Stöðumat: Vinstri kantur

Vinstri kantur

Þá er röðin komin að hinni marg umræddu stöðu vinstri kantara hjá okkar mönnum. Við höfum séð fjölmarga leikmenn spila þessa stöðu og í mínum huga hefur aðeins einn leikmaður náð að festa sig almennilega í sessi í henni og það var Albert Riera tímabilið 2008-2009. Því miður þá missti hann höfuðið af búknum á síðasta tímabili og því hafa Babel, Yossi, Maxi og Kuyt fyllt upp í. Ég er á því að það séu 3 stöður sem þarf virkilega að styrkja í liðinu og er þessi staða ein þeirra. Við erum með nokkra efnilega kjúklinga, en þeir eru bara ennþá kjúllar og ég efast um að Bruna hafi nægilega mikil gæði til að geta farið að banka upp á dyrnar. Við sjóndeildarhringinn er þó hinn bráðefnilegi Thomas Ince og verður gaman að fylgjast með honum með varaliðinu í vetur. Styrkja þessa stöðu Roy, takk fyrir.

Núverandi vinstri kantar (nafn, aldur, land):
Albert Riera, 28, Spánn
Ryan Babel, 23, Holland
Gerardo Bruna, 19, Argentína
Alex Kacaniklic, 18, Svíþjóð
Vincent Weijl, 19, Holland
Thomas Ince, 18, England

Ég vil byrja á því að líma frímerki á botninn á Riera, í mínum huga á hann einfaldlega ekki afturkvæmt og skiptir engu máli hvort menn séu sammála innihaldi viðtals hans eða ekki. Hann er algjörlega og gjörsamlega búinn að fyrirgera rétti sínum til að spila í þessari fallegu treyju aftur. Babel er stórt spurningamerki, finnst líklegast að Roy gefi honum séns á að sýna sig og sanna. Ég er ennþá á því að hans besta staða sé á vinstri kantinum, þar hefur hann spilað sinn feril (vinstri kantur eða vinstri kantframherji) með Ajax, Hollandi og svo Liverpool. Hann þarf hreinlega bara að fara að sýna meira af sínum hæfileikum þegar hann fær tækifæri í leikjum. Það vita allir að þessir hæfileikar eru til staðar, en nú þarf hann að nýta þá inni á vellinum og sýna smá stöðugleika.

Ég sé alveg fyrir mér að þeir Bruna og Weijl verði lánaðir eitthvað annað og jafnvel seldir. Það búa hæfileikar í þeim, en verandi orðnir 19 ára gamlir (Weijl 20 á þessu ári) þá er komið að þeim tímapunkti að þeir verða að taka næsta skref upp á við og ég reikna með að það gerist ekki með því að leika þessa örfáu varaliðsleiki sem eru á hverju tímabili. Kacaniklic fellur nánast í sama flokk reyndar, hef litla trú á honum og yrði ekkert hoppandi hissa að sjá hann fara, annað hvort á láni eða beinni sölu.

Einn kostur bætist þó við þessa stöðu, Milan Jovanovi?. Hann er nú yfirleitt titlaður sem framherji, en við sáum vel á HM núna að hann er hörku góður í vinstri kantstöðunni, en hann spilar hana oftast fyrir Serba.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Paulo Ganso, 20, Santos, Brasilía
Miralem Sulejmani, 21, Ajax, Serbía
Carlos Eduardo, 22, Hoffenheim, Brasilía
Sebastian Blanco, 22, Lanús, Argentína
Diego Capel, 22, Sevilla, Spánn
Juan Manuel Mata, 22, Valencia, Spánn
Andrés Guardado, 23, Deportivo, Mexíkó
Arda Turan, 23, Galatasaray, Tyrkland
Hatem Ben Arfa, 23, Marseille, Frakkland
Roysten Drenthe, 23, Real Madrid, Holland
Ashley Young, 24, Aston Villa, England
Michel Bastos, 26, Lyon, Brasilía
Andy Reid, 27, Sunderland, Írland
Vicente, 28, Valencia, Spánn

Ég er á því að þetta sé einn allra mest spennandi listi yfir möguleg kaup. Það kom mér hreinlega á óvart hversu margir skemmtilegir leikmenn eru að jafnaði að spila þessa stöðu og ekki í stærri liðum en raun ber vitni. Í alvörunni, þá finnst mér hreinlega raunhæft (svo framarlega að fréttir séu réttar) að við gætum bætt þessa stöðu okkar um ferlegan helling. Svona yrði óskalistinn minn, í réttri röð:

Juan Manuel Mata: Ég er alveg fáránlega hrifinn af þessum leikmanni, myndi hoppa hæð mína í loft (í rifnum inniskóm) ef við næðum að næla í þennan kappa. Líklega er hann “out of reach” fyrir okkar buddu, myndi telja að hann færi á einhverjar 25 milljónir punda.

Ashley Young: Ég set Young í annað sætið, sér í lagi þar sem hann er enskur, en mér finnst hann líka ferlega skemmtilegur leikmaður og ég skil ekki af hverju England fór ekki með kappann með sér á HM. Ég held þó að það gæti orðið erfitt að næla í hann frá Aston Villa.

Arda Turan: Hann fær auðvitað stórt prik fyrir að lýsa því trekk í trekk yfir að hann langi svo að spila með þessu magnaða félagi okkar. Þar fyrir utan er þetta einn sá besti sem komið hefur upp í Tyrklandi og er bara virkilega góður og framsækinn leikmaður. Hann verður ekki ódýr frekar en aðrir góðir kappar á þessum lista. Gæti trúað að hann kæmi á 15-20 milljónir punda.

Michel Bastos: Virkilega öflugur Brassi, sem sýndi það á HM að hann getur líka leikið í vinstri bakverðinum. Gæti orðið fjandanum erfiðara að næla í hann frá Lyon þó. 25 milljónir punda líklega.

Roysten Drenthe: Babel-ish leikmaður að því leiti að hann er yfirfullur af hæfileikum, en hefur ekki alveg náð að virkja þá. Er orðinn utangátta hjá Real Madrid og kannski einn raunhæfasti kosturinn í þessa stöðu. Eins og með Bastos hér að ofan, þá getur hann leyst allar stöður á vinstri vængnum. Gæti trúað að hann fengist á rétt innan við 10 milljónir punda. Margir hafa þó sett spurningamerki við karakter pilts, en það eru líka svo oft rangar sögur á kreiki um þessa fótboltakappa.

Hatem Ben Arfa: Hörkugóður leikmaður, sókndjarfur og leikinn. Hann hefur verið mikið orðaður við England í gegnum tíðina, en aldrei tekið það skref. Það styttist í það, en meistarar Marseille hafa eflaust hækkað verðmiðann verulega á honum eftir síðasta tímabil. Væntanlega yrði að reiða fram eitthvað í kringum 20 milljónir punda fyrir hann.

Diego Capel: Capel er síðastur á þessum upptalningarlista mínum yfir þá leikmenn sem ég vil helst sjá keypta í sumar. Virkilega flinkur kantmaður sem ég er verulega spenntur yfir. Sevilla hefur verið að byggja svolítið upp í kringum pilt, en hann mun pottþétt fara frá þeim fyrr en síðar. Líklegast þarf að greiða yfir 20 millurnar fyrir hann.

Ég væri sem sagt nokkurn veginn hæst ánægður ef bara einhver af þessum framantöldum kæmi til liðs við okkur. Aðrir á listanum eru meira spurningamerki. Paulo Ganso þykir gríðarlegt efni, en væri að koma beint frá Brasilíu og hinir eru ekki þekkt nöfn, þykja ákaflega efnilegir, en spurning um aðlögun og slíkt. Svo koma “ellismellirnir” tveir, sem ég setti á listann ef vera skyldi að budget-ið hjá Roy væri sama og ekkert. Andy Reid er flinkur leikmaður, en ég myndi ekki segja að hann væri í hinum margumtalaða Liverpoolklassa. Vicente var algjör háklassaleikmaður fyrir nokkrum árum, er samt bara 28 ára gamall í dag, en vegna meiðsla þá hefur hann ekki orðið jafn “stór” og maður bjóst við.

Eitthvað segir mér að það verði Arda Turan sem kemur til okkar í sumar, með það yrði ég glaður og þá færum við inn í tímabilið með öflugan vinstri væng.

Vinstri kantmenn 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Arda Turan, 23, Tyrkland
Milan Jovanovi?, 29, Serbía
Ryan Babel, 23, Holland
Gerardo Bruna, 19, Argentína
Alex Kacaniklic, 18, Svíþjóð
Thomas Ince, 18, England

Þarna er komin góð breidd þó nokkuð ólíkra leikmanna. Turin þessi léttleikandi týpa með góðan vinstri fót, Jovanovi? er skriðdreki sem er mjög direct í sínum leik, og svo er það hann Babel okkar, hann er…jú bara Babel og vonandi á hann eftir að blómstra í vetur, í sama hvaða stöðu hann verður settur. Klukkan hans tifar, tifar hraðar og hraðar.

Næst mun ég fara yfir stöðu framliggjandi miðjumanna hjá Liverpool FC.

13 Comments

 1. það vill oft gleymast að Kewell átti líka tvö flott tímabil á vinstri vængnum 03/04 og 05/06 á milli þess sem hann hélt sjúkraþjálfarateymi liðsins í yfirvinnu…

  þá mundi ég frekar halda Riera en Babel, þrátt fyrir afglöp Riera (btw finnst twitter ævintýri Babel ekki síður bjánalegt)… mundi vilja bæta Joe Cole á listann, þrátt fyrir að hann haldi sig væntanlega í London og endi hjá Spurs eða Gunners og segist vilja spila meira central en hjá Chelsea. Jafnvel má nefna Podolski og treysta á að hann nái að yfirfæra frammistöðu sína með landsliðinu yfir á félagslið… hversu raunhæft er að fá hann veit ég þó ekki.

 2. Já Jónsi, var nú eiginlega að meina af þeim leikmönnum sem núna eru hjá félaginu. Af þeim er Riera sá eini í mínum huga sem hefur virkað sannfærandi í stöðunni.

  Persónulega finnst mér stór munur á afglöpum Babel og Riera. Hérna eru ummæli Babel á Twitter, hann drullar ekki yfir Liverpool FC, ólíkt hinum, og hefur svo beðist afsökunar á því að fara með þetta á Twitter.

 3. Riera verður ekki látinn fara nema viðunnandi tilboð berist og blöðin hafa ritað að Hodgson muni ekki láta þetta útspil Riera frá í vetur hafa nokkur áhrif. Svo maður vonar að Hodgson blási í hann lífi, rétt eins og hann gerði með Damian Duff. Getan er til staðar hjá Riera.

 4. Núna er Milan kominn til Liverpool og því mun hann sennilega eigna sér þessa stöðu nema hann verði frammi og þá eigum við Babel og Riera eftir.
  Ég sé ekki mikla þörf á nýjum manni þarna inn, en þetta fer auðvitað allt eftir því hvaða leikkerfi Hodgson kemur til með að spila.
  Hann mun væntanlega nota Torres þar sem hann er jú okkar langbesti maður og svo er spurning hvort að Babel eða Milan muni spila með honum.
  Svo gæti Hodgson lika spila 4-3-3 með Torres, Milan og Babel frammi.
  Og á miðjunni með Aquilani, Gerrard og Mascherano.

 5. Ég held að þörfin fyrir vinstri kantmann fari svolítið eftir hvort Riera verði seldur eða ekki. Verði hann seldur, þá þarf að mínu mati að styrkja þessa stöðu. Annars erum við Ágætlega staddir þar sem Rodriguez getur líka spilað þessa stöðu.

 6. Held að það væri tilvalið að senda Riera í lán… á góðan togara í Smuguna í svona 6 mánuði.
  Ef ekki það þá selja þennan að því er virðist skítakarakter í burtu sem allra fyrst.

 7. Þess má líka geta að hinn heittelskaði Dirk Kuyt, eitt af heimsmeistaraefnum okkar, spilar í og með vinstra megin hjá Hollendingum. Allavega hefur hann nokkuð oft sést á þeim kanti. Ég er ekki frá því að hann sé mun betri þar ef hann fær öflugan overlappandi bakvörð með sér. Hann á auðveldara með að spila vinstra megin en hægra megin sem “inn-á-við-leitandi-kantmaður”. Hægri fótar maður á hægri kanti þarf að geta komist framhjá bakverðinum og þess vegna hentar Kuyt illa þeim megin. Hann getur hins vegar með smá plássi gefið fína krossa eins og sást glöggt gegn Uruguay.

 8. Jovanovi?, Babel, Maxi og Durasel kanínan eru þarna til að skipta með sér þessum tveim framherjastöðum sitt hvoru megin við Torres.
  Alveg sammála Ívari með Kuyt, hann virkaði vel á mig vinstramegin hjá Hollendingum. Síðan geta allir þessir leikmenn leikið beint frammi með Torres í 4-4-2 en mér hefur skilist að það sé leikkerfið sem Hodgeson aðhillist helst.
  …..veit ekki alveg hvað ég er að fara með þessu, en mig er aftur farið að hlakka pínu til leiktíðarinnar 🙂

 9. Er þessi Jovanovic vinstri kantmaður? Er hann ekki meira í líki kraftsenters ( ég viðurkenni að ég veit lítið um hann). Finnst hann bera sig þannig að hann sé frekar hægur, stór og sterkur. Er það einhver vitleysa?
  Er þetta þá ekki vinstri kantmaður í líki Kuyt frekar en David Silva t.d. ?

 10. Menn gera að því skóna hér að Hodgon ætli ekki að nota Gerrard frammi. Samkvæmt því ætti Gerrard að fara aftur í sína stöðu á miðjunni. Þá er ég nú ekki viss um að hann nýtist nógu vel með Aqualini, þeir séu einfaldlega of líkir og báðir sókndjarfir. Held að miðjan væri bara býsna flott með Aqualini og Lucas saman þar, eða Masch ef hann fer ekki, og þá Luca í back up.

  Þá kannski er kominn upp sú staða að fara að spila Gerrard úr stöðu einu sinni enn og þá á vinstri kant.

  Sprurning um að setja hann bara í vinstri bak ; )

 11. Jóhann #9, einn af mestu kostum hans er einmitt hraði. Allavega var ég afar hrifinn af því sem ég sá á HM frá honum og allt sem maður hefur lesið sér til um hann, þá er alltaf talað um hversu snöggur hann sé.

 12. @Steinn, ég veit ekki um það sá ekkert til hans á HM en finnst hann engan veginn bera það með sér að vera snöggur. En þetta eru bara fordómar af minni hálfu þar sem ég þekki ekkert til hans.

 13. Orð sem hafa verið sögð um hann af þeim sem þekkja vel til hans sem leikmanns eru “He is very explosive” og eins var einn blaðamaður í Belgíu spurður um hann:

  But what about the player himself? What are his main attributes?

  Well he has a magical left foot, a wonderful ability to dribble and, of course, his main quality – speed.

Slúður – Torres og fleira

Kop.is á LFChistory.net