Arsenal á morgun!

Eftir skemmtilega helgi þar sem staðan í Úrvalsdeildinni breyttist heldur betur okkar mönnum í hag er komið að þriðju umferð enska Deildarbikarsins. Eins og venjulega eru okkar menn óheppnir í þessari keppni, því á meðan önnur stórlið úr Úrvalsdeildinni fengu flest hver auðveldari viðureignir drógust okkar menn gegn Arsenal og mæta þeim á útivelli annað kvöld. Ég held að þetta sé þriðja eða fjórða árið í röð sem okkar menn fá svona drátt snemma í þessari keppni – hingað til hafa þessir útistórleikir endað okkur í óhag en hver veit, kannski breytist það í ár?

Af okkar mönnum er eitthvað lítið um fráföll. Steven Gerrard, Albert Riera, Martin Kelly og Andrea Dossena eru allir frá og talið líklegra að þeir geti leikið um helgina en á morgun, á meðan Sotirios Kyrgiakos er eini leikmaðurinn hjá okkur frá til langs tíma. Þá staðfestir Rafa í dag að Alberto Aquilani muni vera í hópnum á morgun en ég sé hann varla fyrir mér spila meira en örfáar mínútur.

Aðrir eru heilir og geta spilað á morgun. Ef ég ætti að giska á hverjir fengju frí yrðu Fernando Torres og Glen Johnson fyrstu menn á blað, þar sem þeir komu tæpir inn fyrir United-leikinn um síðustu helgi og því finnst mér líklegt að þeir fái tækifæri til að koma sér í betra stand og verði því í mesta lagi á bekknum á morgun. Fyrst Gerrard er frá finnst mér næsta öruggt að Carragher spili (Rafa spilar aldrei án beggja fyrirliðanna ef hann kemst mögulega hjá því) og finn ég ekkert sem mælir gegn því að Agger haldi áfram við hlið hans.

Ég spái því að Rafa stilli upp eftirfarandi liði á morgun:

Cavalieri

Degen – Carragher – Agger – Aurelio

Spearing – Lucas – Plessis
Voronin – Babel
Ngog

Bekkur: Martin, Skrtel, Insúa, Darby, Aquilani, Benayoun, Torres.

Sem sagt, sterkt lið þar sem nokkrir ungir fá sénsinn. Voronin og Babel fá tækifæri til að minna á sig, Ngog leiðir línuna enda hefur hann unnið sér það inn með markinu sem kom okkur í þessa umferð og góða frammistöðu í síðustu tveimur leikjum. Plessis hefur leikið á Emirates Stadium áður og stóð sig vel, auk þess sem Spearing þarf að fá leik aftur sem fyrst eftir að hafa misstigið sig gegn Sunderland um daginn.

Af Arsenal-mönnum er það helst að frétta að tímabilið hefur byrjað vel hjá þeim. Eftir tvo tapleiki í röð gegn Manchester-liðunum í september hafa þeir náð sér á flug aftur í Úrvalsdeildinni og eru nú í þriðja sæti, stigi á undan okkar mönnum með leik til góða. Hins vegar hafa þeir á síðustu vikunni misst tvo leiki (gegn AZ Alkmaar og West Ham) niður í jafntefli á lokamínútunum og verða því örugglega ákveðnir í að ná í sigur á morgun. Eins og venjulega í Deildarbikarnum mun Wenger hvíla megnið af aðalliði sínu og nota „krakkana“ svokölluðu en það lið hefur verið duglegt að stríða hinum ýmsu liðum síðustu 2-3 árin og því skal ekki nokkur maður halda að við séum sigurstranglegri þótt Wenger hvíli.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur, mig langar að sjá þetta lið okkar ná á Wembley í ár. Mér er nokk sama í hvorum bikarnum það er, það er bara staðreynd að fjögur ár eru of langur tími á milli bikarúrslitaleikja hjá Liverpool FC. Við unnum síðasta bikarúrslitaleik okkar vorið 2006 og því væri ekki slæmt að komast á Wembley í annað hvort mars eða maí 2010. Til að svo geti orðið í Deildarbikarnum þarf þetta lið okkar á morgun þó að fara í gegnum ansi stóra hindrun.

**Mín Spá:** Ég held að þetta verði opinn og skemmtilegur leikur með nóg af mörkum. Hvorugt liðið hefur verið í einhverju fantaformi varnarlega en hafa skorað mest allra liða á Englandi. Ég sé fyrir mér **3-2** sigur okkar manna (að sjálfsögðu) í leik þar sem Arsenal-liðið tekur tvisvar forystuna en okkar menn standa fyrir sínu. Ngog skorar a.m.k. tvö á morgun og svei mér þá ef Aquilani kemur ekki inná á lokamínútunum og setur eitt úr aukaspyrnu. Það væri ekki leiðinlegt. 😉

Áfram Liverpool!

60 Comments

  1. Ég gíska á 1-2 sigri okkar manna, með babel og ngog bræður með mörkin. En aftur á móti myndi gíska á Macha inní liðið og lucas out. Þar sem macha verður í banni um helgina, og um að gera hvíla stór vin minn Lucas Leiva, þar sem hann hefur verið í flestum ef ekki öllum leikjum í starti.

  2. Er Mascherano ekki í banni á morgun??? Tekur hann ekki út bannið í næsta leik eftir brottrekstur?

  3. Flott upphitun KAR. Ólafur, ég er 99,9% viss um það að Javier verði í banni á morgun. Ég er einnig handviss um að Skrtel fái að spila þennan leik, enda búið að droppa honum á bekkinn undanfarið. Eins skilst mér að El Zhar sé klár í slaginn og sé ég alveg að hann fari allavega á bekkinn. Rafa staðfestir einnig að Dossena og Kyrgiakos séu klárir og búnir að vera að æfa, þannig að ég sé alveg fyrir mér að Degen og Dossena taki bakvarðastöðurnar, Skrtel og Kyrgiakos miðvarðastöðurnar.

    Ég yrði mjög hissa á því ef Torres færi með liðinu til London, held að hann verði settur í bómull á Melwood á meðan. Sama gildir með Johnson.

    Mér líst svo akkúrat ekkert á þessa miðjuuppstillingu, Lucas, Spearing OG Plessis! Ég vil ganga alla leið í þessu, láta menn spila sem lítið hafa verið að byrja útaf hjá liðinu, og hvíla mann eins og Lucas. Hafa Spearing og Plessis á miðjunni saman, Voronin fyrir aftan Ngog og svo Babel vinstra megin og El Zhar (ef hann er kominn í nægt form) hægra megin. Ég vil einfaldlega ekki taka neina sénsa á þeim leikmönnum sem skipa okkar sterkasta 11 manna lið.

  4. Jú ég gleymdi að taka það fram að Mascherano er víst pottþétt í banni á morgun, þess vegna gerði ég ekki ráð fyrir honum í hópnum fyrir þennan leik.

    Sé Lucas fyrir mér spila 90 mínútur á morgun og fá svo hvíld gegn Fulham, þar sem Mascherano og vonandi/væntanlega Gerrard koma inn á miðjuna fyrir þann leik. Auk þess sem Aquilani gæti leikið stærri rullu þar en á morgun.

  5. SSteinn, ég skil hvað þú meinar með að hvíla aðalliðið algjörlega en vandamálið er það að mig langar einnig að vinna þennan leik. Ef við stillum upp BÆÐI Degen og Dossena, hvorugan í leikformi, og svo með aðeins Spearing og Plessis á miðjunni, El Zhar nýkominn úr meiðslum á kantinn og þá fýlupokabræður Babel og Voronin frammi, geturðu nánast gefið leikinn. Það er nákvæmlega enginn séns á að slíkt lið geti farið á Emirates og unnið.

    Þetta snýst ekki bara um að hvíla menn. Það verður að reyna að hvíla og rótera aðeins en samt alltaf að leggja upp með að vinna leikinn. Liðið eins og þú leggur til mun aldrei vinna Arsenal. Liðið sem ég giska á í upphituninni á a.m.k. séns.

  6. Gefa Pacheco, Ayala, Plessis og fleiri guttum séns (ef ekki í þessari keppni – hvenær þá??) og stilla Babel og þeim sem ekki fá að spila regluleg upp með þeim. Mér finnst engin ástæða til þess að taka áhættu með aðalliðsmenn í þessum eggjabikar og þetta er góður vettvangur fyrir hina að sýna sig á.

  7. Þennan bikar langar mér í, sama hversu stór hann er. Orðið alltof langt síðan við lyftum upp bikar.

  8. Ég vil alveg þennan bikar líka en hinsvegar ekki á kostnað meiri meiðsla lykilmanna Liverpool. Kjúklingarnir eiga einmitt að spila þennan leik ásamt því að hafa nokkra reynslumeiri leikmenn innanborðs.

  9. Sælir félagar
    Til hamingju með síðasta leik. Mér þykir leitt að hafa hann ekki efst á síðunni en lífið heldur áfram – svo þannig verður það að vera. Ég er sammála SSteini í því að hvíla eins marga aðalliðsmenn og hægt er. Fyrir mér er þessi leikur bara æfing og nokkuð sama hvernig hann spilast. Ég væri þó til í að sjá menn eins og Babel taka verulega á því og vinna þennan leik.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  10. ég held að þetta verði
    cavalieri
    Degen Ayala Skrtel Dossena
    elZhar Plessis Spearing/Lucas Aurelio
    Ngog Babel

  11. Ég held að Liverpool komi til með að stilla upp ansi öflugu liði. Við meigum ekki gleyma því að þrátt fyrir allt er liðið búið að vera í miklum erfiðleikum og þessi leikur er líka ágætur til að spila menn betur í gang.
    KAR er nokkuð nærri því sem ég var að spá, held að Agger og Carra verði í hjarta varnarinnar. Þrátt fyrir góð úrslit um helgina hafa þeir gott af því að spila fleiri leiki saman, stilla saman strengi sína. Helst hefði ég vilja hafa sömu vörn og á móti utd og Reina í markinu en líklega er það nú óraunhæft.
    Á miðjunni sé ég fyrir mér Spearing og Lucas og þar fyrir framan verða Babel, Voronin, Aurelio og Ngog. Held að Lucas spili því Mascerano er í banni og SG og Aquilani að koma til baka. Vil alls ekki sjá 11 breytingar frá helginni heldur einmitt að leyfa þessum leikmönnum sem stóðu sig svona vel um helgina að spila. Varðandi Torres, Kuyt og Benayoun finnst mér einhvern vegin augljóst að þeir fái að hlaða batteríin og verði hvíldir.
    Held við ættum að fara í þennan leik á fullu /(eða svona því sem næst)gasi og halda stemmingunni eftir flottan leik á sunnudaginn.

  12. Ekki mjög beysið lið á ferðinni þarna. Annars finnst mér Kelly eiga skilið að fá leik, og þá í hægri bak. Líklega fá Voronin og Babel að sprikla og vonandi fáum við að sjá ítalska huldumanninn eitthvað. Ef það er rétt hjá SSteini að El Zahr sé klár þá spilar hann e-ð, ellegar hlýtur hans tími að vera liðinn hjá félaginu.
    Ég væri þá til í að sjá liðið á svona, ungt og áhugavert lið og hæfileg pressa:
    Cavalieri
    Kelly – Skrtel – Agger – Insua
    El Zahr – Aquilani – Lucas – Babel
    N’Gog – Pacheco

  13. Hvar er Nemeth?? Hann er í feiknaformi eftir að hafa spilað alla leikina með Ungverjum á HM U-20 og skorað 3 mörk. Skil ómögulega afhverju hann fær ekki séns í svona leik. Þar að segja ef hann er ekki meiddur.

  14. Bara svo að það sé á tæru, þá er Kelly meiddur og því ekki með. Mér líst vel á liðið í #17, alveg eins og ég myndi stilla því upp, en Eccelston inn fyrir El Zhar sem er greinilega ekki klár í slaginn.

    KAR, ég skil þitt sjónarmið og þeirra sem vilja vinna bikar, ég vil aftur á móti nota þessa keppni til að leyfa leikmönnum að sýna sig og sanna sem ekki eru hluti af sterkasta liðinu okkar, og eins ungum leikmönnum. Vil frekar gera það í deildarbikarnum en annars staðar. Ég vil líka hvíla þessa aðal leikmenn okkar, vil alls ekki hætta þeim í svona leiki þar sem mikið af ungum strákum og fringe players hjá toppliðunum, og svo neðri deildar harðhausar, vilja sanna sig svo um munar. Væri ákaflega sáttur við þetta lið að ofan.

  15. KAR og Steinn.
    Ef við gætum ráðið liðsuppstillingu, ættum við ekki að stilla fram semi sterku liði á morgun og reyna að vinna leikinn. Vonast svo eftir betri drætti næst og láta ungu strákana um þetta eftir það.

  16. SSteinn, værirðu ákaflega sáttur ef þetta lið sem þú nefnir að ofan myndi tapa 5-0? Því slæmt tap er að mínu mati alveg raunhæfur möguleiki ef við stillum upp of óreyndu liði. Það verður að vera rétt blanda í þessu, þetta er ekki bara spurning um að leyfa eins mörgum ungum strákum að spila og mögulegt er heldur einnig að reyna að sigra leikinn og/eða vernda orðspor klúbbsins. 5-0 tap gagnast engum, síst af öllum ungu strákunum sem yrðu fyrir barðinu á því.

    Sjáðu bara Leeds-leikinn í september. Þar byrjuðu Carragher, Mascherano, Aurelio og Riera, auk reyndari manna eins og Kyrgiakos, Degen og Dossena. Auk þeirra byrjuðu svo kjúllarnir Spearing, Ngog og Babel (sem er nú varla unglingaliðsleikmaður lengur). Rafa skipti svo Skrtel, Johnson og Gerrard inná í þeim leik til að vernda forystu okkar.

    Fyrst hann notaði svo leikreynt lið, auk þriggja eða fjögurra ungra stráka, gegn Leeds, hvers vegna í ósköpunum heldurðu að hann muni þá kúvenda og nota miklu óreyndara lið gegn Arsenal? Það er það sem ég skil ekki.

  17. Einföld ástæða, lið Arsenal mun verða mun reynsluminna en þetta lið sem verið er að spá í að stilla upp fyrir okkar menn, simple as that og ég er ekki hið minnsta hræddur um eitthvað 5-0 tap, nema síður sé. Held að menn vilji sanna sig, frekar en de-motivated aðalliðsmenn sem þurfa á hvíld að halda.

  18. Við verðum þá bara að vera sammála um að vera ósammála. Í bili. Hið sanna kemur í ljós á morgun. Ég vona að Rafa velji sterkt byrjunarlið, vil helst ekki þurfa að koma hér inn og segja ‘I Told You So’ eftir sólarhring. 😉

  19. Með aðferð KAR gætu náðst fleiri leikir í þessum bikar og því nokkrir kjúklingar fengið meiri reynslu. Partur af því að öðlast reynslu er líka að spila með reynslumeiri mönnum.

    Áfram Liverpool

  20. 4-3 sigur og dramatík, var það ekki í fyrra sem Arsenal tók okkur í görnina í deildarbikarnum?

  21. 17 Ég held að þetta geti ekki verið liðið, því Kyrgiakos er meiddur.

  22. Nathan Eccleston er úr unglingaliðinu hjá okkur. Ég held að þetta sé fyrsta árið hans með aðalliðinu á Melwood. Ég yrði mjög hissa ef hann væri valinn fram yfir menn eins og Ngog eða Pacheco til að byrja í framlínunni. Svo er Kyrgiakos víst meiddur ennþá, þannig að þetta getur varla verið byrjunarliðið.

  23. Gæti ekki verið meira sama um þessa bikarkeppni varaliðana. Vona að Torres og Johnson fái hvíl og er sammála Kristjáni Atla um það. Þá vona ég að Aguliani fái nokkrar mín. til að þoka honum nær í leikforminu.

    Þá fá menn eins og Babel væntanlega séns til að sýna hvort er eitthvað lífsmark með þeim. Vona að við vinnum en fyrst og fremst vona ég að þeir alvöru menn sem spila þennan leik sleppi frá honum ómeiddir til að vera til taks um helgina á móti Fulham í alvöruleik.

  24. Mig langar í Luis Suarez í skiptum fyrir Babel og borga einhverjar sanngjarnar millur á milli. Ef að við náum því í gegn í Jan þá getum við alveg farið að bleyta á okkur varirnar og undirbúa kossinn á hinn langþráða bikar. Það er einhver langsótt kjaftasaga í gangi um að slík skipti gætu átt sér stað og slíkt væri svo miklu betri kostur en að fá inn Villa. Suares er nefnilega fæddur skorari og það er nauðsynleg viðbót í liðið okkar í dag.

  25. Hvar sérðu að Kyrgiakos sé meiddur ennþá Kristján? Var einmitt með link í Rafa sjálfan hérna í #4 þar sem hann segir hann vera búinn að vera að æfa á fullu? Annars með Eccelston, þá er hann að fara á hægri kantinn miðað við þetta allt saman og því ekkert verið að velja hann fram yfir Ngog eða Pacheco í framlínuna, lesa menn ekki kommentin sem koma hérna inn 🙂

    En ég er ennþá ekki að kaupa þessa röksemd þína Kristján með að við getum ekki sett svona reynslulítið lið í leikinn á morgun, sér í lagi þar sem liðið sem við erum að fara að stilla upp (ef þetta gengur eftir) er svona 5 sinnum reynslumeira en það sem líklegt er að Arsenal stilli upp. En auðvitað getur allt gerst í svona leikjum, en ég held að þú gætir ekki skellt slíkri skuld á reynsluleysi, svo mikið er víst.

  26. Ég vill nú hvíla sem flesta í þessum leik á morgun, vona t.d. að Grikkinn sé orðinn heill svo að hann geti byrjað í hjarta varnarinnar með Skrölta. Að öðru leyti gæti ég vel séð fyrir mér liðið e-ð svipað og Kristján Atli gerir í upphituninni. Miðað við það þá væri Lucas eini fastamaðurinn sem byrjar inná, held að það sé nokkuð vel sloppið. Postulani fær síðan kannski korter í lokin, efast um að hann sé að fara að byrja leik á næstunni. Kannski í allra fyrsta lagi 9.nóv gegn Birmingham og líklegast bara eftir næsta landsleikjahlé (Man City 21.nóv).

  27. Vil bara koma því fram að ég er svakalega ánægður að sjá okkur með ekkert jafntefli enn í deildinni. Ekki eitt. Held að það sé ákveðinn jákvæður punktur í þessum fjórum töpum okkar.

    Taflan

  28. Torres has now scored 34 goals in 35 league games at Anfield.
    Vildi bara deila þessu með ykkur af Guardian.

  29. Gaman af því að þessi fyrirsögn er á Visir.is ,,Aquilani byrjar líklega hjá Liverpool”. Sérstaklega í ljósi þess að Benitez er búinn að gefa þetta út um manninn í dag:,,He cannot start at this moment but he will be there and maybe we can give him some minutes. If it’s possible we will try to use him.”

    Menn eru greinilega að vinna vinnuna sína þarna.

  30. alveg hefur þetta làn à nemeth farið framhjà mèr… Vona þà að pacheco fài sènsinn ì holunni. Hefur òtrùlega næmt auga fyrir spili, gòdar sendingar og frábæra tækni.

  31. Aðeins ótengt þessum leik, enda bara deildarbikar! Ég er meira spenntur að sjá Aqualini in action heldur en leiknum sjálfum.

    En mikið afskaplega kann ég vel við þennan Martinez hjá Wigan 🙂

    Sá var ekki lengi að átta sig á enska boltanum. Sérstaklega satt og rétt það sem hann segir um uber bjánann Fat Sam.

  32. Rafa er ekki lengur einn í heiminum. Verst að það þurfti samlanda hans til að benda á þetta, sem grefur örlítið úr trúverðugleika hans. Mikið er þó gaman að lesa þetta.

  33. já þetta er flott hjá martinez, “hinir” stjórarnir í deildini þurfa að fara að gera eitthvað í þessu, ferguson getur sagt hvað sem hann vill hvenar sem hann vill við knattspyrnusambandið, hann röflar og röflar en aldrei er neitt gert í því.
    Og svo er ég sammála Babu, mér er alveg sama um þennan leik en að fá að sjá aquaman í rauðri treyju með aðaliðinu heillar mig alveg rosalega. Ég bara get ekki beðið. Ég er eins og lítið barn á jólunum.

  34. Greinilega heilmikið spunnið í Martinez, svo er hann líka að gera ágætis hluti með Wigan líka.
    Annars veit ég ekki með leikinn í kvöld, held að þetta verði erfiður leikur og mikil barátta, en dettur þó vonandi okkar megin.

  35. Eru ekki komnar neinar fréttir af því hverjir verða í hópnum í kvöld ?

  36. Ég er sammála þér Babu. Er spenntur fyrir að sjá Aqualini in action. Síðan má segja að Fat Sam sé svona enska útgáfa af “the chose one” um eigin getu en ekki útlit!

    Og aðeins um þessa gríðarlega hörðu deilu Kristjáns og SSteinn 🙂 þá er ég eiginlega sammála ykkur báðum. Bara veit ekki hverjum meira. Kemur í ljós á morgun 🙂

  37. Hérna er hópurinn sem mætir Liverpool í kvöld

    Wojciech Szczesny
    Lukasz Fabianski
    Philippe Senderos
    Kyle Bartley
    Mikael Silvestre
    Kieran Gibbs
    Kerrea Gilbert
    Fran Merida
    Francis Coquelin
    Craig Eastmond
    Emmanuel Frimpong
    Aaron Ramsey
    Mark Randall
    Samir Nasri
    Eduardo
    Gilles Sunu
    Nicklas Bendtner
    Sanchez Watt

    En ég hef ekki séð neitt um það hverjir ferðuðust til London frá Liverpoool.

  38. Arsenal fór illa með okkur í fyrra í báðum bikarkeppnunum. Nú er tími hefnda.
    ÁFRAM LIVERPOOL.

  39. Samkvæmt Teamtalk þá er þetta hópurinn hjá Liverpool:

    Liverpool (from): Cavalieri, Johnson, Carragher, Agger, Skrtel, Kyrgiakos, Dossena, Degen, Babel, Ngog, Lucas, Aquilani, Plessis, Insua, Aurelio, Voronin, Spearing, Eccleston, Amoo, Torres, Reina.

  40. Verður án efa skemmtilegur leikur þarsem Arsenal guttarnir fá að spreyta sig…
    En ég vill sjá sterkt lið hjá okkar mönnum .. þósvo að þetta sé ekki merkilegasti bikarinn þá er þetta samt dolla og það kemur sjálfstraust í leikmennina og liðið ef þeir leggja Arsenal í þessum leik. Ég vill sjá Torres byrja inná og Reina í markinu… Torres búin að vera meiddur og var 80% heill á móti united að sögn Benitez, fínt að láta hann spreyta sig á móti unglingaliði Arsenal til að koma sér í leikform aftur auk þess að það gefur ungu strákunum í liði Liverpool búst að spila með stjörnu eins og Torres…

    spái þessu 4-5 að sjálfsögðu fyrir Liverpool. lendum 3-0 undir á fyrstu 30min.

  41. Ég vil engan vegin sjá Torres nálægt þessum velli enda var hann tæpur í leiknum á móti United og vonandi að hann og Johnson séu bara eftir í Liverpool borg að slappa af.
    Þetta er leikur fyrir þá leikmenn sem hafa lítið fengið að spila og þá sem eru að koma úr meiðslum og unga leikmenn. Þetta er alls ekki leikur fyrir menn eins og Torres og Gerrard til þess að spila enda eru nægilega margir leikir fyrir þá tvo og álagið nóg fyrir.
    Ég vil hafa N’gog frammi með Voronin og Lucas á miðjunni.

  42. Helgi J 25 og Magnús 47 – það eru að vísu þrjú tímabil síðan Arsenal slógu okkur út úr báðum bikarkeppnum. Í janúar 2007 vann Arsenal tvo leiki í röð á Anfield – fyrst í 3. umferð bikarkeppninnar 3-1, og svo í 8-liða úrslitum deildarbikarsins 6-3 þar sem Julio Baptista skoraði of mörg mörk til að muna í leik sem var jafnframt sá seinasti sem Luis Garcia spilaði fyrir Liverpool.

  43. Gæti verið spennandi ef að Ecclestone og Amoo fengju tækifæri í kvöld, leikmenn sem að hafa verið að gera það gott með unglinga- og varaliðinu.

    Ég er einnig á því að það ætti að gefa Torres og Johnson algert frí í kvöld. Algjör óþarfa áhætta, ég myndi persónulega frekar vilja detta úr bikarnum heldur en að missa lykilmenn í óþarfa meiðsli í slíkum leik.

    Annars verður spennandi að sjá þennan leik og get ég bara ekki beðið eftir því að sjá Aquilani komast á skrið með Liverpool – vonandi gerist það í kvöld.

  44. Lucas er víst kominn með svínaflensuna samkvæmd heimildarmanni á RAWK. Gaurinn hefur víst haft rétt fyrir sér áður þannig að þetta er að öllum líkindum satt.

  45. Paul Tomkins skrifar í dag stutta og einfalda grein um ótrúlega marksækni David Ngog fyrir Liverpool. Í stuttu máli er drengurinn að skora eitt mark fyrir hverjar 115 mínútur sem hann spilar, eða eitt mark á hverja tvo og hálfa hálfleiki sem hann spilar. Það er ótrúleg tölfræði.

    Fínt að hita upp fyrir kvöldið með þessu. Ef Ngog byrjar í kvöld verður fróðlegt að sjá hvort hann getur haldið þessari flottu tölfræði til streitu.

  46. Hvenær byrjar þessi leikur eiginlega? Það stendur hérna 18:45 textavarpið segir 19:35. Getur einhver sagt mér hvenær rétti tíminn er

  47. Liðið er komið: Cavalieri, Degen, Insua, Skrtel, Kyrgiakos, Plessis, Spearing, Babel, Kuyt, Voronin, Ngog.
    Bekkur: Reina, Aquilani, Benayoun, Darby, Dossena, Eccleston, Ayala.

Skuldir liða

Orðaský