Miðvikudagsumræða

Vona að margir “Poolarar” hafi kíkt á lfc.tv í gær og horft á unglingaliðið okkar rúlla yfir sterkt lið Leicester í FA Youth Cup. Ég gerði það og viðurkenni alveg að ég heillaðist af nokkrum leikmönnum sem voru þar til sýnis!

Sérstaklega var spennandi að horfa á Finnann unga, Lauri Dalla Valle, sem skoraði þrennu í fyrri hálfleik. Veit að maður á ekki að storka örlögunum, en mikið rosalega finnst mér sá strákur líkjast Robbie Fowler. Hann er ekki öskufljótur eða líkamlega sterkastur, en auga hans fyrir staðsetningum og hæfileikinn til að klára færin er gríðarlegur.

John Durnin, annar lýsenda leiksins vildi taka hann útaf í hálfleiknum, enda staðan þá 4-0 í okkar vil og henda honum í aðalliðshópinn í kvöld. Svei mér þá, ég væri bara alveg til í það líka!

En hann var alls ekki sá eini í liðinu sem leit vel út. Reyndar er rosalega gaman að fylgjast með þessu liði spila fótbolta, en þeir hafa átt erfitt með að klára færi og þá um leið leiki. Kantmennirnir í gær, Thomas Ince vinstra megin og Christopher Buchtmann hægra megin (er þó leftari, upphaflega bakvörður) eru gríðarlega skemmtilegir leikmenn og sláninn í framlínunni með Dalla Valle, drengur að nafni Ngoo var líka að heilla mig.

Ég hef undanfarin ár haft gaman af að fylgjast með þessu liði og varaliðinu okkar. Ég fer ekki ofan af því að þar eru að verða gríðarlegar breytingar, í átt til þess að við getum borið okkur saman við Arsenal varðandi unga leikmenn. Fyrir utan þessi nöfn leit liðið ákaflega vel út, vel skipulagt og öskufljótt fram á við – nokkuð sem rímar við þjálfarann nýja Borrell sem kom frá Barcelona. Full ástæða til að vera bjartsýnn!

Í varaliðinu erum við svo með menn eins og Ayala, Pacheco, Amoo, Ecclestone, Spearing og Darby. Þar fara allt leikmenn í gæðaklassa úrvalsdeildarinnar sem munu allavega skila pundum í kassann. Svo spurningamerki eins og Mavinga, Victor okkar Páls, Irwin og Kacaniklic. Þarna er sá þáttur endurbyggingar Benitez sem ég gleðst mest yfir og huggar mig þegar ég er reiðastur honum. Evans og Houllier voru úti í móum og satt að segja skammarlegt hversu léleg liðin voru undir þeirra stjórn!

Svo langar mig líka að benda á góða grein þar sem Christian Purslow bregst við bullblaðamennsku enskra og talar um fjárfestingaráætlanir liðsins.

Mér finnst alveg hlægilegt að fylgjast með spunameisturum London-mafíunnar vera búin að ákveða það að Liverpool “þurfi að selja stærstu stjörnur sínar ef þeir komast ekki í CL” út frá því að Benitez brosti og sagði að ef að 100 milljóna tilboð kæmi í Torres þyrfti Liverpool að setjast niður og skoða stöðuna.

Er verið að grínast í mér? Myndu ekki öll lið velta fyrir sér slíkum tilboðum, fyrir alla leikmenn sína.

Er einhver leikmaður 100 milljón punda virði? Miðað við umræður um kaup á liðinu West Ham snýst það um að söluverð félagsins í heild sé á bilinu 90 – 100 milljónir punda.

Þetta heitir einfaldlega að blása upp moldviðri og við eigum ekki að hlusta á svona þvælu!!! Ég hef mikla trú á Purslow, Ayre og þeirra starfsfólki og sef rólegur á meðan að þeir eru rólegir!

31 Comments

 1. Sammála þessu með rafa og ungu strákana og starfsfólkið. Þótt við séum ekki farnir að dæla út stjörnunum ennþá, þá hafa orðið stakkaskipti hvað þetta varðar. Það er oft það eina sem maður sér gott við Rafa. Einnig virðist Purslow vera að gera góða hluti. Bullpressan hefur svo farið hamförum með T & G. Einhverjir fullyrtu meira að segja að liðið þyrfti að selja T & G til að kaupa fleiri leikmenn. Það sjá auðvitað allir hvers konar rökleysa það er.

 2. Bara svo það sé á hreinu, þá er ekki til sá leikmaður í heiminum sem ég myndi ekki selja fyrir 100m punda. Torres, Gerrard, whatever. Það eru allir til sölu fyrir bjánaupphæðir.

  Stundum finnst mér menn festast of í stjörnudýrkun og sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Gerrard er t.d. þrítugur nú í vor – ef einhver vill bjóða okkur 30-40m punda fyrir þrítugan leikmann eigum við að selja og kaupa svo tvo 15-20m punda miðjumenn í hæsta klassa og á góðum aldri í staðinn. Sama myndi gilda með Torres, ef við fengjum tilboð upp á 70-100m punda í hann ættum við að selja hæstbjóðanda og kaupa svo 3-4 20-25m punda leikmenn í staðinn.

  Auðvitað þykir okkur vænt um hetjurnar, en klúbburinn lifði af að missa menn eins og Keegan, Dalglish, Souness, Fowler, McManaman, Owen og marga fleiri sem hafa verið taldir ómissandi á einhverjum einum eða öðrum tímapunkti. Það er enginn leikmaður stærri en klúbburinn.

  Að því sögðu, þá efast ég um að það séu einhverjir að fara að bjóða þessar upphæðir í toppleikmenn okkar. Umræðan um að Rafa “verði að selja”, af því að hann viðurkenndi að hann myndi íhuga 100m punda tilboð, er svo náttúrulega bara hlægilega barnaleg.

 3. Það verður virkilega skemmtilegt að fylgjast með þróun ungu strákanna eftir að Borrell kom frá Spáni því liðið virðist vera miklu betra núna en hefur verið undanfarið og ég er spenntur fyrir framtíðinni en ætla þó að halda mig á jörðinni enda hefur svo sem ekki margir verið að koma úr unglingaliðinu á undanförnum árum.

 4. Fyrir þá sem ekki vita þá er Thomas Ince, sem minnst er á hér fyrir ofan sonur Paul nokkurs Ince sem einhverjir muna jafnvel eftir 😉

 5. Það kjánalegasta sem ég hef heyrt er að við séum að fá Chamack til okkar á 25 milljón punda fimm ára samningi. Semsagt 12 millur fær hann í Signing Fee og restina í vikulaun yfir fimm ár eða rúmlega 90.000 pund á viku. Ef þetta er rétt skal ég hundur heita í einn sólarhring.

 6. Þetta byrjaði allt fyrir 2-3 árum þegar unglingalið Arsenal sló okkur útúr báðum bikakeppnunum með yfirburðum. Þá rankaði mr.Benitez við sér og keypti krakka á færiböndum vikuna eftir. Þannig það er kannski ekki skrítið að þeir séu ekki enn farnir að láta að kveða en allavega má maður fara að búast við að góðir leikmenn fari að koma upp líkt og fyrir áratug síðan 🙂

 7. Blessaðir strákar og þakka þér Maggi minn fyrir glæsilegan pistil enn og aftur. Það er greinilega mikill og góður penni sem blundar í þér. Það máttu eiga.

  Ég er alveg sammála þér, ég væri til í að sjá þessa ungu peyja koma í aðalliðið og fá að spila. Eccelstone ætti hreinlega bara að koma í stað Gerrard um stund, að hvíla Stevie væri eitt það besta sem gæti komið fyrir oss. Bæði Liverpool og hann sjálfan. Hann hefur verið skugginn af sjálfum sér á þessu tímabili og er ég hræddur um að sá maður sé farinn að dala. 
  

  Það er nú þannig.

  Baráttukveðja, Jón Brynjar

 8. jæja þá er Maxi kominn það er staðfest djöfull er ég sáttur við þessi kaup loksins kantmaður í liverpool nú er bara að vona að fá 1 góðann i viðbót

 9. Maggi; Spearing og Darby í gæðaklassa úrvalsdeildarinnar? Ekki hafa þeir sýnt það hingað til.

  Ég er ánægður að Benitez skuli loksins einbeita sér að U18 og varaliðinu en að sama skapi hefur ekki komið mikið frá þessum liðum síðan Benitez tók við. Við getum verið sammála um það.

  Spearing og Darby fengið sína sénsa með afar misjöfnum árangri. Benitez er of hræddur við að gefa ungum leikmönnum sénsinn að mínu mati því eftir 5 ára starf ætti einhver leikmaður af þessum svokölluðum “talentum” að vera farinn að spila eitthvað hlutverk í liðinu. Insua kom inn í þetta en hefur lítið sýnt né getað.

  Við fengum upp á sínum tíma spilarar eins og Owen, Fowler, Carra og Gerrard, er ekki að sjá slíka spilara koma upp núna.

  Þú hefur lengi talað um U18 og varaliðið Maggi en er ekki kominn tími til að þínu mati að Benitez fari að gefa mönnum meiri séns og sýna að þetta hafi skilað sér?

 10. Bara til að hafa það á hreinu, þá var það fyrst í vor sem Rafa fékk einhver völd yfir Akademíunni, bæði hann og Houllier voru búnir að gagnrýna mikið hversu mikið vantaði heildarsýn á allt dæmið hjá Liverpool.

 11. Benitez hefur verið við stjórnvölinn undanfarin ár og keypt leikmenn til liðsins, unga jafnt sem aldna síðan 2004. Ég hef áhyggjur af því hversu margir ungir leikmenn ná ekki að blómstra.

  Gabriel Paletta og Sebastian Leto voru gífurleg vonbrigði. Leikmenn sem voru magnaðir með Argentínu á U20. Keyptir samtals fyrir 4,5 milljónir punda.

  Mark Gonzalez kom 2005 og átti að vera mikið efni. Gerði ekki skít fyrir 1,5 milljónir punda.

  Besian Idrizaj og Jack Hobbs komu 2005.

  Daniel Ayala kom 2007 en þótti ekki nægilega góður sem fjórði hafsent!

  Kristian Nemeth og Andreas Simon komu 2007.

  Godwin Antwi og Miki Roque komu 2005.

  Nabir El Zahar og Stephen Darby komu 2006. Búnir að vera í 4 ár og eru lítið sem ekkert að gera.

  Danny Guthrie, Paul Anderson, Jay Spearing, Martin Kelly og fleiri. Hvenær fáum við að sjá einhverja af þessum leikmönnum springa út og komast inn í aðaliðið?

  Núna nefndi ég einhverja 16 leikmenn en engin af þeim hefur sýnt nokkurn skapaðan hlut í raun og veru.

  Þessir drengir líta vel út í U18 og varaliðinu núna margir hverjir en sagðir þú ekki það sama Maggi með þessa drengi sem ég hef nefnt hér að ofan? Er Benitez loks eftir 5 ára dvöl hjá félaginu að fá að stjórna uppbyggingu?

 12. Mummi; 1 leikmaður af 16. Mundi ekki hvað varð um hann en vissi að hann spilaði ekki leik fyrir Liverpool:)

  Endilega commentaðu á hina 15 leikmennina.

 13. Til þess að leikmaður blómstri í úrvalsdeildinni þá þarf einfaldlega að gefa þeim nokkra leiki meðal þeirra bestu og byggja upp sjálfstraustið, jafnvel þótt þeir séu ekkert að standa sig frábærlega. Ronaldo var ekki frábær frá byrjun, ekki Rooney heldur né Gerrard. Allir gerðu þeir skelfileg mistök í fyrstu leikjunum sínum en þeir læra af þeim og verða betri og betri með reynslunni.

  Þegar ungliðar fá tækifæri með aðalliðinu þá hafa þeir talent, það verður að byggja þann talent upp með því að veita þeim reynslu og sjálfsöryggi með varaliðinu. Sé heldur engan tilgang að bíða með að gefa ungliða tækifæri þangað til að hann er orðinn 22 ára. Hendum Pacheco, Nemeth, Eccleston, Dalla Valle og Buchtman tækifæri í aðalliðinu. Í kvöld er tækifæri til að leyfa tveimur af þeim að vera í byrjunarliðinu og þremur á bekknum. Tilhvers að bíða með að þeir missi trúna á sjálfa sig og láta þá rotna í unglinga eða varaliðum Liverpool. Get lofað því að ef Rooney hefði ekki fengið að spila þegar hann var 16 ára væri hann mun síðri en hann er í dag.

 14. “það verður að byggja þann talent upp með því að veita þeim reynslu og sjálfsöryggi með varaliðinu”

  Varaliðinu á auðvitað að vera aðalliðinu 🙂

 15. Haldið að Maxi nái áskriftarsætinu af Kuyt á hægri kanti? Efast um að C. Ronaldo nái þeirri stöðu af Kuyt. En maður bara vonar að nýir menn fá alvöru tækifæri en ekki hálf tækifæri eins og Keane!

 16. Grolsi, get verið alveg sammála því að ég er að bíða eftir að RB gefi mönnum færi á að sanna sig……. ég bíð eftir að Pacheco, Amoo, Ecclestone og Kelly fái sín tækifæri með aðalliðinu. En á móti kemur að til að finna rétta leikmenn þá þarftu að kaupa marga aðra sem ná ekki þeim hæðum sem vonast var eftir… Hvað eru mörg lið að koma með alvöru leikmenn upp úr unglingastarfinu í Úrvalsdeildinni??? Þá er ég ekki að tala um leikmenn sem plumma sig hjá Reading og Sunderland heldur hjá Liverpool, Man utd, Chel eða Arsenal ??? Eina liðið sem framleiðir leikmenn er Arsenal enda kaupa þeir unglinga á meira en 10 milljónir punda per leikmann. Það er í fyrsta lagi ekki hægt að ætlast til þess að RB nái sama árangri og hann en ef við náum betri árangri en Man utd (sem N.B. öldu upp Giggs, Beckham, Neville systurrnar, Butt, Scholes o.fl. á stuttum tíma…. en hafa varla alið upp leikmann síðan) þá verð ég ánægður.

  Svo tel ég lykilatriði í þessari samantekt hér að ofan vera þá staðreynd að þrátt fyrir að þessir menn hafi ekki staðið undir væntingum þá eru kaup – sölur að koma út í plús ef ég man rétt. RB er að koma út í fjárhagslegum plús á lang flestum leikmönnum sem hann kaupir og selur svo aftur, hinir sem fara í mínus ná ekki að eyða hagnaðinum af plús sölunum og það finnst mér skipta sköpum.

  Dæmi um þetta eru mörg en augljósasta dæmið (fyrir utan Xabi) tel ég vera Insua sem kom til félagsins með Paletta á að mig minnir 180.000 eða 280.000 (leiðréttið mig endilega ef ég fer með rangt mál) pund og er að minnsta kosti tífallt verðmætari í dag ef ekki 20 fallt.

  Varðandi Mark Gonsalez Þá minnir mig að hann hafi komið út í hagnaði og er nánast pottþéttur á því að það sama hafi verið upp á teningnum varðandi Paletta.

 17. Svo ég svari fyrst varðandi Spearing og Darby þá er ég víst á því að þeir séu í gæðaklassa Úrvalsdeildarinnar. Alveg eins og við sáum með Warnock (sem nota bene Houllier var búinn að gefa frjálsa sölu) og Guthrie (sem við hirtum gefins frá Scum). Þessir leikmenn voru einfaldlega ekki nógu góðir fyrir LFC og fóru því, en við fengum pening.

  Hvort Spearing og Darby elta þá eða verða leikmenn í hæsta gæðaklassa kemur í ljós á þessu tímabili og næsta. En við munum fá fyrir þá pening.

  Ætla að leyfa mér ítarlegt svar varðandi hin nöfnin.

  “Gabriel Paletta og Sebastian Leto voru gífurleg vonbrigði. Leikmenn sem voru magnaðir með Argentínu á U20. Keyptir samtals fyrir 4,5 milljónir punda” Voru keyptir á 3.5 milljónir punda, búið að ræða atvinnuleyfi Leto, seldir á 4.2 milljónir. Vissulega vonbrigði, en alls ekki tap, hvað þá að greitt var fyrir lán Leto. Svo lék Sebastian Leto fyrir LFC áður en vegabréfavandinn kom upp.

  “Besian Idrizaj og Jack Hobbs komu 2005” Vissulega átti Idrizaj erfitt og var ekki nógu góður, því miður. Hobbs var mikið efni að margra mati og fékk séns sem hann nýtti ekki nógu vel. Var seldur í vor til Leicester, fyrir meira en við greiddum fyrir.

  “Daniel Ayala kom 2007 en þótti ekki nægilega góður sem fjórði hafsent!” Held ég hafi rétt fyrir mér að Ayala verði 20 ára á árinu og kjánalegt að afskrifa hann, mikið efni – sem hefur nú þegar fengið blóð á tennurnar. Þegar Kyrgiakos var keyptur var ljóst að Skrtel yrði lengi frá og algerlega óvíst um meiðsli Agger.

  “Kristian Nemeth og Andreas Simon komu 2007. Godwin Antwi og Miki Roque komu 2005.” Því miður virðast ungversku stirnin ekki ætla að ná í gegn, þó verður gaman að sjá hvernig Nemeth þróast í Grikklandi. Hinir tveir ekki náð hæðum.

  “Nabir El Zahar og Stephen Darby komu 2006. Búnir að vera í 4 ár og eru lítið sem ekkert að gera.” Skil nú ekki kommentið með Darby, hann er búinn að vera miklu lengur og sýnist nú þessa stundina vera að festa sig í leikmannahópnum. El Zhar hefur átt erfitt með meiðsli en alveg ljóst að hann verður hægt að selja (ef við viljum) fyrir töluvert hærri upphæð en þau 200 þúsund pund sem við greiddum fyrir hann.

  “Danny Guthrie, Paul Anderson, Jay Spearing, Martin Kelly og fleiri. Hvenær fáum við að sjá einhverja af þessum leikmönnum springa út og komast inn í aðaliðið?” Danny Guthrie var seldur í fyrrahaust til Newcastle fyrir 2.250 þúsund pund og Paul Anderson til Forest í haust fyrir 250 þúsund pund. Svo þeir spila nú ekki mikið fyrir okkar lið, það er ljóst. Jay Spearing kemur í ljós næsta vetur í síðasta lagi, annars munum við fá fínan pening fyrir þann baráttujaxl. Martin Kelly er búinn að eiga í gríðarlegum meiðslavandræðum síðustu ár sem hafa komið í veg fyrir hans feril. Ég tók það sem eitt mesta dæmið um kjark Rafa vegna ungu strákanna þegar sá drengur var í byrjunarliði í lykilleik í CL í vetur. Gegn Lyon. Ef að fæturnir á honum verða í lagi, er ekki vafi að hann á bjarta framtíð fyrir sér.

  Ronaldo lék í 2 ár með Sporting Lisbon, Rooney með slöku Evertonliði og Gerrard spilaði hægri bakvörð í liði sem átti erfitt. Þau lið “höfðu efni” á tilraunastarfsemi. Tökum kvöldið sem dæmi. Hef fulla trú á að Darby spili og Pacheco verði á bekknum. Í liði kvöldsins er viðbúið að Emiliano Insua spili frá byrjun og N’Gog minnst á bekknum, hugsanlega í byrjunarliðinu. Þá værum við að tala um töluvert ungt lið miðað við mörg hver önnur sem mögulegt er.

  Megum ekki gleyma því að við erum líka með aðra leikmenn, eldri, sem við þurfum að fá í rútínu og í gang, s.s. Aquilani, Torres, Benayoun (jafnvel Babel) og Aurelio. Við megum ekkert við því að tapa í kvöld og því er FA cup í vetur ekki keppnin til að láta þá ungu sitja uppi með mestu ábyrgðina.

  Það mega bara 11 spila í einu.

  Eitt af því sem verulega hefur skipt máli er augljós staðreynd sem SSteinn bætti hér inn, það að einungis frá sumri fékk Rafa full yfirráð yfir starfsemi þessara liða. Hann sýndi strax óánægju sína með því að reka eiginlega öll þjálfarateymi þessara liða og skipta “sínum” mönnum inn. Svona við fyrstu sýn virðist það vera að virka, nú eru menn sem Rafa treystir að taka við þeim leikmönnum sem njósnateymi Rafa hafa verið að finna um heiminn.

  Þar tel ég liggja töluverðan mun, auk augljósra áherslubreytinga í fótboltanum sem t.d. U-18 ára liðið spilar. Þar er áherslan lögð á hraða og tækni.

  Heildarmyndina þarf að skoða þegar að lengri tíma áhrifin koma fram, það tók Wenger tíma að skapa ungliðastemminguna hjá Arsenal!

 18. Fínt svar Maggi. Ég er bara að vekja athygli á þessu til að skapa umræðu. Ég tók slaginn við þig fyrir 1-2 árum varðandi þetta og einnig kaup og sölur Benitez en þá varstu mér ekki sammála að kaupin á Carson hefðu verið góð. Ég benti á að við hefðum grætt á honum en það var ekki nóg þá. Annað hljóð í þér núna þar sem þú blandar inn í þetta að við höfum grætt á flestum af þessum kaupum. Ég var ekki að tala um það sem er samt sem áður afar ánægjulegt.

 19. svo erum þið gleyma Peter Gulacsi sem sló í gegn í FIFA U-20 World Cup þarsem hann varði 3 víti og gaf Ungverjaland þriðja sætið.

 20. Þegar menn tala um kaup og sölur þá gleyma menn stórum þætti hérna. Það er sú staðreynd að þessir leikmenn sem kannski ná aldrei að komast í aðalliðið fá borguð laun í hverri viku sem er kostnaður fyrir félagið sérstaklega ef leikmennirnir spila aðeins með varaliðinu. Því gengur sú röksemd sem Maggi setur hér upp ekki upp. Það verður að taka inn í dæmið heildarkostnaðinn er varðar sölu og uppihald mínus sölu. Ef þessir leikmenn skila enn hagnaði eftir sölu eða komast í aðal liðið þá eru þetta góð kaup.

 21. Eiríkur í #27.

  Málið er nú í raun einfalt held ég varðandi þennan kostnað. Lið í okkar gæðaflokki eru yfirleitt með um 22 leikmenn í aðalliðshópnum sínum og 20 í U-18 ára liðinu, auk 10 – 15 sem liggja þar á milli og mynda grunninn í varaliðinu.

  Þeir sem ekki eru í aðalliðinu eru auðvitað á launum, þó aðeins brotabrotum af aðalliðsleikmönnunum.

  Svona hefur það alltaf verið og því er nú að verða ansi teygjanlegt ef á að fara að rýna of fast oní bækurnar varðandi laun. Allavega vonlaust að átta sig fyrir okkur sem ekki sjáum launaseðlana.

  Ég held að líka megi líta á t.d. það að leikmaður uppalinn eða fenginn ódýrt sem fer í aðalliðið sé mikil plúsfjárfesting. Nefni þar núna t.d. Insua og N’Gog sem hafa þegar aukið virði sitt töluvert!

  Botnlínan mín er áfram sú að árgangar leikmanna á aldrinum 17 – 20 ára hjá félaginu hefur ekki í langan tíma vakið mér eins mikilli spennu og þeir árgangar sem nú spila í U-18 og Varaliðinu!

 22. Jæja, hvernig ætli Argentínumanni sem hefur spilað í 8 ár á Spáni vegni á vetrarvöllum Englands….? Vonandi gengur það vel hjá honum. En ef honum gengur illa að venjast þá er bjarta hliðin sú að þá eru Benítez og hans fyglismenn komnir með flotta afsökun…

  🙂

Reading á morgun

Uppfært: Búið að semja við Maxi Rodriguez