Spá Kop-ara, fyrri hluti

Jæja elskurnar.
Þá er komið að árlegri spá okkar Kop-ara um enska boltann. Að þessu sinni skiptum við spánni í tvennt, í kvöld röðum við liðunum úr 11.sæti og niður í það númer 20 og annað kvöld er það topp tíu.

Spáin í fyrra var þokkaleg, við spáðum auðvitað kolvitlaust hjá okkar liði, en þar utan var margt nokkuð rétt, þar af t.d. 2 af 3 fallliðum deildarinnar. Aggi komst ekki í að klára sína spá svo að við hinir fimm kláruðum málið.

Við einfaldlega röðum liðunum niður í sæti og þar fær lið í 1.sæti 20 stig og í 20.sæti fær 1 stig. Hæsta mögulega samtala er því 100 og sú minnsta er talan 5.

Bíðum ekki eftir neinu, ég tíni í gang og við byrjum í 11.sæti!

11.sæti: Fulham 45 stig

Helstu breytingar

Philip Senderos (Arsenal) og Jonathan Greening (W.B.A.) komnir

Chris Smalling (Man.United) farinn.

Fulham spáum við rétt neðan við miðju, vel ofan við falldrauginn. Þeir misstu auðvitað stjórann sinn til okkar, en Mark Hughes hefur gengið vel að vinna með lítið “budget”. Það eru hæfileikamenn á Craven Cottage sem ættu að sjá til þess að viðhalda fínum árangri síðustu ára. Meiðsli og leikbönn gætu sett strik í reikninginn, því það vantar uppá breiddina og ekki víst að ekki séu öll brotthvörf orðin. En öruggir á lygnum sjó.

Lykilmaður: Mark Schwarzer

12.sæti: West Ham 42 stig

Helstu breytingar

Thomas Hitzlsperger (Lazio), Frederic Piquionne (PSG), Pablo Barreras (Pumas) og Tal Ben Haim (Portsmouth) komnir

Engir lykilmenn farnir

Eftir mikinn rússibana á síðasta ári teljum við Hamrana vera í betri málum þetta tímabil. Avram Grant virðist öflugur stjóri sem nær miklu út úr sínum liðum og allir leikmennirnir sem hann hefur keypt ættu að bæta liðið töluvert. Eins og ávalt eru margir ungir og spennandi leikmenn í þeirra röðum en þó verður að teljast lykilatriði fyrir liðið að halda Parker og Cole út mánuðinn, nokkuð sem ekki er víst. Þeir eru svo mikið að bera víurnar í Beckham þessa dagana, sem gæti vissulega styrkt þeirra unga lið.

Eftir ólgusjó síðasta vetrar ætti skipið að sigla lygnari í sjó í vetur og nú án nokkurra Íslandstengsla!

Lykilmaður: Scott Parker

13.sæti: Blackburn 39 stig

Helstu breytingar:

Mame Diouf (Man.United) kominn í lán, enginn mikilvægur kvaddi

Eins mikið og okkur langar að mála dauðan djöful á skrattann á Ewood Park vegna stjórans er það víst ekki annað hægt en að telja líklegt að Allardyce nái enn á ný að búa til gróft og þrautleiðinlegt knattspyrnulið sem erfitt verður að vinna. Negla löngum boltum og takkla alls staðar. Stjórinn náði í fyrra að safna að sér leikmönnum sem skilja hans leikstíl og við teljum sennilegt að hann bæti í þann hóp fyrir lok mánuðarins. Allir vildum við sjá liðið hrynja og losa sig fljótlega undan áhrifum mótormunnsins, en við spáum því að liðið verði á öruggu róli í allan vetur.

Lykilmaður: Chris Samba

14.sæti: Stoke 39 stig (Blackburn fékk stærri “hæstu” tölu og það gildir ef lið eru jöfn)

Helstu breytingar

Florent Cuvelier (Portsmouth) og Kenwyne Jones (Sunderland) komnir

Andy Griffin (Reading), Ibrahima Sonko (Portsmouth) og Steve Simonsen (Sheff. United) farnir

Stoke verða í baráttu við Blackburn um 13.sætið, seint verður það sögð barátta hinnar hreinnu knattspyrnu, því Tony Pulis er án vafa hreinræktaðasti “kick and run” stjóri ensku deildanna. Innköst eru vísindagrein hjá karlinum og honum er skítsama hvað öðrum finnst á meðan að hann hirðir sín stig. Sem er auðvitað fullkomlega skiljanlegt! Hann hefur þó lýst því í sumar að breytingar séu að verða á leikstílnum, því Stoke einfaldlega hafi ekki haft efni á teknískari leikmönnum fyrr en nú. Tony, hvers vegna þá að byrja á Kenwyne Jones? Öruggir ofan við fallbaráttuna og einn erfiðasti útivöllur deildarinnar hér á ferð.

Lykilmaður: Matthew Etherington

15.sæti: Newcastle 38 stig

Helstu breytingar

James Perch (Nott.Forest) og Sol Campbell (Arsenal) komnir

Enginn mikilvægur farinn

Eftir eins árs fjarveru kemur risaklúbburinn úr norð-austrinu upp á ný. Liðið flaug upp úr Championship deildinni þrátt fyrir að missa töluvert af mannskap en við megum ekki gleyma að í liðinu eru enn þekktir kappar. Alan Smith, Kevin Nolan og Steven Taylor kjarninn sem yngri mönnum hefur verið raðað á. Fullur hávær heimavöllur hjálpar liðinu að sleppa við mestu fallbaráttuna, en þó er öllum ljóst að til beggja vona getur brugðið og þá má telja líklegt að lítið reyndur stjórinn, Chris Hughton, sé undir mikilli smásjá. En halda sér uppi sem ætti að vera gott skref.

Lykilmaður: Andy Carroll

16.sæti: Bolton Wanderers 32 stig

Helstu breytingar:

Robbie Blake (Burnley), Marcus Alonso (Real Madrid) og Martin Petrov (Manchester City) komnir

Nicky Hunt (Bristol City) farinn

Ég ætla að ljóstra því upp að við teljum Bolton vera það neðsta í hópi þeirra liða sem sitja ofan við hörðustu fallbaráttuna, töluvert munar á þeim og liðinu í 17.sæti í heildarspástigum. Owen Coyle er spennandi stjóri sem er nú að reyna að breyta leikstíl liðsins í átt að aukinni tækni leikmanna og opnari sóknarleik. Hann hefur fengið til sín fína leikmenn til þess og er enn að leita fyrir sér, helst með lánsmönnum frá stærri liðunum. Hann lenti í vanda með varnarleikinn síðasta hluta liðins leiktímabils og verður að laga það, annars gæti farið illa. En þó teljum við Bolton vera með of sterkt lið til að sogast niður í allra mestu fallbaráttuna.

Lykilmaður: Kevin Davies

17.sæti: Wigan Athletic 18 stig

Helstu breytingar:

Antonlin Alcarez (Club Brugge), Ronnie Stam (Twente) og Mauro Boselli (Estudiantes) komnir

Titus Bramble (Sunderland) farinn

Eins og glöggir lesendur merkja munar miklu á liðunum í 16. og 17.sæti og segja má að spá okkar um alvöru fallbaráttu hefjist með lærisveinum Roberto Martinez. Stjórinn sá hefur verið að reyna að spila góðan fótbolta en satt að segja hefur árangurinn ekki verið mikill! Það segir í raun ýmislegt þegar manni finnst brotthvarf Titus Bramble mögulega veikja lið og við höldum að veturinn verði Wigan afar erfiður. Stjórinn þarf að sýna fram á það á fyrstu vikunum að hann sé búinn að stoppa upp í hriplekan varnarleik, annars fýkur hann fljótlega. Við spáum þá að liðið haldi sér uppi, sennilega með marki í uppbótartíma í lokaleiknum.

Lykilmaður: Hugo Rodalega

18.sæti: W.B.A. 15 stig

Helstu breytingar:

Gabriel Tamas (Auxerre), Boaz Myhill (Hull) Nicky Shorey (Aston Villa) og Pablo Ibanez Atletico Madrid komnir

Borja Valero (Villareal) farinn

Jó-jó-jó-jó. Voðalega erfitt að nota annað orð yfir þetta gamalgróna lið sem virðist alltaf vera reglulega of sterkt fyrir næstefstu deild en nær aldrei að stimpla sig inn í þá efstu. Roberto Di Matteo reynir að láta liðið spila sóknarfótbolta en vantar MIKIÐ uppá varnarleikinn til að teljast líklegur að halda liðinu uppi. Hann hefur því verið að fjárfesta í varnarmönnum að undanförnu, sem gæti breytt einhverju. Enn einu sinni fellur liðið um deild en þó má sjá að okkur finnst litlu muna að þeir komist upp fyrir Wigan og hangi uppi.

Lykilmaður: Scott Carson

19.sæti: Wolves 12 stig

Helstu breytingar

Jelle Van Damme (Anderlecht), Steven Fletcher (Burnley), Stephen Hunt (Hull) og Steven Moyokoulo (Hull) komnir

Andrew Surman (Norwich), Chris Iwelumo (Burnley) og Stefan Maierhofer (Duisburg) farnir

Gömlu góðu Úlfarnir munu eiga erfitt uppdráttar í vetur. Okkur fannst þeir eiginlega sleppa ótrúlega vel á síðustu leiktíð miðað við dapra spilamennsku og litla stemmingu. Voru einfaldlega heppnir að þau lið sem féllu voru einfaldlega arfaslök og svo verður ekki í vetur. Liðið hefur þó reynt að styrkja liðið í sumar með mönnum sem hafa leikið landsleiki og með töluverða reynslu. Það mun bara einfaldlega ekki duga og liðið kveður deildina eftir tveggja ára veru næsta vor.

Lykilmaður: Karl Henry

20.sæti: Blackpool 10 stig

Helstu breytingar

Craig Cathcart (Man. United), Marlon Harewood (Aston Villa), Ludovic Sylvestre (Mlada Boleslav), Eliot Grandin (CSKA Sofia) og Malaury Martin (Monaco) komnir

Enginn lykilmaður farinn

Öskubuska allra öskubuskna er mætt í úrvalsdeildinni. Blackpool var fyrir löngu síðan eitt af stóru nöfnunum í Englandi, en í dag má rökstyðja það að þar sé á ferð minnsta liðið sem unnið hefur sér þátttökurétt meðal hinna bestu síðan Úrvalsdeildin var stofnuð. Leikmannahópurinn er afar lítill en mjög samstilltur og klúbburinn á alls ekki mikla peninga til að styrkja liðið. Verulega spennandi verður að fylgjast með kolgeggjuðum stjóranum Ian Holloway reyna að kreista fram stig, sem gætu orðið ansi fá. Ef liðið heldur sér uppi væri það svo sannarlega endurtekning á silfurskó og töfradís!!!

Lykilmaður: Jason Euell

Þar með lýkur fyrri hlutanum.

Seinni helmingur með sætum 1 – 10 annað kvöld!!!

16 Comments

  1. Athyglisverð spá. Það skal samt tekið fram að ég spái Newcastle 9. sætinu í ár, eða efri hluta deildarinnar. Þar fá þeir nærri þriðjung stiga sinna í þessari spá, frá mér einum, þannig að hinir strákarnir hafa væntanlega spáð þeim neðar og jafnvel í fallbaráttu. Þannig að ef Newcastle skíta á sig í vetur er óþarfi að kenna hinum strákunum um spána, Newcastle skrifast alfarið á mig. 🙂

    Ég spáði Blackpool, Wolves og Wigan falli í ár og að W.B.A. rééétt sleppi fyrir horn. Það virðist vera almenn sátt um það á milli okkar fimm sem spáum að þessi fjögur lið verði nokkuð sér á báti í botnbaráttunni í ár. Ef einhver önnur lið dragast niður í þann pakka flokkast það því undir óvænt skv. „sérfræðingum“ Kop.is.

  2. Þegar ég horfi á þennan lista finnst mér óvenju mikið um slök lið. Kannski er þetta alltaf svona ég átta mig ekki alveg á því. Tek þó undir með Kristjáni og þá væntanlega hinum pennum síðunnar að Blackpool, Wolves, Wigan og W.B.A. eru ekki líkleg til afreka.

  3. Hér kemur mín endanlega spá. Trúi ekki öðru en að þessi sé hárnákvæm. Verð samt að viðurkenna að það er gaman að það er ekki sjálfskipað í efstu fjögur, gerir deildina bara skemmtilegri. En ef við endum neðar en 4. sætið í ár gæti það verið skelfilegt. Þá er hætta á hæfileikaflótta frá Anfield að mínu mati.

    1 Chelsea
    2 Man City
    3 Man Utd
    4 Liverpool
    5 Arsenal
    6 Tottenham
    7 Everton
    8 Fulham
    9 West Ham
    10 Stoke
    11 Aston Villa
    12 Birmingham
    13 Sunderland
    14 Bolton
    15 WBA
    16 Newcastle
    17 Blackburn
    18 Wolves
    19 Wigan
    20 Blackpool

  4. Ein smá spurning, án þess að ég sé nokkur sérfræðingur um þessi mál, haldið þið að Aston Villa verði í efrihluta deildarinnar eftir það sem gengið hefur á í þeirra herbúðum?

  5. Egill, við spáðum í byrjun vikunnar, rétt áður en O’Neill hætti skyndilega hjá Villa. Við spáðum þeim greinilega flestir eða allir í efri hluta deildarinnar fyrst þeir eru ekki nefndir í sætum 11-20 en á meðan það er ekki kominn inn nýr stjóri, og á meðan það er ekki enn ljóst hvort Milner og Young fara báðir eða verða báðir, þá er ómögulegt að spá held ég. Þeir gætu hrunið í vetur og ég spái því pottþétt ef bæði Young og Milner fara og þeir fá einhvern pappakassa til að taka við af O’Neill.

  6. Auðvitað, áttaði mig ekki á því að spáin væri frá því fyrir nýjustu fréttir.. svona er maður grænn fyrir fyrsta kaffibollann – Annars bara mjög góð spá, ég heyrði reyndar hjá mér vitrari mönnum að Bolton gæti komið á óvart í vetur, væru búnir að standa sig nokkuð vel á undirbúningstímabilinu en það að vera “laus” við falldrauginn er jafnvel bara nokkuð gott hjá þeim.

  7. Hef fulla trú á okkar mönnum í toppslaginn og er drullusmeikur við að ManU nái tittlametinu okkar. City fær meistaradeild á kostnað Arsenal og Tottenham halda ekki út í deild sökum meistarardeildar álags. Aston Villa hafa ekkert í topp liðin eftir að Martin O’neil fór og annað er bara svona gut fealling.

    1.Manchester United 2.Chelsea 3.Liverpool 4.Manchester City 5.Arsenal

    6.Tottenham 7.Everton 8.Fulham 9.Aston Villa 10.West Ham

    11.Bolton 12.Birmingham 13.Stoke 14.Newcastle 15.Blackburn

    16.Wigan 17.Sunderland 18.WBA 19.Wolves 20.Blackpool

  8. Ég tel allar líkur á því að Blackpool endi í neðsta sæti með mjög fá stig, liðið er því miður mörgum númerum of lítið fyrir úrvalsdeildina. WBA felllur líka því þar vantar bæði gæði og stöðuleika. Svo spái ég því að Wigan falli, ástæðan er einföld þeir eru með lélegra lið í ár enn í fyrra. Vörnin var mjög slök á síðasta tímabili og ekki skánar hún við að missa Bramble og Scharner, auk þess hefur besti leikmaður þeirra N’Zogbia farið fram á sölu.

    Ég tel enga líkur á því að Wolves falli og Bolton muni koma á óvart, jafnvel endi um miðja deild.

    Krizzi

  9. Væri ekki réttara að hafa Kevin Doyle sem lykilmann fyrir Wolves. Ef ég man rétt þá skoraði hann 9 mörk á síðasta tímabili og var þeirra markahæsti maður.

  10. Þótt að ég veit að Blackpool muni falla myndi ég alveg vera glaður ef myndi lifa af Þetta tímabil og læti lið einsog Blackburn, WBA, Wolves falla

  11. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá Liverpool titlinum í ár. Ég hef ekkert til að bakka það upp annað en tilfinningu. Ég veit það er ekki einu sinni neitt sérstaklega raunsætt eða skynsamlegt, en ég bara hef þetta mjög sterkt á tilfinningunni.

  12. Draumurinn væri samt auðvitað ef að Wigan, Blackburn og Stoke myndu falla. Svo væri fínt ef Birmingham yrði dæmt niður um deild. Í þeirra stað gætu komið skemmtileg lið eins og Nottingham Forrest, QPR, Cardiff og Leeds. Þá væri deildin orðin skemmtilegri 🙂

  13. Ég væri alveg til að Liverpool myndi skoða Andy Carroll eftir tímabilið ef hann hefur gott tímabil enda framtíðar framherji

  14. Mikið AGALEGA er ég sammála þér Toggi og þetta er bara helvíti góð tilfinning… 🙂

    Með vinsemd og virðingu/ 3XG

  15. Þetta virðist nokkuð nærri lagi – En er ekki alltaf eitt lið sem kemur verulega á óvart með góðum árangri ?

Christian Poulsen kominn (staðfest!)

Spá Kop – ara. Seinni hluti