Spánverjar heimsmeistarar!!!


Í kvöld lauk HM 2010 í Suður Afríku með því að Spánverjar urðu sjöunda þjóð heims til að verða krýnd heimsmeistarar í knattspyrnu!

Leikurinn í kvöld var eins og við var að búast, Hollendingar lágu aftarlega, helskipulagðir spilandi 4231 með tvo varnarmiðjumenn og treystu á fá sóknarmenn sem skapa áttu hættu með skyndisóknum. Viðurkenni alveg að á meðan ég horfði á Hollendingana fattaði ég að þessa leikstíls mun ég nú ekki sakna eftir þessa keppni eða hjá ákveðnu uppáhaldsliðinu mínu. Þeir spiluðu fast, stundum gróft en voru nálægt því að skora úr skyndisóknunum sínum. Hinn umdeildi Arjen Robben fékk þau bestu.

Spánverjar héldu áfram sínum stíl, spiluðu boltanum í drep og héldu ró sinni aðdáunarvert að mörgu leyti, fengu alveg sín færi í venjulegum leiktíma. Howard Webb hafði í nógu að snúast í 90 mínútunum, átti nú sennilega að rífa upp minnst eitt rautt spjald á hvort lið (De Jong og Puyol) en svo lauk leiknum með 0-0 og framlenging.

Hollendingarnir voru augljóslega orðnir þreyttir á meðan að krumla Spánverjanna hertist stöðugt. Þungir varnarmenn Hollendinganna urðu enn þyngri og loks kom rautt spjald á 110.mínútu þegar blámaðurinn Evertonmaðurinn dapri, Heitinga, fékk sitt annað gula spjald. Eftir það var bara spurningin hvort þeir héldu út 120 mínútur.

Sem þeir gerðu ekki. Á 116. mínútu reyndi Torres sendingu inn í teig sem var hálfhreinsuð á Fabregas. Hann vippaði boltanum inn á réttstæðan Iniesta sem klíndi föstum bolta í fjær. 1-0 og Spánverjar komnir í óskastöðuna sína. Lokuðu búðinni eins og þeir best geta, með hápressu fram um völlinn, sem þó varð erfiðari þegar Torres, sem augljóslega spilaði meiddur, tognaði að því er virtist aftan í læri. Meira væntanlega af því síðar….

Við lokaflautið brutust út mikil fagnaðarlæti auðvitað á meðal Spánverjanna sem voru vafalaust sterkasta lið keppninnar, þó ekki það skemmtilegasta að mínu mati, og þriðja tap Hollands í úrslitaleik HM staðreynd. Ljóst að enn sveiflast pendúll fótboltans í átt til Íberíuskagans og satt að segja held ég að þessi úrslit hafi kveikt heimþrá í einhverjum sigurvegaranna.

HM lokið, við spjöllum nú kannski meira um það í samantektarpistlum, með sigri Spánar. Eftir fyrsta leik þeirra í mótinu voru einhverjir sem afskrifuðu þá, m.a. skemmtileg athugasemd hér á kop.is, en vélrænt öruggur og yfirvegaður fótbolti skilaði þeim sínum fyrsta heimsmeistaratitli. Sérstaklega gleðjumst við með Torres og Reina, sem eru fyrstu ríkjandi heimsmeistarar Liverpool FC ansi lengi.

Spánverjarnir munu því spila með eina heimsmeistarastjörnu í brjóstinu héðan frá, hún sást í fyrsta sinn í verðlaunaafhendingunni.

Felicidades amigos espanoles!!!

52 Comments

  1. Verst að Torres var örugglega að meiðast aftan í læri, AFTUR ! ! !

  2. Holland tapadi leiknum thegar Kuyt var tekinn ut af. Algjor lykilleikmadur i hollenska lidinu a thessu moti.

  3. Damn….nú er bara að leggjast á bæn að Torres sé ekki alvarlega meiddur

  4. Án þess að vera með skæting, þá finnst mér að þú egir að strika “blámaðurinn” út þegar þú lýsir Heitinga. Stakk mig frekar að lesa þetta.

    Annars óska ég spánverjum til hamingju. Þetta var pínu skrítið að horfa á tvö af uppáhaldsliðunum keppa um gullið. Og nú má Torres taka af allann vafa um hvort hann verður eða ekki áfram og ekki halda okkur Liverpoolmönnum í úlfakreppu.

    Góðar stundir.

  5. Breytti þessu Kalling, en þú veist auðvitað að þarna er ekki verið að vísa til hörundslitar heldur tilraun til að þýða “blue” í ljósi óhuggulegs búnings sem hann klæðist á vetrum.

  6. En kannski eitt gott í þessum meiðsæum hjá Torres, nú kaupir ekkert lið hann í sumar.

  7. Nokkrar pælingar í lok móts…

    01: Besta liðið vann. Spánverjar hafa unnið 50 af síðustu 52 landsleikjum sínum, held ég að ég hafi heyrt í útsendingunni. Það er ótrúleg tölfræði, ef sönn er. Þeir hafa haft ógnarstjórn á gangi leiksins í öllum leikjum sínum í þessu móti, byrjuðu illa gegn Sviss en litu aldrei aftur eftir það. Fyllilega að sigrinum komnir og vert að óska þeim til hamingju með að vera loks komnir (réttilega) í elítu heimsknattspyrnunnar.

    02: Að því sögðu, þá er frekar sorgleg staðreynd að sigurlið mótsins hafi unnið með því að skora aðeins 8 mörk og fá á sig 2. Þetta eru sjö leikir og markatalan er 8-2. Eins skemmtilega frábært og þetta spænska lið er hefði maður alveg sætt sig við ögn meiri flugeldasýningu frá besta liði heims en þetta. Sennilega skrifast megnið af markaleysi þeirra á þá staðreynd að Torres var klárlega meiddur frá upphafi móts til enda móts og aðeins David Villa var að skora fyrir þá.

    03: Ég held með Hollandi allajafna í stóru mótunum og var hæstánægður að sjá þá komast í úrslit, en harkan sem þeir sýndu í þessum leik, auk almenns ömurleika þeirra Robben (oj bara), Van Persie (Arsenal-maður, skeit á sig í keppninni, oj bara), Van Bommel (ótrúlega leiðinlegur leikmaður) og Heitinga (Everton-maður, þarf að segja meira?) varð til þess að ég gat vart verið fúll yfir tapi þeirra í kvöld.

    04: Einnig, sem aðdáandi Hollands: úr því að Hollendingar áttu að tapa úrslitaleik sem þeir hefðu getað stolið, þá gat ég vart hugsað mér betri sökudólg en Arjen Robben. Góður fyrir mestan peninginn, leiðinlegur fyrir allan peninginn. Hann klúðraði tvisvar gegn markverði og sefur vonandi illa í nótt. Eins og flestar nætur. 😉

    05: Að lokum, sem Liverpool-aðdáandi var þessi úrslitaleikur nokkurn veginn eins ömurlegur og hann gat orðið. Babel og Reina sátu á bekknum og fengu því ekki mínútu í mótinu, Kuyt var tekinn allt of snemma út af og Torres fékk bara kortér í framlengingu vegna meiðsla, og tókst svo að togna aftur í helvítis löppinni á því kortéri.

    Kannski er eini mögulega jákvæði punkturinn sá að ef Torres er frá í einhverja mánuði þá reyni enginn að kaupa hann í sumar. En ég stórefa það að þetta sé svo slæmt. Veit ekki hvort ég á að vonast eftir meiðslum eða bata. Þegar maður veit vart hvort maður óskar Torres áframhaldandi meiðslum eða ekki er fokið í flest skjól fyrir Púllara…

    Til hamingju Spánverjar. Kemur bara næst, Holland. Hugsið hlýtt til Kuyt í kvöld, börnin góð. Hann kom til Liverpool 2006 til að vinna titla, Liverpool hefur ekki unnið titil síðan og hann hefur mátt þola töp í Aþenu og Jóhannesarborg frá þeim tíma. Karlgreyið.

  8. Ég hef engan áhuga á að reyna að halda Fernando Torres hjá Liverpool ef hann vill ekki spila fyrir Liverpool. Mér er NÁKVÆMLEGA sama hver á í hlut, þeir sem ekki vilja spila fyrir Liverpool geta átt sig.

    Spánverjar vel að titlinum komnir. Voru ekki að skora mikið á þessu móti en spiluðu samt skemmtilegan fótbolta.

    Ég verð nú samt að viðurkenna að mér fannst frekar sárt að Kuyt varð ekki heimsmeistari. Kuyt er rauður í gegn eins og hann sýndi með því að gefa sér tíma fyrir úrslitaleikinn til þess að lýsa yfir hollustu við Liverpool. Kuyt er allavega meiri púllari en Fernando Torres.

  9. uuu eru menn vissir um að þetta hafi verið tognun aftan í læri frekar en nárinn á honum eina ferðina enn?? þá er nú tognun í læri skárri !

  10. Það hefur enginn sýnt þessa hollnustu við Liv, nema Kuyt og hann er púllari í gegn segja menn. Eru þá allir hinir leikmennirnir ekki púllarar? Hvað er í gangi, slappa af og KOMA SVO LIVERPOOL. Torres fer ekki rassgat, hann er púllari í gegn.

  11. ATH.: Ég skipti myndum úr leiknum út fyrir frábærar myndir af Torres og Reina að hampa fallegustu styttu heims. Ég var allavega frekar til í að sjá þá en Robben og Iniesta á forsíðunni. 😉

    Það er ekki beint leiðinlegt að sjá Nando og Pepe undir þessum kringumstæðum. 🙂

  12. Í kvöld lauk HM 2010 í Suður Afríku með því að Spánverjar urðu sjöunda þjóð heims til að verða krýnd heimsmeistarar í knattspyrnu!

    Áttundu ekki satt?
    Úrúgvæ, Ítalía, Brasilía, Argentína, Þýskaland, Frakkland og England
    Hef tekið eftir því í útsendingum að menn eru að tala um 7. þjóðina. Er ég í ruglinu eða?

    Annars líklega verðskuldaðir heimsmeistarar en ég get ekki sagt að þeir spili skemmtilegan bolta. Þeir spila þó fótbolta sem fæst lið geta spilað en það vantar samt drápseðli eða eitthvað, þessir hæfileikaríku menn eig að geta gert betur og það er hrikalegt til þess að hugsa.

  13. ef þetta er tognun aftan í læri þá á það ekki að vera mikið meira en ca. 2 vikur, mun smávægilegri meiðsli en t.d. meiðsli Aquilani sem Benitez keypti þrátt fyrir að vitað var að hann yrði lengi frá (minnir að það hafi fyrst verið g.r.f. að hann yrði heill í október í fyrra)

  14. Þetta er allt Kolkrabbann Paul að þakka að spánn vann enda lukkudýr Spænska landsliðið og besti tippari heimi þarsem hann tippaði svo tippaði hann þeir myndi vinna fyrsta skipti á móti Þýskaland og svo tippaði hann Spánn myndi vinna HM.

    En það sem Liverpool geta verða stoltir eru það þeir hafa Fjóra Leikmenn voru í úrslitaleiknum þeir Kuyt,Torres,Reina, Babel en Man UTD og Chelseaa hafa enga leikmenn í báðum liðum sem bara flott miða við tímabil Liverpool 🙂

  15. Ánægður með okkar mann á þessari mynd enda er þetta enginn Blackpool trefill, þó var ég brjálaður þegar hann meiddist í lokin!

    (Tók myndina út, Babú, ég var á undan! -KAR)

  16. Ég er helsáttur við að Spánverjar hafi hampað titlinum þrátt fyrir að í byrjun leiks hafi ég hugsað um að hér mætist Holland sem ég hef alltaf haft dálæti á og svo auðvitað Spánn sem allir “unnendur fótbolta” hljóta að dá.

    Hollenska landsliðið féll svolítið í áliti hjá mér í kvöld, allt of mikið “dirty playing” fyrir minn smekk og því fannst mér enn sætara að sjá styttuna glæstu fara til Spánar.

    Til hamingju Nando og Pepe, þið eigið meira í þessum titli en margir gefa ykkur kredid fyrir.

    Æðisleg mynd af Nando með þennan fallega trefil, hjartað á réttum stað 😉

  17. Ég átttaði mig á því Maggi #5, en þetta stakk mig samt, svona getur verið viðkvæmt. Takk fyrir að breyta þessu.

    Líst vel á Torres með Liverpooltrefilinn. 🙂

    Góðar stundir.

  18. Ekki von á góðu ? Er ekki bara eðlilegt að svona maður sem orðinn er 23 ára og ekki nógu góður til að komast í lið eins og liverpool leiti fyrir sér annarstaðar ? Það er ekki eins og hann sé 18 !

  19. Það er vel hugsanlegt ! Samt sem áður þá hafa sumir talað um þennan dreng sem einhvern framtíðarmann liverpool.

    En jú, kaldhæðnin fór greinilega framjá mér ; )

  20. Hann er ekki að fara fet hann Torres. Hann gerði upp á bak síðasta síson hjá okkur en við fyrirgefum honum það alveg þar sem hann var svo sannarlega ekki einn um það. Þeir sem hlaupa frá skipi núna eru hvort sem er ómerkingar !

    Hann þarf pásu í 2 mánuði og koma svo sterkur inn í október og tekur 30 mörk. Hann þarf hvíld! og þegar hann sér að Mrs. Doubtfire er að gera fína hluti með liðið þá fær hann hungrið aftur.
    Maður leiksins í gær var Howard Webb sem vildi sannarlega taka eitthvert met með sér heim …

  21. Mig langar aðeins að taka upp hanskann fyrir Howard Webb sem mér þykir hafa fengið frekar óverðskuldaða gagnrýni eftir leikinn í gær, ekki síst frá Hollendingum.

    Þetta var alls ekki auðveldur leikur að dæma þar sem bæði lið spiluðu virkilega fast. Hollendingar geta þakkað Webb fyrir að hafa ekki rekið Jong utaf fyrir karate-sparkið á Alonso. Ef Webb hefði vísað Jong útaf hefði hann verið sakaður um að hafa eyðilagt leikinn og þess háttar.
    Það er alveg klárt að Hollendingar væru ekki að væla um atvikið hjá Puyol og Robben hefði Webb farið eftir bókinni og vísað Jong útaf, þar sem leikurinn hefði þróast allt öðruvísi.
    Þá áttu Spánverjar klárlega að fá vítaspyrnu í framlengunni þar sem Evertonmaðurinn gerði sig sekan um enn ein mistökin í þessum leik og braut á Xavi í spyrnunni.

    Ég tek að dómgæslan í þessum leik hafi verið ágæt og ekki komið niður á öðru liðinu frekar en hinu. Ef Holland hefði unnið væru Spánverjar að væla um rautt spjald og Jong og víti sem var sleppt. Liðin spiliðu virkilega fast og oft á tíðum mjög gróft. Þetta var ekki auðveldur leikur að dæma og ef Webb hefði átt að dæma samkv. bókinni þá hefði hann því miður þurft að eyðileggja leikinn með því að reka menn útaf snemma í leiknum.

    • Maður leiksins í gær var Howard Webb sem vildi sannarlega taka eitthvert met með sér heim …

    Ef eitthvað er þá hefði hann nú bara getað gefið fleiri spjöld í leiknum! Get allavega ekki séð að hann hafi skipt sköpum í leiknum og hvað þá dæmt frekar með Spánverjum.

    Maður leiksins getur ekki verið neinn annar en Iniesta.

  22. ekki má gleyma heldur gæfu Iniesta að fótbrotna ekki við ruddalega tæklingu Van Bommel í fyrri hálfleik, það hefði vel geta verið annar litur á því spjaldi

    síðan ætla ég að lít á þessa myndatöku Torres sem þögla yfirlýsingu um að hann ætli að vera áfram hjá félaginu 🙂

  23. Sammála einare #29 í einu og öllu. Í svona hörðum leik verða alltaf einhver vafaatriði og ég held að í heildina hafi þau alls ekki fallið neitt frekar með Spánverjum heldur en Hollendingum.

  24. Mikið svakalega var ég ánægður með að sjá Torres fagna með Liverpool trefilinn. Ég skil ekki af hverju maður efaðist um hann, enda hefur hann aldrei sjálfur sagt það að hann sé að íhuga stöðu sína hjá Liverpool. Hann er ekki að fara neitt. Maður á aldrei að taka mark á nokkru sem Daily Mail birtir. Ég þoli ekki þennan helvítis snepil. Ömurleg sorpblaðamennska.

    Ekki það að maður hafi trúað þessum snepli, en þeir hafa gengið harðast fram í að fullyrða að Torres sé á förum til Cheslea og önnur blöð hafa verið að lepja þetta upp. Ofan á það bætist að Torres var ekkert að tjá sig þannig að maður var farinn að ókyrrast.

    Vonandi er hann ekki alvarlega meiddur. Við þurfum að hafa hann heilan heilt tímabil. Ef hann spilar allt næsta tímabil þá þori ég að fullyrða það að við komumst amk í CL aftur. Bestur framherji í heimi.

  25. Smá þráðrán, en er það rétt hjá mér að það er vináttuleikur hjá Liverpool næsta laugardag?

    Eins og maður var nú hættur að vera spenntur fyrir leikjum á seinasta tímabili þá er maður orðinn nokkuð spenntur að sjá liðið undir stjórn Roy Hodgson

  26. það sem meira er að það eru bara 2 og hálf vika í fyrsta keppnisleik… 3. umferð Europa League 29. júlí held ég, spurning hvort Liverpool og Breiðablik mætist 🙂

  27. Mér finnst bara sorglega lélegt af Hollendingum að vera að míga yfir H. Webb vegna brota sem Sánverjar komust upp með, ef eitthvað þá hallaði á Spánverjana varðandi dómgæslu í leiknum.

    Að Arien Robben skuli ekki hafa komist upp með sinn ömurlega leikaraskap má flokka sem cosmíst réttlæti 🙂

  28. hey jó ég hef nú aldrei verið neinn rosalegur lucas fan en hann hefur þó batnað í áliti þó svo að ég se þeirrar skoðunar að hann er ekki nógu góður í Liverpool ef þeir ætla ser að vera í einhverri toppbaráttu. ! en mer finnst þessi frétt frekar asnaleg er maðurinn ekki metinn á soldið meira en 5 milljónir þetta er ágætis miðjumaður sem gæti verið frekar góður í seria A http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=94190
    og þeir seigja að tilboðið hafi ekki einu sinni verið svo hátt ! mitt svar væri hvað ertu að bulla hættu þessu flippi !

  29. Merkilegt að samkvæmt fregnum af hugsasanlegum sölum á Insua og Lucas Leiva hefur nýr framkvæmdastjóri ekkert um þær að segja þó hann vilji gjarnan hafa þá báða áfram. Purslow sér um samningana en fróðlegt væri að vita hver tekur ákvörðun um sölu leikmanna í dag. Einhver sem veit hvernig því er háttað eftir brotthvarf Benitez?

  30. Elvar 34#
    Ég er hálf hissa á þessu væli í Benayoun. Ef Benitez var svona slæmur, afhverju biður hann þá um sölu eftir að hann er rekinn? Ég er þeirrar skoðunar að hann hefði eflaust mátt spila meira, en efast að hann fái það hjá Chelsea.

  31. Nr 41, kanski að kynna sér málið betur ? Það var búið að ganga frá sölunni á Yossi áður en Rafa fór , meira að segja skv viðtalinu við Yossi kemur fram að Rafa hafi tekið hann til hliðar í lok tímabils og sagt honum að leita að nýju liði.

  32. Jovanovict kominn með númerið 10 hjá Liverpool.
    Sá þetta á lfc.tv og fannst nokkuð merkilegt sem sagði í greininni þar.

    “New signing Milan Jovanovic has been handed the famous No.10 shirt after completing his transfer from Standard Liege.
    The number has previously been worn by Anfield legends like John Barnes, Terry McDermott, Jan Molby, Luis Garcia and John Toshack.”

    Greinilegt að menn ætla ekki að flokka Owen í hóp “legenda” þar á bæ sem er í sjálfu sér ekkert skrýtið.

  33. Sammála Hafliði 38 fáránlegt væl um að dómgæslan hafi ekki verið á heimsmælikvarða, hann skítur eiginlega sjálfan sig í fótinn, því það sama má segja um hans afgreiðsu einn á móti markverði 🙂

    • Greinilegt að menn ætla ekki að flokka Owen í hóp “legenda” þar á bæ sem er í sjálfu sér ekkert skrýtið.

    Hverjum ætti að detta slík fásinna í hug? Orðið legend er ansi ofnotað en það er nú andskotnn ekki búið að sóa því svona illa ennþá.

  34. og er Voronin ekki legend?

    Annars er alveg ljóst að næstu 2-3 vikurnar fara að tikka inn fréttir af okkar mönnum. Meiðsli Torres eru slæm, hann verður eflaust ekki klár í slaginn fyrr en um miðjan september sem þýðir að Hodgson þarf þarf þarf að kaupa öflugan senter. Ekki séns að spila með Kuyt og Babel á toppnum eða Kuyt og NGog. Annars merkilegt að heyra þá HM-félaga tala um að 4-4-2 sé dautt kerfi, vonandi nær Hodgson og okkar menn að afsanna það í vetur.

    Webb átti ekki besta dag sinn á sunnudaginn en það hallaði alls ekki á Hollendinga, þeir máttu teljast heppnir að fjúka ekki fleiri út af.

  35. Hvað finnst mönnum um Paul Scharner? Ég held að hann gæti verið ágætis viðbót við hópinn til að auka breiddina í liðinu. Hann hefur verið með betri mönnum Wigan undanfarin tímabil og getur spilað bæði í vörninni og á miðjunni. Ekki verra að fá hann heldur á Free Transfer.

  36. Torres frá í tvo mánuði.

    Torres er með allra bestu leikmönnum Liverpool frá upphafi og þá er mikið sagt. En hann er alltaf meiddur og þá eru lítil not fyrir hann. Það væri hægt að selja hann fyrir háar upphæðir. Það kemur ekki til greina í mínum huga, því þetta er 99,999999999999999999% leikmaður, fyrirliðatýpa, heldur með Liverpool og er með þeim betri í heiminum þegar hann er heill.

    Það sem þarf að gerast er að Liverpool haldi honum innan liðsins en hvíli hann og noti hann ekki of snemma. Gefi honum með öðrum orðum tækifæri að jafna sig almennilega.
    Það sem þarf líka að gerast er að það verði keyptiur almennilegur framherji með honum. Sem þýðir að hægt sé að hvíla hann meira, sem vonandi kemur í veg fyrir meiðsli.
    Kyut gæti fyrir mína parta farið á toppinn í skipulaginu hans Hodgson og þá þarf einn gæða framherja í viðbót í staðinn fyrir tvo.

HM 2010: Úrslitin ráðast

Stöðumat: Framsæknir miðjumenn