um að vera áfram ásamt því að Joe Cole er kominn.
  Varðandi Insua þá virðist sú sala hafa verið gerð fyrir tíma RH eins og hann hefur reyndar sagt sjálfur og það hlýtur að vera vilji Insua að fara.
  En eigum við ekki að taka Kuyt umræðuna síðar fyrst verðum við að sjá hvort hann fari og á hvaða verði.Vona svo innilega að hann verði áfram.Síðan er ekki bara hægt að stroka út allt sem miður fór hjá Rafa á síðasta tímabili var endalaust að væla um að hann fengi ekki að kaupa þennan og hinn en gat samt eitt tæpum 40 m punda í bakvörð og meiddan Ítala þegar að allir sáu að við þyrftum annan topp striker!! Held að RH hefði nú ekkert á móti því að hafa 40 m punda í leikmanna kaup núna og þá værum við nú kannski að ræða um aðra leikmenn til félagsins heldur en raunin er.Það er voða auðvelt að gagrýna RH í leikmannakaupum þegar hann hefur ekki þessar 40m punda sem að Rafa hafði á síðasta tímabili,það hljóta allir að sjá að hann fær ekki mikla peninga úr að spila.En miðað við ruglið hjá Rafa í lekmannakaupum á síðasta sumri þá finnst mér RH hafa staðið sig mjög vel.Það hljóta allir að sjá það Steini og þess vegna furða ég mig á þessum ummælum þínum varðandi leikmannakaup og þá leikmenn sem hann hefur verið að spá í,við hljótum að gefa honum það að hann sé að reyna að nota það litla fé sem hann hefur til að gera sitt allra besta fyrir Liverpool Football Club.

 12. Ég er á þeirri skoðun að Hodgson hafi ekki verið að gera einhver stórkostleg kaup. Joe Cole er að sjálfsögðu góð viðbót og Jovanovic líka en ekki endilega eitthvað sem gjörbreytir liðinu til hins betra. Poulsen þarf nokkra mánuði til að sannfæra mig um að vera góðviðbót. Allir þessir menn eru í kringum þrítugt og því varla hugsaðir með mikla uppbyggingu í huga. Þetta með Insúa er í meira lagi skrýtið og flestir voru tiltölulega ánægðir með síðasta vetur hjá honum miðað við að hann spilaði margfalt meira en hann átti að gera. Svo þetta með Fabio Aurelio, ég man ekki betur en að flestir hefðu viljað hann burtu því hann er alltaf meiddur. En þeir sem hafa verið nefndir eru varla af þeim gæðum að Insúa stæði þeim ekki a.m.k. jafnfætis.

  Þá á Hodgson eftir að kaupa senter sem þarf að vera af hærra kaliberi en N’Gog þótt hann virðist fíla sig ansi vel þetta haustið. Hann getur ekki leyst Torres af ef Torres meiðist í 1-2 mánuði í senn. Mest áríðandi staðan hefur því ekki verið leyst, senterstaðan.

  Þess vegna tek ég undir grunntóninn í þessum pistli, það er ekki margt sem gefur okkur tilefni til mikillar bjartsýni þetta árið annað en að Hodgson geti blásið okkar ágæta hóp baráttuanda í brjóst. En gefum honum séns og fullan stuðning í nokkra mánuði.

 13. Takk fyrir pistilnn. Er svo sammála hvað flest varðar.
  Fortíðin er búin og það þýðir ekkert að ræða hana.Fyrr í sumar var ég ekki bjartsýnn en eftir að Joe Cole kom varð ég bjartsýnn að betri tímar væru í vændum.
  Ef að það á að láta Aqua,Dirk og masch fara þá veeeeeerður að fá fallbyssur í staðinn en ekki einhverjar baunabyssur. Aqua reyndar ekkert sýnt utan nokkra spretti síðasta season en allir sem elska Liverpool vita hvað Dirk og Masch hafa verið mikilvægir. Vill reyndar ekki Masch ósáttan og held að það sé bara spurning að kreista sem mest fyrir karlinn.

  En meiri metnað takk Roy og vonandi er ekki bara verið að selja uppí skuldir því þá ræður þú sennilega litlu…
  YNWA

 14. Algjörlega sammála Ívari Erni hér að ofan.

  En getur þú nefnt einhverja leikmenn sem eru farnir sem eru betri en en þeir sem eru komnir?

  Ég fór yfir þetta í pistlinum Rósi. Ef Mascherano fer, þá er Poulsen væntanlega sá sem kemur í staðinn. Klárlega veiking í mínum huga. Ég er búinn að fara yfir Insúa málið og persónulega finnst mér hvorki Young né Konchesky vera betri en hann, og báðir mun eldri og lítið um framfarir þar miðað við hvar á ferlinum þeir eru. Ég fór svo einnig yfir það að Jones er kominn í stað Cavalieri og tel það veikingu, en tók það jafnframt fram að þau skipti væru algjörlega skiljanleg.

  Hefur þú séð eh við Aquilani sem bendir til þess að hann verðskuldi það að spila fyrir LFC

  Já, klárlega. Fannst hann eiga flotta leiki undir lok síðasta tímabils þegar hann var orðinn heill heilsu og fékk að spila. Var hreinlega impressed með hann ef ég á að segja alveg eins og er. En ég tók það nú líka fram hér að ofan að það geta alveg verið misjafnar skoðanir á honum sem leikmanni og ég var fyrst og fremst að gagnrýna veikingu á hóp sem ekki var stór fyrir.

  Varðandi Insua þá virðist sú sala hafa verið gerð fyrir tíma RH eins og hann hefur reyndar sagt sjálfur og það hlýtur að vera vilji Insua að fara.

  Sú sala (þessi sem var gerð fyrir tíma RH) datt uppfyrir því Insúa gat ekki samið við Fiorentina. Seinni “salan” kom svo löngu eftir að RH kom, en datt líka uppfyrir vegna þess að hann gat ekki samið við Genoa. Ef, hlýtur og hefði er voðalega erfitt um að segja í þessu.

  Hann hefur sannfært bæði SG og Torres um að vera áfram ásamt því að Joe Cole er kominn.

  Enda talaði ég um það í pistlinum að koma Cole væri klár styrking, Roy hefur líka gert frábæra hluti varðandi Gerrard og Torres. Pistillinn fjallar bara ekkert um það. Ég er ákaflega ánægður með mjög margt hjá RH, er virkilega ánægður með hann gagnvart pressunni og mjög margt í fari hans sem ég hef verið mjög impressed með. Þetta fjallar bara ekkert um það og hvað þá Rafa Benítez. En það virðist vera erfitt fyrir suma að ræða Liverpool FC og stöðuna í dag án þess að fara aftur í eitthvað Rafa tuð. Að mörgu leiti er RH í sömu stöðu með budget og Liverpool síðasta sumar. Þ.e. að við erum í plús í leikmannaviðskiptum. Þú lætur eins og menn hafi haft 40 millur síðasta sumar í net spend. En eins og áður sagði, þá hef ég ekki nokkurn áhuga á að ræða Rafa og hans stjóratíð, það er hluti af fortíðinni núna. Núna er verið að ræða um kaup og sölur Liverpool í dag, útfrá forsendum eins og þær eru akkúrat núna. Staðan núna er sú sama og fyrir ári síðan, þ.e. að nema að menn komi inn með +40 milljónir punda, þá er litlu að eyða.

  Þar af leiðandi var minn aðal punktur sá að halda mannskapnum sem er til staðar, ekki skipta út mönnum fyrir veikari leikmenn.

 15. Iss væl og aftur væl , leyfum tímabilinu að hefjast áður en menn fara að dæma hinn eða þennan , þar sem að jú árangur mælist útá velli en ekki á pappírum . Það eina sem ég get sett útá er að láta aquilani fara á lán en tek það samt til baka ef masch verður áfram …. GO LIVERPOOL !!!!!!

 16. finnst reyndar kostulegt að þú nefnir alltaf bara sömu tvo leikmennina sem hafa verið orðaðir við LFC Luke Young og Konchesky hvað með hina ?Og varðandi Pouslen vs Mascherano þá er engin að fara að borga uppsett verð fyrir Mascherano.RH sagði sjálfur að Poulsen væri ekki að koma inn fyrir Mascherano endilega.Ég er ekki með neitt Rafa tuð Steini hljótum að geta borið saman hvað gerðist síðasta sumar og það sem er að gerast núna.Eigum við svo ekki að leyfa RH að klára ágústgluggan og gera þá upp hvernig hann stóð sig í glugganum.

 17. Mikið djöfulli hlakkar mig til þegar 1. september er runninn upp og búið verður að loka glugganum.

 18. Kaupin á Poulsen eru væntanlega hugsuð nr. 1 til þess að styrkja hópinn og nr. 2 til þess að eiga leikmann til þess að bakka upp stöðu Mascherano, ef hann fer á annað borð í þessum glugga. Það segir sig sjálft að það hefði verið slæmt að missa Mascherano á lokadögum gluggans og standa eftir með Lucas frænda ykkar sem eina raunverulega valkostinn í stöðuna. Hvað varðar Aquilani þá hljóta menn að vera sammála um að hann kæmi aldrei til með að vera byrjunarmaður í vetur, þrátt fyrir að það gæti verið gott að eiga hann á bekknum til þess að leysa SG eða JC af. Staðreyndin er sú að hann er ekki endilega sá leikmaður sem við þörfnumst mest í dag, með SG og JC til þess að leysa þessar stöður á miðsvæðinu. Það er morgunljóst að RH hefur ekki endalausan pening að spila úr og hugsanlega vill hann reyna að koma Aquilani í verð og nota þá peninga til þess að styrkja stöður þar sem við erum veikari fyrir.

 19. Svo er eitt í þessu; Þegar menn tala um að “Hodgson hafi ekki verið að gera einhver stórkostleg kaup” – við hvað eruð þið að miða? Við vitum að það eru litlir sem engir peningar til hjá félaginu svo það er nú ekki eins og hann geti gert það sem honum sýnist í leikmannamálum. Á þeim stutta tíma sem hann hefur verið við stjórnvölin hefur hann hins vegar sannfært SG og FT að vera áfram hjá liðinu, fengið JC til liðsins og unnið í því að fjölga enskum leikmönnum í liðinu. Það stoðar ekkert að lifa í einhverjum CM draumaheimi. Við erum ekki í meistaradeildinni, gátum ekkert síðasta síson og eigum enga peninga. Að mínu mati hefur hann bara gert ágætlega miðað við aðstæður.

 20. Sælir félagar

  Þakka SSteini fyrir góðan pistil og er algjörlega sammála niðurstöðunni að það er ekkert vit í að selja leikmenn og kaupa aðra sem í besta falli eru jafngóðir en líklega þó lélegri. (svakaleg belja er þessi setning hjá mér).

  Látum oss bíða þar til glugginn lokast og dæmum RH þá af verkum sínum í kaupum og sölum.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 21. Auðvitað nefni ég þá Rósi, það hefur verið staðfest að við höfum verið að reyna að kaupa þá. Annars vegar var búið að ná samkomulagi um kaupverð (Young) og hins vegar þá setti ég link á Murphy fréttina. Vilt þú frekar fara eftir slúðri sem fátt hefur verið bakkað upp?

  Þú ert víst með Rafa tuð, síðasta sumar voru heldur engir peningar til, þeir urðu ekki til fyrr en við seldum, og þá minni peningur en við seldum fyrir. Sama staða, eitt ár liðið. Auðvitað leyfum við ágústglugganum að klárast, efast um að einhver kaup eða sölur stoppi vegna þessa pistils míns. Það er fyrst og fremst verið að tala um þá leikmenn sem við erum búnir að vera að reyna að kaupa, eða losa okkur við.

  Ágúst, hvar í pistlinum eða í kommentum eru menn að lifa í CM draumaheimi? Er það CM draumaheimur að vilja frekar halda þeim leikmönnum sem fyrir eru, frekar en að skipta þeim út fyrir lakari menn (að mínum dómi)? Aquilani er ekki að fara á sölu, það er talað um lán, þar af leiðandi kemur ekkert inn í kassann.

 22. Menn hérna að ræða hver séu bestu kaupin af hópi afleitra leikmanna sem ekkert lið í top 5 myndi einu sinni detta í hug að kaupa í varaliðið hjá sér.

 23. Ég skil ekki af hverju er verið að lána Aquilani til Ítalíu? Hvers vegna ekki að selja manninn bara ef það á ekki að nota hann? Sé ekki að hann sé að komast takt við enska boltann með því að lána hann til Ítalíu.

 24. Verður ekki líka að horfa í hluti eins og að Cavalieri kom til Roy Hodgson í byrjun tímabils og tjáði honum að hann hefði ekki áhuga á að sitja á bekknum. Er þá ekki eðlilegt að hann fái að fara og annar varamarkvörður keyptur?

  Varðandi aðra leikmenn þá er margt sem við vitum ekki. Mascherano talaði um að fjölskyldunni liði illa í Liverpool borg og það væri aðal ástæðan fyrir því að hann vildi fara. Ef til vill má leiða að því líkum að svo sé með Insua, ef til vill vill hann fara í burtu og spila í öðru landi?

  Það er einnig svo að fjármagn er ekki til staðar og aðdráttarafl klúbbsins er búið að minnka verulega með tilkomu þess að LFC spilar í Evrópudeildinni. Miðað við þær sektir sem blasa við G&H og þá staðreynd að allt er nánast frosið hvað varðar stórar ákvarðanir þá er ekki mikil bjartsýni á að liðið bæti við góðum leikmönnum fyrir lok gluggans. Vonandi ná þeir að selja liðið og nýr kaupandi fjárfestir í 2-3 góðum leikmönnum til að gleðja okkur.

  Athyglisvert að Elisha Scott, sem alla jafna er mjög svo áreiðanlegur skúbbari, staðfesti að Poulsen og Crouch væru að koma til Liverpool. Spurning hvort að eitthvað sé til í því?

 25. Hvaða vitleysingi datt í hug að hafa félagsskiptagluggann opinn vel inní fyrsta mánuð tímabilisins. Auðvitað á þessi gluggi að loka daginn sem deildinn byrjar !

  Leist mjög vel á Hodgson en er farinn að efast. Held að hann muni aldrei láta liverpool spila léttleikandi bolta heldur miklu frekar einhvern passífan varnabolta. (því miður)

 26. ég hafði trú á milan jovanovic þangað til í leiknum i gær þegar hann henti sér niður á miðjum vellinum hálfum metrum frá andstæðing og fiskaði aukaspyrnu, svona menn vill ég ekki sjá á anfield, burtu með serba ógeðið og notum babel

 27. ég verð nu bara að segja að ef að masc fer á 20+ þá er ég ánægður. finnst þetta ofmetinn leikmaður. lélegur sendingamaður og truflaður í skapinu.

 28. Mér finnst eins og ég sé sá eini sem að las viðtalið við RH almennilega. Hann segir skýrt og greinilega að hans mat sé að Aquilani VERÐI að vera í liði þar sem hann er fyrsti maður á blað til þess að styrkja sig. Eru menn búnir að gleyma hvers konar meiðslum maðurinn var að stíga upp úr, það var alltaf mikil áhætta að kaupa hann.

  RH segir ennfremur að ef Aquilani fari á láni til almennilegs liðs þar sem hann fái að spila mjög reglulega að þá munum VIÐ (Liverpool aðdáendur) fá að sjá hinn rétta Aquilani ÞEGAR HANN KEMUR TIL BAKA!!!

  Merkilegt hvað menn nenna að snúa út úr einföldu viðtali. Ef það besta fyrir feril leikmannsins er að fá pottþétt að spila í hverri viku (og það er ekki eitthvað sem við getum lofað) að þá er bara um tvennt að velja:

  1 – Selja leikmanninn
  2 – Lána leikmanninn

  Við fjárfestum 20 milljónum evra í þessum leikmanni og ef að RH telur að besta leiðin til þess að hjálpa þeim leikmanni sé að lána hann, af hverju ekki að treysta honum?

 29. okei nú er ég brjálaður var ekki ráðinn fokking gaur til að sjá um þessa sölu á klúbbnum !! geta þeir ekki farið að drullast til að taka ákvörðun eða eru það kannski þessir helvítis kanar sem eru að draga þetta !! nú er einn buinn að draga tilboð sitt til baka sem er sagður vera lang sterkasti kaupandinn! vona bara að það sé ekki rétt… en ég held að það hefði verið sterkt að selja liðið kínverjum ! þegar nýr völlur væri kominn og markaðsetning í kína, sala á treyjum og varningi og æfingarferðir þangað á hverju sumri myndi pottþétt skila meira en nóg í kassan til að reka klúbbinn og kaupa leikmenn! vil fara að sjá þetta klárast!! við vitum að það er það sem LIVERPOOL FC þarf númer 1,2 og 3

 30. Og já, hérna er myndband af mörkunum fimm hjá Ola Toivonen í fyrstu tveimur leikjunum sem búnir eru í hollensku deildinni. Eins og flestir vita að þá þarf maður alltaf að horfa á suma leikmenn hollensku deildarinnar með ákveðnum fyrirvara. Þeir eiga það til að líta út fyrir að vera mun betri heldur en þeir eru í raun og veru, sbr. Mateja Kezman. Þessi hins vegar lítur út fyrir að vera mjög góður. Vonum það besta.

  http://www.youtube.com/watch?v=0Fm9Kc-yYnU

 31. Ég hef alltaf trúað því að liverpool verði meistari aftur. Í byrjun hverrar leiktíðar fyllist ég mikilli bjartsýni. Spurngin mín er einföld, getur Liverpool orðið enskur meistari?

 32. SSteinn, þegar ég tala um CM draumaheim á ég við eftirfarandi. Auðvitað viljum við öll hafa eins marga góða leikmenn í hópnum og hægt er. Hins vegar er það svo að Aquilani mun ekki fá þann leikjafjölda með aðalliðinu sem hann þarf til þess að koma sér í stand. Það stoðar ekki að benda á að hann geti bara spilað með varaliðinu, það sjá það allir að það er bara ekki sami hluturinn. Við erum að tala um leikmann sem á að leysa af hólmi einhverja mikilvægustu stöðuna á vellinum og það er fráleitt að hann eigi bara að geta droppað inn og út eftir hentugleika í engu formi (nú gef ég mér að SG og JC verði valdir á undan honum). Roy vinur okkar er að mínu mati að gera það eina skynsamlega í stöðunni – þ.e. að gefa honum kost að að spila alvöru fótbolta í hverri viku. Ef Aquilani nær að spila heilt tímabil er aldrei að vita nema við sjáum hann aftur á Anfield, nú eða seljum hann og fáum e-ð til baka af þeim fáránlegu fjármunum sem RB frændi þinn eyddi svo gáfulega með kaupunum á honum.

 33. Er þetta skilgreining á CM draumaheimi? Og er RB nú allt í einu orðinn frændi minn? 🙂 Var þetta síðast nefnda eitthvað til að reyna að styrkja röksemdafærsluna?

 34. SSteinn, nei alls ekki… Þú mátt ekki taka þessu svona. Pistillinn hjá þér var fín og ég ætla ekki að setja út á þínar skoðanir. Það sem ég átti við var að kannski er hagsmunum félagsins best borgið með því að Aquilani fari á láni þetta tímabil, þrátt fyrir að við getum verið sammála um að auðvitað yrði hópurinn sterkari með hann innanborðs. Kannski – og vonandi hefur Orbinson hugsað nokkra leiki frma í tímann. Legg til að við gröfum þessa umræðu um Aqua, a.m.k. þar til við getum rætt þetta yfir einum bjór…

  • Hvaða vitleysingi datt í hug að hafa félagsskiptagluggann opinn vel inní fyrsta mánuð tímabilisins. Auðvitað á þessi gluggi að loka daginn sem deildinn byrjar !

  Eru tímabilin á Ítalíu og fleiri löndum ekki að byrja í kringum 1.sept?

  og varðandi Ola Toivonen þá er ég orðin mjög spenntur fyrir þessum leikmanni og vill mest fá hann til liðsins af öllum þeim sem orðaðir hafa verið við okkur. Hann er 1.93 á hæð, skorar mikið og er kominn í landsliðið hjá Svíum.

  Tek annars að ég held undir allt hjá SStein í þessum pistli og ummælum.

 35. Legg til að við gröfum þessa umræðu um Aqua, a.m.k. þar til við getum rætt þetta yfir einum bjór…

  Very much agreed 🙂

 36. Og já Babu, til lukku með daginn í gær og eins með sigrana sem þú fékkst í gjafir. En ég ætla líka formlega að bjóða þér á næstu hljómsveitaræfingu Al Arabic, okkur vantar props sem getur klæðst slæðu á kynþokkafullan hátt. Datt enginn annar en þú í hug.

 37. Hvað er mikilvægast til að lið vinni ensku deildina? Það er fyrst og fremst peningar. Liverpool hefur ekki peningana.

  Hvað annað skiptir máli? Það er þjálfarinn. Roy Hodgson hefur aldrei unnið stóra evrópskan titill. Þannig Liverpool hefur ekki þjálfarann. Hins vegar hefur hann gert vel þar sem hann hefur stjórnað og náð góðum árangri með lítið efni.

  Til að vinna þarf líka hefð. Hjá Liverpool er mikil sigurhefð og þess vegna hélt ég að Liverpool tæki titilinn á hverju ári eftir að þeir unnu hann síðast.

  Það þarf heimsklassa leikmenn. Torres, Reina, Marcherano, Cole og Gerrard eru leikmenn sem eiga heima í liðum sem sigra deildir. Liverpool hefur þetta, nema vantar kannski miðvörð. Carragher er reyndar helvíti góður.

  Til að Liverpool vinni deildina þarf annað hvort vægi peninga að minnka eða ríkir eigendur, sem gera enga ávöxtunarkröfu, að kaupa og leggja til peninga.

 38. Magnað að sjá “stuðningsmenn” Liverpool strax byrjaða að rífa Roy niður. Hélt að hefðin sýndi að Liverpool stæði þétt við bakið á sínum stjórum, bæði stjórn og stuðningsmenn.

  Roy fær allavega miklu meiri tíma frá mér. Þetta er flottur stjóri með hafsjó af reynslu og veit nákvæmlega hvað hann er að gera.

  Það er annsi ólíklegt að Torres og El Capitano Fantastico Super Stevie Gerrard hafi setið fund með Roy Hodgson þar sem hann hafi sagt þeim að hann ætli sér að spila varnarbolta og kaupa lélega leikmenn og ákveðið að vera áfram. Hvað þá að J.Cole hafi komið frá ensku meisturunum til þess að vera í miðjumoði.

  Spurning um að slaka aðeins á og sjá hvað gerist.

 39. Annað sem er líka nauðsynlegt til að sigra og það er að hafa trú. Liverpool verður fyrst að hafa trú á því að það geti unnið áður en aðrir fara að trúa því líka.
  Það sem Chelsea, Arsenal og United hafa er að ekki bara stuðningsmennirnir þeirra trúa heldur aðrir líka. Dómarar, fréttamenn og stjórnendur deildarinnar.

  Ég styð stjóra Liverpool fram í rauðan dauðan. Það er ekki spurning enda sýndi ég að ég studdi Benitez fram yfir best fyrir. Annað en sumir. Ég hef enga kerkju úti Roy Hodgon, miklu frekar út í þá sem boluðu Benitez í burtu.

  Eisi talar sannleikann í þessu. Segjum sé svo að allir taki undir með mér 100% að peningar ráði mestu um hver vinnur deildina þá hjálpar það engum að tala niður sitt lið og sinn þjálfara.

  Það var ekki mín ætlun að tala niður Liverpool.

 40. Dominic King hjá Echo segir: With an extra 24 hours to recuperate, Hodgson – who is tracking PSV Eindhoven’s left-back Carlos Salcido and striker Ola Toivonen – believes Liverpool will be in fine shape for the clash at the City of Manchester Stadium.

  Og að félagið hafi neitað því að Kuyt sé til sölu.

  Eins og Steini segir, ef þetta gengi upp, að við héldum öllum sem við erum með nema kannski Insua, El Zhar og Cavalieri, en fengjum Salcido og Ole væri allt í einu allt aðeins bjartara…

 41. Auk þess að klófesta Cole þá virðist Hodgson ætla að takast það að halda Macherano, Torres og Gerrard hjá liðinu, sem er eitthvað sem fáum hefði tekist án meistaradeildarsætis og án nokkurs penings svo heitið geti til að styrkja liðið. Ég hef mikla trú á þessum manni.

 42. Rosalega er ég sammála þessu sem Hodgson er að gera á Anfield. Fá pening fyrir Nemeth, láta Aqua sanna sig hjá Juve og halda Kuyt og Mascherano með því einfaldlega að hringja beint í Moratti og fá þetta á hreint.
  Nú er bara að kaupa góðan framherja og vinstri bakvörð til að berjast um stöðuna við Insua.

  Gæti ekki verið sáttari við gamla!

 43. Um Ola Toivonen af wikipedia: “Liverpool On August 21st Toivonen completed a 9 million pound move from PSV subject to a medical on Monday 23rd”

  Þetta er skyggnigáfa í lagi. 🙂

 44. Þetta stendur nú líka um Ola á Wikipedia: “Although after having failed a medical at Anfield, he is now retiring from football to sell toffee apples to children at Melwood.”

 45. Veit ekki hvað mér finnst um þetta lán á Aquilani til Juventus. Ef Mascherano verður áfram hefði maður séð fyrir sér að Aquilini væri flottur með honum á miðjunni þegar Gerrard er meiddur eða hvíldur. Ef Gerrard meiðist á þessari leiktíð og er frá í einhverja mánuði eigum við ekki einn einasta play maker í liðinu. Masch, Paulsen og Lucas. Þetta er æðislegt !

 46. Almennt um leikmannakaup og sölur

  Það sem skiptir máli varði þetta málefni eru peningar. Töksum sem dæmi af Xabi Alonso. Einn af mínum uppáhaldsmönnum. Listamaður með boltann og maðurinn se kom okkur í úrslit meistaradeildarinnar. Gleymi því aldrei þegar hann meiddist tímabilið 2005 en kom úr meiðslunum og spilaði gegn Juventus í meistaradeildinni. Þetta er algjör snillingur með góðar sendingar og maður með sjálfstraustið í lagi. Það sást á því að hann skoraði frá fyrir aftan miðju oftar enn einu sinni. Aquilani reyndi að leika þetta eftir en mistókst.

  Ég nefni Alonso vegna þess að Benitez varð að selja hann til að fjármagna Gareth Barry. Alonso varð móðgaður og fór þess vegna. Í milli þess að vera settur á sölu og svo þegar hann fór átti hann gríðarlega gott tímabil þar sem Liverpool lenti í 2. sæti og sló lið út eins Real Madríd.

  Ef það væru til nægir peningar þá hefði Alonso ekki farið og Barry hefði komið. Enda voru það peningar sem réðu því að hann fór til Manchester City.

  Benitez átti aðgang að meiri peningum en Roy Hodgson. Benitez gat keypt dýra leikmenn eins og Torres. Ég er ekki að sjá að Hodgson fái að gera það jafnvel þó hann selji góða leikmenn. Mín tilfinning er meira að segja sú að hann verði að selja til að standa undir rekstrarskotnaði og jafnvel smá greiðslu til núverandi eigenda.

 47. Ég ætla að gerast svo djarfur að segja að Aquilani sé búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Liverpool, haldist hann heill á Ítalíu þá verður hann seldur þangað fyrir hluta af því verði sem við eyddum í hann.

  Ég sé bara ekkert gáfulegt við þennan lánssamning, því miður.

 48. Eigum við ekki að leyfa þessum glugga að lokast áður en við dæmum stöðuna? Hingað til hefur RH virkað mjög vel á mig. Virkar hreinn og beinn og mér finnst hann hafa spilað vel úr því sem hann hefur haft. Jovanovic virkar mjög vel á mig, Cole er mikill fengur og Poulsen er ágætis viðbót við hópinn. Býst ekki við því að hann sé hugsaður sem fastamaður í liðinu. Amk virkar þetta mun betur á mann heldur en flest kaup Benitez. Kaupin á Aquilani eru væntanlega lélegustu kaupin 2009, amk í enska boltanum. Furðulegt að spandera svona stórri summu í leikmann með þessa meiðslasögu. Fínt að lána hann eitt tímabil og svo vonandi selja hann uppí brot af kaupverðinu. Ég veit það ekki en ég held að RH sé rétti maðurinn fyrir klúbbinn núna.

 49. Toivonen has refused to speculate over his future and it had been rumoured that Liverpool would reduce their interest if the forward was cup-tied in Europe.
  He played in PSV’s Europa League outing against Sibir Novosibirsk on Thursday, but Hodgson is still understood to have gone ahead with his bid

  Engin not fyrir hann í Evrópuboltanum….en kanski verður þó nóg fyrir að hann að gera samt sem áður í deild og bikarkeppnum…

 50. Ég les ekki annað úr fréttum dagins að Mascherano verði áfram. Engin leikmaður Liverpool fer til Inter og Aquilani á lán til Liverpool.

 51. Þrátt fyrir að vita kannski ekki nóg um bakhjarla Kenny Huang, þá er ég gífurlega svekktur að hann skyldi ganga úr skaftinu. Kunnugir telja að Liverpool hefði undir hans höndum náð fordæmalausri stöðu á asískum markaði, sem hefði skilað liðinu miklum fjárhæðum fyrir utan þá peninga sem hefðu líklega komið inn við kaupin.
  Nú vildi ég helst segja “við verðum bara að vona að G&H, stjórnin og Broughton viti hvað þeir eru að gera.” en ég hef álíka mikið álit á þeim og íslenskum stjórnmálamönnum.

 52. Það virðist endalega frágengið að Aquilani fer á lán til Juve. Verð að játa að mér finnst það frekar dapurt. Hvað gerist ef Cole og Gerrard meiðast? Mér fannst Aquilani vera vaxa eftir því sem á leið síðasta tímabil og fannst hann geta stimplað sig verulega inn þetta tímabilið. Því miður hefur hann ekki náð að heilla nýjan stjóra og vonandi að hann nái að standa sig hjá nýju liði einfaldlega til að hækka verðmiðann. Hann mun fara til Juve í eitt ár þannig að hann mun ekkert sjást á þessu tímabili. Grátlegt því það hefði verið hægt að nota þessar 20 milljónir punda miklu betra.

  Hodgson búinn að fullyrða það að enginn leikmaður muni fara til Inter, sem þýðir að Kuyt og Mascherano eru ekkert að fara, nema að Barcelona fá hækkun á yfirdráttarheimild sem ég hef ekki trú á að gerist. Þetta þýðir að við erum vel settir með varnamiðjumenn þetta tímabið. Tek það hins vegar fram að ég væri mjög sáttur við að halda þeim báðum þetta tímbilið.

  Hvað varðar eigendamálin, þá er eins og að allt sé að ganga tilbaka með þau kauptilboð sem eru komin og við sitjum uppi með óbreytt ástand þar, sem er miður. Því miður lítur þetta tímabil ekki vel út hvað það varðar og maður er alveg farinn að setja í passiva gírinn. Ljóst að það verða ekki keyptir sterkir leikmenn og treyst á þann hóp sem nú þegar er til staðar.

  Verð eiginlega að játa það að maður er eiginlega alveg í lausu lofti með sperkúlasjónir um þessar mundir. Maður veit eiginlega ekkert hvernig klúbburinn stendur bæði hvað varðar leikmannamál og eigendamál. Þetta helst allt í hendur. Þegar rétt rúm vika er eftir af leikmannaglugganum þá eru sterkir póstar orðaðir burt frá klúbbnum og fáir tilnefndir til klúbbsins. Þetta eru hin stóru liðin alveg laus við, eins og Chelsea, Man Utd, Arsenal og Tottenham. Það er ekkert annað í stöðunni en að vona að það fari ekki fleiri leikmenn frá félaginu og vonandi bætist við einhver eða einhverjir leikmenn sem gæta bætt hópinn….Maður verður að lifa í voninni.

 53. Hvaða “sterku” pósta er verið að tala um einare ?? Aquilani ? insúa ? nemeth? cavalieri?david martin ? mikel san josé ? ég veit ekki betur en að roy hodgson sé búinn að vinna sína vinnu vel í að halda sterku póstunum hjá liðinu .

 54. Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=96172#ixzz0xK8HTu4w

  Benites búinn að landa titli strax með Inter:
  Inter Milan vann sinn fjórða titil á árinu í gær þegar liðið vann ítalska ofurbikarinn eftir sigur á Roma á San Siro. Þetta er fyrsti titill ítalska liðsins undir stjórn Rafael Benítez sem kom frá Liverpool í sumar.

  John Arne Riise hafði komið Roma yfir á 21. mínútu en Goran Pandev jafnaði metin fjórum mínútum fyrir leikhlé.

  Samuel Eto’o skoraði svo tvö mörk á 70. og 80. mínútu og tryggði Inter þar með sigurinn í leiknum og þar með góða byrjun á nýrri leiktíð.

  Inter getur enn unnið sex titla á árinu því ofurbikar Evrópu fer fram um næstu helgi þegar liðið mætir Atletico Madrid frá Spáni og svo fer Heimsmeistaramót félagsliða fram í desember. Áður er liðið búið að vinna ítölsku deildina, ítalska bikarinn og Meistaradeild Evrópu undir stjórn Jose Mourinho.

 55. Halda menn í alvöru að Asískir eigendur komi og allt í einu muni allir asíu búar halda með Liverpool ? Hvað skiptu margir ykkar í að halda með Chelsea þegar Eiður Smári var þar ?

 56. Það byrjar enginn að halda með Liverpool bara vegna asískra eiganda. En asískur eigandi þekkir asískan markað og mun markaðsetja Liverpool í Asíu og þannig mun Liverpool verða vinsælli í Asíu og það gefur okkur helling af peningum. Svo mætti líka skoða að kaupa einn góðan asískann til að auka vinsældir okkar þar eins og ManU eru að gera með Park.
  Og varðandi Chelsea þá byrjuðu margir Íslandingar og sérstaklega af yngri kynslóðinni að halda með Chelsea þegar Eyður var þar.

 57. Sá einhver þessa æðislegu íþróttafréttamennsku á rúv í gær?
  http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498091/2010/08/21/15/

  Fréttin gengur sem sagt útá það að Chelsea séu komnir með markatöluna 20-0 eftir 3 leiki í úrvalsdeildinni : ) Svo þegar aðeins lengra inní fréttina er komið tekur fréttamaður fram að Chelsea hafi skorað 8 mörk í síðasta leik síðasta tímabils og séu þess vegna með þessa svakalegu markatölu í deildinni : )

  He he he alger snilld, er ekki nógu impressive að vera komnir með 12-0 eftir 2 leiki á tímabilinu, þarf virkilega að bæta við úrslitum í leik sem fór fram fyrir mörgum mánuðum síðan?

 58. jæja strákar manni er farið að kítla í alvöru upphitun fyrir leikinn á morgun.

 59. Fyrir 15 milljónir myndi ég selja þrítugann Dirk Kuyt eins og fjölmiðlar eru að fjalla um í dag.

 60. Varðandi Aquilani, þá efast líklega enginn um að hann kann eitthvað smá í fótbolta. Það er hinsvegar augljóslega eitthvað mikið að bakvið tjöldin. Hann hlýtur að vera þunglyndur, með heimþrá eða eitthvað álíka. Mér finnst alveg deginum ljósara að hann mun ekki klæðast búningi Liverpool aftur.

 61. Sammála SStein. Fréttir af leikmannamálum undanfarið valda áhyggjum. Þetta er ekki alveg að gera sig á síðustu metrunum.

 62. Það er ekki gott að missa þjálfarann rétt fyrir upphaf tímabilsins. Newcastle 6 – 0 Aston Villa.

 63. Djöfull finnst mér ManU alltaf heppnir… sjálfsmark og gefins víti … En sem betur fer tókst þeim að klúðra þessu.
  Tveir frábærir leikir í dag 🙂

 64. petur8: Ég myndi klárlega telja Mascherano og Kuyt sterka pósta og það er heldur betur búið að vera orða þá við önnur félög núna. Ég var hvergi að gagnrýna Hodgson fyrir að hafa ekki unnið í lykilleikmönnum heldur frekar að beina athyglinni að ástandinu hjá félaginu sem tengist helst eigendamálunum. Það myndi ekki hvarfla að mér að telja Kelly eða San Jose sem lykilleikmenn eins og þú telur þá vera.

  Málið er bara að það er frekar pirrandi ástand þegar sterkir leikmenn eru orðaðir frá félaginu frekar en til þess. Það eru ekki margir klúbbar sem eru að lána frá 20 milljón punda leikmenn um þessar mundir.

 65. Vítið á Duff var nú alveg no-brainer, enda mótmæltu Fulham leikmenn því lítið sem ekkert. Duff var vissulega óheppinn en það var ekki hægt að sleppa þessu.

Opinn þráður: Kuyt og Aquilani á förum?

Man.City á morgun