Uppgjör ársins: Bestu leikmenn

Þá er komið að síðasta lið ársuppgjörs okkar á kop.is og í þetta sinn gerum við upp frammistöðu leikmanna og teljum til hverjir stóðu sig best að okkar mati.

Það er skemmst frá því að segja að listinn yfir leikmenn sem komu til greina sem leikmenn ársins var stuttur, svo ekki sé meira sagt. Við erum sex sem kusum og gátum hver útnefnt þrjá leikmenn í þrjú sæti. Samt fengu bara sex leikmenn atkvæði og ég myndi segja að tveir þeirra hafi varla átt skilið atkvæði heldur. Þannig að það var greinilega fátt um fína drætti meðal leikmanna í vetur.

Vindum okkur í þetta:

3. sæti – JAFNTEFLI: Daniel Agger og Javier Mascherano (3 stig hvor)

Agger hlaut þriðja sætið á listum þeirra Einars Arnar, Magga og Babú fyrir fína frammistöðu eftir að hann kom (loksins) inn úr meiðslum, og sennilega líka fyrir að vera liðtækur og standa sig vel í bakverðinum undir lok tímabilsins. Mascherano hlaut þriðja sætið á lista SSteins og annað sætið á lista Magga fyrir að vera óþrjótandi baráttuhundur fyrir málstaðinn, svona eftir að hann ákvað að mæta til leiks í október.

2. sæti – Fernando Torres (10 stig)

Torres missti úr svona 30-40% tímabilsins og það sást. Þegar hann spilaði spilaði hann jafnan stórvel og skoraði í heildina 22 mörk í 32 leikjum í öllum keppnum. Við vorum sammála um það að sú staðreynd að hann sé nokkuð örugglega í öðru sæti í þessu vali, þrátt fyrir að hafa misst úr stóran hluta tímabilsins, segi allt um frammistöðu annarra leikmanna í vetur, og eins og SSteinn orðaði það vel þá er engin spurning um að við værum í Meistaradeildinni ef hann hefði verið heill í allan vetur. En svo fór ekki og fjarvera hans á löngum köflum afhjúpaði bæði galla leikmannahópsins og minnti okkur óþægilega á hversu ómissandi hann er.

1. sæti – JOSÉ MANUEL “PEPE” REINA (18 stig)

Pepe hlaut fullt hús stiga og er vel að því kominn. Þegar stórlið eins og Liverpool spilar eins og það á að spila fer minna fyrir markverðinum og hann getur einbeitt sér að því að halda sem oftast hreinu. Hlutverk Pepe á undanförnum árum hefur oft verið meira sem aftasti maður í spilamennsku liðsins heldur en einhver stoppari en það breyttist heldur betur í vetur. Ef við getum sagt að við værum í Meistaradeildinni ef Torres hefði verið heill í allan vetur, þá getum við líka sagt að þetta lið hefði endað talsvert neðar en í 7. sæti án Pepe milli stanganna. Hann bjargaði þessu liði ótrúlega oft í vetur, vann inn mýmörg stig upp á sitt einsdæmi og er eini leikmaður liðsins sem bæði getur talist hafa spilað samkvæmt getu og hreinlega skammast sín fyrir samherja sína.

Pepe Reina, sennilega besti … í heimi.

Tveir aðrir leikmenn fengu eitt stig hvor en komust ekki á lista; Kristján Atli setti Sotirios Kyrgiakos í þriðja sæti á sínum lista þar sem honum fannst Kyrgiakos einn örfárra sem lék framar vonum í vetur, og Aggi setti Dirk Kuyt í þriðja sæti á sínum lista þar sem hann var einn fárra sem lögðu sig alltaf 110% fram í vetur, þótt ekki hafi það alltaf gengið eftir.

Vonum svo að úrval frambjóðenda á þennan lista verði aðeins betra og fjölmennara á næsta ári. En uppgjöri tímabilsins 2009/10 er hér með formlega lokið á kop.is og tímabært að horfa fram á veginn.

4 Comments

  1. Gæti ekki verið meira sammála. Það segir töluvert um gengi liðsins að varla nokkur annar kemur til greina. Hinir sem nefndir eru náðu ekki að halda haus allt tímabilið og voru væntanlega langt frá Pepe. Pepe er næsti fyrirliði liðsins.

    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  2. Sammála þessu uppgjöri og líka því sem Ívar Örn segir varðandi Reina, hann getur hæglega verið næsti fyrirliði Liverpool.

  3. Nú verð ég bara að vera sammála ykkur held að röðin sé líklega rétt og Reina er að mínu mati ekki bara bestur hjá Liverpool heldur er hann besti markvörður heims í dag.

  4. hjartanlega sammála þessu… held líka að Reina verði með fyrirliðabandið á næsta tímabili….

Uppgjör ársins 09/10 – Þjálfarinn okkar allra

Mascherano vill flytja frá Liverpool