Frídagur verslunarmanna

Vaknaði ferskari en margir í dag, enda kominn á síðasta söludag í helgardjömmum. Sá að Babu hefur verið lukkutröll fyrir HB í Færeyjum og óska honum til hamingjum með það (HB vann Fuglafjörð 2-0 í hörkuslag færeyska boltans á Gundadalsvelli í gær)!!!

Liverpool-ið okkar tapaði 0-1 í gær í skrýtnum æfingaleik. Ensku HM-stjörnurnar voru mættar og spiluðu sínar fyrstu mínútur í sumar. Eftir 60 mínútur varð þessi leikur bara grín, fullt af mönnum fengu að spila sem við sjáum ekki í vetur, þó gaman hafi verið að sjá 15 ára gutta í liðinu síðustu mínúturnar. Greinilegt var að þessi leikur var fyrst og síðast hlaupaæfing, og ágætur sem slík. Mér fannst flott að sjá hinn 18 ára Jonjo Shelvey á fullri ferð á miðjunni með Gerrard, fullur sjálfstrausts. Á sama hátt var Ayala að gera vel og Joe Cole er gæðaleikmaður, það sást strax.

Í dag er það svo ný/gömul umræða.

Flestir miðlar hafa nú komið með þær fréttir að Kínverjinn Kenny Huang gangi nú mjög fast eftir því að eignast Liverpool. Hann sé mjög ákveðinn í að klára málin fljótt, allavega þannig að Hodgson fái almennilega peninga í þessum leikmannaglugga.

Það er þó enginn frá Liverpool eða Royal Bank of Scotland búinn að bregðast við þessum fréttum og mjög ólíkt hvað verið er að tala um varðandi verð og hvort líklegt er að tilboðinu verði tekið.

Flestir virðast þó sammála um að hann vilji greiða 350 milljónir punda fyrir félagið, setja strax stórar upphæðir í leikmannakaup og hefja framkvæmdir við völlinn á örskömmum tíma. Drengurinn er búinn að vera að fjárfesta í íþróttum, aðallega kínverskum og amerískum, og virðist nú vilja snúa sér í enska boltann. Telur aðdráttarafl Liverpool á heimsvísu einstakt og telur Asíumarkaðinn einfaldlega bíða eftir liðinu.

Við skulum sjá hvað verður, þeir sem vilja vita meira um hann geta lesið þennan pistil hér og svo látum við næstu daga sýna fram á meira.

Ég veit að það verða ekki allir glaðir með mig þegar ég segist ekki alveg viss um svona eignarhald. Ég vona enn að við fáum velstæðan einstakling sem einbeitir sér að því að byggja Liverpool upp sem lið og félag til framtíðar. Þrautreyndan áhugamann um félagið, svona rómantísku leiðina að titlum á ný…

Huang á fullt af íþróttafélögum, t.d. hluti í Cleveland Cavaliers og New York Yankees. Nokkuð sem pirrar mig.

En auðvitað er allt skref upp á við frá því sem nú er í gangi.

Leikmannaslúður er í dag það helst að Peter Crouch sé til sölu hjá Tottenham og Hodgson hafi áhuga á að fá hann til Anfield. Crouch-arinn gerði auðvitað mistök að fara og hefði spilað talsvert af mínútum í fjarveru Torres undanfarin tímabil. Sá viðkunnanlegi drengur má alveg klæðast rauðu treyjunni mín vegna, hann getur þá líkað passað launson sinn, Danny Wilson, án mikillar fyrirhafnar…..

Svo biðst ég afsökunar að vísa í tengil hjá Daily Mail en þeir voru fyrstir að birta myndir sem við öll vildum sjá.

Brosandi Fernando Torres að æfa í nýja gallanum á Melwood. Welcome back El Nino!

26 Comments

 1. Gaman að fá svona hugleiðingapóst í þynnkunni.
  Ég held það sé erfitt að velja “réttu” eigendurna. Held við getum verið sáttir með þetta eignarhald svo lengi sem reyndir og traustir Liverpool menn stjórna fótboltalegu hliðinni. Þannig að þetta tilboð lítur vel út og það væri frábært að losna við kanana sem hafa haldið klúbbnum í gíslingu með minni peningum í leikmannakaup en lofað var og óraunverulegri söluupphæð.

  Vonandi heyrum við meira af þessu fljótlega en ekki að fréttin deyji út eins og flestar fjárfestafréttir undanfarið.

 2. Ég vona að klúbburinn verði seldur sem fyrst, en ég vona líka að við verðum ekki næsta Man City. Óþægileg staða.

  Annars væri ég alveg vel til í að sjá Crouch aftur í Liverpool ef verðið er rétt. Þetta er maður sem getur skorað og virkað sem back-up fyrir Torres, eða spilað með honum í 4-4-2.

 3. Loksins eitthvað um sölu á félaginu, þetta hljómar spennandi neita því ekki en er það raunhæft að halda það að 350 milljóna punda tilboði yrði tekið þegar kanarnir hafa talað um að þeir vilji 800 milljónir??? Held þeir gefi sig varla fyrir minna en 500 mills en vona það þó…

 4. eg vona að þetta gangi eftir því maður er komin meið leið á því að bíða eftir að þetta klárist og að hafa þessa homma kana við stjórn ! ég vil bara fá nýjan völl byggðan og skuldir heinsaðar… ég þarf ekki einhvað city bullshit til að vera ánægður..

  ég verð ekkert brjálaður ef crouch kemur en ég vil frekar eyða sömu upphæð í carlton cole! held að hann virki betur með torres

 5. Varðandi einarhaldið þá er aðallega tvennt sem poppar upp í kollinn mér:

  1. Jafnvel þótt Lúsífer sjálfur kæmi með ávísun angandi af brennisteini þá vil ég það frekar en helv kanana.

  2. Sú staðreynd að eignarhaldið væri Kínverskt mundi þýða ofsalegar breytingar á markaðsmálum hjá Liverpool til hins betra með auknum peningum til……..ja bara alls 🙂

  Frábært að sjá Torres brosandi á æfingu 🙂

 6. Ég, líkt og pistilhöfundur, hef mínar efasemdir um Kenny hinn kínverska. Satt best að segja er ég orðinn fullsaddur á að aðra hverja blaðagrein um Liverpool mætti nota sem mini-case í viðskiptafræði. Ég er raunar á þeirri skoðun að þessi óhefti kapítalismi í Premier league sé á góðri leið með að eyðileggja deildina og vill að stuðningsmennirnir eignist meirihluta félaganna á ný. Það er önnur saga.

  Hitt er annað mál að fari svo að Kenny eignist félagið þá fagna ég innilega. Þessi gaur er alvöru á meðan núverandi eigendur komast ekki einu sinni í þriðju deild kaupahéðna. Meðferð þeirra á Liverpool minnir helst á hvernig Jón Ásgeir fór með Glitni. Smá Þórðargleði væri ef bölvaðir bjánarnir fengu síðan ekkert út úr dílnum eins og stefnir í skv. fréttum.

  Kenny þessi er forríkur og virðist vera brilljant í sínu fagi. Á bak við hann eru síðan enn ríkari menn og er næsta víst að hinn raunverulegi eigandi Liverpool, þ.e. Royal Bank of Scotland, myndi ekki slá hendinni á móti frekari viðskiptum við vaxandi stétt kínverskra auðmanna.

  Kenny Huang hefur starfað lengi á Vesturlöndum. Áform Kenny´s eru að kaupa hið sögufræga Liverpool og nota frábært vörumerki félagsins til að breiða út fótboltann í Kína og öðrum Asíulöndum.

  Enn og aftur er það sama viðskiptamódelið. Gamla góða Liverpool vörumerkið á að selja treyjur og öskubakka. En mér er sama ef tekst að koma ró yfir félagið og þjálfari og leikmenn fá tækifæri til að einbeita sér að fótbolta.

 7. Eins og Þórður Víkingur bendir á og alltof margir misskilja hérna inni er að þessir blessaðir kanar eiga ekkert Liverpool lengur heldur RBS. Það er hinn raunveruleigi eigandi í dag og það að þessir tveir bjálfar þarna haldi að þeir hafi einhver ítök í félaginu er brandari. Liverpool fór á ´´hausinn´´ tæknilega séð og bankinn tók yfir ! Þetta verður selt fyrir rétt verð eins og bönkum er tamt !

 8. Bölvaðir Bretarnir að skella svona “þungum” stórfréttum fram á þynnkudeginum mikla hér á Skerinu. Það brakar í heilaberkinum á manni að koma heilli hugsun yfir þetta allt saman. Og í ofanálag er Torres mættur á æfingu og Crouch kannski á leiðinni aftur Anfield. Hausinn stútfullur af stórfréttum 🙂

  En minn túkall um að rauða austrið sé kannski að gleypa Rauða herinn eru blendnar tilfinningar en þó hófleg eftirvænting um að senn sverfi til stáls í þessum sölumálum. Hið jákvæða við Kína-King-Kenny Huang er að á ferilskránni hans virðist berlega koma í ljós sterkur íþróttaáhugi og vilji til að drífa í kaupunum og byggingu nýs vallar. En í raun mætti segja það sama um ban-Kanana G&H áður en þeir keyptu LFC og við vitum hversu skelfilega sú sjóferð fór og stendur hún enn með tilheyrandi sjóveiki og ógleði. Hið neikvæða við Kína-dílinn er að lítið er vitað um hverjir munu raunverulega standa á bakvið Kenny, hvaða kínversku mógúlar, mafíur eða kommúnistískir kapítalistar munu mynda fjárfestingarhópinn því Kenny sjálfur virðist meiri deal-maker og andlit út á við heldur en hið raunverulega ráðandi afl.

  Það er rétt sem kemur fram hér að ofan völdin eru komin úr höndum G&H og ef RBS fær gott tilboð þá gætu þeir fræðilega tekið því eins og Kenny Huang virðist vera að reyna að gera. Þ.e.a.s. að sneiða framhjá hefðbundna söluferlinu á öllum klúbbnum sem Barclays Capital er að sjá um með Martin Broughton í fararbroddi og kaupa bara skuldir G&H við RBS (um 237 millur af 350 held ég). Það myndi koma Kínamanninum í lykilstöðu til að þvinga yfirtöku á restinni en þessu hafa RBS neitað og vísa á BarCap með hið hefðbundna söluferli. Þar ku vera fleiri ónefnd tilboð í deiglunni (allt að 6 tilboð skv. BBC) og kannski er herra Kenny Huang bara að koma sér í fréttirnar sem stórspilara en þó með óraunsætt plott sem gengur ekki upp á endanum.

  A.m.k. þá er eitthvað að bresta á og því fyrr því betra ef fjárfesta á í nýjum leikmönnum fyrir tímabilið. Gæti skipt miklu máli hvort menn séu aðkaupa í hálfgerðar skítareddingar í tilboðsrekkanum eins og Konchesky, Poulsen og co. eða alvöru spilara eins og Ashley Young eða Huntelaar osfrv. Ég vonast a.m.k. eftir nýjum eigendum sem vilja eignast LFC útaf persónulegum áhuga og leggja metnað sinn og heiður í að vera sigurvegarar og þar hefur mér alltaf litist mjög vel á Dubæingana en síður á samansafn af fjárfestum sem eru líklegri til að vonast eftir arðgreiðslum. Orðrómur er einnig um að Sheikh Maktoum sé enn með sterkan áhuga á að kaupa LFC og sérstaklega þegar eðlilegt söluverð er hugsanlegt eftir að G&H hafa misst neitunarvald sitt yfir sölunni. Hann kjósi hins vegar að halda sig frá sviðsljósinu vitandi að kaupin á eyrinni gerast oftast bak við luktar dyr. Draumastaðan væri svo ef að áhangendahópnum væri leyft að eiga einhvern hlut (5-15%) í LFC til að halda góðum tengslum við ræturnar.

  Að lokum er gott að fylgjast með umræðunni á spjallborði This is Anfield en þar eru fróðir kappar að koma með vel ígrundaðar pælingar og áhugaverða linka um þetta. Mæli með því:
  http://www.thisisanfield.com/forums/forumdisplay.php?7-The-Albert-LFC-Talk

  Úff, nú er ég orðinn mun þynnri heldur en þegar ég byrjaði á þessu rausi…

 9. Væri ekki magnað ef Blackberry síminn hans Kristjáns mundi seljast sama dag og Liverpool?

 10. Friðgeir Ragnar, ég skal eiga símann endalaust lengi niðrí skúffu ef Liverpool kemst í hendurnar á góðum eiganda. Myndi glaður fórna mér fyrir fjöldann. 😉

 11. Áhugaverð grein um herra Kenny Huang. Eftir lesturinn mætti jafnvel segja: OMG, they killed Kenny!
  http://www.sportingintelligence.com/2010/08/02/liverpool%E2%80%99s-chinese-suitor-kenny-huang-%E2%80%98doesn%E2%80%99t-have-the-money-or-route%E2%80%99-to-buy-the-club-himself-020806/

  Annars er slúðrið og orðrómarnir komið í algert yfirdrif. Fer úr því að vera 6 tilboð í LFC og í það að Kenny karlinn hafi 200 billjóna CIC veldið á bak við sig. Maður bíður eiginlega bara eftir öruggri heimild eins og Liverpool Echo til að fjalla almennilega um stöðu mála.

 12. Frábær samantekt hjá BBC um stöðu mála. Það gengur greinilega mjög mikið á undir yfirborðinu og minnir helst á bramboltið í Eyjafjallajökli með tilheyrandi eldglæringum og jökulhlaupum:

  http://www.bbc.co.uk/blogs/davidbond/2010/08/so_whos_buying_liverpool_fc.html

  Aðalatriðið er að mistökin þegar þjófarnir G&H stálu klúbbnum okkar verði leiðrétt og LFC fái öflugan eiganda til framtíðar. Ef að niðurstaðan myndi einnig þýða að G&H fengju lítinn sem engan arð fyrir glæpi sína þá er réttlætið enn á lífi og karmalöggan hefur unnið sitt verk vel.

 13. er ég sá eini sem vill sjá bellamy aftur í rauðri treyju frekar en crouch? bellamy hlytur að vera til sölu ef dzeko eða balotelli séu á leið til city

 14. Er ég sá eini sem væri til í að fá gamla tríóið okkar aftur, Bellamy, Crouch og R.Keane?

  Mér fannst Keane aldrei hafa fengið almennilegt tækifæri og ætti að vera falur fyrir töluvert minni upphæð en við seldum hann á. Bellamy væri einnig töluvert ódýr en ég er hræddur um að Crouchariinn færi ekki á minna en 15 milljón pund. Til hvers var verið að selja hann.

  Ég er alveg fullviss að Hodgson fengi allt útúr þessum þremur leikmönnum.

 15. Hvernig væri ef við kop-félagarnir myndum smala saman í púkk og leggja inn sjöunda tilboðið ? Við gætum stofnað Kop Holding eignahaldsfélag og gert þetta eins og sannir Íslendingar.

 16. Hvers vegna segir greinarhöfundur að það pirri hann að þessi Kínverski fjárfestir eigi hlut í nokkrum félögum, t.a.m. NY Yankees og Cleveland Cavaliers í USA?

  Ég tel, frá viðskipta- og markaðssjónarmiðum, þetta vera jákvætt ef satt er. NY Yankees og Cleveland Cavaliers virðast alls ekki spara í leikmannakaupum og einnig væri ekki verra ef Liverpool næði traustari tökum á markaðnum í Kína.

 17. Loftur. Crouch vildi ekki sitja á bekknum, nema hann fengi hærri laun en hann var með og Rafa gat bara ekki boðið honum það.

 18. Svo ég svari því Jóhannes þá langar mig í eiganda sem lítur á Liverpool sem sitt aðalverkefni, nærir það og hellir sér út í það verkefni eitt og sér.

  Mætir á nær alla leikina, fær skoðun á leikstílnum og liðinu en situr ekki langt í burtu og horfir á í sjónvarpi með puttann á heimabankanum að telja innkomuna.

  Þarna er t.d. Abramovich fyrirmynd, þó mér sé ekki vel við hann. Ef eigandinn er á leikjum Cavs eða Yankees er hann ekki á Anfield.

  En auðvitað er þetta rómantísk mynd sem á sér ekki endilega stoð í veruleikanum, en samt það sem ég hefði viljað sjá. Er eiginlega búinn að fá nóg af röfli um markaði víðs vegar í heiminum sem mælikvarða á liðið og stærð þess.

  Bara titla takk fyrir mig….

 19. Af þeim upplýsingum sem ég hef lesið um þennan kínverja þá er hann mjög umdeildur. Virðist ekki vera þessi Abramovic týpa þ.e.a.s. að hann er ekki vellauðugur sjálfur, heldur virðist sem hann fari fyrir hópi fjárfersti. Sögur segja hann lepp fyrir auðuga kínverska fjölskyldu. Þá er deilt um hvort hann hefi einhverntímann lagt pening inní Cavs heldur sé einungis skráður fyrir þeim hlut. Þá hefur hann orð á sér fyrir viðskipti með skuldsettum yfirtökum og menn hafa verið mjög efins um raunverulegan auð hans.

  Annars er best að segja sem minnst um þessi eigendamál, reynslan hefur sýnt að það þessar sögur poppa upp með reglulegu millibili og þagna þess á milli. Þar sem stutt er eftir í að glugginn loki er ekki ósennilegt að þetta verður fréttaefni næstu vikurnar.

  Best að segja sem minnst fyrr en búið er að handsala samning, þá getur tjáð sig væntanlega eigendur.

 20. Maggi: Ég skil þig nú að mestu leyti og er alveg sammála því að því miður er þetta kannski ekki veruleikinn í dag. En er Abramovich fyrirmyndin? Hefur hann ekki verið of mikið með puttana í öllu? Viljum við það? Hætti ekki Maurinho útaf honum, því Abra var að skipta sér af hlutunum. Ég vil persónulega ekki sjá það að eigendurnir séu að skipta sér of mikið af hlutunum.

Borussia Mönchengladbach í dag

BlackBerry Curve 8520 (seldur!)