Fulham á morgun – Uppfært

Áfram veginn, nú er það Fulham í London á morgun. Klárlega erfiður leikur, en engu að síður leikur þar sem við ÞURFUM hreinlega að ná í 3 stig úr. Við mættum mun erfiðari andstæðing um síðustu helgi og spiluðum þá sundur og saman. Nú er það eitt þrjóskasta liðið í deildinni og það á útivelli, en persónulega finnst mér þeir ekki vera jafn sterkir og t.d. á síðasta tímabili. Næstu tveir leikir okkar manna eru algjörlega must win leikir (ekki það að allir leikir séu ekki must win ef út í það er farið). Við eigum Fulham úti núna og svo Birmingham heima næst. Okkar helstu keppinautar, Chelsea og Man.Utd eiga tiltölulega létta leiki núna um helgina, en svo mætast þeir aðra helgi. Þar tapast pottþétt stig og við hreinlega VERÐUM að nýta okkur það. Arsenal og Tottenham mætast svo um helgina og sömu sögu er að segja af Everton og Aston Villa.

Fulham náðu jafntefli á útivelli um síðustu helgi gegn Man.City, en eftir því sem ég sá úr þeim leik, þá var það fyrst og fremst að þeir síðar nefndu hentu frá sér öruggum sigri með kæruleysi. Heimamenn á morgun byggja sitt upp á traustum varnarleik, þar sem tröllið Brede Hangeland fer fremstur í flokki, en svo er Schwarzer í markinu hjá þeim, og hann hefur haft þann leiðinlega ávana í gegnum tíðina að eiga stórleiki gegn Liverpool. Fulham hafa unnið einn af síðustu 5 leikjum sínum, heimasigur gegn Hull. Þeir hafa einungis skorað 10 mörk í þessum 9 leikjum sínum, á móti þeim 24 (í 10 leikjum) sem okkar menn hafa skorað í Úrvalsdeildinni. En það sýnir styrk þeirra er að þeir hafa aðeins fengið á sig 12 mörk, en við 13. Þrír leikmenn hjá þeim eru lang markahæstir (hafa skorað helmingi fleiri mörk en næstu menn þar á eftir), eða þeir Murphy, Duff og Zamora, sem hafa skorað 2 mörk hver. Afar ólíklegt er talið að Murphy verði búinn að ná sér af meiðslum fyrir leikinn og eins eru Andy Johnson og Simon Davis enn frá hjá þeim vegna meiðsla.

Það er algjörlega ljóst að okkar menn þurfa að vera hugmyndaríkir í sóknaraðgerðum sínum. Ég vil sjá sömu varnaruppbyggingu og í síðasta leik okkar í deildinni, halda hreinu og ekkert kjaftæði. Svo vil ég sjá víddina notaða með okkar sókndjörfu bakvörðum, Glen Johnson og Insúa verða að fá aðeins meira leyfi til að sækja fram kantana, heldur en þeir fengu gegn Man.Utd. Ég hreinlega vil sjá nákvæmlega sama byrjunarliðið eins og það var á sunnudaginn. Stevie G er að öllum líkindum ekki klár í slaginn ennþá, en vonir standa til þess að Torres geti byrjað leikinn. Samt er þetta alltaf spurning, ef kappinn er tæpur, hvort honum verði hætt frekar í leikinn gegn Lyon og þar af leiðandi hvíldur um helgina. Þá kæmi Ngog að sjálfsögðu inn fyrir hann. Það er alveg sama hvað menn tauta og raula yfir forgangsröðun keppna, það eru gríðarlega miklir peningar í húfi í Meistaradeildinni og það verður mikill þrýstingur á Rafa af hans yfirboðurum að leggja allt í sölurnar gegn Lyon þó svo að þurfi að fórna einhverju gegn Fulham á morgun. Ég vona þó að við sjáum Torres inná á morgun, en það er samt sem áður líklegt að hann hefji ekki leik. Einhverjar fréttir voru einnig af því að Lucas væri kominn með svínaflensuna, en ég hef ekkert heyrt meira af því og þar af leiðandi reikna ég með honum í liðinu. Aurelio á svo að hefja leik á kantinum, ekki var Babel mikið að setja pressu á hann í síðasta leik, og Riera ennþá frá vegna meiðsla.

Þó svo að ég vonist eftir alveg sama byrjunarliði og á móti Man.Utd, þá ætla ég að spá því að Rafa stilli þessu upp svona:

Reina

Degen – Carragher – Agger – Insúa

Mascherano – Lucas
Kuyt – Benayoun – Aurelio
Ngog

Bekkurinn: Cavalieri, Skrtel, Kyrgiakos, Spearing, Babel, Voronin og Torres

Liðið okkar gat unnið Man.Utd án Gerrard um síðustu helgi, unnu þá án Gerrard og Torres fyrir ári síðan, þannig að við eigum að vinna Fulham á morgun án þeirra. Enginnn (kannski Hangeland) myndi komast í sterkasta lið Liverpool úr þessu Fulham liði og því verða menn að sýna sinn rétta standard og vinna þennan leik. En við vitum vel að leikir vinnast aldrei á pappírunum fyrir leiki og því verða okkar menn að vera klárir í slaginn. Nú ætti skortur á sjálfstrausti ekki að vera að plaga leikmenn okkar, sigurinn á sunnudaginn ætti algjörlega að sjá til þess. Ég er líka ánægður með kommentin frá Javier í vikunni um að menn verði að koma ákveðnir til leiks, því hinn sigurinn er að baki og við verðum að hala inn stig til að halda okkur í baráttu um þennan blessaða titil. Sú barátta er svo langt frá því að vera búin, en til þess að viðhalda henni þá mega menn ekki tapa stigum á móti liðum eins og Fulham. 3 stig á morgun takk, 0-2 sigur, Benayoun og Aurelio með mörkin og málið dautt. Bring it on.

Uppfært: Glen Johnson og Stevie G verða ekki með á morgun. Aquilani náði sér jafnframt í einhverja flensu. Kelly og Riera líka frá vegna meiðsla áfram.

33 Comments

  1. Ég spái því að við vinnum þennan leik 0-1

    Degen skorar sigurmarkið.

    Nei, ég er ekki genginn af göflunum.

  2. Ætli liðið verði ekki svona:
    Reina
    Carra – Skrtel – Agger – Insua
    Lucas – Mascherano
    Kuyt – Yossi – Aurelio
    Ngog

    Torres svo á bekknum

  3. Craven Cottage er mjög erfiður útivöllur og þurfum við toppleik frá okkar mönnum til að hirða öll 3 stigin sem í boði eru. Liðið sem “Ssteinn” stillir upp er alveg nægilega sterkt til að vinna Fulham og er ég fullur bjartsýni eftir leikinn gegn UTD. Leiðinlegt að heyra þetta með Aquilani því ég var að vonast eftir að sjá meira til hans á morgun. Hvað er svo að plaga Glen Johnson, veit einhver það ?
    Forza Liverpool.

  4. Þurfum toppleik til að ná í 3 stig, leikmenn verða að átta sig á því að jafnmörg stig eru í boði á morgun og voru síðastliðinn sunnudag.

    Ég ætla að spá okkur 0-2 sigri, komumst í 0-1 í upphafi leiks. Ngog og Benayoun með mörkin.

  5. Fín upphitun. Slæmt að missa Johnson og Aquilani út aftur fyrir þennan leik, svo og það að Gerrard sé ennþá frá. Vonandi ná þessir gæjar sér allir í heilsu fyrir Lyon-leikinn sem verður vægast sagt risavaxinn.

    Það eru tveir möguleikar í stöðunni varðandi byrjunarlið; Rafa gæti valið sömu taktík og venjulega og þá er ég alveg sammála þér með byrjunarliðið, þá t.d. er Degen sjálfvalinn í bakvörðinn í fjarveru Johnson og Kelly og þökk sé góðri frammistöðu á miðvikudag. Hins vegar gæti Rafa farið í þriggja manna vörnina eins og gegn Sunderland (hefur gert það nokkrum sinnum áður með góðum árangri, þótt það hafi tekist illa gegn Sunderland) og þá gætum við séð Degen og Aurelio manna vængina og Insúa missa af (enda lék hann í miðri viku á meðan Aurelio fékk frí).

    Við sjáum til. Engu að síður er ég sammála þér að við verðum að vinna þennan leik til að sigurinn gegn United verði ekki að engu hafður. Er bjartsýnn á að við tökum þetta á morgun, Benayoun verður þeim banabitinn annað árið í röð.

  6. Þetta verður áhugavert ef það mun vanta Johnson, Aquilani og Gerrard. Persónulega held ég að Torres muni byrja leikinn og ég vona það líka. Leikirnir í deildinni eru mjög mikilvægir. Við þurfum að nota einhvern af okkar bestu mönnum á útivelli gegn Fulham. Við eigum að nota Torres í 60 mínútur gegn Fulham þótt hann verði ekki jafn sprækur fyrir vikið gegn Lyon. Deildin gengur fyrir.

    Ég treysti þessum Degen ekki fyrir nokkrum sköpuðum hlut í vörninni. En ef Fulham mun bakka þá er spurning hvort Degen hafi frelsi til þess að sækja meira og þá mun Mascherano og miðverðirnir covera fyrir hann. Ömurlegt samt að hafa ekki betri backup í hægri bakverðinum heldur en Degen og Kelly. Á hinn bóginn er hægt að nota Aurelio í hægri bakverðinum. Spurningin er bara hversu mikinn ursla Degen gæti valdið á kantinum. Fulham verður sennilega án Konchesky, í það minnsta er hann ekki 100% og þá kannski ágætt að láta hné fylgja kviði og stilla upp sókndjörfum bakverði.

    Er hræddur um að þetta verði mjög erfiður leikur. Fulham fær fá mörk á sig á Craven Cottage. Sé Liverpool ekki skora mikið af mörkum ef það vantar Torres. Ætla samt að spá naumum sigri Liverpool. Segjum 1-0 fyrir Liverpool og Babel skorar af bekknum.

  7. Mascherano var í banni gegn Arsenal.

    Já, KAR, þessi síðari uppstilling gæti verið möguleiki líka, en ég hef grun um að Rafa haldi sig við normal set-upið sitt.

    Degen átti fínan leik síðast, og það án þess að hafa Masch þar til að covera, um að gera að láta hann axla ábyrgð og sína hvað í honum býr. En hvað með Kelly, finnst hann vera fínn back-up, allavega útfrá þessum leikjum sem ég hef séð með honum.

  8. Kelly er flottur og miðað við frammistöðuna gegn Lyon getum við alveg vænst stórra hluta af þessum strák held ég á næstu árum. Hins vegar, eins og með aðra unga og óreynda menn verðum við aðdáendurnir kannski að passa okkur aðeins að ætlast ekki til of mikils af honum of fljótt. Það er t.a.m. fullkomlega eðlilegt að Insúa og Ngog hafi átt einn eða tvo dapra leiki inn á milli í haust miðað við aldur þeirra en þeir eru þó heilt yfir að spila mjög vel og virka mjög stöðugir í frammistöðu miðað við aldur (berið þá saman við t.d. Babel sem er orðin tveimur árum eldri og á tvo súpergóða leiki á ári, á meðan hinir tveir eiga kannski tvo súperlélega leiki á ári).

    Degen maður. Ég myndi vilja sjá hann byrja á morgun. Eins og þú segir, láta hann standa undir ábyrgðinni. Hann var keyptur fyrir einu og hálfu ári og hugsaður sem leikmaður í þetta aðallið, annað hvort í baráttu við annan hægri bakvörð um stöðu eða sem varaskeifa, og það er kominn tími til að hann fari að skila því hlutverki. Johnson er meiddur, Degen lék feykivel á miðv.dag, bara hafa hann í liðinu. Klárt mál. Ef hann hefur það ekki í sér að spila tvo góða leiki í röð er betra að við fáum að vita það núna en að vera endalaust að bíða og vona.

  9. Mér fannst Degen ekki eiga fínan leik síðast, var sérstaklega slakur varnarlega. Ég hef séð hann spila með varaliðinu og hann er vissulega sprækur og á góða spretti inn á milli. Hann er aggresífur sóknarmaður og virðist vera mjög teknískur. En hann hefur ekkert sýnt varnarlega, og virðist bara lélegur varnarmaður, en spilar samt sem varnarmaður. Ég held hinsvegar að Degen gæti orðið þokkalegasti kantmaður. En bakvörður eða varnarmaður er þetta ekki.

    Ég er sæmilega spenntur fyrir Kelly. Hann hefur verið að spila með landsliði Englands í yngri flokkunum og spilaði með þeim í síðasta móti. Man þó ekki hvaða stöðu hann var að spila þar, einhver sem man það? Mér finnst Kelly allavega vera miklu betri varnarmaður heldur en Degen. Held nú samt að Kelly verði miðvörður í framtíðinni. Virðist á köflum dálítið týndur og takmarkaður þegar hann er kominn í sóknina.

    Finnst mér þessir strákar fínir backup fyrir lið sem ætlar sér titilinn í ensku Úrvalsdeildinni? Nei, mér finnst það alls ekki.

  10. Ég er sammála Kristjáni Atla með Degen. Hann leit mjög vel út á miðvikudaginn. Ég er hins vegar líka sammála (þó í minna mæli) Jóhannesi því hann virkaði ekki mjög sterkur varnarlega síðast. Hins vegar verðum við að átta okkur á tvennu. Það getur verið að hann hafi bara átt slakan dag varnarlega síðast, það kemur fyrir á bestu bæjum. Ég hef allavega ekki séð nóg til hans til að gefa hann upp á bátinn sem varnarmann. Hitt er það að Fulham er ekki sterkt sóknarlið, en talsvert sterkt varnarlið. Það ættu því að vera talsvert minni varnarskyldur á Degen á morgun heldur en á móti Manu, og á morgun þurfum við sókndjarfa bakverði því það síðasta sem við viljum er að hanga á boltanum í 90 mín án þess að nokkuð gerist og láta leikinn fjara út í 0-0 jafntefli (sem væri svo sem alveg okkur líkt). Mín skoðun er allavega sú að við verðum að spila frekar sókndjörfu liði á morgun.
    Í fyrra komumst við á gott run eftir að hafa unnið Manu, vonandi gerist það aftur núna.

  11. Hahahaha ég var búinn að sjá fyrirsögnina og hélt að þetta væri um Rio Ferdihland alveg þangað til núna.

  12. Torres verður að vera með, ekki veitir af, enginn Gerrard, enginn Johnson, Riera eða Aguilani.

    Einhvernveginn leggst þessi leikur ekki vel í mig, veit ekki af hverju.

  13. Torres er víst búin að vera æfa skv viðtalinu á Sky, því kemur EKKERT annað til greina en að hann spili – deildin er nr 1, 2 og 3. Meistaradeildin þar á eftir, frekar að nota hann á morgun og hvíla gegn Lyon ef hann getur ekki spilað báða leikina.

  14. Allir stuðningsmenn sammála því Eyþór, en ég er ansi hræddur um að peningakallarnir séu okkur ekki sammála og það held ég að muni ráða fyrir rest.

  15. Ég ætla að bara að segja það að ef Torres byrjar ekki inná á morgun, þá vinnum við ekki þennan leik. Við höfum oftar en ekki átt í erfiðleikum með Fulham á útivelli,, leikurinn á morgun verður engin undantekning.

    Þetta verður jafntefli, ef Torres verður ekki með, en ef hann spilar, þá vinnum við 0-2.

  16. Þessi leikur verður að vinnast, ef við ætlum að eiga einhvern séns í deildinni verðum við að komast á skrið, það þýðir ekki að vera alltaf í rosa stuði á móti stóru liðunum en mæta svo áhugalausir og latir og smyrja bakið með saur þegar við mætum minni liðunum.

  17. Verðum að vinna alla leiki, ekki bara setja sig í gír á móti stóru liðunum,, vera allta í topp gír, tökum þennan leik jess jess……….Degen verður gaman að sjá hann með í stóreik ef að hann verður þá með sem eg efa stórlega.

  18. Ég er eins og sumir frekar stressaður fyrir þennan leik en eins og ég hef sagt oft áður að ef liðið getur ekki unnið leiki án Torres og Gerrard getum við bara sleppt því að vera með í þessu en ég vona innilega að Torres spili mér finnst einfaldlega miklu leiðinlegra að horfa á liðið án hans.

    Það er ekkert í boði annað en 3 stig og ég held að Benayoun komi okkur yfir og svo skorar Torres seinna markið hugsanlega eftir að hafa komið inná sem varamaður.

  19. Það eru engin jafntefli í boði þetta tímabilið. Sigur í dag, alveg klárt.

  20. Ég ÞOLI EKKI þessi djöfulsins meiðsli endalaust!! Gerrard og Johnson frá, Torres tæpur, og Aquilani veikur. Óþolandi að geta ekki notað besta mannskapinn. Mér líst ekkert alltof vel á þetta. Er hræddur um að það verði jafntefli í dag. Ef Torres verður ekki með þá kæmi mér ekki á óvart að við myndum tapa þessu.

  21. Nú er að sýna að við ætlum að vera með í tiltilbaráttunni, ekki bara stemningslið sem getur umnið alla á góðum degi en hefur svo ekki konsistensíið til að taka deildina.

    Sammála Viðari no.20 um að við verðum líka að geta unnið leiki þó menn séu meiddir. Hugsa samt að Rafa láti Torres byrja og vonist eftir því að við verðum tveimur yfir eftir klukkutíma og taki hann þá útaf uppá hvíld.

  22. Sælir félagar

    Ég hefi áhyggjur af Gerrard. Nárameiðsli eru oftast mjög nþrálát og taka langan tíma. Það er frekar ömurlegt hvað veikindaleyfi okkar manna eru mörg og langt síðan við höfum getað stillt upp okkar sterkasta liði. Ég, fyrir mína parta, vil frekar leggja áherslu á Deildina en Meistaradeildina. Því vil ég að Torres leiki frekar í dag en gegn Lion ef hann getur bara leikið annan leikinn. Miðað við vinningshlutfall og sóknar þunga Fulham á leiktíðinni þá á að nægja að vera með 3ja manna vörn og leifa Degan að sprikla á kantinum þar sem Lucas og Masc geta auðveldlega fyllt hans skarð í vörninni (það er hvort sem er ekki svo stórt). Ég spái 0 – 2 ef Torres verður með en annars 1 – 3 þar sem Fulham mun reyna að sækja meira ef Torres er ekki inn á.

    Það er nú þannig

    YNWA

  23. Byrjunarliðið (Voronin og Degen byrja!!!)

    Liverpool: Reina, Insua, Degen, Carragher, Kyrgiakos, Kuyt, Benayoun, Mascherano, Lucas, Voronin, Torres. Subs: Gulacsi, Babel, Spearing, Plessis, Dossena, Eccleston, Ayala.

  24. Byrjunarliðið kemur ekki á óvart. Sjáið þið varamannabekkinn. Þetta er einhver hörmulegasti bekkur sem ég hef séð.

  25. Cavalieri, Johnson, Skrtel, Agger, Kelly, Aurelio, Aquilani, Gerrard, Riera, El Zhar, Ngog.

    Ellefu leikmenn sem eru ekki í hópnum hjá okkur í dag sem gætu myndað feykisterkt byrjunarlið. Við erum s.s. langt frá því að vera með fullan hóp í dag. Hvar eru allir þessir menn? Varla er Rafa að hvíla menn eins og Agger, Skrtel og Aurelio í dag á meðan aðrir eru meiddir? Eru þeir meiddir líka? Eða er þetta svínaflensan?

    Líst ekkert á þetta. Við getum alveg unnið þennan leik en þetta byrjunarlið er mjög spes. Mæðir mikið á því að Voronin spili eins og maður í dag, er ég hræddur um.

  26. Mér dettur bara tvennt í hug, annað hvort er Voronin að spila eins og dýr á æfingum og hefur hrifið Rafa eða þá að Rafa er einfaldlega að gefa honum sína síðustu sénsa á að sanna sig.

  27. Nú fáum við officially verðlaun fyrir lélegasta varamannabekk í sögu úrvalsdeildarinnar! Ef við lendum undir er nákvæmlega EKKERT sem við getum gert.

  28. Hvar er mannskapurinn? Aurelio, Agger, N’Gog, Skrtel, Hvar eru þeir? Ekki skil ég hvað Rafa er að hugsa, en þetta á eftir að verða dýrkeypt.

Fjölmiðlar – fjórða valdið

Liðið gegn Fulham