10 litlir varnarmenn…

Flestir þeir sem hafa áhuga á enska boltanum hafa velt því fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi hjá Liverpool í upphafi þessa tímabils, afhverju er þetta lið sem spilaði svo frábærlega í lok síðasta tímabils svona ofboðslega brothætt núna með svipaðan mannskap. Ýmsar kenningar hafa svosem verið upp, umræða um Rafa Benitez hefur líklega verið meiri heldur en um Icesave, brottför Alonso, fjarvera G&T, lélegur hópur og allt þar á milli. Allt þetta hefur verið tekið fyrir á þessari síðu sem og öðrum svipuðum sem fjalla um sama málefni.

Mín skoðun er nú sú að lið sem spilaði líkt og Liverpool gerði í lok síðasta tímabils bara gleymir því ekki á nokkrum vikum og að ástæða þessa herfilega gengis er nú ekki svona voðalega svart hvít eins og margir vilja meina (oftar þá litað með svörtu þar sem maður er jafnvel álitinn bjáni meðal Liverpool manna að hafa ennþá trú á Benitez). Við höfum lent í atvikum sem ekki ert hægt að segja neitt við, once in a lifetime mörk frá mönnum eins og Assou-Ekotto hjá Spurs og Jerome hjá Birmingham sem kostuðu okkur stig, ásamt því að strandbolti skoraði í fyrsta skipti í síðan byrjað var að sparka í bolta og það fékk að standa vegna nokkuð skiljanlegrar vankunnáttu dómara á reglunum. En  stærsta ástæðan fyrir þessu gengi held ég að sé pirrandi meiðsli lykilmanna sem séu að leika okkur hrikalega grátt svona í upphafi móts.

Ef þið horfið á hin stóru liðin á Englandi sem öll hafa mjög sterka hópa þá finna þau alveg gríðarlega mikið fyrir því að missa sína lykilmenn í meiðsli og ágæt dæmi um það er t.d. Chelsea með eða án Essien og Arsenal sem undanfarin ár hefur verið mjög óheppnið með meiðsli og ekki náð miklum árangri (þetta Arsenal lið er ekkert bara uppfullt af krökkum og þeir hafa sterkt lið þegar lykilmenn eru heilir). Meira að segja United finnur fyrir því ef Ronney, Vidic og Ferdinand eru ekki með og fundu klárlega fyrir því þegar CRonaldo var frá.

Það er því nokkuð ljóst að Liverpool liðið kemur alltaf til með að finna vel fyrir fjarveru Steven Gerrard, eins besta miðjumanns í heimi og Fernando Torres sem er á sama stalli í flokki sóknarmanna. Fjarvera þeirra ein og sér væri  hrein ágætasta afsökun fyrir okkur til að útskýra slakt gengi á þessum erfiðu tímum. En vandamálið er bara ekki eingöngu fjarvera þeirra, við misstum einnig Alonso og þar sem við höfum ekki fyrr en núna farið að sjá til staðgengils hans þá er eiginlega hægt að bæta honum við þennan lista, okkar lykilmanna frá því á síðasta tímabili. En gott og vel þetta var eitthvað sem var vitað fyrir mót.

Mesta vandamálið okkar og sá staður sem við höfum verið óvenju slakir á það sem af er þessu tímabili er blessuð vörnin. Reina hefur ekki gert neitt af sér og lítið hægt að setja út á hann, en fyrir framan hann hafa spilað 10 varnarmenn, tveir þeirra í fyrsta skipti með Liverpool og tveir til viðbótar í fyrsta skipti í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er rosalega mikið, jafnvel fyrir Benitez sem á að vera mikið fyrir rotation. Tíu varnarmenn í byrjun nóv er ekki eitthvað sem hann gerði sjálfviljugur. Fyrir þetta höfum við fengið að borga og það ríflega.

Í byrjun móts var Agger ekki klár og því alveg típískt að Carragher og Skrtel nái að hlaupa á hvorn annan og slasa sig báðir, það gaf svolítið mikið tónin fyrir það sem koma skildi. Fyrir utan þessa þrjá hafa sjö aðrir spilað deildar eða meistaradeildarleik, Kyrgiakos sem var að mig minnir ekki kominn fyrir Spurs leikinn, Ayala sem kom inná fyrir Skrtel, 18 ára. Degen, Kelly, Insua, Aurelio og Johnson (Dossena hefur held ég ekki spilað). Aurelio var svo meiddur í byrjun móts og því ekki með undirbúningstímabilið, Degen hefur nánast ekkert spilað með Liverpool og Kelly er nýliði.

Þessir strákar hafa ekkert verið að standa sig herfilega í öllum þessum leikjum en við vitum það af reynslu að það tekur ALLTAF tíma fyrir nýjan varnarmann, sama hvað hann heitir, að komast inn í Liverpool liðið og leikkerfið þannig að þetta virki eins og vél. Þannig að guð hjálpi okkur ef það er breyting á vörninni fyrir hvern leik eða þá í miðjum leik. Það hefur verið allt of mikið rót á vörninni sem hreinlega þarf að fara ná nokkrum leikjum á nokkurnvegin sömu mönnum þannig að menn nái að spila sig saman.

Agger er og hefur verið í tómu basli með meiðsli og maður er að verða ansi langþreyttur á þeim, við þurfum þennan strák í flesta leiki. Guðmávitahvaðopolus sem er 30 ára reyndur landsliðsmaður er kannski ekki verri en Hyypia sem er 36 ára en í Hyypia höfuðum við mann sem gat alltaf komið beint inn í liðið og kunni þetta allt upp á 10 og í bónus átti teiginn bæði í sókn og vörn. Það er ekki eins og ekki hafi verið reynt að halda honum en hann vildi spila reglulega áfram og við getum ekki borgað svona varamanni almennileg laun, sem er synd því hann yrði líklega leikjahæsti maður Liverpool eftir mótið.

Glen Johnson er svo annað púsl í þessu, hann hefur verið gríðarlega öflugur sóknarlega og hefur einnig sýnt að hann er mjög góður varnarlega. En það er með hann eins og aðra, hann þarf að venjast varnarleiknum okkar, þ.e. það á eftir að fínpússa þetta þannig að hann og þeir í kringum hann viti sitt hlutverk alveg upp á tíu enda nokkuð ljóst að með bakvörð eins og Johnson, týpu sem við höfum óskað eftir í mörg ár, skapast mikið meira pláss fyrir aftan hann og opnar þannig leið inn að marki okkar manna. Hann er sannarlega mest spennandi bakvörður sem ég hef séð hjá Liverpool í háa herrans tíð og ef allt er eðlilegt á hann bara eftir að verða betri. Glen Johnson hefur samt eins og aðrir verið að lenda í meiðslum ofan á allt og því höfum við hent inn bæði Kelly og Degen. Kelly er við fyrstu sýn rosalega spennandi leikmaður líka, fljótur og kröftugur og með nokkuð góða hæð sem okkur vantar sárlega, ég býst við að sjá meira og meira af honum á næstunni, en auðvitað um leið og hann fékk sénsinn og sýndi góðan leik meiddist hann og það við að reyna að bjarga marki… sem mistókst. Það er svo líklega kaldhæðni örlaganna að þegar allir á launaskrá klúbbsins eru meiddir þá er Degen sprækur sem lækur, en hann er þó auðvitað ekki nothæfur frekar en fyrri daginn þar sem honum tókst að næla sér í ósanngjarnt þriggja leikja bann. Eitt dæmið enn um okkar tímabil í hnotskurn það sem af er.

Hinumegin höfum við þrjá ágæta leikmenn að berjast um stöðuna. Aurelio er klárlega first chice, en hann er bara heill í sjötta hverjum leik þannig að Emiliano Insúa hefur alveg eignað sér vinstri bakvarðarstöðuna. Hann hefur verið mikið lofaður það sem af er ári og er það vel enda efnilegur strákur sem kemur upp úr varaliðinu okkar. En ég hef samt ekki verið alveg heillaður af honum alltaf á þessu ári og finnst hann eiga þó nokkuð í land ennþá (sem er alveg eðlilegt fyrir hann á þessu stigi ferilsins). Það er ekki að hjálpa honum að vörnin breytist í nánast hverjum leik og í raun er hann ennþá bara að næla sér í næga leikreynslu og öðlast þann leikskilning sem varnarmenn læra ekkert einn tveir og bingó. Hann er gríðarlegt efni fyrir framtíðina þó ég hafi smá áhyggjur af því að hann sé of lítill. Hann vinnur allavega enga skallabolta og það eru of margir í liðinu se gera það ekki. Hvað varð um Dossena veit ég svo ekki alveg og tel alveg ljóst að við verðum að losa okkur við hann einn tveir og bingó, ég er ekki einu sinni viss um að honum yrði treyst til að elda í mötuneytinu ef kokkurinn myndi næla sér í svínó…og samt er hann frá ítalíu!

Þessar sífelldu breytingar á vörninni hafa verið að leika okkur grátt í upphafi þessa árs auk fjarveru okkar helstu lykilmanna og ég er nokkuð viss um að þegar við fáum sterka samstillta varnarlínu aftur, eitthvað sem Benitez hefur verið einstaklega góður í að viðhalda þá fari þetta að ganga betur framar á vellinum líka. Þetta óöryggi á vörninni hefur síðan ekkert hjálpað þeim Lucas og Mascherano sem hvorugur er týpan sem stjórnar spili síns liðs. Þeir hafa þó báðir verið mjög góðir varnarlega og sérstaklega núna eftir að Mascherno mætti andlega frá Argentínu eða Barcelona eða hvar sem hann var nú annarsstaðar en á Anfield í upphafi móts. Það er búið að covera Lucas allvel á þessari síðu og ég sleppi því að fara út í þá umræðu núna.

Annað sem hefur verið að leika okkur alveg hrikalega grátt sem er auðvitað beintengt óöryggi í varnarleiknum er hvað þetta lið okkar virðist vera smávaxið, vörnin hefur oft verið að því er virðist fráránlega staðsett þegar hún er að verjast föstum leikatriðum og má alls ekki við því þar sem flest lið virðast eiga a.m.k. einn leikmann sem ekkert mál er að finna inni í teig Liverpool og gera þannig hvert einasta fast leikatriði hættulegt. Því þrátt fyrir allt þá eru það föstu leikatriðin sem hafa verið að fara hvað verst með okkur.

Þetta sem ég hef farið yfir hér segir að sjálfsögðu ekki alla söguna þó að klárlega sé um stóran part að ræða, þetta er þó annar vinkill en að segja bara blákalt að Rafa Benitez sé vonlaus stjóri sem vinnur aldrei deildina með Liverpool, eða að þetta lið sem við eigum sé einfaldlega bara ekki nógu gott. Þegar blandan er rétt og ef smá friður fengist nú til að stilla saman liðsheild þá er ég sannfærður um að betri tíð sé í vændum. Við verðum að játa að Liverpool liðið  í dag vinnur ekki deildina með eilífu hringli á vörninni, betri helming miðjunnar meiddan og með einn besta framherja deildarinnar á hálfum hraða sem gerir það að verkum að hann skorar “bara” eitt mark í leik.

Ferguson, Wenger eða Lancelot myndu ekki heldur vinna neitt hjá með sín lið við þannig aðstæður.

12 Comments

 1. já … Arbeloa lék ekki nem 43 leiki í fyrra og Xabi 46 leiki í fyrra. Hyypia lék 20 leiki. Það munar um þessa kappa, það er ekki flóknara.
  Og ef maðurinn sem spilaði í búningum hans Skrtel í fyrra myndi nú koma aftur í treyjuna sína þá held ég að þetta væri nú betra.
  Annars held ég að þetta verði 4 sætisbarátta … því miður
  Held að kallinn eigi að fara gefa unglingunum meiri sjensa til að breikka hópinn.

 2. Margt til í þessu. Hluti af vandamálinu er að í liðið eru komnir tveir nýjir aðal bakverðir sem eru mjög ólíkir þeim sem voru fyrir. Þá hjálpar ekki til að Carra og Skrtel hafa verið virkilega slakir í haust. Ég tel hins vegar vandamálið liggja í varnarleik alls liðsins. Stórt hlutfall þeirra marka sem liðið er að fá á sig er að koma úr föstum leikatriðum, þar sem menn eru að klikka á hlutverki sínu.

  Annars smá fyrir utan þetta, þá er mögulega að losna feitur biti á þjálfaramarkaðnum þar sem Rússar duttu út í kvöld, sjálfur Guus Hiddink.
  Nú er bara spurning hvort að Real taki ekki upp veskið og bjóði Benitez feitan deal.

 3. Þetta er sorglegt væl, við erum með 11 leikmenn í hópnum sem hafa byrjað 8 leiki eða fleiri í deildinni, af 12 leikjum.
  Þrír leikmenn byjað þá alla.
  Arsenal er með 9 leikmenn sem hafa byrjað 8 leiki eða fleiri, enginn hefur spilað alla 12.
  ManUtd er með 7 leikmenn sem hafa byrjað 8 leiki eða fleiri og 1 sem hefur spilað alla leikina.
  Chelsea er með 10 leikmenn sem hafa byrjað 8 leiki eða fleiri og 3 sem hafa spilað alla leikina.
  Öll þessi 3 lið hafa þurft að nota tvo markmenn og verið í vandræðum sem þau hafa leist betur úr en við.
  Það stefndi í óefni strax á undirbúningstímanum, og það hélt áfram í fyrstu leikjunum.
  Það bara er ekki í myndinni að það sé hægt að tala um óheppni endalaust og meiðsli.

 4. Afhverju er þetta væll þegar verið er að velta þessu slæma gengi fyrir sér?? Er það bara alveg skylda að segja við töpuðumm þetta mörgum stigum taflan lýgur ekki, liðið getur ekki neitt, óþarfi að velta fyrir sér afhverju. Þetta yrði ansi hreint leiðinleg síða held ég ef það væri raunin.
  Hin liðin hafa líka misst menn og t.d. hafa United menn ekkert verið að sýna neinn ofur leik á sinna miðvarða t.d. Það er ekkert algilt að lið lendi í basli þó lykilmenn meiðist og því sterkari hópur því meiri líkur að þetta skipti ekki svo miklu máli. En til lengri tíma litið fer fjarvera lykilmanna alltaf að telja og það er svo sannarlega að gerast hjá okkur núna enda hafa lykil menn okkar verið óhemju brothættir.

 5. Það er ágætt að þetta friðar einhvern, en um leið og liðið lendir í vandræðum þá þarf að benda á eitthvað.
  Þetta er múgæsing, þessi meiðsli eru ekkert meiri en hjá hinum liðunum, það er mjög gott að skoða tölfræðina á Soccernet.com, þar er þetta bara svart á hvítu, við höfum getað stillt upp liði í hverjum leik eins og hin liðin, og jafnvel oftar á sama mannskap.

 6. Nei ég er sammála Babú og tel hann alls ekki væla, mesta lagi vona. Búið að vera aðeins verra hjá okkur en hinum (allavega aðeins). En svo eru nú allir sammála að Liv hefðu nú átt að koma betur undan down-kaflanum. Svo var ekki.

  Verður gaman að sjá hvort Arsenal hiksti við að missa Van Persie. Missa þar mikla ógnun og gæti smitað út frá sér.

 7. Hvernig voru samt æfingaleikirnir fyrir tímabilið? Ég horði ekki á þá en fylgdist bara með tíðindum héðan. Mig minnir einhvern veginn eins og Hérinn sagði að það hafi þá strax verið eitthvað mikið að liðinu. Skoraði varla mark og leit bara almennt illa út.

 8. Flottur pistill Babú. Alveg magnað að sjá menn eins og Hérann koma inn og slá um sig og spila sig stóran kall, talandi niður til manna og ræðir um sorglegheit og væl. Babú var einfaldlega í þessum pistli að meta hringlið á vörninni á milli ára, ekki bara vegna meiðsla heldur líka innkomu nýrra aðila inn í þetta kerfi sem menn hafa verið að spila eftir. Ef menn geta ekki rætt pistilinn þá er alveg eins gott fyrir menn að vera bara úti, alveg óþolandi svona kallar sem spila sig svo stóra að allt verður örsmátt við hlið þeirra.

  Það er klárt mál að það er margt að í leik okkar manna, en ég er sammála Babú (og það er nú frekar augljóst) að það er fyrst og fremst vörnin sem hefur verið að klikka all verulega á milli ára. Javier blessaður hefur ekki verið að kóvera heldur jafn vel og áður og það hefur gert menn eins og Skrtel að einni taugahrúgu. Bestu varnirnar eru þær sem spila reglulega saman og lesa hvern annan eins og opna bók, það hefur ekki verið möguleiki í vetur og gæti því verið hluti af ástæðunni fyrir því að við erum að leka jafn hryllilega og raun ber vitni.

 9. Hérinn má alveg hafa sína skoðun, þótt hún sé í meginatriðum röng. En mér finnst aðalmálið vera hvað Carra og Skrtel hafa spilað illa. Þegar Carra spilar illa þá stressast allir upp í kringum hann og öryggið í varnarleiknum verður ekkert. Þá hefur Skrtel klikkað margoft í föstum leikatriðum, hann á að vinna öll sín skallaeinvígi. Insúa hefur verið að klikka verulega varnarlega og það er bara of mikið. Þessir þrír hafa samt spilað megnið af leikjum haustsins og hringlandinn snýst kannski um það hversu illa þessir hafa spilað. Sammála Ssteini, ef þú nærð að spila á 4-5 mönnum á tímabilinu þá er varnarleikurinn í góðum málum.

Klassískur landsleikjahlés pistill..

Þátttaka Liverpool á HM og “fair play” umræðan