Næsti stjóri?

Núna höfum við farið aðeins yfir brotthvarf Rafa Benitez og verðum líklega að því með einum eða öðrum hætti í sumar. Eins er búið að fara yfir skoðanir manna á eigendunum og stjórnarmönnum eða í það minnsta búa til þráð sem tekur á því.

Þessa færslu langar mig að tileinka þeim sem við teljum sem mögulega arftaka Benitez. Núna er þetta orðið staðreynd, Liverpool FC þarf nýjan stjóra og stóra spurning þessa mánaðar verður einfaldlega hver?

Núna er reyndar alls ekki vitað hversu mikið aðdráttarafl Liverpool hefur, aðstæður eru að því er virðist allt annað en glæsilegar þegar leggja á upp í leit að nýjum stjóra á eitt stærsta félag í heiminum, allar íþróttir með taldar. Kenny Dalglish og Christian Purslow fronta þessa leit að nýjum arftaka og við skulum nú gefa okkur að þeir hafi fengið eitthvað meira til að vinna úr og bjóða heldur en gefið hefur verið upp í fjölmiðlum, enda virðist stefnan hjá klúbbnum vera að leka aðeins því allra neikvæðasta í blöðin í einni innanhúspólitíkinni eða annari.

Með það að leiðarljósi að eitt stærsta félag í heimi hafi ennþá töluvert aðdráttarafl ætla ég að brainstorma yfir þau nöfn sem manni dettur helst í hug eða hafa verið í umræðunni. Endilega takið svo þátt í ummælum, engin hugmynd  er of vitlaus, ekki meðan við erum að tala um reyndan mann og raunverulega kosti. Reynum þó að halda þessu gáfulegu og að mestu laust við svona Gauja Þórða hugmyndir sem eru alltaf jafn ógeðslega fyndnar.


Þeir sem maður getur séð fyrir sér sem mjög líklega kosti:

Martin O’Neill

Þau verða ekki mörg tækifærin sem O´Neill mun fá til að taka við einum af stærstu klúbbunum í Evrópu og ef honum býðst að taka við Liverpool yrði ég afar hissa á að sjá hann segja nei við því. Hann var frábær hjá Leicester er hann var að koma upp sem stjóri, vann deildarbikar með þeim, kom þeim eins langt og hægt var og er svo góður man managment stjóri að Stan Collymore eitt heimskasta eintak jarðar elskar hann og Emile Heskey blómstraði undir hans stjórn, í den.

Hjá Celtic var hann í stórum klúbbi og þeir unnu Rangers á meðan, en meiri var samkepppnin ekki. Það er alveg pointless að þjálfa í Skotlandi fyrir svona stórt nafn. Hjá Aston Villa hefur hann náð að byggja upp mjög sterkt lið sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Þeir virðast þó vera eins hátt í töflunni og þeir komast og sama hvernig þið lítið á þetta þá er Aston Villa bara ekki neitt Liverpool og verður vonandi aldrei.

Sem leikmaður var hann t.d. fyrirliði Nottingham Forrest og varð Evrópumeistari með þeim ásamt því að eiga mjög marga landsleiki fyrir Norður Íra. Stjórinn hans hjá Forrest og eitt af hans aðal átrúnaðargoðum var auðvitað goðsögnin Brian Clough og er O´Neill einn af fáum sem Clough gamli drullar ekki yfir í ævisögu sinni.

O´Neill hefur náð að byggja upp gríðarlega sterkt nafn í Englandi og það yrði ekkert rosalegt sjokk ef hann yrði ráðinn. Hann er líka ágætur að gera mikið fyrir lítið og því draumur eigenda Liverpool að því leiti. En það sem vinnur gegn honum er að hann er alls ekki eins þekktur fyrir utan England og ég sé ekki stjörnur La Liga og Seria A (o.s.frv.) sannfærast um að koma að spila undir hans stjórn. Það er samt ekkert sem á að horfa of mikið í enda hafa margir verið mun grænni á bak við eyrun og með minni sambönd er þeir tóku við stórum liðum í sínu heimalandi.

Þar fyrir utan vill O´Neill að því er virðist helst versla breta sem yrði ekki óvinsælt í Liverpool borg og eins yrði hans leikstíll enginn voðaleg bylting fyrir Liverpool liðið.

Viðurkenni að áður en ég byrjaði að skrifa um hann þá leyst mér verr á hann heldur en eftir að hafa sett þetta svona niður! Samt notaði ég engar heimildir nema það sem ég veit fyrir um hann!

Við gætum gert mun verr en að fá hann, kenna honum smá squad rotation og við erum á grænni grein enda hefur Villa jafnan verið bensínlaust eftir 3/4 hluta mótsins.

Didier Deschamps

Sjálfur er ég ekki mikill aðdándi Frakka almennt, en Deschamps er klárlega undantekning sem ég væri til í að skoða að fá til Liverpool. Hann er auðvitað stjóri Marseille í heimalandinu en gæti alveg eins viljað komast í ensku úrvalsdeildina.

Feril hans þarf ekkert mikið að ræða, frábær leiðtogi hjá öllum sínum liðum og gríðarlega virtur í Frakklandi (og víðar) enda fyrirliði liðsins er þeir urðu heimsmeistarar 1998 og Evrópumeistarar 2000. Lék með Marseille þegar hann var ungur og varð m.a. yngsti fyrirliði til að lyfta evrópumeistaratitlinum er Marseille vann 1993. Hann fór þaðan til Juventus og var í fimm sigursæl ár. Þaðan fór hann til Chelsea og varð bikarmeistari og hann endaði svo ferilinn hjá Valencia sem komst í úrslit CL það ár.

Sem þjálfari byrjaði hann með látum og tók sitt fyrsta lið, Monaco alla leið í úrslit CL 2004 þar sem þeir töpuðu fyrir Jose Morinho og Porto, árið áður unnu þeir frönsku deildina. Eftir það fór hann til Juventus og reif þá upp úr Seria B en var snöggur þaðan eftir ósætti við stjórnina hjá Juve. Í fyrra tók hann við Mareille þar sem hann er núna. Það þarf varla að taka það fram að á hans fyrsta tímabili unnu þeir deildina, fyrsti titill Mareille í 18 ár.

Þessi drengur er bara fáránlegur winner, svona nagla vill ég sjá hjá Liverpool næst og hef fulla trú á honum. Hann tikkar í flest öll boxin hjá manni, er nokkuð ungur og ferskur en samt með fína reynslu hjá nokkuð stórum klúbbum. Er með sambönd út um allann knattspyrnuheiminn og það er erfitt að finna mann sem hefur áunnið sér meiri virðingu í fótboltaheiminum.

Helsti gallinn sem ég sé er að hann hætti hjá Monaco eftir ósætti við stjórn félagsins og hann hætti líka hjá Juventus eftir ósætti við stjórnina þar!! Þeir meira að segja reyndu að fá hann aftur í fyrra. Miðað við það þá þyrfti kraftaverk til að hann sé ekki nú þegar kominn upp á kant við stjórn Liverpool, jafnvel þó þeir hafi ekki einu sinni talað við hann.

Slaven Bilic

Algjört wild card og gjörsamlega reynslulaus þegar kemur að því að stýra félagsliði, hvað þá mjög stóru félagsliði. Engu að síður hefur maður það á tilfinningunni með Bilic að hann hafi þennan X-factor sem þarf til að verða farsæll stjóri og hann er klárlega einn allra allra efnilegasti stjórinn í boltanum í dag og það er í raun bara tímaspursmál þar til hann tekur við stórum klúbbi.

Hann er auðvitað núna þjálfari Króata og hefur vakið athygli þar, sló t.a.m Englendinga eftirminnilega út á Wembley fyrir EM. Þar áður var hann með U-21 árs lið Króata.

Sem leikmaður var hann að mestu í miðlungsliðum á Englandi (Everton, West Ham) og í Þýskalandi en var engu að síður alltaf talinn mjög góður miðvörður og alveg hreint snar geðveikur. Fékk ansi oft gul og rauð spjöld og kallaði ekki einu sinni ömmu sína ömmu sína.

Það segir kannski smávegis um karakterinn að mjög fljótlega eftir að hann kom til Karlshrue í Þýskalandi var hann gerður að fyrirliða, fyrsti útlendingurinn til að vera fyrirliði í Bundeslígunni.

Sem þjálfari grunar manni að honum sé alveg nákvæmlega sama um hversu stórt nafn hann er að díla við og ég efa að hans leikmenn séu mikið að mótmæla honum.

Ég er ekki að segja að ég vilji sjá hann taka við Liverpool, en furðulegri hlutir hafa gerst og það er ekkert víst að það myndi klikka.

Manuel Pellegrini

Hef hann með þó ég efi stórlega að hann sé eitthvað sem verið er að horfa til. Hann er frá Chile og spilaði allann sinn feril í Chile. Er hann fór út í þjálfun byrjaði hann í heimalandinu en fór seinna til Aregntínu og vann t.d. titilinn með River Plate og San Lorenzo.

Árið 2004 fór Pellegrini í La Liga og til Villareal, lið sem er ekki mjög stórt á spænskan mælikvarða en var afar sterkt flest öll árin undir stjórn Pellegrini. Fyrsta tímabilið hans á Spáni enduðu þeir í þriðja sæti í deildinni og komust í 8-liða úrslit í UEFA Cup. Árið eftir voru þeir í meistaradeildinni en  féllu úr leik fyrir Arsenal. Síðasta tímabil sitt með Villareal náðu þeir öðru sæti í deildinni og komust í 16 liða úrslit í CL þar sem þeir féllu aftur út fyrir Arsenal.

Þetta var auðvitað nóg til að hann væri gjaldgengur í Real Madríd og fékk hann óvenju langan tíma þar, heilt tímabil!!! Það verður þó ekki litið hjá því að í Real tók hann við ….já Real fokkings Madríd, bætti við það Kaka, Ronaldo, Alonso, Benzema og fleirum á einu bretti og vann ekki baun í bala.

Bara get ekki sagt að ég vilji fá hann á Anfield.

Jürgen Klinsmann

Þrátt fyrir að hafa ekkert til saka unnið þannig séð hjá Liverpool er hann bara of óvinsælt val til að geta talist raunhæfur kostur. Eigendunum hefur aldrei verið fyrirgefið að tala við hann er Benitez var ennþá stjóri Liverpool og ekki var árangur hans hjá Bayern að byggja upp miklar væntingar um að fá hann.

Hann var engu að síður mjög flottur sem þjálfari Þjóðverja og spilaði fótbolta sem við myndum alveg vilja sjá okkar menn spila. Hann þekkir vel til á Englandi eftir veru sína hjá Spurs og talar ensku mjög vel.

Hann er þó búsettur í Bandaríkjunum núna og það er erfitt að sjá hann fyrir sér fara frá Kaliforníu til Liverpool eins og staðan á liðinu er í dag.

Klinsmann ætti að vera mjög spennandi kostur, en eins og er núna efa ég að hvorki hann né aðdáendur Liverpool hafi áhuga á því að fá Klinsmann á Anfield.

Michael Laudrup

Einn flottasti leikmaður sem spilað hefur þessa íþrótt, einn besti erlendi leikmaður sem spilað hefur á Spáni og á topp 10 yfir það besta sem komið hefur frá Danmörku (á eftir Carlsberg t.d.).

Sem þjálfari byrjaði hann 36 ára sem aðstoðarstjóri Morten Olsen sem var með danska landsliðið. Þeir spiluðu svipað og Ajax, síðasti klúbbur Laudrup, 4-2-3-1 með fljóta kantmenn og stutt spil sem byggist upp á því að stjórna leiknum og sækja.

Stuttu seinna tók hann við Bröndby og hristi vel upp hjá þeim, lét nokkra sleða hverfa og fékk inn unga og spræka skapandi leikmenn. Það virkaði vel og Bröndby fór að spila flottann bolta (þó FCK sé auðvitað frekar málið, allann daginn).

Árið 2007 tók hann við Getafe, þriðja liðinu í Madríd og breytti leikkerfinu í mun meira free flowing sóknarbolta sem var að virka vel og komst þetta skemmtilega Getafe lið í úrslit í bikarnum og undanúrslit í UEFA Cup þar sem þeir töpuðu í vító fyrir Bayern.

Hann hætti heinsvegar eftir bara eitt tímabil hjá Getafe og tók Bernd Schuster við keflinu hjá Getafe og endaði hjá Real í kjölfarið. Síðan þá hefur hann verið orðaður við flest öll lið sem ætla að ráða þjálfara og tók meira að segja við Spartak Moskva í Rússlandi en tókst ekki að gera neitt að viti þar og var rekinn.

Það er alls ekki mikil reynsla kominn á hann sem stjóra og alls ekki hjá stórliði, eins er ekki mikið vitað um karakterinn en mig grunar að hann myndi ekki vinna lengi með Gillett og Hicks allavega.

Væri engu að síður spennandi kostur og stendur fyrir fótbolta sem væri afar velkominn á Anfield.

Felix Magath

Þar sem búið er að prufa frakka og spánverja hlítur að vera komið núna að þjóðverja eða ítala til að taka við klúbbnum! Er það ekki einföld stærfræði bara?

Sjálfur væri ég gríðarlega spenntur fyrir því að fá Magath enda frábær stjóri og afar sigursæll í heimalandinu. Hann gæti líka alveg verið til í nýja áskorun í nýju landi enda á hann ekki eftir að gera mikið með Schalke sem hann hefur ekki gert áður í Þýskalandi.

Magath var helst þekktur sem leikmaður fyrir feril sinn hjá Hamburg þar sem hann spilaði í 10 ár og var m.a. evrópumeistari með þeim. Sem þjálfari ávann hann sér fyrst virðingu fyrir dvöl sína hjá Stuttgart þar sem hann tók við vængbrotnu liði 2001 en byggði fljótt upp ungt og ferskt lið sem varð í öðru sæti tímabilið 2002-03.

Í Þýskalandi er sama lögmál og á Spáni og í hvert skipti sem þjálfari gerir góða hluti endar hann fyrr en seinna hjá FC Bayern (Real á Spáni). Þanngað fór okkar maður 2004 og varð að ég held fyrsti maðurinn til að vinna tvennuna tvö ár í röð! Árið eftir endaði Bayern í 4.sæti í deildinni og gáfnaljósin hjá Bayern ráku hann enda komst liðið ekki í meistaradeildina. Skandall og atburðarrás sem við ættum að kannsat við.

Magath fór því til Wolfsburg sem seint verður talið stærsta eða mest spennandi liðið í Þýskalandi, þar náði hann fínum árangri fyrsta árið, sérstaklega í evrópukeppninni og seinna árið gerði hann sér lítið fyrir og vann Bayern og raunar öll hin liðin í deildinni er hann gerði Wolfsburg, af öllum liðum, að meisturum. Það var í fyrsta skipti í sögu þess ágæta félags sem það gerðist.

Enginn bjóst við þessum árangri hjá Wolfsburg, þeir þar með taldir og var Magath búinn að skrifa undir samning um að taka við Schalke eftir tímabilið. Afar heimskulegt en ekki óvanalegt í Þýskalandi.

Sem sagt þetta er eitt af mest spennandi nöfnunum “í boði”. Hann er þekktur sem rosalegur harðstjóri og hefur haft nickname eins og Hussein í Þýskalandi. Hans lið æfa svakalega mikið og eru í standi og eins og CV-ið segir þá ná þau árangri.

Við gætum gert marga mun verri hluti heldur en að gefa honum tækifæri. Hef samt ekki hugmynd um það hvort hann sé eitthvað inn í myndinni.

Ýtið á lesa meira til að sjá afganginn af færslunni

Guus Hiddink

Nenni varla að ræða Hiddink sem möguleika enda er hann meira í landsliðaboltanum núna og var bara í þessari viku að taka við Tyrkjum. Hann er líka 63 ára og því ekki beint spennandi framtíðarlausn fyrir félagið.

En Hiddink er annars auðvitað eitt af al stærstu nöfnunum sem eru að starfa við þjálfun í dag og hefur bæði þjálfað stórlið og eins minni landslið með ótrúlegum árangri.

Ef þú kemur Suður Kóreu í undanúrslit á HM þá ertu fokkings maðurinn, það er bara þannig.

Sé hann ekki fyrir mér á Anfield.

Roy Hodgson

Svipað með hann og Hiddink, hann er 62 ára og aldrei mikil framtíðarlausn hjá svona krefjandi klúbbi eins og Liverpool. Ef við værum stórt lið í Svíðþjóð eða Sviss væri hann mest spennandi kostur í heimi með frábæran árangur með bæði þarlend félagslið og nokkur minni landslið.

Það er samt ekki nóg að mínu mati og þó þetta sé flottur stjóri og árangur hans hjá Fulham sé frábær þá hef ég ekki minnsta áhuga á að fá hann á Anfield.

Frank Rijkaard

Tel hann með hérna líka þar sem hans nafn virðist koma svolítið upp í umræðunni. Hef þó ekki minnsta snefil af áhuga á að fá Rijkaard til Liverpool og hef í raun aldrei fýlað þennan karakter. En það er erfitt að neita því að hann tikkar sannarlega í öll réttu boxin líka og er alls ekki ólíklegur kostur.

Sem leikmaður var hann einn besti í heiminum á sínum tíma, spilaði sem miðvörður í fyrstu en fór upp og varð svakalegur sem djúpur miðjumaður er hann kom til AC Milan. Þar var hann í fimm ótrúleg ár í einu besta liði sögunnar og eins var hann auðvitað magnaður í Hollenska landsliðinu þar sem hryggsúlan var af dýrari gerðinni, Koeman, Rijkaard, Gullit og Van Basten!!

Sem þjálfari var hann fyrst aðstoðarstjóri landsliðsins og tók síðan við liðinu árið 1998.og kom liðinu í undanúrslit á EM 200o þar sem þeir féllu úr leik eftir vító gegn Ítalíu. Liðið var búið að spila skemmtilegasta boltann á mótinu en Rijkaard sagði af sér strax eftir mót!

2001 – 2002 var hann með Spörtu sem er elsta lið Hollands, það lið var í tómu bulli og féll það tímabil. Í kjölfarið fór Rijkaard til Barcelona og kom inn á svipuðum tíma og John Laporta tók við forsetaembætti þar. Barca hafði verið í lægð árin á undan og fyrsta tímabilið fór í uppbyggingu þar. Hann byggði smátt og smátt upp stórskemmtilegt lið í kringum Ronaldinho og fékk t.a.m. Deco og Eto´o í það dæmi líka.

Liðið spilaði stórskemmtilega árið 2005 og ári seinna stýrði hann Barca til sigurs í Meistaradeildinni og komst þar í fámennan flokk yfir menn sem hafa unnið þá keppni sem bæði þjálfari og leikmenn.

Hann hætti svo hjá Barca eftir tímavilið 07/08 og virtist vera kominn á endastöð með það.

Núna er hann hjá Galatarsaray í Tyrklandi.

Rijkaard vill spila fótbolta í anda Rinus Michel og hefur verið að láta lið sín spila flottann og árangursríkan bolta sem ætti að falla vel í kramið á Anfield.

Þannig að Rijkaard ætti að vera massívur kostur fyrir Liverpool og hefur flest allt með sér í raun. Það er samt eitthvað sem ég sjálfur fýla ekki við hann og langar mig ekkert að fá hann á Anfield. Efa að hann sé sá sterkasti þegar á móti blæs að ráði.


Alveg eins líklegir þannig:

Mark Hughes

Allt að því tilgangslaust að telja hann upp enda fyrrum United hetja og þar að auki City reject!! Það þarf líklega að leita lengi að púllara sem vill fá Hughes til Liverpool en hann er engu að síður ágætis stjóri og þekkir EPL inn og út.

Steve Bruce

Svipað með hann og Hughes, United maður og allt of hliðhollur Fergie. Spilar líka alveg mökk leiðinlegan bolta. Hefur þó verið ágætur hjá minni úrvalsdeildarliðum og fer eflaust í stærra lið en Sunderland einn daginn, en til Liverpool efa ég að hann fari.

Ronald Koeman

Ef hann væri 20 árum  yngri væri hann velkominn sem leikmaður, en sem stjóri hefur hann ekki gert margt til að heilla mann og því þurfa ansi margir að segja nei áður en Koeman kemur til Liverpool. Hann væri þó pottþétt til í það.

Bernd Schuster

Litríkur karakter. Sem leikmaður var hann fáránlega góður og spilaði á Spáni með öllum helstu vinaklúbbunum, Barca, Real og Atletico og var lykilmaður í öllum liðinum. Í landsliðinu var hann einn besti leikmaður liðsins en hætti þó að spila með því 24 ára eftir mikið ósætti þar sem hann m.a. mátti ekki vera viðstaddur fæðingu sonar síns.

Sem þjálfari hefur hann þjálfað mörg minni lið í Þýskalandi og á Spáni ásamt því að vera með Shaktar Donetsk eitt tímabil. Hann náði þó engum árangri fyrr en hann tók við af Laudrup hjá Getafe og náði frábærum árangri með það smálið. Eins og lög gera ráð fyrir fór hann í kjölfarið til Real þar sem hann tók við af Capello.

Í Madríd breytti hann leikskipulaginu úr varnarbolta Capello í sóknarboltann sem hann var þekktur fyrir hjá Getafe og náði að vinna deildina með þrjá leiki til góða. Árið eftir náði hann alveg fram í desember með liðið áður en þeir leituðu til næstu hetju, Juande Ramos!!

Sé ekki að hann geti lagað þetta Liverpool lið, en stjórn klúbbsins ætti í átta sinnum meira basli með að hemja hann heldur en Benitez væri hann stjóri.


Mjög ólíklegir

Louis van Gaal
Væri einn af fyrstu kostum ef maður teldi hann möguleika. En ef hann fer frá Bayern til Liverpool eins og ástandið er í dag verður maður bara að draga dómgreind hans í efa. Frábær stjóri.

Ottmar Hitzfelt
Ennþá betri stjóri og raunar einn sigursælasti í sögu fótboltans. Hann er 61 árs og að þjálfa Sviss núna og eitthvað segir mér að hann sé ekkert að fara aftur í félagsliða boltann. Væri samt alveg hjartanlega velkominn ef ég fengi að ráða.

Quique Sánchez Flores
Tók hann aðeins fyrir fyrr í vetur í upphitun fyrir leikinn gegn Atletico. Hann var í Valencia sem leikmaður, fór svo til Real en var ungur farinn að þjálfa. Þjálfaði hjá yngri liðum Real áður en hann fór til Getafe og þaðan til Valencia sem hann tók við er Benitez fór til Liverpool. Var hjá Benfica í fyrra og síðan nú hjá Atletico nú sem hann gerði að evrópumeisturum, m.a. á okkar kostnað. Hann hefur fylgt á eftir Benitez áður og verið hjá sömu klúbbum, en ég sé samt ekki að hann komi til okkar.

David Moyes
Ef hann væri með eitthvað annað lið en Everton þá væri hann rétt á eftir Martin O´Neill á þessum lista hjá mér, en hann er hjá Everton og ég bara get ekki séð hann færa sig yfir. Góður stjóri samt.

Paul Le Guen
Sæmilegur stjóri  með ágætt record í Frakklandi, aðallega sem stjóri Lyon. Átti ömurlegt hálft tímabil hjá Rangers  06/07 og fór aftur heim til Paris St. Germain. En núna landsliðsþjálfari Frakka. Var á árum áður fyrirliði Paris St. Germain og góður leikmaður. Sá þetta nafn á einum listanum yfir mögulega þjálfara en hann er auðvitað ekkert inn í myndinni.

Kenny Dalglish
Trúi alls ekki að hann færi að eyðileggja frábært record sitt hjá klúbbnum með því að taka við honum núna. Þekkir svosem allt út og inn hjá klúbbnum núna og er á svæðinu þannig að hann er eini raunhæfi kosturinn af því staffi sem er þarna fyrir. En hann náði síðast árangri fyrir 15 árum með Blackburn lið sem hann fékk að eyða helling í, þar áður með Liverpool vél sem var frábær er hann tók við og honum tókst að halda frábærri meðan hann þjálfaði. Gleymist stundum að liðið sem hann skildi eftir þegar hann fór var komið smá til ára sinna og var enduruppbygging þess undir stjórn Souness upphafið að falli Liverpool úr toppbaráttunni. Ekki að ég sé að kenna Daglish um það, Souness tókst það alveg sjálfum.
En ég vill ekki sjá hann taka við þessu.

Owen Coyle
Held að hann komi til með að ná mjög langt í þjálfaraheiminum og stjórna mun stærri liðum en Bolton. Þetta var markamaskína sem leikmaður og er það ennþá í innanhúsfótbolta með old boys Motherwell og virðast hans hugmyndir að spilastíl einkennast af því. Gerði fáránlega hluti með Burnley í fyrra og hefur allt að bera til að verða mjög öflugur. Er auðvitað allt of óþekktur til að taka við Liverpool og næði seint virðingu lukilmanna. En á þó alveg skilið mention á svona brainstorm lista.

Markus Babbel
Er auðvitað nýkominn út í þjálfun og var ekki að gera neinar rósir hjá Stuttgart. Er núna nýtekinn við Herta Berlin sem féll í vor. Fær mention hér sem gamall púllari þó ég sæi hann aldrei ná hærra en í stöðu aðstoðarþjálfara hjá Liverpoool í dag.

Marco Van Basten
Það er eins með hann og aðra samlanda hans frá hans tíma, ég hef enga trú á þeim sem þjálfurum. Held hreinlega að hann hafi ekki áhuga á að vera þjálfari. Var þó ágætur með Holland og þeir vildu hafa hann áfram fyrir undankeppni HM sem byrjar eftir viku en hann var ekki til í það og hætti árið 2008 og tók við Ajax. Þar hætti hann í fyrra og er að ég held ekkert að gera núna.

Sammy Lee
Sé bara ekki að hann myndi ná virðingu leikmanna og held að hann sé fínn í því sem hann er að gera núna.

Phil Scolari
Helst þekktur fyrir að stýra Brössum og Portúgal og það gerði hann mjög vel og er eitt virtasta nafnið í bransanum. Hefur þar að auki þjálfað 300 smálið aðalega í S-Ameríku og auðvitað Chelsea þar sem hann fékk engan  tíma til að leggja sitt mark á liðið.

John Toshack
Dalglish gæti nú endað á hurðinni hjá honum en það væri nú ansi langsótt! Toshack er að þjálfa Wales núna en hefur þjálfað fullt af liðum á Spáni með misgóðum áfrangri. Þar á meðal Real Madríd, en hver hefur ekki stýrt því ágæta liði?
Hann er 61 árs og afar reyndur og þekkir vel til í Liverpool. Gef honum jafn mikinn séns og Loyd Christmas átti í að húkka up með Mary Swanson í lok Dumb & Dumber.

Joe Kinnier
Mitt fyrsta val og í raun eina rétta lausnin fyrir klúbbinn. Maður sem nær að blóta yfir 50 sinnum á stuttum blaðamannafundi og drulla yfir bresku pressuna er alltaf maðurinn. Liverpool þarf á þannig manni að halda núna, myndi ráða hann sem fjölmiðlafulltrúa hjá klúbbnum strax í fyrramálið 🙂


Þetta var svona það sem mér datt í hug í þessari lotu, endilega bætið við þeim sem ekki koma hér fram og þið teljið vera raunverulega kosti í stöðunni.

Eftir sem áður biðjum við síðan um að umræðunni sé haldið á sómasamlegum nótum og um umræðuefnið.

Babú

45 Comments

 1. Fáum fokking O’Neill. Hverjum er ekki drullusama þó stjörnu Spánar og Ítalíu þekki hann ekki vel? Mennirnir sem við ættum að horfa á eru SWP, Joe Cole, Scott Parker og fleiri. Svo gæti O’Neill gripið einhverja með sér frá Villa.

 2. Êg veit ad thetta er langt frâ aðalatriði greinarinnar, en eftirfarandi fullyrðing um Slaven Bilic er röng: “fyrsti útlendingurinn til að vera fyrirliði í Bundeslígunni.” Ásgeir Sigurvinsson var nú fyrirliði Stuttgart mögrum árum fyrr.

  innsk. Babú – Já auðvitað maður! Fjandans wikipedia!

 3. Fín grein Babú. Þetta er ekki auðvelt val. Ég er aðallega hræddur við Hodgson – get ekki séð hann sem framför frá Rafa á nokkurn hátt. Að mínu ekki betri þjálfari og ekki heldur líklegur til að spila skemmtilegri bolta.

  Ég hallast einna helst að Rijkaard, fólk virðist hafa gleymt því ansi fljótt hversu skemmtilegt lið hann byggði upp hjá Barcelona. Ég get þó alveg séð kosti við menn einsog Deschamps og fleiri.

  Og ég trúi einfaldlega ekki öðru en að menn geti valið úr nokkuð stórum og góðum hópi. Það eru ekki mörg störf í Evrópu, sem eru stærri en framkvæmdastjóri Liverpool. Skítt með það þótt að eigendurnir séu eitthvað erfiðir – það eru þeir líka hjá Real, Inter, AC og öllum þessum liðum.

 4. Skemmtileg lesning, Deschamps væri svo sannarlega áhugaverður kostur eftir þessa lesningu, mundi sennilega vilja Rijkard næstan á lista af þessum sem taldir eru raunhæfir möguleikar. Martin o neil er frábær karakter og gaman að sjá hvað hann lifir sig inní leikinn og allt það en hann hefur aldrei unnið neina stóra titla og hefur ekki reynsluna af því svo hann heillar mig ekki.

  Skrítið að þú nefnir ekki Roy Hodgson sem veðbankar telja líklegastan í starfið, ég er skíthræddur um að hann verði ráðin og er ekki spenntur fyrir því.

  Af hverju geta menn hjá þessum klúbbi ekki drullast til að gefa okkur einhverjar skýringar á því hvað er í gangi? Ráku þeir Benitez af fyrra bragði eða gerðu þeir það því hann var frekur og vildi peninga til leikmannakaupa og halda helstu mönnum liðsins eða var það 3 möguleikinn sem er að það hafi bara verið hist á fundi, allir rosa happy og talið það best fyrir klúbbinn að leiðir myndu skilja??? Hvernig væri að einhver af þessum jólasveinum kæmi fram og segði okkur hver stefnan er á næstu vikum og mánuðum? stendur til að finna toppstjóra og gefa honum eitthvað af peningum eða er ekkert til af seðlum og stefnan er að finna mann sem þarf engan pening og lítil laun????

  og af hverju sér maður maður ekki eina frétt af hugsanlegum eigendaskiptum??? þið vitið þetta allt sennilega ekki frekar en ég en þetta er það sem flýgur í gegnum hausinn á manni þessa dagana….

  Annars er Ericson að segja í fréttum í morgun að hann dreyndi um að þjálfa Liverpool, hvernig myndi ykkur lítast á það???? það er varla það vitlausasta í stöðunni en kannski ekki heldur það besta….

 5. Verð að játa að það fó hrollur um mig þegar ég sá nafn Erikson nefnt í þessu samhengi. Stórlega ofmetinn knattspyrnustjóri, það besta sem hann hefði fram að færa væri að halda við eiginkonur eigendanna.

  Magath væri virkilega spennandi kostur, væri gaman að sjá hvernig þýski aginn myndi skila sér á Anfield.

  Svo er spurning hvort það komi einhverjir gamlir poolarar til greina í þetta starf en það hefur svo sem enginn af þeim verið að gera neinar rósir. Mér dettur í hug Mölby, McAllistair, Kevin Keegan, ekki beint spennandi kostir.

  Síðan er spurning um að taka bara wild card á þetta og ráða son of the devil, þ.e. Darren Ferguson. Hann hefur náð fínum árangri í neðri deildunum.

  …..gerum við ekki bara Carragher að player manager líkt og King Kenny var hérna um árið.

  Annars verð ég að játa að ég hef ekki hugmynd um hver verður ráðinn, finnst enginn líklegri en annar. Vona bara að menn vandi val sitt vel.

 6. Ég reikna nokkuð sterklega með að það mundi enda með því að Hodgson verði næsti stjóri Liverpool. Fínasti þjálfari en að mínu mati alltof svipaður karakter og Rafa, hann er sviplaus og einbeittur á hliðarlínunni og spilar ekki ósvipaðan bolta. Kannski væri hann þess vegna góður kostur í stöðuna því hann gæti notað svipaða stefnu og Rafa eða eitthvað álíka. En að mínu mati yrði þetta svolítil afturför frá Rafa með fullri virðingu fyrir Hodgson.

  Ég væri til í eitthvað spennandi og algjörlega nýja stefnu í hugsanahætti, leikstíl og hegðun þjálfara. Nú höfum við verið með þennan sviplausa(reiðisvips) mann á hliðarlínunni og nú vil ég fara að sjá mann sem grýtir hnefanum upp í loft, klappar, hoppar hæð sína og hleypur inn á völlinn af fögnuði.

  Ég væri alveg til í að sjá menn eins og Didier Deschamps, Frank Rikjaard, Ottmar Hitzfeld eða jafnvel Marcello Lippi sem hættir með Ítali eftir HM ef ég man rétt. Hann var sigursæll í ítölsku deildinni og stýrði Ítölum til Heimsmeistaratitilsins árið 2006.

  Það sem ég er hvað spenntastur fyrir að sjá Felix Maggath. Frábær stjóri sem gerði alveg hreint ótrúlega hluti með Wolfsburg. Eins og þú segir þá er hann helvíti erfiður þjálfari en það skilar sér sko heldur betur. Ég held að komi hann þá gætu menn eins og Torres og Gerrard séð hvað hann hefur að bjóða. Hann er eins og Capello, Benítez og fleiri sem eru harðir og setja kröfu á árangur og fagmennsku.

  Hann gæti sýnt þessum leikmönnum hitt og þetta. Hann gæti jafnvel tekið leik Torres og Gerrard upp á næsta plan með þessum æfingum sínum. Hann gerði Wolfsburg að meisturum, sem hefði ekki átt að vera hægt, hvað ætli hann gæti þá gert hjá Liverpool?

  Felix Maggath á diskinn minn!

 7. Sammála Babu með Louis van Gaal, hann færi fyrsti kostur í stöðunni ef hann væri laus. Þó væri hann örugglega til í að þjálfa Liverpool og þær stjörnur sem þar eru. Hann er einnig þjálfarinn sem ég hugsa að leikmenn myndu virða mest af þeim sem eru nefndir. Vandamálið er að Byern er mjög ríkt félag og sjá enga ástæðu til að vilja missa hann…..auk þess að Louis van Gaal er ekki ódýrasti kosturinn fyrir Liverpool.

  Er líka sammála Babu með Slaven Bilic, hann er ferskur, efnilegur og harður en mjög skemmtilegur þjálfari. Það vantar pottþétt ferskleika á Anfield og hann myndi hrista upp í þessu rugli svo maður myndi mögulega gleyma eigendunum í einhvern tíma. Hans helsti galli er reynsluleysi.

  Ég ætla hins vegar að tippa á að Louis van Gaal ákveði að hætta á toppnum (næstum því) hjá Byern og skipta yfir á England þar sem spotlight-ið er skærast – heitustu leikmennirnir, bestu þjálfararnir og skemmtilegasti fótboltinn þar sem taktíker eins og hann fær að njóta sín.

 8. Hvernig líst mönnum á Sven-Göran hann er heitur fyrir starfinu? Líst best á Didier Deschamps maðurinn er algjör nagli og gæti verið það sem okkur vantar

 9. mjög góður pistill segir allt framtíðar þjálfara Liverpool af þeim sem ég mundi velja.

  Ef Liverpool er leita af ferskum og spennandi kosti þá mundi ég velja Didier Deschamps og Slaven Bilic enda eru þeir ungir og af þennan x-factor og líka með Dider Deschamps hefur þennan winner eignleika sem er þekktur meðal bestu þjalfara í heimi dæmi um er Fabio Capelllo og Jose Mourinho hafa þan eignleika en Slaven Bilic hefur þennan wild card eignleika allt getur gerst undir hans stjórn.

  En Ef Liverpool eru leita af Aga og skipulag myndi ég velja Felix Magath sem næsti þjálfari sem bara kraftaverkarmaður Þýskaland en ég held það eru ekki margir líkur að sé koma því ég held hann muni taka við Þýska Landsliðið eftir HM.

  Og Ef Liverpool er að leita af fallegum fotbolta og gefur titlar er þá eru bara þrír þjálfarar sem gefa kost Frank Rijkaard,Michael Laudrup,Bernd Schuster.

 10. Viðar

  Skrítið að þú nefnir ekki Roy Hodgson sem veðbankar telja líklegastan í starfið, ég er skíthræddur um að hann verði ráðin og er ekki spenntur fyrir því.

  Hvað meinar þú? Hann er svo sannarslega nefndur þarna!

 11. Bíddu af hverju er ekki Sam Allardyce þarna. Besti stjóri sögunnar á Englandi!

 12. Ég árétta það sem ég sagði í athugasemd um daginn, kenningu mína um að væntanlegur kaupandi hafi sett það sem skilyrði að Rafa væri farinn úr stjórastólnum áður en kaupin færu fram til að þurfa ekki að borga hann út sjálfur. þess vegna fór þetta ferli af stað.

  Varðandi verðandi stjóra sem nefndir eru hér að ofan líst mér einna best á Bilic en gallinn við hann er auðvitað reynsluleysi, hins vegar átta sig vonandi flestir á að næstu tímabil verða mjög erfið, það verða væntanlega miklar breytingar á mannskapnum og þess vegna verður að gefa liðinu tíma. Þess vegna er hugmyndin um Bilic kannski ekki svo vitlaus – ef hann bara fær sinn tíma.

  Og svo þurfa nýju eigendurnir að hafa burði til stórafreka.

 13. Sælir félagar

  Fínn pistill en ég tek undir með Skjóldalnum. Er ekkert að frétta af helv… eigendamálunum. Ég held að við getum aðeins látið okkur dreyma óraunhæfa dagdrauma meðan kanafíflin eru í eigendasætinu.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 14. Tók Harry Redknapp ekki einu sinni með í dæmið og hef enga trú á því að neitt sé til í þessu slúðri! Hann hlítur að taka eitt ár í CL fyrst hann loksins komst þanngað og Spurs lítur heilsusamlegar út í augnabilinu en Liverpool, eins sorglegt og það nú er.
  Væri samt ágætur kostur ef hann væri í boði þrátt fyrir að vera orðinn 63 ára.

 15. Mér finnst menn gera fullmikið að því að útiloka stjóra sökum aldurs. Af hverju er 63 ára aldur eitthvað verri en hver annar? Hvað segir að menn á þessum aldri geti ekki starfað hjá félaginu næstu 5-10 árin með góðum árangri.

  Væri einmitt ekki mikil reynsla sem myndi nýtast liðinu núna?,,,

  Ég segi fyrir mitt leyti að Hiddink, Redknapp eða hvað þeir heita komnir yfir 60 ára aldur gætu alveg gert fína hluti og skilað liðinu af sér með sómasamlegum hætti eftir c.a. 5 ár.

  Ef menn eru eitthvað að óttast að engin uppbygging geti átt sér stað meðan menn á þessum aldri þá eru menn á villigötum. Svona reynsluboltar geta náð góðum árangri á skömmum tíma og skilað góðum efnivið fyrir næsta þjálfara að byggja ofan á. Segjum sem svo að liðið yrði meistari á næstu tveimur árum undir stjórn gamals refs þá væri sá þjálfari e.t.v. búinn að innleiða smá sigurvegara hugsunarhætti í liðið sem næsti þjálfari gæti byggt ofan á.

 16. Það eru 3 stjórar sem ég hef virkilegan áhuga að fá til Liverpool.

  Manuel Pellegrini Hann tekur við Real madrid þegar liðið var búið að kaupa alla nema Alonso, og gerir frábæra hluti með þetta lið. stórlega efast um að aðrir hefðu geta gert betur en hann. Fólk má ekki gleyma að Barcelona er upplifa ótrúlegt unglingastarfsemi sem Real er ekki ná fylgja eftir. og ekki má gleyma að hryggjasúlan í Barce er búinn að spila í mörg ár, tekur tíma að ná því hjá Real þegar Alonso Kaka Ronaldo – Granera koma til liðs við liðið og ansi tíðar leikmannaskipti hjá Real þá fynnst mér Pellegrini hafa gert ótrúlega hluti með þetta lið í vetur.

  Gus Hiddink var frábær hjá Chelsea í fyrra, ég vil meina að hann hafi gert þetta lið að meistaralið aftur eftir að Scolari var búinn að vera algjörlega í ruglinnu.

  Didier Deschamps Miðað við árangurinn sem hann hefur náð sem þjálfari þá gæti hann verið spennandi kostur. Kannski getur hann risið Liverpool úr öskunni og glætt það sem við sárlegum þurfum 🙂

  Enn get ekki sagt að ég sé bjartsýn á næstu tímabil, Sumir segja að það muni líða 3-5 ár þangað til við náum aftur í þann stall sem við eigum að vera, Aðrir segja að við munum vera í basli ansi lengi því klúbburinn eins sorglega þetta hljómar þá er hann ekki spennandi til kaups og mun vera í basli um soldin tíma :S

 17. Flottur pistill Babu, og óvenjulega vel skrifað þegar maður hefur í huga hver það var sem skrifaði 😉

  En að öllu gamni slepptu, þá finnst mér stundum eins og menn séu bara eitthvað vankaðir !! Ég veit ekki hvort þetta er laugardagurinn sem allir ætla að pirra litla dverginn frá Akureyri, en Pelligrini ?? Didier Deschamps ? Eru menn ekkert að grínast með þetta ??

  Við vorum með Rafa Benítez í brúnni hjá okkur, og rákum hann með skít og skömm, til þess að fá Steve Bruce eða Mark Hughes ?? Er hreinlega bara ekki allt í lagi heima hjá mönnum ??

  Það þarf að koma stórt nafn á Anfield, og ég vil ekki sjá einhvern gamlan breskan stjóra sem er búinn að stýra ellefu liðum í neðri hlutanum, á síðustu þrem árum, takk fyrir !! Og sá sem nefndi Sam fökkíng Allardyce hérna áðan, getur hitt mig uppúr miðnættið í kvöld, til að ræða þann arfavitlausa möguleika, einhversstaðar í miðbæ Akureyrar !! Sam fokkíng Allardyce !!!! Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að menn væru bara orðnir gersamlega frámunalega sauðdrukknir um miðjan dag á laugardegi !! Ég hef engan áhuga á því að Liverpool fari að spila boltan sem Allardyce lætur liðin sín spila, að ógleymdu því að maðurinn er gjörsamlega óþolandi !!

  Og Babu , David Moyes ?? Really ? óþarfi að nefna hann einu sinni í þessari upptalningu, án þess að taka neitt af honum sem stjóra… þá er það bara fáránlegur möguleiki, og frekar vil ég að Bragi Brynjarsson stýri liðinu en hann !!

  En hvern vil ég þá fá ? Eða ætla ég bara að vera neikvæði gaurinn sem hafnar öllum kostum, bara til að vera vinstri grænn og vera á móti öllu ? Jú, líklega verður það þannig, en ég myndi þó sætta mig við Ottmar H, og svo er einhver púki í mér sem væri til í að sjá Riijkard í þessari stöðu, því ég held að með hann í brúnni, myndi liðið spila skemmtilegan bolta.

  En ég held hinsvegar að nýr stjóri verði settur undir þann hatt, að fá ekki að eyða neinum peningum,og því vilji enginn feitur biti enda í þessum slefandi hundskjafti sem Liverpool lítur út fyrir að vera í dag.. því miður.

  Ég vil Eigendurna í burtu STRAX, og nýjir eigendur geta svo bara ráðið þann sem þeir vilja í stjórastöðuna, og ég skal styðja þann mann og liðið fram í rauðan dauðann !!

  YANKS OUT !!!!

  Insjallah..

  Carl Berg

  • orðnir gersamlega frámunalega sauðdrukknir um miðjan dag á laugardegi !

  Er að vinna í þessu!!

  Og Bragi Brynjarsson væri mjög flottur kostur!!

  En það er rétt með þessa Fat Sam tillögu, ég bað menn um að sleppa “Gauja Þórðar” bröndurum og hann flokkast undir slíkann 😉

 18. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að besti kosturinn sé King Kenny. Hann vann 3 titla sem þjálfari hjá okkur og er eini maðurinn til að vinna úrvalsdeildina með liði sem er ekki ManU, Chelsea eða Arsenal. Hann er poolari through and through og allir leikmenn virða hann fyrir hans afrek. Hann er klárlega winner og ég held að leikmennirnir yrðu mjög glaðir að fá hann.

 19. Keing Kenny er alveg dottinn úr gírnum til að verða þjálfari, enda þegar hann þjálfaði síðast var það ekki gott, hann á bara að vera sendiherra fyrir klúbbinn, ég er hlynntur Hiddinks.

 20. verður Sven Göran ekki amk að teljast “alveg eins líklegur”… vil ekki fá hann til að taka við liðinu, en hann er nokkuð stórt nafn í bransanum og hefur lýst opinberlega yfir að hann hafi áhuga… miðað við það gæti hann vel flokkast sem “alveg eins líklegur” og jafnvel “mjög líklegur” m.v. þá sem eru í þeim flokki

  Er sjálfur spenntastur fyrir Van Gaal eða Hiddink en þeir eru víst ekki raunhæfir kostir m.v. fréttir dagsins. Mundi frekar vilja taka smá áhættu og fá M. Laudrup heldur en þann sem líklegastur eru talinn þ.e. Hodgson.

 21. Hér er árangur Benitez með Liverpool svart á hvítu, heimild LFC history.net og BBC.

  2004/05
  FA: 3. umferð (Burnley)
  LC: 2. sæti (Chelsea)
  CL: 1. sæti
  PL: 5. sæti. 58 stig, W17 D7 L14

  2005/06
  FA: 1. sæti
  LC: 3. umferð (Crystal Palace)
  CL: 16-liða úrslit (Benfica)
  PL: 3. sæti. 82 stig, W25 D7 L6

  2006/07
  FA: 3. umferð (Arsenal)
  LC: 5. umferð (Arsenal)
  CL: 2. sæti (AC Milan)
  PL: 3. sæti. 68 stig, W20 D8 L10

  2007/08
  FA: 5. umferð (Barnsley)
  LC: 5. umferð (Chelsea)
  CL: Undanúrslit (Chelsea)
  PL: 4. sæti. 76 stig, W21 D13 L4

  2008/09
  FA: 4. umferð (Everton)
  LC: 4. umferð (Tottenham)
  CL: 8-liða úrslit (Chelsea)
  PL: 2. sæti. 86 stig, W25 D11 L2

  2009/10
  FA: 3. umferð (Reading)
  LC: 4. umferð (Arsenal)
  CL: Riðlakeppni => Europa: Undanúrslit (A. Madrid)
  PL: 7. sæti. 63 stig, W18 D9 L9

  Niðurstaða (tímabilin eru 6 og því einkunn á forminu X/6)

  FA: ein frábær keppni, annars skelfileg frammistaða í alla staði. 1/6 = Falleinkunn.

  LC: ein frábær keppni, annars léleg frammistaða þó óheppnir með andstæðinga. 1/6 Falleinkunn.

  CL: þrjár frábærar keppnir, tvær góðar keppnir og ein slök, sem þó skilaði á endanum undanúrslitum Europa League. 5,5/6: Ágætiseinkunn.

  PL: tvær frábærar keppnir (>80 stig), tvær góðar (3-4. sæti) og tvær slakar (5-7. sæti). 4/6: 2.einkunn

  Umsögn: Í stóru keppnunum þremur stóð hann sig í heildina frábærlega í CL, vel PL og mjög illa í FA. Á síðasta tímabilinu var slakur árangur í öllum stóru keppnunum, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður þá er það ekki ásættanlegur árangur fyrir LFC og því rétt að slíta samstarfi.

 22. Sam Allardyce var kaldhæðni. En ef við förum nokkur ár aftur í tímann og sama staða væri uppi þá væri hann á þessum lista. Ég vil ekki sjá manninn en hann var talinn einn af þeim bestu ensku fyrir nokkrum árum. Mun betri en Hodgson og margir töldu hann betri en Oneill. Allardyce og Curbishley áttu nú að vera líklegir sem landsliðsþjálfarar. Sem sýnir úrvalið af góðum enskum stjórum. Ekki láta mig byrja á Redknapp. En það að reka Benitez er hluti af vandamálum klúbbsins, ekki hluti af lausninni.

 23. Kríterían sem lögð er af stað með hjá Purslow og Dalglish myndi ég telja að vera tvíþætt.

  A) Halda áfram á sömu braut með að byggja upp unglingalið félagasins, megum ekki gleyma því að ákveðið var að setja framkvæmdastjórann sem yfirmann. Purslow mun held ég verða sá sem heldur fast um þann taum, því þessi liður félagsins var hann fenginn í að smíða með Rafa. Auðvitað King Kenny líka með í því ferli.

  B) Leikstíll. Ég treysti því að næsti stjóri Liverpool verði fenginn úr þeim ranni að spila aggressívan fótbolta – Kenny Dalglish verður yfirmaðurinn í því að fara í gegnum þá sem kunna það.

  Flottur listi Babú, þótt ég haldi nú að Alex McLeish sé eitt þeirra nafna sem að sé á lista meistaranna tveggja sem stjórna þessari leit.

  Ég held líka að Breti sé aðalkostur í stöðunni þarna – ég viðurkenni fúslega og alveg að það er líka út af þvi að það er mín ósk þar sem ég held að LFC þurfi bara núna að fara á þann reit aftur að vera með “heimasál”, eins og rætt hefur verið að undanförnu. Sé ekki alveg að klúbbur sem er að fara að kaupa meira breskt og byggja unglinga- og varaliðin upp á heimadrengjum fari af stað í nýtt stórnafn að utan.

  Þegar ég gef mér þetta og fer yfir lista Babú finnst mér bara Deschamps koma til greina af erlendu þjálfurunum, hinir eru í góðum störfum eða bara alls ekki nöfn sem ég held að séu á listanum, þó vissulega væri doldið djarft að fá Laudrup í brúnna.

  O’Neill hefur lengi verið minn kostur og ég er á því að vinskapur hans og Dalglish, og gott gengi með Celtic þýði að hann sé ofarlega á blaði á Anfield. Leikstíll hans er hins vegar yfirleitt frekar neikvæður og hann hefur ekki átt auðvelt með að stýra stjörnufótboltamönnum. Roy Hodgson hefur átt einn alvöru árangur í Englandi, að koma Fulham í úrslit UEFA cup, er einfaldlega töluvert slök útgáfa af Rafa og ég vill ekki sjá þarna núna, bara einfalt.

  Moyes kemur aldrei held ég, sérstaklega ekki þegar hann sér raunhæfan möguleika á að koma liðinu sínu (segi ekki nafnið) yfir LFC og Alex McLeish sem er annar góður vinur Dalglish held ég að sé of neikvæður í leikstíl þótt hann hafi náð góðum árangri í gegnum sinn feril.

  Redknapp væri spennandi en er ekki að fara úr CL loksins þegar hann komst þangað.

  Mark Hughes hefur verið úthrópaður hér og útaf því að hann er United maður. Vissulega stórt nei í kladdanum þar en ég er ekki tilbúinn að afskrifa hann þó svo sé. Hann náði miklu út úr Blackburn, fínn með Wales og ég er sannfærður um að Manchester City hefði náð betri árangri undir hans stjórn en klefatrefilsins Mancini.

  Svo ég spái einum þriggja, O’Neill, Deschamps eða Hughes.

 24. Ég er ótrúlega spenntur fyrir Deschamps, ég held að þarna kæmi inn titölulega ungur með nýjar áherslur og nýtt blóð í þetta allt saman.

 25. Lippi talar ekki ensku og held að honum líði alltof vel í sólinni á Ítalíu til að fara í rigninguna á Merseyside.
  Paul Le Guen þjálfar btw landslið Kamerún ekki Frakka 😉

  Annars held ég að af þeim sem hér eru listaðir gætu Dechamps, Hodgeson og Hiddink gert eitthvað með þennan hóp og +5m punda.
  Við siglum hraðbyri í að verða miðtöflulið með þann metnað að slefa inní Europa League miðað við ástandið í dag.
  Fyrsta skrefið átti ekki að vera Benitez. Fyrsta skrefið átti að vera kanabjálfarnir og yes-mennirnir í kringum þá.

 26. Það er einn þjálfari þarna sem ég vil bara alls ekki fá til Liverpool og það er gamli Hodgson, ég hef enga trú á honum og vil ekki sjá hann nálægt Liverpool FC

 27. Hiddink, Magath, Deschamps, van Gaal og Hitzfelt eru mínir fyrstu kostir af þessum nöfnum hér. Riikjaard svosem ekki slæmur.

  Líst samt vel á Deschamps miðað við recordið hans.

 28. Ég er ansi hræddur um að Magath komi ekki til greina, því miður. Hann tók við Schalke í slæmum málum fyrir síðustu leiktíð, ekki síst peningalega, og hefur fjárfest sjálfur fyrir töluverðar upphæðir í félaginu, ekki síst til að undirstrika tryggð við klúbbinn, sem hann hefur “lofað” að gera að meisturum innan fjögurra ára. Hann situr einnig í stjórn liðsins og kemur að rekstri þess. Hann er því ekki að fara þaðan í bráð.

 29. fyrir mér er fyrsti kostur klárlega að ná Hiddink, en miðað við að hann er í starfi þá er hann bara ekki fáanlegur og þá vandast valið. Persónulega þá er ég búinn að fá nóg af erlendum þjálfara hjá liverpool og væri til í að leita í heimahagann, King Kenny er ekki að fara taka við liðinu, en væri mögulega hægt að fá hann til að stýra manni inn í jobbið ? hvað með carra sem manager.. kanski full snemt enn einhvernvegninn hljómar það spennandi fyrir mér. Rósar rauðu gleraugun eru kanski ekki fyrir alla, en mér fynst með því værum við að taka klúbbin okkar aðeins aftur. Ekki það við erum með nokkra gamla refi sem gætu skotið upp kollinum í staðinn fyrir carra, eins og sammy lee, thommo, Hamann kanski barnes ? Ekki beint stærstu nöfninn í manager bransanum en rauðir í gegn og hver veit nema King kenny gætti kent þeim einhver galdrabrögð.

  Af þeim ensku þjálfurum sem er verið að nefna þá fynst mér O´Neill vera mest spennandi, aðalega vegna þess hvernig Villa liðið hefur verið að spila síðustu ár og hann hefur góðan tendence til að versla góða enska leikmenn. Harry er líka góður þjálfari (mögulega betri en O´Neill) en ég vill setja spurninga merki við hann, bara upp á þetta Tax-fraud dæmi allt í kringum hann. Hodgson er fínn þjálfari enn ég vil meina að eitt gott season er ekki nóg til að gera hann að fyrsta val í stöðuna hjá okkur, þrátt fyrir að ég gef honum hellings credit fyrir það sem hann vann hjá fullham á liðnu seasoni.

  Erlendir þjálfarar, þá eins og ég seigji er Hiddink allgerlega top kosturinn. Laudrup er líka flottur fynst mér, liðinn hans reyna alltaf að spila flottan sóknarbolta en það er alltaf spurninga merki hversu vel það virkar á englandi. Rikjaard er flottur líka mjög óhræddur við að blóðga unga stráka í aðaliðinu og spilar skemtilegan bolta yfirleitt. Deschamps er spennandi spurning hvort hann gæti stolið smá tips frá wenger um hvernig á að nurtura unglinga liðið sonna vel, því það er eithvað sem liverpool vantar sárlega.

  allt í allt þá fanst mér það mjög kjánalegt að reka Benitez, síðasta season var allger hörmung en ekki eins og við syndum í peningum til að kasta í að reka þjálfara og kaupa nýjann. Benni var alls ekkert al slæmur, gerði margt gott fyrir klúbbinn og ég öfunda manninn alls ekki að því starfsumhverfi sem hann þurfti að vinna í. Hann er hetja í mínum augum fyrir þá baráttu sem hann vann í þágu liverpool. En hver sossem kemur í staðinn mun fá minn fullan stuðning og ég vona að hann færi okkur deildartitilinn sem fyrst !

 30. Ég þakka traustið Carl Berg
  enn held að það betra að vera bara á PARK fyrir leik ekki í búningsherberginu 🙂
  YNWA

 31. Mig langar að benda á eitt í annars ansi fínum pistli.

  Þetta sem þú segir um O´Neill og Skotland. Ég mæli sterklega með því að menn lesi sér til um það betur áður en þeir segja það verkefni hafa verið bara walk in the park því það var síður en svo. Hvorki Barnes né Dalglish tókust að snúa dæminu við þar.

  Celtic voru búnir að vinna deildina einu sinni og bikarinn 2 í 12 ár áður en að O´Neill kom þangað. Á 3 árum minnir mig vann hann 7 titla og komst í úrslit UEFA cup, vann Liverpool með Celtic á Anfield 0-2 o.sfrv.(1-1 heima)

  Mér finnst ekki hægt að gera lítið úr þessum afrekum og í raun rangt því Celtic var í rúst þegar hann tók þar við sama hvað menn segja.
  Frábær stjóri og minn 1 kostur, en hann var það líka áður en að Rafa tók við Liverpool.

  Ég held að O´Neill eigi eftir að gera fína hluti með Liverpool komi hann til klúbbsins.

 32. Júlli, að taka við Celtic í rúst þýðir samt eiginlega alltaf að þú þarft semsagt að rífa liðið upp og ná Rangers… aftur!! Hin liðin eru bara með svona til að teygja lopann.

  M.ö.o. að rífa Celtic upp finnst mér voðalega lítið segja um hvort þú sért hæfur til að stjórna Liverpool, Aston Villa finnst mér betri mælikvarði.

  Celtic er samt auðvitað mjög stór klúbbur og yrði fljótt eitt af stóru liðunum í EPL fengju þeir að spila þar.

 33. Satt Babu að mörgu leyti. Vildi bara benda á að mér finnst of oft vanmeta verk O´Neill. Ég verð bara að segja eins og er að ég vil tryggja hann hjá okkur en ekki sjá hann hjá Utd eftir 2-3 ár. Það má ekki gerast að mínu mati.

Endalok framkvæmdarstjórans

Smá breytingar á síðunni