Liverpool 2 Blackburn 1

Okkar menn tóku á móti Blackburn Rovers í Úrvalsdeildinni í dag og höfðu eftir mikinn baráttuleik að lokum **2-1 sigur** sem lyftir liðinu aftur upp í 6. sætið, stigi á eftir Tottenham og Man City (sem eiga leik til góða). Þetta var einfaldlega leikur sem varð að vinnast og sem betur fer hafðist það með herkjum að lokum.

Rafa Benítez gerði nokkrar breytingar á liði sínu í dag. Martin Skrtel er meiddur og Sotirios Kyrgiakos er í banni þannig að Jamie Carragher var færður aftur inn í miðja vörnina og Javier Mascherano tók bakvörðinn. Frammi kom Fernando Torres inn í liðið á nýjan leik sem og Maxi Rodriguez.

Liðið var sem hér segir:

Reina

Mascherano – Carragher – Agger – Aurelio

Maxi – Gerrard – Lucas – Benayoun

Kuyt – Torres

**BEKKUR:** Cavalieri, Ayala, Kelly, Insúa (inn f. Aurelio), Aquilani, Babel (inn f. Benayoun), Ngog (inn f. Torres).

Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Okkar menn byrjuðu vel í sókninni og á 20. mínútu fékk **Gerrard** boltann á miðjum vellinum. Hann átti góðan þríhyrningssamleik við Kuyt sem sprengdi miðju Blackburn upp og þaðan gaf hann boltann á Benayoun sem lék inná teiginn og gaf svo aftur á Gerrard á vítapunktinum. Gerrard rak vinstri fótinn í boltann og missti hann frá sér … hárfínt innfyrir Samba í miðri vörn Blackburn þar sem Gerrard náði honum aftur og lagði hann vel yfir Robinson í markinu. Smá heppnisstimpill yfir þessu en engu að síður mjög vel spilað hjá liðinu og flott mark hjá Gerrard.

Eftir þetta virtist liðið ætla að kafsigla gestina en þó náðu þeir ekki að skora og á 40. mínútu fengu gestirnir jöfnunarmark á silfurfati. Boltinn barst inn í teig Liverpool þar sem Carragher var illa staðsettur og virtist varla vita hvað hann var að gera. Miðverðirnir okkar höfðu verið daprir fram að þessu og virtust ekki hafa hlutina á hreinu þarna og þetta kraðak endaði með því að Carragher datt aftur á bak, fékk boltann að hliðinni á sér og blakaði honum frá með hendinni. Óskiljanlega klaufalegt og réttilega dæmt víti sem **Keith Andrews** skoraði úr, þótt Pepe Reina hefði verið mjög nálægt því að verja vítið.

Adam var þó ekki lengi í paradís því fjórum mínútum síðar voru okkar menn aftur komnir yfir. Lucas Leiva átti þá frábæra sendingu af miðjum vellinum innfyrir á **Torres**. Ef Torres hefði verið í fullri leikæfingu hefði hann sennilega haft meiri snerpu til að stinga af með þennan bolta og skora en hann náði því ekki alveg og Blackburn-vörnin náði að pota boltanum frá honum og út til hægri … þar sem Maxi náði fyrstur í boltann, rúllaði honum beint fyrir á nærstöngina þar sem Torres skoraði auðveldlega. Staðan 2-1 í hálfleik og það urðu lokatölur leiksins.

Ég verð að minnast snögglega á eitt áður en ég fer í seinni hálfleikinn. Fabio Aurelio fór út af meiddur eftir rúmlega hálftíma eftir að hafa tekið sprett á eftir boltanum og að mínu mati kristallaðist ferill hans hjá Liverpool í því atviki. Þetta er virkilega góður leikmaður, hágæða bakvörður með fantagóðar spyrnur en Liverpool FC er í dag einfaldlega ekki í aðstöðu til að hafa dýra farþega eða meiðslahrúgur innan sinna raða. Mér skilst að samningur Aurelio sé búinn í sumar og ég myndi segja að það séu 100% líkur á að honum verði ekki boðinn nýr samningur. Við verðum að sjá hversu slæm þessi meiðsli hans eru en það getur vel verið að við höfum verið að horfa á hann í síðasta sinn í rauðu treyjunni í dag. Því miður.

Þá að seinni hálfleiknum. Hann var alls ekki góður. Blackburn-menn komu grimmir til leiks og voru grófir framan af og Alan Wiley, slappur dómari leiksins, verndaði okkar menn ekki nóg að mínu mati. Steven N’Zonzi tók Lucas í upphafi seinni hálfleiks og braut á honum og eftir að dómarinn hafði dæmt brotið greip hann með flötum lófa um andlit Lucasar og skellti honum í jörðina. Fyrir þetta fékk hann aðeins gult spjald og var tekinn út af stuttu seinna. Þá handlék Martin Olsson bakvörður þeirra boltann þegar Maxi var við það að sleppa upp kantinn aleinn og fékk gult spjald og aftur var hann tekinn út af því Sam Allardyce, stjóri Blackburn, sá greinilega að ungu strákarnir hans voru á leiðinni í sturtu ef hann ekki gerði eitthvað í málinu. Í stað Olsson kom svo inn Pascal Chimbonda sem hefði átt að fá strax gult spjald fyrir að toga Maxi niður áður en hann slapp inn í teiginn, og seint í leiknum átti hann að fá beint rautt spjald fyrir að sparka með tökkunum í magann á Maxi eftir að búið var að dæma brot á hann. Annar Blackburn-maðurinn sem átti að fá að fjúka í seinni hálfleik en enn og aftur gerði Wiley ekkert.

Ég veit ekki hvort það var út af þessari baráttu, eða út af stympingunum á milli El-Hadji Diouf og Gerrard (og síðar Diouf og alls Liverpool-liðsins) en okkar menn misstu taktinn allsvakalega í sókninni í síðari hálfleik og fyrir utan Maxi Rodriguez gerðist nánast ekkert af viti upp við teig andstæðinganna. Gerrard og Torres höfðu verið frábærir í fyrri hálfleik en voru áhorfendur að þeim seinni á meðan Benayoun komst aldrei í snertingu við leikinn. Það fór því svo að okkar menn hreinlega héngu á forystunni og máttu þakka Pepe Reina, sem varði allavega þrisvar frábærlega í góðum færum Blackburn-manna, fyrir að fara með þrjú stig af velli í dag.

**MAÐUR LEIKSINS:** Í hálfleik var ég á góðri leið með að sæma Gerrard að titlinum bara strax, svo góður var hann í fyrri hálfleik, en ég get ekki gefið honum nafnbótina þar sem hann var ekki með í síðari hálfleik. Torres byrjaði vel en þreyttist sýnilega þegar leið á leikinn. Ég ætla því að bregða út af vananum og deila nafnbótinni með þremur leikmönnum sem voru heilt yfir bestir okkar manna í dag:

**Javier Mascherano** barðist eins og ljón allan leikinn í stöðu sem hann er ekki vanur að spila og hélt þeirra hættulegasta manni, Morten Gamst-Pedersen, niðri. Hann er því maður leiksins.

**Maxi Rodriguez** byrjaði leikinn rólega en vann sig svo inn í hann og var með hættulegustu mönnum í fyrri hálfleik og yfirburðamaður hjá okkur í þeim seinni. Hann átti stoðsendingu í sigurmarkinu í dag og er því maður leiksins.

**Pepe Reina** varði frábærlega þegar þess þurfti með í dag og það er mjög einfalt í mínum huga að við hefðum ekki unnið leikinn í dag ef hann hefði ekki verið á milli stanganna. Hann er því maður leiksins.

Næsti leikur er á mánudag eftir rúma viku gegn Wigan á útivelli og jeminn, ég vona að Kyrgiakos verði klár í þann leik svo Carra geti farið aftur úr miðri vörninni. Það verður að segjast að það er engin tilviljun að liðið fór að halda hreinu í desember um leið og Carra var færður úr miðverðinum og það var engin tilviljun hvað vörnin var slök í dag. Carra er 32ja ára og það fer að koma að því að við spyrjum okkur hvort hann sé í fullri alvöru byrjunarliðsmaður hjá okkur. Á meðan Johnson er meiddur má hann spila bakvörðinn en ég vona innilega að Kyrgiakos verði við hlið Agger í miðverðinum í næsta leik.

Já, og svo getum við fagnað því að þurfa ekki að spila aftur við Diouf, Allardyce og félaga á þessari leiktíð. Innilega til hamingju með það.

67 Comments

  1. fjúff þetta voru ekki þægilegar lokamínutur til að horfa á en sigur er sigur og núna erum við byrjaðir að skora 2 mörk í leik gaman að sja torres aftur guð hvað eg er búin að sakna hans

  2. Held að við getum þakkað Reina þennan sigu án þess að gera lítið úr mörkum Gerrard og Torres. Alger snilldar markvarsla þarna í lokin.
    Fannst Blackburn mun líklegri í þessum leik finnst þeir fengu að vera 11 inná allan tíman fyrir náð og miskunn dómarans.

  3. Þetta var leiðinlega tæpt í lokin en sem betur fer hafðist þetta og mikilvæg 3 stig í hús. Reina maður leiksins.

  4. Léleg dómgæsla, hefðu vel getað verið 3 rauð spjöld á Blackburn. Nú er bara að bíða og sjá hvernig Sam vill túlka handabendingar Rafa í leiknum.

  5. Ég held að Chimbonda hljóti að fá bann þegar aganefndin kíkir á þetta atvik, gjörsamlega fáránlegt að línuvörðurinn skuli ekki hafa séð þetta.

  6. Hjálpi mér allir hvað þetta var leiðinlegur seinni hálfleikur. Þetta er ruddalega leiðinlegur bolti sem okkar menn spila stundum. Það er ekki hægt að bjóða manni uppá þetta. Engin furða að við séum á leið í UEFA cup.

  7. Enn og aftur slappur leikur hjá okkar mönnum, leiðinlegar kýlingar fram og hugmyndaleysi…..ég er orðinn ansi þreyttur á þessu!!

  8. Hahahah Hjörtur á klárlega komment dagsins. Sástu ekki Blackburn eða???

  9. Mér fannst fyrrihálfleikurinn vera mjög góður hjá okkar mönnum og frábært spil á köflum en svo kom eitthvap rugl í seinni og menn hættu að spila saman. En TORRES ER KOMINN AFTUR Á VÖLLINN………

  10. Góð úrslit og hundleiðinlegt Blackburn lið ávallt erfitt viðureignar.
    Gríðarlega gaman að sjá Torres aftur, vonandi klárar hann restina af tímabilinu heill, ekki veitir af.
    Ég er sáttur en…..

    ….það sannaðist held ég endanlega í dag að okkar ástkæri Carragher er komin yfir sitt besta. Það er dýrt spaug að vera með leikmann í hjarta varnarinnar sem er ekki í topp klassa. Hann er mikill báráttuhundur og gefst aldrei upp en það er því miður bara ekki nóg, ég hleyp 100m hraðar í skíðaklossum en hann í hlaupaskóm. Það er svo hægt að setja útá þetta sparkaboltanumtilhelvítins syndrom hans, hvort sem það er þegar hann er undir pressu og er að hreinsa eða þegar hann er bara Palli einn í heiminum og hefur nógan tíma til að koma boltanum frá sér í fæturnar á næsta manni.

    Hvar er Aquilani? Money well spent!

  11. Sælir félagar

    Skýrslan!??!?! Gott að vinna þennan leik þrátt fyrir ömurlegan dómara og þetta óskaplega leiðinlega lið sem Big Fatsam er búinn að gera úr þessu Blackburn liði sem einu sinni lég mjög skemmtilegan fótbolta. Gífurlega mikilvægt að vera búnir að fá Torres aftur. Hinsvegar halda áhyggjurnar vegna fyrirliðans áfram að plaga mann. Hann hverf algjörlega í seinni hálfleik. Spurning hvort hann er ekki búinn að ná sér í það form sem til þarf?

    Það er nú þannig.

    YNWA

  12. Sá ekki leikinn en það segir mikið þegar menn viðja til æðri máttarvalda um að Kyrgiakos verði í liðinu á kostnað Carra! 🙂 Auðvitað eru Skrtel og Agger frramtíðar miðverðirnir en Carra verður þarna áfram með Kyrgiakos líklega. Er annars einnig nokk spenntur fyrir Kjær, sem spilar með Agger í dönsku vörninni.

    Það er enginn að setja neitt út á vinnusemi Carra og hjartað er á réttum stað. Getan er aftur á móti að fara dvínandi.

  13. Shit hvað þetta lið spilar leiðinlegan fótbolta. Vonandi verður Benitez þarna sem lengst 😀

  14. Húff … 3 stig í hús og það er nú mikilvægast!!!! með flottusutu fyrri háfleikum sem við hogum séð leingi en leiðilegri og varnarsinnður seinnihálfleikur …..Áfram LFC!!!!

  15. Fínn sigur, og ég er ekki viss um hvað hefði orðið um mig, ef Blackburn hefði unnið, með Diouf og Big Motuth innanborðs…

    En KAR, er það ekki rétt hjá mér að það sé löngu búið að bjóða Aurelio samning sem hann hafnaði ?.. eða er ég að fara með fleipur ?
    Hvort heldur sem er.. þá er afskaplega lílegt að þessi leikmaður fari í vor, þó svo að ég verði að viðurkenna að ég hef verið hrifinn af honum hingað til…. en mikið meiddur.. rétt er það.. og orðið þreytandi. !!

    En 3 stig, og þrjú stig eru þrjú stig hvernig svo sem þau koma í hús.

    Punktarnir frá mér eru þessir ;

    Gerrard var klárlega mættur í þennan leik… sorglegt að hann skuli ekki hafa látið eins mikið kveða að sér í seinni hálfleik

    Torres sýndi okkur það og sannaði að fótavinnan hjá þessum dreng, er rúmlega á heimsmælikvarða, ef ég er spurður… hefði viljað sjá meira af því í seinni hálfleik…

    Arsenal kvartaði yfir því í gær, að þar væri á ferðinni 3ja fótbrotið á móti því ágæta liði so far.. og það gæti varla verið tilviljun.. !! Vill einhver benda herra Wanker á það, að að það fótbrotnuðu nú bara jafnmargir menn hjá Liverpool á móti sama liðinu á einu ári !!! (gæti verið einu og hálfu ári, .. minnið kanski að stríða mér) , nefnilega Blackburn !! Það eitt og sér hefði fengið flest lið til að til að hlaupa heim á æfingasvæðið med det samme, og hreinlega neita að spila á móti þessu liði…!!

    En við mættum á svæðið, og uppskárum eftir því, þó svo að Blackburn hafi bara reynt að spila fótbolta í 34 mínútur…

    Var ég búinn að minnast á það, að mér finnst Diouf, þokkalegur fáviti… og rúmlega það.. !!!

    kv, að norðan..

    C.Berg..

  16. Gaman að sjá kveðjuna til FatSam;
    Repeatedly pressed on negative comments by Sam Allardyce before the game, Benitez replied: “We prefer to talk on the pitch.
    “We can win on the pitch and enjoy. Some people have to talk before or after the press conference because it’s more difficult for them to do a football job.
    “I think he’s a model for managers all around the world. I am sure his style of football, his behaviour – everything. It’s the perfect model for all the kids.
    “The style of football – I am sure Barcelona are thinking about copying the style.”

    Bullið í Allardyce fer í mínar fínust svo ég gladdist mjög við svarið:-)

  17. Góð 3 stig.

    Ánægjulegt að sjá hvað gerist í liðinu þegar Gerrard og Torres eru báðir inná. Annars fór að læðast að mér kunnugleg tilfinning þegar c.a. 10 mín voru eftir, þessi óþægilega tilfinning að mótherjarnir séu að fara að stela af okkur stigum á lokamínútunum, en sem betur fer sluppum við með 3 stig gegn baráttuglöðu Blackburn liði í dag.

    Reina maður leiksins? Hann bjargaði okkur klárlega frá hörmungum í dag og fyrir það má hann svosem fá þann titil, en vá hvað hann var sjeikí í öllum úthlaupum í dag, hefði getað kostað okkur klárlega.

    Það sem stóð uppúr að mínu mati var bara það að Gerrard og Torres eru komnir aftur. Annars eru mörg spurningamerki á lofti varðandi leikmenn okkar, má þar nefna menn eins og Lucas og Carra svo einhverjir séu nefndir.

    En 3 stig og það er allt sem skiptir máli 🙂

  18. Benitez replied: “We prefer to talk on the pitch. “We can win on the pitch and enjoy. Some people have to talk before or after the press conference because it’s more difficult for them to do a football job. “I think he’s a model for managers all around the world. I am sure his style of football, his behaviour – everything. It’s the perfect model for all the kids. “The style of football – I am sure Barcelona are thinking about copying the style.”

    Bwahahahaha, SHIT! Ertu að meina þetta Rafa? Í alvöru? Hefðurðu séð fótboltann sem þú lætur Liverpool spila? Ég er alveg sammála mönnum að Big Mouth er óþolandi en Rafael Benitez, ekki skjóta úr fallbyssu inní glerhúsinu þínu!

  19. Benitez hefur nú ekki mikla innistæðu til að skjóta á leikstíl og skemmtanagildi annarra liða eftir grátlega leiðinlegan bolta hjá okkar mönnum á tímabilinu að stórum hluta.

  20. Rólegir….

    Vissulega hefur spil okkar manna verið hörmulegt það sem af er leiktíðar, en Big Sam og hans lið hafa spilað þannig síðan fyrir daga Rafa hjá LFC. Við erum að tala um slaka spilamennsku hjá okkar liði í 6 mánuði eða svo (sem er 6 mánuðum of mikið), á undan því gat engin gagnrýnt spilamennsku liðsins eða skemmtanagildi fótboltans. Gullfiskaminnið er algjört.

  21. Ég er bara alls ekki sammála Eyþór. Liðið undir stjórn Rafa hefur spilað hundleiðinlegan, tilviljunarkenndan löturhægan fótbolta síðan hann tók við…ef frá eru taldir einhverjir 3-4 mánuðir undir lok síðasta tímabils. Ekki láta þessa örfáu mánuði slá algjöru ryki í augun þín því þessir leikir og árangurinn í deildinni þá var undantekning, ekki reglan!

  22. Já passið ykkur, ekki láta ykkur detta það í hug að halda að eitthvað hafi verið jákvætt hjá þessum klúbbi síðan King Kenny var stjóri.

  23. Guð minn almáttugur Eyþór, ANDVARP …ég ætlaði að svara þessu bulli þínu en hætti við það, þessi kjánalegu orð þín dæma sig algjörlega sjálf!

  24. Mér fannst leikurinn í dag mikil framför frá síðustu leikjum. Greinilegt að Torres hefur gríðarleg áhrif á þetta lið, bæði hvað varðar leikinn sjálfan en ekki síst andlegu hliðina. Þá fannst mér virka vel hjá Benitez að færa Gerrard aftar á völlinn og þar af leiðandi að koma honum meira inní leik liðsins. Það er ekki auðvelt að spila á móti Blackburn og ég skil ekki enn af hverju þeir náðu að klára þennan leik 11 inná vellinum. Ef þessi leikur hefði verið á Old Traford þá hefðu þeir endað 9-10 í leikslok. Annars má Blackburn eiga það að þeir eru alveg yfirburða leiðinlegasta liðið deildinni, synd að Robbie Savage skildi vera farinn akkúrat þegar þeir eru að toppa leiðindin.

    Ég held að menn séu alveg farnir að sætta sig við það og farnir að átta sig á því að Liverpool er ekki að fara spila einhvern samba bolta það sem eftir er leiktíðarinnar. Hver einasti leikur verður barningur og hver einasti sigur sem kemur í hús verður afrakstur blóðs, svita og társ. Ef liðið nær að stilla upp Torres og Gerrard heilum í þessum leikjum sem eftir eru er ég ekki í nokkrum vafa að liðið nær 4. sætinu.

    Það sem pirrar mig þó mest í lok dags er atvik í leik Utd og Villa. Getur einhver hérna skýrt fyrir mér af hverju Vidic var ekki rekinn útaf í vítaspyrnunni þar sem hann braut af sér sem langaftasti maður??
    Rautt spjald hefði þýtt að viðkomandi hefði verið í banni gegn Liverpool!
    Getur verið að ummæli Ferguson stuttu fyrir leikinn hefðu haft áhrif á ákvörðun dómarans?
    ……svo vona ég að Liverpool fari að fordæmi Utd. og tilkynni Torres og Gerrard inn meidda í þá æfingaleiki sem eru framundan. Er einhver hissa á því að Utd. vilji ekki tefla Rooney fram í æfingaleik með landsliðinu, því hvar væri þetta lið án hans?

  25. Ég verð nú að minnast á Lucas í þessum leik. Hann var stórfínn að mörgu leyti og sannast því enn og aftur að hann getur vel fúnkerað á miðjunni með miðjumanni sem tekur af honum sendingapressuna. Ég var reyndar á köflum ósáttur með að hann var heldur oft uppi við teig á kostnað þess að Gerrard beið en á móti átti hann stóran þátt í seinna markinu okkar.

    Þessi leikur er eflaust einn sá allra erfiðasti fyrir markmann að spila. Blackburn dældi örugglega 30-40 boltum inn á teig til Sambamannsins og það voru yfirleitt 3-4 Blackburnmenn að blokkera úthlaupið hjá Reina. Engin furða að hann hafi verið orðinn sheikí í úthlaupunum. En hann stóð þetta nokkuð vel af sér fannst mér og varslan í lokin – ég var allavega búinn að sjá hann inni.

    Það er hins vegar orðið ansi hvimleitt að liggja undir pressu síðustu tíu mínúturnar og hanga á einu marki. Það hefur gerst og mun gerast aftur að við töpum stigum á þessu. Og já, svo hefði Benítez átt að kippa Torres út af eftir 60 mínútur. Hann var alveg búinn drengurinn.

    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  26. Svar til Nonna.

    Komment dagsins til baka. Ertu í alvörunni að bera Liverpool saman við Blackburn???? Váááá
    Mér finnst eðlileg krafa á Liverpool að geta spilað boltanum á milli manna og útúr vandræðum en ekki vera stanslausar “panic” hreinsanir fram völlinn. Liðið er að spila á heimavelli og á að geta haldið pressu ofar á vellinum.

  27. Mikið ofboðslega var þetta erfitt í dag. sérstaklega seinni hálfleikur auðvitað. Ég er ekki viss um að Carra hafi verið eitthvað spurningarmerki í dag, vítið auðvitað klaufaskapur en þess utan héld vörnin bara ljómandi. Aðalvandræðin voru auðvitað miðjuspilið. Síðasta hálftíman gekk einfaldlega ekkert að halda boltanum innan liðsins. Eitthvað held ég að fjarvera Masch hafi haft eitthvað þar að segja.

    Reina maður leiksins Punktur!!!

    Skemmtilegur eða leiðinlegur fótbolti…?

    Mér er algerlega fokk sama (afsakið frönskuna). Ég er enginn unnandi fallegs fótbolta (hvað svo sem það er???) Ég er Liverpool maður nr. 1 2 og 3!!! Ef stigin koma þegar varist er á 10 mönnum og sótt á 2 mönnum, er ég 100% sáttur.

    æ ofan í æ ofan í æ, koma menn hér og heimta einhvern betri fótbolta!!! bíddu aðeins! eru menn ekkert búnir að fylgjast með tímabilinu???

    • Meiðslalistinn hefur nær stanslaust innifalið Torres, Gerrard, Johnson, Agger, Youssi, Riera ofl…

    • Liðið missir prímusmótor af miðjunni. Mann sem vildi fara og við fengum miklu meira en ásættanlegt verð fyrir.

    • Öll umræðan í kringum skuldastöðu klúbbsins!

    Svona í alvörunni. Sjá menn þetta ekki? Og svo til að skíta í rjómann þá virðist helsta lausn manna felast í að láta Ryan Babel spila meira. Mann sem var svo helvíti góður í mótlætinu að hann fór og TWITTAÐI þegar hann var ekki valinn í hóp! Give me a break?

    Ég, eins og svo margir aðrir, var kominn á þá skoðun um áramótin að Rafa ætti að fara. En í dag tel ég að miðað við aðstæður hafi Rafa ekki gert neitt minna en kraftaverk í að félagið er ennþá í baráttunni um 4. sætið

    Staðann var og er enn, einfaldlega sú að það þurfti að fara “Back to basics” Verjast stíft og halda hreinu, taka færri sénsa í sókninni og reyna að nýta föst leikatriði. Um þetta snýst fótbolti. Laga það sem hægt er að laga og reyna svo að byggja ofan á það. Þetta skilur Sir Rafael betur en flestir aðrir.

    Ég get náttúrulega ekki útilokað að lausn á vandamálum LFC sé “skemmtilegri” fótbolti. Alls ekki.

    Mér skilst að Arsenal spili “skemmtilegasta” fótboltan. Og ef mönnum leiðist þá er hægt að bera saman árangur Arsenal og LFC síðan Rafa kom til Englands. Á þeim tíma hefur Arsenal kannski spilað “skemmtilegri” fótbolta. Það má vel vera. En hvor stuðningsmannahópurinn ætli hafi skemmt sé meir?

    In Rafa I trust
    YNWA

  28. 27 einare. þetta er allt í lagi Vidic hefur nú ekki verið að gera neinar rósir á móti Liverpool í seinustu leikjum 😉 Hefur eiginlega bara verið með kúkinn uppá bak og yfirleitt farið í sturtu fyrr en aðrir hehe !

  29. Nenni ekki að taka þátt í karpi um flottan bolta eður ei. Það er ljóst að við erum ekki að spila flottan bolta núna, en með innkomu Torres, Benna í betra formi og Gerrard í sínu gamla hlutverki á miðjunni gæti þetta lagast aðeins. Og þvílíkur munur að fá Torresinn aftur! En það sem mestu skipti í dag voru þessi 3 stig. Punktur.

    Ps. Hefði viljað sjá Ítalann í seinni hálfleik til að fríska aðeins uppá þetta, hefði þessi leikur ekki verið alveg kjörinn til þess?

  30. Sigurjón; Þú spyrð að því hvor stuðningsmannahópurinn hafi skemmt sér betur, Arsenal eða Liverpool?

    Arsene Wenger hefur unnið ensku deildina þrívegis. Ensku bikarkeppnina hefur hann unnið fjórum sinnum og fjórum sinnum hefur hann unnið Góðgerðarskjöldinn magnaða.

    Fimm sinnum hefur Arsenal lent í 2. sæti í deildinni. Einu sinni hefur félagið tapað í úrslitum Meistaradeildarinnar, í ensku bikarkeppninni, UEFA Cup og enska deildarbikarnum.

    7 stóra titla hefur Wenger unnið undir stjórn Arsenal og á meðan hefur liðið líka leikið mjög skemmtilegan bolta. Á undanförnum árum hefur hann ekki verið árangursríkur en samt sem áður, 7 stórir titlar.

    Rafael Benitez hefur unnið tvo stóra titla með Liverpool. Meistaradeild Evrópu og ensku bikarkeppnina. Super Cup og Góðgerðarskjöldurinn unnust einnig. Fjórir titlar og þar af tveir stórir.

    Veistu Sigurjón, ég held að stuðningsmenn Arsenal hafi skemmt sér mun betur titlalega séð sem og knattspyrnulega séð enda er spilamennska Liverpool heilt yfir ekki boðleg undir stjórn Spánverjans. Náðum fínu rönni eftir jól í fyrra en eins og bent hefur verið á þá var það einungis eitthvað til að blekkja stuðningsmenn Liverpool.

    Wenger vs. Benitez? Hvað segir þú Sigurjón?

    Ætlar þú að halda þessari þvælu ennþá fram að þú hafir skemmt þér betur með tvo stóra titla og leiðinlegan fótbolta en Arsenal með 7 stóra titla og skemmtilegan fótbolta?

    Bara velta því fyrir mér.

  31. Er í alvörunni einhver hérna sammála Hr. Sigurjóni Njarðarsyni eða komment númer 30? Viljið þið ekki skemmtilegan fótbolta?

    Fyrir það fyrsta geturu tekið Gerrard af þessum afsökunar-meiðslalista þínum vegna þess að hann hefur spilað 23 af 28 leikjum í deildinni og einnig máttu taka Benayoun af listanum en hann hefur spilað 1 leik færri en Gerrard eða 22.
    Til að mynda þá hefur Rio Ferdinand einungis spilað 6 deildarleiki á þessu tímabili, Vidic 14, Owen Hargreaves 0, Van Der Saar 11 fyrir Man Utd. Essien einungis 14, Joe Cole 16 og Deco 14 fyrir Chelsea og svo Fabregas 22, Nasri 15, Walcott 13, Van Persie 11 og Rosicky 18 leiki fyrir Arsenal. Johnson og Torres hafa því leikið fleiri leiki en flestir af þessum “lykilmönnum” í hinum “topp 4” liðunum sem ég taldi upp hérna eða 16 leiki og 17 leiki. Meiðsla-afsökunin er því ógild.

    Alonso var mikilvægur en eins og Carragher sagði sjálfur þá unnu þeir deildina aldrei með hann um borð. Hvernig getur það verið að hann sé að vinna lítið kraftaverk með því að vera “enn” í baráttunni um 4 sætið í deildinni?

    Og svo að lokum þá er líka endalaust rætt um skuldastöðu Man Utd og Chelsea en ekki virðist það hafa áhrif. Bara nú síðast í gær minnir mig að Utd þurfti hugsanlega að selja allt að 15 leikmenn.

    Afsaka það ef þetta kemur allt út í einni klessu, hef ekki kommentað hér áður 😉

  32. Grolsi #34

    Takk fyrir að skrifa það sem ég gleymdi að skrifa 😉

  33. @ Grolsi

    Satt og rétt sem þú segir. Ég hins vegar tiltók sérstaklega árangur Arsenal vs. LFC EFTIR að Sir Rafael tók við.

    @ Rush hour

    Þú hefur greinilega lagt tíma og undirbúning í þetta svar. plús í þinn kladda.

    Satt og rétt þegar þú tiltekur Essien, Ferdinand, vidic, hargreaves ofl… LFC hefur hins vegar ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að tækla þessi sambærileg brotthvörf. Það er öllum ljóst.

    Um hvort “skemmtilegi” fótboltinn sé leiðinn áfram. Held ég að mín afstaða sé ljós. Ég skil fullvel að ég er kannski í minnihluta þar. Það verð ég bara að eiga með mér.

    Rauður þangað til ég er dauður

  34. Sotirios “Soto” Kyrgiakos er fæddur 23 July 1979. Jamie Carragher er fæddur 28 January 1978 þannig að það er ekki nema rétt rúmlega ár á milli þeirra Kristján Atli. Jamie er ekki vandamálið heldur þessar endalausu rótteringar í vörninni.

    YNWA

  35. Jafn mikið og ég vonaðist eftir því að upphitunin hans Steina gengi eftir og við myndum bakka yfir Blackburn var ég nú ekki á því. Sam, stærsta United-sleikja sögunnar sem enn lætur sig dreyma um að fá starf á OT, er meistari í að hleypa leikjum upp og ENN EINU SINNI sáum við ARFALEGA LÉLEGA dómgæslu. Menn hafa áður tiltekið helstu atriðin en enskir dómarar munu sennilega aldrei læra það atriði sem mest hefur verið hamrað á síðustu 10 – 12 árin.

    “Sérstaklega skal vernda hæfileikaríka leikmenn og koma í veg fyrir að stöðva flæði leikja með ítrekuðum og/eða alvarlegum leikbrotum”.

    Ég veit ekki með ykkur hin, en ég hefði viljað vera fluga á vegg Rovers í hálfleik þegar leikmenn fengu fyrirmæli hvernig ætti að “höndla” Maxi í seinni hálfleik.

    Dettur ekki í hug að segja að Shawcross hafi stútað Ramsey viljandi í gær, en það hafa verið töluvert margir leikir í Englandi sem hafa ekki snúist um knattspyrnu heldur slagsmál og þá verður afraksturinn eins og í seinni hálfleik. Í fyrri reyndu Rovers lengi vel að spila fótbolta, en hvað sem var í te-inu þeirra í hálfleik breytti þessum leik verulega. Mikið óskaplega sem maður er glaður að Torres stóð leikinn af sér og 8 dagar eru í næsta leik!

    Styð skýrsluna að öðru leyti og er glaður að sjá að hægt er að velja fleiri en einn mann leiksins 😀 !!! Algerlega sammála mati KAR á Aurelio, hann fékk tilboð í desember sem hljómaði upp á lá grunnlaun og bónusa fyrir leikna leiki. Þannig samning vill hann ekki og því er bara að kveðja hann í sumar.

    Einnig styð ég ummæli hér að ofan um Lucas, þegar hann leikur með aggressívum miðjumanni sem tekur af honum athyglina og gefur honum pláss skilar hann fínum hlutum. Benayoun er greinilega að komast í gír og ég er alltaf sannfærðari um Maxi Rodriguez. Ætla ekki að vera neikvæður við Carra, en hann hefur átt mun betri daga.

    En fyrst og síðast var ég glaður með að fá þrjú stig og að enginn meiddist alvarlega í þessum leik gegn alveg svakalega grófu liði.

    Svo verð ég að viðurkenna að mér er fyrirmunað að skilja Liverpool-menn sem bera saman ummæli Rafa Benitez og Sam Allardyce. Allardyce á ekki gramm inni hjá Rafael Benitez eða Liverpool og á að hafa vit á því að loka munninum, ætti bara að gefa honum DVD af leikjum Newcastle liðsins undir hans stjórn. Í guðs almáttugs bænum, ekki lina höggin á hann hér!!!

  36. Mér finnst að glas sé orðið tómt hjá Jamie Carragher!! En hann hefur gert það gott, síðan hann skoraði 2 sjálfsmörk á móti Man utd. En hann væri fínn varamaður.

  37. Sælir félagar.

    Enn eru til menn sem sjá ástæðu til að hnýta í Carra. Ömurlegt. Hvað hafa hann og Agger spilað saman marga leiki á undanförnum vikum sem miðverðir. Af hverju er það Carra að kenna en ekki Agger ef slys verður í klafsi í teignum. Ef slys verða í teignum þá eru þau Carra að kenna???????

    Andskotans helvítis kjaftæði

    Það er nú Þannig.

    YNWA

  38. Sigurjón 37# Satt og rétt sem þú segir. Ég hins vegar tiltók sérstaklega árangur Arsenal vs. LFC EFTIR að Sir Rafael tók við.

    Af hverju ertu að kalla Benitez Sir Rafael ???? Hvernar vann hann sér inn þetta nafn ?

    • Ef slys verða í teignum þá eru þau Carra að kenna???????

    Alls ekki að ég sé sammála þeim sem vilja Carra úr liðinu (þó ég vilji ekki sjá hann í bakverði) þá var slysið í teignum í gær sannarelega Carragher að kenna, ekki Agger. En svona getur auðvitað komið fyrir hvern sem er.

    En ef við ætlum að bera saman þessa tvo þá er nú munurinn á þeim orðinn afar áberandi, sérstaklega þegar kemur að því að spila boltanum út úr vörninni, fyrsta hugsun hjá öðrum er að koma honum fram og helst langt fram, hinn reynir frekar að spila.

  39. Sigurjón það er rétt hjá þér að LFC hefur ekki sama fjármagn og hin liðin en engu að síður er Benitez búinn að kaupa 56 leikmenn sem flestir eru farnir eða ekki búnir að skila sínu fyrir utan sárafáa. Hann hefði alveg geta eytt peningunum sem hann fékk til betri kaupa.
    Hann er búinn að fá hellings tíma til að byggja upp liðið en samt hefur hann að mínu mati(ath. að mínu mati)ekki náð betri árangri yfir heildina en Gerard Houllier sem segir manni eiginlega það að Liverpool hefur ekki tekið framförum í mjög mjög langan tíma nema þá í Meistardeildinni.(Houllier vann 1 FA, 2 Eggjabikara og1 EUROLeague bikar og var á svipuðu róli í deildinni).
    Af hverju gat Benitez t.d. ekki notað Nicolas Anelka, Craig Bellamy, Peter Crouch, Emile Heskey eða Michael Owen(frítt halló) ;)? Í dag eru þetta allt frábærir framherjar með mismunandi stíl sem hefði heldur betur gagnast okkur í dag. Í staðinn hangir hann á einum alvöru framherja og einum ungling sem eins og allir vita hefur ekki líkamlegan styrk í þetta eins og er.

    En það er lítið hægt að gera í þessu núna nema bara reyna nota þennan mannskap og skrapa saman nógu mörgum stigum til enda tímabils en eftir þetta held ég að tími hans sé búinn.

  40. Sigkarl (#42) segir:

    „Enn eru til menn sem sjá ástæðu til að hnýta í Carra. Ömurlegt. Hvað hafa hann og Agger spilað saman marga leiki á undanförnum vikum sem miðverðir. Af hverju er það Carra að kenna en ekki Agger ef slys verður í klafsi í teignum. Ef slys verða í teignum þá eru þau Carra að kenna???????“

    Það er enginn að klína neinu á Carragher sem hann á ekki skilið. Hann var mjög dapur í gær að mínu mati (Agger líka) en munurinn á þeim er sá að hann gaf vítaspyrnu með því að handleika knöttinn að óþörfu, ekki Agger.

    Sko, vörnin okkar var í stórkostlegum vandræðum fram að áramótum. Við vorum að fá á okkur allt of mörg mörk úr föstum leikatriðum og það virtist ekki vera nein yfirvegun í því sem menn voru að gera. Svo meiddist Glen Johnson í síðasta leik ársins 2009 og Carra fór í bakvörðinn. Hvað gerðist?

    Jú, í sjö deildarleikjum síðan Johnson meiddist hafði liðið haldið hreinu í sex og aðeins fengið á sig eitt mark. Þetta gerðist með Carra í bakverði og tvo af Kyrgiakos, Agger og Skrtel í miðverði. Menn gáfu sér að þetta þýddi að Johnson væri ekki nógu sterkur varnarlega og Carra hefði lagað „vandamálið“ með því að fara í bakvörðinn.

    Á laugardag fór svo Carra aftur í miðja vörnina og Mascherano í bakvörðinn, og hvað gerðist? Mascherano átti stórfínan leik og át Pedersen en vörnin var samt mjög ótraust og fékk á sig eitt mark, heppin að fá ekki fleiri á sig. Þetta gerðist akkúrat þegar Carra var færður aftur í miðvörðinn, skyndilega virtist ekkert virka hjá hvorki honum né Agger.

    Þess vegna finnst mér eðlilegt að menn spyrji, er rétt að Carra eigi bara að vera kostur #1 no matter what í miðverðinum ennþá? Eða eigum við að skoða alvarlega, þegar Johnson og Skrtel eru farnir að leika á fullu aftur, hvort það er ekki kominn tími fyrir Carra að víkja? Vörnin var drulluþétt með Skrtel og Agger saman (og/eða Kyrgiakos) í þessum sjö leikjum, af hverju finnst mönnum þá ennþá eins og Carra eigi að vera áskrifandi að byrjunarliðssæti?

    Sko, ég elska Carra jafn mikið og næsti maður. Hann er goðsögn, Herra Liverpool í dag og það sem hann hefur afrekað verður aldrei tekið af honum. En hann er 32ja ára gamall. Gary Neville er 34ra ára og hefur ekki verið fastamaður í liði United í einhver tvö ár núna. Sami Hyypiä var ekki lengur fastamaður í byrjunarliði okkar 32ja ára heldur þurfti að sætta sig við minni rullu. Það er einfaldlega ekkert sem segir að Carra verði að spila áfram hvern einasta leik í byrjunarliði.

  41. Rush hour.

    Anelka og Heskey fóru áður en Benitez kom. Rafa reyndi að stoppa af söluna á Heskey og vildi ekki Cissé en það tókst ekki.

    Crouch vildi ekki vera varamaður fyrir Torres nema að fá há laun, miklu hærri en flestir í LFC og matið var að ekki væri hægt að réttlæta laun hans í hópnum, þó Pompey og Tottenham hafi svo gert það.

    Bellamy var með of mikinn farangur og var seldur með gróða. Alveg ljóst að hann féll ekki inn í strúktúr félagsins og er reyndar alltof mikið meiddur.

    Sem leiðir mig til Owen….. Vildi alveg skoða hann í sumar, en eins og hann hefur verið notaður í vetur og meiðslin hans er alveg ljóst að Rafa gerði rétt. United menn keppast við að reyna að verja kaupin á honum, Rauðnefur mest allra, en staðreyndin er auðvitað sú að Michael Owen er ekki í klassa fyrir topplið lengur!

    Svo hlýtur þú að vera að gera grín þegar þú segir að Rafa hafi ekki náð betri árangur en Houllier, sá brandari er þó góður!

  42. Sælir félagar

    Ég er að vísu ósammála því að Carra hafi átt afar dapran leik í gær og hendin sem hann fékk á sig var óhapp. Maðurinn datt í klafsi í teignum og boltinn fór í höndina á honum liggjandi. Óhapp en ekki klaufaskapur. Eins og alltaf átti hann nokkrar lykilhreinsanir úr teignum og staðsetningar hans voru oft á tíðum frábærar í þau fáu skipti sem B’burn átti leiknar sóknir.

    Með leikaðferð andstæðinganna að dæla inn háum boltum í teiginn á trukkana sína verður mjög oft klafs í teig. Hjá því verður ekki komist. Enda skapaðist veruleg hætta nokkrum sinnum fyrir vikið. Síðasta korterið í leiknum var sóknarþúngi L’pool lítill sem enginn og þar af leiðandi lagðist leikurinn allur á vörnina. Frammistaða leikmanna var misjöfn og ég er sammála því að Masc og Reina stóðu sig afar vel. En það gerði vörnin líka þrátt fyrir þetta eina óhappamark.

    Auðvitað kemur að því að Carra gengur af velli fyrir fullt og allt. Og það styttist í það auðvitað. En að líkja honum við aðra Neville systurina er guðlast. Ég sætti mig alveg við svar þitt KAR en er því ekki sammála nema að sumu leyti. En látum það liggja á milli hluta. Svar þitt er málefnalegt og því gott.

    Hitt er annað að ég þoli illa gagnrýni á Carra sem oft á tíðum er bullkennd og án raka. Þegar hann gengur endanlega af vellinum verður það með sóma eins og allur hans ferill hjá Liverpool. Þess bver að minnast.

    Það er nú þannig.

  43. Já Maggi auðvitað fóru Heskey og Anelka áður en Benitez fór, my bad, steingleymdi því. Það var samt klúður 😉 að mínu mati þó svo það hafi greinilega ekki verið Benitez að kenna.

    Owen hefði nú samt líklega reynst okkur ágætlega sem varaskeifa þar sem hann var frítt. Crouch átti bara ekkert að vera varaskeifa því að hann átti bara að spila þeim saman frammi! Draumasóknarpar að mínu mati, einn stór til að “flikka” honum á þann snögga frábæra æðislega Torres. Bellamy er ábyggilega fífl og þarf ábyggilega að borga yfirvigt af farangri sínum en hann er góður fótboltamaður.

    Hann hefur ábyggilega gert margt gott en ég sé samt ekki alveg að Benitez sé búinn að gera eitthvað mikið betur en Houllier hvað varðar spilamennsku og þá sérstaklega titla. Hann hefur að minnsta ekki unnið deildina. Ég þoldi ekki Houllier en það sama má segja um Benitez.

    Þetta er bara mín skoðun en ekki brandari. Tel bara titlana en ekki 2 og 3 sætið…

  44. Smá þráðrán.

    Nú er ég búinn að horfa margoft á þetta ömurlega fótbrot hjá Aaron Ramsey, og því oftar sem ég horfi á þetta þeimur vissari verð ég um að þetta var ekkert leikbrot. Sawcross er með boltann og tekur sprettinn og Aaron Ramsey kemur hlaupandi og þeir virðast bara skella saman með þessum hræðilegu afleiðingum.
    Nú hefur mér ekki tekist að finna neitt close up myndband af atvikinu, en ég sé ekki betur en að Sawcross hafi verið saklaus af því að hafa brotið af sér, og því fengið rautt eingöngu vegna þess að Aaron Ramsey fótbrotnaði í samstuðinu.

    Hvað segið þið?

  45. Varðandi Carragher þá finnst mér nú fullsnemmt að afskrifa hann. Hann var lengi af stað í haust eftir frábært tímabil í fyrra og það er rétt að vörnin fór ekki að virka fyrr en hann fór í bakvörðinn. Held að það hafi samt miklu meira að gera með varnarleik bakvarðarins heldur en hlutverk hans í haffsentinum.

    Í gær fannst mér hann almennt standa sig mjög vel, þeir félagarnir, hann, Agger og Reina, auðvitað með hjálp annarra, kláruðu sig nokkuð vel á þessum dúndrunum inn í teig þrátt fyrir að hætta hafi skapast einu sinni ef ég man rétt.

    Það verður samt ekki litið hjá því að hann er að eldast, Nevillesystirin hefur verið mikið meidd síðustu tvö árin og lítið spilað þess vegna fyrst og fremst, ekki af því að aukin samkeppni hafi komið honum á bekkinn. Meistari Sami var nú 32 ára árið 2005 og þá var hann enn fastamaður í liðinu, m.a. í Istanbul. Ég held að Carra eigi tvö góð tímabil eftir, síðan fer að draga úr þátttöku hans í liðinu.

    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  46. Rosalega hlakkar mig til að sjá Glen Johnson spila með Maxi Rodriguez á hægri kantinum, þá værum við komnir með 2 góða leikna menn á kantinn sem gætu farið illa með andstæðingana.
    Fyrsti leikur Torres með Maxi leit vel út og átti Maxi góða stoðsendingu á Torres og EF að við sleppum við meiðsli þá tel ég okkur eiga virkilega góða möguleika á þessa 4 sæti, eins ömurlegt og það er nú að þurfa að berjast um 4 sætið.

  47. Lucas er bara úr jafnvægi, hann bakkar bara til að detta ekki. Þetta átti að vera beint rautt og ekkert annað. Eins átti það náttúrlega að vera beint rautt þegar Chimbonda sparkaði í Maxi.

  48. Ásmundur # 52. Já þetta er aðeins meira close up en ég get ekki sagt að þetta breyti neinu hjá mér. Það ver ekki nokkur ásetningur í þessu hjá Sawcross enda er hann með boltann, missir hann aðeins frá sér og þá kemur Aaron Ramsey á fullu í boltann með þessum afleiðingum.
    Aldrei rautt spjald.

    Ég var að ræða við Arsenal aðdáanda í dag og sá vildi meina að það “ætti að taka Sawcross af lífi” fyrir þessa fólskulegu árás, og þess vegna fór ég að skoða þetta betur.

  49. Agger verður mögulega ekki með í næsta leik. Hann er eitthvað meiddur skv. official síðunni.

  50. Þið verðið að fyrirgefa fáfræðina félagar góðir, hvernig er það er hendi á liggjandi mann? nú sló carrager boltann viljandi og vítaspyrna dæmd réttilega.

  51. Ég held að Arsenal menn verði nú aðeins að róa sig, þetta átti aldrei að vera rautt og hvað þá að það ætti að lengja bannið hjá honum eins og Wenger vill. Þetta var bara hrikalegt óhapp og engin ásetningur í þessu.
    En með Agger þó kemur hann vonandi sterkur inn í næsta leik en alltaf spurning með svona hnémeiðsli.

  52. Mér sýnist reyndar á látbragði dómarans að hann ætli í fyrstu ekki að gera annað en að dæma dæma aukaspyrnu. Þegar hann sér alvarleika brotsins ákveður hann að draga upp rauða spjaldið.

    Þegar maður horfir á þau rauðu spjöld sem Liverpool er búið að fá í vetur þá er ekki hægt að segja annað en að Blackburn hafi klárlega átt að fá tvö rauð spjöld. Ég veit eiginleg ekki hvaða lína hefur verið dreginn í dómaramálum en mér finnst Liverpool hafa fengið að kenna ansi hart á slakri dómgæslu í vetur. Það má deila um heil þrjú rauð spjöld sem liðið hefur fengið á sig í vetur þ.e. Kyrgikos vs. Everton, Degen vs. Fulham og Mascherano vs. Portsmouth. Þar til um helgina hafði ég fallist á rauða spjaldið sem Carra fékk gegn Fulham en greinilegt er að skv. nýjustu reglum þá er það ekki rautt spjald að aftasti maður brýtur af sér sbr. Vidic.

    Hvaða spilamennsku Carra varðar þá hefur hún verið brokkgeng eins og allra leikmanna (Reina undanskilinn). Ef til vill er hluti skýringarinnar sú að engin stöðugleiki hefur náðst á öftustu línuna vegna meiðsla leikmanna. Agger, Skrtel og Johnson hafa allir verið að meiðast og því hefur liðið stöðugt þurft að breyta uppstillingunni. Það er bara staðreynd að þjálfarar vilja allra síst vera rótera í vörninni, allra síst miðvarðaparinu. Því miður hefur það ekki tekist hjá Liverpool að ná stöðugleika í þeirri stöðu í vetur.

  53. Eins fáranlega og það hljómar kannski að þá held ég að leikmenn Liverpool séu að hjálpa andstæðingum okkar þegar þeir eiga skilið að fá rauð spjöld. Oftar en ekki eru dómarar að draga upp rauða spjaldið þegar leikmenn eru að setja pressu á dómarann. Leikmenn Chelsea, utd og Arsenal hópast utan um dómarann, og þá er ég að tala um allt liðið, og setja gríðarlega pressu á dómarann að veifa rauða spjaldinu eða sleppa því að draga upp rauða spjaldið þegar samherji þeirra er í hættu. Það sem gerist hjá okkur þegar einhver andstæðinga okkar á skilið að fá rauða spjaldið (hefur gerst ósjaldan í vetur) að þá labba kannski tveir menn í átt að dómaranum og hrista hausinn. Þótt að það sé hundleiðinlegt að horfa uppá leikmenn gera aðsúg að dómaranum að þá virkar það og er klárlega “ósiður” sem okkar menn eiga að taka uppá því það virkar.

  54. þetta er tekið af þessari síðu :
    Wigan vs Liverpool
    EPL – lau 6. mars
    JJB
    Kl. 15:00 – Stöð 2 Sport 2

    þetta er tekið af http://www.liverpool.is/ :
    Wigan – LFC 08.mar. 20:00

    hvað er rétt ????

  55. 63

    Búið að uppfæra þetta núna, rétta dagsetningin er 8. mars.

    Ég skráði allt leikjaprógrammið hingað inn eftir upplýsingum á SkySports.com, en það er greinilega lítið að marka það snemma á leiktíðinni, þar sem að uppröðun leikja breytist, leikir frestast vegna annarra keppna o.sv.frv. Það kemur því fyrir að upplýsingarnar á þessari síðu séu ekki 100% réttar.

  56. 50Hafliði
    þann 01.03.2010 kl. 12:55
    Smá þráðrán.

    Nú er ég búinn að horfa margoft á þetta ömurlega fótbrot hjá Aaron Ramsey, og því oftar sem ég horfi á þetta þeimur vissari verð ég um að þetta var ekkert leikbrot. Sawcross er með boltann og tekur sprettinn og Aaron Ramsey kemur hlaupandi og þeir virðast bara skella saman með þessum hræðilegu afleiðingum. Nú hefur mér ekki tekist að finna neitt close up myndband af atvikinu, en ég sé ekki betur en að Sawcross hafi verið saklaus af því að hafa brotið af sér, og því fengið rautt eingöngu vegna þess að Aaron Ramsey fótbrotnaði í samstuðinu.

    Hvað segið þið?

    Þú ert greininlega ekki nógu vel að þér í þessu. Það er svo sem allt í lagi, þið eruð ansi margir hér sem vilja meina að þetta hafi ekki verið brot og svo framvegis. Þetta er því líklega rakið dæmi um hvað það eru margir hér sem eru að tala um hluti sem þeir hafa hreint ekki vit á. Hér að neðan er atvinnumaður í faginu að útskýra sitt mál.
    http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=88079

Liðið gegn Blackburn

Rúnturinn