Atlético Madrid á morgun

Ég elska Evrópukvöld á Anfield og ég verð bara að viðurkenna það að þegar stóru vonbrigðin urðu í vetur og við duttum út úr Meistaradeildinni, þá fannst mér það ferleg tilhugsun að vera að fara að keppa í þessari Evrópu B deild. Í dag? Ég er bara fáránlega spenntur, alveg fáránlega spenntur. Framundan er EVRÓPUKVÖLD á Anfield, og það seinni leikur í undanúrslitum keppninnar, með góðum sigri, þá förum við til Þýskalands og leikum um BIKAR. Mér er algjörlega sama hvernig menn tala um þessa keppni, í dag er ég ánægður, hreinlega ánægðari en ef okkar menn hefðu dottið út í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ef við förum í úrslit og vinnum, þá verð ég margfalt ánægðari en ef við hefðum farið í undanúrslit í þeirri keppni. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þá fórum við í úrslit í Evrópukeppni í fyrsta sinn í égveitekkihvaðlangantíma og unnum. Það var æðisleg tilfinning. Við erum eiginlega búin að vera spoiled þegar kemur að þessum keppnum í Evrópu, því þetta var fjarri hugsunum manns árið 2000 og mööörg ár þar á undan. Á fimmtudaginn þá mun maður algjörlega gleyma öllu sem snýr að ensku deildinni, ÖLLU.

Það er ávallt erfitt að spá fyrir um úrslit í fótbolta, allavega oftast nær og sér í lagi þegar kemur að leikjum milli tveggja sterkra liða. En eitt er alveg á tæru, á fimmtudagskvöldið verður allt gjörsamlega geðtruflað á Anfield. 12. maðurinn mætir á svæðið eins og enginn sé morgundagurinn. Það þarf akkúrat NÚLL mótiveringu fyrir leikmenn Liverpool FC fyrir þennan leik, ja, ef hana þarf, þá er eitthvað að leikmönnum í höfðinu. Brjáluð stemmning og góð úrslit tryggja mönnum sæti í úrslitaleik. Það þarf akkúrat ekkert meira og vænti ég þess að menn komi afar vel stemmdir inn í leikinn. Ég geng svo langt að segja að það skipti nánast engu máli hvernig uppstillingin verður (innan vissra marka þó, er ekki að tala um að Carra gæti tekið strikerinn) menn eiga að gera þetta kvöld að sínu (svo maður taki nú smá Beinteins á þetta). Fyrst ég er orðinn svona spenntur á þriðjudagskvöldi, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig leikmennirnir eru, og eru þeir staðsettir í borginni og talað og skrafað um leikinn alls staðar í kringum þá.

En eigum við góðan séns? Við förum inn í þennan leik án þess að hafa fengið mark skráð á útivellinum, og erum með eitt mark í mínus. Við erum sem sagt 0-1 undir í hálfleik, en seinni hálfleikur er heilar 90 mínútur og þær fara allar fram á Anfield fyrir framan bestu stuðningsmenn í veröldinni. Það skal enginn segja mér að við séum ekki með þetta í okkar höndum. Hæðin fyrir framan okkur hefur oft verið brattari og grýttari, þessi er bara nokkuð aflíðandi, svo framarlega sem leikmenn verði klárir frá fyrstu mínútu. Við skoruðum fullkomlega löglegt mark í fyrri leiknum. Við fengum á okkur mark sem ekki átti að standa. Gott og blessað, sýndi það að við getum alveg skorað hjá þessu liði þrátt fyrir að hafa átt hörmulega slakan leik á erfiðum útivelli eftir fáránlega langt ferðalag. Af hverju ættum við ekki að geta gert miklu betur núna? Á okkar heimavelli? Á Anfield? Jú, það kemur hreinlega ekkert annað til greina, einn úrslitaleik í maí takk þar sem við getum glaðst saman eftir þetta hörmungar tímabil, þetta er ekki neitt svo svaðalega ósanngjörn krafa er það nokkuð?

Mótherjarnir eru sterkir, á því er enginn vafi. Þeir eru vel mannaðir, en hafa eins og við, valdið miklum vonbrigðum heimafyrir. Sarah Jessica Parker í framlínunni þeirra hefur verið ansi hot, Kun Aguero kemur í leikinn úr banni, Simao er hrikalega góður leikmaður og svo Maxi…ach, nei hann er ekki þar lengur, og svo slatti af öðrum góðum spilurum. En boltinn liggur engu að síður hjá okkur, það fer eftir okkar mönnum hvort við förum alla leið eða ekki. Ég fer ekkert ofan af því að þrátt fyrir mikil meiðsli í okkar herbúðum, þá erum við með betra lið en Atlético og við ættum að klára þetta, þó auðvitað ekkert komi að sjálfu sér. Þegar komið er að þessum tímapunkti í keppninni, þá vil ég fyrst og fremst komast áfram, það væri bónus að komast áfram á sexy football og flæðandi sóknarleik þar sem við gjörsigrum andstæðinginn 8-0. En mér er líka nokkuð sama þótt þetta yrði ugly 2-0 sigur, algjörlega sama. Ég vil bara fá að fagna eins og brjálaður maður í leikslok og ég vil bara fá allt build up-ið og spennuna sem fylgir því að vera að fara að spila til úrslita um bikar, um Evrópubikar, og mér gæti ekki verið meira sama hvaða nafni menn nefna þessa keppni, bara gæti ekki verið meira sama.

En að liðinu okkar, það er alveg morgunljóst að leikmannalega séð þá erum við alveg “to the bare bones” í þessum leik, sér í lagi þegar horft er til varnar og sóknar. Insúa, Aurelio, Kelly og Skrtel verða væntanlega ekki með vegna meiðsla, Maxi er ekki gjaldgengur í þessa keppni, Riera er ekki gjaldgengur hjá félaginu og svo eru þeir Torres, Kuyt og Ngog meiddir. Nú veit maður ekki nákvæma stöðu á þessum meiðslum öllum, en ég geng út frá því hérna að allir þessir leikmenn verði fjarverandi annað kvöld. Ætli Kuyt verði ekki næst því að ná leiknum, en ég hef hreinlega ekki séð neitt update um að hann verði orðinn klár í slaginn. En ég var búinn að segja það hér áður og segi það aftur, það skiptir litlu máli hvaða 11 leikmenn hefja þennan leik, við verðum einum fleiri allar 90 mínúturnar og við eigum hreinlega að nýta okkur það. Ég ætla að gerast mikill spámaður og spá því að vörnin verði hefðbundin fyrir framan besta markvörð veraldar þetta tímabilið. Á hægri kanti verður svo Steven Gerrard, Benayoun verður á þeim vinstri, Lucas og Javier á miðjunni, Alberto í holunni og Babel frammi. Það væri auðvitað hægt að setja El Zhar á hægri kantinn, en hann hefur lítið spilað og ég efa að honum verði treyst frá byrjun í svona stórum leik. Sama má segja um Pacheco. Þannig að ef Kuyt er áfram meiddur, þá velur liðið sig nánast sjálft. Þetta verður því líklegast svona:

Reina

Johnson – Carragher – Kyrgiakos – Agger

Mascherano – Lucas
Gerrard – Aquilani – Benayoun
Babel

Bekkurinn: Cavalieri, Ayala, Degen, Plessis, El Zhar, Pacheco…og? Ég veit hreinlega ekki hvern ég á að tippa á sem 7unda mann á bekkinn, er ekki best að tippa bara á Amoo.

Það er alveg morgunljóst að breiddin hjá okkur er ekki upp á mörg hrogn þessa dagana, Degen er aðal reynsluboltinn á bekknum okkar og það segir okkur meira en margt. Það er ekki einu sinni hægt að böggast yfir því að Lucas sé í liðinu, hann er sjálfvalinn þar í svona mikilvægum leik. En ég er bjartsýnn fyrir leikinn eins og kannski sjá má í þessari upphitun, ég hef algjöra tröllatrú á því að menn gefi sig alla í þetta verkefni og komi liðinu í úrslitaleikinn. Ég ætla að gerast svo brattur að spá okkur 4-1 sigri á morgun, já, ég er ekki að bryðja nein ofskynjunarlyf, ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum og algjöra tröllatrú á okkar mönnum í þessum leik. Bring on ekta Evrópukvöld á Anfield, bring on Atlético Madrid, bring on HAMBURG.

We’re the greatest team in Europe and we’re going to Germany
Germany, Germany
We’re the greatest team in Europe and we’re going to Germany
Germany, Germany

Koma svo, FULLA FERÐ, ALLT Í BOTN.

35 Comments

  1. Djöfull er þetta góð lesning, það er langt síðan ég hef verið jafn spenntur fyrir leik…og það er enn 36 tímar í kick-off. Ég efast ekki um að við munum vinna þennan leik, en ég efast heldur ekki um að A. Madrid eigi eftir að skora í þessum leik, spurningin er bara hvort að það verði fyrsta markið eða síðasta markið.

  2. Sammála spánni, Ssteinn. Tel 4-1 alls ekki óraunhæft í þessum leik, leikmenn sjá án vafa ljósið við enda ganganna og ljómann af bikarnum þegar þeir spila, vel hvattir af stuðningsmönnum.

    Það verður einn bikar í húsi við lok tímabilsins.

  3. Ég vona svo innilega að við náum góðum leik annað kvöld og fáum eitt stk úrslitaleik í lok tímabils, svona til að endurvekja áhuga manns á fótbolta eftir vægast sagt skelfilegan vetur!

    Ég ætla að vera bjartsýnn og spá okkur 2-0 sigri, stendur tæpt í lokinn en við höldum það út! Gerrard setur bæði !

    Koma svo !! YNWA

  4. Þetta verður stund Babel. Þrenna hjá þeim langa og AA, LL og SG með stoðsendingarnar. Djöfull hlakka ég til!
    YNWA – Germany here we come!!

  5. Flottur Steini!

    Styð þig fullkomlega í einu og öllu þarna, liðsskipan og dagskipun. Menn bara blæða rauðu fram á síðustu sekúndu fyrir framan pakkaðan syngjandi Anfield.

  6. Hrikalega góð lesning!
    Náðir að endurvekja tilfinningu sem ég hef ekki fundið fyrir lengi…hungri í titil! Og trú á því að sá möguleiki sé fyrir hendi!
    Koma svo Liverpool!!! YNWA

  7. ef èg væri ólètt kona ta hefði èg misst vatnið yfir þessari lesningu. Guð minn gòður hvad èg er orðin hrikalega spenntur fyrir þessum leik. Nùna bættust 2 mörk við upprunalegu spá mìna, èg ætla ad segja 4-0 þar sem captain fantastic fer á kostum og sýnir heiminum hver er besti miðjumaður ì heiminum enn og aftur.

  8. Þetta verður söguleg stund sem lengi varir í manna minnum. Kennslustund af dýrari gerðinni í boði rauðlæddra sjéntílmanna, Kuyt mun hlaupa á fjölbrotnum fót á hliðarlínunni, öskrandi fúkyrði á Hollensku með scouser hreim í garð spjanjólanna sem dirfðust að reima á sig takkaskó. Gerrard hefur fundið skikkjuna sína og kemur fljúgandi inná völlinn í dulargervi sínu, Captain Fantastic og mun þessi knáa ofurhetja eigi slíðra sverðið þegar kemur að harðskeyttum illdeilum og spjótköstum fram á völlinn. Lucas og Masch munu gera Ronaldo kynþáttinn agndofa með samba boltanum sem best verður lýst með þessu myndbandi:(http://www.youtube.com/watch?v=PHTjfpf8OvY&feature=related). Pepe Reina verður með sólbekk fyrir aftan markið þar sem maðurinn tanar sig í drasl því Hershöfðinginn Carra mun stýra Hercules, Dönsku Prinsessunni og Magic johnson með þvílíku harðræði að enginn leikmaður kemst óbrotinn í gegn. Babel er búinn að tala við lappirnar sínar þær hafa samþykkt að skora þrjú mörk, Visntri setur fyrsta og hægri annað. Ég hef það svo eftir traustum heimildum að peningakastið í byrjun leiks muni ráða hvor löppin fái þriðja markið, og hægri löppin er með “heads”. Aquaman fór í spandexið og keypti snorkel og er því til alls líklegur eins og helmassaði postulinn frá Ísrael.

    Forlán of Aguero munu koma fram eftir leik og lýsa aðdáun sinni á Anfield, Gerrard, Benítez og stuðningsmönnum Liverpool, heimta sölu frá Atletico og kaupa allar Bítla safnplötur sem þeir komast í. Munu þeir báðir fá hinstu óskir sínar uppfylltar og spila rauðklæddir með Liverpool á næsta tímabili.

    Yfir og út, að eilífu amen!

  9. Ég held að Benitez langi til að setja Mascherano í bakvörðinn, sýndist hann vera að undirbúa þá hugmynd í síðasta leik, það þýðir að Lucas og Gerrard verða saman á miðjunni og vonandi Aquilani í boxinu.

  10. Flott upphitun…. las hana fyrir svefninn og var því orðinn fullspenntur fyrir þennan leik er ég vaknaði og fannst endilega eins og hann væri í kvöld 🙂

    @9 já möguleikinn á Johnson á kantinum er ekki ósennilegur… og þá Masch í hægri bakverði…

    Mig grunar samt að Dirk og Ngog hristi meiðslin af sér og verði allavega í hópnum, spurning hvort þeim verði treyst til að byrja leikinn.

  11. Smá þráðrán en Official síðan var að staðfesta kaupin á Jonjo Shelvey frá Charlton:

    Charlton Athletic’s England youth international Jonjo Shelvey will join Liverpool on May 10.

    The 18-year-old has passed a medical and agreed personal terms after the two clubs yesterday agreed a fee. Liverpool will pay an initial £1.7m with further potential payments depending on domestic and international appearances.

  12. Mjög kúl og ekki skemmir fyrir að hann lítur alveg eins út og Uncle Lester í Addams Family!

  13. Sælir félagar

    Það má með sanni segja að þessi upphitun sprengdi skalann. Ég er ekki óléttur en ég mé samt niður úr öllu við að lesa hana. Algjörlega geggjað og trúin maður, trúin – hún kom og ég er viss um sigur sem dugir til framhalds.

    Eftir lesturinn er ég öruggur um nægjanlegan sigur og spái 2 – 0 eða 3 – 1.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  14. Kannski engin ofskynjunarlyf en klárlega jákvæðnislyf 😉

    Tökum þetta 3-0 með mörkum frá Gerrard, Johnson og engum öðrum en Carragher 😉

  15. Tek undir með mönnum hér, þvílíkt pepp sem þessi upphitun er! Klæjar allstaðar af gæsahúð eftir lesturinn.

    Annars leggst leikurinn svona la la í mig. Óttast mjög skyndisóknir Spánverjanna og það hefur því miður ekki alltaf hentað okkur best að þurfa að pressa til sigurs. Vona að 12 maðurinn og hungrið í að “leiðrétta” tímabilið fleyti okkur í úrslit.
    Spái 1-0 og þ.a.l. framlengingu. Tökum þetta svo í vító.

  16. Kom það virkilega hvergi fram að bölvaður bjáninn hann SSteinn er að fara út á bæði þennan leik og Chel$ki leikinn?

    Óþolandi gaur.

  17. Er ekki bara fínt að fá íslenskt lukkudýr í SStein að hvetja okkar menn áfram í tvemur mikilvægum leikjum.

  18. Getur nokkuð einhver bent mér á góðan stað í Kaupmannahöfn (helst í Østerbro eða miðbænum) til að horfa á leikinn? Verð með gesti svo ég held að tölvan sé ekki alveg málið.

  19. Maður pappaðist bara allur upp við lesninguna…. spurnig um að láta SSteinn pappa strákana upp í búnigsklefanum fyrir leik…

    en miðað við hvað allir eru á miklu prozaci hér inni þá ætla ég ekki að oppna þessa síðu í 5 vikur á eftir leik ef hann vinst ekki… hehe tökum þetta 2-0

  20. Egill 20, þú getur líka farið á O´Learys á Hovedbanegarden http://www.olearys.dk/ bjórinn þar er dýr en þú gætir farið í fyrramálið og tekið frá sæti fyrir þig og samferðafólk þitt.

  21. Vonandi að við munum byrja á fullum krafti og setja pressu á Spánverjana. Og ég vona innilega að mörkin hans Gerrards á móti Burnley verði til þess að hann ákveði að dúndra nokkrum skotum á markið fyrir utan, Aquilani mætti líka gera það. Mascherano kemur svo með geðveikina djúpt á miðjunni og ruslar öllum boltum sem dirfast að fara yfir á vallarhelming Liverpool! Ég hef ágætis tilfinningu fyrir leiknum og held að hann fari 3-0. Benayoun með 2 og Gerrard með þrumufleyg fyrir utan sem innsiglar 3-0 sigur!

    YNWA!!!

  22. var að lesa að kuyt hafi æft með liðinu í dag og ætti að vera klár.. þá vil ég fá hann inn á hægri kant og gerrard niður á miðjuna fyrir lucas! annars sama lið og er sett upp í upphituninni

  23. Það kæmi mér ekkert svakalega á óvart að sjá einfaldlega Guðlaug Victor Pálsson á bekknum í staðinn fyrir Ayala. Er búinn að fylgjast með varaliðinu í ár og tel að Amoo, Guðlaugur og Pacheco séu búnir að standa uppúr. Væri virkilega til í að þessir spili allavega nokkra leiki með aðalliðinu á næsta ári

  24. Var upphaflega búinn að spá þessum leik 2-0 en held ég verði að hækka markatöluna uppí 4-0 eftir þessar óvæntu fréttir um ferðalag SStein á Anfield.

    Gerrard, Gerrard, Babel, Benayoun, í þessari röð. Þó svo hann skori ekki neitt mark í þessum leik þá verður Aquilani svo frábær í þessum leik að þið eigið eftir að fá samviskubit fyrir að hafa ekki splæst 10millj£ meira í hann síðasta haust !! 😉
    YNWA !

  25. Ég vona svo sannarlega að leikmenn Atletico kikni í hjánum við að ganga út á Anfield, fallegasta grasblett veraldar, umkringdan brjáluðum breskum bullum… og SSteini. Það getur vel gerst.

    Enga miskun eða gestrisni á heimavelli eins og á til að gerast. Ef allir leikmennirnir berðust alltaf eins og Kuyt og héldu haus eins og Reina, og ég er ekki að segja að þeir geri það aldrei, þá myndi Liverpool sjaldan tapa leik.

    Og já, Amoo er búinn að vera góður í þeim fáu leikjum sem ég hef séð hann spila, öskufljótur allaveganna. Hann er a.m.k. alveg að komast á bekkinn hjá aðalliðinu ef hann heldur áfram að “þroskast” svona. Þetta er samt allt annar “ball-game” þegar maður er kominn í vinsælustu deild heims, það sést bara t.d. á Pacheco.

  26. það litla sem ég hef séð af Pacheco þá sýnist manni hann hafa ágætis hæfileika, væri þó til í að sjá Benitez gefa honum fleiri mínútur í leikjum sem eru hér um bil búnir eins og t.d. Burnley um daginn

    Spái því að Kátur hristi meiðslin af sér og leiði framlínuna, þó ég sé ekki spenntur fyrir því… jafnframt spái ég 1-0 sigri Liverpool og Kátur skorar. Leikurinn fer alla leið í vító og besti maður Liverpool á leiktíðinni verður hetja liðsins, ver tvær spyrnur

  27. Nokkuð staðfest byrjunarlið er eftirfarandi:

    Reina
    Mascherano, Carragher, Agger, Johnson
    Lucas, Gerrard
    Kuyt, Aquilani, Benayoun
    Babel

    Sumsé…ekkert nema sóknarmenn. Þetta verður fróðlegt og Rafa verður ekki sakaður um að taka hlutunum varlega í kvöld.

    Game on!

  28. líst ágætlega á þessi nöfn í byrjunarliðið… aðalspurning er hvor verður frammi Babel eða Kuyt… síðan er líklegast að Postulani verði fremstur á miðjunni og Gerrard aftar m.v. ummæli Benitez um daginn

  29. Aqqqqqqqqqqqquuuuuuuuuuuuuuuuuua Maaaaaaaaaaaaaaaaannnnnnn!!!!!!!

    GOLGOLGOLGOLGOLGOLGOLGOLGOL! Sniiiiiiild.

Burnley 0 – Liverpool 4

Nýr leikmaður