Liverpool – Arsenal 1-1

Það er óhætt að segja að fyrsta hugsun eftir þennan opnunarleik gegn Arsenal sé alveg gríðarlegt svekkelsi, ekki með leik okkar manna og svosem ekki úrslitin sem slík enda Liverpool manni færra í 45 mínútur. En að fá svona mark á sig á 89.mínútu er glæpsamlega ógeðslegt eftir annars frábæra frammistöðu manni færri.

En ef við byrjum á byrjuninni þá var þetta eins og við öll vitum fyrsta alvöru verkefni Roy Hodgson sem þjálfara Liverpool og til að hefja leik valdi hann eftirfarandi leikmenn:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel- Agger

Kuyt – Gerrard – Mascherano – Jovanovic
Joe Cole
N’gog

Bekkur: Cavalieri, Lucas, Babel, Torres, Kelly, Maxi, Aurelio.

Mascherano fékk séns í byrjunarliðinu þrátt fyrir að vilja ólmur komast frá klúbbnum, Jovanovic og Cole voru báðir í byrjunarliði Liverpool í fyrsta skipti í deildinni og Reina og Kuyt komu einnig inn í liðið þrátt fyrir að hafa farið alla leið á HM með liðum sínum og ekkert spilað á undirbúningstímabilinu. Torres var á bekknum sem er jákvætt eftir að við sáum hann haltra útaf í úrslitaleik HM.

Til að byrja með leit akkurat út eins og við værum að horfa á fyrsta leik tímabilsins, jafnræði var með liðunum fyrstu 20.mínúturnar og það fyrsta sem ég punktaði hjá mér var brot Gerrard á Eboue en þetta var held ég í fyrsta skipti sem ég hef actually trúað því að Eboue hafi meitt sig smá.

Stuttu seinna átti Glen Johnson sem var sprækur í fyrri hálfleik gott skot sem fór rétt yfir markið. Arsenal hafði engu að síður undirtökin og jók pressuna jafnt og þétt það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess þó að ná að ógna marki okkar manna að einhverju ráði. Liverpool átti í raun hættulegri færi og á 44.mínútu virtist sem N´Gog ætlaði að koma okkur yfir en skot hans var varið á línu eftir nauðvörn nallara.

Mínútu seinna var komið að helsta vendipunkti leiksins er Joe Cole fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum fyrir mishepppnaða tæklingu á nýjan miðvörð Arsenal manna Koscielny sem lá sem fótbrotinn eftir. Þetta var óþarfi að mest öllu leyti, Joe Cole er að fara með allt of miklum látum í ómerkilega tæklingu út við hornfána á miðvörð Arsenal, hittir ekki fyrir boltann og lendir vissulega á löppinni á Koscielny. Engu að síður hefði gult spjald líklega alveg nægt sem refsing fyrir þetta og liturinn var líklega rauður á kortinu vegna þess að varnarmaðurinn lá að því er virtist mjög meiddur eftir. Mest pirrandi við þetta atvik var þó að stuttu áður hafði undrabarnið og einn besti leikmaður í heimi ef mið er tekið ef spekingum Stöð 2 Sport 2 Jack Wilshere átt svipað grófa tæklingu á Mascherano og uppskar að launum réttilega bara gult spjald fyrir. En engu að síður þá var þetta aldrei heimskulegasta rauða spjald sem maður hefur séð og ef gefið væri appelsínugult hefði Cole líklega fengið það. “Frábært” debut hjá honum og ef hann kom til Liverpool til að fá að spila þá er þetta ekki aðferðin, því núna er kappinn kominn í þriggja leikja bann (sem er auðvitað alltof gróf refsing).

Þannig að staðan var jöfn í hálfleik og verkefnið framundan sannarlega að stærri gerðinni, manni færri gegn Arsenal sem okkur hefur gengið bölvanlega með undanfarin ár. David N´Gog virðist ekki hafa frétt af því og það tók þennan gríðarlega efnilega og alveg að verða góða framherja ekki mínútu að koma Liverpool yfir. Ákaflega hressandi að fá þetta mark svona strax í upphafi seinni, aðdragandinn var sá að Javier Mascherano fékk boltann eftir innkast og laumaði honum listavel innfyrir á N´Gog sem hamraði hann upp í markhornið án þess að fyrirliði Arsenal, Manuel Almunia næði að koma neinum vörnum við. Frábært mark.

Eftir þetta var Liverpool bara áfram mun líklegra og Joe Cole var ekki vitund saknað. Skrtel átti skalla yfir markið stuttu eftir að N´Gog skoraði og tíu mínútum seinna átti N´Gog ágætan skalla eftir góða aukaspyrnu frá Captain Fantastic sem var mjög góður í dag og stjórnaði miðjunni mjög vel.

Á 63.mín kom Maxi Rodriguez inná fyrir Milan Jovanovic sem var sprækur í leiknum og lofar góðu fyrir tímabilið. Stuttu seinna kom Torres inná fyrir N´Gog sem skilaði svo sannarlega sínu í dag. Að lokum kom svo Lucas inná fyrir Mascherano sem var vel fagnað af stuðningsmönnum Liverpool enda góður í dag og bara vonandi ekkert að fara miðað við frammistöðuna í dag.

Arsenal var ekki að gera merkilega hluti manni fleiri og mesta hættan frá þeim í leiknum kom þegar þeir fengu aukaspyrnur allt of oft á úrvalsstað, en skutu þeim blessunarlega eiginlega alltaf í vegginn. Hættulegasta svona spyrna þeirra í leiknum kom þegar korter var eftir og Walcott og Rosicky voru komnir inná. Þá kom Walcott með gott skot sem Reina varði vel.

Á 86.mínútu fékk Rosicky síðan besta færi dagsins er hann spólaði sig í gegnum vörnina og Reina mátti hafa sig allann við að verja skot hans yfir. Ef ég man rétt þá var Agger utan vallar á þessum tíma sem og hann var í einhverjar 5-6 mínútur eftir að hafa vankast eða fengið aðsvif. Við vorum semsagt 9 á tímabili. En Agger var kominn aftur inná þegar Reina gerðu einhver mestu mistök sem ég man eftir að hafa séð frá honum. Nallarar sendu boltann inn á teiginn og svo virðist sem sólin hafi blindað Reina illa er hann ætlaði að slá hann frá. Chamakh komst því í boltann og var rétt búinn að skora en boltinn fór blessunarlega í stöngina og beint til Reina. Nei, okkar maður var heldur betur ekki í jafnvægi og í stað þess að slá boltan frá eða grípa hann fékk hann tuðruna í sig og þaðan fór hún í markhornið. Þetta mark kom á 89.mínútu eftir frábæra frammistöðu okkar manna og það er óhætt að tilfinningin hafi verið svipuð og þegar Darren Bent skoraði í fyrra með því að skjóta í eina sundboltann sem sést hefur á norður Englandi.

Hrikalega svekkjandi en okkar menn voru ekkert að gefast upp og áttu nokkur horn í fimm mínútna uppbótartíma og Gerrard fékk aukaspyrnu á frábærum stað sem Almunia varði vel, Lárus Sig style eins og Hjörvar Hafliða orðaði svo skemmtilega í Fótboltamessu á Sport 2.

Í lokin fékk síðan maðurinn sem Cole braut á í fyrri hálfleik, Koscielny tvö gul og þar með rautt. Fyrra spjaldið fyrir að sparka í litla Kuyt og seinna fyrir að handleika boltan. Meira gerðist ekki sem vert er að tala um og niðurstaðan því 1-1 jafntefli sem líklega verða að teljast nokkuð sanngjörn úrslit ef litið er á leikinn í heild en ógeðelega svekkjandi ef við tökum mið af tímasetninguna á jöfnunarmarki Arsenal og spáum í því hvað þetta var virkilega ógeðslegt mark.

Maður leiksins: Það er erfitt að velja mann leiksins, liðið var að spila vel í heild sinni, vörnin þétt og miðjumennirnir voru báðir mjög góðir. Jovanovic var sprækur og virðist vera duglegur leikmaður sem og frændi hans á hægri kantinum sem hefði unnið Duracell kanínuna á þolprófi í dag þrátt fyrir að hafa farið alla leið á HM og ekkert spilað á undirbúningstímabilinu. En David N´Gog er að leysa Fernando Torres af og það gerði hann vel í dag, skoraði mjög gott mark og var góður í framlínunni og er því minn maður leiksins.

Babú

54 Comments

 1. Poolara geta verið stoltir af sínum mönnum , fyrirmyndar barátta í seinni hálfleik. Óheppnir að fá ekki 3.stig í dag.

 2. Get ekki lýst með orðum hvað ég er svekktur með þetta HELV… Arsenal mark. Hins vegar frábærlega sáttur við baráttuna, greinilegt að það er allt annað viðhorf í gangi innan liðsins. Ef menn halda áfram á þessari braut held ég að tímabilið geti bara endað vel. Það er ljóst að það er mikið starf óunnið hjá Roy en menn eru að berjast hver fyrir annan og fyrir liðið.
  Come on you Reds!

 3. Ja hérna.

  Hef alltaf sagt það að markmenn gegna stærsta hlutverkinu. Svakalegar vörslur og svo sjálfsmark!

  En margt jákvætt hægt að taka út úr þessum leik, fínar frammistöður margra leikmanna þarna í dag, öryggi í varnarleiknum lengstum, erfiðara að dæma sóknarleikinn út frá svona leik.

  Bring on Man. City, en auðvitað Evrópukeppni fyrst……

 4. Og by the way, kannski átti Cole að fá rautt en þá átti Wilkshere-snillingurinn að sjálfsögðu að fjúka líka!!!

 5. Ég er of pirraður til að ræða þennan leik. Í hálfleik hefði ég tekið jafnteflinu fegins hendi en eftir þennan seinni hálfleik er ömurlegt að fá bara eitt stig. Pepe Reina er aldrei þessu vant auli dagsins, þvílíkt klúður hjá honum í uppbótartíma.

  Helvítis fokking fokk.

 6. Það er ekki oft sem að maður er svekktur yfir 1-1 jafntefli á móti Arsenal einum færri. En mikið var gaman að sjá baráttuna í dag menn eins og Gerrard sem barðist eins og ljón, varnarmennirnir köstuðu sér fyrir alla bolta, eitthvað sem að maður sá ekki á síðasta tímabili. Benites hefði skipt NGog útaf fyrir varnarsinnaðri mann samstundis og rauða spjaldið fór á loft. En Hodgson blés til sóknar, líst vel á þetta…

 7. Nei, Maggi, þetta átti sko EKKI að vera rautt. ALGJÖRT RUGL, var gult spjald.

 8. Hrikaleg óheppni var þetta. En mjög margt jákvætt í leiknum. Menn að berjast vel og sýndu hörku baráttu. Þetta lofar góðu. Arsenal geta þakkað dómaranum og Reina fyrir stigið. YNWA

 9. Svekktur, sár og súr er málið eftir þennan leik held ég. Dómarinn var ekki að valda leiknum og þið ættuð að velja hann mann leiksins. Cole fór í glórulausa tæklingu og verðskuldaði gult spjald!

  En ok. í 50 mínútur 10 á móti 11 stóðu þeir sig ótrúlega vel. Chamack hleypur svo inn í Reina sem missir boltann frá sér [Brot]. Og þeir fá jöfnunarmark GEFINS.

  Arg.
  Þið veljið vonandi dómarann mann leiksins.

 10. svekkelsi dagsins finnst mér vera dómarinn í dag hann var óþarflega mikið í sviðsljósinu !!! annars margt jákvætt við þennan leik , ngog fínn og masch gríðarlega sterkur mikið ætla ég að vona að hann verði áfram á anfield þó að líkurnar séu litlar á Því . Ég nenni ekki að ræða þetta rauða spjald svo asnalegt fannst mér það , en heilt yfir þá held ég að poolarar geti labbað sáttir frá þessum leik þar sem að bragurinn á liðinu var allt annar en á síðasta tímabili og fannst manni að gamli baráttu andinn sé kominn aftur á anfield 🙂 pepe reina er ennþá besti markmaður deildarinnar þrátt fyrir þetta mark sem hann gaf wenger og félögum …… GO LIVERPOOL

 11. Ég var svo innilega pirraður eftir þetta rauða spjald. Gjörsamlega þoldi ekki að hlusta á bæði spekinga BBC í hálfleik og svo-Andy-fokking-evertonlufsu-Grey að réttlæta þetta rauða spjald, talandi um tveggja fóta tæklingu með báðar lappir á lofti, hunsandi það að fyrir aftan þá var endursýnd tæklingin þar sem sást bæði að þetta var með annarri löppinni OG að hann var með hægri löppina á jörðinni allan tímann … fyrir utan að hann fór ekki með fæturnar í manninn.

  Það var augljóst að þetta ætti skilið gult spjald, og ég fer ekki ofan af því, ÞÓ að greyið varnarmaðurinn hafði meiðst eitthvað. Það sáu það bara allir sem horfðu á þennan leik að það var leiðinda óhapp. Ég hef reyndar enga samúð með manni sem tæklar fólk í fjölskyldudjásnin og lætur eins og fífl.

  Annars var ég mjög ánægður með liðið í þessum leik. Sást vel að viljinn var fyrir hendi og það gefur góð fyrirheit. Ég tek hatt minn ofan fyrir Mascherano fyrir hans leik, gaman að sjá Jova hvað hann er kraftmikill og ákveðinn, Ngog var beittur og enginn í raun sem átti lélegan leik, fyrir utan þetta brainfart hjá Reyna í lokin. Úff, maðurinn á ekki eftir að geta sofið, ekki gæti ég það.

 12. Þetta byrjar jafn vel og síðasata tímabil var í heildina eða þannig!

 13. Er enginn að tala um Lucas hérna. Eftr að Mach fór útaf og uppáhaldið ykkar Lucas kom inná, voru Arsenal miklu hættulegri og komust alltof auðveldlega í gegn. Eins og ég er búinn að segja lengi burt með hann. Helst fyrir ári síðan.

 14. Fyrri hálfleikurinn var hrikalega lélegur hjá okkur. En seinni hálfleikurinn, einum manni færri og í lokin með rotaðan bakvörð var allur okkar. Mér sýndist Chamakh ekki brjóta á Reina, Kallinn var óheppinn og við það situr.

  Ngog var fínn og þvílíkt mark. Hann hefur greinilega lært eitt og annað af Torres því þetta var dásamlegt, beint á eina staðinn sem var óverjandi!

  Liðið þarf tíma, slípun en viðhorfið virðist vera í lagi… Hlakka til í næsta leik!

 15. Eftr að Mach fór útaf og uppáhaldið ykkar Lucas kom inná, voru Arsenal miklu hættulegri

  Er þetta eitthvað grín?

  Þykir þér undarlegt að Arsenal hafi verið hættulegri síðustu mínútur í leik þar sem þeir voru marki undir á móti liðið sem spilaði með tíu (og á tímabili níu) menn?

  Lucas átti eitt atvik þar sem hann slepti sínum manni til að hjálpa Kuyt, sem skapaði hættu.

  Horfðu frekar á fyrirliðann og óþarfa aukaspyrnurnar sem hann gaf á hættulegum stöðum.

 16. Það hljómar e.t.v. ótrúlega að maður skuli vera hundfúll yfir 1-1 jafntefli gegn Arsenal eftir að hafa spilað helminginn af leiknum einum færri.

  Það hafði klárlega mikil áhrif að Atkinson dómari vildi vera í sviðsljósinu og sendi Cole ranglega útaf. Gult spjald en aldrei rautt miðað við aðrar tæklingar sem hann dæmdi á. Ekki gleyma því að þessi sami dómari rak Kyrgiakos útaf gegn Everton eftir 50/50 tæklingu við Felliani á síðustu leiktíð.

  Vissulega gerði Reina herfileg mistök en ekki gleyma því að hann átti stórkostlega markvörslu rétt áður sem ég leyfi mér að fullyrða að enginn annar markvörður í ensku deildinni hefði átt möguleika í. Hef fulla trú á því að Reina komi tvíefldur í næstu leiki og bætir upp fyrir mistök sín.

  Það var gaman að horfa á Liverpool liðið í dag, leikgleði, barátta og sjálfstraust einkenndi leik liðsins. Arsenal fékk fá færi og náði engu flæði í leik sinn. Greinilegt að það eru nýjir tímar á Anfield.

  Mascherano fannst mér virkilega góður, það verður eftirsjá af honum en maður kemur í manns stað. Þá vil ég einnig nefna Carra og Skrtel eiga virkilega góðan leik í miðverðinum. Stoppuðu ófáar sóknirnar á þeim. Þá átti Reina fínan dag fyrir utan ein mistök sem kostuðu liðið á endanum 2 stig.

  Ef þetta er það sem koma skal þá kvíði ég ekki vetrinum en það eru erfiður leikur framundan en miðað við það sem ég sá af Man City gegn Tottenham þá óttast ég það lið ekki. Það er e.t.v. kostur að mæta þeim svona snemma á útivelli þar sem liðið hefur tekið miklum breytingum frá því í fyrra og liðið á talsvert í land með slípast saman.

 17. En mikið er nú hressandi að sjá eitthvað annað en þessa helv. svæðisdekkningu sem einhver bauð uppá í hornum á síðasta tímabili. Annars nokkuð sáttur við holninguna á liðinu þrátt fyrir að við værum að mínu mati að spila við frekar slappt Arsenal lið.

  En er ég eini sem var hissa á ummælum allra á st2sport að Arsenal hefði verið betra í fyrri hálfleik? Og “haft tögl og haldir”? Mér fannst við hreinlega aldrei lenda í neinum vandræðum. A.m.k. var ég sallarólegur vel framan af leik..

 18. Úfff hvað þetta var svekkjandi! En eftir að hafa verið að reyna að ná mér niður eftir leikinn þá var ég nú mjög stoltur af mínum mönnum.

  Þetta var ekki rautt spjald, okei þetta var gult, en ekki rautt! Þá hefðu allavega alveg nokkrir átt að fá rautt í leiknum.
  EN flott barátt í Liverpool mönnum, eitthvað sem maður var ekki að sjá á síðustu leiktíð. Gerrard var mjög baráttuglaður í þessum leik sem er mjög jákvætt, þó hann hafi nokkrum sinnum brotið á sér á hættulegum stöðum.
  Reina greyið gerði dýrkeypt mistök í lokin sem gaf Arsenal stigið, en fyrir utan það átti hann góðann leik kallinn og að mínu mati enþá besti markmaður deildarinnar! (menn gera mistök svona er þetta bara)

  Allavega þá er ég bara spenntur yfir því sem koma skal eftir þennan leik og hlakkar til að sjá liðið þegar menn eru komnir meira í gírinn! You’ll Never Walk Alone! (reina)

 19. mikið er nú hressandi að sjá eitthvað annað en þessa helv. svæðisdekkningu sem einhver bauð uppá í hornum á síðasta tímabili.

  Já og síðustu ár. Úff. Óþolandi að hafa fengið á sig fæst mörk allra liða úr föstum leikatriðum ár eftir ár.

  Eru menn virkilega að hlusta á kjaftæðið í ensku þulunum? Andy Gray veit ekkert um fótbolta.

 20. Dómarin eyðilagði leikinn, brot á Reina og margt annað, sem ég nenni ekki að blogga um þessa dómaradruslu, er lílega Ars maður, Skandall

 21. Ótrúlega svekkjandi að tapa stigum, en sammála mönnum hér að ofan að það var margt jákvætt að gerast í leiknum. Ég hef oft sagt að Gerrard eigi frekar að vera á miðjunni en frammi með Torres því hann fær að taka meiri þátt í leiknum í þessari stöðu en í “holunni”.

  Góð frammistaða og vonandi geta Newcastle menn látið manni líða betur á morgun.

 22. Vandinn við Gerrard í þessari stöðu er einfaldlega að hann er ennþá afar “rash” í tæklingum, sem var ástæða þess að hann var sendur út á kant og síðan undir senter.

  Minni menn t.d. á vítið sem hann gaf Aston Villa í fyrra og nokkrar hættulegar í dag. Hann verður að draga úr þessu ef hann á að spila þarna, sem er auðvitað eðlilegasta staðan miðað við að Cole er mættur.

  En sá er á leið í bann við sjáum strax mikilvægi þess að hafa breidd. Spái því að Poulsen verði á miðjunni í næsta leik og gaman verður að sjá hvort Masch verður nokkuð seldur eftir daginn….

 23. Mascherano klárlega minn maður leiksins!
  Frábært hugarfar og mjög góður leikur hjá manni sem ég efaðist mjög svo um fyrir þennan leik.

 24. Reina er frábær markamaður og átti ótrúlega markvörslu frá Rosicky.

  Markið sem Reina fékk á sig var ekkert klaufamark. 50/50 bolti sem hann tapaði við Chamaca sem leiddi til þess að boltinn fór í stöngina. Þar kom hann óvænt í átt að Reina sem stefndi sjálfur í áttina að stöngina.

  Ekkert sem Reina gat gert.

 25. Svekkjandi úrslit en engu að síður frábær frammistaða sérstaklega ef horft er til þess að við erum manni færri allan seinni hálfleik.

  Reina hefur aldrei haldið hreinu gegn Arsenal og gerði það svo sannarlega ekki í dag, það breytir því ekki að hann er snillingur.

  Ef guð hefði pikkað í öxlina á mér í hálfleik og boðið mér jafntefli hefði ég tekið því með loforði um að ég skildi byrja að trúa á hann : )

 26. Hef ekki tíma akkurat núna til að grafa það upp, en ekki er það rétt að síðustu 4 rauð kort á leikmenn Liverpool af 5 hafi verið frá Martin Atkinson?

 27. Bara tvennt um þennan leik að segja
  1. Dómaraskandall
  2. Gerrard framar á völlinn

 28. Held að við Liverpool-menn getum berið höfuðið hátt eftir daginn í dag. Fín byrjun og þetta á bara eftir að skána með tímanum!

 29. Sammála þér Reynir með atriði 1.
  en atriði 2: Hvern viltu þá á miðjuna í stað Gerrard.. .ef við gefum okkur það að Mascherano taki hina miðjustöðuna

 30. Reyna á náttúrulega markið skuldlaust en það breytir því ekki að hann er besti markmaðurinn í deildinni. Liðið lofar góður og freskir straumar blása um Anfield. Greinilegt að Roy á videótæki því hann þurfti ekki að skrifa neitt hjá sér.

 31. Flottur leikur í dag.

  Pepe Reina var solid´i markinu og sýndi að hann er besti markvörður deildarinnar. Hann sýndi jafnframt fram á það að hann er mannlegur og sorgleg mistök hans í lokin kostuðu okkur 2 stig. Hann var hins vegar búinn að bjarga okkur meistaralega áður þannig að maður getur fyrirgefið honum þetta. Þetta gerist líka allt á sekúndubroti.

  Vörnin var flott, Johnson sýnir að hann er frábær bakvörður og á eftir að vera okkur drjúgur í vetur. Carra og Skrtel voru solid, Agger sýndi að hann er enn seinheppnasti maður Bretlandseyja en hann er samt sem áður jaxl og lætur fátt stöðva sig. Hann á þó meira heima í miðverðinum.

  Masch kom skemmtilega inn í leik okkar, var duglegur og ég er bara á því að ég væri til í að halda honum eftir allt saman.

  Gerrard var graður í dag og það var frábært að sjá hann aftarlega á vellinum. Hann átti miðjuna.

  Jovanovic kom sterkur inn. Var áræðinn og harður af sér. Enginn heimsklassi, en góður leikmaður sem á vonandi eftir að standa sig í stykkinu á Bretlandi.

  Kuyt var duglegur, en ekkert meira en það. Leitar alltof oft til baka, en þar af leiðandi missir hann boltann sjaldan, sem er ágætur kostur svosem. En það er þreytandi að sjá hann gera það trekk í trekk, sjálfur vildi ég sjá kantmann sem tekur menn á og er með hreðjar í það (Ginola style).

  Cole… Úff… Ég er ekki á því að þetta hafi verið rautt spjald. Gult hefði verið sanngjarnt. En tæklingin var gífurlega heimskuleg og bauð upp á rautt spjald. Það er ekkert að frétta þarna í horninu framarlega á vellinum. Ekki neitt! Þar af leiðandi er ég meira fúll út í Cole en Atkinson með þetta spjald. Atkinson staujaði ekki miðvörðinn út við hornfána þeirra.
  Þó var það einstaklega skítlegt að sjá manninn leika þetta svona og fara út af vellinum í börum. Svo klárar hann 90 mínútur ef hann hefði ekki verið rekinn sjálfur útaf.

  Karma is a bitch, isn’t it?!?

  NGog var seigur í dag. Skoraði gott mark og var duglegur að halda boltanum.
  Frábært að sjá Torres koma inn á, hann er hættulegur. Maður reis upp úr sófanum í hvert sinn sem hann nálgaðist boltann.

  Allt í allt jákvæður leikur samt sem áður. Kannski á ég að minnka gleðipillu-skamtinn minn, en ég er jákvæður á framhaldið. Roy er að koma með ferska strauma og menn eru með hreint blað og vilja sanna sig.
  Það að missa Cole í þrjá leiki í bann er hins vegar agalegt. Gerrard er þó fullfær um að færa sig framar á völlinn, hvað þá ef ástmaður hans (Torres) spilar með honum í framlínunni.

 32. Ég er ánægður með 1 – 1 gegn Arsenal. Mér leist ekkert á blikina í fyrri hálfleik þar sem Arsenal yfirspilaði okkur á Anfield. Seinni hálfleikurinn kom mér skemmtilega á óvart, gott mark hjá N’gog og frábær barátta.

  Af hverju er ég ánægður með jafntefli á Anfield. Það er vegna þess að Hodson hefur ekki verið með liði nema í stuttan tíma. Það tók háttvirtan Benitez heilt tímabil til að sýna hvað hann getur(meira segja gerði hann það í seinni hálfleik gegn Ac Milan 2005 í síðasta leik tímabilsins).

  Jafntefli sem var nær því að vera sigur en tap gefur manni fyrirheit um að þetta sé á réttri leið og Liverpool eigi eftir að eiga sómasamlegt tímabil.

  Næsti leikur kemur ekki nógu snemma.

 33. Smá hlutlaust mat ( frá United manni ) : Ég skil vel að menn séu svekktir með bara 1 stig úr þessum leik , þó svo LFC hafi verið frekar slakir í fyrri hálfleik var ógnun AFC aldrei mikil. Barátta LFC var til mikilar fyrirmyndar í seinni hálfleik og mér fannst LFC eiga skilið að vinna leikinn.
  Varðandi rauðaspjaldið þá er ég sammála því að þetta var rangur dómur en við fengum margar endursýningar , hinsvegar þegar maður sér staðsetningu dómarans og hans sjónarhorn á atburðinn þá skil ég að hann lyfti rauðaspjaldinu. Þetta leit út fyrir að vera sóli í skotfót. En eins og hefur verðið bent á hér á síðunni ( Hafliði , sem er alltaf með málefnalega umræðu #1 ) þá var þetta algjör óþarfi að hálfu J.Cole. Varðandi mistök Reina þá finnst mér það fremur heimskulegt að vera gera mál úr því , hversu oft hefur sá frábæri markmaður bjargað LFC ?? Hann er fyrir mér yfir gagnrýni hafinn. Heilt yfir spiluðu allir leikmenn LFC vel þó kom frammistaða J.Carrager mér mest á óvart.

 34. Sammála MW hér á undan, við LFC menn hefðum farið fram á rautt ef okkar leikmaður hefði lent í svona tæklingu og brotnað, því miður fyrir Cole sem var flottur og lofar góðu, þá hljóp honum bara smá kapp í kinn.

  ánægður með baráttuna, dekkningar í horni og skiptingar, Roy setur sóknarmen inn á í stöðunni 1-0 í staðinn fyrir varnarmann/miðjumann fyrir sóknarmann.

  þetta lofar góðu, nýju leikmennirnir eru flottir og mér finnst allir hinir vera komnir með annað hugarfar og trú!

 35. Eitt sem ég tók samt eftir í hornunum.
  Menn eru að tala um að þeir séu sáttir með að zonal-vörnin sé horfin.

  Tókuði eftir því í amk einu horninu þegar ENGINN var settur á stangirnar? Hvorki nær né fjærstöng…

 36. mikið fannst mér líka gaman að sjá langar og hnitmiðaðar sendingar frá miðjunni. Einhvað sem hafði varla sést síðan Alonso hvarf á braut. Flott að hafa Gerrard á miðjunni

 37. Hafliði
  Ég mundi sjálfur reyna allt mitt að fá þetta grín spjald fellt niður ef ég væri talsmaður/stjóri félagsins.. en mbl.is er nú bara ekki virðulegri miðill en þetta : Cole var rekinn af velli fyrir brot undir lok leiksins. Til hamingju með þetta Davíð.. Þú skeist á þig.
  En að leiknum, mér sínist ég vera eini maðurinn sem les þessa síðu sem sér ngog í réttu ljósi, við skulum ekki gleyma því að í síðasta leik (í evrópudeildinni) hefði torres skorað svon 12 mörk meðað við boltana sem cole og felagar voru að senda á centerinn, hann er að vísu ungur ennþá en ég er að sjá hellings babel sindrom í honum.
  Rauða spjaldið var aldrei rautt eins og allir að ofan eru búnir að fara yfir.
  Ég varð allveg hellings graður að sjá Torres sprikla í fallegu treyjuni.
  Kuyt var mjög duglegur (eins og alltaf) en hann er bara ekki nogu góður heilt yfir spilari til að geta verið i world class lið og hirt 1 af 10 stöðum á vellinum og hvað þá svona framarlega, væri mögulega einn besti bakvörður í heimi ef hann væri sneggri.
  Okkar elskulegi markvörður sem er sá besti í heimi ef tekið er í summuna viðhorf og fagmenska, átti mjög góðan dag og var traustur eins og alltaf (hann stjórnar ekki sólinni) og var ekki klaufi heldur virkilega óheppinn að fá þetta mark á sig
  En mann leiksins verð ég að velja carra, hann átti ekki feil spor allan leikinn, og gaf masc honum mikla samkeppni í þessari nafnbót.
  En það breytir því samt ekki að ég vil masc burt, einfaldlega því hann vill fara og þá kemur inn fjármagn til að kaupa leikmenn í stöður sem eru undirmannaðari td world calss striker.
  btw djöfull eru nýju búningarnir flottir

 38. Afhverju er þetta skítkast á N´gog ? Liverpool er búið að skora 5 mörk á leiktíðinni og N´gog er með 4 af þeim. Mér finnst hann búinn að vera að standa sig vel.

 39. Ég er ennþá verulega pirraður eftir þennan leik. Ég vaknaði í morgun í hálf skrýtnu skapi og var smá stund að átta mig á því hvað það var. Jú, auðvitað það að enski boltinn er byrjaður aftur.

  Leikurinn í fyrri hálfleik var slappur – miðað við margar frammistöður gegn Arsenal á Anfield á síðustu árum þá var þetta verulega slappt. En það var svo margt í seinni hálfleik, sem var jákvætt og fékk mann til að gleyma fyrri hálfleiknum.

  Yfir allt þá var ég sáttur við þessa byrjun. Ég las á netinu að kannski væru þetta bestu úrslitin því að sigur hefði kannski gert menn full æsta og tap hefði þýtt allsherjar þunglyndi. Það var þó auðvitað grátlegt að fá á sig þetta mark, en ég hefði svo sannarlega tekið 1-1 í hálfleik.

  Miðað við City leikinn sem ég sá á laugardaginn og það vesen sem er í þeirra herbúðum ættum við að fá stig á þeirra heimavelli. Það verður ekki auðvelt, en ef að Torres spilar frá upphafi gæti ég alveg eins átt von á að ná þremur stigum þar. Þessi byrjun á tímabilinu er auðvitað gríðarlega erfið og ef að menn geta komist í gegnum hana í sæmilega góðu formi, þá er ég bjartsýnn á framhaldið.

 40. Lítum á björtu hliðarnar. Reina er ekki vanur að gera meira en ein mistök á tímabili. Fínt að hann sé bara búinn með þau strax!

 41. Er að horfa aftur á leikinn á LFCTV. Víti sem Liverpool átti að fá á 32. mínútu þegar Sagna heldur greinilega í Cole.

 42. Heilt yfir sanngjörn úrslit en svekkjandi þar sem Arsenal ógnaði lítið þrátt fyrir að vera mikið með boltann. Mitt mat er að Arsenal verða næstum því nógu góðir eins og síðustu tímabil og verða líklega 2-5 sæti, það er erfiðara að átta sig á Liverpool, ef að Torres verður heill og spilar 30+ leiki í deild er allt opið, ég myndi líklega segja líka um þá 2-5.sæti.

  Að mínu mati rétt að reka J.Cole útaf því miður, tilgangslaus tækling og stórhættuleg mótherjanum sem var heppinn að slasast ekki illa. Liðið verður að hætta að gefa allar þessar óþörfu aukaspyrnur og spjöld.
  http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-1303365/Graham-Poll-Joe-Cole-deserved-red-Laurent-Koscielny-departed.html

  Maður hefur séð J.Cole taka svona æsings tæklingar og hann á það til að vera örlítið nastý en ekki grófur, mikið frekar full kappsamur líkt og Gerrard&Scholes eiga til. Hér er td ein greinilega viljandi gegn Ronaldo.

  http://www.youtube.com/watch?v=BxG6OaQUCgI&feature=related .

  Fyllilega sammála því að sigur hefði gert menn of bjartsýna og tap líklega hellt mönnum í þunglyndi svo kannski var þetta ágætt, en auðvitað ömurlegt að þurfa að bíða í 3. leiki til að sjá J.Cole aftur.

 43. Er sáttur með góða baráttu og leikgleði okkar manna , en sá ekki einhver þegar LIVERPOOLMAÐUR var tekinn hálstaki í vítateig afc ??? Hef ekki séð neinn tala um það ….

 44. Áhugavert.

  <

  blockquote>One potential destination for Mascherano closed last night when Barcelona announced they had not renewed an interest in the midfielder. “Mascherano is a great player but we’re not interested in him,” Barcelona’s sporting director, Andoni Zubizarreta, said.

 45. Kristján.. Ég sá allavega 2 atriði, annarsvegar þegar Cole var hélt af Sagna og hinsvegar þegar Skrtel féll í teignum skömmu eftir jöfnunarmarkið..

  Enginn sem hefur talað um þessi 2 atriði hingað til

 46. Kristján, ég er nokkuð viss um að þú sért að tala um þegar Kuyt var tekinn hálstaki í vítateignum í hornspyrnu seint í leiknum. Ég tók einmitt eftir þessu og skildi ekkert af hverju í ósköpunum ekki var flautað á þetta! En líklega hefur dómarinn bara ekki séð þetta…

 47. Þessi tvö atviku féllu vissulega undir “dómaraskandall” í fyrra (gífurlega vinsæla) commenti.
  Til að svara þér Páló, allir aðrir en Gerrard.

Liðið gegn Arsenal

Mánudagsspjallið