Stöðumat: Miðverðir

Miðverðir

Miðvarðar staðan hjá Liverpool FC er að mínum dæmi ansi vel mönnuð og ein af þessum stöðum sem við ættum að þurfa að hafa hve minnst áhyggjur af. Jú, það má með sanni segja að Carra hafi byrjað síðasta tímabil illa og alltof margir hreinlega afskrifuðu kappann strax þá. Hann kom þó sterkur tilbaka og ég er algjörlega sannfærður um það að hann á eftir að sýna okkur og sanna að hann er ennþá einn sá besti í sinni stöðu á Englandi. Martin Škrtel olli einnig miklum vonbrigðum eftir frábært tímabil 2008-2009. Hann á mikið inni og ég hef ennþá tröllatrú á þeim dreng, enda er hann ungur að árum ennþá þegar horft er í aldur miðvarða.

Núverandi miðverðir (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Martin Škrtel, 25, Slóvakía
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

Í mínum huga er Daniel Agger klárlega okkar besti miðvörður og meiðslapakkinn sem hann hefur reglulega verið í, virðist vera að minnka. Ég er nokkuð viss um að hann og Carra muni verða kjölfestan í vörninni okkar á næsta tímabili og þeir Martin Škrtel og Soto verði þar á eftir í röðinni. Við lentum í miklum meiðslavandræðum með vörnina á síðasta tímabili, sem hjálpaði svo sannarlega ekki upp á stöðugleikann og meira að segja þá spilaði okkar fimmti miðvörður nokkra leiki á tímabilinu. Ég flokka Guðlaug Victor sem miðvörð, enda hefur strákurinn verið að spila alveg feiknarlega vel í þeirri stöðu með varaliðinu undir lok tímabilsins. Ég held að flestir séu sammála um að Ayala (aðeins 19 ára) sé mikið efni og svo má ekki gleyma Andre Wisdom, sem er einungis 17 ára gamall og varð núna í vikunni Evrópumeistari með U-17 ára liði Englands.

Auðvitað er alltaf hægt að styrkja allar stöður, og ég segi það ekki að ef Škrtel yrði seldur, þá væri hægt að kaupa öflugan mann í staðinn, en ég held að á meðan peningastaðan er eins og hún er, þá verði ekki eytt í að styrkja miðvarðastöður liðsins, sér í lagi ekki þegar jafn efnilegir strákar eru í og við aðalliðshópinn. En skoðum samt aðeins hvað er þarna úti á markaðinum.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Danny Wilson, 18, Rangers, Skotland
James Tomkins, 20, West Ham, England
Jérôme Boateng, 21, Hamburger SV, Þýskaland
Micah Richards, 21, Man.City, England
Simon Kjær 21, Palermo, Danmörk
Neven Suboti?, 21, Dortmund, Serbía
Michael Mancienne, 22, Chelsea, England
Ryan Shawcross, 22, Stoke, England
Christian Träsch, 22, Stuttgart, Þýskaland
Nicolás Otamendi, 22, Vélez Sársfield, Argentína
Jan Vertonghen, 23, Ajax, Belgía
Leonardo Bonucci, 23, Bari, Ítalía
Scott Dann, 23, Birmingham, England
Salvatore Bocchetti, 23, Genoa, Ítalía
Dennis Aogo, 23, Hamburger SV, Þýskaland
Nedum Onuoha, 23, Man.City, England
Gary Cahill, 24, Bolton, England
Adil Rami, 24, Lille, Frakkland
Steven Taylor, 24, Newcastle, England
Rolando, 24, Porto, Portúgal
Thiago Silva, 25, AC Milan, Brasilía
Pape Diakhaté, 25, Dynamo Kiev, Senegal
Juan Manuel Insaurralde, 25, Old Boys, Argentína
Per Mertesacker, 25, Werder Bremen, Þýskaland
Ron Vlaar, 25, Feyenoord, Holland
Christopher Samba, 26, Blackburn, Frakkland

Fullt af flottum og góðum miðvörðum, sem eins og með aðra leikmenn, kosta mis mikið og myndu eflaust falla mis vel inn í þann hóp sem fyrir er. 5 leikmenn á þessum lista standa uppúr sem kostir fyrir Liverpool FC í dag.

Simon Kjær – Er bara einfaldlega hrikalega hrifinn af þessum strák og gæti myndað afar sterkt miðvarðarpar með landa sínum Daniel Agger til margra ára.

Micah Richards – Getur bæði leyst miðvarðarstöðuna og hægri bakvörðinn. Hann er ungur og enskur og virðist ekki vera ofarlega í huga Mancini hjá City.

Gary Cahill – Afar sterkur miðvörður og er enskur í þokkabót.

Nedum Onuoha – Er bæði sterkur sem miðvörður og hefur leyst bakvarðarstöðurnar vel af hendi. Er ungur, enskur og eins og með Richards, þá virðist Mancini ekki hafa neina trölla trú á kappanum.

Ryan Shawcross – Ungur, sterkur og enskur

Með öðrum orðum, þá væri ég alveg til í að skipta á Martin Škrtel og einhverjum þessara ofantöldu ef sú breyting myndi ekki kosta of háar fjárhæðir. Við þurfum að hugsa um fjölda Englendinga í hópnum og þessi staða er hugsanlega einhver sú al sterkasta hjá enskum. Svo maður tali nú ekki um þá City bræður, sem geta hlaupið í skarðið í bakvarðarstöðum líka. Hvort þeir verði fáanlegir til liðs við okkur á sanngjörnu verði er svo aftur á móti allt önnur Elín. En þessir pistlar eru jú fyrst og fremst ætlaðir til að velta hlutunum fyrir sér, það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er raunhæft og hvað ekki í þessum bransa.

Efsta nafnið á listanum hér að ofan hefur þó verið mikið í umræðunni, þar er um að ræða ungan skoskan strák hjá Rangers, og allt virðist benda til þess að hann gangi til liðs við okkur í sumar. Hann er einungis 18 ára gamall og er því varla hugsaður sem aðalliðsmaður strax. Ég held allavega að hann verði ekki til þess að Soto verði látinn fara strax, við þurfum að hafa reynslubolta til taks líka.

Draumurinn væri því þessi:

Miðverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Micah Richards, 21, England
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Danny Wilson, 18, Skotland
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

En þar sem draumar rætast ekki nærri því alltaf, í rauninni alltof sjaldan þegar málefni Liverpool FC eru annars vegar, þá spái ég því að miðvarðaruppsetning okkar verði svona á næsta tímabili:

Miðverðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Daniel Agger, 25, Danmörk
Jamie Carragher, 32, England
Martin Škrtel, 25, Slóvakía
Sotirios Kyrgiakos, 30, Grikkland
Daniel Sánchez Ayala, 19, Spánn
Danny Wilson, 18, Skotland
Guðlaugur Victor Pálsson, 19, Ísland
Andre Wisdom, 17, England

Næst mun ég fara yfir stöðu varnartengiliða hjá Liverpool FC.

22 Comments

 1. Alltaf skemmtilegar pælingar hjá þér Steini. Sé á Echo í dag að Rangers hafnaði 2 milljón punda boði í Wilson og Rafa er að melta hvað hann á að gera.

 2. Frábær póstur hjá þér, ég er t.d alveg sammála þér með þessa 5 miðverði sem þú telur upp, kannski vildi ég síst sjá Shawcross hjá okkur.
  En hinir 4 væru meira en velkomnir til Liverpool mín vegna.

 3. Flott umfjöllun. Það er gott að sjá að þessi staða virðist solid. Sammála með Carragher og Skrtel. Carragher er ekki búinn og Skrtel á mikið inni.

 4. Ég er engan veginn tilbúinn að afskrifa Skrtel. Það voru mikil meiðsli í kringum hann og liðið í heild var að leika illa og því erfitt að krossfesta hann fyrir að hafa átt dapurt tímabil. Það voru fleiri í þeim pakka (Carra, ég er að horfa á þig). Skrtel á eftir að koma sterkur til baka og sýna okkur hvað í honum býr.

  Ég á annars ekki von á neinum breytingum á miðvarðarstöðunni hjá okkur, utan þess að Danny Wilson komi. Höldum áfram með Carra, Agger, Skrtel, Soto, Ayala og svo Wilson og höfum áhyggjur af að styrkja meiri vandamálastöður á vellinum.

  Svo skilst mér að Simon Kjær sé nokkuð líklega á leið til Arsenal þannig að menn geta hætt að láta sig dreyma um hann í bili.

 5. Sælir

  Fínn lestur Ssteinn og góð greining á þessu hjá þér, eins og hinum stöðunum í liðinu.
  Ég er ósammála mörgum, sem vilja að Skrtel yfirgefi liðið. Hann átti kanski ekki svo gott síson í fyrra, en það var bara allt liðið að spila illa, og ég veit að hann á helling inni. Hann kemur sterkur til baka, þegar liðið fer að spila betur.. ég er sannfærður um það. Ég vil sjá þann dreng áfram, og ekkert múður með það.

  Hafið það gott piltar, og það er gaman að lesa þessar greiningar á liðinu okkar..

  Insjallah… Carl Berg

 6. Ég held að Skrtel sé í sjálfu sér ekki slakari leikmaður en Micah Richards þannig að það yrði þá eingöngu út af þjóðerni og því að hann getur spilað bakvörðinn líka. En ég er sammála Kristjáni og Carl Bergi að þetta sé sú staða sem minnst þarf að hrófla við.

 7. Oft hef ég nú verið sammála, en nú er ég ofur sammála þeim kommentum sem eru rituð hér fyrir ofan 🙂
  Verð samt mjög fúll ef Kjær fer til Arsenal. Skrtel kemur til baka eins og restin af liðinu sem klikaði á síðasta tímabili, alveg klár á því.
  Veit ekki með Micah Richards samt.

 8. Sælir vinir

  Fyrst verð ég að þakka fyrir mikinn metnað í þessum greinum um stöðumat, þó verð ég að segja að mér finnst það hálfundarlegt að búa til flokk sem heitir “hugsanleg kaup” sem byggir ekki neinu öðru en því að setja alla menn sem höfundur finnur undir 25 ára aldri í CM og geta eitthvað og setja þá inn.

  United, Arsenal, Chelsea og City eru ekki að fara að selja okkur unga og efnilega menn frá sér, allavegana ekki nema fyrir bull upphæð eða gaurinn getur ekkert.

  Ég er ekki að vera með leiðindi mér finnst þetta bara smá bull.

  Hitt er það, afhverju í andskotanum er Joe Cole að fara á frjálsri sölu en er samt ekki orðaður við Liverpool. Hann yrði klárlega einn af okkar allra bestu mönnum. Sínir bara að það er allt í bulli í þessu félagi

  Kveðja félagar og Klessið hann

 9. Bara svona rétt til að útskýra hvernig ég “skannaði” markaðinn varðandi hugsanlega leikmenn. Ég hef ekki opnað né spilað CM svo árum skiptir, þannig að sá ágæti leikur kemur ekkert hér við sögu. Það sem ég hef verið að dunda mér við á vormánuðum er að skoða flest öll landslið, og svo félagslið í helstu deildum Evrópu og pælt í leikmönnum liða í hverri stöðu fyrir sig. Þar sem ég hef ekki fylgst sjálfur með leikjum allra þessara liða, þá hef ég nýtt mér Internetið og reynt að verða mér úti um smá upplýsingar um þessa leikmenn og sett svo inn á listann þá leikmenn sem virðast vera sterkir og fá mjög góða dóma.

  Varðandi England, þá tók ég þar inn í myndina leikmenn aðallega hjá minni liðunum, en svo þá sem eru enskir, en hafa ekki verið að halda föstu sæti í sínum liðum. Þú munt ekki finna nokkurn leikmann frá Man.Utd á þessum listum mínum. Þeir Chelsea menn sem þar er að finna eru strákar sem lítið hafa spilað fyrir Chelsea og hafa verið í útláni. Eins tek ég fram í hverjum pistli að sumt er kannski afar óraunhæft og reyni að leggja mat á slíkt.

  Mér finnst t.d. ekkert útilokað að Mancini kjósi að láta þessa tvo stráka frá sér sem upp eru taldir hér að ofan. Hann virðist hafa takmarkaða trú á þeim, þannig að af hverju ættum við ekki að geta fengið þá eins og hvert annað félag. Ég til að mynda er ekki að telja upp í þessum listum unga leikmenn sem eru fastamenn hjá stóru liðunum. Ef maður væri í algjörum draumaheimi, þá væru væntanlega önnur nöfn á þessum listum. Ef þú skoðar nöfnin og liðin hér að ofan, þá erum við ekki að tala um nein risa nöfn í boltanum.

  En eins og áður sagði, þá er þetta fyrst og fremst til gamans gert og nöfn sem eru sett fram til að skapa smá umræður. Annars hjartanlega sammála þér með Cole, og er hann klárlega á lista hjá mér fyrir sína stöðu, og samt er hann 28 ára 🙂

 10. Segja nýjustu fréttir ekki að Rafa fái 5 milljónir punda til leikmannakaupa ?
  Varla koma neinar stjörnur fyrir þá upphæð ? Er ekki annars best að bíða fram yfir HM , það dúkka oft upp áhugaverðir spilarar sem fáir þekkja ?

 11. Sáttur við þig Steini og þessa upptalningu.

  Ég aftur á móti tel það vel umhugsunarvert að selja Skrtel áður en verðmæti hans minnkar. Agger er maðurinn og ég held að ef að við erum að kaupa Wilson og sjáum okkar ungu menn þurfum við ekki að kvíða framtíðinni.

  Í bestu aðstæðum þyrftum við ekki að selja neinn sem skiptir okkur máli en að mínu mati eigum við að selja þá “góðu” leikmenn sem spila stöður sem við erum vel mannaðir í og kaupa “frábæra” leikmenn í þær stöður sem okkur vantar.

  Skrtel, Yossi og Kuyt falla í þann flokk hjá mér, en auðvitað er gott að hafa hann undir handarjaðrinum – en þó þarf hann að sannfæra mig á HM í sumar!

 12. Snilld SSteinn, ætlaði ekki að vera með nein leiðindi og geri mér full grein fyrir að mikil vinna liggur í þessu hjá þér og hef mjög gaman af því að lesa þetta.

 13. Eitthvað segir mér að þessi staða verði algjörlega óbreytt á næsta tímabili. Það síðasta sem ég heyrði var að Danny Wilson kaupin væru dottin uppfyrir vegna þess að hann nær ekki að spila 3 ár fyrir 21 árs aldur hjá liðinu. Það er víst ekki nóg fyrir hann að vera breskur, hann þyrfti að vera enskur til að vera undanþeginn þessum uppeldisreglum hjá ensku liði. Hann mun því alltaf taka upp pláss “útlendings” í liðinu sem minnkar töluvert áhugann á þessum annars eflaust ágæta pilt.

 14. Kaupa eitt stykki Simon Kjær takk. Ungur, góður. Aðdáandi Liverpool og félagi Agger í landsliði dana. Búin að sanna sig í sterkri deild og vill að því er eftir honum er haft fara frá sínu félagi ef stór klúbbur kemur inn í dæmið.

  Hef séð dálítið af þessum dreng og hann er bara einfaldlega þrælgóður.

 15. Svenni (#13) – þessi frétt um að Wilson væri ekki enskur og fengi ekki inní kvótann var sögð í Daily Mail og er einfaldlega dæmi um lélega fréttamennsku. Allir leikmenn undir 21s árs aldri þurfa ekki að vera skráðir sem hluti af þessum 25-manna hópi sem þarf að skila ákveðnum fjölda heimamanna. Þannig að Wilson verður löglegur næstu þrjú árin þrátt fyrir að hjálpa ekki Englands-kvótanum og þegar hann verður 21s árs verður hann búinn að vera í þrjú ár hjá Liverpool og telst því uppalinn.

  M.ö.o., ekkert að því að kaupa þennan strák.

 16. Wilson, Richards og Joe Cole til Liverpool í sumar og flottan Striker þá er liverpool í fínum málum, Leyfa mönnum sem voru lélegir á þessu seasoni að sýna að þeir vilja gera betur.

 17. Það er eitt sem er áhyggjuefni með þessa miðverði sem við erum með og það er að þeir skora nánast aldrei.

 18. Guðmundur Ingi (#16) segir:

  „Wilson, Richards og Joe Cole til Liverpool í sumar og flottan Striker þá er liverpool í fínum málum.“

  Eru menn ekki enn búnir að opna augun fyrir ástandinu hjá Liverpool FC? Joe Cole er ekki að koma til Liverpool því við höfum ekki efni á að borga honum laun. Liðið hafði ekki efni á að bjóða Crouch 80þ pund fyrir tveimur árum, af hverju ættum við að geta boðið Cole 100þ+ í ár? Micah Richards er heldur ekki að koma því hann er enskur, ungur og með langan samning við City sem myndu aldrei leyfa honum að fara ódýrt. Og við getum bara keypt ódýrt.

  Ég vil ekki vera leiðinlegur en menn verða að hætta þessum fantasíupælingum og horfast í augu við raunveruleikann. Við kaupum einhvern eins og Wilson bara ef hann er ódýr. Ef Yossi fer fyrir 6m punda kaupum við einhvern sem kostar í mesta lagi jafn mikið og á sömu launum og Yossi var að fá. Og hvað framherja varir skal ég hlaupa nakinn niður Laugarveginn ef við fáum einhvern sem kostar yfir 10m í þá stöðu í sumar. Sérstaklega þar sem liðið getur ekki boðið toppstriker laun til samræmis við hin stórliðin.

  Það er verið að selja klúbbinn. Þeir sem eiga hann hafa ekkert lausafé til að setja í reksturinn né hafa áhuga á að fjárfesta sínu eigin fé í uppbyggingu liðsins. Þeir hafa látið Rafa hafa minna til að kaupa með en hann hefur selt fyrir í síðustu fjórum leikmannagluggum. Það eru ENGIR PENINGAR TIL.

  Mín spá: Wilson í vörnina, Jonjo Shelvey á miðjuna og svo einhver eins og Simao í stað Yossi og Riera í framlínuna (m.ö.o., selja bæði Yossi og Riera til að geta keypt Simao, sem veikir breiddina enn frekar). Og svo reyna að halda dauðahaldi í menn eins og Gerrard, Torres og Mascherano.

  Þetta er staðan hjá félaginu. Það er gaman að ræða valkosti og yfirferð SSteins á stöðunum og hvað vantar uppá er frábær en menn verða að ræða þetta á raunveruleikatengdum nótum. Það verður engin bylting í leikmannamálum í sumar því það eru ekki til peningar til þess, né vilji af hálfu eigenda.

 19. Alveg sammála því Kristján Atli að menn geta engan veginn tapað sér í einhverjum fantasy pælingum. Ég held þó að þú málir myndina aðeins svartari en hún er, ég hef verið að skynja aðeins jákvæðari strauma út frá félaginu okkar undanfarið. Málið er að liðið er komið í söluferli, liðið náði með eindæmum slökum árangri síðasta tímabil og það hjálpar ekki söluferlinu ef svartnættið eitt ræður ríkum (eða ríður rækjum).

  Ég held að það verði ríghaldið í okkar stærstu bita í sumar, eina spurningin í mínum huga er Javier Mascherano, en það er eingöngu vegna þess að hann á svo lítið eftir að sínum samningi, þannig að annað hvort skrifar hann undir nýjan slíkan í sumar, eða verður seldur. Það sem kemur út úr leikmannakaupum verður allt sett í nýja leikmenn og 15 milljónir punda þar til viðbótar. Hvort þetta stenst, það verður væntanlega að koma í ljós, en ég hef tröllatrú á að þetta gangi eftir.

  Það bendir margt til þess að Degen, Cavalieri, Riera og Benayoun hverfi á braut og fyrir þessa stráka fáum við eitthvað í kassann (ekki minna en 15 milljónir punda, líklega nær 20) og ef rétt reynist að aðrar 15 verði til taks, þá er alveg hægt að gera fín kaup í c.a. 3 köllum til viðbótar.

  En þú kannt að spyrja hvaðan peningarnir eiga að koma? Síðasta sumar fór það sem eyrnamerkt var umfram sölur, í endurnýjun samninga við helstu leikmenn liðsins. Vaxtagreiðslur sem sjálft félagið er að standa straum af fara að hluta til á höfuðstólin fram að næstu fjármögnun. Þessar 15 milljónir punda held ég því að séu “available” í sumar, plús það sem kemur úr sölu leikmanna.

  En ég er kominn langt fram úr áætlun hérna, ætla ekki að fara út í frekari spekúlasjónir með kaup og sölur úr stöðum sem ég hef ekki ennþá fjallað um, það mun svo koma samantekt í restina á pistlaröðinni.

 20. Kristján Atli, ég ætla svo sem ekki að fara út í einhver rifrildi um löggildi wilsons en vill bara benda á að kappinn er fæddur í desember 91 sem þýðir að hann verður 21. árs eftir ca. 2 og hálft ár svo það er alveg ljóst að hann nær ekki að spila 3 ár með liðinu áður en hann nær þeim aldri. Hins vegar segja reglurnar líka að

  “A home-grown player will be defined as one who, irrespective of his nationality or age, has been registered with any club affiliated to the Football Association or the Football Association of Wales for a period, continuous or not, of three entire seasons or 36 months prior to his 21st birthday (or the end of the Season during which he turns 21).?” (fengið héðan: http://www.premierleague.com/page/Headlines/0,,12306~1797582,00.html)

  sem er auðvitað svolítið loðið, við hvaða dagsetningu miðast lok tímabilsins. Er það síðasti leikdagur ensku deildarinnar, síðasti leikdagur innan evrópu eða jafnvel opnun félagsskiptagluggans?

  Ég vil alls ekki fullyrða neitt en mér sýnist einfaldlega flest benda til þess að Danny Wilson muni aldrei teljast uppalinn leikmaður hjá Liverpool og það tel ég minnka aðdráttarafl hans alveg töluvert.

Opinn þráður á mánudegi

HM í Suður-Afríku, okkar menn!