Spá Kop – ara. Seinni hluti

Já, þá er komið að því að við opinberum topp tíu deildarinnar í vetur samkvæmt okkar spá. Fyrri hlutinn með neðri helmingnum kom í gær og nú skulum við líta á betri hópinn.

Ég sný við frá í gær, ég byrja á liðinu sem við spáum tíunda sæti og enda á toppsætinu.

10.sæti: Birmingham 49 stig

Helstu breytingar

Ben Foster (Man United) Nikola Zigic (Valencia) og Enric Valles (NAC Breda) komnir

Gary McSheffrey (Coventry) farinn.

Glöggir lesendur sjá að aðeins munar einu stigi á Birmingham í 10.sæti og síðan Fulham í sæti nr. 11. Við erum eilítið ósamstíga með Birmingaham félagarnir, sumir telja liðið sitja rétt ofan við fallbaráttuna á meðan að sumir reikna með því í efri hlutanum og jafnvel í baráttu um Evrópusæti. Stjórinn er klókur, fær á sig lítið af mörkum og hefur raðað í liðið mörgum góðum knattspyrnumönnum sem þó sumir eru komnir á efri ár. Leikmennirnir sem keyptir voru í sumar styrkja liðið og fleyta því inn í efri helming deildarinnar næsta vor.

Lykilmaður: Barry Ferguson

9.sæti: Sunderland 52 stig

Helstu breytingar:

Cristian Riveroz (Cruz Azul), Simon Mignolet (St. Truiden), Marcos Angeleri (Estudientes), Titus Bramble (Wigan), John Mensah (Lyon), Nedum Onuoha (Man City) og Danny Wellbeck (Man United) komnir

Lorik Cana (Galatasaray), Darryl Murphy (Celtic), Nyron Nosworthy (Sheff United) og Martin Fulop (Ipswich) farnir.

Enn á ný svakalegar breytingar á ströndinni í Sunderland (ekki orð meir um það) nú í sumar. Sterkir reynsluboltar og enskir efnilegir teknir í hópinn, en slæmt fyrir þá að missa Cana og Murphy frá sér. Liðið hefur hæfileikaríka leikmenn sem ættu að geta fleytt því í baráttu um evrópusætið en lykilatriðið fyrir stjórann verður að hrista saman varnarleikinn sem var á köflum ansi dapur á síðasta leiktímabili. Mikil ábyrgð er á herðum Darren Bent sem sá um stærstan hluta skoraðra marka og þarf að gera áfram.

Lykilmaður: Darren Bent

8.sæti: Aston Villa 68 stig

Helstu breytingar:

Enginn kominn

Wilfred Bouma (PSV) og Nicky Shorey (W.B.A.) farnir

Fyrst er að taka fram að við höfðum allir skilað af okkur spá áður en O’Neill henti inn handklæðinu. Við töldum liðið þurfa töluverða styrkingu til að komast nær Meistaradeildarsætinu sem það langaði svo í og hár aldur lykilmanna gæti orðið til trafala í vetur. Akkúrat í dag er stórt ský yfir Villa Park. Stjórinn hættur í fússi, lykilmenn sennilega á leið á braut og liðið stærsta spurningamerkið þessa dagana. Því er best að segja bara sem minnst, við höldum okkur við það Villa nær ekki Evrópusæti næsta vor og er á niðurleið.

Lykilmaður: Ashley Young

7.sæti: Everton 69 stig

Helstu breytingar:

Jan Mucha (Legia Varsjá) og Jermaine Beckford (Leeds) komnir

John Ruddy (Norwich) farinn

Ekki langar okkur að hafa bláu óvinina svo ofarlega en við teljum einfaldlega liðið hafa burði til að vera að slást nálægt meistaradeildarsæti. Moyes er klárlega góður stjóri og gæðaleikmenn eru í gegnum liðið sem veldur því að það er eitt það sterkasta í deildinni. Lítil fjárráð þýða þó að ekki er mikil breidd og meiðsli lykilmanna geta sett stórt strik í reikninginn. Vaninn hefur verið hjá Everton að fjárfesta í leikmönnum í lok sumargluggans og ef þeim tekst vel til geta þeir verið með í baráttunni um 4.sætið, en eru nú þegar nógu góðir til að ná í Evrópusæti næsta vor. Því miður!!!

Lykilmaður: Mikel Arteta

6.sæti: Tottenham 74 stig

Helstu breytingar

Enginn kominn

Abel Taarabt farinn til Q.P.R.

Tottenham keypti töluvert síðasta sumar og náði í Meistaradeildarsæti eins og frægt er orðið. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeim gengur að stýra kröftunum í vetur þegar þeim áfanga er náð. Liðið hefur haft hljótt um sig á markaðnum í sumar og úrtöluraddir hvísla því að liðið hafi einfaldlega ekki efni á stórum bitum nú. En það breytir því ekki að lið Tottenham er fullt af góðum fótboltamönnum sem munu ná að spjara sig vel í vetur. Við teljum þó liðið muni eiga í erfiðleikum með að halda meistaradeildarsætinu og enda utan þess næsta vor, en muni ná langt í CL og gera vel í minnst annarri bikarkeppninni. Hörkulið hér á ferð, og vissulega gæti styrking í lok gluggans aukið líkur á góðum deildarvetri töluvert!

Lykilmaður: Luka Modric

5.sæti: Arsenal 80 stig

Helstu breytingar:

Marouanne Chamakh (Bordeaux) og Laurent Koscielny (Lorient) komnir

Philippe Senderos (Fulham), Eduardo (Shaktar), William Gallas (Free agent) og Mickael Silvestre (Free agent) farnir

Lykilár framundan hjá Gunners! Allt sumarið fór í að halda Fabregas og reyna að bæta í liðið þannig mannskap að gera megi alvöru atlögu að titlinum. Wenger karlinn talar upp þá möguleika þessa dagana og reynir að lemja mönnum sjálfstraust í brjóst til að svo megi verða. Við höldum einfaldlega að liðinu vanti fleiri heimsklassamenn til að sá draumur Frakkans verði að veruleika. Hann hefur enn einu sinni farið á franska markaðinn að sækja sér leikmenn og nú ætlar hann að nota ungu leikmennina sína. Við einfaldlega teljum þann kokteil þurfa að hrista töluvert betur áður en reikna má með alvöru árangri og því verði stór vonbrigði næsta vor þegar liðið fellur út úr Meistaradeildarsætishópnum. Sem svo sennilega mun þýða töluverðar breytingar hjá klúbbnum.

Lykilmaður: Cesc Fabregas (sennilega í áttunda veldi)

4.sæti: Liverpool 85 stig

Helstu breytingar:

Jonjo Shelvey (Charlton), Milan Jovanovic (Standard Liege), Danny Wilson (Rangers), Joe Cole (Chelsea) og Christian Poulsen (Juventus) komnir

Yossi Benayoun (Chelsea), Albert Riera (Olympiacos) og Philipp Degen (Stuttgart) farnir

Þá vitiði það. Við spáum okkar drengjum 4.sæti næsta vor og þar með sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar. Við teljum það vissulega töluverða bjartsýni og verðum að treysta á að lykilmennirnir okkar detti strax í form og haldi því út tímabilið. Sterkir leikmenn hafa komið til klúbbsins í sumar þó við höfum líka misst, og það eykur á vonir okkar um gott gengi. Hins vegar getur brugðið til beggja vona, erfitt prógram í byrjun hjálpar nýja stjóranum ekki og vissulega þarf enn að auka á breiddina í leikmannahópnum, sérstaklega sóknarlega. Við megum heldur ekki gleyma því að klúbburinn náði í silfur fyrir rúmu ári síðan og flestir leikmennirnir sem léku þá eru ennþá hjá klúbbnum. Koma svo!!!

Lykilmaður: Steven Gerrard

3.sæti: Manchester City (88 stig)

Helstu breytingar

Yaya Toure (Barcelona), David Silva (Valencia), Jerome Boateng (HSV) og Alex Kolarov (Lazio) komnir

Martin Petrov (Bolton), Valerij Bojinov (Parma), Nedum Onuoha (Sunderland) og Javier Garrido (Lazio) farnir

Því miður höldum við að komið sé að því að skrilljónamæringarnir í bláa helmingi Manchesterborgar nái inn í Meistaradeildarhópinn. Það eru einfaldlega svo gríðarleg gæði í leikmannahópnum að Mancini ætti ekki að ná að klúðra því þetta tímabilið. Ef þeir byrja vel er ekkert því til fyrirstöðu að liðið geri alvarlega atlögu að titlinum strax í vetur. Það er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með klúbbnum kaupa allar þessar stjörnur um leið og það skúbbar notuðum hetjum út um bakdyrnar. En öflugur vetur framundan hjá City!

Lykilmaður: Carlos Tevez

2.sæti: Manchester United 95 stig

Helstu breytingar

Javier Hernandez (Chivaz), Chris Smalling (Fulham) og Bebe (Guimares) komnir

Ben Foster (Birmingham), Zoran Tosic (CSKA Moskva), Danny Wellbeck (Sunderland) og Craig Cathcart (Blackpool) farnir

Litlu við að bæta, erkifjendurnir úr Manchester ættu að taka slaginn við Chelsea í vetur um titilinn og tapa honum í lokin. Það er kominn síðasti söludagur á töluverðan hóp leikmanna (Van Der Sar, Scholes, Neville, Ferdinand og Giggs), en það mun þó ekki kosta þá titilbaráttuna í vetur. Nenni ekki að skrifa meira um þetta lið…..

Lykilmaður: Wayne Rooney

1.sæti og ENSKIR MEISTARAR: Chelsea 99 stig

Helstu breytingar

Yossi Benayoun (Liverpool), Ramires (Benfica) og Tomas Kalas (Sigma) komnir

Deco (Fluminese), Juliano Belletti (Fluminese), Michael Ballack (Bayer Leverkusen), Scott Sinclair (Swansea), Ricardo Carvalho (Real Madrid) og Joe Cole (Liverpool) farnir

And the winner is…….Chelsea!

Við félagarnir erum nokkuð vissir á því að meistararnir verji titil sinn næsta vor. Vissulega hefur stór hópur kvatt liðið í sumar, en gæðin í leikmannahópnum eru mikil og í honum eru margir sigurvegarar. Við teljum þá eiga eftir að styrkja sig áður en ágúst er liðinn, sérstaklega á miðjunni og frammi til að auka breiddina, en massívur kjarni og gæðaframkvæmdastjóri mun skila titlinum á Stamford Bridge í maí 2011.

Lykilmaður: Frank Lampard

Og þá má fara að sparka fyrsta boltanum. Við höfum talað, BRING IT ON!!!!

42 Comments

 1. Þannig er nú það. Við spáum Liverpool Meistaradeildarsæti en ég spáði þeim 5. sætinu, persónulega. Mín spá fyrir topp 10 er hér:

  10 – West Ham
  9 – Newcastle
  8 – Aston Villa (nota bene, spáð áður en MON hætti hjá þeim, gætu orðið neðar eftir það)
  7 – Tottenham
  6 – Everton

  5 – Liverpool: Ég spáði okkar mönnum sigri í deild í fyrra. Nú ætla ég að vera raunsær: liðið skipti um stjóra, þó nokkuð af leikmannabreytingum auk þess sem of margir lykilmenn eru vanir að meiðast (Torres, Gerrard, Johnson, Aurelio, Joe Cole). Ef Hodgson byrjar af krafti og okkur tekst að forðast erfið meiðsli í vetur gæti þetta lið hæglega endað ofar en raunsætt mat, miðað við kostnað leikmannahóps (sjötti dýrasti í Englandi) og launapakka (5.-6. stærsti í Englandi) er fimmta sætið. Vonandi náum við samt í Meistaradeildarsætið sem öllu máli skiptir, en það verður erfitt í ár.

  4. Arsenal
  3 – Man City
  2 – Man U
  1 – Chelsea

 2. Þessi spá endaði nokkurn veginn einsog ég hafði spáð. Ég var með þetta

  Chelsea
  Man Utd
  Liverpool
  Man City
  Arsenal
  Aston Villa
  T’ham

  En ég myndi sennilega setja Aston Villa fyrir neðan Tottenham og Everton núna.

 3. Já, og ég er bara bjartsýnn fyrir þetta tímabil. Þessi leikur á sunnudaginn getur svosem alveg komið manni hressilega niður á jörðinni, en ég held að okkar menn gætu alveg slysast til að taka þátt í titilbaráttunni, en þeir gætu líka alveg eins verið á sama stað og í fyrra.

 4. Góða spá hjá ykkur og málefnalega fjallað um hlutina.
  En ein spurning afhverju er sagt því miður um að nú sé hugsanlega komið að því
  að City komist í meistaradeildina en ekki því miður um það að Cheslea vinni deildina ?
  Ef mælikvarðinn á því hversu hatrið á öðrum liggur er hversu miklum peningum liðin eyði í leikmenn þá hefur nú Chelsea enn vinninginn í gegn um tíðina

 5. Var að tala við Scouser Mike á pöbbnum (hann segir “Beermingham” og “Liverpuuul”). Hann vildi meina að Liverpool færi alla leið í ár. Hafði mjög góða tilfinningu fyrir þessu og ég held að það hafi ekki bara verið bjórinn.

 6. Cityfan, því miður segja Liverpool-menn einfaldlega af því að það þýðir væntanlega að City taka sætið okkar í Meistaradeildinni. Því miður. :p

 7. Ef mælikvarðinn á því hversu hatrið á öðrum liggur er hversu miklum peningum liðin eyði í leikmenn þá hefur nú Chelsea enn vinninginn í gegn um tíðina

  Mikið rétt – en það grátlega er að maður er bara búinn að sætta sig við þetta Chelsea lið og hvernig þeirra auðævi komu til. Þessi City geðveiki er aðeins meira nýtilkomin.

  Plús það að Chelsea liðið hafði getað eitthvað í fótbolta í nokkur ár á undan Roman, ólíkt Man City sem gat ekki rassgat fyrir tíma Abu Dhabi peninganna.

 8. Ég er ekki alveg sammála því sem hér að ofan er rekið 😉

  Ég ætla að spá Utd titlinum – þeir virkuðu mun sprækari en Chelsea um síðustu helgi og ég tel að þeir hafi þetta í ár.

  Ég er nú ekki alveg að sjá Arsenal detta úr top 4 hópnum. Þeir voru í titlbaráttunni alveg þar til í lokinn 2009/2010 þrátt fyrir að vera án RVP stærsta hluta tímabilsins – þeirra árangur á komandi leiktíð er eins og okkar, mikið háður því hvort lykilleikmenn haldist svo til heilir mestan hluta tímabilsins. Ef sú verður raunin sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þeir geri atlögu að titlinum.

  En þetta verður mjög spennandi vetur! Vonum það besta, YNWA!

 9. Vantaði Kenwyne Jones til Stoke en annars frábært framtak hjá BESTU síðu á landinu 🙂

 10. Held að Chelsea taki þetta ekki og það verði Arsenal sem taki þetta. Chelsea er búið að tapa of miklu. Líka held ég að Man U lendi neðar, því ekki er liðið að yngjast !
  Arsenal tekur þetta, Chelsea í öðru, LFC í þriðja, Man C í fjórða og svo Man U í fimmta.
  Það er bara þannig. Mátt fara með það í bankann.

 11. Set inn megnið af póstinum sem ég sendi á Magga við gerð þessarar spár til að hafa þetta skjallfest svo hægt sé að gera grín að mér í vor fyrir að hafa bara spáð okkur 4 sæti.

  1. Man Utd. – Hef slæma tilfinningu fyrir því að þeir séu með einna best samansetta liðið og hóp sem þekkir vel inn á hvern annan með góða blöndu af ungum og gröðum vs gömlum og svakalega reyndum. Eiga eftir að hala inn stigum líkt og þeir gera vanalega þó þeir verði líklega ekki mikið með af flugeldasýningum.
  2. Chelsea – Ef þeir verða ekki í öðru sæti þá vinna þeir mótið aftur. Eru með afar gott lið ennþá, missa reyndar þrjá mjög góða miðjumenn og leikreynda (Ballack, Cole og Deco) ásamt því að Drogba og Anelka eru ekkert að yngjast og eru báðir nýkomnir af erfiðu HM. Þetta ræðst á meiðslapakkanum hjá þeim hvernig mótið fer.
  3. Man City – Held að þeir komi til með að vaxa svaklega þegar líður á mótið og verði besta liðið eftir áramót. Vona þó innilega að allt fari í bál og brand hjá þeim.
  4. Liverpool – Ef við sleppum einu sinni við mestu meiðslavandræði þá eigum við séns á að gera svo mikið betur en í fyrra. Það er samt ekki líklegt enda margir meiðslapésar í liðinu og flestir nýkomnir af HM. Verðum að styrkja liðið ennfrekar og það er allt í óvissu með leikmannagluggann ef við fáum nýja eigendur. Það er mjög aukin bjartsýni og jákvæðni í kringum liðið núna enda mótið ekki byrjað og vonandi að það haldist áfram. Hef samt áhyggjur af því að RH sé of mikil breyting frá Rafa og óttast að hann hitti ekki í mark þegar upp er staðið. Set okkur í 4. sæti en yrði ekkert sáttur með það þegar upp er staðið. Værum þó allavega í CL.
  5. Arsenal – það getur brugðið til beggja vona með Arsenal, þeir gætu allt eins tekið þetta mót og rústað því og ég yrði ekkert voðalega hissa. Eru með gott lið og frábært ef allir eru heilir. Þeir eru samt afar veikir aftast á vellinum og það gæti reynst þeim dýrkeypt.
  6. Tottenham – Þeir gætu lent í smá CL hangover, það er mikið meiri pressa og álag á þeim núna og Spurs eru ekki þekktir fyrir að standast það vel. Þetta fer líka smá eftir því hvort þeir ætli að styrkja sig enn frekar.
  7. Everton – Gætu hæglega blandað sér í baráttuna um 4 sæti enda með öflugt lið, með áherslu á LIÐ.
  8. Aston Villa – Þetta verður bras hjá Villa miðað við síðustu ár. O´Neill gæti reyndar nýtt hugsanlegan pening fyrir Milner vel og þá er kominn upp allt önnur staða. (eins og sjá má gert fyrir brotthvarf hans).
  9. Sunderland
  10. Birmingham
  11. Blackburn – Eru með leiðinlegasta stjóra deildarinnar, litla hvolpinn hans Ferguson, en hann náði jafnan miklu úr Bolton og ég held að hann gæti farið að gera svipaða hluti hjá Blackburn
  12. Stoke – Wimbeldon 2 eru afar erfiðir og erfitt að brjóta niður, en deildin er bara svo sterk að þeir fara ekki ofar en í 12.sæti hjá mér.
  13. Newcastle – Miðað við þetta gætu þeir orðið spútnik liðið í upphafi móts. En þetta er samt alltaf Newcastle og þó þeir hafi skroppið í 1.deild í eitt ár finnst manni þeir ekki mikið vera nýliðar. Hef samt enga trú á þessum stjóra þeirra og held að hann verði sá fyrsti sem verður rekinn í vetur.
  14. West Ham
  15. Bolton – Hef reyndar afar mikla trú á stjóra Bolton (Coyle) og sé þá alveg fyrir mér enda ofar. Er samt rosaleg U beygja að breyta Bolton úr Big Sam varnartuddabolta í Owen Coyle sóknarlið. Slíkt tekur tíma.
  16. Fulham – Nú er erfitt að geta sig til um hvernig þeir koma undan vetri og hvað brotthvarf RH hefur mikið að segja. Fengu reyndar góðan stjóra og gætu alveg endað ofar eins og þeir hafa gert undanfarin ár.
  17. Wigan – Held að þetta verði erfitt hjá þeim í vetur en rétt sleppa þó
  18. Wolves – Nú er Wolves að fara niður er ég hræddur um
  19. West Brom – Veit ekki mikið um þá en ég held að þeir falli.
  20. Blackpool – Erfitt að spá þeim öðru en beint niður. Væri samt geðveikt ef þeir myndu halda sér uppi þó ekki væri nema bara til að hafa Ian Holloway eitt ár í viðbót í deildinni.
 12. Svona spái ég:

  1. Man Utd

  2. Chelsea

  3. Man City

  4. Liverpool

  5. Arsenal

  6. Tottenham

  7. Everton

  8. Newcastle

  9. Aston Villa

  10. West Ham.

  11. W.B.A.

  12. Wigan

  13. Blackpool

  Ástæðan fyrir því að ég spái Man Utd titlinum er einfaldlega sú að Alex Ferguson er snillingur og sú staðreynd að þeir misstu af titlinum með 1 stigi síðast mun bara gera þessa andskota einbeittari í að vinn dolluna núna.

  Eftir að hafa skrifað þetta ætla ég að fara og þvo hendurnar uppúr vítissóda.

  • Eftir að hafa skrifað þetta ætla ég að fara og þvo hendurnar uppúr vítissóda.

  Ekki úr vegi að skola á sér skoltinn með grænsápu líka svona til öryggis.

 13. Mín spá er að Chelskí og manu verða í baráttu um titilinn í ár, þó gætu City blandað sér baráttuna ef þeir byrja vel enda leikmannahópur þeirra í dag síst lakari en hjá Chelskí.

  1. sæti : Manu vinnur deildina ef þeir sleppa við meiðsli lykilmanna þá sérstaklega í vörninni. Þeir hafa verið mjög sannfærandi núna á undirbúningtímabilinu og koma inn í mótið fullir sjálfstrausts. Síðan er það hin sorglega staðreynd að þeir eru allir sigurvegarar, margir innan hópsins ásamt rauðnef þekkja ekkert annað enn sigur, það mun fleyta þeim á toppinn.

  2. sæti : Chelskí mun líklega vera það lið sem veitir manu hvað harðasta keppni á komandi tímabili. Árangur þeirra veltur þó á því hvernig þeim mun ganga að bæta við hópinn í ágúst því margir reynslumiklir leikmenn hafa farið frá þeim í sumar og fáir komið í staðinn. Hópurinn er því lakari núna en á síðasta tímabili. Svo hefur vörn og markfærsla verið hausverkur á undirbúiningstímabilinu og ef það lagast ekki gæti ég alveg séð þá enda í 3. sæti, sæti fyrir neðan City.

  3. sæti : Spurning er hvort þetta verður tímabil City, ef þeir byrja vel á með sigrum gegn T’ham og Liverpool í fyrstu umferðunum þá gætu þeir farið alla leið. Held samt að slípa þurfi liðið aðeins saman því það eru margir nýjir leikmenn hjá þeim sem aldrei hafa spilað í enska fótboltanum. Spái þeim samt 3. sætinu því hópurinn þeirra er fáránlega sterkur.

  Í 4. sæti enda svo Arsenal, þeir hafa að vísu misst breidd í öftustu línu en ég á von á því að keyptir verða 1 til 2 leikmenn áður en glugginn lokar. “Ungu” leikmenn Wenger eru árinu eldri og reyndari þannig að liðið ætti jafnvel með heppni að geta blandað sér í titilbaráttuna. Heppni hér þýðir meiðslalaust tímabil hjá lykilmönnum.

  1. sæti Liverpool mun enda í því sæti. Eins og staðan er í dag er ekki búið að bæta í þær tvær stöður sem voru helsta vandamál liðsins á síðasta tímabili, þ.e. vinstri bakk og sóknarmann. Á síðasta tímabili voru flestar sóknir andstæðinga Liverpool upp hægri kantinn á hann Insua litla og oftar enn ekki bara það árangur (ala Reading). Það hefur legið ljóst fyrir í sumar að þessa stöðu þarf að styrkja og eflaust er það ástæða þess að LFC var búið að samþykkja tilboð í Insua. Einnig ætti það að vera öllum ljóst að gæða sóknarmann vantar með Torres því maðurinn mun aldrei spila meira en 70% leikja liðsins. Það eru meiri líkur á því að vinna í Lottói en að Torres nái heilu tímabili. Þessi sóknarmaður hefur ekki verið keyptur þannig að við erum eins og í fyrra að fara inn í tímabil með N’gog sem sóknarmann nr. 2. Til viðbótar þessu bendir allt til þess að Macherano sem er einn af lykilmönnum liðsins sé að fara og hans stað er kominn þrítugur Dani sem á alveg eftir að sanna sig.

  Miðað við þessar forsendur þá get ég ekki séð Liverpool enda ofar en í 5. sæti.

  Síðan verða Tottenham í 6. sæti, Meistaradeildin mun ráða þar miklu um.

  Og að lokum verður Everton í 7. sæti

  Krizzi

 14. Já mér sýnist líklegt með þeim fyrirvara að enn eiga liðin eftir að styrkja sig, að þetta muni standa á milli Chelsea og Man U. Langsóttur möguleiki er að Man City og Arsenal komi inn í titilbaráttu. Mögulega verður Tottenham þarna uppi en þeir gætu allt eins tekið upp á því að skíta í brækurnar á haustmánuðum og þá verður Harry rekinn og allt fer út um gluggann sem þeir hafa verið að gera. En það að Kristján Atli sé lægstur með Liverpool í fimmta sæti sýnir kannski það að menn eru að spá lógískt í önnur lið en nota óskhyggjuna með Liverpool. T.d. “Ef við sleppum einu sinni við mestu meiðslavandræði þá eigum við séns á að gera svo mikið betur en í fyrra” (Babu).
  Ég held að 5-7. sæti verði okkar hlutskipti í vetur, mögulega fjórða ef allt gengur upp. Ég tel menn ofmeta styrkinguna sem hefur orðið á liðinu en kannski (vonandi) er stjórabreytinginn það sem þarf til að komast í fjórða sætið. Vonum það besta.

 15. Vá talandi um óskhyggju, auðvitað á að standa 5. sæti hjá Liverpool ekki 1. sæti.

  Krizzi

 16. Ég held að engir aðrir en stuðningsmenn LFC spái liðinu okkar ofar en 5. sæti. En að sama skapi, við hljótum að gera betur en í fyrra og þá er stutt í 4. sætið…

 17. Jú jeinar – það eru líka aðrir en stuðningsmenn Liverpool sem spá þeim sigri, Valtýr Björn og Böddi Bergs gerðu það líka í “Mín skoðun” á X-inu.

 18. Flottur pistill, og ég var bara með alveg sömu spá nema 8.,9. og 10.sætið voru svona hjá mér.

  1. Sunderland
  2. Aston Villa
  3. Birmingham
 19. Hérna er viðtal http://www.liverpoolfc.tv/news/latest-news/roy-no-masch-movement við RH um Mascherano og samkvæmt viðtalinu þá er Mascherano ekki að fara neitt. Að auki segir hann að Poulsen hafi ekki verið keyptur til að leysa Mascherano af heldur til að auka breiddina hjá Liverpool. Mér finnst þetta mjög jákvætt en maður hugsaði nú fyrst þegar ég las þetta afhverju við keyptum þá ekki framherja eða varnarmann til að auka breiddina þar. Það á kannski eftir að gerast og þá mun mér lítast mjög vel á liðið.

 20. Mikið svakalega er ég farinn að fíla hann Hodgson. Maður var orðin vel þreyttur á Benitez og hans bulli. Gat td aldrei svarað neinu beint út. Hodgson talar bara hreint út um hlutina eins og þeir eru og er ekki með einhverja leiki og gátur.

  Eftirá að hyggja er þetta þó einkennileg styrking með Gerrard, Lucas, Poulsen, Mascherano og Aqualini á miðjunni. Ætli Aqualini verði látinn fara eftir allt saman ?

  En ef maður trúir þessu viðtali hér að ofan þá erum við í stökustu vandræðum í raun. Hjartanlega sammála Ívari og Krizza hér að ofan. Mér finnst við verða að bæta í vörnina allavegana einum alvöru manni og svo einum alvöru senter. Að ætla að fara í þessa deild með Ngog sem second striker er bara bull og vitleysa.

 21. Já sammála því að okkur vantar eins og einn Figueroa frá wigan og einn ALVÖRU striker. Líst ekkert á léttvigtina hjá Ngog ef Torres mun verða mikið frá þa verðum við bara í bullinu uppi í á toppi. En sjáum hvað gerist eftir kaup Barcelona á Mascherano. Býst við að RH kaupi striker og hægri bakk áður en yfir líkur. YNWA

 22. Ég held að Ngog verði ekki second striker, held að RH noti frekar Jova eða Babel til að covera það… þ.e.a.s ef við fáum ekki kröftugan striker til að spila frammi með Torres.

 23. Liverpool verður meistari og mér er andskotans sama hvernig raðast í hin 19 sætin.

  YNWA:

 24. Ég verð nú bara að viðurkenna að mér er lífsins ómögulegt að spá einu né neinu. hér er mitt mat um nokkur lið…

  Chelsea: Heilt yfir lang sterkasta liðið. 100% gæði í hverri stöðu. Eina sem gæti dregið úr þeim tennunar er tiltölulega hár meðalaldur. Gæti orðið vandamál eftir jól, sérstaklega í ljósi þess að það var HM í sumar.

  M. UTD: Með Rooney jafn svaðalegan og í fyrra er liðið pottþétt í titilbaráttu. Ef hann lendir einhverju basli er liðið töluvert spurningamerki. Mjög stórt spurningamerki.

  Arsenal: Það er náttúrulega verið að smíða nýtt lið á Emirates. Hafiði samt engar áhyggjur, Menninir á settinu hjá stöð2sport2 minna okkur reglulega á að þetta sé ungt og léttleikandi lið.

  M. City: Mancini verður rekinn eftir ca. 10-15 leiki. Guð má vita hvað gerist eftir það…

  Okkar menn: Verða einhverstaðar á bilinu 1-10 sæti. ég get bara ekki verið nákvæmari en það.

  Spurs: Lenda í miklum erfiðleikum þegar CL byrjar að dynja á þeim af fullum þunga.

  Hrunið: Aston Villa.

  Spútnikið: Bolton eða Newcastle.

  Fallbaráttan: Eitt af því sem mér finnst einkenna EPL þetta árið eru fleiri “slök” lið (á pappírnum allavega) Wigan, West brom, Wolves, Blackpool, jafnvel West Ham, Fulham, Sunderland???

  Koma svo game on!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 25. Ég er alveg sannfærður um að við bætum okkar árangur frá því í fyrra! Við vorum ekki nema 7 stigum frá liðinu í 4. sæti, svo það er ekki eins og það sé himinn og haf á milli. Eins og staðan er núna hefur liðið bætt sig í öllum stöðum að mínu mati, nema kannski hægri bakverðinum sem var fín í fyrra. Ég væri til í að sjá fínan backup striker keyptan fyrir tímabilið, en annars líst mér bara nokkuð vel á liðið sem við höfum. Ég held allavega að það sé ekki nein ástæða til að kaupa vinstri bakvörð ef Insua verður áfram. Þá höfum við hann og Aurelio og mér finnst Kelly hafa sýnt það að hann á fullt erindi í að vera backup fyrir þá og fá að spila nokkra leiki.

 26. The Liverpool FC Board has reviewed a number of proposed bids for the club at a meeting held today.

  The Board will continue to act in the best interests of Liverpool Football Club and its supporters, doing all that it can to ensure that the Club is ultimately sold to a buyer who has the resources and real commitment to give it a long-term, stable and secure funding position for its plans.

  The sale process is continuing. However, its timing and outcome remain uncertain. In the meantime, we will not comment on rumour and speculation.

  (www.lfc.tv)

 27. hnuss….snökt….ætli það verði nokkuð af þessari sölu á LFC áður en glugginn lokast. Endum í eigu RBS og kanarnir verða sektaðir fyrir að ná ekki að borga og vonandi settir á hausinn.
  Kanski bara mun betra að fá nýjan eiganda á miðju hausti þannig að það gefist góður tími í að meta núverandi stöðu liðsins án panic mega kaupa á síðustu stundu. Sjá fyrst hvað núverandi leikmenn eru að gera, hverjir ná að stíga upp sem áður kanski hafa verið úti í kuldanum(Babel) og geta þá metið það með einhverjum rökum hvar við þurfum að gera kaup. Og með nýja eigandann sem auðvitað verður skriljóneri þá munum við bara kaupa þá allra bestu í Janúar án tillit til kostnaðar og vinna svo titilinn í vor 🙂

  Fokk off Man utd !!!
  We are still nr. 1!!!
  YNWA

 28. Gleði mín er ómæld yfir þeirri staðreynd að við munum ekki fá Crouch!

 29. Kommenta sárasjaldan hér en hef mjög gaman af síðunni þrátt fyrir að vera United maður og þrátt fyrir að Babú skrifi á hana.
  Mjög áhugaverðar pælingar varðandi deildina og góð greining á liðunum. Ég er nánast 100% viss um að topp fimm raðist svona.
  Man Utd
  Chelsea
  Liverpool
  Man City
  Arsenal
  United og Chelsea verða í hálfgerðum sérflokki, Liverpool og City taka hin meistaradeildarsætin, held það verði töluvert meiri léttleiki yfir Anfield í vetur með tilkomu Hodgson og City rétt hefur Arsenal í baráttunni um síðasta sætið, það er ekki ólíklegt að Arsenalliðið brotni saman eftir leik við Birmingham/Blackburn/Stoke/Blackpool þar sem einn af þessum ótrúlega efnilegu leikmönnum þeirra meiðist illa og Wenger tekur sömu góðu ræðuna um að það verði að vernda leikmenn meira. Tottenham endar í 6. sæti en koma á óvart í CL.


  (lagaði uppsetninguna hjá þér á þessu enda ertu varla skrifandi hvorki með lyklaborði né penna – Babú)

 30. Við erum með betra lið í dag en á sama tíma í fyrra. Í fyrra var liðinu spáð 1. sæti af mjög mörgum. Í dag er liðið losnað úr spennitreyju RB og spái ég liðinu því 1. sæti. Leikmenn eru hungraðir í að bæta fyrir afglöp síðasta tímabils. Ég hef alltaf trú á mínu liði og vona svo sannarlega að spá mín rætist, geri ráð fyrir að von ykkar sé sú sama? ÁFRAM LIVERPOOL !!!!!

 31. Við erum með betra lið í dag en á sama tíma í fyrra. Í fyrra var liðinu spáð 1. sæti af mjög mörgum.

  Við erum reyndar að missa Mascherano, en að mörgu leyti er ég sammála því að liðið ætti að koma sterkara til leiks núna en í fyrra. Það er ekkert eftir-Alonso-sjokk og menn virðast hafa tekið nýjum þjálfara vel.

  Svo held ég að það sé ljómandi fínt að okkur sé allsstaðar spáð 5-6. sæti. Það skemmir ekki og gerir menn sennilega enn æstari í að kvitta fyrir klúðrið í fyrra.

 32. Sammála Einari, pressan er ekki til staðar núna eins og í fyrra. Það gæti einnig kveikt svakalega í mönnum ef væntingarnar eru lágar. Sérstaklega þegar Hodgson talar niður væntingarnar eins og í nýlegu viðtali þar sem hann segir bara berum orðum að Liverpool geti ekki borið sig saman á jafnréttisgrundvelli við Chelsea, man utd og City. Ef ég væri Liverpool leikmaður eins og Gerrard þá myndi þetta gera mig brjálaðan í að sýna öllum að Liverpool er og verður alltaf í toppbaráttu og hana nú!!!
  Þannig að ég held að þetta verði áhugavert season og ef við náum að halda okkur við toppinn þá er eina efasemdin sú að menn gæti brotnað undan pressunni á síðustu metrunum og haldi ekki út ala Villa style. En ég er að verða rosalega spenntur og ef Gerrard meiðist ekki þá sýnist mér að hann sé að koma inn í þetta season með allt til að sanna og muni spila betur en nokkru sinni fyrr. Sérstaklega þar sem s´ðasta season var disaster og HM fór í vaskinn.
  Torres er á sama báti þar, hefur allt að sanna núna ef hann ætlar að halda stöðunni sem einn af bestu centerum í heimi.
  Þannig að – Engin pressa, margir leikmenn þurfa að sanna tilverurétt sinn í liðinu, vonbrigði með HM situr í einhverjum og menn vilja því komast á sigurbraut með síni liði í staðin, Nýr stjóri = clean slate fyrir marga sem RB sat á.
  Fyrir mér er þetta uppskrift að sigurliði í ár, ekkert helvitis fimmta, fjórða sæti.
  Á toppnum í vor og ekkert rugl!!!

  YNWA

 33. Spáði okkur 4.sæti og Arsenal utan við CL sætin.

  Viðurkenni reyndar að ég held að Manchester City standi ekki undir væntingunum, Mancini er lélegur stjóri að mínu mati, alltof varnarsinnaður og liðið hans er ekki vel samansett. Sá þá svo áðan gegn Tottenham og sannfærðist enn frekar.

  Tottenham er líka í vanda með sína sentera sem allir komu inná í dag og léku allir illa. Crouch var arfi, Defoe bitlítill, Keane ósýnilegur að vanda og Pavlychenko jafn óviss í skotum og hann hefur verið.

  Í dag hefði ég spáð klassískum “top four” en stend auðvitað við mína spá, því Mancini fer fljótlega og O’Neill tekur við og setur þá í betri gír Citymenn….

 34. Væntingarnar fyrir tímabilið eru greinilega miklar hjá mörgum en ég hef töluverðar efasemdir fyrir tímabilið. Árangurinn í fyrra var undir væntingum og það tímabil var slys enda endalaus meiðsl á lykilleikmönnum og ef það sama verður í vetur er staðan ekki góð. Held þó að til að byrja með verði léttara yfir liðinu en það getur nú hrunið í fyrstu leikjum líkt og í fyrra. Liðið hefur ekki breyst mikið og mér finnst Hodgeson mjög raunsær í því sem hann segir um liðið:

  He said: “After seven training sessions with what I regard as the key players, it is pretty obvious to all that we are a long, long way from being a team like Manchester United, Arsenal or Chelsea.

  “I don’t even pretend that the team, after six or seven training sessions, are going to be anything like the team we want to be.

  “It would be ridiculous to suggest that we can be at the top of our game now in terms of how I want the team to play.”

  Það er sami vandi og undanfarin ár; peninga vantar til að kaupa öflugri leikmenn og það er bara veruleikinn hvað sem hver segir. Spái 5 sæti en vona vona að tímabilið komi skemmtilega á óvart.

 35. Blackpool að gera grín að Wigan í fyrri hálfleiknum, 0:3 yfir of miklu betri.. Vörnin hjá Wigan er í besta falli hlægileg

Spá Kop-ara, fyrri hluti

Arsenal á morgun!