Ryan Babel

Aðeins meðan við bíðum eftir upphitun og síðan leikskýrslu fyrir leikinn gegn Benfica langaði mig aðeins að prófa að ræða Ryan Babel.

Já ég veit. Um hann hefur töluvert verið rætt undanfarin ár og margt misjafnt um hann fallið. Væntanlega verður lítið um hann rætt vegna leiksins á morgun þar sem hann er í banni og því ekki úr vegi að eyða nokkrum línum í Hollendinginn misfljúgandi.

Þegar Babel var keyptur gladdist ég óskaplega, menn töluðu um Thierry Henry framtíðarinnar, öskufljótan strák sem öll stóru liðin í Evrópu voru að horfa til, rændum honum t.d. frá Wenger að flestra mati.

Fyrsta tímabilið lofaði góðu. Babel kom við sögu í 49 leikjum af 57 mögulegum, skoraði 11 mörk og gaf 7 stoðsendingar. Hann var vissulega afar misjafn, átti stjörnuleiki en síðan voru líka arfaslakir leikir inn á milli, enda maðurinn ungur. Auðvitað eitthvað sem búast mátti við af 21s árs gömlum leikmanni að leika á nýjum stað í nýrri deild.

Í fyrra missti hann af byrjun tímabilsins vegna þátttöku í Ólympíuleikunum og þegar hann kom þaðan var liðið að verða fastmótað, Riera og Kuyt höfðu tekið kantstöðurnar og mínútunum fækkaði. Hans framlag var fyrst og fremst af bekknum, hann hóf einungis 13 leiki en kom 28 sinnum inn af bekknum. Mikið var rætt hér hvort það var réttlætanlegt, en mér fannst alltaf erfitt að sjá hvers vegna taka ætti út Kuyt, Riera og síðar á tímabilinu Benayoun út úr liðinu fyrir Babel. Hann virtist fúll, reyndi alltof mikið sjálfur þegar hann spilaði og skilaði ekki varnarhlutverki fyrir liðið. Hann kom við sögu í 41 af 53 leikjum liðsins, skoraði í þeim 4 mörk og gaf 4 stoðsendingar

Í haust hélt áfram sama sagan, Babel á bekknum í flestum leikjum og innkomur hans á völlinn ekki að skila miklu til liðsins. Að lokum “Twittaði” strákurinn yfir sig og lenti upp á kant við Benitez. Maður einhvern veginn taldi þar með hans framtíð vera annars staðar.

En þá virtist ákveðnu hámarki vitleysunnar vera náð, þeir B-félagarnir Babel og Benitez settust niður og fóru yfir málin. Í framhaldi af því hefur mér fundist ég sjá annan Babel. Hann er ennþá að sækja hratt og stundum að taka of mikið á sig einn en miklu minna en áður og það er veruleg breyting á varnarleik hans, um leið og boltinn tapast skilar hann sér í varnarhlutverkið sitt og hefur oftar en ekki náð að stöðva sóknir andstæðinganna í fæðingu með grimmri pressu. Nokkuð sem ekki sást hjá honum og var eitt af því sem t.d. Kuyt og Benayoun höfðu framyfir hann. Breyting á stöðu Riera hefur svo hjálpað honum enn frekar.

Ég viðurkenni alveg að ég taldi Babel vera “lost case” hjá félaginu, en hann hefur unnið sér inn mörg strik í minni bók frá lokum twitteraævintýrisins. Ég meira að segja fyrirgaf honum það að koma Torres til varnar á þann hátt að láta svo vísa sér útaf, þar sýndi hann að hann er hluti af heildinni í liðinu, nokkuð sem maður hafði ekki oft séð.

Ryan Babel verður 24ra ára gamall 19.desember næstkomandi. Það er því alls ekki lengur hægt að tala um efnilegan leikmann, heldur einfaldlega mann á besta aldri.

Í dag vill ég sjá Ryan Babel áfram í rauðri treyju á næsta ári, ég vona að hann hafi nú skilið við sig kjánahátt í viðtölum og á netsíðum, sé tilbúinn að leggja það á sig sem liðið krefst af honum, í vörn og sókn.

Við erum nú sennilega ekki að tala um “hinn nýja Henry”, en á síðustu vikum hef ég séð leikmann sem gæti verið gott vopn að eiga í búrinu.

Myndin kemur frá anfield-online.co.uk

16 Comments

  1. Á meðan samkeppnin á bæði hægri kannti og upp á topp er bara Dirk Kuyt þá eru ansi margir leikir sem ég hefði sannarlega viljað sjá þá skipta um hlutverk, Kuyt væri varamaðurinn og Babel fyrsti kostur. Sama á algjörlega við um N´Gog.

    Ég geri mér auðvitað ekki almennilega grein fyrir hvað það er sem er svona rangt við hugarfarið hjá honum eða hvað það er sem hefur orðið til þess að hann hefur sjaldan eða aldrei fengið sama traust og leikmenn eins og t.d. Kuyt, Crouch, Moriantes þegar þeir fóru í gegnum löng þurrkatímabil með frammistöðu í takti við það. Mér hefur alltaf fundist eins og að gefa þyrfti Babel smá meira traust til að sanna sig og sú skoðun hefur ekki breyst, fagna því að hann virðist vera að fá aukið traust hjá Benitez núna og er að nýta það ágætlega (mínus þetta bull rauða spjald).

    Babel hefur helmingi meiri hraða en flestir þeirra sem hann er að keppa við um stöðu og það er eitthvað sem við þurfum ansi ansi oft á að halda.

  2. Babel á klárlega að vera alltaf fyrsti kostur á vinstri kantinn hjá okkur og þegar að Torres meiðist eða þarf hvíld þá á Babel klárlega að vera fyrsti kostur í stöðu framherja hjá okkur.
    Babel er með mikla hæfileika og ef hann hefði vinnsluna hans Kuyt og útsjónarsemina hans Yossi þá efast ég ekki um að hann væri heimsklassaleikmaður, og ég tel að útsjónarsemin komi með meiri reynslu sem kemur með fleiri leikjum og með vinnsluna getur hann alveg lagað.
    Þannig ég tel að ef að Bebel heldur rétt á spöðunum þá getur hann vel orðið heimsklassaleikmaður, en eins og ég segi þá veltur þetta allt á honum sjálfum.

  3. Babel er einn allra hæfileikaríkasti leikmaður Liverpool í dag og maður hefur alltaf verið að bíða eftir því að hann myndi blómstra. Fyrir nokkrum mánuðum var ég kominn á þá skoðun að það væri best að losa sig við hann en var um leið 99 % viss á því að hann myndi springa út hjá því liði sem að hann færi í. En nú vill ég alls ekki missa hann í sumar þar sem að hann hefur sýnt mikil þroskamerki undanfarið og maður er byrjaður að sjá smá grimmd í honum sem hefur skort hingað til.

    Ef hann nær að ná taka til í hausnum á sér eins og hann virðist hafa verið að gera undanfarið þá mun hann færa liðinu aðra vídd sem okkur hefur skort sorglega mikið undanfarið en það er hraða upp kanntana. Sóknarleikinn hefur skort allan hraða að Torres undanskildum í vetur og ef Babel heldur áfram á þessari braut sem að hann er kominn á þá er það eins og að hafa eignast nýjan 20 milljón punda leikmann 😉

    Rooney, Ronaldo og Drogba eru dæmi um leikmenn sem þurftu að taka til í hausnum á sér áður en að þeir urðu að þeim leikmönnum sem að þeir eru í dag.

  4. Ryan Babel er mjög góður leimaður en hann er ekki að skora mikið fyrir liverpool en hann spilar fyrir holland og þar stendur hann sig vel sem er gótt fyrir hann en hann mæti spila meira með liverpool og læra af torres og standa sig betur en hann hefur gert með liverpool en liverpool má skora meira af mörkum með torres ein besti Sóknarmann í heiminum og Kuyt og áfram liverpool.

  5. Sammála flestu hér að ofan með Babel. Hann hefur verið misjafn en er það ekki aðallega vegna þess að hann fékk fár mínútur að spila?? þarf hann ekki bara að fá að spila heilt tímabil og þá mun hann fá sjálfstraust og grimmd og finnast tilheyra liðinu?? Ég hef mikið álit á þessum strák og er alveg sammála því að halda honum sérstaklega ef hann kemst á rétt spor með hugarfarið. Hann er líka gríðarlega líkamlega sterkur sem og hraður og algert ólíkinda tól sem á það til að negla honum á rammann fyrir utan teig sem mér finnst oft lítið af hjá LFC. YNWA

  6. Babel sér sjálfsagt enn eftir því að hafa valið Liverpool ef Arsenal var eitt af liðunum sem vildu fá hann, Wenger væri búinn að gera stórstjörnu úr honum og verðmiðinn væri sjálfsagt búinn að margfaldast.
    Mitt mat er það að hann er með fullt af hæfileikum sem ekki er verið að nota rétt og vil ég endilega hafa hann áfram ef við fáum nýjan stjóra, en ef benites verður áfram vona ég Babel vegna að hann fari annað þar sem hann kæmi til með að njóta þess að spila fótbolta.

  7. Ef Rafa ætlar að nota hann þá vil ég hiklaust hafa Babelinn áfram. En ef ekki og við getum enn fengið góðan pening fyrir hann þá er betra að hann fari. Sérstaklega þar sem peningar virðast af skornum skammti. Ég hef alltaf haft trú á Babel og fundist hann eiga að fá fleiri tækifæri. Hann hefur átt dapra daga, eins og reyndar margir aðrir leikmenn, en hann hefur líka sýnt manni að þar fer leikmaður sem getur virkilega verið verðmætur. Niðurstaða, ég vil hafa Ryan Babel áfram, svo framarlega sem hann leggur sig fram og Rafa vill nota hann.

  8. Flottur pistill og ég er bara sammála þér í þessu öllu saman! Og vonandi að hann haldi bara áfram að vinna meira fyrir liðið og losi sig við þessi kjána mistök sem hann dettur í studum inná vellinum.. En samt þá er maður enþá á svolitlum gömlum vana bitur útí hann, enda var hann bara ekkert að geta fyrr en núna eftir twitterstuðið. En jeb eins og ég segi þá bara vonandi að hann haldi áfram að leggja sig fram fyrir liðið og þá er ég alveg til í að hafa hann áfram.

  9. Babu segir allt sem segja þarf. En áttum okkur á því að Henry var örugglega 27 ára þegar að menn tóku fyrst eftir honum. Þannig að Babel á alveg nokkur ár í það. Hann hefur allt sem til þarf, en menn þurfa að spila til að verða góðir. Og það hefur hann ekki fengið, sjálfstraustið þar af leiðandi í rúst. En það eru bjartari tímar fyrir hann nú en fyrr á tímabilinu enda hefur hann komið sterkari sem aldrei fyrr og verið einn af okkar bestu mönnum í síðustu leikjum. Hann hefur bara ekkert fengið að njóta sín undir stjórn Benitez, annað en Dirk Kuyt. Gjörsamlega óskiljanlegt.

    • En áttum okkur á því að Henry var örugglega 27 ára þegar að menn tóku fyrst eftir honum

    Var hann ekki frammherji í landsliði Frakka sem unnu HM 1998?

  10. ég sagði nú bara svona, en hann gat ekki blautan þegar að hann var hjá Juventus. Efast um að hann hafi spilað mikið á HM 98. ég er var nú líka bara 12 ára á þeim tíma. En Wenger tók hann bara að sér, leyfði honum að spila, gerði hann að striker og sér væntanlega ekki eftir því. Enda gerði hann þeim að Englandsmeisturum, e-h annað en Benitez getur sagt.

  11. Henry var nú kominn með smá reputation áður en hann fór til Juventus þó hann hafi ekki verið orðin súperstjarna. Skoraði 7 mörk í 9 leikjum í meistaradeildinni tímabilið ’97-’98 þegar Monaco fór í undanúrslit.

    Ég er samt á því að Babel væri búinn að springa út ef hann væri nógu góður, hann hefur lítið sýnt til að réttlæta þær 11,5 milljónir punda sem greiddar voru fyrir hann. Fljótur að hlaupa og snöggur að koma sér í skotfæri og hleypa af. Það vantar þó eitthvað upp á að hann verður topp leikmaður. Enn sem komið er ein af verstu kaupum Benitez, sérstaklega miðað við verð.

  12. Mjög sammála þessum pistli og Babel á skilið góða umfjöllun eftir sl. frammistöðu og hugarfarsbreytingu.

    Held að flestir hafi alltaf haft það á tilfinningunni að hann ætti eftir að blómstra en ég var kominn á þá skoðun að það myndi ekki gerast hjá LFC.

    Það er engin regla um það hvenær menn ná byrja að blómstra og nægir að nefna nokkur dæmi um fræga leikmenn:
    messi um 18 ára
    owen um 18 ára
    ronaldo um 20 ára
    c. ronaldo um 22 ára
    theirry henry um 22 ára
    zinedine zidane um 24 ára
    wayne rooney um 20 ára
    zlatan ibrahimovic um 24 ára
    ruud van nistelrooy um 25 ára
    ….
    Ekki sé ég neina reglu í þessu nema kannski að við ættum að selja hann ef hann er orðinn 26 og ekkert að gerast.

    Ég er ekki að segja að hann verði stjarna á borð við þessa menn – pointið er bara að aldur er afstæður

  13. Það er eingöngu ein ástæða fyrir tímabundið breyttu hugarfari hjá Babel. = HM í Afríku.

    Þegar sú keppni er búin fáum við gamla Babel aftur. Latan, fyrirsjáanlegan leikmann sem gengur ekki í takt við liðsheildina og kann ekki að nýta sér hraðann eða vita hvenær eigi að krossa. Spilar nánast aldrei vel í stórleikjum vegna rangs spennustigs og átti jafnvel í miklu basli í gegn 2.deildarliðum í deildarbikarnum. Einu góðu leikirnir hans eru gegn hægum liðum sem pakka í vörn á Anfield og gegn meðalgóðum meginlandsliðum.
    Er ennþá að lifa á frábæru U-21 EM sem hann átti fyrir 4árum.

    Alveg eins og með Klaas Huntelaar, Kezman o.fl. þá hafa þeir verið eintóm vonbrigði utan Hollands í erfiðari deildum. Bara staðreynd. Mourinho henth Kezman frá eftir 1ár hjá Chelsea en Rafa hefur sennilega haldið í Babel vegna frammistaðna á æfingum gegn misgóðum bakvörðum. Hefðum átt að selja hann síðasta sumar og Rafa hefði alveg mátt sleppa því að kaupa tekníska spagettístráka frá hollensku og ítölsku deildinni sem henta ekki hörkunni í enska boltanum.
    Babel verður einfaldlega aldrei góður hjá Liverpool, hvað þá hjá þjálfara með jafn lélegt man-management og Benitez.

    Burt með…….æi þið þekkið þetta.

  14. Áður en ég tjái mig um Ryan Babel langar mig aðeins til að leiðrétta smá bullskrif sem eru hérna í gangi svo lesendur fari ekki að lepja upp vitleysuna sem er skrifuð hér án þess að þeir sem tjái sig taki sér tíma í að athuga hvað þeir láta út úr sér. T.d. það sem Babu og Jónsi leiðréttu með Henry. Sérstaklega ætlað til Hafsteins.

    Ronaldo var í landsliðshópi Brasilíu á HM ’94 og voru Brasilíumenn mjög reiðir út í Parreira fyrir að hafa ekki látið hann spila á mótinu aðeins 17 ára því hann þótti það góður. Spilaði svo með PSV frá 94-96 og skoraði 54 mörk í 57 leikjum 17-19 ára og fer svo til Barca 19 ára og er yfirburðamaður þar á því tímabili. Hann var svo sannarlega búinn að sanna sig vel fyrir tvítugt á alþjóðlegan mælikvarða.

    C. Ronaldo er t.d. í Euro 2004 liði keppninnar 19 ára og er þá búinn að vera hjá Man Utd í eitt ár. Er einnig í UEFA liði ársins 2003-2004, PFA PL liði ársins 2005-2006. Er kannski ekki orðinn heimsklassaleikmaður 19 ára og hvað þá leikmaðurinn sem hann er í dag en mundi segja að 20-21 árs sé hann farinn að verða viðurkenndur sem frábær leikmaður. Var fastamaður hjá Man Utd frá því hann kom.

    Rooney var einn aðalmaður enska liðsins á Euro 2004, 18 ára og er þá keyptur til United og er fastamaður í liði þeirra fyrsta tímabil sitt þar.

    Í tilviki RvN þá voru það hrikaleg hnémeiðsli sem komu í veg fyrir að hann fór ekki fyrr til MU en var búinn að sanna sig hjá PSV, var kosinn Dutch player of the year ’99 og ’00. Skal samt gefa þér það, ekki búinn að sanna sig á alþjóðlegan mælikvarða.

    Annars skil ég ekki af hverju það er verið að telja til random leikmenn sem eru í heimsklassa og úr öllum stöðum þegar er verið að tala um Babel. I get your point en engu að síður þá er það kannski aðeins úr takti þegar við erum að tala um leikmann sem á erfitt með að spila sig í slakt lið LFC og þú nefnir leikmenn sem hafa verið með bestu leikmönnum heims síðustu 15 ára. Hvað með frekar að líta frekar á svipaða leikmenn og Babel eða sem spila sömu stöðu/r eða þá leikmenn af hans kynslóð sem voru bundnar miklar væntingar við.

    Babel er leikmaður sem byggir á hraða sínum og tækni (eða reynir) og yfirleitt þá blómstra þannig leikmenn yfirleitt fljótt á sínum ferli. Hins vegar gæti alveg verið að hann öðlist betri leikskilning, útsjónarsemi og fleiri þætti sem snúast ekki um hlaup og að taka menn á.

    Miðað við að hann er að verða 24 ára á þessu ári og er á sínu 3. tímabili hjá LFC þá finnst mér hann ekki hafa sýnt mikinn þroska eða baráttuvilja fyrr en á síðustu tveimur til þremur mánuðum eða svo. Hann er ennþá leikmaður sem er talinn efnilegur og eiga eitthvað inni, 23 ára. Rómantísk hugsun að leyfa honum að fá sénsinn í þrjú ár í viðbót því hugsanlega mögulega mun hann sýna öllum í tvo heimana með því að verða heimsklassaleikmaður en því miður lítur allt út fyrir að hann hafi ekki fótboltaheilann í það.

    Hann hefur aldrei sýnt neitt nema einstaka einstaklingsframtak af og til. Ég held að meginástæðan er að hann er og mun ekki verða góður kantmaður í leikkerfi eins og Benitez spilar er einfaldlega sú að hann er ekki nógu klár. Hann kann að hlaupa, reyna að taka menn á og hefur góðan hraða. Hljómar eins og framherji fyrir mér, gæti mögulega spilað sem framherji í 4-3-3 en í hlutverki sínu hjá Liverpool þá gegnir hann of mörgum og miklum skyldum.

    Hann er aðeins farinn að vinna til baka og reyna minna einn síns liðs en engu að síður er svo miklu meira sem hann þarf að bæta til að geta talist leikmaður í A-klassa. Hann skortir til dæmis oft einbeitingu og er allt of bráður t.d. í að skjóta þegar betri kostir eru í stöðunni. Þrátt fyrir að hann hafi bætt sig og sýnt meiri þroska og spilað meira fyrir liðið þá er hann enn ekki nógu góður til þess að teljast nógu góður fyrir vinstri kantinn hjá okkur. Þarf að styrkja þá stöðu í sumar sem og vinstri bakvörðinn. Það þarf a.m.k. mun öflugri vinstri bakvörð varnarlega séð en Insua ef það á að leyfa Babel að spila reglulega á næsta tímabili annars er þessi hlið allt of veik.

    Niðurstaða: Höldum honum í eitt tímabil í viðbót en kaupum einhvern í þessa stöðu ef við höfum efni á því, ef ekki þá að selja hann ef viðunandi tilboð fæst í hann og fáum einhvern almennilegan. Vinstri hliðiin er eins og síðasta tímabil langveikasti hlekkur liðsins hvort sem Insua, Aurelio, Riera, Babel eða Benayoun spila þar. Vinstri bakvarðarstaðan er samt mun meiri vandamálastaða því Aurelio fær ekki nýjan samning og þá höfum við bara Insua. Að gefa honum einhver þrjú ár til að sanna sig er fráleitt. Eitt ár tops.

    Af hverju var annars Riise seldur? (Tel það hafa verið rétta ákvörðun en að því gefnu að við erum í þeirri aðstöðu að þurfa að notast við Insua þá má velta fyrir sér hvort við hefðum ekki verið betur settir með hann en það er önnur ella.)

  15. Magnús:
    Ég veit vel um sögu þessara manna og ætlaði mér ekki að skrifa BA ritgerð á þennan spjallþráð um þá. Ég var í fljótu bragði að sirka hvenær þeir sprungu út (get vel hafa skeikað 1-2 ár og biðst forláts)

    rooney: varð stjarna 16 ára gamall en mér fannst hann virkilega springa út um 19-20

    ronaldo: ég tek það nú ekki með þegar menn skora mikið í hollandi, allt of margir floppað seinna meir (kuyt var td 20-30 marka maður). En hann fór svo til barca og sannaði sig rosalega

    c.ronaldo: minnist þess vel þegar utd menn voru farnir að tala “illa” um hann t.d. of mikið show, klárar illa færi, of mikið súkkulaði. En svo sprakk hann algjörlega.

    Ég var kannski að gera langa sögu of stutta en pointið var bara að margir leikmenn hafa sprungið út eftir 24 ára aldur. Í raun er ég alveg sammála þér um babel en ég hef samt alltaf haft það á tilfinningunni að hann gæti svo miklu meir (og það á ekki við mjög marga leikmenn í liðinu).

Lífið eftir Benítez

Benfica á morgun