Uppgjör 09/10: Mestu vonbrigðin

Við á Kop.is ætlum á næstu dögum að gera upp þetta tímabil til að reyna að átta okkur betur á því hvað gerðist. Við ætlum að veita verðlaun tímabilsins einsog við höfum gert undanfarin ár, en skiptum því hins vegar uppí nokkrar færslur til að fara aðeins dýpra oní hvern flokk. Úrslitin munu birtast á næstu dögum.

Ég tók að mér fyrsta hlutanum, sem fjallar um mestu vonbrigðin. Á næstu dögum munu svo birtast pistlar um leik ársins, mark ársins, kaup ársins, leikmann ársins, mestu framfarirnar, björtustu vonina og svo munum við gera upp hlut framkvæmdastjórans.

Ég bið fólk um að halda umræðunni við viðkomandi flokk, en byrja ekki að ræða um flokka sem eru ekki enn komnir inná síðuna.


Hvar á maður að byrja pistil um mestu vonbrigði tímabilsins 2009-2010. Tímabilið allt var vonbrigði. Undirbúningstímabilið var meira að segja ömurlegt, svo byrjaði tímabilið og við töpuðum fyrsta leik, töpuðum okkar fyrsta leik á Anfield í þriðja leik, duttum svo útúr riðlakeppni Meistaradeildarinnar, duttum útúr bikarnum fyrir Reading og svo duttum við út í framlengingu í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Við töpuðum tvisvar fyrir Chelsea, þrisvar fyrir Arsenal og einu sinni fyrir Man U. Við komumst ekki í Meistaradeildina fyrir næsta tímabil. Strandbolti skoraði mark gegn okkur. Aðdáendur annara liða hættu nánast að gera grín að okkur.

Þetta tímabil var vonbrigði frá A-Ö. Það eina magnaða er að við fengum aldrei stóra skítaleikinn þar sem eitthvað lið tók sig til og pakkaði okkur saman. Ég held að þrátt fyrir allt þá hafi stærsta tapið verið með tveim mörkum.

Mestu vonbrigðin (leikmaður)

En allavegana, byrjum á mestu vonbrigðunum meðal leikmanna. Það var gríðarlega hörð keppni í þessum flokki (öfugt við flokkinn leikmaður ársins til dæmis) og margir tilnefndir. Við ákváðum að “allt liðið” væri ekki valmöguleiki, heldur þyrftum við að velja einstaka leikmenn. Þrjú efstu sætin voru svona:

**3. Dirk Kuyt – 5 stig**
Það hefur verið rifist um Dirk Kuyt og hans framlag til liðsins í sirka hverri einustu leikskýrslu tímabilsins. Ég get ekki ímyndað mér leiðinlega umræðuefni (nema kannski Icesave (muniði eftir því!)) og ætla því ekki að eyða fleiri orðum í þetta. Maggi setti hann í efsta sæti hjá sér og vill fá hann í burtu. Kuyt var okkar reyndasti framherji þegar að Torres var meiddur og hann olli svo miklum vonbrigðum í því hlutverki að orð fá því varla lýst.

**2. Albert Riera – 10 stig**
Riera spilaði oft á tíðum virkilega vel á síðasta tímabili og var í spænska landsliðinu í Álfukeppninni síðasta sumar. Svo meiddist hann og (einsog SSteinn orðaði það) tognaði svo illa á heila – dissaði liðið og þjálfarann, vildi fara til Rússlands en hafnaði svo að fara þangað því að launin voru svo lág.

Hvað þessi annars ágæti leikmaður var að spá get ég hreinlega ekki skilið. Hann átti að ég held sirka 60 góðar mínútur í vetur og verður seldur í sumar.

**1. Steven Gerrard – 14 stig (af 18 mögulegum)**
Leikmaðurinn sem var valinn leikmaður ársins af okkur í fyrra er aftur valinn í efsta sætið, en núna bara í vitlausum flokk. Fjórir af okkur (ég meðtalin) völdum hann í efsta sætið (Riera og Kuyt fengu fyrstu sætin hjá SSteini og Magga).

Hvað kom eiginlega fyrir Steven Gerrard á þessu tímabili? Ég veit það ekki almennilega. En hann var lélegur nánast allt tímabilið. Það kom nánast ekkert útúr honum, hann skoraði örfá mörk og lítið annað kom útúr honum af viti. Það nennir ekki nokkur maður að deila um það hvor sé betri þessa dagana, Gerrard eða Lampard – slíkur var munurinn á þeim.

Ekki nóg með það að Gerrard hafi leikið illa, heldur hefur hann verið afleitur fyrirliði. Hann er nánast undantekningalaust sá sem fyrst gefst upp og hengir haus í leikjum. Þegar hann hefur ekki haft Torres sér við hlið þá er nánast einsog hann gefist upp fyrir leiki og hann virðist hafa gleymt því að hann var frábær leikmaður áður en sá spænski kom til liðsins.

Ömurlegt tímabil hjá Steven Gerrard og í fyrsta skipti á hans ferli eru ansi margir Liverpool aðdáendur, sem vilja sjá hann seldan. Slíkt hefði verið fullkomlega óhugsandi fyrir 12 mánuðum.

(aðrir sem fengu stig: Carra 2, Babel 1, Aurelio 4, Aquilani 1)


Mestu vonbrigðin (annað)

Hérna kom ansi margt til greina, en röðin endaði svona:

**3. Gengið í Meistaradeildinni – 4 stig**
Við duttum út í riðlakeppninni fyrir Fiorentina og Lyon. Við áttum ekki einn góðan leik í keppninni. Loksins þegar við fengum að sleppa við forkeppnina þá léku okkar menn hryllilega. Lélegasta tímabil Rafa í Evrópu.

**2. Gengið í deildinni – 13 stig**
Við spáðum Liverpool 1. sæti í deildinni – við enduðum í því sjöunda. Vonbrigðin eru gríðarleg og þau hafa verið að síast inní hausinn á manni í smáum skömmtum í allan vetur.

**1. Eigendur og þjálfari – 16 stig**
Öll umgjörð liðsins hefur verið í rugli og þjálfarinn hefur staðið sig afleitlega. Allt frá því að enginn sóknarmaður var fenginn til liðsins síðasta sumar til upplýsinga um gríðarlega slæma skuldastöðu, sem upp hefur komið núna á síðustu mánuðunum.

Það eru kannski þessi mál öðru fremur sem valda því að Liverpool aðdáendur eru ekki beint uppfullir af bjartsýni þessa dagana. Óbreytt staða í þessum eigendamálum í sumar mun væntanlega þýða að lítið muni gerast í leikmannamálum. Vissulega á þessi hópur, sem Liverpool á í dag, að geta gert meira en hann gerði á nýliðnu tímabili – en fyrir þetta sumar er maður ekki einu sinni viss um að hópurinn haldist jafn sterkur, hvað þá að hann styrkist.

Allt batteríið í kringum liðið hefur valdið okkur sífelldum vonbrigðum á þessu tímabili. Það er sennilega heistasta ósk flestra Liverpool stuðningsmanna að félagið verði selt í sumar. Við skulum vona að slíkt gerist fyrr en síðar.

28 Comments

 1. Tímabilið búið! bless ömurlega tímabil.
  góður pistill og ansi sammála þessu!! nú er það nýtt tímabil sem er eins gott að verði betra!!

 2. Ég myndi vilja bæta skemmtilegasta og skondnasta atriði vetrarins á mestu vonbrigða listann, þ.e.a.s. sundboltaatvikið gegn Sunderland. Það að mínu mati endurspeglaði tímabilið í sinni tærustu mynd.
  Einnig finnst mér Glen Johnson alls ekki hafa verið heillandi sem varnarmaður þetta tímabilið þó svo að hann hafi átt ágætis spretti í nokkrum leikjum í vetur. Oft á tíðum hef ég hugsað hvað Dirk Kuyt er að spila vitlausa stöðu, og hvernig hann náði að pota inn öllum þessum mörkum í Hollandi er mér hulin ráðgáta. Að prufa hann í hægri bakverði og nota Glen Johnson sem kanntara sem getur tekið mann á og sent fyrir, líkt og Emile Heskey hefði átt að verða hafsent.

 3. Takk fyrir skrifin. Fylgist áfram með til að fá útrás gremjunni eftir þetta arfa-, njóla- og aðallega fífla-slaka tímabil.

 4. Ómissandi síða, takk fyrir umfjöllunina þetta erfiða síson.

 5. Listarnir koma vel út. Ég var með öll atriðin í vonbrigðum ársins (almennt) á mínum lista og tek því undir allt sem var sagt þar. Hvað leikmennina varðar var ég með Gerrard í fyrsta og Carra í öðru og var langt kominn með að hafa Kuyt í þriðja þegar ég mundi hversu ótrúlega Riera brást liðinu í vetur og setti hann inn í staðinn. Þvílíkur bjáni.

  Hverjir kusu annars Aurelio? Strákar, hvernig gat fjarvera hans komið nokkrum manni á óvart? Vonbrigði? Nei, bara sama vesenið og alltaf. 😉

  En já, það er fínt að hafa byrjað yfirferðina á að klára niðurganginn. Skola í burtu viðbjóðinn áður en við reynum að rifja upp það sem gott var í vetur.

 6. Þúsund þakkir fyrir endalaust góða síðu og að nenna að skrifa alla þessa snildar pisla… ein af þeim síðum sem ég heing inná 😉

 7. Er ekki eitthvað bölvað vesen á Gerrard í einkalífinu kelling hans að halda fram hjá honum og hann í rugli?

 8. Dudu: ég held að hann nenni þessi bara ekki lengur, ekki nogu ungur til að bera lið sjálfur og vera sá hættulegi á vellinum.

 9. Kyut ætti að vera ofar, hann er vissulega duglegur, en hann er ekki góður í neinu!
  Kantspil, fyrirgjafir, vörn, markaskorun/heppni, allt er 2. flokks hjá honum og samt spilar maðurinn 95% af öllum leikjum!

  Riera hefur aldrei náð að stimpla sig inn og kaupin á honum illskiljanleg, m.v. hversu einfættur hann er.

  Carragher á líka heima hér, hann var afleitur framan af og kostaði liðið mikið,
  sjálfstraustið fór með frammistöðuleysi hans að mínu mati.

 10. voru eigendurnir eitthvað að valda vonbrigðum ? var ekki alveg vitað fyrir tímabilið um fjármálaóreiðuna og að þessir menn eru bjánar ? allavega hafði maður engar væntingar til þeirra út frá því sem maður vissi fyrir tímabilið… kannski vonbrigði að ekki hafi tekist að losna við þá fyrir fullt og allt og fá aðra betri í staðinn…

  Af leikmönnum fannst mér Gerrard sá sem spilaði mest undir getu og þá olli Aquilani óneitanlega vonbrigðum, en það skrifast á stjórann sem ber ábyrgð á því að kaupa meiddan leikmann sem hann pakkaði síðan í bómul til að hlífa fyrir hörkunni í enska boltanum. Glen Johnson olli líka vonbrigðum, byrjaði vel en var síðan meira og minna meiddur og náði sér aldrei aftur á strik eftir það. Að lokum Skrtel eins og menn hafa nefnt hér að framan, náði ekki að fylgja eftir því góða starfi sem hann hafði skilað fram að þessu tímabili.

 11. Skemmtilegur pistill Tek undir með #6 Kristjáni Atla. Ef manni er illt í maganum þá er eins gott að stigna puttanum upp í kok og æla. Losa sig við vibbann. Manni líður mikið betur á eftir 🙂 og er þá tilbúinn að hakka eitthvað gott í sig.

  Er að mestu sammála niðurstöðunni:

  Riera fyrir að skjóta hægri fótinn af við vinstri öxl í stað þess að berjast eins og ljón og gera það sem hann á að geta.

  Gerrard fyrir að hafa týnt sér…..einhversstaðar. Spurning um að hengja upp postera í Liverpool borg og athuga hvort einhver finni hann? Kannski að hann sé þarna einhversstaðar ráfandi og rekist á svona póster.

  Veit ekki alveg með þann þriðja. Kannski Andriy Voronin sem gekk vel hjá Hertu í láni en hélt áfram að líta fallega út á vellinum hjá okkur, með þetta tagl sitt en mest lítið meir en það. Enda fór hann í jan og heldur týskusýningu á öðrum stað.

  Bíð spenntur eftir næsta pistli.

 12. Sammála þessu í megindráttum (geggjuð síða by-the-way 🙂 ).
  Vonbrigði leikmanna:
  1. Gerrard, 2. Kyut og 3. Riera.

  Gerrard virðist ekki vera lengur með þann neista sem þarf til klára leikina. Er líklega orðinn þreyttur á að vera sá sem heldur liðinu uppi.

  Set Kát á undan Riera þar sem að hann spilaði flest alla leiki. Þótt hann sé einsog Energybunny þá þýðir það ekki að hann eigi ekki að geta skilað meiru. Maðurinn spilaði sem framherji hjá Feyenoord og Utrecht og af hverju getur hann ekki gert það sama hjá okkur (ég veit, þjálfarinn)
  Riera er fífl sem þarf að selja líkt og Pennant hér um árið.

  Vonbrigði annað:
  1. Gengið í deildinni, 2. Evrópudeildir, 3. Eigendur og starfslið.

  Við vorum komnir með mjög góða liðsheild í fyrra. Skiptir engu þó að Xabi hafi verið góður síðasta tímabil því að ekki unnum við deildina þá og höfum ekki gert meðan hann var í liðinu. Þannig að það er ekki hægt að fara benda á að við gerðum ekki betur því að við höfðum hann ekki. Það sem hægt er að benda á er að bekkurinn er ekki nógu góður. Við höfum enga breidd og þjálfarinn er með hausinn upp í rassgatinu á þeim sem eru favorite hjá honum (Kyut, Ngog, Riera, Aurelio ofl.). Lætur jafnvel meidda menn spila í stað þess að gefa öðrum séns. Það er ekki nóg að vera bestur á æfingu til að viðkomandi fái sjálfkrafa rétt að vera í liðinu á leikdag.

  Evrópudeildir: Það að detta út úr riðlakeppninni í Meistaradeildinni er fáránlegt, að komast ekki í úrslitaleik í Evrópudeildinni er enn fáránlegra og mikil vonbrigði að vinna ekki einustu dollu þessa leiktíðina. Mikil vonbrigði !

  Eigendur: Sjálfgefið og hefur verið það frá nær byrjun (lofuðu góðu þegar þeir komu en það runnu á mann tvær grímur eftir ca. 3 mánuði).
  Starfsliðið:
  Þjálfarinn: Hefur klárlega valdið vonbrigðum þetta tímabil. Ekki frekari orð um það að hafa.
  Sjúkrateymi: Hvernig er hægt að fá leikmenn sem sífellt eru meiddir til Liverpool, hvurslags sjúkrateymi erum við eiginlega með ! Og við teljum að það sé gott mál að kaupa leikmann sem þegar er meiddur og halda að við séum einhver kraftaverkastöð við áður meidda leikmenn. Hvað er málið með Torres um leið og hann kemur í snertingu við sjúkraliðið okkar? Þeir sem eru búnir að vera meiddir hafa verið það þónokkuð lengi hjá okkar klúbbi.
  Ian Rush og King Kenny: Hvað gera þeir eiginlega hjá klúbbnum ? Bora í nefið !!
  Aðrir í þjálfarateymi: Þeir einu sem virðast vera skila sínu eru markmannsþjálfarinn og varaliðsþjálfari þar sem að þaðan heyrir maður einu góðu fréttirnar. Já, ég veit að varaliðið endaði í 3ja sæti eftir að hafa unnið deildina í fyrra.

  YNWA

 13. Auðvitað kemur þetta í belg og biðu !!

  (fiktaði aðeins í þessu, skárra svona? – Babú)

 14. Ég er alveg sammála ykkur varðandi vonbrigði vegna leikmanna. Kuyt átti alveg góða leiki inn á milli en heilt yfir var hann dapur í vetur. Mestu vonbrigðin eru þau að hann geti ekki neitt einn upp á toppi, því þá stöðu spilar hann stundum hjá landsliði Hollands og spilaði hjá Feyenoord áður Liverpool keypti hann. Í fyrsta skipti síðan að Kuyt kom til Liverpool (hefur verið einn að mínum uppáhalds leikmönnum) er ég tilbúinn að selja kallinn, en bara ef það verður til þess að nýr og betri leikmaður verði keyptur í staðinn. Væri alveg til í að sjá Milner koma inn í staðinn það væru góð skipti.

  Ég skil ekki hvað kom fyrir hjá Riera, hvort sem það eru meiðsli í upphafi móts eða tognun á heila eins og sumir vilja meina þá er gaurinn búinn að vera arfa slakur í vetur. Við erum að tala um leikmann sem var einn af þeim betri fyrri hluta síðasta tímabils og fastamaður í spænska landsliðinu, besta landsliði heims í dag. Hann kom með breiddina í spilið sem hefur vantað, ólíkt öðrum kantmönnum Liverpool þá sótti hann upp kantinn en ekki inn á miðjuna. Fyrir tímabilið hefði manni ekki grunað að vinstri kanturinn yrði vandræða staða þar sem Riera og Benayoun voru frábærir þar á síðasta tímabili. En mestu vonbrigðin við Riera eru auðvitað viðbrögð hans við því að komast ekki í liðið. Í stað þess að leggja harðar af sér líkt og Babel gerði og vinna sig þannig aftur inn í liðið og jafnvel spænska landsliðið þá gafst hann upp og fór að væla. Þetta eru klárlega mestu vonbrigðin tengd Riera.

  Varðandi Gerrard þá fannst mér í vetur eins og hann nennti þessu ekki ef Torres vantaði í liðið. Fyrir frammistöðu sína á síðasta tímabili var Gerrard valinn í heimsliðið, valinn leikmaður tímabilsins af blaðamönnum, og kosinn hér á þessari síðu besti leikmaðurinn. Í vetur fær hann engar viðurkenningar fyrir sinn leik nema þessa að vera mestu vonbrigðin. Hvað gerðist á þessum tíma? Ég hef verið eitt spurningamerki í vetur og veit ekki svarið. Hvað varð um Gerrard sem við þekkjum, besta leikmann Liverpool og leiðtoga liðsins. Ekki hjálpaði það mér mikið að horfa síðustu helgi á þátt á Stöð 2 Sport þar sem taldir voru upp bestur leikmenn heims síðusta áratug. Þar sá maður Gerrard í öllu sínu veldi en í dag sé ég bara skugga hans. Án nokkurs vafa sá leikmaður sem valdið hefur mestum vonbrigðum á þessu tímabili.

  Í mestu vonbrigði annað toppar ekkert árangurinn í deildinni. Að fara úr öðru sæti í það sjöunda er allt of mikil niðursveifla þrátt fyrir breytingar á leikmannahópi liðsins. Einnig hefur meiðslasaga Torres í vetur verið ein mestu vonbrigði tímabilsins. Einungis 22 leikir spilaðir í deildinni samt 18 mörk, þarf að segja meira. Ég fullyrði að Torres heill í vetur = 3-4 sæti.

  Krizzi

 15. Sælir félagar

  Sammála því sem þarna kemur fram. Vonbrigðin eru þó mest með Gerrard og því eðlilegt að hann sé þarna fyrstur/síðastur á lista. Einhverjir hafa nefnt Carra sem einn af þeim sem vonbrigðum hafa valdið. Því er ég ekki sammála. Hann átti að vísu afleita byrjun og hefur stundum átt erfitt í vetur.

  Á það ber að líta í samhenginu að endalausar hrókeringar í vörninni hafa auðvitað haft áhrif á frammistöðu hans í einstaka leikjum. En það er sama hvað gengið hefur á hann hengdi aldrei haus og barðist í hverjum einasta leik til síðasta blóðdropa. Það hefði til dæmis fyrirliðinn mátt taka sér til fyrirmyndar og reyndar fleiri. Ef Gerrard hefði gert það sama væri hann örugglega ekki á þessum lista.

  Carra er ekki í þessu liði fyrir einstaka boltameðferð og tækni. Hann er þarna vegna þess baráttuþreks og óbilandi vilja til að berjast til þrautar. Það ætti svo að hvetja þá sem eru í kringum hann til baráttunar sem á að vera í hverjum manni liðsins. Því miður hefur það ekki dugað til en er samt það sem verður að vera til staðar. í hverjum einasta leikmanni í hverjum einasta leik. Þar fer Carra fremstur meðal jafningja.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 16. Ég ætla að vona að það komi skýrsla um verstu leikmennina líka því það er töluverður munur á mestu vonbrigðunum og versta leikmanninum.

  Persónulega fannst mér Riera standa sig ágætlega og þessar 60 góðu mínútur sem hann átti eru töluvert fleiri góðar mínútur en margir aðrir sem spiluðu leik eftir leik áttu. Hann kom fram í viðtali og sagði þar sannleikann því eins og með mig, var hann búinn að fá nóg af þessu kjaftæði sem var í gangi í klúbbnum, hjá þjálfaranum, leikmönnum, eigendum og stjórnendum. Ég var sammála hverju einasta orði sem hann sagði í þessu viðtali og því meira sem tíminn leið því nær komumst við staðreyndum. Riera sagði bara sannleikann.

  En sannleikurinn er sár og því fylgir mikil reiði, því sannari því meiri reiði. Best hefði verið ef fleiri leikmenn hefðu tjáð sig, þá hefði orðið einhverskonar uppreisn á Anfield og mest öllum skít mokað út þegar þess þurfti. Nú er tímabilið búið og allir sitja eftir með kúkabragði í munninum nema Pepe.

  Liverpool var sökkvandi skip og er ennþá sökkvandi skip og einhver þarf að standa upp og benda á götin á skipinu svo hægt sé að stöðva lekann og koma Liverpool freygátunni aftur á flot.
  Riera sagði óþægilega sannleikann sem allir vildu horfa fram hjá, hann benti á fílinn í herberginu og fólk gaf skít í hann fyrir það og co’uðu með Benitez í staðinn.

 17. 10# Var ekki Agger meira og minna meiddur i fyrra? Ekki það að ég sé að taka það af Skrtel að hann hafi verið góður.
  En ein besta frétt sem ég hef lesið lengi varðandi þetta lið kom fyrir um ca. mánuði þar sem fram kom að Liverpool voru að ráða einn færasta sjúkraþjálfara Ástralíu, en hann kemur til liðs við Liverpool eftir HM þar sem hann sinnir sínum mönnum.
  Það veit á gott að fá svona mann inn, og eru Ástralir með færustu mönnum á þessu sviði.

 18. Kiddi Keagan, segðu mér nú alveg satt, með hvaða liði heldur þú í raun og veru? Þú kemur reglulega hér inn á bloggsíðu STUÐNINGSMANNA Liverpool og ælir út úr þér kommentum eins og #18. Að mínu mati þá geta bara tvær ástæður verið fyrir þessu stanslausa rugli:

  1. Þú ert ManUtd/Chelsea/Arsenal stuðningsmaður í raun og kemur eingöngu hér inn til þess að angra þá sem langar að lesa vel skrifaðar greinar um liðið sem við elskum.

  2. Þú ert einn af þessum FM heilaþvegnu “gloryhunters” unglingum sem horfa öfundaraugum á ManCity og Chelsea og óska þess að við fáum inn Sugardaddy eiganda sem er til búinn að eyða €300 milljónum á hverju ári sama hvernig gengur.

  Ef svo einkennilega vill til að hvorugt á við þig að þá verð ég einfaldlega að draga vit þitt á knattspyrnu til efa þar sem þú munt flokkast með örfáum svörtum sauðum sem stundum læðast inn á þessa annars framúrskarandi síðu!

  Ég bið frábæra síðuhaldara innilega afsökunar á þessum útúrdúr en ég bara varð að létta þessu af mér. Kærar þakkir fyrir lang bestu knattspyrnuvefsíðu sem er í gangi í dag, þið eigið mikið hrós skilið fyrir þetta allt saman.

 19. Sæll Gylfi.
  Ég hef verið harður stuðningsmaður Liverpool frá því að ég kom út úr mömmu minni fyrir cirka 35 árum síðan og ég hef fylgst með hverju einasta tímabili síðan ég var 7 ára gamall. Mér er mjög annt um þetta lið og vil fá það besta mögulega út úr því. Hinsvegar þegar að babb kemst í bátinn eða þá að einstaklingar eru teknir fram yfir hópinn þá tel ég réttast að tjá mig um það. Ég er oft og tíðum á öndverðu meiði við meiripart þeirra sem hér kommenta, (það veit Kristján Atli) en ég lít bara á málin mjög gagnrýnum augum þegar að hlutirnir ganga ekki upp. Mér finnst jafn nauðsynlegt að gagnrýna góðu kallana sem vondu kallana og það sem pirrar mig er þegar greindir menn eins og þeir sem hér koma reglulega inn eiga sér bara 2 “óvini” í Liverpool og þeirra séu sökin á hinu slæma gengi. Í þessu tilfelli finnst mér fáránlegt að úthýða Riera út af því að Benitez þoldi ekki gagnrýnina. Hver ykkar hér getur núna sagt að Riera hafi verið að bulla? Benitez tók bara 20. slæmu ákvörðunina á tímabilinu þegar hann ákvað að refsa Riera fyrir þetta viðtal. Sumir gætu sagt að stundum mætti satt kyrrt liggja en í þessu tilfelli þá hefði ég viljað að fleiri hefðu tjáð sig á sama máta og Babel og Riera gerðu. Þá hefðu hugsanlega einhverjir vaknað af værum blundi og framkvæmt alvöru aðgerð til að bjarga tímabilinu. Riera er góð lausn á kantinn og töluvert betri en þeir senterar sem við höfum notað á kantinum en vegna þess hversu þver Benitez er þá var hans þvermóðska tekin fram yfir hag liðsins. Það finnst mér óafsakanlegt, eins og svo margt annað sem Benitez hefur framkvæmt síðustu 4 árin.
  Ágiskun þín var samt skemmtileg varðandi mig, haldandi að ég sé FM gloryhunter leitandi að sugardaddy því ég er nánast eini maðurinn á þessari síðu sem vil skipta um stjóra áður en skipt er um eigendur.
  takk fyrir og góðar stundir.

 20. Sæll Kiddi og takk fyrir gott og virðingarvert svar. Gaman að heyra að þú ert harður Liverpool stuðningsmaður á besta aldri. Mig langar samt aðeins að hnýta í sumt af því sem þú setur fram:

  “eða þá að einstaklingar eru teknir fram yfir hópinn þá tel ég réttast að tjá mig um það.”

  Hvenær hafa einstaklingar verið teknir fram yfir hópinn hjá Liverpool? Það þarf enginn að segja mér að þeir haldi að menn eins og Lucas og Kuyt hafi spilað svona marga leiki (þó þeir hafi ekki skarað fram úr í hverjum einasta leik) af því að þeir séu orðnir svo stórir að Benitez geti bara ekki annað en teflt þeim fram. Er ekki líklegra að þeir hafi einfaldlega lagt sig meira fram á æfingum og sýnt Benitez eitthvað sem aðrir leikmenn hafi ekki sýnt að þeir hafi?

  “Í þessu tilfelli finnst mér fáránlegt að úthýða Riera út af því að Benitez þoldi ekki gagnrýnina. Hver ykkar hér getur núna sagt að Riera hafi verið að bulla? Benitez tók bara 20. slæmu ákvörðunina á tímabilinu þegar hann ákvað að refsa Riera fyrir þetta viðtal.”

  Það hefur oft komið fram, bæði hér og á erlendum síðum að það er ekki The Liverpool Way að leysa vandamálin opinberlega. Liverpool hefur alltaf í gegnum tíðina verið tákngervingur fyrir fagmennsku og það sem Riera gerði stangaðist á við allt það sem við stöndum fyrir. Babel sá amk að sér og hefur sýnt að hann vill halda áfram að læra af þeim bestu. Það hefur ekkert með þetta að gera hvort Benitez þoli að taka gagnrýni eða ekki…held reyndar að enginn okkar sé svo nákominn Benitez að við getum sagt eitthvað til um það.

  “en vegna þess hversu þver Benitez er þá var hans þvermóðska tekin fram yfir hag liðsins.”

  Veit ekki hvaðan þú hefur þessa fullyrðingu en þetta kemur inn á svar mitt hér á undan um að þekkja Benitez svona persónulega.

  “því ég er nánast eini maðurinn á þessari síðu sem vil skipta um stjóra áður en skipt er um eigendur.”

  Ég hef aldrei skilið þessa áráttu með að skipta um knattspyrnustjóra um leið og mótvindurinn blæs.

  Í fyrsta lagi að þá verður að horfa raunsætt á þetta og hugsa hvort hægt sé að fá hæfari stjóra en Benitez (eins og markaðurinn er í dag) sem getur gert betur með núverandi hóp (þar sem það lítur ekki út fyrir að það verði bætt í hann)?

  Í öðru lagi þá finnst mér menn vera fullharðir ef að stjóri sem hefur staðið sig jafnvel með Liverpool og Benitez (og sýnt stöðuga framför ár eftir ár) lendir í mjög slöku tímabili þar sem margir utanaðkomandi þættir höfðu áhrif á gengi liðsins (sama hvort menn kjósa að taka tillit til þeirra eða ekki.

  Það sem að ég vil helst koma á framfæri hérna er að Benitez er langt því frá að vera heilagur og hefur gert mistök eins og allir aðrir. En að ætla að dæma hann frá fyrsta slaka tímabilinu með okkur eru mistök sem liðið hreinlega hefur ekki efni á að gera.

 21. Við ættum kannski bara að emailast til að vera að blanda ekki saklausum lesendum inn í þetta mál. En málið er að Benitez hefur ekki náð árangri með liðið síðastliðin ár. Ég hef marg oft talað um að síðasta tímabil var byggt á skýjaborgum. Benitez tefldi liðinu hræðilega fram, var að gera skrítnar skiptingar og nýta mennina illa. Leikstíllinn var sami leiðinlegi varnarstíllinn og við enduðum með að gera allt of marga jafnteflis leiki. Leikmannahópurinn var miklu betri en árangurinn í leikjunum og það var ekki fyrr en Benayoun fékk alvöru tækifæri og við fórum að spila sóknarbolta sem við blómstruðum á síðustu metrunum og náðum öðru sætinu. Ég er sannfærður um að ef stjóri með sóknarbolta í huga hefði stjórnað liðinu í fyrra þá hefðum við sigrað deildina með 6 stigum. Síðan Benitez byrjaði þá hefur hann sett alla áherslu á evrópudeildina fremur en ensku deildina. Það sást greinilega í róteringum á leikmönnum og mun á upphafsliðinu í evrópu leikjum og deildar leikjum. Sú áhersla hefur mikið bitnað á liðinu. Þannig að þetta er ekki fyrsta leiktíðin sem gengur illa hjá honum, hann er búinn að fara mjög illa með leikmennina sem hann hefur keypt og endalaust stillt upp liði sem hefur spilað undir getu Liverpool. Þú talar um að Liverpool hefur alltaf verið tákngervingur fagmennsku, hver er fagmennskan í að geyma 20 milljóna leikmann á bekknum vegna þeirrar staðreyndar að við erum ekki að vinna leiki? Líkt og Benitez sagði varðandi Aquilani. Hver er fagmennskan í því að breyta aldrei um leikstíl, sama hvernig leikir fara? og hver er fagmennskan í því að taka ball possesion fram yfir skoruð mörk? Fagmennskan er einmitt það sem vantaði þetta árið, því varð einhver að grípa í taumana og tjá sig um málið. Því ekki hafa kanarnir vit á fótbolta og því nægir ekki að tjá sig við þá. Þess vegna fór Riera opinbert með þetta. Og varðandi að láta einstaklinga vera tekna fram yfir lið. Þá nægir alveg að nefna Kuyt, Gerrard og Lucas. Árangur á æfingum segir bara ekkert til um árangur í leikjum. Það er allt önnur spilamennska og allt aðrar áherslur á þessum stöðum. Æfingar segja til um hvers leikmenn gætu verið megnugir en árangur í leikjum segir hvað þeir geta. Ef maður getur ekki shitt í 6 leikjum í röð afhverju er maður þá ennþá í byrjunarliðinu? Afþví að maður er góður á æfingum?
  Ég efast um að við verðum sammála um þetta en þetta eru skemmtilegar vangaveltur.

 22. Kiddi. Sem fyrr ertu nánast úti að skíta í framsetningu þinni hérna (afsakið orðbragðið stjórnendur og aðrir lesendur).

  Þú segir:
  “Ég hef marg oft talað um að síðasta tímabil var byggt á skýjaborgum. Benitez tefldi liðinu hræðilega fram, var að gera skrítnar skiptingar og nýta mennina illa. Leikstíllinn var sami leiðinlegi varnarstíllinn og við enduðum með að gera allt of marga jafnteflis leiki.”

  Skoðaðu statik fyrir síðasta tímabil t.d. hér http://url.is/3il Liverpool 77 mörk skoruð 27 fengin á sér = 50 mörk í plús. Næstu lið á eftir Man USA, Chel$ki og Nallar með 68 mörk hver. Vissulega of mörg jafntefli í fyrra sem kostuðu okkur titilinn en markatalan segir sitt. Menn lágu ekki í vörn í fyrra. Varla að maður þori að spyrja en hvern viltu sjá í stað Benitez? Grunar hver það er.

  Annað. Afhverju í ósköpunum eiga menn að fara í email samskipti við þig þegar menn fara að rökræða við þig eins og Gylfi Freyr gerir? Er þetta kommenta kerfi ekki akkúrat til að skiptast á skoðunum?

  Og btw. Riera sagði sína skoðun á málinu. Hún þarf ekkert endilega að vera hinn heilagi sannleikur. Þetta var hans skoðun, sett asnalega fram og gegn þeirri hefð sem ríkir hjá klúbbnum. Hann uppskar fyrir vikið nákvæmlega eins og hann sáði. Ekkert nema illgresi Bara fyrir að fara í fílu og segja sína skoðun opinberlega.

  Langar að taka eitt dæmi og það er Fowler. Í vetur kom hann í útvarpsviðtöl sem mátti heyra á netinu. Þar sagði hann að menn ættu að styðja liðið allt, þjálfarann meðtalinn. Ekkert rugl eða bull. Þjappa sér saman og styðja liðið út í eitt. Núna er tímabilið búið og þá segir hann sína skoðun sem er að Benitez ætti að fara. Hann er ekki að draga liðið niður í neikvæðni á meðan liðið er að spila eins og svo margir hafa gert m.a. Riera. En það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að allir geri það sem setja sig á háan hest því þeir segja aðeins það sem er “satt og rétt”. Piff…

 23. Jói, Fowler segir hvergi að hann vilji að Benitez fari. 🙂
  Það þarf að þjálfa sig í að lesa í raun ekkert nema bein quote, því þeirra á milli og í fyrirsögn er yfirleitt argasta vitleysa.

 24. Sæll Jói
  ef þú manst eftir tímabilinu í fyrra þá veistu að við vorum með langbesta liðið í deildinni, besta framherjann, Torres, Langbestu miðjuna, Masch, Alonso og Gerrard. Eina bestu vörnina með Carra í toppformi, Hyppia og Agger (utan við meiðsli) og svo þegar Benayoun fékk loks að spila þá var kanturinn að svínvirka hjá okkur. Ef að babel hefði fengið meiri spilatíma þá hefði þetta lið verið stórkostlegt. Hinsvegar var Benitez mjög varkár fyrir áramót og var að spara menn og rótera frekar bjánalega í kringum Meistaradeildina t.d. Þess vegna gjörsigruðum ekki deildina, út af róteringum, skrítnum inná skiptingum og of mikilli áherslu á meistaradeildina, síðan þegar Meistaradeildin var dottin út þá fór hann að stilla upp sókndjörfu vinningsliði en bara örfáum stigum of seint.
  Svo veit ég ekki með þig Jói en ef skipið sem ég væri um borð í væri að sökkvar þá myndi ég láta vita afþví áður en það sekkur en ekki eftir. Ég myndi telja það líklegra til björgunar.

 25. Það verður líka að minnast á gengið í FA Cup, að ná ekki að leggja lið úr Championship deildinni af velli í tveimur leikjum er náttúrulega vítavert. Frá því mómenti varð ég staðfastur í því að Benitez ætti að yfirgefa klúbbinn í lok tímabilsins, en ég hafði verið á báðum áttum í nokkurn tíma á því gloppótta gengi sem þá hafði gengið yfir.

Opinn þráður

Uppgjör 09/10: Mestu framfarir og bjartasta vonin