Kuyt og Babel

Til er ein tegund stuðningsmanns sem finnst Ryan Babel hafa allt sem prýða þarf góðan knattspyrnumann. Hann er fljótur, leikinn, með góð skot og getur tekið leikmenn á. Þessi tegund stuðningsmanns er sannfærð um að það sé alfarið Rafa Benítez að kenna að Babel hafi ekki enn blómstrað hjá Liverpool, að það verði að skrifast sem mistök hjá þjálfaranum að ná ekki að hlúa að hæfileikum Babel svo hann geti notið sín til fulls.

Þessi tegund stuðningsmanns vill oftar en ekki líka meina að Dirk Kuyt sé hvergi nærri nógu góður til að spila fyrir Liverpool, af því að hann er hægur, með léleg skot og litla knatttækni.

Svo er til önnur tegund stuðningsmanns sem vill meina að Babel hafi ekki nýtt þá sénsa sem honum hafa verið gefnir, sem vill meina að þrátt fyrir augljósa hæfileika virðist Babel ekki hafa rétta hugarfarið eða andlega styrkinn sem þarf til að ryðja sér rúms í stórliði. Þessi stuðningsmaður bendir jafnan á samanburð við Yossi Benayoun máli sínu til stuðnings, en sá maður byrjaði sem varaskeifa Babel hjá Liverpool en nýtti sénsana sína, á meðan Babel lét sína fara til spillis, svo að nú er hlutverkum þeirra nánast snúið við og Babel í raun varaskeifa fyrir Benayoun.

Þessi tegund stuðningsmanns vill oftar en ekki meina að Dirk Kuyt sé lykilmaður í liði Liverpool, því þrátt fyrir augljósa annmarka á leik hans sé leitun að leikmanni sem berst jafn mikið fyrir liðið, getur spilað jafn líkamlegan sóknarleik og hefur jafn góða taktíska vitund og Kuyt sýnir.

Annar vill að Babel sé alltaf í liðinu og Kuyt aldrei því Liverpool-liðið á að spila hraðan og spennandi fótbolta, og til þess þurfum við fljóta og leikna leikmenn. Hinn vill að Kuyt sé alltaf í liðinu og Babel ekki af því að Liverpool-liðið á að spila hraðan og spennandi fótbolta, og til þess þurfum við leikmenn sem geta pressað hátt uppi á velli og eru fljótir að hugsa.

Þessir tveir stuðningsmenn verða einfaldlega **ALDREI** sammála um Ryan Babel og Dirk Kuyt. Ég legg því til að umræðan um þessa leikmenn verði söltuð fram á vorið. Þeir eru báðir Liverpool-leikmenn og verða í það minnsta þangað til í sumar og það gagnast nákvæmlega engum að snúa allri umræðu á þessari síðu upp í Babel vs Kuyt umræðu.

Þetta gildir líka um Lucas Leiva.

Þetta er allavega mín uppástunga. Geymum þessa umræðu aðeins, hún er orðinn verulega þreytt.

31 Comments

  1. Sjálfur fell ég einhvers staðar á milli, að vissu leyti. Ég kaupi það engan veginn að það sé Benítez að kenna hvernig komið er fyrir Babel. Benítez hefur takmörkuð fjárráð og færi einfaldlega ALDREI að eyða 11.5m punda í leikmann sem honum litist illa á til þess eins að brjóta hann niður og gera lítið úr honum, af því að Benítez er svo vondur kall. Að stinga upp á slíku er ekkert annað en kjaftæði.

    Ég er hrifinn af Babel. Þetta er hörkugóður leikmaður og enn mjög ungur karlmaður. Vonandi lærir hann að halda haus aðeins betur – vonandi erum við jafnvel að sjá það gerast núna – svo að hann geti nýtt sénsana sína og unnið sig aftur upp í áliti því við þurfum sannarlega mann með hans eiginleika. En það er undir honum sjálfum komið. Benítez hatar ekki fljóta og leikna leikmenn, hann mun spila Babel meira ef Babel sýnir meira.

    Sama með Kuyt. Hann er hægur og knatttæknin hjá honum getur farið í mínar fínustu taugar. En hann er langt því frá ónýtur leikmaður af því að það vantar aðeins í leik hans. Hann er algjör leiðtogi á velli, felur sig aldrei eða hverfur þegar illa gengur, tekur öllu mótlæti og berst 300% fyrir málstaðinn. Átta menn sig á því að liðið hefur bara skorað fjögur mörk í síðustu sex deildarleikjum og Dirk Kuyt hefur skorað þau öll (fimmta var sjálfsmark gegn Bolton)?

    Ég fíla Babel, og ég fíla Kuyt, og í fullkomnum heimi myndu þeir báðir standa sig feykivel hjá Liverpool, vera áfram hjá liðinu og bjóða þjálfaranum ólíka valkosti fyrir leiki. Það er hins vegar undir þeim komið að sýna honum reglulega hvað þeir geta, og hingað til er það bara staðreynd að aðeins annar þeirra hefur gert það. Ég vona að Babel sé að koma til í þeim efnum.

  2. Þetta er gjörsamlega frábær nálgun á viðfangsefnið. Ef hægt væri að sjóða þessa menn saman í EINN leikmann, vá! þá værum við sko með leikmann, sem hefði tækni Babels, skot Babels, hraða Babels, vinnusemi Kuyts, hugarfar Kuyts, markanef Kuyts (það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn – Kuyt skorar mikið af kantmanni að vera).

    Vonum það besta og styðjum báða leikmenn.

  3. Jebb, algjörlega sammála, viðurkenni samt alveg að ég væri til í að sjá Babel byrja leikinn frá upphafi á morgun, átti góðan síðasta leik (gegn andstæðingi sem var þó kannski ekki sá öflugasti), og spilaði vel, ætti að vera kominn með smá sjálfstraust til að eiga við þessa jaxla sem eru í vörninni hjá Blackburn.

  4. Mitt mat á þessum tveim leikmönnum er það að varðandi Babel þá veit maður hvað hann getur og hann hefur sýnt það, og þá sérstaklega með Hollenska landsliðinu. Ég held mikið upp á hann en hann hefur ekki náð að sýna neinn stöðuleika, kannski er það vegna þess að hann hefur ekki fengið þá sénsa til að sanna sig, þá er ég að tala um að hann þyrfti að fá að spila einhverja 6-8 leiki í röð og þá er hægt að dæma hann!

    Varðandi Kuyt þá líkar mér vel við hann sem FRAMHERJA í tveggja manna sókn (4-4-2). En hann hefur sannað sig sem kantmaður en í Liverpool vill maður sjá alvöru kantmenn sem eru snöggir, geta tekið menn á og sent góðan bolta fyrir. Vegna þess hefur Kuyt oft fengið á sig ósanngjarna gagnrýni.

  5. Ég skal skrifa undir þetta með glöðu geði, því þrátt fyrir að Babel hafi fallið gríðarlega í áliti hjá mér (var mjög spenntur þegar hann kom) þá vona ég auðvitað að hann rífi sig upp og verði frábær leikmaður fyrir Liverpool.

    Eins með Kuyt, hann er ekkert fullkominn en meira að segja fyrirliðinn okkar má taka hann til fyrirmyndar varðandi baráttuanda og dugnað.

    Segjum þá að Babel byrji á móti Blackburn á morgun og taki annað skref uppávið, ég er meira en til í það.

  6. Nettur dilkadráttur Kristjáns Atla á lesendum síðunnar, hann um það. En takk fyrir að segja skoðanir mínar kjaftæði Kristján Atli, engin hroki þar, neinei. En mér er nokk sama hvað gæji eins og þú finnst kjaftæði, frá mínum augum hefur Betnitez eyðilagt Babel og er það jafn augljóst og dagsljósið. Það kom eitthvað uppá(ég myndi giska á að Babel hafi ekki verið nógu taktíst góður og/eða nógu góður varnarlega fyrir RB) við upphaf 2. tímabils hjá Babel og eftir það hefur Benitez gefið honum litla sem enga sénsa. Það er verk Benitez að ná sem mestu út úr leikmönnum sínum og þegar þú ert með hæfileikaríkan mann eins og Babel en nærð ENGU út úr honum þá ertu að gera eitthvað rangt. Kristján Atli hinsvegar kýs að lita alla svarta eða hvíta og áttar sig ekki á því að það er grátt strik þarna á milli, held að flestir séu nú þar, bara á misjöfnum stað á þessu gráa striki. Auðvitað er þetta ekkert alfarið Benitez að kenna, auðvitað verður Babel að horfa í eigin barm líka, en það breytir því ekki að eins og þetta kemur fyrir okkur stuðningsmennina þá hefur Babel ekki fengið þann séns sem hans hæfileikum sæmir og aldrei fengið það traust sem lekmenn þurfa frá stjóra sínum.

    …gáfulegt síðan að skrifa pistil þar sem þú dregur upp neikvæða mynd af þeim stuðningsmönnum sem voga sér að vera á móti þínum skoðunum og biður þá síðan að tala ekki um málið í lok pistilsins….ég actually hló upphátt af vitleysunni!

    Áfram Liverpool, ÚT með Rafa!

  7. Síðan er eitt sem ég hef aldrei skilið. Ef þú ert fljótur og teknískur leikmaður eins og Babel þá máttu ekki spila þvi´þig vantar uppá í taktík. En ef þú ert taktísk mjög góður, eins og Kuyt, en getur ekkert í fótbolta þá máttu vera í liðinu. Hvaða rugl er það? Út með hinn fótboltahæfileikasnauða Kuyt og inn með hraðan og teknískan mann, Babel eða hvern sem er. Fólk er bara að bijða um leikmenn sem gera liðið sitt gott OG SKEMMTILEGT….mín skilgreining á skemmtilegum fótbolta er ekki hægur og algjörlega óteknískur Dirk Kuyt!

  8. Ég hugsa þetta bara alls ekki svona svart og hvítt eins og sett er upp í færslunni og mótmæli því að vera settur í einhvern Babel dýrkenda hóp þó ég vilji oftar en ekki sjá hann spila frekar heldur en Kuyt eða N´Gog. Jafnvel þó að Kuyt hafi skorað 4 síðustu mörk. Maðurinn er alltaf í liðinu og alltaf mjög framarlega á vellinum eða einn upp á topp. Þá má alveg benda á að Babel á mikinn þátt í marki og mark í síðustu 2 evrópuleikjum.

    Ég er ekki að reyna að gera lítið úr Kuyt, hann er markheppinn og skilar oftar en ekki slatta af stoðsendingum. Ég er bara á því og hef verið lengi að Babel myndi skila alveg jafn góðu verki sóknarlega fengi hann jafnmörg tækifæri til þess, ef ekki miklu betra. En það er augljóslega eitthvað að hugarfarinu hjá honum eða í það minnsta eitthvað sem passar ekki við prógrammið hjá Benitez, og það er mjög mjög pirrandi því strákurinn hefur í það minnsta svakalegt potential.

    Með þessu er ég ekkert að segja að Benitez hafi eyðilegt “aumingjas” Babel, hefði bara viljað sjá hann nota hann meira.

    Talandi um Benayoun þá myndi ég í flest öllum tilvikum frekar vilja hann í liðinu, á köntunum eða í holunni, frekar heldur en Babel, en að því sögðu vill ég frekar hafa hann leitandi að Babel heldur en Kuyt. Þá er ég að tala um þann Benayoun sem hefur verið hjá liðinu sl. rúma árið. Þennan sem fékk tækifæri til að ná fótfestu og sýna sitt rétta andlit eftir fjölmarga slappa leiki.

    Síðan var ég að spá með þetta:

    • Þetta er allavega mín uppástunga. Geymum þessa umræðu aðeins, hún er orðinn verulega þreytt.

    Tók það alveg 6 mínútur að hætta við þetta hjá þér KAR? (sbr. Nr.1) 🙂

  9. Gunnar Ingi, hvar í ósköpunum dreg ég upp neikvæða mynd af þeim sem eru ekki á sömu skoðun og ég? Endilega hættu að persónugera þetta. Við erum að ræða um Kuyt og Babel og ég stakk einfaldlega upp á að menn slökuðu á umræðunni um þá. Ef þú vilt taka því persónulega þá það.

    Babu, ég skrifaði fyrsta kommentið til að skjalfesta það hver mín skoðun væri, svo ég yrði ekki sakaður um að vera að veitast að öðrum hópnum eða hinum. Það gekk greinilega ekki nógu vel, ef eitthvað er að marka Gunnar Inga.

    Þegar öllu er á botninn hvolft fíla ég báða leikmennina og styð þá báða, alltént á meðan þeir klæðast Liverpool-treyjunni. Menn sem fíla annan en ekki hinn þeirra fara ekki í taugarnar á mér. Menn sem gefa það í skyn að Benítez sé að leika sér að því að vera vondur við annan þeirra gera það hins vegar.

  10. Benítez hefur takmörkuð fjárráð og færi einfaldlega ALDREI að eyða 11.5m punda í leikmann sem honum litist illa á til þess eins að brjóta hann niður og gera lítið úr honum, af því að Benítez er svo vondur kall. Að stinga upp á slíku er ekkert annað en kjaftæði.

    Hérna ertu að gera lítið úr mínum skoðunum og margra annarra, kallar þær kjaftæði. Þó ég sé sammála þér að við eigum ekki að persónugera hlutina hérna inni þá varst það þú sem kastaðir fyrsta steininum. ALLT sem þú skrifar er með því hugarfari(allavega auðvelt að lesa það út) að verja Benitez og hans gjörðir. Mikill ljóður á annars fínni síðu.

  11. Gunnar Ingi, tvennt:

    Fyrst – ég má alveg segja að mér finnist skoðun þín kjaftæði án þess að það teljist einhver persónuleg árás. Ef ég hefði kallað þig heimskan væri það árás, en það gerði ég ekki. Mér finnst skoðun þín kjaftæði og þori alveg að segja það. Þér er frjálst að finnast sú skoðun mín kjaftæði á móti. Reyndu að sjá muninn á því að gagnrýna manneskju eða skoðun. Óþarfi að vera sár, vertu bara ósammála.

    Annað – Það fer fátt jafn mikið í taugarnar á mér og að vera sakaður um að verja Benítez. Það hafa fáir ef nokkrir á Íslandi skrifað fleiri pistla en ég þar sem Benítez er gagnrýndur fyrir ýmsa hluti. Hins vegar gagnrýni ég ekki allt og finnst hann gera margt mjög vel og þá er ég jafnan umsvifalaust stimplaður Já-maður í garð hans og menn tala um mig eins og ég sjái aldrei neitt slæmt hjá honum. Skoðaðu síðuna, skoðaðu flokkinn “Vangaveltur” hér við hliðina og renndu yfir pistlana sem ég hef skrifað síðustu tvö árin. Ég gagnrýni Benítez fullt og reglulega.

    Læt þetta nægja í bili. Ég skrifaði þennan pistil til að reyna að setja punkt á rifrildi manna um Babel vs Kuyt á síðunni en virðist í staðinn hafa lent í umræðu um mig og meintar persónuárásir mínar eða meinta blindást mína á Benítez. Hef áhuga á hvorugu.

  12. ALLT sem þú skrifar er með því hugarfari(allavega auðvelt að lesa það út) að verja Benitez og hans gjörðir. Mikill ljóður á annars fínni síðu.

    Sammála síðasta ræðumanni.

  13. Sælir félagar

    Ég er sammála því sem KAR segir um Babel og Kuyt. Mér finnst hann reyna að ræða málið á hlutlægan hátt án fordóma og draga fram styrk og veikleika beggja leikmanna. Beiðni hans um slökun í umræðunni er sanngjörn og hann hefur auðvitað fullt leyfi til að biðja menn um þetta. Alveg eins og menn hafa fullt leyfi til að hunza þá beiðni. En það að taka þetta persónulega er að mínu mati sérkennilegt og til þess fallið að draga umræðuna niður á persónulegt plan sem gerir það að verkum að menn fara að skattyrðast og missa alla hlutlægni.

    Ég hefi verið einn af þeim sem finnst Rafa hafa notað Babel alltof lítið ekki síst á undanförnu misseri. En mér dettur ekki í hug að KAR sé að vega að mér persónulega þó honum finnist að tal um meðferð Rafa á leikmanninum sé þvættingur. Hann er frjáls að þeirri skoðun sinni alveg eins og ég er að minni.

    :Það er nú þannig.

    YNWA

  14. Þá getum við verið sammála um að vera ósammála. Mér finnst þín skoðun algjörlega fáránleg og ótrúlegt að nokkur Liverpool maður skuli vera á henni og mér finnst algjörlega ótrúlegt að nokkur Liverpool maður skuli vilja Dirk Kuyt eða Rafael Benitez nálægt Liverpool….en hey, það er mín skoðun 🙂

    Annars nenni ég ekki í sandkassann með þér Kristján, það skín alltaf í gegn vörn þín á Benitez og það finnst mér mjög hvimlegt og leiðinlegt að lesa. Ég man eftir pistli um daginn sem þú skrifaðir sem mér fannst ágætur, þar sem þú varst að gagnrýna Benitez en þú líka komst strax og sagðist hafa hlaupið á þig ef ég man rétt.

    Allavega, held að við komumst ekkert lengra með þetta enda ekki í mínum verkahring að snúa þinni skoðun. Mér finnst hún fáránleg og þér finnst mín skoðun fáránleg, þar við situr bara og allir sáttir 🙂

    Áfram Liverpool, út með Rafa!

  15. Það væri alveg hægt að búa til svipaðan upphafspóst sem fjallaði um þá sem vilja verja störf Benitez og halda honum hjá klúbbnum og svo hina sem þola manninn ekki og geta eignilega ekki lesið neitt jákvætt um hann! (auðvitað er þetta ekki svona svart og hvítt heldur).

    En ef við erum í persónlegum árásum á KAR þá held ég nú að ég sé meiri “Benitez maður” en hann ef eitthvað er (ef hægt er að tala um þetta þannig).

    Og af því gefnu er ég ekki á því að Benitez sé að eyðileggja Babel viljandi þó ég sé ekki sammála honum með notkun á honum (gæti verið að hann hafi meira vit á þessu en ég, kannski).

    Persónulega geri ég Kristján Atla ábyrgan fyrir þessari litlu notkun á Babel og ofnotun á Kuyt.

  16. Það er allavega auðvelt að lesa út úr textanum þínum Gunnar að þú ert ekki að gagnrýna hlutina frá hlutlausu sjónarhorni. Ef þú ert að reyna að vera gagnrýninn í skriftum og ætlar að gera tilraun til að komast að réttri niðurstöðu í þessu málefni gerðu það þá faglega. Persónulega finnst mér eins og ég sé að lesa grein eftir Hannes Hólmstein þegar ég les þessi komment frá þér hér að ofan. Hjá honum er áróðurinn og mælskulistin í fyrirhafni haft og staðreyndirnar túlkaðar eftir hentisemi eða látnar liggja oní skúffu.

  17. Eins og manni hefur nú ávallt fundist gaman að ræða málefni Liverpool FC fram og aftur í gegnum árin, hef aldrei fengið nóg af því, þá hefur því miður margt breyst á þessu tímabili. Nokkrar umræður eru orðnar svo stórkostlega leiðinlegar að það hálfa væri 300 sinnum meira en nóg. Það er svo komið að það er í rauninni í fyrsta skipti á ævinni sem mér finnst þetta orðið leiðinlegt og hef hreinlega forðast það að kommenta mikið hérna inn.

    Kuyt er ábyrgur fyrir Global Warming

    Benítez er ömurlegur og fullur mannvonsku þar sem hann reynir í sífellu að eyðileggja mannverur hægri vinstri.

    Lucas var sá sem stóð fyrir seinni heimsstyrjöldinni

    Ngog startaði svínaflensunni

    Insúa fann upp kjarnorkusprengjuna

    Áfram heldur þetta. Sorry, þetta er bara gjörsamlega hundleiðinlegt, að sjá sömu pennana í nánast hverri einustu færslu, röfla yfir sama hlutnum fram og aftur eins og illa rispuð plata. Þetta snýst ekki einu sinni lengur um hvaða skoðun menn hafa, það er fínt að rökræða hlutina og oft nauðsynlegt, en þetta er löngu hætt að snúast um rökræður, þetta er orðin hálfgerð þráhyggja, að mínum dómi alveg hundleiðinleg þráhyggja sem er farin að draga þessa síðu verulega niður.

    En best að vinda sér í að skrifa eitt stykki upphitun fyrir leikinn á morgun

  18. Algjörlega sammála SSteini nema mér finnst þetta vera á hinn veginn, menn hérna inni reyna eins og rjúpan við staurinn að hýfa Benitez og hans gjörðir upp. Hvernig væri bara að ræða LIVERPOOL og hlutina út frá hvað sé liðinu fyrir bestu. Einstaka leikmenn, þjálfarar eða aðrir koma og fara en liðið verður alltaf áfram. Þess vegna skil ég ekki þessa ótrúfanlegu ástarbönd við einhvern utanaðkomandi eins og Rafael Benitez, sérstaklega þegar hann er alls ekki að standa sig vel.

    Þeir sem standa sig vel fá jákvæða gagnrýni, þeir sem standa sig illa fá neikvæða gagnrýni….Rafael Benitez og Dirk Kuyt fá ógriyni af neikvæðri gagnrýni sem segir okkur hvað?

  19. Chelsea aðdánedur baula á Bridge í hvert skipti sem hann fær boltann.
    Þetta er ekki eðlilegt.

  20. Það er náttúrulega alveg ljóst að svona pistill setur engann veginn punktinn á eftir þessari umræðu sko. Enda væri nú leiðinlegt ef ekkert væri kommentað á þetta.

    Eins og ýmsir koma að hér að ofan eru hlutirnir ekki svona svarthvítir. Kuyt hefur sína kosti og Babel sína. Þetta hefur líka töluvert með aldur leikmannanna að gera. Kuyt er einfaldlega mun þroskaðri einstaklingur en Babel.

    Ef við spáum samt í því hvernig Benítez hefur höndlað Babel þá er klárt mál að hann á hlut í þeirri sök að Babel hefur ekki orðið að þeim leikmanni sem allir, og þar á meðal Benítez, vonuðust eftir og raunar bjuggust við.

    Veturinn 2007-2008, spilaði Babel mjög mikið, var yfirleitt tekinn út af síðasta korterið því hann var að venjast tempói enska boltans og þoldi ekki svona mikið álag í 90 mínútur. Almennt voru menn held ég frekar ánægðir með hann og bjuggust við miklu tímabilið 08-09.

    Haustið 2008 keypti Benítez Albert Riera og við það varð Babel annar kostur í stöðu vinstri kantmanns. Þetta tímabil varð til þess að margir urðu óánægðir með Babel, hann sýndi lítið þegar hann spilaði og sýndi lítinn stöðugleika. Þetta tímabil er síðan áframhald af síðasta og menn eru óánægðir með framlag Babel. Hann byrjaði fyrsta leik og spilaði illa. Síðan bera menn hann saman við Lucas og Kuyt og furða sig á því að þeir fá að spila “illa” – misvel – leik eftir leik.

    Ef við reynum að greina ástæðurnar fyrir því að Babel gengur svona illa að taka næsta skref þá held ég að þær séu nokkrar.

    Hann er óstöðugur

    Hann er ekki duglegur varnarlega

    Það er erfitt að treysta á hann í svæðisvörn í föstum leikatriðum

    Hann er villtur og tekur upp á óvæntum hlutum – fylgir ekki endilega fyrirfram ákveðnum hlaupaleiðum

    Hann fer eflaust ekki nógu vel eftir því sem Benítez leggur upp.

    Þegar horft er á Kuyt í þessum samanburði þá eru nokkur atriði sem standa upp úr.

    Hann er duglegri en fjandinn

    Hann fer algjörlega eftir því sem Benítez leggur upp

    Hann er öflugur varnarlega

    Hann er traustur í svæðisvörn í föstum leikatriðum

    Hann er tiltölulega stabíll leikmaður

    Hið augljósa er að Babel er miklu betri knattspyrnumaður í hefðbundnum skilningi þess orðs. Knattækni, skot, framsækni, ógnun ofl. En hugurinn skiptir gríðarlega miklu máli í toppfótbolta og stykkið virðist ekki alltaf vera skrúfað á hann Babel okkar. Benítez hefur án efa átt í miklum vanda með hann og niðurstaðan er sú að hann er meira og minna bekkjarmatur. Að mörgu leyti eðlileg niðurstaða.

    ps. hér er að finna smá greiningu á honum síðan í endaðan september 2008. Held að lítið hafi breyst síðan þá.

    http://knattspyrna.bloggar.is/blogg/396524/Dirk_nokkur_Kuyt

    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  21. Flott svar Ívar Örn og ágæt grein sem þú vísar þarna í.

    Ég vil bara segja það aftur, ég skil ekki afhverju vilji og dugnaður er tekinn framyfir getu og hæfileika.

  22. Segi það sama og Jói, Kuyt = Global warming, eða er bjórinn að tala

  23. Já hann Kuyt t.d. bræðir alveg hjarta mitt.
    Einstaklega fallegur maður á velli, ekki ósvipaður Fjölni Þorgeirssyni. Eiga báðir í vök að verjast.

  24. Enda eru hlutirnir ekki alveg svona svartir og hvítir eins og við setjum þá upp. Þó aðalsmerki Kuyt sé dugnaður og drifkraftur þá er hann ekkert alveg vitavonlaus í fótbolta(þó ég segji það þá er það nú meira til að leggja áherslu á mál mitt) og öfugt með Babel, þó hann sé mun betri fótboltamaður en Kuyt þá er ekki þar með sagt að hann neiti að verjast og bíði bara frami eftir boltanum.

    Skoðaðu Barcelona liðið t.d., þar er ekki lögð ofuráhersla á varnarleik í sama leikkerfi og Benitez gerir. Þegar við erum með fjóra varnarmenn og tvo miðjumenn(þrjá með Gerrard sem dettur niður þegar við verjumst) þar af annan sem heitir Javier Macherano og er einn albesti sóparinn í bransanum, afhverju þurfum við líka varnarmenn á kantana? Finnst þér Henry, Messi og hvað þeir nú heita þarna vera miklir varnarmenn?

    Skoðaðu Arsenal, Man Utd og Chelsea, leggja þau svona ofuráherslu á varnarleik? Það er stór munur á að vera sterkur varnarlega eða leggja mjög mikla áherslu á varnarleik. Öll þessi þrjú lið fara áfram fyrst og fremst útaf getu sinni. Þegar þau mæta litlu liðunum reyna þau ekki fyrst og fremst að mæta þeim líkamlega heldur reyna þau að spila sig í gegnum þau. Aldrei dettur Rafa Benitez það í hug, hans eina svar við líkamlega sterkum liðum er að fylla okkar lið af stórum og sterkum strákum í stað þess að sundurspila þessa tréhesta. …og kannski það sem er verra, ef plan A gengur ekki upp hefur Rafa ekkert plan B.

    Æji ég veit það ekki, eftir Houllier og nú Benitez er maður bara kominn með uppí kok af svona passívum anti-fótbolta. Maður vill fara sjá liðið sitt spila skemmtilegan og árangursríkan bolta sem fyllirmann stolti og gleði…ekki hrútleiðinlegan og tilviljunarkendan bolta sem einkennist af minnimáttarkend og úbertaktískum varnarleik!

  25. persónulega er ég ekki búinn að fyrirgefa Babel Twitter ævintýrið…

    en ég er sammála þessum pstli, geymum þessa umræðu… við höfum stærri vandamál en Kuyt og Babel

Vicente del Bosque…

Blackburn á morgun